Vættir og menn

Vættir eru sagðar ekki vera mennskrar gerðar og erfiðar fyrir menn að skynja, þó þær séu í sama rými. Sumt eru landvættir, -verur sem yfirskyggja vissa staði, nota þá, -og skilyrða landið með vissum ógnum og þokka. Náttúruvætti þekkjum við vel í landi elds og ísa, svo sem af eldfjöllum, jöklum, hafi ofl, -náttúruöflin.

Vættir geta verið verndarar lands og þær skal ekki styggja, því að þá farnast fólkinu illa. Vættir geta verið að báðum kynjum og þess vegna hvorugkyns t.d. náttúruvætti. Samkvæmt fornum sögnum eru vættir flestar ónafngreindar. Bjuggu í klettum, vötnum, undir fossum, steinum, hólum, á fjöllum og í hafi. Velferð byggðanna var nátengd því hvernig vættirnar þrifust í hugarheimi fólksins.

Þær sagnir sem lýsa vættum eru fáar, stuttar og einkennilegar. Þær loða helst við staði þar sem náttúran er svo til ósnert af mönnum, stöðum sem stundum eru kenndir við goðin. Goða- og þjóðtrúin segja álfa t.d. vera anda, en þjóðtrúin segir þá samt koma fram að flestu leiti sem menn og birtast þannig við og við. Trúin á vættir heiðninnar virðast hafa horfið með kristninni en varðveist í þjóðsögunum gegnum aldirnar sem nokkurskonar álfasögur.

"Álfar eru göfugastir og merkastir jarðbúa; meiri hluti þeirra er svo líkur oss mönnunum að manni dettur í hug ósjálfrátt er maður heyrir lýst ljósálfum – hinni betri og blíðari tegund álfa – að þarna séu nú komnir fram aftur á æðra stig, þó í sama heimi, ættingjar og forfeður vorir er komnir voru löngu áður yfir um. Svo eru þeir líkir mönnum og þá fullkomnari. Snorri segir svo í Eddu um álfa að álfheimur sé á himni: “Þar byggvir fólk þat, er ljósálfar heita; en dökkálfar búa niður í jörðu, ok eru þeir ólíkir sýnum ok miklu ólíkari reyndum. Ljósálfar eru fegri en sól sýnum, en dökkálfar eru svartari en bik.” (Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar III bindi bls 4)

Sumar vættir skilyrða land, setja álög og hafa gert það frá aldaöðli. Önnur aðferð við að skilyrða land er að formæla þeim stöðum sem yfirteknir hafa verið af mönnum. Sem byggingamaður þá kannast ég við álög sem fylgja vissum stöðum. Þeirra verður t.d. vart þegar nýtt byggingaland er brotið undir mannabústaði.

Á landinu eru þá verur, sem hafa átt þar heima frá alda öðli, nærtækast er t.d. að nefna rjúpur og mýs. Skyndilega er þeim gert að hypja sig ásamt úreltum vættum samkvæmt tíðarandanum, en þá eru komnar nýjar vættir ósýnilegar. Því getur ógæfa komið yfir þá sem fyrst brjóta undir sig land og eru til mörg óútskýrð dæmi þess önnur en náttúruöfl.

Álög vætta og formælinga geta virst vera eitt og hið sama. En rétt er að skilja þar á milli. Álög vætta eru kraftar frá eldri tíð, en formælingar seinni tíma álög. Álögum vætta þarf því ekki að fylgi illvild. Álagavaldar gátu t.d. verið völvur sem urðu að verndarvættum. Völvuleiði eru víða um land og fylgir þeim oftar en ekki svipuð þjóðsaga, -ekki skal hrófla við leiðinu og þá mun blessun fylgja.

Svo er mælt að til forna átti völva eða seiðkona heima innarlega í Breiðdal í Suður-Múlasýslu eða innanvert í Skriðdal. Hún vissi fyrir ófrið af hafi. Kvað hún svo á að er hún væri látin skyldi heygja sig á Breiðdalsheiðinni sem liggur á milli þessara dala, nálægt vatni sem er á heiðinni. Lét hún það um mælt eða lagði það á að engin ófriður er kæmi af hafi skyldi komast upp yfir heiðina á meðan hún hvíldi þar og leiðið væri óbrotið. Það segja kunnugir að leiðið hafi sést þar til skamms. Hefur engin verið til að rjúfa það. Þykir sumum sem ummæli hennar hafi ollið því meðfram að Algeirsmenn, Tyrkir, komust aldrei nema í Breiðdalinn. Er og varla hætt við því að menn fari að glettast við völvuleiðið á Breiðdalsheiði. (Þjóðs Sigfúsar V bindi bls 227)

Í Hólmatindi við Eskifjörð er völvuleiði sem hefur útsýni út Reyðarfjörð. Hún á að hafa verndað firðina fyrir Tyrkjum. En skip þeirra sneru við í minni Reyðarfjarðar vegna sterks norð-vestan vinds sem skall á og gerði ófært leiði þegar Tyrkir hugðust sigla inn fjörðinn. Sigldu þeir þessi í stað suður með landinu til Vestmannaeyja.

Sagnir af formælingum valva til ills eru fáar, en þó þekktar. Á prestsetrinu Kálfafellsstað í Suðursveit Hornafirði upp úr siðaskiptum að hafa búið hjón. Bóndinn hét Kálfur, en húsfreyjan kölluð Valva. Þegar Kálfafellsstaður var gerður að prestsetri um 1050 urðu þau nauðug að fara þaðan að býlinu Burtu, sem var hjáleiga frá staðnum.

Sagt er að Valva, sem var bæði heiðinn og forn í skapi, hafi líkað svo illa flutningarnir að hún hafi lagt það á að engum presti skildi vært á Kálfellsstað lengur en 20 ár, fyrr en fengið yrði í kirkjuna líkneski Ólafs helga Noregskonungs “bróður” síns og mundu þeir þó flestir hafa fullkeypt. Prestar á Kálfafellstað máttu síðan reyna álögin á eigin skinni þar til líkneski Ólafs helga var sett í kirkjuna, sem varð ekki fyrr en 1717, -og þótti álögunum þá létta um stuttan tíma. 

Þegar Kristján Vigfússon bjó á Kálfafelli skopaðist hann af átrúnaðinum og sagðist skildi sýna hvað mikið væri að marka líkneskið. Hann hjó af líkneski Ólafs helga nokkra fingur. Litlu seinna var sonur Kristjáns að leika sér við annan dreng jafnaldra sinn úti á túni 10-12 ára. Þeim sinnaðist og var drengurinn með hníf og stakk Sæmund til bana beint í hjartað. Þetta var talið hefnd fyrir handarhögg Ólafs helga. (Þjóðsögur og sagnir – Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm bls 204)

Kristján var um tíma sýslumaður í Austur-Skaftafellssýslu, frá því er Jóni Helgasyni var vikið frá 1798, uns honum var sjálfum vikið frá 1804. (Ættir Austfirðinga) Sagt er að Kristján þessi hafi endaði ævina sem niðursetningur og er ævi hans talin til vitnis um það hvað það getur kostað að fara gegn álögum sem sett eru á með formælingum.

Kálfafellsstaðarkirkja fauk í Knútsbyl 7. janúar 1886, þá nýlega endurbyggð, í einhverju mesta fárviðri sem gengið hefur yfir Austurland. Nýreist kirkja veglegt guðshús á þeirra tíma mælikvarða, hafði tekið af grunni og fokið í brak. Þetta var timburkirkja, kölluð Ólafskirkja, kennd við Ólaf helga. Af honum var líkneski sem stóð á áberandi stað í kirkjunni.

Þetta var mikið tjón fyrir söfnuðinn í Suðursveit og ekki síst fyrir prestinn, Jóhann Knút Benediktsson, sem bar hita og þunga af framkvæmd þess að koma kirkjunni upp. Þegar hér var komið, var heilsa hans farin að bila, en sagt var, að mjög hefði honum hnignað við þetta áfall. (Knútsbylur - Halldór Pálsson bls 11) - Ólafur kóngur fannst svo alveg heill, nema fingralaus, uppistandandi, niður í fjöru langan veg frá bænum. Líkneski Ólafs helga úr Kálfafellsstaðarkirkju er nú á Þjóðminjasafni Íslands.

Getgátur eru uppi um að Valva á Kálfafellsstað hafi í raun heitið Gunnhildur og verið systir Ólafs helga Noregskonungs. Sá landnámsmaður, sem nam Hornafjörð var Hrollaugur, sonur Rögnvaldar Mærajarls. Hrollaugur bjó í Suðursveit. Hans bræður voru Torf-Einar Orkneyjajarl, og Göngu-Hrólfur forfaðir Vilhjálms bastarðar, sem fór fyrir Normandí Normönum, þegar þeir unnu orrustuna um Bretland við Hastings 1066, og enska konungsættin er rakin til.

Það má ætla að vættir og þau álög, sem  sögð eru vera valva og helgi í þjóðsögunum, séu dæmi um fornar vættir og formælingar. Þau eiga rætur aftur í heiðni, og hafa lifað siðaskipti í gegnum þjóðsöguna alla leið inn í nútímann. Hvort þjóðsagan varðveiti í aldir héðan í frá sagnir fólks um álaga vættir dagsins í dag þau; -verðbólgu og hagvöxt, -getur tíminn einn leitt í ljós.

 


Bloggfærslur 13. apríl 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband