Færsluflokkur: Ljóð
9.6.2023 | 16:46
Heillin mín
Mér finnst að ég hafi talað tæpitungulaust hér á síðunni undanfarið, þó svo að ég hafi hvorki flokkað það hægri né vinstri.
Mér leiðist heldur að flokka fólk, og forðast að nefna nöfn þegar ég fer með skæting, þó svo kannski megi skilja við hvað og hverja er átt.
Flokkspólitíkin er ónýt á landinu bláa. Skoðanir fólks koma nú úr þeirri tunnu sem hæðst glymur rétttrúnaðar síbyljunni.
Heilindi og þjóðerniskennd hefur alltaf verið eitthvað jákvætt í mínum huga, en á samt ekkert skylt við þá þjóðernisverkfræði sem fór hamförum í Evrópu á síðustu öld.
Þar var andhverfu þjóðerniskenndar beitt með blekkingum, enda vita það allir sem sjá nefi sínu lengra að það voru ekki nasistar sem töpuðu stríðinu, heldur þjóðverjar.
ESB og þar með EES fjórfrelsis þjóðhelsis samningurinn er afsprengi hugmyndafræði nasismans, -Þjóðernisverkfræði sem kemur óorði á þjóðerniskennd og gömul gildi.
Nasistar komu einnig óorði á heilindi, -meir að segja á orðið heill með kveðju sinni.
Ár var alda
Frá órofa alda
Að ferðast um tímann
er líkt bylgju sem brotnar
við brimsorfna strönd
Við aldanna nið
verður hugurinn heill
og samsamar sig briminu
í samfellu tímans
Vertu því heill,
- heillin mín - eins og amma sagði.
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 09:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.3.2023 | 16:53
Stolið og skrumskælt
Góðir Íslendingar nú erum við ekki í góðum málum. Viðundrin á Svörtuloftum hafa hækkað flugið einn ganginn enn, og ætla sér nú að ná niður verðbólgunni á heimsvísu eftir að Jón og Gunna eru hætt við að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Nú gildir sama aðferðafræði og hjá gálunum sem heimsóttu Kænugarð í vikunni sem leið, til ráðfæra sig við stríðsherra um hvernig mætti fjármagna síðustu heimstyrjöldina.
Þegar að tærnar á Jóni og Gunnu á Tene hættu að vera vandamálið blossaði verðbólgan upp á heimsvísu, auk þess sem ríki, sveitafélög og auðrónar landsins hafa neyðast til að fara hamförum við lántökur til að fjármagna allar frábæru hugmyndirnar sínar; -sjálftökuna og arðgreiðslurnar af vísitölu verðbólgunnar. Meir að segja verkalýðsforingjarnir eru að ranka úr rotinu.
Eftir áralanga baráttu við víxlhækkanir verðbólgu og vaxta innanlands hafa Why Iceland viðundrin og flissandi fábjánar nú ákveði að nota afburða þekkingu sína til að bjarga heiminum. Nú mega Jón og Gunna heldur betur bretta niður buxnaskálmarnar, trúa á hamfarahlýnunina og sameinast um að ýta öllum flækingunum upp úr snjósköflunum svo aftur megi koma blóm í haga með betri tíð.
Já nú er Einmánuður gnafinn, stolinn og skrumskældur.
Fnæsir nepju úr nösum
næðu um barm og vanga
norðan napuryrði
krepja tár á vanga.
Hleður snjó í hlíðar
skefur skafli í götu,
-mjöll sólar geislum í.
Senn kemur lóa,
sem syngur í móa;
bí bí bí og dýrðin dí.
Vorið kemur víst á ný.
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
29.1.2023 | 06:19
Glitský
Útsynningurinn hefur verið þrálátur síðustu vikuna með tilheyrandi ófærð í lofti, oft er hann samt fallegur. Suðvestan hraglandi er samt hjá flestum óvelkominn á þorra með sínum storméljum, spilliblotum og svellum, -þar að auki rignir ekki eins þétt niður öllum velkomnu flóttamönnum á klakann, og landinn kemst ekki viðstöðulaust í loftið til að telja tærnar á Tene.
Þorrinn byrjaði með nýju tungli og má því allt eins vænta umhleypinga út tunglið, -samkvæmt gömlum fræðunum, -eða allt til góu tungls. Reyndar virðist vísindaleg veðurfræðin í síauknum mæli vera farin að færa sér í nyt visku karlsins í tunglinu í langtíma spálíkönum sínum, nema þegar til hamfara hlýnunar horfir.
Sjálfur spái ég mest í skýin og hef jafnvel fengið skýjafar með hröfnunum héðan úr loftkastalanum mínum við þannig spádóma. Ég bý við skýjaborg og get ferðast um á heilu skýjaflotunum með því einu að líta út um stofugluggann, og það án alls loftslagskvíða svo lengi sem ég hef vit á að líta á hitamælinn heima hjá mér en ekki Langtíburtukistan.
Alla vikuna var skýjarekið magnað áhorf fyrir einlægan skýjaglóp. Þó svo dögum saman kæmust engar á loft carbfixaðar flugvélarnar með kolefnisstrókandi túristavaðalinn, þá svifu hrafnarnir um að venju í suðvestan þræsingnum og þegar himininn dró gluggatjöld sín frá, allt frá vestri til austurs, blöstu við himnesk undur og stórmerki.
Á sama augnabliki og himininn
gluggatjöldum sínum svipti í sundur,
ákvað sólin að draga saman sinn sjóð.
Líkt og gullið draumfagurt undur,
lýsti síðasti geisli hennar upp marglit ský,
-og í glugganum á rökkvaðan karlskrjóð.
Ljóð | Breytt 14.12.2024 kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.12.2022 | 12:50
Staðið við gluggann
Í einsemd utan við gluggann
býr óhamingja sveitarinnar.
Í minningu liðins tíma
balakta tannlaus bros
í eldhúsgardínunni.
Já, ég hef staðið við gluggann
séð hann bíða og vona,
en sér hann þig
eftir að þú ferð.
Ljóð | Breytt 15.12.2024 kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.11.2022 | 08:57
Hvað er hagvöxtur?
Vegna þess hvað hagvöxtur gerir mikið fyrir kaupgetu almennings er talið ásættanlegt að stór hluti upplýsingasamfélagsins inni af hendi vinnu sem engin hefur þörf fyrir. Til þess að hámarka eyðslu almennings þarf frjáls tími jafnframt að vera af passlega skornum skammti, sem geri það að verkum að fólk borgi meira fyrir ímynduð þægindi og hafi minni tíma til að komast upp á lag með að skipuleggja eigin tíma. Þetta heldur m.a. fólki óvirku utan vinnu við að horfa á síma, sjónvarp og auglýsingar á það sem er sagt að því vanti.
Við erum föst í menningu sem hefur verið hönnuð af færustu markaðsfræðingum í að gera okkur þreytt, eftirlátsöm af áreiti, tilbúin til að borga fyrir þægindi og skemmtun, og síðast en ekki síst fyrir það sem hefur ekki það sem þarf til að uppfylla væntingar okkar. Þannig höldum við áfram að vilja það sem við gerum til að geta keypt það sem okkur vantar ekki, vegna þess að okkur finnst eitthvað vanta.
Vestræn hagkerfi neyslunnar hafa þannig verið byggð upp á útspekúleraðan hátt til að búa til fíkn og fullnæga henni með óþarfa. Við eyðum til að hressa okkur upp, til að verðlauna okkur, til að fagna, að fresta vandamálum, að gera okkur meiri í augum náungans og síðast en ekki síst til að draga úr leiðindum. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig það myndi leika hagvöxtinn ef við hættum að kaupa það sem okkur vantar ekki og hefur ekkert raunverulegt gildi í lífi okkar til lengri tíma.
Það væri hægt að stytta vinnudaginn, minka við sig húsnæðið (þar með húsnæðislánin) og gera sorphirðuna verkefnalausa. Vandamál myndu fara minnkandi, svo sem offita, sjúkdómar, mengun og spilling, sem eru tilkomin vegna kostnaðarins við að halda uppi hagvexti. Heilbrigðu, hamingjusömu fólki finnst ekki þurfa svo mikið af því sem það hefur ekki, og það þýðir að það kaupir minna af rusli og þarf minn af afþreyingu sem það finnur ekki sjálft.
Vinnumenningin er hagvaxtarins öflugasta tól, þar sem launin gera kleyft að kaupa eitthvað. Flest okkar fara á þann hátt með peninga að því meir sem er þénað því meiru er eytt. Ég er ekki endilega að halda því fram að það verði að forðast vinnu og fara þess í stað út um þúfur í berjamó. En það er hverjum og einum holt að gera sér grein fyrir á hverju hinn heilagi hagvöxtur þrífst og hvort hann sé sá leiðtogi sem við viljum fylgja í þessum heimi.
Það hefur verið lögð í það ómæld vinna að hanna lífstíl sem byggir á því að kaupa það sem vantar ekki fyrir peninga sem ekki verða til fyrr en þú hefur látið frelsi þitt í skiptum, jafnvel ævilangt. Í sem stystu máli er hagvöxtur dagsins í dag;
Mælska meðal manna
um gagnsemi sóunar.
Gröf grafin í sand
neyslu til hagsældar.
Í heljarslóð jarðar,
með orkuskiptum,
hamfaraórækt
og carbfix.
Ljóð | Breytt 26.12.2024 kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
26.7.2020 | 05:52
Heyannir
Það hefur færst í vöxt að fyrirsagnir séu innihaldslausar blekkingar. Engu líkara en að þær eigi að plata fólk til að lesa eitthvað sem það hefur ekki nokkurn áhuga á, þetta vill síðuhöfundur forðast í lengstu lög. Þess vegna ætti fyrirsögnin alltaf að varða veginn að innihaldinu, jafnvel þó þvælin langloka sé, lík heyi í harðindum sem farið hefur úr böndunum.
Heyannir er tíundi mánuður ársins og fjórði sumarmánuður, samkvæmt gamla norræna tímatalinu, þegar miðað var við ársbyrjun 1. vetrardag. Heyannir hefjast alltaf á sunnudegi eftir aukanætur á miðju sumri, eða á tímabilinu 23. til 30. júlí. Heitið heyannir vísar til mikils annatíma í sveitum. Mánuðurinn sjálfur, eða nokkur hluti hans, mun einnig hafa borið nafnið miðsumar samkvæmt gömlum heimildum.
Hver mánuður taldi 30 daga í gamla tímatalinu því gengu þeir ekki upp í sólárið. Síðasti mánuður, Sólmánuður, hófst 22. júní, Heyannir hefðu samkvæmt því átt að hefjast 22. Júlí en sá mánuður hefst hinsvegar í dag 26. júlí. Mismunur á milli sólarársins og daga mánaðanna var jafnaður um miðsumar með aukanóttum, stundum kallaður sumarauki eða sumarnætur, sem gátu verið mismargir sólarhringir eftir því hvernig tímatalið var reiknað, eins og sjá má í þætti Gísla Hallgrímssonar um íslenska tímatalið í bók hans Betur vitað.
Svo lýsir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal mánuðinum í riti sínu, Atli frá árinu 1780: Nafn þessa mánaðar sýnir hvað þá skal iðja. Því nú er komið að því ábatasamasta verki hér á landi, sem er að afla heys, og meta það flestir menn öðrum framar. Sláttur byrjar venjulega að miðju sumri. Vökva menn plöntur einu sinni í viku, með sjóvatni en öðru vatni annars, ef miklir þurrkar ganga. Nú má safna Burkna, hann er góður að geyma í honum vel þurrum egg, rætur og epli, sem ei mega út springa, hann ver og mokku og fúa. Líka hafa menn brúkað ösku í hans stað. Kornsúru og kúmeni má nú safna. Mitt í þessum mánuði er sölvatekjutími.
Svona vegna þess að tíðarandinn býður ekki lengur upp á heyannir hjá megin þorra landsmanna, sem þessa dagana flækist um landið, þá ætla ég að segja sögu af tíðarandans toga um afmælisgjöfina hennar Matthildar minnar. En þannig var að Matthildur minntist á það fyrir nokkrum dögum að hana langaði til að fara Lónsheiði, fjallveg sem fara þurfti þegar Djúpavogsbúar fóru á Höfn í Hornafirði áður en vegurinn um Þvottár- og Hvalnesskriður kom til sögunnar. "Hvað er þetta manneskja langar þig núna Lónsheiði, veg sem þú hefur ekki farið síðan þú varst átján", -en vegurinn var aflagður 1981.
Kvöldið fyrir afmælisdaginn staglaði ég mig í gegnum fésbókina og sá þá þar lesningu með tilheyrandi myndum frá vöskum vini, sem sagðist hafa farið með frúna sína yfir Lónsheiði þann daginn, og ekki verið nokkurt mál. Þannig að ég bauð Matthildi morguninn eftir að aka henni yfir Lónsheiði í afmælisgjöf.
Þegar við komum að heiðinni mundi hvorugt okkar hvar hefði verið farið upp frá Álftafirði, þannig að við spurðumst fyrir á Starmýri I og II, og var á báðum bæjum eindregið ráðið frá þessari háskaför. En samt bent á að leifarnar af veginum væru á bak við heyhlöðuna. Við létum samt ekki segjast og vildum fá að kíkja á bak við hlöðu og aka stuttan spöl inn í dal til að rifja upp gömul kynni áður en við snérum við, -sem var auðsótt mál.
Er við vorum komin nógu langt til að sjá eftir veginum upp á hæðstu brún ákváðum við að fá okkur kaffi og snúða, snérum svo við. Vegurinn átti hvort eð var að vera ófær öðrum en torfærutröllum við brúna í Traðargili, sem er ofarlega Lónsmegin. Því fórum við um Þvottár- og Hvalnesskriður yfir í Lón og upp að Traðargili þeim megin og höfðum þá farið fram og til baka Lónsheiði, -ef svo má segja-, til að sjá upp á topp báðu megin, án þess að fara yfir heiðina.
Þá var afmælisdagurinn rétt hálfnaður og sól í Lóni. Við dóluðum suður á bóginn snuddandi um Höfn, Jökulsárlón og Öræfi; enda engin ástæða til að fara austur í dumbunginn heima, og þessi afmælisdagur ekki nærri að kvöldi kominn. Við rásuðum suður fyrir Vatnajökul, settum niður tjaldhæla á Klaustri, síðan upp með Vatnajökli að vestan sitt hvoru megin við Skaftá næsta dag. Höfum nú séð Laka, Eldgjá, Fjaðrárgljúfur, auk þess að keyra í gegnum Meðalland. Stórbrotin hamfarasvæði í heyanna sögu þjóðarinnar, nú með túristanna "Justin Bieber selfy fast track" hörmungum við malbikaðan þjóðveg eitt í bland.
Ég vaknaði svo upp í tjaldinu okkar kl. 4 á þann 3. í afmæli, ranglaði áttavilltur út í morgunnþoku um Eldgjárhraunið eins og dolfallinn álfur, þar var ekki beint heyskaparlegt. Áður en ég treysti mér til að spyrja Matthildi mína hvort hún ætlaðia virkilega að sofa í allan dag og segja henni heyskaparhorfur; að það væri komin súld á tjaldið og þar að auki væri afmælisdagurinn löngu liðinn. Hún varð ekki jafn hrifin af tíðindunum og afmælisgjöfinni, en samþykkti þó með semingi að halda austur í áttina heim.
Það er engin leið til að lýsa vettvangi eldsumbrota og móðuharðinda með orðum, sem nú fara með ábátasamara hlutverk í lífi landsmanna en heyannir, -og jafnvel sjálf sólin, það verður hver að sannreyna á eigin skinni rétt eins og hörmungar fyrri alda. En ég læt hér fylgja með myndir ásamt stuttum fyrirsögnum.
Sá suður fyrir sól og mána,
svarta sanda,
mjúkan mosa,
sólu sorta,
í skýja hroða
, , hraun til að skoða
, , , og þig um gengna götu ganga
grasið græna.
Trúir þú nú álfasögum?
Ljóð | Breytt 26.12.2024 kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)