Bóndastaðir komnir undir græna torfu

Sandfell í Öræfum

Skáldsagan Öræfi, eftir Ófeig Sigurðsson, hefur að geima grátbroslega frásögn af því þegar bændur í Öræfasveit létu jarðýtu jafna bæinn að Sandfelli við jörðu. En það á að hafa gerst árið 1974, í vikunni áður en hringvegurinn var opnaður. Það þótti ekki boðlegt að láta forseta lýðveldisins sjá heim að Sandfelli þar sem moldarkofar fyrri alda stóðu enn uppi. En forsetin var að koma í sveitina til að klippa á borða á brúnni yfir Skeiðará í tilefni hinna miklu tímamóta í samgöngumálum þjóðarinnar og þá ekki síst Öræfinga. Það grátbroslega var að forseti lýðveldisins var í þá daga Kristján Eldjárn, fyrr um þjóðminjavörður. Ef frásögn bókarinnar er sannleikanum samkvæm þá var síður en svo um einstakan atburð að ræða, jarðýtan var látin varðveita torbæina um land allt samhliða vegagerð.

Það var löngu áður en komst í tísku að tala um umhverfisvernd, sem Íslendingar byggðu umhverfisvæn hús án þess svo mikið sem vita af því. Á öldum áður, í nágrannalöndum, voru torfhús fyrir þá sem ekki höfðu efni á öðru. En á Íslandi voru þau notuð í gegnum aldirnar af allra stétta fólki. Þó svo að það hafi orðið móðins í seinni tíð að tala niður torbæinn með máltækjum á við "að skríða aftur í moldarkofana" þá er torbærinn vitnisburður um íslenska byggingarlist sem hefur vakið verðskuldaða athygli og er talin eiga erindi á heimsminjaskrá. Sumir myndu sjálfsagt álykta sem svo að viðlíka tæki og jarðýta myndi ekki vera notuð nú til dags þegar þesslegar menningarminjar eru annars vegar. En er það svo?

IMG_1830

Sænautasel, heiðarbýli á Jökuldalsheiði, svo kallaður kotbær. Útihús s.s. fjós, hlaða og hesthús er sambyggt íbúðahúsi. Í þessum torfbæ vilja margir meina að Halldór Laxnes hafi fullkomnað hugmynd sína af sögunni Sjálfstætt fólk. Bærinn er vinsæll áningastaður þeirra sem vilja kinna sér sögusvið Bjarts í Sumarhúsum

Einhvern veginn er það rótgróið í þjóðarsálina að líta fram hjá eigin byggingarhefð þegar kemur að varðveislu húsa. Íslendingum er tamt að fyrirverða sig fyrir eigin byggingar, sérstaklega þær sem byggðar eru úr innlendu hráefni. Þeir eru t.d. fáir sem upphefja liðin tíma í húsagerð, ef marka má íslenska orðræðu. Eitt af því sem notað hefur verið til að stytta leið í rökræðum er; "viljið þið kannski aftur í moldarkofana". Önnur stytting sem tengist húsum og er notuð þegar lýsa þarf óskapnaði er orðið „steinkumbaldi". Nú, þegar líður á 21. öldina, virðist vera komið að því að steinkumbaldinn, sem tók við af torfbænum, verði jarðýtunni að bráð víða í sveitum landsins, líkt og torfbærinn á þeirri 20..

Margt sem minnir á hversdagslega notkun alþýðufólks á innlendu byggingarefni á síðustu öld er óðum að hverfa ofan í svörðinn. Í vikunni frétti ég af því að Bóndastaðir hefðu verið jafnaðir við jörðu. Þessi bær var í Hjaltastaðaþinghá, eins og svo margt sem mér þykir  merkilegt. Það hefur vakið sérstaka athygli mína, sem steypukalls, hversu blátt áfram steinkumbaldinn kom til í Hjaltastaðaþinghánni í framhaldi af moldarkofanum. Á Bóndastöðum mátti sjá hvernig ný húsagerð tók við af torbænum, en hafði samt sem áður svipaða húsaskipan og hann, þ.e. íbúðarhús og útihús sambyggð þannig að innangengt var úr íbúðarhúsi í útihús eins og í gömlu torfbæjunum. Bóndastaðir var því athygliveður steinsteyptur bær sem byggður var á árunum 1916-1947.

IMG_2635

Bóndastaðir áttu það sammerkt með Sænautaseli, að innangengt var í útihús s.s. fjós og hlöðu, sem voru sambyggð íbúðarhúsinu.

Það sem helst þótti að steinsteyptu húsunum, sem tók við af torfbæjunum í sveitum landsins, var hversu köld þau voru, og hversu mikið viðhald þurfti. En eitt af því sem þessi hús áttu sammerkt var að þau voru að mestu byggð úr því byggingarefni sem til var á staðnum. Torfið og grjótið var fengið úr túnjaðrinum í torfbæinn, og steypumölin úr næsta mel í steinhúsið. Vitanlega var þetta byggingarefni misjafnt að gæðum eftir því hvar var, en hafði þann kost að flutningskostnaður var hverfandi og auðveldlega mátti nálgast ódýrt efni til viðhalds.

IMG_2633

Þó svo að torfbæir og steinhús til sveita hafi ekki verið byggð sem minnisvarðar þá væri allt í lagi að varðveita eitthvað af þeirri byggingahefð eftir að húsin hafa lokið hlutverki sínu. Oftar en ekki fékk hugmyndaauðgi þeirra sem byggðu og notuðust við byggingarnar að ráða. Það má segja að margar þeirra úrlausna sem notast var við hafi tekið skólaðri verkfræði fram

Það má leiða að því líkum að ef íslendingum hefði lánast að sameina stærstu kosti torfsins og steypunnar hefðu fengist einhver umhverfisvænstu og endingarbestu hús sem völ er á, hlý og ódýr í rekstri hvað viðhald varðar auk þess sem þau hefðu verið laus við slaga og myglu. Þannig húsagerðalist er nú kominn í tísku víða um heim og  eru kölluð earthhouse. það þarf því ekki lengur að finna upp hjólið í því sambandi, einungis að koma steinkumbaldanum undir græna torfu í næsta moldarbarði eða melshorni.

IMG_2621

Bóndastaðabláin verður seint söm án bæjarins

 

IMG 2930

Lítið fer fyrir stórum steinsteyptum beitarhúsum í landi Ásgrímstaða Hjaltastaðaþinghá, byggðum 1949. Húsin eru með heyhlöðum fyrir enda og í miðju. Torf á bárujárnsklæddu timburþaki flest annað steinsteypt s.s. jötur. Þessi hús eiga ekkert annað eftir en verða jarðýtunni að bráð

 

IMG 2867

Nýtnin hefur verið höfð í hávegum við hlöðubyggingu beitarhúsanna, áður en bárujárnið fór á þakið hefur það verið nýtt í steypumótin

 

IMG 2509

 Fjárhúsin með heyhlöðunni að baki, sem byggð voru í flestum sveitum landsins um og eftir miðja síðustu öld eru nú óðum að verða tímanum að bráð. Víða hafa þau þó gengið í endurnýjun lífdaga sem ferðaþjónustu húsnæði. Við þessi hús í Hjaltastaðaþinghánni stendur steypuhrærivélin enn í túnfætinum og melurinn með steypumölinni er á næsta leiti. Húsin eru hátt í 60 ára gömul og á veggi þeirra hefur aldrei farið málningarstroka né önnur veðurvörn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg grein og fróðleg. Ég veit samt ekki betur en Bóndastaðir hafi verið eyðibýli frá því í býrjun síðustu aldar. Langamma mín, Ragnhildur Ólafsdóttir, bjó þarna á seinasta hluta 19. aldar með börnum sínum. Móðu,ramma mín og nafna, Guðbjörg Guðmundsdóttir, ólst þarna upp, og afi minn, Guðmundur Bjarnason, síðar kaupfélagsstjóri á Seyðisfirði, bjó þarna um tíma líka, þar sem stjúpfaðir hans gerðist vinnumaður hjá langömmu minni og kvæntist henni síðan. Þannig kynntust þau, afi minn og amma. Þegar langamma mín og seinni maður hennar brugðu svo búi þarna á Bóndastöðum í byrjun síðustu aldar, þá fluttu þau til afa og ömmu á Seyðisfjörð. Ég veit ekki til þess, að hafi verið búið á Bóndastöðum síðan. Þegar ég fór með foreldrum mínum og ömmu þarna austur snemma á sjöunda áratug síðustu aldar og ókum þarna um sveitir, þá var okkur sagt, að Bóndastaðir væru í eyði, en einhver hefði reist þar sumarhús á jörðinni. Hvort það sumarhús er þar enn, veit ég ekki. Þegar við fórum þarna austur, þá fórum við á Hjartarstaði, þar sem ömmusystir mín, Ólöf Guðmundsóttir, bjó og synir hennar tveir, Steinþór og Sigurður Magnússynir, og þar dvöldum við, meðan við vorum á Héraði. Ég á líka heilmargt frændfólks þarna fyrir austan. En Bóndastaði þekki ég vel og hef heyrt margar sögur af. Svo er nú það.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 16.9.2018 kl. 10:35

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæl Guðbjörg og takk fyrir þennan fróðleik. Ég sé það i "Búkollu" (Sveitir og jarðir í Múlaþingi)hvaða fólks þú ert að minnast. Sjálfur þekki ég ekki til fólksins frá Bóndastöðum.

Fólkið sem þú talar um, er samkv. "Búkollu" sagt hafa búið þar 1887-1907. Þar koma fram nöfn Ragnhildar langömmu þinnar og Guðbjargar nöfnu þinnar, eins tengslin við Seyðisfjörð og Ólafar við Hjartarstaði.

Árin 1907-1944 búa Einar Sigfús Magnússon frá Hrollaugsstöðum og Elín Margrét Stefánsdóttir frá Ánastöðum, á Bóndastöðum.

Frá 1922-1950 búa Karl Magnússon einnig frá Hrollaugstöðum og Elísabet Sigurðardóttir, einnig á Bóndastöðum.

Árið 1950-1956 búa Sigurður Karlsson frá Bóndastöðum og Sigfríð Guðmundsdóttir frá Dratthalastöðum, á Bóndastöðum.

Árið 1956 er stofnað nýbýlið Laufás í Bóndastaðalandi og bærinn fluttur. Þar hafa búið síðan afkomendur Bóndastaðahjónanna sem bjuggu þar til 1956. Kannski er Laufás nafnið eitthvað að villa um fyrir þér en á Bóndastöðum mun hafa verið búið til 1956 samkv. Búkollu.

Eins og ég sagði þekki ég ekki til Bóndastaðafólksins en ég kannast vel við það fólk sem þú nefnir frá Hjartarstöðum, t.d. var Magnús múrari Sigurðsson, frændi þinn, minn fyrsti lærimeistari í múrverki.

Magnús Sigurðsson, 16.9.2018 kl. 11:41

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góð og skemmtileg grein Magnús. Fyrstu minningar mínar sem borgarbarn var sumarið 1951 (eða árið sem Blöndubrú var tekin í notkun) þegar ég var í sveit að Syðri Löngumýri í Blöndudal.

Þar var allt 100% á gamla mátann og meira að segja löng göng og hlóðaeldhús með moldargólfi sem voru notuð.

Herbergi sinnhvoru megin við baðstofuna. Norðanmegin voru hjónin en sunnanmegin unghjónið sem tóku svo við búinu síðar. Björn þingmaður bjó að Nyrðri Löngumýri sem kom mikið til sögunar á sínum tíma. 

Ég sé mikið eftir mörgum býlum þar á meðal Hofi í Öræfasveit en þar gisti ég 1966 en fór nokkrar svokallaðar páskaferðir á þessum tíma og líklega fór ég fyrstur bíla akandi yfir Jökulsá á Breiðamerkur fljót en það hafðu myndast garður vegna lítils rennslis.  

Valdimar Samúelsson, 17.9.2018 kl. 11:22

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Valdemar, þakka þér fyrir. Mann finnst stundum merkilegt hvað stutt er síðan að fólk bjó við allt aðrar aðstæður en nú eru uppi. Sjálfur er ég það ungur að torfbæirnir voru hverfandi í minni bernsku, þó man ég eftir að hafa komið inn í einn hálfgildings torfbæ sem enn var búið í.

Mér hefur alltaf þótt kynslóðin sem fædd var upp úr 1900, og lifði frá torbæ til tölvu, hafa átt óhemju merkilegt lífshlaup og þeir sem ég hef þekkt af þessari kynslóð verið hetjur, þó svo að það fólk myndi seint viðurkenna það sjálf.

Magnús Sigurðsson, 17.9.2018 kl. 15:56

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þakka fyrir Magnús.

Valdimar Samúelsson, 17.9.2018 kl. 16:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband