Færsluflokkur: Landsins-saga

Fjórir Jónar og jafnmargar Margrétar

Sjóræningjar

Öldin sautjánda hefur hér á landi verið kölluð brennuöldin eða öld galdrafárs, en ætti kannski með réttu að vera kölluð sjóræningjaöldin. Hér á eftir fer örstutt æviágrip fjögurra Jóna þessu til undirstrikunar og í lífi eins þeirra koma við sögu fjórar Margrétar. Allir tengdust þessir Jónar með einum eða öðrum hætti og áttu sitt blómaskeið á fyrri hluta 17. aldar.

Í júnímánuði árið 1614 kom til Vestmannaeyja stórt vígbúið sjóræningjaskip undir stjórn tveggja Englendinga. Sjóræningjarnir settust upp í Heimaey, rændu þar og rupluðu. Meðal þess sem þeir stálu var kirkjuklukkan í Landakirkju.

Skipstjóri sjóræningjaskipsins hefur verið kallaður hér á landi Jón Gentlemann, en hét í raun James Gentleman og var hér í ránsleiðangri ásamt félaga sínum William Clark. Sumar sagnir segja að sjóræningjar þessir hafi komið við í Papey og jafnvel á Djúpavogi.

Séra Jón Halldórsson prestur í Hítardal segir svo frá ráninu í Biskupssögum: -voru Vestmanneyjar rændar- Anno 1614 af þeim eingelska sjóreyfara Jóni Gentelmann, hver með sínum reyfaraflokki gekk um eyjarnar í hálfan mánuð, sem settu knífa og sverð sín á hálsa og barka þeim íslensku og stuttar byssur fyrir þeirra brjóst með spotti og skellihlátri, drápu þó hvorki né særðu nokkurn mann né smánuðu ærlegt kvenfólk, en ræntu og rupluðu öllu.sem þeir vildu nýta, en skemmdu og fordjörfuðu það þeir vildu ekki. Þeir tóku burt þá stóru Landakirkjuklukku. En þá Jón kom fram til Einglands var hann tekinn og drepinn með sínum selskap. Bókstafir, sem steyptir voru á klukkunni, hermdu frá hverri kirkju á Íslandi hún var tekin, var hún þremur árum síðar send aftur til Vestmannaeyja eftir skipun Jacobs kongs á Einglandi.

Örlög Jóns og Williams urðu þau, að nokkru síðar voru þeir teknir höndum í Englandi, dregnir fyrir dóm og hengdir, meðal annars fyrir ránið í Vestmannaeyjum. Danakonungur hafði skrifað Jakob 1. Englandskonungi kvörtunarbréf vegna ránanna. Eyjamenn endurheimtu því kirkjuklukkuna, en áletrunin á klukkunni sannaði hvaðan hún var.

Samkvæmt kvæði séra Jóns Þorsteinssonar sóknarprests í Eyjum voru ensku sjóræningjarnir þar í 28 daga. Hélt séra Jón því fram að Vistmanneyingar hefðu kallað ránið yfir sig sjálfir með óguðlegu líferni, -og orti bæði kvæði um atburðina og það sem ætti eftir að koma yfir Eyjamenn ef þeir bættu ekki ráð sitt.

Spá séra Jóns Þorsteinssonar átti heldur betur eftir að rætast, 13 árum seinna, 1627 rændu Tyrkir Vestamanneyjar og drápu þá séra Jón ásamt fjölda fólks. Eftir það var hann kallaður Jón Píslarvottur, var hann sagður hafa liðið píslarvættisdauða, og er hann eini sannlegi píslarvotturinn á Íslandi.

Þegar sjóræningjar óðu um Vestmannaeyjar í Tyrkjaráninu faldi séra Jón sig ásamt fjölskyldu og heimilisfólki í Rauðhelli, skammt frá Kirkjubæ, en ræningjarnir urðu þeirra varir vegna þess að gamall karl, sem var heimilismaður Jóns, var svo forvitin um framferði Tyrkja að þeir sáu til hans utan við hellinn.

Þeir komu þangað og fundu fólkið, en tvær konur höfðu falið sig í sprungu þar nærri og ræningjarnir sáu þær ekki, en þær fylgdust með því sem gerðist. Þær sögðu að séra Jón hefði gengið á móti ræningjunum, sem hefðu höggvið hann þrisvar í höfuðið en hann mælti guðsorð við hvert högg.

Hjó þá fordæðan þriðja höggið. Þá sagði presturinn: -Það er nóg, herra Jesú! meðtak þú minn anda. Hafði hann þá í sundur klofið hans höfuð. Lét hann svo líf sitt, -segir í Tyrkjaránssögu. Frásögnin er með nokkrum ólíkindablæ, en hetjuleg framganga séra Jóns Þorsteinssonar hefur vafalaust stuðlaði að því að hann fékk píslarvottsnafnbótina.

Kona séra Jóns Píslavotts, Margrét Jónsdóttir, var flutt til Algeirsborgar ásamt tveimur börnum þeirra, Margréti og Jóni yngra, og voru þau seld þar á þrælamarkaði. Prestfrúin dó innan fárra ára, dóttirin Margrét var seld spænskum eða frönskum kaupmanni sem giftist henni síðar.

 Galeiðuþrælar

Á Miðjarðarhafi tíðkaðist að nota galeiður sem voru með fábreyttan seglabúnað svo treysta þurfti á árar. Mikill markaður var því fyrir þræla undir árar galeiðnanna. Nánast eina úrræðið fyrir þræla var að snúast til Íslam vildu þeir betra hlutskipti. Að vera galeiðuþræll var það versta af öllu, þeir voru hlekkjaðir berir undir árar, keyrðir áfram með svipu og gátu verið við róðra klukkustundum saman. Brauði var dýft í súpu eða vín og því slengt í andlitið á þeim með skafti svo ekki yrði hlé á róðrinum. Þegar þeir gáfust upp var gengið úr skugga um að þeir væri dauðir og þeim hent í sjóinn.

Jón, sonur séra Jóns og Margrétar, var 15 ára þegar honum var rænt. Hann kastaði fljótlega trúnni, gerðist Múslimi og komst til þeirra metorða í Barbaríinu að verða sjóræningi á Miðjarðarhafi. Hann tók upp nafnið Vestamann og var eftir það kallaður Jón Vestmann.

Jón Vestmann kom sér vel í Barbaríinu. Fyrst í stað virðist hann samt hafa búið við harðan kost, það má ráða af bréfi sem Grindvíkingurinn Jón Jónsson, skrifaði til foreldra sinna á Íslandi árið 1630. Þar segir Jón svo um nafna sinn Vestmann: - ég skrifaði fyrir Jón son síra Jóns heitins Þorsteinssonar um hans sálugu móður í guði sofnaða til hans bræðra og lögmannsins herra Gísla Hákonarsonar, því hans ógnarlegi patron leið honum eigi að skrifa langort bréf.

Jón Vestmann hefur vafalaust verið reyndur af því hvort hann væri heill í hinni nýju trú. Hann hefur auðsýnilega staðist prófið, því hann komst til álits og fékk mannaforráð. Í Algeirsborg var á þessum tímum mikil velmegun og auður, en það breytti samt ekki því að þræll var ávalt þræll þó svo að hann gengist Íslam á hönd og efnaðist.

Sjóræningjar, sem höfðu aðsetur í Algeirsborg, stunduðu rán á siglingarleiðum til kristinna landa við Miðjarðarhafið og rændu einnig við strendur Vestur Evrópu. Jón Vestmann varð brátt í miklu áliti og varð foringi eða skipstjóri á ránsferðum um Miðjarðarhafið.

Jón Vestmann ól þá von í brjósti að hann slyppi úr Barbaríinu og kæmist aftur á heimaslóðir. Eitt sinn skipulagði hann flótta ásamt Norskum skipstjóra, sem eins var komið fyrir, hugðust þeir komast til Danmerkur, en það komst upp um þá og þeir máttu þola harðræði í kjölfarið.

Jón Vestamann vann sér smá saman aftur traust Tyrkja og hóf á ný sjórán á Miðjaðarhafi. Í eitt sinn féll hann í hendur óvinarins og stóð þá til að hengja hann. Þá bar að Spánverja, sem komst að því að Jón var norrænn maður í ánauð, og fékk Spánverjinn hann lausan undan hengingunni.

Jón Vestmann hóf ferðina heim, kom við í Marseille og hitti systur sína, en þar bjó þá Margrét. þaðan hélt hann til Kaupmannahafnar. Hann ílentist í Kaupmannahöfn og var þar mikils metinn þrátt fyrir menntunarleysi, þótti bæði reyndur og sigldur.

Jón Vestmann kom til Danmerkur árið 1645, 18 árum eftir að honum var rænt og hann seldur á þrælamarkaði. Hann er sagður hafa kennt Dönum að smíða hjólbörur, en þesskonar tækniundri hafði hann kynnst í þrældómi Barbarísins. Eins var hann skipaður af konungi til að gera sjókort vegna siglingareynslu sinnar

Það varð snöggt um Jón Vestmann hann lærbrotnaði í Kaupmannahöfn veturinn 1649, fékk sýkingu í brotið og dó í kjölfarið 37 ára gamall, og komst því aldrei aftur heim. Hann var gefin saman við danska konu á sjúkrabeði, sem hét Margrét. Seinna sama ár fæddi hún dóttir þeirra sem einnig var skírð Margrét.

Einn af þekktustu menntamönnum Danmerkur þessa tíma, Ole Worm, sagði í bréfi til Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti, sem ritað er 10. maí 1649: -Vér höfum misst landa yðar Jón Vestmann, vissulega frábæran mann að gáfum og margskonar þekkingu. – Ég harma lát hans næsta mjög, því að hann var náinn vinur minn.

Pirateship

Á úthöfunum þurfti öflugri skip en galeiður, sem treysta þurftu á árar, -og til sjórána á Atlantshafi. Þess vegna og þóttu góðir skipstjórnarmenn á úthafskipin vera frá norður- og vestur Evrópu  

Sumarið 1615, ári eftir að Jón Gentleman gerði sig heimakominn í Vestmanneyjum, sigldi Jón Ólafsson, -ungur Vestfirðingur, með ensku skipi til Englands og þaðan lá leið hans til Kaupmannahafnar. þar sem hann gerðist fallbyssuskytta á herskipum Kristjáns IV Danakonungs.

Auk þess að starfa við lífvörð konungs lá leið Jóns fljótlega norður til Svalbarða. Árið 1622 sigldi hann með kaupskipi suður fyrir Afríku, og upp Indlandshaf til Ceylon, -sem nú heitir Srí Lanka. Síðar dvaldist hann í dönsku nýlendunni Tranquebar á Indlandi.

Í september árið 1624 slasaðist Jón illa við sprengingu í fallbyssu, -var hann 30 ára. Þá var hann fluttur til Danmerkur og kom til Kaupmannahafnar um sumarið ári seinna, eftir hrakninga og vetursetu í Írlandi. Hann kom svo til Íslands aftur árið 1626 og settist að í Álftafirði við Ísafjarðardjúp, sinni gömlu heima sveit. Seinna réði hann sig um tíma til að sjá um varnir Vestmanneyja.

Jón skrifaði reisubók sína á alþýðumáli lausu við guðsorðastagl og útúrdúra menntamanna þessa tíma. Bókin kom fyrst út á Íslandi á 20. öldinni. Hann var hér á landi kallaður Indíafari, enda lengi vel eini Íslendingurinn sem hafði komið til Indlands svo vitað væri.

Jón Indíafari var góður sögumaður og eru lýsingar hans á mannlífi Kaupmannahafnar og siðum framandi þjóða skemmtilegar. Reisubókin þykir einstæð heimild um mannlíf og herþjónustu í danska flotanum á 17. öld. Útdrátt úr henni hefur mátt finna sem kennsluefni barna og unglinga í dönskum skólum.

Hægt er að staðfesta frásagnir Jóns Indíafara með samtímaheimildum, auk þess sem í sjóræningjasögum hans er hægt að finna samsvörun enn þann dag í dag, líkt og er við flóann á milli Sómalíu og Jemen á hafsvæði Húta: -Eitt eyland, liggjandi í því Rauða hafi, kallast Zocotora og heyrir til Afríka. Það með lyktar hér um meira að tala. Út af því Rauða hafi koma þrátt í veg fyrir Indíafara nokkur smáskip og skútur, sem kallast barkar, hver skip þeir taka með harðri hendi og alla vöru. Á þeim eru egypskir og arabískir menn. Sumum sleppa þeir tómhentum, en suma aflífa þeir, sem morðingjar og sjóreyfarar. Þar fá þeir oftlega mikið herfang, og nær svo ber við, að þessi smáskip koma út af þeim Rauða sjó í móti þeim, en á vorri leið skeði það ei, og ei komum vér við nokkur lönd, fyrr en við komum að Ceylon.

Jón Indíafari kom við sögu í Tyrkjaráninu sumarið 1627. Þegar Murat Reis, sá sem rændi Grindavík, sigldi fyrir Reykjanes eftir rán í Grindavík, þá er talið að hann hafi ætlað að ráðast á Bessataði, höfuðvígi landsins, þá hafði verið hlaðið í flýti með skreiðapökkum á milli fallbyssa, einungis til þess að sýndist vera virki.

En Holgeir hirðstjóri konungs, sem sat á Bessastöðum, hafði haft spurnir af sjóráninu í Grindavík. Þá var Jón Indíafari nýkominn að vestan í Bessataði með bréf frá Ara sýslumanni í Ögri og gaf ráð við varnirnar. Því þar var kominn fallbyssuskytta úr sjóher konungs á ögurstund og maður sem var vanur hernaði. Þó svo að varnirnar á Bessatöðum væru aumar, virkuðu þær.

Svo fór, hvort sem það var Jón Indíafara að þakka, eða það var einhver annar sem sá um fallbyssuskotin, sem beint var að skipum Murat, að hann hörfaði frá. Þar sem það var lágsjávað þá tók stærra skipið niðri á Lönguskerjum. Holgier hirðstjóri ákvað að aðhafast ekki frekar og fór Morat skipstjóri vestur með landi þegar skipið losnaði, áður en hann tók kúrsinn til Salé í Marokkó.

Tyrkir

 Þeir sjóræningjar sem kallaðir voru Tyrkir voru ekki eiginlegir Tyrkir eins og við köllum þá í dag. Skip þeirra komu frá N-Afríku og voru að talsverðu leiti mönnuð sjómönnum frá V-Evrópu. Tyrkjanafnið kom til vegna þess skipin áttu heimahafnir innan Ottómanveldisins, -með Soldán sitjandi í Istanbúl, og var því kallað Tyrkjaveldi.

Sumarið 1627 var mesta sjóræningjasumar sem sögur fara af í Íslandssögunni. Tveir sjóræningjaleiðangrar komu frá N-Afríku, annar frá Salé í Marokkó og hinn frá Algeirsborg í Alsír. Sjóræningjaleiðangurinn frá Marokkó rændi Grindavík og reyndi við Bessastaði. Sá frá Alsír rændi í nágreni  Djúpavogs og í Vestmannaeyjum. Alls var um 400 manns rænt og fólkið selt á þrælamörkuðum N-Afríku. Talið er að um 50 hafi verið drepnir í sjóránunum.

Skipstjórar sjóræningjaleiðangranna voru tveir og báðir kallaðir Murat Rais. Murat er algengt arabískt og tyrkneskt nafn, Rais þýðir skipstjóri. Vitað er að sá Murat sem kom frá Marokkó hét Jan Janson áður en hann tók upp nafnið Murat. Hann ver Hollenskur að uppruna frá Haarlem.

Alsírski Murat var af svipuðum uppruna, til eru heimildir í Alsír um að hann hafi verið kallaðu Murat Flamenco eða Flemming, hans heimaslóðir voru í nágrenni Antwerpen. Sennilega hafa báðir Muratarnir verið undir sömu sök seldir og Jón Vestmann, þeim hafi verið rænt og seldir í þrældóm.

Þó svo að sjóræningjaskipstjórar kæmust í góð efni eftir að hafa snúist til Íslam þá var ekki svo auðvelt að snúa aftur heim, þó svo að hugur og fjárráð stæðu til þess. Til eru heimildir um að sjóræningjaskipstjórar hafi reynt að kaupa sig heim fyrir stórfé og reynt að ná samningum við yfirvöld í heimalöndunum.

Það kemur fram í sögu Jóns Vestmann, að eftir hann kom til Danmerkur lenti hann í vanda þegar upp komst að hann var umskorinn að hætti Múslima. Var farið fram á um tíma að honum yrði hengt stranglega, jafnvel með lífláti. En Jón komst í gegnum þau mál með lipurð og var aftur tekinn í Kristinna manna tölu.

tyrkjarani

Svo segir frá aðförum Tyrkja við mannránin í Eyjum. -Meðal þeirra voru hjónin Jón Jónsson og Oddný Þorsteinsdóttir. Víkingarnir fundu þau með barn sitt eitt skammt frá bæ, og varð þar hörð viðureign, en ekki löng. Hjuggu þeir höfuðið af Jóni bónda, en misþrymdu konunni, slitu af henni hár og fatnað og drógu hana síðan nær dauða en lífi niður í kaupstaðinn

Heimildir:

Saga Vestmanneyja

Tyrkjaránssaga

Tyrkjaránið / Jón Helgason

Undir Tyrkjans sverði / Jón Gíslason

Karl Smári Hreinsson

Adam Nichols

Wikipedia


Gjörningaveður Galdra-Villa

Á síðasta ári kom út bókin Þrútið var loft og þungur sjór. Þar tekur Steinar J Lúðvíksson saman frásagnir af skipsbrotsmönnum hringinn í kringum landið. Sögurnar eru magnaðar og lýsandi fyrir hvað hetjur hafsins máttu þola á árum áður, margar þeirra eru frá því seint á 19. öldinni.

Ein sagan segir frá gjörningaverðri í Hrísey árið 1884 þegar norskur síldveiðifloti frá Haugasundi lá þar inni í september byrjun. Sagan hefst á því að segja frá Villa sem fæddist í Svartárkoti í Bárðardal. Hann var sagður hraustmenni strax um tvítugt, en sá ljóður á að vera ölhneigður og hafa þá hamskipti, þá látið hendur skipta, og verið bæði gífuryrtur og kynngimagnaður.

Í þessari landlegu norska síldarflotans lenti Villi í slagsmálum, þar sem margir Norðmenn veittust að honum, höfðu hann undir og gengu í skrokk á honum. Þar bar að skipstjóra sem fékk landa sína til að sleppa honum, eftir að þeir höfðu farið fram á að hann ábyrgðist að Villi léti þá í friði eftirleiðis.

Þegar Villi slapp sendi hann Norðmönnunum tóninn. Blóðugur og ægilegur ásýndum þuldi hann þeim bölbænir, og sagði að andskotinn brjálaði og bryti allan þeirra flota innan sólahrings. Sá sem hafði bjargað honum spurði hann þá hvort þetta ætti einnig við um sitt skip; -nei vinur þitt skip verður eftir, svaraði Villi.

Næsta dag þann 11. september brast á eins og hendi væri veifað gjörningaveður upp úr blíða logni. Þess er skemmst að geta að Norðmenn misstu 15 skip alveg, auk þriggja íslenskra kúttera sem þeir voru með á leigu, og fjöldi annarra skipa þeirra laskaðist illa.

Frá þessu veðri og skipssköðum segir skilmerkilega í Þrútið var loft og þungur sjór, og er þar m.a. stuðst við skýrslu Júlíusar Havsteen konsúls á Akureyri, en hann skráði tjón og aðstoðaði vegalausa Norðmenn. Því sem næst kraftaverk þótti að ekki skyldu farast nema þrír Norðmenn í þessu hamfaraveðri sem að mestu var bundið við Hrísey.

Sagt var að eftir að veðrið gekk niður hafi Norðmennirnir leitað að Galdra-Villa um Hrísey til að drepa hann. Hann hefði verið falinn og forðað í land. En norsku síldveiðimennirnir hér við land voru ekki sloppnir undan álögum illviðra. Því þegar þeir héldu heim seinna um haustið á þeim skipum sem eftir voru, gekk heimferðin ekki áfallalaust. Hvert óveðrið rak annað, lenti floti Norðmanna í hrakningum og segir m.a. svo frá:

-Ein hrakningasaga skipanna sem voru á útleið er einstök. 24. október lagði þilskipið Anna sem var 63 tonna jakt af stað frá Mjóafirði. Sex manna áhöfn var á skipinu. Tveim dögum eftir brottförina skall á hið mikla óveður. Þá voru öll segl felld á Önnu nema stagfokkan og klýfir. Voru tveir menn að hagræða seglunum þegar brot kom á skipið. Féll annar þeirra útbyrðis og drukknaði. Nokkru síðar fór klýfirinn og þegar var verið að reyna að koma upp segli í hans stað reið stórsjór yfir skipið og hreif með sér fjóra skipverja sem drukknuðu.

Þá var aðeins einn maður eftir á skipinu. Hann hét Johannes Olsen Blede, 17 ára kokkur frá Harðangri. Næstu dagana hafðist hann við í káetunni meðan skipið rak stjórnlaust undan sjó og vindi. Öðru hvoru fór hann upp og dældi sjó úr skipinu. Nægan mat hafði hann en gat hins vegar ekki kveikt upp þar sem allar eldspítur skipsins voru ónýtar af bleytu. Þegar mesti  ofsinn var úr veðrinu tókst piltinum að laga kompásinn og eftir það stýrði hann skipinu í austur. Öll segl voru farin veg allrar veraldar en Johannes fann yfirbreiðslu í skipinu og tókst að tjalda henni í segla stað.

Liðu svo dagar. Hinn 16. nóvember hafði pilturinn loks landsýn. Bar skipið upp að skerjóttri strönd þar sem brim svarraði og landtaka virtist með öllu vonlaus. Tókst Johannes að hagræða segldruslunum þannig að skipið tók stefnu frá landi. Var hann að niðurlotum kominn og svefnlaus. Tók hann það til bragðs að fara niður í káetuna og leggja sig en sagði síðar svo frá að hann hefði þar með gefið sig Guði á vald. Næsta morgunn hrökk hann upp við það að skipið kenndi grunns. Þaut hann upp á þilfar og sá að skipið var komið í gegnum brimgarðinn og lá við klettahlein. Fór hann niður í káetu og sótti þangað peninga en kom síðan upp aftur og tókst að stökkva í land. Þegar birti sá Johannes hús í nágrenninu og hélt þangað. Reyndist hann kominn í Viknaeyja í Namdal. Þegar skipsins var vitjað reyndist það hafa kvikað frá aftur, lent á skerjum og mölbrotnað. Þolgæði drengsins þótti einstakt og björgun hans kraftaverki líkust. "þetta er sennilega merkilegasta Íslandsferð sem kunn er á síðari tímum", -sagði blað í Haugasundi sem greindi frá hrakningum piltsins sem stóð í 21 dag.

Galdra-Villi flutti í Svarfaðardal stuttu eftir gjörningaveðrið í Hrísey náði þar í góða konu, sem tók hann að sér, og bjó lengst af eftir það ásamt henni í dalnum. Efnabændur reyndu í fyrstu allt til að koma Galdra-Villa í burtu, enda vandaði hann þeim ekki kveðjurnar ef svo bar undir. Allt kom fyrir ekki, og frá miðjum aldri hafði Villi ábúð á Bakka ævina til enda, á einni bestu og þekktustu jörðinni í dalnum, -já einmitt þeim Bakka sem þeir bræður Gísli, Eiríkur og Helgi voru við kenndir.

En hver var Galdra-Villi? -Hann var alin upp á hrakningi af einstæðri móður í misjöfnum vistum. Í tímaritinu Saga kemur fram í grein Sigurjóns Sigtryggssonar um Gjörningaveðrið, sem stundum var kallað Norðmannabylurinn, að Galdra-Villi hafi heitið Sigfús Vilhjálmur Einarsson (1863-1933). Þar segir m.a.; -ekki naut Vilhjálmur skólagöngu í æsku, en fór snemma að vinna fyrir sér. Hann var löngum lausamaður og vann þá ýmis störf til sjávar og sveita. Hann varð fljótt þekktur að ríkum geðbrigðum og þótti þá ekki alltaf aldæla. Því verður ekki lýst betur en með orðum vinar hans, Björns R. Árnasonar:

"Snemma munu hafa gert vart við sig sterkar og miklar geðshræringar hjá Vilhjálmi, og var hann um það nokkuð sérstæður, enda oft og víða á orði haft. Varð hann allmikill drykkjumaður um öndverða ævi sína, sem auðvitað jók örlyndi hans og geðhita. Voru í því ástandi orð hans einatt fullstöfuð, og þótti sumum sem kynngi eða dulmagn fylgdi, og kom þar, að hann var nefndur "Galdra-Villi". Átti hann heldur hreðusamt við svallbræður sína á þeim árum, og þótti ýmsum sýnt að það myndi eigi vinnast honum til gæfu eða góðs þokka meðal almennings. - Þó er það víst, að til voru þeir menn, er hann batt vinfengi við, sem entust alla stund, á meðan hann og þeir lifðu. Enda gerðist Vilhjálmur snemma mikill drengur í raun, trúr í þjónustu og hvergi brigðmáll eða auðvirðismaður."

Nokkru áður en Vilhjálmur og kona hans Kristín fluttust að Bakka hafði Vilhjálmur slitið vinfengi sínu við Bakkus. Kom þá æ betur í ljós, hverra mannkosta hann var. Studdur þreki og hæglæti Kristínar, sem sjaldan eða aldrei brá jafnlyndi sínu og svignaði hvorki né æðraðist, þótt stormar hefðu farið um huga manns hennar, hófst hann til vaxandi álits í héraði og naut trausts og trúnaðar sveitunga sinna.

Vilhjálmur Einarsson smækkaði sig aldrei með því að ráðast á garðinn sem honum sýndist lágur. það kom vel í ljós við þá sem halloka fóru í lífsins ólgusjó. Einnig varð þeim hjónum einstaklega vel til hjúa, því að í vistinni fylgdi glaðværð og tifbreytni í kaupbæti, jafnframt sem sum, er lengi voru hjá þeim, voru leyst út með gjöfum, sem um munaði, þegar þau hófu sjálf búskap. Kom þar fram einn þáttur örlyndisins, -höfðingslundin. 

-Sigrún Magnúsdóttir fyrv. Alþingismaður og ráðherra gerði þessum afa sínum skil í erindi hjá Ættfræðifélaginu og sagði þá m.a.: -Galdra-Villi hét fullu nafni Sigfús Vilhjálmur Einarsson og varð merkisbóndi í Svarfaðardal. Hann var mikill frumkvöðull og framkvæmdamaður í landbúnaði og búvélahönnun. Það má segja að hann hafi verið stórtækur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Undir hrjúfu yfirbragðinu sló milt hjarta gagnvart þeim sem minna máttu sín í samfélaginu, en yfirgang stórbokka þoldi hann illa. Hann taldi mjög mikilvægt að sinna vel ungmennum og mætti gjarnan á samkomur og skemmtanir þeirra. Meðan hann gerði út frá Dalvík hélt hann ávallt skemmtanir í lokin og gerði vel við hjú sín þar sem og í sveitinni. Vilhjálmur eignaðist einstaka konu, ljúfa, vinnusama og geðgóða, Kristínu Jónsdóttur frá Jarðbrú. Átti hún vafalítið stóran þátt í myndarskapnum á Bakka þó að Vilhjálmur fái oftast heiðurinn. Saman hlúðu þau að sínu búi og þeim sem urðu úti á berangri lífsins eins og Jóhanni bera, umrenningi, en hann var síðustu ár sín á Bakka.”

Eftir þetta óveðrasama haust lagðist nánast af að Norðmenn kæmu með skipaflota að sumarlagi yfir hafið til síldveiða við Ísland, og þeir fáu sem það gerðu áfram höfðu sig heim áður en haustaði.

 

Heimildir.

Þrútið var loft og þungur sjór

Saga – 1 tbl 1982

Píslarsaga Jóhanns bera


Dulsýnir

Við Fjörð í Seyðisfirði fannst sumarið 2021 kumlateygur með bátskumli, -sumarið eftir þrír víkingaskálar, sá elsti frá því um lok landnámsaldar, allt vel varðveitt undir skriðu sem féll á 10. öld. Þessi fornleifafundur staðfestir hve Íslendingasögur, þjóðsögur og munnmæli geta farið með nákvæmt mál.

Mér áskotnaðist bókin Dulsýnir fyrir skemmstu, þar sem Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari segir frá persónulegri reynslu sinni í því efni. Bókin eru tvö hefti í einu bandi og merkileg að því leiti að þessar sagnir eru ekki í þjóðsaganafni hans, sem telur 12 bindi, -og því fágætur fróðleikur.

Þjóðsögur og sagnaþættir eru ritaðar heimildir sem gefa færi á að ferðast aftur í tímann. En samt er því þannig farið, að ef þannig heimildir eru ekki studdar opinberum gögnum eru þær taldar óstaðfestar flökkusögur eða jafnvel hindurvitni.

Hér á þessari síðu hefur ótæpilega veri vitnað í Íslending- og þjóðsögur sem haldgóðar heimildir. Og virðist nú vera að fornleifauppgreftir staðfesti hvað eftir annað þær sem heimildir. Má nefna að bæði á Stöð í Stöðvarfirði og í Firði á Seyðisfirði hafa fundist einhverjir ríkulegustu uppgreftir á hér á landi.

Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari safnaði aragrúa flökkusagna, munnmæla sem hann setti í samhengi í sögum sínum. Því hefur oft verið haldið fram að það hafi ekki verið til þau hindurvitni sem ekki var hægt að ljúga að honum og hann skráði ekki í þjóðsagnasafn sitt.

Reyndar orðaði Sigfús það oftar þannig að hann ástundaði þjóðfræði frekar en þjóðsagnasöfnun, og er safn hans einstakt að því leiti að hann safnaði sínum sögum á mjög svo persónulegan hátt, að líkja má við ímyndanir og notaðist þá m.a. við Íslendingasögurnar til innsæis, -og eru fræði hans því stundum dæmd eftir því.

Í landnámu segir svo um Landnám Seyðisfjarðar.

Loðmundur hinn gamli hét maður, en annar Bjólfur, fóstbróðir hans; þeir fóru til Íslands af Vors af Þulunesi. Loðmundur var rammaukinn mjög og fjölkunnugur. Hann skaut fyrir borð öndvegissúlum sínum í hafi og kvaðst þar byggja skyldu, sem þær ræki á land. En þeir fóstbræður tóku Austfjörðu, og nam (Loðmundur) Loðmundarfjörð og bjó þar þennan vetur.

Bjólfur fóstbróðir Loðmundar nam Seyðisfjörð allan og bjó þar alla ævi; hann gaf Helgu dóttur sína Áni hinum ramma, og fylgdi henni heiman öll hin nyrðri strönd Seyðisfjarðar til Vestdalsár. Ísólfur hét sonur Bjólfs, er þar bjó síðan og Seyðfirðingar eru frá komnir. (Landnámabók-Sturlubók)

Ekki getur Landnáma né þekktar Íslendinga sögur þess hvar í Seyðisfirði Bjólfur bjó. Sigfús safnaði á sinni ævi miklu af munnmælum um landnám á Austurlandi, og hafði þessi munnmæli Þjóðsagnasafni sínu. Þessi munnmæli frá Seyðisfirði eru í VI bindi segir m.a.svo; Frá Seyðfirðingum.

Bjólfur er heygður í fjallsbrúninni sunnan í tindinum (Bjólfi), upp af Firði, beint á móti Sölva (Ísólfi) í Sölvabotnum, hinumegin sveitarinnar. Það eigi meira en hitt að varna því að hlaupið geti á Fjörð eða ræningjar ræni Seyðisfjörð, sem þeir gera aldrei á meðan haugar þeirra eru órofnir.

Ýmsir af frændum, vinum og venslamönnum Bjólfs byggðu suðurströnd Seyðisfjarðar og bæi þá sem síðan eru við þá kenndir. Hánefur byggði Hánefsstaði og Sörli bróðir hans Sörlastaði. Kolur byggði Kolstaði og Selur segja menn vera bróðir hans og byggði Selstaði. (En aðrir menn segja að sú jörð dragi nafn af því að hún væri selstöð).

Sigfús gefur talsverðar upplýsingar um uppruna Seyðfirðinga í þjóðsagana safni sínu og kemur þar fram að Seyðisfjörður byggðist seint á landnámsöld.

Eins eru það munnmæli að til hafi verið til forna þáttur af Seyðfirðingum sem nú er tapaður eins og margar aðrar sögur. Hafa reyndar sögur þær er hér ræðir um á undan verið ritaðar í seinni tíð eftir örnefnasögum og öðrum munnmælum.” Síðan er haldið áfram að skýra örnefni með munnmælum sem þeim fylgja.

Sú sögn fylgir munnmælum þessum að fjörðurinn byggðist seinna en Héraðið og sveitirnar í kring og fyndi smali nokkur þar marga sauði útigengna og héti fjörðurinn því Sauðafjörður. Og enn er sagt að þar áður seiðmenn (sjá Loðmundar þátt). Þriðju segja nafnið dregið af seiðum. (Þjóðs SS VI bindi)

Munnmæli þjóðsagna virðist fornleifauppgröfturinn í Firði á Seyðisfirði nú staðfesta.

Sigfús er einnig með þátt af Loðmundi í safni sínu, sem hvergi er annarstaðlar að finna, þar er eftirfarandi um nafn Seyðisfjarðar.

Eyvindur hét maður er út hafði komið með Brynjólfi hinum gamla er nam Fljótsdal. Hann var óeirinn og göldróttur mjög. Er við hann kenndur Eyvindardalur því þar hafðist hann við. En síðan flutti hann í Seyðisfjörð og voru þeir átján saman, allir fjölkunnugir og seiðmenn miklir. En er Bjólfur nam fjörðinn færðu þeir byggð sína í Mjóafjörð og námu hann; bjó Eyvindur síðan í Firði (Mjóafirði) fyrir innan fjaðrabotn. Þeir fóstbræður (Bjólfur og Loðmundur) nefndu fjörðinn eftir þeim Eyvindi og heitir hann því Seyðisfjörður. (Þjóðs SS VI bindi)

Sigfús safnaði örnefna- og munnmælasögum á Seyðisfirði árum saman, enda dvaldi hann þar langdvölum þegar hann setti saman sitt þjóðsaganasafn, sem er einstakt á íslenska vísu að því leiti að hann lifði sig inn í staðhætti og munnmæli með því að dvelja þar sem hann safnaði sögum.

Sigfús segir munnmælin segja að til hafi verið ritaður sagna þáttur af Seyðfirðingum sem tapast hafi. Eins er ekki er ólíklegt að munnmælin hafi að einhverju leiti geymt þær Íslendingasögur sem hægt væri að staðfesta sem haldgóðar heimildir með seinni tíma rannsóknum.

Vitað er að til var í handriti Íslendingasaga fram á 19. öld sem kallaðist Jökuldæla og má ætla að í fornaldar þjóðsögum Sigfúsar sé mikið af munnmælum ættuðum úr þeirri glötuðu bók. Síðustu síðurnar af Jökuldælu eru sagðar hafa glatast í höfninni í Glasgow á tímum Vesturfaranna.

Þegar ég las Dulsýnir Sigfúsar áttaði ég mig betur á því hvernig var umhorfs í mínu nánasta umhverfi fyrir u.þ.b. einni öld síðan. Fyrir utan eldhúsgluggann sé ég niður á Eyvindarána sem kemur niður á Egilsstaðanesið ofan úr Eyvindarárdal (áður Eyvindardal) en þann dal sé ég út um stofugluggann. Ég sé einnig til Uppsala og leiðina yfir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar út um gluggana.

Bær Gróu á Eyvindará stóð í túninu á hinum bakkanum. Hún var frænku þeirra Droplaugarsona, sú sem lét sækja þá bræður Helga og Grím í valinn upp á Eyvindardal þar sem þeir voru vegnir ásamt fleirum í bardaga við Kálfshól. Um lágnættið eftir að þeir voru sóttir, fór hún yfir þar sem Egilsstaðanesið er nú og vestur fyrir fljót, þar sem Lagarfljótsbrúin er nú, til Álfgerðar læknis á Ekkjufelli, þar sem golfvöllurinn í Fellabæ er nú, -þegar í ljós koma að lífsmark var með Grími. Þetta sögusvið sé ég allt saman rétt fyrir utan eldhúsgluggann.

Í Dulsýnum segir Sigfús frá því þegar hann lá þungt haldin og hálfrænulaus af veikindum uppi á lofti í nýju baðstofunni á Eyvindará, en þar var hann til heimilis um tíma. Þegar hann var kominn á bataveg og hafði fengið rænu þá dreymir hann að hann eigi orðastað við mann um norrænuna og hvort hún sé töluð eins og í fornöld. Sigfús þóttist vita betur og tók dæmi:

Ég þekki þá vel vísu úr Hávamálum í Eddu til að reyna að bera fram, sem næst því, er ég þóttist ímynda mér, að fornmenn hefðu gert. Svo byrja ég hikandi.

Ósnotr maðr

hyggr sér alla vera

viðhlæjendr vini

þá þat hann finnr

er at þingi kömr

at hann á formælendr fáa

Mér flaug í hug, að hefðu nú fornmenn frá sögu öldinni heyrt til mín, þá hefði þeim þótt ærið ábótavant, sem von var. En í sama bili kemur upp á loftið ókennd kona. En hún sjálf dró alla athygli mína að sér.

Hún var lítil vexti, en mikilúðleg og höfðingleg; og fríðleikur hennar og vaxtarfegurð hreif mig, þegar hún gekk inn gólfið með tignarsvip og góðvild-blandið vandlætingarbros á ásýndinni. Ég vissi undir eins, að þetta var ríka Gróa, sem kölluð var, föður- eða móðir-systir Droplaugarsona, sem sögur þeirra segja frá.

Ég þóttist sjá, að hún væri komin til þess að gefa mér vingjarnlegar, en minnisstæða áminningu, þarfa bendingu um það, að þótt mér tækist furðanlega, mætti ég eigi ætla mér þá dul að gera það óaðfinnanlega.

Hún kvað nú vísuna inn gólfið nokkuð öðruvísi, en ég hafði heyrt áður gert, en þó svo, að ég skildi hvert orð. En eigi treysti ég mér til að ná henni að hljóði, svo nærri lagi verði.

Það helsta sem ég man af afbrigðunum var það, að hún kvað þannig að: Þá þat finnr, er at þingi komr, at hann á formælendr fá-a. Enda atkvæðið fannst mér alltaf sem slitnaði frá. Síðan leit hún við mér aðvarandi og hvarf.

Þegar ég athugaði lýsinguna í sögunum á Gróu á eftir, sá ég, að henni bar saman við það, sem mér sýndist. Og af því margt bendir á, að andar geti vitrast mönnum, væri eigi óhugsandi, að hún hefði birst mér þarna í eigin mynd. (Dulsýnir bls 57)

Gróu á Eyvindará er svo getið í Austfirðingasögum.

Þess er getið eitt sumar að skip kom af hafi í Reyðarfjörð. Kona ein réð fyrir skipinu sú er Gróa hét. Hún var systir Droplaugar, mjög rík að fé. Fór hún af því út hingað að bóndi hennar hafði andast og þá seldi hún lendur sínar og keypti skip og ætlaði að finna móður sína. Droplaug ríður til skips og býður systur sinni til sín og það þiggur hún. Og þennan vetur er Gróa er þar voru sveinarnir Helgi og Grímur heima og var Gróa vel til þeirra. Ástúðugt var með þessum frændum. Fundu menn það að hvorri þeirra systra var yndi að annarri. (Fljótsdæla saga)

Gróa á Eyvindará er sögð í Droplaugarsonasögu systir Þorvaldar Þiðrandasonar, en í Fljótsdælasögu systir Droplaugar konu hans og kemur óvænt á skipi sínu til Íslands, þá á besta aldri búin að missa mann sinn og kaupir Eyvindará að undirlægi Droplaugar systur sinnar samkvæmt Fljótsdælasögu, rífur skip sitt og notar í húsviði á Eyvindará.

Hún var kvenna minnst en afbragðlega sjáleg, greyp í skapi og skörungur mikill og forvitra. Svo mikill fégróður hljóp að Gróu að Eyvindará að nálega þóttu tvö höfuð á hverju kvikindi. Menn fóru úr ýmsum héruðum og báðu Gróu og hnekkti hún öllum frá og kvaðst svo misst hafa bónda síns að hún ætlaði öngvan mann að eiga síðan. (Fljótsdæla saga)

Það sem er svo heillandi við svona skrif eins og koma fram í Íslendingasögum, þjóðsögum og sagnaþáttum, á við Dulsýnir, er ekki bara hvernig er hægt að ferðast um tímann í gegnum þannig skrif, heldur ekki síður hvernig þjóðsögurnar raungerst sem staðreyndir. Það er nefnilega staðreynd að eftir að rafmagnið kom til með upplýsingu sína þá hvarf nútímamönnum heill heimur af öndum, draugum og álfum.

 

Fjær- og gegn-sýn (sögn úr Dulsýnum Sigfúsar sem lýsir hvernig var umhorfs fyrir utan gluggann minn fyrir 130 árum síðan)

Þá kemur að því einkennilegasta sem fyrir mig hefur borið.

Sem áður er sagt, var ég hér og þar í kaupavinnu sumarið sem ég kom norðan frá Möðruvöllum. En um veturinn var ég húskennari Bjarna Siggeirssonar á Fjarðaröldu, er þá stýrði norsku versluninni, Jóhansens. Sumarið eftir var ég kaupamaður hjá Páli skáldi Ólafssyni að Hallfreðarstöðum. 1893 fékk ég heimili að Eyvindará í Eiðaþinghá og hafði það þar síðan nokkur ár, en stundaði þar kennslu á vetrum og þjóðfræðasöfnun, en var í kaupavinnu þess á milli.

Vegghleðslur, jarðarbætur, heyvinna, einkum teigslættir, voru aðal störf mín.

Það var fyrsta eða annan vetur minn að Eyvindará, að Þorvaldur Jónsson, bræðrungur Eyjólfs bankastjóra og Stefáns konsúls Th, á Seyðisfirði, fékk mig til að segja til börnum sínum, Sigríði og Jóni. Þorvaldur bjó að Uppsölum ofar frá Eyvindará, og byggt upphaflega úr aðaljörðinni. Stefanía hét kona hans og var af Hellisfjarðarætt, ættingi minn og margra Austfirðinga.

Þorvaldur var dugnaðar- og myndarmaður mikill og búmaður. Hann byggði nýja baðstofu á Uppsölum, tvö stafgólf undir porti og sneri frá norðvestri til suðausturs. Sitt rúm var á hverju gólfi við vesturhlið, og sinn gluggi yfir hvoru, vel stórir.

Svaf húsfreyja í norðara rúminu. En í rúminu fyrir aftan það svaf vinnukonan, Sesselja Stefánsdóttir (frá Strönd) og Sigríður dóttir hjónanna. Við norðurgaflinn á móti rúmi húsfreyju svaf bóndi og ég hjá honum. Þar aftan við í austurhorninu var uppgangan í loftið. Var baðstofa þessi bjart og snoturt hús og þægileg heimkynni fyrir þær 6 persónur er hér voru nú. Borð var við stafninn á milli hjónarúmanna og tók nærri breiddina.

Eftir að ég hætti kennslu, var fátt að skemmta sér við. Engar nýjar bækur og rými lítið. Notaði ég þá tímann til að ná mér í sagnir og sögur. Gat ég fengið útileguævintýri hjá Þorvaldi, og undi mér vel við það.

Eitt kveld er og verður mér svo minnisstætt, að ég gleymi því aldrei, svo var það fagurt. Himininn heiður og blár, svo hvergi sá ský, þéttstirni og tungl í fyllingu á suðvesturlofti. Himinhvelfingin var þá dýrleg sjón, svo fegurri getur ei, það var bjart sem um hádag, þegar búið var að slökkva ljósið.

Mér vildi það til þetta kvöld, að ég sofnaði út frá útilegumannasögu, er bóndi sagði mér. En það bar sjaldan til. En ekki er ég fyrr sofnaður, en maður sá að Selstöðum í Seyðisfirði, er ég gat um áður, að mislíkaði við mig, og ég vissi að ól þykkju til mín, snaraðist upp á loftið og að rúminu.

Hann var með heiftarsvip, og gerði sig líklegan til að ráða á mig og segir um leið og hann hrifsar til mín: “Nú skal ég launa þér lambið gráa”! Ég þóttist slá af mér handbragð hans og segja: “Hví lætur þú svona maður? Láttu okkur vera sátta”! Viltu ekki heldur eiga gott við mig en illt?”

Engu þótti mér hann svara þessu, heldur búast til nýrrar árásar. Bjóst ég því einnig til varnar og þykist segja: “Það er vísast, að fari eins og fyrr, að þú ábatist lítið á því að kjósa alltaf að eiga við mig illt eitt”. Brá mér þá hart við og vaknaði og þóttist sjá á eftir manninum ofan, þegar hann hrökk frá mér. En það áleit ég eðlilega afleiðingu draumsins.

Nú var talsverð geðsóró í mér. Vissi ég það fyrir víst, að ég mundi eigi sofna fyrri hluta nætur. Ég gerði það aldrei, ef ég vaknaði hvatskeytlega nýsofnaður. Ég varð hálfleiður yfir því að þurfa nú að vaka. En það var þó bót í máli, að bjart var í baðstofunni, sem um hádag, því tunglið skein beint á gluggann og stjörnurnar margar. Ég hugsaði þá með mér: það er annars ómögulegt að láta sér leiðast svona dásamlega nótt. Þessi birta og kyrrð fyllti hugann friði og ánægju.

Fer ég þá að skemmta mér við, að horfa út um gluggann og íhuga það, sem þar var að sjá. En þá bregður undarlega við, því allt í einu finnst mér helst, sem öllu þakinu sé flett af baðstofunni, og ég sé nú himinhvelfinguna jafnvel yfir mér, sem út um gluggann.

Mér varð kynlega við og datt í hug, að ég væri að verða truflaður. Barði ég hnefanum upp í súðina yfir mér til að reyna að reka þessa vitleysu úr hugsun minni. En þessi undarlega sýn hvarf eigi að heldur, heldur ágerðist nú að því leyti, að sjónhringur minn víkkaði, og ég fór að sjá langar leiðir í brott.

“Ég er þó eins vakandi og ég get orðið”, hugsa ég. En eitthvað var ég nú líkur því, sem ég var, þegar ég sá hana Grýlu, sem sagt var frá áður. (Dulsýnarsaga af týndri meri í Loðmundarfirði, sem mikið var búið að leita að og Sigfús sá fyrir sér hvar væri þegar hann var spurður)

Nú þóttist ég sjá norður í Þingeyjarsýslur. En það man ég, að sjónin smá óglöggvaðist eftir því sem fjarlægðin óx. Í Vopnafirði sá ég það, sem ég vissi, að var, og ennfremur það, sem ég vissi eigi, hvort var rétt séð. Út að Héraðsflóa og ofan um Austfjörðu alt í Norðfjörð þóttist ég sjá. Sumt vissi ég, að var rétt séð. Annað gat ég ekki vitað um. Mér varð starsýnt um Seyðisfjörð, en man eigi eftir að ég þættist sjá þar annað en það, sem vissi, að var rétt.

Þá hvarflaði hugskotssjón mín upp á Fjarðarheiði. Sé ég þá, hvar norður þjóðveginn, á svonefndu Kötluhrauni á miðri heiðinni, kemur vera í kvenmannsmynd vel meðalstærðar. Hún var klædd karlmannsslopp yst fata, og var eigi í hægri ermi, svo hún flaksaði. Ég tók strax eftir því, að hún bar eigi til fætur, heldur leið áfram jöfnum hraða og bar undrafljótt áfram sem þokukúfur færi.

“Hvað ætli þetta sé”, hugsa ég. Þá finnst mér helst, sem hvíslað sé að mér alvarlega: “Þarna kemur það sem þér var heitið”. Hvað var þetta? Var það þetta, sem átti að launa lambið gráa? Það fór hrollkaldur geigur um mig. Þetta átti þá að hefna. Það var eigi sem viðfelldnast að eiga að fást við svona fyrir þann, sem lítið vissi og fátt kunni í fornum fræðum.

Mér varð eigi vel við. En þá er eins og fögur og blíð rödd hvísli að mér: “Það getur ekki verið ofurefli þitt að fást við það, sem hann hefir getað ráðið yfir!” Jafnamt þessu fannst mér leggja um mig eins og hlýjan andblæ og unaðsblandið aðstreymi, er ég fæ eigi lýst. Þetta allt hafði þau áhrif, að ég fylltist óbiluðu hugrekki, að ég hefi aldrei eignast slíka sigurvissu í nokkrum vandræðum. Ég fann það nú, að það studdi mig einhver góður og styrkti.

Það var nú aðeins leikur fyrir mig að taka á móti sendingunni, sem var á leiðinni til mín. Ég sá henni miða fljótt yfir heiðina, af veginum austan við norðurbrúnina, ofan fjallið, yfir Uppsaladal svo nefndan, og heim á hlaðið. Heyrði jafnframt því, sem ég sé, að hún lýkur upp bæjarhurðinni, og svo skellur hurðin í göngunum. Svo kemur hún upp og inn að borðinu, snýr sér þegar að mér og glottir háðslega við mér.

Það glott er mér all-minnistætt. Ég var undir það búin að stökkva ofan á gólfið, ef þyrfti. Ég hvessti á hana augun og spurði: “Hver ertu?” Ekkert svar “Hvert ætlarðu?” Steinhljóð. Þagði ég þá í nokkur augnablik og var að hugsa um, hvort ég ætti að tala til húsfreyju, er ég vissi að var vakandi. En ég sló því af. Lét ég hverja spurninguna fara af annarri, en allt til einskis.

Svo fór ég að særa hana og mana. En það hafði sama að segja. Loks bjóst ég til að stökkva ofan og beita handalögmáli, og segi um leið heldur harkalega. “Ef þú ert komin að finna mig, verðurðu að þora að mæla”. Enn, er ekkert svar kom, segi ég: “Farðu til andskotans!” Þú ert dáðlaus, hvort sem er”. Við þetta orð brá henni svo, að hún hljóp fram gólfið og ofan, og hefi ég eigi séð hana síðan.

Nú var öll gegnsýni horfin mér. Fór ég þá að athuga alt, sem fyrir mig hafði borðið. “Ætli öll fjærsýnin og heyrnin og áhrifin hafi verið draumkennd sýn?” hugsa ég. “Það eitt aðeins veruleiki, að þessi vera kom hér inn. “Og hvaða kvenvera ætli það hafi verið?” þannig hugsaði ég.

Ég ávarpa húsfreyjuna og segi: “Hvaða mannvera var þetta, sem kom hér inn?” – “Maður?” tók hún upp. “Heldur þú að þetta hafi verið maður? Nei það þetta var enginn maður; það var allt annað”. “Þú hefur séð það sem inn kom”, sagði ég. “Já ég held nú það. Það má sjá minna grand í mat sínum. Ég sá hana, þegar hún kom upp og allan þann tíma, sem hún var hérna á milli okkar”.

Lét ég Stefaníu lýsa henni fyrir mér, og munaði lýsing hennar í engu, frá því er mér hafði sýnst. Hafði Stefaníu liðið mjög illa, meðan á þessu stóð. Við töluðum um þetta um morguninn. Sagðist þá Sesselía, vinnukonan, hafa vaknað við seinustu orðin, er ég hafði sagt, og séð veruna, þegar hún fór fram gólfið og ofan.

Hvað var nú þetta? – Við sáum það þrjú. Mér kom í hug að fá þær konurnar til að þegja yfir þessu, og halda því leyndu, en það fórst fyrir, og ávæningur komst þegar á loft um atburðinn. Þó hefi ég helst eigi viljað segja söguna nema þeim einum, er færu skynsamlega með hana.

Nú eru Uppsalahjónin dáin fyrir nokkru. En börn þeirra eru bæði á lífi. Þau sváfu þegar þetta skeði. Sesselía hefir verið til þessa vinnukona á Völlum. Og margir munu muna það, að þeir heyrðu það helsta af þessu, þegar það gerðist. Síðan þetta kom fyrir mig, heyrði ég fátt það sagt af þessu tagi, er ég get eigi trúað, að hafi gerst. Það má hver maður lá mér, sem vill.

Maðurinn sem mig dreymdi hefur verið á lífi til skamms tíma. Ef ég reyndi að skýra þennan  viðburð fyrir mér, vil ég helst hugsa, að maðurinn hafi verið ertur upp á mér daginn áður og æstur. Hin sterka hugsun hans hafi svo kallað fram með vilja eða án vitundar, einhverja dulda og eigi góða veru og stefnt að mér.

En góðar verur, sem oss munu nærstæðar og hjálpfúsar, þegar vér viljum og ástundum gott, hafa aðvarað mig og veitt mér styrk með hugskeytum, og síðan búið mig undir með fjarsýninni, svo mér yrði sigurinn vís.

Hefði þessi atburður eigi komið fyrir mig og verið skorað á mig að birta hann, þá hefði ég aldrei ritað þennan þátt, sem ég hef nú byrjað á.


Brýrnar breyttu öllu

Nýja brúin yfir Ölfusá

Með söknuði kvaddi ég Ísland, sem ég fæ aldrei framar að sjá. Ég verð að viðurkenna, að á þessum fáu vikum, sem ég var þar, varð land og þjóð mér innilega kært.

Ísland er algjör andstæða hinna suðrænu landa. En hin dásamlega tign fjallanna og hin þögla náttúrufegurð hlýtur ósjálfrátt að hrífa huga manns.

Aðdáunarverð er sú þjóð, sem hefur barist við slíka örðugleika og sýnt kjark sem Íslendingar. Þeir geima enn helgar minningar fortíðarinnar af slíkri tryggð, að bröltið og bramlið í Evrópu hefur ekki spillt þeim.

Og í baráttu fyrir frelsi og sjálfstæði hafa fáar þjóðir sýnt jafn mikla þrautseigju og þolgæði. Þjóðmenning þeirra byggist á erfðavenjum og þeir hafa ekki látið glepjast af gyllingu yfirborðsmennsku nútímans.

Og þó nokkrir Íslendingar komist í kynni við hámenninguna, þá býr þeim jafnan heimþrá í brjósti. Og það er eitthvað stórfellt og göfugt við þessa ást til hins fornfræga Sögulands. (Ísl sagnaþættir III bls bls 142)

Þetta skrifaði Alexander Baumgartner í ferðasögu sinni árið 1883, þegar hann fór með strandferðaskipi norður um land til Austfjarða. Hann hafði ákveðið að ferðast um landið á sjó með ströndum frekar en á landi. Strandferðaskipið, sem hann kallar "Thyra", stoppaði í fjölda hafna á leiðinni frá Reykjavík til Eskifjarðar og gerir hann þar upplifun sinni skil í ferðasögu sinni.

Það kemur fram m.a. að Alexander telur sig heppinn að hafa tekið þessa ákvörðun frekar en að ferðast landveg með kunningja sínum sem ætlaði sömu leið á hestum ásamt fleyrum, en kom fárveikur og búin á því um borð á Sauðárkróki. En meira af frásögnum Alexanders Baumgartner síðar.

Já ég er dottin í sagnaþætti, en það eru bókmenntir, sem gefa oft glöggar upplýsingar um líf venjulegs fólks í landinu, oftast skrifaðir af sérvitringum sem vildu ekki að saga þess hluta landsmanna, sem kallast almenningur, glataðist. Svona nokkurskonar og draugasögur í björtum þjóðsagnastíl. 

Það er ekkert nýtt hér á síðunni að vitnað sé í svona sögusagnir en í þessum pistli ætla ég að tína til hvað svona sagnaþættir segja óbeint um brýrnar yfir boðaföllin og jökulvötnin, enda er helsta deilumálið nú á dögum hversu dýrar brýrnar megi verða þegar kemur að listfenginni hönnun og hversu mikið sé réttlætanlegt að rukka vegfarendur fyrir að fara um slíka skúlptúra.

Landið var svo til án brúa á dögum Alexanders þó hafði lengi verið brú yfir Jökulsá á Dal, hina horfnu fornu Jöklu sem einnig er kölluð Jökulsá á Brú. Það stendur hins vegar ekki til að minnast á hana hér né gera þeim brúm eiginleg skil sem minnst er á, heldur segja sögur sérvitringana úr sagnaþáttunum.

Það birtust hér á síðunni stuttar frásagnir úr Endurminningum sr Magnúsar Blöndal Jónssonar fyrir nokkur árum og þar var ein um hvernig var umhorfs við Ölfusá þar sem brúin er núna og gefur sú frásögn glögga lýsingu á því hvernig Ölfusárbrú, sem byggð var 1891 - stuttu fyrir Íslandsför Alexanders, breytti öllu.

 

Ölfusá

 “Þá man ég næst eftir Ölfusá, þar sem við stóðum á árbakkanum hjá ferjunni, er flaut við bakkann, fyrsta bátnum, er ég hafði séð á ævinni. En engir voru þar hestar. Og er ég spurði um þá, var mér bent niður eftir ánni. Sá ég þá á hinni breiðu lygnu nokkru fyrir neðan okkur eins og röð af þúfum, sem mér var sagt að væru hestarnir á sundi. Loks fannst mér ég skilja þetta, þó ég ætti bágt með að átta mig á því, enda hafði ég aldrei séð neina skepnu á sundi fyrr. Varð svo nokkuð jafnsnemma, að farið var að koma okkur fyrir í ferjunni og hestarnir fóru að tínast upp úr ánni hinumegin.

Árið 1932 kom ég í annað sinn á þessar slóðir, þá á bílferð frá Reykjavík til Selfoss og Eyrarbakka. Þegar við nálguðumst Ölfusána, kannaðist ég við alla afstöðuna frá bernskuferðinni: Áin var lygn og breið til vinstri, allt út að sjó, og fjallið til hægri, nokkuð þverhnípt og bratt, en síður en svo ægilegt eins og mig minnti. Og þá fyrst vissi ég, að þetta hafði verið Ingólfsfjall, og þá skildi ég að leið okkar fyrrum hafði legið upp Grafning.”

(Úr Endurminningum sr Magnúsar Blöndal Jónssonar (I bindi bls 30-31) , af margra daga ferðalagi fjölskyldunnar þegar hún flutti frá Miðmörk undir Eyjafjöllum í Prestbakka við Hrútafjörð árið 1867, þegar Magnús var um 5 ára aldurinn. - Mynd; Ísl. Þjóðlíf II bindi bls 394. Við Ölfusá, algengur ferðamáti yfir stórárnar. Menn voru ferjaðir í bátum, en hestarnir sundreknir. Daniel Bruun – R. Christiansen.)

 

Lagarfljótsbrú

Í bókinni Að Vestan II-Þjóðsögur og sagnir - eru sögur sem varðveittust í vesturheimi, innheldur II bindið sagnaþætti Sigmundar M Long. Þegar ég las þessa sagnaþætti þá áttaði ég mig á því að Sigmundur ólst upp á þeim stöðum sem ég fer um dags daglega og þar mátti sjá hvernig líf fólks var háttað áður en Lagarfljótsbrúin kom til árið 1905. Sagan af Ingibjörgu Jósefsdóttir gaf góða innsýn í hvernig var að fara um fyrir einni og hálfri öld áður en Lagarfljóts- og Eyvindarárbrýrnar vor byggðar, brýr sem ég fer um hugsunarlaust nánast daglega, -stundum oft á dag.

Lagarfljótsbrúin var lengsta brú landsins allt til ársins 1973, fyrsta brúin yfir Eyvindará er talin hafa verið byggð 1879. Lagafljótið skiptir Fljótsdalshéraði að endilöngu og allt til loka 20. aldar var N-Múlasýsla fyrir norðan Fljót og S-Múlasýsla fyrir austan Fljót. Það var svo ekki fyrr en á 21.öldinni sem bæirnir Egilsstaðir og Fellabær, -sitt hvoru megin við brúarendann, urðu sameiginlegt sveitarfélag. Fyrir utan Eyvindará var Eiðaþinghá og þaðan lá leiðin niður á firði, um Fjarðarheiði á Seyðisfjörð, upp Eyvindardal um Eskifjarðaheiði á Eskifjörð og um Slenju yfir Mjófjarðarheiði á Mjóafjörð.

Í bókinni Að vestan II eru tvær sögur af niðursetningum í Fellahreppi (fyrir norðan Fljót) sem Sigmundur M Long skráði eftir að hann flutti til Vesturheims.

Önnur saga Sigmundar er frá hans samtíma, en þar segir hann frá Ingibjörgu gömlu Jósefsdóttir. Hann segir frá því þegar hún kom í heimsókn á hans bernskuheimili á Ekkjufelli um miðja 19. öld, lýsir henni sem lítilli konu, hörkulegri fjörmanneskju, greindri í betra lagi og skap mikilli.

Ingibjörg var Eyfirsk að uppruna, átti til að drekka vín og var hálfgerður flækingur í Fellum. Ef henni var misboðið, þá fór hún með illyrði og bölbænir, en fyrirbænir og þakklæti ef henni líkaði. Hann segir að Ingibjörg hafi verið næturgestur hjá foreldrum sínum og beðið þeim margfaldrar blessunar þegar hún kvaddi.

Hún hafði átt eina dóttir sem einnig hét Ingibjörg. Maður, sem kallaður var Jón Norðri af því að hann var að norðan, hafði barnað Ingibjörgu dóttir Ingibjargar og dó hún af barnsförunum. Taldi gamla Ingibjörg Jón banamann dóttur sinnar og hataði hann bæði lífs og liðinn.

Þau Jón og Ingibjörg hittust einhverju sinni á Egilsstaðanesi og var Jón þá drukkin á hesti en Ingibjörg gamla algáð og fótgangandi. Bæði voru á leiðinni út fyrir Eyvindará og bauð Jón henni að sitja fyrir aftan sig á hestinum svo hún þyrfti ekki að vaða ána.

Ingibjörg þáði þetta, en þegar komið var á hinn bakkann var hún ein á hestinum, en Jón drukknaður í ánni. Hún Guð svarði fyrir að hún hefði verið völd að dauða Jóns, en ekki tók hún þetta nærri sér og sagði að fjandinn hefði betur mátt hirða Jón, þó fyrr hefði verið.

Sigmundur hitti Ingibjörgu aftur þegar hún lá í kör á Ási í Fellum. Þá var hún farin að sjá púka í kringum sig og fussaði og sveiaði um leið og hún sló til þeirra með vendi. Á milli bráði af henni og hún mundi vel eftir foreldrum Sigmundar og blessaði þá í bak og fyrir, þarna var Ingibjörg háöldruð orðin ómagi á framfæri sveitar.

Hún átti samkvæmt reglunni sveit í Glæsibæjarhreppi í Eyjafirði, en þaðan var borgað með henni sem niðursetningi því ekki vildu þeir fá hana norður, og varla var tækt að flytja hana hreppaflutningum svo langa leið háaldraða og veika. Á seinasta aldursári Ingibjargar barst sú frétt með Héraðsmanni í Fell, sem hafði verið norður í landi, að Eyfirðingum þætti Ingibjörg vera orðin grunsamlega langlíf.

Um veturinn kom Glæsibæjarhreppstjórinn í Fell eins og skrattinn úr suðaleggnum. Vildi þá svo óheppilega til að Ingibjörg var dáin þremur mánuðum áður, en Fellamenn gátu sýnt honum kirkjubókina svo hann mætti sannfærast um að Fellamenn hefðu ekki látið þá í Glæsibæjarhreppi greiða með henni dauðri.

Í þessari bók Að vestan eru miklar heimildir um samfélag þess tíma og má ætla að þar sé sagt tæpitungu laust frá, enda sögurnar skráðar í fjarlægð við það fólk sem þær gátu sært. Sagnaþættir Sigmundar eru í raun mun merkilegri heldur en bara sögurnar, því þar lýsir hann einnig staðháttum og samgöngum.

Frásögnin af Ingibjörgu gömlu og Jóni Norðra á Egilsstaðanesinu á leið yfir Eyvindarána hefur líklega gerst þar sem Egilsstaðaflugvöllur er nú og hefur ferðinni væntanlega verið heitið út Eiðaþinghá eða niður á Seyðisfjörð.

Á þessum tíma var hvorki brú yfir Eyvindará né Lagarfljót, en ferja frá Ferjusteinunum í Fellbæ, sem eru rétt innan við norður enda Lagarfljótsbrúarinnar. Ferjan sigldi þaðan yfir í Ferjukílinn sem er rétt utan við austur enda brúarinnar og nær að suður enda flugvallarins. Lögferju var lengst af sinnt frá Ekkjufelli og má ætla að Skipalækur þar sem ferðaþjónusta er í dag neðan við golfvöllinn á Ekkjufelli, beri nafn sitt af lægi ferjubátsins.

 

Brín yfir Jökulsá í Öxarfirði

Upp síðkastið hef ég verið að lesa Sagnaþætti Benjamíns Sigvaldasonar sem hafa að geima fágætar sagnir af Melrakkasléttu og úr Öxarfirði. Benjamín sagðist finnast lítið hafa varðveist af sögnum úr N-Þingeyjasýslu og ákvað að safna saman þeim sögnum sem hann þekkti og gefa út í kiljum.

Mér áskotnuðust þessir sagnaþættir í búð Rauðakrossins þar sem hægt er að fá fágætar bækur úr dánarbúum, sem erfingjarnir kæra sig ekki um, á vægu verði. Þegar ég skar mig í gegnum þessi hefti, síðu fyrir síðu, las ég frásögn Benjamíns af því þegar brúin yfir Jökulsá á Fjöllum var byggð niður í Öxarfirði árin 1904-1905.

"En afdrifaríkast af öllu voru þó áhrifin, sem allt þetta hafði á hið kyrrláta sveitalíf í nágrenninu. Öldum saman hafði þarna ríkt kyrrð og friður, og sambandið við umheiminn verið lítið sem ekkert.

Allt var bundið gömlum vana og fornri hefð. En nú breyttist þetta í einni svipan. Jafnvel gamlir og grónir bændur stukku frá orfum sínum í bestu rekju eða frá heyjum í ágætum þurrki, ef þeir áttu kost á því að flytja nokkra poka af sementi að brúnni eða þá selja brúarmönnum nokkrar flatkökur og eina smjörköku.

Þarna voru krónur í boði, og það var aðalatriðið. En ekki þurfti ætið peninga til. Ef höfðingja bar að garði, þá voru ýmsir fúsir til þess að ríða út með þeim um hásláttinn, eða fara með þeim á blindfyllirí." (Sagnaþættir Benjamíns Sigvaldasonar III bindi bls 186)

Ég ætla að láta Alexander Baumgartner, sem inngangsorð pistilsins eru fengin frá, -eiga loka orðin í þessum pistli þegar hann lýsir samgöngumáta íslendinga áður en brýnnar breyttu öllu.

"Eftir veginum kom hópur ríðandi kvenna og manna. Þegar kvenfólk ferðast fer það alltaf í bestu fötin sín. Reiðpilsin þeirra eru síð og þær sitja í söðlinum tígurlegar eins og valkyrjur. Þegar maður horfir á slíkan hóp og hinn einkennilega klæðnað, gæti maður trúað að maður væri kominn suður í einhvern friðsælan Alpadal.

Svo gengur stöðugt “sæll” og “sæl” og fólkið kyssist mörgum kossum. Konunum er boðið inn að þiggja kaffi. En karlmennirnir, sem eru ekki líkt því eins vel klæddir, þurfa að hugsa um hestana, og svo skreppa þeir inn í búð til að fá sér brennivín og taka úr sér hrollinn." (Landinn kemur í kaupstað-Ísl sagnaþættir III bls 135)

"Á eftir fórum við á hestbak – það er óumflýjanlegt á Íslandi. Fái Ísland einhvertíma  sæmilega vegi og brýr, eða járnbraut, þá verður það eins og önnur lönd. En nú er það mjög frábrugðið, því það verður ekki komist af án hesta.

Alt verður að fara á hestum: til skírnar og jarðarfarar, í skóla og á engjarnar, til kirkju og alþingis, í kaupstaðinn og læknisvitjun. Frá blautu barnsbeini er hesturinn félagi allra manna og kvenna og fólkið lifir þannig frjálsu útilífi, sem ekki þekkist í hámenningunni.

Á þennan hátt verða menn hraustir og fyrirmannlegir. Hver maður er sinn eigin herra, smiður, lögfræðingur og jafnvel læknir. En ef þeir hætta að nota hestana, þá breytist þetta allt saman." (Ísl sagnaþættir III bls bls 140) 


Þjóðsaga

Hún hefur verið frekar blökk birtan á landinu bláa þetta sumarið, og hér austanlands voru dagarnir venju fremur dökkir í ágúst. Ég hef haft lítinn áhuga á að blogga undanfarið, er því sem næst hættur að fylgjast með fréttum og hef því lítið um að skrifa sem ekki má allt eins geyma í skúffunni.

Að skrifa bók daganna á blogg er nánast næsti bær við “æ góði bestu þegiðu” -hvað vinsældir og að vekja áhuga varðar, þegar sóst er eftir því þá er árangursvænna að súpa af krananum.

IMG_8906

Þó má segja frá því, -sem nokkurskonar frétt, að ég fékk heiðursmenn í heimsókn þegar skammt var liðið á ágúst, amerískan prófessor, -Adam Nichols, og mbl bloggara, -Jóhann Elíasson. Við gömlu mennirnir höfðum með okkur góðan félagskap í þrjá daga í Austfjarðaþokunni, og tvo þeirra með kvikmyndatökumanninum, -Hjalta Stefánssyni. þessir dagar voru ætlaðir til töku á punktum í heimildamynd um Tyrkjaránið 1627 sem styttist í að 400 ár verði liðin frá.

Þessir kvikmynda upptökur eru framhald 5 sjálfstæðra bóka sem sagnfræðingarnir Karl Smári Hreinsson og Adam Nichols hafa gefið út á ensku um Tyrkjaránin á Íslandi. Hafa sumar verið þýddar á fjölda tungumála og til stendur að þýða þær yfir á eina íslenska. Mín aðkoma að verkefninu var að benda á sögustaðina á Austurlandi. En Jóhann Elíasson bloggar hafði lesið blogg hjá mér, fyrir mörgum árum síðan, og bent þeim Karli og Adam á að þeir skildu tala við mig ef þeim vantaði staðkunnugan mann.

Töku dagarnir voru langir, víða farið og reynt að ná örstuttum punktum á söguslóðinni innan um túristavaðalinn. Að kvöldi var spjallað um heima og geima og hvílst á Sólhólnum úti við ysta haf yfir nóttina, og að morgni borðaður hafragrautur úti á palli við öldunnar nið í Þúfnafjörubásnum. Að morgni þriðja samverudags kom til tals hjá prófessornum að þetta væri orðin lengsti samfeldi kafli í lífi hans án internetssambands og heimsfrétta á þessari öld, -and it feels great I have to say.

Þar sem mér hefur oft fundist það brenna við hjá fræðimönnum að þeir vantreysti þjóðsögunum, sem hverri annarri steypu, þá hef ég í kynnum mínum við þá sagnfræðiprófessorana haldið því til streitu sem finnst í þjóðsögunum um Tyrkjaránið austanlands. Enda er öll hin íslenska Tyrkjaránssaga í grundvallaratriðum þjóðsaga, og þykir úti í hinum stóra heimi einmitt merkileg sem slík.

Það er nefnilega svo til einstakt í heimsögunni að sagnir frá venjulegu fólki um upplifun þess af því að hafa verið rænt, og flutt í hlekkjum á markaðstorg, þar sem það var selt mansali skuli fyrirfinnast. Varðandi Tyrkjaránið á Íslandi eru til þannig sagnir í bundnu máli svo sem Reisubók séra Ólafs Egilssonar úr Vestamannaeyjum og bréfaskriftir þeirra Guttorms Hallsonar ungs manns frá Búlandsnesi á Djúpavoga, Guðríðar Símonardóttir (Tyrkja Guddu) úr Vestmannaeyjum sem varð eiginkona séra Hallgríms Péturssonar sálmaskálds og Jóns Jónssonar frá Járngerðarstöðum í Grindavík.

Aðrar Evrópu þjóðir, sem urðu fyrir því sama, eiga kannski opinber gögn um hvar fólki var rænt, hversu mörgum og hvert það fór, en engar heimildir frá fólkinu sem fyrir þessu varð s.s. persónulegar sagnir um afdrif þess. Opinber gögn köllum við staðreyndir en ekki þjóðsögur. Á meðan þjóðsagan er í raun sú staðreynd sem byggð á reynslu almúgans, og getur jafnvel verið sannari eftir að sagan hefur farið í gegnum fleiri, er þá til frá mörgum hliðum. Þá er þjóðsagan oftast orðin ýtarlegri staðreynd en opinbera sagan sem er lítið annað en einhliða opinber fréttatilkynning.

Þetta höfum við Íslendingar, sem þjóð, alltaf vitað. Enda varðveittum við Fornaldarsögur norðurlanda, rituðum Íslendingasögurnar og höfum átt fjölda þjóðsagnasafnara í gegnum tíðina sem hafa skráð sögu okkar eftir munnmælum almúgafólks og er þannig orðið til saga þjóðar á íslensku. Ég hef stundum sagt við þá prófessorana að þeir eigi eftir að gera sig og þessa þjóðsögu um Tyrkjaránið á Íslandi heimsfræga.

Síðasta samverudag okkar gömlu mannanna, sem var án kvikmyndatökumannsins, fórum við á Djúpavog, minn gamla heimabæ. Þar sýndi ég prófessor Adam stað, sem nánast er kominn undir hringveginn, þar sem kona frá Hamri bar beinin eftir að Tyrkir höfðu misþyrmt henni. Þjóðsagan um konuna á þessum stað kom í ljós snemma á 20. öldinni og var skráð af dr Sigurði Norhdal.

Það er of langt mál að segja þá þjóðsögu hér eða hversu magnaður og vandfundinn þessi staður er, en frá því hef ég áður sagt í bloggi um Krossflöt. Ég sýndi Adam staðinn vegna þess að mér fannst lítið hafa síast inn í kollinn á prófessornum um sannleiksgildi þjóðsögunnar.

Þegar við stóðum þar í vegakantinum með túristavaðalinn brunandi á öðru hundraðinu eftir þjóðveginum svo hárið á okkur þyrlaðist í kjalsogi bílaleigubílanna sagði Adam mér þá frá stað við Stonehenge sem hann hafði komið á, þar sem stórbrotin tilfinning hefði gripið hann svo hann settist niður hljóður og sat með sjálfum sér þar til samferðahópurinn kom og raskaði ró hans og leiðsögumaðurinn sagði þú hefur þá fundið staðinn á undan okkur.

Hann spurði mig hvað heldur þú að hafi getað orsakað þessa undarlegu tilfinningu. Ég var snöggur til svars og sagði honum að sumir staðir geymdu mikla sögu og hefðu minni, sem engar heimildir væru til yfir, og þannig staðir gætu talað til manna sem hlustuðu. Hann leit í augun á mér og kinkaði kolli.

IMG_8916


Hindurvitni og kynjasögur

Nú er fyrsti dagur í sumarfríi og þó svo að helgin hafi verið köld þá lofar þjóðtrúin framhaldinu góðu. Nýtt tungl var á föstudag og stórstreymi í gær. Samkvæmt gömlum hindurvitnum á veðrið ekki að geta klikkað og fræðingarnir spá nú 20°C og yfir ágerist þegar á vikuna líður hér Austanlands, en slíkt hefur aðeins gerst einu sinni það sem af er sumri.

Það styttist því í að setið verði á sólpallinum úti við ysta haf og horft út á hafið bláa hafið yfir á Kambanesið við prjónaglamur og kaffiilm. Sólhóll, guli bárujárnshjallurinn okkar Matthildar minnar, stóð áður á Kömbum á Kambanesi, eða allt til ársins 1944 en húsið var byggt á Kömbum fyrir hart nær hundrað árum.

Í tilefni þessa ætla ég að setja hér inn kynjasögu sem er brot úr frásögn sem birtist í nýjasta hefti Múlaþings, -og mér þykir stórmerkileg. Ekki bara fyrir tenginguna við Kamba, heldur vegna þess að þar segir ungur drengur þjóðsögur. Þetta er brot úr endurminningum Guðbrands Erlendssonar sem fluttist ungur til Kanada og bjó síðar í N-Dakota.

Amerískur fræðimaður fann handrit Guðbrandar eftir hans daga og þótti skrifin merkileg. Kom til landsins og alla leið austur á Kambanes og fékk Sturlaug Einarsson á Heyklifi á Kambanesi til að sýna sér staðhætti. Síðar sendi hann Stulla vini mínum kafla úr handritinu sem tekur til ára Guðbrands á Kömbum á milli 5 og 11 ára aldurs.

Það er ótrúlega margt sem kemur fram í þessu stutta handriti, sem í vor var birt í ritinu Múlaþing, er kastar ljósi á mikla atburð. Sagnir sem hingað til hafur ekki verið hægt að heimfæra á sannfærandi hátt því brot af sögu þessari eru einungis til í þjóðsagnasöfnum. 

Fyrir tveimur árum birti ég frásögn Guðjóns Brynjólfssonar Sjóhrakningur frá Djúpavogi til Vestmannaeyja en þar er sagt frá fiskibátnum Hamarsfirði. Margt í þeirri frásögn hafði hnikast til um ættlið og varð því þjóðsaga en ekki talin áreyðanleg heimild.

Í byrjun frásagnarinnar af seglbátnum Hamarsfirði er sagt frá hákarlaskútunum á Djúpavogi og dapurlegum afdrifum nokkurra þeirra. Í handriti Guðbrands er nákvæm lýsing á hvað kom fyrir hákarlaskúturnar og hvað þær hétu.

Svona getur nú þjóðsagan verið merkileg þegar kurl koma til grafar. Reyndar er mun fleira stórmerkilegra sagna í þessu stutta endurminningabroti ungs drengs frá Kömbum á Kambanesi frá miðri 19. öldinni en það sem hér birtist. Móðir Guðbjartar átti t.d. 3 eiginmenn og missti þá alla áður en hann varð 6 ára, tvo í hafið og faðir Guðbrandar, sem var í miðið, -úr lungnabólgu.

Hann segir frá skyggni móður sinnar þegar þriðji eiginmaðurinn fórst á sjó við Kambanes og orðum hennar; -mér er ekki tamt að æðrast en nú er öll von úti. Og þegar nágranni kom í Kamba  til að tilkynna henni sjóslysið; -þú munt kominn til að segja mér sorgartíðindi, segðu mér allt sem þú veist um þau, ég er undir það búin að hlusta á þau. Og þegar komumaður lauk máli sínu; -enn á ný hef ég mikið misst, -en Guð gaf og Guð tók, sé nafn hans vegsamað. Hann gaf mér þrjá ágætismenn, hann átti frjálst með að kalla þá á undan mér.

Þó svo að nú sé sumar og gleðjist gumar því gaman er í dag og brosi veröld víða veðurlagsins blíða, þá ætla ég að hefja þessa blíðviðrisviku í sumarfríinu á því að birta frásögn Guðbrandar frá Kömbum af bátabylnum eins og hún er í Múlaþing. En til að skilja til fulls hversu merkileg hún er er rétt að lesa líka frásögn Guðjóns Brynjólfssonar af sjóhrakningnum frá Djúpavogi.

Færeysk skúta 1944  mynd Björn Björnsson

Færeyingar gerðu út skútur lengur en Íslendingar, hér er ein slík á Stöðvarfirði sumarið 1944, sama sumar og húsinu á Kömbum var fleytt af Kambanesi yfir Stöðvarfjörð þar sem það fékk nafnið Sólhóll

 

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Bátabylurinn

Hvort hinn svonefndi Bátabylur átti sér stað vorið 1850 eða árið 1849 get ég ekki sagt með vissu en það sem ég man til hans er þetta. Ekki “blöktu hár á höfði”, ég geng með mömmu út að fiskiklöppinni, þar fleygja þeir upp fiski úr Spes, faðir minn og Ólafur á Einarsstöðum binda hana svo við klöppina til þess strax og þeir höfðu neytt miðdegisverðar að sækja aðra hleðslu út á Stöðvarfjörðinn.

En þegar þeir voru að stíga í bátinn brast í byl svo snarpan að þeir áttu erfitt með að koma bátnum í naustið. Grimmdarfrost og fannkynngi hélst upphaldslaust í marga daga. Loks þegar veður þetta hætti gerði logn og sást þá frá Gvendarnesi bátur er barst með sjávarfalli. Reyndist þetta vera Morgunnroði, skipaður dugandi mönnum er allir höfðu látið lífið og lágu í bátnum.

Það var mál manna að þeir hefðu haldist við undir skeri á milli Skrúðs og lands. Morgunnroði hafði dekk í fram og afturskut, opinn í miðju, sömuleiðis setubátarnir Fortúna og Berufjörður. Eina skipið sem bjargaðist var þilskipið Bóthildur, sex lesta skip, var formaður hennar Einar á Streiti, tengdafaðir Sveins Pálssonar. Einn af hásetum hennar var Sigurður föðurbróðir minn.

Ég man eftir ýmsu er ég heyrði hann segja föður mínum rétt eftir bylinn. Bóthildur lá til drifs meðan á veðrinu stóð. Urðu skipsmenn því ekki lítið undrandi er þeir sáu Fortúna með segl uppi skjótast fram hjá þeim, það var það seinasta sem til hennar sást. Ekki gátu þeir á Bóthildi eldað sér mat, gerðu þó tilraun til þess, en þeir höfðu skjólið undir þiljum, það hélt í þeim lífinu. Þegar veðrinu létti hafði þá drifið langt í haf. Tók það langan tíma að sigla til lands.

Á öllum þessum bátum voru eftir því sem ég heyrði sagt úrvals menn. Hér tek ég upp sögu sem er ég heyrði Höskuld Bjarnason á Þverhamri segja:

“Við skutum út bát fjórir saman og rerum út til flæmskrar fiskiskútu sem lagst hafði innarlega á Breiðdalsvíkinni. Eins og við áttum að venjast tóku Flandrarar vel á móti okkur. Eftir þáðar veitingar undir þiljum stönsuðum við á dekkinu, gengur þá að mér einn skipsmaðurinn, horfir stíft á mig og spyr “Heitir þú Höskuldur?” Ekki átti ég því að venjast að heyra nafn mitt svona skýrt nefnt af útlendum manni eins og maður þessi gjörði, játa því og spyr hvernig honum sé kunnugt um nafn mitt, “af því” segir hann, “að þú ert svo líkur bróðir þínum Stefáni”. “Hvar hefur þú séð hann?” spyr ég. “Tvö ár eru liðin síðan við landsmenn mínir vorum hér undan landi í því versta veðri sem ég hef litið. Það var á öðrum degi bylsins að skip það er ég var háseti á bar að bát sem var að sökkva í bylgjur hafsins. Það eina sem við gátum gert fyrir vesalings skipshöfnina var að kasta út kaðli um leið og okkur bar framhjá bátnum. Þrír náðu haldi á kaðlinum er við skjótlega drógum inn í skipið. Þeir voru Stefán bróðir þinn, Brynjólfur Jónsson og danskur maður sem var kapteinn bátsins. Lét ég í ljós að mér þætti þetta ekki sennilegt: “Óhætt er þér að trúa því sem ég segi og því til sönnunar get ég sagt þér að Stefán á hér konu og börn en ekki mun hann hingað leita því hann er giftur og á búgarð í Frakklandi”.

Gleymt hef ég hvað hann sagði börnin mörg en rétt sagði Flandrarinn um það. Höskuldur sagðist ekki hafa ástæðu til að rengja þessa sögusögn, spurði manninn hvort hann gæti komið bréfi til bróður síns og játaði hann því, “en ekkert hef ég fengið svar upp á bréfið sem ég skrifaði bróðir”, sagði Höskuldur.

Þórunn í Snæhvammi var kona Stefáns þessa og Jón maður Guðrúnar Vigfúsdóttur sonur þeirra. Guðrún kona Ólafs Einarssonar var dóttir þeirra en Erlendur Höskuldsson sem ég minntist á í Markland var sonur þess hér oft nefnda Höskuldar. Brynjólfur Jónsson var sonur Guðnýjar á Reyðará í Lóni, hún var systir afa, Brynjólfs á Hlíð í Lóni.

Þetta þótti kynjasaga en sökum rökfærslu hásetans var henni trúað. Yfirleitt þótti það kynlegt að mennirnir skyldu ekki vitja átthaga sinna, sögðu þá sumir að það væri nú ekki svo óskiljanlegt með Stefán því kalt hefði verið með þeim hjónum en hvað Brynjólf snerti væri það ráðgáta.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Þarna koma sömu skipsnöfn fram á hákarlaskútunum sem fórust frá Djúpavogi og í Hrakningasögu bátsins Hamarsfjarðar til Vestamannaeyja, þ.e. Morgunnroði og Fortúna auk þess nafn þriðju hákarlaskútunnar sem fórst -Berufjörður, en nafn hennar þekkti Guðjón Brynjólfsson ekki í frásögn sinni sem birtist Þjóðasagnasafninu Grímu. Ekki hef ég séð þess getið annarstaðar að allar þessar hákarlaskútur hafi farist í einu og sama veðrinu.

Eins kemur nafn Brynjólfs frá Hlíð í Lóni fram í báðum frásögnunum og ýmis fjölskyldutengsl. Virðast Guðný móðir Guðbrands Erlendssonar og Hildur amma Guðjóns Brynjólfssonar hafa verið systur báðar Brynjólfsdætur frá Hlíð í Lóni. Þarna eru brot úr stórri sögu skútuútgerðar til hákarlaveiða við Ísland varðveitt í þjóðsögum og endurminningum í Vesturheimi.

 

IMG_4529 (1)


Harðæri

Hann var gnafinn í vikunni sem leið, bálhvass, með snjó til fjalla, þó ekki hafi fest né fryst á láglendi. Máríerlurnar trítluðu blautar á kollinum hér um svalahandriðið, skáskjótandi sjónum sínum, árangurslaust upp í þakskeggið, -í von um að sjá flugur. Ég gaf þeim þeim múslí og þegar ég sá að þær röðuðu því í gogginn og flugu burt, ferð eftir ferð, þá þóttist ég vita að ungarnir væru enn lifandi í hreiðrinu.

Já, sumarhretið hefur vafalítið bæði farið illa með farfuglana og taugar túristanna, þó svo að við svona hreti megi búast á þessum árstíma á Íslandi rétt eins og dæmin sanna. Í fróðleiks bókinni Amma er kafli sem heitir Harðærislýsing úr Eyjafirði vorið 1869 þar sem birt eru dagbókarskrif Sveins Þórarinssonar þegar hann bjó á Akureyri, sem kannski er nú hvað þekktastur fyrir að vera faðir Jóns Sveinsonar höfundar barnabókanna um Nonna og Manna.

Amma segir að Sveinn hafi haldið dagbækur sem séu fróðlegar um margt, þó þær fjalli fyrst og fremst um einkahagi hans. Síðasta vorið sem Sveinn lifði - 1869, voru mikil harðindi, einkum norðanlands. Hretið í síðustu viku er léttvægt miða við lýsingar Sveins í dagbók sinni frá þessu vori. Veðurlýsingin í Ömmu byrjar 24. Maí og eru birtar dagbókarfærslur um mánaðra tíma. Síðasta dagbókarfærslan sem Sveinn er sagður hafa skrifað var 10. júlí 1869, en hann dó þann 16. sama mánaðar 48 ára gamall.

Ég ætla að setja hér inn 10 daga samfellda, eða svo, af þessum dagbókarfærslum eins og þær eru birtar í Ömmu, og byrja þá á sömu dagsetningu og hretið hófst í vikunni sem leið; en Amma er með margar nöturlegri veðurlýsingar í dagbókinni af þessum snemma-sumars harðindum 1869, en þær sem hér eru birtar.

3. júní. -Norðan kuldastormur með þokubelgingi, en af útstraumi færðist ísinn út fjörðinn nokkuð. Ég var heima, lagfærði smávegis og verkaði síld. Hungrið og heyleysið fréttist úr öllum áttum, og í dag var sagt, að 2 börn væru dáin af hungri í Ólafsfirði, og fönn svo mikil í Fjörðum og á útsveitum, að rétt aðeins væru auðir blettir á túnum, , , ,

4. júní. -Norðaustan frostgola, loft þokufullt og hríðarlegt. Ég gat lítið aðhafst vegna kulda, gekk út í bæ, keypti á apóteki 1 pund af chocolade og lakris og fíflarætur.

5. júní. -Norðaustan heljarkuldi með hríð svo hvítnaði undir sjó. Ég gat ekkert aðhafst nema sagað niður í eldinn þá seinustu spýtu, sem ég átti; og varð ég að liggja í rúmi vegna kulda, því alveg er ég eldiviðarlaus. Nokkrir, sem í gær reru til fiskjar, komu í dag með sára lítinn afla.

6. júní. -Logn og alheiðríkt; en mjög kalt . . . . Árni Sölvason kom austan úr Þistilfirði, hafði verið um borð í skipum þeim, sem liggja inniklemmd á Finnafirði og hingað eiga að fara; gátu ekki komist vegna hafíss við Langanes. Ýmsir hér í bænum sendu nú mann austur á Vopnafjörð eftir tóbaki, og lagði ég í þann sjóð 60 sk. fyrir ½ pundi af rjóli, því í gær skar ég hinn síðast tóbaksmola, sem ég átti. Hungur þrengir nú hart að mönnum, jafnvel æðri sem lægri.

7. júní. -Suðvestan vindur hlýr. Hafísinn rak að mestu hér af firðinum og glæddist nú von manna um skipskomu . . . . Ólafur á Espihól kom, ætlaði að fá sér bygg, en það fékkst ei heldur en annað, þar á móti náði hann í hið seinasta af einhverjum rúghnefa, sem steinolía hafði farið í og nokkrir hafa nú keypt af hungursneyð fyrir 1 rd. keppuna. Ég komst upp á að verka síld mína á besta hátt með því að reykja hana lítið, eftir að hún var lögð í pækil. Kýr fyrst látnar út í bænum, mín var inni í dag. Nú eru allir að setja niður kartöflur.

8. júní. -Norðvestan rosastormur og þokufar mikið í lofti.

9. júní. -Logn hlýindi skýjað loft framan af og sunnan vindur um kvöldið.

10. júní. -Sunnanstormur, en norðvestan í lofti, logn að sjá utarlega á firðinum . . . . Nú liggur almennt við manndauða af hungri, og eru ýmsir hér farnir að skera niður skepnur til bjargar. Vonlaust er um skipakomu að svo stöddu.

11. júní. -Norðan hvass heljar kuldastormur. Ísinn er rekinn inn á fjörð. Í morgun fékkst mikil spiksíld í lagnetjum. Ég lá lengst af degi í rúminu vegna kulda og hungurs.

12. júní. -Norðan heljar kuldi með hvassviðri og hríð; kýr stóðu aftur inni, mín nær málþola. Alsnjóaði. Alltaf harðnar og versnar ástandið. Ég særði út ½ pund af einiberjum til matar. Lá að mestu vegna kulda.

13. júní. -Norðan frostbruna stormur, hvass, svo ísinn rak inn á móts við Sigluvík . . . . Kuldinn óþolandi og hungur að harðna. Amtmaður og aðrir Möðruvellingar komu hér og fóru heim aftur. Er mælt, að amtmaður hafi fengið kornmat hjá Möller handa sér, og vitanlegt einnig að þeir Möller og Steincke hafa bæði fleiri kjöttunnur, brauð og mjöl, sem þeir liggja á og geyma, þó hungurdauði vofi yfir allt um kringum þá. Ég fékk tunnu af rudda hjá Friðb. Steinsyni handa kúnni.

Það kemur vel fram í þessum dagbókar skrifum Sveins Þórarinssonar hvað árferðið spilaði stórt hlutverk í afkomu fólks, þegar hafísinn kom í veg fyrir skipakomur að vori. Einnig kemur vel fram hvað almenningur gerði varðandi sitt matvælaöryggi; s.s. kýr á heimili, kindur, fiskur og settar niður kartöflur. Búast má við að ef landsins forni fjandi bættist við álíka sumarhret nú á dögum færi það líka illa með landsmenn.

Héðan af Héraði var ófært svo að segja til allra átta í tvo daga síðustu vikuna, nema upp í loftið. Túristarnir og flutningabílar komust þá hvorki lönd né strönd og þunnur orðin þrettándinn í búðarhillum, þó svo að einhverjir dagar væru enn í hungursneyð og ég gæti séð af múslí í máríerlurnar. 


Svarta bókin

Ein af elstu bókum í mínum fórum, sem þarf samt ekki að vera svo gömul, hefur að geyma fágætan rithátt og magnaðan kveðskap á íslensku. Bókin, sem er nafnlaus, kemur frá afa mínum og nafna. Ég hélt að þetta væri sálmabók, -eða þar til ég setti mig inn í textana.

Bókinni hefur greinilega verið mikið flett, eru gulnuð blöð hennar orðin snjáð og rétt svo að hún hangi saman. Fremst á bakhlið kápu er hún er merkt systkinum sem fæddust og ólust upp í torfbæjum á Héraði snemma á 20. öldinni. Á öftustu blöðum og bakhlið kápu hefur verið æfð skrift.

Hversu gömul bókin er ómögulegt að segja því í henni virðist aldrei hafa verið neitt titilblað. Hún gæti allt eins hafa komið úr pússi foreldra þeirra systkinanna og því verið frá 19. öldinni, rétt eins og flestöll ártöl sem koma fram í henni.

En bókin byrjar á þessum orðum:

Til Lesndanna. – Þat hefur af Góðum monnum vacit til umræþo at ec munda rett rita arker af egin yðrom spunnom, á inni veranþi ári almenningi til dægurstytto, eþur oc einkunnar á framhaþi anþa þjoðernisins, , , 

Þarna er ekki beint um nútíma rithátt eða stafsetningu að ræða, og í lok formálans segir;

, , ,  Þetta fyrzta sínhyrni læt ec sva niþur bera hjá mannutiz oc avþgom Bónþa Hjálmarr Loptzyni á heiðþrudu cynnisleite.

Þjonuztusamligaz H: Jónaz: Eyfirðingr, 

Ökrum ennum iþri d: 10. mart: 1852

Það er ekki hægt að sjá í hvenær þessi bók hefur verið prentuð hún bara byrjar á þessum formála án frekari skýringa, en þegar hún er skoðuð þá er í henni nokkuð um ævi og kveðskap Bólu-Hjálmars á mun skiljanlegar skrifaðri íslensku, auk Skagfirsks kveðskapar.

Hjálmar Jónsson, betur þekktur sem Bólu-Hjálmar (fæddur á Hallandi í Eyjafirði 29. september 1796, dáinn í Brekkuhúsum skammt frá Víðimýri í Skagafirði 25. júlí 1875) var bóndi og ljóðskáld, segir wikipedia.

Móðir Hjálmars var heimilislaus þegar hún eignaðist hann, kom að kvöldi dags að Hallandi á Svalbarðsströnd og tók léttasótt um nóttina. Daginn eftir fór vinnukona á Hallandi með barnið í poka áleiðis til hreppstjórans. Hún kom við á Dálksstöðum og húsmóðirin þar fann svo til með drengnum að hún tók hann í fóstur og ól hann upp til átta ára aldurs. Þá fór hann til föður síns og ólst þar upp samkvæmt þekktri sögu.

Í bókinni er einungis kveðskapur, auk einnar lítillar frásagnar Hjálmars af því þegar hann fór vetrarlangt í fóstur á Dagverðareyri, þá á sjötta ári. Hann lét vel af verunni hjá hjónunum þar, sagði að þau hefðu komið fram við sig sem sinn son og húsbóndinn, Oddur Gunnarsson, hefði kennt sér að yrkja.

Hann segir frá því þegar Oddur á Dagverðareyri réri með hann um vorið, tveimur árum á móti suðaustan kylju, austur yfir Eyjafjörð í Dálksstaði, - þá var eins og báturinn  steytti á skeri út á miðjum firði og breytti um stefnu. Hjálmar varð hræddur og kvað við Odd með tárin í augunum:

Eitthvað heggur kaldan kjöl,

kippir leið af stafni. 

Oddur kvað á móti og mælti:

Okkar beggja ferju fjöl

flýtur í drottins nafni.

Stuttu á eftir kom upp hrefna í kjölfarinu, og sagði Hjálmar að Oddi hefði ekki staðið nokkur ótti af henni. Þegar hann skilaði Hjálmari aftur í móðurskaut Sígríðar fóstru hans á Dálksstöðum, -"kvaddi hann mig með tárum, fyrirbón og signingu, sem þá var títt hjá guðhræddu fólki" 

Árið 1824 orti Hjálmar Afmælissaungur, -þá 28 ára, -sem segir talsvert um ævi hans í Eyjafirði.

Æfin líður áfram mín

eins og vatna straumur,

þrauta vafin þungri pín

þánkinn stynur aumur.

Af syndugum mig til sæði bjó

sjóli æðstur metinn,

í Eyjafirði illum þó

eg var fyrsta getinn.

Forlög öll mín fyrir sá

faðirinn alda’ ógleyminn,

þá konu var mér keltu frá

kastað inn í heiminn.

Ólánsdagur mundi mér,

meðan eg grátinn þreyi,

þegar eg fæddist, því er ver,

á þessum fimmtudegi.

Snemma ævi til þess tókst

að tvinnast þrauta byrði,

aldur mér og ólán jókst

Eyja- hér í -firði.

Á Eyjafjarðar téðu torg,

með tárum þetta ræði,

reynt hef eg bæði sult og sorg,

svita, frost og mæði.

Hefði ei drottins hjálp og náð,

mér hlíft fyrir varga tönnum,

orðinn væri eg að bráð

Eyjafjarðarmönnum.

Loforð þeirra og heiptar hjal,

hjartað særir lúna,

snúin bæði af snót og hal,

snaran fallsins búna.

Þeirra hefur faðmur flár

fundizt banvænligur,

og höggvið mér í hjarta sár

heiptugur góma vígur.

Yndisblóm er byrjandi

böl og harmur stirði,

sjáðu mig faðir, syrgjandi

samt í Eyjafirði.

Kær þín, drottinn, gæzkan greið

gerir létta byrði,

bú mér sjálfur beina leið

burt úr Eyjafirði.

Þolinmæðin mýkir þrá

meðan tími er settur,

hugsa eg minn sé himnum á

hæsti borgar réttur.

Síðan guði sjálfum hjá

sorg mun fram úr rakna,

aldrei jeg um eilífð þá

Eyjafjarðar sakna. (bls 12)

Hjálmar fór úr Eyjafirði til Skagafjarðar og kynntist þar konu sinni Guðnýju Ólafsdóttur, en mæður þeirra voru systur. Þau bjuggu fyrst á Bakka í Öxnadal en fluttu svo til Skagafjarðar og bjuggu fyrst á Nýabæ í Austurdal í fimm ár. Árið 1829 fluttu þau að Bólu (Bólstaðargerði) í Blönduhlíð, og við þann bæ var Hjálmar kenndur.

Lengi á Bólu sé eg sól,

sumar gólar hvert fíól,

líknar sjóli ljær mér skjól,

lífs við ról á eyðihól. (bls 48)

Hjálmar var ekki vinsæll í sveitinni og þegar nágrönnunum þótti fé heimtast illa féll grunur á hann og gerð var þjófaleit hjá þeim hjónum 1838. Þau voru sýknuð ári síðar en hröktust burt frá Bólu. Sauðaþjófnaður var einhver alvarlegasti glæpur bændasamfélagsins og féll Hjálmari kæran þungt.

Hræsnarinn kallar helga menn,

sem höfðingsglæpi fela,

að drýgja hór og drepa menn,

dýrka goð og stela. (bls 157)

Hjálmar var sjálfmenntaður, einkum á forn fræði. Hann var rímnaskáld að hefðbundnum sið sem gat bæði kveðið með þeim hætti hvassyrt kvæði og miskunnsöm Heilræði til samtíðar sinnar.

Náðar kljáðu þáðan þráð,

þjáðum ljáðu dáð ómáð,

fjáð heilráðin fáðu aðgáð,

fláðu af háði smáða í bráð. (bls 156)

Hjálmar var hæðinn og þótti þar bæði óvæginn og illskeyttur. Því átti hann sér ýmsa óvildarmenn. Hann átti líka marga vini og var oft fenginn til að skemmta því hann var fróður og góður sögumaður, skemmti fólki með kveðskap og gat verið hrókur alls fagnaðar þegar hann vildi.

Einhvern tímann hittust Árni á Skútum og Bólu Hjálmar. Þá kvað Árni:

Maður skálmar mikill þar,

mjög sem tálmar dyggðum.

Er það Hjálmar auðnuspar,

sem yrkir sálma háðungar.

Hjálmar lét ekki standa á svari, -né Árna eiga neitt inni hjá sér:

Árni á Skútum er og þar,

úldinn grútar snati.

Hrafna lút í hreiður bar;

hans eru pútur dæturnar. (bls 28)

Vísan Eptirmæli gefur vel til kynna hversu neyðarlega níðskældin Hjálmar gat verið.

Kvaddi drylla kappa fans,

kviðar spilling búin,

burt er frilla fúskarans,

fremd og snilli rúin. (bls 170)

Nafnlausa litla svarta bókin, sem greinilega hefur mikið verið flett af systkinunum í torfbænum, byrjar hins vegar á þessu lífshlaups ljóði:

Hægra mér þótti

hinnig tíðar,

þá fjör og kraptur

fleytti mundum,

hamar, taung, knífur,

hefill, exi,

sveifla sveðju grass

eður sægögnum.

 

Hángandi hrör

í helgin opið

fálmar fluggögnum

fjaðurhjarðar,

skjálfandi mund

við skýjuð augu

lætur lítt

að letra smíði.


Væringinn mikli og hin blóðuga, mállausa ákæra

Einn af þeim sem talin hefur verið til mikilmenna þessarar þjóðar er Einar Benediktsson. Í æsku heyrði maður þá lygasögu að Einar Ben hefði náð að selja norðurljósin í fylleríi. Hitt er rétt að hann hafði uppi stórhuga virkjanaáform löngu á undan sinni samtíð.

Sumar hugmynda Einars komust til framkvæmda áratugum eftir hans daga. Búrfellsvirkjun varð t.d. að veruleika hálfri öld eftir að Einar fékk hugmyndina. Hún varð fyrsta stórvirkjun Íslands til þess að útvega rafmagn fyrir erlenda stóriðju.

Einars Benediktssonar hefur einkum verið minnst sem einnar af sjálfstæðishetjum þjóðarinnar, auk þess að vera athafnamaður og þjóðskáld sem veitti innblástur fram eftir 20. öldinni. Eitt af þekktari ljóðum hans er einmitt um rafmagnað aðdráttarafl norðurljósanna sem nú í dag eru virkjað af ferðaþjónustunni.

Veit duftsins son nokkra dýrlegri sýn

en drottnanna hásal í rafurloga?

Sjá grundu og vog undir gullhvelfdum boga!

– Hver getur nú unað við spil og vín?

Sjálf moldin er hrein eins og mær við lín,

mókar í haustsins visnu rósum.

Hvert sandkorn í loftsins litum skín,

og lækirnir kyssast í silfurósum.

Við útheimsins skaut er allt eldur og skraut

af iðandi norðurljósum. (sjá meira)

Snemma á 20. öldinni keypti Fossafélag Einars Benediktssonar land meðfram Jökulsá á Fjöllum ásamt náttúruperlunni Ásbyrgi. Hugsjón hans var að virkja ána og sagðist hann ætla að nýta raforkuna til að framleiða áburð á blóm og birki í örfoka landi.

Einar átti Ásbirgi í 15 ár, -hafði áður orti þar ódauðlegt ljóð á sumarmorgni. Jökulsá á Fjöllum rennur óbeisluð frá Vatnajökli, um Dettifoss og Hljóðakletta, allt til sjávar enn þann dag í dag, sem betur fer, ekki er ólíklegt að Sumarmorgunn í Ásbyrgi eigi sinn þátt í því.

Alfaðir rennir frá austurbrún

auga um hauður og græði.

Glitrar í hlíðinni geislarún,

glófaxið steypist um haga og tún.

Signa sig grundir við fjall og flæði,

faðmast í skrúðgrænu klæði. 

En hvað var það raunverulega, -sem gerði Einar Benediktsson eins mikinn og af er látið? Ég hef verið að lesa bókina Væringinn mikli, ævi og örlög Einars Benediktssonar eftir Gils Guðmundsson, og kemur það mér nokkuð á óvart hvað gerði þennan stóra mann svo mikinn.

Vissulega var Einar með stærri og myndarlegri mönnum, stór ættaður, komin af betur stæðum Íslendingum. Móðir hans Katrín Einarsdóttir heimasæta á Reynisstað í Skagafirði, sem sagt er að hafi verið trúlofuð manni 12 ára gömul, en áratugur var á milli þeirra í aldri. Foreldrar hennar styrktu föður Einars, -Benedikt Sveinsson til mikilla mennta og út á þær komst hann til æðstu metorða, -sem Landsdómari.

Þau Katrín og Benedikt skildu eftir stormasama sambúð á Elliðavatni þar virðist óregla Benedikts hafa ráðið mestu, -og skiptu með sér barnahópnum. Benedikt hafði missti Landsdómara embættið, en varð síðan sýslumaður í Þingeyjarsýslum og þingmaður N-Múlasýslu, bjó á Héðinshöfða á Tjörnesi við Skjálfanda. Einar ólst upp hjá föður sínum.

Þegar fræðst er um Einar þá gerir maður sér grein fyrir hvað gerði manninn eins mikinn og af er látið. Segja má að það sem hafi gert Einar mikinn hafi hann sjálfur komið hvað best í orð sem örstuttri hendingu í ljóði. Allir þekkja orðatiltæki sem lifað hefur með þjóðinni allar götu síðan Einar kom þeim orðum í ljóð; -aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Það virðist vera sem næmni Einars fyrir þessum sannindum hafi umfram annað gert hann mikinn. Og sú aðgát átti ekki einungis við sál okkar mannanna heldur alls þess er prýðir sköpunarverkið.

Í bókinni er frásögn Einars af því þegar hann uppgötvaði hvernig allt tengist og hve mikilvægt er að bera virðingu fyrir öllu og öllum, -alltaf, -og að ekki verði bæði sleppt og haldið. Þar segir hann frá veiðiferð sem hann fór ungur maður út á Sjálfandaflóa. Ég ætla að leifa mér að birta valda kafla úr frásögninni því hún segir mikið um mikilmennsku.

Við vorum þrír á kænunni, kátir ungir og vel nestaðir. Hvað á dauðlegt líf ágætara að bjóða en slíkan dag og þvílíka volduga, dragandi fegurð? Eilífðin brosti í þessari skínandi skuggsjá, hafi öræfanna, og átti um leið náðargeisla handa þeim minnsta smælingja, sem leita vildi upp ljósið frá myrkrum djúpsins. Rétt við vörina vöktu birtingarnir og létu heila heima glitra á hreistrinu. Hrognkelsi sveimuðu á grunni, með blakka, hrjúfa hryggi í vatnsborðinu, til þess að dýrð sólarinnar mætti líta þá og snerta. Landselskóparnir iðuðu í látrunum, sælir og glampandi, með síopin augu. Veldi og skaut norðlenskrar náttúru ríkti yfir öllu á sjó og landi.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Í þetta sinn vorum við óheppnir. Selurinn kom upp langt fyrir aftan bátinn. Ég tók það ráð að leggja upp árar og hafast ekkert að. Ég hafði séð, að þetta var afar stór útselur, af því sama kyni, sem kallast kampur, en þeir eru haldnir ganga næst landsel að skynsemd og forvitni. Selurinn tók dýfu frá bátnum, en ekki mjög langa. Annar hásetinn var neftóbaksmaður, ég lánaði af honum rauðan vasaklút, sem ég lét lafa aftur af stýrinu. Svo biðum við kyrrir, án þess að láta neitt minnsta hljóð heyrast.

Eftir nokkur köf fór kampurinn að færast nær, og loksins kom ég skoti á hann, en hitti illa. Hann tók fyrst langa dýfu, en nú gátum við séð, hvert róa ætti. Bráin á sjónum sagði til og svo fór óðum að draga saman með okkur. Selurinn var auðsjáanlega særður til ólífis. En þá kom það fyrir, sem ég get aldrei gleymt.

Kampurinn tróð marvaða og rétti sig upp, á að giska fimmtíu faðma frá bátnum. Þetta færi var heldur langt fyrir högl, en samt miðaði ég og ætlaði að fara að hleypa af. En þá greyp selurinn til sunds beint á bátinn. Ég hafði heyrt sagt frá því hvernig selir réðust á báta, þegar líkt stóð á. En það var eins og eitthvað óskiljanlegt hik kæmi yfir okkur alla. Við hreyfðum okkur ekki í bátnum og kampurinn rétti sig aftur upp örfáa faðma frá kænunni.

Blóðið lagði úr sári á kverkinni og yfir granirnar. Mér sýndist hann einblína á mig, þarna sem ég stóð í skutnum á selabyttunni með morðvopnið til taks á móti þessum saklausa, forvitna einstæðing hafsins, sem var viðskila við sitt eigið kyn, sjálfur aðeins óvopnaður meinleysingi.

Eflaust hefur sú breyting verið áður að ná tökum á mér, smátt og smátt, að aumkva dýrin eins og mennina, þegar þau eru í nauð eða verða fyrir meiðslum og dauða. Mér finnst það nú til dæmis með öllu óskiljanlegt, hvernig ég hef getað fengið af mér að drepa saklausa fugla mér til gamans, án þess að nein neyð kreppti að mér. Endurminningar um þetta fylla mig oft viðbjóði og andstyggð á minni eigin tilgangslausu og léttúðugu grimmd. En í þetta skipti opnuðust fyrst augu mín. Þessi blóðuga, mállausa ákæra stendur mér oft í hugskoti – en ég hef aldrei fyrr komið mér til þess að færa neitt um það í letur.

Kampurinn gjörði enga tilraun til árásar á bátinn – og svo leið þetta andartak, sem verður að notast með skutli eða áróðri, ef veiðin á ekki að mistakast. En selurinn stein sökk í sama svip – og eitthvað hulið afl lagði þögn og kyrrð yfir þessa litlu bátshöfn, sem fremur hafði lagt af stað í þessa veiðiför af leik heldur en þörf.

Maður í álögum segir gamla sagan! Ég get ekki gjört mér grein fyrir, hve oft ég hef, síðan þetta kom fyrir, hugsað um lið Faraós og sækonur þjóðsagnanna. En óendanlegur tregi og iðrun kemur upp hjá mér, þegar ég minnist þess augnaráðs, sem selurinn beindi á mig, þegar hann hvarf í djúpið.

–Ég hef ætið orðið staðfastari með árum og reynslu í sannfæringu minni um algjört orsakasamband, milli alls og allra. Þessi viðburður, sem er mér svo minnisstæður, hefur sjálfsagt átt að vera mér bending, samkvæmt æðri ráðstöfun. Ef til vill hefur mér verið ætlað, þegar á þessu skeiði æsku minnar, að innrætast einhver neisti af miskunnsemi við aðra, sem máttu sín miður eða báru þyngri byrði.

En hvílíkur fjöldi atvika birtist í örsnöggri svipan fyrir athugulum augum í borgum þúsunda og milljóna, í kvikmyndastraumi strætalífs og skemmtihalla, - þar sem ætið og alls staðar endurtekur sig hin sama saga. Er ekki hamingja heimsins grundvölluð á samanburði auðæva, yfirburða, fegurðar og fróðleiks gagnvart þeim snauðu, gunnhyggnu, miður menntuðu og ósjálegri, er byggja umhverfi staðanna, margir við eymd og tötra? Hver ómælisgeimur af örbirgð og læging þarf að hlaðast undir stétt hinna æðri, sem svo kallast, til þess að þeir geti þóknast sér sjálfum og fundið sinn mikilleik.

Hve ótölulega mörg bleik, deyjandi andlit sökkva í þetta friðaða, lygna yfirborð mannlífsins, sem geymir dauða og glötun? Gangi ég framhjá tötruðum beiningamanni, sný ég stundum aftur. Er blóðug myndin, sökkvandi við borðstokkinn, sem gægist upp úr öræfum minninganna?

Þessi voru orð skáldsins um eigin mikilmennsku á Skjálfandaflóa og hygg ég að samferðamenn hans hafi oft upplifað hana á þennan hátt, því í þeim vitnisburði sem þeir hafa um Einar, -sem hann þekktu, -ber aðgát í nærveru sálar hæðst.

Eitt bros — getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veig heillar skálar.

Þel getur snúist við atorð eitt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Svo oft leynist strengur í brjósti sem brast

við biturt andsvar, gefið án saka.

Hve iðrar margt líf eitt augnakast,

sem aldrei verður tekið til baka.

Eins og sjálfsagt allir vita, sem náð hafa að lesa þetta langt, þá endaði skáldið, heims- og athafnamaðurinn ævina í Herdísarvík á Reykjanesi svo að segja við sjálfsþurftarbúskap, á stað sem ekki var bílfært á á þeim tíma. Það gerði Einar samkvæmt eigin vali.

-KVEÐIÐ Í HERDÍSARVÍK- 

Í æsku hugði ég á hærra stig.

Það heldur fyrir mér vöku,

að ekkert liggur eftir mig

utan nokkrar stökur.  (EB)


Frostaveturinn mikli

Það hefur verið frost á Fróni undan farna daga. Núna tvo síðustu vetur hefur verið kaldara en maður af minni kynslóð á að venjast, nema þá hugurinn reiki aftur í barnsminnið frá því á sjöunda áratugnum. Þá voru nokkur hafísár 1965-1970 og þó svo að ég hafi ekki séð hafísinn, þá var kalt í minningunni á þessum vetrum inn til landsins. Nú tala málsmetandi menn um hamfarahlýnun í frostinu og eins og venjulega eru mestu hamfarirnar Langtíburtukistan.

Það eru samt um næga óáran að ræða þessi dagana á landinu bláa með Reykjanesið rauðglóandi þó svo ekki sé verið að velta sér upp úr hamfarhlýnun í frosti. Sennilega hafa kynslóðirnar frá aldamótunum 1900 búið við hvað best skilyrði frá náttúrunnar hendi hér í landi frá því á þjóðveldisöld.

Jafnvel þó svo að loftslagsvísindin vilji meina að æskilegt sé að meðalhiti jarðar verði í kringum það sem hann var á 19. öld eftir að lítillega var farið að hlýna  aftur eftir litlu ísöld. Þess vegna getur verið fróðlegt að skyggnast aftur í tímann og skoða hvernig árferðið gat verið á Íslandi á hinu gullna viðmiði vísindanna.

Það er ekki svo langt síðan að uppi var fólk sem mundi frostaveturinn 1918 en um frostaveturinn mikla 1882 og veturna þar í kring eru fáar frásagnir enda hefur fólki sennilega þótt rétt að gleyma þeim vetrum eins og hverju öðru hundsbiti.

Í bókinni Gengin spor, sem í eru saganaþættir Þorsteins Matthíassonar, er viðtal við Martein Þorsteinsson f. 23. apríl 1877. Marteinn var 92 ára gamall þegar viðtalið var tekið og segir þar m.a. frá sínum fyrstu minningum í Steinaborg á Berufjarðarströnd.

Fátt eitt man ég úr fyrstu bernsku, þá voru harðindaár og þröngt um hjá öllum almenningi. Veturinn 1881-1882 var geysilega frostharður og mikil ísalög. Hafís komst þó aðeins skammt inn fyrir Djúpavog. Þangað lagði út Berufjörð og eru um þrjár mílur danskar (ca 22 km). Var alls staðar ekið á ísnum landa í milli heim að hverjum bæ.

Árið 1883 var fellisvetur. Þá kom ísinn á síðasta vetrardag. Flestir bændur voru heylausir og þrjár fyrstu vikur sumarsins sanzlaus stórhríðarbylur. Faðir minn slátraði því nær hverju lambi um leið og það fæddist og fóru aðeins ellefu lömb á sumarhaga þetta vor, en fullorðið fé lifði allt. Mér er þetta minnisstætt vegna þess, að eitt þessara 11 lamba var mér gefið.

Í bók Öldu Snæbjörnsdóttir frá Þiljuvöllum á Berufjarðarströnd, -Dvergasteinn, sem er stórmerkileg samantekt munnmæla og þjóðasagna frá Berufirði, Djúpavogi, Hamarsfirði og Álftafirði, er munnmælasaga sem hún skráir eftir Emil Björnssyni manni sínum. Emil var flest sumur æsku sinnar á Teigarhorni við sunnan verðan Berufjörð, -gengt Steinaborg sem er á ströndinni  norðanverðri.

Það má ætla að þessi munnmæla saga á Teigarhorni sé frá sama ísavetri og Marteinn getur um í æskuminningum sínum í Steinaborg, þegar hafís var við Berufjörð og lagís á firðinum. En hafís hefur ekki komið inn á Djúpavog við Berufjörð síðan 1968, að ég held, og þótti þá viðburður.

Til eru ljósmyndir af hákarlaskútum innilokuðum í ís á Djúpavogi, teknum af Nikólínu Weywadt frá því á árunum í kringum 1900. Nikólína lærði ljósmyndun fyrst kvenna á Íslandi og bjó á Teigarhorni þar sem hún stundaði veðurathuganir fyrir veðurstofuna. Amma Emils, sem hann hefur munnmælasöguna eftir, er systurdóttir Nikólínu.

Sagan sem Emil hefur eftir ömmu sinni er svona.

Ein er sú saga sem Hansína Regína Björnsdóttir amma mín sagði mér oft, en það var sagan af vinnukonunni á Búlandsnesi og bjarndýrinu. Átt þessi atburður að hennar sögn að vera dagsannur og gæti hafa gerst á hafísárunum fyrir aldarmótin 1900.

Einn ísavetur gekk hvítabjörn á land í nágrenni Teigarhorns. Sást fyrst til hans niður á Teigum, sem er talsvert breitt flatlendi er gengur í sjó fram skammt fyrir innan Teigarhorn. Fljótlega fór bjarndýrið að færa sig upp eftir og hafði fólkið á bænum allan vara á sér, ef ske kynni að hann tæki stefnuna þangað. En björninn hélt áfram í rólegheitum upp alla Teiga og snuðraði öðru hvoru í jörðina eins og til að leita slóða. En hvítabirnir sjá ákaflega illa og nota þefskynið til að leita að bráð. Áfram hélt hann upp mýrarnar fyrir ofan og stefndi í átt að Hálsunum.

Skyndilega var eins og ísbjörninn hefði veður af einhverju því hann herti á sér. Þá sá fólk sér til skelfingar, hvar kvenmaður kom úr gagnstæðri átt yfir Hálsana og hélt sem leið lá niður að Dvergastein, stóran ferhyrndan klett utan í hlíðinni. Bilið á milli bjarnarins og stúlkunnar styttist nú óðum.

Þau nálguðust Dvergasteininn sitt úr hvorri áttinni vinnukonan og hvítabjörninn og náðu þangað svo til samtímis. Fólkið horfði á og bað guð, að hjálpa sér og aðrir bölvuðu í hljóði, þegar bjarndýrið lagði af stað í kringum klettinn. Næstum í sömu andrá birtist stúlkan hinu megin á niðurleið. Þannig gengu þau sitthvoru megin við Dvergastein, vinnukonan og ísbjörninn, að hvorugt sá hitt.

Þá fann björninn slóð stúlkunnar fyrir ofan klettinn og rakti sig á harðahlaupum eftir henni upp yfir Hálsana, þar sem hann hvarf sjónum suður af. En vinnukonan hélt hin rólegasta niður á við og sveigði síðan inn með í áttina að Urðarteigi, þangað sem för hennar var heitið. Hafði hún ekki orðið vör við neitt óvenjulegt á ferðalagi sínu.

Það má ætla að gönguferð þessa ísbjarnar hafi endað í Hamarsfirði. En Hálsarnir, sem getið  er um í sögunni, liggja á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar. Ingimar Sveinsson frá Hálsi í Hamarsfirði fer með munnmæla sögu af ísbjarnardrápi í Hamarsfirði frá þessum árum sem getið er í bókinni Dvergasteinn. Svona er sú saga.

Hér segir frá hvítabirni í nágrenni Djúpavogs kulda- og frostaveturinn 1882, en Álftfirðingar á leið í kaupstað komu fyrstir auga á björninn inn með Hamarsfirði. “Þennan hvítabjörn sáu Álftfirðingar í Rauðuskriðubotninum er þeir voru í kaupstaðarferð og gerðu skotmönnum á Djúpavogi aðvart.”

Hafa Álftfirðingar að öllum líkindum farið sjóleiðina yfir fjörðinn frá Melrakkanesi (þá á ís) eins og oft var gert á þessum árum. Þegar Hans Lúðvíksson í Sjólyst kom á vettvang með byssuna, hafði ísbjörninn fært sig nær byggðinni og var kominn út á hólinn rétt hjá prestssetrinu á Hálsi. Þar var björninn síðan felldur áður en hann náði að gera nokkurn óskunda af sér.

Þess má svo geta að ísbjarnarskyttan Hans Lúðvíksson var kominn út af Hans Jónatan, manninum sem stal sjálfum sér, fyrsta innflytjandanum sem settist að á Íslandi af Afrískum uppruna. Hansína Regína á Teigarhorni var langafabarn sama Hans Jónatans.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband