Færsluflokkur: Ljóð

17. júní frétt

Á botni tjarnar

– í óræktinni miðri –

liggur Morgunnblað

 

Í fyrirsögn á forsíðu stendur

– 17. júní hátíðarhöld

gengu vel um allt land –

 

Blaðið er frá því seint á síðustu öld

Þegar Ísland var enn frjálst

og fullvalda ríki

  

Það er ekki lengur mögulegt

að ná blaðinu af botninum

til að lesa smáa letirið


Þegar sunnan vindurinn blæs blíðlega

Vinnufélagi minn benti mér í morgunn á hreindýrahóp hinu megin við þjóðveg eitt, -beint á móti steypuverksmiðjunni, sem við mætum í á morgnanna, og sagði; -það er orðið nokkuð oft sem maður sér hreindýr hérna alveg við þéttbýlið.

– Já - sagði ég; -það er orðin einhver breyting á hegðun dýra og fugla frá því sem var. Hefurðu ekki tekið eftir því að gæsirnar eru farnar að halda sig inni í Fellabæ sem þær gerðu ekki áður? - En Fellabær er hans æskustöðvar.

Ég hafði vaknaði að mér fannst við þytinn í vindinum um opnanlega fagið aðfaranótt nýrrar vinnuviku. Hafði samt heyrt einhver torkennileg aukahljóð, sem tilheyrði ekki vindinum, -grunaði trampólínið. Fór fram og fékk mér vatnsglas og svo aftur inn til að sofa, en lá andvaka við þytinn í opnanlega faginu.

Svo lægði vindinn alveg, og hljóð sumarnóttin réði ein ríkum um stund fyrir utan gluggann. Þá heyrði ég aftur þessi torkennilegu hljóð og fór aftur fram. Tappaði nú bæði af mér og bætti á mig vatni. Fór svo fram að stofuglugganum, setti á mig gleraugun og horfði út yfir svalirnar.

Fyrir framan trampólínið spígsporaði spói í kringum tvo stelki, sem voru í ástarleiki í næturhúminu, niðri á grasflötinni. Ég hugsaði, já auðvitað það er komið sumar. Fór svo aftur inn í rúm, lá andvaka og lét hugsanirnar reika, og halda fyrir mér vöku, -bæði fram og aftur í tímann.

Eftir nána íhugun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það hefur ekkert breyst í náttúrunni, það erum við mannfólkið sem erum alltaf að tapa tímanum.

Áður voru píkuskrækir

á balli með Stuðmönnum

– eins og skellinaðra

þrusast ég aftur í tímann

 

Þar sem við strákarnir

glöddust yfir bokkunni

eru nú bara læk í símann

 

Horfinn heill heimur

eins og Tindavodki

í tóbaksreyk


Sumarmál

Að loknum vetri

ríf ég gat á myrkrið

til að sjá sumarið

birtast af fjöllum

 

Úti í garði

er svartur fugl

sem syngur

hugsanir mínar

 

Gengin spor

skrýðast nú skjótt

döggvuðum stráum

á grundum grænum

 

-Og ný útsprungin

titrandi laufblöð

hvísla að kalkvist

máttugum ljóðum

-með rómi

--svo ljúfum

---og blíðum

 

Það er í garðinum

þar sem morgunninn

nú kviknar og hlýnar

sem svartþrösturinn syngur

döguninni í austri vorsins lof

 

-Og það er þá

sem lúinn hugur

í eitt skiptið enn

gleðst við hans söng

um vor


Með kostulegri kveðju

Á meðan himnarnir hrynja

yfir þá heimilislausu

stend ég keikur í dyrunum

og öskra út í tíðarandann

 

Haldið kjafti snúið skafti

étið skít heima hjá ykkur

óþjóða hryðjuverkalýður

– og skelli hurðinni

 

Geng inn og sest

við upplýstan skjáinn

-innbyrði sannleika heimsins

í postulegri kveðju Morgunnblaðsins


mbl.is Leyfislaus söfnun fyrir Palestínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bárujárnsrokk

Í gegnum svefninn

hlusta ég á snjókomuna

þekja þykka þögnina

sem gjálfrar á hleinum

neðan við kot

 

Heyri hnullunga

rúlla og mala

í sogi úthafsöldu

niður básinn

í Þúfnafjörunni

 

Ég kom til að sofa

tímana tvenna

á brim strönd

úti við ysta haf

í hundrað ára

gulu húsi

 

Í faðmi bárujárns

læt ég sem ég sofi

en mun samt vaka

-vonandi til vors


Í garði Gunnlaðar

Huganum má líkja við skafrenning í snjall væddum nútímanum, þar sem Óminnishegrinn leiðir um villu vegar með þriggja sekúndna gullfiskaminni.

Þegar hugsun vekur upp tortryggni, kvíða eða efa, -og síðan skeytingaleysi, -orsakar hún dulda væntingu.

Ef flett er yfir í næstu nýmæli, án þess að ná áttum í þeim fyrri, sest hugmynd, -óafgreidd af innsæinu í undirvitundina.

Þannig er stafrænum nútímanum leyft að leiða hugann með tvískynungi, og viðhorfið til veruleikans litast af ranghugmyndum.

Hliðin sem er snúið er að heiminum mótast mest af innrætingu, fordómum og snjalltækni. -Á kostnað sköpunargáfu, kærleika og bænar.

 

IMG_4570

 

Óminnishegrinn spígsporar

yfir auðnir vitundarinnar

en í skúmaskotum hjartans

lifir vonin um hið eilífa vor

á meðan vindar tímans

halda áfram að gnauða

á gluggum sálarinnar


Draumurinn sem dó

Nú rembast hinir svokölluðu aðilar vinnumarkaðarins við að skapa þjóðarsátt, þ.e.a.s. sá hluti sem ekki hefur þurft að díva hendinni í kalt vatn.

Enda er farið að fara um jötuliðið. Reykjavík gjaldþrota og skurðgröfurnar á landráðaskaga orðnar tekjulausar ef ekki væri fyrir svokallaða innviðagarða við Blanka lónið, Svartsengi og Grindavík.

Sviðsmyndaséníin nú þegar farin að klappa upp fyrir hamförum við Hafnarfjörð til að ná um innviðagjaldið sem ráðalaus ríkisstjórn með tóman ríkisjóð ætlar þeim á klakanum að borga sem hafa þak yfir höfuðið.

Allir sem muna lengra en gullfiskaminninu nemur vita að svokölluð þjóðarsátt frá því 1990 var sátt á milli jötuliðsins um hvernig kökunni yrði skipt þannig að þeir landsmenn sem drægju vagninn ættu ekki séns.

Erlent láglauna vinnuafl fjórhelsisins hefur streymt til landsins allar götur síðan, og leitun er að venjulegum Íslendingum sem hafa eignast annað en skuldir í þakinu yfir höfuðið sem skattstofn fyrir jötuliðið. En að öðru góðir landsmenn;

 

Mig langar að minnast draums

-um ástkæra fósturmold

árdags í ljóma

 

Hver á sér fegra föðurland

sem ungan dreymir

-sér til sóma

 

Þar sem sól slær

silfri á voga

og heiðarvötnin blá

-þar sem til voru fræ

er fengu dóma

 

Ekki er hægt að geta dreymandans að svo stöddu

þar sem ekki hefur náðst til aðstandenda

-þjóðina sem arfinn þinn geymir

 

En sértu velkominn heim

yfir hafið og heim

suður um höfin

að sólgylltri strönd

 

– Útförin verður auglýst síðar

af séra Kaldalóns úr Unaðsdal

–fyrirhugaðar eru sætaferðir

með æsslander og play


Rímspillir

Það að vera ekki áttaður á stað og stund eru álitin merki um alvarleg glöp. Nú eru veturnætur og stutt í fyrsta vetrardag og hafa sjálfsagt flestir tekið eftir því að hann er í síðasta lagi þetta árið. Sumum finnst sennilega að hann hefði átt að vera fyrir viku.

Þetta kemur til vegna þess að í sumar var sumarauki og árið 2022 endaði á laugardegi, síðan er árið 2024 hlaupár. Þess vegna er svo kallað rímspilliár. Gamla íslenska tímatalið var stundum kallað rímið og átti að vera það einfalt að hægt væri að telja tímann á fingrunum.

Ýmsar aðferðir voru notaðar við að rétta af árið sem taldi 52 vikur í 12 30 daga mánuðum.  Á hverju sumri voru fjórar aukanætur og viku sumarauki sjöunda hvert ár. Þessar afréttingar þurftu að eiga sér stað svo tíminn gengi upp í sólárið til lengri tíma.

Allt á að vera gott sem kemur að utan, en frá Róm kom Júlianska tímatalið, sem kallað var gamli stíll, og svo það Gregoríska sem tók við þegar það Júlianska var komið út yfir öll mörk hvað sólarganginn varðaði. Á 28 ára fresti varð svo að endursetja rímið eftir að Gregoríska tímatalið kom til, sem var tekið upp um 1700, annars ruglaðist fólk í heims tímanum.

Gregoríska hlaupárs tímatalið er það sem nútíminn notar, -og af afréttingum þess og mismuninum á því hvernig gamla íslenska tímatali fór með afréttingar kemur máltækið að ruglast í ríminu. Þessi 28 ára sumaraukaregla var samt ekki algildari en svo, að ef þessi síðasta árs laugardagsstaða hitti á næsta hlaupár átti hún ekki við, -einfalt er það ekki.

Þetta gamla íslenska tímatal var annars mjög nákvæmt með allt nema áramótin, enda kom það frá órofa alda. Áramót gátu allt eins verið um hásumar eða fyrsta vetrardag, rétt eins og kvótaármót fiskveiðikerfisins eru fyrsta september. Merkisdagar gamla tímatalsins lutu íslenskum veruleika og var notað allt fram á 20. öld af stórum hluta almennings.

Það er ekki svo auðvelt að ruglast í ríminu nú til dags þegar dagatöl eru allstaðar, -og öll eins. Á skjánum nórir klukkan, dagsetningin og árið, -það Gregoríska. Fram að digital skjánum voru upphengd dagatöl á áberandi stað þarfaþing á hverju heimili. Og ennþá er til fólk sem þarf sitt dagatal meir að segja til að rífa af á hverjum morgni og henda gærdeginum í ruslið. Matthildur mín er t.d. ein af þeim.

Þess vegna hefur alltaf verið til siðs að eignast kubb með dögum ársins á okkar heimili. Þessir dagatalskubbar eru enn framleiddir af Prentsmiðju Guðjóns Ó, og er sjálfsagt orðin það lítil eftirspurn eftir þessum forngripum að þeir eru orðnir fokdýrir, kosta fleiri þúsund kubburinn og þarf að biðja sérstaklega um þá í betri bókabúðum þar sem þeir eru afgreiddir undir borðið.

Í byrjun okkar búskapartíðar var þessum kubbum dreift frítt, svo til í hverju kaupfélagi landsins, á spjaldi með nafni kaupfélagsins, ártali og oftast fallegri sumarmynd úr heimabyggð. Síðar komu stóru Eimskips dagatölin með stórbrotnum landslagsmyndum vítt og breitt af landinu við hvern mánuð, sem mér tókst stundum að útvega í gegnum sambönd. En Matthildur mín vildi ekkert með þau hafa. Þó svo Kaupfélag Berufjarðar hafi farið á hausinn fékk hún sinn dagtals kubb þá bara hjá Kaupfélagi Austurskaftfellinga.

Sagt var að eitt sinn hafi það komið fyrir hjá Kaupfélagi Héraðsbúa að kubbur frá árinu áður hafi lent í umferð með spjaldi nýja ársins. Þetta á að haf gerst fyrir samviskusemi starfsmanns sem vildi af nýtni klára kubbana frá því árið áður og lét Jökuldælinga hafa þannig dagatöl. Þeir áttu lengst að fara og gátu auk þess allt eins verið í viðskiptum við sláturhús Verslunarfélags Austurlands, sem var fyrir norðan Fljót í N-Múlasýslu, og því átt örðugra með að fá skrifað í KHB sem var fyrir austan Fljót í S-Múlasýslu.

Þetta varð til þess að sumir Jökuldælingar, sem fengu Kaupfélags Héraðsbúa dagatalið, rugluðust í ríminu og áttu það til að mæta í kaupstað á rúmhelgum dögum það árið. Kannski er það þess vegna, sem stundum var sagt í mínu ungdæmi, þegar úr voru algengar fermingargjafir, að betra væri að gefa dagatal í fermingargjöf á Jökuldal en úr, miðað við tímaskinið á Dalnum.

Ég sel þetta samt ekki dýrara en ég keypti. En samt sem áður kom það upp núna að minnstu munaði að þorrablótið á Egilsstöðum, sem alltaf er haldið á bóndadag - fyrsta dag þorra, yrði sett á og auglýst viku of snemma. Kom þetta til vegna þessa gamla rímspilliárs. Rímspillirinn kom mér samt ekki á óvart því ég hef hvorki notast við kubb né gengið með úr í gegnum tíðina, hvað þá snjallsíma.

Það kom svo til umræðu í kaffitíma á mínum vinnustað hvernig á því gæti hafa staðið að bóndadagurinn færi út yfir öll mörk og þorrin hæfist svona seint þetta árið, -eða þannig. Ég var fljótur að upplýsa félagana um að þetta hefði með sumarið í sumar að gera sem gerði þá reyndar bara ruglaðri í ríminu.

En málið er að ég hef verið fornari en bæði hún Matthildur mín og Jökuldælingarnir þegar kemur að stað og stund, og mæti oft þar sem engin átti von á, allar síst ég sjálfur. Verð mér samt árlega út um Almanak hins íslenska þjóðvinafélags, og vissi því að í sumar var sumarauki mitt í öllum dumbungnum, -í því almanaki get ég auk þessa fylgst með tunglinu og sjávarföllum í austfjarðaþokunni.

Það kom fyrir að ég átti samræður við norska vinnufélaga mína um gamla tímatalið, sem ég taldi norrænt, þegar ég var í Noregi. Þeir könnuðust ekki við þetta tímatal og töldu jafnvel að það væri fleipur í mér að kenna það við norðurlönd því sjónvarpið þeirra segir annað. Síðan hef ég komist að því að þetta íslenska tímatal getur allt eins átt upphaf sitt í Babýlon.

Svo merkilegt sem það nú var þá könnuðust vinnufélagar mínir, sem voru innflytjendur í Noregi og komu frá Afganistan og Súdan, frekar við þetta gamla íslenska tímatal. Á Valentínusardegi kom eitt sinn til umræðu vegna spurningar frá norskum félaga hvort heimalöndin héldu upp á þann dag. Ég sagði frá konudeginum á Íslandi sem væru á mánaðarmótum þorra og góu sem hliðstæðum.

Þá kom fram hjá félaga frá Afganistan að þar voru áramót á sama tíma og Þorri og góa mættust á Íslandi. Á sumardaginn fyrsta datt mér svo í hug að spyrja þennan félaga að því hvort þá væru mánaðarmót í Afganistan, hann gluggaði í snjallsímanum sínum og sagði svo; „ja det gjør“.

Þó ruglast sé í ríminu á stund og stað í snjallvæddu neysluþjóðfélaginu, þá er rétt að hafa það í huga að gamla tímatalið var notað við að mæla hina raunverulegu hringrás tímans.

 

Degi hallar

haustið kallar

á vetur í myrku

 

Sálin saknar

þar til vaknar

vor með birtu

 

Lífið fagnar

aldrei lastar

í sumar blíðu


Ó, lands vors guð

Það Ísland, sem við kölluðum ættland, er horfið í rót órofa alda. Og nú hefur það raungerst, sem Guðjón kallar stýrðu andstöðuna, -hún hefur komist klakklaust á varamannabekkinn.

Engin þarf lengur að tala fyrir því sem skiptir máli, -hvað þá úrsögn úr flokknum eða EES. Stólaskiptin eru orðin staðreynd og ég get sagt við Ingólf "I told you so".

“Formaðurinn getur þá dregið til baka úr þinginu bókun 35, sem engu skiptir, því þetta lið samþykkir hvort eð er allt á færibandi frá unioninu. Þannig getur flokkurinn haldið andlitinu vegna nafns síns og arfleifðar gagnvart kjósendum í næstu kosningum.”

Eftir þær kosningar sameinast svo hrunflokkarnir um tveggja flokka stjórn. Síðan verður skömmtuðum sætum við háborð glóbalsins útdeilt til valinna á kostnað fullveldis lítillar þjóðar.

 

Eftir of stóran skammt af engu

er nú setið við dánarbeð draums,

– drepnir tittlingar með brostnum vonum –

þeim er áræði æskunnar gaf vængi

líkt og sunnan þeyr.

 

Öll fyrrum framtíðar áform

eru nú andvana fædd

– hljóð í ódáins frelsi.

 

Dropinn sem holaði steininn

fer nú einn af öðrum í vaskinn

– úti við dumbshaf í helsi.

 

Eitt eilífðar smáblóm

– nú í glötun kastað –

tilbiður guð sinn og deyr.


Fordæming

Tönn fyrir tönn,

auga fyrir auga.

 

Við sem bak við fjöllin

úr fjarlægð fordæmum,

í glamri falskra tanna

kaldastríðs kumlsins.

 

Þegar himnarnir hrynja;

– halda þá hugsanir

sálinni andvaka?

– hvað verður um börnin

í siðblindu kófinu?

 

Augu fyrir auga,

tennur fyrir tönn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband