Hamingjan


Eyktir, dúsín og eilífðin

IMG_7006

Sagt er að eykt sé orð sem notað er yfir það sem er ca 3 tímar, eyktir dagsins eru því fjórar og svo á nóttin jafnmargar eyktir. Sólarhringurinn er svo tvö dúsín klukkutíma (2X12). Allt árið er fjórar eyktir með eitt dúsín(tylft) mánaða. Það skiptist í þriggja mánaða tímabil, frá vetrarsólstöðum að vorjafndægrum; vorjafndægrum að sumarsólstöðum o.s.f.v.. Maðurinn á meira að segja sína eykt; huga, líkama og sál. Eilíf hringrás tímans gengur upp í eyktum og dúsínum (tylftum / dozenal). En við teljum samt, og reiknum á okkar tíu fingrum, í tugum, decimal.

Mannsævina mælum við línulega frá vöggu til grafar, og höldum upp á áfanga hennar í tugum s.s. um fertugt, fimmtugt o.s.f.v.. Vísindin hafa gert mannsævina línulega með upphafi og enda, sem tilheyrir þar af leiðandi ekki hringrásinni. Það má jafnvel ímynda sér að að mannsævin sé gerð upp í tíundum með því að ákveða að ekki sé hægt að telja nema á tíu fingrum. Sumir hafi samt sem áður alltaf vitað lengra nefi sínu, að tíundin er fyrir aurinn og því dýpra sem henni er fyrirkomið í hugarheimi mannfólksins, þeim mun tryggari verður neytandinn á línunni.

Forn tímatöl ganga upp í dúsínum, samkvæmt hringrás sólar, líkt og það íslenska gerði og notað var um aldir. Vagga vestrænnar menningar í Róm, reyndi jafnvel að láta árið ganga upp á tíund eða desimalt. Það má enn sjá á því að síðasti mánuður ársins er desember, en des er tíu á latínu, nov er níu, okt er átta. Síðar þegar tíundin reyndist engan veginn ganga upp á ársgrundvelli var júlí og ágúst bætt inn, sem eru nefndir eftir keisurunum Júlíusi og Ágústusi. Allt þetta brambolt Rómarvaldsins leiddi til flækjustigs sem tók margar aldir að reikna sig frá svo árið gengi upp í sólarganginn, þess vegna var íslenska tímatalið notað af almenningi fram á 20. öldina, eða þar til búið var að skóla íslendinga nægilega í neyslunni þannig að eilíf hringrás sólarinnar hætti að skipta öllu máli.

Nú á dögum er notast við rómverskt tímatal, það Gregoríska, sem er fyrst og fremst viðskiptalegs eðlis. það tók við af öðru rómversku tímatali, til að leiðrétta meinlega villu á ársgrundvelli, sem var farin að æpa á almenning um 1600. Ennþá er það svo að forn tímatöl ganga betur upp í gang eilífðarinnar en nútímans neytendavæna dagatal, sem við trúmum að sé hið eina sanna. Það má m.a. sjá á því að það gamla íslenska var með mánaðarmót í grennd við helstu viðburði sólarinnar s.s. sólstöður og jafndægur, sama á við stjörnumerkin þau skiptast samkvæmt sömu reglu.

Það má því segja að vísindalega höfum við gert mannsævina að línulegri tíund decimal á meðan við vitum innst inni að alheimurinn gengur dozenal í hinni eilífu hringrás eyktarinnar. Og aðeins trúin (sem vísindin efast hvað mest um) leyfir okkur þann munað að verða eilíf eins og alheimurinn sem okkur umlýkur.

Undanfarin ár hefur mátt finna hugleiðingar hér á síðunni tengt tölum og tímatali. Hvernig mælikvarðar reiknikúnstanna stjórna okkar daglega lífi og því sem við teljum vera rétt. Í vetur hef ég svo dundað mér meira við að mála myndir en brjóta heilann í textagerð og þar á meðal mála þessar fornu mælieiningar á eyktarskífu. Það er oft undarlegt hvað kemur í ljós þegar hugarheimi er raðað í mynd, fremur en rökfræðilegan texta. Þá kemur m.a. berlega í ljós að maðurinn er jafn langlífur og eilífðin,,,, nema hann kjósi annað.

IMG_6999


Viðsjálvert háskakvendi, eða fróm dandikvinna?

Augun

Augun eru eins og stampar,

í þeim sorgarvatnið skvampar,

ofan með nefi kippast kampar,

kjafturinn er eins og á dreka,

mér kemur til hugar kindin mín,

að koma þér niður hjá Leka.

Þannig segir sagan að guðsmaðurinn hafi kveðið vögguvísuna fyrir barnunga dóttur sína. Meir að segja greinir þjóðsagan svo frá að dótturinni hafi verið komið í læri hjá Leka þegar hún hafði aldur til og hafi numið þar fjölkynngi. Hún varð síðar fræg þjóðsagnapersóna, og gekk undir nafninu Galdra-Imba. Sigfús Sigfússon, hinn austfirski þjóðsagnaritari, segir Imbu hafa verið stórgerða og blandna (viðsjálverða, undirförula) en þó höfðingja í lund. Í þjóðsögum Sigfúsar eru margar frásagnir af göldrum hennar, enda um austfirska þjósagnapersónu að ræða og gott betur en það, eina af ættmæðrum austfirðinga.

Þjóðasagan segir að Imba hafi elt mann sinn austur á land, séra Árna Jónsson, eftir að hann hafði flúið hana. Þar hafi presturinn á Skorrastað gengist fram í því að bjarga kolleika sínum undan Imbu með því að sækja hann á báti til Loðmundafjarðar, flutt hann þaðan sjóleiðina á Norðfjörð. Þegar þeir voru staddir ásamt föruneyti á móts við Dalatanga gerði Imba þeim galdur, sendi þeim svo mikinn mótvind að þeim miðaði ekkert, auk þess sem það sóttu að þeim nokkrir hrafnar með járnklær. Þessu áttu guðsmennirnir mótleik við, með bæn á almættið, þannig að til varð lognrönd sem þeir gátu róið frá Dalatanga í Norðfjörð. Eftir að þeir komu á Skorrastað á Imba að hafa sent þeim fimm drauga en þeir prestarnir, ásamt Galdra-Rafni á Hreimsstöðum, eiga að hafa komið þeim fyrir þar sem síðan heitir Draugadý eða Djöfladý. Að endingu eiga þeir félagar að hafa forðað séra Árna á enska duggu sem flutti hann til Englands.

Margar þjóðsagnirnar af Imbu eru um samlindi þeirra mæðgnanna í Loðmundarfirði, Imbu og Þuríðar dóttur þeirra Árna. Samband þeirra á að hafa verið eldfimt og á Imba að hafa drepið tvo eiginmenn fyrir Þuríði með göldrum á meðan þær mæðgur bjuggu á Nesi í Loðmundarfirði. Þuríður tók við sem húsfreyja á Nesi, en Imba flutt sig um tíma inn á Seljamýri, næstu jörð innan við Nes. Síðar þegar Imba kemur aftur í Nes, eiga Þuríður og maður hennar, Guðmundur Oddson, að hafa komið Imbu fyrir í kofa við túnjaðarinn sem kallaður var Imbukvíar, vegna ósamlyndis Imbu og Guðmundar, sem endaði með því að Imba fyrirfór honum. Síðustu árin flutti Imba að Dallandi í Húsavík fyrir tilstilli dóttur sinnar, en þá jörð höfðu þau átt Þuríður og Guðmundur. Þar dvaldi Imba síðustu árin, eða þar til Þuríður kom henni fyrir kattarnef með eitruðu slátri, samkvæmt þjóðsögunni.

Nokkrar sögur eru til af Imbu þegar hún á að hafa búið að Hurðarbaki við Hreimsstaði í Hjaltastaðaþinghá en ekki er vitað hvort þær eiga að gerast á fyrstu árum hennar á Austurlandi aða síðar. Þó verður líklegt að teljast að þar hafi hún búið einhvern tíma á milli þess sem hún var í Loðmundarfirði og Húsavík, ef eitthvað er hægt að ráða í söguna af því þegar hún seldi smáfættu sauðina á Eskifirði og Þuríður dóttir hennar mætti henni með sauðareksturinn í Eyvindarárdölum og hafði á orði "smáfættir eru sauðir þínir móðir" en þeir reyndust vera mýs þegar Imba hafði fengið þá greidda.

En hver var Galdra-Imba? Á því hef ég haft áhuga frá því ég sá ættartölu afa míns og nafna fyrir rúmum 30 árum síðan. Því þjóðsagna persónan Ingibjörg Jónsdóttir (Galdra-Imba) var formóðir okkar nafnanna, eins og svo margra austfirðinga. Nú á dögum netsins er auðvelt að fletta Galdra-Imbu upp og fá um hana fleiri upplýsingar en finna má í þjóðsagnasöfnunum.

Ingibjörg Jónsdóttir mun hafa verið fædd árið 1630, dóttir ábúendanna á Þverá í Skagafirði, þeirra Helgu Erlendsdóttir, sem var prestdóttir, og séra Jóns Gunnarssonar prests í Hofstaðaþingum í Skagafirði og síðar á Tjörn í Svarfaðardal. Það rann því ómengað prestablóð um æðar Imbu. Litlar heimildir eru af uppvaxtarárum Ingibjargar aðrar en þær að hún á að hafa verið í læri hjá Leodegaríusi, sem mun hafa búið í Eyjafjarðarsýslu og var annað hvort enskur eða þýskur, almennt kallaður Leki. Allavega er ekki vitað til að íslendingur hafi borið þetta nafn. Eiginmaður Ingibjargar varð séra Árni Jónsson, fæddur sama ár og hún, prestsonur úr Svarfaðardal. Árni hafði gengið í Hólaskóla og verið í nokkur ár í læri hjá Gísla Magnússyni sýslumanni (Vísa-Gísla). Ingibjörg er sögð seinni kona Árna (samkv. einstaka heimildum) en fyrri kona hans hét Þórlaug og áttu þau 4 börn. Af því hjónabandi eru engar sagnir.

Árni var prestur í Viðvík árið 1658. Þuríður dóttir Árna og Ingibjargar er fædd 1660, en árið 1661 flytja þau í Fagranes, undir Tindastóli utan við Sauðárkrók, og eru þar presthjón í tólf ár. Árni verður svo prestur að Hofi á Skagaströnd árið 1673. Þau Ingibjörg eru sögð hafa eignast saman 5 börn, Þuríði, Jón, Margréti, Gísla og Gunnar. Athygli vekur að þrjú af elstu börnum þeirra eru sögð fædd 1660 þegar þau hjón standa á þrítugu. Gísli og Gunnar eru svo fæddir 1661 og 1664. Þegar þau eru að Hofi á Skagaströnd er Árni sakaður um galdur og málferlin gegn honum dómtekin árið 1679. Þeir sem sóttu að Árna voru ekki nein smámenni, því þar fóru fyrirmenni og lögréttumenn, sem höfðu undirbúið aðförina vel og vandlega eftir lögformlegum leiðum þess tíma. Strax vorið 1678 hafði prófasturinn í Húnavatnssýslu, séra Þorlákur Halldórsson, tilkynnt Gísla biskupi Þorlákssyni um galdraiðkun Árna. 

Séra Árni var að lokum kallaður fyrir prestastefnu að Spákonufell 5. maí 1679. Jón Egilsson lögréttumaður í Húnavatnssýslu bar það á Árna að hann hefði ónýtt fyrir sér kú og hafði 12 vitni sem svörðu fyrir að hann færi með rétt mál. Þegar Árni var spurður hvað hann hefði sér til varnar kvaðst hann engar varnir hafa aðrar en vitnisburð nokkurra góðra manna um kynni þeirra af sér, sem prestastefnan komst að niðurtöðu um að væru gagnslausar þar sem þær kæmu málinu ekki við.

Næstur sakaði Halldór Jónsson, einnig lögréttumaður Húnvetninga, Árna um "að djöfuls ásókn og ónáðun hafi á sitt heimili komið, með ógn og ofboði á sér og sínu heimilisfólki, að Gunnsteinsstöðum í Laugadal,,," og lagði fram vitnisburð 3 manna, sem höfðu staðfest þá á manntalsþingi í Bólstaðahlíð um vorið, og auk þessa lagði hann fram yfirlýsingu 21 manns um það, að Halldór "segi satt í sínum áburði upp á prestinn síra Árna". Árni kvaðst aðspurður engin gögn hafa gegn þessum áburði Halldórs en lýsti sig sem fyrr saklausan.

Þriðja ákærandinn, sem fram kom í réttinum, var bóndinn Ívar Ormsson. Hann kvað séra Árna vera valdan „að kvinnu sinnar, Ólafar Jónsdóttur, ósjálfræði, veikleika og vitfirringu," og vísaði hann um þetta til þingvitna, sem hefðu verið tekin og eiðfest þessu til sönnunar. Árni neitaði á sömu forsemdum og áður.

Fjórði og síðasti ákærandinn var Sigurður Jónsson ríkur bóndi í Skagafirði og lögréttumaður í Hegranesþingi. Lagði hann fram svohljóðandi ákæru á séra Árna: „Ég, Sigurður Jónsson eftir minni fremstu hyggju, lýsi því, að þú, Árni prestur Jónsson, sért valdur að þeirri neyð, kvöl og pínu, sem sonur minn, Jón, nú 10 vetra að aldri, hefur af þjáður verið, síðan fyrir næstumliðin jól, og nú til þessa tíma. Sömuleiðis lýsi ég þig valdan af vera þeirri veiki, kvöl og pínu, er dóttir mín, Þuríður, hefur af þjáðst, síðan fimmtudaginn í 3. viku góu. Held ég og hygg þú hafir þá neyð, kvöl og pínu mínum báðum áður nefndum börnum gjört eður gjöra látið með fullkominni galdrabrúkun eður öðrum óleyfilegum Djöfulsins meðulum. Segi ég og ber þig, Árni prestur Jónsson, að ofanskrifaðri hér nefndra minna barna kvöl valdan."

Lagði Sigurður svo fram vottaðan vitnisburð fjögurra hemilsmanna að hann hefði þrisvar sinnum synjað Árna bónar sem hann bað áður en veikindi barna hans hófust. Þessi veikindi þeirra hafi síðan "aukist, með kvölum og ofboði í ýmislegan máta", einkum ef guðsorð var lesið eða haft um hönd. Loks var þriðja ásökun Sigurðar á hendur Árna einkennileg. Hann hafði verið í fiskiróðri, lenti í hrakningum, og fékk erfiða lendingu "framar öðrum" sem róið höfðu þennan dag, svo að bátur hans hafði laskast. Þetta hafði skeð sama daginn og kona hans hafði synjað séra Árna bónar. Sannsögli sínu til staðfestu lagði lögréttumaðurinn fram vottorð frá Benedikt Halldórssyni sýslumanni í Hegranesþingi og fimmta lögréttumanns, auk fleiri frómra manna.

Þegar hér var komið snéri biskup sér að Árna og skoraði á hann að leggja fram málsbætur sér til varnar gegn áburði Sigurðar, en prestur kvaðst eins og áður, vera saklaus af öllum galdra áburði og engar vottfestar varnir hafa fram að færa, og myndi hlíta dómi stéttarbræðra sinna, hvort sem hann yrði harður eða vægur. Sumir hafa talið séra Árna hafa verið veikan á geði, jafnvel vitfirrtan, hvað þessa málsvörn varðar. En sennilegra er að hann hafi treyst á réttsýni kolleika sinna. Það þarf ekki að orðlengja það frekar, réttarhöld prestastefnunnar að Spákonufelli komust að þeirri niðurstöðu að séra Árni Jónsson skildi brenndur á báli. Árni átti þó einn möguleika á undankomu með svokölluðum tylftareiði, en það er eiður 12 málsmetandi manna um sakleysi hans á því sem á hann var borði. 

Árni virðist hafa ákveðið þegar í stað eftir dóminn að flýja austur á land, enda vandséð hverjir hefðu verið tilbúnir að sverja honum eið gegn þeim höfðingjum sem eftir lífi hans sóttust. Þjóðsagan segir að Árni hafi flúið einn, en aðrar sagnir segja að hann hafi farið með fjölskylduna alla og þau Ingibjörg hafi sett sig niður á Nesi við Loðmundarfjörð. Austurland hafði áður verið griðastaður þeirra sem sættu galdraofsóknum á Íslandi og er saga Jóns "lærða" Guðmundssonar um það eitt gleggsta dæmið. 

Sumarið 1680 var lýst eftir Árna sem óbótamanni á Alþingi. Lýsingin hljóðaði svo; „Lágur maður, herðamikill, dökkhærður, brúnasíður, dapureygður, svo sem teprandi augun, með ódjarfIegt yfirbragð, hraustlega útlimi, mundi vera um fimmtugsaldur". Þetta ár fer Árni til Englands, sennilega vegna þess að þar hafði bróðir hans, Þorsteinn, sest að og hefur hann sjálfsagt ætlað að leit ásjár hjá honum, en óvíst er hvort fundum bræðranna hefur borið saman. Hann á að hafa skrifað heim, því í Mælifellsannál er ömurlegum árum Árna í Englandi lýst með þessum orðum: "Árið eftir skrifaði séra Árni til Íslands og segist eiga örðugt að fá sér kost og klæði í Englandi, því það tíðkanlega erfiði sé sér ótamt, og andaðist hann þar ári síðar (þ.e.1861)."

Þegar þessar hörmungar dynja á presthjónunum á Hofi standa þau á fimmtugu og börnin eru fimm, öll innan við tvítugt. Það má ljóst vera að hjónin hafa verið dugmikil og hafa átt talsvert undir sér efnalega, því það hefur ekki verið heglum hent að taka sig upp, flytjast þvert yfir landið með stóra fjölskyldu, og koma upp nýju heimili. Hafi einhverjum dottið í hug að Árni hafi verið veikur á geði eða sýnt af sér heigulshátt þegar hann flúði til Englands, þá má benda á hvernig fór fyrir Stefáni Grímssyni, sem fór á bálið 1678, ári áður en Árni hlaut sinn dóm, gefið að sök að hafa borið glímustaf í skó sínum ásamt því að eyðileggja nit í kú. Var sérstaklega til þess tekið við þau réttarhöld að Stefán og Árni þekktust, enda málatilbúnaðurinn gegn Stefáni m.a, komin frá Jóni Egilssyni, sama lögréttumanni og fór fyrir máltilbúnaði á hendur Árna. Hver rótin var að aðförinni að séra Árna er ekki gott að geta til um, en ekki er ólíklegt að hún hafi verið fjárhagslegs eðlis.

Ingibjörg virðist hafa haft bolmagn til að koma sér og börnum sínum vel fyrir á Austurlandi og má því ætla að þau hjón hafi verið vel stæð þegar þau flýðu Norðurland. Þuríður dóttir hennar bjó á Nesi í Loðmundarfirði. "Haldin ekki síður göldrótt en móðir hennar", segir Espólín. "Þótti væn kona og kvenskörungur", segir Einar prófastur. Synir hennar voru Jón og Oddur, sá sem Galdra Imbu ætt er við kennd. Um þau Jón og Margréti er fátt vitað, bæði sögð fædd 1660 eins og Þuríður. Gísli varð bóndi í Geitavíkurhjáleigu, Borgarfirði. "Þótti undarlegur, fáskiptin og dulfróður", segir Einar prófastur. Þjóðsögur Sigfúsar greina frá Jóni "Geiti" Jónssyni sem var galdramaður í Geitavík og á að hafa verið sonarsonur Ingibjargar og Árna gæti þess vegna verið að þeir bræður Gísli og Jón hafi báðir alið manninn í Geitavík, því ekki er vitað til að Gísli hafi átt afkomendur. Gunnar varð prestur á Stafafelli í Lóni, síðar á Austari-Lyngum í V-Skaftfellssýslu. Gunnar var borinn galdri líkt og faðir hans, en bar það af sér með eiði 3. júní árið 1700. Hafði hann þá misst hempuna um tíma bæði vegna þessa og barneignar. Þegar hann hafði hreinsað sig af galdraáburðinum, var honum veitt uppreisn og voru honum veitt Meðallandsþing árið 1700.

Galdra orðið fylgdi Ingibjörgu og afkomendum út yfir gröf og dauða, og lifir enn í þjóðsögunni. Samt er ekki vitað til að Ingibjörg Jónsdóttir hafi nokkru sinni verið ákærð fyrir galdur og fáar þjóðsögur sem greinir frá göldrum hennar á Norðurlandi. Hún leitaðist samt við að hreinsa sig af galdraáburði líkt og sjá má í Alþingisbókum árið 1687. Þar er pistill; "Um frelsiseið Ingibjargar Jónsdóttur úr Múlaþingi. Var upp lesin erleg kynning þeirrar frómu og guðhræddu dandikvinnu Ingibjargar Jónsdóttur, sem henni hefur verið af mörgum góðum manni, bæði norðan og austan lands, út gefin um hennar erlegt framferði. Og eftir því að trúanlega er undirréttað af valdsmanninum Bessa Guðmundssyni, að hér nefnd kvinna beri þunga angursemi, sökum þess henni hafi ei leyft verið að ná frelsiseiði mót því galdraryktis hneykslunar aðkasti, er hún þykist merkt hafa viðvíkjandi fjölkýnngisrykti, þar fyrir, svo sem ráða má af hennar vitnisburða inntaki, að stór nauðsyn til dragi, samþykkja lögþingismenn, að velnefndur sýslumaðurinn Bessi Guðmundsson henni frelsiseiðsins unni, svo sem hann með góðra manna ráði og nauðsynlegu fortaki fyrirsetjandi verður." (Alþingisbækur Íslands, 1912-90: VIII, 154-55).

Dylgjurnar um galdrakukl Ingibjargar virðast ekki eiga sér aðra stoð í opinberum gögnum en í þeim frelsiseið sem hún fær tekin fyrir á Alþingi. Þá er Ingibjörg 57 ára gömul,ekki hef ég rekist á hversu gömul hún varð, og virðist frelsiseiður hennar vera síðustu opinberu heimildir um hana.

Þjóðsagan segir að þegar Galdra-Imba lá banaleguna, bað hún að taka kistil undan höfðalagi sínu og kasta honum í sjóinn, en lagði blátt bann við því að hann væri opnaður. Maður var sendur með hann og var lykillinn í skránni. Hann langaði mikið til þess að forvitnast um hvað væri í kistlinum, og gat ekki á sér setið, og lauk honum upp. En þá kom í ljós, að í honum var selshaus, sem geispaði ámátlega framan í manninn, sem þá varð hræddur og fleygði kistlinum í sjóinn eins fljótt og hann gat. Nokkru síðar dó maddaman.

Samkvæmt þjóðsögunum er því nokkuð ljóst að það hefur gustað af Ingibjörgu og afkomendum hennar á Austurlandi. Sigfús Sigfússon getur þess, að eftir að Imba var öll þá hafi Þuríður látið flytja hana frá Dallandi í Húsavík yfir á kirkjustaðinn Klyppstað í Loðmundarfirði. Hann segir að gamlir menn hafi lengju vitað af leiði Galdra-Imbu með hellu ofan á, sem hún sagði fyrir um að þar skildi látin þegar hún létist. Sigfús endar galdraþátt sinn um Imbu á orðunum "Margt og myndarlegt fólk er komið af þeim mæðgum á Austurlandi".

 

Selshaus 2

 

Heimildir;

Þjóðsagnasafn Sigfúsar Sigfússonar

Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar

Íslendingabók

Prestasögur 4 / Oscar Clausen

Galdra-Imba / Indriði Helgason

Galdra-Imba / Wikipedia

Þjóðfræði 


Torfbærinn


Hjaltastaðaþinghá

IMG_6491

Þó það sé kannski fullmikið sagt að Hjaltastaðaþinghá sé falinn fjársjóður, þá leynist þar margt þegar grannt er skoðað og kannski ástæða fyrir "túrista" að hægja á sér á hraðferð sinni til Borgarfjarðar. Þegar ég dvaldi í minni Noregs útlegð þá einsetti ég mér það að fara sunnudagsrúnt um hliðarvegi Hjaltastaðaþinghár og skoða það af sveitinni sem ekki sæist frá veginum. En eins og flestir vita þá liggur þjóðvegurinn til Borgarfjarðar um hana miðja og er víðsýnt frá honum, svo sunnudagsrúntur átti ekki að verða mikið mál. En nú er komið langt á fjórða ár og ég enn að hringla um Hjaltastaðaþinghána stöðugt uppgötvandi leyndadóma hennar.

Eitt það fyrsta sem maður tekur eftir eru hinar endalausu mýrar sem kallast blár á austfirsku. Reyndar skrifaði Stefán Jónsson fréttamaður um það í bókinni Gaddaskötu hverskonar votlendi mætti kalla blá. Því mýri mætti finna í hverju krummaskuði en undir blár þurfi heilu sveitirnar. Mýrin sé í mesta lagi dý við túnfótinn á meðan bláin umkringi túnið. Sumarlangri rannsókn Stefáns á blám lauk í Hjaltastaðablánni, því engin veit hvað blá er fyrr en hann hefur komið í Hjaltastaðaþinghá.

IMG_6512

Við gömlu hreppamörkin á milli Eiðaþinghár og Hjaltastaðaþinghár er Kjarvalshvammur, í honum stendur hús sem var eina fasteignin meistarans í lifanda lífi. Bóndinn á Ketilsstöðum gaf honum skikann og lét byggja kofann á Trésmíðaverkstæði KHB. Þarna dvaldi Kjarval oft og málaði þar margar af sínum frægustu myndum. Í hvamminum er líka bátaskýli yfir Gullmávinn, bát sem Kjarval átti, á honum sigldi hann niður Selfljót til sjávar og þaðan seglum þöndum út Héraðsflóann, fyrir Brimnes, og yfir til æskustöðvanna í Borgarfirði. Þessa siglingu með vind og árar einar að vopni, fór Kjarval einsamall kominn vel yfir sjötugt og lýsir það vel hversu hugaður Kjarval var þegar kom að því að láta drauma rætast.

Kjarval

 

Hjaltastaðaþinghá er svo dularfull að það er meir að segja tilgáta um það að úr henni hafi komið hershöfðingi, sem var sagður "réttsýnn maður og mannúðlegur" öfugt við þann ribbaldaflokk sem hann fór fyrir og samanstóð m.a. af þýskum málaliðum til varnar furstadæminu í Hyéres, sem síðar sameinaðist furstadæminu í Provance í S-Frakklandi. Þetta rifjaðist upp fyrir mér núna vikunni þegar fréttir voru af mannskæðu þyrluslysi við St. Tropez í Suður-Frakklandi. Hershöfðinginn úr Hjaltastaðaþinghánni á að hafa verið Guðmundur Guðmundsson sonur séra Guðmundar á Hjaltastað, sonar Jóns "lærða".

Jón lærði, sá mikli galdramaður, bar beinin í Hjaltastaðaþinghá. En hann hafði, eins og fleira fjölfrótt fólk á Íslandi, hrakist austur á land og þannig forðað sér frá bálinu. Um komu sína austur á Hérað segir Jón þetta í Fjölmóði sínum "Hitti þar mæta menn og milda fyrir, Bjarna sýslumann og blíðan prófast, síra Ólaf vorn, sælan með guði; umbuni guð þeim allar velgerðir".

IMG_1032Þó svo að gefin hafi verið út fleiri hundruð blaðsíðna bók af ritsmíðum Jóns og göldrum, ásamt flótta hans undan réttvísinni, þá hafa skáld og rithöfundar gert lítið með dvöl þessa merka sautjándu aldar manns í Hjaltastaðaþinghánni. En hann dvaldi síðustu árin á Hjaltastað. Árin áður hafði hann leynst ásamt konu sinni úti í Bjarnarey við minni Héraðsflóa, eftir að austfirskir höfðingjar töldu sig ekki lengur geta varið hann fyrir Bessastaðavaldinu.

Meira fer fyrir því í fræðiritum þegar Jón hélt til Kaupmannhafnar á meðan hann bjó í Bjarnarey. Hann fór ásamt Guðmundi syni sínum sem einnig þurfti að fá réttan sinn hlut fyrir Íslensku valdi. Leituðu þeir feðgar ásjár Konungsvaldsins til að fá Jón náðaðan frá galdrabrennunni. Náðunina fékk hann í Kaupmannahöfn en þurfti að staðfesta hana á Alþingi. Höfðingjar landsins voru ófáanlegir til að samþykkja náðun Jóns en létu óátalið að hann færi aftur austur á land. Um það segir Jón í Fjölmóði sínum "En að skilnaði ályktuðu Jens og junkur að ég frí skyldi í Múlasýslu mína reisa og hjá kerlingu kúra síðan." Þau hjónin dvöldu síðan á Hjaltastað hjá séra Guðmundi syni sínum sem einnig fékk frið austan-lands fyrir Íslenskum valdsmönnum.

Landnám Hjaltastaðaþinghár er svo enn ein ráðgátan. Sagt er að Uni "Danski" hafi fyrstur numið þar land. Hann var sonur þess Garðars Svavarssonar sem fyrstur fann Ísland, þó án þess að nema það, en gaf landinu þess í stað nafnið Garðarshólmi. Landnáma getur þess að Uni hafi orðið að flýja landnám sitt þar sem innfæddir vildu ekki láta honum í té bústofn, en Landnáma getur þess ekki hverjir þeir bændur voru. Þráfaldur orðrómur hefur verið uppi um að ekki sé allt sem sýnist við landnám Hjaltastaðaþinghár og hafa Keltneskir draugar verið þar fyrirferðamestir.

Í dag fór ég svo enn einn "sunnudagsbíltúrinn" með frúnni og var þá ekki þessa fína gljá í Bóndastaðablá. Þar rétt fyrir utan er sjálfsafgreiðslu sjoppan hans Kidda vídeóflugu, sem gengur fyrir draumum, sól og vindi rétt eins og Gullmávurinn hans Kjarvals.

IMG_6435

 

IMG_6495

 


Norskur eldislax heimsins mengaðasti matur


Sannleikurinn um sannleikann


Knútsdagur - Knútsbylur

Í dag er Knútsdagur, sem var messudagur til minningar um Knút hertoga sem veginn var á Sjálandi árið 1131.  Dagsins hefur einnig verið minnst fyrir mannskaðaveður þennan dag árið 1886 og kallað var Knútsbylur. Veðrið kostaði 15 menn lífið og geisaði á afmörkuðu svæði  austanlands. Halldór Pálsson safnaði frásögnum af þessu veðri, frá þeim sem það mundu, í bók sína Knútsbylur.

"Skaðaveðrið 7. janúar 1886 var kennt við almanaksnafn dagsins og kallað Knútsbylur. Veðrið gekk mest yfir Múlasýslur og Austur-Skaftafellssýslu. Það skall á snemma dags á milli miðmorguns og hádegis svo snöggt sem kólfi væri skotið. Víðast hvar var búið að reka fé til beitar, en stöku menn voru svo veðurglöggir eða höfðu þann veðurugg, að þeir ráku ekki fé frá húsi. Hvergi varð fé, sem út hafði verið látið náð í hús um daginn. Næsta dag var upprof en frosthelja. Náðist þá megin hluti fjárins hrakið og úr fönn dregið, en víðast fórst til dauðs fleira og færra. Sumstaðar hraktist fé í vötn og sjó. Þannig hrakti flesta sauðina í Hrafnsgerði í Lagarfljót og í Fjörðum sumstaðar rak fé undan veðrinu í sjó.

Mikill mannskaði og margskonar annar skaði varð í þessu veðri. Sex menn urðu úti, þrír á Fljótsdalshéraði, tveir í Reyðarfirði og einn í Breiðdal. Bátur fórst frá Nesi í Norðfirði með 4 mönnum og annar í Reyðarfirði með 5 mönnum norskum. Þrjár skútur rak á land í Seyðisfirði og brotnuðu tvær þeirra mikið. Þök rauf af húsum víða og mörg urðu fleiri smærri tjón. Mikið tjón á sauðfé varð í Knútsbyl í Austur-Skaftafellssýslu. Á þremur bæjum rak allt sauðfé í sjó og hross sumstaðar. Kirkjan fauk á Kálfafellstað og þök af húsum víða."

Þetta má lesa í Austurland III bind um bylinn sem kenndur er við Knút hertoga. Um þetta óveður hefur einnig verið skrifuð heil bók sem nefnist Knútsbylur og hefur Halldór Pálsson þar tekið saman frásagnir eftir fólki á Austurlandi sem mundi eða hafði heyrt talað um þetta veður. Þar segir að bylurinn hafi verið líkari fellibyl en aðrir byljir vegna mikils vindstriks. Lítillega hafði snjóað nóttina fyrir bylinn en logn var á undan honum, svo flestir settu út sauðfé til beitar, en þetta reyndist svikalogn því veðrið brast á í einni svipan með ægilegum vindstyrk snjókomu og frosti. Margar frásagnir greina frá því hve erfiðlega gekk að koma forystu fé úr húsum þennan morgunn og í sumum tilfellum mun veðurskyggni forustufjárins hafa komið í veg fyrir tjón. Eins er víða sagt frá veðurdyn sem heyrðist rétt á undan veðrinu þó svo lygnt væri og varð það einhverjum til bjargar.

Í Suðursveit var snjólaust þegar gekk í Knútsbyl en þar fauk m.a. kirkjan á Kálfafellstað, um eftirköstin segir: Eftir Knútsveðrið var jörð mjög illa farin. Allur jarðvegur var skafinn upp, og þar sem áður voru fallegir víðirunnar, blasti við svart flag. Víða var jarðvegurinn í fleiri ár að ná sér eftir þetta áfall.

Í Breiðdal segir Sigurður Jónson sem var unglingur að Ósi m.a. svo frá eftir að hann reyndi að komast úr fjárhúsi örstutta leið heim í bæ þegar veðrið brast á: ...uns ég kom að bæjarhorninu sem ég þurfti að beygja fyrir til þess að komast að bæjardyrunum. Þá hrakti stormurinn mig frá veggnum, því út með norðurhlið bæjarþorpsins stóð stormurinn, og ég rann undan vindinum niður hlaðbrekkuna. Líklega hefði ég reynt að skríða upp bæjarbrekkuna og heim í bæjardyrnar, sem voru á norðurvegg bæjarþorpsins, en hvort það hefði tekist, er óvíst, því að áður en til þess kæmi, að ég reyndi það, var tekið í mig og ég leiddur heim í bæjardyrnar. Þetta gerði Gunnar Jósepsson húsbóndinn á bænum.

Faðir minn Jón Einarsson átti líka heima á Ósi, þegar þetta skeði, og var að gæta fullorðna fjárins, sem var úti með sjónum, um klukkustundar gangs frá bænum. Faðir minn hafði verið með allt féð utan við stað þann er Kleifarrétt heitir. Það er ekki fjárrétt heldur klettahlein, er nær langt til frá fjalli niður að sjó. Hann kom fénu í gott skjól utan við Kleifarrétt niður við sjóinn og stóð yfir því til kvölds og það lengi nætur, að hann treysti því, að það færi ekki úr þessum stað, meðan á bylnum stæði. Þá yfirgaf hann það og hélt í áttina heim til fjárborgarinnar er var höfð stuttu innar en Kleifarréttin er. Fjárborgin var næturstaður Ósfjárins framan af vetri, meðan svo haglétt var, að fullorðnu fé var ekki gefið hey. Þar var meira skjól en hjá fénu þar úti við Kleifarrétt. Í fjárborginni hélst hann ekki við nema í stutta stund sökum hræfarelda, er þar var mikið af. Innan um elda þessa undi hann sér ekki, þó saklausir væru. Hann hélt því brátt þaðan heim á leið inn með fjallinu, þótt stormurinn og kófið væri svo mikið að hvergi sæist.

Það var farið að daga þegar lagt var af stað að heiman og út með sjónum til að leita föður míns og fjárins. Þeir mæta föður mínum, þar sem heitir Ósleiti, á réttri leið heim til bæjar, en stirður var hann þá til gangs,mest vegna þess að klakahella svo mikil var fyrir andliti hans, að hann sá varla nema upp í himininn. Hann var maður alskeggjaður, svo að í skegginu og andlitinu fraus hríðarkófið sökum líkamshitans. Fram eftir nóttu braut hann af andlitinu svellhúðina, svo hann sæi frá sér, en svo fór andlitið að sárna undan sífelldu nuddi með frosnum vettlingum, svo hann varð að hætta að hreinsa af andlitinu klakann, en öndun hans hélt þó opnum götum, að hann sá nokkuð upp fyrir sig. Er klakinn var þíddur af andlitinu, kom í ljós að hann var blóðrisa, einkum á enninu, nefinu og kinnbeinunum.

Við þetta má bæta að trúmennska Einars við Ósféð var svo mikils metin að Guðmundur húsbóndi á Ósi gaf honum bestu kindina sína eftir þetta veður enda lifði allt féð sem var úti við Kleifarrétt.

Í Mýnesi í Eiðaþinghá á Héraði bjó í Knútsbyl Ólafur Magnússon ásamt Guðmundi tengdasyni sínum. Hjá Ólafi var þá Einar sonur hans, rösklega tvítugur að aldri. Hann hirti fé á beitarhúsum austur frá Mýnesi, hafði látið féð út þennan morgun, var komin heim aftur og var að hjálpa föður sínum við að taka til nauthey í hlöðu, þegar hríðin skall eins og reiðarþruma á þekjuna. Þreif hann vettlinga og hljóp út í fárviðrið lítt búinn og hugðist bjarga fénu í hús, en kom eigi aftur. Þegar veður tók að lægja, svo komist var í húsin, voru húsin tóm. Fannst Einar daginn eftir, helfrosinn skammt frá túninu í Mýnesi. Það heita Vallnaklettar, þar sem hann fannst. Ólafur Sigurðsson vinnumaður Sigfúsar Oddsonar á Fljótsbakka, fannst frosinn í hel á holtunum út af Mýnesi , niður af Skagagili, hann var sagður 36 ára.

Þessi húsgangssaga er frá Ketilstöðum á Völlum: Sigurður hét vinnumaður Sigurðar bónda Hallgrímssonar. Hann var að reka sauðina í haga upp til fjalls, er í bylinn gekk. Hann kom sauðunum í Beinárgilið stutt frá Flatarhúsunum. Þetta voru 100 sauðir. Hann stóð hjá sauðunum þann dag og næstu nótt og lét þá ekki fenna. Ekki er vitað um klæðnað hans, en ókalin komst hann heim. Fjármaður Gunnar Pálsson, er hirti féð á Grundinni, hafði meðferðis tvo poka úr togbandi. Er bylinn gerði, var hann á milli fjárhúsa og bæjar, fer hann þá í annan pokann, en setur hinn yfir höfuð sér, lagðist síðan niður og lét fenna yfir sig. Þannig bjargaðist hann ómeiddur frá þessum voða byl.

Úr dagbók Sölva Vigfússonar á Arnheiðarstöðum í Fljótsdal: 7. Janúar 1886, norðan bráðófært veður, það allra hvassasta. Hann var bjartur fyrst um morgunninn, svo búið var að setja út féð í Hrafnsgerði, en veðrið kom á smalann, og hann missti féð úr höndum sér, og það hrakti í fljótið, en meðfram landi var krapi, sem það festist í, svo fraus að því um nóttina, og drapst 56 en 56 fannst hjarandi. 8. Janúar, norðan með kófi -14°C. Við vorum að bjarga því sem lifandi var af Hrafngerðis fénu, úr fljótinu og grafa það í fönn.

Frásögn Gísla Helgasonar í Skógargerði Fellum: Í Hrafnsgerði í Fellum voru sauðir heima á túni, og vildi smalinn reka þá allsnemma þennan morgun. Svartur forustusauður var í húsinu og fékkst ekki út. Hann hljóp kró úr kró. Þá vildi smalinn handsama sauðinn og draga út úr húsinu, en það tókst ekki, því að þá stökk Svartur upp í garðann og yfir hann; þó hann hefði aldrei verið garðakind. Varð úr þessu garðaleikur, sem sauðamaður tapaði. Þá tók hann það ráð að leita liðveislu hjá fjósamanni. Tókst þeim í félagi að handsama Svart og draga hann út. Síðan rak sauðamaður hópinn yfir Hrafngerðisána, og segja þó sumir, að þá væri veðrið að skella yfir, er hann hélt heimleiðis. Ekki þarf að orðlengja um það, að þessi hjörð týndist öll í Lagarfljótið, sem þá var að leggja, en engri skepnu fært.

Vissi ekki Svartur lengra fram en maðurinn?


Sjónhverfing sjálfselskunnar vill alltaf meira


Hvers vegna Öræfi?

Það þarf sjálfsagt ekki að hafa mörg orð um það hvernig nafnið Öræfi kom til, svo oft hefur eldgosinu 1362 verið gerð skil, sem gjöreyddi Litla-Héraði. Þó svo að ekki séu til um þetta stórgos, nema mjög takmarkaðar samtímaheimildir í annálum, telja seinna tíma rannsóknir að þá hafi orðið eitt mesta eldgos á Íslandi á sögulegum tíma og sennilega stærsta og mannskæðasta sprengigos frá því land byggðist.

Vitað er að annað eldgos varð í Öræfajökli 1727 og er það talið hafa verið mun minna. Sama gildir um það gos, um það eru mjög takmarkaðar heimildir í annálum. En um það gos er þó til lýsing sjónarvotts á upptökum og afleiðingum. Þar er um að ræða lýsingu séra Jóns Þorlákssonar sóknarprests í Sandfelli.

Sandfell í Öræfum

Sandfell í Öræfum

Jón var fæddur árið 1700 á Kolmúla við Reyðarfjörð og var prestur í Sandfelli í Öræfum 1723-1732, því aðeins 27 ára þegar eldumbrotin urðu. Hann skrifar samt ekki lýsingu sína á því sem gerðist fyrr en um 50 árum seinna, þegar hann er sóknarprestur á Hólmum í Reyðarfirði.

Sagt er var um séra Jón, "hann var mikilfengur og hraustmenni, fastlyndur og geðríkur, og lét lítt hlut sinn." Fer frásögn hans hér á eftir: 

"Árið 1727, hinn 7 ágúst, er var 10. sunnudagur eftir trinitatis, þá er guðsþjónusta var byrjuð í heimakirkjunni á Sandfelli og ég stóð þar fyrir altarinu, fann ég hreyfingu undir fótum mér. Gaf ég henni eigi gaum í fyrstu, en undir prédikun fóru hræringar þessar mjög vaxandi, og greip menn þá felmtur, en samt sögðu menn, að slíkt hefði áður við borið. Gamall maður og örvasa gekk niður að lind, sem er fyrir neðan bæinn og kraup þar á kné stundarkorn, og hlógu menn að þessu atferli hans. Þegar hann kom aftur og ég spurði hann, hvers hann hefði verið að leita, svaraði hann: „Gætið yðar vel, herra prestur, það er kominn upp jarðeldur.“ Í sama bili varð mér litið til kirkjudyranna, og sýndist mér þá eins og öðrum, sem viðstaddir voru, líkt og húsið herptist og beygðist saman.

Ég reið frá kirkjunni en gerði eigi annað en að hugsa um orð öldungsins. Þegar ég var fyrir neðan miðjan Flögujökul og varð litið upp á jökultindinn, virtist mér sem jökullinn hækkaði og belgdist út aðra stundina, en lækkaði og félli saman hina. Þetta var ekki heldur missýning, og kom það brátt í ljós, hvað þetta boðaði. Morguninn eftir, mánudaginn 8. ágúst, fundu menn eigi aðeins tíða og ægilega landskjálftakippi, en heyrðu einnig ógnabresti, sem ekki voru minni en þrumuhljóð. Í þessum látum féll allt, sem lauslegt var í húsum inni, og var ekki annað sýnna en allt mundi hrynja, bæði húsin og fjöllin sjálf. Húsin hrundu þó eigi. En það jók mjög á skelfingu fólksins, að enginn vissi, hvaðan ógnin mundi koma né hvar hún dyndi yfir. Klukkan 9 um morguninn heyrðust 3 miklir brestir, sem báru af hinum; þeim fylgdu nokkur vatnshlaup eða gos og var hið síðasta mest, sópuðu þau brott hestum og öðrum peningi, er fyrir þeim urðu, í einu vetfangi.

Þar á eftir seig sjálfur jökullinn niður á jafnsléttu, líkt og þegar bráðnum málmi er hellt úr deiglu. Hann var svo hár, er hann var kominn niður á jafnsléttuna, að yfir hann sá ég ekki meira af Lómagnúpi en á stærð við fugl. Að þessu búnu tók vatnið að fossa fram fyrir austan jöklana og eyddi því litla, sem eftir var af graslendi. Þyngst féll mér að horfa á kvenfólkið grátandi og nágranna mína ráðþrota og kjarklausa. En þegar ég sá, að vatnsflóðið leitaði í áttina til bæjar míns, flutti ég fólk mitt og börn upp á háan hjalla í fjallinu, sem Dalskarðstorfa heitir. Þar lét ég reisa tjald og flytja þangað alla muni kirkjunnar, matvæli, föt og aðrar nauðsynjar, því að ég þóttist sjá, að þótt jökullinn brytist fram á öðrum stað, mundi þó hæð þess standa lengst, ef guði þóknaðist; fólum við okkur honum á vald og dvöldumst þar.

Ástandið breyttist nú enn við það, að sjálfur jökullinn braust fram og bárust sumir jakarnir allt á sjó fram, en hinir stærri stóðu rétt við fjallsræturnar. Þessu næst fylltist loftið af eldi og ösku, með óaflátanlegum brestum og braki; var askan svo heit, að engin sást munur dags og nætur og af myrkri því, er hún olli; hið eina ljós er sást, var bjarminn af eldi þeim sem upp var kominn í 5 eða 6 fjallaskorum. Í 3 daga samfellt var Öræfasókn þjáð á þennan hátt með eldi, vatni og öskufalli. Þó er ekki létt að lýsa þessu eins og í raun réttri var, því að öll jörðin var svört af vikursandi og ekki var hættulaust að ganga úti sakir glóandi steina, sem rigndi úr loftinu, og báru því ýmsir fötur og kollur á höfðinu sér til hlífðar.

Hinn 11. sama mánaðar tók ögn að rofa til í byggðinni, en eldur og reykur stóð enn upp úr jöklinum. Þennan dag fór ég við fjórða mann til þess að líta eftir, hversu sakir stæðu á kirkjustaðnum Sandfelli, sem var í hinni mestu hættu. Þetta var hin mesta hættuferð, því að hvergi varð farið nema milli fjallsins og hins hlaupna jökuls, og var vatnið svo heitt, að við lá, að hestarnir fældust. En þegar við vorum komnir svo langt, að fram úr sá, leit ég við. Sá ég þá, hvar vatnsflaumur fossaði ofan frá jöklinum, og hefði hann sennilega orðið bani okkar, ef við hefðum lent í honum. Ég tók því það til bragðs að ríða fram á ísbreiðuna og hrópaði til förunauta minna að fylgja mér hið skjótasta. Með þeim hætti sluppum við og náðum heilu og höldnu að Sandfelli. Jörðin ásamt tveimur hjáleigum var að fullu eydd, og var ekkert eftir nema bæjarhúsin og smáspildur af túninu. Fólkið var grátandi úti í kirkju.

En gagnstætt því, sem allir héldu, höfðu kýrnar á Sandfelli og fleiri bæjum komist lífs af, og stóðu þær öskrandi hjá ónýtum heystökkum. Helmingur fólksins á prestsetrinu hafði verið í seli með 4 nýlega reistum húsum. Tvær fullorðnar stúlkur og unglingspiltur flýðu upp á þak hæsta hússins, en skjótt þar á eftir hreif vatnsflaumurinn húsið, þar sem það, eftir sögn þeirra, er á horfðu, stóðst ekki þunga aurflóðsins, sem féll að því. Og meðan menn sáu til stóðu þessar þrjár vesalings manneskjur á þakinu. Lík annarrar stúlkunnar fannst seinna á aurunum, það var brennt og líkast sem það væri soðið. Var varla unnt að snerta hið skaddaða lík, svo var það meyrt orðið. Allt ástand sveitarinnar var hið hörmulegasta. Sauðféð hafði flest farist, sumt af því rak seinna á fjörur í þriðju sókn frá Öræfum. Hey skorti handa kúnum, svo að ekki var unnt að setja nema fimmta hluta þeirra á vetur. 

Eldurinn brann án afláts í fjallinu frá 8. ágúst fram til sumarmála í apríl árið eftir. Fram á sumar voru steinar svo heitir, að af þeim rauk, og var ekki unnt að snerta þá í fyrstu. Sumir þeirra voru fullbrenndir og orðnir að kalki, aðrir voru svartir á lit og holóttir, en í gegnum suma var unnt að blása. Flestir þeir hestar, sem hlaupið hafði ekki borið út á sjó, voru stórkostlega beinbrotnir, er þeir fundust. Austasti hluti Síðusóknar skemmdist svo af vikri, að menn urðu að slátra miklu af búpeningi.

Á sumardaginn fyrsta árið eftir, 1728, fékk ég nefndarmann einn með mér til að kanna sprungurnar í fjallinu; var þá hægt að skríða um þar. Ég fann þar dálítið af saltpétri og hefði getað safnað nokkuð af honum, ef hitinn hefði ekki verið svo mikill, að ég var tregur til að haldast þar við. Á einum stað var stór, brunninn steinn á sprungubarmi; af því að hann stóð tæpt, hrundum við honum niður í sprunguna, en ómögulegt var okkur að heyra, er hann nam við botn. Þetta, sem nú er sagt, er hið markverðasta, sem ég hef frá að skýra um þennan jarðeld.

Þó skal því við bætt, að húsmaður einn sagði mér, að hann hefði nokkru áður en eldurinn kom upp heyrt hljóð í fjallinu, sem líktust andvörpum og málæði margra manna, en þegar hann fór að hlusta betur, heyrði hann ekkert. Ég tók þetta til íhugunar og vildi ekki reynast miður forvitinn, og ég get ekki borið á móti því, að ég heyrði hið sama. Þetta kvað og hafa gerst víðar, þar sem eldur var uppi með sama hætti. Þannig hefur guð leitt mig í gegnum eld og vatnagang, ótal óhöpp og andstreymi allt fram til 80. æviárs. Hann sé lofaður, prísaður og í heiðri hafður að eilífu."

Frásön séra Jóns Þorlákssonar er fengin af stjörnufræðivefnum.


mbl.is Heldur áfram að dýpka og stækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband