Væringinn mikli og hin blóðuga, mállausa ákæra

Einn af þeim sem talin hefur verið til mikilmenna þessarar þjóðar er Einar Benediktsson. Í æsku heyrði maður þá lygasögu að Einar Ben hefði náð að selja norðurljósin í fylleríi. Hitt er rétt að hann hafði uppi stórhuga virkjanaáform löngu á undan sinni samtíð.

Sumar hugmynda Einars komust til framkvæmda áratugum eftir hans daga. Búrfellsvirkjun varð t.d. að veruleika hálfri öld eftir að Einar fékk hugmyndina. Hún varð fyrsta stórvirkjun Íslands til þess að útvega rafmagn fyrir erlenda stóriðju.

Einars Benediktssonar hefur einkum verið minnst sem einnar af sjálfstæðishetjum þjóðarinnar, auk þess að vera athafnamaður og þjóðskáld sem veitti innblástur fram eftir 20. öldinni. Eitt af þekktari ljóðum hans er einmitt um rafmagnað aðdráttarafl norðurljósanna sem nú í dag eru virkjað af ferðaþjónustunni.

Veit duftsins son nokkra dýrlegri sýn

en drottnanna hásal í rafurloga?

Sjá grundu og vog undir gullhvelfdum boga!

– Hver getur nú unað við spil og vín?

Sjálf moldin er hrein eins og mær við lín,

mókar í haustsins visnu rósum.

Hvert sandkorn í loftsins litum skín,

og lækirnir kyssast í silfurósum.

Við útheimsins skaut er allt eldur og skraut

af iðandi norðurljósum. (sjá meira)

Snemma á 20. öldinni keypti Fossafélag Einars Benediktssonar land meðfram Jökulsá á Fjöllum ásamt náttúruperlunni Ásbyrgi. Hugsjón hans var að virkja ána og sagðist hann ætla að nýta raforkuna til að framleiða áburð á blóm og birki í örfoka landi.

Einar átti Ásbirgi í 15 ár, -hafði áður orti þar ódauðlegt ljóð á sumarmorgni. Jökulsá á Fjöllum rennur óbeisluð frá Vatnajökli, um Dettifoss og Hljóðakletta, allt til sjávar enn þann dag í dag, sem betur fer, ekki er ólíklegt að Sumarmorgunn í Ásbyrgi eigi sinn þátt í því.

Alfaðir rennir frá austurbrún

auga um hauður og græði.

Glitrar í hlíðinni geislarún,

glófaxið steypist um haga og tún.

Signa sig grundir við fjall og flæði,

faðmast í skrúðgrænu klæði. 

En hvað var það raunverulega, -sem gerði Einar Benediktsson eins mikinn og af er látið? Ég hef verið að lesa bókina Væringinn mikli, ævi og örlög Einars Benediktssonar eftir Gils Guðmundsson, og kemur það mér nokkuð á óvart hvað gerði þennan stóra mann svo mikinn.

Vissulega var Einar með stærri og myndarlegri mönnum, stór ættaður, komin af betur stæðum Íslendingum. Móðir hans Katrín Einarsdóttir heimasæta á Reynisstað í Skagafirði, sem sagt er að hafi verið trúlofuð manni 12 ára gömul, en áratugur var á milli þeirra í aldri. Foreldrar hennar styrktu föður Einars, -Benedikt Sveinsson til mikilla mennta og út á þær komst hann til æðstu metorða, -sem Landsdómari.

Þau Katrín og Benedikt skildu eftir stormasama sambúð á Elliðavatni þar virðist óregla Benedikts hafa ráðið mestu, -og skiptu með sér barnahópnum. Benedikt hafði missti Landsdómara embættið, en varð síðan sýslumaður í Þingeyjarsýslum og þingmaður N-Múlasýslu, bjó á Héðinshöfða á Tjörnesi við Skjálfanda. Einar ólst upp hjá föður sínum.

Þegar fræðst er um Einar þá gerir maður sér grein fyrir hvað gerði manninn eins mikinn og af er látið. Segja má að það sem hafi gert Einar mikinn hafi hann sjálfur komið hvað best í orð sem örstuttri hendingu í ljóði. Allir þekkja orðatiltæki sem lifað hefur með þjóðinni allar götu síðan Einar kom þeim orðum í ljóð; -aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Það virðist vera sem næmni Einars fyrir þessum sannindum hafi umfram annað gert hann mikinn. Og sú aðgát átti ekki einungis við sál okkar mannanna heldur alls þess er prýðir sköpunarverkið.

Í bókinni er frásögn Einars af því þegar hann uppgötvaði hvernig allt tengist og hve mikilvægt er að bera virðingu fyrir öllu og öllum, -alltaf, -og að ekki verði bæði sleppt og haldið. Þar segir hann frá veiðiferð sem hann fór ungur maður út á Sjálfandaflóa. Ég ætla að leifa mér að birta valda kafla úr frásögninni því hún segir mikið um mikilmennsku.

Við vorum þrír á kænunni, kátir ungir og vel nestaðir. Hvað á dauðlegt líf ágætara að bjóða en slíkan dag og þvílíka volduga, dragandi fegurð? Eilífðin brosti í þessari skínandi skuggsjá, hafi öræfanna, og átti um leið náðargeisla handa þeim minnsta smælingja, sem leita vildi upp ljósið frá myrkrum djúpsins. Rétt við vörina vöktu birtingarnir og létu heila heima glitra á hreistrinu. Hrognkelsi sveimuðu á grunni, með blakka, hrjúfa hryggi í vatnsborðinu, til þess að dýrð sólarinnar mætti líta þá og snerta. Landselskóparnir iðuðu í látrunum, sælir og glampandi, með síopin augu. Veldi og skaut norðlenskrar náttúru ríkti yfir öllu á sjó og landi.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Í þetta sinn vorum við óheppnir. Selurinn kom upp langt fyrir aftan bátinn. Ég tók það ráð að leggja upp árar og hafast ekkert að. Ég hafði séð, að þetta var afar stór útselur, af því sama kyni, sem kallast kampur, en þeir eru haldnir ganga næst landsel að skynsemd og forvitni. Selurinn tók dýfu frá bátnum, en ekki mjög langa. Annar hásetinn var neftóbaksmaður, ég lánaði af honum rauðan vasaklút, sem ég lét lafa aftur af stýrinu. Svo biðum við kyrrir, án þess að láta neitt minnsta hljóð heyrast.

Eftir nokkur köf fór kampurinn að færast nær, og loksins kom ég skoti á hann, en hitti illa. Hann tók fyrst langa dýfu, en nú gátum við séð, hvert róa ætti. Bráin á sjónum sagði til og svo fór óðum að draga saman með okkur. Selurinn var auðsjáanlega særður til ólífis. En þá kom það fyrir, sem ég get aldrei gleymt.

Kampurinn tróð marvaða og rétti sig upp, á að giska fimmtíu faðma frá bátnum. Þetta færi var heldur langt fyrir högl, en samt miðaði ég og ætlaði að fara að hleypa af. En þá greyp selurinn til sunds beint á bátinn. Ég hafði heyrt sagt frá því hvernig selir réðust á báta, þegar líkt stóð á. En það var eins og eitthvað óskiljanlegt hik kæmi yfir okkur alla. Við hreyfðum okkur ekki í bátnum og kampurinn rétti sig aftur upp örfáa faðma frá kænunni.

Blóðið lagði úr sári á kverkinni og yfir granirnar. Mér sýndist hann einblína á mig, þarna sem ég stóð í skutnum á selabyttunni með morðvopnið til taks á móti þessum saklausa, forvitna einstæðing hafsins, sem var viðskila við sitt eigið kyn, sjálfur aðeins óvopnaður meinleysingi.

Eflaust hefur sú breyting verið áður að ná tökum á mér, smátt og smátt, að aumkva dýrin eins og mennina, þegar þau eru í nauð eða verða fyrir meiðslum og dauða. Mér finnst það nú til dæmis með öllu óskiljanlegt, hvernig ég hef getað fengið af mér að drepa saklausa fugla mér til gamans, án þess að nein neyð kreppti að mér. Endurminningar um þetta fylla mig oft viðbjóði og andstyggð á minni eigin tilgangslausu og léttúðugu grimmd. En í þetta skipti opnuðust fyrst augu mín. Þessi blóðuga, mállausa ákæra stendur mér oft í hugskoti – en ég hef aldrei fyrr komið mér til þess að færa neitt um það í letur.

Kampurinn gjörði enga tilraun til árásar á bátinn – og svo leið þetta andartak, sem verður að notast með skutli eða áróðri, ef veiðin á ekki að mistakast. En selurinn stein sökk í sama svip – og eitthvað hulið afl lagði þögn og kyrrð yfir þessa litlu bátshöfn, sem fremur hafði lagt af stað í þessa veiðiför af leik heldur en þörf.

Maður í álögum segir gamla sagan! Ég get ekki gjört mér grein fyrir, hve oft ég hef, síðan þetta kom fyrir, hugsað um lið Faraós og sækonur þjóðsagnanna. En óendanlegur tregi og iðrun kemur upp hjá mér, þegar ég minnist þess augnaráðs, sem selurinn beindi á mig, þegar hann hvarf í djúpið.

–Ég hef ætið orðið staðfastari með árum og reynslu í sannfæringu minni um algjört orsakasamband, milli alls og allra. Þessi viðburður, sem er mér svo minnisstæður, hefur sjálfsagt átt að vera mér bending, samkvæmt æðri ráðstöfun. Ef til vill hefur mér verið ætlað, þegar á þessu skeiði æsku minnar, að innrætast einhver neisti af miskunnsemi við aðra, sem máttu sín miður eða báru þyngri byrði.

En hvílíkur fjöldi atvika birtist í örsnöggri svipan fyrir athugulum augum í borgum þúsunda og milljóna, í kvikmyndastraumi strætalífs og skemmtihalla, - þar sem ætið og alls staðar endurtekur sig hin sama saga. Er ekki hamingja heimsins grundvölluð á samanburði auðæva, yfirburða, fegurðar og fróðleiks gagnvart þeim snauðu, gunnhyggnu, miður menntuðu og ósjálegri, er byggja umhverfi staðanna, margir við eymd og tötra? Hver ómælisgeimur af örbirgð og læging þarf að hlaðast undir stétt hinna æðri, sem svo kallast, til þess að þeir geti þóknast sér sjálfum og fundið sinn mikilleik.

Hve ótölulega mörg bleik, deyjandi andlit sökkva í þetta friðaða, lygna yfirborð mannlífsins, sem geymir dauða og glötun? Gangi ég framhjá tötruðum beiningamanni, sný ég stundum aftur. Er blóðug myndin, sökkvandi við borðstokkinn, sem gægist upp úr öræfum minninganna?

Þessi voru orð skáldsins um eigin mikilmennsku á Skjálfandaflóa og hygg ég að samferðamenn hans hafi oft upplifað hana á þennan hátt, því í þeim vitnisburði sem þeir hafa um Einar, -sem hann þekktu, -ber aðgát í nærveru sálar hæðst.

Eitt bros — getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veig heillar skálar.

Þel getur snúist við atorð eitt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Svo oft leynist strengur í brjósti sem brast

við biturt andsvar, gefið án saka.

Hve iðrar margt líf eitt augnakast,

sem aldrei verður tekið til baka.

Eins og sjálfsagt allir vita, sem náð hafa að lesa þetta langt, þá endaði skáldið, heims- og athafnamaðurinn ævina í Herdísarvík á Reykjanesi svo að segja við sjálfsþurftarbúskap, á stað sem ekki var bílfært á á þeim tíma. Það gerði Einar samkvæmt eigin vali.

-KVEÐIÐ Í HERDÍSARVÍK- 

Í æsku hugði ég á hærra stig.

Það heldur fyrir mér vöku,

að ekkert liggur eftir mig

utan nokkrar stökur.  (EB)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Hvíbláinn - þjóðfáni Þjóðveldis - er Einars.

Blessuð minning.

http://nyttland.is/?p=12

Guðjón E. Hreinberg, 20.2.2024 kl. 17:10

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir þessa ábendingu Guðjón.

Ég veit svo sem ekki hvort nokkur getur sett sig inn í frásögn Einars þegar hann gabbaði selinn með því að flagga ruðum tóbaksklút, án þess að hafa tekið þátt í selveiðum sjálfur. En við það að lesa um þessa blóðugu, mállausu ákæru skildi ég Einar.

Magnús Sigurðsson, 20.2.2024 kl. 18:03

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Satt að segja tel ég að í hugarheimi hans hafi hljómað; skíthæll !!

Helga Kristjánsdóttir, 21.2.2024 kl. 15:48

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Nú skuldarðu skýringu?? -Helga.

Magnús Sigurðsson, 21.2.2024 kl. 16:13

5 identicon

Sæll Magnús.

Helga Kristjánsdóttir verður að svara fyrir sig, en mig grunar að hún sé að meina að Einari hafi fundist hann vera skíthætt eftir þetta ódæðisverk.

Það er að bera í bakkafullan lækinn að mæra Einar eitthvað frekar, en hann var mikill maður og langt á undan sinni samtíð. Þó átti hann til að vera ruddalegur og nota stór orð, sérstaklega með víni eða i pólitísku þrasi. Til marks um það þá er hér stutt saga sem mig minnir að vera sögð í ævisögu hans eftir Guðjón Friðriksson. Vinsamlegast leiðréttið mig ef ég fer með rangt má, en sagan er einhvern veginn á þessa leið: "Eitt sinn þegar Einar var í uppsveitum Árnessýslu að falast eftir vatnsréttindum þá kom hann á bæ einn og tókst þar á við húsfrúna um pólitík og voru þau ekki sammála. Konan segir "Ég er nú enginn asni, Herr Benediktsson". "Nei það eruð þér alls ekki. Þú er bölvuð meri, það er það sem þú ert".

Olafur Arason (IP-tala skráð) 21.2.2024 kl. 18:00

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir Óli, -já kannski hefur þetta þá þegar farið um huga veiðimannsins á Skjálfandaflóa, og nokkuð örugglega seinna.

Sagan úr uppsveitunum sýnir að Einar hefur verið stórbokki enda held ég að hann verði aldrei tekin í dýrlingatölu, þrátt fyrir einstök ljóð.

Magnús Sigurðsson, 21.2.2024 kl. 19:11

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Datt það í hug eftir hringsól hugans um þessa óbrengluðu tíma sem tekur öllum nútíma fram. Veit ekki hvort ég veld þessari breytingu hér í ensku en ljóta orðið er rétt hjá Ólafi ja t.d. eftir Win Win. Æ,afsakið!

Helga Kristjánsdóttir, 21.2.2024 kl. 22:52

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir skýringuna Helga, -ég kveikti ekki strax.

Magnús Sigurðsson, 22.2.2024 kl. 05:20

9 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll!ég skil,en þegar ´æeg lauk færslunni hér var ég komin í veruleg vandræði;allar færslur upp úr höfu snúist í ensku áður hef ég lent í því að öllu sem ég skrifaði sjálf var snúið upp í ensku. En ég gat skrifað á minu ylhíra.Nú er eg blanko.

Helga Kristjánsdóttir, 24.2.2024 kl. 00:51

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ja hérna Helga, -þessu hef ég ekki lent í, en ég hef lent hvað eftir annað í því að ef ég ýti á like flipann á sumum bloggum þá gerist ekki neitt.

Annars hringdi í mig maður í fyrrakvöld og Einar Ben komst til tals, hann sagði að annaðhvort sæi fólk skáldið eða stórbokkann. Þeir sem sæju skáldið settu Einar í dýrlingatölu.

Magnús Sigurðsson, 24.2.2024 kl. 07:23

11 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll aftur! Fyrir mér nægir hans dýri óður eitt bros  og ég verð hugfangin. 

Helga Kristjánsdóttir, 25.2.2024 kl. 00:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband