Færsluflokkur: Landsins-saga

Brýrnar breyttu öllu

Nýja brúin yfir Ölfusá

Með söknuði kvaddi ég Ísland, sem ég fæ aldrei framar að sjá. Ég verð að viðurkenna, að á þessum fáu vikum, sem ég var þar, varð land og þjóð mér innilega kært.

Ísland er algjör andstæða hinna suðrænu landa. En hin dásamlega tign fjallanna og hin þögla náttúrufegurð hlýtur ósjálfrátt að hrífa huga manns.

Aðdáunarverð er sú þjóð, sem hefur barist við slíka örðugleika og sýnt kjark sem Íslendingar. Þeir geima enn helgar minningar fortíðarinnar af slíkri tryggð, að bröltið og bramlið í Evrópu hefur ekki spillt þeim.

Og í baráttu fyrir frelsi og sjálfstæði hafa fáar þjóðir sýnt jafn mikla þrautseigju og þolgæði. Þjóðmenning þeirra byggist á erfðavenjum og þeir hafa ekki látið glepjast af gyllingu yfirborðsmennsku nútímans.

Og þó nokkrir Íslendingar komist í kynni við hámenninguna, þá býr þeim jafnan heimþrá í brjósti. Og það er eitthvað stórfellt og göfugt við þessa ást til hins fornfræga Sögulands. (Ísl sagnaþættir III bls bls 142)

Þetta skrifaði Alexander Baumgartner í ferðasögu sinni árið 1883, þegar hann fór með strandferðaskipi norður um land til Austfjarða. Hann hafði ákveðið að ferðast um landið á sjó með ströndum frekar en á landi. Strandferðaskipið, sem hann kallar "Thyra", stoppaði í fjölda hafna á leiðinni frá Reykjavík til Eskifjarðar og gerir hann þar upplifun sinni skil í ferðasögu sinni.

Það kemur fram m.a. að Alexander telur sig heppinn að hafa tekið þessa ákvörðun frekar en að ferðast landveg með kunningja sínum sem ætlaði sömu leið á hestum ásamt fleyrum, en kom fárveikur og búin á því um borð á Sauðárkróki. En meira af frásögnum Alexanders Baumgartner síðar.

Já ég er dottin í sagnaþætti, en það eru bókmenntir, sem gefa oft glöggar upplýsingar um líf venjulegs fólks í landinu, oftast skrifaðir af sérvitringum sem vildu ekki að saga þess hluta landsmanna, sem kallast almenningur, glataðist. Svona nokkurskonar og draugasögur í björtum þjóðsagnastíl. 

Það er ekkert nýtt hér á síðunni að vitnað sé í svona sögusagnir en í þessum pistli ætla ég að tína til hvað svona sagnaþættir segja óbeint um brýrnar yfir boðaföllin og jökulvötnin, enda er helsta deilumálið nú á dögum hversu dýrar brýrnar megi verða þegar kemur að listfenginni hönnun og hversu mikið sé réttlætanlegt að rukka vegfarendur fyrir að fara um slíka skúlptúra.

Landið var svo til án brúa á dögum Alexanders þó hafði lengi verið brú yfir Jökulsá á Dal, hina horfnu fornu Jöklu sem einnig er kölluð Jökulsá á Brú. Það stendur hins vegar ekki til að minnast á hana hér né gera þeim brúm eiginleg skil sem minnst er á, heldur segja sögur sérvitringana úr sagnaþáttunum.

Það birtust hér á síðunni stuttar frásagnir úr Endurminningum sr Magnúsar Blöndal Jónssonar fyrir nokkur árum og þar var ein um hvernig var umhorfs við Ölfusá þar sem brúin er núna og gefur sú frásögn glögga lýsingu á því hvernig Ölfusárbrú, sem byggð var 1891 - stuttu fyrir Íslandsför Alexanders, breytti öllu.

 

Ölfusá

 “Þá man ég næst eftir Ölfusá, þar sem við stóðum á árbakkanum hjá ferjunni, er flaut við bakkann, fyrsta bátnum, er ég hafði séð á ævinni. En engir voru þar hestar. Og er ég spurði um þá, var mér bent niður eftir ánni. Sá ég þá á hinni breiðu lygnu nokkru fyrir neðan okkur eins og röð af þúfum, sem mér var sagt að væru hestarnir á sundi. Loks fannst mér ég skilja þetta, þó ég ætti bágt með að átta mig á því, enda hafði ég aldrei séð neina skepnu á sundi fyrr. Varð svo nokkuð jafnsnemma, að farið var að koma okkur fyrir í ferjunni og hestarnir fóru að tínast upp úr ánni hinumegin.

Árið 1932 kom ég í annað sinn á þessar slóðir, þá á bílferð frá Reykjavík til Selfoss og Eyrarbakka. Þegar við nálguðumst Ölfusána, kannaðist ég við alla afstöðuna frá bernskuferðinni: Áin var lygn og breið til vinstri, allt út að sjó, og fjallið til hægri, nokkuð þverhnípt og bratt, en síður en svo ægilegt eins og mig minnti. Og þá fyrst vissi ég, að þetta hafði verið Ingólfsfjall, og þá skildi ég að leið okkar fyrrum hafði legið upp Grafning.”

(Úr Endurminningum sr Magnúsar Blöndal Jónssonar (I bindi bls 30-31) , af margra daga ferðalagi fjölskyldunnar þegar hún flutti frá Miðmörk undir Eyjafjöllum í Prestbakka við Hrútafjörð árið 1867, þegar Magnús var um 5 ára aldurinn. - Mynd; Ísl. Þjóðlíf II bindi bls 394. Við Ölfusá, algengur ferðamáti yfir stórárnar. Menn voru ferjaðir í bátum, en hestarnir sundreknir. Daniel Bruun – R. Christiansen.)

 

Lagarfljótsbrú

Í bókinni Að Vestan II-Þjóðsögur og sagnir - eru sögur sem varðveittust í vesturheimi, innheldur II bindið sagnaþætti Sigmundar M Long. Þegar ég las þessa sagnaþætti þá áttaði ég mig á því að Sigmundur ólst upp á þeim stöðum sem ég fer um dags daglega og þar mátti sjá hvernig líf fólks var háttað áður en Lagarfljótsbrúin kom til árið 1905. Sagan af Ingibjörgu Jósefsdóttir gaf góða innsýn í hvernig var að fara um fyrir einni og hálfri öld áður en Lagarfljóts- og Eyvindarárbrýrnar vor byggðar, brýr sem ég fer um hugsunarlaust nánast daglega, -stundum oft á dag.

Lagarfljótsbrúin var lengsta brú landsins allt til ársins 1973, fyrsta brúin yfir Eyvindará er talin hafa verið byggð 1879. Lagafljótið skiptir Fljótsdalshéraði að endilöngu og allt til loka 20. aldar var N-Múlasýsla fyrir norðan Fljót og S-Múlasýsla fyrir austan Fljót. Það var svo ekki fyrr en á 21.öldinni sem bæirnir Egilsstaðir og Fellabær, -sitt hvoru megin við brúarendann, urðu sameiginlegt sveitarfélag. Fyrir utan Eyvindará var Eiðaþinghá og þaðan lá leiðin niður á firði, um Fjarðarheiði á Seyðisfjörð, upp Eyvindardal um Eskifjarðaheiði á Eskifjörð og um Slenju yfir Mjófjarðarheiði á Mjóafjörð.

Í bókinni Að vestan II eru tvær sögur af niðursetningum í Fellahreppi (fyrir norðan Fljót) sem Sigmundur M Long skráði eftir að hann flutti til Vesturheims.

Önnur saga Sigmundar er frá hans samtíma, en þar segir hann frá Ingibjörgu gömlu Jósefsdóttir. Hann segir frá því þegar hún kom í heimsókn á hans bernskuheimili á Ekkjufelli um miðja 19. öld, lýsir henni sem lítilli konu, hörkulegri fjörmanneskju, greindri í betra lagi og skap mikilli.

Ingibjörg var Eyfirsk að uppruna, átti til að drekka vín og var hálfgerður flækingur í Fellum. Ef henni var misboðið, þá fór hún með illyrði og bölbænir, en fyrirbænir og þakklæti ef henni líkaði. Hann segir að Ingibjörg hafi verið næturgestur hjá foreldrum sínum og beðið þeim margfaldrar blessunar þegar hún kvaddi.

Hún hafði átt eina dóttir sem einnig hét Ingibjörg. Maður, sem kallaður var Jón Norðri af því að hann var að norðan, hafði barnað Ingibjörgu dóttir Ingibjargar og dó hún af barnsförunum. Taldi gamla Ingibjörg Jón banamann dóttur sinnar og hataði hann bæði lífs og liðinn.

Þau Jón og Ingibjörg hittust einhverju sinni á Egilsstaðanesi og var Jón þá drukkin á hesti en Ingibjörg gamla algáð og fótgangandi. Bæði voru á leiðinni út fyrir Eyvindará og bauð Jón henni að sitja fyrir aftan sig á hestinum svo hún þyrfti ekki að vaða ána.

Ingibjörg þáði þetta, en þegar komið var á hinn bakkann var hún ein á hestinum, en Jón drukknaður í ánni. Hún Guð svarði fyrir að hún hefði verið völd að dauða Jóns, en ekki tók hún þetta nærri sér og sagði að fjandinn hefði betur mátt hirða Jón, þó fyrr hefði verið.

Sigmundur hitti Ingibjörgu aftur þegar hún lá í kör á Ási í Fellum. Þá var hún farin að sjá púka í kringum sig og fussaði og sveiaði um leið og hún sló til þeirra með vendi. Á milli bráði af henni og hún mundi vel eftir foreldrum Sigmundar og blessaði þá í bak og fyrir, þarna var Ingibjörg háöldruð orðin ómagi á framfæri sveitar.

Hún átti samkvæmt reglunni sveit í Glæsibæjarhreppi í Eyjafirði, en þaðan var borgað með henni sem niðursetningi því ekki vildu þeir fá hana norður, og varla var tækt að flytja hana hreppaflutningum svo langa leið háaldraða og veika. Á seinasta aldursári Ingibjargar barst sú frétt með Héraðsmanni í Fell, sem hafði verið norður í landi, að Eyfirðingum þætti Ingibjörg vera orðin grunsamlega langlíf.

Um veturinn kom Glæsibæjarhreppstjórinn í Fell eins og skrattinn úr suðaleggnum. Vildi þá svo óheppilega til að Ingibjörg var dáin þremur mánuðum áður, en Fellamenn gátu sýnt honum kirkjubókina svo hann mætti sannfærast um að Fellamenn hefðu ekki látið þá í Glæsibæjarhreppi greiða með henni dauðri.

Í þessari bók Að vestan eru miklar heimildir um samfélag þess tíma og má ætla að þar sé sagt tæpitungu laust frá, enda sögurnar skráðar í fjarlægð við það fólk sem þær gátu sært. Sagnaþættir Sigmundar eru í raun mun merkilegri heldur en bara sögurnar, því þar lýsir hann einnig staðháttum og samgöngum.

Frásögnin af Ingibjörgu gömlu og Jóni Norðra á Egilsstaðanesinu á leið yfir Eyvindarána hefur líklega gerst þar sem Egilsstaðaflugvöllur er nú og hefur ferðinni væntanlega verið heitið út Eiðaþinghá eða niður á Seyðisfjörð.

Á þessum tíma var hvorki brú yfir Eyvindará né Lagarfljót, en ferja frá Ferjusteinunum í Fellbæ, sem eru rétt innan við norður enda Lagarfljótsbrúarinnar. Ferjan sigldi þaðan yfir í Ferjukílinn sem er rétt utan við austur enda brúarinnar og nær að suður enda flugvallarins. Lögferju var lengst af sinnt frá Ekkjufelli og má ætla að Skipalækur þar sem ferðaþjónusta er í dag neðan við golfvöllinn á Ekkjufelli, beri nafn sitt af lægi ferjubátsins.

 

Brín yfir Jökulsá í Öxarfirði

Upp síðkastið hef ég verið að lesa Sagnaþætti Benjamíns Sigvaldasonar sem hafa að geima fágætar sagnir af Melrakkasléttu og úr Öxarfirði. Benjamín sagðist finnast lítið hafa varðveist af sögnum úr N-Þingeyjasýslu og ákvað að safna saman þeim sögnum sem hann þekkti og gefa út í kiljum.

Mér áskotnuðust þessir sagnaþættir í búð Rauðakrossins þar sem hægt er að fá fágætar bækur úr dánarbúum, sem erfingjarnir kæra sig ekki um, á vægu verði. Þegar ég skar mig í gegnum þessi hefti, síðu fyrir síðu, las ég frásögn Benjamíns af því þegar brúin yfir Jökulsá á Fjöllum var byggð niður í Öxarfirði árin 1904-1905.

"En afdrifaríkast af öllu voru þó áhrifin, sem allt þetta hafði á hið kyrrláta sveitalíf í nágrenninu. Öldum saman hafði þarna ríkt kyrrð og friður, og sambandið við umheiminn verið lítið sem ekkert.

Allt var bundið gömlum vana og fornri hefð. En nú breyttist þetta í einni svipan. Jafnvel gamlir og grónir bændur stukku frá orfum sínum í bestu rekju eða frá heyjum í ágætum þurrki, ef þeir áttu kost á því að flytja nokkra poka af sementi að brúnni eða þá selja brúarmönnum nokkrar flatkökur og eina smjörköku.

Þarna voru krónur í boði, og það var aðalatriðið. En ekki þurfti ætið peninga til. Ef höfðingja bar að garði, þá voru ýmsir fúsir til þess að ríða út með þeim um hásláttinn, eða fara með þeim á blindfyllirí." (Sagnaþættir Benjamíns Sigvaldasonar III bindi bls 186)

Ég ætla að láta Alexander Baumgartner, sem inngangsorð pistilsins eru fengin frá, -eiga loka orðin í þessum pistli þegar hann lýsir samgöngumáta íslendinga áður en brýnnar breyttu öllu.

"Eftir veginum kom hópur ríðandi kvenna og manna. Þegar kvenfólk ferðast fer það alltaf í bestu fötin sín. Reiðpilsin þeirra eru síð og þær sitja í söðlinum tígurlegar eins og valkyrjur. Þegar maður horfir á slíkan hóp og hinn einkennilega klæðnað, gæti maður trúað að maður væri kominn suður í einhvern friðsælan Alpadal.

Svo gengur stöðugt “sæll” og “sæl” og fólkið kyssist mörgum kossum. Konunum er boðið inn að þiggja kaffi. En karlmennirnir, sem eru ekki líkt því eins vel klæddir, þurfa að hugsa um hestana, og svo skreppa þeir inn í búð til að fá sér brennivín og taka úr sér hrollinn." (Landinn kemur í kaupstað-Ísl sagnaþættir III bls 135)

"Á eftir fórum við á hestbak – það er óumflýjanlegt á Íslandi. Fái Ísland einhvertíma  sæmilega vegi og brýr, eða járnbraut, þá verður það eins og önnur lönd. En nú er það mjög frábrugðið, því það verður ekki komist af án hesta.

Alt verður að fara á hestum: til skírnar og jarðarfarar, í skóla og á engjarnar, til kirkju og alþingis, í kaupstaðinn og læknisvitjun. Frá blautu barnsbeini er hesturinn félagi allra manna og kvenna og fólkið lifir þannig frjálsu útilífi, sem ekki þekkist í hámenningunni.

Á þennan hátt verða menn hraustir og fyrirmannlegir. Hver maður er sinn eigin herra, smiður, lögfræðingur og jafnvel læknir. En ef þeir hætta að nota hestana, þá breytist þetta allt saman." (Ísl sagnaþættir III bls bls 140) 


Þjóðsaga

Hún hefur verið frekar blökk birtan á landinu bláa þetta sumarið, og hér austanlands voru dagarnir venju fremur dökkir í ágúst. Ég hef haft lítinn áhuga á að blogga undanfarið, er því sem næst hættur að fylgjast með fréttum og hef því lítið um að skrifa sem ekki má allt eins geyma í skúffunni.

Að skrifa bók daganna á blogg er nánast næsti bær við “æ góði bestu þegiðu” -hvað vinsældir og að vekja áhuga varðar, þegar sóst er eftir því þá er árangursvænna að súpa af krananum.

IMG_8906

Þó má segja frá því, -sem nokkurskonar frétt, að ég fékk heiðursmenn í heimsókn þegar skammt var liðið á ágúst, amerískan prófessor, -Adam Nichols, og mbl bloggara, -Jóhann Elíasson. Við gömlu mennirnir höfðum með okkur góðan félagskap í þrjá daga í Austfjarðaþokunni, og tvo þeirra með kvikmyndatökumanninum, -Hjalta Stefánssyni. þessir dagar voru ætlaðir til töku á punktum í heimildamynd um Tyrkjaránið 1627 sem styttist í að 400 ár verði liðin frá.

Þessir kvikmynda upptökur eru framhald 5 sjálfstæðra bóka sem sagnfræðingarnir Karl Smári Hreinsson og Adam Nichols hafa gefið út á ensku um Tyrkjaránin á Íslandi. Hafa sumar verið þýddar á fjölda tungumála og til stendur að þýða þær yfir á eina íslenska. Mín aðkoma að verkefninu var að benda á sögustaðina á Austurlandi. En Jóhann Elíasson bloggar hafði lesið blogg hjá mér, fyrir mörgum árum síðan, og bent þeim Karli og Adam á að þeir skildu tala við mig ef þeim vantaði staðkunnugan mann.

Töku dagarnir voru langir, víða farið og reynt að ná örstuttum punktum á söguslóðinni innan um túristavaðalinn. Að kvöldi var spjallað um heima og geima og hvílst á Sólhólnum úti við ysta haf yfir nóttina, og að morgni borðaður hafragrautur úti á palli við öldunnar nið í Þúfnafjörubásnum. Að morgni þriðja samverudags kom til tals hjá prófessornum að þetta væri orðin lengsti samfeldi kafli í lífi hans án internetssambands og heimsfrétta á þessari öld, -and it feels great I have to say.

Þar sem mér hefur oft fundist það brenna við hjá fræðimönnum að þeir vantreysti þjóðsögunum, sem hverri annarri steypu, þá hef ég í kynnum mínum við þá sagnfræðiprófessorana haldið því til streitu sem finnst í þjóðsögunum um Tyrkjaránið austanlands. Enda er öll hin íslenska Tyrkjaránssaga í grundvallaratriðum þjóðsaga, og þykir úti í hinum stóra heimi einmitt merkileg sem slík.

Það er nefnilega svo til einstakt í heimsögunni að sagnir frá venjulegu fólki um upplifun þess af því að hafa verið rænt, og flutt í hlekkjum á markaðstorg, þar sem það var selt mansali skuli fyrirfinnast. Varðandi Tyrkjaránið á Íslandi eru til þannig sagnir í bundnu máli svo sem Reisubók séra Ólafs Egilssonar úr Vestamannaeyjum og bréfaskriftir þeirra Guttorms Hallsonar ungs manns frá Búlandsnesi á Djúpavoga, Guðríðar Símonardóttir (Tyrkja Guddu) úr Vestmannaeyjum sem varð eiginkona séra Hallgríms Péturssonar sálmaskálds og Jóns Jónssonar frá Járngerðarstöðum í Grindavík.

Aðrar Evrópu þjóðir, sem urðu fyrir því sama, eiga kannski opinber gögn um hvar fólki var rænt, hversu mörgum og hvert það fór, en engar heimildir frá fólkinu sem fyrir þessu varð s.s. persónulegar sagnir um afdrif þess. Opinber gögn köllum við staðreyndir en ekki þjóðsögur. Á meðan þjóðsagan er í raun sú staðreynd sem byggð á reynslu almúgans, og getur jafnvel verið sannari eftir að sagan hefur farið í gegnum fleiri, er þá til frá mörgum hliðum. Þá er þjóðsagan oftast orðin ýtarlegri staðreynd en opinbera sagan sem er lítið annað en einhliða opinber fréttatilkynning.

Þetta höfum við Íslendingar, sem þjóð, alltaf vitað. Enda varðveittum við Fornaldarsögur norðurlanda, rituðum Íslendingasögurnar og höfum átt fjölda þjóðsagnasafnara í gegnum tíðina sem hafa skráð sögu okkar eftir munnmælum almúgafólks og er þannig orðið til saga þjóðar á íslensku. Ég hef stundum sagt við þá prófessorana að þeir eigi eftir að gera sig og þessa þjóðsögu um Tyrkjaránið á Íslandi heimsfræga.

Síðasta samverudag okkar gömlu mannanna, sem var án kvikmyndatökumannsins, fórum við á Djúpavog, minn gamla heimabæ. Þar sýndi ég prófessor Adam stað, sem nánast er kominn undir hringveginn, þar sem kona frá Hamri bar beinin eftir að Tyrkir höfðu misþyrmt henni. Þjóðsagan um konuna á þessum stað kom í ljós snemma á 20. öldinni og var skráð af dr Sigurði Norhdal.

Það er of langt mál að segja þá þjóðsögu hér eða hversu magnaður og vandfundinn þessi staður er, en frá því hef ég áður sagt í bloggi um Krossflöt. Ég sýndi Adam staðinn vegna þess að mér fannst lítið hafa síast inn í kollinn á prófessornum um sannleiksgildi þjóðsögunnar.

Þegar við stóðum þar í vegakantinum með túristavaðalinn brunandi á öðru hundraðinu eftir þjóðveginum svo hárið á okkur þyrlaðist í kjalsogi bílaleigubílanna sagði Adam mér þá frá stað við Stonehenge sem hann hafði komið á, þar sem stórbrotin tilfinning hefði gripið hann svo hann settist niður hljóður og sat með sjálfum sér þar til samferðahópurinn kom og raskaði ró hans og leiðsögumaðurinn sagði þú hefur þá fundið staðinn á undan okkur.

Hann spurði mig hvað heldur þú að hafi getað orsakað þessa undarlegu tilfinningu. Ég var snöggur til svars og sagði honum að sumir staðir geymdu mikla sögu og hefðu minni, sem engar heimildir væru til yfir, og þannig staðir gætu talað til manna sem hlustuðu. Hann leit í augun á mér og kinkaði kolli.

IMG_8916


Hindurvitni og kynjasögur

Nú er fyrsti dagur í sumarfríi og þó svo að helgin hafi verið köld þá lofar þjóðtrúin framhaldinu góðu. Nýtt tungl var á föstudag og stórstreymi í gær. Samkvæmt gömlum hindurvitnum á veðrið ekki að geta klikkað og fræðingarnir spá nú 20°C og yfir ágerist þegar á vikuna líður hér Austanlands, en slíkt hefur aðeins gerst einu sinni það sem af er sumri.

Það styttist því í að setið verði á sólpallinum úti við ysta haf og horft út á hafið bláa hafið yfir á Kambanesið við prjónaglamur og kaffiilm. Sólhóll, guli bárujárnshjallurinn okkar Matthildar minnar, stóð áður á Kömbum á Kambanesi, eða allt til ársins 1944 en húsið var byggt á Kömbum fyrir hart nær hundrað árum.

Í tilefni þessa ætla ég að setja hér inn kynjasögu sem er brot úr frásögn sem birtist í nýjasta hefti Múlaþings, -og mér þykir stórmerkileg. Ekki bara fyrir tenginguna við Kamba, heldur vegna þess að þar segir ungur drengur þjóðsögur. Þetta er brot úr endurminningum Guðbrands Erlendssonar sem fluttist ungur til Kanada og bjó síðar í N-Dakota.

Amerískur fræðimaður fann handrit Guðbrandar eftir hans daga og þótti skrifin merkileg. Kom til landsins og alla leið austur á Kambanes og fékk Sturlaug Einarsson á Heyklifi á Kambanesi til að sýna sér staðhætti. Síðar sendi hann Stulla vini mínum kafla úr handritinu sem tekur til ára Guðbrands á Kömbum á milli 5 og 11 ára aldurs.

Það er ótrúlega margt sem kemur fram í þessu stutta handriti, sem í vor var birt í ritinu Múlaþing, er kastar ljósi á mikla atburð. Sagnir sem hingað til hafur ekki verið hægt að heimfæra á sannfærandi hátt því brot af sögu þessari eru einungis til í þjóðsagnasöfnum. 

Fyrir tveimur árum birti ég frásögn Guðjóns Brynjólfssonar Sjóhrakningur frá Djúpavogi til Vestmannaeyja en þar er sagt frá fiskibátnum Hamarsfirði. Margt í þeirri frásögn hafði hnikast til um ættlið og varð því þjóðsaga en ekki talin áreyðanleg heimild.

Í byrjun frásagnarinnar af seglbátnum Hamarsfirði er sagt frá hákarlaskútunum á Djúpavogi og dapurlegum afdrifum nokkurra þeirra. Í handriti Guðbrands er nákvæm lýsing á hvað kom fyrir hákarlaskúturnar og hvað þær hétu.

Svona getur nú þjóðsagan verið merkileg þegar kurl koma til grafar. Reyndar er mun fleira stórmerkilegra sagna í þessu stutta endurminningabroti ungs drengs frá Kömbum á Kambanesi frá miðri 19. öldinni en það sem hér birtist. Móðir Guðbjartar átti t.d. 3 eiginmenn og missti þá alla áður en hann varð 6 ára, tvo í hafið og faðir Guðbrandar, sem var í miðið, -úr lungnabólgu.

Hann segir frá skyggni móður sinnar þegar þriðji eiginmaðurinn fórst á sjó við Kambanes og orðum hennar; -mér er ekki tamt að æðrast en nú er öll von úti. Og þegar nágranni kom í Kamba  til að tilkynna henni sjóslysið; -þú munt kominn til að segja mér sorgartíðindi, segðu mér allt sem þú veist um þau, ég er undir það búin að hlusta á þau. Og þegar komumaður lauk máli sínu; -enn á ný hef ég mikið misst, -en Guð gaf og Guð tók, sé nafn hans vegsamað. Hann gaf mér þrjá ágætismenn, hann átti frjálst með að kalla þá á undan mér.

Þó svo að nú sé sumar og gleðjist gumar því gaman er í dag og brosi veröld víða veðurlagsins blíða, þá ætla ég að hefja þessa blíðviðrisviku í sumarfríinu á því að birta frásögn Guðbrandar frá Kömbum af bátabylnum eins og hún er í Múlaþing. En til að skilja til fulls hversu merkileg hún er er rétt að lesa líka frásögn Guðjóns Brynjólfssonar af sjóhrakningnum frá Djúpavogi.

Færeysk skúta 1944  mynd Björn Björnsson

Færeyingar gerðu út skútur lengur en Íslendingar, hér er ein slík á Stöðvarfirði sumarið 1944, sama sumar og húsinu á Kömbum var fleytt af Kambanesi yfir Stöðvarfjörð þar sem það fékk nafnið Sólhóll

 

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Bátabylurinn

Hvort hinn svonefndi Bátabylur átti sér stað vorið 1850 eða árið 1849 get ég ekki sagt með vissu en það sem ég man til hans er þetta. Ekki “blöktu hár á höfði”, ég geng með mömmu út að fiskiklöppinni, þar fleygja þeir upp fiski úr Spes, faðir minn og Ólafur á Einarsstöðum binda hana svo við klöppina til þess strax og þeir höfðu neytt miðdegisverðar að sækja aðra hleðslu út á Stöðvarfjörðinn.

En þegar þeir voru að stíga í bátinn brast í byl svo snarpan að þeir áttu erfitt með að koma bátnum í naustið. Grimmdarfrost og fannkynngi hélst upphaldslaust í marga daga. Loks þegar veður þetta hætti gerði logn og sást þá frá Gvendarnesi bátur er barst með sjávarfalli. Reyndist þetta vera Morgunnroði, skipaður dugandi mönnum er allir höfðu látið lífið og lágu í bátnum.

Það var mál manna að þeir hefðu haldist við undir skeri á milli Skrúðs og lands. Morgunnroði hafði dekk í fram og afturskut, opinn í miðju, sömuleiðis setubátarnir Fortúna og Berufjörður. Eina skipið sem bjargaðist var þilskipið Bóthildur, sex lesta skip, var formaður hennar Einar á Streiti, tengdafaðir Sveins Pálssonar. Einn af hásetum hennar var Sigurður föðurbróðir minn.

Ég man eftir ýmsu er ég heyrði hann segja föður mínum rétt eftir bylinn. Bóthildur lá til drifs meðan á veðrinu stóð. Urðu skipsmenn því ekki lítið undrandi er þeir sáu Fortúna með segl uppi skjótast fram hjá þeim, það var það seinasta sem til hennar sást. Ekki gátu þeir á Bóthildi eldað sér mat, gerðu þó tilraun til þess, en þeir höfðu skjólið undir þiljum, það hélt í þeim lífinu. Þegar veðrinu létti hafði þá drifið langt í haf. Tók það langan tíma að sigla til lands.

Á öllum þessum bátum voru eftir því sem ég heyrði sagt úrvals menn. Hér tek ég upp sögu sem er ég heyrði Höskuld Bjarnason á Þverhamri segja:

“Við skutum út bát fjórir saman og rerum út til flæmskrar fiskiskútu sem lagst hafði innarlega á Breiðdalsvíkinni. Eins og við áttum að venjast tóku Flandrarar vel á móti okkur. Eftir þáðar veitingar undir þiljum stönsuðum við á dekkinu, gengur þá að mér einn skipsmaðurinn, horfir stíft á mig og spyr “Heitir þú Höskuldur?” Ekki átti ég því að venjast að heyra nafn mitt svona skýrt nefnt af útlendum manni eins og maður þessi gjörði, játa því og spyr hvernig honum sé kunnugt um nafn mitt, “af því” segir hann, “að þú ert svo líkur bróðir þínum Stefáni”. “Hvar hefur þú séð hann?” spyr ég. “Tvö ár eru liðin síðan við landsmenn mínir vorum hér undan landi í því versta veðri sem ég hef litið. Það var á öðrum degi bylsins að skip það er ég var háseti á bar að bát sem var að sökkva í bylgjur hafsins. Það eina sem við gátum gert fyrir vesalings skipshöfnina var að kasta út kaðli um leið og okkur bar framhjá bátnum. Þrír náðu haldi á kaðlinum er við skjótlega drógum inn í skipið. Þeir voru Stefán bróðir þinn, Brynjólfur Jónsson og danskur maður sem var kapteinn bátsins. Lét ég í ljós að mér þætti þetta ekki sennilegt: “Óhætt er þér að trúa því sem ég segi og því til sönnunar get ég sagt þér að Stefán á hér konu og börn en ekki mun hann hingað leita því hann er giftur og á búgarð í Frakklandi”.

Gleymt hef ég hvað hann sagði börnin mörg en rétt sagði Flandrarinn um það. Höskuldur sagðist ekki hafa ástæðu til að rengja þessa sögusögn, spurði manninn hvort hann gæti komið bréfi til bróður síns og játaði hann því, “en ekkert hef ég fengið svar upp á bréfið sem ég skrifaði bróðir”, sagði Höskuldur.

Þórunn í Snæhvammi var kona Stefáns þessa og Jón maður Guðrúnar Vigfúsdóttur sonur þeirra. Guðrún kona Ólafs Einarssonar var dóttir þeirra en Erlendur Höskuldsson sem ég minntist á í Markland var sonur þess hér oft nefnda Höskuldar. Brynjólfur Jónsson var sonur Guðnýjar á Reyðará í Lóni, hún var systir afa, Brynjólfs á Hlíð í Lóni.

Þetta þótti kynjasaga en sökum rökfærslu hásetans var henni trúað. Yfirleitt þótti það kynlegt að mennirnir skyldu ekki vitja átthaga sinna, sögðu þá sumir að það væri nú ekki svo óskiljanlegt með Stefán því kalt hefði verið með þeim hjónum en hvað Brynjólf snerti væri það ráðgáta.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Þarna koma sömu skipsnöfn fram á hákarlaskútunum sem fórust frá Djúpavogi og í Hrakningasögu bátsins Hamarsfjarðar til Vestamannaeyja, þ.e. Morgunnroði og Fortúna auk þess nafn þriðju hákarlaskútunnar sem fórst -Berufjörður, en nafn hennar þekkti Guðjón Brynjólfsson ekki í frásögn sinni sem birtist Þjóðasagnasafninu Grímu. Ekki hef ég séð þess getið annarstaðar að allar þessar hákarlaskútur hafi farist í einu og sama veðrinu.

Eins kemur nafn Brynjólfs frá Hlíð í Lóni fram í báðum frásögnunum og ýmis fjölskyldutengsl. Virðast Guðný móðir Guðbrands Erlendssonar og Hildur amma Guðjóns Brynjólfssonar hafa verið systur báðar Brynjólfsdætur frá Hlíð í Lóni. Þarna eru brot úr stórri sögu skútuútgerðar til hákarlaveiða við Ísland varðveitt í þjóðsögum og endurminningum í Vesturheimi.

 

IMG_4529 (1)


Harðæri

Hann var gnafinn í vikunni sem leið, bálhvass, með snjó til fjalla, þó ekki hafi fest né fryst á láglendi. Máríerlurnar trítluðu blautar á kollinum hér um svalahandriðið, skáskjótandi sjónum sínum, árangurslaust upp í þakskeggið, -í von um að sjá flugur. Ég gaf þeim þeim múslí og þegar ég sá að þær röðuðu því í gogginn og flugu burt, ferð eftir ferð, þá þóttist ég vita að ungarnir væru enn lifandi í hreiðrinu.

Já, sumarhretið hefur vafalítið bæði farið illa með farfuglana og taugar túristanna, þó svo að við svona hreti megi búast á þessum árstíma á Íslandi rétt eins og dæmin sanna. Í fróðleiks bókinni Amma er kafli sem heitir Harðærislýsing úr Eyjafirði vorið 1869 þar sem birt eru dagbókarskrif Sveins Þórarinssonar þegar hann bjó á Akureyri, sem kannski er nú hvað þekktastur fyrir að vera faðir Jóns Sveinsonar höfundar barnabókanna um Nonna og Manna.

Amma segir að Sveinn hafi haldið dagbækur sem séu fróðlegar um margt, þó þær fjalli fyrst og fremst um einkahagi hans. Síðasta vorið sem Sveinn lifði - 1869, voru mikil harðindi, einkum norðanlands. Hretið í síðustu viku er léttvægt miða við lýsingar Sveins í dagbók sinni frá þessu vori. Veðurlýsingin í Ömmu byrjar 24. Maí og eru birtar dagbókarfærslur um mánaðra tíma. Síðasta dagbókarfærslan sem Sveinn er sagður hafa skrifað var 10. júlí 1869, en hann dó þann 16. sama mánaðar 48 ára gamall.

Ég ætla að setja hér inn 10 daga samfellda, eða svo, af þessum dagbókarfærslum eins og þær eru birtar í Ömmu, og byrja þá á sömu dagsetningu og hretið hófst í vikunni sem leið; en Amma er með margar nöturlegri veðurlýsingar í dagbókinni af þessum snemma-sumars harðindum 1869, en þær sem hér eru birtar.

3. júní. -Norðan kuldastormur með þokubelgingi, en af útstraumi færðist ísinn út fjörðinn nokkuð. Ég var heima, lagfærði smávegis og verkaði síld. Hungrið og heyleysið fréttist úr öllum áttum, og í dag var sagt, að 2 börn væru dáin af hungri í Ólafsfirði, og fönn svo mikil í Fjörðum og á útsveitum, að rétt aðeins væru auðir blettir á túnum, , , ,

4. júní. -Norðaustan frostgola, loft þokufullt og hríðarlegt. Ég gat lítið aðhafst vegna kulda, gekk út í bæ, keypti á apóteki 1 pund af chocolade og lakris og fíflarætur.

5. júní. -Norðaustan heljarkuldi með hríð svo hvítnaði undir sjó. Ég gat ekkert aðhafst nema sagað niður í eldinn þá seinustu spýtu, sem ég átti; og varð ég að liggja í rúmi vegna kulda, því alveg er ég eldiviðarlaus. Nokkrir, sem í gær reru til fiskjar, komu í dag með sára lítinn afla.

6. júní. -Logn og alheiðríkt; en mjög kalt . . . . Árni Sölvason kom austan úr Þistilfirði, hafði verið um borð í skipum þeim, sem liggja inniklemmd á Finnafirði og hingað eiga að fara; gátu ekki komist vegna hafíss við Langanes. Ýmsir hér í bænum sendu nú mann austur á Vopnafjörð eftir tóbaki, og lagði ég í þann sjóð 60 sk. fyrir ½ pundi af rjóli, því í gær skar ég hinn síðast tóbaksmola, sem ég átti. Hungur þrengir nú hart að mönnum, jafnvel æðri sem lægri.

7. júní. -Suðvestan vindur hlýr. Hafísinn rak að mestu hér af firðinum og glæddist nú von manna um skipskomu . . . . Ólafur á Espihól kom, ætlaði að fá sér bygg, en það fékkst ei heldur en annað, þar á móti náði hann í hið seinasta af einhverjum rúghnefa, sem steinolía hafði farið í og nokkrir hafa nú keypt af hungursneyð fyrir 1 rd. keppuna. Ég komst upp á að verka síld mína á besta hátt með því að reykja hana lítið, eftir að hún var lögð í pækil. Kýr fyrst látnar út í bænum, mín var inni í dag. Nú eru allir að setja niður kartöflur.

8. júní. -Norðvestan rosastormur og þokufar mikið í lofti.

9. júní. -Logn hlýindi skýjað loft framan af og sunnan vindur um kvöldið.

10. júní. -Sunnanstormur, en norðvestan í lofti, logn að sjá utarlega á firðinum . . . . Nú liggur almennt við manndauða af hungri, og eru ýmsir hér farnir að skera niður skepnur til bjargar. Vonlaust er um skipakomu að svo stöddu.

11. júní. -Norðan hvass heljar kuldastormur. Ísinn er rekinn inn á fjörð. Í morgun fékkst mikil spiksíld í lagnetjum. Ég lá lengst af degi í rúminu vegna kulda og hungurs.

12. júní. -Norðan heljar kuldi með hvassviðri og hríð; kýr stóðu aftur inni, mín nær málþola. Alsnjóaði. Alltaf harðnar og versnar ástandið. Ég særði út ½ pund af einiberjum til matar. Lá að mestu vegna kulda.

13. júní. -Norðan frostbruna stormur, hvass, svo ísinn rak inn á móts við Sigluvík . . . . Kuldinn óþolandi og hungur að harðna. Amtmaður og aðrir Möðruvellingar komu hér og fóru heim aftur. Er mælt, að amtmaður hafi fengið kornmat hjá Möller handa sér, og vitanlegt einnig að þeir Möller og Steincke hafa bæði fleiri kjöttunnur, brauð og mjöl, sem þeir liggja á og geyma, þó hungurdauði vofi yfir allt um kringum þá. Ég fékk tunnu af rudda hjá Friðb. Steinsyni handa kúnni.

Það kemur vel fram í þessum dagbókar skrifum Sveins Þórarinssonar hvað árferðið spilaði stórt hlutverk í afkomu fólks, þegar hafísinn kom í veg fyrir skipakomur að vori. Einnig kemur vel fram hvað almenningur gerði varðandi sitt matvælaöryggi; s.s. kýr á heimili, kindur, fiskur og settar niður kartöflur. Búast má við að ef landsins forni fjandi bættist við álíka sumarhret nú á dögum færi það líka illa með landsmenn.

Héðan af Héraði var ófært svo að segja til allra átta í tvo daga síðustu vikuna, nema upp í loftið. Túristarnir og flutningabílar komust þá hvorki lönd né strönd og þunnur orðin þrettándinn í búðarhillum, þó svo að einhverjir dagar væru enn í hungursneyð og ég gæti séð af múslí í máríerlurnar. 


Svarta bókin

Ein af elstu bókum í mínum fórum, sem þarf samt ekki að vera svo gömul, hefur að geyma fágætan rithátt og magnaðan kveðskap á íslensku. Bókin, sem er nafnlaus, kemur frá afa mínum og nafna. Ég hélt að þetta væri sálmabók, -eða þar til ég setti mig inn í textana.

Bókinni hefur greinilega verið mikið flett, eru gulnuð blöð hennar orðin snjáð og rétt svo að hún hangi saman. Fremst á bakhlið kápu er hún er merkt systkinum sem fæddust og ólust upp í torfbæjum á Héraði snemma á 20. öldinni. Á öftustu blöðum og bakhlið kápu hefur verið æfð skrift.

Hversu gömul bókin er ómögulegt að segja því í henni virðist aldrei hafa verið neitt titilblað. Hún gæti allt eins hafa komið úr pússi foreldra þeirra systkinanna og því verið frá 19. öldinni, rétt eins og flestöll ártöl sem koma fram í henni.

En bókin byrjar á þessum orðum:

Til Lesndanna. – Þat hefur af Góðum monnum vacit til umræþo at ec munda rett rita arker af egin yðrom spunnom, á inni veranþi ári almenningi til dægurstytto, eþur oc einkunnar á framhaþi anþa þjoðernisins, , , 

Þarna er ekki beint um nútíma rithátt eða stafsetningu að ræða, og í lok formálans segir;

, , ,  Þetta fyrzta sínhyrni læt ec sva niþur bera hjá mannutiz oc avþgom Bónþa Hjálmarr Loptzyni á heiðþrudu cynnisleite.

Þjonuztusamligaz H: Jónaz: Eyfirðingr, 

Ökrum ennum iþri d: 10. mart: 1852

Það er ekki hægt að sjá í hvenær þessi bók hefur verið prentuð hún bara byrjar á þessum formála án frekari skýringa, en þegar hún er skoðuð þá er í henni nokkuð um ævi og kveðskap Bólu-Hjálmars á mun skiljanlegar skrifaðri íslensku, auk Skagfirsks kveðskapar.

Hjálmar Jónsson, betur þekktur sem Bólu-Hjálmar (fæddur á Hallandi í Eyjafirði 29. september 1796, dáinn í Brekkuhúsum skammt frá Víðimýri í Skagafirði 25. júlí 1875) var bóndi og ljóðskáld, segir wikipedia.

Móðir Hjálmars var heimilislaus þegar hún eignaðist hann, kom að kvöldi dags að Hallandi á Svalbarðsströnd og tók léttasótt um nóttina. Daginn eftir fór vinnukona á Hallandi með barnið í poka áleiðis til hreppstjórans. Hún kom við á Dálksstöðum og húsmóðirin þar fann svo til með drengnum að hún tók hann í fóstur og ól hann upp til átta ára aldurs. Þá fór hann til föður síns og ólst þar upp samkvæmt þekktri sögu.

Í bókinni er einungis kveðskapur, auk einnar lítillar frásagnar Hjálmars af því þegar hann fór vetrarlangt í fóstur á Dagverðareyri, þá á sjötta ári. Hann lét vel af verunni hjá hjónunum þar, sagði að þau hefðu komið fram við sig sem sinn son og húsbóndinn, Oddur Gunnarsson, hefði kennt sér að yrkja.

Hann segir frá því þegar Oddur á Dagverðareyri réri með hann um vorið, tveimur árum á móti suðaustan kylju, austur yfir Eyjafjörð í Dálksstaði, - þá var eins og báturinn  steytti á skeri út á miðjum firði og breytti um stefnu. Hjálmar varð hræddur og kvað við Odd með tárin í augunum:

Eitthvað heggur kaldan kjöl,

kippir leið af stafni. 

Oddur kvað á móti og mælti:

Okkar beggja ferju fjöl

flýtur í drottins nafni.

Stuttu á eftir kom upp hrefna í kjölfarinu, og sagði Hjálmar að Oddi hefði ekki staðið nokkur ótti af henni. Þegar hann skilaði Hjálmari aftur í móðurskaut Sígríðar fóstru hans á Dálksstöðum, -"kvaddi hann mig með tárum, fyrirbón og signingu, sem þá var títt hjá guðhræddu fólki" 

Árið 1824 orti Hjálmar Afmælissaungur, -þá 28 ára, -sem segir talsvert um ævi hans í Eyjafirði.

Æfin líður áfram mín

eins og vatna straumur,

þrauta vafin þungri pín

þánkinn stynur aumur.

Af syndugum mig til sæði bjó

sjóli æðstur metinn,

í Eyjafirði illum þó

eg var fyrsta getinn.

Forlög öll mín fyrir sá

faðirinn alda’ ógleyminn,

þá konu var mér keltu frá

kastað inn í heiminn.

Ólánsdagur mundi mér,

meðan eg grátinn þreyi,

þegar eg fæddist, því er ver,

á þessum fimmtudegi.

Snemma ævi til þess tókst

að tvinnast þrauta byrði,

aldur mér og ólán jókst

Eyja- hér í -firði.

Á Eyjafjarðar téðu torg,

með tárum þetta ræði,

reynt hef eg bæði sult og sorg,

svita, frost og mæði.

Hefði ei drottins hjálp og náð,

mér hlíft fyrir varga tönnum,

orðinn væri eg að bráð

Eyjafjarðarmönnum.

Loforð þeirra og heiptar hjal,

hjartað særir lúna,

snúin bæði af snót og hal,

snaran fallsins búna.

Þeirra hefur faðmur flár

fundizt banvænligur,

og höggvið mér í hjarta sár

heiptugur góma vígur.

Yndisblóm er byrjandi

böl og harmur stirði,

sjáðu mig faðir, syrgjandi

samt í Eyjafirði.

Kær þín, drottinn, gæzkan greið

gerir létta byrði,

bú mér sjálfur beina leið

burt úr Eyjafirði.

Þolinmæðin mýkir þrá

meðan tími er settur,

hugsa eg minn sé himnum á

hæsti borgar réttur.

Síðan guði sjálfum hjá

sorg mun fram úr rakna,

aldrei jeg um eilífð þá

Eyjafjarðar sakna. (bls 12)

Hjálmar fór úr Eyjafirði til Skagafjarðar og kynntist þar konu sinni Guðnýju Ólafsdóttur, en mæður þeirra voru systur. Þau bjuggu fyrst á Bakka í Öxnadal en fluttu svo til Skagafjarðar og bjuggu fyrst á Nýabæ í Austurdal í fimm ár. Árið 1829 fluttu þau að Bólu (Bólstaðargerði) í Blönduhlíð, og við þann bæ var Hjálmar kenndur.

Lengi á Bólu sé eg sól,

sumar gólar hvert fíól,

líknar sjóli ljær mér skjól,

lífs við ról á eyðihól. (bls 48)

Hjálmar var ekki vinsæll í sveitinni og þegar nágrönnunum þótti fé heimtast illa féll grunur á hann og gerð var þjófaleit hjá þeim hjónum 1838. Þau voru sýknuð ári síðar en hröktust burt frá Bólu. Sauðaþjófnaður var einhver alvarlegasti glæpur bændasamfélagsins og féll Hjálmari kæran þungt.

Hræsnarinn kallar helga menn,

sem höfðingsglæpi fela,

að drýgja hór og drepa menn,

dýrka goð og stela. (bls 157)

Hjálmar var sjálfmenntaður, einkum á forn fræði. Hann var rímnaskáld að hefðbundnum sið sem gat bæði kveðið með þeim hætti hvassyrt kvæði og miskunnsöm Heilræði til samtíðar sinnar.

Náðar kljáðu þáðan þráð,

þjáðum ljáðu dáð ómáð,

fjáð heilráðin fáðu aðgáð,

fláðu af háði smáða í bráð. (bls 156)

Hjálmar var hæðinn og þótti þar bæði óvæginn og illskeyttur. Því átti hann sér ýmsa óvildarmenn. Hann átti líka marga vini og var oft fenginn til að skemmta því hann var fróður og góður sögumaður, skemmti fólki með kveðskap og gat verið hrókur alls fagnaðar þegar hann vildi.

Einhvern tímann hittust Árni á Skútum og Bólu Hjálmar. Þá kvað Árni:

Maður skálmar mikill þar,

mjög sem tálmar dyggðum.

Er það Hjálmar auðnuspar,

sem yrkir sálma háðungar.

Hjálmar lét ekki standa á svari, -né Árna eiga neitt inni hjá sér:

Árni á Skútum er og þar,

úldinn grútar snati.

Hrafna lút í hreiður bar;

hans eru pútur dæturnar. (bls 28)

Vísan Eptirmæli gefur vel til kynna hversu neyðarlega níðskældin Hjálmar gat verið.

Kvaddi drylla kappa fans,

kviðar spilling búin,

burt er frilla fúskarans,

fremd og snilli rúin. (bls 170)

Nafnlausa litla svarta bókin, sem greinilega hefur mikið verið flett af systkinunum í torfbænum, byrjar hins vegar á þessu lífshlaups ljóði:

Hægra mér þótti

hinnig tíðar,

þá fjör og kraptur

fleytti mundum,

hamar, taung, knífur,

hefill, exi,

sveifla sveðju grass

eður sægögnum.

 

Hángandi hrör

í helgin opið

fálmar fluggögnum

fjaðurhjarðar,

skjálfandi mund

við skýjuð augu

lætur lítt

að letra smíði.


Væringinn mikli og hin blóðuga, mállausa ákæra

Einn af þeim sem talin hefur verið til mikilmenna þessarar þjóðar er Einar Benediktsson. Í æsku heyrði maður þá lygasögu að Einar Ben hefði náð að selja norðurljósin í fylleríi. Hitt er rétt að hann hafði uppi stórhuga virkjanaáform löngu á undan sinni samtíð.

Sumar hugmynda Einars komust til framkvæmda áratugum eftir hans daga. Búrfellsvirkjun varð t.d. að veruleika hálfri öld eftir að Einar fékk hugmyndina. Hún varð fyrsta stórvirkjun Íslands til þess að útvega rafmagn fyrir erlenda stóriðju.

Einars Benediktssonar hefur einkum verið minnst sem einnar af sjálfstæðishetjum þjóðarinnar, auk þess að vera athafnamaður og þjóðskáld sem veitti innblástur fram eftir 20. öldinni. Eitt af þekktari ljóðum hans er einmitt um rafmagnað aðdráttarafl norðurljósanna sem nú í dag eru virkjað af ferðaþjónustunni.

Veit duftsins son nokkra dýrlegri sýn

en drottnanna hásal í rafurloga?

Sjá grundu og vog undir gullhvelfdum boga!

– Hver getur nú unað við spil og vín?

Sjálf moldin er hrein eins og mær við lín,

mókar í haustsins visnu rósum.

Hvert sandkorn í loftsins litum skín,

og lækirnir kyssast í silfurósum.

Við útheimsins skaut er allt eldur og skraut

af iðandi norðurljósum. (sjá meira)

Snemma á 20. öldinni keypti Fossafélag Einars Benediktssonar land meðfram Jökulsá á Fjöllum ásamt náttúruperlunni Ásbyrgi. Hugsjón hans var að virkja ána og sagðist hann ætla að nýta raforkuna til að framleiða áburð á blóm og birki í örfoka landi.

Einar átti Ásbirgi í 15 ár, -hafði áður orti þar ódauðlegt ljóð á sumarmorgni. Jökulsá á Fjöllum rennur óbeisluð frá Vatnajökli, um Dettifoss og Hljóðakletta, allt til sjávar enn þann dag í dag, sem betur fer, ekki er ólíklegt að Sumarmorgunn í Ásbyrgi eigi sinn þátt í því.

Alfaðir rennir frá austurbrún

auga um hauður og græði.

Glitrar í hlíðinni geislarún,

glófaxið steypist um haga og tún.

Signa sig grundir við fjall og flæði,

faðmast í skrúðgrænu klæði. 

En hvað var það raunverulega, -sem gerði Einar Benediktsson eins mikinn og af er látið? Ég hef verið að lesa bókina Væringinn mikli, ævi og örlög Einars Benediktssonar eftir Gils Guðmundsson, og kemur það mér nokkuð á óvart hvað gerði þennan stóra mann svo mikinn.

Vissulega var Einar með stærri og myndarlegri mönnum, stór ættaður, komin af betur stæðum Íslendingum. Móðir hans Katrín Einarsdóttir heimasæta á Reynisstað í Skagafirði, sem sagt er að hafi verið trúlofuð manni 12 ára gömul, en áratugur var á milli þeirra í aldri. Foreldrar hennar styrktu föður Einars, -Benedikt Sveinsson til mikilla mennta og út á þær komst hann til æðstu metorða, -sem Landsdómari.

Þau Katrín og Benedikt skildu eftir stormasama sambúð á Elliðavatni þar virðist óregla Benedikts hafa ráðið mestu, -og skiptu með sér barnahópnum. Benedikt hafði missti Landsdómara embættið, en varð síðan sýslumaður í Þingeyjarsýslum og þingmaður N-Múlasýslu, bjó á Héðinshöfða á Tjörnesi við Skjálfanda. Einar ólst upp hjá föður sínum.

Þegar fræðst er um Einar þá gerir maður sér grein fyrir hvað gerði manninn eins mikinn og af er látið. Segja má að það sem hafi gert Einar mikinn hafi hann sjálfur komið hvað best í orð sem örstuttri hendingu í ljóði. Allir þekkja orðatiltæki sem lifað hefur með þjóðinni allar götu síðan Einar kom þeim orðum í ljóð; -aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Það virðist vera sem næmni Einars fyrir þessum sannindum hafi umfram annað gert hann mikinn. Og sú aðgát átti ekki einungis við sál okkar mannanna heldur alls þess er prýðir sköpunarverkið.

Í bókinni er frásögn Einars af því þegar hann uppgötvaði hvernig allt tengist og hve mikilvægt er að bera virðingu fyrir öllu og öllum, -alltaf, -og að ekki verði bæði sleppt og haldið. Þar segir hann frá veiðiferð sem hann fór ungur maður út á Sjálfandaflóa. Ég ætla að leifa mér að birta valda kafla úr frásögninni því hún segir mikið um mikilmennsku.

Við vorum þrír á kænunni, kátir ungir og vel nestaðir. Hvað á dauðlegt líf ágætara að bjóða en slíkan dag og þvílíka volduga, dragandi fegurð? Eilífðin brosti í þessari skínandi skuggsjá, hafi öræfanna, og átti um leið náðargeisla handa þeim minnsta smælingja, sem leita vildi upp ljósið frá myrkrum djúpsins. Rétt við vörina vöktu birtingarnir og létu heila heima glitra á hreistrinu. Hrognkelsi sveimuðu á grunni, með blakka, hrjúfa hryggi í vatnsborðinu, til þess að dýrð sólarinnar mætti líta þá og snerta. Landselskóparnir iðuðu í látrunum, sælir og glampandi, með síopin augu. Veldi og skaut norðlenskrar náttúru ríkti yfir öllu á sjó og landi.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Í þetta sinn vorum við óheppnir. Selurinn kom upp langt fyrir aftan bátinn. Ég tók það ráð að leggja upp árar og hafast ekkert að. Ég hafði séð, að þetta var afar stór útselur, af því sama kyni, sem kallast kampur, en þeir eru haldnir ganga næst landsel að skynsemd og forvitni. Selurinn tók dýfu frá bátnum, en ekki mjög langa. Annar hásetinn var neftóbaksmaður, ég lánaði af honum rauðan vasaklút, sem ég lét lafa aftur af stýrinu. Svo biðum við kyrrir, án þess að láta neitt minnsta hljóð heyrast.

Eftir nokkur köf fór kampurinn að færast nær, og loksins kom ég skoti á hann, en hitti illa. Hann tók fyrst langa dýfu, en nú gátum við séð, hvert róa ætti. Bráin á sjónum sagði til og svo fór óðum að draga saman með okkur. Selurinn var auðsjáanlega særður til ólífis. En þá kom það fyrir, sem ég get aldrei gleymt.

Kampurinn tróð marvaða og rétti sig upp, á að giska fimmtíu faðma frá bátnum. Þetta færi var heldur langt fyrir högl, en samt miðaði ég og ætlaði að fara að hleypa af. En þá greyp selurinn til sunds beint á bátinn. Ég hafði heyrt sagt frá því hvernig selir réðust á báta, þegar líkt stóð á. En það var eins og eitthvað óskiljanlegt hik kæmi yfir okkur alla. Við hreyfðum okkur ekki í bátnum og kampurinn rétti sig aftur upp örfáa faðma frá kænunni.

Blóðið lagði úr sári á kverkinni og yfir granirnar. Mér sýndist hann einblína á mig, þarna sem ég stóð í skutnum á selabyttunni með morðvopnið til taks á móti þessum saklausa, forvitna einstæðing hafsins, sem var viðskila við sitt eigið kyn, sjálfur aðeins óvopnaður meinleysingi.

Eflaust hefur sú breyting verið áður að ná tökum á mér, smátt og smátt, að aumkva dýrin eins og mennina, þegar þau eru í nauð eða verða fyrir meiðslum og dauða. Mér finnst það nú til dæmis með öllu óskiljanlegt, hvernig ég hef getað fengið af mér að drepa saklausa fugla mér til gamans, án þess að nein neyð kreppti að mér. Endurminningar um þetta fylla mig oft viðbjóði og andstyggð á minni eigin tilgangslausu og léttúðugu grimmd. En í þetta skipti opnuðust fyrst augu mín. Þessi blóðuga, mállausa ákæra stendur mér oft í hugskoti – en ég hef aldrei fyrr komið mér til þess að færa neitt um það í letur.

Kampurinn gjörði enga tilraun til árásar á bátinn – og svo leið þetta andartak, sem verður að notast með skutli eða áróðri, ef veiðin á ekki að mistakast. En selurinn stein sökk í sama svip – og eitthvað hulið afl lagði þögn og kyrrð yfir þessa litlu bátshöfn, sem fremur hafði lagt af stað í þessa veiðiför af leik heldur en þörf.

Maður í álögum segir gamla sagan! Ég get ekki gjört mér grein fyrir, hve oft ég hef, síðan þetta kom fyrir, hugsað um lið Faraós og sækonur þjóðsagnanna. En óendanlegur tregi og iðrun kemur upp hjá mér, þegar ég minnist þess augnaráðs, sem selurinn beindi á mig, þegar hann hvarf í djúpið.

–Ég hef ætið orðið staðfastari með árum og reynslu í sannfæringu minni um algjört orsakasamband, milli alls og allra. Þessi viðburður, sem er mér svo minnisstæður, hefur sjálfsagt átt að vera mér bending, samkvæmt æðri ráðstöfun. Ef til vill hefur mér verið ætlað, þegar á þessu skeiði æsku minnar, að innrætast einhver neisti af miskunnsemi við aðra, sem máttu sín miður eða báru þyngri byrði.

En hvílíkur fjöldi atvika birtist í örsnöggri svipan fyrir athugulum augum í borgum þúsunda og milljóna, í kvikmyndastraumi strætalífs og skemmtihalla, - þar sem ætið og alls staðar endurtekur sig hin sama saga. Er ekki hamingja heimsins grundvölluð á samanburði auðæva, yfirburða, fegurðar og fróðleiks gagnvart þeim snauðu, gunnhyggnu, miður menntuðu og ósjálegri, er byggja umhverfi staðanna, margir við eymd og tötra? Hver ómælisgeimur af örbirgð og læging þarf að hlaðast undir stétt hinna æðri, sem svo kallast, til þess að þeir geti þóknast sér sjálfum og fundið sinn mikilleik.

Hve ótölulega mörg bleik, deyjandi andlit sökkva í þetta friðaða, lygna yfirborð mannlífsins, sem geymir dauða og glötun? Gangi ég framhjá tötruðum beiningamanni, sný ég stundum aftur. Er blóðug myndin, sökkvandi við borðstokkinn, sem gægist upp úr öræfum minninganna?

Þessi voru orð skáldsins um eigin mikilmennsku á Skjálfandaflóa og hygg ég að samferðamenn hans hafi oft upplifað hana á þennan hátt, því í þeim vitnisburði sem þeir hafa um Einar, -sem hann þekktu, -ber aðgát í nærveru sálar hæðst.

Eitt bros — getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veig heillar skálar.

Þel getur snúist við atorð eitt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Svo oft leynist strengur í brjósti sem brast

við biturt andsvar, gefið án saka.

Hve iðrar margt líf eitt augnakast,

sem aldrei verður tekið til baka.

Eins og sjálfsagt allir vita, sem náð hafa að lesa þetta langt, þá endaði skáldið, heims- og athafnamaðurinn ævina í Herdísarvík á Reykjanesi svo að segja við sjálfsþurftarbúskap, á stað sem ekki var bílfært á á þeim tíma. Það gerði Einar samkvæmt eigin vali.

-KVEÐIÐ Í HERDÍSARVÍK- 

Í æsku hugði ég á hærra stig.

Það heldur fyrir mér vöku,

að ekkert liggur eftir mig

utan nokkrar stökur.  (EB)


Frostaveturinn mikli

Það hefur verið frost á Fróni undan farna daga. Núna tvo síðustu vetur hefur verið kaldara en maður af minni kynslóð á að venjast, nema þá hugurinn reiki aftur í barnsminnið frá því á sjöunda áratugnum. Þá voru nokkur hafísár 1965-1970 og þó svo að ég hafi ekki séð hafísinn, þá var kalt í minningunni á þessum vetrum inn til landsins. Nú tala málsmetandi menn um hamfarahlýnun í frostinu og eins og venjulega eru mestu hamfarirnar Langtíburtukistan.

Það eru samt um næga óáran að ræða þessi dagana á landinu bláa með Reykjanesið rauðglóandi þó svo ekki sé verið að velta sér upp úr hamfarhlýnun í frosti. Sennilega hafa kynslóðirnar frá aldamótunum 1900 búið við hvað best skilyrði frá náttúrunnar hendi hér í landi frá því á þjóðveldisöld.

Jafnvel þó svo að loftslagsvísindin vilji meina að æskilegt sé að meðalhiti jarðar verði í kringum það sem hann var á 19. öld eftir að lítillega var farið að hlýna  aftur eftir litlu ísöld. Þess vegna getur verið fróðlegt að skyggnast aftur í tímann og skoða hvernig árferðið gat verið á Íslandi á hinu gullna viðmiði vísindanna.

Það er ekki svo langt síðan að uppi var fólk sem mundi frostaveturinn 1918 en um frostaveturinn mikla 1882 og veturna þar í kring eru fáar frásagnir enda hefur fólki sennilega þótt rétt að gleyma þeim vetrum eins og hverju öðru hundsbiti.

Í bókinni Gengin spor, sem í eru saganaþættir Þorsteins Matthíassonar, er viðtal við Martein Þorsteinsson f. 23. apríl 1877. Marteinn var 92 ára gamall þegar viðtalið var tekið og segir þar m.a. frá sínum fyrstu minningum í Steinaborg á Berufjarðarströnd.

Fátt eitt man ég úr fyrstu bernsku, þá voru harðindaár og þröngt um hjá öllum almenningi. Veturinn 1881-1882 var geysilega frostharður og mikil ísalög. Hafís komst þó aðeins skammt inn fyrir Djúpavog. Þangað lagði út Berufjörð og eru um þrjár mílur danskar (ca 22 km). Var alls staðar ekið á ísnum landa í milli heim að hverjum bæ.

Árið 1883 var fellisvetur. Þá kom ísinn á síðasta vetrardag. Flestir bændur voru heylausir og þrjár fyrstu vikur sumarsins sanzlaus stórhríðarbylur. Faðir minn slátraði því nær hverju lambi um leið og það fæddist og fóru aðeins ellefu lömb á sumarhaga þetta vor, en fullorðið fé lifði allt. Mér er þetta minnisstætt vegna þess, að eitt þessara 11 lamba var mér gefið.

Í bók Öldu Snæbjörnsdóttir frá Þiljuvöllum á Berufjarðarströnd, -Dvergasteinn, sem er stórmerkileg samantekt munnmæla og þjóðasagna frá Berufirði, Djúpavogi, Hamarsfirði og Álftafirði, er munnmælasaga sem hún skráir eftir Emil Björnssyni manni sínum. Emil var flest sumur æsku sinnar á Teigarhorni við sunnan verðan Berufjörð, -gengt Steinaborg sem er á ströndinni  norðanverðri.

Það má ætla að þessi munnmæla saga á Teigarhorni sé frá sama ísavetri og Marteinn getur um í æskuminningum sínum í Steinaborg, þegar hafís var við Berufjörð og lagís á firðinum. En hafís hefur ekki komið inn á Djúpavog við Berufjörð síðan 1968, að ég held, og þótti þá viðburður.

Til eru ljósmyndir af hákarlaskútum innilokuðum í ís á Djúpavogi, teknum af Nikólínu Weywadt frá því á árunum í kringum 1900. Nikólína lærði ljósmyndun fyrst kvenna á Íslandi og bjó á Teigarhorni þar sem hún stundaði veðurathuganir fyrir veðurstofuna. Amma Emils, sem hann hefur munnmælasöguna eftir, er systurdóttir Nikólínu.

Sagan sem Emil hefur eftir ömmu sinni er svona.

Ein er sú saga sem Hansína Regína Björnsdóttir amma mín sagði mér oft, en það var sagan af vinnukonunni á Búlandsnesi og bjarndýrinu. Átt þessi atburður að hennar sögn að vera dagsannur og gæti hafa gerst á hafísárunum fyrir aldarmótin 1900.

Einn ísavetur gekk hvítabjörn á land í nágrenni Teigarhorns. Sást fyrst til hans niður á Teigum, sem er talsvert breitt flatlendi er gengur í sjó fram skammt fyrir innan Teigarhorn. Fljótlega fór bjarndýrið að færa sig upp eftir og hafði fólkið á bænum allan vara á sér, ef ske kynni að hann tæki stefnuna þangað. En björninn hélt áfram í rólegheitum upp alla Teiga og snuðraði öðru hvoru í jörðina eins og til að leita slóða. En hvítabirnir sjá ákaflega illa og nota þefskynið til að leita að bráð. Áfram hélt hann upp mýrarnar fyrir ofan og stefndi í átt að Hálsunum.

Skyndilega var eins og ísbjörninn hefði veður af einhverju því hann herti á sér. Þá sá fólk sér til skelfingar, hvar kvenmaður kom úr gagnstæðri átt yfir Hálsana og hélt sem leið lá niður að Dvergastein, stóran ferhyrndan klett utan í hlíðinni. Bilið á milli bjarnarins og stúlkunnar styttist nú óðum.

Þau nálguðust Dvergasteininn sitt úr hvorri áttinni vinnukonan og hvítabjörninn og náðu þangað svo til samtímis. Fólkið horfði á og bað guð, að hjálpa sér og aðrir bölvuðu í hljóði, þegar bjarndýrið lagði af stað í kringum klettinn. Næstum í sömu andrá birtist stúlkan hinu megin á niðurleið. Þannig gengu þau sitthvoru megin við Dvergastein, vinnukonan og ísbjörninn, að hvorugt sá hitt.

Þá fann björninn slóð stúlkunnar fyrir ofan klettinn og rakti sig á harðahlaupum eftir henni upp yfir Hálsana, þar sem hann hvarf sjónum suður af. En vinnukonan hélt hin rólegasta niður á við og sveigði síðan inn með í áttina að Urðarteigi, þangað sem för hennar var heitið. Hafði hún ekki orðið vör við neitt óvenjulegt á ferðalagi sínu.

Það má ætla að gönguferð þessa ísbjarnar hafi endað í Hamarsfirði. En Hálsarnir, sem getið  er um í sögunni, liggja á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar. Ingimar Sveinsson frá Hálsi í Hamarsfirði fer með munnmæla sögu af ísbjarnardrápi í Hamarsfirði frá þessum árum sem getið er í bókinni Dvergasteinn. Svona er sú saga.

Hér segir frá hvítabirni í nágrenni Djúpavogs kulda- og frostaveturinn 1882, en Álftfirðingar á leið í kaupstað komu fyrstir auga á björninn inn með Hamarsfirði. “Þennan hvítabjörn sáu Álftfirðingar í Rauðuskriðubotninum er þeir voru í kaupstaðarferð og gerðu skotmönnum á Djúpavogi aðvart.”

Hafa Álftfirðingar að öllum líkindum farið sjóleiðina yfir fjörðinn frá Melrakkanesi (þá á ís) eins og oft var gert á þessum árum. Þegar Hans Lúðvíksson í Sjólyst kom á vettvang með byssuna, hafði ísbjörninn fært sig nær byggðinni og var kominn út á hólinn rétt hjá prestssetrinu á Hálsi. Þar var björninn síðan felldur áður en hann náði að gera nokkurn óskunda af sér.

Þess má svo geta að ísbjarnarskyttan Hans Lúðvíksson var kominn út af Hans Jónatan, manninum sem stal sjálfum sér, fyrsta innflytjandanum sem settist að á Íslandi af Afrískum uppruna. Hansína Regína á Teigarhorni var langafabarn sama Hans Jónatans.


Sögur af landinu bláa

Hæsta byggða ból landsins, í u.þ.b. 460 m.y.s, er Möðrudalur. Kallaður í fornskjölum Möðrudalur á Efra-Fjalli. Talið er að Möðrudalur hafi verið byggður frá landnámi með örfáum undantekningum. Margar og athyglisverðar sögur eru til úr Möðrudal enda bærinn á einstökum stað inn á öræfum. Svo gott hefur verið að búa í Möðrudal að ættir hafa ílengst í marga ættliði og er núverandi ætt búin að búa þar í meira en 100 ár.

Drauga og presta sögur eru margar og magnaðar. Sennilega er sagan af Möðrudals Möngu sú þekktasta, en hún skreytir flest íslensku þjóðsaganasöfnin. Í Desjamýrarannál Halldórs Gíslasonar prests er sögn sem má geta sér til sem ein ástæða þess að byggð í Möðrudal hefur af og til lagst af í gegnum aldirnar.

Í lok 15. aldar gekk plágan síðari yfir Austfirði. Þá gjöreyddist svo byggð í Múlasýslum, að ekki lifðu eftir nema tvær manneskjur, presturinn í Möðrudal og stúlka ein í Mjóafirði. Þau náðu saman og urðu samferða suður um land að leita annarra manna. – Fundu þau ekki fólk nema á Síðu, 7 menn, og 11 undir Eyjafjöllum. Landið byggðist svo aftur af Vestfjörðum, því þar kom plágan ekki.

Þessi sögn er frá sama tíma og saga af Þorsteini jökli Magnússyni, sem á sér sömu ástæðu og sagan af Torfa í Klofa. Síðari plágan svokallað gekk yfir Ísland árin 1493-1495 og var mannskæð farsótt. Yfirleitt er talið að þetta hafi verið sama sótt og olli Svartadauða sem gekk yfir landið í upphafi 15 aldar. Plágan er talin hafa borist til landsins með ensku skipi sem kom til Hafnarfjarðar. Í árbókum Espólín segir:

„Um sumarið komu enskir kaupmenn út í Hafnarfirði; þar þótti mönnum sem fugl kæmi úr klæði bláu, að því er Jón prestur Egilson segir, og þá var talað; gjörði  því næst sótt mikla, og mannskæða plágu í landi hér. ... tókst mannfallið um alþingi, og stóð yfir, fyrir sunnan land, fram yfir Krossmessu um haustið, en rénaði nokkuð þá loft kólnaði.“

Pestin gekk fyrsta sumarið um Suður- og Vesturland en árið eftir um Norður- og Austurland. Vestfirðingum tókst að verjast smiti og barst hún aldrei til Vestfjarða. Sagt var að konur hafi fundist dauðar með skjólur sínar undir kúm og ungbörn hafi sogið mæður sínar dauðar.

Þeir sem fylgdu líki til grafar hrundu niður á leiðinni og fóru stundum sjálfir í þær grafir sem þeir grófu öðrum. Þá fjölgaði eyðibýlum verulega um allt land og sagt var að fátækt fólk frá Vestfjörðum hafi á eftir getað fengið góðar jarðir víða um land. 

„Þorsteinn jökull bjó á Brú á Jökuldal um aldamótin 1500. Það hefur verið algeng sögn um hann í Austfjörðum, að hann hafi búið þar, þegar plágan mikla gekk 1494 -5. Þegar hann spurði til plágunnar, flutti hann vestur á öræfi, að svo kallaðri Dyngju í Arnardal (inn af Möðrudalshásléttunni). Byggði þar bæ og bjó þar í tvö ár.

Meðan plágan stóð sendi hann tvo menn til byggða, sitt árið hvorn, og kom hvorugur aftur. Þriðja árið sendi hann son sinn. Hann sá bláa móðu yfir dalnum (Jökuldal) en engar mannaferðir. Þá flutti Þorsteinn að Netseli við Ánavatn í Jökuldalsheiði og bjó þar eitt ár. En næsta ár flutti hann aftur að Brú og bjó þar til elli”.

Mikil ætt Austfirðinga er komin út af Þorsteini jökli, eins og vænta má sé eitthvað að marka Desjamýrarannál.

Munnmæli eru til um að byggð í Möðrudal hafi eitt sinn lagst af vegna ísbjarna. Sagan er í grófum dráttum þannig að maður utan af Hólsfjöllum átti erindi í Möðrudal. Þegar hann kom þangað var engin úti við og engin sem kom til dyra. Hann fór því inn í bæinn og var aðkoman ömurlega. Lík alls heimilisfólks lágu á gólfi baðstofunnar rifin og tætt.

Manninn grunaði strax að ísbirnir væru þessu valdandi. Baðstofan í Möðrudal var ekki á palli heldur niður á jafnsléttu. Það voru samt tvö rými í lofti hvort við sinn stafn með bjálka á milli. Þangað fór maðurinn því ekki þorði hann að ganga langa leið til baka og eiga von á ísbjörnum, eins grunaði hann að ísbirnirnir ættu eftir að koma aftur og vitja veiðinnar.

Ísbirnirnir komu aftur og hafði maðurinn þá undirbúið sig vel og tókst að flæma þá á flótta með eldglæringum af hefilspónum. Engar tímasetningar eru til á þessum munnmælum. En í annál Eiríks Sölvasonar prests í Þingmúla er sagt frá því að mikill hafís hafi verið við Austfirði 1621, hafi þá gengið 25 ísbirnir í hóp um Fljótsdalshérað og upp um heiðar.

Árið 1916 var tekin gröf í kirkjugarðinum í Möðrudal komu þá upp 9 höfuðkúpur og mikið af mannabeinum, settu menn það í samband við munnmælin um ísbirnina. Þessi bein gætu hafa verið þarna að öðrum ástæðum, s.s. drepsóttum aða einhverjum öðru, enda kirkjugarður. En ólíklegt var talið að skortur á landrými í Möðrudal hafi orðið til þess að fólk væri grafið í fjöldagröf, eitthvað annað hafi þurft að koma til að svo væri gert.

Þá segja máldagar Möðrudalskirkju einstaka sögu, m.a. frá skógarítaki kirkjunnar í Skaftafellsskógi og sumarbeitarrétti Skaftfellinga fyrir hesta í Möðrudal. Þessir máldagar gefa það ótvírætt til kynna að Vatnajökull hafi verið mun minni og með öðrum hætti fyrr á öldum en hann er í dag.

 

Í Möðrudal á Fjöllum er mánaljósið tært

og meyjaraugun fegri en himinsólin

Og kvöldstjörnunnar ljós

það lýsir þar svo skært

Þar leiðast þau

sem elskast

bak við hólinn

(ljóð Þórbergur Þórðarson)


Lífið í landinu

Nú er unnið að því að kortleggja sprungur við Grindavík, sem er talin óbyggileg þeirra og neðanjarðarhvelfinga vegna, ásamt hættu á eldsumbrotum. Ógnir náttúrunnar er ekkert nýtt á landinu bláa og hefur mátt búa við óblíða náttúru frá því land byggðist, eins og Íslandssagan greinir víða frá, og til er aragrúi sagna sem varla er hægt að flokka sem þjóðsögur þó svo að þær hafi ekki verið skráðar í fréttaannála.

Í bók Tryggva Emilssonar fátækt fólk segir Tryggvi sögur eftir föður sínum sem var á vetrarvertíðum á Reykjanesi og sem vinnumaður í Straumi við Hafnafjörð skömmu fyrir 1890. Hann segir hve algengt það var að kindur tíndust í hruninu eftir að hafa fallið sprungur og gjótur og hvernig hann kom að björgun þeirra.

Í bókinni Fátækt fólk segir Tryggvi svo frá eftir föður sínum um mannshvarfi í hruninu.

Á þessum hraunslóðum skeði sá atburður að ung kona þar úr sveit gekk við ásuði og hóaði saman til kvía, hún hélt á prjónum eins og var venja á tímum vinnuhörkunnar og hraðaði göngunni.

Þessi kona var smalavön og kunnug hrauninu en í þetta sinn kunni hún ekki fótum sínum forráð og féll í hraungjótu, líka þeirri er faðir minn dró lambið úr. Ekki slasaðist hún í fallinu svo til baga væri en kom niður á fæturna og hélt á leist og bandi.

Fljótlega hefir hún séð hvernig komið var, að engin leið var til uppgöngu þar sem hraunveggirnir voru allir innundir sig og hvelfdust yfir gjótuna sem var um tvær mannhæðir frá botni á barm og gersamlega ókleif.

Hún reyndi eftir fremsta megni að róa hugsunina og hélt áfram að prjóna, að kalla á hjálp var tilgangslaust. Þarna var enginn maður á ferð en hún vissi að sín yrði saknað og leitað, og það var sú von sem hún hélt dauðahaldi.

Og hennar var leitað dag eftir dag en hún fannst ekki. Eftir þrjú dægur þóttist hún heyra mannamál skammt frá gjótunni og þá hrópaði hún af öllum mætti, en hún gat allt eins muldrað í barm sér, hljóðið kastaðaist á milli veggjanna og kafnaði undir hraunhvelfingunni sem var eins og þak yfir gjótunni.

Enn liðu þrjú dægur og konan var að glata síðasta vonarneistanum. Leisturinn var löngu fullprjónaður og bandið gengið til þurrðar og hungrið og kuldinn svurfu að. Hún sat upp við hraunvegginn við hliðina á dauðrotnuðu kindarhræi sem hvorki hrafn né tófa höfðu nagað og beið dauðans en hélt þó fullum sönsum og baðst fyrir öllum stundum.

Þrír sólarhringar voru lengi að líða, nóttin og myrkrið fylltu gjótuna af nístandi nálum sem gengu í gegnum merg og bein og dagurinn sem þrengdi sér ofan um opið og varð að grárri ógnandi loppu, líka hann. Hún horfði tárvotum augum til þess himins sem skartaði gullroðnum skýjum og þráin til lífsins varð að hrópandi bæn.

Svo féll hún í svefn, það var á fjórða degi, og þá skeði kraftaverkið, hún vaknaði á barmi gjótunnar og komst til bæja.

Faðir minn sagði mér þessa sögu af hraunströndinni og það með að álit manna var að konan hefði komist það sem svefnengill sem henni var um megn í vöku. Og raunar eru til um það sagnir að svefngöngumenn brúa ófærur.

Þeir sem hafa einhvern áhuga á að fræðast um úr hvaða jarðvegi íslensk þjóð er sprottin ættu að lesa bækur Tryggva Emilssonar; Fátækt fólk, Baráttan um brauðið og Fyrir sunnan. Jafnvel þó svo að mörgum hafi fundist gleymskan geyma efni þeirra best þegar þær komu út á sínum tíma.

Í bókinni Jón Indíafari reisubók, sem skráð er af Jóni Ólafssyni um dvöl hans í danska hernum 1615-1626, segir frá ferðalögum sem náðu allt frá Grænlandi til Indlands og Þar til hann kom aftur til Íslands. Í fyrsta kafla segir hins vegar frá ferðalagi konu með ungabarn á æskuslóðum Jóns úr Álftafirði við Ísafjarðadjúp yfir í Önundarfjörð.

Frásögnin er svona.

Á mínu 11 ári bar svo við að ein gift kona, Bóthildur að nafni hafði ferðast úr Álftafirði og vestur yfir heiði í Önundarfjörð með veturgamalt eður tvævett sveinbarn, sá eð Ketill hét. Og þegar móðirin vildi hafa hingað aftur ferðazt með sinni ungri barnkind til sinnar sveitar, þá vissi það engin í Álftafirði.

Þetta skeði um Maríumessu fyrri. Og nær hún kom hér yfir heiðarskarðið, skellti yfir myrkvaþoku, svo hún gekk og villtist of mikið til hægri handar, allt þangað sem Valagil heita, hvar að eru miklir forvaðar, og með því að hún var bæði veik og mædd orðin, nam hún þar staðar fyrir Guðs anda ávísun hið næst sem mátti þessum forvöðum, og af löngum burði sinnar barnskepnu hafði henni í brjóst runnið og svo aldeilis út af sofnað í Herrans vald.

Nú vissi enginn maður, hvorki í Önundarfjarðar né Álftafjarðarhrepps, af þessu tilfelli. Skömmu síðar í vikunni heyrðist barnsópið ofan til byggða, og ætluðu þeir menn, sem næstir bjuggu, að einhver sérdeilis dýrahljóð vera mundu. Þetta bar við snemma í augusto.

Í þann tíma bjó, síra Jón Grímsson í Svarfhól í Álftafirði, sá eð var sóknarprestur Ögurs og Eyrar, og nær hann fékk þetta að spyrja, sendi hann með skrifaðan seðil út eftir sveitinni heim á hvern bæ til sérhvers búandi manns og bónda, sem það innihald hafði, að hver þeirra kæmi með vopn í hendi heim á hans garð með bráðasta hætti, þá strax samdægris, og þar samantæki í sinni nálægð og með sínu ráði, hvernin þeir sér hegða skyldu í greindu efni, og gjörðist sú ályktan, að menn skyldu uppleita með alvarlegasta hætti, hvaðan þessi ýlfran væri og eymdarhljóð eður af hverri skepnu. Gengu þeir svo af stað af prestsins garði.

Þá gengu allir skattbændur með þrískúfaðan atgeira, sem hingað á umliðnu ári fyrir þetta fluttust til kaups eftir K.M. bifalningu. Og nær þeir komu á þann stað, sem konan lá önduð fyrir löngu, og fundu barnið hjá henni enn þá lifandi og konuna óskaddaða, því barnið hafði hennar líkama varið í mörg dægur, þá hnykkti hverjum þeirra hér við og þótti hryggileg aðkoma, en þeim manni eyi sízt, sem bóndi og ektamaður var nefndrar konu, sá eð Jón Eyvindsson var að nafni.

Var hennar lík svo flutt til byggða og þaðan með erlegum tilbúningi og meðferð til Eyrarkirkju, að hún greftraðist. En þessi þeirra sonur uppólst hjá sínum föður, þangað til hann var komin úr ómegð, og var síðan vinnuþjón síra Thumasar Þórðarsonar og andaðist vel tvítugur að aldri á Snæfjöllum.

Þessa ferðalags er hvergi getið í annálum né öðrum heimildum og er jafnvel látið að því liggja í skýringum bókarinnar að um skrök- eða þjóðsögu sé að ræða. Hverju svo sem Jóni hefði átt að ganga til með því, en þessi atburður hefur greinilega haft mikil áhrif á hann í bernsku úr því að hann segir frá honum í fyrsta kafla bókar um annars óskylt efni, -heimsreisu.

Það má kannski segja sem svo að fyrri kynslóðum hafi þótt best að gleyma óblíðri náttúru landsins eins og hverju öðru hundsbiti og það hafi verið lykill að því að byggja þetta land. Bara á minni ævi hefur orðið mikil breyting á hvernig fólk er tilbúið til að úttala sig um ófarir sínar. Á þeim grunni má nú segja að sé runnin upp öld upplýsinga, sérfræði og sviðsmynda sem fæða af sér appelsínugular viðvaranir og lokanir.


Heyrðu snöggvast Snati minn

Hér á síðunni hefur mér orðið tíðrætt um Hermannastekka. En við þá herma munnmæli að Guttormur Hallsona hafi verið hernumin af Tyrkjum föstudaginn 6. júlí 1627. Hermannastekkarnir voru fluttir nýverið þvert yfir Berufjörð frá Búlandsnesi við Djúpavog austur á Berunes.

Það gerði Þorsteinn Helgason sagnfræðingur með grein í Glettingi, tímariti um austfirsk málefni, árið 2003 og í doktorsritgerð sinni 2013 sem fjallar um Tyrkjaránið. Þar sem hann rengdi þjóðsöguna og misskildi munnmælin möglunarlaust með því að hræra hvoru tveggja saman.

Ég reyndi í fyrra að fá þá sagnfræðingana Karl Smára Hreinson og Adam Nichols til að flytja Hermannastekkana aftur yfir á Búlandsnes þegar þeir unnu að bókinni Enslaved, sem fjallar um Tyrkjaránið á Austfjörðum, en án árangurs.

Þeir notuðu ekki sögnina um Hermannastekka sem dæmi um þjóðsögur og munnmæli í bókinni. Síðan þá hef ég haldið þeim við efnið, enda stendur jafnvel til að 5 bóka ritröð þeirra um Tyrkjaránið á Íslandi, sem út komu á ensku, verði gefið út í bók á íslensku.

Það sem m.a. hefur staðið í vegi fyrir því að Hremannastekka munnmælin nái öðru flugi, en verða misskilin, er fyrri hluti örnefnisins “hermanna”. Fleiri en sagnfræðingarnir vilja meina að lítið hafi verið hermannlegt við Hundtyrkjann þetta hafi verið óþjóða og ræningja lýður. Landinn hefði því ekki verið líklegur til að velja þessum stað þetta nafn.

En kannski hefur málskilningur á því hvað er að vera hermannlegur breyst í gegnum aldirnar s.b. vísuna; Heyrðu snöggvast Snati minn snjalli vinur kæri, heldurðu ekki hringinn þinn ég hermannlega bæri? En nútíma skilningur á greinilega við það að vera djarfur og bera sig höfðinglega.

Í Egilssögu má lesa þetta um að vera hermannlegur þegar Egill Skallagrímsson stóð í erfðamálum við Berg-Önund: Þá mælti Egill: "Vér skulum nú snúa aftur til bæjarins og fara hermannlega, drepa menn þá alla, er vér náum, en taka fé allt, það er vér megum með komast."

Þeir fara til bæjarins og hlaupa þar inn í hús og drepa þar menn fimmtán eða sextán; sumir komust undan af hlaupi; þeir rændu þar öllu fé, en spilltu því, er þeir máttu eigi með fara. Þeir ráku búfé til strandar og hjuggu, báru á bátinn sem hann tók við; fóru síðan leið sína og reru út um eyjasund.

 

Ps. Hér fyrir neðan má nálgast fyrri pistla um Hemannastekka: 

Hvaðan kom nafnið - Hermannastekkar

Örnefni og gildi þeirra


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband