Góðærisins er sárt saknað í kosningaloforðum flokkanna.

 Þjóðráð

Nú þegar kosningar eru á næsta leiti eru kosningaloforð flokkanna fremur rýr til handa heimilunum og snúast mest um það hversu harkalega þarf að herða sultarólina næstu árin.  Undanfarnar kosningar, svo langt sem ég man, hefur dropið hunang af hverju strái í aðdraganda kosninga en nú ber svo við að allir flokka boða svartnættið eitt.  Því meira svartnætti því trúverðugri eru framboðin.

 

Þess vegna ætla ég að setja hér fram nokkur hagnýt ráð í svartnættinu til þeirra sem hafa áhuga á að komast af en sjá ekki nákvæmlega fyrir sér hvernig það á að gerast.  Sum þessara ráða eru reyndar þjóðráð og alveg óskiljanlegt að pólitíkusarnir skuli ekki hafa tekið þau upp í sínum stefnuskrám. 

 

En þar sannast hið fornkveðna "stjórnmálamenn leysa engan vanda, það eru þeir þeir sem búa hann til.  Þeir glíma því stöðugt við afleiðingar misstaka sinna en vilja ekki viðurkenna orsakir þeirra, því þá kæmi það í ljós að þeir væru óþarfir. Það er nefnilega fólkið og tækni þess sem leysir vandamálin."

tree climbing goats

 

Hér koma nokkur þjóðráð sem ég sakna úr stefnuskrám stjórnmálaflokkanna:

  1. Fáðu þér landnámshænur, það má gefa þeim matarleifar og annan úrgang sem annars færi í ruslið, í staðinn færðu egg og blómaáburð.  Það eru ekki mörg ár síðan að það mátti fá landnámshænuna frítt frá Landnámshænsnafélaginu því stofninn er í útrýmingarhættu. Þetta eru lítil og sæt grey sem mætti hafa á svölunum.
  2. Íslenska geitin er falin auðlind.  Hún hefur það umfram landnámshænuna sem má fá frítt, að ríkið greiðir með henni.  Geitin gefur af sér margt af því sem heimilið þarfnast s.s. ull, mjólk og kjöt.  Ef þú býrð í þéttbýli geturðu t.d. haft geiturnar í bandi og leigt þær út sem sláttuvélar eða sem gæludýr þær gætu m.a. orðið hrókur alls fagnaðar í barnaafmælum.
  3. Útvegaðu þér kartöflugarð, það er ekki svo auðvelt að verða sér út um tífalda ávöxtun nú til dags en það má hæglega ná henni í kartöflurækt.  Auk þess má auðveldlega rækta rófur og gulrætur samhliða.
  4. Steinhættu að borga af lánunum ef þú skuldar yfir 50% í húsnæðinu þínu, það er vonlaust að þú náir að kljúfa dæmið.  Nýttu þér frest á nauðungaruppboðum til 31. október og búðu frítt í húsinu á meðan.  Allar líkur eru á bankinn kom þá til með að ganga á eftir þér með grasið í skónum og grátbiðja þig um að vera áfram í húsinu gegn vægu gjaldi, þó það væri ekki til annars en að kynda það.
  5. Vertu þér út um vin sem á trillu.  Það er virkilega gaman að fara á sjóstöng og færaskak bæði er það afslappandi og frískandi, ekki sakar að fiskur er einn hollasti matur sem völ er á.
  6. Losaðu þig við vinnuna hið snarasta ef þú hefur hana þá ennþá.  Best er að semja við atvinnurekandann um að segja þér upp svo þú getir verið í launuðu fríi í sumar við garðrækt, geitahirðingu og sportveiðar.  Samkvæmt stefnuskrá sigurstranglegustu stjórnmálaflokkanna er sá maður sem hefur atvinnu í djúpum skít.  Honum er ætluð greiðsluaðlögun skulda í hlutfalli við ráðstöfunartekjur auk þess sem skattahækkanir munu snúa út úr honum stærri hlut tekna en áður hefur þekkst, þannig að það gæti þýtt líf við hungurmörk.
  7. Lærðu að prjónaog sittu fyrir erlendum ferðamönnum með prjónaskapinn. Fyrir lopapeysu sem hægt var að fá € 90 (kr.9.500) í fyrra ætti að vera hægt að fá € 90 (kr.15.000) núna rúmlega 50% hækkun. Býður einhver betur.

 

Láttu þér ekki detta í hug eitt augnblik að taka þátt í að borga það sem stjórnmálamennirnir eru svo hátíðlegir að kalla núna fyrir kosningar, skuldir "þjóðarbúsins" og ætla ásamt IMF að láta almenning greiða í gegnum skatta og niðurskurð velferðakerfisins.  Láttu bankana, toppanna í þjóðfélaginu og stjórnmálamennina um þær "þjóðarskuldir", það er komið að þeim að  þrífa skítinn upp eftir sig. 

 

Nú er komið að þér að njóta allsnægta lífsins.  Snúðu þér að því sem þig hefur alltaf langað til að gera, nýttu þér þau þjóðráð sem til þess þarf.  Meðan það eru ekki betri kosningaloforð í boði hjá stjórnmálaflokkunum verðurðu bara láta þér nægja loforðinn frá því fyrir kosningarnar 2007 enda eru þau í fullu gildi í tvö ár í viðbót.

 

Ef þú átt fleiri þjóðráð liggðu þá ekki á liði þínu því þjóðin þarfnast þeirra.

 

www.islenskarhaenur.is/haenaifostur.html

Landnámshænur


mbl.is Málsókn til varnar heimilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Margrét Traustadóttir

Flott skrif - hvað eigum við að gera annað en að bjarga okkur sjálf ? ! Og geitur - þær þekki ég úr sveitinni heima - skemmtilegustu dýr sem hægt er að hugsa sér.........látum hendur standa fram úr ermum !

Hulda Margrét Traustadóttir, 13.4.2009 kl. 14:40

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk, hænur á svalirnar og geit upp í  tré.

Magnús Sigurðsson, 13.4.2009 kl. 15:02

3 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Þú ert snillingur Magnús. Af hverju stofnar þú ekki flokk?

Hilmar Gunnlaugsson, 13.4.2009 kl. 19:10

4 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Frábær skrif!  Vekur mann til umhugsunar.

Á mínu heimili erum við byrjuð á 3 og 7 og erum að velta 1 fyrir okkur.

Kærastan mín er ekki íslensk og hún er vön því að heimilin framleiði miklu meira fyrir sig sjálf.

Við bökum eigið brauð og sækjum á vorin mávaegg á heiðunum.  Við ræktum kannski hveitið sjálf síðar.

Það er margt hægt að gera í þessari stöðu sem kallar á mikla aðlögunarhæfni sem ég veit að við Íslendingar búum yfir.

Þrátt fyrir skert lífskjör þá þurfum við ekki að skerða lífsgæðin.

Lúðvík Júlíusson, 13.4.2009 kl. 20:01

5 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þetta er allt borðliggjandi Maggi. Var sjálfur með hænur meðan ég bjó á Héraðinu. Það er einn arðsamasti og umhverfisvænsti búskapur sem til er.

Haraldur Bjarnason, 13.4.2009 kl. 20:47

6 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

Bara glæsilegt - ég gæti kanski komið fyrir nokkrum "haughoppurum" í garðinum - þarf leifi nágranna fyrir slíku

Jón Snæbjörnsson, 13.4.2009 kl. 21:26

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Hilmar:  Þakka þér fyrir vinur það vantar aldrei neitt upp á hólið hjá þér.  Ég er pólitískt viðrini vega þess að ég veit að það er gott fólk í öllum flokkum.  Það er því eins hjá mér með stjórnmálaflokka og fótboltalið mér er ómlöglegt að halda með einhverjum en vil óska öllum sem gera öðum lífið ánægjulegra, velfarnaðar.

Lúðvík:  Ég sé að það á leita ráða hjá þér, það er ekki ónýtt að hafa frambjóðenda sem hefur sjálfbærni heimilisins að leiðarljósi í sinn hagfræði.  Hikaðu ekki við að gefa væntanlegum kjósendum ráð í þessum efnum og þú munt komast að því að þeim verður tekið með þakklæti.

Halli:  Þetta grunaði mig, að maður kæmi ekki að tómum kofanum hjá þér.  Það er fínt að fá staðfestingu á þessu með hænurnar frá manni með reynslu.  Ég hef nefnilega heyrt að fyrir hænum þurfi lítið að hafa miðað við hvað þær gefa.

Jón:  Ef þú ert með garð þá ertu í góðum málum ættir jafnvel að íhuga þetta með geiturnar.  Ef þú sleppir því að fá þér hana í hænsnakofann ætti þessi búskapur ekki að valda nágrönnunum neinni truflun.

Magnús Sigurðsson, 13.4.2009 kl. 22:37

8 Smámynd: Dagrún Steinunn Ólafsdóttir

Varðandi númer 3 get ég bent á kartöflur sem faðir minn kom með til landsins fyrir um 10 árum.  Ein kartafla liggur við að sé heil máltíð handa tveimur til þremur og uppskeran ekki síðri en af öðrum.

En get líka nefnt að eitt af því sem sjokkeraði mig mest í upphafi hrunsins var sú uppgötvun mín að við Íslendingar erum ekki sjálfbær hvað varðar matvælaframleiðslu. Þessu þarf að kippa í lag.

Dagrún Steinunn Ólafsdóttir, 14.4.2009 kl. 12:49

9 identicon

Hahahhahah þetta er alveg brilljant færsla hjá þér.

3-5-6-7  eru i höfn hjá mér   Kvíði fyrir hænsnabúskapnum, er alveg meinilla við fiðurfénað og því ekki viss um að geta nokkurntíman uppfyllt það, ja nema bóndinn gæti auðvitað séð um þá deild   þannig að við leysum það sennilega bara. NR 2 veit ég ekki alveg hvernig á að fara með, hef stórar áhyggjur af blómunum mínum ef geitaskratti fer að éta allt og skemmileggja fyrir mér svo finnst mér geitaostur frekar vondur, held ég fái mér frekar belju á bás 

(IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 14:27

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Dagrún:  Það væri aldeilis flott að fá útsæði af þessum kartöflum hans pabba þíns, ein kartafla í útsæði og uppskera sem dygði 10 -15 daga í matinn.  Það þarf ekki að taka langan tíma að gera þjóðina sjálfbæra með mat, í raun getur hvert og eitt heimili gert það.  Ég vil benda á slóðina  www.islenskarhaenur.is/haenaifostur.html þar sem kemur fram hvað lítið mál er að halda hænur og að ein hæna gefur að veðaltali 220 egg á ári.

Sigurlaug:  Mér er full alvara með þessum þjóðráðum, enda veit ég að þú ert búin að tileinka þér flest þeirra fyrir löngu síðan.  Bara að hafa hænurnar eins og hver önnur gæludýr, það er alveg hátíð að halda tíu hænur miðað við einn hund.  Eins og sést á myndinni hérna fyrir ofan þá ættu tíu geitur að geta komist fyrir í einu meðal tré.

Magnús Sigurðsson, 14.4.2009 kl. 17:08

11 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Gramsa í geymslunni og finna gömlu Singer saumavélina hennar ömmu. Í Saudi Arabíu fást nú fleiri milljónir fyrir stykkið.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 16.4.2009 kl. 14:18

12 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta er flott þjóðráð Þór, gamla Singer gæti bjargað fjármálunum hjá fimm manna fjölskyldu.

Magnús Sigurðsson, 17.4.2009 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband