Færsluflokkur: Landsins-saga

Skálholt – Turbulent Times

Út er komin bókin Turbulent Times -Skálholt and the Barbary Corsair Raids on Iceland 1627. Bókinni var fylgt úr hlaði af höfundum hennar Karli Smára Hreinssyni og Adam Nichols á óvenju veglegri Skálholtshátíð helgina 20. – 23. júlí s.l. í tilefni 60 ára afmælis dómkirkjunnar í Skálholti sem vígð var 21. júlí 1963.

Adam og Karl Smári eru sagnfræðingar sem eru á góðri leið með að gera Tyrkjaránið á Íslandi heimsfrægt. Út eru komnar 5 bækur frá þeim um það efni;

The Travels of Reverend Ólafur Egilsson – um ferðasögu Ólafs Egilssonar prests í Vestamannaeyjum sem komst lifandi heim úr Barbaríinu í Algeirsborg.

Northern Captives – um Tyrkjaránið í Grindavík og afdrif fólksins þaðan sem flutt var til Salé í Marokkó og selt á þrælamarkaði.

Stolen Lives – um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum.

Enslaved - um Tyrkjaránið á Austfjörðum.

Turbulent Times – um þátt biskupssetursins í Skálholti í varðveislu Tyrkjaránssögu.

Bækur þessar eru á ensku og þar er farið yfir sjálfa söguna auk bakgrunns Tyrkjaránsins á Íslandi, er þar ekki einungis byggt á íslenskum heimildum heldur einnig heimildum frá Norður Afríku og því stjórnmálaástandi í Evrópu sem varð til þess að hundruðum Íslendinga var rænt og þeir seldir á þrælamörkuðum.

Íslensku heimildirnar þykja einstaklega áhugaverðar í því ljósi að þær segja ekki einungis frá atburðinum sjálfum eftir á af yfirvöldum eða fræðimönnum, heldur eru til skrásettar samtímafrásagnir fólksins sem í þessum hörmungum lenti bæði í sendibréfum og vegna þess að sagan var skráð í Skálholti svo til um leið og hún gerðist eftir fólki sem varð vitni af atburðunum.

Þar af leiðandi eru þessar íslensku heimildir einstakar, jafnvel á heimsvísu, og vekja gríðarlega athygli varðandi þann hluta mankynsögunnar þegar sjóræningjar og atvinnulausir málaliðar fóru rænandi og ruplandi um Evrópu og seldu fólk í ánauð í múslímsku Barbaríinu. Nú er verið að gefa bækurnar út á m.a. Hollensku, Grísku, Frönsku og í Marokkó.

Heimildir eru til um að tólf skip hafi lagt í haf frá norðurströnd Afríku í þeim tilgangi að ræna eins miklu fólki af Íslandi og mögulegt væri sumarið 1627, -þræl skipulagðar aðgerðir. Einungis fjögur skip skiluðu sér samt alla leið til Íslands stranda svo vitað sé, eitt frá Marokkó og þrjú frá Alsír.

Skipstjórar og stór hluti áhafna þessara skipa voru Evrópumenn, Hollendingar, Þjóðverjar, Danir og jafnvel Norðmenn. Þetta voru menn sem höfðu misst vinnuna sem málaliðar í endalausum 30-90 ára stríðum Evrópu, gerðust trúskiptingar í N-Afríku sem kunnu að sigla um norðurhöf og útveguðu Barbaríinu þræla. Sæúlfar sem hikuðu ekki við að gera sér mannslíf að féþúfu.

Eitt skipanna kom til Grindavíkur fyrrihluta júní mánaðar þetta sumar og rændi þaðan fjölda fólks. Það skip fór síðan inn á Faxaflóann og hugðist gera strandhögg m.a. á Bessastöðum, en snéri frá við Löngusker og sigldi vestur með landinu áður en það snéri til Marokkó.

Tvö skip komu upp að Eystra-Horni við Hvalnes í Lóni. En náðu ekki að ræna fólki af Hvalnesbænum vegna þess að það var á seli í nálægum dal sem þeir fundu ekki þrátt fyrir ítrekaða leit. Þessi skip fóru síðan til Djúpavogs og rændu og drápu vel á annað hundrað manns við Berufjörð og víðar á Austfjörðum.

Tyrkjaránssaga Austfjarða er um margt einstök því söguþráðurinn í henni er þannig að engu líkara er en söguritarinn hafi verið á ferð með sjóræningjunum allan tíman sem þeir dvöldu við Berufjörð. En það kemur sennilega til af því að í Vestmannaeyjum voru fleiri en einn Austfirðingur settur í land í stað álitlegri þræla m.a. maður sem var fatlaður á hendi. Líklegt er að fólkið hafi sagt hvort öðru söguna í lestum skipanna og þannig hafi hún varðveist frá fyrstu hendi á austfjörðum og síðan verið skrásett eftir skólapiltum að austan í Skálholti veturinn eftir.

Þegar skipin yfirgáfu Austfirði, eftir að hafa gefist upp á að komast inn Reyðafjörð vegna sterks mótvinds, sigldu þau suður með landinu og sameinuðust einu sjóræningjaskipi í viðbót sem þá var að koma úr hafi. Þessi skip sigldu svo til Vestamannaeyja, þar rændu og drápu sjóræningjarnir vel á þriðja hundrað manns. Lýsingarnar úr Vestmannaeyjum eru hrikalegar.

Fólkið af Austfjörðum og Vestmannaeyjum var selt á þrælamarkaði í Algeirsborg og er þerri framkvæmd vel lýst í Ferðabók Ólafs Egilssonar sem varð vitni af því þegar kona hans og börn voru seld. Fæstir áttu afturkvæmt til Íslands og ekki er vitað til að nokkur Austfirðingur hafi komist alla leið til baka. Guðríður Símonardóttir, síðar kona sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar, var ein af þeim fáu sem komst aftur til Íslands.

Séra Kristján Björnsson vígslu biskup í Skálholti vill meina, í inngangsorðum bókarinnar um Skálholt, að sálmar Hallgríms Péturssonar verði ekki fullútskýrðir nema með hliðsjón af þessum atburðum Íslandssögunnar, og þá að kona Hallgríms varð Guðríður Símonardóttir, -þjóðsagan persónan Tyrkja Gudda.

Bókin um Skálholt, sem kom út nú í sumar, er um þær heimildir og bréf sem varðveittust um þessa atburði. Telja höfundar að það sé Oddi Einarssyni biskup að þakka hvað mikið er til um sögu fólksins, enda tengdist Oddur biskup sumu af fólkinu sem rænt var bæði fjölskylduböndum og eins er talið að margir hafi þeir verið vinir hans.

Fyrir rétt rúmu ári síðan átti ég því láni að fagna, vegna tilstillis Jóhanns Elíassonar bloggara, að verða þeim bókahöfundunum innanhandar á sögusviðiðnu hér fyrir austan, sem aðallega fólst í því að benda þeim á þjóðsagan safn Öldu Snæbjörnsdóttir, -Dvergaseinn, -sem geymir skýrslu austfirskra skólapilta í Skálholti ásamt fjölda munnmæla og þjóðsagna um Tyrkjaránið hér fyrir austan.

Þeir félagar sendu mér bókina um Skálholt áritaða í pósti og fór ég samstundis sambandslaus niður á Sólhólinn úti við ysta haf í síðustu viku með henni Matthildi minni til að lesa um Skálholt á ólgu tímum.

Bókin er meira en fullkomlega þess virði að stauta sig í gegnum hana á ensku enda rennur hún vel, því sem næst eins og spennusaga. Það er fyrir löngu kominn tími til að Tyrkjaráninu verði gert skil á íslensku á jafn veglegan og vandaðan hátt og þeir Adam og Karl Smári hafa gert á ensku.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Á meðan ég las bókina Skálholt í síðustu viku fórum við Matthildur mín á Hvalnes og fundum dalinn þar sem fólkið dvaldi í þegar sjóræningjarnir fundu það ekki. Þetta er einstakur huldudalur sem heitir Hvaldalur og liggur á bak við Eystra-Horn alla leið inn undir Lónsheiði. Þó það sé hvergi sagt í Tyrkjaránssögu að Hvaldalur sé dalurinn með selinu, þá leynir það sér ekki við skoðun.

Þó svo að keyrt sé í gegnum dalinn á þjóðvegi eitt þá sést hann ekki fyrr en gengið er upp á tvær hæðir. Þó svo að ég hafi í hundruð skipta keyrt þessa leið fram og til baka þá hafði mér ekki hugkvæmst að kanna þennan dal fyrr en ég fór að spá í hvar fólkið á Hvalnesi hafði bjargast undan Hundtyrkjanum.

Eystrahorn 2014

Eystra-Horn er sterkt kennileiti á austur Íslandi þegar komið er af hafi. Bærinn Hvalnes kúrir undir fjöllunum. Þegar keyrt er fyrir Hvalnesið hægra megin á myndinni er komið yfir í Hvaldal.

 

IMG_7414

Þjóðvegur eitt í Hvaldal, framundan eru Hvalnesskriður. Hvassklettar vinstra megin við veginn. þar fannst einn elsti peningur sem fundist hefur á Íslandi.  Silfurpeningur sleginn í Róm 285 - 305 e. kr.. Sandurinn heitir Hlíðarsandur og var á öldum áður algrænn af melgresi, þar voru slegnir 50 hestar. En í Knútsbil 7. jan. 1886 fuku síðustu stráin á haf út. Nú er aðeins farið að votta aftur fyrir grænum lit í sandinum.

 

IMG_7304

Þegar litið er upp Hvaldal frá þjóðveginum við ströndina, þá skyggja Hvassklettar á útsýnið inn dalinn, auk þess sem hann beygir til austurs fyrir innan klettana.

 

IMG_7315

Það leynir sér ekki hvers vegna Hvassklettar bera það nafn. Þegar komið er upp á þá mætti ætla að sæist inn allan Hvaldalinn, en svo er ekki.

 

IMG_7350

Til að sjá inn allan dalinn þarf að fara nokkra leið þar til komið er á brún á framhlaupi sem ég held að heiti Hlaupgeiri. Þar má fyrst sjá inn allan dalinn. Þar eru örnefni eins og Seltindur, Selgil, Selbrekka og Selbotn, sem benda til að þar hafi verið haft við á seli áður fyrr.

 

IMG_7370

Hvaldalurinn er víða að verða grænn og gróinn. Sjá má melgresi bylgjast í blænum og grasbala inn á milli. Dalurinn er sem áður notaður til sumarbeitar fyrir sauðfé. Sennilega yrði túristavaðallinn fyrri til að eyða nýgræðingnum en sauðkindin, ef ferðamenn uppgötvuðu þennan fallega og friðsæla stað sem liggur að baki Eystra-Horni.

 

IMG_7398

Jafnvel þó ánni sé fylgt frá þjóðvegi sést ekki inn allan Hvaldalinn fyrr en komið er fyrir Hvasskletta og Hlaupgeira. Það er því ekki skrítið að Tyrkjunum hafi yfirsést hvar fólkið var á seli í Hvaldal, þó svo að þeir hafi komið í dalinn.


Þær fegurstu vonir er fæddust mér - - er hélar um stigu mína

Ef eitthvað er, -sem ætti skilyrðislaust að að sleppa í löngum bloggpistli í von um lesendur, þá er það að minnast á eilífðina, sálina, kærleikann og Guð, -hvað þá fara með ljóð þessu tengd. Allar þessar grundvallarreglur ætla ég að brjóta þennan langa föstudag og hef meir að segja ljóðlínur í fyrirsögn.

Kærleikurinn og kærleiksviljinn, traust á handleiðslu æðri máttar og einlæg viðleitni að samþýðast honum, eru aðalþættirnir í kenningu Jesú og allri sannri guðsdýrkun. Það í trúarbrögðunum sem er fram yfir þetta er að mestu leyti “hljómandi málmur og hvellandi bjalla”.

Í kirkjum kristinna manna er það oftast bjölluhljóðið, sem mest ber á.

Við jarðarfarir nálgast kirkjurnar það mest að vera musteri guðs. Ekki vegna þess, sem þar er venjulega sagt, heldur vegna þeirrar hljóðlátu undirgefni undir guðs vilja, sem fram kemur við slík tækifæri. (Skriftamál einsetumannsins kafli VI - Hið mikla dularfulla - bls 37)

Þessar vangaveltur um trúarbrögðin, kirkjuna og kærleikann í kenningu Krists má finna í bókinni Skriftarmál einsetumannsins eftir Sigurjón Friðjónsson, sem kom út 1929. Þar birtast skoðanir hans á andans málum í ljóðrænum og þ.m.t. tilgangi trúarbragða. Sigurjón lenti upp á kannt við þjóðkirkjuna á sínum yngri árum.

Í bók um Sigurjón Friðjónsson, sem Arnór sonur hans tók saman um ljóð hans og ævi, kemur fram hvað bar þar á milli. Sigurjón Friðjónsson og Kristín Jónsdóttir létu ekki skíra börnin sín, sem á 19. öld samsvaraði nánast því að segja sig úr lögum við Guð og menn. Þetta gerðu þau Kristín þrátt fyrir að vera sjálf gefin saman í kirkju.

Það sem meira var að Sigurjón hirti ekki um að greina frá ástæðum þess að skíra ekki börnin, og lenti snemma í ógöngum. Í bréfi til vinkonu sinnar í Vesturheimi skýrði hann ástæðuna og segist þar vel vita hvað það geti þýtt að taka sig út úr í þessu efni, og þá einkum fyrir börnin. Hans skoðun var sú að börn eigi að fá að taka þessa ákvörðun sjálf þegar þau hafi aldur og þroska til, -og segir;

“Ég þykist ekki hafa gert neitt jafn stórt drengsakaparbragð í lífinu og það að brjóta í bága við venjuna í þessu efni enda gerði ég það eftir skýlausri skipan tilfinningar minnar fyrir því hvað rétt er og rangt. En þó þekki ég ekkert dæmi þess, að það hafi verið lagt öðruvísi út en á verri veg”.

Sigurjón hafði komist í mikinn vanda vegna þessarar afstöðu sinnar þegar Sigurbjörg, annað barn þeirra hjóna, lést á fyrsta ári. Presturinn á Grenjaðarstað, séra Benedikt Kristjánsson, taldi sig ekki geta jarðað barnið vegna þess að það var ekki innan þjóðkirkjunnar. Jarðarför Sigurbjargar fór samt fram í kirkjunni í Nesi í Aðaldal eftir fjölmenna messu þar sem séra Benedikt þjónaði fyrir altari.

Þar flutti Sigurjón sjálfur ræðu og las síðan stutt kvæði við gröf barnsins. Í kvæðinu kvaðst hann fela hana minningu móður sinnar með ljóði “þær fegurstu vonir er fæddust mér - - er hélar um stigu mína”, en móðir sína missti hann sjálfur á 6. ári. Eftir að ljóðið var flutt við gröfina, gekk Friðjón faðir Sigurjóns til prestsins, sem stóð álengdar, og fékk hann til þess að taka rekuna og molda kistuna með vanalegum formálsorðum.

Sigurjón hélt ævilangt vopnahlé við kirkjuna, þó svo að ekkert af hans 11 börnum hafi verið skírð eftir sem áður, né fermd. Hann sótti ekki mikið kirkju um ævina nema við jarðarfarir nágranna, segir Arnór. Í bók Sigurjóns, -Skriftamál einsetumannsins, sem kom út árið 1929 á 63. aldursári hans, kemur glöggt fram hversu mikla virðingu hann bar fyrir almættinu og kærleiks boðskap Krists.

Hið eilífa snertir manninn eins og háfjalla kyrrð. Eins og dásamlegur friður. Eins og hamingja sem ekki verður skýrð með orðum.

Eins og niður fjarlægra vatna. Eins og vængjaþytur hvítra svana. Eins og hvískur gróandi skóga.

Í faðmi þess verður fljót sorgarinnar lygnt. Harmur hins liðna eins og brimgnýr í miklum fjarska. –

Eins og hlýr geislastafur, sem brýst í gegnum ský; brýst í gegnum myrkur og kulda – svo er kærleikur þess dularfulla. (Skriftarmál einsetumannsins kafli XII - Návist hins ósýnilega bls 64)

Mér lá mikil forvitni á að vita hvernig jaðarförin að Nesi hefði farið fram, því á hana hafði verið minnst á við mig þegar ég var enn vel innan við þrítugt og við Matthildur mín vorum að eignast okkar börn, á svipuðum aldri og Sigurjón og Kristín voru þegar Sigurbjörg annað barn þeirra var jarðað.

Þegar ég svo las þessi fáu orð úr ljóði í vetur “þær fegurstu vonir er fæddust mér - - er hélar um stigu mína”, þá fannst mér ég verða að finna ljóðið ef mögulegt væri. Arnór segir ekki mikið um jarðaför systur sinnar, en gefur þá vísbendingu að frá henni hafi Erlingur Friðjónsson, bróðir Sigurjóns, sagt í bók sinni, -Fyrir aldamót.

Ég fór því að leita eftir bókinni ef allt ljóðið skyldi vera þar, eins til að fá nákvæma lýsingu á þessum atburði. Bókina fann ég svo í fornbókaverslun og keypti. Þar er þessum jarðafarardegi lýst nákvæmlega, enda var Erlingur sjálfur viðstaddur og dagurinn honum sjálfsagt minnisstæður alla ævi.

Erlingur segir frá þeim bræðrum sínum Sigurjóni og Guðmundi Friðjónssonum sem ekki voru sammæðra Erlingi. Friðjón faðir þeirra átti fimm börn með móður Erlings án þess að þau hjónakornin hefðu gifst. Guðmundur var ungt skáld sem fór opinberlega gegn kirkjunni. Sigurjón gerði það sem fáheyrðast var, -hann fór ekki með börnin sín til skírnar.

Erlingur, sem var mikill félagsmálamaður og alþingismaður á sinni tíð, telur að kirkjuyfirvöld hafi verið búin að setja séra Benedikt fyrir, vegna trúarskoðana þeirra feðga á Sandi. Presturinn hafi því hvorki talið sér skylt né fært að jarðsyngja Sigurbjörgu þar sem hún var óskírð.

Í bókinni Eftir aldamót er þessum jarðafaradegi lýst sem björtum og fögrum síðsumardegi. Húskveðja fór fram heima á Sandi áður en haldið var til messu með litlu kistuna. Kirkjan var aldrei þessu vant yfirfull á venjulegum messudegi. Erlingur telur það vera vegna þess að mörgum hafi leikið forvitni á að vita hvernig þessi jarðaför barns, sem var óskrifað blað, færi fram. Enda afstaða prestsins hljóðbær orðin.

Öllu er lýst nákvæmlega, -hvar ungu hjónin sátu í kirkjunni við hornið á altarinu og hvar litla kistan stóð hjá þeim sunnan við gráturnar, en vaninn var við jarðaför að láta kistuna standa beint fram af altarinu. Þegar séra Benedikt hafði lokið venjulegri sunnudagsmessu gekk hann frá altarinu og settist við vegginn norðan við.

Sigurjón stóð á fætur og las yfir kistunni ræðu sem hann hafði á blöðum, hann talið hægt og með hléum. Ræðan var nokkuð löng og vék hann eitthvað að trúarskoðunum sínum. Hann hallaði ekki einu orði á kirkjuyfirvöld, en talaði um hversu lítið væri vitað um lífið hinumegin grafar.

Að ræðunni lokinni var litla kistan borin út að gröf og látin síga niður. Þar fór Sigurjón með ljóð, sem var eins og talað til móður hans sem hvíldi í gröfinni. Presturinn hafði ekki fylgt nánustu ættingjum eins og vani var við jarðarför, heldur stóð einn álengdar og fylgdist með hópnum við gröfina.

Þegar þarna var komið kom hik á jarðaförina, messufólkið stóð hljótt eins og beðið væri eftir einhverju. Friðjón faðir þeirra bræðra gekk þá til prestsins og talaði eitthvað við hann í hálfum hljóðum, sem engin heyrði, og ekki sá Erlingur séra Benedikt svara neinu.

En séra Benedikt gekk að gröfinni, tók skóflu úr moldarbingnum og þögnin var rofin með orðunum: “Af jörðu ertu komin. Að jörðu skaltu aftur verða. Og af jörðu skaltu aftur upp rísa.” Og nokkur korn af mold féllu á kistuna í gröfinni við hverja setningu.

Það létti yfir söfnuðinum, sem staðið hafði þögull þétt saman í kirkjugarðinum. Erlingur segir að úr andlitum fólksins hafi mátt sjá að presturinn hafði unnið það verk, sem í vitund þess var þýðingamest við skilnað manneskju við þetta líf.

Þegar séra Benedikt og kona hans voru kvödd við brottför frá Grenjaðarstað, voru Sigurjón og Kristín flutt úr kirkjusókn séra Benedikts og í aðra sveit. Þau hjónin gerðu sér ferð í kveðjusamsæti til heiðurs presthjónunum. Þar talaði Sigurjón til þeirra og sagði að ýmsir myndu halda að hann væri í andstöðu við prestinn, en þau hjónin væru komin til að sýna að svo hefði aldrei verið, ef einhver ágreiningur hefði verið, þá væri hann um ytri atriði í siðvenjum kirkjunnar.

Ljóðið sem ég vænti að finna í bók Erlings Friðjónssonar, -Fyrir aldamót, var ekki þar nema ein hending, en Erlingur segir erindin hafa verið þrjú, annað virðist því glatað, -en erindið er svona:

Þess vegna, móðir, ég hneigi hér,

er hélar um stigu mína,

þær fegurstu vonir, er fæddust mér,

í faðmlög við minningu þína.


Niðursetningar

Samkvæmt orðabók er niðursetningur einstaklingur sem býr ekki hjá fjölskyldu sinn heldur er á framfæri sveitarfélags, -sveitarómagi. Að verða niðursetningur forðaðist fólk af öllum mætti áður fyrr, því þá var einstaklingurinn upp á sveitunga sína kominn með framfærslu. Enda var meðferðin á niðursetningum ekki alltaf góð.

Í manntali frá 1801 kemur fram að niðursetningar voru tæp 5 % fólksfjölda á Íslandi. Í manntali hundrað árum fyrr eru þeir taldir um 15 % þjóðarinnar. Niðursetningar voru færðir á milli bæja, eða þeir færðu sig sjálfir á milli, en það átti þá helst við um vinnufæra ómaga. Hreppurinn greiddi með, -eða réttar sagt lét bjóða í niðursetninginn og fékk sá sem lægst bauð.

Helst var það ungt og gamalt fólk, sem átti á hættu að verða niðursetningar, eins einstæðingar sem höfðu misst starfsgetuna af einhverjum ástæðum. Áður en ellin kvaddi dyra þá var það stundum þannig, að ef fólk átti fjármuni þá lét það eignir sínar til þeirra sem sáu um það í ellinni og ef það var ótengt fólk var það kallað próventa.

Í bókinni Að vestan II eru tvær sögur af niðursetningum í Fellahreppi sem Sigmundur M Long skráði eftir að hann flutti til Vesturheims. Sigmundur var fæddur 1842 og foreldrar hans bjuggu um tíma á Ekkjufelli. Þessi bók er einstaklega áhugaverð fyrir þá sem vilja sjá fyrir sér hvernig lífið gekk fyrir á 19. öld og jafnvel á seinni hluta 18. aldar því Sigmundur hefur einnig skráð það sem hann heyrði frá eldra fólki.

Önnur niðursetnings sagan er af Jófríði Magnúsdóttir sem var niðursett unglingstúlka hjá Bessa ríka Árnasyni á Ormarsstöðum. Hún var sögð hafa verið frá náttúrunnar hendi efnisstúlku, en mjög illa haldin eins og átti sér stað um niðursetur á þeim árum. En Jófríður hefur verið niðursetningur á Ormarstöðum, miðað við fæðingadag og unglingsár, skömmu fyrir eða í Móðuharðindunum upp úr 1780.

Sigmundur segir þarna sjálfsagt söguna eins og hann hefur heyrt og munað. Ormarstaðafólkið á að hafa farið til messu í Áskirkju á páskadag, en Jófríður verið ein eftir heima. Á meðan fólkið var í burtu fór hún og skar stykki úr dauðum hesti, sem hafði lent ofan í fen snemma um veturinn, fór með bitann heim, -sauð og át.

Þetta uppgötvaðist og mæltist illa fyrir, bæði var bann við hrossakjötsáti hjá kirkjuyfirvöldum og hún hafði þar að auki gert þetta í leyfisleysi á stórhátíð. Bessi, sem var bæði hreppstjóri og nefndarmaður, fékk því framgengt að henni yrði refsað við messu á Ási, en þar var gapastokkur við kirkjuna til refsinga ætlaður.

Um hvítasunnu dróst Jófríður við staf máttfarin til messu með Ormarsstaðafólkinu. Á hlaðinu stakk einhver því að henni í trúnaði, hvaða refsing biði hennar. Við þá frétt ákvað hún að forða sér og höktir við stafinn heim á leið. Bessi bað menn um að sækja hana, en það vildi engin gera og var honum sagt að það færi best á að hann gerði það sjálfur.

Bessi snaraðist á eftir Jófríði og greip til hennar, en hún streittist á móti. “Nú duga engar sperringar;” -sagði Bessi og dró hana í gapastokkinn. Það merkilega við þessa sögu er að Jófríður varð síðar seinni kona Bessa og þótti bæði efna- og myndarkona því um hana var kveðin þessi vísa í sveitarvísum Fellahrepps eftir að hún hafði búið ekkja og eigandi á Birnufelli.

Á Birnufelli hringa hrund

hefur búið lengi,

Jófríður með jafna lund

jarðeigandi er þetta sprund.

Hin niðursetnings saga Sigmundar er frá hans samtíma, en þar segir hann frá Ingibjörgu gömlu Jósefsdóttir. Hann segir frá því þegar hún kom í heimsókn á hans bernskuheimili á Ekkjufelli um miðja 19. öld, lýsir henni sem lítilli konu, hörkulegri fjörmanneskju, greindri í betra lagi og skap mikilli.

Ingibjörg var Eyfirsk að uppruna, átti til að drekka vín og var hálfgerður flækingur í Fellum. Ef henni var misboðið, þá fór hún með illyrði og bölbænir, en fyrirbænir og þakklæti ef henni líkaði. Hann segir að Ingibjörg hafi verið næturgestur hjá foreldrum sínum og beðið þeim margfaldrar blessunar þegar hún kvaddi.

Hún hafði átt eina dóttir sem einnig hét Ingibjörg. Maður, sem kallaður var Jón Norðri af því að hann var að norðan, hafði barnað Ingibjörgu dóttir Ingibjargar og dó hún af barnsförum. Taldi gamla Ingibjörg Jón banamann dóttur sinnar og hataði hann bæði lífs og liðinn.

Þau Jón og Ingibjörg hittust einhverju sinni á Egilsstaðanesi og var Jón þá drukkin á hesti en Ingibjörg gamla algáð og fótgangandi. Bæði voru á leiðinni út fyrir Eyvindará og bauð Jón henni að sitja fyrir aftan sig á hestinum svo hún þyrfti ekki að vaða ána.

Ingibjörg þáði þetta, en þegar komið var á hinn bakkann var hún ein á hestinum, en Jón drukknaður í ánni. Hún Guð svarði fyrir að hún hefði verið völd að dauða Jóns, en ekki tók hún þetta nærri sér og sagði að fjandinn hefði betur mátt hirða Jón, þó fyrr hefði verið.

Sigmundur hitti Ingibjörgu aftur þegar hún lá í kör á Skeggjastöðum í Fellum. Þá var hún farin að sjá púka í kringum sig og fussaði og sveiaði um leið og hún sló til þeirra með vendi. Á milli bráði af henni og hún mundi vel eftir foreldrum Sigmundar og blessaði þá í bak og fyrir, þarna var Ingibjörg háöldruð orðin ómagi á framfæri sveitar.

Hún átti samkvæmt reglunni sveit í Glæsibæjarhreppi í Eyjafirði en þaðan var borgað með henni sem niðursetningi því ekki vildu þeir fá hana norður, og varla var tækt að flytja hana hreppaflutningum svo langa leið háaldraða og veika. Á seinasta aldursári Ingibjargar barst sú frétt með Héraðsmanni í Fell, sem hafði verið norður í landi, að Eyfirðingum þætti Ingibjörg vera orðin grunsamlega langlíf.

Um veturinn kom Glæsibæjarhreppstjórinn í Fell eins og skrattinn úr suðaleggnum. Vildi þá svo óheppilega til að Ingibjörg var dáin þremur mánuðum áður, en Fellamenn gátu sýnt honum kirkjubókina svo hann mætti sannfærast um að Fellamenn hefðu ekki látið þá í Glæsibæjarhreppi greiða með henni dauðri.

Í þessari bók Að vestan eru miklar heimildir um samfélag þess tíma og má ætla að þar sé sagt tæpitungu laust frá, enda sögurnar skráðar í fjarlægð við það fólk sem þær gátu sært. Sagnaþættir Sigmundar eru í raun mun merkilegri heldur en bara sögurnar, því þar lýsir hann einnig staðháttum og samgöngum.

Frásögnin af Ingibjörgu gömlu og Jóni Norðra á Egilsstaðanesinu á leið yfir Eyvindarána hefur líklega gerst þar sem Egilsstaðaflugvöllur er nú og hefur ferðinni væntanlega verið heitið út Eiðaþinghá eða niður á Seyðisfjörð.

Einnig var á þeim tíma engin brú yfir Lagarfljót, en ferja frá Ferjusteinunum í Fellbæ, sem eru rétt innan við norður enda Lagarfljótsbrúarinnar. Ferjan sigldi þaðan yfir í Ferjukílinn sem er rétt utan við austur enda brúarinnar.

Lögferju var lengst af sinnt á Ekkjufelli og má ætla að Skipalækur þar sem ferðaþjónusta er í dag neðan við golfvöllinn á Ekkjufelli, beri nafn sitt af lægi ferjubátsins.


Skaðaveður í Skriðdal

Fyrsta dagur október mánaðar þetta ár var svo tilbreytingarlaus, að ég man ekkert, hvað þá gerðist, ekki einu sinni hvernig veðrið var þennan dag. En 2. október var yndislega gott veður, logn og hægt skýjarek um loftið, og í því skiptust á dökkir og sólgylltir flekkir, um loftið, er liðu ofur hægt yfir grundir, hæðir og fjöll sveitarinnar.

Mér varð það á í athugsemd ekki fyrir svo löngu að monta mig af henni langömmu minni, við hann Steina Briem, eftir að hafa farið rangt með hvar amma Steina aldi manninn í Reykjavík. Eftir þessa athugasemd fór ég að kanna hvort ég hefði ekki einnig farið með rangt með varðandi formóður mína í athugasemdinni og ákvað að líta m.a. í bækur Halldórs Pálssonar, Skaðaveður. En þar segir frá fádæma byl í Skriðdal 4-8. október árið 1896.

Frásögn Halldórs hefst föstudaginn 2. október þegar hann var 8 ára snáði á hlaðinu heima hjá sér í Þingmúla í Skriðdal. Hann lýsir einstakri haustblíðu þar sem skýin líða eins og dúnhnoðrar fram af Múlakollinum út yfir Skriðdalinn og ævintýralegur fjárrekstur streymir út suðurdalinn niður á eyrarnar þar sem árnar mætast fyrir framan Þingmúla.

Þessi mikli fjárrekstur þokaðist nær, út yfir Hrossanesið, Jókuaurana og út í Arnhólsstaðanesið. Og fór ég nú betur að sjá mennina, sem ráku þennan stóra fjárrekstur. Þeir voru á eftir hópnum, til beggja hliða við hann, og einn þeirra var á undan honum og stuggaði frá þeim kindum, er á leið þeirra voru, Því sjáanlegt var, að þær máttu ekki koma saman við þennan stóra fjárrekstur. Allir voru menn þessir ríðandi. Framarlega í Arnhólsstaðanesinu stönsuðu mennirnir, og fjárhópurinn tók að dreifa sér um nesið og mennirnir að ríða í kringum fjárbreiðuna. Þeir vildu auðsjáanlega halda því til haga á nesinu.

Tveir af þessum rekstrarmönnum riðu niður að Múlaánni, yfir hana og heim í Þingmúlahlaðið til okkar barnanna, sem voru þar stödd. Annan þennan mann þekkti ég, það var Auðunn Halldórsson, sem átti heima á Haugum, þegar pabbi bjó á Víðilæk, og var hann nágranni okkar þá. Ég hafði ekki séð hann fyrr það árið, enda átti hann nú heima á bæ við Berufjörð. Auðunn kom yfir ána til að heilsa foreldrum mínum, á meðan þessi stóri fjárrekstur hvíldi sig og beit gras sér til hressingar. Pabbi var ekki heima við bæinn, en mamma tók á móti gestunum. Hún spurði hvort þeir væru að reka markaðssauði, og sagði Auðunn, að svo væri.

Markaðssauðir þessir voru úr sveitunum suður af Skriðdal, úr Breiðdal, Berufirði og ef til vill allt sunnan úr Hornafirði. Englendingar keyptu þá hér á landi í allmörg ár fyrir síðustu aldamót talsvert af sauðum og fluttu þá lifandi yfir hafið á milli landanna, og var ráðgert að smala saman sauðum af Austurlandi, reka til Seyðisfjarðar og flytja þaðan á skipi yfir hafið.

Í þessari frásögn Halldórs kemur vel fram hvað sauðasala til Englands spilaði stóra rullu hjá bændum á Austurlandi, en fljótt skipast veður í lofti. Það var einmitt allt suðféð sem féll í Skriðdal í þessu skaðaveðri sem var tilefni þess að ég montaðist yfir formóðir minni við Steina. Um Ingibjörgu langömmu mína á Vaði í Skriðdal hefur hins vegar aldrei verið skrifuð bók og yfir höfuð lítið verið um hana ritað.

En ég gerði henni skil með þessari athugasemd: “Varðandi langaömmu mína í Skriðdalnum, þá var hún úr 16 systkina hóp, átti sjálf 17 börn með tveimur mönnum og vissi ekki sauða sinna tal. Missti að talið var 200 fjár í einu og sama fjárskaðaveðrinu í október skömmu fyrir aldamótin 1900, en var talin eiga 400 á eftir.” Og grunaði mig að nú hefði ég sagt of mikið.

Gefum nú Halldóri aftur orðið: En á sunnudagsmorgunninn var komið ófært snjóveður, er seinna verður frá sagt, og urðu umræddir markaðssauðir að bíða á Miðhúsum í Eiðaþinghá í nokkra daga, áður en fært yrði yfir Fjarðarheiði. Hvað voru það nú margir sauðir sem varð að passa á Miðhúsum nótt og dag, þar til fært var að reka þá yfir Fjarðarheiði? -það virðast mér hafa verið yfir sjöþúsund sauðir.

Sauðasalan til Bretlands voru viðskipti með sauðfé á fæti sem stóð yfir á síðustu áratugum 19. aldar. Sauðfé var rekið til skips sem sigldu til Bretlands og þaðan til slátrunar. Bændur fengu miklu betra verð fyrir sauðfé í þessum viðskiptum en áður hafði tíðkast og þeir fengu greitt í peningum, en áður höfðu bændur eingöngu haft val um að leggja inn vörur hjá kaupmönnum og taka vörur út í staðinn. Lög sem sett voru í Bretlandi árið 1896 bundu endi á þennan markað nokkrum árum seinna og ollu kreppu í landbúnaði á Íslandi.

Þó svo að Ingibjörg Bjarnadóttir langamma mín á Vaði hafi ekki komist á bókfell, og ekki einu sinni finnist um hana minningagrein, lifir hún í munnmælum 160 árum eftir fæðingu sína, enda á hún vel á annað þúsund afkomendur. Einnig hefur hennar verið getið í sveitarlýsingu og minningagreinum um börnin hennar. Hún á það þó sameiginlegt með eiginmönnum sínum að um þau hefur lítið verið ritað þó svo að munnmælin leyni því ekki að þarna var um dugnaðarfólk að ræða, -ramm íslenskt bændafólk.

Ingibjörg Bjarnadóttir

Ingibjörg Bjarnadóttir (1862 - 1940) -ung að árum, mynd af facebook 

Ingibjörg á Vaði var mikil búkona, þótti nokkuð vinnuhörð en sá líka um að vinnufólkið liði ekki og vistinni þar við brugðið. Faðir Ingibjargar var Bjarni Sveinsson í Viðfirði. Þeir voru bræður Þórarin faðir Stefáns á Mýrum og Bjarni faðir Ingibjargar. Móðir Ingibjargar var Guðrún Jónsdóttir, dóttir Jóns Björnssonar bónda í Fannadal í Norðfirði og Stuðlum Reyðarfirði og Ingibjargar Illugadóttir.

Ingibjörg Bjarnadóttir giftist Birni Ívarssyni frá Vaði (1852 – 09.09.1900) 1882. Björn var talinn góður bóndi og á tímabili mun hann hafa verið fjárflesti bóndi í Skriðdal en bú hans var frekar affallasamt því Vað var engjalítil jörð og varð alltaf að treysta á beit þar. Haustið 1896 gerði hér mikið fjárskaðaveður dagana 4.-9. október. Þá er talið að hafi farist einn fimmti af öllu fé í Skriðdal (á bilinu 1.300 – 3.000 samkv. Skaðaveður/Halldór Pálsson) en hvergi eins margt eins og á Vaði. Þar er sagt að hafi farist um 200 fjár. (Hrólfur Kristbjörnsson -Skriðdæla bls 144)

Frændi minn sagði mér endur fyrir löngu að hann hefði heyrt þá sögu að Björn Ívarsson hefði gert sér ferð niður í Viðfjörð til að biðja sér konu. Hann hefði haft augastað á einni þeirra Viðfjarðarsystra, en að endingu hefði Ingibjörg farið með honum í Skriðdalinn, þau hefðu átt betur saman en sú systranna sem ferðin var farin vegna.

Ingibjörg á Vaði var mikillar gerðar eins og mörg þeirra Bjarnabarna Sveinssonar og Guðrúnar Jónsdóttur í Viðfirði. Þung áföll aldamótaáranna buguðu Ingibjörgu ekki, þvert á móti sneri hún vörn í sókn er hún missti mann sinn, Bjarna Ívarsson, fimmtugan á hallandi sumri 1900 frá 12 börnum og við skert stórbúið. Giftist hún aftur, er lög leyfðu að skemmstum tíma ekkjunnar liðnum, ráðsmanni á búi sínu, Jóni Björgvini Jónssyni frá Hallbjarnarstöðum. Varð þeim auðið 5 barna og Ingibjörg þó 39 ára, er þau áttust. Festu þau hjón kaup á Vaði 1907, en þar var Skriðuklaustursjörð. Bjuggu þau til elli á Vaði. Dó Ingibjörg frá Viðfirði 1940, en Jón Björgvin 1954, 85 ára. (sr Ágúst Sigurðsson í minningagrein um ömmu mína Björgu Jónsdóttur)

Stefán heitinn Bjarnason frændi minn í Flögu skrifaði og gaf út tvær bækur; Frá torfbæ til tölvualdar á 50 árum og Að duga eða drepast. Í þessum stórfróðlegu bókum um samtíma sinn í Skriðdal er samt ekkert um ömmu hans á Vaði, en í afmælisminningu um frænku sína á Mýrum hefur hann þetta að segja; -Björn og Ingibjörg bjuggu stórbúi á Vaði og var Björn talinn fjárflestur bóndi i Skriðdal. Ingibjörg var dugnaðarforkur til allra verka. Ég nefni litið dæmi um dugnað hennar við rúningu á vorin. Þá þurfti vel röskan mann til að taka kindurnar leggja niður og binda. En þá var venja að það voru bundnir saman fætur og kindin látin liggja á jörðinni, en Ingibjörg klippti með venjulegum skærum. Mér er ljúft að minnast Ingibjargar ömmu minnar, þó ekki væri nema þegar ég fór fyrst að heiman, litill drengstauli og dvaldi að mig minnir 2 vikur á Vaði. Björg dóttir hennar ætlaði að kenna mér að lesa, skrifa og fleira. Mér leiddist og gekk námið illa, en amma var svo góð við mig. Því gleymi ég aldrei.

Ingibjörg Bjarnadóttir, Bjarni Björnsson og Jón Björgvin Jónsson

Ingibjörg á miðjum aldri, -standandi við borðið Bjarni Björnsson sonur hennar. bóndi á Borg. Fyrir aftan hana stendur Jón Björgvin Jónsson seinni maður hennar.

Eins og ég sagði hér að ofan þá lifa enn munnmæli um Ingibjörgu. Fyrir nokkrum árum vorum við pólskir vinnufélagar mínir að vinna að vorlagi við lagfæringar á sundlauginni á Norðfirði. Þá kom eldri maður, sem var reglulegur sundlaugargestur, til að fylgjast með framkvæmdum. Hann spurði vinnufélaga mína hvort þeir væru Héraðsmenn, og fékk loðin svör, en þó á Íslensku. Ég tróð mér inn í samræðurnar og sagði honum að þeir væru Borgfirðingar, enda voru tveir af þeim bræður, búnir að búa á Borgarfirði eystra í 10 ár áður en þeir fluttu í Egilsstaði.

Maðurinn sagði þá við mig að ástæða þess að hann spyrði væri sú að hann ætti mikið af skyldfólki á Héraði. Það hefði flutt ung kona úr neðra í efra, endur fyrir löngu, og eignast þar 17 börn, og afkomendur hennar væru um allt Hérað og náskyldir sér. -Þú ert þá væntanlega að tala um Ingibjörgu langaömmu mína á Vaði; sagði ég, -og það passaði.

Já, Ingibjörg hefur verið talin mikillar gerðar, og í bók Halldórs Pálssonar, Skaðaveður, -getur hann sérstaklega fjárskaðans mikla á Vaði og hefur þar að heimildamanni Stefán Þórarinsson síðar stórbónda á Mýrum í Skriðdal, sem var þá vinnumaður á Vaði; -, , ,en fyrir rás viðburðanna lendir hann á Vaði, til Björns Ívarssonar bónda þar og konu hans Ingibjargar Bjarnadóttur frá Viðfirði, frænku sinnar. – Árið 1897 hóf faðir minn búskap á Mýrum, sem þá var kirkjueign. Á því ári gekk hann að eiga Sesselju Bjarnadóttir frá Viðfirði, systir Ingibjargar á Vaði. Heyrt hef ég að margir hafi undrast þann ráðahag, þar sem Sesselja var sjúklingur og dó eftir fárra vikna sambúð. Töldu sumir að Ingibjörg á Vaði hafi sótt það fast að koma þessum ráðahag í kring, og faðir minn, sem var gæflyndur maður og átti Ingibjörgu margt að þakka, hafi látið undan þrýstingi frá henni. (Sveinn Stefánsson Mýrum / Múlaþing 22.tbl bls 84 og 86)

Eitt atriði hef ég kannski ekki farið rétt með í athugasemd minni til Steina Briem. Ingibjörg var ekki úr 16 systkinahóp samkvæmt Íslendingabók, en í minningagrein um Guðrúna Jónsdóttur, ættmóður Viðfirðinga, eru þau talin 16, en ekki nema 15 í Íslendingabók, en afkomendur Guðrúnar eru tæplega sex þúsund samkvæmt sömu bók. Um Guðrúnu gegnir það sama og um Ingibjörgu, sáralítið er til um hana skráð. Munnmælin segja þó að þar hafi farið mikill kvenskörungur, til sjós og lands.

Minningagrein hefur samt sem áður verið rituð um Guðrúnu Jónsdóttir sem bjó í Viðfirði, Loðmundarfirði og var að lokum á Skorrastað í Norðfirði. Þar má lesa m.a. þetta; -Hún sýndi jafnan mikinn dugnað og iðjusemi. Hún var jafn fær að ganga til sláttar sem raksturs. Hún var tóskaparkona mikil og vefjarkona með afbrigðum, enda þurfti hún á því að halda í Viðfirði meðan öll börnin voru heima og heimilisfólk vanalegast 15—17 manns og allur íverufatnaður og mikið af rúmfatnaði unnið heima. - Gáfnafar hennar var fjölþætt og gætti þess best á efri árum hennar í ættfræði, sagnafjölda og listfengi í því að segja frá sögum og viðburðum fyrri tíma með orðgnótt, fjöri og kynngikrafti bestu þjóðsagna. Minni og andlegu fjöri hjelt hún fram að síðustu dögum. Með henni hygg jeg að i gröfina hafi farið ýmiskonar þjóðlegur fróðleikur, sem skilið átti að geymast.

Ingibjörg Bjarnadóttir endaði ævi sína á Jaðri í Vallanesi, hún flutti þangað ásamt Jóni Björgvin til að aðstoða ungu presthjónin við bústörfin, þegar Björg dóttir þeirra giftist sr Sigurði Þórðarsyni úr Selárdal í Arnarfirði. Amma talaði aldrei um móður sína svo ég heyrði, en Magnús afi minn, sem varð seinni maður Bjargar ömmu, sagði mér að Ingibjörg hefði verið mikil manneskja og átti tæpast orð til að lýsa mannkostum tengdamóður sinnar, og atgervi.

Af heimilislífinu á þessum bæ um veturinn er fátt eitt að segja. Sambýlið var svo gott sem best getur hugsast, bæði á karl- og kvenhönd. Að mér teknum voru karlar úti við gegningar gripa myrkranna á milli og fram á vökur. Konur litu varla upp úr tóvinnu, enda veitti ekki af, til þess að halda á sér hita, því ekkert eldfæri eða neins konar hitagjafi var til í bænum, nema ef vera skildi hlóðasteinar frami í eldhúsi. En önnur ástæða var til kappsins við ullarvinnuna.

Á Fljótsdalshéraði klæddust menn á þeim tímum ekki öðru en ullarfötum, og hvert heimili varð að halda við fatnaði heimilismanna sinna. – Þegar fram um eða yfir miðvetur kom, var farið að setja upp vefi af þræði, er konur höfðu spunnið. Spunnu þær þá ívafið jöfnum höndum við þráð í næstu vefi. Allar kvöldvökur skammdegisins kembdu karlmenn og / eða tóku ofan ull eftir ástæðum, til stuðnings tóskapnum.

Þegar dag fór að lengja, hófst vefnaðurinn af sama kappi sem önnur tóvinna, enda þá meira tóm frá gegningum. – Þetta var tóvinna með allt öðru sniði og unnin með miklu meiri alvöru og kappi en ég hafði þekkt á Vestur- eða Suðurlandi. En miklu meiri var þó munur vinnunnar. Ég hafði vanist mosa- eða hellulituðum. Hér voru aftur eingöngu notaðir suðalitirnir, samkembdir í margskonar litbrigðu, mjög smekklegum, allt tvíkembt, nauðhært, svo ekki sást toghár á hinum vandaðri fötum, sparifötunum.

Hallgrímur biskup hafði komið á Héraðið sumarið áður (1890). Sagði hann mér meðal annars að hann hefði aldrei á landi hér séð svo prúðbúið og jafnbúið fólk sem þar, og allt heimaunnin ullarföt, og allir bændur í yfirfrökkum úr því sama. Dáðist hann mjög af þessu.

Konur gengu þar með herðasjöl, þríhyrnur og skakka, er svo var nefnt, heimaunnið og prjónað, með allskonar útprjóni. Allt var þetta úr nauðhærðu þeli, í suðalitunum, samkembt, með svo nákvæmum litasamsetningum að hrein meistaraverk voru. (Úrdráttur úr texta um vetur í Þingmúla, af heimilislífi og tóvinnu II bindi bls 142)

Þetta má lesa í endurminningum sr Magnúsar Bl Jónssonar um veturinn 1891-1892 á Þingmúla, þegar fjölskyldan var nýflutt úr Reykjavík í Skriðdal, sumarið á eftir fluttu þau í Vallanes. Lýsing þessi á ullarvinnslu set ég hér vegna þess að af textanum má ætla að svipaður vefnaður hafi verið unnin á bæjum í Skriðdal og jafnvel öllu Fljótsdalshéraði.

Undanfarið hefur vefstóll Ingibjargar Bjarnadóttir langömmu minnar á Vaði verið mér hugleikinn, og hefur hann orðið tilefni til þess að ég hef á hana minnst í samtölum við fólk. Þannig er að Björg amma mín vaðveitti þennan vefstól ásamt rokk móður sinnar sem er mitt helsta stofustáss. Vefstóllinn er aftur á móti hreinræktað vinnutæki án allra skreytinga og sennilega heimasmíði fyrir lítið pláss, miðað við hlutföll.

Vefstólinn hefur síðan amma og afi skildu við verið varðveittur af frænku minni, sem komin er til efri ára, og hefur áhuga á að koma honum í góðar hendur. Hvorki safnastofnun, óbyggðasetur né aðrir hafa séð sér fært að varðveita þennan vefstól. Ingibjörg á vel á annað þúsund afkomendur, enn hefur ekki neinn þeirra, sem spurður hefur verið, séð sér fært að taka vefstólin að sér, enda kannski lítill skaði þó tapist samtíningur af gömlum spýtum.

Ingibjörg á Vaði í Vallanesi

Ingibjörg gömul kona fyrir framan húsið á Jaðri, með föður minn, Sigurð Þórðarson Magnússon, á fyrsta ári. 


Sjóhrakningur frá Djúpavogi til Vestmannaeyja

Um og eftir miðja 19. öld var þilskipaútgerð með allmiklum blóma á Djúpavogi, og líklega mun óhætt að fullyrða, að hvergi austanlands hafi hún verið rekin með eins miklu fjöri og þar. Lýsi var í háu verði á heimsmarkaðinum og mikil þörf á þeirri vöru. Eins og kunnugt er af frásögnum frá þeim tíma, var lýsi mjög notað til ljósmatar og jafnvel til götulýsingar í sumum stórborgum Norðurlanda. Tryggvi Gunnarsson segir svo frá því í endurminningum sínum: „Um og eftir 1870 voru göturnar í sjálfri Kaupmannahöfn lýstar með lýsisljóskerum."

Bonnesen 2

Bonnesen hákrlaskúta Weyvadts á Djúpavogi, "Smelteríið" hákarla-lýsisbræðslan í baksýn

Aðaláherslan var lögð á hákarlaveiði, og hákarlalýsi var dýrast allra lýsistegunda. Flest hákarlaskipin voru lítil, eða um 15 smálestir. Átti Jóhann Malmkvist eitt af þeirri tegund og stýrði því í mörg ár. Bondesen hét 15 smálesta skúta, sem Weywadt verslunarstjóri Örum & Wulffs á Djúpavogi átti; lét hann smíða hana og gerði hana svo út árlega á meðan hún entist. Fyrst var danskur skipstjóri með hana, en síðar íslenskir, þar á meðal Brynjólfur Jónsson frá Reyðará í Lóni; var hann einn hinna allra fremstu sjómanna á sínum tíma. Fyrir og um aldamótin síðustu var hann hafnsögumaður dönsku varðskipanna Heimdalls og Heklu, og höfðu sjóliðsforingjar miklar mætur á honum.

Árið 1895 var hann á Heimdalli, sem þá var staddur á Eskifirði, og var ferðinni í það sinn heitið suður með landi. Þegar komið var út fyrir fjarðarmynnið, var dimm þoka yfir hafinu. Alllöngum tíma eftir það er landsýn hvarf, kom Brynjólfur á stjórnpall til yfirmanna, og spurðu þeir hann þá, hvar þeir mundu vera staddir. Brynjólfur bað að minnka skrið skipsins, tók grunnsökku, lét hana dragast í botni litla stund og dró hana síðan inn. Skoðaði hann sökkuna vandlega og mælti síðan: „Nálægt Skeiðarárrennunni." í þeim svifum dreifðist þokan, svo að sá til lands, og reyndist þetta rétt.

Kona Brynjólfs hét Siggerður, en synir þeirra Jón og Björn; var Björn heitinn eftir bróður Brynjólfs, er fórst með lítilli hákarlaskútu, er smíðuð var á Djúpavogi og hét Morgunroði. Litlu síðar en það sjóslys varð, komst sá kvittur á loft eftir frönskum fiskimönnum, sem komu á Norðfjörð eða Fáskrúðsfjörð, að íslenskum manni eða mönnum hefði verið bjargað í vonskuveðri af brotnu skipi; hefði sá fyrsti, sem upp kom á franska skipið, haft öxi í hendi og hótað að höggva skipverja, ef þeir tregðuðust við að liðsinna þeim. Björn var sagður styrkur vel og snar í hreyfingum. — Allmörgum árum síðar barst sú frétt af Fáskrúðsfirði, að á franskri skútu hefði verið meira en miðaldra háseti, sem skildi að miklu leyti íslensku, en talaði hana bjagaða. Átti hann að hafa spurt um Jón bónda á Reyðará og börn hans. Sumir trúðu því, að þetta hefði Björn verið.

Hákarlaskútur á Djúpavogi

Hákarlaskútur í hafís á Djúpavogi

Annað skip, er Fortuna hét og gert var út frá Djúpavogi, fórst með allri áhöfn; var það lítið skip og smíðað í Danmörku. Aðaleigandi þess var Björn hreppstjóri Gíslason á Búlandsnesi, og með því fórst sonur hans, mesti efnismaður um tvítugsaldur, og varð Birni mjög um það. — Enn fórst lítið skip, sem smíðað var á Djúpavogi, og komst enginn maður lífs af því; var það með þiljum, og ekki man ég, hvað það hét. — Þá tíðkaðist það, að skip þau, sem komu á vorin með vörur, voru gerð út á hákarlaveiðar fram að hausti.

Eitt vorið var kaupfar, sem Elsa hét, sent með vörur til Djúpavogs; kom hún aldrei fram, en eftir frönskum fiskimönnum, sem komu til Austfjarða, gengu ýmsar sögur um afdrif hennar. Sagðist þeim svo frá, að þeir hefðu orðið hennar varir í hafi skammt undan landi; var þá grimmdar norðanveður með miklu frosti, og sigldi hún að landi. Sáu þeir þungar öldur falla yfir „Elsu“, og í einni slíkri hvarf hún sjónum þeirra niður í djúpið og sást ekki framar.

Vegna þessara miklu og tíðu slysfara, sem hér hefur verið greint frá, sló óhug á mestu áhugamennina í sjósókn. Var þá það ráð tekið, að smíða stóra róðrar- og seglbáta. Verður hér sagt frá einum slíkum bát og hrakningi hans frá Djúpavogi til Vestmannaeyja.

Djúpivogur

Óþekkt skúta upp í fjöru á Djúpavogi

Um og eftir miðja 19. öld bjó sá bóndi á Hálsi við Hamarsfjörð, er Lúðvík Lúðvíksson hét. Hann var vel kynntur maður, smiður góður og fékkst við bátasmíði. Smíðaði hann bát, miklum mun stærra en róðrarbátar voru í þá daga. í túnfætinum á Hálsi er bær, sem Strýta heitir, og rétt þar við er þunn klettabrík, margra mannhæða há, og heitir Strýtukambur. Undir þeim kletti var báturinn smíðaður. Fremst í honum var þakið skýli fyrir bátverja. Hlaut hann nafnið Hamarsfjörður og átti að stunda fisk- og hákarlaveiðar. Frá staðnum, þar sem báturinn var smíðaður, var rúmur kílómetri niður að sjó, en slysalaust tókst að koma honum þá leið með mannsöfnuði.

Þegar líkur þóttu til, að fiskur færi að nálgast og veður leyfði, var bát þessum róið, en lítið aflaðist í fyrstu róðrum. Fór nú að líða á veturinn, og tóku bátverjar að hætta sér lengra suður með ströndinni, og var það oft áður fyrr algengt, á meðan róðrarbátar þaðan fóru á Styrmishafnargrunn, en stundum jafnvel fyrir Hvíting, sem er fyrir Hvalneshorni (Austurhorni) sunnanverðu. Eitt sinn í góðu veðri og sæmilegu útliti héldu bátverjar suður að Hvítingi. Voru það þeir Lúðvík bóndi á Hálsi og Sveinn Jóhannsson, sonur Jóhanns skipstjóra Malmkvists eldra, sem var lærður skipstjóri og ágætur sjómaður. Hefur Sveinn eflaust stundað sjómennsku með föður sínum. Nöfn hinna, sem á bátnum voru, eru nú gleymd, en bátverjar hafa eflaust verið fjórir eða fimm.

Þegar þeir komu suður undir Austurhorn, fóru þeir að verða varir við fisk, og fór aflinn heldur vaxandi, en þegar liðið var fram yfir miðjan dag, skall yfir norðannorðaustanstormur mjög snarpur með vægu frosti; reyndist þá ógerningur að komast heimleiðis, og var eina ráðið að slá undan ofsanum. Þegar þeir fóru fyrir Hvalnestangann, sagði Sveinn Jóhannsson, sem sat við stýri, við félaga sína: ,,Nú er útséð um það, piltar, að við njótum kvöldgrautarins á Hvalnesi á þessu kvöldi.“

Bátinn bar hratt undan veðrinu suður með ströndinni; sat Sveinn við stýri. Þegar þá bar fram hjá Stokksnesi við Vesturhorn, sagði Sveinn við Lúðvík: „Hér hefðum við getað náð landi og bjargað lífi okkar, en bátnum ekki.“ „Þú hefðir átt að segja þetta fyrr," sagði Lúðvík. Þá hafði bátinn borið svo langt frá nesinu, að ekki var framar um lendingu að ræða þar. Veðrið hélst alla næstu nótt, og bátinn rak sífellt suður með landi.

Vegna þess, að langt er um liðið síðan atburðir þessir gerðust, verður að styðjast við líkur um hríð, en telja má sennilegt, að þegar slota tók veðrinu, hafi bátverjar gripið til segla, að svo miklu leyti sem því varð við komið. Áfram var haldið fram með ströndinni, en á hve löngum tíma þeim sóttist leiðin, er nú gleymt; gætilega áætlað er mjög sennilegt, að á fjórða sólarhring hafi þeir haft sýn af Vestmannaeyjum. Munu þeir hafa verið sæmilega birgir að matvælum og vatni.

Sumir segja, að þegar þeir félagar hafi nálgast Vestmannaeyjar, hafi þeir verið orðnir mjög þrekaðir og skort vatn; hafi þeir gefið neyðarmerki, bátur úr Eyjum róið út til þeirra og róið þeim að landi. Fengu þeir hina bestu aðhlynningu í Eyjum og voru furðu fljótir að jafna sig eftir hrakninginn.

Engar voru strandferðir í þá daga og póstgöngur strjálar, en sá ágalli á þessum stað, að yfir sundið á milli Eyja og lands verður eigi farið nema í góðu veðri, því að við brimsand er að lenda. Eftir það er þeir félagar náðu landi í Eyjum, brá til umhleypinga, og var tíðast mjög stormasamt. Leið, svo fram um hríð, að þeir félagar urðu að sætta sig við aðgerðaleysi, en um miðjan júní fór Lúðvík bóndi upp í Landeyjasand, keypti sér þar hest og lagði af stað heimleiðis austur. Áttu hinir að bíða leiðis og sigla austur.

Eins og nærri má geta, urðu ættingjar og aðrir vandamenn þeirra félaga harmi lostnir, þegar óveðrið skall yfir og svo leið hver dagurinn á fætur öðrum, að ekkert spurðist til bátsins og hvergi rak neitt að landi, sem gæfi vitneskju um afdrif hans. Var því talið víst, að þeir félagar hefðu allir týnst með bátnum. Þá bjuggu í Stekkjarhjáleigu hjónin Hildur Brynjólfsdóttir, Eiríkssonar bónda í Hlíð í Lóni, og Jón Einarsson. Mjög stutt er milli bæjanna Háls og Stekkjarhjáleigu.

Um Jónsmessuleytið var Jón bóndi árla morguns að hyggja að lambám sínum. Sá hann þá ríðandi mann koma sunnan veginn og halda heim að Hálsi. Var Jón á heimleið og er heim.kom, sagði hann við konu sína, að ef Lúðvík vinur sinn væri lífs, gæti hann best trúað, að hann hefði séð til ferða hans. Skömmu síðar barst út fréttin um heimkomu Lúðvíks og hrakning þeirra félaga; urðu allir glaðir við og þóttust þá úr helju heimt hafa.

Á þriðja degi eftir heimkomu Lúðvíks kom báturinn austur heilu og höldnu; hafði hann haft besta byr alla leið austur fyrir Austurhorn. Mælt er, að sést hafi til hans á Hrómundarbót, aðrir bátar róið út á móti honum og hjálpað honum að landi. Leki hafði komið að bátnum á austurleið, og var hann því lítið eða ekkert notaður upp frá því. — Fleiri bátar af þessari gerð munu ekki hafa verið smíðaðir á þeim slóðum.

Lúðvík bóndi á Hálsi var myndarlegur maður og vel kynntur. Kona hans var Katrín Antoníusdóttir, en synir þeirra voru þeir Lúðvík bóndi á Karlsstöðum á Berufjarðarströnd og Hans í Sjólyst við Djúpavog. Hann var bátasmiður og maður listfengur, prúðmenni hið mesta og vildi öllum gott gera. — Sveinn Jóhannsson var mesti myndarmaður, en varð lítið eitt veill á geðsmunum á efri árum. Hann bjó á ýmsum stöðum í Lóni.

Frásögn þessa hef ég skráð eftir því sem ég heyrði ömmu mína, Hildi Brynjólfsdóttur, segja. Hún dó í febrúar 1894. (Handrit Guðjóns Brynjólfssonar í Skálholti)

 

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

 

Frásögnin birtist í Þjóðsagnasafninu "Gríma hin nýja - safn til þjóðlegra fræða" sem Þorsteinn M Jónsson gaf út. Í safninu eru sögur sem ekki fara hátt í Íslandssögunni. Í þessari sjóhrakningasögu segir af Lúðvík og er hann sagður Lúðvíksson, en ætla má að þarna sé átt við Lúðvík Jónatansson. Kona Lúðvíks er sögð Katrín Antoníusdóttir, en hún grunar mig að hafi verið móður hans.

Katrín Antoníusdóttir var kona Hans Jónatans, mannsins sem stal sjálfum sér, fyrsta blökkumannsins sem sögur fara af á Íslandi. Þau áttu saman dótturina Hansínu og son sem hét Lúðvík og bjó á Hálsi, hann var giftur Önnu Maríu Jóhannsdóttir Malmquist frá Hálsi. Þeir Sveinn Jóhannsson, hinn skipverjinn á Hamarsfirði sem nefndur er á í hrakningasögunni, hafa þá væntanlega verið mágar. Tveir synir Önnu Maríu Jóhannsdóttur Malmkvist og Lúðvíks Jónatanssonar hétu Hans og Lúðvík, Hans var bátasmiður á Strýtu og Lúðvík bjó á Karlsstöðum. 

Synir Hans á Strýtu voru svo m.a. Lúðvík hafnsögumaður í Sjólyst á Djúpavogi og Jóhann Hansson vélsmiður á Seyðisfirði sem átti og rak þar Vélsmiðju Jóhanns Hanssonar, sem varð síðar að Tækniminjasafni Austurlands, en eins og Eiríkur Sigurðsson orðar það í bókinni Undir Búlandstindi þá "virðist sérstakur hagleikur til handanna" vera á meðal afkomenda Katrínar og Hans Jónatans. Fram á okkar daga hafa afkomendur Katrínar Antoníusdóttir og Hans Jónatans búið í Sjólyst á Djúpavogi.

Hvernig svo sem ættfræðinni er nákvæmlega farið, þá er nokkuð víst að þarna er verið að segja frá afkomendum Hans Jónatans og Katrínar Antoníusardóttir, sem giftist eftir fráfall Hans Jónatans Birni Gíslasyni á Búlandsnesi, þess sem gerði út hákarlaskútuna Fortuna og sagt er frá í upphafi frásagnar. Þess ber að gæta að samkvæmt tímalínunni hefur Sjóhrakningurinn til Vestmannaeyja gerst áður, -eða í upphafi þess blómaskeiðs þilbátaútgerðar á Djúpavogi sem um getur í upphafi frásagnarinnar.

Eins stórútgerðamanns þessa tíma á Djúpavogi er ekki getið, en það er Otto Cristian Hammer sjóliðsforingja. Hann gerði út að minnsta kosti fjórar hákarlaskútur frá Djúpavogi á árunu 1868-1873, auk þess að vera bæði með umsvif á Vestdalseyri í Seyðisfirði og á Norðfirði. Gata á Djúpavogi er kennd við Hammer, -Hammersminni; en áður en götur fengu nöfn á Djúpavogi var þar húsið Hammersminni þar sem Hammer bjó og er það við sömu götu og Sjólyst.

Þegar ég bjó á Djúpavogi þá spáði ég mikið í þetta hákarlaskútutímabil, enda varla nema von, því myndir Nikolínu Weyvadt eins fyrsta ljósmyndarans á Íslandi voru frá Djúpavogi á seinni hluta 19. aldar. Á þessum myndum voru oftar en ekki hákarlaskútur á voginum. Ein skúta hefur greinilega verið í miklu uppáhaldi hjá Nikolínu en það var Bonnesen, skúta föður hennar. Það fór svo að ég málaði margar myndir af skútunum og þá sérstaklega Bonnesen eftir myndunum hennar Nikolínu, en svo skemmtilega vill til að ég hef aldrei átt neina af þessum myndum nema í örfáa daga.

Scan_20210308 (2)

Á þessari mynd er Bonnesen og dönsku 19. aldar húsin við Djúpavog. Tvö húsanna eru enn á sínum stað, Langabúð og Faktorshúsið, -það svarta. Bak við Faktorshúsið er Síbería, en það hús brann 1966, fyrir framan Löngubúð er Krambúðin. Þessi mynd málaði ég auk fjölda annarra mynda af skútum á voginum, myndin er stórt olíumálverk, sem fór til Suður Afríku


Öræfi, Litlahérað og Klofajökull

Sveitin sem hvarf í eldi og ösku, -og síðan undir jökul, er nú á dögum hamfarahlýnunar að koma smá saman aftur í ljós. Þar hóf m.a. birki úr Bæjarstaðaskógi óvænt landnám á örfoka Skeiðarársandi öllum að óvörum fyrir rúmum 20 árum síðan, og er þar talinn nú vaxa stærsti sjálfsáni birkiskógur landsins.

Munnmæli um dapurleg örlög sveitarinnar hafa einnig fengið staðfestu með uppgreftri fornra bæja s.s. Bæ og Gröf. Árið 2020 gaf Bjarni Einarsson út bókina Bærinn sem hvarf í ösku og eldi 1362 um fornleifarannsóknir sínar á Bæ sem grafin var upp við flugbrautarendann á Fagurhólsmýri á árunum 2002 -2009. Aldeilis stórmerkileg lesning.

Annars þurfti birkiskógur og niðurstöður fornleifarannsókna  ekki að koma svo á óvart því munnmæli og sagnir lifðu fram eftir öldum um sveitina sem hvarf, þá sem gekk undir nafninu Litlahérað með Svínafelli sem höfuðbóli hins forna Austfirðingafjórðungs. Hérað sem breyttist í eyðisanda með jökulám á svipstundu og hefur verið kölluð Öræfi fram á okkar daga.

Litlahérað er sagt hafa náð frá Lómagnúpi að Suðursveit. Skeiðará hafi þá nánast verið lækur, -eins og hún er reyndar að verða nú á dögum, eftir að hún flutti sig að mestu í Gígjuhvísl. Enn er nokkuð í að dalir jarðanna Breiðármerkur og Fjalls komi undan jökli, auk þjóleiðar sem á að hafa legið í gegnum Vatnajökul, -um dali hins forna Klofajökuls.

Við upphaf 18. aldar lifðu enn þau munnmæli að fyrrum hefði verið leið milli Skaftafells í Öræfum og Möðrudals á Fjöllum í gegnum miðjan Vatnajökul þar sem hann er hvað breiðastur til beggja handa. Því til sönnunar var m.a. talið að sjá mætti marka fyrir gömlum götum í Miðfelli norðan við Morsárdal, -dals vestan við Skaftafell sem nú er að hluta hulinn skriðjökli. Sagt var að smalinn í Möðrudal ætti víst rúm í Skaftafelli og Skaftafellssmali hið sama í Möðrudal.

Allt þetta kann að virðast aldeilis ótrúlegt í dag, en munnmæli þessi eiga sér stoð m.a. í máldögum frá dögum Gísla biskups Jónsonar (1558-87). Þar er tilgreint að kirkjan í Möðrudal á Fjalli hafi rétt til “XII trogsöðla högg” í Skaftafellsskógi. Sömuleiðis kemur fram í úrdrætti jarðabókar frá 1779, að bærinn Skaftafell eigi beitarrétt fyrir 14 hesta á Möðrudal yfir sumarið, sem sé þó aldrei nýtt vegna jökla.

Af fróðleik fyrri daga um eyðibæina á Breiðamerkursandi og í Öræfum, má einkum nefna samantekt Ísleifs Einarssonar sýslumanns í Austur-Skaftafellssýslu, en hann lét árið 1712 skrá á Hofi í Öræfum allt sem menn þar í sveit vissu þá um eydda bæi af eldgosum og jöklum.

Á fyrstu búskaparárum Ísleifs í upphafi 18. aldar, á Felli vestast í Suðursveit, voru hörðustu ár litlu ísaldar. Eftir þann tíma fór verulega að halla undan fæti hvað varðar aðstæður til búskapar á jörðinni vegna framskriðs jökla og kólnandi veðráttu. Fell fór endanlega í eyði árið 1873 eftir að Breiðamerkurjökull hafði lagt undir sig stóran hluta af undirlendi jarðarinnar með framskriði sínu á 18. og 19. öld.

Sr Sigurður Gunnarsson prófastur á Hallormstað fékk birta grein í Norðanfara árið 1878 þar sem hann tók upp úr handriti fræðimannsins Magnúsar Bjarnasonar frá Hnappavöllum í Öræfum þá punkta sem Ísleifur Einarsson sýslumaður í Austur-Skaftafellssýslu hafði tekið niður eftir munnmælum um forn bæjarnöfn í Öræfum.

„Anno 1712 voru að Hofi í Öræfum upp teiknaðir bæjarstaðir, sem til forna skulu verið hafa í Öræfum og af tekið og eyðilagst hafa af jöklum, vatns- og grjótágangi og eldi. Er frásögn þessi að nokkru byggð á því, sem hjer hefir fundist skrifað, og að nokkru leyti á sögnum og munnmælum, sem gengið hafa mann frá manni.

1. Jökulfell hefir bær heitið að fornu; var hann i norðvestur frá Skaptafelli, þar sem nú er kallað Bæjarstaðir, undir fjalli því, sem enn er kallað Jökulfell. Segja menn að þar hafi verið kirkjustaður og hafi í minni þeirra manna, sem nú lifa, sjezt þar vottur fyrir tóptum. Jökulfells þessa skal vera getið í einum Hofskirkju máldaga, sem gjört hefir einn mikill biskup í Skálholti. Orðin eru þessi: “Og helming allra þeirra fjara er liggja til Jökulfells". Það sem enn er óeyðilagt af landi þessarar jarðar, er leigt frá Skaptafelli fyrir 30 álnir.

2. Freysnes er sagt bær hafi heitið nálægt i suðaustur frá Skaptafelli; sjezt enn til tópta þar nærri, sem fjárhúsin standa, og er enn kallað Freysnes. Er leigt frá Skaptafelli fyrir 30 álnir.

3. Svínanes hefir bær heitið, sem sjezt af áðurnefndum Hofs-máldaga. Þar er kirkjunni að Hofi eignuð hálf sú jörð, en eigi vita menn hvar sá bær staðið hefir. Jón Einarsson og Stefán Ormsson segjast fyrir fáum árum fundið hafa rauðviðisrapt í Neskvíslinni, milli Skaptafells og Svínafells, sem rekíð hafði fram úr jöklinum, hver verið hafði orðinn mjög svartur utan.

4. Rauðilækur hefir bær heitið og verið kirkjustaður sem sjezt af Hofs-máldaga; því það Rauðilækur átti, lagðist til Sandfells; og hefi jeg sjeð í annál eptirskrifuð orð: „Anno 1362 var eldsuppkoma á 6 stöðum í landi hjer. í Austfjörðum sprakk sundur Hnappafellsjökull og hljóp yfir Lómagnúpssand, svo aftók vegu alla. Á sú í Austfjörðum, er Úlfarsá heitir, hljóp á stað þann, er Rauðilækur heitir, og braut niður staðinn allan, svo ekkert hús stóð eptir nema kirkjan". Þessi bær halda menn að staðið hafi nærri suður frá Svínafelli, framundan falljöklinum, sem er milli Svínafells og Sandfells, nærri i suðaustur frá Smjörsteini, sem stendur þar í falljöklinum; hefir þar sjezt til tópta fyrir 30 árum, en er nú allt i aura komið. Skammt frá bæjarstaðnum rennur á sú, er Virkisá heitir. Í Sandfells-máldaga getur og um Rauðalækjar eignir lögðust til Sandfells.

5. Berjahólar hefir heitið hjáleiga frá Sandfelli, byggð fyrir 80 árum. Þessi hjáleiga skal hafa staðið í falljöklinum í vestur frá Sandfelli. Hefur þar nýlega sjezt til túns og tópta.

6. Gröf halda menn að bær hafi heitið útnorður frá Hofi, fyrir vestan Skriðulæk, uppundir fjallinu. þar sjezt til tópta og hefir fundist smávegis af eyri og látúni. Á milli Grafar og Hofs er steinker, sem sagt er að taki 18 (átján) tunnur.

7. Gröf heyri jeg sagt að bær heitið hafi. það er nær hestskeið frá áðurnefndri Gröf, og hefir þar nýlega sjezt til tópta. þessir báðir bæir eru í Hofslandi.

8. Hreggás er sagt bær heitið hafi, vestur af Hofsnesstanganum, fyrir vestan götu þá, er liggur til Hofs. Hefir nýlega sjezt til tópta og garðs.

9. Eyrarhorn hefir bær heitið, kirkjustaður, sem sannast af Hofs máldaga. Orðin hljóða svo: „Gjörði sá virðulegi herra og andlegi faðir, bróðir Magnús biskup í Skálholti, með ráði allra þeirra kennimanna, sem þá voru þar samankomnir, að allt það átt hefði kirkjan að Eyrarhorni, lönd, reka og ítök, það sem eptir var óspjallað, þá skyldi það leggjast til kirkjunnar að Hofi eptir þennan dag, etc.". Halda menn bær þessi hafi staðið út af Hofi, þar vestur af Hofsnesi, en fyrir ofan Ingólfshöfða. Það er og í orði, að rauðviðisstólpinn, sem er fyrir utan karlmannastólinn, sunnan fram I Kálfafellsstaðarkirkju, sje úr kirkjunni á Eyrarhorni.

10. Bær er sagt að verið hafi fyrir austan Fagurhólsmýri, nálægt Salthöfða. Sigurður Pálsson, sem nú hefir nokkra um áttrætt, segir, að einn kvenmaður hafi sá verið í Öræfum á sínum unga aldri, að nafni Steinunn Þormóðsdóttir, er sagt hafi sig fundið hafa i þessu bæjarstæði, undir hellu í holu, að sjá sem\ á bitahöfði, klæði, sem af kvenfati, ljósdökkt, og hafi hún haft það í upphlut sem óskemmt var; en sú hola hafi aldrei síðan fundist.

11. Fyrir ofan Fagurhólsmýri, sem nú er hjáleiga frá Hnappavöllum, uppi undir heiðinni fyrir neðan dalina, er haldið bær verið hafi. Þar sjezt til tópta. Jón Sigmundsson, sem nú býr á Hofshjáleigu, segist ungur hafa fundið þar leðurkúlu af reiða. En bæjarnafnið vita menn eigi.

12. Vestur af Hnappavöllum er haldið bær staðið hafi; þar hefir sjezt tál tópta. Halda menn þar hafi staðið Hnappavellir áður Öræfi aftóku.

13. Hólar er sagt bær heitið hafi fyrir austan Hnappavelli, þar sem nú kallast í Hólum. Þar hefir sjezt til tópta í minni Þeirra manna, sem nú lifa. Halda menn að verið hafi kirkjustaður. Hólalands er getið í Hofs-máldaga.

14. Húsavík er haldið bær heitið hafi, fyrir ofan lónið í suðaustur frá Stórasteini, sem stendur á Staðaraurum. Þar sjezt til tópta enn i dag.

15. Bakki er sagt bær heitið hafi fyrir austan Kvíá, þar hún rann að fornu, eða framundan Kambsmýrarkambi; sjezt ekkert til tópta. Um þetta bæjarnafn má bera saman við Hofs-máldaga og Sandfells-máldaga. Þar er nú graslendi allt aftekið, en fjaran liggur undir Sandfell og er nefnd Bakkafjara.

16. Fjall hefir bær heitið fyrir vestan Breiðumörk; Þar girðir nú jökull i kringum. Hofs-máldagi segir, að til Hofs liggi Fjall með 9 hundraða fjöru.

17. Breiðamörk hefir bær heitið og var í byggð fyrir 60 árum; var hálf kóngs-eign en hálf bændaeign, öll jörðin 6 hundruð. Hún er nú af fyrir jökli, vatni og grjóti. Þar hafði verið bænhús, og lá þar milli dyraveggja í bænhússtóptinni stór hella, hálf þriðja alin að lengd, en á breidd undir tvær álnir, vel þverhandarþykkt, en hvítgrá að lit, sem kölluð var Kárahella; sjezt hún nú ekki, en þó kunna menn að sýna hvar hún liggur undir. Er það sagt hún liggi á leiði Kára Sölmundarsonar, og hafði hann sjálfur borið hana inn, fyrir dauða sinn.

18. Krossholt hefir bær heitið, það sjezt af Sandfells- og Hofs-máldögum. Orðin hljóða svo: „Frá Krossholti liggur kýrfóður til Hofs og ábyrgist að öllu", en eygi vita menn hvar sá bær staðið hefir.

19. Í Sandfells-máldaga er getið þessara jarða, og stendur þar svo: „Maríukirkja sú, er stendur á Rauðalæk, á heimaland allt, Hlaðnaholt, Langanes og Bakka með öllum gögnum og gæðum". Ítem er þar getið Skammstaða og Steinsholts og Ness. Er svo sagt, að þessir bæir hafi til verið; en hvar þeir staðið hafa vita menn eigi.

20. Ingólfshöfði. Þar staðnæmdist 1 eða 2 vetur Ingólfur Arnarson. Þess getur í Landnámu. Þar er nú engin byggð, en 3 verhús, eitt frá Hnappavöllum, annað frá Hofi og þriðja frá Sandfelli. Höfðinn sjálfur er til Hofs og Sandfells eignaður. Þó er þar um ágreiningur vegna milliburðar máldaganna. Samt er hann af hvoru tveggju brúkaður.

Það er sögn manna i Öræfum, að svo hafi maður manni sagt, hver fram af öðrum, að tvisvar hafi Öræfi af tekið. Eitt sinn Þá smalinn í Svínafelli, að nafni Hallur, hafi verið búinn að reka fje heim til mjalta og kvenfólk var farið að mjólka, þá hafi stór brestur komið í Öræfajöklana, svo að þau hafði undrað; þar eptir hafi annar brestur komið og hafi smalinn þá sagt: að nú væri eigi ráð að bíða þess þriðja. Síðan hafi hann hlaupið upp í Flosahelli, sem er uppi í fjallinu fyrir austan Svínafell, og þá hafi hinn þriðji brestur komið í hjer sagða jökla, og þeir með það sama sprungið svo í sundur og hleypt úr sjer svo miklu vatni og grjóti fram úr hverju gili, að fólk og gripir hafi farist um öll Öræfi utan þessi smali og einn hestur blesóttur. En um sumarið þá þingmenn úr Austfjörðum áformuðu að ríða til alþingis, hafi hestur þessi staðið á einum kletti fyrir austan og sunnan Fagurhólsmýri, og steypzt þar ofan fyrir, þá þeir vildu höndla hann. Og síðan hafi klettur þessi verið kallaður Blesaklettur, og heitir hann svo enn í dag.

Í annað sinn hafi 8 bæir af tekið á Skeiðarársandi, sumir segja 16, aðrir 19, en ekkert vita menn hvað þeir heitið hafa. Sjezt þar nú ekkert nema nóg af steinum, smáum og stórum".  https://timarit.is/page/2041037#page/n1/mode/2up

Talið hefur verið að 30-40 bæir hafi lagst í auðn við eldgosið í Öræfajökli árið 1362 og allt að 600 íbúar Litlahéraðs hafi farist í þeim hamförum. Áratugir hafi liðið áður en byggð fór að myndast aftur Öræfum. Áhrifa gosins hafi gætt verulega allt  norður í Lónssveit. 

"Eldri munnmæli greina frá tvöfaldri eyðingu vegna Öræfajökuls á 14. öld. Af Vilkingsmáldaga má sjá að Gyrður biskup (1349-60) gaf 12 sauðkindur og kú frá Jökulfelli næstu kirkju í Vestur-Skaftafellssýslu. Ætla má að þessi afhending sé vegna niðurfalls kirkjunnar og þegar afhendingin hefur samkvæmt árum biskups átt sér stað fyrir eldgosið mikla 1362, mætti vera að það væri rökstuðningur fyrir þeirri ætlun, að gos hefði verið fyrr á öldinni eða um 1350 að sumra ætlun." (Íslenskir sögustaðir IV bls 72-E P Kristian Kålund)


Að austan

Nú er svo komið að nánast hvergi má að stinga niður skóflu án þess að fornminjar blasi við og tefja þar með stórframkvæmdir. Hér fyrir austan hafa verið tveir fornleifauppgreftir í gangi. Annar í Stöð á Stöðvarfirði þar sem Bjarni Einarsson fornleifafræðingur hefur grafið sig aftur fyrir landnám. Hinn við Fjörð í Seyðisfirði þar sem sagan segir að landnámsmaðurinn Bjólfur hafi búið.

Á Seyðisfirði stóð til að snara upp ofanflóðavörnum vegna skriðuhættu undir Bjólfinum, en rétt þótti sumarið 2020 að skoða minjar frá 17. - 19. öld áður en framkvæmdir hæfust. Nú hefur komið í ljós að fornleyfauppgröfturinn mun standa í þrjú ár í bakgarði húsa við Fjörð. Á Stöð í Stöðvarfirði liggur hins vegar lítið á vegna fjárskorts, enda gæti niðurstaðan þaðan orðið kostnaðarsöm við að breyta Íslandssögunni.

Við Fjörð í Seyðisfirði fannst sumarið 2021 kumlateygur með fleiru en einu bátskumli, og nú í sumar víkingaskáli frá landnámsöld, vel varðveitt undir skriðu sem féll á 11. öld. Þessi fundur staðfestir betur en nokkuð annað hve Íslendingasögur, þjóðsögur og munnmæli fara með nákvæmt mál.

Loðmundur hinn gamli hét maður, en annar Bjólfur, fóstbróðir hans; þeir fóru til Íslands af Vörs af Þulunesi. Loðmundur var rammaukinn mjög og fjölkunnugur. Hann skaut fyrir borð öndvegissúlum sínum í hafi og kvaðst þar byggja skyldu, sem þær ræki á land. En þeir fóstbræður tóku Austfjörðu, og nam (Loðmundur) Loðmundarfjörð og bjó þar þennan vetur.

Bjólfur fóstbróðir Loðmundar nam Seyðisfjörð allan og bjó þar alla ævi; hann gaf Helgu dóttur sína Áni hinum ramma, og fylgdi henni heiman öll hin nyrðri strönd Seyðisfjarðar til Vestdalsár. Ísólfur hét sonur Bjólfs, er þar bjó síðan og Seyðfirðingar eru frá komnir. (Landnámabók-Sturlubók)

Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari safnaði á sinni ævi miklu af munnmælum um landnám á Austurlandi, sem fátæklega er getið í Íslendingasögum, og hafði í Þjóðsagnasafni sínu. Hann safnaði munnmælum á Seyðisfirði og í VI bindi segir m.a.; Frá Seyðfirðingum.

Bjólfur er heygður í fjallsbrúninni sunnan í tindinum (Bjólfi), upp af Firði, beint á móti Sölva (Ísólfi) í Sölvabotnum, hinumegin sveitarinnar. Það eigi meira en hitt að varna því að hlaupið geti á Fjörð eða ræningjar ræni Seyðisfjörð, sem þeir gera aldrei á meðan haugar þeirra eru órofnir.

Ýmsir af frændum, vinum og venslamönnum Bjólfs byggðu suðurströnd Seyðisfjarðar og bæi þá sem síðan eru við þá kenndir. Hánefur byggði Hánefsstaði og Sörli bróðir hans Sörlastaði. Kolur byggði Kolstaði og Selur segja menn vera bróðir hans og byggði Selstaði. (En aðrir menn segja að sú jörð dragi nafn af því að hún væri selstöð).

Sigfús gefur talsverðar upplýsingar um uppruna Seyðfirðinga í þjóðsagana safni sínu: “Ein eru það munnmæli að til hafi til forna verið þáttur af Seyðfirðingum sem nú er tapaður eins og margar aðrar sögur. Hafa reyndar sögur þær er hér ræðir um á undan verið ritaðar í seinni tíð eftir örnefnasögum og öðrum munnmælum.” Síðan er haldið áfram að skýra örnefni með munnmælum sem þeim fylgja.

Sú sögn fylgir munnmælum þessum að fjörðurinn byggðist seinna en Héraðið og sveitirnar í kring og fyndi smali nokkur þar marga sauði útigengna og héti fjörðurinn því Sauðafjörður. Og enn er sagt að þar áður seiðmenn (sjá Loðmundar þátt). Þriðju segja nafnið dregið af seiðum.

Sigfús er með þátt af Loðmundi í safni sínu, þar er eftirfarandi um nafn Seyðisfjarðar:

Eyvindur hét maður er út hafði komið með Brynjólfi hinum gamla er nam Fljótsdal. Hann var óeirinn og göldróttur mjög. Er við hann kenndur Eyvindardalur því þar hafðist hann við. En síða flutti hann í Seyðisfjörð og voru þeir átján saman, allir fjölkunnugir og seiðmenn miklir. En er Bjólfur nam fjörðinn færðu þeir byggð sína í Mjóafjörð og námu hann; bjó Eyvindur síðan í Firði (Mjóafirði) fyrir innan fjaðrabotn. Þeir fóstbræður (Bjólfur og Loðmundur) nefndu fjörðinn eftir þeim Eyvindi og heitir hann því Seyðisfjörður. (Þjóðs SS VI bindi)

Sigfús safnaði örnefna- og munnmælasögum á Seyðisfirði árum saman, enda dvaldi hann þar langdvölum þegar hann setti saman sitt þjóðsaganasafn, sem er einstakt á íslenska vísu að því leiti að hann lifði sig inn í staðhætti, með því að dvelja á þeim stöðum þar sem hann safnaði sögum.

Hann segir munnmæli segja að til hafi verið sagna þáttur af Seyðfirðingum sem tapast hafi. Ekki er ólíklegt að munnmælin hafi að einhverju leiti geymt þær Íslendingasögur.

Vitað er að til var Íslendingasaga fram á 19. öld sem kallaðist Jökuldæla og má ætla að í forn þjóðsögum Sigfúsar sé mikið af munnmælum ættuðum úr þeirri bók. Síðustu síðurnar af Jökuldælu eru af sumum sögð hafa glatast í höfninni í Glasgow á tímum Vesturfaranna.

Sjónvarpstöðin N4 var nýlega á Seyðisfirði og ræddi við Ragnheiði Traustadóttir fornleifafræðing sem sagði sögu að austan.


Fyrir norðan Fljót

Það að vera fyrir sunnan sól og austan mána þarf ekki að vera svo galið. Að fara norður fyrir Fljót og til baka Austur gæti virst vera öfugsnúið. En þess ber að gæta málvenjur tengdar áttum eru misjafnar eftir landshlutum t.d. standast norður og austur á á Héraði. Og gott betur en það því norður getur verið fyrir sunnan austur.

Í mínu ungdæmi töluðum við krakkarnir um að fara norður fyrir Fljót þegar farið var frá Egilsstöðum yfir Lagarfljótsbrú en Austur þegar farin var sama leið til baka. Eins heyrði maður talað um austur Velli og og norður Velli sem voru samkvæmt áttavitanum fyrir sunnan austur Velli. Ég man samt ekki til þess að nokkur tíma hafi verið minnst á vestur í mínum uppvexti.

Þessi stefnumörkun þykir kannski um sumt sérstök, en enn sérstakari er það þó norður í landi þar sem hægt er að fara frameftir og vera framfrá, fara þar bæði handan yfir og yfir um. Það að fara norður fyrir Fljót (eða norður yfir) er óðum að hverfa úr daglegu máli, nú er farið í Fellabæ þegar farið er yfir Lagarfljótsbrúna, og í Egilsstaði þegar farið er til baka, rétt eins og fara í búð.

Þetta var ólíkt tilkomu meira ferðalag í mínu ungdæmi, því þegar farið var yfir Lagarfljótsbrúna var komið í annan hrepp, og gott betur en það, farið úr S-Múlasýslu yfir í N-Múlasýslu, -í annað lögsagnarumdæmi með skráninganúmerinu S á bílum. Eins var annað samfélag fyrir norðan Fljót en Austan, aðrar búðir og önnur fyrirtæki.

Fyrir norðan Fljót var Verslunarfélag Austurlands sem rak m.a. matvöruverslun og hafði meir að segja gerst svo djarft að opna verslun fyrir Austan á yfirráðasvæði Kaupfélags Héraðsbúa, sem gerði þá út kjörbíl svo þær sem áttu styttri leið í Verslunarfélagið gætu næstum farið í Kaupfélagið þar sem allt fékkst, og fengið það í kjörbílnum sem fékkst í búð Verslunarfélagsins.

Bæði Verslunarfélagið og Kaupfélagið voru með sláturhús sitthvoru megin við Lagarfljótsbrúna. Fyrir Austan var Brúnás stærsta fyrirtækið fyrir utan Kaupfélagið með víðtæka starfsemi og framleiðslu í byggingaiðnaði svo sem glerframleiðslu og steypuframleiðslu auk hefðbundinnar verktöku eins og fjöldi minni byggingafyrirtækja á Egilsstöðum. Bíla og véla verkstæði voru líka aðallega fyrir Austan.

Fyrir norðan Fljót var Trésmiðja Fljótsdalshéraðs og Baldur og Óskar stærstir í byggingastarfsemi þar var einnig steypustöð um tíma. Vignir Brynjólfsson var með dekkjaverkstæði og þar var Hlébarðinn með endursólningu hjólbarða, synir Vignis með fyrirtækið Fell sem bæði rak bílasölu og verslun. Sigbjörn Brynjólfsson var með bókabúðina að Hlöðum sem var með betri bókabúðum.

Þráinn Jónsson var atkvæða mikill höfðingi fyrir norðan Fljót og lengi oddviti Fellamanna. Þráinn var með umfangsmikla bílaleigu, ekkert Hertz eða Avis kjaftæði, -heldur einfaldlega Bílaleigu Þráins Jónssonar. Auk þess ráku þau hjónin, Þráinn og Ingveldur, Vegaveitingar skammt norðan við sporð Lagarfljótsbrúarinnar og flugkaffi á Egilsstaðaflugvelli á Egilsstaðanesinu mitt á milli byggðakjarnanna.

Einnig var Plastiðjan Ylur fyrir norðan Fljót og Prentsmiðja um tíma rétt eins og fyrir Austan. Svo má náttúrulega ekki gleyma einum stærsta vinnustaðnum í seinni tíð, hausaþurrkuninni Herðir. Bæði Egilsstaðahreppur og Fellahreppur kepptust við að laða til sín atvinnustarfsemi og byggja upp þá sem sýndu frumkvæði, enda var aðstöðugjald af fyrirtækjum þá enn við lýði og drjúgur tekjustofn sveitarfélaga hlutafall af veltu atvinnurekstrar.

Að fara norður fyrir Fljót til að hitta bekkjarbræður mína, sem voru þrír Jónar, var í æsku talsvert ferðalag, gangandi eða á puttanum. Þá voru ekki kominn göngu- og hjólastígur yfir Egilsstaðanesið sem styttir leiðina eins og nú, heldur varð að fara malarveginn, ekki var til siðs að stytta sér leið yfir ræktað land í þá daga og ef svo var gert var lent fljótlega ofan í skurð.

Engin skóli var í Fellum og fóru Fellakrakkar því flest í Hallormstað þar sem Fellamenn, Vallamenn, Skriðdælingar og Fljótsdælingar voru með sameiginlegan heimavistarskóla. En nokkuð af krökkum úr nafnlausa þorpinu við Lagarfljótsbrúna, sem oft var kennt við Hlaðir, kom þó alla sína skólagöngu í Egilsstaðaskóla. Seinna kom skólarúta og enn síðar varð til nafnið Fellabær og byggður Fellaskóli.

Sumt var bara fyrir Austan á meðan annað var einungis fyrir norðan Fljót. Mjólkurstöð KHB var á Egilsstöðum og þar voru framleiddar allar heimsins gerðir af jógúrt, auk allrar mjólkur, rjóma, skyrs, smjörs og osta. Nú er ekki hægt að fá svo mikið sem mjólkurdropa án þess að honum hafi verið keyrt hring um landið og það sama á við flest annað. Hvorki er sláturhús né frystigeymsla lengur fyrir norðan Fljót eða Austan í öllu innviðabyggða matvælaörygginu.

Þessi tími þaut óvænt í gegnum hugann 1. Mars fyrir meira en ári síðan, en þá flutti fyrirtækið MVA, sem ég starfa hjá, með mann og mús í steypueiningaverksmiðju fyrir norðan Fljót. Þegar bílalestin fór þennan bjarta vetrarmorgunn yfir Lagarfljótsbrúna leið mér allt í einu meira en lítið einkennilega.

Best er að lýsa því sem fór í gegnum hugann, þegar ég áttaði mig á því þarna á brúnni að eiga að mæta hvern dag til vinnu fyrir norðan Fljót, -með sömu orðum og Matthildur mín þegar við vorum fyrir Vestan, “mér hefur aldrei fundist ég vera komin eins mikið til útlanda”.

Það má segja að hjá MVA geymist arfleið margra fyrr um fyrirtækja í byggingariðnaði fyrir austan og norðan Fljót. Eigendurnir eru þó allir upprunnir fyrir norðan Fljót, því örlaði kannski líka örlítið á þeirri ósigurs tilfinningu hjá gömlum steypukalli að hafa verið hernuminn.

Í síðustu viku fórum við svo að steypa enn þá lengra fyrir norðan Fljót, en samt fyrir austan, alla leið út við Lagarfoss. Á meðan beðið var eftir steypubíl gekk ég að gömlu Willis U-137 og kannaðist við kauða án þess að koma honum með nokkru móti fyrir mig, því þarna fannst mér að hefði átt að vera bíll með S númeri.

IMG_4951

Á næsta steypubíl, sem kom, var fyrr um nágranni minn og frændi af Hæðinni á Egilsstöðum. Hann tók strax eftir eirðarleysis ráfi mínu í kringum Willisinn og spurði þegar ég kom til hans; -hvað varð af Willisnum hans pabba þíns. -Hann fór með hann suður, síðan veit ég ekki meir; svaraði ég.

-En mikið kannast ég við þennan Willis mér finnst ég hafa séð hann í gær en man ekki lengur hvar og hver var á honum, -manst þú það? -sagði ég.

-Já ég held að Garðar Stefánsson hafi átt þennan ég man þegar hann var að fara á honum í vinnuna út á flugvöll; -svaraði frændi minn. -Svo átti Halldór á Miðhúsum jeppa sem var eins á litinn; -bætti hann við.

Segja má að nokkru eftir að Willisarnir hurfu suður fyrir sól og austur fyrir mána, U og S hættu að vera upphafsstafir í bílnúmerum og þegar Þráins Jónsonar naut ekki lengur við fyrir norðan Fljót hafi stefnuleysið út í móðuna miklu tekið yfir. Allt varð svo ofboðslega flókið að nú þarf tugi hámenntaðra sviðsstjóra til þess eins að ná áttum, og það án aðstöðugjalds og sementsryks.

Fellamenn féllu í þá gryfju árið 2004 að sameinast Austur-Héraði og Norður-Héraði. Öllum að óvörum var króinn skírður Fljótsdalshérað, en ekki Hérað, -þó svo að það væri bæði fyrir austan og norðan Fljót. Sennilega til að fara í taugarnar á Fljótsdælingum, sem ekki hafa enn gengið í þá gildru, frekar en til að ná áttum.

Árið 2021 varð til enn flóknara sveitarfélag eftir að Fljótsdalshérað, Seyðisfjarðarkaupstaður, Djúpavogshreppur og Borgarfjarðarhreppur sameinuðust og fékk það nafnið Múlaþing, kannski bara til að fara í taugarnar á öðrum austfirðingum í Múlaþingi hinu forna, auk Fljótsdælinga. Í öllu þessu sameiningar brambolti hverfa út í móðuna miklu málvenjur, mannlíf og mannsiðir, í grámyglu sérfræðinnar, -heil veröld sem var, -og kemst austfjarðaþokan þar þar ekki í hálfkvist.

Verður úr þessu varla ráfað að nokkru viti fyrir sunnan sól eða austan mána, norður fyrir Fljót né Austur aftur, hvað þá verið til friðs annaðhvort í efra eða neðra. Flestir fara nú orðið á milli Múlaþings og Fjarðabyggðar, eða þá suður og til útlanda, ef þá ekki, -norður og niður.


Þjóðsaga

Þeir sem hafa litið inn á þessa síðu hafa vafalaust tekið eftir því að hér er þjóðsagan í hávegum höfð, sú saga ekki látin gjalda skjalfests sannleika sem sannari þykir, -eða þannig. Um helgina varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að veita prófessor í sagnfræði leiðsögn um sögusvið þjóðsögunnar.

Þannig vildi til að einn góður bloggari hér á mogga blogginu spurði mig að því í vetur hvort hann mætti benda á mig varðandi Tyrkjaránssögu, en þeir sagnfræðingarnir Karl Smári Hreinsson og Adam Nichols hafa gefið út bækur á ensku um Tyrkjaránið árið1627 á Íslandi. Aðstoðin fólst aðallega í því að benda þeim á samantekt austfirskra þjóðsagna í Dvergasteini bók Öldu Snæbjörnsdóttur auk ýmissa munnmæla á Djúpavogi.

Það var Jóhann Elíasson gæðabloggari sem gerði mér þann greiða að benda á mig, enda hrifinn  af því að menn tali umbúðalaust og láti engan rétttrúnað trufla sig og ætti hann sjálfur fyrir löngu að vera komin á áberandi stað í umræðunni hér á moggablogginu, enda bæði skeleggur og afkastamikill bloggari, auk þess að vera bæði vel og mikið lesinn.

IMG_3415

Útgáfukynningin í Lönubúð á Djúpavogi var vel sótt eins og vænta mátti, síðri var hún á Egilsstöðum daginn eftir þar sem engin mætti og mega söguslóðar á Austurlandi skammast sín,- fyrir mér

Þeir komu svo núna um helgina austur á land Karl Smári og Adam Nichols, sem er prófessor við háskólann Marryland, vegna bókar sinnar um Tyrkjaránið á Austfjörðum – Enslaved. Áður hafa þeir gefið út bækurnar; Northern Capitives um Tyrkjaránið í Grindavík og Stolen Lives um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum, auk The Travels of Reverend Ólafur Egilsson, -Reisubók sr Ólafs Egilssonar.

Ég fór með þeim félögum um sögusviðið allt frá Hvalnesi í Lóni að Andey í Fáskrúðsfirði og sagði þeim stanslausar lygasögur í heila tvo daga, -þjóðsögur eða þannig. Þeir létu vel af með því að segja; “við hefðum betur talað við þig áður en bókin fór í prentun”. Búnir að steingleyma að mér tókst ekki, þó ég reyndi mikið til áður en bókin kom út, -að fá þá til að skila Hermannastekkunum aftur á sinn stað.

Þannig er að Þorsteinn Helgason sagnfræðingur rengdi bæði munnmæli og þjóðsögur í Glettingi - tímariti um austfirsk málefni. Þar misskildi hann gjörsamlega hvar Hermannastekkar voru og þar af leiðandi munnmælin líka og flutti allt heila klappið yfir Berufjörð. Seinna varði hann doktorsritgerð um Tyrkjaránið á Íslandi og Hermannastekkarnir nú komnir ritrýndir á snarvitlausan stað.

IMG_3412

Sagnfræðingarnir Karl Smári Hreinsson t.v. og Adam Nichols t.h á Hvalnesi, eftir að hafa skoðað fyrsta lendingastað sjóræningjanna frá Algeirsborg við Ísland

Þeir félagar lögðu ekki í að geta Hermannastekka í bók sinni og flytja þá frá Berunesi yfir á Búlandsnes þar sem þeir eiga heima, til að styggja ekki doktorinn, en gátu þess í stað um Álfheiðarskútann og sögðu þegar þeir sáu staðhætti á Búlandsnesi þar sem bæði Álfheiðarskúti og Hermannastekkar eru; “við hefðum betur verið búnir að fara um sögusviðið með þér áður en við kláruðum bókina”.

IMG_3424

Álfheiðarskúti efst í klettinum fyrir miðri mynd. Nafnið er þannig til komið að vinnukona á Búlandsnesi flýði þangað undan ræningjunum. Sagt er að einn ræningi hafi árætt að fara í rákina að skútanum. En Álfheiður varðist og hrapaði hann fram af klettunum til dauðs. Þá hættu þeir ekki á meira, en hún hélt sig í hellinum þar til ræningjarnir yfirgáfu Djúpavog. (samkvæmt Þjóðsögu Sigfúsar)

Adam hafði mikinn áhuga á að vita hvort ég vissi um afdrif húsfreyjunnar á Hamri, en á Hamri rændu þeir 13 manns. Tyrkjaránssaga segir svo um húsfreyjuna; “en kona mannsins var mjög veik og vanmáttug, svo hún gat ei gengið í burt með hinu fólkinu. Hana slógu þeir með byssu undir vangann svo hún hné niður, þá spyrntu þeir við henni fótum og meintu að hún mundi dauð og skildu við hana, en ráku allt hitt til skips".

Afdrif konunnar voru prófessornum verulega hugleikin og hafði hann orð á því oftar en einu sinni. Svo var það þegar þeir félagar voru komnir í Löngubúð til að kynna bókina að ég settist niður með fyrrum nágrönnum á Djúpavogi að spurt var hvort ég hefði ekki örugglega sýnt þeim lækjarsprænuna sem unga ófríska konan hefði drekkt sér í frekar en að lenda í höndum Tyrkja.

Þessi saga hafði alveg farið fram hjá mér og því þráspurði ég um nákvæma staðsetningu. Eftir að hafa talað við þrjú innfædd var staðsetningin á hreinu, að vísu voru þau öll hissa á því hvernig væri hægt að drekkja sér í svo lítilli lækjarsprænu og væri það það eina sem rýrði sannleiksgildi munnmælanna sem þau höfðu öll heyrt um þennan stað í bernsku. Staðurinn er við þjóðveginn rétt utan við Hamar.

Á eftir bókarkynninguna gat ég frætt prófessor Adam um afdrif húsfreyjunnar á Hamri og eru þeir félegar nú komnir með þá flugu í höfuðið að koma aftur að ári og gera kvikmynd byggða á bókinni.

IMG_3425


Droplaug og Darraðardansinn

Lítið hefur farið fyrir því í gegnum tíðina að Íslendingasögunum sé hampað sem kvennabókmenntum. Kannski má kenna því helst um að þeir sem skrifuðu þær hafi verið karlmenn sem og einnig þeir sem túlka þær inn í nútímann.

Í vetur tók ég mig til og las Njálu í fyrsta skipti. Auðvitað kunni ég Njálu nokkuð vel enda hafði ég lesið um söguhetjur og er alinn upp á málsháttum þeirrar bókar eins og flestir íslendingar á mínum aldri. Tekið hefi ég hér hvolpa tvo eða hvað skal við þá gera?

Njála er eitt gleggsta dæmið um kvennabókmenntir Íslendingasagnanna. Þær sögupersónur sem þar ráða örlögum og eru afgerandi hvati sögunnar eru Bergþóra Skarphéðinsdóttir á Hvoli og Hallgerður langbrók Höskuldsdóttir á Hlíðarenda.

Það sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir, áður en sagan var lesin í heild, var hversu mikil tengsl sagan hefur við Bretlandseyjar. Í henni er að finna Brjánsbardaga í Dublin í ljóðinu sem Darraðardansinn er kenndur við, einn magnaðasta kveðskap fornbókmenntanna og var sá vefur spunnin af konum.

Barði Guðmundsson fyrrum Þjóðskjalavörður á að hafa getið sér þess til að Njála sé skrifuð af Þorvarði Þórarinssyni, síðasta goðanum, og fékk hann litla þökk, -og enn minni athygli fyrir þá tilgátu. En Þorvarður varð síðastur til að ganga Noregskonungi á hönd á Þjóðveldisöld og þar með var íslenska Þjóðveldið formlega fallið um allt land.

Þorvarður lifði lengst þeirra sem fóru með goðorð á Íslandi. Hann var frá Valþjófstað í Fljótsdal, hafði búsetu á Hofi í Vopnafirði. Hann aðstoðaði Magnús lagabæti Noregskonung við ritun laga Jónsbókar þegar landsmenn gátu ekki sætt sig við lög Járnsíðu, sem tók við af þjóðveldislögum Grágass, -og þáði hann m.a. riddara nafnbót að launum.

Þorvarðar og Odds bróður hans er getið í Sturlungu, þeir voru af ætt Svínfellinga sem réðu Austfirðingafjórðungi. Brennu Flosi frá Svínafelli, sem kemur við Njálssögu, er einn af forfeðrum þeirra bræðra og áttu þeir kvonfang á söguslóðum Njálu. Í pistlinum Síðasti goðinn og bróðir hans eru því gerð skil hversu afgerandi mark konur settu á Sturlungaöld og kemur það vel fram í sögu þeirra Valþjófstaðabræðra.

Það er því kannski ekkert einkennilegt þó svo Barði Guðmundsson hafi getið sér þess til að Njála hafi verið skrifuð af, -eða að undirlagi síðasta goðans. Því svipuð kvenleg sagnaminni má finna í Austfirðingasögum og ber þau hæðst í Droplaugarsonasögu. Og ekki er ólíklegt að Þorvarður riddari Þórarinsson hafi haft hönd í bagga með því hvernig saga landnáms og þjóðveldis í Austfirðingafjórðungi varðveittist.

Það sem gerir hlut kvenna stóran í Austfirðingasögum má finna í gengum nöfnin Arnheiður, Droplaug og Gróa, ekki er ólíklegt að þar sé um að ræða formæður og frænkur síðasta goðans. Það sem einkennir þessar áhrifamiklu konur er hve vandasamt reynist að ættfæra þær til göfugra ætta landnámsmanna. Sjálfur hef ég trú á að Arnheiður hafi enn fremur haft með nafngiftir á Íslandi að gera, sem má lesa um í pistlinum Hvaðan kom Snæfellið?

Arnheiður var ambátt sem landnámsmaðurinn Ketill þrymur keypti af Véþormi vini sínum í Jamtalandi sem nú er í Svíþjóð. Hún var dóttir Ásbjörns skerjablesa á Mön í Suðureyjum. Þau byggðu Arnheiðarstaði í Fljótsdal og hefur sá bær borið nafn Arnheiðar frá landnámi. Arnheiður var föðuramma þeirra Droplaugarsona.

Droplaug er sögð í Droplaugarsonasögu frá Giljum á Jökuldal og lítið meira um uppruna hennar sagt annað en hún varð kona Þorvaldar Þiðrandasonar, sonarsonar Arnheiðar og Ketils þryms á Arnheiðarstöðum, og settist þar að.

Miklar og ótrúlegar vangaveltur er að finna í Austfirðingasögum um hver Droplaug raunverulega var og ekki er farið í grafgötur með að hún var mikill skörungur enda synir hennar við hana kenndir en ekki föður sinn sem varð skammlífur.

Söguþráður Droplaugarsonasögu umhverfist um það hvernig synir hennar, Helgi og Grímur, verja sæmd móður sinnar. Og hvernig hún giftist aftur til ríkidæmis í þeirra óþökk með þeim afleiðingum að hún og Helgi sonur hennar eru stefnt fyrir dóm grunuð um samantekin ráð vegna manndráps til fjár. Þar teygir sagan sig í nokkrum torskyldum setningum til Írlands. Droplaug fór til skips í Berufirði áður en til dóms kom og keypti jörð í Færeyjum.

Tvær aðrar Austfirðingasögur eru í reynd um Droplaugu, þ.e. Brandkrossa þáttur og Fljótsdæla. Í Brandkrossaþætti er reynt að ættfæra Droplaugu til ókenndra göfugra ætta í Þrándheimi. Það er gert með ævintýralegri sögu af nautinu Brandkrossa í Vopnafirði sem synti á haf út og fannst hjá hellisbúanum Geiti í Þrándheimi og viðurkenndi Geitir að hafði tælt nautið til sín.

Geitir gifti Droplaugu dóttur sína í Vopnafjörð sem nokkurskonar skaðabætur fyrir Brandkrossa er best naut var á öllu Íslandi. Droplaug Geitisdóttir er þar amma Droplaugar á Arnheiðarstöðum sem er samkvæmt Brandkrossa þætti dóttir Gríms úr Vopnafirði sem bjó á Giljum á Jökuldal.

Fljótsdælasaga segir svo að Droplaug á Arnheiðarstöðum sé dóttir Arnheiðar sem Arnheiðarstaðir eru skírðir eftir og þær mæðgur hafi komið saman frá Hjaltlandi þar sem Þorvaldur Þiðrandason sonar sonur Ketils þryms og Arnheiðar á Arnheiðarstöðum bjargaði henni frá jötninum Geiti sem hafði numið Droplaugu frá föður sínum Björgólfi jarli á Hjaltlandseyjum.

Það má segja að ættfærsla Droplaugar sé hálf vandræðaleg samkvæmt Brandkrossaþætti og Fljótsdælasögu, en það segir m.a. Arneiður móðir hennar átti mörg skilgetin börn og var hún þá ekkja er hún átti þessa sína dóttir, Droplaugu. Þar er reyndar margt fremur einkennilegt í ljósi þess að ekkert er legið á ambáttar uppruna Arnheiðar á Arnheiðarstöðum í Droplaugarsonasögu.

Þess er getið eitt sumar að skip kom af hafi í Reyðarfjörð. Kona ein réð fyrir skipinu sú er Gróa hét. Hún var systir Droplaugar, mjög rík að fé. Fór hún af því út hingað að bóndi hennar hafði andast og þá seldi hún lendur sínar og keypti skip og ætlaði að finna móður sína. Droplaug ríður til skips og býður systur sinni til sín og það þiggur hún. Og þennan vetur er Gróa er þar voru sveinarnir Helgi og Grímur heima og var Gróa vel til þeirra. Ástúðugt var með þessum frændum. Fundu menn það að hvorri þeirra systra var yndi að annarri. (Fljótsdæla saga)

Gróa á Eyvindará er svo enn einn kvenkyns örlagavaldur Droplaugarsonasögu. Hún er sögð í Droplaugarsonasögu systir Þorvaldar Þiðrandasonar, en í Fljótsdælasögu systir Droplaugar og kemur óvænt á skipi sínu til Íslands, þá á besta aldri búin að missa mann sinn og kaupir Eyvindará að undirlægi Droplaugar systur sinnar, rífur skip sitt og notar í húsviði.

Hún var kvenna minnst en afbragðlega sjáleg, greyp í skapi og skörungur mikill og forvitra. Svo mikill fégróður hljóp að Gróu að Eyvindará að nálega þóttu tvö höfuð á hverju kvikindi. Menn fóru úr ýmsum héruðum og báðu Gróu og hnekkti hún öllum frá og kvaðst svo misst hafa bónda síns að hún ætlaði öngvan mann að eiga síðan. (Fljótsdæla saga)

Það má að endingu geta þess að það er Gróa sem ræður endi og örlögum Droplaugarsonasögu sem gengur einna best upp Íslendingasögulega séð í tíma og ættfærslum. Þarft verk væri sögufróðra sagnfræðinga, sem þora að lesa á milli línanna, -líkt og Barði Guðmundsson gerði með Brennu Njálssögu, -að gera því skil hversu miklar kvennabókmenntir má finna Íslendingasögunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband