Skálar

IMG_0324

Lengst úti á Langanesi má enn sjá rústir þorps sem átti sitt blómaskeið fyrir um hundrað árum. Þó svo að þarna sé ekki um neinar Karþagó rústir að ræða þá er vel þess virði að gera sér ferð til að skoða þessi mannvirki áður en þau hverfa af yfirborði jarðar.

Fyrir steypukall eins og síðuhöfund er að skoða svona rústir steinsteypu álíka menningaferð og fornar byggingar á heimsminjaskrá. Steinsteypan var byggingarefni 20. aldarinnar á Íslandi og kom þjóðinni út úr moldarkofunum, því hver sem var gat steypt sér hús.

Nú hverfa þessar byggingar 20. aldarinnar hratt af yfirborði jarðar og oft hef ég sagt við sjálfan mig; -aah þarna var ég aðeins of seinn að fara og skoða, þegar ég sé að hús er horfið.

Það er margt fleira áhugavert að sjá á Langanesi og ferð á enda að vitanum á Fonti vel þess virði þó svo það þurfi að keyri hátt í 50 km í norð-austur út í Atlantshafið frá Þórshöfn áður en komið er á Font.

Þarna úti á nesinu var búið frá því land byggðist allt fram á 20.öldina. Og er saga þorpsins á Skálum merkileg í Íslandssögunni eins og allt Langanesið.

IMG_0288

Það þarf ekki að leita langt til að finna hvar mölin í steypuna var fengin

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Jörðin Skálar var til í upphafi byggðar á Íslandi. Skálajörðin var öldum saman í eigu Hofskirkju í Vopnafirði. Jörðin var landmikil, landið var gott til sauðfjárræktar og ýmislegt annað gerði Skála að ákjósanlegum stað til búsetu. Nálægðin við sjóinn var gjöful, reki var í fjörunni, afli á grunnmiðum og fugl í björgunum.

Þorsteinn Jónsson kom að Skálum sumarið 1910 með strandferðaskipinu Austra frá Seyðisfirði. Meðferðis hafði hann árabát, veiðarfæri og þrjá menn og stofnaði þar útgerð með aðstoð bóndans sem þar bjó, Jóhanns Stefánssonar. Þorsteinn kom aftur að Skálum sumarið 1911 og hafði þá húsvið með sér til að byggja verbúðir og aðrar byggingar.

Það sumar fjölgaði hann bátum, bræddi lifur á Skálum og kom á fót verslun. Veturinn 1911-1912 höfðu þrjár fjölskyldur vetursetu á Skálum. Fólki fjölgaði hratt á þeim árum sem Þorsteinn hafði þar atvinnurekstur, sumarið 1910 var þar aðeins eitt íbúðarhús en árið 1920 voru þau orðin níu. Uppbygging Skálaþorps var hafin.

Skálar Bakkafæ

Kútter úti fyrir Skálum, sólin merlar á Bakkaflóa

Byggðin efldist enn á árunum 1920-1924 og fjölgaði íbúum þorpsins úr 61 í 117. Auk þeirra sem átti lögheimili á Skálum kom þangað fjöldi fólks yfir sumarmánuðina svo íbúafjöldi þorpsins tvöfaldaðist. Þangað komu árabátaeigendur með báta sína og fjöldi fólks í atvinnuleit. Einnig var algengt að Færeyingar stunduðu veiðar frá Skálum.

Velgengni Þorsteins Jónssonar útgerðarmanns spurðist út og útgerð jókst á Skálum á þriðja og fjórða tug 20. aldar. Árið 1923 byggði Jóhann M Kristinsson hús með frysti- og geymsluklefum til að frysta beitusíld og geyma. Hann byggði einnig bryggju og útbjó búnað til að hægt væri að hífa upp varning úr bátunum sem síðan var fluttur á teinum, ýmist upp í salthús eða til skemmu.

Samgöngur voru alla tíð erfiðar við þorpið á Skálum, sjö tíma tók að komast til Þórshafnar fótgangandi. Strandferðaskip komu stundum við á Skálum en helsta tenging þorpsins við umheiminn var sjóleiðis til Seyðisfjarðar vegna flutninga á fiski og lýsi þangað. Oft var líf og fjör í landlegum, haldin voru böll og harmónikkuleikarar frá Skoruvík komu og spiluðu fyrir dansi fram á morgunn. Um tíma var rekið kaffihús á Skálum og jafnvel hægt að fara í bíó og sjá leiksýningar.

Skálar Langanesi

Þorpið á Skálum séð af sjó

Strandvarðstöð með breskum hermönnum var starfrækt á skálum sumarið 1940 og af bandarískum sjóliðum sumarið 1942. Það ár byggðu Bandaríkjamenn ratsjárstöð, 12 metra hátt mastur og 24 bragga. Hermennirnir lögðu götur um braggahverfið sem þeir kölluðu “Camp Greely” og veg niður í þorp sem enn sjást merki um.

Árið 1929 var reynt að endurbæta lendinguna á Skálum en sú framkvæmd mistókst og varð til þess að gamla lendingin eyðilagðist nánast algjörlega. Á sama tíma jukust möguleikar á útgerð annarsstaðar á landinu með aukinni vélbátaútgerð en á Skálum var ekki höfn fyrir þá. Við þetta bættist að 1931 skall á heimskreppa, fiskverð lækkaði og fiskgengd á grunnslóð við Skála fór minnkandi. Allt leiddi þetta til þess að íbúum Skálaþorpsins fór fækkandi á fjórða áratugnum.

Skálar

Amerískir hermenn að skipa upp olíu á Skálum

Á árum síðari heimstyrjaldarinnar ráku að landi tundurdufl sem losnað höfðu úr sprengidundursduflagirðingu út af Austfjörðum. Tvö slík tundurdufl sprungu í fjörunni við Skála og eyðilögðust tvö hús. Fyrra skiptið var 26. nóvember 1941 og hið síðara í janúar árið 1942. Þá um sumarið fluttu fjórar fjölskyldur í burtu. Síðustu fjölskyldurnar fluttu frá Skálum haustið 1946. Lúðvík Jóhannsson sonur Jóhanns Stefánssonar Skálabónda, flutti aftur að Skálum vorið 1948 ásamt sambýliskonu sinn Jóhönnu Hansen, þau hófu búskap og bjuggu til vorsins 1955, þá fluttu þau frá Skálum sem síðan hefur verið eyðijörð. (Texti af upplýsingaskilti á Skálum)

IMG_0347


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Athyglisverð saga.

Birgir Loftsson, 24.3.2022 kl. 20:15

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þetta geymist í fræðasarpinum svo ómetanlegt.

Helga Kristjánsdóttir, 25.3.2022 kl. 00:46

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdirnar, Birgir og Helga, mér þykir vænt um að heyra að þið kunnið að meta.

Ferðin á Font var farin fyrir fimm árum og bloggaði ég þá um það ferðalag því margt merkilegt er að skoða á þeirri leið.

Ég fór svo að grúska í myndum um daginn og sá að Skálum mátti gera betri skil en í blogginu um árið.

En ef maður minnist á þennan stað við þá sem þangað hafa komið þá verða þeir uppnumdir enda höfðu þeir ekki búist við því að sjá þetta þarna.

Eðli málsins samkvæmt eru margir sem þekkja ekki þessa sögu enda langt á Langanes fyrir flesta.

Læt hér fylgja link á ferðina á Font um árið. 

https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/2182215/

Magnús Sigurðsson, 25.3.2022 kl. 06:03

4 Smámynd: Halldór Þormar Halldórsson

Mjög áhugaverð frásögn

Bestu þakkir

Halldór Þormar Halldórsson, 25.3.2022 kl. 09:15

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þakka þér kærlega fyrir þennan stórkostlega pistil Magnús.  Þar sem ég er frá Þórshöfn á Langanesi og ólst þar upp, þá kom ég oft að Skálum og meira að segja gekk ég þangað nokkrum sinnum.  Mig minnir að við höfum verið í kringum fimm klukkutíma að ganga aðra leiðina en ekki ætla ég nú að hengja mig upp á að þetta sé rétt hjá mér því tíminn getur ruglað mann með árunum.  Eins og þú segir þá er margt merkilegt sem átti sér stað á Langanesinu. Bæirnir sem voru á miðju Langanesinu byggðu jarðhýsi, sem voru nýtt sem einhver fyrstu íshúsin á landinu.  Á veturna var mokað snjó í þessi jarðhýsi  og svo á sumrin var ísinn seldur  til Færeyskra sjómanna í skiptum fyrir fisk, kex og ýmislegt fleira.  Um þetta og margt fleira er fjallað í bókunum LANGNESINGASAGA I og ll eftir FRIÐRIK G. OLGEIRSSON.............

Jóhann Elíasson, 25.3.2022 kl. 10:13

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir innlitin og athugasemdirnar Halldór og Jóhann.

Gaman að heyra af heyra af Skálagöngunni Jóhann, ekki ólíklegt að þetta sé rétt munað hjá þér þó svo að upplýsingaskiltið geti 7 klst göngu.

Loftlína frá Þórshöfn í Skála eru tæpir 30 km, landleiðin á bíl tæpir 40 km, svo 5 klst ganga gæti verið nærri lagi.

Gott að vita að til er Langnesingasaga því ég hef einmitt verið að spá í hvar væri hægt að verða sér úti um sögur af Langanesi.

Magnús Sigurðsson, 25.3.2022 kl. 13:32

7 identicon

Aldrei hef ég komið að Skálum, en komst þó einu sinni langleiðina þangað, u.þ.b. 10 km. enn eftir, þegar mér varð ljóst að pústið og annað undir gamla Fiatnum mínum hyrfi undan ef ég héldi lengra.  

Markmiðið hafði þó verið að komast þangað með fyrri konu minni og dætrum okkar, þá barnungum.

Ástæðan?  Afi dætra minna, í móðurættina hafði fæðst að Skálum (1930).

Bestu þakkir, meistari Magnús, fyrir að koma mér loksins alla leið þangað, að Skálum, með galdri þíns góða pistils og mynda.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 25.3.2022 kl. 13:43

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir Símon Pétur, alltaf gaman að fá góða sögu þó svo að ekki hafi allt gangið eins og í sögu. Ég er ekki viss um að þú hefðir heldur komist með heilt púst á Fíat í Skála 2016 þegar við Matthildur fórum á einstökum degi.

Ég er svo heppinn að það er stutt í Langanes og ég hef haft einstaklega gaman að því að skoða Norð-Austur hornið. Því oft hægt að velja veðrið þó svo þokan geti verið þrálát. Við verðu alltaf dagþrota, eigum eftir Heiðarfjall en þar eru mannvistarleifar eftir Ameríska herinn. 

Það er aftur verra með Kálfshamarsvík á Skaga, Þar var norð-austan strekkingur og rigning þegar við Matthildur renndum í hlað, meir að segja íslenska sauðkindin leitaði vars. Svo við verðum að fara aftur í Kálfshamarsvík, þetta magnaða náttúruundur, hvenær sem svo gefst tími til þess.

Annars er það dálítið merkilegt hvað margir staðir spruttu upp eins og Skálar snemma á 20. öldinni og náðu yfir 100 íbúa tölu. Má þar t.d. nefna Kálfshamarsvík og Hafnarnes við Fáskrúðsfjörð.

Magnús Sigurðsson, 25.3.2022 kl. 14:37

9 identicon

Stórmerk grein.

GUNNLAUGUR BALDVIN ÓLAFSSON (IP-tala skráð) 25.3.2022 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband