Sögur af landinu bláa

Hæsta byggða ból landsins, í u.þ.b. 460 m.y.s, er Möðrudalur. Kallaður í fornskjölum Möðrudalur á Efra-Fjalli. Talið er að Möðrudalur hafi verið byggður frá landnámi með örfáum undantekningum. Margar og athyglisverðar sögur eru til úr Möðrudal enda bærinn á einstökum stað inn á öræfum. Svo gott hefur verið að búa í Möðrudal að ættir hafa ílengst í marga ættliði og er núverandi ætt búin að búa þar í meira en 100 ár.

Drauga og presta sögur eru margar og magnaðar. Sennilega er sagan af Möðrudals Möngu sú þekktasta, en hún skreytir flest íslensku þjóðsaganasöfnin. Í Desjamýrarannál Halldórs Gíslasonar prests er sögn sem má geta sér til sem ein ástæða þess að byggð í Möðrudal hefur af og til lagst af í gegnum aldirnar.

Í lok 15. aldar gekk plágan síðari yfir Austfirði. Þá gjöreyddist svo byggð í Múlasýslum, að ekki lifðu eftir nema tvær manneskjur, presturinn í Möðrudal og stúlka ein í Mjóafirði. Þau náðu saman og urðu samferða suður um land að leita annarra manna. – Fundu þau ekki fólk nema á Síðu, 7 menn, og 11 undir Eyjafjöllum. Landið byggðist svo aftur af Vestfjörðum, því þar kom plágan ekki.

Þessi sögn er frá sama tíma og saga af Þorsteini jökli Magnússyni, sem á sér sömu ástæðu og sagan af Torfa í Klofa. Síðari plágan svokallað gekk yfir Ísland árin 1493-1495 og var mannskæð farsótt. Yfirleitt er talið að þetta hafi verið sama sótt og olli Svartadauða sem gekk yfir landið í upphafi 15 aldar. Plágan er talin hafa borist til landsins með ensku skipi sem kom til Hafnarfjarðar. Í árbókum Espólín segir:

„Um sumarið komu enskir kaupmenn út í Hafnarfirði; þar þótti mönnum sem fugl kæmi úr klæði bláu, að því er Jón prestur Egilson segir, og þá var talað; gjörði  því næst sótt mikla, og mannskæða plágu í landi hér. ... tókst mannfallið um alþingi, og stóð yfir, fyrir sunnan land, fram yfir Krossmessu um haustið, en rénaði nokkuð þá loft kólnaði.“

Pestin gekk fyrsta sumarið um Suður- og Vesturland en árið eftir um Norður- og Austurland. Vestfirðingum tókst að verjast smiti og barst hún aldrei til Vestfjarða. Sagt var að konur hafi fundist dauðar með skjólur sínar undir kúm og ungbörn hafi sogið mæður sínar dauðar.

Þeir sem fylgdu líki til grafar hrundu niður á leiðinni og fóru stundum sjálfir í þær grafir sem þeir grófu öðrum. Þá fjölgaði eyðibýlum verulega um allt land og sagt var að fátækt fólk frá Vestfjörðum hafi á eftir getað fengið góðar jarðir víða um land. 

„Þorsteinn jökull bjó á Brú á Jökuldal um aldamótin 1500. Það hefur verið algeng sögn um hann í Austfjörðum, að hann hafi búið þar, þegar plágan mikla gekk 1494 -5. Þegar hann spurði til plágunnar, flutti hann vestur á öræfi, að svo kallaðri Dyngju í Arnardal (inn af Möðrudalshásléttunni). Byggði þar bæ og bjó þar í tvö ár.

Meðan plágan stóð sendi hann tvo menn til byggða, sitt árið hvorn, og kom hvorugur aftur. Þriðja árið sendi hann son sinn. Hann sá bláa móðu yfir dalnum (Jökuldal) en engar mannaferðir. Þá flutti Þorsteinn að Netseli við Ánavatn í Jökuldalsheiði og bjó þar eitt ár. En næsta ár flutti hann aftur að Brú og bjó þar til elli”.

Mikil ætt Austfirðinga er komin út af Þorsteini jökli, eins og vænta má sé eitthvað að marka Desjamýrarannál.

Munnmæli eru til um að byggð í Möðrudal hafi eitt sinn lagst af vegna ísbjarna. Sagan er í grófum dráttum þannig að maður utan af Hólsfjöllum átti erindi í Möðrudal. Þegar hann kom þangað var engin úti við og engin sem kom til dyra. Hann fór því inn í bæinn og var aðkoman ömurlega. Lík alls heimilisfólks lágu á gólfi baðstofunnar rifin og tætt.

Manninn grunaði strax að ísbirnir væru þessu valdandi. Baðstofan í Möðrudal var ekki á palli heldur niður á jafnsléttu. Það voru samt tvö rými í lofti hvort við sinn stafn með bjálka á milli. Þangað fór maðurinn því ekki þorði hann að ganga langa leið til baka og eiga von á ísbjörnum, eins grunaði hann að ísbirnirnir ættu eftir að koma aftur og vitja veiðinnar.

Ísbirnirnir komu aftur og hafði maðurinn þá undirbúið sig vel og tókst að flæma þá á flótta með eldglæringum af hefilspónum. Engar tímasetningar eru til á þessum munnmælum. En í annál Eiríks Sölvasonar prests í Þingmúla er sagt frá því að mikill hafís hafi verið við Austfirði 1621, hafi þá gengið 25 ísbirnir í hóp um Fljótsdalshérað og upp um heiðar.

Árið 1916 var tekin gröf í kirkjugarðinum í Möðrudal komu þá upp 9 höfuðkúpur og mikið af mannabeinum, settu menn það í samband við munnmælin um ísbirnina. Þessi bein gætu hafa verið þarna að öðrum ástæðum, s.s. drepsóttum aða einhverjum öðru, enda kirkjugarður. En ólíklegt var talið að skortur á landrými í Möðrudal hafi orðið til þess að fólk væri grafið í fjöldagröf, eitthvað annað hafi þurft að koma til að svo væri gert.

Þá segja máldagar Möðrudalskirkju einstaka sögu, m.a. frá skógarítaki kirkjunnar í Skaftafellsskógi og sumarbeitarrétti Skaftfellinga fyrir hesta í Möðrudal. Þessir máldagar gefa það ótvírætt til kynna að Vatnajökull hafi verið mun minni og með öðrum hætti fyrr á öldum en hann er í dag.

 

Í Möðrudal á Fjöllum er mánaljósið tært

og meyjaraugun fegri en himinsólin

Og kvöldstjörnunnar ljós

það lýsir þar svo skært

Þar leiðast þau

sem elskast

bak við hólinn

(ljóð Þórbergur Þórðarson)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Magnaður lestur, ekki laust við að það færi hrollur um mann stundum....

Jóhann Elíasson, 3.2.2024 kl. 09:23

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

VÍð búum á mörkunum Jóhann -eins og sagan í gegnum aldirnar sýnir.

Síðustu kynslóðirnar hafa búið í gósenlandi. Sennilega hefur önnur eins velmegun ekki verið í landinu síðan á Þjóðveldistímanum. Vonandi fáum við að njóta hennar áfram.

Magnús Sigurðsson, 3.2.2024 kl. 10:00

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Ultima Thule - ljóslandið við endann á alheiminum, ... eða þannig.

Guðjón E. Hreinberg, 3.2.2024 kl. 16:09

4 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Þulæ, ælífð, ... svo vitnað sé í Skugga

Guðjón E. Hreinberg, 3.2.2024 kl. 16:09

5 identicon

Þakka fróðleikinn, forvitnilegan sem jafnan frá þér, meistari Magnús.  Þetta fer sem fer.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 3.2.2024 kl. 17:30

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir innlitin og athugasemdirnar Guðjón og Pétur Örn, -þessi fróðleikur er að stofninum til í bók sem heitir Þættir úr sögu  Möðrudals á Efra Fjalli.

Hún kom út hjá Prentverki Odds Björnssonar Akureyri 1943 og eins og með svo margar merkilegar Austfirskar heimildir þá komu þeir Þorsteinn M Jónsson og Halldór Stefánsson að útgáfunni.

Halldór er höfundurinn hann er af þeirri Möðrudalsætt sem lengst hafði búið í Möðrudal fram til 1919 þegar Jón A Stefánsson keypti Nöðrudal og búa hans afkomendur þar enn í dag.

Halldór Stefánsson var forstjóri Brunabótafélags Íslands og áhugamaður um varðveislu fornra munnmæla og heimilda. Hann ásamt Þorsteini M  Jónssyni ofl komu að útgáfu bókaraðar sem heitir Austurland sem er einstök gullnáma. 

Ég var svo heppin að rekast á þessa bók eða kver, um Möðrudal á nytjamarkaði. það er oft þar sem gullmolar leynast. 

Magnús Sigurðsson, 4.2.2024 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband