Færsluflokkur: Menning og listir

Það er ekki matur.

 

Í bók Michael Pollan, Mataræði, sem kom út fyrir jólin má finna 64 holl ráð til að velja rétt fæði.  Í þessari stuttu og hnitmiðuðu bók raðar Pollan saman einföldum  persónulegum markmiðum sem eiga að hjálpa fólki að borða alvöru mat í hóflegu magni og forðast með því vestræna mataræðið.  En almenn skilgreining á því er sú að það að það byggist að miklu leiti á unnum matvælum og kjöti, viðbættri fitu og sykri, miklu af unnu mjöli.  Oft mikið unnar blöndur framleiddar af matarvísindamönnum úr hráefnum sem venjulegt fólk á ekki heima hjá sér og aukaefnum sem mannslíkaminn er ekki vanur.  

Í bókinni má t.d. finna auðskilin ráð sem auðvelt er að setja sér sem reglu; t.d.  "Borðaðu ekkert sem amma hefði ekki kannast við sem mat.  Ímyndaðu þér að amma þín fari með þér í stórmarkað.  Þið standið saman fyrir framan mjólkurkælinn.  Hún tekur upp ílát með litríkri mjólkurafurð og hefur ekki hugmynd um hvað plasthólkurinn með litaða og bragðbætta hlaupinu gæti innihaldið.  Er þetta matur eða tannkrem?" 

Auk þess "Það er ekki matur ef það heitir það sama á öllum tungumálu t.d. Big Mac eða Pringles."  "Neyttu ekki matar sem er framleiddur þar sem allir bera skurðstofuhúfur." svo dæmi séu tekin.   Það sem er óvenjulegt við þessa bók um mataræði er að hún er stórskemmtileg lesning.

 


mbl.is Skyndifæði verði ekki selt í skólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Djúpavogspeningarnir.

 

Ég hef verið að lesa undanfarna daga bókina "Fólkið í plássinu" eftir Má vin minn á Djúpavogi.  Þessi bók segir frá lífi fólksins á Djúpavogi á 20. öldinni í 26 smásögum.  Þetta eru stórskemmtilegar frásagnir af atburðum og fólki.  Saga alþýðu fólks sem að öllu jöfnu eru ekki skráð á prenti.   Eins er sögu nokkurra húsa gerð skemmtileg skil með því að flétta inn í frásagnir af fólkinu sem í þeim hefur búið.  Sögu Búlandtinds hf og Kaupfélags Berufjarðar, stærstu atvinnurekenda staðarins, eru gerð skil ásamt hinum einstöku "Djúpavogs peningum" sem var sjálfstæður gjaldmiðill á Djúpavogi árið 1968.

Djúpavogs peningarnir vöktu frá upphafi áhuga minn, því þegar ég heyrði af þeim fyrst, sjö ára polli á Egilsstöðum, varð ég viðþolslaus að komast á Djúpavog.  Á Egilsstöðum var talað um að þeir væru farnir að versla fyrir Mattador peninga á Djúpavogi og af þeim átti ég nóg.  Þó svo að ég kæmist ekki á Djúpavog á meðan sjálfstæður gjaldmiðill var þar í gildi þá bjó ég þar í 17 af mínum bestu árum.  Þar kynntist ég Má og hans stór skemmtilegu sögum og mér þótti stórmerkilegt að fá frá fyrstu hendi að heyra sögu Djúpavogspeninganna.  það má segja að Már hafi verið Seðlabankastjóri Djúpavogs, sem gjaldkeri Kaupfélagsins.  Rétt fyrir hrunið 2008 þegar gengið féll hvað mest komu Djúpavogspeningarnir upp í hugann og bloggaði ég um þá hér á síðunni.  Það er ómetanlegt að saga þessa gjaldmiðils skuli vera komin út á prenti frá fyrstu hendi.

Annars er það sem mest hefur rifjast upp við lestur "Fólksins í plássinu" hvað Djúpivogur hefur átt skemmtilegt fólk í gegnum tíðina, með merkilega sögu.  Um það bera gleggst merki allar þær bækur sem  þetta  litla pláss hefur verið kveikjan af.  Þar eru t.d. bækur eins og "Undir Búlandstindi" eftir Eirík Sigurðsson, "400 ár við voginn" og "Siglt og róið" eftir Ingimar Sveinsson.  Eins má finna skemmtilegar frásagnir af mannlífinu á Djúpavogi í bókinni "Eysteinn í baráttu stjórnmálanna" ritaða af Vilhjálmi Hjámarsyni f.v. menntamálaráðherra, sem lýsir því vel hvað mannlífið og náttúran á Djúpavogi hefur verið Eysteini, þessum mikla áhrifa manni þjóðarinnar kær.   Einnig eru metsölubækurnar "Að breyta fjalli" og "Gaddaskata" eftir Stefán Jónsson sem byggja á æskuminningum höfundar frá þessum andríka stað.

Núna hefur bókin "Fólkið í plássinu" bæst í safn bóka um mannlífið á Djúpavogi og er nálgun höfundar á viðfangsefninu sérlega skemmtileg og einstök viðbót við það sem áður hefur verið ritað um mannlífið á þessum fallega stað.


mbl.is Rætt um Icesave í Parísarklúbbnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólkið í plássinu.

 

Núna í vikunnu kom út bókin Fólkið í plássinu eftir Má Karlsson vin minn á Djúpavogi.  Bókin inniheldur 26 smásögur. Þar á meðal er saga Djúpavogspeningana sem í notkun voru á Djúpavogi árið 1968.  Þegar síldveiðar hrundu við Ísland varð Djúpivogur sérstaklega hart úti vegna mikilla skulda sem stofnað hafði verið til við uppbyggingu síldarbræðslu rétt fyrir hrunið.   Atvinnufyrirtækin á Djúpavogi fóru þá einstöku leið að gefa út eigin gjaldmiðil og var hann í notkun í eitt ár.  Tilurð þessa sjálfstæða gjaldmiðils má heimfæra upp á aðstæður dagsins í dag og er kannski eitthvað sem Írar ættu að hugleiða í sinni skuldakreppu.

Á bókarkápu segir m.a.;  "Hér er um að ræða fyrstu bók höfundar, en sögur og þættir eftir hann hafa birst í blöðum og tímaritum. Í þessari bók blandar Már saman, með einkar áhugaverðum hætti, sagnfræði, almennum fróðleik og hnyttnum svipmyndum af atburðum sem hann upplifði í gegnum tíðina. Skiptast þar á skin og skúrir, gamansögur og dýpsta alvara, svo úr verður samofin heildarmynd af lífi fólks í litlu sjávarplássi, gleði þess og sorgum.

Meðal fjölbreyttra frásagna er hér að finna umfjöllun um vöruávísanir Kaupfélags Berufjarðar, sem settar voru í umferð á erfiðum tímum, stundum nefndar Djúpavogspeningarnir. Var hér um að ræða einstaka tilraun lítils samfélags til að halda úti eigin gjaldmiðli um skamma hríð.

Már segir sögur af hrakningum á sjó og landi; meðal annars giftusamlegri björgun skipverja á vélbátnum Björgu sem vakti þjóðarathygli.

Í bókinni er margvíslegur fróðleikur um Papey, til dæmis ítarleg frásögn af því fólki sem lengst bjó í eynni á fyrri hluta 20. aldar."


mbl.is Þúsundir mótmæla á Írlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel valið, til hamingju Borgfirðingar.

Það má örugglega fullyrða að Bræðslan er framúrskarandi menningarverkefni og vel að Eyrarrósinni kominn.  Það þarf bjartsýni og kjark til að framkvæma menningarviðburð á við Bræðsluna.  Þarna hafa helstu tónlistamenn landsins komið fram ásamt tónlistamönnum á heimsmælikvarða s.s. Emilíönu Torrini og Belle and Sebastian.

Það er ábyggilega vel þess virði að fara á bræðsluna og heimsækja í leiðinni einn fallegasta stað á Íslandi, Borgarfjörð Eystri.

 


mbl.is Bræðslan fékk Eyrarrósina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byltingin er rétt að byrja - Hvíta bókin.

Hvíta bókin hans Einars Más Guðmundssonar er kominn út hjá forlaginu.  Einar Már er einn af stóru höfundunum Íslands sem tekst með orðum að túlka tilfinningar þjóðar sinnar.  Þeir eru vafalaust margir sem hafa upplifað sömu tilfinningar og þær sem Einar Már setur fram í Hvítu bókinni án þess að koma því frá sér í fáum orðum á eins yfirgripsmikinn hátt og stórskáldum er einum fært. 

 

Ég varð mér út um bókina og finnst hún vera átakanleg skemmtileg lesning, ekki skemmir fyrir að Einar Már leitar í smiðju meistara fyrri tíma með tilvitnunum.  Við lestur bókarinnar hef ég sannfærst enn frekar um getuleysi stjórnmálamanna til að leiða þjóðina út úr þeim hremmingum sem þeir hafa átt svo stóran þátt í að leiða hana í.  Einar Már kann svo sannarlega að koma orðum að því, að hvaða hagsmunum stjórnmálamennirnir vinna þegar þeir hafa náð kjöri.  Fátt ætti að hafa opinberast eins vel og eftir byltinguna sem kennd er við búsáhöld.

 

Bíll var grafinn niður í holu við húsið.

<br><em>mbl.is/Heiðar Kristjánsson</em>

En nú er komið að því  að gefa Einari Má orðið í tveimur örstuttum úrdráttum úr Hvítu bókinni: 

Það er því full ástæða lesandi góður, að þú takir í hönd orðanna og látir þau leiða þig að ströndum þess lands þar sem stólar eru dregnir fram og sagðar sögur, um hvernig það var, hvað gerðist og hvernig það er í dag.  Einhverja kann ég að reita til reiði, aðrir munu gleðjast yfir þeim gullkornum sannleikans sem komið hafa til mín í umrótinu mikla, byltingu potta og sleifa, þegar bankarnir hrundu og spillingin vall upp úr gígopi frjálshyggjunnar, hins kapítalíska kerfis, sem lagt hefur mannkynið í hlekki.  Hér hafa ráðamenn staðið berstrípaðir en reynt að hylja sig með lagagreinum og flækjum; skuldavafningum andans, viðskiptavild hugans og öðru drasli sem kalla má einu nafni lygi.

 

Þau eru mörg gullkornin sem detta út úr hagfræðingunum þessa dagana,  Frjálshyggjan er enn við lýði.  Fyrir stuttu sagði einn hagfræðingur í Speglinum há RUV að hann sæi vonarglætu í því að brátt muni hinir fjársterku auðmenn flytja fé sitt heim og kaupa eigur almennings fyrir lítinn pening.  Þegar fólkið er orðið gjaldþrota.  Eftir þessu eru auðmennirnir að bíða og þetta á að framkvæma í skjóli stjórnvalda.  Þetta hefur gerst annars staðar, í öðrum fjármálakreppum.  þetta eru skilyrðin sem verið er að skapa.  Þetta er stefna frjálshyggjunnar til að styrkja ríkidæmi hinna ríku.  Kreppan er þeirra verk.  Þetta eru voðaverkin sem auðmennirnir ætla að fremja í skjóli valdhafa. 

Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar.

Bandarískur auðkýfingur orðaði þetta svo að best væri að kaupa upp eigur þegar allt væri í uppnámi og blóðið flæddi um göturnar.  Þetta er þegar byrjað.  Skuldug fyrirtæki renna skuldlaus til fyrri eigenda sinna eða nýrra eigenda.  Það er smurt ofan í þá.  Menn sem skulda marga milljarða leysa þetta til sín, eins og að drekka vatn. 

Jóhanna Sigurðardóttir, tilvonandi forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, væntanlegur fjármálaráðherra, ræddu við blaðamenn að loknum fundi sínum í dag.   

Þetta er kerfið sem þau ætla að koma á svo allt geti haldist í gamla horfinu.  Þess vegna er sama fólkið í sömu stöðum, á sömu stöðum.  En við sitjum uppi með, sumir segja tíu milljónir, aðrir tuttugu milljón króna skuld á hvert mannsbarn.  Hér eru heimildir misvísandi, eins og allt annað.  Og þessar skuldir eru eru fyrir utan húsnæðisskuldir, fjárránið sem fer fram með falli krónunnar, gjaldþrotin og atvinnumissinn.  Það á ekkert að breytast nema að við eigum að þræla fyrir skuldum sem hellt hefur verið yfir okkur.  Þetta kallar ríkisstjórnin björgunaraðgerðir en hverjum er verið að bjarga?  Og aftur spyr ég og lýsi eftir svari:  Hvaða tök hafa auðmennirnir á stjórnvöldum?

 

Hér á vel við þriðja ívitnunin í Halldór Laxnes, í þetta sinn úr Kristnihaldi undir jökli: "Spurt er:  Hvað er hraðfrystihús?  Og svarað:  "Það er íslenskt fyrirtæki.  Spaugararnir reisa þau fyrir styrk frá ríkinu, síðan fá þeir styrk frá ríkinu til að reka þau, þvínæst láta þeir ríkið borga allar skuldir en verða seinast gjaldþrota og láta ríkið bera gjaldþrotið.  Ef svo slysalega vill til að einhvertíma kemur eyrir í kassann þá fara þessir grínistar út að skemmta sér."

http://www.forlagid.is/baekur/detail.aspx?id=4696


Myndlistarsýning.

 IMG 9893

Nú stendur yfir samsýning Myndlistarfélags Fljótsdalshéraðs. Sýningin var formlega opnuð í flugstöðinni á Egilsstöðum þann 17. júní s.l..  Félagið hefur reglulegar samsýningar félagsmanna sem hafa hin síðari ár verið haldnar í flugstöðinni.

Sýnendur eru; Anna Hjaltadóttir olía, Anna Þórhallsdóttir olía, Ásdís Jóhannsdóttir olía, Ásta Sigfúsdóttir gler, Boði Stefánsson olía, Eiríkur Sigfússon akríl, Elín Gísladóttir olía, Guðborg Jónsdóttir vatnslitir, Katarzyna Dedela olía, Kristín Rut Eyjólfsdóttir akríl, Magnús Sigursson stucco (múrverk), Oddbjörg Sigfúsdóttir olía, Ólöf Birna Blöndal olía, Sigurlaug Stefánsdóttir olía, Sigrún Steindórsdóttir olía,  Sölvi Aðalbjarnarson olía, Vilhjálmur Einarsson olía, Ævar Orri Dungal olía.

Í ávarpi Björns Krisleifssonar formanns félagsins við opnunina, koma m.a. fram; "Oft heyrist kvartað undan slæglegri mætingu á menningarviðburði.  Hér þurfum við ekki að örvænta.  Á síðustu sýningu okkar mættu 93.783 gestir, sem var farþegafjöldinn um flugstöðina meðan myndverkin voru til sýnis.  Eru þá ótaldir þeir, sem voru að koma með, eða sækja farþega.

Myndir frá sýningunni, smella má á mynd til að stækka hana.

IMG 9890 IMG 9892 IMG 9888 IMG 9891 IMG 9894 


Stöðvarfjörður.

IMG 6687 

Stöðvarfjörður er sennilega einn af þeim stöðum sem margir Íslendingar eiga eftir að uppgötva.  Það vita það sennilega fáir að á Stöðvarfirði er eitt stærsta steinasafn í heiminum í einkaeigu.  Safnið er heimsótt af 20 - 30 þúsund ferðamönnum árlega og eru erlendir ferðamenn þar í meirihluta.  Það var Stöðfirðingurinn  Petra Sveinsdótti sem hefur varði ævinni í að safna steinum sem á heiðurinn að þessu safni.  Í safninu, sem er á heimili Petru er merkilegri ævi hennar gerð skil auk þess sem risastór garðurinn sem nær langt uppfyrir húsið er með fegurri lystigörðum.  Það eru afkomendur Petru sem sem sjá um safnið.

Í nágrenni Stöðvarfjarðar eru margir áhugaverðir staðir s.s. Hafnarnes sem er eyðibyggð sem taldi á annað hundrað íbúa þegar best lét á fyrrihluta 20. aldar.  Þar má skoða margar rústir auk Franska spítalans sem áður stóð á Fáskrúðsfirði.  Eins er Kambanes, sem er við mynni Stöðvarfjarðar að sunnanverðu, áhugavert til gönguferða vegna einstaklegra fagurrar náttúru.  Lönd og Saxa sem eru við austanverðan fjörðinn eru ekki síður áhugaverðir staðir.

Síðustu þrjú árin hefur Stöðvarfjörður skipað stórann sess í mínu lífi.  Vorið 2006 keyptum við félagi minn húsið Sólhól á Stöðvarfirði til að gera úr því orlofshús og hófum á því endurbætur sem lauk vorið 2008.  Síðan þá höfum boðið húsið til útleigu fyrir ferðamenn.  Kennarasamband Íslands var með það til leigu í 8 vikur sumarið 2008 og hefur það í 10 vikur þetta sumar.  Þar fyrir utan hafa margir innlendir og erlendir ferðamenn nýtt sér það til dvalar í annan tíma. 

 

Auk þess að festa kaup á Sólhól, keyptum við aflagt fiskvinnsluhús (Salthúsið) vorið 2007 sem við höfum leigt sem geymsluhúsnæði á vetrum fyrir hjólhýsi, húsbíla fellihýsi o.þ.h..  Núna hefur það í fyrsta skipti hlutverk, síðan þar var fiskvinnsla, yfir sumartímann.  Þar er nú handverksmarkaður, ljósmyndasýning frá fiskvinnslu á Stöðvarfirði auk þess sem þar er varpað á veggi videoi frá veiðum og vinnslu.  Einnig stendur til að glæða húsið enn frekara lífi með hinum ýmsu uppákomum í sumar.  Salthúsið og markaðurinn er opin á mill 10:00 - 16:00 alla daga til 23. ágúst.

Það er því orðið mér talsvert kappsmál að kynna Stöðvarfjörð.  Þó að ég hafi búið í nágrenni Stöðvarfjarðar mest allt mitt líf , þ.e. á Egilsstöðum og Djúpavogi, og vitað af töfrum hans kom það mér skemmtilega á óvart hvað hann hefur upp á mikið meira að bjóða en ég hafði þegar uppgötvað.  Ég vil því skora á þá sem leið eiga um Austurland að gera Stöðvarfirði góð skil, þeim tíma sem í það er varið er upplifunarinnar ríkulega virði.

http://www.solholl.com/

Hérna á síðunni má einnig finna myndaalbúmið Stöðvarfjörður.


Kambanes.

 

 

Eitt af fallegri annesjum Austfjarða er Kambanes sem gengur í sjó fram úr skriðunum á milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar.  Skriðurnar eru kallaðar Kambaskriður, nesið er um 1,5 km langt og 1 km breitt.

Tveir bæir hafa verið á nesinu, Kambar sem fóru í eiði 1944 og Heyklif þar sem enn er búið.  Á Heyklifi er veðurathugunarstöðin og vitinn á Kambanesi.  Á Kömbum stendur steinsteypt neðrihæðin af íbúðarhúsinu nú ein uppi.

Áhugi minn fyrir Kambanesi vaknaði þegar við félagi minn keyptum húsið Sólhól á Stöðvarfirði.  Fljótlega eftir að við fórum að gera það upp sumarið 2006, upplýstu Stöðfirðingar um að húsið væri mun eldra en kom fram í fasteignamati þ.e. byggingarár 1944.  Það hafði verið flutt á bát yfir fjörðinn frá Kambanesi það ár, en hafði áður heitið Kambar á Kambanesi, sennilega byggt upphaflega 1928.

Ég á enn eftir að kynna mér Kambanesið betur með gönguferðum.  Þeir sem hafa gengið það allt segja að það sé vel þess virði.  Það sem ég hef séð er bæjarstæðið að Kömbum og þar er fjaran og útsýnið magnað.  Hver kamburinn við annan í sjó fram og einn með gati í gegn eins og Dyrhólaey.  Á Kömbum var stundaður búskapur og sjósókn, sjást þess víða merki, höfnin hefur verið stórbrotin. 

Það er vel þess virði að skoða Kambanesið með gönguferð í sumar.  Náttúrfegurð bæjarstæðisins á Kömbum og fjaran er gönguferðarinnar ríkulegrar virði. 

Hér á síðunni má finna myndaalbúmið Kambanes.

 


Salthúsmarkaður á Stöðvarfirði

Law of attraction 

Nú þegar sumarið er á næsta leiti langar mig til að geta um eitt af mínum hjartans málum hérna á síðunni.  Frá því í vetur höfum við félagi minn verið með verkefni í samvinnu við skapandi fólk í ferðamálanefnd Fjarðabyggðar og á Stöðvarfirði.  Verkefnið hefur mætt mikilli velvild í alla staði s.s. hjá handverksfólki, ljósmyndurum, listamönnum og hinum ýmsu styrktaraðilum.  Í upphafi hefði maður ekki þorað að vona að svona vel myndi ganga að afla hugmyndinni brautargengis, en nú hyllir í að hún verði að veruleika.

http://www.solholl.com/

Eftirfarandi kynningartexti um verkefnið er settur saman af Hildigunni Jörundsdóttir ferðamálafulltrúa í Fjarðabyggð.

Í sumar verður nýjung í afþreyingu fyrir ferðamenn á Stöðvarfirði en þar verið er að setja upp Salthúsamarkað.   Það eru frumkvöðlarnir Magnús Sigurðsson og Einþór Skúlason sem einnig reka Gistihúsið Sólhól á Stöðvarfirði eiga frumkvæði að þessu verkefni.

Um er að ræða 1000 m2 aflagt fiskvinnsluhús í hjarta bæjarins sem nýtt er á veturna sem geymsla fyrir húsbíla og fellihýsi en staðið tómt á sumrin, hugmyndin var að gæða húsið lífi enda stendur það við aðalgötuna í miðjum bænum skammt frá veitingahúsinu Brekkunni og Galleri Snærós.  

Fjöldi fólks heimsækir Stöðvarfjörð á hverju sumri og er þar Steinasafn Petru sem dregur flesta að en auk þess og annarra afþreyingar í bænum geta nú ferðamenn einnig heimsótt Salthúsið og kynnst Stöðvarfirði ennþá betur.  

Í húsinu  verður glæsilegur handverksmarkaður, auk ljósmyndasýningar sem sýnir fiskverkun á Stöðvarfirði í gegnum árin, video verk frá Gjörningaklúbbnum ILC Thank You og sýning á myndum frá náttúru Stöðvarfjarðar.  Ýmislegt fleira verður í boði í sumar og ýmsar uppákomur í húsinu þar sem  húsnæðið er mjög stórt eru möguleikarnir miklir.

Markaðurinn verður opin frá kl. 10-16 alla daga vikunnar í sumar 5.júní til 23. ágúst.

 


Hafnarnes.

  Franski spítalinn austur

Seinnihluta vikunnar dvaldi ég í Sólhól "sælureitnum við sjóinn" á Stöðvarfirði. Einn er sá staður sem ég ef keyrt framhjá í áratugi og alltaf ætlað mér að skoða en það er Hafnarnes við sunnanverðan Fáskrúðsfjörð. Núna gaf ég mér tíma til þess og varð svo heillaður að ég fór þangað tvo daga í röð. Myndir frá freðinni fá finna í albúminu Hafnarnes hérna á síðunni. 

Það er Franski spítalinn sem er helsta kennileitið á Hafnarnesi, stórt, hrörlegt og draugalegt hús nálægt þjóðveginum. Það er dulmögnun þessa húss sem vakti áhuga minn á Hafnarnesi, ekki síst þegar ég hef verið á ferð að kvöld eða næturlagi og tunglið hefur glampað á sjávarfletinum aftan við húsið.

Franski spítalinn stóð áður á Fáskrúðsfirði og var byggður af frökkum fyrir franska sjómenn. Ég er helst á að Franskur spítali, alveg eins og sá á Hafnarnesi sé við Lindargötuna í Reykjavík. Sá á Hafnarnesi var fluttur frá Fáskrúðsfirði, til stóð að nota hann sem skóla fyrir þorpið á Hafnarnesi. Eins hef ég heyrt að þetta mun hafa verið eitt fyrst fjölbýlishúsið á Austurlandi.

Það er eitthvað magnað við þetta stóra hús, eitthvað sem dregur mann að því. Bæði getur það verið byggingarlagið og staðsetningin. Eins er ég alveg viss um að eitthvað dularfullt er við norðari hluta hússins. Þegar ég kom þar heyrði ég hljóð sem líktist nið sem ég man eftir að gat heyrst frá gömlu símalínunum í sveitinni. Ég sá rafmagnslínu skammt fyrir neðan húsið og taldi að hljóðið kæmi þaðan en þegar ég var komin þangað heyrði ég hljóðið ekki lengur. Daginn eftir fór ég á sama stað og heyrði niðinn auk þess sem í sólinni hafði suðið í fiskiflugunum bætast við frá því í þokunni daginn áður.

En þó að þetta stóra hús sé helsta kennileitið við Hafnarnes sem sjáanlegt er í dag þá er saga staðarins mun stærri og merkilegri en saga þessa húss ein og sér. Á Hafnarnesi reis upp sjávarþorp á 19. öld. Byggðin stóð með blóma fram á stríðsárin síðari, en þá fór að fækka fólki og dó byggðin út að lokum um 1970. Fyrri hluta 20. aldar urðu íbúarnir á annað hundrað samkvæmt heimildum í Sveitir og jarðir í Múlaþingi.

Enn standa uppi nokkur hús að Hafnarnesi og það sem meira er að enn er hægt að sjá hvar flest húsin stóðu. Húsnöfnin hafa verið merkt við rústir þeirra og kemur það skemmtilega á óvart hvað þarna hefur staðið stórt og þéttbýlt þorp.  Leifar af steinsteyptum bryggjukanti og sjóhúsum eru neðst í byggðinni innan við tangann. 

Það er vel þess virði að skoða þetta þorp áður en ummerkin um það hverfa að fullu og öllu. Eins fannst mér það áhugvert að hugleiða að þarna var stunduð sjósókn og sjálfþurftarbúskapur langt fram á 20. öldina. Mér flaug í hug, þegar ég rölti á milli húsarústanna, að lífið þarna hlyti að hafa verið notalegt með gaggið í múkkanum í klettunum fyrir ofan, úúúið í kollunum á sjónum og söng farfuglanna í sinuvöxnum túnunum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband