Færsluflokkur: Ljóð
20.12.2024 | 21:22
Hátíðarkvöldverður
Vegna hátíðar ljóssins
verður rjúpan ekki friðuð
með öðru en útrýmingu
-úr þessu
Þangað til hangir hún
á bláþræði
í skugga þakskeggsins
sem jólaskraut
frá liðinni tíð
-í gula baggabandinu
sem varð keldusvíninu
að aldurtila um árið
Fyrir um það bil tveimur árum datt ég í ljóðlestur og hef varið drjúgum tíma í að lesa mig í gegnum ljóðabækur, -vissi ekki að ég ætti orðið tugi ljóðabóka, en þær hafa safnast að mér eins og þjóðsögur í gegnum tíðina og hefur þess mátt sjá merki hér á síðunni undanfarin ár.
Jafnframt þessum lestri ljóða alvöru skálda, þá hef ég látið eftir mér að birta eitt og eitt frumsamið ljóð. En ég hef um nokkurra ára skeið skrifað hjá mér örstuttar endaleysur, sem kvikna oftast upp úr engu, og mér finnast þess verðar að skoða seinna.
Um ljóðið hér að ofan, sem mætti flokka undir frekar nöturlegan kveðskap, má það helst segja að það hafi orðið til undir áhrifum frá Gyrði Elíassyni, þegar ég var að lesa eina af ljóðabókum hans.
Þetta árið ákvað ég að birta eitt frumsamið ljóð hér á síðunni í hverjum mánuði, þau hafa reyndar orðið fleiri en í upphafi var ætlað, -en nú læt ég staðar numið.
Það hefur komið skemmtilega á óvart hversu vel þessum ljóða hugleiðingum mínum hefur verið tekið og ber mér að þakka fyrir það sérstaklega.
Ég vil í tilefni hátíðar ljóssins óska þeim, sem eiga það til að líta inn á þessa síðu, -gleðilegra jóla, árs og friðar.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.11.2024 | 13:39
Knockin' On Heaven's Door
Við himins hlið
þar sem ég svíf
í Zeppe-líninu
um draumalandið
-lít ég við-
-Og síðustu
ó-sigruðu
orrustna sé
-Og glaðvakna
er á draumnum
verður óvænt bið
Því þar ég
að endingu skil
þá stórbrotnu leið
þegar sálin heldur lífi
eftir að líkaminn deyr
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.11.2024 | 05:31
Lokaviðvörun frá landvættunum
Kjósendur munu fljótlega fá að velja reykspólandi dísir með stríðsæsingar í möskuðum augunum og lang-lygna lukkuriddara. Allt vildi þetta slekti Selinski kysst hafa. Því framtíð Evrópu veltur á stríði, frelsið í endalausum manndrápum og landinu sé varið til verndar kolefnisspori vindrellandi auðróna, -Íslandsvina sem kalla sig erlenda fjárfesta.
Farið var með "böggum hildar" í vikunni yfir kosningunum í Georgíu daginn sem Selinski birtist án lýðræðislegs umboðs í boði Norðurlandaráðs. Það þótti ekki nógu gæfulegt að aðild að ESB og stríði við Rússland skyldi hafnað í lýðræðislegum kosningum. Reykfjörð hefði samt getað boðið ÖSE upp í Borgarnes, sína gömlu heimasveit, til að kynnast viðunandi talningu.
Nú styttist semsagt í að þjóðin fái að kjósa rísstjórnina í eitt skiptið enn, -og kjósa teiknsískt í annað sinn á árinu. Litla sæta dúkkulýsan, sem er algerlega á móti ESB, er til í að skoða það ef skotið verður undir hana ráðherrastól, að leifa þjóðinni að kjósa einu sinni enn taktískt. Og þá um ESB, -annars verður það bara bókun 35.
Og þjóðin hún lækar því þjóðin er glöð þar sem bláir stjörnuprýddir fánar blakta, - það er svo mikið erlendis. Þá munu sællega búttaðir íslenskir karlmenn þramma um götur Reykjavíkur með hríðskotariffla og loks endanlega lokið við að afmá þann bláa íslenska með krossi elds og ísa, ekki bara af bréfsefni alþingis, -auk þess að skipta um þjóð í landinu.
Reikna má með að kúlulána drottningin fái uppreist æru og fari með fjármálin sem hver önnur hagsýn húsmóðir, eða freyja frá fornu fari. Enda tókst henni um árið að forða blessuðum börnunum úr kojunum í miðju "hinu svokallað hruni". Hún verði því upphafin líkt og þegar Dabbi kóngur sat í Seðlabankanum.
Nýstirnið sem datt í lukkupott kviku við gammagróðann er heldur ekki óskrifað blað á flæðiskerinu. Blaðið var fjölfaldað með landráðum í reykfylltum bakherbergjum þeirra auðróna sem hafa farið með landráð flokksins sem kennir sig við sjálfstæði. Kviki gammagróðinn verður áfram límið sem heldur ríkisstjórn náhirðarinnar saman.
Eins er ekki ólíklegt að komi upp úr taktískum kjörkössunum skoðanakannana að degi borgar verði hróflað upp sem næsta forseta alþingis, karlmennskunni til hreinnar háðungar, -og kristninni til höfuðs. Hann sitji þar í skjóli flokksins sem kennir sig við sjálfstæði eins og hver annar Þistilfjarðar móri.
Eftir að þjóðin hefur lækað darraðardans þeirra Angurboðu og Loka er síður en svo líklegt að Guð blessi Ísland í dauðateyjunum þetta sinnið, -á sama hátt og síðast.
Nú þegar á fullveldi Guðs vors lands er ekki lengur trúað af hverfandi þjóð, -og landið verður gert að fórnargjöf þess þríhöfða þurs sem býður það sér og glóbalnum til rentu.
Landvættirnir áskilji sér eftir sem áður rétt til að taka til sinna ráða svo landinu bláa verði ekki tortímt á altari auðróna.
Holar tóftir
berir gómar
óráðs malið
þaðan hljómar
sem áður bar
nafn sem tónar
alþingi þjóðar
Ljóð | Breytt 26.12.2024 kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.10.2024 | 06:54
Röðlasmiður
Flaskan fraus
og sumrinu lauk
svalir vorsins bíða
Verður veturinn
blíður oss?
Það er nokkuð víst að fáir lesa bloggpistil þar sem er minnst á sálina, eða farið með bæn, -hvað þá ef bænin er í kvæði og pistillinn hefst í bundnu máli. Þessi ætti því að vera nokkuð pottþétt uppskrift, þar sem leitast er við að gera allt þetta í einu.
Nú er kominn vetur, ef talið er frá veturnóttum samkvæmt gamla íslenska tímatalinu, sem hafði tvær árstíðir, -sumar og vetur. Að vísu heitir síðasti sumarmánuðurinn haust og hefst í grennd við haustjafndægur. Tímatöl ganga upp samkvæmt sólarhringrás, en þau gömlu voru oftar en ekki einnig grundvölluð á næturhimninum, -líkt og það íslenska sem var notað um aldir.
Ennþá er það svo að forn tímatöl ganga betur upp í gang eilífðarinnar en nútímans neytendavæna dagatal. Það má t.d. sjá á því, að það gamla íslenska var með mánaðarmót í grennd við helstu viðburði sólarinnar s.s. sólstöður og jafndægur. Það sama átti við næturhimininn, mánaðamót voru grennd við þar sem stjörnumerkin mætast.
Nútímavísindin hafa gert mannsævina línulega á meðan við vitum innst inni að alheimurinn gengur hina eilífu eykt hringrásarinnar. Og aðeins trúin, sem nútímavísindin efast hvað mest um, leyfir okkur enn þann munað að verða eilíf eins og alheimurinn sem okkur umlykur.
Þú átt aðeins eitt líf hefur verið gefið á línuna af nýaldar húmanisma efnishyggjunnar, -frá vöggu til grafar. Þetta hefur falið sálina og slitið tengingar við eilífðina og almættið. En hvort sem það er þetta eina líf, stafrænn tíminn, eða þá árstíðirnar, -þá tilheyrir allt hringrás eilífðarinnar.
Nútíminn getur þess sjaldnast, að ekki er hægt að tapa því sem maður er, -aðeins því sem maður hefur, -hvað þá að þú sért aðeins ríkur þegar þú átt eitthvað sem ekki fæst fyrir peninga.
Til að enda þennan lítt-læsilega pistil má segja sem svo að hann sé lítið annað en brot óreiðuhugsana, rétt eins og bundið mál sem á það til að tínast í ljóðum, þ.e.a.s. þegar maður er orðin það ringlaður að koma ekki lengur frá sér í orði heilli hugsun, -nokkurskonar ótímabær elliglöp, eða sakramenti sérvitrings.
En ég ætla samt ekki að gleyma kvæðinu og bæninni, sem ég lofaði í upphafi, -til Röðlasmiðsins.
Þú sem röðli ræður
hverri dögun í heimi hér
ver á himni skæður
þegar ævi kvölda fer
Lýstu sorta með sólstöfum
þegar lækkar á lofti sól
slá roða af himni björtum
yfir haf, dal og hól
Geislaðu leiftrandi ljósum
í myrkrinu hérna norður frá
skartaðu blikandi stjörnum
svo megi í birtu sálin ná
Svo er sól á vetri hækkar
og ljósið bjarta færirðu mér
til sumars ætíð mig hlakkar
þar til ljós í röðli þínum ég er
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.10.2024 | 01:22
When I'm Sixty-Four
Móða liggur yfir landi
-dularfullir klettar
-veðurbarðir girðingastaurar
og slakur gaddavír
spegla sig í lygnri tjörn
Um bjarta sumarnótt
yfir húmbláum fjöllum
bjarmaði eitt sinn
af bleikum morgni
fjarlægrar fægðrar
Móðan stígur nú upp til stjarnanna
lík óræðum anda úr 1001 nótt
-upp í ævintýralega birtuna
við eftirvæntingu
barna-barnanna
Nú, þá og þegar
ég er sextíu og fjögra
spyr ég afturábak
-út í andaktina
og inn í haustið
Hvert fer draumurinn
lífið sem ég þrái
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
13.9.2024 | 18:17
Töpuð tálsýn - #meetoo ADHD
Það er kona með keðjusög í næsta húsi
sem lifir örorku drauma minna
Hún býr við líkamlega atorku
en glímir við kulnun
-tálsýna sinna
Konan er búin að saga trén
úr garðinum sínum -
Til að tikka í öll boxin
og taka kolefnissporin
-sagar hún nú tré
með rafmagnskeðjusög
úr garðinum mínum
Læknarnir gáfu henni rítalín
í staðin fyrir amfetamín
vegna tapaðrar tálsýn
Á tímanna tvinna
þau kunna að spinna
-bæði til að vinna
og umbera minna
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.8.2024 | 18:05
Dáðadrengir
Skínandi sólstafir
féllu himninum frá
Sortaský huldu
heiðhvolfin blá
Á grænum grundum
dansaði sólargeisli sá
líkt og skafrenningur
köldum vetrardegi á
Þessi þungi þanki
svalan júní morgunn
Þessi kólgu bakki
napran ágúst dag
þessi miskunnarlausu örlög
með feigðar fréttum
nístu hjarta ræturnar
Þú svo ungur fallinn frá
ert nú kornungum
syni þínum hjá
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.7.2024 | 17:04
Carbfix
Trukkarnir bruna
í gegnum nóttina
um malbikaða
ódáinsakra allsnægtanna
með björgina í Bónus
- - og sementið í steypuna
Við sitjum skaðmenntuð
og carbfixuð
í blæðandi vegkantinum
með hangandi höfuð
Og hendur í snjallvæddu skauti
Teljum kolefnissporin
og bætum í bókhaldið
- - - þrjár nætur frá hungursneyð
Ljóð | Breytt 28.12.2024 kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.7.2024 | 04:04
Þrjár stuttar sumarhugleiðingar
Þeistareykir (7. júlí 2016)
Blíðum í blænum
líður sumarið hjá
Með laufvindum ljúfum
hvíslar vindurinn frá
Af þverrandi mætti
fyllist hjartað af þrá
- 0 - 0 - 0 -
Glugginn (16. júlí 2020)
Í einsemd utan við gluggann
býr óhamingja sveitarinnar
En í minningu gleymdra sumra
blakta tannlaus bros
í eldhúsgardínunni
- 0 - 0 - 0 -
Á Egilsstaðanesi (9. júlí 2023)
Það er sumar við völd
byggið bylgjast í blænum
blíðan brosir við bænum
laufið hvíslar að trjánum
Í kyrrð um kvöld
fregn af söltum tárum
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 09:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.6.2024 | 06:30
17. júní frétt
Á botni tjarnar
í óræktinni miðri
liggur Morgunnblað
Í fyrirsögn á forsíðu stendur
17. júní hátíðarhöld
gengu vel um allt land
Blaðið er frá því seint á síðustu öld
Þegar Ísland var enn frjálst
og fullvalda ríki
Það er ekki lengur mögulegt
að ná blaðinu af botninum
til að lesa smáa letirið
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)