Örnefni og gildi þeirra

Þegar ég fór til að kíkja á Rakkabergið austan við Hermannastekkana um daginn, -hafði aldrei skoðað svæðið nákvæmlega þó svo að ég hafi oft komið þangað, enda Djúpivogur og nágrenni verið mér kær í áratugi. Ofan við túnið á Hermannastekkum, rétt vestan við Rakkaberg, er ferhyrnt tóft hlaðin úr grjóti, sennilega gamall stekkur.

Það álykta ég, auk nafnsins á svæðinu, af því hvernig tóftin er í laginu og hvernig hún er byggð. Hún er með þremur svo að segja jafnlöngum veggjum upp að hallandi kletti í brekku, sem myndar fjórða vegginn, og frekar breið til þess að hafa haft þak. Vatn hefði runnið inn í þannig hús úr brekkunni ofan við klettinn. Smá halli er frá opinu á tóftinni sem er fyrir miðri þeirri hlið sem snýr fram á túnið.

Þessari tóft hafði ég aldrei veitt athygli fyrr, enda fellur hún inn í gróið landið. Hún gæti þess vegna verið mjög gömul, jafnvel hafa verið viðhaldið á sama stað í gegnum aldirnar. Mér varð hugsað til Guttorms Hallsonar bónda á Búlandsnesi sumarið 1627, -þess sem munnmælin segja að hafi varist með reku og pál þegar Tyrkir hernámu hann við stekkana, sem staðurinn ber síðan nafn sitt af. Það gæti allt eins hafa verið við þennan stekk.

Reyndar er nú, -samkvæmt ritrýndum heimildum, svo til búið að flytja Hermannastekka af Búlandsnesinu norður yfir Berufjörðinn á Berunes. Það gerði Þorsteinn Helgason sagnfræðingur með grein í Glettingi, tímariti um austfirsk málefni, árið 2003 og í doktorsritgerð sinni 2013 sem fjallar um Tyrkjaránið. Þar sem hann rengdi þjóðsöguna og misskildi munnmælin möglunarlaust.

Örnefni segir mikla sögu þó svo að það sé aðeins eitt samsett orð. Þegar ég sat við stekkinn varð mér einnig hugsað til Más heitins Karlssonar vinar míns sem var mikill örnefna og sögu maður, -þekkti hvern krók og kima við Djúpavog. Honum þótti slæmt ef var misfarið með örnefni í ritmáli. Því þá vildi hann meina að örnefnið sem misfærist fylgdi ritmálinu, og ef það væri rangt samkvæmt munnmælunum væri betur heima setið en af stað farið.

Má vini mínum varð meir að segja um og ó þegar Ólafur Ragnarsson frændi hans flutti Háaurana, sem eru næstir fyrir utan Hermannastekkana, um nokkra tugi metra í sinni sveitarstjóratíð á Djúpavogi með því einu að senda ritaða tilkynningu í hús um móttöku rusls í aflagðri Vegagerðargirðingu, og kallaði móttökuna Háaura.

Ég hafði á orði að þetta væri saklaust, og örnefnið varðveittist allavega. -Háaurarnir eru bara ekki þarna, þeir eru á há aurnum, - sagði Már. -Hvað má þá kalla ruslmóttökuna í gömlu girðingu Vegagerðarinnar, -hváði ég. -Hún má bara heita Vegagerðargirðing áfram, -svaraði Már.

Nú heitir sveitarfélagið ekki lengur Djúpavogshreppur, -heldur Múlaþing, sem auglýsir á heimasíðu sinni opnunartíma móttökustöðvar á Háaurum; -þriðjudaga og fimmtudaga frá klukkan 13:30-16:30. Laugardaga frá klukkan 11:00-13:00.

Þegar ég sat þarna í morgunnkyrrðinni á tóftarbrotinu inn á Hermannastekkum án þess að svo mikið sem sjá Berufjörðinn hvað þá yfir á Berunes eða sorpmóttökustöðina á Háaurum, yfir há aurinn sem bar í milli, -sá ég þó hátt í aldarfjórðungi seinna að Már hafði 100% rétt fyrir sér.

Bláklukkur

Bláklukkur á Hermannastekkum. -Bláklukkan er ein af fáum íslenskum háplöntum sem er nær algjörlega einskorðuð við einn ákveðinn landshluta. Hún er algeng á öllu Austurlandi, frá Þistilfirði suður að Skeiðará, en nær hvergi annarstaðar samfelldri útbreiðslu. Hún er mest á láglendi en þó finnst hún á strjáli upp í 500 m h.y.s. og hæst á Teitutindi í 1.000 m h.y.s. (Skógræktarfélag Íslands)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Mjög skemmtilegt og fróðleg lesning.  Ég sloppaði sérstaklega við athugasemd þína við "meðferð" Þorsteins Helgasonar í doktorsritgerð sinni á hermannastekknum og staðsetningu hans.  Hingað til hefur verið talað um doktorsritgerðir "sem einhver heilög rit" sem enginn á að voga sér að gagnrýna.  Þetta á að  vera RITRÝNT í bak og fyrir en það hljóta að vakna upp spurningar hjá mönnum um það hvert gildi RITRÝNINGAR ER OG Í HVERJU HÚN ER FÓLGIN?????????

Jóhann Elíasson, 15.8.2022 kl. 12:48

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta er meira en réttmætar spurningar hjá þér Jóhann. Það er afleitt þegar svona lagað lendir í ritrýnd fræði og betra að fræðimenn láti þjóðsögur og munnmæli í friði en rangtúlki á þennan hátt.

Nú verð ég að viðurkenna að ég hef ekki sjálfur lesið doktorsritgerðina, en mér er sagt að Hermannastekkarnir séu á Berunesi en ekki Búlandsnesi í henni.

Hvað Glettings greinin Þorsteins Helgasonar varðar, þá hef ég lesið hana og þar eru Hermannastekkarnir rangfærðir á Berunesi og hafa verið merktir þar á korti. Og þegar maður les greinina er ljóst að Þorsteinn ruglar saman þjóðsögu og örnefni.

Það má kannski segja sem svo að þar sem þetta var ekki leiðrétt af ritstjórn Glettings, í tímariti um austfirsk málefni, þá sé Þorsteini og ritrýnendum vorkunn.

Magnús Sigurðsson, 15.8.2022 kl. 13:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband