Færsluflokkur: Menning og listir

Nýr vettvangur.

  IMG 9549

Ég hef verið að hugleiða það í vetur að hverju er best að snúa sér að í framtíðinni.  Niðurstaðan var að leggja áherslu á ferðaþjónustu.  Nú er ég búin að gera samning við KÍ um leigu á Sekkjartröð á Egilsstöðum sem orlofsíbúð í sumar.  Eins erum við félagarnir um Sólhól á Stöðvarfirði, búnir að leigja hann til KÍ líkt og í fyrra sumar. 

 

Auk þess höfum við verið að vinna að því að koma 1000 m2 fiskvinnsluhúsnæði á Stöðvarfirði í notkun.  Við höfum leigt það sem geymslu undir húsbíla, hjólhýsi og þess háttar frá september - maí undanfarna tvo vetur.  Nú höfum við verið að vinna að hugmyndum um að koma því í notkun frá júní - september.  

IMG 5346

Þessar hugmyndir ganga út á að hafa opið hús þennan tíma með myndasýningu um fiskvinnslu og veiðar.  Auk þessa erum við að reyna að fá video verk Gjörningaklúbbsins ILC Thank You, þar sem þorskur er flakaður aftur á bak og endar sem heill við lagið Ísbjarnarblús,  til að sýna á flatskjá eða með myndvarpa í kælinum.  Samhliða þessu stendur hluti húsnæðisins handverksfólki á Stöðvarfirði til afnota fyrir framleiðslu sína og fyrir ýmsar uppákomur.  Það er semsagt ætlunin að reyna að gæða húsið lífi enda stendur það við aðalgötuna í miðjum bænum og eru allar frekari hugmyndir vel þegnar.

 

Stöðvarfjörður á margan hátt einstakur, eftir að jarðgöngin komu á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar er hann nánast miðsvæðis á mjög áhugaverðu svæði, álíka langt á Djúpavog og í Egilsstaði.  Fjörðurinn snýr þannig að á veturna kemur sólin upp í fjarðar mynninu þar er því sól í skammdeginu.  Fjallhringurinn snýr þannig að oftar en ekki er logn í þeim vindáttum sem er blástur í öðrum fjörðum austanlands t.d logn og bjart í norðan áttum vetrarins. 

 

Það fer ekki mikið fyrir Stöðvarfirði sem ferðamannabæ.  Þangað koma samt tugþúsundir ferðamanna á hverju sumri, aðallega til að heimsækja hið heimsfræga steinsafn Petru Sveinsdóttir.   Þetta eru m.a. það sem gerir það að verkum að ég hef mikinn áhuga á að nýta mér kosti Stöðvarfjarðar í ferðaþjónustu.  Sá áhugi byrjaði þegar við gerðum upp gamla húsið Sólhól sem stendur á einstökum stað í bænum sjá http://www.solholl.com/ .


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband