Frostaveturinn mikli

Það hefur verið frost á Fróni undan farna daga. Núna tvo síðustu vetur hefur verið kaldara en maður af minni kynslóð á að venjast, nema þá hugurinn reiki aftur í barnsminnið frá því á sjöunda áratugnum. Þá voru nokkur hafísár 1965-1970 og þó svo að ég hafi ekki séð hafísinn, þá var kalt í minningunni á þessum vetrum inn til landsins. Nú tala málsmetandi menn um hamfarahlýnun í frostinu og eins og venjulega eru mestu hamfarirnar Langtíburtukistan.

Það eru samt um næga óáran að ræða þessi dagana á landinu bláa með Reykjanesið rauðglóandi þó svo ekki sé verið að velta sér upp úr hamfarhlýnun í frosti. Sennilega hafa kynslóðirnar frá aldamótunum 1900 búið við hvað best skilyrði frá náttúrunnar hendi hér í landi frá því á þjóðveldisöld.

Jafnvel þó svo að loftslagsvísindin vilji meina að æskilegt sé að meðalhiti jarðar verði í kringum það sem hann var á 19. öld eftir að lítillega var farið að hlýna  aftur eftir litlu ísöld. Þess vegna getur verið fróðlegt að skyggnast aftur í tímann og skoða hvernig árferðið gat verið á Íslandi á hinu gullna viðmiði vísindanna.

Það er ekki svo langt síðan að uppi var fólk sem mundi frostaveturinn 1918 en um frostaveturinn mikla 1882 og veturna þar í kring eru fáar frásagnir enda hefur fólki sennilega þótt rétt að gleyma þeim vetrum eins og hverju öðru hundsbiti.

Í bókinni Gengin spor, sem í eru saganaþættir Þorsteins Matthíassonar, er viðtal við Martein Þorsteinsson f. 23. apríl 1877. Marteinn var 92 ára gamall þegar viðtalið var tekið og segir þar m.a. frá sínum fyrstu minningum í Steinaborg á Berufjarðarströnd.

Fátt eitt man ég úr fyrstu bernsku, þá voru harðindaár og þröngt um hjá öllum almenningi. Veturinn 1881-1882 var geysilega frostharður og mikil ísalög. Hafís komst þó aðeins skammt inn fyrir Djúpavog. Þangað lagði út Berufjörð og eru um þrjár mílur danskar (ca 22 km). Var alls staðar ekið á ísnum landa í milli heim að hverjum bæ.

Árið 1883 var fellisvetur. Þá kom ísinn á síðasta vetrardag. Flestir bændur voru heylausir og þrjár fyrstu vikur sumarsins sanzlaus stórhríðarbylur. Faðir minn slátraði því nær hverju lambi um leið og það fæddist og fóru aðeins ellefu lömb á sumarhaga þetta vor, en fullorðið fé lifði allt. Mér er þetta minnisstætt vegna þess, að eitt þessara 11 lamba var mér gefið.

Í bók Öldu Snæbjörnsdóttir frá Þiljuvöllum á Berufjarðarströnd, -Dvergasteinn, sem er stórmerkileg samantekt munnmæla og þjóðasagna frá Berufirði, Djúpavogi, Hamarsfirði og Álftafirði, er munnmælasaga sem hún skráir eftir Emil Björnssyni manni sínum. Emil var flest sumur æsku sinnar á Teigarhorni við sunnan verðan Berufjörð, -gengt Steinaborg sem er á ströndinni  norðanverðri.

Það má ætla að þessi munnmæla saga á Teigarhorni sé frá sama ísavetri og Marteinn getur um í æskuminningum sínum í Steinaborg, þegar hafís var við Berufjörð og lagís á firðinum. En hafís hefur ekki komið inn á Djúpavog við Berufjörð síðan 1968, að ég held, og þótti þá viðburður.

Til eru ljósmyndir af hákarlaskútum innilokuðum í ís á Djúpavogi, teknum af Nikólínu Weywadt frá því á árunum í kringum 1900. Nikólína lærði ljósmyndun fyrst kvenna á Íslandi og bjó á Teigarhorni þar sem hún stundaði veðurathuganir fyrir veðurstofuna. Amma Emils, sem hann hefur munnmælasöguna eftir, er systurdóttir Nikólínu.

Sagan sem Emil hefur eftir ömmu sinni er svona.

Ein er sú saga sem Hansína Regína Björnsdóttir amma mín sagði mér oft, en það var sagan af vinnukonunni á Búlandsnesi og bjarndýrinu. Átt þessi atburður að hennar sögn að vera dagsannur og gæti hafa gerst á hafísárunum fyrir aldarmótin 1900.

Einn ísavetur gekk hvítabjörn á land í nágrenni Teigarhorns. Sást fyrst til hans niður á Teigum, sem er talsvert breitt flatlendi er gengur í sjó fram skammt fyrir innan Teigarhorn. Fljótlega fór bjarndýrið að færa sig upp eftir og hafði fólkið á bænum allan vara á sér, ef ske kynni að hann tæki stefnuna þangað. En björninn hélt áfram í rólegheitum upp alla Teiga og snuðraði öðru hvoru í jörðina eins og til að leita slóða. En hvítabirnir sjá ákaflega illa og nota þefskynið til að leita að bráð. Áfram hélt hann upp mýrarnar fyrir ofan og stefndi í átt að Hálsunum.

Skyndilega var eins og ísbjörninn hefði veður af einhverju því hann herti á sér. Þá sá fólk sér til skelfingar, hvar kvenmaður kom úr gagnstæðri átt yfir Hálsana og hélt sem leið lá niður að Dvergastein, stóran ferhyrndan klett utan í hlíðinni. Bilið á milli bjarnarins og stúlkunnar styttist nú óðum.

Þau nálguðust Dvergasteininn sitt úr hvorri áttinni vinnukonan og hvítabjörninn og náðu þangað svo til samtímis. Fólkið horfði á og bað guð, að hjálpa sér og aðrir bölvuðu í hljóði, þegar bjarndýrið lagði af stað í kringum klettinn. Næstum í sömu andrá birtist stúlkan hinu megin á niðurleið. Þannig gengu þau sitthvoru megin við Dvergastein, vinnukonan og ísbjörninn, að hvorugt sá hitt.

Þá fann björninn slóð stúlkunnar fyrir ofan klettinn og rakti sig á harðahlaupum eftir henni upp yfir Hálsana, þar sem hann hvarf sjónum suður af. En vinnukonan hélt hin rólegasta niður á við og sveigði síðan inn með í áttina að Urðarteigi, þangað sem för hennar var heitið. Hafði hún ekki orðið vör við neitt óvenjulegt á ferðalagi sínu.

Það má ætla að gönguferð þessa ísbjarnar hafi endað í Hamarsfirði. En Hálsarnir, sem getið  er um í sögunni, liggja á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar. Ingimar Sveinsson frá Hálsi í Hamarsfirði fer með munnmæla sögu af ísbjarnardrápi í Hamarsfirði frá þessum árum sem getið er í bókinni Dvergasteinn. Svona er sú saga.

Hér segir frá hvítabirni í nágrenni Djúpavogs kulda- og frostaveturinn 1882, en Álftfirðingar á leið í kaupstað komu fyrstir auga á björninn inn með Hamarsfirði. “Þennan hvítabjörn sáu Álftfirðingar í Rauðuskriðubotninum er þeir voru í kaupstaðarferð og gerðu skotmönnum á Djúpavogi aðvart.”

Hafa Álftfirðingar að öllum líkindum farið sjóleiðina yfir fjörðinn frá Melrakkanesi (þá á ís) eins og oft var gert á þessum árum. Þegar Hans Lúðvíksson í Sjólyst kom á vettvang með byssuna, hafði ísbjörninn fært sig nær byggðinni og var kominn út á hólinn rétt hjá prestssetrinu á Hálsi. Þar var björninn síðan felldur áður en hann náði að gera nokkurn óskunda af sér.

Þess má svo geta að ísbjarnarskyttan Hans Lúðvíksson var kominn út af Hans Jónatan, manninum sem stal sjálfum sér, fyrsta innflytjandanum sem settist að á Íslandi af Afrískum uppruna. Hansína Regína á Teigarhorni var langafabarn sama Hans Jónatans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

"Forsetaveturinn mikli" sýndist mér fyrst að fyrirsögnin væri. Kem því hér með á framfæri.

Þorsteinn Siglaugsson, 7.2.2024 kl. 21:36

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Þorsteinn, -þú hefur nokkuð til þíns máls.

Nú eru tímarnir aðrir, en ég nennti bara ekki að blogga um þá.

Við skulum vona að forsetaveturinn fari mildum höndum um landann verði bæði laus við frosthörkur og hamfarahlýnun, -þó svo að sviðsmyndirnar séu rauðglóandi.

Magnús Sigurðsson, 8.2.2024 kl. 06:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband