Þegar Íslendingar voru börn náttúrunnar

Áttæringur

Eyjan hvíta átt hefur sonu fremri vonum; kvað Jónas Hallgrímsson fyrir margt löngu. Og land Jónasar var ríkt í örbirgð sinni; sagði prófessor Sigurbjörn Einarsson, síðar biskup Íslensku þjóðkirkjunnar, í ræðu 1. desember 1957 í kapellu Háskóla Íslands á fullveldisdegi.

Kom þar m.a. fram hjá Sigurbirni að, -Einhvern tíma sagði maður með karlmannlegu en hógværu stolti: „Vér eigum menn.“ Hann var að svara útlendum gesti sínum, sem spurði: Hvað eigið þið í þessu fátæka landi? Vér eigum menn, var svarið. Það átti menningu, af því það átti menn í kotum og kytrum, í basli og armóði. Slíkt land er ekki fátækt, sem á það fólk, karla og konur, sem með réttu ber þessa einkunn, einstaklinga, sem eru sannir menn í huldum smámunum og berum vanda, fólk, sem á manndóm, heilindi, samvisku.

Arnar Þór Jónson bloggari og forsetaframbjóðandi rifjaði upp þessi orð úr ræðu Sigurbjörns Einarssonar hér á blogginu um daginn. Frá þeim tíma þegar Ísland átti fólk sem lifði af náttúru landsins og vissi hvað fullveldi er mikils virði.

Við, sem erum fædd eftir miðja 20. öldina, munum konur og karla, -sem hægt er að kalla 20. aldar menn. Það er varla til fólk sem hefur lifað stærri breytingar á umhverfi sínu og háttum en íslenskur almúgi sem lifði alla 20. öldina. Fólkið sem kom Íslandi inn í nútímann með fullveldið eitt að vopni. 

Fullveldis fólkið kom þjóðinni út úr hálfhrundum moldarkofum. Ræktaði landið inn til dala og sótti sjóinn frá ystu annesjum, -hélt landinu í byggð, og skilaði betra búi með meiru valfrelsi til næstu kynslóða. Vissulega var lífsbaráttan hörð, en samheldnin var líka mikil í landi sem átti ekki það sem í dag eru kallaðir, -innviðir.

Þess vegna var kannski ekki skrýtið að fólk flytti sig innan úr dölunum og af útnesjunum í þéttbýli fjarðanna, þar sem þorpin voru, -eftir að vélarafl bátanna jókst og bílar komu til flutninga fyrir sveitirnar. Áður voru byggðir á stöðum sem ótrúlegt má teljast í dag.

Ummerkja þessarar byggða og brot menja heilu þorpanna má enn sjá víða um land s.s. á vegasambandslausu Siglunesi við austan verðan Siglufjörð, Hafnarnesi nú við hringveginn í sunnanverðum Fáskrúðsfirði, staðir þar sem bjuggu tugir fólks og iðuðuð af mannlífi við leik og störf í nálægð gjöfullar náttúru.

Þegar ég hef keyrt Berufjarðarströndina nú í vetur þá hefur mér verið hugsað til þessa 20. aldar fólks. Nú þegar logar ekki eitt einasta ljós við þrjú íbúðarhús. Þar sem fyrir nokkru voru tvö sauðfjárbú vel í sveit sett, á annesi með innviði, á við þjóðveg eitt við bæjardyrnar. Á þeim þjóðvegi eru nú nær eingöngu erlendir túristar.

Árið 1961 fluttu foreldrar Matthildar minnar börn og bú af þessari strönd, á bát yfir Berufjörð, frá Núpshjáleigu suður á Djúpavog, til að búa í þorpi og sækja áfram björg í sjó. Þegar ég heyrði þessum flutningi lýst og lífinu fyrr um á Berufjarðarströndinni var það líkt ævintýri úr örðum heimi. Núpshjáleiga hefur verið í eyði síðan og nú í vetur loga ekki ljós á bæjum í nágreninu.

Ég segi stundum við börnin mín, að ef það sé eitthvað sem ég vilji ráðleggja þeim að sjá á lífsleiðinni í tíma, þá séu það Hornstrandir. Það er t.d. orðið of seint fyrir mig fótafúinn og hjartalúinn að rölta þar um eyðibyggðir, og þannig geti allt eins farið fyrir þeim þegar hratt líður stund. Auk þess sem auðn landsins sé óðum að komast í eigu erlendra auðróna. 

Við Matthildur mín fórum ekki þjóðveg eitt um Berufjarðarströndina suður á Djúpavog núna um þessa páska til að hitta börn og barnabörn. Þess í stað stálumst við til í norðaustan hríð að horfa saman á sjónvarpið þeirra Ævi og Óra. Fundum á youtube Börn náttúrunnar og mynd Ósvaldar Knudsen frá 1956 um Hornstrandir, þar sem Kristján Eldjárn fyrrverandi forseti lýðveldisins sá um frásöguna.

Í lok myndarinnar lætur Kristján þess getið, að líkindum verði þess langt að bíða að nýjar kynslóðir nemi land í hinum fornu byggðum. Matthildur, sem ekki hefur haft mikla trú á mér til ferðalaga síðustu árin, spurði eftir áhorfið á Börnum náttúrunnar hvort við ættum ekki að fara á Hornstrandir í sumar. Eitt augnablik lá við að ég leyfði mér að trúa á drauminn.

Í hlutfalli við aukið ferðafrelsi höfum við Íslendingar fjarlægst náttúru og sögu landsins, -og tapað fullveldinu. Núna rétt fyrir páskana fórum við Matthildur þó örstutta ferð í Bónus. Þar var talað tungum innan um world class sjálfafgreiðslukassana, og torkennilega  skáeygt fólk leit okkur hornauga.

Það er orðið of seint að snúa til baka þar sem leikur og starf fóru saman í íslenskri náttúru. Og sú spurningin verður sífellt áleitnari hvort Íslendingar komi til með að lifa það af að búa við þjóðveg eitt í þessu landi. 

 


Bloggfærslur 1. apríl 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband