Færsluflokkur: Dægurmál
23.3.2025 | 13:06
Frummaður, gervigreind og safety kit
Ég fór í Húsasmiðjuna í vikunni, sem varla er í frásögur færandi, nema fyrir hvers ég varð vísari. Þar sá ég ungan mann sem varla hefði náð að verið kallaður blámaður á árum áður, en allavega múlatti, -og blökkumaður í mínu ungdæmi. Auk þess að hitti vin minn vísindamanninn.
Við tókum spjallið. Hann nýkominn á tíræðisaldurinn og var að leita sér að húfu, ekki að sú gamla væri orðin svo slitin en það væri öruggara að eiga nýja ef þessar öndvegis innfluttu húfur hættu að fást. Mér varð á orði; -slitna húfur, tínir maður þeim ekki bara?
Við ræddum blessaða innflutta góssið á lága verðinu og innflutta vinnuaflið sem héldi okkur gangandi, enda ég að ná í ódýr heyrnaskjól fyrir Rúmenana sem eru á minni könnu. Hann sagði að hann vissi að Pólverjarnir hefðu þreföld laun á Íslandi miðað við Pólland.
-Já og heldurðu að íslensk skúringakona gæti lifað á þeim hér á landi; -spurði ég. Nei aldeilis útilokað; -sagði hann; -enda skiptir það ekki nokkru máli, því þó Pólverjarnir sendu hverja krónu heim til sín fáum við skattana og það vantar alltaf fólk. Jha so; -sagði ég, -ég þekki þetta hef verið í steypunni allt mitt líf.
Ég fann ódýr heyrnaskjól, og enn ódýrara Safety kit með heyrnaskjólum, öryggisgleraugum og rykgrímu, frábær kaup 3 fyrir 1 á betra verði en bara ein heyrnaskjól. Dreif mig út með þessi góðu kaup. Úti á plani sá ég unga blökkumanninn aftur og nú við næstu verslun með útbreitt blað í fanginu rýnandi í það og rétta sig svo upp og horfa yfir ræktarlendur Egilsstaðamanna.
Jha so; -hugsaði ég, -hann hefur tekið Bændablaðið í Húsasmiðjunni. Enda geta blökkumenn nú til dags allt eins verið íslensku mælandi Íslendingar. Og þó ég sé orðin gamall og skorpinn eins og krít hvítur hundask, , , , (-nei maður má nú ekki hugsa svona það er bara rasismi), þá er barnabörnin mín sælleg með sitt blandaða blóð. Ég braut svo ekki meira heilann um þetta og brunaði með Safety kit-ið til Rúmenana.
Á leiðinni til baka í gegnum bæinn sá ég svo unga manninn í ett skiptið enn, og þá standa við gangbraut á einum fjölförnustu gatnamótum bæjarins, og hafði hann breitt út fangið með blaðinu sem hann var að rýna í. Ég keyrði hægt fram hjá, til öryggis, -og sá þá að hann var með landakort en ekki Bændablaðið.
Þá aldeilis dagaði yfir mig, eins og kaninn hefði sagt. Svo ég fór greitt yfir nesið, norður fyrir fljót og alla leið í steypuverksmiðjuna. Þar hitti ég fljótlega vin minn steypubílstjórann, en við höfum verið félagar í steypunni frá því að grjótkasti og kofasmíði bernsku áranna lauk.
Ég sagði við vin minn; -hvað heldurðu að ég hafi séð? -og sagði honum svo farir mínar sléttar. -Hefurðu séð eitthvað þessu líkt síðasta áratuginn eða svo. Uppréttan mann með landakort skimandi í allar áttir, og það á tímum þegar allir ana viðstöðulaust áfram hoknir yfir snjallsímann sinn með eyrnaskjól?
-Já veistu; -sagði vinur minn á steypubílnum, -ég mætti fólki um daginn sem var stopp úti í kanti og hafði breitt úr landakorti yfir mælaborðið. -Það er einhver djöfullinn að ske, en ég átta mig bara ekki á hvað það getur verið; -sagði hann.
-Jha so; -sagði ég, -ætli þetta fólk sé kannski að reyna að finna í sér frummanninn án aðstoðar gervigreinds snjallmennis.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.3.2025 | 09:48
Sjakalar
Hér glittir í augu úlfsins undan sauðagærunni. Ef einhver meining væri með því að komast eftir því hvernig trúnaðarerindi til forsætisráðuneytisins komst á kreik svo alþjóð veit, þá væri ekki verið að hræra í lukkupottinum, heldur gengið beint til verks.
Það að Ásthildur Lóa skildi sjá ástæðu til að tala við þá manneskju sem sendi þetta erindi gerir hana aðeins að meiri manneskju og þær báðar fyrir að hafa rætt saman. Og þar breytir engu um þó svo að hún hafi lagt lykkju á sína leið heim til Ólafar til að ljúka samræðunum.
En nei, þannig vinna sjakalarnir ekki sem endurreistu þetta "ógeðslega þjóðafélag! eftir "hið svokallaða hrun". Boltinn var gefinn í vikunni sem leið, þegar Ásthildur hafði sagt það sem margir vildu sagt hafa um dómskerfið, -sem nota bene, stóð í því að bera út tugi þúsunda Íslendinga af heimilum sínum eftir "hið svokallaða hrun.".
Já Ásthildur heyktist á og baðst afsökunar á ummælum sínum. En það breytir ekki því að boltinn hafði verið gefinn, -og hún er ekki ráðherra í ríkisstjórn Íslands í dag. Spyrjið heldur kvika lukkupottinn hvernig á því stendur að Ríkissjónvarpið var fyrst með fréttirnar.
![]() |
Ásthildur vildi bætur frá ríkinu eftir eigin mistök |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.3.2025 | 05:20
Sjóræningjarnir -og silfrið hennar Siggu minnar
Það vita það kannski fleiri en kæra sig um, að á Íslandi hefur í gegnum tíðina búið gríðarlega vel efnað fólk. Svokallaðir landnámsmenn höfðu í farteskinu ógrynni silfurs og annarra gersema, auk ættatalanna sem mátti rekja til konunga 1000 ár aftur í tímann. Stöðugt bættist í þennan sjóð framan af öldum, með góðu eða illu líkt og börn og silfur Egils sanna. Nú má segja sem svo að genaþursið í Vatnsmýrinni sé það eina sem gerir sér mat úr þessum landnámsauði með því að selja genamengi landans til auðróna lyfjaiðnaðarins.
Enn í dag, -og þrátt fyrir þræls eðlið, eru Íslendingar samt taldir til ríkustu þjóða veraldar. En ekki breytir það samt því að silfrinu og ættartölunum var stolið og þjóðin átti sínar hörmunga aldir þar sem svo svarf að hún var nálægt því að hverfa úr sjóði þjóðanna. Hvað um allt gamla ættarsilfrið varð vekur forvitni fárra nú á tímum. Íslendingar eru á ný við það að hverfa af sjónarsviðinu á dögum auðræðis, og nú annaðhvort í glópalinn eða kirkjugarðana, -fátækir af öðru en digital tölum.
Fólk á mínum aldri man leifar ættarsilfursins, -enga fjársjóði, -en silfur stokkabeltið, -nælan og -hólkurinn á mótum skotts og skúfs í húfunni. Þetta dugði til að gera upphlutinn hennar ömmu að dýrgrip. Silfurborðbúnaður -hnífur, -gaffall og -skeið með ígröfnum stöfum þóttu merki um menningararf þegar til siðs var að gefa börnum silfurskeið í skírnargjöf, meir að segja erfðu mín börn sinnar ættar silfurskeiðar samkvæmt nafni.
Það má segja að á seinni öldum hafi það komið í hlut kvenna að gæta Íslandssilfursins. Því sem ekki hafði þegar verið stolið á öldum helsisins, -ættarsilfursins. Amma eftirlét yngri systur minni upphlutinn, ekki bara vegna þess að þær væru al-nöfnur, ekki síður vegna þess að þær voru áþekkar að stærð. Þessi upphlutur er nú í S-Frakklandi og hefur verið þar í áratugi og ekki veit ég hvort systir hefur nokkurtíma skartað honum.
Ekki er svo langt síðan að þingkona á Alþingi mætti í til þings í hluta upphlutar ömmu sinnar. Sem sönn alþingiskonan hafði hún nútíma vætt þjóðbúninginn með því að klæðast buxum neðan upphlutar vestisins, -skreytt ættarsilfrinu. Hvort það hefur verið gert í virðingaskini við gömlu konuna eða þjóðaþingið er ekki gott í að spá, en hún allavega stal senunni með því að fótum troða í buxur þjóðlegri hefðinni.
Já ég hef verið að lesa rán, galdra og geðveiki undanfarið, -verið að lesa mig niður í 17. öldina. Til þess taldi ég sjóræningja, silfur og galdra best til fallna, -enda sú 17. stundum kölluð brennuöldin. Ég komst fljótt að því að galdrafárið var ekki beinlínis vegna galdurs og geðveiki, heldur var þetta aldafar tilkomið vegna endalausra sjórána. Hugmyndafræði galdrabrennanna má telja innflutt trúarbragðaofstæki í kjölfari siðaskiptanna, komið frá spænska rannsóknarréttinum sem barðist við fjölmenningu í dulargerfi Íslams, sem of langt mál er að gera grein fyrir í stuttum pistli.
Það sem maður áttar sig ekki á í fljótu bragði er sú staðreynd, -að Danir eru mestu sjóræningjar sem að Íslandsströndum hafa komið. Eins og má lesa í þessu mbl fréttaviðtali við Steinunni Kristjánsdóttir fornleifafræðing. Hún gaf út um þessi hugðarefni sín m.a. í bókinni Leitin að klaustrunum. Fyrstu áratugina eftir siðaskiptin voru heilu skipsfarmarnir af dýrgripum úr silfri fluttir frá Íslandi til Kaupmannahafnar.
Steinunn segir; -"Það er tvisvar sinnum minnst á sjóræningjaskip þar sem þau herja á Ísland en Danakonungur stöðvar það, líklega því hann sjálfur vildi komast yfir silfrið, frekar en að verja fólkið. Að minnsta kosti upplifi ég það þannig við lestur skjalanna." Spurning hvort lukkupotturinn hún Kristrún forsæta, ætti ekki allavega taka eins og eitt Trump á Rósenborgar silfurljónin við fraukuna Fredriksen áður en anað er í ESB. Það var ekki einungis svo að Danir afvopnuðu landann og hirtu silfrið. Bókmenntirnar með ættartölunum fóru sömu leið, þó svo að við höfum fengið eitthvað af því lesefni til baka.
Nú virðast málsmetandi Íslendingar vilja láta erlent vald stela af okkur krónunni, -landinn að mestu búinn að gleyma því, að hvorki gekk né rak að komast úr moldarkofunum með þeirri Dönsku eða Skandinavíska ríkisdalnum þar á undan. Það var ekki fyrr en u.þ.b. þegar sú íslenska tók við, -moldarkofarnir að hruni komnir, að eitthvað fór að rofa til, -í upphafi 20. aldarinnar. Húsakostur landsmanna tók svo stakkaskiptum uppúr 1919 með Íslensku krónunni. Þess vegna er ágætt að kynna sér sögu landans í gegnum aldirnar og halda henni til haga þó svo það bjargi ekki öðru héðan af en hugsanlega ósýnilegri stafrænni krónu.
Píslarsaga séra Jóns Magnússonar er um galdur og geðveiki en Jón fékk feðga brennda á báli í Skutulsfirði, -á Skipeyri þar sem Ísafjarðarflugvöllur er nú. Um það þegar séra Jón tók við Eyrarkirkju árið 1644, sem er þar sem nú er Ísafjarðarbær, -stendur þetta: -Það hefur verið hrörlegt umhorfs í Eyrarkirkju þótt hún héngi uppi, væri sögð "vel standandi", enda hafði kirkjunni ekki verið bættur til fulls skaði úr biskupstíð Gísla Jónsonar, 1579, þegar enskir sjóreyfarar stálu fjölda muna og gengu berserksgang í kirkjunni, brutu gólf, altari og bekki. Greina heimildir frá því að ræningjar þessir hafi nauðgað konum og drepið fjóra menn, en samkvæmt einni þeirra tókst kvenfólki að verða tveimur þeirra að bana.
Píslarsagan hefur að geima bréf, dóma og vísitasíur, auk þess einstaka hugarflugs um galdra sem fór fram í höfði séra Jóns Magnússonar, og hann setti á blað. Í vísitasíu 16. ágúst 1653, meira en 60 árum eftir að sjóræningjarnir voru á ferð í Eyrarkirkju er silfurkaleiks kirkjunnar sárt saknað auk annarra dýrgripa, og ekki fyrr en í vísitasíu árið 1675, tæpum hundrað árum eftir sjóránin, sem sómasamlegur kaleikur er talin aftur kominn í kirkjuna. Píslarsaga séra Jóns Magnússonar eru rúmar 400 bls. af torkennilegu efni á menntamáli 17. aldar, og því engin áhlaupalesning, -en hún þykir einstök í sinni röð.
Það má geta sér þess til að leifar þess Íslandssilfurs, sem sjóræningjar danska kóngsins náðu ekki um, hafi alþjóðlegur lýður sjóræningja gert sér far um að nálgast norður í höf. Þegar heimildir eru skoðaðar um hvaða sjóræningjar voru á ferð í Eyrarkirkju þá má sjá í Öldinni 16. -hans Jóns Helgasonar, að sjóræningjar plöguðu Vestfirði sumarið 1579. Þar eru þeir sagðir Hollenskir og foringi þeirra William Smidt. Þeir rændu Rauðasand tóku menn gíslingu og sigldu með þá til Patreksfjarðar og kröfðust lausnargjalds. Fóru, -á meðan ættingjar skröpuðu saman ættarsilfrinu, norður á firði og rændu og drápu menn í Súgandafirði auk þess að nauðga þeim konum sem þá listi á leiðinni.
Ræningjar þessir stoppuðu við í Skutulsfirði vegna byr-leysis inn Djúp, þar höfðu þeir fregnað að fólk ætti sjóði silfurs. þar sem hægt væri að krefjast lausnargjalds og biðu á Eyri á meðan þess var aflað. Heimildirnar herma að tveir þessara sjóræningja hafi verið drepnir af vestfirskum konum.
Hjónin á Ögri fengu skipstjóra frá Holsetalandi til að fara á fund ræningjanna með lausnargjald, sem safnað var. Um hálftunna af smíðasilfri og slegnum peningum, þar á meðal kvensilfur á allt að þrettán kvenbúninga. Þetta dugði sjóræningjunum ekki og tóku þeir eiða um að meira yrði afhent seinna í Hollandi á gjaldaga sem þeir settu. Annars kæmu þeir árið eftir sjö sinnum verri.
Rétt er að skoða sjórán 17. aldarinnar í ljósi siðaskipta 16. aldar, þó svo að þau gerist áratugum síðar. -Og þá sér í lagi Baskavígin, sem á eftir komu og þykja með ógeðfelldari níðingsverkum sem framin hafa verið af Íslendingum.
Þegar á þessa óöld sjórána leið, þvarr silfrið á heimilum landsmanna og dæmi þess að heimilisfólki hafi þá verið stolið svo hundruðum skipti, flutt úr landi og selt í þrældóm, -þar sem það eina sem gat bjargað því þaðan var lausnargjald kóngsins í Kaupmannahöfn.
Þegar svokallaðir Tyrkir rændu Berunes við Berufjörð var eitthvað eftir að silfri á heimilum landsmanna, -allavega á Berunesi. En þar bjuggu Bjarni Jónsson silfursmiður og Sigríður Einarsdóttir, dóttir séra Einars Sigurðssonar prests í Eydölum, sem frægur er fyrir að hafa ort eitt af helgiljóðum Íslendinga sem enn er sungið eftir að það verður heilagt, -Nóttin var sú ágæt ein.
Heimilisfólkið á Berunesi flúði í ofboði undan Hundtyrkjanum yfir Strandarfjöllin í Breiðdal, -til ættingjanna á Eydölum. Þjóðsagan segir að orðið hafi að skilja eftir gamlar og veikburða kellingar heima í bæ. Þeim hafði verið komið fyrir á milli þils og veggja svo Tyrkir finndu þær ekki. Sjóræningjarnir brutu upp kistur og koffort í bænum og fundu silfrið, létu það glamra úr greipum sér aftur í kistuna til að bera á brott með sér.
-Ja, svona átti það að fara, silfrið hennar Siggu minnar! -datt upp úr einni kellingunni. Þetta heyrði Hundtyrkinn og misstu hún við það lífið snarlega. Já þær mættu alveg leiða hugann að því kellingarnar, -af öllum kynjum, ekki síður en þær sem kenna sig við valkyrjur og spranga um síðbuxna, hvernig ættarsilfrið er til komið og hvers vegna formæður þeirra hafa varðveitt það í þjóðbúningnum allt fram á þennan dag.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.3.2025 | 07:38
Spekingar spjalla
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.2.2025 | 05:37
The Art of the Deal
Það hefur verið undarlegt að fylgjast með hveitibrauðsdögum Valkyrju- stjórnarinnar. Byrjað var á að óska eftir sparnaðartillögum frá almenningi, og í kjölfarið hamrað á því að ekki yrði farið í nein ný fjárútlát á árinu, nema skorin yrðu niður útgjöld á móti.
Síðan fetuðu tvær valkyrjur, -þær með skúffuna og pottinn, -í fótspor Davos dúkkulísanna, sem smurðu kyssitauið reglulega eins og kannski einhver gullfiskurinn man, -og héldu til Kænugarðs til að tárast með afskrifuðum stríðsherra, sem hefur talið fraukum Evrópu trú um að vera að verja fyrir þær lýðræðið.
Innsti koppur í búri, -já einmitt sá með ríkiskassann, -hefur ekki haft tóm til að nýta sér sparnaðar tillögur almennings hvað þá skera niður. Ef hann hefur ekki verið upptekinn viða að telja krónur í Kúlulánadrottninguna eða Lukkupottinn, þá hefur hann verið að verja vini sína í klaninu vegna ostasvindlsins. Nú liggur loks fyrir fordæmi hvernig farið var með sígrettusvindlið, sem nýlega var tekið til dóms, svo kannski fer að gefast tími.
Bara frá áramótum hafa verið bornar í umboðslausa stríðsherrann í Kænugarði, -ekki bara hundruð íslenskra milljóna, heldur þúsundir, -til viðbótar við fjárútlát dúkkulísanna frá fyrri árum. Á meðan blæðir þjóðveginum sem aldrei fyrr, er gott sem ónýtur eftir farið var að smyrja holurnar að innan með matarolíu, og þær kallaðar innviðir að hætti dýralæknanna.
Hvaða farið hefur úrskeiðis á milli eyrnanna á sprengjudúkkum, -æðandi með ríkissjóð á wokesterum til Evrópu, er ekki fyrir meðalgreindan mann að átta sig á. Enda efast ég um að þó reynt yrði að fá skýringar Kúlulánadrottningarinnar og Lukkupottsins að þær skildu þær sjálfar. Á meðan sitjum við, sem enn búum í Barbaríinu, og horfum dofin á.
Íslendingar virðast helst vilja láta erlent vald frelsa þá frá sjálfstæðinu og krónunni í kassanum, -landinn búinn að steingleyma að hvorki gekk né rak að komast út úr moldarkofunum með þeirri Dönsku eða Skandinavíska ríkisdalnum á öldum áður. Enda eru flestir núorðið með höfuðið á sama stað og strúturinn við að telja tær í sandinum á Tene.
Það var ekki fyrr en krónan tók við, og moldarkofarnir voru að hruni komnir, að eitthvað fór að rofa til upp úr 1919, -og þá með þeirri íslensku. Spurning hvort Lukkupotturinn og Valkyrjurnar, ættu ekki allavega í það minnsta, að taka eins og eitt Trump á fraukuna Fredriksen áður en anað er í ESB.
Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur, -var vel þekkt orðatiltæki á hátindi feðraveldisins. Nú virðist fraukurnar í forynjuveldi ESB endanlega hafa tapað áttum og kasta stríðsæsingum á báða bóga við fögnuð Valkyrjanna. Á meðan semja þeir Selinskí, Pútín og Trump, -The Art of the Deal.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.2.2025 | 03:43
Konudagatal
Nú er upp komin sú staða á Íslandi, að konur gegna öllum helstu embættum landsins. Þær eru ekki bara uppalendur okkar strákanna, heldur eru þær líka ríkislögreglustjóri, lögreglustjórar í borg og stærstu bæjum, borgar- og bæjarstjórar, biskup, forseti, ráðherrar og foraætisráðherra þríhöfða valkyrjur ríkisstjórnarinnar, þar sem sprengjudúkkur hafa farið fyrir stríðsæsingum þessi árin, -og bara til að nefndu það, -þá verður formaður Sjálfstæðisflokksins kona innan skamms.
Já og vel á minnst tappi er kallkyns, jafnvel þó hann sé áfastur úr plasti. Annars ætlaði ég í dag, sjálfan konudaginn, -ekki að fjargviðrast um kellingavaðalinn, þó svo Íslendingar virðist staðráðnir að fá upp í kok af konum í eitt skipti fyrir öll eftir allan hrútspungafnykinn úr Hádegismóum. -Mér væri kannski nær að gera orð þjóðskáldsins að mínum þegar kemur að stríðsþyrstum konum; -gefðu þeim blóm.
Ég ætlaði að nota þennan pistil í fabúleringar um dagana en ekki staðreyndir um stöðu konunnar nú á dögum. En þar sem konudagurinn er í dag þá er þessi útúrdúr í formála fyrirgefanlegur sérstaklega ef orð skáldsins sem á eftir koma eru höfð í huga. Einnig er nú fyrsti dagur mánaðarins Góu, sem er annar mánuður útmánaða, -á seinni hluta vetrar samkvæmt gamla íslenska tímatalinu.
Erfitt er að finna eldri heimildir fyrir sérstökum degi konunnar, en frá því upp úr miðri 20. öld, -hvað þá að haldið hafi verið upp á þann dag. En auðvitað er sá dagur samt rökrétt framhald bóndadags, á fyrsta degi Þorra, -og í takt við eftirbátana, yngissveinadag á fyrsta degi Einmánaðar, og yngismeyjadag, sumardaginn fyrsta, -fyrsta dags Hörpu.
Líklegast er að konudagsblómsala Lionsmanna eigi heiðurinn af því að gera konudaginn að þjóðlegum degi í hugum landans. En sú þjóðrækni kemur í raun frá fjáröflunarsölu Lionsmanna í USA sem þeir ástunduðu fyrir Valentínusardag þar vestra. Sá dagur er í grennd við fyrsta dag Góu og íslenskir Lionsmenn tóku upp eftir bræðrum sínum í Ameríku, að kaupa blóm í heildsölu upp úr miðri 20. öld og ganga í hús til að selja kynbræðrum sínum svo þeir gætu glatt sína heittelskuðu á svokölluðum konudegi, sem þeir vildu náttúrulega meina að væri þjóðlega hefð.
Í mínu smáheimabæ olli þessi blómasala talsverðri úlfúð á sínum tíma, vegna þess að eina blómabúð bæjarins var í eigu konu, og karlar voru ekki að kaupa blóm á hverjum degi í þá daga, enda helst að þau væru keypt á líkkistur. Blómasölukonan taldi sig því sitja sorgmædd með sárt ennið allt í kringum þennan dag vegna uppátækis Lionsmanna, og hennar maður kunni ekki við að kaupa blóm til að gleðja hana við það tækifæri.
Annars er sama hvar í heiminum er, og á hvaða tíma, -þá er eitt sem flest samfélög hafa rambað á, það er að hafa vikudagana sjö, og að lengi getur manneskjan á sig blómum bætt. Kannski er enn merkilegra að dagarnir eiga sér svipaðan uppruna. Eins er það athyglivert að fáar þjóðir hafa gengið lengra í að afmá goðsögur vikudagana og Íslendingar með því að breyta nöfnum þeirra til veraldlegri merkingar.
Biblían segir að Guð hafi skapað heiminn á 6 dögum og hvílst dag af því loknu, þess vegna séu dagar vikunnar sjö. Svo er stundum sagt að fjöldi atriða, sem meðalmaðurinn getur sett á minnið séu sjö, þess vegna hafi dagar vikunnar orðið sjö. Talan sjö er auk þessa frumtala og einungis hægt að deila henni með einum í sig sjálfa, og nöfn vikudaganna eru sjö, eitt fyrir hvern dag.
Hér á landi var nöfnum vikudagana breytt, aðallega fyrir tilverknað Jóns Ögmundssonar biskups. Á 12. öld hlutu flestir íslensku dagana þau nöfn sem notuð eru í dag. Áður voru þeir með svipuðum nöfnum og í nágrannalöndunum eða; Sunnudagur, Mánadagur, Týsdagur, Óðinsdagur, Þórsdagur, Freyjudagur, Lokadagur. Meir að segja var reynt að breyta Sunnudegi í Drottinsdag og Mánadegi í Annadag.
Líklegt er að skipan vikunnar sé gyðingleg og eigi sér uppruna í gamla testamentinu þó svo að vikudagarnir hafi borðið nöfn heiðinna goða. Þetta sést best á því að þó nöfnum daganna sé breytt þá stendur sunnudagur sem fyrsti dagaur vikunnar sé miðað við miðvikudag, -en er orðin að hvíldardegi að Kristnum sið. Gyðingar halda sinn hvíldardag á laugardegi.
Á norðurlöndunum eru nöfn dagana Sondag, Mandag, Tirsdag, Onsdag, Torsdag, Fredag og Lordag, enn þann dag í dag kenndir við nöfn hinna fornu goða nema Sunnudagur og Mánudagur sem kenndir eru við himintungl. Á ensku eru dagarnir kenndir við sömu goð, í sömu röð, nema Lokadagur - Saturday er kenndur við stjörnuna Satúrnus eða rómverska goðið Saturn. Miðvikudagur sem er Wedensday á ensku var t.d. áður skrifaður Wodensday, sem Óðinsdagur.
Uppruni vikudagana um víða veröld er talinn eiga meira sammerkt en að vera sjö talsins og sumstaðar goðsöguleg nöfn, því goðin eru talin hafa haft sína skírskotun til himintunglanna. Það segir sig sjálft að sunnudagur er sólardagur og mánudagur er mánadagur. Vikudagarnir á íslensku hafa flestir tínt sínum upphaflegu goðsögulegu einkennum, auk þess sem aðeins tveir þeirra eigi enn sína stjarnfræðilega tengingar.
Einkenni dagana gætu hafa verið eitthvað á þennan veg í gegnum tíðina:
Sunnudagur til sigurs, er fyrsti dagur vikunnar / Sól, gull = Sunnudagur; uppljómun hin skínandi gyðja uppljómunar, ákvarðanir, leiðandi, afl. Sólin hefur verið tilbeðin um allan heim og goð henni tengd. Ra var t.d. sólguð í fornegypskri goðafræði sem réð yfir himni og jörð. Ra var guð hádegissólarinnar, um tíma höfuðguð trúarbragða Egypta.
Mánudagur til mæðu, er annar dagur vikunnar og fyrsti virki dagur vikunnar / Máni, silfur = Mánadagur; hugur, tilfinningar, hjartnæmi, samhygð. Máninn hefur ekki verið talinn álitlegur til tilbeiðslu í gegnum tíðina. Orðið Luna er Máninn á grísku og rót enska orðsins lunatic sem gæti útlagst hugsjúkur, þýtt beint á íslensku tunglsjúkur. Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn"(Matth 17:15)
Þriðjudagur til þrautar, er eins og nafnið gefur til kynna þriðji dagur vikunnar / Mars, járn = Týsdagur; hamingja, velferð, réttlæti, lög, tærleiki, hreysti (hin guðlegu alheimslög)lögmál náttúru. Týr er guð hernaðar, en einnig goð himins og þings. Týr var hugprúðastur og djarfastur allra ása. Stríðsmenn ristu galdrastaf hans á skefti sverða sinna.
Miðvikudagur til moldar, hefur það í nafninu að bera upp á miðja viku / Merkúr, kvikasilfur = Óðinsdagur; vitund skilningur rökhugsun. Óðinn er æðstur goða í norrænni goðafræði, guð visku, herkænsku, stríðs, galdra, sigurs og skáldskapar. Óðinn birtist mönnum sem gamall eineygður förumaður í skikkju og með barðabreiðan hatt, slóttugur og gengur undir mörgum nöfnum.
Fimmtudagur til frama, er fimmti dagur vikunnar / Júpíter, tin = Þórsdagur; kraftur, þekking, viska. Þór er þrumuguð í norrænni goðafræði. Hann er sterkastur allra ása og er mest dýrkaður að fornu og nýju. Himnarnir skulfu er hann reið yfir himinhvolfið og klettar og fjöll brustu við þrumur og eldingar sem fylgdu honum, hamar hans Mjölnir er tákn þrumu og eldinga.
Föstudagur til fjár, er dagur sem skal nota til föstu samkvæmt kaþólskum sið / Venus, kopar = Freyjudagur; ást, sköpun, laðar að fólk. Freyja var gyðja ástar og frjósemi í norrænni goðafræði. Valdamikil gyðja, dýrkuð af konungum og hetjum. Hún jók frjósemd lands og sjávar, veitti hjálp í hjónabandi og við fæðingar. Verandi ástargyðja er hún sögð hafa átt marga ástmenn, var valkyrja sem átti hálfan valinn á móti Óðni.
Laugardagur til lukku, lokadagur vikunnar, / Saturnus, blý = Lokadagur; efnishyggja, völd, veraldarhyggja. Er nú sagður til hreingerninga og var um tíma nefndur þvottadagur. Loki var brögðóttastur allra ása, ekki hafa fundist merki þess að Loki hafi nokkurstaðar verið tilbeðinn eða dýrkaður opinberlega sem goð, enda tákn efnishyggju og undirferlis. Hnötturinn Saturnus er stundum kallaður hringa drottinn tákngervingur bragða, valda og græðgi. Ætla mætti að nafnið Satan væri þaðan komið, en verður samt ósennilegt við það að þessi dagur er hvíldardagur þess drottins sem skapaði jörðina samkvæmt gamla testamentinu.
Það er kannski ekki skrýtið að menn hafi að mestu komist að sömu niðurstöðu um víða veröld hvað eiginleika dagana varðar, með sömu kenndir og sama himinhvolf til að styðjast við, -kennt þriðjudaginn við Mars, miðvikudaginn við Merkúr, fimmtudaginn við Júpíter, föstudaginn við Venus og laugardaginn við Satúrnus auk Sunnu og Mána.
Ef einhver kona lítur hér inn þá óska ég henni til hamingju með alla daga blómalaust, -annað gæti bara valdið misskilningi, enda ekki svo langt síðan að þjóðskáldið gaf tóninn:
Ég er fæddur hjá frjálsri þjóð, í ljómandi fallegu landi,
sem laust er við heimskingja, afætur, gula og svarta.
En nú sækir stíft að oss aríum mikill voði og vandi,
þessi vesældarlýður hefur birst hér að betla og kvarta.
Mér finnst ekki rétt þegar heimurinn hagar sér svona.
Hefnd vofir yfir. - Jafnvel forsetinn sjálfur er kona !
Í örvænting minni ég hrópaði á alvaldsins herra:
Hvað get ég gert ! - Svarið það minnti á hnerra.
Gefðu þeim blóm.
Gefa þeim blóm!
Já, gefðu þeim blómavönd og rúsínupoka með hnetum.
Því miður er fluttur í götuna okkar kornúngt kynvillingsgrey
Karlmönnum, einsog mér, verður illt við það eitt að sjá-ann.
Ég spurð-ann útí búð svo allir heyrðu hvort hann væri hrein mey.
Helvítis auminginn roðnaði og mig langaði langmest að slá-ann.
Hann dillar sér alveinsog graðnaut með grettum og hlær.
Ég greip-ann hér niðrá horni í myrkrinu í gær.
Þegar ég ætlaði að berja-ann duglega og kýl-ann í klessu
Þá kallaði til mín þessi rödd eins og prestur við messu:
Gefð-onum blóm.
Gef-onum blóm!
Já, gefð-onum blómavönd og rúsínupoka með hnetum.
Ég er ekki með neina fordóma eða fornaldarviðhorf í neinu.
Aðeins frábrugðinn mönnum sem þora ekki að taka af skarið.
Mér finnst það sjálfgefið viðhorf að halda landinu hreinu,
hreinsa burt mannlífssorann svo við föllum ekki í sama farið
og stórþjóðir margar sem vandann vilja ekki sjá.
Slík viðhorf mega aldrei hérlendis fótfestu ná.
En ef maður segir eitthvað gegn þessum múhameðs durtum og dóti
þá drynur þessi rödd fyrir ofan alltaf á móti.
Gefðu þeim blóm.
Gefa þeim blóm!
Já, gefðu þeim blómavönd og rúsínupoka með hnetum. (Hörður Torfason)
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.2.2025 | 05:56
Newspeak og orðhengilsháttur
Orð geta verið samsett og eru þá oft sögð meina eitthvað allt annað en þau merkja. Það að tengja t.d. orðið frelsi við samsetta orðið öryggi er vinsæll útúrsnúningur sem oft er beitt af valdhöfum. Á meðan frelsið er opið óteljandi möguleikum er öryggi hlekkir búnir til af yfirvöldum.
Orðið ör-yggi er samsett; fyrrihlutinn -ör; -þýðir t.d. að vera ör, -menn eru t.d. örgeðja samanber æstir. Yggi er komið af uggur samanber ótti ör-uggur er því æstur ótti samkvæmt orðsifjum þessa samsetta orðs. Að vísu getur ör líka verið forskeyti sem á þá að merka lítill ótti.
Öryggi er ofnotað orð í íslensku nú um mundir, -rétt eins og security í ensku. Security kemur úr latínu í gegnum frönsku í ensku og er ágætis newspeak dæmi um útúrsnúning, -þó gamalt sé. Latneska orðið se-curitas þýðir í raun óháður, sá sem þarfnast ekki aðstoðar, sjálfbjarga, -eða þannig.
Orðhengilsháttur valdhafa í gegnum tíðina er margskonar. Talað er um þjóðaröryggi, -jafnvel þjóðaröryggisráðsráð, sem er frjór samsett orðskrípi og mörgum finnst hljóma traustvekjandi. En er í raun viðvörun til almennings um það þegar opinbert vald æsir til múgsefjunar. Rétt eins og orðsifjar samsetningarinnar segja séu þær raktar.
Skemmst er að minnast þess þegar Þjóðaröryggisráð Íslands fór í samstarf við Vísindavef HÍ árið 2020, varðandi opinbera covid-19 umræðu. Markmiðið var að samræma upplýsingar, sem almenningi bærust, og sigta út óæskilega umræðu um opinberar upplýsingar.
Einnig er rétt að minnast þess, að í kjölfarið reið yfir múgsefjun, með þríeykið reglulega á seiðhjallinum og þann klára skrækjandi í fjölmiðlum, þar til kátt varð í höllinni með DJ og alles, -eða þannig.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.2.2025 | 15:34
Umboðslausir leiðtogar
Nú ríður á, sjálfur verndarengill lýðræðisins, hinn lýðræðislega umboðslausi Slenski, -hefur sagt að engin friðarsamningar verði undirritaðir án sinnar aðkomu. Skrifræðisveldið Evrópu, sem engin á Íslandi kaus, er að fara á límingunum.
-Hvað með alla peningana sem er búið að fjárfesta í þessu stríði? -Eiga þeir bara að brenna upp í friði? -Hafa allir þjóðarleiðtogarnir sem sækja fundinn sótt sér lýðræðislegt umboð til að fjármagna stríðrekstur í Úkraínu?
Það er kostulegt að heyra George Galloway fara yfir stöðuna sem var komin upp í Evrópu nú í upphafi viku.
![]() |
Kristrún tekur þátt í neyðarfundi Macrons |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
13.2.2025 | 06:24
Æðruleysi
Þegar ég sendi bæn mína til almættisins, sem nú er í móð að kalla góða strauma út í kosmóið, er það ekki vegna þess að ég eigi einhvern rétt á því að hún rætist, heldur til þess að skerpa sýn mína og gera allt sem í mínu valdi stendur svo það góða megi fá framgang, -og láta svo almættið um úrlausnina.
Guð gefi mér æðruleysi til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt. Og vit til að greina þar á milli. (Reinhold Niebuhr)
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)