Bóndastaðir komnir undir græna torfu

Sandfell í Öræfum

Skáldsagan Öræfi, eftir Ófeig Sigurðsson, hefur að geima grátbroslega frásögn af því þegar bændur í Öræfasveit létu jarðýtu jafna bæinn að Sandfelli við jörðu. En það á að hafa gerst árið 1974, í vikunni áður en hringvegurinn var opnaður. Það þótti ekki boðlegt að láta forseta lýðveldisins sjá heim að Sandfelli þar sem moldarkofar fyrri alda stóðu enn uppi. En forsetin var að koma í sveitina til að klippa á borða á brúnni yfir Skeiðará í tilefni hinna miklu tímamóta í samgöngumálum þjóðarinnar og þá ekki síst Öræfinga. Það grátbroslega var að forseti lýðveldisins var í þá daga Kristján Eldjárn, fyrr um þjóðminjavörður. Ef frásögn bókarinnar er sannleikanum samkvæm þá var síður en svo um einstakan atburð að ræða, jarðýtan var látin varðveita torbæina um land allt samhliða vegagerð.

Það var löngu áður en komst í tísku að tala um umhverfisvernd, sem Íslendingar byggðu umhverfisvæn hús án þess svo mikið sem vita af því. Á öldum áður, í nágrannalöndum, voru torfhús fyrir þá sem ekki höfðu efni á öðru. En á Íslandi voru þau notuð í gegnum aldirnar af allra stétta fólki. Þó svo að það hafi orðið móðins í seinni tíð að tala niður torbæinn með máltækjum á við "að skríða aftur í moldarkofana" þá er torbærinn vitnisburður um íslenska byggingarlist sem hefur vakið verðskuldaða athygli og er talin eiga erindi á heimsminjaskrá. Sumir myndu sjálfsagt álykta sem svo að viðlíka tæki og jarðýta myndi ekki vera notuð nú til dags þegar þesslegar menningarminjar eru annars vegar. En er það svo?

IMG_1830

Sænautasel, heiðarbýli á Jökuldalsheiði, svo kallaður kotbær. Útihús s.s. fjós, hlaða og hesthús er sambyggt íbúðahúsi. Í þessum torfbæ vilja margir meina að Halldór Laxnes hafi fullkomnað hugmynd sína af sögunni Sjálfstætt fólk. Bærinn er vinsæll áningastaður þeirra sem vilja kinna sér sögusvið Bjarts í Sumarhúsum

Einhvern veginn er það rótgróið í þjóðarsálina að líta fram hjá eigin byggingarhefð þegar kemur að varðveislu húsa. Íslendingum er tamt að fyrirverða sig fyrir eigin byggingar, sérstaklega þær sem byggðar eru úr innlendu hráefni. Þeir eru t.d. fáir sem upphefja liðin tíma í húsagerð, ef marka má íslenska orðræðu. Eitt af því sem notað hefur verið til að stytta leið í rökræðum er; "viljið þið kannski aftur í moldarkofana". Önnur stytting sem tengist húsum og er notuð þegar lýsa þarf óskapnaði er orðið „steinkumbaldi". Nú, þegar líður á 21. öldina, virðist vera komið að því að steinkumbaldinn, sem tók við af torfbænum, verði jarðýtunni að bráð víða í sveitum landsins, líkt og torfbærinn á þeirri 20..

Margt sem minnir á hversdagslega notkun alþýðufólks á innlendu byggingarefni á síðustu öld er óðum að hverfa ofan í svörðinn. Í vikunni frétti ég af því að Bóndastaðir hefðu verið jafnaðir við jörðu. Þessi bær var í Hjaltastaðaþinghá, eins og svo margt sem mér þykir  merkilegt. Það hefur vakið sérstaka athygli mína, sem steypukalls, hversu blátt áfram steinkumbaldinn kom til í Hjaltastaðaþinghánni í framhaldi af moldarkofanum. Á Bóndastöðum mátti sjá hvernig ný húsagerð tók við af torbænum, en hafði samt sem áður svipaða húsaskipan og hann, þ.e. íbúðarhús og útihús sambyggð þannig að innangengt var úr íbúðarhúsi í útihús eins og í gömlu torfbæjunum. Bóndastaðir var því athygliveður steinsteyptur bær sem byggður var á árunum 1916-1947.

IMG_2635

Bóndastaðir áttu það sammerkt með Sænautaseli, að innangengt var í útihús s.s. fjós og hlöðu, sem voru sambyggð íbúðarhúsinu.

Það sem helst þótti að steinsteyptu húsunum, sem tók við af torfbæjunum í sveitum landsins, var hversu köld þau voru, og hversu mikið viðhald þurfti. En eitt af því sem þessi hús áttu sammerkt var að þau voru að mestu byggð úr því byggingarefni sem til var á staðnum. Torfið og grjótið var fengið úr túnjaðrinum í torfbæinn, og steypumölin úr næsta mel í steinhúsið. Vitanlega var þetta byggingarefni misjafnt að gæðum eftir því hvar var, en hafði þann kost að flutningskostnaður var hverfandi og auðveldlega mátti nálgast ódýrt efni til viðhalds.

IMG_2633

Þó svo að torfbæir og steinhús til sveita hafi ekki verið byggð sem minnisvarðar þá væri allt í lagi að varðveita eitthvað af þeirri byggingahefð eftir að húsin hafa lokið hlutverki sínu. Oftar en ekki fékk hugmyndaauðgi þeirra sem byggðu og notuðust við byggingarnar að ráða. Það má segja að margar þeirra úrlausna sem notast var við hafi tekið skólaðri verkfræði fram

Það má leiða að því líkum að ef íslendingum hefði lánast að sameina stærstu kosti torfsins og steypunnar hefðu fengist einhver umhverfisvænstu og endingarbestu hús sem völ er á, hlý og ódýr í rekstri hvað viðhald varðar auk þess sem þau hefðu verið laus við slaga og myglu. Þannig húsagerðalist er nú kominn í tísku víða um heim og  eru kölluð earthhouse. það þarf því ekki lengur að finna upp hjólið í því sambandi, einungis að koma steinkumbaldanum undir græna torfu í næsta moldarbarði eða melshorni.

IMG_2621

Bóndastaðabláin verður seint söm án bæjarins

 

IMG 2930

Lítið fer fyrir stórum steinsteyptum beitarhúsum í landi Ásgrímstaða Hjaltastaðaþinghá, byggðum 1949. Húsin eru með heyhlöðum fyrir enda og í miðju. Torf á bárujárnsklæddu timburþaki flest annað steinsteypt s.s. jötur. Þessi hús eiga ekkert annað eftir en verða jarðýtunni að bráð

 

IMG 2867

Nýtnin hefur verið höfð í hávegum við hlöðubyggingu beitarhúsanna, áður en bárujárnið fór á þakið hefur það verið nýtt í steypumótin

 

IMG 2509

 Fjárhúsin með heyhlöðunni að baki, sem byggð voru í flestum sveitum landsins um og eftir miðja síðustu öld eru nú óðum að verða tímanum að bráð. Víða hafa þau þó gengið í endurnýjun lífdaga sem ferðaþjónustu húsnæði. Við þessi hús í Hjaltastaðaþinghánni stendur steypuhrærivélin enn í túnfætinum og melurinn með steypumölinni er á næsta leiti. Húsin eru hátt í 60 ára gömul og á veggi þeirra hefur aldrei farið málningarstroka né önnur veðurvörn


Eru álfar kannski menn?

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er saga af stúlku í Mývatnsveit sem virðist hafa verið komin á samfélagsmiðla löngu áður en tæknin varð til. Hún vissi atburði í öðrum landshlutum svo til um leið og þeir gerðust. Lýsingin á atferli stúlkunnar var samt ekkert sérstaklega geðsleg, sem segir svo sem ekki mikið annað en tíðarandinn hefur breyst. Þar segir m.a.;

En þegar hún þroskaðist meira vitkaðist hún sem aðrir menn að öðru leyti en því að hún var alltaf hjárænuleg og jafnan óglaðvær. Fór þá að bera á því að hún sæi mannafylgjur öðrum framar svo hún gat sagt fyrir gestkomur; en er fram liðu stundir urðu svo mikil brögð að undursjónum hennar að svo virtist sem hún sæi í gegnum holt og hæðir sem síðar mun sýnt verða. Til vinnu var hún næsta ónýt og prjónaskapur var næstum eina verkið hennar. Hún átti vanda til að sitja heilum tímum saman eins og agndofa og hvessa augu í ýmsar áttir innan húss þótt aðrir sæju ekkert er tíðinda þætti vert.

Það má spyrja sig hvort þessi stúlka hafi þá strax haft wi-fi tengingu og snjallsíma auk sjónvarps, sem fólk vissi hreinlega ekki af, tækni sem flestum þykir sjálfsögð í dag. Þannig hafi hún vitað ýmislegt sem öðrum var hulið.

Á öldum áður moraði allt í álfum, ef eitthvað er að marka þjóðsögurnar. Á því hvað um þá varð hefur engin haldbær skýring fengist. Hugsanlega hafa þeir horfið með raflýsingunni, rétt eins og mörg skyggnigáfa mannfólksins, eftir að veröldina fór að fara fram í gegnum upplýstan skjá. Það er t.d. mjög sjaldgæft að álfur náist á mynd, þó segja sumir að það sé meiri möguleiki eftir að digital ljósmyndatæknin hélt innreið sína, sem flestir eru með við höndina í símanum.

Sjálfur er ég svo sérvitur að ég hef ekki ennþá tileinkað mér margt af þessari undra tækni og verð því að nokkru leiti að notast við sömu samfélagsmiðla og fólkið sem umgekkst stúlkuna í Mývatnssveit. Svo forneskjulegur er ég að hvorki er sjónvarp né útvarp í minni nærveru og hefur ekki verið hátt í áratug, hvað þá að ég hafi eignast snjallsíma. Ég þrjóskast samt enn við að halda mig í raunheimum með því að hafa internettengingu og gamla fartölvu svo ég geti fylgst með því sem allir vita.

Þessi þverska mín varðandi framfarir hefur í nútímanum gert mig álíka hjárænulegan og stúlkuna í Mývatnssveit um árið, svo öfugsnúið sem það nú er. Í kaffitímum á mínum vinnustað á ég það t.d. til að rausa við sjálfan mig um bæði forna og framandi atburði, á meðan allir aðrir horfa upplýstir í gaupnir sér og þurfa í mesta lagi vísa lófanum í andlitið á næsta manni og segja sjáðu, til að gera sig skiljanlega.

Hjárænulegastur hef ég samt orðið heima hjá mér. Eftir að hafa gefist upp á því að gera rausið í mér skiljanlegt innan fjölskyldunnar, sat ég þá þegjandi í sófanum líkt og álfur út úr hól. Fjölskyldumeðlimir sátu saman við borðstofuborðið og glugguðu í símunum sínum, á meðan ég starði bara út í bláinn, borandi í nefið. Allt í einu klingdi í hverjum síma og bjarmaði af hverjum skjá upp í andaktug andlitin, allir horfðu kankvísir í sinn síma, án þess að þurfa að segja svo mikið sem sjáðu. Sonur minn hafði náð mynd af sófa-álfi og sent hinum við borðið hana á snapchat.

 


Mannanafnanefnd - nöfn og örnefni

Það hefur sitt sýnst hverjum um tilverurétt mannanafnanefndar. Undir lok síðasta árs fékk yngsti fjölskyldumeðlimurinn nafn sem þurfti að bera undir nefndina. Nafnið gat samt ekki verið íslenskara, enda var það samþykkt. Ævi, dóttur dóttir mín var skírð með þessu fallega nafni, stuttu í stöfum en meiru í merkingu. Sumum brá þegar nafnið varð uppvíst, einhverjir héldu jafnvel að það væri skrifað Ivy og borðið fram æví, samkvæmt engilsaxneskum tíðarandans toga. 

Dóttir mín heitir Snjófríður Kristín, eftir ömmum sínum, og hefur notast við Snjófríðar nafnið.  Eftir því sem ég best veit, er hún ein um að bera nafnið og hefur svo verið frá því hún var skírð. Það mætti kannski ætla að hún hafi ekki verið ánægð með nafnið sitt úr því að hún gefur dóttur sinni nafn sem ekki er sótt til formæðranna. En því er til að svara að það var ekki hún sem fékk hugmyndina af þessu nýja nafni. Það var faðirinn og eiginmaður, en hann kemur frá rómönsku Ameríku og hafði ekki annað í huga en íslensku merkinguna ævi, en á hans spænska móðurmáli merkir orðið "vida" það sama.

Sjálfur er ég það þjóðsögulega sinnaður að finnast það beggja blands að leggja mannanafnanefnd niður, þó svo að stundum þikji smámunasemin mikil. En annað slagið vill svo einkennilega til að það þarf nýja nálgun til að upplýsa það sem liggur í augum uppi en virðist samt sem áður framandi. Fyrir nokkrum árum síðan samþykkti nefndin nafnið Kórekur, sem er ólíkt nöfnum á borð við Snjófríður og Ævi, að því leiti að merking og uppruni liggur alls ekki í augum uppi. 

Kórekur hefur samt verið til á íslenskri tungu frá fyrstu tíð Íslandsbyggðar, þrátt fyrir að þurfa samþykki mannanafnanefndar. Til er t.d. bæjarnafnið Kóreksstaðir í Hjaltastaðaþinghá. Þó þetta bæjarnafn hafi vakið furðu mína strax á unga aldri þegar ég heyrði tvo bekkjarbræður mína í barnaskóla hafa það á orði, þar sem öðrum þótti réttara að bera það fram með skrollandi gormælsku, þá var það ekki fyrr en það kom fyrir mannanafnanefnd að ég fór að grennslast fyrir um hvaðan nafnið gæti verið komið. Við þessa eftirgrennslan mína hef ég lesið sveitarlýsingu, þjóðsögur, austfirðingasögur auk þess að senda Vísindavef Háskóla Íslands árangurslausa fyrirspurn. Eins hefur gúggúl verið þráspurður út og suður. 

Í þjóðsögu Jóns Árnasonar er greint svo frá: "Kórekur bjó á Kórekstöðum í Útmannasveit. Eftir fundinn í Njarðvík, þar sem þeir Ketill þrymur og Þiðrandi féllu, sótti Kórekur karl syni sína óvíga í Njarðvík Fyrir utan bæinn á Kóreksstöðum spölkorn er stakur klettur með stuðlabergi umhverfis, það er kallað Kóreksstaðavígi. Kletturinn er hár og sagt er að ekki hafi orðið komizt upp á hann nema að sunnanverðu. Í þessu vígi er sagt að Kórekur hafi varizt óvinum sínum, en fallið þar að lokum og þar sé hann heygður. Merki sjást til þess enn að einhver hefur verið heygður uppi á klettinum, og hefur verið girt um hauginn. Í minni sögumannsins hefur verið grafið í hauginn og ekkert fundizt nema ryðfrakki af vopni, en svo var það ryðgað að ekki sást hvernig það hafði verið lagað." Frekar snubbót en gefur þó vísbendingu.

Þá var að leita á náðir austfirðingasagna, en í þeim er greint frá Njarðvíkingum og atburðum tengdum Ásbirni vegghamri, miklum garðahleðslumanni sunnan úr Flóa. Reyndar teygja atburðir þessir sig þvert yfir landið inn í allt aðra sögu því þeirra er að nokkru getið í Laxdælasögu, þegar Dalamenn taka á móti Gunnari Þiðrandabana. En í austfirðingasögum má þetta m.a.finna um Kóreks nafnið í atburðarásinni um bana Þiðranda: "Þorbjörn hét maður. Hann var kallaður kórekur. Hann bjó á þeim bæ í Fljótsdalshéraði er heitir á Kóreksstöðum fyrir austan Lagarfljót. Það er í Útmannasveit við hin eystri fjöll. Þorbjörn átti sér konu. Hún var skyld þeim Njarðvíkingum. Hann átti tvo sonu. Hét annar Gunnsteinn en Þorkell hinn yngri. Þorkell var þá átján vetra en Gunnsteinn hafði tvo vetur um tvítugt. Þeir voru báðir miklir menn og sterkir og allvasklegir. En Þorbjörn var nú gamlaður mjög."

Þórhallur Vilmundarson prófessor í íslenskum fræðum og forstöðumaður Örnefnastofnunar frá stofnun hennar árið 1969 til ársins 1988, telur að Kóreks nafnið megi rekja til stuðlabergsbása í klettunum við Kóreksstaði sem hafa vissa líkingu við kóra í kirkjum, og telur Þórhallur að nafn bæjarins sé af þeim dregið, þetta má finna í Grímni 1983. Það verður að teljast ósennilegt að Kóreksstaða nafnið sé dregið af klettum sem hafa líkindi við kóra í kirkjum ef nafnið var þegar orðið til í heiðnum sið á landnámsöld, nema að kirkjunnar menn hafi þá þegar verið búsettir í Útmannasveit. Því bendir tilgáta prófessorsins í fljótu bragði til þess að hann hafi ekki talið Austfirðingasögur áreiðanlegar heimildir. Í þeim er Kórekur sagt auknefni Þorbjörns bónda sem bjó á Kóreksstöðum, hvort bærinn hefur tekið nafn eftir auknefninu eða Þorbjörn auknefni eftir bænum er ekki gott í að ráða, en lítið fer fyrir sögnum af kirkjukórum þessa tíma.

Hvorki virðist vera að finna tangur né tetur af Kóreks nafninu hér á landi fyrir utan það sem tengist þessum sögualdarbæ í Útmannasveit. Kóreksstaðir gæti því allt eins verið örnefni af erlendum uppruna, en samt náskylt kirkjukórakenningu prófessors Þórhalls Vilmundarsonar. Það má jafnvel hugsa sér að nafnið sé ættað frá stað sem á víkingaöld gekk undir nafninu Corcaighe eða "Corcach Mór na Mumhan",sem útlagðist eitthvað á þessa leið "hið mikla mýrarkirkjuveldi" og ekki skemmir það tilgátuna að staðurinn er í mýrlendi rétt eins og bláin við Kóreksstaði. Þetta er staður þar sem klaustur heiags Finnbarr átti sitt blómaskeið og er nú þekktur sem borgin Cork á Írlandi.

Á sínum tíma var pistillinn um Kórek ítarlegri, einnig um bláklæddu konuna, Beinageitina ofl. Þann pistil má sjá hér.


Gildur limur og jarðvegsþjappa

Það getur verið gaman að bera saman mismunandi merkingu orða náskyldra tungumála, s.s. færeysku og íslensku. Á mínum unglingsárum þótti fyndið að hægt væri að verða gildur limur í ríðimannafélagi Færeyja. Seinna eignaðist ég skírteini sem staðfesti að ég væri gildur limur í handverkara félagi Tórshavanar, sem múrari, án þess þó að finnast það vera sérstaklega fyndið. En ég var ekki það lengi í Færeyjum að mér hugkvæmdist  eignast hest og sækja um að fá að vera gildur limur í ríðimannafélagi.

Það er ekki nóg með að spaugilegt geti verið að bera saman mismunandi merkingu orða skyldra mála, einnig má með því leiða að því líkum hversvegna sumt ber óskiljanlegar nafngiftir á móðurmálinu. Og þarf ekki skyld mál til, sem dæmi um það get ég nefnt fjallið Beinageit, sem gægist upp yfir Fjarðaheiðarendann þegar ég lít út um eldhúsgluggann, og er einn af syðstu tindum Dyrfjalla í Hjaltastaðaþinghá. Þó gelíska teljist seint skyld íslensku þá eru mörg orð íslenskunnar sögð úr henni ættuð, s.s. strákur og stelpa.

Freysteinn heitinn Sigurðsson jarðfræðingur taldi sig hafa fundið út hvernig Beinageitar nafngiftin væri til kominn. Upphaflega hefðu allur Dyrfjalla fjallgarðurinn heitið Bhein-na-geit upp á forn gelísku, sem gæti útlagst fjallið með dyrunum, eða Dyrfjöll. Síðar þegar norrænir menn fóru að setja mark sitt á landið hefði legið beinast við að kalla fjöllin Dyrfjöll, en nafnið Beinageit hefði lifað áfram á syðsta tindinum. Landnám Hajaltastaðaþinghárinnar hefur lengi þótt dularfull. Hvorki dregur Beinageitin, né Landnáma úr þeirri dulúð með sinni hrakningasögu af Una "danska" Svavarssyni.

En það er ekki þannig orð sem ég vildi gera skil núna, heldur orð sem er illa séð á íslensku. Þetta orð hefur valdið mér heilabrotum, því lengi hafði ég ekki fundið trúverðugan uppruna þess. Þó svo að orðið megi finna orðabók þá hef ég hvergi séð að málfræðingar hafi lagt sig niður við að útskýra af hverju það er dregið. Þó svo að það væri eins og orðabókin tilgreinir, þá er það hvorki notað í daglegu tali um skjóðu né skinnpoka hvað þá lasleika, - og það sem alls ekki má nefna, - nema vera túlkað í það dónalegri merkingu að enginn vill láta hafa það eftir sér opinberlega. Ef menn voga sér t.d. að nota orðið í sömu setningu og kvenmann þá er nokkuð víst að þeir sem það gera flokkast ekki sem femínistar og varla að þeir fengju inngöngu í feðraveldið, helst að þeir lentu metoo myllunni.

Þetta er semsagt orð sem maður viðhefur ekki ef maður vill vera partur af siðmenntuðu samfélagi. Ég man samt að fyrir áratugum síðan vorum við að vinna saman nokkrir vinnufélagar við að undirbúa bílaplan undir steypu, þegar fram hjá gekk kvenmaður í þyngri kantinum og vildi þá einn vinnufélaginn meina að hún myndi nýtast vel sem jarðvegsþjappa. Viðhafði í því sambandi þetta forboðna íslenska orð. Við hinir urðum vandræðalegir þangað til sá elsti okkar tók af skarið og sagði með þjósti "þetta eru nú meiru helvítis brandararnir". Sem leiðir aftur hugann að því hvaðan orðið brandari er komið. En í stað þess að fara með þessa spekúlasjónir út um þúfur þá ætla ég að halda mig áfram við ljóta orðið.

Það sem mig grunaði ekki þá, var hvað þessi vinnufélagi, fyrir margt löngu síðan, fór hugsanlega nærri uppruna orðsins. Að hjá frændum okkar lengra í austri en Færeyjar væri hvorki um brandara né dónaskap að ræða að hafa þetta orð uppi við þau störf sem við vorum að vinna, að vísu samsett, en það var nú reyndar akkúrat það sem vinnufélaginn gerði í denn.

Það var ekki fyrr en mörgum áratugum seinna þegar ég bjó í Noregi að ég fór að brjóta þetta orð raunverulega til mergjar, og það eftir að hafa varla heyrt nokkurn lifandi mann hafa haft það á orði í áratugi. Það var þegar við Matthildur mín vorum í heimsókn hjá vinafólki. Þar sá hún bát við smábátahöfnina, en bátar fara ekki framhjá sjómannsdætrum, en í þetta skipti var það nafnið á fleyinu, - Hav tussa. Þær kímdu yfir bátsnafninu sjómannsdæturnar, meðan okkur vinunum þótti vissar að þykjast ekki taka eftir því, enda sjálfsagt báðir brenndir af bröndurum forboðinna orða frá því í bernsku.

Það var semsagt hjá frændum okkar í Noregi sem upprunan gæti verið að finna. Þegar við Matthildur keyrðum seinna niður Lofoten, þá gleymdum við að taka með okkur landakort, hvað þá að við hefðum GPS, enda eru flestar okkar ferðir skyndiákvarðanir sem helgast af því hvort sólin sjáist á lofti og hún stendur hæst í hásuður, því auðvelt að rata. En þetta ferðalag var óvenjulegt að því leiti að við þurftum að yfirnátta eins og frændur okkar komast að orði. Þess vegna þurfti að fylgjast með vegvísum þegar leið að kveldi. Þá sáum við vegvísi, sem vísaði á stað, þangað sem ferðinni var ekki heitið. En hvað um það, þetta staðarnafn gaf mér tækifæri til að færa þetta dónalega orð í tal, án þess að vera dónalegur.

Það var semsagt Tussan á Lofoten sem gaf mér tækifæri á að ræða þetta orð við norska vinnufélaga mína. Ég gætti þess að sjálfsögðu vandlega að láta þá ekki vita af tilvist orðsins á íslensku, en spurði hvað það þýddi á norsku. Fyrst könnuðust þeir ekki við að orðið merkti nokkurn skapaðan hlut, þó svo að staður á Lofoten héti þessu nafni. En ég benti þeim þá á að til væri norskur bátur sem bæri nafnið Haf tussa. Þeim elsta rámaði þá í þetta orði, og sagði að það tengdist frekar fjöllum en sjó, reyndar kvenveru, sem byggi í fjöllum, þó ekki nákvæmlega norskri tröllkonu. Til er ljóðabálkur eftir norðmanninn Arne Garborg sem nefnist Haugtussa og er þar kveðið um ást í meinum, tröll og huldufólk í fjöllum.

Það sem mér datt helst í hug eftir þessa eftirgrennslan var að tussa hefði upphaflega verið orð yfir skessu eða skass. Seinna uppgötvaði ég það að verkfæri sem við norsku vinnufélagarnir vorum vanir að vinna með þegar jarðvegur er þjappaður undir steypu, jarðvegsþjappa á íslensku, er kölluð hopputussa á norsku, eða hoppetusse en þegar e-ið er aftan við á það við hvort kynið sem er af þessum huldu verum. Hann var þá kannski ekki eins dónalegur og í fyrstu virtist brandarinn sem vinnufélagi minn sagði um árið.

Nú má segja að þessi pistill sé orðinn tilbúinn undir steypu, ef ekki algjör steypa. Það er samt mín von að  hann forði þeim, sem hafa náð að lesa þetta langt, frá því að þurfa að liggja andvaka yfir þessu forboðna orði. Það er ekki víst að málvísindamenn leggist í rannsóknir á uppruna þess í nánustu framtíð, frekar en fram til þessa.

Tussefolk_(13625489553)


Oft má satt kyrrt liggja, en stundum þarf að tala íslensku

Það er sagt að sá sem tekur til sín annarra peninga ófrjálsri hendi sé þjófur. En annað gegnir um þann sem auðgast á annarra kostnað með reikningskúnstum. Allt snýst þetta um að fara eftir bókhaldsreglunum enda eru peningar ekkert annað en digital talnaverk í bókhaldsformi. Svo er stundum sagt að sá sem kaupir það sem honum vantar ekki ræni sjálfan sig. En hvað á sá að gera sem á meira af peningum en hann þarf? -gefa eftir til þeirra sem þurfa? - ræna sjálfan sig með því að kaupa það sem hann ekki vantar? - eða kannski safna meira talnaverki í bókhaldið? Sumir hafa jafnvel verið staðnir að því að koma sínu bókhaldi í skattaparadís.

Það væri svo sem ekki vanþörf á að skrifa pistil um veruleikafirringu efstu laga samfélagsins en ég nenni því ekki, þrátt fyrir að ofurlaun forstjóra, bónus greiðslna til bankamanna byggða á annarra neyð, sjálftöku stjórnmálamanna í skjóli laga sem þeir setja sjálfir. Á öllum sviðum virðast þetta fólk ekki skilja, að það geti ekki tryggt sjálfum sér margra tuga prósenta launahækkun sem eykur muninn í samfélaginu milli þeirra sem nóg hafa og hinna minna hafa þegar prósentunum hefur verið umbreitt í peninga (því fólk lifir ekki á prósentunum einum saman). Jafnhliða sagt þeim sem að grundvellinum standa, að ef þeir fari fram á sömu prósentutölu í launahækkun (takið eftir ekki einu sinni sömu krónutölu) að þá fari allt á hvolf.

Í staðinn fyrir að eyða orku og orðum á þá brjóstumkennanlegu vesalinga, sem sópa til sín margfalt meiru en þeir þurfa, ætla ég að segja sögu af æskufélaga. Þessi æskufélagi minn er um margt merkilegur maður. Það er ekki nóg með að hann hafi hætt í skóla við fyrsta tækifæri, einnig heldur hann því blákalt fram að að hann hafi losnað við að verða fjárglæframaður vegna þess að hann var færður upp um bekk eftir að hafa með einhverju móti komist undan því að hefja nám á tilsettu ári skólaskyldu í barnaskóla. En þeir sem voru í bekknum sem hann var færður úr lærðu mengi og í þeim árgangi segir hann að megi finna flesta helstu ógæfumenn landsins. Þessi félagi minn hefur, þrátt fyrir menntunarleysi og alþýðleg störf, orðið sér út um flest það sem hugur fjárplógsmanna í upphafi girnist, s.s. einbýlishús, einkaflugvél og góða bíla.

Þessi félagi hefur alltaf verið hreinskiptinn jafnt í orði sem á borði og eftirsóttur þrátt fyrir að stundum megi ætla að sviðið gæti undan hreinskilninni. Um daginn hringdi hann í mig og bað mig að koma hið snarasta þangað sem hann var að vinna og sagði að þar þyrfti að bjarga málum föflulaust. Það þurfti að gera ramp upp í útidyr fyrir þá sem notast við göngugrind á hjólum, ekki væri boðlegt að láta þá naga þröskuldinn hjá opinberu þjónustufyrirtæki. Það hafði vafist fyrir þeim sem áttu að taka ákvörðunina hvernig rampurinn skildi úr garði gerður vegna öryggisreglna, en nú þurfti skjót handtök því herlegheitin ætti að taka í notkun daginn eftir. Engin hafði verið tilbúinn til að taka ákvörðun um að gera ramp sem ekki hlyti stífustu öryggisreglum, en aðgengi samkvæmt reglugerðinni var ekki viðkomið nema skipta bæði um dyr og umhverfi hússins, sem krafðist meiri tíma og undirbúnings en í boði var.

Hann hafði á orði þegar ég kom, að það væri alltaf um sömu helvítis ákvörðunarfælnina að ræða ef ekki væri allt á sama sentímetranum eftir bókinni, þó svo að ákvörðunin sem þyrfti að taka blasti við öllum. Það hefði aldrei vafist fyrir honum að taka ákvörðun, þó svo að hann fengi ekkert borgað fyrir það, og auðvitað útbjó ég rampinn því það var augljóst að fólk sem á erfitt um gang þarf að komast á pósthús þó svo að hátt sé upp í dyr með sjálfvirkum  opnunarbúnaði, sem er ætlaður fleirum en handlama viðskiptavinum og losar þannig starfsfólk undan því að hlaupa til dyra og opna fyrir þeim sem eru með fullt fangið af bögglum.

Þegar breytingarnar á þessu húsnæði hófust þurfti að fjarlæga gólfefni, sem var einstaklega fast og seinlegt að fjarlæga. Helstu annmarkar við að fjarlæga efnið var mikill hávaði sem myndi vara dögum saman. Mönnum datt fljótlega í hug að fljótlegast væri að nota beltagröfu með sérútbúinni stálsköfu á skóflunni til að skrapa það upp. Morguninn sem aðgerðin hófst var ég staddur á bensínstöð í nágeninu þegar upphófust skerandi óhljóð. Seinna um daginn hitti ég mann sem hafði verið sofandi í nærliggjandi íbúðarhverfi sem sagðist hafa hrokkið upp og haldið að hann væri staddur í Jurassic Park.

Eftir að hafa dælt bensíni á bílinn gerði ég mér ferð til að kanna hversu vel gengi að ná gólfefninu af, ekki hafði ég mig inn í hávaðann, heldur stóð út á stétt og horfði inn um gluggann. Þá kom til mín forstöðumaður Vinnueftirlitsins en það er einmitt með starfstöð á hæðinni fyrir ofan. Hann spurði mig ábúðarfullur á milli risaeðlu öskranna hvað langan tíma þetta tæki. Mér varð fátt um svör en muldraði eitthvað í einu öskrinu sem hann heyrði ekki. Í því koma til okkar félagi minn ásamt einum eigenda fyrirtækisins sem við vinnum hjá, og ég notaði tækifærið til að laumast í burtu.

Stuttu seinna hitt ég þann sem var með félaga mínu og spurði hvernig þetta hefði farið. Hann sagði að forstöðumaður eftirlitsins hefði fljótlega snautað í burtu. Félagi minn hefði sagt honum það að ef þau gætu ekki unnið vegna hávaða á hæðinni fyrir ofan skildu þau bara koma sér heim, það væri hvorteð er engin að bíða eftir því sem þau væru að gera.


mbl.is Katrín svarar athugasemdum ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blindfullur í berjamó

Það var eitt sinn að verslunareigandi setti miða í gluggann á búðinni sinni sem á stóð "lokað í dag - farinn í berjamó". Þetta gerðist fyrir mörgum áratugum síðan þegar ég var á barnsaldri í mínum heimabæ. Sumir vildu meina að verslunareigandinn væri alls ekki í berjamó heldur væri hann blindfullur. Hvort sem hann var fullur eða ekki þegar hann lokaði sjoppunni þá sýnir tilkynningin í glugganum anda þessa tíma vel. Þó svo hvorki þá né nú sé auðvelt að vera fullur við að tína ber, þá þótti í þá tíð góð berjaspretta eðlileg afsökun fyrir því að loka sjoppu.

Nú á tímum sjást hvorki né heyrast svona tilkynningar, en oft verður vart við tilkynningar um að "sjoppunni" hafi verið lokað vegna árshátíðarferða starfsfólks. Enda kannski eins gott að fólk taki ekki upp á því að verða sér út um ókeypis bláber nú á dögum kjararáðs. Rétt betra að sýna þegnskyldu, og vinna til sinna launa fyrir skatt og fara síðan með útborgunina í sjoppuna til að kaupa berin með virðisaukaskatti. Auk þess gætu hlaupabrettið í ræktinni og slakandi sólarlandaferðin verið í uppnámi ef fólk tæki upp á því að fara frítt í berjamó, og hagvöxturinn þar með farið norður og niður. 

Fyrir nokkru gerði ég grein fyrir tilraun um það hvort eitthvað væri til sem gæti kallast ókeypis hádegisverður, um hana má lesa hér. Þessi tilraun átti að standa sumarlangt og stendur því enn. Ég hafði jafnframt á orði að vel gæti verið að seinna í sumar yrði greint nánar frá þessari tilraun. Þess er skemmst að geta að illgresi s.s. fífla, hundasúrur og njóla mátti éta eins og hvern annan herramanns mat fram undir miðjan júní, en á þeim matseðli hófst tilraunin, eftir það fór þetta grænmeti að verða fullgróft undir tönn og beiskt fyrir tungu og njólinn þar að auki farin að tréna.

IMG_0249

Íslenskt góðgæti - rabbabaragrautur með aðalbláberjum, skyrslettu og rjóma

Síðan hefur rabbabari verið einn aðalrétturinn á matseðlinum þegar kemur að guðs grænni náttúrunni, enda rabbabari orðin því sem næst villt illgresi, því víða má finna rabbabara akra í órækt þar sem áður voru mannabústaðir. Þar að auki prófaði ég arfa í salat en þesskonar salat hafði ég fengið sem barn og minnti að væri gott, en fannst nú of mikið grasbragð.

Eins reyndi ég við beiska og bragðsterka hvönnina aftur með því að gera úr henni pesto í stað salats, en það reyndist verulega bragðsterkt þannig að best fór á að nota pestóið í kryddlög fyrir lambakjöt. Lerkisveppi hirti ég fyrir nokkru síðan, það tekur ekki nema nokkra mínútur að verða sér út um mörg kíló, þá steikti ég í smjöri og helti svo út á hrærðum eggjum og borðaði sem aðalrétt í tvígang, fannst þeir betri í seinna skiptið. Annað hefur verið prófað í mýflugumynd s.s. að stinga upp í sig fjöruarfa og skarfakáli á förnum vegi.

Það sem kerlingabækurnar segja um næringargildi og lækningarmátt íslensks illgresis stenst fullkomlega væntingar, enda fæst hálf hollustan við það eitt að höndla stöffið út í Guðs grænni náttúrunni. Og þó það skipti ekki höfuð máli, þá má komast nálægt því að verða sér út um "frían hádegisverð", sem er herramanns matur, en maður skildi samt ekki sleppa því alveg að nota hugarflugið, rúsínur og bónustrix  til að bragðbæta  herlegheitin. Núna er árstíð berjanna í hámarki og sprettuna hef ég aldrei séð meiri. Hægt var að tína fullþroskuð aðalbláber upp úr 20. júlí. Bláberin eru sögð full af andoxunarefnum og geta því verið ágæt vörn við ýmsum meinum t.d. til að vinna á slæmri blóðfitu og halda mönnum allsgáðum því þau verða ekki tínd á fylleríi.

Það er af sem áður var að "sjoppunni" sé lokað vegna góðrar berjauppskeru, maður verður jafnvel var við færri í berjamó en var fyrir örfáum árum síðan. Nú eru margir sennilega uppteknari við lífsins gæðastundir, með ljúfum vínum á erlendum sólarströndum eða við að ná niður gistanáttakostnaðnum af skuldahalanum. En til að njóta berjamósins þarf að gefa sér tíma, því ekki er hægt að kaupa tíma augnabliksins þegar sól skín í heiði og berin eru blá. Sennilega er sá tími sem er keyptur oft kallaður gálgafrestur, einmitt þess vegna.


Grímsey 66°N

Grímsey

Það þarf oft ekki langan aðdraganda að góðu ferðalagi. Reyndar eru bestu ferðalögin sjaldnast plönuð þau bara verða til á leiðinni. Í síðustu viku var ég spurður hvort við hjónin vildum út í Grímsey, svarið varð að liggja fyrir 1, 2 og 3 því sá sem spurði var með tvo síma í takinu og í hinum var verið að ganga frá bókun í bát og gistingu. Auðvitað varð svarið já, og þó svo spáin væri ekki góð þá kom aldrei annað til greina en að ferðaplanið væri gott. Að vísu hafði ég lofað mér í steypuvinnu í vikunni, og samkvæmt plani veðurfræðinganna var steypudagur ekki fyrr en á fimmtudag, en það var akkúrat dagurinn sem planið var að sigla út í Grímsey. Svo klikkaði veðurspáin og steypt var s.l. á þriðjudag þannig að ég hafði ekki lofað neinu upp í ermina.

Fimmtudagsmorgunninn rann svo upp bjartur og fagur á Dalvík þvert ofan í nokkurra daga veðurspána, en það er frá Dalvík sem Grímseyjarferjan Sæfari gengur. Það tekur um 3 tíma að sigla út í Grímsey og var útsýnið af dekkinu magnað á svona björtum degi. Þegar komið er út fyrir Hrísey blasti Látraströndin við til hægri og Ólafsfjarðamúlinn til vinstri og eftir að komið er út úr Eyjafirðinum sást inn í Fjörðu á milli Skjálfanda og Eyjafjarðar, austur með landinu allt austur á Melrakkasléttu og vestur með því eins og augað eygði. Og þó svo að maður hafi ekki upplifað glampandi kveldsólareld þá var gott að sleikja morgunnsólina á Grímseyjarsundi.

IMG_9852

Á Grímseyjarsundi Ólafsfjarðarmúli og Ólafsfjörður fyrir miðri mynd

Þegar út eyju var komið þá fóru ævintýrin að gerast. Óvænt var tekið á móti okkur af Göggu eiganda gistihússins á Básum og okkur keyrt í gegnum þorpið út í iðandi kríugerið, en ef einhver man ekki hvernig kría lítur út þá ætti hann að fara til Grímseyjar og þá mun hann aldrei gleyma hvernig kría er útlits. Gagga gaf okkur ótal heilræði varðandi hvað væri áhugvert í eynni s.s. gönguleiðir út og suður, hvar Emilíuklappir væru, bauðst til að lána okkur bíl ef fæturnir væri lúnir ofl. ofl.. Eins gaf hún okkur örstutta innsýn í líf fólksins og sagði "það er gott að þið komuð á meðan þetta er ennþá eins og það er" en þeim fækkar "originölunum" sem eru í Grímsey árið um kring.

Þó svo plönuð hafi verið í Sæfara stutt hvíld þegar komið yrði á gistihúsið að Básum, varð ekkert úr því enda upplýsingar Göggu þess eðlis að betra væri að sitja ekki heima og lesa. Ég varð viðskila við samferðafólkið í þorpinu þar sem er verslun, veitingastaður, mynjagripaverslun og kaffihús, auk þess sem þennan dag voru hundruð ferðamanna á götunum úr erlendu skemmtiferðaskipi sem lá rétt utan við höfnina. Ég tók strikið austur í kríugerið og ákvað að komast á Emilíuklappir. Eftir að hafa fundið þessa náttúrusmíð neðan við stuðlabergsstapann og mátað mig á gólfið með rituna gaggandi upp á hamraveggjunum, áttaði ég mig á því að samferðafólkið myndi ekki hafa hugmynd um hvað um mig hefði orðið.

IMG_0178

Krían er áberandi í Grímsey á sumrin, sumir innfæddir segjast vera búnir að fá nóg af söngvunum hennar

Eftir svolítinn tíma birtist félagi minn á rölti eftir bakkanum, um sama leiti renndi að okkur pickup í háu grasinu og mikilúðlegur maður spurði hvaða erindi við ættum hér. Hann væri kominn í umboði eigenda landsins til að rukka okkur um skoðunargjald. Svo hló hann tröllahlátri og spurði hvort ekki mætti bjóða okkur í siglingu í kringum eyjuna, veðrið væri ekki til að spilla útsýninu af sjó, upp í björgin. Við þáðum það, en sögðumst þurfa að finna samferðafólkið og koma því með okkur í siglinguna. Eftir að hópurinn hafði sameinast göngulúinn og fótafúinn var skakklappast af stað en hvíldarpása tekinn á kirkjugarðsveggnum.

Siggi, sá sem til siglingarinnar hafði boðið, kom þá keyrandi og selflutti hópinn niður á bryggju þar sem klöngrast var um borð í Sóma hraðfiskibát. Síðan var allt gefið í botn út úr höfninni, skemmtiferðaskipið hringsiglt, og haldið ausur með Grímsey, tekin salíbuna með mannskapinn súpandi hveljur á milli skerja, gónt upp í himinhá björgin þar sem Bjarni faðir Sigga háfaði lundann, orðinn 88 ára gamall. Rollurnar ferðuðust um bjargbrúnirnar eins og þar væru engar lundaholurnar, en sá fugl raðar sér í hvert barð allt í kringum eyjuna. Þessi sigling tók öllum sólarlandaferðum fram þó svo að farið hafi verið norður yfir heimskautsbaug.

IMG_0033

Undir fuglabjörgunum

Þegar í land var komið þökkuðum við Sigga fyrir siglinguna með handabandi og kossi, eftir því hvort var viðeygandi, því ekki var við það komandi að koma á hann aurum. Á eftir var farið á veitingahúsið, sem ber það frumlega nafn Krían en ekki The Arctic Tern eins og er í móð á meginlandinu. Þar var snæddur listilega steiktur lundi, nýlega háfaður og snúinn, eftir því sem matseljan upplýsti aðspurð. Eftir matinn var skakklappast út í gistihúsið að Básum enda viðburðaríkur dagur gjörsamlega að niðurlotum kominn.

Morguninn eftir vaknaði ég fyrir allar aldir til að taka sólarhæðina í kríuskýinu. Við morgunnverðar borðið spurði Gagga hvort fótafúinn hópurinn vildi ekki bíl til að komast langleiðina norður á eyjuna að kúlunni sem markar hvar 66°N liggur. Það var þegið og þá var farin sú ferð sem flestir sem koma til Grímseyjar telja tilgang ferðarinnar, þ.e. að eiga mynd af sér á heimskautsbaug og skjal sem staðfestir komuna þangað.

IMG_9933

Horft til lands frá kirkjugarðinum

Flestum dugar þeir örfáu klukkutímar sem Sæfari stoppar í hverri ferð út í Grímsey til að skottast út að heimskautsbaug. En ekki var það svo með okkur fótafúnu vesalingana frekar en með danska parið sem var á gistihúsinu um leið og við. Þau höfðu komið í fyrra og fattað að ekki væri þess virði að leggja á sig þriggja tíma ferð til Grímseyjar fyrir heimskautsbauginn einann, jafnvel þó því fylgi skjal og selfí. Því höfðu þau komið aftur þetta sumarið til upplifa eyjuna í eina viku. Enda,,, ef þessu væri snúið við,,, hver leggur á sig þriggja tíma flug til Kaupmannhafnar fyrir selfí á Ráðhústorginu, og svo spretthlaup í næstu flugvél til baka.

Þó svo að í upphafi viku hafi ekkert ferðalag staðið til þá breyttust planið með hverjum degi þar til komið var norður fyrir 66°N. Áður en Grímsey var kvödd, eftir  örstutta heimsókn, þá fengum við enn frekar að njóta höfðinglegra móttöku heimafólks, okkur var boðið í kaffi og kökur á Grímseysku heimili, því smá tími gafst þar til Sæfari sigldi til lands. Þegar eyjan var kvödd rann í gegnum hugann hversu original gamla íslenska gestrisnin er, og hversu vel hún lifir út í Grímsey, það er engu líkara en eyjaskeggjar séu ósnortnir af ferðamannaiðnaði nútímans, gangi það eitt til að sýna áhugasömum eyjuna sína fögru með væntumþykju og stolti. 

 IMG_9881

Höfnin í Grímsey

 IMG_0165

Vitinn úti við nyrsta haf

IMG_9918

Ritubjargið og Emilíuklappir

 66°N

Á norður- og austurströnd Grímseyjar eru há björg, en suður- og vesturströndin er lægri  

IMG_0112

Áður fyrr voru 10 býli í Grímsey, hvert býli átti sitt fuglabjarg. Nú hafa verið settir staurar sem afmarka björgin því engin vissi nákvæmlega hvar mörkinn lágu, nema hinn 88 ára gamli öldungur sem enn háfar lundann í sínu bjargi 

 Lundar

Lundinn raðar sér á allar bjargbrúnir

 Krummi

Krummi krúnkaði á Básabjargi, Grímsey er hæst 105 m 

IMG_0104

Ó jú, víst komumst við norður fyrir kúlu


Enn ein steypan

IMG_7264

Undanfarin ár hefur það komist í tísku að firðir séu þveraðir, eins og er kallað. Vegagerðin hefur að einhverjum ástæðum séð hag í að hafa vegstæðið út í sjó. Enda túnblettir og teigskógar verðmætari en svo í víðfeðmum auðnum landsins að þeim sé fórnandi undir malbik. Vegagerðin hefur því hannað hvert verkfræðiundrið á fætur öðru út á botnlausum flæðileirum og notað trukka og pramma við að koma fjallshlíðum á haf út.

IMG_7281

Eitt af þessum undrum er í botni Berufjarðar. Þó svo að stytting hringvegarins sé einungis nokkrar mínútur við þennan gjörning, þá þótti til þess vinnandi að sigrast á leirunni í botni Berufjarðar. Reyndar var þjóðvegur nr.1 nánast við sama tækifæri fluttur um "firði" og lengdist því talsvert. Hægt hefði verið að stytta Þjóðveg nr.1 um tugi km með því að sleppa því að beygja út á Berufjarðarleiruna og halda þess í stað þráðbeint áfram þjóðveg nr.939 um Öxi.

IMG_7277

Vegurinn í botni Berufjarðar á að vera tilbúinn fyrir umferð 1. september næstkomandi. Erfiðlega hefur gengið að ráða við vegstæðið út á leirunni þar sem hún er botnlausust og verður að koma í ljós hvort sú barátta vinnst í þessum mánuði, annars er hætt við að ekki verði klippt á neinn borða um næstu mánaðamót.

IMG_9771

Í gær var brú steypt út á leirunni þar sem Berufjarðará á að fá framrás auk flóðs og fjöru. Eins og allir vita sem inn á þessa síðu líta reglulega, þá er höfundur hennar einstakur steypuáhugamaður, ef ekki steypukall. Og þó svo að hann sé orðinn gamall, grár, gigt- og hjartveikur þá fékk hann að fljóta með í steypunni, því einhver verður að verða brjálaður í steypu ef vel á að ganga. Reyndar stóðu steypukallarni sig svo vel að vera mín var því sem næst þarflaus og tók ég því þetta video af gjörningnum.


Út á landi í svörtum sandi

Þó að ferðlög séu oft tengt sumarfríi þá þarf svo alls ekki að vera. þetta sumarið hefur verið þannig veðurfarslega vaxið að ekki hefur verið ástæða til að ferðast um langan veg innanlands hvað þá til útlanda. Eins og svo oft áður hefur sumarfríinu verið varið austanlands. Þá er gott að eiga aðgang að ævintýralandinu Útlandi, eigra um svört sundin á milli eyja þar sem aldan blá blikaði áður fyrr. Sund sem nú eru full af svörtum sandi og melgresishólum.

IMG_1431

Djúpivogur við enda regnbogans

Undanfarna áratugi hef ég notið ævitýralandsins sumar sem vetur, og meðan ég bjó á Djúpavogi þurfti ég ekki annað en fara rétt út fyrir dyrnar. Nú í seinni tíð hafa ferðamenn uppgötvað þetta undraland, og ég að ævin endist ekki til að fullkanna það. Ég ætla reyna að segja í örstuttu máli og með fáeinum myndum frá ævintýralandinu sem kallað er Útland, en að fara "út á land" af innfæddum, það eru eyjar í svörtum sandi syðst á Búlandinu þar sem þorpið á Djúpavogi stendur.

Í þessum sandeyjaklasa má finna Orkneyjar, Hrísey, Úlfsey, Hvaley, Sandey, Hafnarey, Kálk og Kiðhólma svo einhverjar séu nefndar á nafn. Þessar fyrr um eyjar hafa sennileg verið taldar til Þvottáreyja á öldum áður. En eru nú orðnar landfastar við Búlandið sem gengur á milli Hamarsfjarðar og Berufjarðar. Ekki eru nema 100-150 ár síðan að það þurfti að sigla á milli flestra þessara eyja.

Stækka má myndirnar með því að klikka á þær.

Út á landi

Á flugi með Stefáni Scheving um borð í TF-KHB í mars s.l.

Nú nær sandrif sunnan úr Álftafjarðarfjörum þvert fyrir Álftafjörð og eru hinar eiginlegu Þvottáreyjar orðnar örfáar í minni Hamarsfjarðar, s.s. Eskey, úti í hafinu eru svo aðrar eyjar, Ketilboðaflis og Papey, sem verður sennilega langt í að verði sandinum að bráð. Eyjarnar Stórey, Kjálki, Hróðmundarey og Hundshólmi eru nú orðnar landfastar sandrifinu Álftafjarðar megin en Hamarsfjarðar megin á Búlandinu eru flestar eyjar landfastar, einungis blá sund eftir á milli skerja og boða. 

Það er ekki lengra síðan en um 1600 sem aðalhöfnin á Búlandinu var Fúlivogur sem Brimar kaupmenn höfðu á sínum vegum. Siglt var inn í Fúlavog úr minni Hamarsfjarðar á milli innri og ytri Selabryggja. Árið 1589 fengu Hamaborgarkaupmenn kónginn í Kaupannahöfn til að veita sér verslunarleyfi á Djúpavogi við Berufjörð. Talið er að rentukamerið í Kaupmannhöfn hafi ekki áttað sig á að þarna var um sama staðinn að ræða og bjuggu því íbúar í nágrenni Djúpavogs við fágæta samkeppni í verslun um það leiti sem einokunarverslun hófst á Íslandi.

IMG_9360

Selabryggjuhólmar séðir frá flugvellinum

 

IMG_9341

Þar sem áður voru blá blikandi sund á milli eyja

 

IMG_9313

Svartur sandur, blikandi haf og Ketilboðaflis

 

IMG_9319

Stólpar á milli Sandeyjar og Kálks, Kálkur í baksýn

 

IMG_1467

Gengið upp á Sandey, greina má klettótta strönd Úlfseyjar í baksýn, og Strandafjöllin við norðanverðan Berufjörð

 

IMG_6723

Það skiptir ekki máli hvort ævintýralandið, út á landi, er skoðað sumar eða vetur; í þoku eða krapaéljum, alltaf er eitthvað skemmtilegt að sjá s.s. hreindýr við hústóft í Hrísey

 

Í minni Hamarsfjarðar á milli örfárra núverandi Þvottáreyja fer útfallið úr Álftafirði og Hamarsfirði, á fallaskiptum flóðs og fjöru. Straumurinn á fallaskiptum er líkur stórfljóti svo víðfeðmir eru þessir firðir.  Vegna þessa straumþunga hafa Álftafjörður og Hamarsfjörðu ekki enn orðið að stöðuvatni. Á myndbrotinu hér á eftir má sjá æðarkollurnar skemmta ungunum sínum í straumþungu útfallinu í Holusundi við Kiðhólmann.

 

ornefni_utland_small

Hér má nálgast kort af Útlandi. 


Follow the money

Undanfarin misseri hefur auðmaðurinn Jim Ratcliffe staðið í umfangsmiklum uppkaupum á landi. Þessi landakaup eru af þeirri stærðargráðu að fyrirhugaður golfvöllur (sem átti að ná yfir um 0,3% Íslands) hins kínverska Nupos á Grímsstöðum á fjöllum er hreinir smámunir.

Auðmaðurinn Ratcliff og félög hans eiga orðið stóran hluta af norðaustur hluta Íslands í gegnum fléttu eignarhalds og veiðifélaga. Heyrst hefur af nýlegum tugmilljóna uppkaupum á Hárekstaðalandi (landmikið heiðarbýli löngu komið í eiði) sem er á Jökuldalsheiði.

Það má spyrja hvort það sé ekki mikið fagnaðarefni að fá slíkan náttúrverndarsinna með peningana sína. Svo má líka nota gömlu aðferðina og spyrja hversu náttúruvænn maðurinn raunverulega er með því að fylgja slóð peninganna sem notaðir eru til uppkaupa á stórum hluta Íslands.

Fracking and chemicals billionaire Jim Ratcliffe increased his wealth by more than £15bn last year to take the crown as Britain’s richest person, with a £21bn fortune, meira,,,


mbl.is Framlag til villtar náttúru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband