Færsluflokkur: Landsins-saga
7.10.2021 | 20:17
Stúdent
Það kom til tals á milli okkar vinnufélaganna á morgunnandaktinni hvað bókmenntir gætu verið stórbrotnar, en yfirleitt skorar latínuliðið ekki hátt hjá okkur steypuköllunum. Þarna var hins vegar rætt um bókmenntir heimahagana sem sumir kalla naive.
Einn félaginn sagðist hafa sagt upp áskrift af héraðsblaðinu Austra þegar Stefán frændi minn í Flögu hætti að senda fréttabréf úr Skriðdal. Í þessum fréttabréfum mátti lesa helstu tíðindi úr dalnum s.s. hver keypti hvaða bíl og hvaða fjölskyldumeðlimum væri hugsanlega um að kenna ef hann rispaðist.
Reyndar lagði Austri upp laupana sem héraðsfréttablað stuttu eftir að fréttabréfin hættu að berast úr Skriðdal. Stefán Bjarnason gaf út tvær bækur um sína ævi; Frá torfbæ til tölvualdar á 50 árum og Að duga eða drepast. Þó svo að þessar bækur hafi ekki farið hátt, og umhverfst um þúfu í Skriðdal þá á heimildagildið bara eftir að vaxa.
Í bókinni Að duga eða drepast er aragrúi smásagna sem auðvelt væri að láta sér til hugar koma að væru um nauðaómerkilega smámuni af bæjarhóli Stefáns. En þegar betur er að gáð eru þær stórskemmtilegar auk þess að segja sögu þjóðar.
Stefán segir t.d. frá því þegar Magnús bróðir hans varð fyrsti stútendinn sem Skriðdælingar eignuðust.
"Jafnan er það mikill atburður þegar fjölskyldumeðlimur tekur sitt áfangapróf, hvort heldur er búfræði, stærðfræði, verkfræði, guðfræði, eða læknisfræði, en sú síðasttalda er talin hvað erfiðust, og ábyrgðarmest. Það voru fleiri en fjölskylda og nánustu ættingjar, það var öll sveitin líka, eða svo var hér í Skriðdal, þegar Magnús Bl Bjarnason á Borg tók sitt stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1949.
Það gekk svo langt að Kvenfélag Skriðdælinga hét á Strandarkirkju að Magnúsi gengi vel í prófum og sett var í gang söfnun, og söfnuðust 500 kr, sem var þó nokkur fjárhæð í þá daga. En kvenfélagskonur ætluðu að gera meira, þær ætluðu að standa fyrir kaffiveislu í félagsheimilinu, Magnúsi og fjölskyldu til heiðurs. Konur voru að grennslast eftir hjá móður hans, Kristínu Árnadóttir á Borg, hvenær prófi yrði lokið og Magnús væntanlegur heim. En móðir hans vissi nú lítið um það.
En víkur nú sögunni til Magnúsar sem þreytti stúdentspróf vorið 1949 og lauk því með ágætis einkunn.
En þegar þeim áfanga var náð, fór hann að spyrjast um eftir fari austur á land, það var nú ekki eins auðvelt þá eins og síðar varð. Hann hitti af tilviljun Pétur Jónsson, bónda á Egilsstöðum, sem var á austurleið, og talaðist svo til með þeim, að þeir skyldu verða samferða. Ekki sagðist Magnús muna til hvernig það atvikaðist, að þeir fengu far með Catalinu flugbát, sem lenti á Lagarfljótinu.
Svo þegar í Egilsstaði kom, tók Pétur Magnús heim með sér og gaf honum að borða. Að máltíð lokinni fór Magnús að hafa orð á því, að verða sér úti um bíl inn í Borg. Ekkert mál sagði Pétur og brá sér í síma. Þegar hann kom út á hlað stóð þar Cervolet fólksbifreið og Bergur Ólason sat undir stýri. Magnús heilsaði honum og þeir félagar komu farangri fyrir í bílnum. Að því loknu kvaddi Magnús Pétur og þakkaði honum fyrir alla hjálpsemi við sig og settist inn í bílinn hans Bergs, sem ók þegar af stað inn Vellina og síðan inn Skriðdalinn inn á móts við bæinn á Borg, sem var næst innsti bær í dalnum.
Allar þverár fjórar voru óbrúaðar og báðar dalsárnar Múlaá og Geitdalsá. Bergur nam staðar á bakka Múlaár á móti bænum Borg. Þar tíndu þeir farangur Magnúsar út úr bílnum og bauð Magnús honum borgun. Þá brosti Bergur og sagði: Við erum báðir Skriðdælingar og rétti Magnúsi hendina, þeir kvöddust og þakkaði Magnús honum veittan greiða. Er skrýtið að þeir Bergur hafa ekki hist síðan og eru þó báðir komnir yfir sjötugt, þegar þetta er skráð.
Magnús var sóttur austur yfir ána frá Borg á hestum og var vel tekið, eins og vænta mátti og boðinn velkominn heim.
Fór nú að verða uppi fótur og fit í sveitinni, konur í kvenfélaginu komu til fundar og ákváðu að hafa kaffisamsæti um næstu helgi í félagsheimilinu.
Þar var heiðursgesturinn boðinn velkominn heim í sveitina sína með smekklegri ræðu Friðriks Jónssonar, oddvita á Þorvaldstöðum, nokkrir fleiri fluttu stutt ávörp og heillaóskir. Allt fór þetta mjög virðulega og smekklega fram, þar sem þetta var í fyrsta skipti sem Skriðdælingur tók stúdentspróf en það gerði Magnús Bl Bjarnason og lauk því með miklum sóma og lauk síðan læknisnámi við Háskóla Íslands 1955."
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.5.2021 | 06:00
Snilldar handverk
Af heimilislífinu á þessum bæ um veturinn er fátt eitt að segja. Sambýlið var svo gott sem best getur hugsast, bæði á karl- og kvenhönd. Að mér teknum voru karlar úti við gegningar gripa myrkranna á milli og fram á vökur. Konur litu varla upp úr tóvinnu, enda veitti ekki af, til þess að halda á sér hita, því ekkert eldfæri eða neins konar hitagjafi var til í bænum, nema ef vera skildi hlóðasteinar frami í eldhúsi. En önnur ástæða var til kappsins við ullarvinnuna.
Á Fljótsdalshéraði klæddust menn á þeim tímum ekki öðru en ullarfötum, og hvert heimili varð að halda við fatnaði heimilismanna sinna. Þegar fram um eða yfir miðvetur kom, var farið að setja upp vefi af þræði, er konur höfðu spunnið. Spunnu þær þá ívafið jöfnum höndum við þráð í næstu vefi. Allar kvöldvökur skammdegisins kembdu karlmenn og / eða tóku ofan ull eftir ástæðum, til stuðnings tóskapnum.
Þegar dag fór að lengja, hófst vefnaðurinn af sama kappi sem önnur tóvinna, enda þá meira tóm frá gegningum. Þetta var tóvinna með allt öðru sniði og unnin með miklu meiri alvöru og kappi en ég hafði þekkt á Vestur- eða Suðurlandi. En miklu meiri var þó munur vinnunnar. Ég hafði vanist mosa- eða hellulituðum. Hér voru aftur eingöngu notaðir suðalitirnir, samkembdir í margskonar litbrigðu, mjög smekklegum, allt tvíkembt, nauðhært, svo ekki sást toghár á hinum vandaðri fötum, sparifötunum.
Hallgrímur biskup hafði komið á Héraðið sumarið áður (1890). Sagði hann mér meðal annars að hann hefði aldrei á landi hér séð svo prúðbúið og jafnbúið fólk sem þar, og allt heimaunnin ullarföt, og allir bændur í yfirfrökkum úr því sama. Dáðist hann mjög af þessu.
Konur gengu þar með herðasjöl, þríhyrnur og skakka, er svo var nefnt, heimaunnið og prjónað, með allskonar útprjóni. Allt var þetta úr nauðhærðu þeli, í suðalitunum, samkembt, með svo nákvæmum litasamsetningum (sjatteringum) að hrein meistaraverk voru. (Úrdráttur úr texta um vetur í Þingmúla, af heimilislífi og tóvinnu II bindi bls 142)
Þetta má lesa í Endurminningum sr Magnúsar Bl Jónssonar um veturinn 1891-1892, þegar fjölskyldan var nýflutt úr Reykjavík að Þingmúla í Skriðdal. Þá bjó hann ásamt konu sinni Ingibjörgu Pétursdóttir Eggerz og börnum, félagsbúi í Þingmúlabænum með fólki sem var þar fyrir, en um veturinn var Þingmúlaprestakall óvænt sameinað Vallanesprestakalli. Þannig að í Vallanes fluttu þau vorið 1892. Textinn er mun ýtarlegri um allt fólk sem kom við sögu á bænum.
Magnús segir einnig frá því í endurminningum sínum, að seinni kona hans Guðríður Ólafsdóttir Hjaltested hafi einsett sér þegar hún fluttist á Héraðið að verða ekki eftirbátur bændakvenna í sínum hannyrðum. Hún lærði af þeim og óf sér sjal sem þótti slíkt snilldarverk að hún tímdi ekki að nota það sjálf. Örlög sjalsins urðu þau að það var sent á sýningu til Reykjavíkur og þaðan til útlanda á aðra sýningu um íslenskt handverk, þar sem það var selt á rúmlega tvöföld árslaun vinnufólks þess tíma í peningum.
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 06:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.5.2021 | 06:06
Grasætur og veganistar
Það var skoðun gamla fólksins að gulrófur hefðu flust til landsins með landnámsmönnum. Og víst var það að það kunni með rófurnar að fara, ræktaði sitt eigið fræ og geymdi rófur óskemmdar fram á vor. Rófugarðar voru við hvern bæ. Í harðæri varð oft lítill eða enginn undirvöxtur en kálvöxtur gat samt verið góður. Kálið var árvisst en rófur eigi, og garðarnir kölluðust því alltaf kálgarðar. Það mátti segja vegna fræræktar að hver bær hefði sitt eigið rófukyn.
Undir eins þegar kálið var sprottið var byrjað að taka það til matar, eitt blað af hverri rófu og þann veg yfir allan garðinn svo var farin önnur ferð á sama hátt, ef kálið þoldi. Kálið var þvegið vel og saxað í súpur, grauta og skyr. En að haustinu var allt kálið tekið, stórbrytjað og látið í súr og étið með honum yfir veturinn.
Haugarfi og heimula spratt snemma og var notað eins og kál að sumri en ekki í súr. Hvanngarðar voru víða um land og hjá einum bæ í Breiðdal var hvannstóð, hafi þeir verið algengir hefur það verið löngu liðið. Fíflablöð voru notuð að sumri en þó eigi almennt.
Breiðdælir voru fyrrum miklar grasætur en þó lagðist grasneyslan niður og mun það hafa verið vegna betri efnahags og mikillar vinnu við grasnotkun. Notkun þýfisgrasa, fjallgrasa, í blóðmör og lifurmör hélst lengur og svo í rúgbrauð. Líklega hefir almennt grasaát verið úr sögunni um aldamótin 1900.
Það er hverjum manni ljóst nú að neysla ætigrasa er nauðsyn heilsunnar vegna. Þegar ætigrös hurfu af matborðinu þá var það stórt skref aftur á bak. (Heimild kk fæddur 1902 (Breiðdalshreppur) sarpur.is)
Ég set þessa skemmtilegu heimild hér inn svo ég tíni henni ekki aftur, en einhvertíma hef ég punktað þetta hjá mér í tölvuna þegar yfir stóð athugun á því hvernig landinn hafði grænmeti til matar fyrr á tímum. Þessi frásögn úr Breiðdal er greinilega höfð eftir 19. aldar fólki af 20. aldar manni, -og er nú allrar athygli verð á tímum 21. aldar veganisma, -og gengdarlauss innflutnings á matvælum.
Vil samt taka það fram að ég er hvorki sérleg grasæta, -hvað þá veganisti. En það er samt mikið um vagan fólk í nánasta umhverfi og margar góðar þannig máltíðir sem ég hef torgað. Grasætu áhuginn er heldur ekki mikill, að öðru leiti en því að njóta heilsusamlegs lækningamáttar íslenskrar náttúru.
Veganismi hefur reyndar lítið með grænmeti að gera, annað en það telst vegan. Veganismi gengur út á að sniðganga dýraafurðir. Sjálfur set ég mörkin við að versla ekki innfluttar dýrafurðir og þær sem til verða með verksmiðjubúskap eða gæsabringuveiðum. Sem sagt dýraníði inn á verksmiðjubúum og sálarlausum umhverfissóðaskap úti í villtri náttúru.
Það hefur eitthvað látið standa á sér vorið hérna á Héraði síðustu 10 dagana eða svo, grátt í rót og jafnvel alhvítt hvern morgunn og nú þegar komið vel fram á sumar samkvæmt gamla íslenska tímatalinu. Trausti veðurfræðingur kallar þetta þráviðri, sem er náttúrulega bara þrautleiðinlegur norðaustan þræsingur.
Ég er því ekki farin að gæða mér á heimulu ennþá, sem nú til dags er aldrei kölluð annað en njóli, og fátt sem nýtur álíka óvinsælda annað en lúpínan. Sama á við fífla, hundasúrur og hvönn, en þetta hefur fylgt vorkomunni sem heilsusamlegt fæði á mínu matborði. Og mikið er ég farin að bíða eftir að geta slitið upp fyrstu fíflana.
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 06:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.4.2021 | 06:26
Brúin yfir boðaföllin
Þá man ég næst eftir Ölfusá, þar sem við stóðum á árbakkanum hjá ferjunni, er flaut við bakkann, fyrsta bátnum, er ég hafði séð á ævinni. En engir voru þar hestar. Og er ég spurði um þá, var mér bent niður eftir ánni. Sá ég þá á hinni breiðu lygnu nokkru fyrir neðan okkur eins og röð af þúfum, sem mér var sagt að væru hestarnir á sundi. Loks fannst mér ég skilja þetta, þó ég ætti bágt með að átta mig á því, enda hafði ég aldrei séð neina skepnu á sundi fyrr. Varð svo nokkuð jafnsnemma, að farið var að koma okkur fyrir í ferjunni og hestarnir fóru að tínast upp úr ánni hinumegin.
Árið 1932 kom ég í annað sinn á þessar slóðir, þá á bílferð frá Reykjavík til Selfoss og Eyrarbakka. Þegar við nálguðumst Ölfusána, kannaðist ég við alla afstöðuna frá bernskuferðinni: Áin var lygn og breið til vinstri, allt út að sjó, og fjallið til hægri, nokkuð þverhnípt og bratt, en síður en svo ægilegt eins og mig minnti. Og þá fyrst vissi ég, að þetta hafði verið Ingólfsfjall, og þá skildi ég að leið okkar fyrrum hafði legið upp Grafning.
Úr Endurminningum sr Magnúsar Blöndal Jónssonar (I bindi bls 30-31) , af margra daga ferðalagi fjölskyldunnar þegar hún flutti frá Miðmörk undir Eyjafjöllum í Prestbakka við Hrútafjörð árið 1867, þegar Magnús var um 5 ára aldurinn.
Mynd; Ísl. Þjóðlíf II bindi bls 394. Við Ölfusá, algengur ferðamáti yfir stórárnar. Menn voru ferjaðir í bátum, en hestarnir sundreknir. Daniel Bruun R. Christiansen.)
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 06:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2021 | 06:00
Sautjánhundruð og súrkál; þegar dansinn dó
Í skóla ungdómsáranna var stundum talað um að það skipti ekki nokkru máli hvað hefði gerst sautjánhundruð og súrkál. Átti þetta við um hörmunga ártöl Íslandssögunnar, en sú saga þótti þá frekar hallærisleg, -og þykir sjálfsagt enn. Sautjánhundruð og súrkál er eitt það skelfilegasta sem á Íslandi hefur dunið, auk óáranar af mannavöldum komu til eldsumbrot í öllu sínu veldi. Í annálum má lesa hrikalegar lýsingar á aðstæðum fólksins í landinu, en í júní 1783 hófust við Laka það sem sagan kallar Móðuharðindi. Öskufall og brennisteinsgufa lagðist yfir landið þannig að gróður visnaði um há sumar.
Hraun rann fram milli Síðu og Skaftártungu alla leið niður í Meðalland með þeim afleiðingu að tugir bæja eyddust og fólk í flestum sveitum V-Skaftafellssýslu átti þann einn kost að flýja heimili sín, ekki bætti úr skák að veturinn á undan hafði verið óvenju harður og hafís legið fyrir norðan land. Um haustið 1783 var ástandið þannig í flestum landshlutum að fé kom horað af fjalli og víða var búpeningur sjúkur af gaddi og beinabrigslum. Í grennd við gosstöðvarnar var margt búpenings þá þegar fallinn.
Eftir heylausan harðinda vetur 1783-84 með frosti og eiturgufum, svo hörðum að aðeins fjórar kýr voru taldar hafa lifað veturinn af á Langanesi, ráfaði bjargarlaust fólk og skepnur uppflosnað um allar sveitir, máttvana af hor og hungri. Innyfli í skepnunum ýmist þrútnuðu eða visnuðu, bein urði meyr, rif brotnuðu undan þunga skepnunnar þegar hún lagðist út af, fótleggir klofnuðu og beinhnútar gengu út úr skinninu.
Mannfólkið var svipað leikið vorið 1784, þar sem mikill fjöldi fólks þjáðist af blóðkreppusótt, skyrbjúg og sinakreppu, brisi í beinum og liðamótum. Hár rotnaði af ungum sem öldnum, gómar og tannhold bólgnaði, auk margvíslegra kauna. Fjöldi fólks lét lífið á víðavangi við flækingi á milli bæja og sveita. Þetta sumar gengu menn víðsvegar um landið fram á lík á förnum vegi, oft það mörg að ekki reyndist unnt sökum magnleysis að greftra þau öðruvísi en í fjöldagröfum, enda víða frost í jörðu langt fram eftir sumri.
Ofan á þessar hörmungar bættust svo ægilegir jarðskjálftar á Suðurlandi, 14. og 16. ágúst sumarið 1784, sem fundust víða um land. Þá hristu fjöll af sér jarðveg svo gróðurtorfur og grjóthrúgur lágu í dyngjum og hrönnum við rætur þeirra. Í Rangárvalla- og Árnessýslum einum, er talið að um 100 bæir og 1900 byggingar hafi hrunið til grunna með tilheyrandi skjólleysi fyrir fólk og fénað, jók þetta enn á vesöld og vergang fólksins í landinu.
Þrátt fyrir vilja danskra yfirvalda til að aðstoða Íslendinga í þessum hörmungum, sem m.a. má sjá á því að kannað var hvort hægt væri að flytja hundruð landsmanna af verst leiknu svæðunum til Danmerkur, þá skorti menn og hesta burði til að ferðast í kaupstað svo nálgast mætti aðstoð. Annálar greina frá því að embættismenn í höfuðstaðnum hafi talið ástandið skást á Austurlandi og þar mætti hugsanlega enn finna nothæfa hross til flutninga á nauðþurftum.
"Árið 1783 þann 8. júní, sem var hvítasunnuhátíð, í heiðríku og spöku veðri um dagmálabil, kom upp fyrir norðan næstu byggðafjöll á Síðunni svart sandmistur og mökkur svo stór, að hann á stuttum tíma breiddi sig yfir alla Síðuna". Þannig segir séra Jón Steingrímsson frá upphafi Skaftárelda í eldriti sínu. Jón var prófastur Vestur-Skaftfellinga á árunum 1778-1791 og sjónarvottur að eldsumbrotunum og áhrifum þeirra. Frá honum eru komnar nákvæmustu lýsingarnar af Skaftáreldum sem varðveist hafa.
Það er ekki um auðugan garð að gresja í samtímaheimildum um afdrif fólks móðuharðindunum, enda má segja að ef tök hefðu verið á safna þeim, þá hefði verið allt eins gott að gleyma þeim eins og hverju öðru hundsbiti. Samt hafa varðveist, auk einstaks eldrits séra Jóns Steingrímssonar, ótrúlega glöggar tölulegar upplýsingar um hversu hatröm móðuharðindin urðu þjóðinni. Þar kemur til rit Hannesar Finnssonar biskups í Skálholti, Mannfækkun af hallærum, en Hannes lifði móðuna miklu og skrifaði henni samfara þetta merkilega vísindarit á þeim tímum sem Skálholt hrundi til grunna. Biskupsstóllinn var í kjölfarið fluttur til Reykjavíkur, en Hannes keypti jörðina Skálholt og bjó þar til dánardags.
Það er einungis hægt að ímynda sér hve mikið af sögu landsins glataðist í þessum hörmungum, þegar meir að segja höfuðstaður landsins, sjálft fræðisetrið Skálholt, hvarf af yfirborði jarðar. Skýrsla Hannesar er ekki bara um móðuharðindin heldur er þar gerð grein fyrir hallærum allt frá Íslands fyrstu byggð, unnið upp úr annálum sem hann hafði aðgang að í Skálholti. Textinn gefur innsýn í hverskonar óöld geisaði og ritið hefur nákvæmar tölulegar upplýsingar að geima um móðuharðindin. Tölurnar benda til að fjórðungur þjóðarinnar hafi fallið úr hungri og vosbúð, 82% sauðfjár, 77% hrossa og 53% nautgripa.
Það er kannski helst að í því, -sem skrifað hefur verið af lærðum mönnum, -megi fá örlitla innsýn líf fólks á þessum ógnar árum. En þær eru fremur fátæklegar upplýsingarnar sem ég hef rekist á um venjulegt heimilislíf fólks, þó má tína til nokkrar lýsingar. Um afleiðingar móðunnar, eru þessar vísur um Hvalnes í Lóni Austur-Skaftafellssýslu dæmi um slíkt;
Tólf um haustið tugir vóru
Taldar ær - á nesi Hvals
Í hels naustið allar fóru
utan tvær að kalla tals.
Eins var ríkrar efni pestar;
Ei var fóðurs kraftur hreinn.
Þar voru líka þrettán hestar,
Þeim af stóð á foldu einn.
Þarna kemur fram að tölulegar upplýsingar Hannesar biskups eru hreint engar ýkjur ef miðað er við fellirinn á Hvalnesi í Lóni. Af 120 kindum lifðu tvær og einn af 13 hestum vegna goseitrunar á hörðum vetri. Vísurnar eru úr vísnabálki sem Hallgrímur Ásmundsson samdi. En Hallgrímur og Indriði bróðir hans hófu hungurgöngu móðuharðindanna frá Hvalnesi og fóru til skyldfólks upp í Skriðdal á Héraði, Hallgrímur þá 24 ára og Indriði 10 árum eldri þá nýbúin að missa konu sína.
Foreldrar þeirra urðu eftir á Hvalnesi en þeir bræður hugðust sækja þau og ungan son Indriða eftir að hafa komið sér fyrir í Skriðdal. Er þeir komu aftur í Hvalnes jörðuðu þeir föður sinn en fluttu móður og son með upp í Skriðdal. Þeir bræður ílengdust í Skriðdal og var Hallgrímur kenndur við Stóra-Sandfell en Indriði bjó á Borg. Benedikt Gíslason frá Hofteigi tók saman ævisögu Hallgríms, forföður síns, eftir þeim vísum sem til voru og hann hafði ort á ævi sinni.
Næst ætla ég vitna í aðstæður forfeðra minna, einna stærstu ættforeldra austfirðinga, séra Jóns Brynjólfssonar og Ingibjargar Sigurðardóttir ásamt Hermanni Jónssyni í Firði. En séra Jóni gaf Hannes Finnsson biskup vitnisburðinn aumasti prestur á Íslandi. Séra Jón var prestur í Mjóafirði þegar ósköpin stóðu sem hæðst og hafði þá hrakist undan héraðshöfðingjanum Hermanni úr Firði að Hesteyri og síðar að Krossi, ysta bæ í Mjóafirði sunnanverðum. Sögubrotið er þegar Hermann kom í Kross og átti orðastað við Ingibjörgu um ástand heimilisins.
Haustið 1784 kom Hermann að Krossi, þar sem séra Jón var þá. Sagði hann við konu prestsins að hann ætlaði að láta taka börnin frá þeim og flytja þau upp á Hérað, en hún spurði þá hvort honum þætti það tiltækilegt, þar sem þau lægju í rúmunum klæðlaus og grindhoruð, en þá sagði Hermann að fyrst hún vildi ekki ganga að þessu, þá geti hún húkt yfir þeim og nagað um holdlausar hnúturnar á þeim, en hún svaraði þá, að hann talaði sem þrælmenni eins og hann væri maður til. En daginn eftir á hreppamóti harðbannaði Hermann öllum sóknarmönnum og lagði á reiði sína, ef nokkur dirfðist að rétta börnum séra Jóns hjálparhönd eða honum sjálfum. Hélst Jón við á Krossi þangað til um miðjan vetur 1785, að heimilið leystist upp. Voru Mjófirðingar tregir að hjálpa honum vegna banns Hermanns, en gerðu það þó sumir. (Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður-Prestasögur.)
Svo má einnig fá innsýn í ástand heimila í landinu með því að grúska í skrif um sakamál þessa tíma, því um þau eru stundum til einhverjar heimildir um daglegt líf fólks. Í bókum Jóns Helgasonar Öldin og Vér Íslands börn eru áhrifa miklar lýsingar. Ein saga í Vér Íslands börn er sláandi um hvað fólk mátti reyna. Því ekki var einungis svo að fjórðungur þjóðarinnar félli heldur lenti stór hluti hennar á vergang og flakkaði bjargarvana um sveitir landsins.
Í sögunni Svart innsigli og níu rauð segir af Ámunda og konu hans sem lögðu í hungurgönguna eftir að hafa hrakist bæ af bæ. Þau bjuggu síðast í Skagafirði hann þá kominn á sextugsaldur en hún talsvert yngri og höfðu misst allt á hörðum vetri 1782-1783, í aðdraganda móðuharðindanna. Þegar vergangssaga þeirra hefst eru þau með tvær dætur sínar með sér, sú yngri það máttfarin af hungri að hann bar hana í poka á bakinu. Þegar þau komu að Glaumbæ á messutíma með von um aðstoð kom í ljós að dóttirin í pokanum var dáin.
Þau hjónin fengu litla aðstoð og ákváðu fljótlega eftir það að flakka í sitt hvoru lagi, í von um að fá þannig frekar ölmusu. Hann tók með sér dótturina, sem enn var á lífi, og þau hjónin héldu hvort sína leið um Húnavatnssýslu, hann í vestur en hún í norður út Skaga. Vorið 1785 eru Ámundi og dóttirin á flækingi í Víðidal og er hann þar beðinn um að yfirgefa svæðið, enda áttu Húnvetningar nóg með sína. Honum er bent á að hann kunni að eiga sveit í Skagafirði fyrir dóttur sína.
Ámundi tekur þá ákvörðun að halda austur til Skagafjarðar og reyna að koma dóttir sinni þar á sveitina. Hún verði betur komin sem niðursetningur hjá vandalausum en með honum. Hann hyggst svo flækjast áfram og freista þess að finna konu sína. Síðasta spurðist til þeirra feðgina saman á bæ við Blöndu þar sem þeim var gefinn matur. Fólk tók sérstaklega til þess hve Ámundi var nærgætinn við dóttur sína, tíndi upp í hana allan matinn og lét sig mæta afgangi. Svo héldu þau feðginin áfram að Blöndu sem var þeim ófær án aðstoðar. Eftir því sem Ámunda sagðist sjálfum frá í þeim yfirheyrslum sem á eftir fóru, þá lögðust þau til svefns í júlí blíðunni á árbakkanum.
Þegar hann vaknaði lá hún sofandi. Hann vefur um dóttur sína peysu tekur hana upp og fleygir í Blöndu og hleypur burt í örvæntingu. Hann sagði að aldrei hefði hún gefið frá sér hljóð eða sýnt lífsmark en hann gæti samt ekki verið viss hvort hún hefði verið lífs eða liðin því hann hefði aldrei litið til baka. Þarna voru þau feðginin búin að flækjast um betlandi og bjargarlaus í öllum veðrum á vergangi frá því árið áður. Á eftir fóru réttarhöld sem aldrei voru leidd til lykta því Ámundi andaðist eftir skamma veru í varðhaldi.
Síðasta aftakan á Austurlandi fór fram haustið 1786 í lok þeirra óskapa sem móðuharðindin orsökuðu. Þar er samtvinnuð örlaga saga fjögurra ungra manna í vonlausum aðstæðum, sem létu lífið á harðindaárunum, og sá þeirra þrautseigasti var að lokum hálshöggvin á Mjóeyri við Eskifjörð. Saga þessara ungu manna hefur ekki nema að litlu leiti varðveist í opinberum heimildum og þá þess sem af lífi var tekinn, en þjóðsagan hefur geymt þessa atburði þannig að gera má sér glögga grein fyrir hverskonar óskapnað var við að glíma. Söguna má nálgast hér.
Ein sú saga, sem ég hef rekist á og greinir hvað best frá lífsreynslu venjulegs fólks í þessum hörmungum, er saga Rögnvaldar halta í Sópdyngju þjóðsagna og alþýðlegs fróðleiks þeirra Braga og Jóhannesar Sveinssona. Þar segir Rögnvaldur Jónson frá lífshlaupi sínu fram að fimmtugu og hefst frásögnin þegar hann er 14 ára gamall árið 1783. Rögnvaldur bjó þá hjá foreldrum sínum í Klifshaga í Öxarfirði ásamt þrem yngri systkinum.
Foreldrar Rögnvaldar voru talin þokkalega stæð og vel búandi. Veturinn fyrir sumarið 1783 hafði verið óvenju harður en ekkert benti til þess að fjölskyldan væri að komast á vonarvöl. Þegar eldsumbrotin byrjuðu við Laka um sumarið visnaði gróður í Öxarfirði eins og víðast hvar í landinu. Anna móðir Rögnvaldar var lasin og hafði þurft að leita sér lækninga. Heyskapur misfórst að mestu vegna eiturmóðunnar og fé kom horað af fjalli.
Seint um haustið ákváðu foreldrar Rögnvaldar að leita til nágranna sinna um aðstoð, og úr varð að vinafólk þeirra á Skógum tók Rögnvald til sín svo létta mætti á heimilinu í Klifshaga. Faðir Rögnvaldar slátraði öllum bústofni nema þeim örfáu rollum sem hann taldi sig geta komist af með, og haldið lifandi gegnum veturinn. Þá bar svo við að presturinn innheimti leiguna fyrir Klifshaga, en jörðin var eign kirkjunnar á Presthólum. Leigan var kvittuð með því að taka kindurnar sem eftir lifðu.
Rögnvaldur var í Skógum, sem smali um veturinn, en foreldrar hans fluttu með yngri börnin á annan bæ, -Gilsbakka, sem var með minni baðstofu og því frekar hægt að halda þar hita. Skömmu áður en Rögnvaldur átti að halda heim til foreldra sinna um vorið var honum tilkynnt að mamma hans væri dáin. Um Hvítasunnu hélt hann í Gilsbakka til föður síns og systkina. Hann hafði verið nestaðaur frá Skógum og geymdi nestið sitt því hann þóttist vita að lítið væri til á Gilsbakka.
Þegar hann kom að Gilsbakka mætti hann hjónum sem voru að yfirgefa bæinn með börn sín á bakinu. Skemmudyr stóðu opnar út á hlaðið og innan við dyrnar var líkkista. Tvö systkini hans komu út úr bænum skinhoruð og að fram komin af hungri til að taka móti stóra bróður sínum. Þau sögðu honum að í líkkistunni væri móðir þeirra, en faðir þeirra hafi dáið um morgunninn og yngsta systir þeirra lægi föst til fóta hjá honum í rúminu.
Þau fara inn í bæ til að ná systur sinni úr rúminu og Rögnvaldur gefur þeim nestið sitt frá Skógum. Á bænum var bara til örlítið salt, honum dettur í hug að fara í berjamó og tína muðlinga, sem eru grjóthörð og þurr ber frá fyrri árum. Hann mýkti muðlingana upp í saltvatni til að næra systkini sín. Það voru miklir vatnavextir í ám um þetta leiti vors og ekki hægt að komast frá bænum í nokkra daga. Rögnvaldur sér samt til mannaferða hinumegin við ána og veður yfir hana til að fá aðstoð við að koma foreldrum sínum til grafar en lík föður hans var þá farið að lykti illa í baðstofunni.
Mennirnir sögðust ekki treysta sér yfir ána því hún væri ófær, og ráðlögðu honum að taka ekki þá áhættu að fara yfir aftur, en þeir myndu aðstoða hann um leið og áin yrði fær. Rögnvaldur fór strax aftur yfir ána og nokkrum dögum seinna þegar sjatnað hafði í ánni komu menn til að hjálpa þeim systkinum. Þeir tóku tvö yngri systkinin með sér, Þórdísi þriggja ára og Jón sjö ára. Við Rögnvald og Þorgerði ellefu ára, sögðu þeir að því miður væru ekki tök á að hjálpa þeim, þau yrðu að bjarga sér sjálf eða leita annað.
Það eru hrikalegar lýsingar á því hvað þeim systkinum mætti þegar þau fóru heim að bæjum í sveitinni til að leita sér aðstoðar. Enda þá margir bæir komnir í auðn í Axarfirði og flest fólkið dáið á þeim og það fólk sem eftir lifði dauðvona af hungri. Á einum bænum tórðu fjórir og gátu gefið þeim vatn með örlitlu mjólkurskoli á öðrum rólaði ein kona eftir á lífi bjargarlaus með barn.
Rögnvaldur ákvað því að komast aftur í Skóga, þar sem hann hafði verið um veturinn, með Þorgerði systur sína og leita þar aðstoðar, en þangað var yfir tvær erfiðar ár að fara og hún orðin hálf rænulaus af hungri. Þegar hann var að bera hana yfir Sandá hrasaði hann svo hún blotnaði.
Það var kalsa veður með krapa slyddu og Þorgerður ófær um að ganga lengra. Hann kom henni í skjól við stein og flýtti sér holdvotur að næsta bæ til að fá aðstoð. Þar var kvenfólk heima, sem tóku hann úr vosklæðunum og háttaði ofan í rúm. Konurnar fóru svo til að ná í systur hans en þá var hún dáin við steininn. Jón yngri bróðir Rögnvaldar dó einnig fljótlega eftir að systkinin fóru frá Gilsbakka en Þórdís yngsta systir hans fluttist síðar austur á Hérað í Hallgeirsstaði í Jökulsárhlíð og komst til fullorðins ára.
Saga Rögnvaldar halta er mikið lengri og sögð af mikilli nákvæmni, margfalt meiri en hér er gert, þar sem einungis er stiklað á því stærsta um nokkra daga. Árin á eftir voru Rögnvaldi erfið en alltaf komst hann af, en samt fór svo að upp úr tvítugt var hann orðinn örkumla maður. Hann fór þá til Skagafjarðar með aðstoð fólksins í Öxarfirði til að leita sér lækninga. Eftir það bjó hann á Skaga þar sem hann kvæntist.
Um fimmtugt fékk Rögnvaldur séra Jón Reykjalín til að skrá sögu sína. Sagan lenti svo í fleiri en einu handriti og vestur um haf. Frásögnin í Sópdyngju er sett saman úr tveimur handritum því eitthvað úr hvoru hafði glatast. Afkomendur Rögnvaldar og Margrétar konu hans urðu seinna vesturfarar og settust margir hverjir að í S-Dakota og kölluðu sig þar Hillman.
Það er alveg ljóst að Rögnvaldur hefur verið mikill atgerfismaður á sínum tíma. Hann stofnaði fatlaður til heimilis á arfleið foreldra konu sinnar og eignaðist með henni börn sem eignuðust svo sína Rögnvalda. Frásögn hans af fyrstu dögunum eftir að hann kom heim til systkina sinna í móðuharðindunum er einstök, -nákvæm og upplýsandi, -um þær hrikalegu aðstæður sem landsmenn stóðu frammi fyrir.
Það hefur ýmislegt verið sagt um móðuna miklu í seinni tíð en þar er samt að mestu um getgátur að ræða. Gunnar Karlsson prófessor í sagnfræði getur sér þess til á Vísindavef HÍ, að þá hafi dansinn dáið á Íslandi því landsmenn hafi ekki dansað í 100 ár á eftir móðuharðindin. Íslendingar hættu nokkurn veginn alveg að dansa á 18. öld og byrjuðu ekki á því að neinu marki fyrr en um öld eftir móðuharðindi. Lengi hefur verið talið að þetta stafi af því að heittrúaðir Danakonungar hafi bannað landsmönnum að dansa, og hafa menn þá velt því fyrir sér hvers vegna Færeyingar hafi ekki týnt sínum dansi því að þeir höfðu alveg sömu kóngana. Skoðun mín er sú að Íslendingar hafi hreinlega ekki verið í skapi til að dansa á árunum eftir móðuharðindi, og þannig hafi danslistin tapast; segir Gunnar.
Það má telja því sem næst öruggt að Íslendingar hafa ekki verið í skapi til að skemmtana í meira en 100 ár eftir móðuharðindin. Í sóknarlýsingu Vopnafjarðar árið 1840 afgreiðir séra Guttormur Þorsteinsson prófastur skemmtanir sóknarbarna sinna í örfáum orðum: Skemmtanir. Hjálpi mér! Eru fáar og þykja hvorki vera föng eða tími til þeirra. Þrjátíu og fjórum árum seinna 1874 segir kollegi Guttorms, séra Sigurður Gunnarsson á Hallormsstað þetta um skemmtanir, þar sem notuð var sama forskrift af sóknarlýsingu: Unglingar spila endrum og sinnum á helgidögum og nokkrir skemmta sér með söng. Vinnan skemmtir flestum best, því hér eru fáir letingjar.
Séra Sigurði Gunnarssyni verður einnig tíðrætt um dauða Hallormsstaðaskógar í kjölfar sautjánhundurð og súrkál sem og uppplásturs og landeyðingar í framhaldinu. Hann kemur inn á að sverir trjástofnar hafi visnað og drepist, eldiviður hafi smá saman farið úr því að tínd voru saman fúasprek í eld og að lokum notast við sauðatað.
Erlendis hafa fræðimenn vaknað til vitundar um hverskonar hamfarir áttu sér stað sautjánhundruð og súrkál. Jafnvel getið sér til um að móðuharðindin hafi verið mestu náttúruhamfarir í sögu Bretlands og hafi lagt tugi þúsunda Breta af velli. Vísindamönnum hefur jafnframt orðið ljóst með tímanum hvað hnattræn áhrif móðuharðindanna voru gríðarleg á veðrakerfi jarðar. Er jafnvel talið að þau hafi átt sinn þátt í að skapa aðstæður fyrir frönsku byltinguna.
Að vita þetta um sautjánhundruð og súrkál skiptir náttúrulega ekki nokkru máli núna árið 2021, eftir að dansinn hefur legið á líkbörunum í heilt ár um allan heim, -ekkert frekar en á unglingsárunum í denn. Nema ef vera kynni vegna þess sígilda sannleika, "að oft má böl bæta með því að benda á annað verra". Nú þegar þjóðin kemst næst því að vera á dansleik þar sem almannavarnir hafa boðið upp á línudans við bjarmann úr neðra í Geldingadölum.
Ps. Inn í þennan pistil er fléttað með undirstrikuðum tenglum því sem ég hef orðið uppvís um ártölin 1700, s.s. fólkinu í Kjólsvík, gerviþjóðsögu, aumasta presti á Íslandi og þeim sem litu blóðs í pollinn, -sannkölluðu súrkáli.
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.2.2021 | 07:50
Gautavík
Þessi staður hefur komist í fréttir undanfarið vegna hampræktunar. Ábúendurnir fluttu úr Reykjavík austur í Berufjörð til að láta draum rætast um sjálfþurftarbúskap og sjálfbærni. Gautavík hafði verið í eyði í nokkur ár, en var sennilega bæði leynt og ljóst ein af höfuð höfnum landsins fyrr á öldum.
Fljótlega eftir að landnám hófst á Íslandi munu norræn skip hafa komið af hafi til Berufjarðar til þess meðal annars að eiga viðskipti við fólk sem hafði tekið sér bólfestu um sunnanverða Austfirði. Bæði í Njálu og Fljótsdæla sögu er sagt frá verslunarstaðnum Gautavík við innanverðan Berufjörð. Þar versluðu Þjóðverjar á tímum Hansakaupmanna þar til þeir fluttu bækistöð sína suður yfir fjörðinn til Fýluvogs (Fúluvíkur) upp úr 1500. Rústir í Gautavík eru friðaðar og hefur hluti þeirra verið kannaður með fornleifauppgreftri. (texti Djúpivogur wikipedia)
Fáeinir miðaldaverslunarstaðir hafa verið rannsakaðir að einhverju marki hér á landi. Eru það Gautavík í Berufirði, Maríuhöfn í Hvalfirði, Gásar í Eyjafirði og Kolkuós í Skagafirði. Rannsóknirnar í Gautavík skiluðu ekki miklum upplýsingum, en þó virðist staðurinn hafa átt sinn blómatíma á 14. öld og svo aftur á þeirri 15., en elsta ritaða íslenska heimildin er frá lokum 12 . aldar. Mest áberandi fundarflokkurinn voru leirker og járnnaglar. Einnig fundust þar byssukúlur úr blýi. Nýlega hefur því verið haldið fram að verslun í Gautavík hafi varað fram undir lok 16. aldar. (Bjarni F Einarsson fornleifafræðingur/ Bærinn sem hvarf í ösku og eldi 1362 bls 127)
Í annálum 14. og 15. aldar er Gautavíkur oft getið sem verslunarhafnar. Þjóðverjar ráku þar verslun fram á síðari hluta 16. aldar og var þá ein aðalverslunarhöfn á Austurlandi. Gautavíkur er getið nokkrum sinnum í Íslendingasögum og þá jafnan sem verslunarstaðar og hafnar. Rústirnar eru báðum megin við Búðaá og ein á sjávarbakkanum austan við ána. Friðlýst 1964. (Sjóminjar á Íslandi)
Daniel Bruun var einna fyrstur til að rannsaka fornleifar íslenskra kaupstaða frá miðöldum. Hann kom í Gautavík árið 1901 og í bókinni Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár er þetta um þá heimsókn. "Berufjörður er þriggja mílna langur fjörður á Austurlandi sunnarlega. Nokkuð innan við fjarðamynnið er á norðurströndinni lítil vík, er Gautavík heitir og við hana samnefndur bær. Þar er þyrping með 6 tóttum, sem Olavius segir að munnmæli hermi, að séu leifar verslunarstaðar írskra kaupmanna. Af sögunum sést, að Norðmenn hafa siglt til Gautavíkur (Kålmlund bls 200), og í Njálu er staðarins getið sem lendingarstaðar kaupskipa. Loks herma íslenskir annálar, að þar hafi verið mjög fjölsótt höfn á 14. og 15. öld.
Árið 1589 fengu Hamaborgar kaupmenn kónginn í Kaupannahöfn til að veita sér verslunarleyfi á Djúpavogi við Berufjörð. Þar áður höfðu Brimar kaupmenn haft leifi til að versla við Fýluvog, sem er nánast á sama stað á Búlandsnesinu og Djúpivogur, munurinn var sá að inn á Fýluvog var siglt úr Hamarsfirði en inn á Djúpavog úr Berufirði. Talið er að rentukammerið í Kaupmannhöfn hafi ekki áttað sig á að þarna var um sama staðinn að ræða og bjuggu því íbúar í nágrenni Djúpavogs við fágæta samkeppni í verslun um það leiti sem einokunarverslun hófst á Íslandi.
Sagan um Þórð í Dýjakoti heitir "það segir fátt af einum", leið hans til Gautavíkur er lýst nokkuð nákvæmlega og hefur legið að mestu um óbyggðir
Það skildi ætla að verslun við Gautavík hafi verið alfarið úr sögunni þegar tveir verslunarstaðir voru komnir við minni Berufjarðar. Fyrir nokkrum árum rakst ég á athygliverða sögu í bókinni Syndir feðranna, eftir Gunnar Þorleifsson, og hef hvergi rekist á annarsstaðar hvorki heyrt á skotspónum né séð í þjóðsaganasöfnum. Þar segir frá því þegar Þórður í Dýjakoti var myrtur. Sé eitthvað að marka söguna þá var verslað við Gautavík um aldamót 17. og 18. aldar.
Þessir atburður er sagður gerast árið 1701 í verslunarferð Þórðar niður í Berufjörð, nánar tiltekið til Gautavíkur. Samkvæmt mínum hugmyndum var verslun í Gautavík aflögð á þeim tíma því ekki hef ég heyrt Gautavíkur getið sem verslunarstaðar eftir að einokunarverslun var komið á, sem varaði frá 1602 1787.
Árið 1589 er Djúpivogur gerður að löggiltum verslunarstað og hafði Fúlivogur sem er því sem næst á sama stað verið verslunarstaður þar á undan og einmitt þangað hafði hin forna verslun í Gautavík flust. Sagan gæti samt sem áður verið sönn því vel gæti hafa verið verslað á laun við Gautavík fram hjá einokurversluninni, án þess að getið sé í annálum. Margt í sögunni passar samt ekki við sagnfræðina.
En saga þessi greinir í stuttu máli frá sex daga verslunarferð Þórðar í Dýjakoti til Gautavíkur. Dýjakots, minnist ég ekki að hafa heyrt annarsstaðar getið. Miðað við staðarlýsingar í sögunni, hefur það verið inn af Fljótsdal gæti hafa verið rétt austan við Laugarfell.
Leið Þórðar í verslunarferðinni til Gautavíkur virðist hafa legið sunnan við Hornbrynju, niður í Fossárdal og síðan inn Berufjörð að sunnanverðu og út að norðan til Gautavíkur, sem bendir til að Dýjakot hafi verið talsvert innarlega á öræfunum, annars hefði verið styttra að fara norðan við Hornbrynju og niður Öxi í botn Berufjarðar.
Í sem stystu máli lendir Þórður í útistöðum við þýskan kaupmann vegna ullar sem hann vildi fá sérstaklega viktaða því það voru hagalagðar barnanna hans þriggja, en kaupmanninum þótti svoleiðis lítilræði óþarft.
Þeir lenda í áflogum og pakkar Þórður honum saman. Eftir að kaupmanninum hafði verið bjargað við illan leik, ákveður Þórður að halda strax heim með hest og varning. En þá sér kaupmaðurinn færi á að ráðast aftan að honum, -og enn pakkar Þórður honum saman.
Þórður á að hafa farið sömu leið heim samkvæmt sögunni. Einhverjir íslendingar sáu til þýska kaupmannsins morguninn eftir þar sem hann fór ríðandi inn Berufjörð. Þess er skemmst að geta að ekki skilaði Þórður sér heim til konu og barna, en hestur hans ásamt varningi skilaði sér í Dýjakot.
Þremur vikum eftir þessa atburði komu kona hans og þrjú börn til byggða að innsta bæ í Fljótsdal. Lík Þórðar fannst síðan í fjárgöngum um haustið, sitjandi vestan undan Hornbrynju illa farið, og þegar að var gætt var gat eins og eftir byssukúlu á höfðinu. Þetta gæti allt eins verið skáldsaga því ef Gautavík hefur verið verslunarstaður með erlendar skipakomur fram að 18. öld skortir þar um allar heimildir.
Þó svo að talið sé að fornleifarannsóknir í Gautavík hafi ekki skilað miklum upplýsingum, þá kom múrsteinshleðsla í ljós. Þessi fundur er viss ráðgáta sem setur verslunarstaðinn síðar í tíma en sagan hermir, en tilgáta er nú um að múrsteinarnir séu hluti lýsisgerðarhúss
Um endalok verslunar í Gautavík segir; -"Þar sem ekki fundust neinar leifar eftir þyrpingu innlendra bóndabæja við víkina, má gera ráð fyrir að hún hafi öll verið yfirgefin þegar endalok hennar urðu að veruleika. Vísbendingar um eyðileggingu eru samt ekki fyrir hendi. Allt smálegt sem var nýtilegt hefur verið flutt burtu. Ef til vill stóðu einungis veggir búðanna uppi á meðan annað nýtanlegt byggingarefni, eins og timbur, hefur einnig verið fjarlægt. Veggirnir voru skildir eftir til þess eins að grotna niður, enda var byggingarefni þeirra ekki æskilegt til endurnýtingar. Sérstaklega var tekið eftir því að múrsteinahringurinn var ekki grafinn upp og fluttur með öðrum varningi, þó steinarnir væru örugglega mikils virði og heldur ekki erfitt að grafa þá upp og nota þá aftur. Svo virðist þó sem að efri hluti kúpulsins hafa fljótlega verið fjarlægður." (Ólafía; rit Fornleifafræðingafélags Íslands.)
Það eru til fleiri sagnir um Gautavík fyrri á öldum eftir að verslun í Gautavík var hætt, sem mætti flokka sem þjóðsögur, Gautavíkur er og getið í Tyrkjaránssögum frá 1627. Í bók Öldu Snæbjörnsdóttur, Dvergasteinn Þjóðsögur og sagnir úr Djúpavogshreppi, segir frá skriðu sem féll við Gautavík 26. júní 1792. Þar sem hluti fjallshlíðarinnar, sem er óravegu frá sjó, virðist hafa losnað og fallið alla leið í sjó fram. Þá fórust hjónin í Gautavík Jón Jónsson matrós og Ásdís Hermannsdóttir kölluð hin fagra.
Heimildir um þetta er að finna í kirkjubók Berufjarðakirkju. 30. júní grafinn hreppstjóri Jón Jónsson bóndi í Gautavík. Varð fyrir skriðuhlaupi í því mikla storm -og hretviðri hinn 26. s.m. á sínu aldurs 44. ári fannst upptekinn af sjónum þann 27. s.m.; ásamt honum deyði kona hans Ásdís Hermannsdóttir hvörrar lík fannst ekki og meinast begrafin undir hlaupinu 32 ára. Þau eftirlétu 4 ungabörn, kýr og meginhluta ærifjár um 27 kvíaær.
Bókin Sópdyngja þjóðsögur, alþýðlegur fróðleikur og skemmtan í útgáfu þeirra Braga og Jóhanns Sveinssona er ítarlegri frásögn af þessum atburði. Þar er sagan höfð eftir Antoníu Jónsdóttir á Arnarstöðum í Núpasveit við Öxarfjörð, en hún var ein af afkomendum Jóns og Ásdísar í Gautavík. Þar segir frá því að Jón hafi farið upp á Fljótsdalshérað að sækja fé og í rekstri hans hafi verið grákollótt kind sem kerling á Héraði hafi ásælst, en Jón ekki viljað láta. Þetta á að hafa verið að haustlagi og þá sennilega haustið áður en skriðan féll. Kellingin á að hafa haft í hótunum við Jón vegna kindarinnar.
Þegar var farið að grafast fyrir um hvernig þessi mikla skriða gæti hafa fallið á að hafa komið í ljós að smalar hefðu séð kerlingu á fjallinu daginn áður. Við upptök skriðunnar hafi sést spor en enginn ferill fundist. Eins kemur fram í frásögninni að Ásdís og Jón hafi verið það efnuð að hægt hafi verið að sjá fyrir fjórum ungum börnum þeirra. Sagt er að einn sonur þeirra hjóna hafi heitið Jón og lengi búið í Núpshjáleigu á Berufjarðarströnd. Nafn og aldur smalans í Gautavík kemur einnig fram í frásögninni, en sá var grunaður um að hafa stolið peningakistli og skorið silfurhnappa af fötum Jóns.
Það má segja, þó undarlegt sé, að upphaf þessa Gautavíkur vangaveltna megi rekja til Bæjarins sem hvarf í ösku og eldi. En í jólagjöf fékk ég samnefnda bók Bjarna E Einarssonar fornleifafræðings um uppgröftinn á Bæ í Öræfum og rannsóknir honum tengdar. Það er talið að allt að 600 manna sveit hafi horfið af yfirborði jarðar með manni og mús á dagparti árið 1362. Ein af blómlegri sveitum landsins, sem áður var nefnd Litla Hérað, fékk þá nafnið Öræfi eftir sprengigos Hnappafellsjökli, þar sem nú nefnist Öræfajökull.
Saga þessarar sveitar glataðist í hamförunum, önnur en þau örlitlu brot sem má finna í kirkjubókum Stafafellskirkju um eignir kirkna í Litla Héraði. Stafafellskirkja er í Lóni, hátt í 200 km fjarlægð. Af uppgreftrinum á Bæ má draga þá ályktun að margt í Íslandssögunni hafi verið með öðrum blæ en heimildir eru fyrir, t.d. að lýsisframleiðsla og sala hafi verið mikilvæg útflutningsvara landsmanna, en lýsi var m.a. notað til að lýsa upp bæi og borgir Evrópu. Vangaveltur í þessa veru má einnig finna í bók Bergsveins Birgissonar, rithöfundar dr í norrænum fræðum, "Svarti víkingurinn", en Bergsveinn telur að þrælaveldi landnámsmannsins Geirmundar heljarskinns hafi m.a. byggst upp á útflutningi á lýsi.
Það virðast hafa verið snögg umskipti á Íslandi í gegnum tíðina hvort staðir voru blómlegir eða ekki, náttúruhamfarir hafa ráðið þar mestu. Það fer t.d ekki mikið fyrir sögu Reykjavíkur fram eftir miðöldum, annað en að þar setti fyrsti landnámsmaðurinn sig niður. Hugsast gæti að þau eldsumbrot sem hafa verið á Reykjanesskaga á þeim tíma hafi orðið til þess að sá landshluti naut sín ekki á sama hátt og hann gerir nú á tímum.
Gautavík; teikning Daniel Bruun 1901
19.12.2020 | 03:04
Nígeríu skórnir
Skreið til Nígeríu! Skreið til Nígeríu! Hver skreið til Nígeríu? Þannig ómaði tilkynning á Útvarpi Matthildi í upphafi 8. áratugarins. En á þessum tíma var tilveran fyrst og fremst siginn- saltaður- og frosinn fiskur í bland við saltkjöt, fars, bjúgu og Ora fiskibúðing í dós, ásamt lambasteik á sunnudögum.
Á baksíðu Tímans 17.mars 1973 segir þó frá íslenskum skóm, sem voru sýndir á kaupstefnu á Seltjarnarnesi. Þar var sagt frá því að skóverksmiðjan Agila á Egilsstöðum sýndi 36 nýjar gerðir af skóm sem ekki höfðu sést áður auk hátt í þrjátíu annarra og sagði blaðamaður þetta vera ótrúlega fjölbreytni. Á kaupstefnunni sýndu einnig önnur íslensk skóverksmiðja enn meira af íslenskum skóm, Iðunn á Akureyri u.þ.b. 80 tegundir.
Fram kom í samtali við forstöðumenn fyrirtækjanna, þá Richard Þórólfsson forstjóra Iðunnar og Sigurð Magnússon framkvæmdastjóra Agilu, hversu erfiður innlendur markaður væri, niðurnjörvaður í verðlagshöftum. Lýsti Richard þar áhyggjum vegna lækkandi tolla á innflutta skó og Sigurður söluumhverfi íslenskrar skóframleiðslu;
Smásöluálagning á skó er lægri en nokkurs staðar í öðrum löndum. Flestir skósalar flytja sjálfir inn erlenda skó og fá því bæði heildsölu og smásöluálagningu af sölu þeirra, en talsvert minna fyrir að selja skó innlendu framleiðendanna. Það er réttlætismál fyrir innlendan skóiðnað, að þetta verði fært til betri vegar, t.d. með því að leifa eitthvað hærri smásöluálagningu á innlenda skó en erlenda.
Þetta hljómar undarlega nú á tímum hins frjálsa flæðis. Einnig kom fram hjá forsvarsmönnunum hve íslenskir neytendur væru ginkeyptir fyrir erlendri framleiðslu Við framleiðum okkar skó undir vörumerkjum, en ekki nafni fyrirtækisins og ekki get ég neitað því að mörg þeirra bera erlendan svip; sagði Sigurður. Því miður er ekkert til hér á landi, sem heitir þjóðarmetnaður í þá átt að styðja íslenskan iðnað með því að kaupa fremur innlenda vöru en erlenda; sagði Richard.
Fram kom hjá Richard Þórólfssyni forstjóra Iðunnar að þar á bæ gerðu menn sér vonir um útflutning í framtíðinni og þá sérstaklega skó úr innlendu hráefni fóðraða með gæruskinni. Það er ekki hægt að framleiða ódýra skó á Íslandi; sagði Richard. -"En við höldum reglu samvinnuverksmiðja að framleiða vandaðan meðalgæðaflokk." - Miðað við gæði eru okkar skór ódýrari en erlendir og endingin er mjög góð. Í sama streng tók Sigurður framkvæmdastjóri Agilu, sem leitast við að framleiða vandaða tískuskó. Skórnir frá Egilsstöðum eru ekki dýrari en hliðstæðir innfluttir skór.
En hverjum hefði dottið til hugar að hægt væri að flytja út hátískuskó frá Íslandi til Nígeríu einu áru seinna?
Ég hef verið að glugga í sögu Agilu m.a. í bók Smára Geirssonar Frá skipasmíði til skógerðar, um iðnsögu Austurlands. Þar er saga Agilu á Egilsstöðum rakin. Þessi saga hefur ekki farið hátt og af því að ég þekki örlítið til hennar þá veit ég að þetta var í aðra röndina sorgarsaga. Faðir minn var Sigurður Magnússon, hann og móðir mín Kristín Áskelsdóttir lifðu og hrærðust í Agílu allt þar til Nígeríu draumurinn endaði í gjaldþroti. Í ágætri bók Smára Geirssonar í safni til iðnsögu íslendinga hefst kaflinn um Agilu á þessum orðum;
Að frumkvæði hreppsnefndar Egilsstaðahrepps var boðað til almenns borgarafundar á Egilsstöðum þann 19.desember 1968 í þeim tilgangi að kynna og ræða hugmynd um stofnun hlutafélags um skóverksmiðju í Egilsstaðakauptúni. Á fundinum kom fram vilji til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd og á honum var kosin bráðabirgðastjórn skipuð sjö mönnum. Stjórninni var ætlað að safna hlutafjárloforðum, undirbúa framkvæmdir og formlega félagsstofnun. Formaður bráðabirgðastjórnarinnar var Erling Garðar Jónasson rafveitustjóri.
Strax og bráðabirgðastjórnin hóf störf kom í ljós að áhugi fyrir að koma skóverksmiðju á fót var afar mikill og í janúar mánuði 1969 var gengið frá kaupum á skógerðarvélum Nýju skóverksmiðjunnar í Reykjavík. Sú verksmiðja hafði verið stór á íslenskan mælikvarða á sínum tíma en hún gat framleitt 60-80 þúsund skópör á ári með fullum afköstum og gat veitt 55 manns atvinnu. Framleiðsla Nýju skóverksmiðjunnar hafði verið svipuð og skóverksmiðjunnar Iðunnar á Akureyri sem var eina starfandi skóverksmiðjan á landinu þegar hér var komið sögu.
Þeir voru hugdjarfir frammámennirnir sem komu að stofnun og undirbúningi skóverksmiðjunnar Agilu. Má þar fremstan telja Vilhjálm Sigurbjörnsson sem var framkvæmdastjóri á undirbúningstímanum og fór til Hollands til að koma á samstarfi við þarlenda skóverksmiðju. Eins voru ráðnir lykilstarfsmenn, þau Anna Hólm Káradóttir sem hafði um árabil verið saumakona í skóverksmiðjunni Iðunn á Akureyri og Geir Kristjánsson sem hafði starfað hjá Nýju skóverksmiðjunni í Reykjavík og þekkti því vel til allra véla og tækja.
Ögmundur Einarsson tæknifræðingur úr Reykjavík var svo ráðinn framkvæmdastjóri og faðir minn Sigurður Magnússon verkstjóri þegar Agila tók til starfa snemma árs 1970. Faðir minn hafði verið verkstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Seyðisfirði árin á undan. En móðir mín og við systkinin, sem vorum orðin fjögur, búið á Egilsstöðum í skúrnum á hæðinni með íbúðarhúsið í byggingu við hliðina árum saman.
Það var í nóvember 1969 sem við fluttum í húsið, en vikurnar á undan hafði pabbi keppst við að gera stóran hluta þess íbúðarhæfan. Þegar pabbi var komin heim og farinn að vinna í Agilu, sem var á næsta leiti við heimilið, breyttist margt hjá fjölskyldunni. Húsið kláraðist smá saman og var fullklárað 1974, vorið sem ég fermdist. Agilu var lokað um mánaðartíma á hverju sumri vegna sumarleifa og þá fóru foreldrar mínir með barnahópinn sinn í tjaldferðalög um landið. Þetta voru ný ævintýri frá þeim sem ég þekkti áður með mömmu þegar hún lagði ein upp í langferð með rútu að sumrlagi með okkur krakkana á æskustöðvar sínar norður í landi.
Móðir mín vann einnig í Agilu við sauma. Sjálfur lenti ég meir að segja þar í vinnu hluta úr sumrinu 1972 við að líma saman skókassa með trélím og pensil að vopni og voru notaðar þvottaklemmur til að halda kössunum saman í brotunum á meðan límið þornaði. Þetta þótti mér hundleiðinleg innivinna og þegar kom að sumarfríi fór ég og talaði við Völund frænda minn sem var með trésmiðju KHB og fékk útivinnu við byggingar, enda orðin þrælvanur eftir að hafa alist upp á byggingastað frá því ég fyrst mundi. Ég fór því ekki í Agíu eftir sumarfrí og vann aldrei þar framar. En fór samt með pabba í skósöluferðir og kom þá í fyrsta skipti á ævintýralegan Djúpavog.
Fram hefur komið að það var Hollensk skógverksmiðja, Arbo að nafni, sem Agila sótti sína tækniþekkingu til. Arbo hætti starfsemi en Agila hélt þá sambandi við helsta hönnuð þeirrar verksmiðju og hann teiknaði skóna sem Agila framleiddi. Ögmundur Einarsson hætti sem framkvæmdastjóri á fyrsta starfsári og tók þá við Halldór Hróar Sigurðsson sem sá um reksturinn ásamt föður mínum. Halldór hætti 1973 og stýrði faðir minn Agilu einn eftir það, eða þar til hún var lýst gjaldþrota í ársbyrjun 1975.
Ögmundur Einarsson og Sigurður Magnússon
Eins og fram kom á baksíðu Tímans 17. mars 1973 þá nutu íslenskir skór lítillar hilli hjá þjóðinni. Guðmundur Magnússon, sem var lengi oddviti og bæjarstjóri Egilsstaða, var lengst af stjórnarformaður Agilu. Hann segir m.a. svo frá í bók Smára: "Mér er minnistætt að eitt sinn hitti ég að máli ágæta konu og vinnufélaga á Egilsstöðum og sýndi hún mér þá barnaskó sem hún hafði nýverið keypt í Reykjavík. Lofaði hún skóna mjög og sagði að ekki gæti hún fengið skó eins og þessa keypta á Austurlandi. Þessir skór voru að gerðinni Ros og benti ég konunni á að þeir væru einmitt framleiddir í skóverksmiðjunni Agilu og hún hefði ekki þurft að fara langt til að festa kaup á þeim. Það var engu líkara en tíðindin yrðu konunni áfall og ljóst var að álit hennar á skónum minnkaði verulega við þau."
Ákveðið var að hætta rekstri Agilu og lýsa fyrirtækið gjaldþrota í lok árs 1974. Guðmundur Magnússon var þá stjórnaformaður og lýsir hann aðdraganda endalokanna svo: "Það voru mikil vonbrigði að ekki skyldi takast að halda rekstri skóverksmiðjunnar áfram en ýmislegt hafði verið reynt til að skapa fyrirtækinu viðunandi rekstrargrundvöll. Nauðsynlegt var að auka framleiðsluna til að bæta reksturinn en erfiðlega gekk að auka söluna innanlands svo leitað var að mörkuðum erlendis. Loks tókst að finna heppilegan markað fyrir Agilu og var hann í Nígeríu.
Gerður var samningur við hina Nígerísku kaupendur og var hann verksmiðjunni mjög hagstæður. Gerði hann ráð fyrir framleiðslu á tugum þúsunda para af skóm sem voru einfaldir að allri gerð og auðveldir og hagkvæmir í vinnslu. Þessi samningur jók bjartsýni okkar hvað varðaði framtíð fyrirtækisins en til þess að unnt væri að uppfylla hann þurfti verksmiðjan verulega fjármagnsfyrirgreiðslu. Þegar leitað var til banka eftir þessari fyrirgreiðslu var komið að læstum dyrum; bankinn treysti ekki þeim greiðsluábyrgðum sem Nígeríumennirnir lögðu fram og varð ekkert af skóframleiðslu á Egilsstöðum fyrir þennan markað í Afríku.
Ég er sannfærður um að ef framleitt hefði verið upp í þennan Nígeríusamning og leitað hefði verið markaða víðar erlendis þá hefði Agila dafnað vel og orðið traust fyrirtæki. Þarna vantaði áhuga og skilning þeirra sem fjármagninu réðu en skortur á áhuga og skilningi hefur reynst mörgum íslenskum fyrirtækjum dýrkeyptur."
Egilsstaðir voru árið 1968 kauptún í örum vexti með rúmlega 600 íbúa þegar hugmyndin kviknaði um almenningshlutafélag Egilsstaðabúa vegna skóverksmiðju. Íbúar voru orðnir um 900 árið 1975 þegar starfsemi Agila slokknaði og skipti þetta máli fyrir marga Egilsstaðabúa.
Nígeríu skórnir
Eins og ég gat um hér að ofan þá minnist ég þessa sem sorgarsögu í aðra röndina. Endalok Agilu tóku á foreldra mína. Borgarafundurinn sem haldinn var á Egilsstöðum þann 19. desember 1968 bar upp á 30. afmælisdag föður míns. Ég veit ekki hvort hann hefur verið á þessum fundi, tel það frekar ólíklegt í ljósi þess að hann var verkstjóri hjá SR á Seyðisfirði á þeim tíma.
Mér eru ekki minnisstæðir afmælisdagar föður míns, en man þó tvo báða með núlli. Þegar faðir minn varð 40 ára var mamma nýfallin frá, hún lést í bílslysi niður á Egilsstaðanesi þann 1. desember 1978 þar sem þau voru saman á ferð. Þetta var skiljanlega mjög erfiður afmælisdagur fyrir lemstraðan fertugan mann að nýlega lokinni jarðarför, rétt fyrir jól með fullt hús af börnum. Á þessum afmælisdegi fékk hann æðardúnsæng sem mamma hafi verið búin að leggja drög að sem gjöf í tilefni dagsins.
Ég varð snemma á unglingsárum svarti sauðurinn undir þaki foreldra minna og við pabbi áttum lítið saman að sælda. Var það langt í frá vegna þess eins að ég strauk úr vinnunni við skókassagerðina. Sumarið 1987 þegar pabbi og systkini mín höfðu búið í mörg ár á höfuðborgarsvæðinu, gerði pabbi sér ferð austur á Djúpavog og hjálpaði mér við að setja þak á húsið okkar Matthildar. Það voru síðustu dagar hans með einhverja heilsu. Hann kom svo aftur fárveikur sumardaginn fyrsta árið eftir, þegar við Matthildur skírðum tvíburana okkar.
Þegar faðir minn varð fimmtugur keyrði ég þvert yfir landið frá Djúpavogi til Reykjavíkur í vondri vetrar færð. Hann var þá á Landspítalanum. Ég kom í heimsókn að morgunnlagi. Hjúkrunarkona benti mér á sjúkrastofuna þar sem hann lá. Það var blásturs niður inni á stofunni, hann lá í rúmi sem var líkast loftpúðum og mér var sagt að væri brunarúm ætlað til að minka snertifleti fyrir þá sem hefðu brennst illa. Þá var hann það illa kominn af krabbameini að bein molnuðu í meinvörpum.
Þegar ég hafði setið inni um stund reyndi hann að tala, orðin komu hægt og á stangli eitt af öðru. Setningin var nokkurn vegin þessi. "Ég ætla að láta þig vita af því að héðan fer ég lóðréttur en ekki láréttur". Faðir minn var þrjóskur maður, hafði lagt allt undir í baráttunni við meinið og ætlaði sér sigur. Ég var því fljótur að átta mig á biturri orðanna hljóman, og sagði; "ég er ekki kominn til að kveðja þig, heldur óska þér til hamingju með daginn. Það létti til á milli okkar feðganna og hann sagði; "Nú, á ég afmæli í dag".
Síðdegis þennan fimmtugs afmælisdag vorum við systkinin öll samankomin hjá honum. Ég gerði mér grein fyrir því þegar við gengum saman út af Landspítalanum um kvöldið að þetta hefði verið í síðasta sinn sem ég sá föður minn og að við hefðum skilið sáttir. Morguninn eftir hélt ég af stað austur á Djúpavog, ásamt yngstu systkinum mínum til að undirbúa jól með Matthildi minni, föður hennar og tæplega eins árs tvíburunum okkar, Sigurði Helga og Snjófríði Kristínu.
Sama ár og Nígeríu draumurinn stóð sem hæðst fermdist ég. Foreldrar mínir bjuggu til forláta fermingarskó samkvæmt nýjustu tísku. Þó þessi mynd sé fengin af netinu og þar af leiðandi ekki af þeim þá voru þeir eins í útliti nema litirnir voru kónga blár og beige hvítur. Það hefði verið gaman að eiga þá í dag, en mér þótti þeir það flottir að ég sleit út úr þeim.
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 03:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.4.2020 | 06:07
Gerviþjóðsaga um aftökustað
Það eru ekki allir sem vakna hvern morgunn með aftökustað fyrir augum. Eitt það fyrsta sem ég rek augun í þegar ég lít út um gluggann er Gálgaásinn með sínum Gálgakletti. Frá því fyrst ég man hef ég vitað af þessum stað, en núna seinni árin hefur hann verið fyrir framan gluggann minn í Útgarðinum. Þarna á Valtýr á grænni treyju að hafa verið tekin af lífi.
Á upplýsingaskilti við klettinn má lesa að; "aldrei hefur nein staðfesting fengist á sanngildi Valtýssögu, önnur en sú að við klettinn komu upp mannabein, sem lágu í óreiðu fram á miðja síðustu öld, en var þá safnað saman, og sett í kassa, með glerloki, sem festur var á klettinn. Árið 1975 gekkst Rotaryklúbbur Héraðsbúa fyrir því að sett var upp skilti á klettinn, en beinakassinn tekinn niður og settur á minjasafnið á Egilsstöðum, og um áratug síðar á Þjóðminjasafnið, þar sem beinin eru nú geymd".
Gálgakletturinn; samkvæmt sögnum var gálginn sex álna tré, sem komið var fyrir uppi á klettinum og látið standa fram af honum, stórir steinar settir sem farg á enda trésins upp á klettinum. En hengingarsnörunni var komið fyrir á þeim enda sem fram af stóð. Þeim dauðadæmda var ýtt með snöruna um hálsinn fram af klettasyllunni framan við klettinn
Nú er ég nokkuð öruggur á því að sannleiksgildi Valtýssögu er ekki síðra en upplýsinganna sem koma fram á skiltinu við klettinn. Allavega minnist ég þess að hafa verið ásamt fleiru ungviði að gramsa í beinum undir Gálgakletti löngu eftir miðja síðustu öld. Ef rétt er munað lágu mannabein undir klettinum fram yfir 1970, þess á milli sem þau voru í umræddum kassa með glerlokinu svo hægt væri að skoða án þess að snerta, því ekki hvíldu beinin í friði þó í kassa með glerloki væru komin, og mátti þá sjá þau þess á milli liggja á jörðu niðri innan um glerbrot og spýtnabrak. Sennilega hefur orsakavaldur þess verið steinn ofan af klettinum.
Einnig er á upplýsingaskiltinu lesning um nánasta umhverfi Gálgaklettsins; "Klettaásinn sem Egilsstaðakirkja og sjúkrahúsið standa á heitir Gálgaás (Gálgás), og það heiti var í fyrstu notað um þorpið sem byggðist á ásnum og við hann um miðja 20. öld. (Sbr. vísu Sigurjóns á Kirkjubæ Glatt er á Gálgaás)". Mig skortir aldur til að minnast þess að þorpið hafi verið kallað Gálgaás þó ég hafi heyrt hvíslað um vísuna hans séra Sigurjóns á Kirkjubæ á unga aldri, sem farið var með eins og mannsmorð. Enda var hún þess eðlis að ekki var talið rétt að kenna byggðina og íbúa hennar við þesskonar skáldskap.
Glatt er á Gálgaás,
Gróa á hverjum bás,
það er nú þjóð legur staður,
engin af öðrum ber,
efalaust þaðan fer,
til andskotans annar hver maður.
Gálgaás voru klettarnir undir kirkjunni kallaðir, gatan við þá fékk síðar nafnið Hörgsás. Á myndinni er Egilsstaðakirkja í byggingu á þeim árum þegar síðuhafi sleit síðustu barnskónum. Útgarður er í byggingu á hæðinni lengst til vinstri og það sést á bak Gálgaklettsins hægra megin við kirkjuna
"Engar heimildir eru um aftökur við Gálgaklett, nema hin landskunna þjóðsaga: Valtýr á grænni treyju, sem víða hefur birst. Samkvæmt henni átti Valtýr bóndi á Eyjólfsstöðum á Völlum að hafa verið saklaus dæmdur fyrir rán og morð er átti sér stað í landi hans, og hengdur á Gálgaás. Valtýr bað guð að sanna sakleysi sitt, og dundu þá fádæma harðindi yfir Austurland, svonefndur Valtýsvetur, sem er getið í fleiri heimildum. Lifðu aðeins 8 kindur á Héraði, segir sagan. Nokkrum árum síðar fannst hinn rétti morðingi, sem einnig hét Valtýr, og var hengdur á sama stað"; texti af facebook síðu Fljótsdalshéraðs.
Í gegnum árin hef ég oft hugleitt sannleiksgildi þjóðsögunnar um Valtý, og lét mig hafa það nú í vetur að lesa skáldsöguna Valtýr á grænni treyju eftir Jón Björnsson. Skáldsagan hefur verið gefin út oftar en einu sinni og fylgir algengustu gerð þjóðsögunnar. Þessi skáldsaga hefur samt aldrei náð vinsældum í heimahögum þjóðsögunnar þó svo að hún fylgi vel þræði hennar og persónur séu gerðar ljós lifandi. Það sem upp á vantar er að höfundur hefur ekki verið staðkunnugur. Því er ýmislegt sem kemur Spánskt fyrir sjónir þeirra sem til staðhátta þekkja.
Þó svo að flestir fræðimenn telji Valtýssögu upplogna skáldsögu og kalli hana í besta falli gerviþjóðsögu í fræðiritum, þá breytir það ekki því að undir Gálgaklettinum lágu mannabein fyrir allra augum fram til 1975. Þetta voru bein tveggja manna, á því fékkst staðfesting eftir að þjóðminjasafnið fékk beinin til rannsóknar. Þetta vissu reyndar flestir Héraðsbúar því í upphafi 20. aldarinnar höfðu verið þarna tvær höfuðkúpur, en með aðra þeirra hafði verið farið á Borgarfjörð eystri snemma á 20.öldinni til að nota við barnakennslu.
Þegar sannleiksgildi Valtýssögu er hafnað ber heimildaleysið hæðst og einnig er það gert með því að skoða þau minni sem fram koma í sögunni, þau tekin til grandskoðunar hvert fyrir sig. Þau eru helst; nafnið Valtýr, græna treyjan, aftakan og Valtýsvetur.
Nafnið Valtýr var ekki algengt á Íslandi sautjánhundruð og súrkál. Nafnið er sagt koma aðeins 7 sinnum fyrir í manntalinu 1703, oftast þó á Austurlandi eða 6 sinnum. Engar heimildir eru samt fyrir því að einhver Valtýr hafi búið á Eyjólfsstöðum, -og reyndar litlar heimildir til um nöfn ábúenda þar í þá tíð.
Hannes Pétursson rithöfundur og fræðimaður í íslenskum og germönskum fræðum hefur rannsakað Valtýssögu og komist að sömu niðurstöðu og dr Guðni Jónsson sagnfræðingur, að um hreina gerviþjóðsögu sé að ræða. Í úttekt sinni bendir hann m.a. á að sagnaminnið um grænu treyjuna sé sennilega komið úr vinsælli þýskri 19. aldar skáldsögu, "Der Grunmantel von Venedig". Þessi saga hafi verið vinsæl þegar þekktasta útgáfa þjóðsögunnar um Valtýr var skráð.
Það hefur samt fundist eldri skráð útgáfa þjóðsögunnar um Valtý en sú hefðbundna, þar sem á grænu treyjuna er einnig minnst og hafa sumir bent á að sú útgáfa sé það gömul að hæpið sé að þýska skáldsagan hafi verið þekkt á Austurlandi á þeim tíma sem sú saga er skráð.
Það sem einkum er talið skorta á sannleiksgildi Valtýssögu er að engar opinberar heimildir hafa fundist um réttarhöld, né dómsorð, hvað þá að aftaka hafi farið fram við Gálgaklett. Þjóðsagan nefnir þó þann sýslumann, eða réttara sagt lögsagnara, sem stóð fyrir rannsókn, réttarhöldum, dómsorði og framkvæmd tveggja aftaka. Sá maður á að hafa verið Jón Arnórsson á Egilsstöðum sem var lögsagnari Hans Wium sýslumanns á Skriðuklaustri sem fór með sýsluvöld í þeim hluta Múlasýslu sem sagan gerist.
Margir hafa svo orðið til þess að leitast við að finna sögunni annan stað í tíma vegna skorts á opinberum heimildum, en samkvæmt þjóðsögunni ættu atburðir að hafa átt sér stað á árabilinu 1769-1783. Þá hafa menn horft til Valtýsvetrar og reynt að finna hann í örófi aldanna. Engar skráðar heimildir lærðra manna eru til um orðið Valtýsvetur fyrir utan ein vísa. Vilja fræðimenn leiða að því líkum að sá vetur hafi annaðhvort verið kallaður Lurkur eða Kollur annarstaðar á landinu.
Vísuna, sem talinn er þessu til stuðnings, orti séra Bjarni Gissurarson í Þingmúla og færð í letur í upp úr 1700 og hefur Valtýsvetur verið reiknaður samkvæmt vísunni aftur til vetrarins 1601-1602 þegar Lurkur geisaði á Íslandi. Þessi vísa er úr ljóðabréfi sr Bjarna þegar hann lét af prestskap 1702 þar sem hann fer yfir ævi sína, en hann er fæddur 1621 og er þarna talin vera að yrkja um það þegar hann hóf prestskap og eru þaðan reiknuð 50 ár aftur til vetrarins Lurks, sem samkvæmt vísunni mun þá hafa verið kallaður Valtýsvetur á Austurlandi. Gallinn við þessa kenningu er samt sem áður sá að engar heimildir eru fyrir dauðadómi Valtýs eða aftöku við Gálgaklett árið 1601, -og hvorki fyrr né síðar, aðrar en þjóðsagan.
Valtýs- grimmi veturinn forðum
var í minnum lengi hér,
rákust þá og rýmdu úr skorðum
Reyðfirðinga bestu kjör.
Eftir þá á ufsafleti
enginn fiskur á neinum vetri
fékkst vel fimmtigi ár;
fór því margur öngul sár.
Leiðin hans Valtýs til aftökustaðarins blasir við úr stofuglugganum mínum. Hún lá frá Egilsstöðum yfir Egilsstaðablá, meðfram Gálgaásnum að Gálgakletti. Sagan segir að það hafi verið bjartur haustdagur, og rétt fyrir aftökuna hafi dregið upp óveðurský sem voru undanfari Valtýsvetrar, "þar kemur sá sem mun hefna mín" á Valtýr að hafa sagt, og síðan "Guð geymi mig en fyrirgefi ykkur"
Það sem hefur valdið miklu um að Valtýssaga sé talin gerviþjóðsaga er sá hluti hennar sem segir frá því að hönd Valtýs bónda hafa verið negld upp á bæjadyraþilið á Egilsstöðum. Þar á hún að hafa þornað og skorpnað í 14 ár þar til Valtýr hinn seki kom óvænt í heimsókn og gekk inn um bæjardyrnar ásamt Jóni lögsagnar. Þá drupu 3 blóðdropar úr hendinni í höfuð Valtýs sem ábending um sekt hans. Frásögnin af hendinni afhöggnu og uppskorpnuðu er talið eitt það sérstakasta sem finna má í íslenskri þjóðsögu og þó víðar væri leitað.
Mörg skáld hafa grúskað í sögunni um Valtý, einn þeirra er Gunnar Hersveinn rithöfundur. Þegar Gunnar var kennari við Menntaskólann á Egilsstöðum hafði hann Gálgaklettinn fyrir augunum út um kennslustofu gluggann. Hann skrifaði þá grein í Sunnudagsblað Moggans um Valtýr á grænni treyju. Greinin hefst á þessum orðum um söguna og þann mann sem þekktasta útgáfa þjóðsögunnar um Valtý er rakinn til:
Þjóðsagan Valtýr á grænni treyju er glæpasaga sögð á snilldarlegan hátt eftir lögmálum frásagnarlistarinnar og formúlu sem margar spennusögur nútímans eru skrifaðar eftir. Valtýssaga var einungis þekkt á Austurlandi og virðist hafa geymst frábærlega vel í samanburði við ýmsar aðrar munnmælasögur. Við rannsókn á handritum hefur komið í ljós að sagnaþulurinn Halldór Jakobsson á Hofi skrifaði sögu sína um Valtý á grænni treyju að beiðni Magnúsar Bjarnasonar árið 1868. (Gunnar Hersveinn / Morgunnblaðið 30. ágúst 1992)
Halldór Jakobsson var kenndur við Hof í Öræfum þar sem hann bjó mest allt sitt líf. Hafi hann verið rómaður sagnaþulur þá eru ekki neinar tilgreindar heimildir fyrir því, frekar en að hann hafi verið rithöfundur annarra glæpasagna. En Halldór ólst upp til 16 ára aldurs á Gíslastöðum á Völlum, sem eru í sömu sveit og Eyjólfsstaðir. Menn hafa ætlað honum að hafa skáldað upp söguna enda er hún lyginni líkust. En þess ber þá að geta að Halldór var að alast upp á Völlum nokkrum áratugum eftir að þeir atburðir eiga að hafa gerst sem sagan greinir frá og hefur hann þá verið áhugasamur grúskari þegar kemur að því hvað sýslumenn voru á Héraði áður en hann fæddist.
Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari er með samhljóða útgáfu af Valtýssögu í sínu safni en þó nokkru nákvæmari í ýmsum atriðum. Enda er Sigfús fæddur og uppalin á söguslóðinni, auk þess sem hann ól þar mestan sinn aldur. Hann fer ekki dult með að styðjast við útgáfu Halldórs af sögunni og hafa fræðimenn ætlað honum að hagræða henni og bæta við frá eigin brjósti. Að minnsta kosti eru til þrár aðrar útgáfur Valtýssögu.
Árið 1977 kom óvænt fram elsta útgáfa Valtýssögu sem rituð var af Sigurði Jónsyni í Njarðvík eftir frásögn Hjörleifs sterka Árnasonar (1760-1831) á Snotrunesi í Borgarfirði eystra. Telja margir að sú útgáfa sögunnar færi hana aftar í tíma, en hún er hjá Halldóri og Sigfúsi. Því þar eru hvorki nafngreindir sýslumenn né sá myrti. En þess í stað þjóðsögunni um eineygu Mórukollu frá Vafrastöðum á Berufjarðarströnd skeytt við og hún færð upp í Kirkjubæ í Hróarstungu svo úr verður hálfgerð þjóðsagna súpa.
Gunnar Hersveinn rithöfundur fellur í sömu gryfju og flestir fræðimenn sem fjallað hafa um þjóðsöguna, þ.e.a. trúa henni ekki vegna þess að opinberar heimildir skortir. Hann telur þó að um ótímasetta sannsögulega skáldsögu sé að ræða. Í grein Gunnars tilgreinir hann mörg örnefni sem finna má á söguslóðum s.s. Valtýshelli í Hjálpleysu, Símonarlág á milli Eyjólfsstaða og Ketilstaða. Það eru reyndar fjölmörg örnefni og munnmæli sem tengjast Valtý í hans heimasveit á Völlum á Héraði sem ekki hafa ratað í þjóðsögur. Má þar nefna Valtýsskot og Valtýstóft í Vallanesi. Gunnar endar grein sína á að koma með tilgátu um hvar silfrið sé falið sem sagt er vera ástæða morðsins í glæpasögunni.
Símon hét sá myrti í Valtýssögu og var hann vinnumaður á Ketilsstöðum hjá Pétri Þorsteinssyni sýslumanni, sem þar bjó en fór með sýsluvöld annarsstaðar í Múlasýslu. Símon á að hafa verið sendur suður á land með silfur til smíða því engin silfursmiður var á þeim tíma í Múlasýslum, þegar hann var komin aftur heim á Hérað var hann stungin 18 hnífstungum og rændur silfurmununum. Það eina sem Símon á að hafa getað stunið upp í vitna viðurvist áður en hann gaf upp andann var "Valtýr á grænni treyju".
Eitt af því sem talið er gegn sannleiksgildi sögunnar er að ekkert er um þessi mál að finna í Ketilstaðaannál Péturs Þorsteinssonar sýslumanns. En þá má jafnframt hafa í huga að ekkert er þar heldur að finna um síðustu aftökuna á Austurlandi sem kolleiki hans á Eskifirði framkvæmdi. Nokkrar söguhetjur Valtýssögu eru nefndar í Ketilsstaðaannál, Símon vinnumaður sýslumannsins á Ketilsstöðum, ásamt Jóni Arnórssyni lögsagnara, auk annálshöfundarins Péturs Þorsteinssonar sýslumanns.
Sjö sinnum er í Ketilsstaðannál, sem spannar árabilið 1663-1792, er getið mannsmorða og aftaka í kjölfar málaferla. Það sem er þó athygliverðast við umgetin morðmál er að ekkert þeirra kemur upp á Austurlandi. Samt var Eiríkur Þorláksson frá Þorgrímsstöðum í Breiðdal tekinn af lífi árið 1786 á Eskifirði fyrir að hafa myrt Jón Sveinsson frá Snæhvammi í sömu sveit, eftir að þeir höfðu í félagi við þann þriðja, Gunnstein Árnason frá Geldingi í Breiðdal, gerst útilegumenn á Berufjarðarströnd.
Það er ekkert einsdæmi að opinberar heimildir skorti fyrir þjóðsögu. Um síðustu aftökuna á Austurlandi væri til fáar heimildir ef ekki væri fyrir bréf sem sýslumaðurinn á Eskifirði sendi til Kansellísins í Kaupmannahöfn til þess að fá undanþágu fyrir því að flytja þann dauðadæmda á alþingi til aftöku. Í bókum sýslumanns frá þessum tíma vantar ekki bara síður um aftökuna sjálfa á Mjóeyri við Eskifjörð, heldur einnig hvað varð um tvo samfanga þess dauðadæmda. En rétt eins og við Gálgaklettinn á Egilsstöðum þá lágu bein tveggja manna fyrir fótum Eskfirðinga undir Hólmatindinum við Borgir langt fram á 20. öldina og þjóðsagan geymdi nöfn hverra manna bein þar voru.
Sautjánhundruð og súrkál er einhver mesta ógnaröld sem íslensk þjóð hefur farið gegnum. Harðir vetur, hafís, hungursneyðir og hallæri voru tímanna tákn, að ógleymdum Móðuharðindunum. Þetta var gullöld útilegufólksins Eyvindar og Höllu, sem talin eru hafa haft það mun betra í sinni útlegð til fjalla en almúginn í byggð. Átakanlegt er að lesa lýsingar þeirra skáldanna, Guðmundar G Guðmundssonar í sögu Fjalla-Eyvindar og Jóns Björnssonar í sögu Valtýs á grænni treyju, þar sem þeir fara yfir tíðarandann í lok sautjánhundruð og súrkál.
Um aldarmótin átjánhundruð var Ísland ofurselt danskri einveldisstjórn og harðsvíruðu verslunarfyrirkomulagi. Aldrei hefur Ísland verið nær því að gefast upp við að halda lífi í þjóð sinni og aldrei hefur sorfið meira að norrænum kynstofni, utan þess er dó út á Grænlandi og í lítt kunnum löndum Norður-Ameríku á fimmtándu og sextándu öld.
Skattheimta af landinu var seld hæstbjóðanda, hvort sem hann var ótíndur fjárkúgari eða siðlaus ribbaldi, aðeins ef kóngurinn fékk sitt. Jafnvel einstök sýsla var þannig seld á leigu misvitrum og misgóðum sýslumönnum, sem dæmdir voru ærulausir annaðhvort ár og lágu, ef svo atvikaðist, í slagsmálum og fylleríi um sjálfan þingtímann á Þingvöllum. Sem hlunnindi höfðu þeir sakareyri, sem þeir dæmdu sjálfir af fórnardýrum sínum, og voru þeir fáu menn, sem heita máttu nokkurnveginn bjargálna, aldrei öruggir fyrir þeim.
Refsilöggjöfin var Stóridómur: Hýðing og brennimark fyrir smá yfirsjónir en skammarlegt líflát fyrir það sem meira var, og við þetta bættist réttleysi í málarekstri og mátti til undantekninga telja, ef maður var sýknaður. (Guðmundar G Guðmundssonar / Saga Fjalla-Eyvindar bls 11)
Þegar sveitungar Valtýs á Eyjólfsstöðum snéru baki við bjargálna bóndanum og löttu ekki sýslumann til þess að losa sveitina við grunaðan morðingja þó svo að sekt væri ekki sönnuð, þá komst Jón Björnsson svo að orði í skáldsögu sinni "Valtýr á grænni treyju":
Lítilmennska er sterkast aflið í mannheimum. Hún vinnur oft stærri sigra en frægustu hershöfðingjar. Hún getur náð slíkum tökum á heilum þjóðum, að þær gleymi sjálfum sér og láti öll sín dýrmætustu djásn af hendi fyrir augnablikshagnað sem þó er ekki annað en blekking.
Lítilmennið ræðst alltaf á garðinn þar sem hann er lægstur. Lotning lítilmennisins fyrir öllu, sem er sterkara en það sjálft, er takmarkalaus. Sönn drengskapartilfinning er því framandi. Það hikar ekki við að fórna vináttu á altari ágirndar og öfundsýki, en fóðrar þó alltaf gerðir sínar með tilliti til almenningshagsmuna.
Sannleikur og lygi eru innihaldslaus hugtök í augum lítilmennisins. Það notar lygina í hvert skipti sem hagnaðarvon er fyrir það sjálft og virðist ekkert hafa við það að athuga. Lygin verður að sannleika í augum smámennanna, þegar hún getur fullnægt hagnaðarvon þeirra. (Jón Björnsson / Valtýr á grænni treyju bls 184)
Gálgakletturinn að baka til; steinarnir sem liggja t.h., og eru nú að hverfa ofan í svörðinn, má ætla að séu þeir steinar sem notaðir voru til að fergja gálgatréð. Þeim var velt niður af klettinum eftir 1960. Margt bendir til að Gálgaklettur sé forn aftökustaður. Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari sagði að beinin sem voru undir Gálgakletti séu af Jóni skarða og Valtý hinum seka. Hann segir að Jón skarði hafi lagst út eftir að hafa verið dæmdur sekur fyrir sifjaspell og hafi leynst í Hrafnavík, sem er skammt innan við Egilsstaði, við fljótið niður af Höfða
Jón Arnórsson var lögsagnari Hans Wium sýslumanns á Skriðuklaustri í Fljótsdal, Jón hafði aðsetur á Egilsstöðum. Lögsagnari var þeirra tíma fulltrúi sýslumanns. Það var Jón sem þjóðsagan segir að hafi dæmt báða Valtýana sem tóku út sinn dauðadóm við Gálgaklett. Eitt af því sem haldið hefur verið á lofti við að rýra sannleiksgildi sögunnar um Valtýr á grænni treyju, er að samkvæmt þekktustu gerð hennar liðu 14 ár á milli aftaka. En samkvæmt skráðum heimildum þá var Jón Arnórsson á Egilsstöðum lögsagnari í einungis 9 ár, eða frá því 1769 -1778, þá fékk hann sýslu á Snæfellsnesi. Svona getur nú snilldarlega sögð glæpasaga auðveldlega verið hrakin þegar farið er að kanna sannleiksgildið samkvæmt skráðum heimildum.
Um Hans Wium má þessu við bæta að hann mun hafa fengið sýsluembætti sitt í arf eftir föður sinn Jens Wium, sem var danskur, og á að hafa keypt sýslumannsembætti yfir hluta Múlasýslu á 300 ríkisdali án þess þó að hafa hundsvit á lögum. Hann réði því lögsagnara upp á formlegheitin. Endalok Jens sem sýslumanns og lögsagnara hans voru þegar þeir hurfu á dularfullan hátt í Seyðisfirði, lögsagnarinn fannst dauður en Jens aldrei. Út af Jens Wium er komið fjölmargt ágætis fólk á Íslandi, þess á meðal síðuhafi.
Hans Wium fékk fleira í arf eftir Jens föður sinn en sýsluna. Hann fékk hin svo kölluðu Sunnevumál. Sunneva var ung stúlka úr Borgarfirði eystri sem hafði eignast barn í lausaleik er hún kenndi manni sem sór fyrir barnið. Hún breytti þá framburði sínum og kenndi barnið Jóni bróður sínum. Systkinin voru Jónsbörn en voru þegar þetta gerist komin í fóstur hjá bónda í Geitavík í Borgarfirði eystri, Sunneva 16 ára og Jón 14 ára.
Þau systkinin voru flutt upp í Fljótsdal til Jens sýslumanns sem dæmdi þau umsvifalaust til dauða. Nokkrum dögum eftir dauðadóminn hvarf Jens sýslumaður í Seyðisfirði. Nokkru síðar tók Hans sonur hans við sýslu og Sunnevumálum, sótti hann um náðun til konungs til handa systkinunum og sluppu þau við að dauðadómnum væri framfylgt vegna ungs aldurs.
Sunneva var sögð forkunnarfögur, þá fegurst kvenna á landi hér; segir þjóðsagan. Eignaðist hún fljótlega annað barn í Fljótsdalsvistinni þá 19 ára gömul. Þá feðraði hún barnið Hans Wium sýslumanni. Sagt var að Hans hafi fengið Sunnevu til að breyta um framburð og kenna bróður sínum frekar um aftur. Hans á að hafa reynt að telja henni trú um að þau systkinin myndu sleppa enn á ný við harðann dóm vegna ungs aldurs.
Jón bróðir Sunnevu viðurkenndi ekki líkamlegt samræði við systur sína en sagði að ef Sunneva segðu svo yrði svo að vera. Hann meðgekkst barnið eftir dauða Sunnevu, sem hafði áður snúist hugur og haldið sig við að Hans væri faðirinn. Hún á að hafa sagt að hann hefði hrætt hana til að kenna Jóni barnið. Þjóðsagan segir að Jón hafi misst viljann til lífsins eftir að Sunneva systir hans var öll. Jóni hlotnaðist þó ekki aftaka samkvæmt lögum. Dauðadómi var breytt í ævilanga þrælkun á Brimarhólmi. Fyrir játningu og afdrifum Jóns Jónssonar skortir ekki skráðar opinberar heimildir.
Þjóðsagan segir svo um dularfullan dauða Sunnevu, að Hans Wíum sýslumaður hafi farið með hana frá Skriðuklaustri að næturlagi, komið henni fyrir í poka og drekkt í Sunnevuhyl í Bessastaðaá. Þetta er náttúrulega bara heimildalaus gerviþjóðsaga yfir örnefni. Til er landsfræg þjóðvísa, sem lifað hefur í gegnum aldirnar, sem á að vera um heimferð Hans Wíum frá hylnum í Bessastaðaá þessa nótt.
Týnd er æra, töpuð er sál,
tunglið veður skýjum;
Sunnevunnar sýpur skál
sýslumaður Wíum.
Svona er nú þjóðsagan áreiðanleg þegar að er gáð og hún borin saman við skráðar heimildir. Þá stendur varla steinn yfir steini. Þó svo að mannbein liggi undir Gálgakletti og gálgasteinar þar við hlið, þá er þar um að ræða gerviþjóðsögu. En fram hjá því verður ekki komist að hún og örnefnið eru oft einu heimildirnar um stað og atburð honum tengdur.
Það er bæði gömul saga og ný að opinberar heimildir yfir óhæfuverk veraldlegs valds eiga það til að glatast. En staðreyndin er að hvorki fyrr né síðar hefur sannleikurinn verið annað en lyginni líkastur, nema að með hann hafi verið misfarið í málatilbúnaði. Það liggur því beinast við að trúa gerviþjóðsögunni af Valtý á grænni treyju.
Heimildir;
Facebook - gamlar ljósmyndir; Gálgaás, Egilsstaðakirkja og Gálgaklettur (sennilega tekin af Edmund Bellesen sem sveif um á svifi yfir Héraðinu í kringum 1970)
Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar
Þjóðsögur Jóns Árnasonar
Úr manna minnum - greinasafn um íslenskar þjóðsögur; Gluggað í "gerviþjóðsögu" / Hannes Pétursson.
Múlaþing 26-1999; Valtýr á grænni treyju/Jón Sigurðsson - Valtýr á grænni treyju/Indriði Gíslason - Þessi mun hefna mín/Páll Pálsson
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3289854&lang=1
https://timarit.is/page/1770511#page/n16/mode/2up
Haustskip/Björn Th Björnsson
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 06:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
20.2.2020 | 20:20
Skyldi karl helvítið vera að villa um fyrir mér
Þar sem þjóðvegur eitt liggur úr efra niður í neðra, á milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar, er Eyvindarárdalur skammt fyrir ofan Egilsstaði. Um þessar slóðir hefur þjóðvegur þeirra í efra legið niður í neðra frá örófi alda. Svolítið áður en farið er upp á Fagradal er áningastaður Vegagerðarinnar. þar sem kallað er Hnúta. Skilti eru gengt Kálfshól, -sem er austan Eyvindarár, rétt norðan við Hnútuna og rétt ofan við Vopnalág, -og eru þau með sögulegum fróðleik.
Í Eyvindarárdölum er stutt vegalengd í flesta staði í neðra og hafa verið uppi hugmyndir að þarna væri staður fyrir "samgöng" þ.e. jarðgöng sem tengja flesta þéttbýlistaði á Austurlandi. Eða réttara sagt það efra niður í neðra, því eins og gamli Héraðsbúin sagði þegar hann fyrst kom niður í ónefndan fjörð, þá kom honum það mest á á óvart hvað stutt var til allra átta.
Það á að hafa verið galdramaðurinn Dalhúsa-Jón, sem kom nafninu á hólinn, þegar hann rak hvalkálf úr Mjóafirði upp á Hérað. Reyndar eru sögurnar af því tvær og í annarri eru hvalkálfarnir tveir, og þá úr Eskifirði. Í báðum sögunum er galdramaðurinn með einn strák með í för sem fer á undan með hvalkálfana í taumi með þau fyrirmæli frá Jóni, sem á eftir rekur, að hann megi alls ekki líta til baka. En það gat strákurinn náttúrulega ekki stillt sig um og leit til baka við Kálfshól, sem er skammt fyrir innan Dalhús og stöðvaðist þar reksturinn. Heitir hóllinn síðan Kálfshóll samkvæmt þjóðsögunni.
Eins og skilti Vegagerðarinnar greina skilmerkilega frá er Kálfshóll til sem þekktur sögustaður með sama nafni löngu fyrir tíma Dalhúsa-Jóns. Þar sat goðinn Helgi Ásbjörnsson fyrir Helga og Grími Droplaugarsonum, ásamt mönnum sínum, Þegar þeir bræður komu ásamt sínu liði yfir Fönn frá Nesi í Norðfirði. Er frá þessu skýrt í Droplaugarsonasögu og hét því staðurinn þegar Kálfshóll á söguöld.
Þarna kom til bardaga, féllu Droplaugarsynir ásamt fleirum. En Grímur reyndist með lífsmarki þegar líkin höfðu verið flutt til bæjar, var hann græddur fyrir tilstilli Gróu frænku sinnar á Eyvindará og hefndi síðar Helga bróður síns með því að drepa Helga Ásbjörnsson. Upplýsingaskiltin við áningastað vegagerðarinnar greina frá þessari sögu.
Á Kálfshól var seint og síðar meir byggður bær, en þar var aðeins búið í stuttan tíma. Bærinn mun hafa verið byggður 1850 og þar búið til 1864, eftir það voru hús nytjuð sem beitarhús frá Dalhúsum. Það má vel ímynda sér að sunnan undir Kálfshólnum hafi verið skjólgott bæjarstæði fyrir norð-austan áttinni, en landlítið og stutt til allra átta undir snarbrattri Gagnheiðinni, niður að Eyvindaránni. Bærinn var austan við á og stóð á milli Dalhúsa og Þuríðarstaða en allir þessir bæir eru nú löngu komnir í eyði og hafa sennilega alla tíð talist til kotbæja.
Það var Magnús Jónsson frá Kollstaðagerði sem byggði upp á Kálfshóli með seinni konu sinni Þuríði Árnadóttur frá Sævarenda í Loðmundarfirði. Magnús hefur þar búið um fimmtugt og á sextugaldrinum, en Þuríður hátt í tuttugu árum yngri. Þuríður átti eina dóttur fyrir búskap þeirra sem ólst upp hjá föður sínum Gísla Nikulássyni sem bæði bjó á Dalhúsum og síðast á Þuríðarstöðum. Magnús var ekkjumaður og átti fjögur börn með Guðnýu Bjarnadóttir fyrri konu sinni, tvö barna þeirra fylgdu honum í Kálfshól. Þuríður og Magnús eignuðust 6 börn saman. Árið 1860 varð Magnús úti á Eskifjarðarheiði og bjó Þuríður í Kálfshól eitt ár eftir það ásamt börnum þeirra.
Næstu og jafnframt síðustu ábúendurnir á Kálfshól voru hjónin Bjarni Eyjólfsson, og Eygerður Gísladóttir. Þau voru bræðrabörn og áttu 8 börn. Vorið 1861 fluttust þau að Kálfshóli og eru skráð þar þrjú ár. Búskap lauk þar er þau fluttust á brott vorið 1864. Fjölskyldan dreifðist við brottför frá Kálfshóli. Á Kálfshóli voru síðan beitarhús frá Dalhúsum uns búskap lauk í Dalhúsum vorið 1945.
Ævi fyrsta ábúandans á Kálfshól var um margt raunaleg. Magnús Jónsson var grunaður um að hafa verið valdur að mannshvarfi 24 ára gamall, og virðist hafa mátt þola morðgrun alla ævi. Magnúsi er svo lýst, að hann væri vel meðalmaður á hæð, en fremur grannur og krangalegur. Einfaldur var hann mjög, og margt fákænlegt skraf eftir honum haft. Hann var ódjarflegur í framgöngu og flóttalegur; eða svo segir svæsnasta þjóðsagan. Í sálnaregistri Vallneskirkju er Magnúsi aftur á móti lýst í stuttu máli geðhægur, ekki illa að sér.
Haustið 1826 fóru Vallamenn í löggöngur í Reyðarfjarðadali; þ.e. austur fyrir Egilsstaðaháls yfir í Eyvindarárdal og dalina þar inn af, Hvíslar-, Fagra-, Svína- og Slenju-dali. Fénu var smalað vestur fyrir Egilsstaðaháls. Að smalamennsku lokinni var safnið réttað í Höfðarétt. Þar kom í ljós að hluti fársins var úr Eiðaþinghá og var ákveðið að reka það austur fyrir háls í Dalhús sem var þá innsti bær í Eiðaþinghá.
Til þess rekstrar voru fengnir Magnús og Nikulás Eyjólfsson 15 ára gamall frá Gíslastöðum. Þeir fóru frá Kollstaðagerði, þar sem Magnús átti heima hjá foreldrum sínum. Bæði í smalamennskunni og áður en þeir lögðu af stað í Dalhús hafði Nikulás strítt Magnúsi svo að hann reiddist. Hafði Magnús m.a. reytt prik til höggs að Nikulási og þegar hann forðaði sér hótað hann að jafna málin seinna.
Magnús kom svo einn heim í Kollstaðagerði eftir að þeir Nikulás höfðu skilað fjárrekstrinum í Dalhús. Hann sagði að Nikulás hefði ætlað strax heim í Gíslastaði og fara stystu leið inn Aura, eftir fjallgarðinum sem skilur að Héraðið og Reyðarfjarðadali. Daginn eftir kom í ljós að Nikulás hafði ekki skilað sér í Gíslastaði og var þá farið að leita, og ganga á Magnús hvar nákvæmlega þeir hefðu skilist að, kalt hafði verið í veðri og bleytu slydda. Magnús benti leitarmönnum á staðinn. Þar fyrir innan voru blautir leiraurar en engin spor finnanleg eftir Nikulás.
Mikil leit fór fram af Nikulási, en ekki fannst hann, yfirheyrði sýslumaður Magnús í framhaldinu án frekari eftirmála. Í prestþjónustu bók Vallanessóknar er skráð að 19. september árið 1826 hafi Nikulás Eyjólfsson frá Gíslastöðum orðið úti á Aurunum í kulda-slagveðri og ekki fundist.
Ýmislegt varð til að Magnús mátti búa við morðgrun, m.a. er til saga af því að systir Nikulásar, sem var veik á geði og flakkaði um sveitir, hefði komið í Kálfshól á meðan Magnús bjó þar. Sá hún þar silfurhnappa á treyju Magnúsar og sagði; þetta eru hnappar af treyju Nikulásar bróður míns. Á hún að hafa sagt frá þessari heimsókn víða.
Viðhorfið til Magnúsar kemur kannski berlega fram í umsögn Níelsar Sigurðssonar pósts sem fann Magnús dauðan eftir að hann hafði orðið úti á Eskifjarðarheiði vorið 1860. Í sögum Landpóstanna er m.a. haft eftir Níels; skyldi karl helvítið vera að villa um fyrir mér. Níles hafði villst í þoku á heiðinni sumarið 1860. Gengið í hringi þannig að hann kom aftur og aftur að sama stað og varð þá hugsað til Magnúsar sem nýlega hafði týnst á heiðinni. Níels sá síðan þar í þokunni þúst og var þar lík Magnúsar sitjandi með baggann við bak undir stórum steini, skreið þá orðið maðkurinn inn og út um vitin.
Í Grímu hinni nýju, safni þjólegra fræða íslenskra, eftir Þorstein M Jónsson frá Útnyrðingsstöðum er hvarfi Nikulásar og raunum Magnúsar í framhaldi þess gerð góð skil. Þorsteinn segir þar frá því að hann hafi fengið skýringu á því hvað varð um Nikulás. Það gerðist þegar hann var ásamt Gunnari Jónssyni sjúkrahúsráðsmanni á Akureyri á ferð á Héraði sumarið 1935 meira en 100 árum eftir hvarf Nikulásar.
Þeir voru þá að koma í Útnyrðingsstaði að kvöldlagi til að gista og Gunnar spurði Þorstein hvort einhver vissi hvað um Nikulás varð. Það sagðist þorsteinn ekki vita og efaðist um að nokkuð mundi um það vitnast eftir öll þessi ár. Þá segir Gunnar; það veit ég. Hann segir honum svo frá því Helga Bjarnadóttir á Gunnlaugstöðum hafi frætt sig um það en hann hafi ekki mátt segja frá því fyrr en Helga væri dáin, sem hún þá var.
Faðir Helgu hafði flutt í Kollstaðagerði, næst á eftir búsetu foreldra Magnúsar þar, þegar hún var lítil stúlka. Helga sagði Gunnari að hún hafi verið send einn morgunn til að vitja um silunganet í Kollstaðagerðis tjörninni og þegar hún var að draga netið var það óvenju þungt. Þegar hún hafði dregið það að bakkanum var í því beinagrind af manni í fataleyfum. Henni sagðist strax hafa komið Nikulás í hug en losað beinagrindina úr netinu með stjaka, sem síðan hvarf í tjörnina. Yfir þessu hafði hún þagað vegna þess að svo oft hafði hún heyrt áburðinn á Magnús að hún treysti sér ekki til að segja frá þessu svo hún lenti ekki í vandræðum vegna fundarins, þó svo meira en aldarfjórðungur hafi þá verið liðin frá hvarfi Nikulásar.
Helga var mikil og grandvör merkiskona á Völlum um sína daga, m.a. lengi yfirsetukona Vallamanna. Þorsteinn ber þetta svo í tal við sína nánustu og þá segir Guðlaug systurdóttir hans honum frá því að þetta hafi henni sagt af Þuríði í Arnkelsgerði, sem hafði þetta eftir Helgu með sama formála og Gunnar; að ekki hafi mátt segja frá þessu fyrr en eftir dauða Helgu. Þorsteinn telur alveg víst í Grímu að Magnús hafi verið saklaus af morðáburðinum.
Það megi merkja á þeim persónuleika sem Magnús hafði að geyma samkvæmt samtíma lýsingum, hann hafi verið laus við illsku og allt undirfeli. Líklegra sé að Nikulás hafi hætt við að stytta sé leið inn fjall þegar hann kom að drullunni á Aurnum í krapahríð og kulda. Þess í stað ákveðið að fara á eftir Magnúsi heim í Kollstaðagerði en með einhverju móti lent í tjörninni í myrkri og hríð, eða jafnvel niður um ísskæni.
Það verður seint sagt um Kálfshól að þar sé gæfulegt bæjarstæði en hvort að þarna í nágreninu sé gott vegstæði úr efra í neðra skal ósagt látið. Stutt fyrir utan Kálfshól eru Dalhús. Þar hafa verið gerðar athuganir á því hvort rétt sé að láta næstu og stærstu göng Íslandssögunnar, Seyðisfjarðargöng, koma upp í efra.
Enn eru á sveimi eldri hugmyndir um að gera jarðgöng úr Seyðisfirði yfir í Mjóafjörð og úr Mjóafirði yfir í Norðfjörð og tengja svo neðra upp í efra með göngum úr Mjóafirði upp í Hérað. Svo eru það allra nýjustu gangnahugmyndir sem ganga út á sömu göng en hafa tenginguna í Eskifjörð úr efra í neðra. Báðar þessar leiðir fór Dalhúsa-Jón með hvalkálfareksturinn sem stoppaði við Kálfshól.
Landsins-saga | Breytt 21.2.2020 kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2020 | 06:22
Smalinn - 5. hluti endir
Rétt er að slá botn í þjóðsöguna um smalann, sem átti ekki sjö dagana sæla "út um græna grundu", með því að gera lífshlaupi þess manns skil er mátti þola að ævin snérist um hvarf tveggja smaladrengja og lauk lífinu sennilega með hjartaáfalli.
Páll Pálsson bókbindari var sagður bæði atgerfis- og gáfumaður um sína daga, þó svo að ekki sé hægt að segja að gæfan hafi verið honum hliðholl. Sr. Sigmar Torfason fyrrum prestur á Skeggjastöðum á Langanesströnd og prófastur N-Múlasýslu gerði örlitla leiðréttingu við hvimleiða prentvillu í ártali, sem kom fram í grein Hólmsteins Helgasonar um Tungu-Brest, í tímaritinu Súlum í næsta tbl. á eftir grein Hólmsteins. Þar bætir Sigmar um betur og rekur æviferil Páls eftir því sem hægt er samkvæmt skráðum opinberum heimildum og er sá ferill nokkuð í takt við Þjóðsöguna.
Páll er talinn fæddur í Bakkasókn í Öxnadal árið 1818, þó er hann sagður fæddur í Illugastaðasókn í Fnjóskadal samkvæmt Ættum austfirðinga. Hann elst upp hjá foreldrum sínum m.a. að Hraunshöfða í Öxnadal þangað til þau yfirgefa Norðurland og flytja austur á Hérað, nokkru eftir hvarf Þorkels. Foreldrar hans koma fram í manntali í Sauðhaga á Völlum 1835 en þá er Páll 17 ára skráður sem léttadrengur í Geitagerði í Fljótsdal. Hann er skráður vinnumaður á Ketilsstöðum á Völlum um og upp úr 1840, eftir það virðist hann hafa synjað fyrir barn, Helga Pálsson síðar talinn vera staddur í Papey.
Samkvæmt Ættum Austfirðinga er hann á Freyshólum Völlum 1842 og kvænist þá Guðrúnu Einarsdóttir, Ásmundssonar bónda á Stóra-Sandfelli í Skriðdal, þau eru sögð eiga tvö börn saman Einar og Ingibjörgu. Einhverra hluta vegna flytur hann af Völlum á Héraði 1848 að Áslaugarstöðum í Vopnafirði. Skráður bókbindari á Þorvaldsstöðum í Vopnafirði 1850. Húsmaður og síðar bókbindari á Breiðumýri í Vopnafirði. Guðrúnar konu hans er þar hvergi getið í manntölum og hans ekki sem ekkjumanns.
Úr Vopnafirði flyst hann í Viðvík á Langanesströnd og kvænist þar Önnu Sæmundsdóttir frá Heiði á Langanesi þann 23. ágúst 1852, Páll er þá 34 ára, en Anna 20 ára. Anna lést af barnförum í nóvember 1852, þannig að stutt var sambúð þeirra. Páll og Anna áttu fyrir hjónbandið saman son sem hét Stefán sem ólst upp hjá Friðfinni og Ingibjörgu á Gunnarsstöðum á Langnesströnd, eftir fráfall Önnu dvelur Páll að mestu í Vopnafirði, þar til hann flytur aftur á Langnesströnd í Gunnarsstaði.
Þriðja kona Páls varð svo Helga frá Gunnarsstöðum, dóttir þeirra Friðfinns og Ingibjargar sem ólu upp Stefán son Páls og Önnu. Þau Helga voru gefin saman 12. ágúst 1857, Páll þá 39 ára en hún 18 ára. Þau áttu saman fjögur börn, Hólmfríði, Guðríði, Pál og Pál Eirík. Páll virðist einungis hafa verið með búskap þann stutta tíma sem þau Helga þoldu við í Kverkártungu, en annars verið í hús- og vinnumennsku á bæjum á Héraði, Vopnafirði og Langanesströnd, eða þá sem bókbindari enda oftast kenndur við þá iðn.
Í handritspunktunum sem Sigfús Sigfússon styðst við í sögu sinni af Tungu-Bresti, segir svo frá síðustu ævi árum Páls:
Eitthvað fór í ólag um hjónaband þeirra Páls og Helgu, enda voru þau að ýmsu ólík. Hann var hreinlátur og þrifinn en hún óþrifin mjög en dugleg. Þau voru ekki lengi saman. Þá skildu samvistir. Ekki veit Þóra hvort það var sakir ósamlyndis eða sökum fátæktar eftir samkomulagi. Hún fór þá vorið 1863 vinnukona að Hamri í Selárdal í Vopnafirði og var þar tvö ár og síðan önnur tvö ár á Þorvaldsstöðum í Selárdal hjá Stefáni Jónssyni er þar bjó kvæntur. Áttu þau barn saman 2. júlí 1867 er Friðrik hét. Var hún þá látin fara burtu og var hún þá á Refstað næsta ár. En vorið 1868 fór hún að Eyjólfsstöðum á Völlum með Friðrik son sinn, en Páll fór þá norður á Strönd í átthaga sína 7 ára(?).
Skömmu síðar fór hún þá aftur norður á Strönd og tóku þau Páll þá aftur saman og voru í húsmennsku í Miðfjarðarnesseli. Þar voru þau 1872-3. Varð hún þá þunguð af völdum Páls. Vorið 1873 ætlaði Páll austur í Vopnafjörð og kom þá áður að Miðfirði og hitti húsmóðurina Matthildi að máli og sagði henni frá ferð sinni, Matthildur var yfirsetukona. Páll sagði henni að óvíst væri að hann kæmi bráðlega aftur. En Helga mundi innan skamms verða léttari. Bað hann hana að sitja yfir henni og ef barnið yrði sveinbarn skyldi hún láta það heita Þorstein Eirík. En ef það yrði meybarn skyldi Helga ráða nafninu. Fleiri ráðstafanir sagði hann Matthildi eins og hann byggist við að koma alls ekki aftur. Þóra heyrði samtal þeirra og varð það minnisstætt.
Síðan fór Páll aftur austur í Vopnafjörð og fékk gistingu á veitingahúsi í kauptúninu og hélt þar til í tvær-þrjár nætur og drakk allmikið, enda var hann nokkuð drykkfelldur. Síðasta morguninn vildi hann ekki vín smakka en fór út í Leiðarhöfn að hitta Andrés Nielssen er þar bjó. Var vinfengi milli þeirra. Bað hann Andrés að lofa sér að deyja hjá honum, þess mundi ekki langt að bíða því hann væri orðinn kaldur upp að hnjám. Andrés tók því vel að veita honum gistingu þó hann byggist ekki við svo bráðum dauða hans. Páll lagðist þá fyrir og var hlúð að honum en kuldinn færðist upp eftir honum þrátt fyrir það og dó hann um nóttina .
Páll andaðist 2.júlí 1873 þá 55 ára, hann var jarðsettur á Hofi í Vopnafirði 11. júlí, þremur dögum seinna þann 14. fæddi Helga þeirra fjórða barn sem hlaut nafnið Páll Eiríkur.
Þráðurinn í þessari sögu um þá bræður Pál og Þorkel liggur víða og við það grúsk birtust myndir af harðneskjulegum aðstæðum fátækra barna fyrr á tímum. Ein af þeim þjóðsögum, sem landsfrægar urðu um mál þetta var Guðbjargar-draumur. Um hann er til kvæðabálkur sem lýsir draumi móður þeirra bræðra þegar hún lánaði Sigurði á Þverbrekku Þorkel son sinn, sem smala.
Til að fá heillega mynd um ævi og örlögum Páls þarf að leita vítt og breitt um þjóðsögurnar, þó svo þær hafi ekki verið á einu máli um orsakir reimleikanna í Kverkártungu, og í þeim sé hvergi getið orsaka Tungu-Brests, sem lifðu í munnmælum á Langanesströnd fram á daga internetsins. Saga Þorkels er skilmerkilega skráð í bókinni Sópdyngju og þó svo að þar sé um að ræða þjóðsagnasafn byggt á munnmælum þá er þar samhljóma texti úr skjali, sem notaður var í eina opinbera réttarhaldinu er fram fór vegna hvarfs smalans.
Heimildir:
Þjóðsagnasafn Sigfúsar Sigfússona (þrjár sagnir þ.a. Guðbjargardraumur)/ Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar (þrjár sagnir) / Þjóðsögur Jóns Árnasonar (tvær sagnir) / Gráskinna hin meiri (ein saga) / Að vestan (ein saga) / Rauðskinna (ein saga) / Reimleikar, Árni Óla / Fátækt fólk, Tryggvi Emilsson / Annáll 19. aldar, sr. Pétur Guðmundsson / Langnesströnd.is / Sveitir og jarðir í Múlaþingi /Súlur 3. árg, Hólmsteinn Helgason / Súlur 4. árg, sr. Sigmar Torfason (Geymdar stundir IV-Ármann Halldórsson)/ Dagur 44.tbl 30.10.1924, Ingimar Eydal / Dagur 3.tbl. 17. 01. 1935, Ólafur Jónsson / Sópdyngja I bindi