Sjóhrakningur frá Djúpavogi til Vestmannaeyja

Um og eftir miðja 19. öld var þilskipaútgerð með allmiklum blóma á Djúpavogi, og líklega mun óhætt að fullyrða, að hvergi austanlands hafi hún verið rekin með eins miklu fjöri og þar. Lýsi var í háu verði á heimsmarkaðinum og mikil þörf á þeirri vöru. Eins og kunnugt er af frásögnum frá þeim tíma, var lýsi mjög notað til ljósmatar og jafnvel til götulýsingar í sumum stórborgum Norðurlanda. Tryggvi Gunnarsson segir svo frá því í endurminningum sínum: „Um og eftir 1870 voru göturnar í sjálfri Kaupmannahöfn lýstar með lýsisljóskerum."

Bonnesen 2

Bonnesen hákrlaskúta Weyvadts á Djúpavogi, "Smelteríið" hákarla-lýsisbræðslan í baksýn

Aðaláherslan var lögð á hákarlaveiði, og hákarlalýsi var dýrast allra lýsistegunda. Flest hákarlaskipin voru lítil, eða um 15 smálestir. Átti Jóhann Malmkvist eitt af þeirri tegund og stýrði því í mörg ár. Bondesen hét 15 smálesta skúta, sem Weywadt verslunarstjóri Örum & Wulffs á Djúpavogi átti; lét hann smíða hana og gerði hana svo út árlega á meðan hún entist. Fyrst var danskur skipstjóri með hana, en síðar íslenskir, þar á meðal Brynjólfur Jónsson frá Reyðará í Lóni; var hann einn hinna allra fremstu sjómanna á sínum tíma. Fyrir og um aldamótin síðustu var hann hafnsögumaður dönsku varðskipanna Heimdalls og Heklu, og höfðu sjóliðsforingjar miklar mætur á honum.

Árið 1895 var hann á Heimdalli, sem þá var staddur á Eskifirði, og var ferðinni í það sinn heitið suður með landi. Þegar komið var út fyrir fjarðarmynnið, var dimm þoka yfir hafinu. Alllöngum tíma eftir það er landsýn hvarf, kom Brynjólfur á stjórnpall til yfirmanna, og spurðu þeir hann þá, hvar þeir mundu vera staddir. Brynjólfur bað að minnka skrið skipsins, tók grunnsökku, lét hana dragast í botni litla stund og dró hana síðan inn. Skoðaði hann sökkuna vandlega og mælti síðan: „Nálægt Skeiðarárrennunni." í þeim svifum dreifðist þokan, svo að sá til lands, og reyndist þetta rétt.

Kona Brynjólfs hét Siggerður, en synir þeirra Jón og Björn; var Björn heitinn eftir bróður Brynjólfs, er fórst með lítilli hákarlaskútu, er smíðuð var á Djúpavogi og hét Morgunroði. Litlu síðar en það sjóslys varð, komst sá kvittur á loft eftir frönskum fiskimönnum, sem komu á Norðfjörð eða Fáskrúðsfjörð, að íslenskum manni eða mönnum hefði verið bjargað í vonskuveðri af brotnu skipi; hefði sá fyrsti, sem upp kom á franska skipið, haft öxi í hendi og hótað að höggva skipverja, ef þeir tregðuðust við að liðsinna þeim. Björn var sagður styrkur vel og snar í hreyfingum. — Allmörgum árum síðar barst sú frétt af Fáskrúðsfirði, að á franskri skútu hefði verið meira en miðaldra háseti, sem skildi að miklu leyti íslensku, en talaði hana bjagaða. Átti hann að hafa spurt um Jón bónda á Reyðará og börn hans. Sumir trúðu því, að þetta hefði Björn verið.

Hákarlaskútur á Djúpavogi

Hákarlaskútur í hafís á Djúpavogi

Annað skip, er Fortuna hét og gert var út frá Djúpavogi, fórst með allri áhöfn; var það lítið skip og smíðað í Danmörku. Aðaleigandi þess var Björn hreppstjóri Gíslason á Búlandsnesi, og með því fórst sonur hans, mesti efnismaður um tvítugsaldur, og varð Birni mjög um það. — Enn fórst lítið skip, sem smíðað var á Djúpavogi, og komst enginn maður lífs af því; var það með þiljum, og ekki man ég, hvað það hét. — Þá tíðkaðist það, að skip þau, sem komu á vorin með vörur, voru gerð út á hákarlaveiðar fram að hausti.

Eitt vorið var kaupfar, sem Elsa hét, sent með vörur til Djúpavogs; kom hún aldrei fram, en eftir frönskum fiskimönnum, sem komu til Austfjarða, gengu ýmsar sögur um afdrif hennar. Sagðist þeim svo frá, að þeir hefðu orðið hennar varir í hafi skammt undan landi; var þá grimmdar norðanveður með miklu frosti, og sigldi hún að landi. Sáu þeir þungar öldur falla yfir „Elsu“, og í einni slíkri hvarf hún sjónum þeirra niður í djúpið og sást ekki framar.

Vegna þessara miklu og tíðu slysfara, sem hér hefur verið greint frá, sló óhug á mestu áhugamennina í sjósókn. Var þá það ráð tekið, að smíða stóra róðrar- og seglbáta. Verður hér sagt frá einum slíkum bát og hrakningi hans frá Djúpavogi til Vestmannaeyja.

Djúpivogur

Óþekkt skúta upp í fjöru á Djúpavogi

Um og eftir miðja 19. öld bjó sá bóndi á Hálsi við Hamarsfjörð, er Lúðvík Lúðvíksson hét. Hann var vel kynntur maður, smiður góður og fékkst við bátasmíði. Smíðaði hann bát, miklum mun stærra en róðrarbátar voru í þá daga. í túnfætinum á Hálsi er bær, sem Strýta heitir, og rétt þar við er þunn klettabrík, margra mannhæða há, og heitir Strýtukambur. Undir þeim kletti var báturinn smíðaður. Fremst í honum var þakið skýli fyrir bátverja. Hlaut hann nafnið Hamarsfjörður og átti að stunda fisk- og hákarlaveiðar. Frá staðnum, þar sem báturinn var smíðaður, var rúmur kílómetri niður að sjó, en slysalaust tókst að koma honum þá leið með mannsöfnuði.

Þegar líkur þóttu til, að fiskur færi að nálgast og veður leyfði, var bát þessum róið, en lítið aflaðist í fyrstu róðrum. Fór nú að líða á veturinn, og tóku bátverjar að hætta sér lengra suður með ströndinni, og var það oft áður fyrr algengt, á meðan róðrarbátar þaðan fóru á Styrmishafnargrunn, en stundum jafnvel fyrir Hvíting, sem er fyrir Hvalneshorni (Austurhorni) sunnanverðu. Eitt sinn í góðu veðri og sæmilegu útliti héldu bátverjar suður að Hvítingi. Voru það þeir Lúðvík bóndi á Hálsi og Sveinn Jóhannsson, sonur Jóhanns skipstjóra Malmkvists eldra, sem var lærður skipstjóri og ágætur sjómaður. Hefur Sveinn eflaust stundað sjómennsku með föður sínum. Nöfn hinna, sem á bátnum voru, eru nú gleymd, en bátverjar hafa eflaust verið fjórir eða fimm.

Þegar þeir komu suður undir Austurhorn, fóru þeir að verða varir við fisk, og fór aflinn heldur vaxandi, en þegar liðið var fram yfir miðjan dag, skall yfir norðannorðaustanstormur mjög snarpur með vægu frosti; reyndist þá ógerningur að komast heimleiðis, og var eina ráðið að slá undan ofsanum. Þegar þeir fóru fyrir Hvalnestangann, sagði Sveinn Jóhannsson, sem sat við stýri, við félaga sína: ,,Nú er útséð um það, piltar, að við njótum kvöldgrautarins á Hvalnesi á þessu kvöldi.“

Bátinn bar hratt undan veðrinu suður með ströndinni; sat Sveinn við stýri. Þegar þá bar fram hjá Stokksnesi við Vesturhorn, sagði Sveinn við Lúðvík: „Hér hefðum við getað náð landi og bjargað lífi okkar, en bátnum ekki.“ „Þú hefðir átt að segja þetta fyrr," sagði Lúðvík. Þá hafði bátinn borið svo langt frá nesinu, að ekki var framar um lendingu að ræða þar. Veðrið hélst alla næstu nótt, og bátinn rak sífellt suður með landi.

Vegna þess, að langt er um liðið síðan atburðir þessir gerðust, verður að styðjast við líkur um hríð, en telja má sennilegt, að þegar slota tók veðrinu, hafi bátverjar gripið til segla, að svo miklu leyti sem því varð við komið. Áfram var haldið fram með ströndinni, en á hve löngum tíma þeim sóttist leiðin, er nú gleymt; gætilega áætlað er mjög sennilegt, að á fjórða sólarhring hafi þeir haft sýn af Vestmannaeyjum. Munu þeir hafa verið sæmilega birgir að matvælum og vatni.

Sumir segja, að þegar þeir félagar hafi nálgast Vestmannaeyjar, hafi þeir verið orðnir mjög þrekaðir og skort vatn; hafi þeir gefið neyðarmerki, bátur úr Eyjum róið út til þeirra og róið þeim að landi. Fengu þeir hina bestu aðhlynningu í Eyjum og voru furðu fljótir að jafna sig eftir hrakninginn.

Engar voru strandferðir í þá daga og póstgöngur strjálar, en sá ágalli á þessum stað, að yfir sundið á milli Eyja og lands verður eigi farið nema í góðu veðri, því að við brimsand er að lenda. Eftir það er þeir félagar náðu landi í Eyjum, brá til umhleypinga, og var tíðast mjög stormasamt. Leið, svo fram um hríð, að þeir félagar urðu að sætta sig við aðgerðaleysi, en um miðjan júní fór Lúðvík bóndi upp í Landeyjasand, keypti sér þar hest og lagði af stað heimleiðis austur. Áttu hinir að bíða leiðis og sigla austur.

Eins og nærri má geta, urðu ættingjar og aðrir vandamenn þeirra félaga harmi lostnir, þegar óveðrið skall yfir og svo leið hver dagurinn á fætur öðrum, að ekkert spurðist til bátsins og hvergi rak neitt að landi, sem gæfi vitneskju um afdrif hans. Var því talið víst, að þeir félagar hefðu allir týnst með bátnum. Þá bjuggu í Stekkjarhjáleigu hjónin Hildur Brynjólfsdóttir, Eiríkssonar bónda í Hlíð í Lóni, og Jón Einarsson. Mjög stutt er milli bæjanna Háls og Stekkjarhjáleigu.

Um Jónsmessuleytið var Jón bóndi árla morguns að hyggja að lambám sínum. Sá hann þá ríðandi mann koma sunnan veginn og halda heim að Hálsi. Var Jón á heimleið og er heim.kom, sagði hann við konu sína, að ef Lúðvík vinur sinn væri lífs, gæti hann best trúað, að hann hefði séð til ferða hans. Skömmu síðar barst út fréttin um heimkomu Lúðvíks og hrakning þeirra félaga; urðu allir glaðir við og þóttust þá úr helju heimt hafa.

Á þriðja degi eftir heimkomu Lúðvíks kom báturinn austur heilu og höldnu; hafði hann haft besta byr alla leið austur fyrir Austurhorn. Mælt er, að sést hafi til hans á Hrómundarbót, aðrir bátar róið út á móti honum og hjálpað honum að landi. Leki hafði komið að bátnum á austurleið, og var hann því lítið eða ekkert notaður upp frá því. — Fleiri bátar af þessari gerð munu ekki hafa verið smíðaðir á þeim slóðum.

Lúðvík bóndi á Hálsi var myndarlegur maður og vel kynntur. Kona hans var Katrín Antoníusdóttir, en synir þeirra voru þeir Lúðvík bóndi á Karlsstöðum á Berufjarðarströnd og Hans í Sjólyst við Djúpavog. Hann var bátasmiður og maður listfengur, prúðmenni hið mesta og vildi öllum gott gera. — Sveinn Jóhannsson var mesti myndarmaður, en varð lítið eitt veill á geðsmunum á efri árum. Hann bjó á ýmsum stöðum í Lóni.

Frásögn þessa hef ég skráð eftir því sem ég heyrði ömmu mína, Hildi Brynjólfsdóttur, segja. Hún dó í febrúar 1894. (Handrit Guðjóns Brynjólfssonar í Skálholti)

 

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

 

Frásögnin birtist í Þjóðsagnasafninu "Gríma hin nýja - safn til þjóðlegra fræða" sem Þorsteinn M Jónsson gaf út. Í safninu eru sögur sem ekki fara hátt í Íslandssögunni. Í þessari sjóhrakningasögu segir af Lúðvík og er hann sagður Lúðvíksson, en ætla má að þarna sé átt við Lúðvík Jónatansson. Kona Lúðvíks er sögð Katrín Antoníusdóttir, en hún grunar mig að hafi verið móður hans.

Katrín Antoníusdóttir var kona Hans Jónatans, mannsins sem stal sjálfum sér, fyrsta blökkumannsins sem sögur fara af á Íslandi. Þau áttu saman dótturina Hansínu og son sem hét Lúðvík og bjó á Hálsi, hann var giftur Önnu Maríu Jóhannsdóttir Malmquist frá Hálsi. Þeir Sveinn Jóhannsson, hinn skipverjinn á Hamarsfirði sem nefndur er á í hrakningasögunni, hafa þá væntanlega verið mágar. Tveir synir Önnu Maríu Jóhannsdóttur Malmkvist og Lúðvíks Jónatanssonar hétu Hans og Lúðvík, Hans var bátasmiður á Strýtu og Lúðvík bjó á Karlsstöðum. 

Synir Hans á Strýtu voru svo m.a. Lúðvík hafnsögumaður í Sjólyst á Djúpavogi og Jóhann Hansson vélsmiður á Seyðisfirði sem átti og rak þar Vélsmiðju Jóhanns Hanssonar, sem varð síðar að Tækniminjasafni Austurlands, en eins og Eiríkur Sigurðsson orðar það í bókinni Undir Búlandstindi þá "virðist sérstakur hagleikur til handanna" vera á meðal afkomenda Katrínar og Hans Jónatans. Fram á okkar daga hafa afkomendur Katrínar Antoníusdóttir og Hans Jónatans búið í Sjólyst á Djúpavogi.

Hvernig svo sem ættfræðinni er nákvæmlega farið, þá er nokkuð víst að þarna er verið að segja frá afkomendum Hans Jónatans og Katrínar Antoníusardóttir, sem giftist eftir fráfall Hans Jónatans Birni Gíslasyni á Búlandsnesi, þess sem gerði út hákarlaskútuna Fortuna og sagt er frá í upphafi frásagnar. Þess ber að gæta að samkvæmt tímalínunni hefur Sjóhrakningurinn til Vestmannaeyja gerst áður, -eða í upphafi þess blómaskeiðs þilbátaútgerðar á Djúpavogi sem um getur í upphafi frásagnarinnar.

Eins stórútgerðamanns þessa tíma á Djúpavogi er ekki getið, en það er Otto Cristian Hammer sjóliðsforingja. Hann gerði út að minnsta kosti fjórar hákarlaskútur frá Djúpavogi á árunu 1868-1873, auk þess að vera bæði með umsvif á Vestdalseyri í Seyðisfirði og á Norðfirði. Gata á Djúpavogi er kennd við Hammer, -Hammersminni; en áður en götur fengu nöfn á Djúpavogi var þar húsið Hammersminni þar sem Hammer bjó og er það við sömu götu og Sjólyst.

Þegar ég bjó á Djúpavogi þá spáði ég mikið í þetta hákarlaskútutímabil, enda varla nema von, því myndir Nikolínu Weyvadt eins fyrsta ljósmyndarans á Íslandi voru frá Djúpavogi á seinni hluta 19. aldar. Á þessum myndum voru oftar en ekki hákarlaskútur á voginum. Ein skúta hefur greinilega verið í miklu uppáhaldi hjá Nikolínu en það var Bonnesen, skúta föður hennar. Það fór svo að ég málaði margar myndir af skútunum og þá sérstaklega Bonnesen eftir myndunum hennar Nikolínu, en svo skemmtilega vill til að ég hef aldrei átt neina af þessum myndum nema í örfáa daga.

Scan_20210308 (2)

Á þessari mynd er Bonnesen og dönsku 19. aldar húsin við Djúpavog. Tvö húsanna eru enn á sínum stað, Langabúð og Faktorshúsið, -það svarta. Bak við Faktorshúsið er Síbería, en það hús brann 1966, fyrir framan Löngubúð er Krambúðin. Þessi mynd málaði ég auk fjölda annarra mynda af skútum á voginum, myndin er stórt olíumálverk, sem fór til Suður Afríku


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir fróðleikinn.

Bjarni Bjarnason (IP-tala skráð) 17.11.2022 kl. 17:54

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Hef verið að hugsa síðustu dagana, ég held að hérlendis hafi farið fram meiri uppbygging frá 1910 til 1940 en frá 1940 til 1970.

Því meir sem ég hugsa um þetta, því auðveldara held ég að sé að sanna það.

Guðjón E. Hreinberg, 17.11.2022 kl. 23:33

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrri innlitin og athugasemdirnar.

Bjarni; þessi saga hefur birst í nokkrum Djúpavogsbókum auk Grímu, en ég hef ekki séð hana setta í þessa ættfærslu, kannski vegna þess bókin um Hans Jónatan - manninn sem stal sjálfum sér, kom út síðar. En mig minnir samt að ef maður hafði hliðsjón af bók Einars Braga - Af mönnum ertu kominn þá megi finna þetta út. Alltaf gaman þegar þjóðsögur reynast sannar, þó svo að megi finna á þeim hnökra, enda skráðar af lífsins list.

Guðjón; þetta held ég að sé alveg hárrétt hjá þér. Fyrra tímabilið sem þú nefnir er þegar sveitir landsins komast að mestu út úr torfbæjunum, bátar vélvæðast og fiskisveiðar eru togvæddar, gríðarlegt framfaraskeið. Á meðan seinna tímabilið er tímabil tolla og viðskiptahafta. Síðan hafa höftin bara aukist, venjulegt fólk byggir ekki lengur hænsnakofa án leyfis frá kerfinu.

Magnús Sigurðsson, 18.11.2022 kl. 06:16

4 identicon

19. öldin er líka allmerkilegt framfaraskeið,þ.e. seinni hlutinn. 

Líklega afleiðing verslunarfrelsis sem að vísu hefur um leið haft í för með sér aukin barnadauða,lungnabólgu og berkla.  Það fylgdi skipunum ýmislegt fleira en nýlenduvörur. 

Fróðlegt að heyra hjá Illuga í frjálsum höndum, lýsingu Þorvaldar Thoroddsen á búferlaflutningum foreldra hans til Leirár í Leirársveit laust eftir 1860. 

Faðir hans brá sér reglulega frá lestinni á bæi að fá eld í pípuna (sjálfsagt eins og eitt staup í leiðinni)  því þá voru ekki til eldspýtur.  

En á sama tíma var enskur maður með niðursuðuverksmiðju á laxi við minni Grímsár í Borgarfirði.  Átti einnig teinæring með gufuvél. 

Nútíminn greinilega farinn að knýja dyra hjá eldspýtnalausri þjóðinni. 

https://www.ruv.is/utvarp/spila/frjalsar-hendur/23806/7i50ui

Bjarni Bjarnason (IP-tala skráð) 18.11.2022 kl. 18:39

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þessa ábendingu Bjarni, þetta var áhugavert.

Magnús Sigurðsson, 18.11.2022 kl. 20:22

6 Smámynd: Birgir Loftsson

Frábær grein. Takk fyrir. 

Birgir Loftsson, 18.11.2022 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband