Færsluflokkur: Landsins-saga

Gömul steypa

Það hefur sjálfsagt farið framhjá fáum að þessari síðu ritstýrir steypukall, sem hefur einstöku sinnum komið til hugar að skrifin séu það merkileg að þau ættu heima á prenti. Vegna óstöðugleika hugarfarsins hefur lítið orðið úr, og sjaldan hafa aðrir séð ritsmíðarnar sömu augum. Kannski er þetta vegna þess að síðuhafa finnst þjóðsagan mun merkilegri en sú skólaða, -hafa skal jú það sem sannara reynist, -eða þannig.

Einu sinni fyrir margt löngu reyndi ég að fá skrif birt í tímariti, þau skrif voru náttúrulega bara steypa um gamla steypu og ekki við hæfi málefnalegs tímarits, en var samt komið í annarskonar rit. Ritstjóri þess sagði mér, nokkru eftir að það kom út á prenti, og þegar hann vissi hver ritdólgurinn var, að af þessum skrifum hefði hann bæði haft raun og mæðu.

Hann sagði eitthvað á þá leið að ekki hefði verið gert ráð fyrir svona barnaskap í heimildariti og neyðarlegustu gagnrýnendur ritsins hefðu þar að auki látið í veðri vaka að þetta væri eitt af því fáa sem væri rétt með farið. Ég gat huggað hann með því að þetta væru náttúrulega ekki heimildir heldur barnalegur hugarburður.

Þar sem andleysi hefur hrjáð mig undanfarið, þá birti ég þennan hugarburð mér til andagiftar og sem sérstaka sárabót fyrir þá sem eiga það til að líta hér inn og grípa í tómt, -sem broti úr bók daganna.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Ég hafði komið hingað í bæinn fyrir nokkrum vikum til að vinna ákveðið verk ásamt vinnufélögum mínum. Nú þegar ég stend hér síðdegis í miðsumarsólinni finnst mér eins og tíminn hafi staðið í stað en þó flogið áfram.

Hér á þessum bletti man ég fyrst eftir mér um fjögurra ára aldurinn. Einhvern veginn koma freknur og svíðandi sólbruni fyrst upp í hugann en það er eins og vanti moldina sem alltaf rauk upp í suðvestangolunni á svona heitum dögum. 

Það er reyndar margt fleira sem er breytt. Í þessari brekku þar sem áður var fjalldrapi, berjalyng og holtasóleyjar breiðir nú blá lúpína úr sér inn á milli trjánna og vindurinn þýtur í laufinu.  Héðan sést yfir mestan hluta bæjarins, þó best yfir elsta hlutann; Lagarás, Selás, og Laufás en að baki er hæðin, en ég stend nú fremst í henni gengt Selásnum.

Húsin í gamla bænum standa lítil inn á milli hárra trjánna en áður voru húsin stór og trén lítil. Snyrtilegar gangstéttar liggja meðfram götunum og bílarnir þyrla ekki lengur upp rykmekki. Þorpið eins og ég minnist þess fyrst, var aðeins um það bil einn fimmti af því sem nú er. 

Þá voru hús við Selás, Laufás, ytri hluta Lagaráss og innri hluta Tjarnarbrautar út að húsinu hans Egilsens. Gaggabúð stóð mitt á milli þar sem Búnaðarbankinn og Pósthúsið standa nú og búð Verslunarfélagsins á neðri hæðinni í Odda. Kaupfélagið er á sama stað og áður en nú eru braggarnir horfnir og reisulegri hús komin í þeirra stað. Tehúsið var innst í þorpinu og skólinn ystur. Útgarður, sem þá var kallaður Búbót, var nánast langt út í sveit. 

Hæðin var að mestu leiti nýbyggingarsvæði nema Hamrahlíðin.  Þá voru engin götunöfn, húsin hétu hvert sínu nafni. Samkomuhúsið Ásbíó stóð þar sem Shell er núna  Þar voru haldnar almennar samkomur, bíósýningar og böll. Skammt utan við Ásbíó var tukthúsið þannig að stutt var að fara með þá sem fóru yfir strikið.

Það var hérna á hæðinni sem ég lifði mín æsku ár. Einmitt hérna undir þessum kletti reyktum við Maggi í Kongó fyrstu sígaretturnar. Það var filterslaus Camel úr pakka sem einhver hafði misst. Við þurftum að kveikja í fyrstu sígarettunni í ruslatunnunni hjá Halldóri úrsmið.  Það var ekki vandalaust. Sviðnir á augnabrúnum og hári sáum við að best væri að kveikja í þeirri næstu með stubbnum og svo koll af kolli. Við reyktum sjálfsagt einar fimm en þá var Maggi orðinn öskugrár og vildi fara heim. 

Hann hafði pakkann með sér. Ég sá Magga ekki meir þann daginn og Camelpakkann aldrei framar, því sá mamma hans fyrir. Ég man að mér varð ekki meint af Camelnum og þannig varð það nú reyndar einnig við fyrstu kynni mín af áfengi þó svo síðar kæmi allt annað í ljós. Vafalaust hefðu áhrifin sem Maggi hafði út úr þessu, einnig verið hollari fyrir mig.

Skammt héðan byggðu foreldrar mínir sitt hús og varð það æskuheimili mitt. Fyrst var bílskúrinn byggður, um fjörutíu fermetrar, og þar bjuggum við í fimm ár þar til við fluttum í húsið. Skúrinn hét Hábær og ég var stundum kallaður Maggi í skúrnum til aðgreiningar frá öðrum Möggum en nú er hann Bjarkarhlíð 5. 

Við systkinin vorum orðin fjögur þegar flutt var úr skúrnum haustið 1969. Pabbi var sjaldan heima á þessum árum, hann vann hjá Síldarverksmiðjunni á Seyðisfirði. Mamma var með okkur krakkana. Ég var elstur og eitt af þeim verkum, sem ég minnist að voru mér erfið, var að sækja mjólk niður í Mjólkurstöð en þá var mjólkin afgreidd á brúsa. 

Oft var erfitt að drösla brúsanum upp Mjólkurstöðvarbrekkuna og stundum heltist niður hjá mér þótt brúsinn væri ekki stór. Á sólríkum sumardögum þurfti að færa mjólkurbrúsann í kringum skúrinn eftir því hvar skugginn var. Síðar komu mjólkurpokar og enn síðar ísskápur í skúrinn. Heitt vatn var aldrei í skúrnum og fróum við stundum til Frænku í Varmahlíð til að komast í gott bað, annars var það balinn.

Þegar ég man fyrst eftir voru húsin við Hamrahlíð, og hús Kjartans Ingvarssonar og Jóhanns Stefánssonar þau einu á hæðinni.  Mig minnir að Jói og Unnur hafi byggt sitt hús um svipað leiti og foreldrar mínir byggðu skúrinn. Hæðin byggðist nokkuð hratt upp. 

Ari og Begga byggðu sitt hús rétt fyrir innan okkur við Bjarkarhlíð, Halldór og Nanna rétt fyrir neðan við Hjarðarhlíð, Völundur og Guðný við Hjarðarhlíð, Siggi og Silla að Bjarkarhlíð 1, Sveinn Árna og Stella að Bjarkarhlíð 6, og þannig koll af kolli.

Félagahópurinn samanstóð af krökkunum á hæðinni. Þetta var skemmtileg veröld að alast upp í, alltaf verið að byggja og nægar spýtur til kofasmíði, Hamrarnir með sína töfra rétt fyrir innan og leikir krakkanna báru auðvitað svip af nánasta umhverfi. Það var oft rígur á milli hæðara og þorpara sem stundum braust út í sverðabardaga og stundum í fótbolta.

Einhvern tímann um það leiti sem ég var sex ára var komið upp gæsluvelli úti í skóla.  Þangað var ég sendur mér til mikilla vonbrigða. Einn daginn kom Héðinn vinur minn, ásamt Yngva, bróður sínum, og Þór Guðmunds að leikskólagirðingunni. Þá voru þeir í einhverjum leiðangri og ég man enn hvað mér fannst frelsisskerðingin algjör þennan dag. Sem betur fór var dvöl mín á leikvellinum ekki margir dagar enda erfitt fyrr krakka, sem hafa haft ofan af fyrir sér með leikjum, að sætta sig við svona framfarir.

Í mínum augum var heimurinn svo sem ekki stór fyrir utan hæðina á þessum árum. Það voru þau Ari og Bjarghildur í Varmahlíð, Bjarghildur í huga okkar systkinanna aldrei önnur en Frænka enda held ég að maður hafi lengi vel getað þrætt fyrir að hún héti annað. Svo voru Dúna og Villi í Borgarfelli með stærsta strákahóp þorpsins. Þar var nú oft mikið um að vera. Rétt hjá þeim var Ingimar Þórðarson með vöruafgreiðsluna í skúr með Coca Cola merki, okkur þótti hann vera með almerkilegustu mönnum enda var það hann sem flutti kókið til Egilsstaða. Seinna flutti Ingimar vöruafgreiðsluna upp á hæð mörgum hæðarstráknum til óblandinnar ánægju. 

Stundum gerði maður sér langferð upp í Miðhús en þar bjuggu Einar og Gerður frænka mín, á meðan þau voru að byggja sitt hús í nýja hverfinu, en það var kallað þar sem göturnar með skóganöfnunum eru nú. Svo var náttúrulega Egilsstaðabúið sem hafði talsvert aðdráttarafl, þar voru meðal annars svín og voru það dýr sem ekki var hægt að sjá hvar sem var. Afi og amma bjuggu á Jaðri í Vallanesinu og hjá þeim var ég oft en þau fluttu í Egilsstaði árið 1970. Stærri var heimurinn ekki þá.

Ég held að hápunktur bernskunnar hjá mér hafi verið sumarið 1969. Það var áreiðanlega þá sem við Héðinn fórum í leiðangur með nesti inn á Egilsstaðakoll á góðviðrisdegi sem þessum. Þegar við vorum á bakaleiðinni stoppuðum við við kirkjugarðinn og lögðumst í grasið til að horfa upp í bláan himininn, sem var miklu blárri í þá daga en hann er núna. Þarna komumst við að því að við vorum akkúrat á hinum eina og sanna aldri og menn hefðu ekkert að gera við að verða eldri. Ég held að þetta hafi verið hárrétt athugað hjá okkur því eftir þetta fóru hlutirnir að verða flóknari, litirnir gruggugri og himininn pastelblár.

Það var eins og þessi bær tæki mikinn vaxtarkipp upp úr 1970 og hefði tilhengingu til að breiða hratt úr sér fram yfir 1980. Fólki fjölgaði hratt og það var mikil hreyfing á íbúum þannig að sá kjarni, sem ég man best eftir frá mínum bernskudögum, var ekki jafn auðsjáanlegur og áður. Stundum heyrðist frá Fjarðabúum að ekki væri auðskilið á hverju þessi bær ætlaði að lifa þegar menn hættu að byggja hverjir yfir aðra.

Á árunum upp úr 1971 byrjaði margur unglingurinn starfsferil sinn við byggingavinnu. Ekki var óalgengt að strákar byrjuðu í sumarvinnu um tólf ára aldurinn. Við vorum margir, strákarnir, sem byrjuðum okkar fyrstu vinnu hjá Kaupfélaginu og unnum í trésmiðjunni undir stjórn Völundar. Þá var verið að byggja núverandi kjörbúð Kaupfélagsins. Okkar helstu störf voru að naglhreinsa, skafa og stafla timbri.

Einn af þeim mönnum sem við strákarnir unnum talsvert með var Jón gamli frá Skeggjastöðum, tengdafaðir Völundar. Þegar við strákarnir lögðumst í leti og sjálfsmeðaumkun yfir því hvað leiðinlegt væri að naglhreinsa og skafa timbur þá benti Jón okkur á að líta þannig á verkefnið að verið væri að byggja upp stórt og mikið verslunarhúsnæði, sem myndi þjóna samfélaginu um ókomin ár, og seinna meir gætum við litið með stolti til þess að hafa verið þátttakendur í  því.

Þegar ég las eftirfarandi dæmisögu ekki fyrir svo löngu kom Jón upp í hugann. En hún var á þá leið að maður kom á byggingarstað á björtum góðviðrisdegi. Fyrst kom hann að smið sem var að höggva til planka, og spurði hvað hann væri að gera. Smiðurinn svaraði önugur; "Þú hlýtur að sjá það sjálfur maður ég er að höggva til spýtu". Þá kom maðurinn að múrara, sem var að hlaða vegg, og spurði hvað hann væri að gera. Hann svaraði jafn önugur og smiðurinn; "Eins og þú sérð er ég að hlaða vegg". Næst kom maðurinn að verkamanni, sem hamaðist kófsveittur við að moka sandi og maðurinn spurði hvað hann væri að gera. Verkamaðurinn ljómaði allur í ákafa sínum og sagði;  "Við erum að byggja dómkirkju". Jón gamli var mikill félagi okkar strákanna og reyndi að leiða okkur fyrir sjónir þá einföldu lexíu hvað viðhorfið til hlutanna skiptir miklu máli.

Sumarið eftir sátum við nokkrir strákarnir sunnan undir bröggunum og höfðum þann starfa að höggva til steina sem Hringur Jóhannesson notaði í orminn á Kaupfélagsveggnum. Þegar ég kem að þessari stóru mynd nú er ég ánægður með að hafa verið þátttakandi, þó það sé aðeins í einum litlum steini.

Kirkjan var í byggingu í allnokkur ár og eftir að hún komst undir þak var hún kjörinn leikvangur þar sem sett voru upp mörk við sinn hvorn enda salarins og spilaður handbolti eða fótbolti. Kirkjan var vígð sem guðshús 16. júní 1974 og daginn eftir vorum við krakkarnir af mínum árgangi fermd í henni. Á þessum áratug voru einnig byggð Mjólkurstöð, Menntaskóli, byggt nokkrum sinnum við grunnskólann, byrjað á íþróttahúsi auk alls þess aragrúa af íbúðum sem spruttu upp. Þetta voru sannkallaðir gósentímar, við unglingarnir gáum haft næga vinnu á sumrin og vaðið í peningum.

Ég man sjaldan eftir því að fjárhagsáhyggjur hafi verð til umræðu á þessum árum enda kannski óþarfi, verðbólgan sá fyrir því. Það var samt ekki allt sem háð var lögmáli verbólgu þessa áratugar. Upp úr 1970 voru sett á stofn tvö iðnfyrirtæki, skóversmiðjan Agila og prjónastofan Dyngja. Rekstur þessara fyrirtækja gekk ekki alveg snurðulaust fyrir sig og Agila lagði upp laupana 1974. Dyngja er enn til í einhverri mynd en hefur oftar en ekki átt erfiða tíma. Það má færa að því rök að hagkerfi þessa lands hafi um langt skeið verið miðað við sjávarútveg og þess vegna ekki undarlegt þótt iðnfyrirtæki í framleiðslugreinum ótengdum sjávarútvegi hafi átt erfitt uppdráttar hér sem annarsstaðar.

Áratugurinn milli 1970 og 1980 var sennilega um margt sérstakur. Raunveruleikinn var kannski um margt frábrugðin því sem hann oftast er, unglingar og jafnvel börn gátu fengið launaða vinnu og frjálsræði var að aukast. Það var þess vegna ef til vill ekki skrítið að hjá mér snérust hlutirnir hraðar á þessum árum en raunveruleikaskyn mitt og þroski.

Samfara því að hafa peninga milli handanna ánetjaðist ég víni og rataði svo í marga blindgötuna. Óknyttir mínir voru margir og nú finnst mér að þetta samfélag hafi sýnt mér mikla þolinmæði við að snúa frá villu míns vegar og í raun meiri en efni stóðu til. Tifinningin segir mér að þessi staður búi yfir meiri ró og þolinmæði en aðrir staðir. Hraðinn er oft á tíðum ekki eins mikill og niður við sjávarsíðuna en það vinnst upp með jöfnum hraða og vel það.

Sumarið 1981 varð Björg amma áttræð á sólbjörtum góðviðrisdegi eins og afmælisdagarnir hennar yfirleitt voru. Í áttræðisafmæli ömmu var margt gesta, meðal annarra Sveinn á Egilsstöðum þá á 89. aldursári og við hestaheilsu. Sveinn talaði um vegagerð fyrri ára og hversu mikil breyting hefði orðið með tilkomu vegar yfir Fagradal, uppbyggingu þessa bæjar og gæði landsins, sem enginn þekkti eins vel og gat lýst betur en hann, en hér sagði hann vera Paradís á jörðu. Sveinn hafði svo vistaskipti þennan sama sólbjarta sumardag efalaust ánægður með sitt umhverfi sem hann átti stóran þátt í að skapa.

Ég yfirgaf þennan bæ að mestu upp úr 1982. Hvar rætur manna liggja er ekki gott að segja, sjálfsagt liggja þær hér og þar eftir því hvar þroskinn og augnabliksstemming hafa haft mest áhrif á sálina. Það er orðið nokkuð síðan mér hætti að finnast þessi bær vera það sem ég kallaði heima þó stór hluti af mínum rótum liggi hér.

Þegar ég horfi, þaðan sem ég stend, í átt að Egilsstaðakollinum merlar sólin grágrænt Lagarfljótið sem hlykkjast að því er virðist frá Snæfellinu og út í bláma Héraðsflóans. Fokkerinn er að koma að sunnan og flýgur út yfir Fellin til lendingar. Túnið á Egilsstaðanesinu eru alsett hvítum rúlluböggum sem trú bernskunnar hefðu sagt mér að væru flugvélaegg. Á svona augnabliki getur fátt annað komið upp í hugann en paradís á jörð.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Þessi frásögn var birt í Egilsstaðabók sem kom út 1997 í tilefni 50 ára afmælis þéttbýlisins á Egilsstöðum. Hugrenningarnar áttu sér samt stað 5 árum fyrr, eða sumarið 1992. Það var svo árið 2012, -tuttugu árum seinna, þegar ég var í útlegð í Noregi að fjársjóður minninganna endurheimtist. það var þegar Matthildur mín fann gamlar videospólur og lét setja þær á dvd.

Vídeoið hér að neðan var tekið sumarið 1992 þegar frásögnin að ofan varð til. Eins og ég sagði í upphafi, -gömul steypa og hugarburður, -en videoið sýnir auk þess hvunndagshetjur, sem í sannleika sagt, gera mun á dagsins önn. Sjálfur var ég á bak við myndavélina, lemstraður eftir bílslys, en gat þó auk þess hrært steypuna. Í andleysi daganna endurtek ég hér 30 ára gamlan tíma, -og finnst það í góðu lagi.


Hvaðan kom nafnið - Hermannastekkar

Innan við Rakkaberg eru Hermannastekkar, nafn frá Tyrkjaráni, og er þar nú grafreitur. Það er ekki mikið meira að finna um örnefnið Hermannastekkar á alheimsnetinu, en staðurinn er við þjóðveg eitt þar sem hann liggur rétt fyrir innan Djúpavog. Við Hermannastekka er núverandi grafreitur Djúpavogsbúa, fagur og friðsæll staður. Málvenjan er Hermannastekkar ekki Hermannastekkir eins og ætla mætti.

En hvers vegna bera Hermannastekkar þetta nafn - hvaða atburður varð nákvæmlega til þess að klettarnir við grafreitinn fengu þetta nafn? Um þá atburði er getið í Tyrkjaránssögu og  munnmælum m.a. í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar og víðar, þó svo að sumir telji að þar beri atburðarásinni ekki saman við opinberu heimildina, sem er Tyrkjaránssaga.

Þorsteinn Helgason sagnfræðingur vildi meina í greininni Örnefni og sögur tengd við Tyrkjarán á Austurlandi, sem hann skrifaði í Gletting árið 2003, að atburðarásin, sem nafnið er dregið af, stæðist ekki skoðun. Atburðurinn hefði gerst við Berunes á norðan verðri Berufjarðarströnd þar sem var verið að hlaða stekk samkvæmt þjóðsögunni, en söguhetjan hafi verið hernuminn sunnan fjarðar á Búlandsnesi, sem er á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar, samkvæmt Tyrkjaránssögu.

Þetta ályktar Þorsteinn af munnmælasögu, sem Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari birti í þjóðsagna safni sínu, um bardaga Guttorms Hallssonar frá Búlandsnesi við Tyrki á Berunesi þar sem hann var sagður í heimsókn hjá móðursystur sinni (reyndar var Sigríður húsfreyja á Berunesi dóttir séra Einars á Eydölum, systir Sesselju Einarsdóttir fyrri konu Halls föður Guttorms samkv. Íslendingabók). Miðað við örnefnakortið sem Þorsteinn birti með grein sinni verður ekki betur séð en að Hermannastekkar hafi því verið að Berunesi á Berufjarðarströnd og eru þar nefndir Hermannastekkir.

Hermannastekkar eru sunnan við Berufjörð rétt austan við þar sem bærinn Búlandsnes stóð og þar er munnmælasaga til af nafngiftinni á svipuðum nótum og á Berunesi. Guttormur á að hafa varist Tyrkjum með reku og pál. Hann hefði þess vegna getað verið báðu megin fjarðar með hálftíma millibili og átt í útistöðum við sitthvorn Tyrkjaflokkinn og munnmælin þess vegna farið rétt með, því Tyrkir sendu flokka á land svo til samtímis sitthvoru megin Berufjarðar samkvæmt Tyrkjaránssögu.

Munnmælin eru á tveimur stöðum í þjóðsaganasafni Sigfúsar og greinir á öðrum staðnum frá atburðum á þann hátt að Guttormur hafi einmitt verið báðu megin fjarðar. Þannig að ekki þarf að fara á milli mála hvoru megin Berufjarðar Hermannastekkar hafa ávalt verið og hvaða atburðum nafnið tengist. Það er eins og önnur sagan hafi farið fram hjá Þorsteini Helgasyni þegar hann skrifar greinina í Gletting.

En hver var Guttormur Hallson? Hann var fæddur um 1600, sonur séra Halls Högnasonar og Sigþrúðar sem bjuggu á Kirkjubæ í Hróarstungu á Héraði. Sigþrúður er sögð seinni eða síðasta kona Halls, án þess að meira sé um hana vitað, annað en að hún var einnig nefnd Þrúður. Víst er talið að hún hafi verið móðir þeirra Guttorms og Sigríðar, -yngst 10 barna Halls.

Guttormur var nýlega farinn að búa á kristfjárjörðinni Búlandsnesi þegar Tyrkir gerðu strandhöggið við Djúpavog. Búlandsnes hefur þá sérstöðu að vera kristfjárjörð, þ.e. að hafa verið arfleitt Jesú Kristi, en hvorki ríki né kirkju. Tyrkjaránssaga segir að Guttormur hafi verið fangaður á Búlandsnesi ásamt heimilisfólki sínu en þar voru þá auk þess 6 umrenningar, enda sú kvöð á kristfjárjörðum að hýsa fátæka.

Til eru talsverðar heimildir um afdrif Guttorms m.a. vegna sendibréfa, -bréfs sem hann skrifaði úr Barbaríinu til Íslands, þar sem hann biður landsmenn um að biðja fyrir sér, og bréfs sem enskur skipstjóri skrifaði að honum látnum. En Guttormur var ásamt heimilisfólki seldur á þrælamarkaði í Algeirsborg. Smala piltur Guttorms, Jón Ásbjarnarson, var einnig seldur í þrældóm, en komst til nokkurra metorða hjá húsbónda sínum,  sem var fursti í borginni. Jón fékk Guttorm, fyrr um húsbónda sinn, leystan úr ánauð og keypti fyrir hann far til Íslands með ensku skipi, lét Guttorm hafa farareyri og gull sem hann átti að færa foreldrum Jóns.

Þegar skipið var að nálgast höfn á Englandi höfðu skipverjar komist að því að Guttormur var með gullsjóð og tóku sig þá 4 saman um að ræna hann og drepa. Tveir ræningjanna náðust og voru hengdir. Skipstjórinn kom síðar bréfi til Íslands þar sem þess var getið að það sem eftir var af jarðneskum eigum Guttorms væri í Bristol á Englandi.

Sigríður systir Guttorms og Magnús, sonur séra Höskuldar Einarssonar á Eydölum, sem einnig kemur talsvert við sögu í Tyrkjaránsögu, settust að á Búlandsnesi eftir Guttorm og hans búalið. Tyrkjaránssaga greinir frá því að ræningjarnir hafi farið um Breiðdal án þess að verða verulega ágengt við mannrán og hafi hvað eftir annað týnt Eydölum. Bæði Tyrkjaránssaga og þjóðsagan segir frá því að þar komi við sögu feðgarnir, -prestarnir Einar og Höskuldur. Út af Sigríði og Magnúsi er komin stór ættbálkur íslendinga þ.m.t. síðuhöfundur.

Ræningjaskipin lágu út á Berufirði á móts við Berunes og Djúpavog í fimm daga og hertóku 110 manns auk þess að drepa 9. Til eru samtímaheimildir af því sem gerðist skráðar eftir austfirskum skólapiltum í Skálholti. Sennilega eru heimildirnar fyrir því sem gerðist á austfjörðum áreyðanlegar og greinagóðar vegna þess að þegar ræningjarnir komu til Vestamannaeyja, eftir að hafa verið í Berufirði, settu þeir 5 austfirðinga frá borði, skiptu þeim út fyrir Vestmannaeyinga. Tvo af þessum fimm drápu þeir í Eyjum, en ekki er ólíklegt að hinir þrír hafi farið heim og sagt sínar farir ekki sléttar. Þannig hafi sagan fljótlega borist með skólapiltum í Skálholt.

Það eru fáar heimildir eins trúverðugar og Tyrkjaránssaga. Þekkt eru nöfn fjölda fólks sem rænt var, og örlög nokkurra í þrældómi. Alls var fólkið tæplega 400 sem hernumið var frá Grindavík, nágrenni Djúpavogs og úr Vestmannaeyjum sumarið 1627. Fólkið var flutt til Marokkó og Alsír og selt þar á þrælamörkuðum. Hátt í 50 manns voru drepnir hérlendis meðan á ránunum stóð. Mörgum árum seinna náðist að safna lausnarfé til að kaupa fólk úr ánauð, talið er að innan við 50 hafi náði að snúa aftur heim til Íslands. Þektust er saga Guðríðar Símonardóttur úr Eyjum, -Tyrkja Guddu.

Uppnefni og örnefni, sem munnmæli geyma, eru oft einu upplýsingarnar sem til eru fyrir þjóðsögum er greina frá ákveðnum atburðum. Þannig heimildaleysi er ekki til að dreifa um sjálft Tyrkjaránið. Þó svo Hermannastekkar finnist einungis í munnmælunum og þjóðsögunni þá vann nafngiftin Hermanna, eðli málsins samkvæmt, sér ekki sess fyrr en eftir skráningu hinnar upphaflegu Tyrkjaránssögu á Austfjörðum.

 

Heimildir:

Glettingur tímarit um austfirsk málefni 1. tbl 2003

Dvergasteinn, þjóðsögur og sagnir úr Djúpavogshreppi - Alda Snæbjörnsdóttir

400 ár við Voginn - Ingimar Sveinsson

Undir Búlandstindi - Eiríkur Sigurðsson

Þjójóðsögur og sagnir - Sigfús Sigfússon

Tyrkjaránið - Jón Helgason


Aum þjóð - hýdd og smánuð

Það mætti ætla að alþýða landsins hafi verið svo varnarlaus og aum að valdsmenn hafi vaðið yfir fólk að vild með lögin ein að vopni. Þar til komu fjölþjóðlegir mannréttinda dómstólar, sem fólk gat áfrýjað órétti sínum í gegnum lögfróða, og fengið uppreist æru eftir dúk og disk. Í þjóðsögunum má samt finna frásagnir af því hvernig alþýðu fólk lét valdsmenn finna fyrir því á þann hátt að aumt hefði þótt til afspurnar.

Í þjóðsagna safni Sigfúsar Sigfússonar segir frá Bjarna Einarssyni sem bjó á 18. öld á Bárðarstöðum í Loðmundarfirði, Austdal í Seyðisfirði og á Krossi í Mjóafirði og jafnvel víðar. Í þjóðsögunni er Bjarni sagður eiga Snjólaugu systir Hermanns í Firði, en í Ættum Austfirðinga er kona Bjarna talin Guðný dóttir Péturs Nikulássonar á Breiðavaði og Snjófríðar systur Hermanns í Firði.

Bjarni var talinn göldróttur sjónhverfingamaður og greina sagnir Sigfúsar flestar frá því hvernig hann leyndi suðaþjófnaði hvað eftir annað, m.a. með því að fá þann sem hann stal frá til geyma sauðina.

Sigfús segir svo frá viðskiptum Bjarna við Jón Arnórsson sýslumann á Egilsstöðum, sem sennilega hefur þá verið það sem kallað var lögsagnari Hans Wium sýslumanns. Nokkurskonar sýslufulltrúi dagsins í dag, sem í þá daga rannsakaði mál, gaf út ákæru og dæmdi, auk þess að sjá um að dómi væri fullnægt.

Það var á fyrri árum Bjarna í Austdal að sagnir segja það að Jón sýslumaður Arnórsson hafi dæmt frændkonu Bjarna til hýðingar fyrir ólöglegan barnsgetnað. Hún var í Mjóafirði og þótti mörgum of harður dómurinn. Bjarni bauð að gjalda fé fyrir hana en við það var alls eigi komandi og kom sá orðrómur í ljós að óþarflega harður þætti dómurinn.

En hvað sem í því var satt lét sýslumaður fullnægja dómnum og var stúlkan hýdd vægðarlaust. Þetta sveið Bjarna mjög. Svo segja menn að þegar sýslumaður reið upp yfir frá hýðingunni með fylgjara sínum þá sat Bjarni fyrir honum. Bjarni gerði fylgdarsvein sýslumannsins aðvaran um það að heillavænlegast væri fyrir hann að fara leið sína. Trúði hann að svo mundi vera og hélt áfram nokkurn spöl og beið þar. En Bjarni greip annarri hendi fyrir brjóstið á sýslumanni og spyr um málsúrslit.

Hann sagði sem var og heimtar að Bjarni sleppi sér. -"Nei," sagði Bjarni, "en hafið þér nú gert rétt í þessu gagnvart mannúðarskyldu yðar." - "Lögin heimila það," segir sýslumaður, "eða hvað viltu, kotungurinn, kenna mér réttarganginn?" - „Eigi vil ég það en rétt minn og minna vil ég hafa af yður sem öðrum," segir Bjarni, "og eigi óþarfa harðbrýstni. Menn batna ekki við hana." - "Ég dæmi rétt lát mig lausan," segir sýslumaður og ætlar að slíta sig frá honum, en það tjáði eigi. - "Ekki nenni ég að sleppa yður svo að ég geri yður eigi áður áminningu," segir Bjarni, "og mun ég nú dæma yður á líkan hátt og þér dæmduð lítilmagnann. Skuluð þér nú reyna hversu sú hýðing er mjúk. Þér eruð ekki saklausari en stúlkan."

Eftir þetta kippti hann sýslumanni af baki og hætti eigi fyrri en hann hafði hirt hann á sama hátt og hann hafði látið hirta frændkonu Bjarna áður. Skildu þeir svo og er sagt svo að sýslumaður rétti þar aldrei hlut sinn. (Þjóðs. Sigfúsar Sigfússonar V bindi bls. 328-329)


Hvernig auðnuleysingi er gerður að féþúfu

Um Mjófirðinginn Hermann í Firði eru til margar þjóðsögur og þótti hann bæði göldróttur og viðsjárverður. Í Múlaþingi 32 – 2005 hefur Vilhjálmur Hjámarsson tekið saman ítarlegt efni af málskjölum sem til er um réttarhöld sem fram fóru í Firði árið 1813. En þar segir frá örlögum Eiríks Ólafssonar tvítugs manns sem verið hafði hjá héraðshöfðingjanum Hermanni Jónssyni í Firði. Hermann kærði hann fyrir að stela frá sér mat og kom Eiríkur fyrir sýslumann sem dæmdi hann til hýðingar og fjársektar, sem ekki var um að ræða að gæti hann greitt.

Þetta leiddi til þess að Eiríki var komið í geymslu hjá Sveini bónda og hreppstjóra á Krossi í Mjóafirði til gæslu á meðan fjársektin var ógreidd. Þó svo Sveinn hreppstjóri þyrfti að fæða Eirík þá fékk hann ekkert tillegg til þess frá ríkinu þ.e. sýslumanni, enda þeir gerðir að hreppstjórum sem voru þokkalega efnaðir og það voru hjónin á Krossi. En ekki mátti hreppstjórinn notast við Eirík til vinnu. Sveinn kom Eiríki fyrir i ókleyfum hamravogi niður við sjó handan fjarðar gengt Krossi svo hann slippi ekki úr haldinu og hugðist fá bóndann á Eldleysu til fóðra hann fyrir sig þar, þetta gerði hann samkvæmt ráðum sýslumanns.

Eiríkur slapp úr haldinu og lagðist í flakk upp á Hérað þar sem hann varð að stela sér til matar, náðist svo þar og var skilað til Sveins á Krossi sem hafði hann þá heima við, en þaðan slapp hann stuttu seinna og lagðist þá í flakk á Norðfirði þar dæmdi sýslumaður hann til enn frekari fjársekta og þrælkunarvinnu "í hinu íslenska fangelsi" og til greiðslu málskostnaðar. Síðan er Eiríkur aftur sendur til Sveins bónda og hreppstjóra á Krossi til varðveislu uns hægt verði að fullnægja þrælkunnar dómnum "í hinu íslenska fangelsi".

Þann vetur tók Sveinn upp á því að láta Eirík vinna með heimilisfólki á Krossi m.a. við sjóróðra og virðist það hafa orðið til þess að Eiríkur var til friðs, enda má ætla að í staðinn hafi hann fengið fæði og húsnæði á við annað heimilisfólk. En þegar Krossverjar voru að taka upp bátinn eftir einn sjóróðurinn datt Eiríkur niður bráðkvaddur, þann dag hitti svo á að Sveinn var í kaupstaðarverð á Eskifirði.

Sveinn fór svo með lík Eiríks í bát, ásamt fleirum inn Mjóafjörð, á næsta sunnudegi og hugðist hitta prestinn í Firði. Þann sunnudag messaði presturinn ekki svo þeir hittust ekki, þá fór Sveinn þess á leit við Hermann "höfðingja" í Firði að fá lánaðar skóflur svo mætti jarðsetja lík Eiríks. En hann var upphaflega, eins og fram hefur komið, á framfæri Hermanns, sem þá synjaði Sveini um alla aðstoð.

Veðurútlit hafði verið slæmt þennan sunnudag. Sveinn og Krossverjar réru samt sem áður út Mjóafjörð í Kross eftir að komið var afleitt veður. Þeir náðu landi á Krossi með erfiðismunum, en án líks Eiríks sem hvarf frá borði. Upp úr þessu hófust mikil réttarhöld sem fram fóru í Firði sem enduðu með því að aleigan var því sem næst dæmd af Sveini bónda og hreppstjóra á Krossi, sem var þá fjarstaddur vegna heilsubrests.

Mikið af fjármunum Sveins fóru í málkostnað sem sýslumaðurinn og rekendur málsins skiptu á milli sín. Forsendur dómsins voru m.a. þær að varsla Sveins á Eiríki hafi verið svo slök að hann slapp margsinnis úr haldinu auk þess sem hann hafði að endingu brúkað hann til vinnu á Krossi og tínt að lokum líkinu.

Erfitt er að færa svona málatilbúnað til nútímalegs réttarfars, en þó má greina líkindi með máltilbúnaði þessa máls í Firði og lagaumhverfis vegna ólöglegra innflytjenda dagsins í dag, þar sem regluverkið býður upp á að lögfróðir menn einir geti farið með umboð flóttamann á kostnað skattgreiðenda í boði ríkisins. En í dag eru þó breiðu bökin fleiri, en hreppstjórans í Mjóafirði forðum, -til að standa undir umsýslukostnaðinum.


Hamra Setta

Sagan af Sesselju Hamra-Settu hefur óbeint að geyma fyrstu heimildir um Egilsstaði. Það er eins og að sá staður hafi ekki verið á yfirborði jarðar fyrr en á 16. öld, svo merkilegt sem það nú er af stað sem hefur talist á krossgötum í þjóðbraut allar götur síðan.

Algengasta útgáfa þjóðsögunnar af Hamra-Settu segir reyndar ekki frá neinu á Egilsstöðum, heldur af útilegukvendi á Borgarfirði eystri. En þegar nöfn þjóðsögunnar eru borin við tiltækar opinbera heimildir má finna sömu nöfn og þjóðsagan hefur að geyma í dómskjölum vegna morðs sem Sesselja Loftsdóttir var dæmd fyrir á Egilsstöðum á 16. öld í málaferlum á árunum 1541-1543 skömmu fyrir siðaskiptin 1550.

Sesselja var fundin sek um að hafa myrt mann sinn Steingrím Böðvarsson sem lést árið 1540. Upphaflega var ekkert talið athugavert við andlát Steingríms, hálfu ári eftir útför hans var lík hans grafið upp í Vallneskirkjugarði til rannsóknar vegna orðróms sem var uppi um að Sesselja hefði banað honum í félagi við vinnumann sinn, Bjarna Skeggjason, en þau voru þrjú í heimili. Sesselja eignaðist barn með þessum vinnumanni sínum og það sem meira var að vinnumaðurinn hafði áður átt barn með dóttir Sesselju.

Þeir sem rannsökuðu lík Steingríms eftir uppgröftinn skjalfestu að ekkert fyndist á líkinu sem benti til manndráps en einhverra hluta vegna breyttu þeir síðar framburði sínum fyrir rétti.

Eftir dauða Steingríms, en áður en á Sesselja var sökuð um morðið, þá hafði hún selt jörðina Egilsstaði nágranna sínum, Birni bónda á Eyvindará og eru þeir kaupsamningar til, en í þeim kom fram að þau höfðu gert með sér skipti á Egilsstöðum og Hólalandi í Borgarfirði eystri ásamt því sem Björn átti að greiða milligjöf í reiðufé.

Sá fyrirvari var samt á þessum kaupsamning, af Björns hálfu, að ekki mættu vera meinbugir á eignarhaldi Sesselju og gengu kaupin ekki að fullu í gegn fyrr en það væri komið í ljós. Fyrirvarinn hefur sennilegast komið til vegna erfðaréttar dóttir Sesselju til Egilsstaða, sem síðar kom í ljós að hún hafði framselt til Skálholtskirkju.

Eftir að þeir sem rannsökuðu lík Steingríms breyttu vitnisburði sínum var Sesselja dæmd til dauða fyrir morð, en vinnumaðurinn ekki, Egilsstaðir voru gerðir upptækir af ríkinu þ.e.a.s. til danska kóngsins. Þetta varð ekki til að minka málaferlin og því er til margra ára heilleg saga af þessu tímabili í málskjölum.

Eigendur Egilsstaða voru nefnilega orðnir þrír, Björn bóndi á Eyvindará sem hafði keypt þá alla með fyrirvara, Skálholtsbiskupstóll sem dóttir Sesselju hafði látið hafa sinn erfðahlut í próventu og taldi sig því eiga þá á móti ríkinu eftir að þeir höfðu verið dæmdir af Sesselju vegna morðs.

Í dómi Sesselju var ákvæði um tylftardóm þ.e. ef hún gæti fengið 12 málsmetandi menn til að sverja fyrir sakleysi sitt þá slippi hún við dauða, þar að auki var athyglisvert ákvæði til vara um að hún gæti innan tiltekins tíma leitað sér griða í dómkirkjum landsins annaðhvort í Skálholti eða á Hólum, sem hún gerði að Hólum.

Þetta bendir til að dómarar hafi ekki haft hreina samvisku varðandi dauðadóminn. Til eru málskjöl þar sem hún leitar á náðir Skálholtsbiskups, ári eftir að hún nær griðum á Hólum, þegar biskup er í erindrekstri í Vallanesi á Héraði m.a. vegna Egilsstaða mála, þar fer hún fram á syndaaflausn vegna hórdómsbrotsins með vinnumanni sínum.

Þar sem málskjölum líkur, þar líkur einnig opinberri sögu Sesselju Loftsdóttur á Egilsstöðum, og ekki er vitað til þess að hún hafi sest að á Hólalandi í Borgarfirði eystri og þjóðsagan minnist ekki á þann stað. Enda er ekki útilokað að þar sé á ferð allt önnur saga sem byggi á svipuðum nöfnum, eða þau hafi brenglast að einhverju leiti í meðförum þjóðsagnaritara.

Málaferli þessi voru á miklum umbrota tímum í Íslandssögunni. Austurland heyrði þá undir Skálholtbiskupstól. Siðaskipti urðu á Íslandi um miðja 16. öld. Þau eru talin vera að fullu framkvæmd með aftöku Jóns biskups Arasonar árið 1550. 

Gissur Einarsson fór fyrir hinum nýja sið og varð biskup í Skálholti árið 1540 og kann það að skýra að Sesselja fékk grið á Hólum þar sem Jón Arason réð ríkjum, en sækir svo um syndaaflausn á hórdómsbroti hjá Gissuri Einarssyni Skálholtsbiskup þegar hann er á yfirreið um Austurland.

Það hefur mörgum þótt það einkennilegt að ekkert sé að finna um stórbýlið Egilsstaði fyrr en í þessum málskjölum, og með ólíkindum hve fáar manneskjur koma við sögu sem hemilsfólk á "stórbýlinu".

En gæti það ekki verið að Egilsstaðir hafi verið kotbýli á þessum tíma og hluti lands jarðarinnar ekki ofan vatnsborðs Lagarfljótsins fram eftir öldum. Heimildir eru um að býlið Berg hafi verið niður við Lagarfljótið fram á 19. öld á sömu slóðum og Egilsstaða torfan.

Það er ekki fyrr en sú ætt sem nú býr á Egilsstöðum eignast jörðina seint á 19. öld, að það fer að komast stórbýlisbragaur á Egilsstaði. Egilsstaðanesið, sem enn í dag á það til að lenda undir Lagarfljótið, er ræktað upp og jörðinni Kollstöðum bætt við land Egilsstaða.


Dauðadæmdur dæmir til dauða

Stóridómur eru einhver þau hörðustu siðferðislög sem sett hafa verið á alþingi. Sennilega hafa engin lög á landi hér kostað eins mörg mannslíf. Til voru menn sem höfðu uppi burði til að verja sig gegn valdinu. Einn af þeim var Jón Jónsson á Litla Steinsvaði í Hróarstungu sem var það vel lesin að hann gat frætt sýslumann og meðdómendur hans á hvaða siðferðislögmálum Biblíunnar stóridómur hvíldi. Hann var samt sem áður dæmdur til dauða ásamt Kristínu Rustikusdóttur á grundvelli laga stóradóms árið 1791.

Kristín var þá 37 ára ekkja og Jón hafði nýlega misst eiginkonu sína. Jón hafði ráðið Kristínu sem vinnukonu á heimilið á Litla-Steinsvaði. Höfðu þau hugsað sér að giftast, en þar sem Kristín hafði áður eignast barn utan hjónabands með Magnúsi bróður Jóns, þá var þeim bent á að meinbugir gætu verið á hjónabandsáformum þeirra og vissara væri fyrir þau að sækja um leyfi til konungs. Áður en svar barst við málaleitan þeirra varð Kristín ólétt og eignuðust þau barn.

Ákæran á hendur Jóni Jónsyni og Kristínu Rustikusdóttur byggði á að stóridómur gerði ráð fyrir því að dauðarefsing væri við því að maður eignaðist barn með konu bróður síns. Þessi lagarök munu hafa verið sótt í 3. Mósebók þar sem taldar eru upp þær konur sem karlmönnum er óleyfilegt að leggjast með, og höfðu sennilega þess vegna lent inn á dauðalista dómsins.

Málsvörn Jóns byggði á því að ekki væri um brot á Móseslögum ræða þar sem Kristín væri ekki kona bróður hans heldur frilla þeirra bræðra beggja, sem þeir báðir hefðu eignast með barn. En Magnús var á þessum tíma, kvæntur annarri konu og bjó á Seyðisfirði, hann og Kristín höfðu aldrei gifst. Jón benti m.a. á 5. Mósebók 25:5 Þegar bræður búa saman og annar þeirra deyr án þess að hafa eignast son skal ekkja hins látna ekki giftast neinum utan fjölskyldunnar heldur skal mágur hennar ganga inn til hennar, taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana. Lög stóradóms sem byggði á tilmælum Mósebókar ættu hvergi við í þeirra tilfelli, því andi Móses laga væri allt annar. Þarna væri því um barnseignarbrot að ræða, og í mesta lagi tvöfalt hórdómsbrot, sem mætti sekta fyrir en væri ekki dauðasök.

En vörn Jóns Jónssonar breytti því ekki að bæði voru þau Kristín dæmd til dauða og bú þeirra tekið til skipta. En eitthvað hefur þvælst fyrir sýslumanni að fá dóminn fullnustan og varð hann að taka Kristínu á sitt heimili til að halda henni til fanga, ekki er vitað hvar Jón dvaldi þar til dómnum skyldi framfylgt. Að 6 árum liðnum berst síðan svar við fyrirspurn þeirra til kóngsins, um það hvort meinbugir væru á giftingaráformum þeirra, svarið var að þeir væru engir.

Þegar svo var komið er dauðadómurinn úr gildi fallin en eftir stendur eignalaust fólk sem hafði þar að auki ekki nokkurn arð af vinnu sinni í 6 ár. Þau Kristín og Jón giftust og byrjuðu búskap Þorbrandsstöðum í Vopnafirði, sem var jörð í eigu sýlsmannsættarinnar. Það má því segja að mál Jóns og Kristínar hafi verið leyst með nútímalegum hætti sé litið til þess hvernig almúgans ólöglega eignaupptaka var leyst eftir að fólk hafði verið borið út af heimilum sínum í krafti ólöglegra okurlána. Því boðin okurleiga í öðrum eignum sem sölsaðar hafa verið undir fjármálavaldið á svipaðan hátt. Allt í nafni fjármálastöðugleika, laga og réttar.

Það merkilega við Jón Jónsson er að hann var síðar dómkvaddur til að dæma yfir manni sem hafði eignast sitt 4. „ólöglega getna hórbarn“ og tekur þar þátt í því með sýslumanni að dæma manninn til dauða. Sá dauðadæmdi fær vinaraðstoð valdamanns við að skjóta máli sínu til æðra dómstigs og er þar dæmdur sýkn saka. Þannig má enn og aftur sjá líkindi að fornu og nýju hvað afstöðu Jóns Jónssonar varðar, almúgamaðurinn er sannfærður um að lög skuli virða.


Stúdent

Það kom til tals á milli okkar vinnufélaganna á morgunnandaktinni hvað bókmenntir gætu verið stórbrotnar, en yfirleitt skorar latínuliðið ekki hátt hjá okkur steypuköllunum. Þarna var hins vegar rætt um bókmenntir heimahagana sem sumir kalla “naive”.

Einn félaginn sagðist hafa sagt upp áskrift af héraðsblaðinu Austra þegar Stefán frændi minn í Flögu hætti að senda fréttabréf úr Skriðdal. Í þessum fréttabréfum mátti lesa helstu tíðindi úr dalnum s.s. hver keypti hvaða bíl og hvaða fjölskyldumeðlimum væri hugsanlega um að kenna ef hann rispaðist.

Reyndar lagði Austri upp laupana sem héraðsfréttablað stuttu eftir að fréttabréfin hættu að berast úr Skriðdal. Stefán Bjarnason gaf út tvær bækur um sína ævi; Frá torfbæ til tölvualdar á 50 árum og Að duga eða drepast. Þó svo að þessar bækur hafi ekki farið hátt, og umhverfst um þúfu í Skriðdal þá á heimildagildið bara eftir að vaxa.

Í bókinni Að duga eða drepast er aragrúi smásagna sem auðvelt væri að láta sér til hugar koma að væru um nauðaómerkilega smámuni af bæjarhóli Stefáns. En þegar betur er að gáð eru þær stórskemmtilegar auk þess að segja sögu þjóðar.

Stefán segir t.d. frá því þegar Magnús bróðir hans varð fyrsti stútendinn sem Skriðdælingar  eignuðust.

"Jafnan er það mikill atburður þegar fjölskyldumeðlimur tekur sitt áfangapróf, hvort heldur er búfræði, stærðfræði, verkfræði, guðfræði, eða læknisfræði, en sú síðasttalda er talin hvað erfiðust, og ábyrgðarmest. Það voru fleiri en fjölskylda og nánustu ættingjar, það var öll sveitin líka, eða svo var hér í Skriðdal, þegar Magnús Bl Bjarnason á Borg tók sitt stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1949.

Það gekk svo langt að Kvenfélag Skriðdælinga hét á Strandarkirkju að Magnúsi gengi vel í prófum og sett var í gang söfnun, og söfnuðust 500 kr, sem var þó nokkur fjárhæð í þá daga. En kvenfélagskonur ætluðu að gera meira, þær ætluðu að standa fyrir kaffiveislu í félagsheimilinu, Magnúsi og fjölskyldu til heiðurs. Konur voru að grennslast eftir hjá móður hans, Kristínu Árnadóttir á Borg, hvenær prófi yrði lokið og Magnús væntanlegur heim. En móðir hans vissi nú lítið um það.

En víkur nú sögunni til Magnúsar sem þreytti stúdentspróf vorið 1949 og lauk því með ágætis einkunn.

En þegar þeim áfanga var náð, fór hann að spyrjast um eftir fari austur á land, það var nú ekki eins auðvelt þá eins og síðar varð. Hann hitti af tilviljun Pétur Jónsson, bónda á Egilsstöðum, sem var á austurleið, og talaðist svo til með þeim, að þeir skyldu verða samferða. Ekki sagðist Magnús muna til hvernig það atvikaðist, að þeir fengu far með Catalinu flugbát, sem lenti á Lagarfljótinu.

Svo þegar í Egilsstaði kom, tók Pétur Magnús heim með sér og gaf honum að borða. Að máltíð lokinni fór Magnús að hafa orð á því, að verða sér úti um bíl inn í Borg. “Ekkert mál” sagði Pétur og brá sér í síma. Þegar hann kom út á hlað stóð þar Cervolet fólksbifreið og Bergur Ólason sat undir stýri. Magnús heilsaði honum og þeir félagar komu farangri fyrir í bílnum. Að því loknu kvaddi Magnús Pétur og þakkaði honum fyrir alla hjálpsemi við sig og settist inn í bílinn hans Bergs, sem ók þegar af stað inn Vellina og síðan inn Skriðdalinn inn á móts við bæinn á Borg, sem var næst innsti bær í dalnum.

Allar þverár fjórar voru óbrúaðar og báðar dalsárnar Múlaá og Geitdalsá. Bergur nam staðar á bakka Múlaár á móti bænum Borg. Þar tíndu þeir farangur Magnúsar út úr bílnum og bauð Magnús honum borgun. Þá brosti Bergur og sagði: “Við erum báðir Skriðdælingar” og rétti Magnúsi hendina, þeir kvöddust og þakkaði Magnús honum veittan greiða. Er skrýtið að þeir Bergur hafa ekki hist síðan og eru þó báðir komnir yfir sjötugt, þegar þetta er skráð.

Magnús var sóttur austur yfir ána frá Borg á hestum og var vel tekið, eins og vænta mátti og boðinn velkominn heim.

Fór nú að verða uppi fótur og fit í sveitinni, konur í kvenfélaginu komu til fundar og ákváðu að hafa kaffisamsæti um næstu helgi í félagsheimilinu.

Þar var heiðursgesturinn boðinn velkominn heim í sveitina sína með smekklegri ræðu Friðriks Jónssonar, oddvita á Þorvaldstöðum, nokkrir fleiri fluttu stutt ávörp og heillaóskir. Allt fór þetta mjög virðulega og smekklega fram, þar sem þetta var í fyrsta skipti sem Skriðdælingur tók stúdentspróf en það gerði Magnús Bl Bjarnason og lauk því með miklum sóma og lauk síðan læknisnámi við Háskóla Íslands 1955."


Snilldar handverk

Af heimilislífinu á þessum bæ um veturinn er fátt eitt að segja. Sambýlið var svo gott sem best getur hugsast, bæði á karl- og kvenhönd. Að mér teknum voru karlar úti við gegningar gripa myrkranna á milli og fram á vökur. Konur litu varla upp úr tóvinnu, enda veitti ekki af, til þess að halda á sér hita, því ekkert eldfæri eða neins konar hitagjafi var til í bænum, nema ef vera skildi hlóðasteinar frami í eldhúsi. En önnur ástæða var til kappsins við ullarvinnuna.

Á Fljótsdalshéraði klæddust menn á þeim tímum ekki öðru en ullarfötum, og hvert heimili varð að halda við fatnaði heimilismanna sinna. – Þegar fram um eða yfir miðvetur kom, var farið að setja upp vefi af þræði, er konur höfðu spunnið. Spunnu þær þá ívafið jöfnum höndum við þráð í næstu vefi. Allar kvöldvökur skammdegisins kembdu karlmenn og / eða tóku ofan ull eftir ástæðum, til stuðnings tóskapnum.

Þegar dag fór að lengja, hófst vefnaðurinn af sama kappi sem önnur tóvinna, enda þá meira tóm frá gegningum. – Þetta var tóvinna með allt öðru sniði og unnin með miklu meiri alvöru og kappi en ég hafði þekkt á Vestur- eða Suðurlandi. En miklu meiri var þó munur vinnunnar. Ég hafði vanist mosa- eða hellulituðum. Hér voru aftur eingöngu notaðir suðalitirnir, samkembdir í margskonar litbrigðu, mjög smekklegum, allt tvíkembt, nauðhært, svo ekki sást toghár á hinum vandaðri fötum, sparifötunum.

Hallgrímur biskup hafði komið á Héraðið sumarið áður (1890). Sagði hann mér meðal annars að hann hefði aldrei á landi hér séð svo prúðbúið og jafnbúið fólk sem þar, og allt heimaunnin ullarföt, og allir bændur í yfirfrökkum úr því sama. Dáðist hann mjög af þessu.

Konur gengu þar með herðasjöl, þríhyrnur og skakka, er svo var nefnt, heimaunnið og prjónað, með allskonar útprjóni. Allt var þetta úr nauðhærðu þeli, í suðalitunum, samkembt, með svo nákvæmum litasamsetningum (sjatteringum) að hrein meistaraverk voru. (Úrdráttur úr texta um vetur í Þingmúla, af heimilislífi og tóvinnu II bindi bls 142)

Þetta má lesa í Endurminningum sr Magnúsar Bl Jónssonar um veturinn 1891-1892, þegar fjölskyldan var nýflutt úr Reykjavík að Þingmúla í Skriðdal. Þá bjó hann ásamt konu sinni Ingibjörgu Pétursdóttir Eggerz og börnum, félagsbúi í Þingmúlabænum með fólki sem var þar fyrir, en um veturinn var Þingmúlaprestakall óvænt sameinað Vallanesprestakalli. Þannig að í Vallanes fluttu þau vorið 1892. Textinn er mun ýtarlegri um allt fólk sem kom við sögu á bænum.

Guðríður Ólafsdóttir Hjaltested

Magnús segir einnig frá því í endurminningum sínum, að seinni kona hans Guðríður Ólafsdóttir Hjaltested hafi einsett sér þegar hún fluttist á Héraðið að verða ekki eftirbátur bændakvenna í sínum hannyrðum. Hún lærði af þeim og óf sér sjal sem þótti slíkt snilldarverk að hún tímdi ekki að nota það sjálf. Örlög sjalsins urðu þau að það var sent á sýningu til Reykjavíkur og þaðan til útlanda á aðra sýningu um íslenskt handverk, þar sem það var selt á rúmlega tvöföld árslaun vinnufólks þess tíma í peningum.


Grasætur og veganistar

Hruni

Það var skoðun gamla fólksins að gulrófur hefðu flust til landsins með landnámsmönnum. Og víst var það að það kunni með rófurnar að fara, ræktaði sitt eigið fræ og geymdi rófur óskemmdar fram á vor. Rófugarðar voru við hvern bæ. Í harðæri varð oft lítill eða enginn undirvöxtur en kálvöxtur gat samt verið góður. Kálið var árvisst en rófur eigi, og garðarnir kölluðust því alltaf kálgarðar. Það mátti segja vegna fræræktar að hver bær hefði sitt eigið rófukyn.

Undir eins þegar kálið var sprottið var byrjað að taka það til matar, eitt blað af hverri rófu og þann veg yfir allan garðinn svo var farin önnur ferð á sama hátt, ef kálið þoldi. Kálið var þvegið vel og saxað í súpur, grauta og skyr. En að haustinu var allt kálið tekið, stórbrytjað og látið í súr og étið með honum yfir veturinn.

Haugarfi og heimula spratt snemma og var notað eins og kál að sumri en ekki í súr. Hvanngarðar voru víða um land og hjá einum bæ í Breiðdal var hvannstóð, hafi þeir verið algengir hefur það verið löngu liðið. Fíflablöð voru notuð að sumri en þó eigi almennt.

Breiðdælir voru fyrrum miklar grasætur en þó lagðist grasneyslan niður og mun það hafa verið vegna betri efnahags og mikillar vinnu við grasnotkun. Notkun þýfisgrasa, fjallgrasa, í blóðmör og lifurmör hélst lengur og svo í rúgbrauð. Líklega hefir almennt grasaát verið úr sögunni um aldamótin 1900.

Það er hverjum manni ljóst nú að neysla ætigrasa er nauðsyn heilsunnar vegna. Þegar ætigrös hurfu af matborðinu þá var það stórt skref aftur á bak. (Heimild kk fæddur 1902 (Breiðdalshreppur) sarpur.is)

stort-grodruhus

Ég set þessa skemmtilegu heimild hér inn svo ég tíni henni ekki aftur, en einhvertíma hef ég punktað þetta hjá mér í tölvuna þegar yfir stóð athugun á því hvernig landinn hafði grænmeti til matar fyrr á tímum. Þessi frásögn úr Breiðdal er greinilega höfð eftir 19. aldar fólki af 20. aldar manni, -og er nú allrar athygli verð á tímum 21. aldar veganisma, -og gengdarlauss innflutnings á matvælum.

Vil samt taka það fram að ég er hvorki sérleg grasæta, -hvað þá veganisti. En það er samt mikið um vagan fólk í nánasta umhverfi og margar góðar þannig máltíðir sem ég hef torgað. Grasætu áhuginn er heldur ekki mikill, að öðru leiti en því að njóta heilsusamlegs lækningamáttar íslenskrar náttúru.

Veganismi hefur reyndar lítið með grænmeti að gera, annað en það telst vegan. Veganismi gengur út á að sniðganga dýraafurðir. Sjálfur set ég mörkin við að versla ekki innfluttar dýrafurðir og þær sem til verða með verksmiðjubúskap eða gæsabringuveiðum. Sem sagt dýraníði inn á verksmiðjubúum og sálarlausum umhverfissóðaskap úti í villtri náttúru.

Það hefur eitthvað látið standa á sér vorið hérna á Héraði síðustu 10 dagana eða svo, grátt í rót og jafnvel alhvítt hvern morgunn og nú þegar komið vel fram á sumar samkvæmt gamla íslenska tímatalinu. Trausti veðurfræðingur kallar þetta þráviðri, sem er náttúrulega bara þrautleiðinlegur norðaustan þræsingur.

Ég er því ekki farin að gæða mér á heimulu ennþá, sem nú til dags er aldrei kölluð annað en njóli, og fátt sem nýtur álíka óvinsælda annað en lúpínan. Sama á við fífla, hundasúrur og hvönn, en þetta hefur fylgt vorkomunni sem heilsusamlegt fæði á mínu matborði. Og mikið er ég farin að bíða eftir að geta slitið upp fyrstu fíflana.

Fíflar


Brúin yfir boðaföllin

Ölfusá

Þá man ég næst eftir Ölfusá, þar sem við stóðum á árbakkanum hjá ferjunni, er flaut við bakkann, fyrsta bátnum, er ég hafði séð á ævinni. En engir voru þar hestar. Og er ég spurði um þá, var mér bent niður eftir ánni. Sá ég þá á hinni breiðu lygnu nokkru fyrir neðan okkur eins og röð af þúfum, sem mér var sagt að væru hestarnir á sundi. Loks fannst mér ég skilja þetta, þó ég ætti bágt með að átta mig á því, enda hafði ég aldrei séð neina skepnu á sundi fyrr. Varð svo nokkuð jafnsnemma, að farið var að koma okkur fyrir í ferjunni og hestarnir fóru að tínast upp úr ánni hinumegin.

Árið 1932 kom ég í annað sinn á þessar slóðir, þá á bílferð frá Reykjavík til Selfoss og Eyrarbakka. Þegar við nálguðumst Ölfusána, kannaðist ég við alla afstöðuna frá bernskuferðinni: Áin var lygn og breið til vinstri, allt út að sjó, og fjallið til hægri, nokkuð þverhnípt og bratt, en síður en svo ægilegt eins og mig minnti. Og þá fyrst vissi ég, að þetta hafði verið Ingólfsfjall, og þá skildi ég að leið okkar fyrrum hafði legið upp Grafning. 

Úr Endurminningum sr Magnúsar Blöndal Jónssonar (I bindi bls 30-31) , af margra daga ferðalagi fjölskyldunnar þegar hún flutti frá Miðmörk undir Eyjafjöllum í Prestbakka við Hrútafjörð árið 1867, þegar Magnús var um 5 ára aldurinn.

Mynd; Ísl. Þjóðlíf II bindi bls 394. Við Ölfusá, algengur ferðamáti yfir stórárnar. Menn voru ferjaðir í bátum, en hestarnir sundreknir. Daniel Bruun – R. Christiansen.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband