Færsluflokkur: Menning og listir

Höfuðlausn eða splatter?

IMG_7039

Flugu hjaldrs tranar

á hræs lanar.

Vorut blóðs vanar

benmás granar.

Sleit und freki

en oddbreki

gnúði hrafni

á höfuðstafni.

Sagt er að eftir að útskýrt hefur verið fyrir barni hvað fugl sé, þá muni það aldrei sjá fugl framar, aðeins hugsanir sínar um fugl samkvæmt útskýringunni. Það má segja að eins hafi farið fyrir mér hvað Egilssögu varðar. Þegar hún var fyrst útskýrð fyrir mér í skóla lét kennarinn þess getið að þarna væri um magnaða lygasögu að ræða, ekki væri nóg með að söguhetjan hefði lent á sitt fyrsta fyllerí þriggja ára gömul, heldur hefði hún drepið mann sex ára. Síðan væri söguþráðurinn svo blóði drifin og lýsingar á manndrápum það yfirgengilegar, að hálfa væri miklu meira en nóg.

Egilssaga Skallagrímssonar er saga tvennra bræðra. Þar sem annar bróðirinn í hvoru pari er hvers manns hugljúfi, eftirsóttur af eðalbornum, ljós og fagur; en hinn svartur, sköllóttur, þver og ljótur. Bræðurnir eru annarsvegar, þeir Skallagrímur og Þórólfur, Kveldúlfssynir og svo synir Skallagríms þeir Þórólfur og Egill. Sagan fjallar um örlög ættar á 150 ára tímabili á víkingaöld, glímuna við að ná sínum rétti samkvæmt lögum sem valdhafar setja og breyta jafnharðan ef þeim hentar. Í sögunni falla báðir Þórólfarnir fyrir vopnum á besta aldri, þeir voru hinir hugljúfu, á meðan Skallagrímur og Egill þverskallast til elli. Sagan gerist víða í N- Evrópu, en aðallega þó í Noregi, Englandi og á Íslandi.

Þegar ég las loksins söguna í heild á sextugsaldri, en lét ekki bara útskýringar kennarans næga, þá gerði ég það mér til huggunar þar sem ég var staddur í minni sjálfskipuðu þriggja ára útlegð í Hálogalandi. Söguþráðurinn er eins og kennarinn sagði á sínum tíma, mögnuð saga af drykkju og manndrápum, sem myndi sóma sér vel í hvaða splatter sem er, a la Tarantino. En þó var fleira sem vakti forvitni mína við lesturinn, Hálogaland var nefnilega heimavöllur Þórólfs Kveldúlfssonar. Áhugi kviknaði á að komast að því hvar nákvæmlega í Hálogalandi Þórólfur hafði alið manninn og efaðist ég um að rétt væri farið með það atriði. Á meðan á þeim heilabrotum stóð hitti ég mann sem gjörbreytti viðhorfi mínu til Egilssögu.

Leit minni að Þórólfi Kveldúlfssyni hefur áður verið gerð skil hér á síðunni. En þá hitti ég norðmann sem kunni önnur skil á Agli Skallagrímssyni en kennarinn í denn. Þessi fundur var í Borkenes nágrannabæ Harstad, þar sem ég bjó. Þangað hafði ég verið sendur um tveggja vikna skeið til að laga flísar í sundlaug grunnskólans. Þetta litla sveitarfélag gerði út á að hafa "móttak" fyrir flóttamenn sem þurfa að komast inn í norskt samfélag. Eins er þar "móttak" fyrir þá sem hafa misstigið sig á kóngsins lögum og vilja komast aftur á meðal löghlíðina borgara með því að veita samfélagsþjónustu. Þarna átti ég marga áhugaverða samræðuna.

Síðasta daginn minn í Borkenes höfðum við sammælst um það, fjölbreyttur vinnuhópur móttaksins og íslenski flísalagningamaðurinn, að ég kæmi með hákarl og íslenskt brennivín til "lunsj" í skiptum fyrir vöfflur með sultu. Leifur, sem kannski ekki bar með sér að hafa verið hinn heppni eins og íslenski nafni hans ef marka mátti rúnum rist andlitið, sá um vöfflubaksturinn og heilsaði mér með virktum. "Ja so du er en Islanding kanskje viking som Egil Skallagrimson kommen å hente din arv ". Þarna hélt ég mig hafa himinn höndum tekið við að fá botn í heimilisfang Þórólfs. Spurði því Leif hvort hann hefði lesið Egilssögu; "að minnsta kosti fjórum sinnum" sagði hann. Þegar ég færði Þórólf Kveldúlfsson í tal sagðist hann ekki hafa hugmynd um þann náunga. En eitt vissi hann; "Egil var ikke en kriger han var en poet" (Egill var ekki vígamaður, hann var skáld).

IMG_7037

Síðan fór Leifur yfir það hvernig Egill hefði bjargað lífi sínu með ljóðinu Höfuðlausn, þegar Egill kunni ekki við annað en að heilsa upp á fjanda sinn Eirík blóðöxi, sem  óvænt var orðinn víkinga konungur í York, en ekki lengur Noregskonungur. Til York rambaði Egill í sinni síðustu Englandsferð. Þau konungshjónin (Eiríkur og Gunnhildur) og Egill höfðu eldað grátt silfur árum saman. Hafði Egill m.a. drepið Rögnvald son þeirra 12 ára gamlan, reisti þeim hjónum að því loknu níðstöng með hrosshaus og rúnaristu, þar sem hann hét á landvætti Noregs að losa sig við þá óværu sem þau hjónin sannarlega væru, en virðist hafa sést yfir það að biðja Englandi griða fyrir hyskinu.

Eiríkur náði um Egil eina nótt í York, en fyrir áeggjan Arinbjarnar fóstbróður síns, auk þess sem Arinbjörn var besti vinur Egils, lét Eiríkur Arinbjörn narra sig til loforðs um grið Agli til handa, svo framarlega sem Egill gæti samið eilífa lofgjörð um Eirík. Þá varð til ljóðið Höfuðlausn, sem Eiríkur blóðöxi gat ekki tekið öðruvísi en lofi. Úr þessu ljóði fór Leifur með erindi við vöfflubaksturinn í Borkenes um árið, og sagði svo að endingu að þarna væri allt eins um hreinustu níðvísu að ræða til handa Eiríki.

Þetta vakti áhuga minn á kveðskap Egils sem ég hafði skautað fram hjá sem óskiljanlegu þrugli í sögunni, enda vel hægt að fá samhengi í fyllerí og vígaferli Egils án ljóðanna. Þegar ég las svo Höfuðlausn náði ég fyrst litlum botni í kveðskapinn, en gekk þó betur að skilja hann á ensku en því ástkæra og ylhýra.

Þegar Hálogalandsútlegð minn lauk árið 2014 átti ég eina glímu eftir henni samfara, en þessi útlegð var tilkominn vegna ósættis við bankann. Mér hafði tekist með þriggja ára Noregsdvöl að losa heimilið við óværuna. Og það án þess að reisa níðstöng með hrosshaus, en með því að senda mína hverja einustu norska krónu til þriggja ára í hít hyskisins. En eina orrustu varð ég að heyja til viðbótar. Ég gat nefnilega ekki látið bankanum eftir Sólhólinn við ysta haf, jafnvel þó á honum stæði bara dekurkofi. Vegna ósveigalegrar græðgi fjármálaflanna í skjóli ríkisvaldsins (eðalborinna okkar tíma)gekk hvorki né rak og að endingu kom mér til hugar, Höfuðlausn.

Þetta magnaða kvæði náttúrustemminga og manndrápa, þar sem blóðugur blærinn flytur dauðann yfir láð og lög. Aðeins ef ég gæti ráðið í það hvernig Egill færi að því að bjarga sínu á mínum tímum, því eins og öðrum hverjum manni af Kveldúlfsætt þá geðjast mér ekki að því að vera botnlaus fjáruppspretta aðalsins fyrir lífstíð, enda kannski ekki á öðru von, því ef Íslendingabók Kára fer með rétt mál er ég komin út af Agli Skallagrímssyni. Ég ákvað því að til þess að komast að leyndarmáli lausnarinnar myndi ég mála mynd af kveðskapnum og væri best að stytta sér leið og byrja á höfðinu.

Þess er skemmst að mynnast að byrjunin lofaði ekki góðu, þegar ég hafði gert lítið meira en koma blindrammanum á trönurnar fékk ég hjartaáfall af verri gerðinni, hjarnaði við á hjartadeild. Við tók nokkurra vikna endurhæfing undir handleiðslu hjúkrunarfólks og sálfræðings. Þegar ég færði tildrög minnar ófullgerðu höfuðlausnar í tal við sálfræðinginn var svarið einfalt; þessu skaltu reyna að gleyma þú hefur ekkert þrek lengur í að stofna til orrustu. Myndin lenti ókláruð upp á skáp þó svo hún væri fullkláruð í höfðinu. Það var síðan núna í vetur sem ég tók hana fram aftur og fullgerði hana enda lausnin fyrir löngu fram komin. 

Þegar ég las núna Egilssögu í annað sinn með hliðsjón af myndinni þá átta ég mig á því að lofgjörð Egils í Höfuðlausn er ekki ort til Eiríks blóðöxi. Það sést á  þeim náttúrustemmingum sem ljóðið hefur að geyma að þetta er ljóð um orrustuna á Vínheiði þar sem Þórólfur bróðir Egils lét lífið nokkrum árum fyrir örlagaríku nóttina í York. Sú orrusta hefur verið kölluð orrustan við Brunanburh og mun hafa markað upphafið að nútíma skipan Bretlands. Þar hafði Þórólfur gengið á mála hjá Aðalsteini Englandskonungi ásamt Agli bróður sínum og víkingum þeirra.

Um liðskipan í orrustunni lét Þórólfur Aðalstein konung ráða, við mótmæli Egils, því fór sem fór, þrátt fyrir frækilegan sigur þá lét Þórólfur lífið. Lýsingarnar á Agli þegar hann kom til sigurhátíðar Englandskonungs eru magnaðar. Þar settist hann gengt konungi yggldur á brún, með sorg í hjarta og dró sverð sitt hálft úr slíðrum án þess að segja eitt aukatekið orð og smellti því svo aftur í slíðrin. Aðalsteinn hætti ekki á annað en láta bera gull og kistur silfurs í röðum til Egils um leið og hann þakkaði honum sigurinn. 

Ljóðið Höfuðlausn orti Egill svo í sinni seinni Englandsferð þegar hann fór til að heilsa upp á Aðalstein Englandskonung og herma upp á hann loforð. Í enskri útgáfu ljóðsins má m.a. finna þessar hendingar; 

The war-lord weaves

His web of fear,

Each man receives

His fated share:

A blood-red suns

The warriors shield,

The eagle scans

The battlefield.

----

The ravens dinned

At this red fare,

Blood on the wind,

Death in the air;

The Scotsmens foes

Fed wolves their meat,

Death ends their woes

As eagles eat.

----

Carrion birds fly thick

To the body stack,

For eyes to pick

And flesh to hack:

The ravens beak

Is crimson-red,

The wolf goes seek

His daily bread.

Þetta er varla lofgjörð til nokkurs manns þó svo Egill hafi leyft Eiríki blóðöxi að halda svo um árið í York. Það var rétt með farið hjá Leif í Borkenes að þarna er kveðið argasta níð til rangláts valds. Það er nær að ætla að Egill hafi haft bróðir sinn í huga þegar hann yrkir kvæðið þessa nótt í York. Höfuðlausn sé því í minningu Þórólfs og þeirra Þórálfa sem láta glepjast af gylliboðum um fjárhagslegan frama með þjónkun við það vald sem telur sig eðalborið til yfirgangs og græðgi. 

Þó Höfuðlausn sé tvíeggjað torf og tímarnir aðrir þá en nú á dögum markaðsvæddra svartra föstudaga, lögfróðra og bankstera; er rétt að fara varlega í að útskýra fyrir blessuðu barninu hvers eðlis fuglinn er, og hafa þá efst í huga orð mankynslausnarans. "Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?"

IMG_7797


Eyktir, dúsín og eilífðin

IMG_7006

Sagt er að eykt sé orð sem notað er yfir það sem er ca 3 tímar, eyktir dagsins eru því fjórar og svo á nóttin jafnmargar eyktir. Sólarhringurinn er svo tvö dúsín klukkutíma (2X12). Allt árið er fjórar eyktir með eitt dúsín(tylft) mánaða. Það skiptist í þriggja mánaða tímabil, frá vetrarsólstöðum að vorjafndægrum; vorjafndægrum að sumarsólstöðum o.s.f.v.. Maðurinn á meira að segja sína eykt; huga, líkama og sál. Eilíf hringrás tímans gengur upp í eyktum og dúsínum (tylftum / dozenal). En við teljum samt, og reiknum á okkar tíu fingrum, í tugum, decimal.

Mannsævina mælum við línulega frá vöggu til grafar, og höldum upp á áfanga hennar í tugum s.s. um fertugt, fimmtugt o.s.f.v.. Vísindin hafa gert mannsævina línulega með upphafi og enda, sem tilheyrir þar af leiðandi ekki hringrásinni. Það má jafnvel ímynda sér að að mannsævin sé gerð upp í tíundum með því að ákveða að ekki sé hægt að telja nema á tíu fingrum. Sumir hafi samt sem áður alltaf vitað lengra nefi sínu, að tíundin er fyrir aurinn og því dýpra sem henni er fyrirkomið í hugarheimi mannfólksins, þeim mun tryggari verður neytandinn á línunni.

Forn tímatöl ganga upp í dúsínum, samkvæmt hringrás sólar, líkt og það íslenska gerði og notað var um aldir. Vagga vestrænnar menningar í Róm, reyndi jafnvel að láta árið ganga upp á tíund eða desimalt. Það má enn sjá á því að síðasti mánuður ársins er desember, en des er tíu á latínu, nov er níu, okt er átta. Síðar þegar tíundin reyndist engan veginn ganga upp á ársgrundvelli var júlí og ágúst bætt inn, sem eru nefndir eftir keisurunum Júlíusi og Ágústusi. Allt þetta brambolt Rómarvaldsins leiddi til flækjustigs sem tók margar aldir að reikna sig frá svo árið gengi upp í sólarganginn, þess vegna var íslenska tímatalið notað af almenningi fram á 20. öldina, eða þar til búið var að skóla íslendinga nægilega í neyslunni þannig að eilíf hringrás sólarinnar hætti að skipta öllu máli.

Nú á dögum er notast við rómverskt tímatal, það Gregoríska, sem er fyrst og fremst viðskiptalegs eðlis. það tók við af öðru rómversku tímatali, til að leiðrétta meinlega villu á ársgrundvelli, sem var farin að æpa á almenning um 1600. Ennþá er það svo að forn tímatöl ganga betur upp í gang eilífðarinnar en nútímans neytendavæna dagatal, sem við trúmum að sé hið eina sanna. Það má m.a. sjá á því að það gamla íslenska var með mánaðarmót í grennd við helstu viðburði sólarinnar s.s. sólstöður og jafndægur, sama á við stjörnumerkin þau skiptast samkvæmt sömu reglu.

Það má því segja að vísindalega höfum við gert mannsævina að línulegri tíund decimal á meðan við vitum innst inni að alheimurinn gengur dozenal í hinni eilífu hringrás eyktarinnar. Og aðeins trúin (sem vísindin efast hvað mest um) leyfir okkur þann munað að verða eilíf eins og alheimurinn sem okkur umlýkur.

Undanfarin ár hefur mátt finna hugleiðingar hér á síðunni tengt tölum og tímatali. Hvernig mælikvarðar reiknikúnstanna stjórna okkar daglega lífi og því sem við teljum vera rétt. Í vetur hef ég svo dundað mér meira við að mála myndir en brjóta heilann í textagerð og þar á meðal mála þessar fornu mælieiningar á eyktarskífu. Það er oft undarlegt hvað kemur í ljós þegar hugarheimi er raðað í mynd, fremur en rökfræðilegan texta. Þá kemur m.a. berlega í ljós að maðurinn er jafn langlífur og eilífðin,,,, nema hann kjósi annað.

IMG_6999


Af kynjum og víddum... og loftbólum andans.

Það hefur ekki oft komið fyrir á þessari síðu að vakin hefur verið athygli á ritverkum annarra. Þó hefur það komið fyrir s.s. þegar bókin hans Más vinar míns Karlssonar kom út "Fólkið í plássinu". Í það skiptið þorði ég að vekja athygli á bókinni hans Más þar sem ég hafði tryggt mér eintak í gegnum klíku áður en bókin kom út.

Það vill oft verða sammerkt með góðum bókum að það fer lítið fyrir þeim í markaðsetningu og eru ekki gefnar út í risaupplagi. Enda fór svo sem mig grunaði með bókina "Fólkið í plássinu", hún seldist upp á skömmum tíma og hefur verið ófáanleg síðan.

Ég tel mig hafa nú þegar tryggt mér eintak af ljóða bókinni hans Péturs Arnar og treysti á að hann tíni ekki minnismiðanum, því ljóðanna ætla ég að njóta þegar ég kem heim um jólin.

 

Af kynjum og víddum..og loftbólum andans er fyrsta ljóðabók Péturs Arnar Björnssonar arktítekts. 

Í ljóðabókinni flæða yrkisefnin milli himins og jarðar, frá fortíð til nútíðar. Pétur Örn hefur fengist við ljóðaskrif frá unglingsárum. Samhliða námi skrifað mikið af ljóðum og hafa nokkur þeirra birst í blöðum og tímaritum.

Ljóðaskrifin urðu strjálli með árunum en í kjölfar þess tíma sem gafst við hrunið haustið 2008 hófust þau aftur af krafti. Núna fannst Pétri mál til komið að taka fyrsta þversnið í hinn mikla ljóðahaug sem safnast hefur upp í gegnum árin og gera aðgengilegan bókarformi.

Pétur Örn Björnsson er fæddur á Sauðárkróki árið 1955. Að afloknu stúdentsprófi frá MT árið 1975 nam hann almenna bókmenntafræði við HÍ og lauk BA prófi þaðan árið 1980 með lokaritgerð sinni um list og veruleika í Flateyjar-Frey, ljóðfórnum Guðbergs Bergssonar. Eftir það lærði hann arkitektúr við Arkitektskolen i Aarhus, lauk þaðan Cand. Arch. prófi árið 1986 og hefur síðan starfað samfellt sem arkitekt. Nú arkar hann inn á ritvöllinn með sinni fyrstu ljóðabók.

Eins og ég gat um í upphafi þá hefur þessi síða ekki gert mikið af því að vekja athygli á hugðarefnum annarra þó svo að öllum hafi verið frjálst að viðra sín hugðarefni hér í athugasemdum sem Pétur Örn hefur gert af og til.

Það eru ekki nema andans menn með hjartað á réttum stað sem koma saman ljóði og það þarf fjölkunnuga kjarkmenn á við Egil sterka til að gefa út ljóðabók. Pétur Örn er hvoru tveggja ef marka má ummæli hans við útkomu bókarinnar Af kynjum og víddum... og loftbólum andans.

"Fyrsta fjallið er hverjum manni ætíð það erfiðasta að klífa. Eftir það fer maður væntanlega í stóra ljóðahauginn sem safnast hefur upp í gegnum árin og tekur næstu þversnið og prjónar hverju sinni einhverju nýju við svo úr verður ljóð ... hús."

 

Í SVARBLÁMA

Hljóður
getur alvarleiki 
barnsins 
verið - í leik 

í djúpri skynjun vitundar
um að fyrr en síðar
muni það leita 
sjálft sig (aftur) uppi

með tunglið og stjörnurnar
og Norðurljósin
og allar ljóstýrur heimsins
í augunum

að rýna út í loftið
út yfir hafið
yfir móa og mela 
og yfir landið allt

í hljóðum svarbláma
að finna sjálft sig aftur
í skynjun vitundar í leik
bak við þunnofna slæðu.


(Úr bókinni "Af kynjum og víddum ... og loftbólum andans, sem komin er út á vegum forlagsins Bókabeitan og er 92. bls. kilja. Bókin fæst nú í öllum "betri bókabúðum") 

Mynd af Af kynjum og víddum ... og

   


Salthúsið 2013.

IMG 0679 

Í dag opnar Salthúsmarkaðurinn í Salthúsinu á Stöðvarfirði fimmta sumarið í röð.  Frá 2009 hefur handverksfólk á Stöðvarfirði haldið úti markaði í aflögðu fiskvinnsluhúsi í bænum, með handverki víða af Austurlandi í boði fyrir ferðafólk. 

Samhliða markaðnum hafa verið ýmsar uppákomur í húsinu, t.d. var haldin ljósmyndasýning árið 2009 m.a. frá sjávarútvegi á Stöðvarfirði auk þess sem varpað var á veggi kvikmyndum frá fiskveiðum og vinnslu í íslenskum sjávarútvegi. Einnig var myndverk gjörnigaklúpsins "Icelandic love corporation" sýnt þar sem gert var að þorsk til útfarar í brúðarkjólum og ein málverkasýning. 

Árið 2010 áttu  hátt á annan tug ungra listamanna sviðið ásamt handverkfólkinu. Það sumar hófst sýningaröðin "Æringi" í Salthúsinu á Stöðvarfirði að frumkvæði listakonunnar Þorgerðar Ólafstóttir. Æringi hefur síðan verið haldinn í Bolungavík 2011 og á Rifi 2012.

IMG 0071

Núna sumarið 2013 er ráðgera aðstandendur "Pólar Festival" að hafa listviðburð í húsinu samhliða bæjarhátíðinni "Maður er manns gaman" á Stöðvarfirði helgina 12-14. júlí. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/05/30/haefileikasamfelag_a_stodvarfirdi/

Þó svo að þetta verði í þriðja sumarið í röð sem ég missi af opnun Salthúsmarkaðarins þá er hugurinn enn sem áður þar á þessum degi. Í dag ætla ég að nota tækifærið til að kynna handverkið hennar Matthildar sem verður í Salthúsinu í sumar.


Litakassinn.

 IMG 3654

Þennan veturinn datt ég í litakassann eins og svo oft áður, upp tendraðist Ægishjálmur. Upphafið má rekja til þess að í því sem næst ár hef ég haft Ægishjálm á heilanum eða borið "á milli brúna mér" eins og segir um hvernig eigi að nýta sér verndarmátt galdrastafsins. Reyndar í mun lengri tíma því að af og til hefur Ægishjálmur dúkkað upp í minni tilveru.  

Ég hef semsagt verið að rannsaka hvaðan fyrirbærið kemur og hvers það er megnugt.  Því má kannski segja að ég viti loksins orðið svo mikið um lítið að ég sé orðin sérfræðingur þó enga hafi ég gráðuna því til staðfestu.  Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að Ægishjálmurinn komi svo langt að að það sé alla leið frá upphafi vega. Því eins og Goðafræðin greinir frá þá var Ægir guð hafsins í Jötunheimum og það var jú úr Jötninum Ými sem goðin bjuggu til jörðina. Notagildinu má síðan líkja við andans internet, með mun öflugri leitarvél en google, þar sem leitarniðurstöðurnar birtist sem staðreyndir.

Það hafa verið hin ólíklegustu litbrigði sem hafa komið fram við að lita Ægishjálminn svo mögnuð að það var ekki nokkur leið að koma þeim á striga í heilli mynd.  Oftar en ekki var hugmyndin orðin svo margþætt að hún endaði í engu.  Þegar ég var alveg orðin strand og myndin því sem næst að hverfa fékk ég þau skilaboð að ég væri um það bil búin að mála þau systkinin, Fenrisúlf, Miðgarðsorm og Hel, sjálfur ferðaðist ég svo um á Fenrisúlfi við Helgrindur.  Ég sem hélt að ég væri að mála mig á heimleið til Matthildar minnar með leiðsögn Ægishjálms. Eftir að hafa leitað álits á því hvort ég hefði óvænt málað eigin endalok fékk ég þau skilaboð að það færi eftir því hvar væri birjað. Því varð það niðurstaðan að mála átta hjálma í viðbót þar sem vonlaust verk væri að koma allri hugmyndinni fyrir á einni mynd sem ekki hyrfi í móðuna miklu og það mynd sem átti að geima "ljós heimsins" en alls engin ragnarök.  

Um það bil sem ég var búin að koma mér út í ystu myrkur og myndin því sem næst að mást út lagði hún Matthildur mín upp í ferð yfir himin og haf hingað á 69°N og var hjá mér í þrjár vikur.  Þá birtist hver Ægishjálmurinn af öðrum og hver lopapeysan af annarri. Það má segja að við höfum að sumu leiti verið að fást við sama galdurinn, átta blaða rós og átta arma Ægishjálm.

Með því að klikka á orðið "Litakassinn" kemst þú á málverkasýningu.

LITAKASSINN - MÁLVERKASÝNING (með því að tvíklikka svo á mynd má stækka hana).

Ps. Hér fyrir neðan má finna niðurstöður Ægishjálms rannsóknarinnar hafi einhver áhuga á að vita meira um galdramátt hans.

http://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/1267445/

http://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/1268712/ 

http://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/1269627/

 


Meistari Megas.

Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér
og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer.
En ég vona bara að hann hugsi svolítið hlýlega til mín
og leiði mig á endanum aftur til þín.

Ég gaf þér forðum keðju úr gulli um hálsinn þinn,
svo gleymdir þú mér ekki í dagsins amstri nokkurt sinn.
Í augunum þínum svörtu horfði ég á sjálfan mig um hríð
og ég vonaði að ég fengi bara að vera þar alla tíð.

Það er margt sem angrar en ekki er það þó biðin
Því ég sé það fyrst á rykinu, hve langur tími er liðin.
Og ég skrifa þar eitthvað með fingrinum sem skiptir öllu máli.
Því að nóttin mín er dimm og ein og dagurinn á báli.

Já, og andlitið þitt málað. Hve ég man það alltaf skýrt,
auglínur og bleikar varir, brosið svo hýrt.
Jú ég veit vel, að ókeypis er allt það sem er best,
En svo þarf ég að greiða dýru verði það sem er verst.

Ég sakna þín í birtingu að hafa þig ekki við hlið mér
og ég sakna þín á daginn þegar sólin brosir við mér.
Og ég sakna þín á kvöldin þegar dimman dettur á.
En ég sakna þín mest á nóttinni er svipirnir fara á stjá.

Svo lít ég upp og sé við erum saman þarna tvær
stjörnur á blárri festinguni sem færast nær og nær.
Ég man þig þegar augu mín eru opin, hverja stund.
En þegar ég nú legg þau aftur, fer ég á þinn fund.

Lag: Megas
Texti: Megas

http://www.youtube.com/watch?v=LITcFDEP4a8&feature=related


Norðurhjarinn.

IMG 0707

Þau hafa verið þrálát norðurhjara élin hérna á 69°N undanfarna daga jafnvel alveg frá því í janúar. Þetta þarf ekki að vera svo slæmt veður fyrir þá sem hafa skýjaskoðun að áhugamáli því þó snjórinn sé hvítur og élin grá, þá má í dekksta lagi greina í gegnum sortann að tilveran er blá.

Í dag ætla ég að reyna að drepa tímann á þessum lengsta föstudegi ársins með því að góna í éljabakkann mér til andagiftar, jafnframt því að gefa innsýn í þær furðumyndir sem ég hef greint í gegnum élin hérna á 69°N og gert tilraun til að klína á striga.  Til samanburðar eru tvær myndir frá því í fyrra sumar sem gefa til kynna muninn á vetri og sumri norðurhjarans.

Setjið bendilinn yfir mynd og smellið til að fá möguleika á að stækka.

     

Kilbotn               Evenskjer               Mørketid (skammdegi)

Vintersol (vetrarsól)               Snebyger (snjóél)               Hagl

Vogsfjorden               Stangnes               Trondenes

Óvænt barst mér gúru andans á youtube sem á vel við þessa páska sem eru þeir fyrstu sem ég dvel algerlega einn og sér með sjálfum mér í mínum blues.  Hann ætlar að setja nokkur púsl í heildarmyndina með nokkrum vel völdum orðum.


Salthúsið, Stöðvarfirði.

scan0247

 

Undanfarin tvö sumur hefur rekinn markaður, í aflögðu fiskvinnsluhúsi (Salthúsinu) á Stöðvarfirði, með handverki og heimafengnu hráefni undir heitinu Salthúsmarkaðurinn. Til að auka aðdráttarafl markaðarins var sumarið 2009 boðið upp á myndasýningu, video verki gjörningaklúbbsins ILC var varpað á veggi kælis auk videos sem sýndu íslenskan sjávarútveg. Aðsóknin 2009 fór fram úr björtustu vonum og því var ákveðið að halda áfram. Sumarið 2010 komu 24 ungir listamenn frá Reykjavík auk Belgíu og Skotlandi dvöldu í Salthúsinu í 10 daga og settu upp sýninguna Æringur 2010. Salthúsmarkaðurinn verður þriðja sumarið í röð 2011, meiningin er að reina að koma á vísi af fiskmarkaði, enda við hæfi hússins. Opið er fyrir hugmyndir af listviðburðum og allar hugmyndir vel þegnar.

Það hefur verið gefandi að  taka þátt í þessum verkefnum ásamt hug- og handverksfólki. Upphaflega kviknaði sú hugmynd sumrin 2007 og 2008, þegar sást til ferðamanna hvað eftir annað á vappi í kringum þessi aflögðu fiskvinnsluhús, jafnvel reynandi að sjá inn um gluggana, að gaman væri að opna þau yfir sumartímann og sýna hvað fór fram í þeim áður.

Við félagi minn settum okkur svo í samband við ferðamálanefnd Fjarðabyggðar og skapandi fólk á Stöðvarfirði og buðum þeim afnot af húsin þar sem það stæði hvort því sem er tómt yfir sumartímann, en á veturna er það notað sem geymsla fyrir húsbíla og hjólhýsi. Verkefnið hefur tekist vel í alla staði, laðað að ferðamenn og mætt mikilli velvild hjá handverksfólki, listamönnum og hinum ýmsu styrktaraðilum. Í upphafi hefði maður ekki þorað að vona að svona vel myndi ganga, en nú hyllir í að Salthúsið verði að veruleika þriðja sumarið í röð.

Stöðvarfjörður er einn af þeim stöðum sem margir eiga eftir að uppgötva. Það vita það ekki allir að á Stöðvarfirði er eitt stærsta steinasafn í heiminum í einkaeigu. Safnið er heimsótt af 20 - 30 þúsund ferðamönnum árlega og eru erlendir ferðamenn þar í meirihluta. Petra Sveinsdóttir sem hefur varði ævinni í að safna steinum á heiðurinn að þessu safni. Í safninu, sem er á heimili Petru er merkilegri ævi hennar gerð skil auk þess sem risastór garðurinn sem nær langt upp fyrir húsið er með fegurri lystigörðum. Það fer ekki mikið fyrir Stöðvarfirði sem ferðamannabæ. Þangað koma samt tugþúsundir ferðamanna á hverju sumri, aðallega til að heimsækja steinsafnið.

 


Fryrstihús verður að sköpunarmiðstöð.

IMG 0760

 

Síðan í fyrra sumar hafa ungir listamenn, þau Rósa Valtengojer og Zdenek Patak unnið að hugmyndum um að gera yfirgefið frystihús á Stöðvarfirði að sköpunar og menningarmiðstöð þar sem áætlað er að bjóða upp á aðstöðu fyrir hina ýmsu viðburði.  Zdenek kemur frá Prag í Tékklandi en Rósa er Stöðfirðingur, hugmyndir þeirra hjóna ganga út á að gera frystihúsið af þeim miðpunkti Stöðvarfjarðar sem það var áður fyrr auk aðdráttarafls fyrir menningar og listviðburði alstaðar að úr heiminum.  Til stendur að stofna samvinnufélag um verkefnið svo allir þeir sem áhuga hafa á geti lagt verkefninu lið.

Í október tókst þessum ungu hjónum hið ómögulega, það er að fá alla þingmenn N-austurskjördæmis þ.m.t. fjármálaráðherra til að koma á Stöðvarfjörð til að vera viðstadda kynningarfund um verkefnið í troðfullri Brekkunni veitingahúsi á Stöðvarfirði.  Eins hafa þau Zdenek og Rósa aflað fjölda samstarfsaðila, með því að kynna verkefnið á listaráðstefnu í Stokkhólmi sl. haust og í hinum þekkta Central Saint Martins College of Art and Designí London.  Nú á vormánuðum mun Zdenek kynna verkefnið í Zagreb í Serbíu.  Sannfæringarkraftur þeirra og hversu vel þeim tekst að leiða kosti verkefnisins öðrum fyrir sjónir er ótrúlegur.  Í miðjum niðurskurði fjárlaga s.l. sá fjárveitingarnefnd Alþingis sér fært að setja smá upphæð í verkefnið sem nægir til að ýta því úr vör.

Í gegnum tíðina hefur hæfileikafólk á Stöðvarfirði nýtt íslensk hráefni til markaðssetningar, má þar t.d. nefna ullarhandverk auk matvælaframleiðslu beint úr nánasta umhverfi, s.s. fjallgrös, ber og pabbabara sem notað hefur verið í brauð, sultur og sælgæti. Auk þess sem varla þarf að minnast á það augljósa, að áratuga hefð er fyrir harðfiskverkun og því sem sjórinn gefur.

Undanfarin tvö sumur hefur heimafólk rekið markað fyrir handverki og heimafengið hráefni undir heitinu Salthúsmarkaðurinn. Til að auka aðdráttarafl markaðarins var sumarið 2009 boðið upp á myndasýningu og video verk sem sýndu íslenskan sjávarútveg. Almenn ánægja var með útkomu Salthúsmarkaðsins og framhald ákveðið. Sumarið 2010 komu 24 ungir listamenn frá Reykjavík auk Belgíu og Skotlandi dvöldu í Salthúsinu í 10 daga og settu upp sýninguna Æringur 2010.

Hugmyndin með Frystihúsinu er að skapa varanlegan grundvöll fyrir staðbundið framtaki af þessu tagi auk aðstöðu fyrir hina ýmsu listamenn til að stunda list sína s.s. ljósmyndastudio, hljóðver ofl. ofl..  Með því að bjóða upp á aðstöðu á einum stað þar sem ýmsir þættir menningar og listar kæmu saman myndi það virkja gagnkvæmt aðdráttarafl og auðvelda frekari vöxt.


Lífið í litum.

IMG 0842 

 

Það að vera án vinnu er ekki eins auðvelt og það gæti virst í fyrstu.  Einhvernvegin verður að nota tímann og þegar tíminn berst að í eins stórum skömmtum og hann virðist gera,  þegar maður hefur ekkert við hann að gera getur það reynst yfirþyrmandi verkefni.  Það er svo skrítið að þegar tíminn er nógur þá er eins og maður komi sér ekki í það að gera það sem alltaf stóð til að gera þegar tími gæfist.

Undanfarna daga hef ég verið að drepa tímann við að mála, en það er eitt af því sem ég hélt áður að yrði aldrei nægur tími til að gera.   En það er ekki auðvelt að koma sér að verki þegar hugmyndirnar vantar.  Svo fór ég að mála það sem ég sá út um gluggann og það sem ég sé út um gluggann í sælureitnum við sjóinn.  Kannski á ég eftir að ná því að láta litina heilla mig þannig að tíminn fljúgi.

Þegar ég var búin að mála nokkrar myndir fór ég að hugsa um mynd sem ég málaði fyrir 11 árum,  nýbúinn að opinbera litaáráttu mína á striga.  Þá kom til mín kona og skoraði á mig að mála fyrir sig mynd eftir sögu í bók sem hún afhenti mér.  Þetta var mögnuð saga og hafði mikil áhrif á mig á meðan ég var að mála myndina.  Þessi saga gæti þess vegna verið fyrirboði þess sem gerst hefur síðan.  Sagan er eftir Selmu Lagerlöf og heitir Hreiðrið.  Hér fyrir neðan er mynd af myndinni sem ég málaði við söguna.  Mig minnir reyndar málverkið vera mun skírara en ljósmyndin en það er annað mál. 

 

Hreiðrið

 

Hérna kemur textinn sem ég lét fylgja um það sem ég hugsaði þegar ég málaði mynd eftir áskorun.

Sagan Hreiðrið eftir Selmu Lagerlöf segir frá einbúanum Hattó sem fór út í auðnina og bað Drottinn engrar smábænar, hvorki meira né minna en um að tortíma heiminum.  Því svo miklar voru syndir mannanna að frelsa þurfti þá ófæddu frá lífinu sjálfu.  Þann tíma sem hann var á bæn komu máríerlurnar og gerðu hreiður í hendi hans vegna þess að eina tréð í nágreninu var greinalaust og Hattó líkari tré sem veitti skjól.  Hattó fór smá saman að finna til samkenndar með íbúum hreiðursins og sannfæringarmáttur bænar hans dvínaði smátt og smátt.  Að endingu bað hann hreiðrinu griða.

Sævar sjómaður hafði aldrei beðið bæna í líkingu við bæn Hattós.  Hér áður fyrr þegar fiskverð var lágt, hafði honum í versta falli komið það til hugar að kaupfélagið væri dragbítur á framfarir og mætti því missa sig.  Með tímanum tóku við nýir siðir sem Sævar átti erfitt með að skilja, hann mátti ekki veiða nema ákveðinn afla hvernig sem gaf.  Það undarlega var að verðið sem hann þurfti að fá fyrir fiskinn fékk hann fyrir hann óveiddan og kallaðist þetta markaðsvæðing.  Kaupfélagið fór á hausinn því það réði ekki við að kaupa óveiddan fisk á markaðsverði.  Svo hrundi vitinn í gjörningaveðrinu mikla og leiðsögnin brást.  Á endanum varð hið gjöfula haf sem ófær eyðimörk fyrir Sævari og hann gat hvorki flotið burt á sínum brotna bát né séð fjölskyldunni farborða.

Fram til þessa höfðu Sævar og Hattó aðeins átt eina bæn sameiginlega, þá að biðja Drottinn um að þyrma hreiðrinu.

Ég þarf ekki að taka það fram að umhverfið í myndinni  um hreiðrið var fengið út um stofugluggann minn þá.  Hérna má sjá nokkrar af þeim myndum sem ég hef málað undanfarna daga m.a. út um stofugluggann.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband