Hafnarnes.

  Franski spítalinn austur

Seinnihluta vikunnar dvaldi ég í Sólhól "sælureitnum við sjóinn" á Stöðvarfirði. Einn er sá staður sem ég ef keyrt framhjá í áratugi og alltaf ætlað mér að skoða en það er Hafnarnes við sunnanverðan Fáskrúðsfjörð. Núna gaf ég mér tíma til þess og varð svo heillaður að ég fór þangað tvo daga í röð. Myndir frá freðinni fá finna í albúminu Hafnarnes hérna á síðunni. 

Það er Franski spítalinn sem er helsta kennileitið á Hafnarnesi, stórt, hrörlegt og draugalegt hús nálægt þjóðveginum. Það er dulmögnun þessa húss sem vakti áhuga minn á Hafnarnesi, ekki síst þegar ég hef verið á ferð að kvöld eða næturlagi og tunglið hefur glampað á sjávarfletinum aftan við húsið.

Franski spítalinn stóð áður á Fáskrúðsfirði og var byggður af frökkum fyrir franska sjómenn. Ég er helst á að Franskur spítali, alveg eins og sá á Hafnarnesi sé við Lindargötuna í Reykjavík. Sá á Hafnarnesi var fluttur frá Fáskrúðsfirði, til stóð að nota hann sem skóla fyrir þorpið á Hafnarnesi. Eins hef ég heyrt að þetta mun hafa verið eitt fyrst fjölbýlishúsið á Austurlandi.

Það er eitthvað magnað við þetta stóra hús, eitthvað sem dregur mann að því. Bæði getur það verið byggingarlagið og staðsetningin. Eins er ég alveg viss um að eitthvað dularfullt er við norðari hluta hússins. Þegar ég kom þar heyrði ég hljóð sem líktist nið sem ég man eftir að gat heyrst frá gömlu símalínunum í sveitinni. Ég sá rafmagnslínu skammt fyrir neðan húsið og taldi að hljóðið kæmi þaðan en þegar ég var komin þangað heyrði ég hljóðið ekki lengur. Daginn eftir fór ég á sama stað og heyrði niðinn auk þess sem í sólinni hafði suðið í fiskiflugunum bætast við frá því í þokunni daginn áður.

En þó að þetta stóra hús sé helsta kennileitið við Hafnarnes sem sjáanlegt er í dag þá er saga staðarins mun stærri og merkilegri en saga þessa húss ein og sér. Á Hafnarnesi reis upp sjávarþorp á 19. öld. Byggðin stóð með blóma fram á stríðsárin síðari, en þá fór að fækka fólki og dó byggðin út að lokum um 1970. Fyrri hluta 20. aldar urðu íbúarnir á annað hundrað samkvæmt heimildum í Sveitir og jarðir í Múlaþingi.

Enn standa uppi nokkur hús að Hafnarnesi og það sem meira er að enn er hægt að sjá hvar flest húsin stóðu. Húsnöfnin hafa verið merkt við rústir þeirra og kemur það skemmtilega á óvart hvað þarna hefur staðið stórt og þéttbýlt þorp.  Leifar af steinsteyptum bryggjukanti og sjóhúsum eru neðst í byggðinni innan við tangann. 

Það er vel þess virði að skoða þetta þorp áður en ummerkin um það hverfa að fullu og öllu. Eins fannst mér það áhugvert að hugleiða að þarna var stunduð sjósókn og sjálfþurftarbúskapur langt fram á 20. öldina. Mér flaug í hug, þegar ég rölti á milli húsarústanna, að lífið þarna hlyti að hafa verið notalegt með gaggið í múkkanum í klettunum fyrir ofan, úúúið í kollunum á sjónum og söng farfuglanna í sinuvöxnum túnunum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur G Magnússon

Takk fyrir góðar myndir.

þær sýna manni það fagra og ljóta (sem má laga) á hinu fagra Austurlandi og Fjörðum.

Kveðja Halli Magg

Haraldur G Magnússon, 19.4.2009 kl. 22:44

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hafnarnes er magnaður staður. Ég skrifaði færslu um staðinn fyrir tæpu ári síðan, sjá HÉR

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.4.2009 kl. 00:25

3 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Væri ekki hægt að gera eitthvað skemmtilegt einmitt þarna ? Það er alltaf kyngimagnað að aka þarna framhjá !

Hulda Margrét Traustadóttir, 22.4.2009 kl. 17:31

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég þakka innlitin Halli, Gunnar og Magga.  Það ljóta getur verið fallegt ef umhverfið er kyngimagnað ég myndi ráðleggja öllum sem eiga leið þarna um að stoppa og upplifa staðinn það er hægt á minna en klukkutíma.  ´

Þarna væri hægt að gera skemmtilega hluti en ég hef heyrt að Hafnarnes sé í einkaeign margra afkomenda fólksins sem þar eitt sinn bjó.  Þarna er búið að merkja húsnöfnin við rústir þeirra sem er vel til fundið.  En vissulega væri gaman að sjá þetta stór hús, Franska spítalann, uppgerðan og ég er viss um að þarna væri hægt að leigja sumarhús.  Svona staðsetning eins og þessi niður við sjóinn á eftir að verða vinsæl til orlofsdvala.  Þetta veit ég vegna Sólhóls á Stöðvarfirði sem stendur við sjóinn, þar er mikil eftirspurn og húsið næsta fullbókað frá því í maí fram í september og er áhugi útlendinga er áberandi mikill.

Magnús Sigurðsson, 22.4.2009 kl. 18:08

5 Smámynd: Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir

Takk fyrir þetta, gaman að skoða hjá þer

Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir, 26.4.2009 kl. 09:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband