Heyannir

IMG_7838

Það hefur færst í vöxt að fyrirsagnir séu innihaldslausar blekkingar. Engu líkara en að þær eigi að plata fólk til að lesa eitthvað sem það hefur ekki nokkurn áhuga á, þetta vill síðuhöfundur forðast í lengstu lög. Þess vegna ætti fyrirsögnin alltaf að varða veginn að innihaldinu, jafnvel þó þvælin langloka sé, lík heyi í harðindum sem farið hefur úr böndunum. 

Heyannir er tíundi mánuður ársins og fjórði sumarmánuður, samkvæmt gamla norræna tímatalinu, þegar miðað var við ársbyrjun 1. vetrardag. Heyannir hefjast alltaf á sunnudegi eftir aukanætur á miðju sumri, eða á tímabilinu 23. til 30. júlí. Heitið heyannir vísar til mikils annatíma í sveitum. Mánuðurinn sjálfur, eða nokkur hluti hans, mun einnig hafa borið nafnið miðsumar samkvæmt gömlum heimildum.

Hver mánuður taldi 30 daga í gamla tímatalinu því gengu þeir ekki upp í sólárið. Síðasti mánuður, Sólmánuður, hófst 22. júní, Heyannir hefðu samkvæmt því átt að hefjast 22. Júlí en sá mánuður hefst hinsvegar í dag 26. júlí. Mismunur á milli sólarársins og daga mánaðanna var jafnaður um miðsumar með aukanóttum, stundum kallaður sumarauki eða sumarnætur, sem gátu verið mismargir sólarhringir eftir því hvernig tímatalið var reiknað, eins og sjá má í þætti Gísla Hallgrímssonar um íslenska tímatalið í bók hans Betur vitað.

Svo lýsir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal mánuðinum í riti sínu, Atli frá árinu 1780: Nafn þessa mánaðar sýnir hvað þá skal iðja. Því nú er komið að því ábatasamasta verki hér á landi, sem er að afla heys, og meta það flestir menn öðrum framar. Sláttur byrjar venjulega að miðju sumri. Vökva menn plöntur einu sinni í viku, með sjóvatni en öðru vatni annars, ef miklir þurrkar ganga. Nú má safna Burkna, hann er góður að geyma í honum vel þurrum egg, rætur og epli, sem ei mega út springa, hann ver og mokku og fúa. Líka hafa menn brúkað ösku í hans stað. Kornsúru og kúmeni má nú safna. Mitt í þessum mánuði er sölvatekjutími.

Svona vegna þess að tíðarandinn býður ekki lengur upp á heyannir hjá megin þorra landsmanna, sem þessa dagana flækist um landið, þá ætla ég að segja sögu af tíðarandans toga um afmælisgjöfina hennar Matthildar minnar. En þannig var að Matthildur minntist á það fyrir nokkrum dögum að hana langaði til að fara Lónsheiði, fjallveg sem fara þurfti þegar Djúpavogsbúar fóru á Höfn í Hornafirði áður en vegurinn um Þvottár- og Hvalnesskriður kom til sögunnar. "Hvað er þetta manneskja langar þig núna Lónsheiði, veg sem þú hefur ekki farið síðan þú varst átján", -en vegurinn var aflagður 1981.

Kvöldið fyrir afmælisdaginn staglaði ég mig í gegnum fésbókina og sá þá þar lesningu með tilheyrandi myndum frá vöskum vini, sem sagðist hafa farið með frúna sína yfir Lónsheiði þann daginn, og ekki verið nokkurt mál. Þannig að ég bauð Matthildi morguninn eftir að aka henni yfir Lónsheiði í afmælisgjöf.

Þegar við komum að heiðinni mundi hvorugt okkar hvar hefði verið farið upp frá Álftafirði, þannig að við spurðumst fyrir á Starmýri I og II, og var á báðum bæjum eindregið ráðið frá þessari háskaför. En samt bent á að leifarnar af veginum væru á bak við heyhlöðuna. Við létum samt ekki segjast og vildum fá að kíkja á bak við hlöðu og aka stuttan spöl inn í dal til að rifja upp gömul kynni áður en við snérum við, -sem var auðsótt mál.

Er við vorum komin nógu langt til að sjá eftir veginum upp á hæðstu brún ákváðum við að fá okkur kaffi og snúða, snérum svo við. Vegurinn átti hvort eð var að vera ófær öðrum en torfærutröllum við brúna í Traðargili, sem er ofarlega Lónsmegin. Því fórum við um Þvottár- og Hvalnesskriður yfir í Lón og upp að Traðargili þeim megin og höfðum þá farið fram og til baka Lónsheiði, -ef svo má segja-, til að sjá upp á topp báðu megin, án þess að fara yfir heiðina.

Þá var afmælisdagurinn rétt hálfnaður og sól í Lóni. Við dóluðum suður á bóginn snuddandi um Höfn, Jökulsárlón og Öræfi; enda engin ástæða til að fara austur í dumbunginn heima, og þessi afmælisdagur ekki nærri að kvöldi kominn. Við rásuðum suður fyrir Vatnajökul, settum niður tjaldhæla á Klaustri, síðan upp með Vatnajökli að vestan sitt hvoru megin við Skaftá næsta dag. Höfum nú séð  Laka, Eldgjá, Fjaðrárgljúfur, auk þess að keyra í gegnum Meðalland. Stórbrotin hamfarasvæði í heyanna sögu þjóðarinnar, nú með túristanna "Justin Bieber selfy fast track" hörmungum við malbikaðan þjóðveg eitt í bland.

Ég vaknaði svo upp í tjaldinu okkar kl. 4 á þann 3. í afmæli, ranglaði áttavilltur út í morgunnþoku um Eldgjárhraunið eins og dolfallinn álfur, þar var ekki beint heyskaparlegt. Áður en ég treysti mér til að spyrja Matthildi mína hvort hún ætlaðia virkilega að sofa í allan dag og segja henni heyskaparhorfur; að það væri komin súld á tjaldið og þar að auki væri afmælisdagurinn löngu liðinn. Hún varð ekki jafn hrifin af tíðindunum og afmælisgjöfinni, en samþykkti þó með semingi að halda austur í áttina heim.

Það er engin leið til að lýsa vettvangi eldsumbrota og móðuharðinda með orðum, sem nú fara með ábátasamara hlutverk í lífi landsmanna en heyannir, -og jafnvel sjálf sólin, það verður hver að sannreyna á eigin skinni rétt eins og hörmungar fyrri alda. En ég læt hér fylgja með myndir ásamt stuttum fyrirsögnum.

IMG_8156

 Sá suður fyrir sól og mána,

IMG_8093

 svarta sanda,

IMG_8234

 mjúkan mosa,

IMG_8114

 sólu sorta,

IMG_8152

 í skýja hroða

IMG_8208

  , , hraun til að skoða

IMG_8223

 , , , og þig um gengna götu ganga

IMG_8293

  grasið græna.

IMG_8232

 Trúir þú nú álfasögum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband