Færsluflokkur: Dægurmál

Hold kæft mand

Það er kannski ekki rétt að segja frá samtölum þó allrar athygli séu verð. En ef, -þá er rétt að sleppa því sem getur valdið særindum þó sárt sé umræðuefnið sem sagt er frá.

Fyrir stuttu hafði félagi minn og vinur frá því í bernsku samband við mig með vinarbeiðni á facebook, við áttum margt saman að sælda fram yfir tvítugt, en þá skyldu leiðir. Hann flutti í borgina og fljótlega þaðan til Danmerkur.

Síðan þá hef ég aðeins heyrt einu sinni í honum, fyrir tæpum 20 árum síðan. En þá var honum mikið niðri fyrir vegna ógæfu sem hann vildi afstýra og bað mig um að hafa milligöngu þar um, þetta tengdist því hvers vegna hann yfirgaf æskustöðvarnar.

Hann hafði sagt mér þetta allt saman skömmu áður en hann fór héðan, þannig að ég var inn í málinu og gat sagt honum að vera alveg rólegum því ég hefði þegar varað viðkomandi við og sá væri meira en meðvitaður um hvað málið snérist.

Ég hafði ekki heyrt í þessum æskufélaga frá því að hann hafði samband, þarna um árið, með símhringingu um miðja nótt. Síðan var það núna í gærkvöld að skilboð komu upp á facebook um hvort það væri í lagi að hann hefði samband. Ég ok-ey-aði það.

Hann hringdi strax og spurði á dönsku hvort það væri í lagi að hann talaði dönsku því hann hefði týnt niður íslenskunni og síðan spurði hann hvernig ég hefði það, sagðist hafa séð áhugaverðar myndir sem ég hafði póstað á facebook.

Ég sagði honum að danska væri í lagi mín vegna, en ég myndi tala íslensku því hann hlyti að skilja hana betur en ef ég færi að rifja upp norskuna mína, -og ég hefði það bara þokkalegt, væri enn í steypunni eins og myndirnar bæru með sér á facebook. - Spurði svo um hans hagi.

Það kom löng þögn frá félaganum, og síðan að hann væri bara ekki viss um að hann væri að tala við réttan mann, -hann kannaðist ekki við röddina í mér, þannig að hann væri ekki tilbúin til að tjá sig um sína hagi.

Ég sagði honum að það væri samt sá Magnús, sem hann hefði óskað eftir samtali við, sem hann væri að tala við, og það væri einkennilegt að hann rengdi mig um að vera sá sem ég segðist, -maður sem nú talaði dönsku með orðaforða og raddbeitingu sem ég kannaðist ekki við af honum frá bernsku.

Samtalið gekk nokkuð stirt um tíma, en svo spurði hann hvort ég myndi eftir atviki úr okkar bernsku, um fuglinn, þegar við fórum upp á kletta, hann myndi bara ekki lengur hvað klettarnir hétu. Ég sagði honum að þeir hétu Hamrar. Hann meðtók það ekki og efaðist áfram um hver ég væri.

-Þetta voru Hamrarnir; sagði ég, -og fuglinn var rjúpa. – Manstu hvernig fuglinn drapst; spurði hann. – Rjúpan át einangrunarplast; svaraði ég. – Hold kæft mand du er Magnús.

Eftir þetta gekk samtalið greiðlega og varð bæði langt og ánægjulegt þar sem ýmislegt var rifjað upp. Hann kom inná atburðina sem urðu til þess að hann yfirgaf æskustöðvarnar, og sagði að kannski væri best að hann kæmi til baka og kveddi drauginn niður.

Ég hvatti hann til þess og sagðist skyldi taka á móti honum og segja honum við það tækifæri framhald þeirrar húsbyggingar draugasögu, sem mér væri nú sennilega kunnari en honum.

Hann sagði að til Íslands hefði hann ekki haft nokkurn áhuga á að koma í 30 ár og hann efaðist um að hann hefði sig í það eftir þetta, búinn að koma sér vel fyrir í Danmörku. Spillingin væri bara svo yfirgengileg á Íslandi að furðulegt væri að það hefðu ekki fleiri yfirgefið klakann. Og bauð mér síðan að heimsækja sig til Danmerkur til að ræða málin.

Ég sagði honum að hann þyrfti ekkert að segja mér um spillingu á Íslandi, ég hefði flúið til Noregs eftir hið svokallaða hrun og búið þar í 3 ár til að senda hverja krónu heim, en komið til baka við fyrsta tækifæri.

Og nú væri ég búin með kvótann utan landsteinana hefði bæði starfað í Ísrael og Færeyjum, ferðast oft þvers og kruss um Bandaríkin í sambandi við steypu þó svo að ég hafi ekki starfað þar né búið.

Þar að auki hefði besti vinur minn og frændi búið í Ástralíu yfir 40 ár, yngsta systir mín búið í S-Frakklandi lengur en hann í Danmörku og yngsti bróðir í Englandi hátt í 20 ár.

það væru fleirum en honum sem ekki hugnaðist að búa á Íslandi, en út fyrir landsteinana gæti ég ekki hugsað mér að fara úr þessu.

-Hold kæft mand; sagði hann þá, -og við kvöddumst sáttir.


Nýungar í byggingabransanum

Nú er verið að siga app Mafíum verkfræðistofanna á húsbyggendur, rétt eins og hverri annarri gjaldtöku bílastæða a la ISAVIA, sem er orðin frekar hvimleið á beit í köntunum, við blæðandi þjóðveginn. Reyndar fylgir Sorpu sálfræðin með, sem bland í poka, -svona í kaupbæti.

Í dag bættist við nýtt ákvæði í byggingareglugerð, -lífsferilsgreining. Með áherslu á svo kölluð gróðurhúsaáhrif (GWP, Global Warming Potential), mæld í kg CO2‚-ígildum, sem íslensku heittrúarklerkarnir hafa uppnefnt kolefnisspor. Til aukinnar skilvirkni er boðið upp á útreikningaglundur í appi.

Síminn var glóandi um tíma í 34. viku þegar þeir sem höfðu uppi byggingaáform freistuðu þess í örvæntingu að ná sér um byggingaleyfi áður en ósköpin skyllu á, -vantaði ábyrgðayfirlýsingu byggingameistara til að höndla byggingaleyfi fyrir 1. september.

Þessu verkfræðiundri kolefniskirkjunnar er ætlaða að reikna út kolefnisspor byggingarefna  og -aðferða, frá upphafi til enda, -já meðan búið er í húsnæðinu, eins þegar því er fargað. Þeir sem vilja kynna sér spekina á bak við kolefnissporstrúarbrögðin geta lesið sér til hér

Sérkennilegt hvernig kellingavædd fáviskufabrikkan raðar sér við jötuna og er ævinlega tilbúin til að níðast á fólki sem glímir við að hafa þak yfir höfuðið. 

Þessari reglugerðabreytingu var ætlað að koma inn að fullu núna 1. september, en eitthvað hik virðist hafa komið upp á síðustu stundu, alla vega hvað íbúðahúsnæði varðar.

Hvað lengi þetta hik með íbúðahúsnæði varir er ekki gott í að spá, kannski hefur fáráðurinn í seðlabankanum gefið út hugleiðingar um verðbólguvæntingar og vexti út árið, -hver veit.


Héðan og þaðan, þangað þarna

Hvað ungur nemur, gamall temur, stendur einhversstaðar, en það skyldi hafa hugfast að gömlu brýnunum verður ekkert ágengt nema þeim yngri sé gefinn gaumur, -hlustað eftir því hvað liggur á hjarta.

Ég átti áhugavert samtal við ungan mann sem var hér á ferð fyrir skemmstu. Hann er nýlega kominn út á vinnumarkaðinn í starf hjá einni fremstu fjármálastofnun landsins.

Eins og þessi ungi maður á ættir til þá er hann óragur við að láta álit sitt í ljós. Talar kjarnyrta íslensku og kann að halda mörgum boltum á lofti í samræðum.

Þó svo flestir væru ánægðir með vel launað starf hjá traustu fyrirtæki hugnast honum ekki hópsálin á vinnustaðnum.

Hann sá starf auglýst hjá einu af frægu íslensku nýsköpunarfyrirtækjum, sem stutt er síðan að var sprotafyrirtæki á styrkjum, -gott ef frumkvöðlarnir hafa ekki fengið fálkann hjá forsetanum.

Hann sem sagt sótti um, enda auglýst eftir manni eins og honum, sagðist hafa vandað sig, yfirfarið umsóknina fram eftir kvöldi og sent hana inn rétt fyrir miðnætti. -Viti menn hann hafði fengið svar morgunninn eftir áður en hann vaknaði til vinnu.

Svarið var að honum væri hafnað. Hann varð hugsi og ákvað að hringja í nýsköpunarfyrirtækið og spurði konu, sem svaraði fyrir atvinnuumsóknirnar, hvort að það hefði verið unnin næturvinna við að fara yfir umsóknina hans.

Nei hún sagði að það hefði ekki verið unnin næturvinnu, heldur væri það gervigreindin sem sæi um svarið. Hann maldaði í móinn, og sagðist finnast það skrýtið ef fyrirtæki auglýsti eftir akkúrat hans menntuðu sérþekkingu að þá væri gervigreind látin svara.

Konan lofaði að athuga málið, hafði svo samband við hann skömmu seinna og hvatti hann til að sækja um aftur, -þá á ensku en ekki íslensku.

Hún lét hann hafa það sem gervigreindin hafði um íslensku umsóknina hans að segja, sem var torræður texti, fullt af myllumerkjum og torkennilegum táknum.

Ungi maðurinn sótti svo um aftur á ensku, -og viti menn hann var strax boðaður í atvinnuviðtal.

-Mér varð á að hugsa, -já það er þangað þarna sem við erum komin.


Hamfarahlýnunin og akurinn

Sumarið hefur verið ljúft og hlýtt, minnir helst á sumur bernskunnar þegar alltaf skein sól, þó svo símalínur sándi ekki lengur í golunni við Sáms spangól. Á Héraði má sjá þessa dagana gullna akra bylgjast blíðum í blænum tilbúna til uppskeru strax í ágúst.

Þegar ég lít út um eldhúsglugga blasir við kornakur þar sem gamla flugbrautin var á Egilsstaðanesinu. Undanfarin ár hafa verið kornakrar víða á nesinu en í ár er bara einn stór sem nær yfir 2/3 gamla flugvallarins.

IMG_0205

Útsýnið á ágústkvöldi út um eldhúsgluggann

Áhugamál mitt hefur verið að fylgjast með kornökrum þegar það býðst, sem sennilega helgast af því að þeir eru í mínu fyrsta minni úr bernsku. Þó kornakrar hafi verið aðeins 3-4 sumur minnar bernsku, þá eru þeir greyptir í minnið enda fátt myndrænna en kornakur sem bylgjast í blíðum blæ.

Árið 1964 er mér minnistætt því það ár var eilíft sumar og kornakurinn ævintýri. Núna þetta ár 2025 hefur verið það hlýtt að alltaf gátum við steypt og íbúðahús var málað að utan í mars. Kornakrar og byggingar hafa þannig verið minn mælikvarði á hvað er gott veður.

Amma og afi bjuggu í Vallanesi lungann úr 20. öldinni. Þar voru kornakrar þegar fyrst ég man. Árin frá 1965-1970 voru hin svokölluðu hafísár, allt of köld fyrir kornrækt. Það var ekki fyrr en undir aldamótin 2000 sem aftur komu nógu hlý ár til að bændur á Héraði leggðu í kornrækt.

Það má segja að nafni minn og afi hafi verið minn mentor, hann var bóndi fram yfir sextugt og fylgdist því vel með veðri mest alla 20. öldina. Hann sagði mér að besta veðrið á sinni ævi hefðu verið árin 1930 - 1940 og góð ár fram yfir 1960.

IMG_0044

Ævintýra akurinn í Vallanesi

Það er ljúft að hafa upplifað nú síðustu áratugina aftur sumur bernskunnar, sem jafnvel minna einna helst á frásagnir afa af blíðviðris sumrum 20. aldarinnar. Dagbókar færsla afa 6. október 1965 var svona: -Fór í Egilsstaði, á mínum bíl í Ketilsstaði, þaðan með Jóni Bergssyni. Fórum til að semja um greiðslu á kornskurðarvél.

Sumarið 1965 var það síðasta sem afi og amma voru með kornakra í Vallanesi, og það liðu yfir 30 ár áður en þeir sáust aftur á Héraði. Þó svo að sumrin hafi oft verið sólrík og ljúf þá voru þau of stutt fyrir kornrækt.

Sumarið í sumar hefur sem sagt verið langt, sólríkt og hlýtt. Kornakurinn á Egilsstaðanesinu fyrir nokkru búin að taka sinn gullna lit, tilbúin til uppskeru. Um síðustu helgi fór ég niður á nes til að dást að akrinum og taka af honum myndir.

Leifi myndunum að tala ásamt ljóðlínum Bubba.

Vorið fæddist til þess að deyja

gefa eitthvað nýtt

Ég heyrði vindinn við kornið segja

sumarið verður hlýtt

Viska þín var viska barnsins

sem flestir hafa misst

þrungin speki öldungsins

sem leit heiminn manna fyrst

 

IMG_0176

 

IMG_0182

 

IMG_0188

 

Akurinn


Leiðin til helvítis


app Mafía a, la ISAVIA

Þegar hið opinbera hlutafélag ISAVIA reið á vaðið með að rukka fólk eftir myndum varð fjandinn laus, hver app Mafían af annarri hefur tekið upp á því að mynda fólk þar sem það stoppar við þjóðveginn og rukka það feitt.

Þessi ósköp má skrifa á ógæfufólkið við Austurvöll enda fékk ISAVIA reglugerðabreytingu úr ráðuneyti til að fá að rukka fólk fyrir að stoppa í landi ríkisins. Bílaplön sem hafa verið fjármögnuð af skatttekjum. Allt undir formerkjum bættrar upplifunar.

Bæjarfélög hafa síðan siglt í kjölfarið og hafið þann aumkunarverða vesaldóm að rukka ferðalanga sem álpast til að stoppa innan þeirra marka, -eru sum að verða sannkallaðir Kardímómubæir. Svo sjá svokallaðir landeigendur nú gull á hverju strái við þjóðveginn.

En það má að hluta skrifa þetta allt saman á okkur sjálf, -að því leiti að við samþykkjum að hver sem er geti rukkað eftir mynd, -svo einkennilegt sem það nú er. Sennilega gerum við það þægindanna vegna, eða höldum að við njótum þess í verði að innheimtan sé framkvæmd á sem auðveldastan hátt, -og það vegna gjalda sem voru ekki til fyrir skemmstu á eigum almennings.

Öllu hefur verið snúið á hvolf, það ætti í raun að vera skilda að hafa einhvern til staðar til að taka við greiðslu allstaðar þar sem hennar er krafist, ekki bara í búðum. Snjalltækni við greiðslumiðlun ætti þar að auki að vera valkvæð, -fyrir þá sem ekki vilja feisa afgreiðslumann eða losna við að standa í biðröð.

Þá myndu þessar app mafíur í það minnsta drullast til að hafa mann á staðnum þó ekki væri nema til að gera fólki grein fyrir því hvernig á að borga. En auðvitað verða ekki sett nein vitræn lög í þá veru af ógæfufólkinu við Austurvöll, það lið hefur sýnt sitt rétta andlit.

Það sorglega er, að það eru mest Íslendingar í eigin landi sem verða fyrir barðinu á þessum óskapnaði, flestir erlendir ferðamenn eru búnir að sjá við íslensku app mafíunum.


mbl.is „Er mjög undrandi á því sem er að gerast“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland sundur skorið þar sem öllu er stolið (myndablogg)

IMG_8457

Nú á dögum má keyra í gegnum heilu landshlutana án þess að sjá sauðkind, og við þjóðveginn húka síðustu hálmstrá Bjarts í Sumarhúsum og Gróu á Leiti, á rofabörðum áletruðum "Quck Parking-Bus4you-Street Food-Black Beach Resturant-Spa Lagoon-Guesthouse-Bistro Bar", -ef ekki væri fyrir hrognamálið, þá væri allt horfið í hamfaraórækt á sorry speak english öræfunum.

Undanfarin ár hefur það orðið lenskan að vinna búverkin í nefndum á carbfixuðum hamfaraóræktar styrkjum að boði unionsins og kolefniskirkjunnar, íslenska sauðkindin er orðin safngripur. -Og er nú einnig svo komið að mikið af húsnæði landsmanna er byggt með handaböndum í þétting-byggða nefndum og eru hús jafnvel farin að mygla CE vottuð í gámum á leið til landsins. Hefur slík reglugerða byggðastefna ekki verið viðhöfð frá því land byggðist, -síðasti bærinn í dalnum hvað?

IMG_5542

Það má segja að hundaheppnin hafi losað landann við mygluna mest alla 20. öldina. Á meðan hús voru byggð af vanefnum og keypt var fyrst af öllu efnið í þakið; -tomma sex, sem var notuð til að slá upp fyrir steypumótum áður en hún fór í þakklæðninguna. Með því vannst það að timbrið fékk mygluvörn með sementsefjunni, önnur byggingaefni voru að mestu innlend möl, gjóskugjall og sement, -myglufrí.

Eða var það kannski hyggjuviti landans að þakka að steypa og bárujárn urðu þau byggingarefni 20. aldarinnar sem tók við af margra alda grjóti og torfi undir verndarvæng unionsins sem hafði mergsogið mörlandann um aldir? - Og láttu þér ekki koma til hugar eitt augnablik að allar einkaþoturnar séu núna komnar til að dást að fegurð landsins bláa eða vegna menningar mörlandans.

Það sem verra er að nú er innflutta krosslímda myglubixið í húsnæði landsmanna að verða sífellt endingarverra eftir því sem styttist aftur í algert helsi. Og er jafnvel innflutta myglan orðin mun svæsnari og endingin verri en það heimafengna var þegar þjóðin skreið út úr hálfhrundum moldarkofunum í upphafi 20. aldarinnar.

Hugvit íslenskrar byggingarhefðar er nú fótum troðið og óðum að hverfa ofan í svörðinn, ef þá ekki farin veg allra veraldar með þéttingu sovéska súpermarkaðarins. Þar er Bændahöllin komin fyrir horn í allri þéttingunni og Hótel Saga farin forgörðum, -allt orðið meira og minna að heimavist fáviskufabrikkunnar.

IMG_6550

Þróunin á minni ævi er öllu ískyggilegri í hinum dreifðum byggðum landsins. Frumburðarrétti mörlandans til að framfleyta sér og hrófla upp þaki yfir höfuðið hefur verið stolið með massífu regluverki. – Kvótinn, framsalið, þjóðarsáttin, fjórfrelsið, -eru allt vörður á leið víxlara musterisins, -þeirra sem allt telja sig geta umvafðir í bómull, -geta bæði pantað og lagt á í skjóli reglugerðarinnar.

Þeirra nýjasta nýtt, sem einskis afla, er auðlindarenta. Sú geggjaða hugmynd að nú skuli þeir sem aldrei hafa viljað skíta sig út á slori fá ágóðan sérstaklega. Nú skal fyrrum atvinnurekstur hinna dreifðu byggða lúta öðru regluverki skattalega en almennu, -afleiðingar uppdiktaðs skoffíns kvóta og framsals. -Og þjóðin hún lækar, sem aldrei fyrr, því þjóðin er svo glöð að hafa skaðmenntað sig víxlurum til brúks.

En auðlindarenta breytir ekki þeirri einföldu staðreynd, að sá almenni fótgönguliði, sem einskis aflar og ekkert framkvæmir, mun aldrei njóta reiknaðra vaxta víxlaranna, sú renta mun renna í valda vasa þeirra sem dýfa hvorki hendi í kalt vatn né miga í saltan sjó. Hvað þá þeirra sem hafa skaðmenntað sig frá salti og sjó en hefur verið raðað á ríkis jötuna til að hafa eftirlit með hvort öðru, -og svo auðvitað framfylgja regluverki andskotans.

Fátt virðist ætla að koma hinu stolna Íslandi til bjargar. Afkomendur síðustu hálmstráa Bjarts og Gróu virðast helst vilja búa undir verndarvæng víxlara unionsins, þar sem hendur og hugmyndaflug er niður njörvað og búið er að kellingavæða allt heila klabbið.

Þau hálmstrá, sem enn má sjá dýfa hendi í kalt vatn við blæðandi þjóðveginn í Sumarhúsunum og á Leiti, eru flest af sorry speak english bergi brotin. -Og þjóðin hún lækar, því þjóðin er glöð, -skaðmenntuð á Tene.

 

IMG_8458

 

IMG_6870

 

IMG_4908 (1)

 

IMG_1657

 

IMG_0672

 

IMG_6538

 

IMG_6007

 

IMG_9332

 

IMG_6529


Hvaða spil hefur Trump í Alaska, -hefur hann trompin?


mbl.is Vill sannfæra Pútín um að skila landi Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugur Bjólfs

Baugur Bjólfs

Það er ekki öll steypan eins, sum er skýjum ofar og gæti allt eins talist gjörningur. Fyrir ofan Seyðisfjörð í fjallinu Bjólfi er verið að koma fyrir hringlaga steinsteyptum útsýnispalli sem er 32 m í þvermál.

Þarna fékk ég að styðja mig við stútinn á steypudælunni í dag, -gamli maðurinn, -á meðan ungu mennirnir börðust við steypu sem var að grjót harðna. Baugur Bjólfs er útsýnispallaur í 650 m hæð og mun leikandi rúma 300 manns í einu miðað við flatarmál.

Eftir á að finna út hvernig á að koma öllu þessu fólki á pallinn því hann er því sem næst vegasambandslaus, nema fyrir vel útbúna bíla. Hvort einhverjir aurar verða eftir af þeim mörg hundruð milljónum, sem  ætluð eru í herlegheitin, til vegagerðar og snjómoksturs er seinni tíma mál. Enda hver lætur góða hugmynd fara forgörðum vegna smámuna.

Sumir myndu kannski segja að ekki sé öll vitleysan eins, en um verðlauna hugmynd er að ræða samkvæmt vinningstillögu Ástríðar Birnu Árnadóttur og Stefaníu Helgu Pálmarsdóttur frá Arkibygg Arkitektum í samvinnu við Önnu Kristínu Guðmundsdóttur og Kjartan Mogensen landslagsarkitekta, Auði Hreiðarsdóttur frá Esja Architecture og Arnar Björn Björnsson frá Exa Nordic sem sá um burðarvirkjahönnun.

En eins og við steypukallarnir tönglumst stundum á, þá er bæði ódýrara og auðveldara að teikna og reikna hring á blað, en koma 200 tonnum af steinsteypu hringlaga fyrir hátt upp í snarbrattri fjallshlíð.

Bjólfur var landnámsmaður Seyðisfjarðar, fjallið nefnt eftir honum  og hann heygður í fjallshlíðinni við hringinn. Sagan segir svo um hauginn; að Bjólfur hafi mælt fyrir, að eftir sína daga skyldi hann heygður þar sem víðsýni væri hvað best yfir landareign hans og ekki myndu skriður hlaupa á bæinn svo lengi sem haugur hans væri órofinn.

Í nótt svaf ég óvært, hugsaði til Bjólfs, -hvort hann hefði viljað buginn í hauginn. Í morgunnsárið fór ég óvenju blíðlega með bænirnar mínar, enda bæði álagatrúar og lofthræddur. Ekki kom samt til þess að lofthræðslan hrjáði mig því þokan grá var eins og massífur veggur við Baug Bjólfs, þegar fyrsti steypubíllinn mætti.

Þegar dagsverkið var að verða hálfnað fór þokunni að létta, en það kom ekki að sök lofthræðslunnar vegna, því ég var komin með steypu í augun. Og varðandi örlagatrúna þá rann á mig hamremmi.

Ég hélt mig þó áfram við stútinn, nema rétt á milli steypubíla, en þá brá ég mér frá, muldi steypuna úr augunum, og tók þessar myndir af vöskum köppum á Baugi Bjólfs.

 

IMG_0026

 

IMG_0034

 

IMG_0043

 

IMG_0046


Formsatriði ekki fullnægt

Þau hafast ýmislegt að innstu koppar í búri slektisins; sá appelsínuguli hyggst smala þingmönnum með lögregluvaldi um hásumar til að geta beitt tímabundnum meirihluta í að breyta kjördæmaskipan með það að markmiði að halda meirihluta lengur.

Lukkupotturinn okkar beitti kjarnorku ákvæðinu til að geta aukið skattlagningu á atvinnurekstur hinna dreifðu byggða langt umfram það sem almennt er, -svokallaða auðlindarentu. Hún kallaði það að reyndar að verja lýðveldið ef mér skjöplast ekki.

Vonda lygin í ESB þarf engar áhyggjur að hafa í lýðræðislegum kosningum, hún situr eftir sem áður, og sankar að sér fjármunum fólks til stríðsrekstrar.

Dolli málari kveikti einfaldlega í þinghúsinu á sínum tíma, sælla minninga, eftir það þurftu nasistar ekki að spá frekar í hvort formsatriði hefði verið fullnægt.


mbl.is Trump hótar að kalla út FBI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband