Létt steypa

Að hafa marga fjöruna sopið er máltæki notað um þann sem hefur öðlast reynslu og þroska, oft vegna einhverra erfiðleika (eða kannski réttar sagt, mistaka). Það mætti betrumbæta þetta máltæki um höfund þessarar síðu á þann hátt, hann hefur marga steypuna þvælt. Eins og þeir sem litið hafa hér inn í gegnum tíðina hafa vafalaust tekið eftir.

Í lok síðustu viku voru fleiri en ein, og fleiri en tvær steypur þvældar á mínum vinnustað. Ein þeirra var samt þess eðlis að ég hafði með lagni reynt að koma mér undan henni. Nennti satt að segja ekki að taka þátt í tilraun við að betrun bæta hjólið einu sinni enn, en hvað steypu varðar þá hefur sú gjörningalist helgað mína ævi og ég taldi mig vera orðin of gamlan, slitin og sljóan til að verða að gagni.

Málið er að vinnuveitendur mínir hafa undanfarin ár staðið að nýsköpunarverkefni við léttsteyptar milliveggjaeiningar. Þessar milliveggjaeiningar er svo raðað upp á byggingastað og er hver eining 60 cm breið, 10 cm þykk og nær frá gólfi til lofts, þyngdin er ekki nema ca.65 kg einingin. Svona veggjum er snarað upp af tveimur mönnum á methraða og þegar þeir eru uppkomnir er einungis málningarvinna eftir. Veggirnir hafa hátt einangrunargildi, eldvörn og hljóðísog.

En það sem átti að gera í síðustu viku var að steypa gólf með léttsteypunni, við höfðum að vísu gert það áður. En þá með því að blanda litlar blöndur í tilraunaskini, en núna átti að gera þetta á stærri skala með steypubíl. Með svona gólfi er hægt að slá margar flugur í höggi, t.d. þegar kemur að gólfkulda og burðarþoli. Rúmmetrinn af svona léttsteypu er ekki nema ca. 350 kg á meðan venjuleg steinsteypa er ca 2.400 kg.

Erfiðleikarnir hafa samt falist í að þvæla steypuna saman í magni, því fylliefnið er miklu léttara en vatnið og sementið, öfugt við mölina í venjulegri steypu sem hjálpar til við að hræra stöffið. Þetta er því svipað og ætla að jafna sósu í matargerð með því að demba öllu hveitinu þurru í einu lagi út í pottinn, þá verður sósan varla annað en köggla grautur.

Í síðustu viku komst ég semsagt ekki hjá því að taka þátt í steypu mistökum, sennilega vegna langrar reynslu við að krafsa mig í gegnum þau, en er núorðið ekki fær um annað en veita smá sáluhjálp. En eins og í ævintýrinu fór allt vel að lokum og pólskir félagar mínir sáu um að smyrja léttsteypu glundrinu úr fisléttum einangrunarkúlunum á gólfið, ég horfði hrærður á og tók video af gjörningnum.

 


Midnight Special

IMG_8802

Eitt af því magnaða við að búa á Íslandi eru sumarnæturnar. Í dag 21. júní eru sumar sólstöðurnar og um allt land var einstakt bjartviðri í byrjun þessa sólstöðu sólarhrings, þannig að flestir áttu möguleika á mögnuðu miðnætti. Frá því ég man eftir mér þá hefur þessi tími árs haft svefnleysi í för með sér, ég hef einfaldlega ekki tímt að sofa.

Eins var það þegar ég dvaldi á 69°N í Noregi, þar hnitaði sólin himininn hátt um miðnættið. Þar var staður í fjöru, sem mátti njóta miðnætursólarinnar við vaggandi öldunið. Stundum var brekkan upp af fjörunni svo þéttsetin aðdáendum miðnætursólarinnar það líktist áhorfendaskara á HM, nema þar var andaktin fyrir sólstöðunum þannig að ekkert heyrðist víkingaklappið, né húh, þó svo það hefði verið við hæfi.

Síðastliðna nótt var andvökubjört og tær og fór svo að hún var tekin fram undir morgunn, aðallega í Hjaltastaðaþinghánni, að mestu án áhorfenda nema þá nokkurra furðufugla.  Myndbrotin sem hér fylgja eru tekin frá  kl. 10 í gærkvöldi til kl. 2 í nótt.

 

 


Fíflar og fardagakál

Fíflar

Uppáhalds frasi hagfræðinganna "There ain´t no such thing as a free lunch" eða "Það er ekki til neitt sem heitir ókeypis hádegisverður" hefur verið í hávegum hafður í áratugi, jafnvel um aldir. Það hefur lengi blundað í mér að láta reyna á sannleiksgildi þessara orða, því mig hefur grunað að þau eigi ekki við rök að styðjast. Í minni bernsku varð ég vitni að því oftar en tölu verður á komið hvernig ömmur mínar og afar virtust geta töfrað fram máltíð úr engu. Röltu kannski bara út fyrir hús og stuttu seinna var dýrindis matur á borðum. Á þeim árum var ekki óalgeng fæða silungur í aðalrétt og rabbabaragrautur í eftirrétt, silungurinn sóttur í kelduna og rabbabarinn fenginn við húsið.

Það sem mig hefur um nokkurt skeið langað að kanna öðru fremur, er hvort lifa má á íslenskri náttúru án þess að rækta nokkurn skapaðan hlut. Ég hafði í nokkur ár sett niður kartöflur, en um það leiti sem garðurinn hætti að gefa uppskeru sáði sér í hann óumbeðinn njóli en áður hafði hvönn komið sér fyrir þétt við garðinn. Því var ekki um annað að ræða, en annaðhvort að losna við njólann eða hafa þolinmæði fyrir þess lags illgresi. Ég hafði heyrt það fyrir mörgum árum að njóli hefði verið fæða landsmanna á öldum áður og svo hefði einnig verið hvað hvönnina varðar, enda kölluð ætihvönn. Þannig að njólinn fékk sömu grið og hvönnin enda nennti ég ekki að standa í þeirri vonlausu baráttu sem felst í útrýmingu illgresis á við njóla og hvönn sem upphaflega voru þekktar jurtir til matar og lækninga. 

Fyrir nokkru árum komust fjallagrös og bláber á morgunverðar matseðilinn og hafa ekki vikið þaðan síðan, um þennan morgunnmat fjallaði ég um hér á síðunni. Á rabbabara hafði ég gert hávísindalega úttekt þegar kreppan skall á, rifjaðist þá upp hvers lags sælgæti hann er og ekki spillti að þann sælkera málsverð var hægt að framreiða fyrir ca 25 kr, þ.e.a.s. þegar búið er að reikna sykurinn og rjómann. Því ákvað ég í vor að láta verða af því að kanna hvort rétt væri að íslenskt illgresi sé hæft til átu og hvort lækningarmáttur þess eigi við rök að styðjast. Og best væri að gera svona heilsubóta rannsókn á eigin skinni.

Faðir minn sagði eitt sinn "Það sem þú veist gott er þér einskýrs virði nema þú notir það". En hvernig er hægt að láta sjást til sín tína njóla án þess að vera talin viðundur? Því er til að svara að besta aðferðin til að losna við viðundurs vörumerkið, er að setja á höfuðið blátt buff og koma sér í 66°N spandex á áberandi stað með svartan ruslapoka, þökk sé Guðna forseta og plokkinu. Njólinn vex svo út um allar koppa grundir og ekki síst innan um ruslið í kringum stórmarkaðina. Það sem kemur á óvart er hversu fljótlegt það er að verða sér út um hráefni í matinn, það er mun fljótlegra en að fara inn í Bónus. Svo spillir það ekki að losna þannig við umstangið í kringum umbúðaruslið og að verð njóla plokkaðrar máltíðar er tífalt lægra en neysluviðmiðs máltíðar Hagstofunnar sem Bjarni Ben gerði alvarlegan fyrirvara við um árið.

Nú er liðinn heill mánuður af rannsókninni og hafa fíflar, njóli, hundasúrur og rabbabari verið á borðum nánast daglega ásamt lítilsháttar af hvönn sem á eftir að taka til frekar athugunar ásamt öðru illgresi síðar í sumar. Það merkilega er hvað þetta er gómsætur matur, reyndar mun ferskara og kraftmeira grænmeti en fæst í Bónus. Það kom sérstaklega á óvart að njóla og fífla væri hægt að éta án þess að kúgast og það oftar en einu sinni. Þennan mánuð hafa óvenju margir gestir komið í mat og látið vel af trakteringunum, mér datt reyndar fyrst í hug að það væri af kurteisissökum, en þegar blindfullorðin börnin voru farin að koma í heimsókn og borða þetta oftar en einu sinni fór ég að trúa að þetta væri ekki bara ímyndun, því þau hafa aldrei legið á því hvað sé góður og hvað sé vondur matur. Það eina sem mér þótti slæmt við þessi matarboð var ef gestirnir létu þess geti þegar heim væri komið að ekki hefði verið annað á borðum en fíflar og njóli. Þess vegna átti ég til að steykja með salatinu lambshjörtu eða sjóða egg.

Í vikunni hitti ég svo vísindamanninn, vin minn, á förnum vegi og fór að segja honum frá þessar stórmerkilegu uppfinningu minni. Hann svaraði að bragði; "veistu það að þetta hef ég gert í mörg ár, en það er með þetta eins og svo margt annað að fólk trúir því ekki að þetta sé góður matur, því hann er ókeypis. Sama á við um lækningamátt fífla, fólk getur engan veginn trúað honum. Það var sjúklingur sem ætlaði að prófa, þegar ég benti honum á þetta, en vildi samt ekki gera það nema í samráði við lækninn sinn. Þá svaraði læknirinn honum "ætlar þú að vera áfram hjá mér eða fíflunum" og auðvitað valdi sjúklingurinn lækninn af því að þar fær hann að borga".

Núna þegar mánuður er liðin af þessari sumarlöngu rannsókn er ég að verða komin á þá skoðun að til sé ókeypis hádegisverður og er hann þeim mun hollari eftir því sem hann kemst nær því að vera ókeypis. Víðfrægur frasi hagfræðinganna sé því í besta falli lúmskur  orðhengilsháttur. Hollusta fíflanna er ótvíræð, hvað sem læknarnir segja, þó ekki væri nema vegna útiverunnar við að höndla stöffið. Það þarf því varla að koma á óvart þó ég ætli að halda mig áfram hjá fíflunum í sumar, og á kannski eftir að gera uppgötvunum mínum frekari skil hér á síðunni síðar. En þetta sem fer hér að neðan hef ég m.a. uppgötvað um íslenskt illgresi síðasta mánuðinn. 

 

Njóli Njóli að skjóta upp blöðunum, víða má finna heilu njóla akrana

Njóli gekk einnig undir nafninu fardagakál vegna þess að hann byrjar að skjóta upp blöðunum í kringum fardaga sem voru upphaflega 3 maí en fluttust svo til 14. maí. Njólinn var fyrsti boðberi sumarsins hvað ferskt grænmeti varðaði og eru blöðin best nýsprottin. Plantan var áður notuð sem lækningajurt og eru fersk njólablöð eru talin meinholl.

Um njólann má lesa eftirfarandi í bókinni Matarást eftir Nönnu Rögnvaldsdóttur: Blöð af njóla, sem er af súruætt, voru töluvert notuð hérlendis áður fyrr, bæði í te, súpur og grauta og með ýmsum kjöt- og fiskréttum. Njólinn er bestur á vorin, áður en hann blómstrar, og var fyrsta græna matjurtin sem unnt var að fá á vorin áður fyrr. Hann má matreiða á sama hátt og grænkál. Um hann sagði Eggert Ólafsson í matjurtabók sinni: "Þetta kál er tilreitt sem kálgrautur, túnsúrur eru góðar þar saman við." Sæt njólastappa var borin fram með steiktu kindakjöti í veislu sem Jörundi hundadagakonungi var haldin í Viðey árið 1809, en annað meðlæti með steikinni var vöfflur, flatbrauð og kex.

Sjálfur hef ég sannreynt gómsætan njólann síðastliðinn mánuðinn, meðal annars í njólasúpu og með hvítlauks steiktu lambshjarta á njóla, -fífla -og hundasúru salatbeði. Njólinn vex hreinlega um allt á þessum árstíma. 

 

Hundasúra

Hundasúrur vaxa oftast í þyrpingum og eru því auðveldar í tínslu

Fíflar og hundasúrur eru ekki aðeins til ánægju og yndisauka sem vorboðar, heldur eru þessar jurtir býsna ljúffengar í mat. Hér áður fyrr kunni fólk almennt betur að nýta sér ávexti jarðar. Það er bæði hollt og skemmtilegt að rifja slík fræði upp. Það er ekki margt grænmetið sem fæst ókeypis líkt og þessar tvær jurtir. Túnfífill hefur frá örófi alda þótt með bestu vatnslosandi jurtum sem völ er á, er sá fífill sem ef til vill þekktastur og hefur lengi verið notaður í alþýðulækningum. Hundasúran hefur svo gott sem sömu áhrif og túnsúran. Hún er mjög góð við bjúg, hún er talin örva og styrkja lifrina. Hún er góð við lystarleysi, hægðatregðu og gyllinæð svo fátt eitt sé nefnt.

Víða í Evrópu er túnsúra notuð í matargerð, m.a. í súpur, sósur og salöt. Hún er uppistaðan í súrusúpu sem þekkist í hvítrússneskri, einstneskri, lettneskri, litháskri, rúmenskri, pólskri, rússneskri og úkraínskri matargerð. Súrusúpa hefur einnig verið borðuð á Íslandi, en þá með hundasúrum, njóla eða rabarbarablöðum.

Sjálfur hef ég notað fíflablöðin, sem stundum eru nefnd hrafnablaðka, ásamt hundasúrur og njóla í ferskt salat og þá saltað það og blandað með niðurbrytjuðum ferskum tómat bátum, söxuðum sólþurrkuðum tómötum í olíu og helt smá olíu yfir. Svona salat er ljúffengt með túnfiski eða harðsoðnum eggjum. Fíflar og hundasúrur má finna á næstum í hvað grasbala sem er, þurfi að fara út fyrir lóðina þá eru staðir þar sem garðaúrgangi er hent kjörlendi fyrir hundasúrur. Upphaflega fékk ég áhuga á fíflunum vegna frásagna af lækningamætti þeirra sem vökvalosandi lyfs og get staðfest að þeir virka vel.

 

Hvönn

Ætihvönn má oft finna á ár og lækjabökkum

Hvönn var gjaldmiðill víkinga í verslunar ferðum sunnar í Evrópu, svo vel var hún þekkt á þeim tíma sem kraftmikið heilsufæði. Eftir því sem hvönnin átti norðlægari uppruna þeim mun kraftmeiri var hún. Ætihvönnin er ein merkasta lækningajurt Íslandssögunnar en hvönnin var notuð á Íslandi allt frá landnámi. Ætihvönnin var vel þekkt meðal fyrstu landnema á Íslandi. Auk þess að vera mikilvæg matjurt á Norðurlöndum og Bretlandseyjum var lækningamáttur hvannarinnar vel þekktur meðal norrænna manna.

Hvönn er svolítið beisk fyrir matarsmekk nútímamanna. En við missum svo mikið úr bragðflórunni ef við göngum fram hjá beisku jurtunum. Það sem er tungunni beiskt er maganum sætt og einnig er því öfugt farið; segir erlent máltæki. Samt þarf að gæta sín vel því hvönn er mjög bragðsterk og hentar því betur sem kryddjurt og heilsumeðal en grænmeti, einkum meðan verið er að venjast henni.

Ég get staðfest það að fersk hvönnin er römm á bragðið, tvisvar þennan tilrauna mánuð hef ég notað örlítið af henni saman við fífla, -njóla -og hundasúru salatið. Bragðið af hvönninni  er rótsterkt og tók ég vel eftir því á matgestum að þeir fengu sér ekki nema einu sinni af salati með hvönn. Fyrir nokkrum árum frétti ég af því hvernig Grænlendingar marinera hvönn og það ku víst vera góður matur. Ég þarf að hitta þann sem sagði mér frá þessu og fá uppskrift hjá honum því hann var orðin sérfræðingur í að matreiða hvönn eftir veru sína á Grænlandi. 

 

Súpa og salat

Njólasúpa mánaðarins, ásamt fífla, njóla og hundasúrusalti

Hérna er uppskriftin af njólasúpu fyrir þá sem enst hafa til að lesa þetta langt og eru ekki farnir að kúgast en langar kannski til að prófa sig áfram. Þessi súpa er skálduð upp úr tveimur njólasúpu uppskriftum sem ég fann á netinu og hitti í mark við fyrstu tilraun.

2 ltr vatn

300 gr njóli, saxaður

3 grænmetissúpu teningar

½ paprika skorin í bita

4-6 hvítlauksrif söxuð smátt

2 laukar niður skornir

100 gr smjör (hægt að nota jurtaolíu og er þá vegan)

4 msk spelt eða hveiti (til að þykkja súpuna)

400 gr saxaðir tómatar (niðursoðnir)

Njólinn , súputeningarnir og paprikkan sett í sjóðandi vatn. Hvítlauksrifin og laukurinn bræddur í litlum potti upp úr smjöri (á sama hátt og laukfeiti með mat) speltinu bætt út í þegar laukurinn er orðin mjúkur og bökuð upp bolla. Smjörbollunni bætt út í sjóðandi súpupottinn og hrært vel út, tómötunum bætt við og soðið í 1 klst. Saltað eftir smekk með Himilaia salti og svörtum pipar.

 

Að endingu vil ég benda á þessa áhugaverðu fræðslumynd um lækningarmátt plantna.

 

 


Afdalamennska og annar flottræfilsháttur

Sagt er að sá sem kaupi það sem honum vantar ekki ræni sjálfan sig, sjaldan eiga þessi sannindi betur við en á tímum þegar til er of mikið af öllu öðru en tíma. Þau eru orðin nokkur árin síðan að vistarband kaupaæðisins fór að þvælast um á milli eyrnanna á mér, eða frá því seint á síðustu öld. Það má segja að eitt atvik hafi öðrum fremur kristallað sannindi kaupránsins. En það var þegar góður vinur minn kom eitt sinn í heimsókn. Þessi vinur var, eins og margir af mínum bestu vinum hafa verið í gegnum tíðina, ártugum eldri en ég, því má segja um kynni mín af mörgum minna vina "það ungur nemur, sem gamall temur".

Atvikið sem um ræðir gerðist eitt kvöldið sem vinur minn kom í kaffi og spjall. En þeim ánægjulegu heimsóknum varð ég ekki ósjaldan aðnjótandi á þeim árum. Hann kom venjulega á gamalli Lödu með "fjallstarti", þannig að hann varð að bakka upp í heimkeyrsluna til að Ladan rynni í gang undan brekkunni að heimsókn lokinni. Á laugardeginum fyrir téða heimsókn hafði ég verið að þvo og bóna mynstursteypta heimkeyrsluna, sem rúmaði fjóra bíla. Það hafði farið nokkur tími í að fjarlæga svört dekkjastrik eftir veturlangt fjallstart Lödunnar auk þess sem ég lét nagladekkjarispur fara í mínar fínustu. Vinur minn kom einmitt í heimsókn á meðan á pjattinu stóð svo ég notaði tækifærið og bað hann um að láta Löduna ekki renna í gang eftirleiðis fyrr en hún væri komin út af bílastæðinu mínu og út á götu. Hann tók vel í það eftir að hafa skoðað aðstæður, svo fórum inn í kaffi.

Næst þegar hann kom í heimsókn og hafði bakkað upp í bílastæðið bað hann mig um að koma með sér út á bílaplan og reyna að koma tölu á þau verðmæti sem þar væru. Ég hafði nýlega keypt splunkunýan amerískan eðalvagn auk þess sem þar stóð nýlegur amerískur pikcup. Hann spurði mig hvort ég hefði reiknað út hvað bílarnir á planinu kostuðu og hvort ég hefði ekki  áhyggjur af því að þeir rispuðust eins og planið? Ég var tregur til svars, en hann spurði um verð og sá svo um samlagninguna, og að endingu vorum við komnir með milljónir sem slöguðu hátt í hálft húsið.

Þá sagði hann, "hér kem ég á minni 100 þúsund króna Lödu sem ég losa mig við næst þegar hún fær ekki skoðun og kaupi mér þá sennilega aðra full skoðaða á 100 þúsundkall, ég nota hana til að keyra á milli staða rétt eins og þú notar þína eðalvagna, en rétt eins og þú þá get ég ekki keyrt nema einn bíl í einu. Og af því að hann kostar mig lítið þá þarf ég ekki að hafa neinar áhyggjur".

Það er einmitt á svona augnablikum sem það rennur upp fyrir manni hvernig fólk er haft að fífli. Mig hefur aldrei skort skuldir né skotsilfur, en hef ekki alltaf haft hugmyndaflug til að átta mig á hvað þetta tvennt er nátengt skorti á tíma. Ég hafði fram að þessari samlagningu okkar vinanna kappkostað að aka um á nýjum bílum. Eftir þessa opinberun hef ég aldrei keypt nýjan bíl, meir að segja auglýsti ég um tíma (til að trompa vin minn) eftir nothæfum bílum gegn 70 þúsund kr. staðgreiðslu, og kom þá alltaf jafn mikið á óvart hvað góðir bílar buðust.

Þetta samtal okkar vinanna í denn opnaði augu mín fyrir því hversu margs er hægt að fara á mis ef maður metur tímann í peningum og efnislegum gæðum. Ég hafði eitt mörgum árunum að heiman við verkefni sem gáfu vel í aurum til skipta fyrir flottheit, en í staðinn misst af margri gæðastundinni með fjölskyldunni. Smá saman rann upp fyrir mér hversu vandmeðfarið það er að kaupa sér gæðatíma með peningum og hvað miklu auðveldara er að gefa sér þann tíma, það kostar ekki krónu. En þar sem nútímasamfélag er meir og minna byggt upp á metingi mælieininganna, tími og peningar, þá er ekki auðvelt að sleppa af hlaupabrettinu án þess að hrasa og teljast stór skrítinn auli. Varla er vandaminna að fara út á kannt mannlegs samfélags án þess að tapa sjálfum sér og vinunum.

Ég hafði í upphafi hugsað mér að hafa þennan pistil um allt annað, eða um það hvernig er hægt að kíkja út fyrir kassann sem stundum er kallaður The Matrix. Hvernig gamall getur numið í nútímanum það sem ungum var tamt lifa eftir á fyrri tímum. Hversu langt væri hægt að komast inn í afdalinn til að finna sjálfan sig alsælan í vegkantinum tyggjandi njóla. En sú saga verður að bíða betri tíma. 


Hefurðu hugleitt að hætta á facebook? -kíktu þá á þetta


Vertu góður við geimveruna

Lifirðu því eftirsóknarverða jarðlífi sem þú komst til að lifa? Ertu góður við geimveruna í sjálfum þér? þetta eru ekki einfaldar spurningar. En ekkert svar er mikilvægara en það sem þú gefur sjálfum þér, það hefur að gera með kjarna þíns sanna sjálfs, sálina. Og þegar spurningunum er svarað er rétt að hafa í huga að við lifum lífinu af eigin tilfinningu, ekki með annarra rökum. Eins klæðumst við efni, en erum ekki úr efni.

Vertu því góður við geimveruna og hlustaða á raddirnar í höfðinu svo framarlega sem þær eru þínar. Manneskjan hefur hvorteð er alltaf verið barn stjarnanna. Siðmenningin kortlagði meir að segja stjörnuhimininn lögnu áður en hún kortlagði jörðina undir fótum okkar, nú á tímum felum við samt stjörnuhimininn með raflýsingu sem lýsir rétt svo niður á tærnar en gerir okkur blind á umhverfið sjálft, allt undir formerkjum vísindalegra framfara og rökhyggju. Við viðurkennum varla sálina lengur, vegna þess að hún er hvorki raflýst né vísindalega áþreifanleg líkt og efnislegur líkaminn. En vitundin um okkur sjálf kemur frá sálinni og við vitum að hún býr ekki í líkamanum, því innst inni greinum við að líkaminn býr í vitund sálarinnar og er farartæki hennar í þessu jarðlífi.

Forfeður okkar voru meðvitaðir um að þeir bjuggu í alheimi þar sem líkaminn var til fyrir óáþreifanlega innri vídd. Þar sem línan var var ekki eins skýr á milli sálar og utanaðkomandi veruleika, vegna þess að báðir veruleikarnir þarfnast hvors annars. Sálin var þá stærri hluti hins mikla veruleika og er það reyndar enn. Nú á tímum erum við samt rænd undra ævintýrum ímyndunaraflsins, sakleysisins sem við upplifðum í gegnum visku hjartans með óskeikulu innsæi barnsins. Allt er þetta meira og minna afvegaleitt af efnishyggju og dýrkun á upplýsingar sem okkur eru innrættar frá blautu barnsbeini.

Gervi þörf eftir efnislegri velmegun hefur slitið á tengsl við náttúruna, jafnframt skynjunina á óupplýstan veruleikan sem er umhverfis. Við getum varla sameinast náttúrunni frekar en andlegum verum ævintýraheimsins. Höfum jafnvel snúið bakinu við guðlegum tengingum lífsins, séðum og óséðum , og með því höfum við jafnframt misst samband við okkar sanna sjálf. Við erum aðeins skugginn af sjálfum okkur og upplifum aðeins lítinn hluta þess veruleika sem okkar stendur til boða.

Heimurinn sem við höfum búið okkur líkist æ meir dvalastað djöfulsins. Milljónum saklausra lífa er slátrað á hverjum degi til þess eins að nýta líkama þeirra á veisluborð allsnægtanna og er nú svo komið að aðeins bestu bitarnir rata á diskinn, hitt fer í ruslatunnuna. Villt dýr eru jafnframt drepin einungis sportsins vegna, til dægrastyttingar. Þar kaupa þeir efna meiri leyfi af stofnunum ríkisins til að drepa hreindýr og hika jafnvel ekki við að hirða aðeins lundir og læri. Ef mikilmennum markaðarins, þar sem tíminn er peningar, er síðan bent á að hafa með sér sóðaskapinn heim er svarið „hélstu að ég væri komin út á land til að bera súpukjöt á milli fjarða“.

Sportveiðimenn sem minna hafa á milli handanna stunda magnveiðar á gæsabringum til að selja í fínu veitingahúsin jafnvel með von um að þannig megi fjármagna hreindýraveiðileyfi, eða ferð til Afríku þar sem hægt er að fá að drepa flóðhest í útrýmingarhættu með sjálfum sér á selfí fyrir rétt verð. Dýr eru pínd og kvalin til dauðs í nafni svokallaðra vísinda, í besta falli fyrir græðandi fegrunar krem fyrir aflóga mannfólkið. Allt er þetta gert af fólki sem býr yfir manngæsku og markaðsmenntun. Til að bæta gráu ofan á svart hefur í gegnum tíðina milljónir saklauss fólks verið handtekið, ofsótt og myrt til að ásælast náttúruauðlindir jarðar í nafni tækni og framfara.

Fréttir eru farnar að berast af börnum allt niður í fimm ára aldur, sem eru gefin hugarfarsbreytandi þunglyndislyf eftir vísindalegar greiningar. Foreldrarnir jafnvel orðnir það vel skólaðir að þau seigja frá þeirri „blessun að barnið mitt fékk greiningu því nú veit ég loksins hvað gekk að því“. Þó það sé búið að lyfjavæða sjúkdómsgreiningar vísindanna í bak og fyrir, þá breytir það ekki því að nú er jafnvel rítalín kynslóðin farin að hverfa úr þessum heimi vegna hjartastopps á besta aldri. Þrátt fyrir allar framfarir vísindanna þá er mannskepnan fyrir löngu orðin óheilbrigðasta dýrategund jarðar.

Heilbrigðisstarfsfólk hefur verið sótt óumbeðið til saka af lögfróðu fólki vegna ótímabærra dauðsfalla á sjúkrahúsum, því einhver verður að bera ábyrgð þó ekki væri nema hagvaxtarins vegna. Og hvað þegar þeir lögfróðu fá sínu framgengt, breytist þá ekki hlutverk sjúkrahúsa til samræmis við það að flestir enda ævina þar? Er þetta gert í nafni manngæsku og réttlætis, efastu kannski ennþá um að jarðlífið sé umsetið djöfullegum öflum?

Hinn djúpa viska veit að hvert og eitt okkar er komið til að öðlast sérstaka reynslu í þessum heimi. Þessu fær ekkert breytt, þó svo að allt sé gert til að innræta okkur öllum sama markaðs veruleikann frá vöggu til grafar. Ástæða þess að galdur geimverunnar er ekki upplýstur á okkar tímum er sú að hann brýtur í bága við áþreifanleika markaðsafla sem bera fyrir sig nútíma vísindum á sama hátt og trúarbrögðum fyrri alda. En galdur andans mun vera til staðar löngu eftir að markaðurinn og nútíma vísindi hafa tortímt sjálfum sér. Annað getur aldrei orðið, því að galdur andans er tjáning hinna eilífu umbreytinga. Trúin og skáldskapurinn verður alltaf mikilvægari en staðreyndir vísindanna.

Sem manneskjur skynjum við heiminn með hjartanu á mismunandi hátt vegna okkar mismunandi tilgangs. Til dæmis þá eru álfar og geimverur gerðar úr tungumáli en ekki vísindalegu sannreynanlegu efni, rétt eins og mankynssagan. Við trúum mankynssögunni í röðum af lögnu dauðum blöðum, þó svo að hún sé gerð úr sama tungumáli og álfasögur. Við ferðumst um rúm og tíma með hugsun og máli en ef ferðalagið er ekki samkvæmt innrættu normi neyslunnar er stutt í greiningar og pillur. Okkur er tamið að trúa ekki að geimverur séu til, hvað þá álfar, okkur er jafnframt innrætt að treysta ekki á eigin dómgreind varðandi púkana í okkar eigin lífi. Ef þú hugsar og skilgreinir aðstæður það rökfræðilega að þú hættir að trúa innsæi þínu, þá er greindin farin að vinna gegn þér, því getur verið varasamt að hugsa og skilgreina of mikið þannig hættirðu að nota innsæið við að skilja sjálfan þig.

Erfiðustu flækjur hverrar manneskju snúast um skynsemi rökhugsunarinnar, á meðan viska hjartans segir einfaldlega svona er þetta. Hugsuðurinn veit hvernig allt á að vera þó svo að ekkert hjá honum gangi þegar hann ætlar að framkvæma. Gerandinn framkvæmir og fær allt til að ganga upp með síendurtekinni æfingu þó svo að hann hafi ekki hugsað út í hvers vegna. Rökstudd innræting lífsins færir okkur svo oftast þetta tvennt umsnúið í einum pakka, á þann hátt að ekkert virðist virka og við höfum ekki hugmynd um hvers vegna. Hættu að hlusta á þá sem reyna að segja þér að þú gangir með ranghugmyndir og þeir viti betur hvað þér er fyrir bestu, það er ekki svo, ranghugmyndir eru ekki til ef þær koma frá hjartanu og mundu að rökhugsunin verður aðeins þarfur þjónn ef hún þjónar hjartanu.

Þó þér finnist það vera geggjun að fara á móti hámenntaðri rökfræði nútímans þá má hafa í huga að það er engin mælikvarði á heilbrygði neins að vera viðurkenndur í sjúkum heimi. Jafnvel þó röddin í höfðinu hvísli með akademíuni "það á ekki að vera nein rödd í höfðinu" þá kemur engin til með bjarga þér frá þínu eigin lífi. Flestir vakana upp frá innrættum álögum lífsins skömmu áður en ævinni lýkur, hafðu það í huga, og að síðasta dansinn í þessu jarðlífi stígur þú einn.


Hefurðu tíma til að tala?

Sýnist það ekki undarlegt að eftir því sem tækninni fleytir fram við að spara okkur tíma, þeim mun tímastrekktari verðum við. Þegar þetta er skoðað kemur í ljós að samfara tímasparnaði tækninnar er haldið að okkur fleiri tækifærum til að upplifa eitthvað spennandi s.s. að ferðast til ókunnra staða og ótal margt fleira. Það bætast semsagt við fleiri tækifæri á tímalínuna en sem nemur tímasparnaði tækninnar. Aldrei hefur verið eins mikilvægt að átta sig á þessari staðreynd og vera meðvitaður um það að dvelja í núinu, aðeins þar birtast töfrar augnabliksins.

Síðasta mánuðinn hef ég notað í eitthvað nýtt, sem þó er gamalt. Er komin í facebook föstu til þriggja mánaða. Við það eitt varð til tími sem nýttist fyrstu vikuna við að mála gluggana í íbúðinni, en þann tíma hafði ég ekki gefið mér í allan vetur þrátt fyrir góð áform. Sennilega fer þessi facebook fasta á svipaðan veg og þegar ég ákvað að fara í sjónvarps bindindið um árið, sem upphaflega átti að vara í mánuð en framlengdist síðan í þrjá mánuði og nú er svo komið að segja má að ég hafi ekki kveikt á sjónvarpi í sjö ár, það er ekki einu sinni sjónvarp lengur á heimilinu. 

Ég fór að hugsa um þessa tímateppu eftir að hafa hitt gamlan félaga um daginn í byggingavöruverslun, þar sem hann kom vaðandi að mér og sagðist verða að "spaða" mig því það væri svo langt síðan leiðir okkar hefðu legið saman. Við höfðum ekki hitist í næstum tvö ár, en ég vissi samt að hann hafði verið tímabundinn vegna vinnu og hafði frétt að þau hjónin væru nýlega búin að selja húsið sitt sem þau byggðu fyrir meira en 30 árum síðan. Hann sagði að við yrðum að fara að gefa okkur tíma til að fá okkur kaffibolla og í smá spjall. Ég sagði að við skildum bara fá okkur kaffibolla núna, enda kaffihorn fyrir viðskiptavini til staðar í byggingavöruversluninni.

Því miður hafði hann ekki tíma til þess, konan beið eftir honum heima við að pakka niður búslóðinni, auk þess sem hann væri búin að lofa að vera mættur til vinnu fyrir fleiri klukkutímum síðan. Mér varð á að spyrja hvert þau hjónin flyttu eftir að hafa afhent húsið. Þau flyttu nú bara í næsta bæ, sagði hann, en þar ættu þau hús eins og ég vissi, auk þess sem þau ættu hús á Spáni, þau væru nú ekki á hrakhólum hvað húsnæði snerti. En þar fyrir utan væri konan mest nú orðið í Reykjavík þar sem börnin og barnabörnin ættu heima. Ég stillti mig um að tefja þennan gamla vin og félaga með fleiri spurningum, enda sjálfur í vinnunni, en við höfum í gegnum tíðina átt sameiginlega mörg ánægjuleg  augnablikin bæði við leik og störf.

Tímaplön fólks hafa breyst mikið á undanförnum áratugum. Fyrir 40-50 árum síðan var ekki óalgengt að kunningjafólk droppaði fyrirvaralaust í kaffisopa og spjall heima hjá hvort öðru, áður en það þótti ókurteisi að kanna ekki aðstæður fyrirfram með símtali. Nú þykir varla boðlegt að stofna til símtals öðruvísi en kanna það í gegnum textaskilaboð hvort viðkomandi hafi tíma til að tala. Þetta er afleiðing þess að fólk hefur orðið sífellt uppteknara á eigin tímalínu, enda betra að hafa plan ef maður ætlar ekki að verða partur í annarra plani. Fyrir 50 árum voru tímarnir aðrir, hvað þá ef farið er 150 ár aftur í tímann þegar þrjár gestanætur voru óskráð lög hvað kurteisi varðaði. En á þeim tímum var heldur hvorki sjónvarp né útvarp til að spara fólki tíma við fréttaöflun, hvað þá facebook eða snapchat. Hvenær ég frétti næst af félaga mínum eða hitti, er vandi um að spá, þar sem ég hef nú skellt aftur facebook á mína fleiri hundruð vini og hann flutt í annað bæjarfélag.

Því er stundum haldið fram að til sé ákveðin tímalína og ævin sé línuleg frá upphafi til enda. Einkventíma las ég að þetta væri vestræn hugmynd um tímann, en t.d.  Afríkufólk  upplifði tímann á annan hátt, þar snérist tímalínan í hringi líkt og klukka á skífu eða réttara sagt í spíral, maður kæmi alltaf einhvern tíma aftur að tækifærum sem manni væri ætluð. Um það leiti sem ég slökkti á sjónvarpinu um árið fór ég að velta fyrir mér þessum hringtíma. Þetta var ekki sjálfgefið, ég hafði lent í Noregi eins og álfur útúr hól íslensku kreppunnar og hafði ekki nokkurn áhuga á norsku sjónvarpi og hafði því nægan tíma, þó svo norskir vinnufélagar biðu mér þann kostagrip í gríð og erg. Á þessum tíma vann ég með afrískum höfðingja sem kom til Noregs sem flóttamaður. Við vinnufélagarnir af víkingaættum höfðum eitt sinn spjallað um að ákvarðanataka afríska höfðingjans væri um margt undarleg, ég hafði komist svo að orði að það væri ekki að undra, því hann hugsaði í hringi. Þetta fannst norsku víkingunum undarlegt grín.

En málið er að þarna var ekki um grín eða lítilsvirðingu að ræða. Ég hafði átt því láni að fagna að kynnast hringlaga tímaskini Afríkufólks rétt upp úr tvítugt, þegar ég bjó um stund hjá afrískri vinkonu á Spáni. Hjá henni droppuðu margir við, kaffi og gestanætur heyirðu þar enn til almennrar kurteisi. Gestirnir voru fólk frá hennar heimahögum í Afríku, fólk sem nú til dags er kallað flóttamenn, en var á þeim tíma talið ævintýrafólk sem hafði hleypt heimdraganum. Í seinni tíð hef ég oft hugsað til þess hve dýrmætt er að hafa kynnst tímalínu sem fer í hringi. En atvikið sem skýrði dýrmæti þannig tímalínu hringlaði fyrir framan fésið á mér einn daginn í denn.

Tveir gestir höfðu ákveðið með nokkrum fyrirvara að fara í bæjarferð, rétt við blokkina var stopp fyrir strætó. Þeir tóku með sér sambyggt útvarp og kassettutæki með tveimur hátölurum til hlusta á tónlist í bæjarferðinni, enda komu snjallsímar ekki fyrr en 30 árum seinna á tímalínuna. Þegar ég leit fram af svölunum nokkru eftir að þeir kvöddu voru þeir ennþá á stoppistöðinni og hafði þriðji félaginn bæst í hópinn. Mér datt í hug að þeir hefðu misst af strætó, en tók svo eftir að næsti strætó kom og stoppaði án þess að þeir sýndu honum nokkra eftirtekt. Þannig leið tíminn. Strætó kom og fór hring eftir hring án þess að trufla félagana við spjall og góða tónlist. Þegar þeir komu til baka kom í ljós að þeir höfðu hitt vin, sem komið hafði með fyrsta strætó og fór þar út því hann ætlaði niður á strönd. Þarna varð fagnaðarfundur sem eingin þeirra þriggja hafði búist við, og ósvíst hvenær og hvar væri hægt að hittast næst. En mun líklegra var að bærinn og ströndin yrðu á sínum stað daginn eftir með sínum hringsólandi strætó.

Þegar ég set mig með mína vestrænu tímalínu inn í svona óvæntan hitting á strætóstöð rennir mig í grun að deginum hefði ekki verið varið með góðum vini, jafnvel þó svo að báðir hefðu verið að drepa tímann. Maður hefði sennilega rétt gefið sér tíma til að "spaða" vinin og kveðja með þeim orðum að gaman væri að gefa sér stund fyrir spjall við gott tækifæri. En þar sem hann væri á leiðinni niður á strönd og ég í bæinn þá yrði það að bíða betri tíma. Jafnvel þó  báðir hafi verið á ferð með þá von í hjarta að eiga notalega nærveru með góðum vini, sem ætti tíma bæði til að tala og anda.


Dularfullir farvegir mannsandans


Höfuðlausn eða splatter?

IMG_7039

Flugu hjaldrs tranar

á hræs lanar.

Vorut blóðs vanar

benmás granar.

Sleit und freki

en oddbreki

gnúði hrafni

á höfuðstafni.

Sagt er að eftir að útskýrt hefur verið fyrir barni hvað fugl sé, þá muni það aldrei sjá fugl framar, aðeins hugsanir sínar um fugl samkvæmt útskýringunni. Það má segja að eins hafi farið fyrir mér hvað Egilssögu varðar. Þegar hún var fyrst útskýrð fyrir mér í skóla lét kennarinn þess getið að þarna væri um magnaða lygasögu að ræða, ekki væri nóg með að söguhetjan hefði lent á sitt fyrsta fyllerí þriggja ára gömul, heldur hefði hún drepið mann sex ára. Síðan væri söguþráðurinn svo blóði drifin og lýsingar á manndrápum það yfirgengilegar, að hálfa væri miklu meira en nóg.

Egilssaga Skallagrímssonar er saga tvennra bræðra. Þar sem annar bróðirinn í hvoru pari er hvers manns hugljúfi, eftirsóttur af eðalbornum, ljós og fagur; en hinn svartur, sköllóttur, þver og ljótur. Bræðurnir eru annarsvegar, þeir Skallagrímur og Þórólfur, Kveldúlfssynir og svo synir Skallagríms þeir Þórólfur og Egill. Sagan fjallar um örlög ættar á 150 ára tímabili á víkingaöld, glímuna við að ná sínum rétti samkvæmt lögum sem valdhafar setja og breyta jafnharðan ef þeim hentar. Í sögunni falla báðir Þórólfarnir fyrir vopnum á besta aldri, þeir voru hinir hugljúfu, á meðan Skallagrímur og Egill þverskallast til elli. Sagan gerist víða í N- Evrópu, en aðallega þó í Noregi, Englandi og á Íslandi.

Þegar ég las loksins söguna í heild á sextugsaldri, en lét ekki bara útskýringar kennarans næga, þá gerði ég það mér til huggunar þar sem ég var staddur í minni sjálfskipuðu þriggja ára útlegð í Hálogalandi. Söguþráðurinn er eins og kennarinn sagði á sínum tíma, mögnuð saga af drykkju og manndrápum, sem myndi sóma sér vel í hvaða splatter sem er, a la Tarantino. En þó var fleira sem vakti forvitni mína við lesturinn, Hálogaland var nefnilega heimavöllur Þórólfs Kveldúlfssonar. Áhugi kviknaði á að komast að því hvar nákvæmlega í Hálogalandi Þórólfur hafði alið manninn og efaðist ég um að rétt væri farið með það atriði. Á meðan á þeim heilabrotum stóð hitti ég mann sem gjörbreytti viðhorfi mínu til Egilssögu.

Leit minni að Þórólfi Kveldúlfssyni hefur áður verið gerð skil hér á síðunni. En þá hitti ég norðmann sem kunni önnur skil á Agli Skallagrímssyni en kennarinn í denn. Þessi fundur var í Borkenes nágrannabæ Harstad, þar sem ég bjó. Þangað hafði ég verið sendur um tveggja vikna skeið til að laga flísar í sundlaug grunnskólans. Þetta litla sveitarfélag gerði út á að hafa "móttak" fyrir flóttamenn sem þurfa að komast inn í norskt samfélag. Eins er þar "móttak" fyrir þá sem hafa misstigið sig á kóngsins lögum og vilja komast aftur á meðal löghlíðina borgara með því að veita samfélagsþjónustu. Þarna átti ég marga áhugaverða samræðuna.

Síðasta daginn minn í Borkenes höfðum við sammælst um það, fjölbreyttur vinnuhópur móttaksins og íslenski flísalagningamaðurinn, að ég kæmi með hákarl og íslenskt brennivín til "lunsj" í skiptum fyrir vöfflur með sultu. Leifur, sem kannski ekki bar með sér að hafa verið hinn heppni eins og íslenski nafni hans ef marka mátti rúnum rist andlitið, sá um vöfflubaksturinn og heilsaði mér með virktum. "Ja so du er en Islanding kanskje viking som Egil Skallagrimson kommen å hente din arv ". Þarna hélt ég mig hafa himinn höndum tekið við að fá botn í heimilisfang Þórólfs. Spurði því Leif hvort hann hefði lesið Egilssögu; "að minnsta kosti fjórum sinnum" sagði hann. Þegar ég færði Þórólf Kveldúlfsson í tal sagðist hann ekki hafa hugmynd um þann náunga. En eitt vissi hann; "Egil var ikke en kriger han var en poet" (Egill var ekki vígamaður, hann var skáld).

IMG_7037

Síðan fór Leifur yfir það hvernig Egill hefði bjargað lífi sínu með ljóðinu Höfuðlausn, þegar Egill kunni ekki við annað en að heilsa upp á fjanda sinn Eirík blóðöxi, sem  óvænt var orðinn víkinga konungur í York, en ekki lengur Noregskonungur. Til York rambaði Egill í sinni síðustu Englandsferð. Þau konungshjónin (Eiríkur og Gunnhildur) og Egill höfðu eldað grátt silfur árum saman. Hafði Egill m.a. drepið Rögnvald son þeirra 12 ára gamlan, reisti þeim hjónum að því loknu níðstöng með hrosshaus og rúnaristu, þar sem hann hét á landvætti Noregs að losa sig við þá óværu sem þau hjónin sannarlega væru, en virðist hafa sést yfir það að biðja Englandi griða fyrir hyskinu.

Eiríkur náði um Egil eina nótt í York, en fyrir áeggjan Arinbjarnar fóstbróður síns, auk þess sem Arinbjörn var besti vinur Egils, lét Eiríkur Arinbjörn narra sig til loforðs um grið Agli til handa, svo framarlega sem Egill gæti samið eilífa lofgjörð um Eirík. Þá varð til ljóðið Höfuðlausn, sem Eiríkur blóðöxi gat ekki tekið öðruvísi en lofi. Úr þessu ljóði fór Leifur með erindi við vöfflubaksturinn í Borkenes um árið, og sagði svo að endingu að þarna væri allt eins um hreinustu níðvísu að ræða til handa Eiríki.

Þetta vakti áhuga minn á kveðskap Egils sem ég hafði skautað fram hjá sem óskiljanlegu þrugli í sögunni, enda vel hægt að fá samhengi í fyllerí og vígaferli Egils án ljóðanna. Þegar ég las svo Höfuðlausn náði ég fyrst litlum botni í kveðskapinn, en gekk þó betur að skilja hann á ensku en því ástkæra og ylhýra.

Þegar Hálogalandsútlegð minn lauk árið 2014 átti ég eina glímu eftir henni samfara, en þessi útlegð var tilkominn vegna ósættis við bankann. Mér hafði tekist með þriggja ára Noregsdvöl að losa heimilið við óværuna. Og það án þess að reisa níðstöng með hrosshaus, en með því að senda mína hverja einustu norska krónu til þriggja ára í hít hyskisins. En eina orrustu varð ég að heyja til viðbótar. Ég gat nefnilega ekki látið bankanum eftir Sólhólinn við ysta haf, jafnvel þó á honum stæði bara dekurkofi. Vegna ósveigalegrar græðgi fjármálaflanna í skjóli ríkisvaldsins (eðalborinna okkar tíma)gekk hvorki né rak og að endingu kom mér til hugar, Höfuðlausn.

Þetta magnaða kvæði náttúrustemminga og manndrápa, þar sem blóðugur blærinn flytur dauðann yfir láð og lög. Aðeins ef ég gæti ráðið í það hvernig Egill færi að því að bjarga sínu á mínum tímum, því eins og öðrum hverjum manni af Kveldúlfsætt þá geðjast mér ekki að því að vera botnlaus fjáruppspretta aðalsins fyrir lífstíð, enda kannski ekki á öðru von, því ef Íslendingabók Kára fer með rétt mál er ég komin út af Agli Skallagrímssyni. Ég ákvað því að til þess að komast að leyndarmáli lausnarinnar myndi ég mála mynd af kveðskapnum og væri best að stytta sér leið og byrja á höfðinu.

Þess er skemmst að mynnast að byrjunin lofaði ekki góðu, þegar ég hafði gert lítið meira en koma blindrammanum á trönurnar fékk ég hjartaáfall af verri gerðinni, hjarnaði við á hjartadeild. Við tók nokkurra vikna endurhæfing undir handleiðslu hjúkrunarfólks og sálfræðings. Þegar ég færði tildrög minnar ófullgerðu höfuðlausnar í tal við sálfræðinginn var svarið einfalt; þessu skaltu reyna að gleyma þú hefur ekkert þrek lengur í að stofna til orrustu. Myndin lenti ókláruð upp á skáp þó svo hún væri fullkláruð í höfðinu. Það var síðan núna í vetur sem ég tók hana fram aftur og fullgerði hana enda lausnin fyrir löngu fram komin. 

Þegar ég las núna Egilssögu í annað sinn með hliðsjón af myndinni þá átta ég mig á því að lofgjörð Egils í Höfuðlausn er ekki ort til Eiríks blóðöxi. Það sést á  þeim náttúrustemmingum sem ljóðið hefur að geyma að þetta er ljóð um orrustuna á Vínheiði þar sem Þórólfur bróðir Egils lét lífið nokkrum árum fyrir örlagaríku nóttina í York. Sú orrusta hefur verið kölluð orrustan við Brunanburh og mun hafa markað upphafið að nútíma skipan Bretlands. Þar hafði Þórólfur gengið á mála hjá Aðalsteini Englandskonungi ásamt Agli bróður sínum og víkingum þeirra.

Um liðskipan í orrustunni lét Þórólfur Aðalstein konung ráða, við mótmæli Egils, því fór sem fór, þrátt fyrir frækilegan sigur þá lét Þórólfur lífið. Lýsingarnar á Agli þegar hann kom til sigurhátíðar Englandskonungs eru magnaðar. Þar settist hann gengt konungi yggldur á brún, með sorg í hjarta og dró sverð sitt hálft úr slíðrum án þess að segja eitt aukatekið orð og smellti því svo aftur í slíðrin. Aðalsteinn hætti ekki á annað en láta bera gull og kistur silfurs í röðum til Egils um leið og hann þakkaði honum sigurinn. 

Ljóðið Höfuðlausn orti Egill svo í sinni seinni Englandsferð þegar hann fór til að heilsa upp á Aðalstein Englandskonung og herma upp á hann loforð. Í enskri útgáfu ljóðsins má m.a. finna þessar hendingar; 

The war-lord weaves

His web of fear,

Each man receives

His fated share:

A blood-red suns

The warriors shield,

The eagle scans

The battlefield.

----

The ravens dinned

At this red fare,

Blood on the wind,

Death in the air;

The Scotsmens foes

Fed wolves their meat,

Death ends their woes

As eagles eat.

----

Carrion birds fly thick

To the body stack,

For eyes to pick

And flesh to hack:

The ravens beak

Is crimson-red,

The wolf goes seek

His daily bread.

Þetta er varla lofgjörð til nokkurs manns þó svo Egill hafi leyft Eiríki blóðöxi að halda svo um árið í York. Það var rétt með farið hjá Leif í Borkenes að þarna er kveðið argasta níð til rangláts valds. Það er nær að ætla að Egill hafi haft bróðir sinn í huga þegar hann yrkir kvæðið þessa nótt í York. Höfuðlausn sé því í minningu Þórólfs og þeirra Þórálfa sem láta glepjast af gylliboðum um fjárhagslegan frama með þjónkun við það vald sem telur sig eðalborið til yfirgangs og græðgi. 

Þó Höfuðlausn sé tvíeggjað torf og tímarnir aðrir þá en nú á dögum markaðsvæddra svartra föstudaga, lögfróðra og bankstera; er rétt að fara varlega í að útskýra fyrir blessuðu barninu hvers eðlis fuglinn er, og hafa þá efst í huga orð mankynslausnarans. "Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?"

IMG_7797


Síðan hvenær?

Síðan hvenær hefur ríkisstjórnin farið á HM í fótbolta? Ef ég man rétt þá hefur það einu sinni komið upp á að ráðherra hefur farið á kostnað skattgreiðenda til að vera á meiriháttar íþrótta viðburði.

Það var þegar "kúlulánadrottningin" fór ásamt eiginmanni á úrslataleikinn í handbolta á OL 2008, korteri fyrir hrun. Þetta þótti alls ekki sjálfgefið þá, himinhár ferðakostnaður, dagpeningar og alles í boði skattgreiðenda. Enda veitti þeim hjónum víst ekki af sporslunum eins og í ljós kom þegar afskriftareikningurinn var möndlaður skömmu seinna.

Hingað til hefur það þótt nægja að almenningur borgi undir forsetann og frú sem fulltrúa ríkisins þegar leikir sem hafa auglýsingagildi eru á dagskrá. Ætlar sjálftökuliðið að fara að koma þeim sið á að allt heila slektið ferðist á kostnað þjóðarinnar í hvert sinn sem íslenskir íþróttamenn standa sig vel í alþjóðlegum samanburði?

Svo ætti blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina að kynna sér hvar Ólumpíuleikarnir fóru fram 2008 og hvaða stjórnmálamenn voru viðstaddir leikana og af hverskonar völdum. Það má nota google til þess.


mbl.is Viðbrögð Breta „ekki dramatísk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband