Færsluflokkur: Landsins-saga

Aum þjóð - hýdd og smánuð

Það mætti ætla að alþýða landsins hafi verið svo varnarlaus og aum að valdsmenn hafi vaðið yfir fólk að vild með lögin ein að vopni. Þar til komu fjölþjóðlegir mannréttinda dómstólar, sem fólk gat áfrýjað órétti sínum í gegnum lögfróða, og fengið uppreist æru eftir dúk og disk. Í þjóðsögunum má samt finna frásagnir af því hvernig alþýðu fólk lét valdsmenn finna fyrir því á þann hátt að aumt hefði þótt til afspurnar.

Í þjóðsagna safni Sigfúsar Sigfússonar segir frá Bjarna Einarssyni sem bjó á 18. öld á Bárðarstöðum í Loðmundarfirði, Austdal í Seyðisfirði og á Krossi í Mjóafirði og jafnvel víðar. Í þjóðsögunni er Bjarni sagður eiga Snjólaugu systir Hermanns í Firði, en í Ættum Austfirðinga er kona Bjarna talin Guðný dóttir Péturs Nikulássonar á Breiðavaði og Snjófríðar systur Hermanns í Firði.

Bjarni var talinn göldróttur sjónhverfingamaður og greina sagnir Sigfúsar flestar frá því hvernig hann leyndi suðaþjófnaði hvað eftir annað, m.a. með því að fá þann sem hann stal frá til geyma sauðina.

Sigfús segir svo frá viðskiptum Bjarna við Jón Arnórsson sýslumann á Egilsstöðum, sem sennilega hefur þá verið það sem kallað var lögsagnari Hans Wium sýslumanns. Nokkurskonar sýslufulltrúi dagsins í dag, sem í þá daga rannsakaði mál, gaf út ákæru og dæmdi, auk þess að sjá um að dómi væri fullnægt.

Það var á fyrri árum Bjarna í Austdal að sagnir segja það að Jón sýslumaður Arnórsson hafi dæmt frændkonu Bjarna til hýðingar fyrir ólöglegan barnsgetnað. Hún var í Mjóafirði og þótti mörgum of harður dómurinn. Bjarni bauð að gjalda fé fyrir hana en við það var alls eigi komandi og kom sá orðrómur í ljós að óþarflega harður þætti dómurinn.

En hvað sem í því var satt lét sýslumaður fullnægja dómnum og var stúlkan hýdd vægðarlaust. Þetta sveið Bjarna mjög. Svo segja menn að þegar sýslumaður reið upp yfir frá hýðingunni með fylgjara sínum þá sat Bjarni fyrir honum. Bjarni gerði fylgdarsvein sýslumannsins aðvaran um það að heillavænlegast væri fyrir hann að fara leið sína. Trúði hann að svo mundi vera og hélt áfram nokkurn spöl og beið þar. En Bjarni greip annarri hendi fyrir brjóstið á sýslumanni og spyr um málsúrslit.

Hann sagði sem var og heimtar að Bjarni sleppi sér. -"Nei," sagði Bjarni, "en hafið þér nú gert rétt í þessu gagnvart mannúðarskyldu yðar." - "Lögin heimila það," segir sýslumaður, "eða hvað viltu, kotungurinn, kenna mér réttarganginn?" - „Eigi vil ég það en rétt minn og minna vil ég hafa af yður sem öðrum," segir Bjarni, "og eigi óþarfa harðbrýstni. Menn batna ekki við hana." - "Ég dæmi rétt lát mig lausan," segir sýslumaður og ætlar að slíta sig frá honum, en það tjáði eigi. - "Ekki nenni ég að sleppa yður svo að ég geri yður eigi áður áminningu," segir Bjarni, "og mun ég nú dæma yður á líkan hátt og þér dæmduð lítilmagnann. Skuluð þér nú reyna hversu sú hýðing er mjúk. Þér eruð ekki saklausari en stúlkan."

Eftir þetta kippti hann sýslumanni af baki og hætti eigi fyrri en hann hafði hirt hann á sama hátt og hann hafði látið hirta frændkonu Bjarna áður. Skildu þeir svo og er sagt svo að sýslumaður rétti þar aldrei hlut sinn. (Þjóðs. Sigfúsar Sigfússonar V bindi bls. 328-329)


Hvernig auðnuleysingi er gerður að féþúfu

Um Mjófirðinginn Hermann í Firði eru til margar þjóðsögur og þótti hann bæði göldróttur og viðsjárverður. Í Múlaþingi 32 – 2005 hefur Vilhjálmur Hjámarsson tekið saman ítarlegt efni af málskjölum sem til er um réttarhöld sem fram fóru í Firði árið 1813. En þar segir frá örlögum Eiríks Ólafssonar tvítugs manns sem verið hafði hjá héraðshöfðingjanum Hermanni Jónssyni í Firði. Hermann kærði hann fyrir að stela frá sér mat og kom Eiríkur fyrir sýslumann sem dæmdi hann til hýðingar og fjársektar, sem ekki var um að ræða að gæti hann greitt.

Þetta leiddi til þess að Eiríki var komið í geymslu hjá Sveini bónda og hreppstjóra á Krossi í Mjóafirði til gæslu á meðan fjársektin var ógreidd. Þó svo Sveinn hreppstjóri þyrfti að fæða Eirík þá fékk hann ekkert tillegg til þess frá ríkinu þ.e. sýslumanni, enda þeir gerðir að hreppstjórum sem voru þokkalega efnaðir og það voru hjónin á Krossi. En ekki mátti hreppstjórinn notast við Eirík til vinnu. Sveinn kom Eiríki fyrir i ókleyfum hamravogi niður við sjó handan fjarðar gengt Krossi svo hann slippi ekki úr haldinu og hugðist fá bóndann á Eldleysu til fóðra hann fyrir sig þar, þetta gerði hann samkvæmt ráðum sýslumanns.

Eiríkur slapp úr haldinu og lagðist í flakk upp á Hérað þar sem hann varð að stela sér til matar, náðist svo þar og var skilað til Sveins á Krossi sem hafði hann þá heima við, en þaðan slapp hann stuttu seinna og lagðist þá í flakk á Norðfirði þar dæmdi sýslumaður hann til enn frekari fjársekta og þrælkunarvinnu "í hinu íslenska fangelsi" og til greiðslu málskostnaðar. Síðan er Eiríkur aftur sendur til Sveins bónda og hreppstjóra á Krossi til varðveislu uns hægt verði að fullnægja þrælkunnar dómnum "í hinu íslenska fangelsi".

Þann vetur tók Sveinn upp á því að láta Eirík vinna með heimilisfólki á Krossi m.a. við sjóróðra og virðist það hafa orðið til þess að Eiríkur var til friðs, enda má ætla að í staðinn hafi hann fengið fæði og húsnæði á við annað heimilisfólk. En þegar Krossverjar voru að taka upp bátinn eftir einn sjóróðurinn datt Eiríkur niður bráðkvaddur, þann dag hitti svo á að Sveinn var í kaupstaðarverð á Eskifirði.

Sveinn fór svo með lík Eiríks í bát, ásamt fleirum inn Mjóafjörð, á næsta sunnudegi og hugðist hitta prestinn í Firði. Þann sunnudag messaði presturinn ekki svo þeir hittust ekki, þá fór Sveinn þess á leit við Hermann "höfðingja" í Firði að fá lánaðar skóflur svo mætti jarðsetja lík Eiríks. En hann var upphaflega, eins og fram hefur komið, á framfæri Hermanns, sem þá synjaði Sveini um alla aðstoð.

Veðurútlit hafði verið slæmt þennan sunnudag. Sveinn og Krossverjar réru samt sem áður út Mjóafjörð í Kross eftir að komið var afleitt veður. Þeir náðu landi á Krossi með erfiðismunum, en án líks Eiríks sem hvarf frá borði. Upp úr þessu hófust mikil réttarhöld sem fram fóru í Firði sem enduðu með því að aleigan var því sem næst dæmd af Sveini bónda og hreppstjóra á Krossi, sem var þá fjarstaddur vegna heilsubrests.

Mikið af fjármunum Sveins fóru í málkostnað sem sýslumaðurinn og rekendur málsins skiptu á milli sín. Forsendur dómsins voru m.a. þær að varsla Sveins á Eiríki hafi verið svo slök að hann slapp margsinnis úr haldinu auk þess sem hann hafði að endingu brúkað hann til vinnu á Krossi og tínt að lokum líkinu.

Erfitt er að færa svona málatilbúnað til nútímalegs réttarfars, en þó má greina líkindi með máltilbúnaði þessa máls í Firði og lagaumhverfis vegna ólöglegra innflytjenda dagsins í dag, þar sem regluverkið býður upp á að lögfróðir menn einir geti farið með umboð flóttamann á kostnað skattgreiðenda í boði ríkisins. En í dag eru þó breiðu bökin fleiri, en hreppstjórans í Mjóafirði forðum, -til að standa undir umsýslukostnaðinum.


Hamra Setta

Sagan af Sesselju Hamra-Settu hefur óbeint að geyma fyrstu heimildir um Egilsstaði. Það er eins og að sá staður hafi ekki verið á yfirborði jarðar fyrr en á 16. öld, svo merkilegt sem það nú er af stað sem hefur talist á krossgötum í þjóðbraut allar götur síðan.

Algengasta útgáfa þjóðsögunnar af Hamra-Settu segir reyndar ekki frá neinu á Egilsstöðum, heldur af útilegukvendi á Borgarfirði eystri. En þegar nöfn þjóðsögunnar eru borin við tiltækar opinbera heimildir má finna sömu nöfn og þjóðsagan hefur að geyma í dómskjölum vegna morðs sem Sesselja Loftsdóttir var dæmd fyrir á Egilsstöðum á 16. öld í málaferlum á árunum 1541-1543 skömmu fyrir siðaskiptin 1550.

Sesselja var fundin sek um að hafa myrt mann sinn Steingrím Böðvarsson sem lést árið 1540. Upphaflega var ekkert talið athugavert við andlát Steingríms, hálfu ári eftir útför hans var lík hans grafið upp í Vallneskirkjugarði til rannsóknar vegna orðróms sem var uppi um að Sesselja hefði banað honum í félagi við vinnumann sinn, Bjarna Skeggjason, en þau voru þrjú í heimili. Sesselja eignaðist barn með þessum vinnumanni sínum og það sem meira var að vinnumaðurinn hafði áður átt barn með dóttir Sesselju.

Þeir sem rannsökuðu lík Steingríms eftir uppgröftinn skjalfestu að ekkert fyndist á líkinu sem benti til manndráps en einhverra hluta vegna breyttu þeir síðar framburði sínum fyrir rétti.

Eftir dauða Steingríms, en áður en á Sesselja var sökuð um morðið, þá hafði hún selt jörðina Egilsstaði nágranna sínum, Birni bónda á Eyvindará og eru þeir kaupsamningar til, en í þeim kom fram að þau höfðu gert með sér skipti á Egilsstöðum og Hólalandi í Borgarfirði eystri ásamt því sem Björn átti að greiða milligjöf í reiðufé.

Sá fyrirvari var samt á þessum kaupsamning, af Björns hálfu, að ekki mættu vera meinbugir á eignarhaldi Sesselju og gengu kaupin ekki að fullu í gegn fyrr en það væri komið í ljós. Fyrirvarinn hefur sennilegast komið til vegna erfðaréttar dóttir Sesselju til Egilsstaða, sem síðar kom í ljós að hún hafði framselt til Skálholtskirkju.

Eftir að þeir sem rannsökuðu lík Steingríms breyttu vitnisburði sínum var Sesselja dæmd til dauða fyrir morð, en vinnumaðurinn ekki, Egilsstaðir voru gerðir upptækir af ríkinu þ.e.a.s. til danska kóngsins. Þetta varð ekki til að minka málaferlin og því er til margra ára heilleg saga af þessu tímabili í málskjölum.

Eigendur Egilsstaða voru nefnilega orðnir þrír, Björn bóndi á Eyvindará sem hafði keypt þá alla með fyrirvara, Skálholtsbiskupstóll sem dóttir Sesselju hafði látið hafa sinn erfðahlut í próventu og taldi sig því eiga þá á móti ríkinu eftir að þeir höfðu verið dæmdir af Sesselju vegna morðs.

Í dómi Sesselju var ákvæði um tylftardóm þ.e. ef hún gæti fengið 12 málsmetandi menn til að sverja fyrir sakleysi sitt þá slippi hún við dauða, þar að auki var athyglisvert ákvæði til vara um að hún gæti innan tiltekins tíma leitað sér griða í dómkirkjum landsins annaðhvort í Skálholti eða á Hólum, sem hún gerði að Hólum.

Þetta bendir til að dómarar hafi ekki haft hreina samvisku varðandi dauðadóminn. Til eru málskjöl þar sem hún leitar á náðir Skálholtsbiskups, ári eftir að hún nær griðum á Hólum, þegar biskup er í erindrekstri í Vallanesi á Héraði m.a. vegna Egilsstaða mála, þar fer hún fram á syndaaflausn vegna hórdómsbrotsins með vinnumanni sínum.

Þar sem málskjölum líkur, þar líkur einnig opinberri sögu Sesselju Loftsdóttur á Egilsstöðum, og ekki er vitað til þess að hún hafi sest að á Hólalandi í Borgarfirði eystri og þjóðsagan minnist ekki á þann stað. Enda er ekki útilokað að þar sé á ferð allt önnur saga sem byggi á svipuðum nöfnum, eða þau hafi brenglast að einhverju leiti í meðförum þjóðsagnaritara.

Málaferli þessi voru á miklum umbrota tímum í Íslandssögunni. Austurland heyrði þá undir Skálholtbiskupstól. Siðaskipti urðu á Íslandi um miðja 16. öld. Þau eru talin vera að fullu framkvæmd með aftöku Jóns biskups Arasonar árið 1550. 

Gissur Einarsson fór fyrir hinum nýja sið og varð biskup í Skálholti árið 1540 og kann það að skýra að Sesselja fékk grið á Hólum þar sem Jón Arason réð ríkjum, en sækir svo um syndaaflausn á hórdómsbroti hjá Gissuri Einarssyni Skálholtsbiskup þegar hann er á yfirreið um Austurland.

Það hefur mörgum þótt það einkennilegt að ekkert sé að finna um stórbýlið Egilsstaði fyrr en í þessum málskjölum, og með ólíkindum hve fáar manneskjur koma við sögu sem hemilsfólk á "stórbýlinu".

En gæti það ekki verið að Egilsstaðir hafi verið kotbýli á þessum tíma og hluti lands jarðarinnar ekki ofan vatnsborðs Lagarfljótsins fram eftir öldum. Heimildir eru um að býlið Berg hafi verið niður við Lagarfljótið fram á 19. öld á sömu slóðum og Egilsstaða torfan.

Það er ekki fyrr en sú ætt sem nú býr á Egilsstöðum eignast jörðina seint á 19. öld, að það fer að komast stórbýlisbragaur á Egilsstaði. Egilsstaðanesið, sem enn í dag á það til að lenda undir Lagarfljótið, er ræktað upp og jörðinni Kollstöðum bætt við land Egilsstaða.


Dauðadæmdur dæmir til dauða

Stóridómur eru einhver þau hörðustu siðferðislög sem sett hafa verið á alþingi. Sennilega hafa engin lög á landi hér kostað eins mörg mannslíf. Til voru menn sem höfðu uppi burði til að verja sig gegn valdinu. Einn af þeim var Jón Jónsson á Litla Steinsvaði í Hróarstungu sem var það vel lesin að hann gat frætt sýslumann og meðdómendur hans á hvaða siðferðislögmálum Biblíunnar stóridómur hvíldi. Hann var samt sem áður dæmdur til dauða ásamt Kristínu Rustikusdóttur á grundvelli laga stóradóms árið 1791.

Kristín var þá 37 ára ekkja og Jón hafði nýlega misst eiginkonu sína. Jón hafði ráðið Kristínu sem vinnukonu á heimilið á Litla-Steinsvaði. Höfðu þau hugsað sér að giftast, en þar sem Kristín hafði áður eignast barn utan hjónabands með Magnúsi bróður Jóns, þá var þeim bent á að meinbugir gætu verið á hjónabandsáformum þeirra og vissara væri fyrir þau að sækja um leyfi til konungs. Áður en svar barst við málaleitan þeirra varð Kristín ólétt og eignuðust þau barn.

Ákæran á hendur Jóni Jónsyni og Kristínu Rustikusdóttur byggði á að stóridómur gerði ráð fyrir því að dauðarefsing væri við því að maður eignaðist barn með konu bróður síns. Þessi lagarök munu hafa verið sótt í 3. Mósebók þar sem taldar eru upp þær konur sem karlmönnum er óleyfilegt að leggjast með, og höfðu sennilega þess vegna lent inn á dauðalista dómsins.

Málsvörn Jóns byggði á því að ekki væri um brot á Móseslögum ræða þar sem Kristín væri ekki kona bróður hans heldur frilla þeirra bræðra beggja, sem þeir báðir hefðu eignast með barn. En Magnús var á þessum tíma, kvæntur annarri konu og bjó á Seyðisfirði, hann og Kristín höfðu aldrei gifst. Jón benti m.a. á 5. Mósebók 25:5 Þegar bræður búa saman og annar þeirra deyr án þess að hafa eignast son skal ekkja hins látna ekki giftast neinum utan fjölskyldunnar heldur skal mágur hennar ganga inn til hennar, taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana. Lög stóradóms sem byggði á tilmælum Mósebókar ættu hvergi við í þeirra tilfelli, því andi Móses laga væri allt annar. Þarna væri því um barnseignarbrot að ræða, og í mesta lagi tvöfalt hórdómsbrot, sem mætti sekta fyrir en væri ekki dauðasök.

En vörn Jóns Jónssonar breytti því ekki að bæði voru þau Kristín dæmd til dauða og bú þeirra tekið til skipta. En eitthvað hefur þvælst fyrir sýslumanni að fá dóminn fullnustan og varð hann að taka Kristínu á sitt heimili til að halda henni til fanga, ekki er vitað hvar Jón dvaldi þar til dómnum skyldi framfylgt. Að 6 árum liðnum berst síðan svar við fyrirspurn þeirra til kóngsins, um það hvort meinbugir væru á giftingaráformum þeirra, svarið var að þeir væru engir.

Þegar svo var komið er dauðadómurinn úr gildi fallin en eftir stendur eignalaust fólk sem hafði þar að auki ekki nokkurn arð af vinnu sinni í 6 ár. Þau Kristín og Jón giftust og byrjuðu búskap Þorbrandsstöðum í Vopnafirði, sem var jörð í eigu sýlsmannsættarinnar. Það má því segja að mál Jóns og Kristínar hafi verið leyst með nútímalegum hætti sé litið til þess hvernig almúgans ólöglega eignaupptaka var leyst eftir að fólk hafði verið borið út af heimilum sínum í krafti ólöglegra okurlána. Því boðin okurleiga í öðrum eignum sem sölsaðar hafa verið undir fjármálavaldið á svipaðan hátt. Allt í nafni fjármálastöðugleika, laga og réttar.

Það merkilega við Jón Jónsson er að hann var síðar dómkvaddur til að dæma yfir manni sem hafði eignast sitt 4. „ólöglega getna hórbarn“ og tekur þar þátt í því með sýslumanni að dæma manninn til dauða. Sá dauðadæmdi fær vinaraðstoð valdamanns við að skjóta máli sínu til æðra dómstigs og er þar dæmdur sýkn saka. Þannig má enn og aftur sjá líkindi að fornu og nýju hvað afstöðu Jóns Jónssonar varðar, almúgamaðurinn er sannfærður um að lög skuli virða.


Stúdent

Það kom til tals á milli okkar vinnufélaganna á morgunnandaktinni hvað bókmenntir gætu verið stórbrotnar, en yfirleitt skorar latínuliðið ekki hátt hjá okkur steypuköllunum. Þarna var hins vegar rætt um bókmenntir heimahagana sem sumir kalla “naive”.

Einn félaginn sagðist hafa sagt upp áskrift af héraðsblaðinu Austra þegar Stefán frændi minn í Flögu hætti að senda fréttabréf úr Skriðdal. Í þessum fréttabréfum mátti lesa helstu tíðindi úr dalnum s.s. hver keypti hvaða bíl og hvaða fjölskyldumeðlimum væri hugsanlega um að kenna ef hann rispaðist.

Reyndar lagði Austri upp laupana sem héraðsfréttablað stuttu eftir að fréttabréfin hættu að berast úr Skriðdal. Stefán Bjarnason gaf út tvær bækur um sína ævi; Frá torfbæ til tölvualdar á 50 árum og Að duga eða drepast. Þó svo að þessar bækur hafi ekki farið hátt, og umhverfst um þúfu í Skriðdal þá á heimildagildið bara eftir að vaxa.

Í bókinni Að duga eða drepast er aragrúi smásagna sem auðvelt væri að láta sér til hugar koma að væru um nauðaómerkilega smámuni af bæjarhóli Stefáns. En þegar betur er að gáð eru þær stórskemmtilegar auk þess að segja sögu þjóðar.

Stefán segir t.d. frá því þegar Magnús bróðir hans varð fyrsti stútendinn sem Skriðdælingar  eignuðust.

"Jafnan er það mikill atburður þegar fjölskyldumeðlimur tekur sitt áfangapróf, hvort heldur er búfræði, stærðfræði, verkfræði, guðfræði, eða læknisfræði, en sú síðasttalda er talin hvað erfiðust, og ábyrgðarmest. Það voru fleiri en fjölskylda og nánustu ættingjar, það var öll sveitin líka, eða svo var hér í Skriðdal, þegar Magnús Bl Bjarnason á Borg tók sitt stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1949.

Það gekk svo langt að Kvenfélag Skriðdælinga hét á Strandarkirkju að Magnúsi gengi vel í prófum og sett var í gang söfnun, og söfnuðust 500 kr, sem var þó nokkur fjárhæð í þá daga. En kvenfélagskonur ætluðu að gera meira, þær ætluðu að standa fyrir kaffiveislu í félagsheimilinu, Magnúsi og fjölskyldu til heiðurs. Konur voru að grennslast eftir hjá móður hans, Kristínu Árnadóttir á Borg, hvenær prófi yrði lokið og Magnús væntanlegur heim. En móðir hans vissi nú lítið um það.

En víkur nú sögunni til Magnúsar sem þreytti stúdentspróf vorið 1949 og lauk því með ágætis einkunn.

En þegar þeim áfanga var náð, fór hann að spyrjast um eftir fari austur á land, það var nú ekki eins auðvelt þá eins og síðar varð. Hann hitti af tilviljun Pétur Jónsson, bónda á Egilsstöðum, sem var á austurleið, og talaðist svo til með þeim, að þeir skyldu verða samferða. Ekki sagðist Magnús muna til hvernig það atvikaðist, að þeir fengu far með Catalinu flugbát, sem lenti á Lagarfljótinu.

Svo þegar í Egilsstaði kom, tók Pétur Magnús heim með sér og gaf honum að borða. Að máltíð lokinni fór Magnús að hafa orð á því, að verða sér úti um bíl inn í Borg. “Ekkert mál” sagði Pétur og brá sér í síma. Þegar hann kom út á hlað stóð þar Cervolet fólksbifreið og Bergur Ólason sat undir stýri. Magnús heilsaði honum og þeir félagar komu farangri fyrir í bílnum. Að því loknu kvaddi Magnús Pétur og þakkaði honum fyrir alla hjálpsemi við sig og settist inn í bílinn hans Bergs, sem ók þegar af stað inn Vellina og síðan inn Skriðdalinn inn á móts við bæinn á Borg, sem var næst innsti bær í dalnum.

Allar þverár fjórar voru óbrúaðar og báðar dalsárnar Múlaá og Geitdalsá. Bergur nam staðar á bakka Múlaár á móti bænum Borg. Þar tíndu þeir farangur Magnúsar út úr bílnum og bauð Magnús honum borgun. Þá brosti Bergur og sagði: “Við erum báðir Skriðdælingar” og rétti Magnúsi hendina, þeir kvöddust og þakkaði Magnús honum veittan greiða. Er skrýtið að þeir Bergur hafa ekki hist síðan og eru þó báðir komnir yfir sjötugt, þegar þetta er skráð.

Magnús var sóttur austur yfir ána frá Borg á hestum og var vel tekið, eins og vænta mátti og boðinn velkominn heim.

Fór nú að verða uppi fótur og fit í sveitinni, konur í kvenfélaginu komu til fundar og ákváðu að hafa kaffisamsæti um næstu helgi í félagsheimilinu.

Þar var heiðursgesturinn boðinn velkominn heim í sveitina sína með smekklegri ræðu Friðriks Jónssonar, oddvita á Þorvaldstöðum, nokkrir fleiri fluttu stutt ávörp og heillaóskir. Allt fór þetta mjög virðulega og smekklega fram, þar sem þetta var í fyrsta skipti sem Skriðdælingur tók stúdentspróf en það gerði Magnús Bl Bjarnason og lauk því með miklum sóma og lauk síðan læknisnámi við Háskóla Íslands 1955."


Snilldar handverk

Af heimilislífinu á þessum bæ um veturinn er fátt eitt að segja. Sambýlið var svo gott sem best getur hugsast, bæði á karl- og kvenhönd. Að mér teknum voru karlar úti við gegningar gripa myrkranna á milli og fram á vökur. Konur litu varla upp úr tóvinnu, enda veitti ekki af, til þess að halda á sér hita, því ekkert eldfæri eða neins konar hitagjafi var til í bænum, nema ef vera skildi hlóðasteinar frami í eldhúsi. En önnur ástæða var til kappsins við ullarvinnuna.

Á Fljótsdalshéraði klæddust menn á þeim tímum ekki öðru en ullarfötum, og hvert heimili varð að halda við fatnaði heimilismanna sinna. – Þegar fram um eða yfir miðvetur kom, var farið að setja upp vefi af þræði, er konur höfðu spunnið. Spunnu þær þá ívafið jöfnum höndum við þráð í næstu vefi. Allar kvöldvökur skammdegisins kembdu karlmenn og / eða tóku ofan ull eftir ástæðum, til stuðnings tóskapnum.

Þegar dag fór að lengja, hófst vefnaðurinn af sama kappi sem önnur tóvinna, enda þá meira tóm frá gegningum. – Þetta var tóvinna með allt öðru sniði og unnin með miklu meiri alvöru og kappi en ég hafði þekkt á Vestur- eða Suðurlandi. En miklu meiri var þó munur vinnunnar. Ég hafði vanist mosa- eða hellulituðum. Hér voru aftur eingöngu notaðir suðalitirnir, samkembdir í margskonar litbrigðu, mjög smekklegum, allt tvíkembt, nauðhært, svo ekki sást toghár á hinum vandaðri fötum, sparifötunum.

Hallgrímur biskup hafði komið á Héraðið sumarið áður (1890). Sagði hann mér meðal annars að hann hefði aldrei á landi hér séð svo prúðbúið og jafnbúið fólk sem þar, og allt heimaunnin ullarföt, og allir bændur í yfirfrökkum úr því sama. Dáðist hann mjög af þessu.

Konur gengu þar með herðasjöl, þríhyrnur og skakka, er svo var nefnt, heimaunnið og prjónað, með allskonar útprjóni. Allt var þetta úr nauðhærðu þeli, í suðalitunum, samkembt, með svo nákvæmum litasamsetningum (sjatteringum) að hrein meistaraverk voru. (Úrdráttur úr texta um vetur í Þingmúla, af heimilislífi og tóvinnu II bindi bls 142)

Þetta má lesa í Endurminningum sr Magnúsar Bl Jónssonar um veturinn 1891-1892, þegar fjölskyldan var nýflutt úr Reykjavík að Þingmúla í Skriðdal. Þá bjó hann ásamt konu sinni Ingibjörgu Pétursdóttir Eggerz og börnum, félagsbúi í Þingmúlabænum með fólki sem var þar fyrir, en um veturinn var Þingmúlaprestakall óvænt sameinað Vallanesprestakalli. Þannig að í Vallanes fluttu þau vorið 1892. Textinn er mun ýtarlegri um allt fólk sem kom við sögu á bænum.

Guðríður Ólafsdóttir Hjaltested

Magnús segir einnig frá því í endurminningum sínum, að seinni kona hans Guðríður Ólafsdóttir Hjaltested hafi einsett sér þegar hún fluttist á Héraðið að verða ekki eftirbátur bændakvenna í sínum hannyrðum. Hún lærði af þeim og óf sér sjal sem þótti slíkt snilldarverk að hún tímdi ekki að nota það sjálf. Örlög sjalsins urðu þau að það var sent á sýningu til Reykjavíkur og þaðan til útlanda á aðra sýningu um íslenskt handverk, þar sem það var selt á rúmlega tvöföld árslaun vinnufólks þess tíma í peningum.


Grasætur og veganistar

Hruni

Það var skoðun gamla fólksins að gulrófur hefðu flust til landsins með landnámsmönnum. Og víst var það að það kunni með rófurnar að fara, ræktaði sitt eigið fræ og geymdi rófur óskemmdar fram á vor. Rófugarðar voru við hvern bæ. Í harðæri varð oft lítill eða enginn undirvöxtur en kálvöxtur gat samt verið góður. Kálið var árvisst en rófur eigi, og garðarnir kölluðust því alltaf kálgarðar. Það mátti segja vegna fræræktar að hver bær hefði sitt eigið rófukyn.

Undir eins þegar kálið var sprottið var byrjað að taka það til matar, eitt blað af hverri rófu og þann veg yfir allan garðinn svo var farin önnur ferð á sama hátt, ef kálið þoldi. Kálið var þvegið vel og saxað í súpur, grauta og skyr. En að haustinu var allt kálið tekið, stórbrytjað og látið í súr og étið með honum yfir veturinn.

Haugarfi og heimula spratt snemma og var notað eins og kál að sumri en ekki í súr. Hvanngarðar voru víða um land og hjá einum bæ í Breiðdal var hvannstóð, hafi þeir verið algengir hefur það verið löngu liðið. Fíflablöð voru notuð að sumri en þó eigi almennt.

Breiðdælir voru fyrrum miklar grasætur en þó lagðist grasneyslan niður og mun það hafa verið vegna betri efnahags og mikillar vinnu við grasnotkun. Notkun þýfisgrasa, fjallgrasa, í blóðmör og lifurmör hélst lengur og svo í rúgbrauð. Líklega hefir almennt grasaát verið úr sögunni um aldamótin 1900.

Það er hverjum manni ljóst nú að neysla ætigrasa er nauðsyn heilsunnar vegna. Þegar ætigrös hurfu af matborðinu þá var það stórt skref aftur á bak. (Heimild kk fæddur 1902 (Breiðdalshreppur) sarpur.is)

stort-grodruhus

Ég set þessa skemmtilegu heimild hér inn svo ég tíni henni ekki aftur, en einhvertíma hef ég punktað þetta hjá mér í tölvuna þegar yfir stóð athugun á því hvernig landinn hafði grænmeti til matar fyrr á tímum. Þessi frásögn úr Breiðdal er greinilega höfð eftir 19. aldar fólki af 20. aldar manni, -og er nú allrar athygli verð á tímum 21. aldar veganisma, -og gengdarlauss innflutnings á matvælum.

Vil samt taka það fram að ég er hvorki sérleg grasæta, -hvað þá veganisti. En það er samt mikið um vagan fólk í nánasta umhverfi og margar góðar þannig máltíðir sem ég hef torgað. Grasætu áhuginn er heldur ekki mikill, að öðru leiti en því að njóta heilsusamlegs lækningamáttar íslenskrar náttúru.

Veganismi hefur reyndar lítið með grænmeti að gera, annað en það telst vegan. Veganismi gengur út á að sniðganga dýraafurðir. Sjálfur set ég mörkin við að versla ekki innfluttar dýrafurðir og þær sem til verða með verksmiðjubúskap eða gæsabringuveiðum. Sem sagt dýraníði inn á verksmiðjubúum og sálarlausum umhverfissóðaskap úti í villtri náttúru.

Það hefur eitthvað látið standa á sér vorið hérna á Héraði síðustu 10 dagana eða svo, grátt í rót og jafnvel alhvítt hvern morgunn og nú þegar komið vel fram á sumar samkvæmt gamla íslenska tímatalinu. Trausti veðurfræðingur kallar þetta þráviðri, sem er náttúrulega bara þrautleiðinlegur norðaustan þræsingur.

Ég er því ekki farin að gæða mér á heimulu ennþá, sem nú til dags er aldrei kölluð annað en njóli, og fátt sem nýtur álíka óvinsælda annað en lúpínan. Sama á við fífla, hundasúrur og hvönn, en þetta hefur fylgt vorkomunni sem heilsusamlegt fæði á mínu matborði. Og mikið er ég farin að bíða eftir að geta slitið upp fyrstu fíflana.

Fíflar


Brúin yfir boðaföllin

Ölfusá

Þá man ég næst eftir Ölfusá, þar sem við stóðum á árbakkanum hjá ferjunni, er flaut við bakkann, fyrsta bátnum, er ég hafði séð á ævinni. En engir voru þar hestar. Og er ég spurði um þá, var mér bent niður eftir ánni. Sá ég þá á hinni breiðu lygnu nokkru fyrir neðan okkur eins og röð af þúfum, sem mér var sagt að væru hestarnir á sundi. Loks fannst mér ég skilja þetta, þó ég ætti bágt með að átta mig á því, enda hafði ég aldrei séð neina skepnu á sundi fyrr. Varð svo nokkuð jafnsnemma, að farið var að koma okkur fyrir í ferjunni og hestarnir fóru að tínast upp úr ánni hinumegin.

Árið 1932 kom ég í annað sinn á þessar slóðir, þá á bílferð frá Reykjavík til Selfoss og Eyrarbakka. Þegar við nálguðumst Ölfusána, kannaðist ég við alla afstöðuna frá bernskuferðinni: Áin var lygn og breið til vinstri, allt út að sjó, og fjallið til hægri, nokkuð þverhnípt og bratt, en síður en svo ægilegt eins og mig minnti. Og þá fyrst vissi ég, að þetta hafði verið Ingólfsfjall, og þá skildi ég að leið okkar fyrrum hafði legið upp Grafning. 

Úr Endurminningum sr Magnúsar Blöndal Jónssonar (I bindi bls 30-31) , af margra daga ferðalagi fjölskyldunnar þegar hún flutti frá Miðmörk undir Eyjafjöllum í Prestbakka við Hrútafjörð árið 1867, þegar Magnús var um 5 ára aldurinn.

Mynd; Ísl. Þjóðlíf II bindi bls 394. Við Ölfusá, algengur ferðamáti yfir stórárnar. Menn voru ferjaðir í bátum, en hestarnir sundreknir. Daniel Bruun – R. Christiansen.)


Sautjánhundruð og súrkál; þegar dansinn dó

Í skóla ungdómsáranna var stundum talað um að það skipti ekki nokkru máli hvað hefði gerst sautjánhundruð og súrkál. Átti þetta við um hörmunga ártöl Íslandssögunnar, en sú saga þótti þá frekar hallærisleg, -og þykir sjálfsagt enn. Sautjánhundruð og súrkál er eitt það skelfilegasta sem á Íslandi hefur dunið, auk óáranar af mannavöldum komu til eldsumbrot í öllu sínu veldi. Í annálum má lesa hrikalegar lýsingar á aðstæðum fólksins í landinu, en í júní 1783 hófust við Laka það sem sagan kallar Móðuharðindi. Öskufall og brennisteinsgufa lagðist yfir landið þannig að gróður visnaði um há sumar.

Hraun rann fram milli Síðu og Skaftártungu alla leið niður í Meðalland með þeim afleiðingu að tugir bæja eyddust og fólk í flestum sveitum V-Skaftafellssýslu átti þann einn kost að flýja heimili sín, ekki bætti úr skák að veturinn á undan hafði verið óvenju harður og hafís legið fyrir norðan land. Um haustið 1783 var ástandið þannig í flestum landshlutum að fé kom horað af fjalli og víða var búpeningur sjúkur af gaddi og beinabrigslum. Í grennd við gosstöðvarnar var margt búpenings þá þegar fallinn.

Eftir heylausan harðinda vetur 1783-84 með frosti og eiturgufum, svo hörðum að aðeins fjórar kýr voru taldar hafa lifað veturinn af á Langanesi, ráfaði bjargarlaust fólk og skepnur uppflosnað um allar sveitir, máttvana af hor og hungri. Innyfli í skepnunum ýmist þrútnuðu eða visnuðu, bein urði meyr, rif brotnuðu undan þunga skepnunnar þegar hún lagðist út af, fótleggir klofnuðu og beinhnútar gengu út úr skinninu.

Mannfólkið var svipað leikið vorið 1784, þar sem mikill fjöldi fólks þjáðist af blóðkreppusótt, skyrbjúg og sinakreppu, brisi í beinum og liðamótum. Hár rotnaði af ungum sem öldnum, gómar og tannhold bólgnaði, auk margvíslegra kauna. Fjöldi fólks lét lífið á víðavangi við flækingi á milli bæja og sveita. Þetta sumar gengu menn víðsvegar um landið fram á lík á förnum vegi, oft það mörg að ekki reyndist unnt sökum magnleysis að greftra þau öðruvísi en í fjöldagröfum, enda víða frost í jörðu langt fram eftir sumri.

Ofan á þessar hörmungar bættust svo ægilegir jarðskjálftar á Suðurlandi, 14. og 16. ágúst sumarið 1784, sem fundust víða um land. Þá hristu fjöll af sér jarðveg svo gróðurtorfur og grjóthrúgur lágu í dyngjum og hrönnum við rætur þeirra. Í Rangárvalla- og Árnessýslum einum, er talið að um 100 bæir og 1900 byggingar hafi hrunið til grunna með tilheyrandi skjólleysi fyrir fólk og fénað, jók þetta enn á vesöld og vergang fólksins í landinu.

Þrátt fyrir vilja danskra yfirvalda til að aðstoða Íslendinga í þessum hörmungum, sem m.a. má sjá á því að kannað var hvort hægt væri að flytja hundruð landsmanna af verst leiknu svæðunum til Danmerkur, þá skorti menn og hesta burði til að ferðast í kaupstað svo nálgast mætti aðstoð. Annálar greina frá því að embættismenn í höfuðstaðnum hafi talið ástandið skást á Austurlandi og þar mætti hugsanlega enn finna nothæfa hross til flutninga á nauðþurftum.

"Árið 1783 þann 8. júní, sem var hvítasunnuhátíð, í heiðríku og spöku veðri um dagmálabil, kom upp fyrir norðan næstu byggðafjöll á Síðunni svart sandmistur og mökkur svo stór, að hann á stuttum tíma breiddi sig yfir alla Síðuna". Þannig segir séra Jón Steingrímsson frá upphafi Skaftárelda í eldriti sínu. Jón var prófastur Vestur-Skaftfellinga á árunum 1778-1791 og sjónarvottur að eldsumbrotunum og áhrifum þeirra. Frá honum eru komnar nákvæmustu lýsingarnar af Skaftáreldum sem varðveist hafa.

Það er ekki um auðugan garð að gresja í samtímaheimildum um afdrif fólks móðuharðindunum, enda má segja að ef tök hefðu verið á safna þeim, þá hefði verið allt eins gott að gleyma þeim eins og hverju öðru hundsbiti. Samt hafa varðveist, auk einstaks eldrits séra Jóns Steingrímssonar, ótrúlega glöggar tölulegar upplýsingar um hversu hatröm móðuharðindin urðu þjóðinni. Þar kemur til rit Hannesar Finnssonar biskups í Skálholti, Mannfækkun af hallærum, en Hannes lifði móðuna miklu og skrifaði henni samfara þetta merkilega vísindarit á þeim tímum sem Skálholt hrundi til grunna. Biskupsstóllinn var í kjölfarið fluttur til Reykjavíkur, en Hannes keypti jörðina Skálholt og bjó þar til dánardags.

Það er einungis hægt að ímynda sér hve mikið af sögu landsins glataðist í þessum hörmungum, þegar meir að segja höfuðstaður landsins, sjálft fræðisetrið Skálholt, hvarf af yfirborði jarðar. Skýrsla Hannesar er ekki bara um móðuharðindin heldur er þar gerð grein fyrir hallærum allt frá Íslands fyrstu byggð, unnið upp úr annálum sem hann hafði aðgang að í Skálholti. Textinn gefur innsýn í hverskonar óöld geisaði og ritið hefur nákvæmar tölulegar upplýsingar að geima um móðuharðindin. Tölurnar benda til að fjórðungur þjóðarinnar hafi fallið úr hungri og vosbúð, 82% sauðfjár, 77% hrossa og 53% nautgripa.

Það er kannski helst að í því, -sem skrifað hefur verið af lærðum mönnum, -megi fá örlitla innsýn líf fólks á þessum ógnar árum. En þær eru fremur fátæklegar upplýsingarnar sem ég hef rekist á um venjulegt heimilislíf fólks, þó má tína til nokkrar lýsingar. Um afleiðingar móðunnar, eru þessar vísur um Hvalnes í Lóni Austur-Skaftafellssýslu dæmi um slíkt;

 

Tólf um haustið tugir vóru

Taldar ær - á nesi Hvals –

Í hels naustið allar fóru

utan tvær að kalla tals.

 

Eins var ríkrar efni pestar;

Ei var fóðurs kraftur hreinn.

Þar voru líka þrettán hestar,

Þeim af stóð á foldu einn. 

 

Þarna kemur fram að tölulegar upplýsingar Hannesar biskups eru hreint engar ýkjur ef miðað er við fellirinn á Hvalnesi í Lóni. Af 120 kindum lifðu tvær og einn af 13 hestum vegna goseitrunar á hörðum vetri. Vísurnar eru úr vísnabálki sem Hallgrímur Ásmundsson samdi. En Hallgrímur og Indriði bróðir hans hófu hungurgöngu móðuharðindanna frá Hvalnesi og fóru til skyldfólks upp í Skriðdal á Héraði, Hallgrímur þá 24 ára og Indriði 10 árum eldri þá nýbúin að missa konu sína.

Foreldrar þeirra urðu eftir á Hvalnesi en þeir bræður hugðust sækja þau og ungan son Indriða eftir að hafa komið sér fyrir í Skriðdal. Er þeir komu aftur í Hvalnes jörðuðu þeir föður sinn en fluttu móður og son með upp í Skriðdal. Þeir bræður ílengdust í Skriðdal og var Hallgrímur kenndur við Stóra-Sandfell en Indriði bjó á Borg. Benedikt Gíslason frá Hofteigi tók saman ævisögu Hallgríms, forföður síns, eftir þeim vísum sem til voru og hann hafði ort á ævi sinni.

Næst ætla ég vitna í aðstæður forfeðra minna, einna stærstu ættforeldra austfirðinga, séra Jóns Brynjólfssonar og Ingibjargar Sigurðardóttir ásamt Hermanni Jónssyni í Firði. En séra Jóni gaf Hannes Finnsson biskup vitnisburðinn aumasti prestur á Íslandi. Séra Jón var prestur í Mjóafirði þegar ósköpin stóðu sem hæðst og hafði þá hrakist undan héraðshöfðingjanum Hermanni úr Firði að Hesteyri og síðar að Krossi, ysta bæ í Mjóafirði sunnanverðum. Sögubrotið er þegar Hermann kom í Kross og átti orðastað við Ingibjörgu um ástand heimilisins.

„Haustið 1784 kom Hermann að Krossi, þar sem séra Jón var þá. Sagði hann við konu prestsins að hann ætlaði að láta taka börnin frá þeim og flytja þau upp á Hérað, en hún spurði þá hvort honum þætti það tiltækilegt, þar sem þau lægju í rúmunum klæðlaus og grindhoruð, en þá sagði Hermann að fyrst hún vildi ekki ganga að þessu, þá geti hún húkt yfir þeim og nagað um holdlausar hnúturnar á þeim, en hún svaraði þá, að hann talaði sem þrælmenni eins og hann væri maður til. En daginn eftir á hreppamóti harðbannaði Hermann öllum sóknarmönnum og lagði á reiði sína, ef nokkur dirfðist að rétta börnum séra Jóns hjálparhönd eða honum sjálfum. Hélst Jón við á Krossi þangað til um miðjan vetur 1785, að heimilið leystist upp. Voru Mjófirðingar tregir að hjálpa honum vegna banns Hermanns, en gerðu það þó sumir”. (Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður-Prestasögur.)

Svo má einnig fá innsýn í ástand heimila í landinu með því að grúska í skrif um sakamál þessa tíma, því um þau eru stundum til einhverjar heimildir um daglegt líf fólks. Í bókum Jóns Helgasonar Öldin og Vér Íslands börn eru áhrifa miklar lýsingar. Ein saga í Vér Íslands börn er sláandi um hvað fólk mátti reyna. Því ekki var einungis svo að fjórðungur þjóðarinnar félli heldur lenti stór hluti hennar á vergang og flakkaði bjargarvana um sveitir landsins.

Í sögunni Svart innsigli og níu rauð segir af Ámunda og konu hans sem lögðu í hungurgönguna eftir að hafa hrakist bæ af bæ. Þau bjuggu síðast í Skagafirði hann þá kominn á sextugsaldur en hún talsvert yngri og höfðu misst allt á hörðum vetri 1782-1783, í aðdraganda móðuharðindanna. Þegar vergangssaga þeirra hefst eru þau með tvær dætur sínar með sér, sú yngri það máttfarin af hungri að hann bar hana í poka á bakinu. Þegar þau komu að Glaumbæ á messutíma með von um aðstoð kom í ljós að dóttirin í pokanum var dáin.

Þau hjónin fengu litla aðstoð og ákváðu fljótlega eftir það að flakka í sitt hvoru lagi, í von um að fá þannig frekar ölmusu. Hann tók með sér dótturina, sem enn var á lífi, og þau hjónin héldu hvort sína leið um Húnavatnssýslu, hann í vestur en hún í norður út Skaga. Vorið 1785 eru Ámundi og dóttirin á flækingi í Víðidal og er hann þar beðinn um að yfirgefa svæðið, enda áttu Húnvetningar nóg með sína. Honum er bent á að hann kunni að eiga sveit í Skagafirði fyrir dóttur sína.

Ámundi tekur þá ákvörðun að halda austur til Skagafjarðar og reyna að koma dóttir sinni þar á sveitina. Hún verði betur komin sem niðursetningur hjá vandalausum en með honum. Hann hyggst svo flækjast áfram og freista þess að finna konu sína. Síðasta spurðist til þeirra feðgina saman á bæ við Blöndu þar sem þeim var gefinn matur. Fólk tók sérstaklega til þess hve Ámundi var nærgætinn við dóttur sína, tíndi upp í hana allan matinn og lét sig mæta afgangi. Svo héldu þau feðginin áfram að Blöndu sem var þeim ófær án aðstoðar. Eftir því sem Ámunda sagðist sjálfum frá í þeim yfirheyrslum sem á eftir fóru, þá lögðust þau til svefns í júlí blíðunni á árbakkanum.

Þegar hann vaknaði lá hún sofandi. Hann vefur um dóttur sína peysu tekur hana upp og fleygir í Blöndu og hleypur burt í örvæntingu. Hann sagði að aldrei hefði hún gefið frá sér hljóð eða sýnt lífsmark en hann gæti samt ekki verið viss hvort hún hefði verið lífs eða liðin því hann hefði aldrei litið til baka. Þarna voru þau feðginin búin að flækjast um betlandi og bjargarlaus í öllum veðrum á vergangi frá því árið áður. Á eftir fóru réttarhöld sem aldrei voru leidd til lykta því Ámundi andaðist eftir skamma veru í varðhaldi.

Síðasta aftakan á Austurlandi fór fram haustið 1786 í lok þeirra óskapa sem móðuharðindin orsökuðu. Þar er samtvinnuð örlaga saga fjögurra ungra manna í vonlausum aðstæðum, sem létu lífið á harðindaárunum, og sá þeirra þrautseigasti var að lokum hálshöggvin á Mjóeyri við Eskifjörð. Saga þessara ungu manna hefur ekki nema að litlu leiti varðveist í opinberum heimildum og þá þess sem af lífi var tekinn, en þjóðsagan hefur geymt þessa atburði þannig að gera má sér glögga grein fyrir hverskonar óskapnað var við að glíma. Söguna má nálgast hér.

Ein sú saga, sem ég hef rekist á og greinir hvað best frá lífsreynslu venjulegs fólks í þessum hörmungum, er saga Rögnvaldar halta í Sópdyngju þjóðsagna og alþýðlegs fróðleiks þeirra Braga og Jóhannesar Sveinssona. Þar segir Rögnvaldur Jónson frá lífshlaupi sínu fram að fimmtugu og hefst frásögnin þegar hann er 14 ára gamall árið 1783. Rögnvaldur bjó þá hjá foreldrum sínum í Klifshaga í Öxarfirði ásamt þrem yngri systkinum.

Foreldrar Rögnvaldar voru talin þokkalega stæð og vel búandi. Veturinn fyrir sumarið 1783 hafði verið óvenju harður en ekkert benti til þess að fjölskyldan væri að komast á vonarvöl. Þegar eldsumbrotin byrjuðu við Laka um sumarið visnaði gróður í Öxarfirði eins og víðast hvar í landinu. Anna móðir Rögnvaldar var lasin og hafði þurft að leita sér lækninga. Heyskapur misfórst að mestu vegna eiturmóðunnar og fé kom horað af fjalli.

Seint um haustið ákváðu foreldrar Rögnvaldar að leita til nágranna sinna um aðstoð, og úr varð að vinafólk þeirra á Skógum tók Rögnvald til sín svo létta mætti á heimilinu í Klifshaga. Faðir Rögnvaldar slátraði öllum bústofni nema þeim örfáu rollum sem hann taldi sig geta komist af með, og haldið lifandi gegnum veturinn. Þá bar svo við að presturinn innheimti leiguna fyrir Klifshaga, en jörðin var eign kirkjunnar á Presthólum. Leigan var kvittuð með því að taka kindurnar sem eftir lifðu.

Rögnvaldur var í Skógum, sem smali um veturinn, en foreldrar hans fluttu með yngri börnin á annan bæ, -Gilsbakka, sem var með minni baðstofu og því frekar hægt að halda þar hita. Skömmu áður en Rögnvaldur átti að halda heim til foreldra sinna um vorið var honum tilkynnt að mamma hans væri dáin. Um Hvítasunnu hélt hann í Gilsbakka til föður síns og systkina. Hann hafði verið nestaðaur frá Skógum og geymdi nestið sitt því hann þóttist vita að lítið væri til á Gilsbakka.

Þegar hann kom að Gilsbakka mætti hann hjónum sem voru að yfirgefa bæinn með börn sín á bakinu. Skemmudyr stóðu opnar út á hlaðið og innan við dyrnar var líkkista. Tvö systkini hans komu út úr bænum skinhoruð og að fram komin af hungri til að taka móti stóra bróður sínum. Þau sögðu honum að í líkkistunni væri móðir þeirra, en faðir þeirra hafi dáið um morgunninn og yngsta systir þeirra lægi föst til fóta hjá honum í rúminu.

Þau fara inn í bæ til að ná systur sinni úr rúminu og Rögnvaldur gefur þeim nestið sitt frá Skógum. Á bænum var bara til örlítið salt, honum dettur í hug að fara í berjamó og tína muðlinga, sem eru grjóthörð og þurr ber frá fyrri árum. Hann mýkti muðlingana upp í saltvatni til að næra systkini sín. Það voru miklir vatnavextir í ám um þetta leiti vors og ekki hægt að komast frá bænum í nokkra daga. Rögnvaldur sér samt til mannaferða hinumegin við ána og veður yfir hana til að fá aðstoð við að koma foreldrum sínum til grafar en lík föður hans var þá farið að lykti illa í baðstofunni.

Mennirnir sögðust ekki treysta sér yfir ána því hún væri ófær, og ráðlögðu honum að taka ekki þá áhættu að fara yfir aftur, en þeir myndu aðstoða hann um leið og áin yrði fær. Rögnvaldur fór strax aftur yfir ána og nokkrum dögum seinna þegar sjatnað hafði í ánni komu menn til að hjálpa þeim systkinum. Þeir tóku tvö yngri systkinin með sér, Þórdísi þriggja ára og Jón sjö ára. Við Rögnvald og Þorgerði ellefu ára, sögðu þeir að því miður væru ekki tök á að hjálpa þeim, þau yrðu að bjarga sér sjálf eða leita annað.

Það eru hrikalegar lýsingar á því hvað þeim systkinum mætti þegar þau fóru heim að bæjum í sveitinni til að leita sér aðstoðar. Enda þá margir bæir komnir í auðn í Axarfirði og flest fólkið dáið á þeim og það fólk sem eftir lifði dauðvona af hungri. Á einum bænum tórðu fjórir og gátu gefið þeim vatn með örlitlu mjólkurskoli á öðrum rólaði ein kona eftir á lífi bjargarlaus með barn.

Rögnvaldur ákvað því að komast aftur í Skóga, þar sem hann hafði verið um veturinn, með Þorgerði systur sína og leita þar aðstoðar, en þangað var yfir tvær erfiðar ár að fara og hún orðin hálf rænulaus af hungri. Þegar hann var að bera hana yfir Sandá hrasaði hann svo hún blotnaði.

Það var kalsa veður með krapa slyddu og Þorgerður ófær um að ganga lengra. Hann kom henni í skjól við stein og flýtti sér holdvotur að næsta bæ til að fá aðstoð. Þar var kvenfólk heima, sem tóku hann úr vosklæðunum og háttaði ofan í rúm. Konurnar fóru svo til að ná í systur hans en þá var hún dáin við steininn. Jón yngri bróðir Rögnvaldar dó einnig fljótlega eftir að systkinin fóru frá Gilsbakka en Þórdís yngsta systir hans fluttist síðar austur á Hérað í Hallgeirsstaði í Jökulsárhlíð og komst til fullorðins ára.

Saga Rögnvaldar halta er mikið lengri og sögð af mikilli nákvæmni, margfalt meiri en hér er gert, þar sem einungis er stiklað á því stærsta um nokkra daga. Árin á eftir voru Rögnvaldi erfið en alltaf komst hann af, en samt fór svo að upp úr tvítugt var hann orðinn örkumla maður. Hann fór þá til Skagafjarðar með aðstoð fólksins í Öxarfirði til að leita sér lækninga. Eftir það bjó hann á Skaga þar sem hann kvæntist.

Um fimmtugt fékk Rögnvaldur séra Jón Reykjalín til að skrá sögu sína. Sagan lenti svo í fleiri en einu handriti og vestur um haf. Frásögnin í Sópdyngju er sett saman úr tveimur handritum því eitthvað úr hvoru hafði glatast. Afkomendur Rögnvaldar og Margrétar konu hans urðu seinna vesturfarar og settust margir hverjir að í S-Dakota og kölluðu sig þar Hillman.

Það er alveg ljóst að Rögnvaldur hefur verið mikill atgerfismaður á sínum tíma. Hann stofnaði fatlaður til heimilis á arfleið foreldra konu sinnar og eignaðist með henni börn sem eignuðust svo sína Rögnvalda. Frásögn hans af fyrstu dögunum eftir að hann kom heim til systkina sinna í móðuharðindunum er einstök, -nákvæm og upplýsandi, -um þær hrikalegu aðstæður sem landsmenn stóðu frammi fyrir.

Það hefur ýmislegt verið sagt um móðuna miklu í seinni tíð en þar er samt að mestu um getgátur að ræða. Gunnar Karlsson prófessor í sagnfræði getur sér þess til á Vísindavef HÍ,  að þá hafi dansinn dáið á Íslandi því landsmenn hafi ekki dansað í 100 ár á eftir móðuharðindin. “Íslendingar hættu nokkurn veginn alveg að dansa á 18. öld og byrjuðu ekki á því að neinu marki fyrr en um öld eftir móðuharðindi. Lengi hefur verið talið að þetta stafi af því að heittrúaðir Danakonungar hafi bannað landsmönnum að dansa, og hafa menn þá velt því fyrir sér hvers vegna Færeyingar hafi ekki týnt sínum dansi því að þeir höfðu alveg sömu kóngana. Skoðun mín er sú að Íslendingar hafi hreinlega ekki verið í skapi til að dansa á árunum eftir móðuharðindi, og þannig hafi danslistin tapast”; segir Gunnar.

Það má telja því sem næst öruggt að Íslendingar hafa ekki verið í skapi til að skemmtana í meira en 100 ár eftir móðuharðindin. Í sóknarlýsingu Vopnafjarðar árið 1840 afgreiðir séra Guttormur Þorsteinsson prófastur skemmtanir sóknarbarna sinna í örfáum orðum: “Skemmtanir. Hjálpi mér! Eru fáar og þykja hvorki vera föng eða tími til þeirra”. Þrjátíu og fjórum árum seinna 1874 segir kollegi Guttorms, séra Sigurður Gunnarsson á Hallormsstað þetta um skemmtanir, þar sem notuð var sama forskrift af sóknarlýsingu: “Unglingar spila endrum og sinnum á helgidögum og nokkrir skemmta sér með söng. Vinnan skemmtir flestum best, því hér eru fáir letingjar.”

Séra Sigurði Gunnarssyni verður einnig tíðrætt um dauða Hallormsstaðaskógar í kjölfar sautjánhundurð og súrkál sem og uppplásturs og landeyðingar í framhaldinu. Hann kemur inn á að sverir trjástofnar hafi visnað og drepist, eldiviður hafi smá saman farið úr því að tínd voru saman fúasprek í eld og að lokum notast við sauðatað.

Erlendis hafa fræðimenn vaknað til vitundar um hverskonar hamfarir áttu sér stað sautjánhundruð og súrkál. Jafnvel getið sér til um að móðuharðindin hafi verið mestu náttúruhamfarir í sögu Bretlands og hafi lagt tugi þúsunda Breta af velli. Vísindamönnum hefur jafnframt orðið ljóst með tímanum hvað hnattræn áhrif móðuharðindanna voru gríðarleg á veðrakerfi jarðar. Er jafnvel talið að þau hafi átt sinn þátt í að skapa aðstæður fyrir frönsku byltinguna.

Að vita þetta um sautjánhundruð og súrkál skiptir náttúrulega ekki nokkru máli núna árið 2021, eftir að dansinn hefur legið á líkbörunum í heilt ár um allan heim, -ekkert frekar en á unglingsárunum í denn. Nema ef vera kynni vegna þess sígilda sannleika, "að oft má böl bæta með því að benda á annað verra". Nú þegar þjóðin kemst næst því að vera á dansleik þar sem almannavarnir hafa boðið upp á línudans við bjarmann úr neðra í Geldingadölum.

 

Ps. Inn í þennan pistil er fléttað með undirstrikuðum tenglum því sem ég hef orðið uppvís um ártölin 1700, s.s. fólkinu í Kjólsvík, gerviþjóðsögu, aumasta presti á Íslandi og þeim sem litu blóðs í pollinn, -sannkölluðu súrkáli.


Gautavík

Gautavík fb mynd

Þessi staður hefur komist í fréttir undanfarið vegna hampræktunar. Ábúendurnir fluttu úr Reykjavík austur í Berufjörð til að láta draum rætast um sjálfþurftarbúskap og sjálfbærni. Gautavík hafði verið í eyði í nokkur ár, en var sennilega bæði leynt og ljóst ein af höfuð höfnum landsins fyrr á öldum. 

Fljótlega eftir að landnám hófst á Íslandi munu norræn skip hafa komið af hafi til Berufjarðar til þess meðal annars að eiga viðskipti við fólk sem hafði tekið sér bólfestu um sunnanverða Austfirði. Bæði í Njálu og Fljótsdæla sögu er sagt frá verslunarstaðnum Gautavík við innanverðan Berufjörð. Þar versluðu Þjóðverjar á tímum Hansakaupmanna þar til þeir fluttu bækistöð sína suður yfir fjörðinn til Fýluvogs (Fúluvíkur) upp úr 1500. Rústir í Gautavík eru friðaðar og hefur hluti þeirra verið kannaður með fornleifauppgreftri. (texti Djúpivogur wikipedia)

Fáeinir miðaldaverslunarstaðir hafa verið rannsakaðir að einhverju marki hér á landi. Eru það Gautavík í Berufirði, Maríuhöfn í Hvalfirði, Gásar í Eyjafirði og Kolkuós í Skagafirði. Rannsóknirnar í Gautavík skiluðu ekki miklum upplýsingum, en þó virðist staðurinn hafa átt sinn blómatíma á 14. öld og svo aftur á þeirri 15., en elsta ritaða íslenska heimildin er frá lokum 12 . aldar. Mest áberandi fundarflokkurinn voru leirker og járnnaglar. Einnig fundust þar byssukúlur úr blýi. Nýlega hefur því verið haldið fram að verslun í Gautavík hafi varað fram undir lok 16. aldar. (Bjarni F Einarsson fornleifafræðingur/ Bærinn sem hvarf í ösku og eldi 1362 bls 127)

Í annálum 14. og 15. aldar er Gautavíkur oft getið sem verslunarhafnar. Þjóðverjar ráku þar verslun fram á síðari hluta 16. aldar og var þá ein aðalverslunarhöfn á Austurlandi. Gautavíkur er getið nokkrum sinnum í Íslendingasögum og þá jafnan sem verslunarstaðar og hafnar. Rústirnar eru báðum megin við Búðaá og ein á sjávarbakkanum austan við ána. Friðlýst 1964. (Sjóminjar á Íslandi)

Daniel Bruun var einna fyrstur til að rannsaka fornleifar íslenskra kaupstaða frá miðöldum. Hann kom í Gautavík árið 1901 og í bókinni Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár er þetta um þá heimsókn. "Berufjörður er þriggja mílna langur fjörður á Austurlandi sunnarlega. Nokkuð innan við fjarðamynnið er á norðurströndinni lítil vík, er Gautavík heitir og við hana samnefndur bær. Þar er þyrping með 6 tóttum, sem Olavius segir að munnmæli hermi, að séu leifar verslunarstaðar írskra kaupmanna. Af sögunum sést, að Norðmenn hafa siglt til Gautavíkur (Kålmlund bls 200), og í Njálu er staðarins getið sem lendingarstaðar kaupskipa. Loks herma íslenskir annálar, að þar hafi verið mjög fjölsótt höfn á 14. og 15. öld.

Árið 1589 fengu Hamaborgar kaupmenn kónginn í Kaupannahöfn til að veita sér verslunarleyfi á Djúpavogi við Berufjörð. Þar áður höfðu Brimar kaupmenn haft leifi til að versla við Fýluvog, sem er nánast á sama stað á Búlandsnesinu og Djúpivogur, munurinn var sá að inn á Fýluvog var siglt úr Hamarsfirði en inn á Djúpavog úr Berufirði. Talið er að rentukammerið í Kaupmannhöfn hafi ekki áttað sig á að þarna var um sama staðinn að ræða og bjuggu því íbúar í nágrenni Djúpavogs við fágæta samkeppni í verslun um það leiti sem einokunarverslun hófst á Íslandi.

Kort

Sagan um Þórð í Dýjakoti heitir "það segir fátt af einum", leið hans til Gautavíkur er lýst nokkuð nákvæmlega og hefur legið að mestu um óbyggðir

Það skildi ætla að verslun við Gautavík hafi verið alfarið úr sögunni þegar tveir verslunarstaðir voru komnir við minni Berufjarðar. Fyrir nokkrum árum rakst ég á athygliverða sögu í bókinni Syndir feðranna, eftir Gunnar Þorleifsson, og hef hvergi rekist á annarsstaðar hvorki heyrt á skotspónum né séð í þjóðsaganasöfnum. Þar segir frá því þegar Þórður í Dýjakoti var myrtur. Sé eitthvað að marka söguna þá var verslað við Gautavík um aldamót 17. og 18. aldar.

Þessir atburður er sagður gerast árið 1701 í verslunarferð Þórðar niður í Berufjörð, nánar tiltekið til Gautavíkur. Samkvæmt mínum hugmyndum var verslun í Gautavík aflögð á þeim tíma því ekki hef ég heyrt Gautavíkur getið sem verslunarstaðar eftir að einokunarverslun var komið á, sem varaði frá 1602 – 1787.

Árið 1589 er Djúpivogur gerður að löggiltum verslunarstað og hafði Fúlivogur sem er því sem næst á sama stað verið verslunarstaður þar á undan og einmitt þangað hafði hin forna verslun í Gautavík flust. Sagan gæti samt sem áður verið sönn því vel gæti hafa verið verslað á laun við Gautavík fram hjá einokurversluninni, án þess að getið sé í annálum. Margt í sögunni passar samt ekki við sagnfræðina.

En saga þessi greinir í stuttu máli frá sex daga verslunarferð Þórðar í Dýjakoti til Gautavíkur. Dýjakots, minnist ég ekki að hafa heyrt annarsstaðar getið. Miðað við staðarlýsingar í sögunni, hefur það verið inn af Fljótsdal gæti hafa verið rétt austan við Laugarfell.

Leið Þórðar í verslunarferðinni til Gautavíkur virðist hafa legið sunnan við Hornbrynju, niður í Fossárdal og síðan inn Berufjörð að sunnanverðu og út að norðan til Gautavíkur, sem bendir til að Dýjakot hafi verið talsvert innarlega á öræfunum, annars hefði verið styttra að fara norðan við Hornbrynju og niður Öxi í botn Berufjarðar.

Í sem stystu máli lendir Þórður í útistöðum við þýskan kaupmann vegna ullar sem hann vildi fá sérstaklega viktaða því það voru hagalagðar barnanna hans þriggja, en kaupmanninum þótti svoleiðis lítilræði óþarft.

Þeir lenda í áflogum og pakkar Þórður honum saman. Eftir að kaupmanninum hafði verið bjargað við illan leik, ákveður Þórður að halda strax heim með hest og varning. En þá sér kaupmaðurinn færi á að ráðast aftan að honum, -og enn pakkar Þórður honum saman.

Þórður á að hafa farið sömu leið heim samkvæmt sögunni. Einhverjir íslendingar sáu til þýska kaupmannsins morguninn eftir þar sem hann fór ríðandi inn Berufjörð. Þess er skemmst að geta að ekki skilaði Þórður sér heim til konu og barna, en hestur hans ásamt varningi skilaði sér í Dýjakot.

Þremur vikum eftir þessa atburði komu kona hans og þrjú börn til byggða að innsta bæ í Fljótsdal. Lík Þórðar fannst síðan í fjárgöngum um haustið, sitjandi vestan undan Hornbrynju illa farið, og þegar að var gætt var gat eins og eftir byssukúlu á höfðinu. Þetta gæti allt eins verið skáldsaga því ef Gautavík hefur verið verslunarstaður með erlendar skipakomur fram að 18. öld skortir þar um allar heimildir.

Scan_20210206 (2)

Þó svo að talið sé að fornleifarannsóknir í Gautavík hafi ekki skilað miklum upplýsingum, þá kom múrsteinshleðsla í ljós. Þessi fundur er viss ráðgáta sem setur verslunarstaðinn síðar í tíma en sagan hermir, en tilgáta er nú um að múrsteinarnir séu hluti lýsisgerðarhúss

Um endalok verslunar í Gautavík segir; -"Þar sem ekki fundust neinar leifar eftir þyrpingu innlendra bóndabæja við víkina, má gera ráð fyrir að hún hafi öll verið yfirgefin þegar endalok hennar urðu að veruleika. Vísbendingar um eyðileggingu eru samt ekki fyrir hendi. Allt smálegt sem var nýtilegt hefur verið flutt burtu. Ef til vill stóðu einungis veggir búðanna uppi á meðan annað nýtanlegt byggingarefni, eins og timbur, hefur einnig verið fjarlægt. Veggirnir voru skildir eftir til þess eins að grotna niður, enda var byggingarefni þeirra ekki æskilegt til endurnýtingar. Sérstaklega var tekið eftir því að múrsteinahringurinn var ekki grafinn upp og fluttur með öðrum varningi, þó steinarnir væru örugglega mikils virði og heldur ekki erfitt að grafa þá upp og nota þá aftur. Svo virðist þó sem að efri hluti kúpulsins hafa fljótlega verið fjarlægður." (Ólafía; rit Fornleifafræðingafélags Íslands.)

Það eru til fleiri sagnir um Gautavík fyrri á öldum eftir að verslun í Gautavík var hætt, sem mætti flokka sem þjóðsögur, Gautavíkur er og getið í Tyrkjaránssögum frá 1627. Í bók Öldu Snæbjörnsdóttur, Dvergasteinn – Þjóðsögur og sagnir úr Djúpavogshreppi, segir frá skriðu sem féll við Gautavík 26. júní 1792. Þar sem hluti fjallshlíðarinnar, sem er óravegu frá sjó, virðist hafa losnað og fallið alla leið í sjó fram. Þá fórust hjónin í Gautavík Jón Jónsson matrós og Ásdís Hermannsdóttir kölluð hin fagra.

Heimildir um þetta er að finna í kirkjubók Berufjarðakirkju. “30. júní grafinn hreppstjóri Jón Jónsson bóndi í Gautavík. Varð fyrir skriðuhlaupi í því mikla storm -og hretviðri hinn 26. s.m. á sínu aldurs 44. ári fannst upptekinn af sjónum þann 27. s.m.; ásamt honum deyði kona hans Ásdís Hermannsdóttir hvörrar lík fannst ekki og meinast begrafin undir hlaupinu 32 ára. Þau eftirlétu 4 ungabörn, kýr og meginhluta ærifjár um 27 kvíaær.”

Bókin Sópdyngja – þjóðsögur, alþýðlegur fróðleikur og skemmtan í útgáfu þeirra Braga og Jóhanns Sveinssona er ítarlegri frásögn af þessum atburði. Þar er sagan höfð eftir Antoníu Jónsdóttir á Arnarstöðum í Núpasveit við Öxarfjörð, en hún var ein af afkomendum Jóns og Ásdísar í Gautavík. Þar segir frá því að Jón hafi farið upp á Fljótsdalshérað að sækja fé og í rekstri hans hafi verið grákollótt kind sem kerling á Héraði hafi ásælst, en Jón ekki viljað láta. Þetta á að hafa verið að haustlagi og þá sennilega haustið áður en skriðan féll. Kellingin á að hafa haft í hótunum við Jón vegna kindarinnar.

Þegar var farið að grafast fyrir um hvernig þessi mikla skriða gæti hafa fallið á að hafa komið í ljós að smalar hefðu séð kerlingu á fjallinu daginn áður. Við upptök skriðunnar hafi sést spor en enginn ferill fundist. Eins kemur fram í frásögninni að Ásdís og Jón hafi verið það efnuð að hægt hafi verið að sjá fyrir fjórum ungum börnum þeirra. Sagt er að einn sonur þeirra hjóna hafi heitið Jón og lengi búið í Núpshjáleigu á Berufjarðarströnd. Nafn og aldur smalans í Gautavík kemur einnig fram í frásögninni, en sá var grunaður um að hafa stolið peningakistli og skorið silfurhnappa af fötum Jóns.

Það má segja, þó undarlegt sé, að upphaf þessa Gautavíkur vangaveltna megi rekja til Bæjarins sem hvarf í ösku og eldi. En í jólagjöf fékk ég samnefnda bók Bjarna E Einarssonar fornleifafræðings um uppgröftinn á Bæ í Öræfum og rannsóknir honum tengdar. Það er talið að allt að 600 manna sveit hafi horfið af yfirborði jarðar með manni og mús á dagparti árið 1362. Ein af blómlegri sveitum landsins, sem áður var nefnd Litla Hérað, fékk þá nafnið Öræfi eftir sprengigos Hnappafellsjökli, þar sem nú nefnist Öræfajökull.

Saga þessarar sveitar glataðist í hamförunum, önnur en þau örlitlu brot sem má finna í kirkjubókum Stafafellskirkju um eignir kirkna í Litla Héraði. Stafafellskirkja er í Lóni, hátt í 200 km fjarlægð. Af uppgreftrinum á Bæ má draga þá ályktun að margt í Íslandssögunni hafi verið með öðrum blæ en heimildir eru fyrir, t.d. að lýsisframleiðsla og sala hafi verið mikilvæg útflutningsvara landsmanna, en lýsi var m.a. notað til að lýsa upp bæi og borgir Evrópu. Vangaveltur í þessa veru má einnig finna í bók Bergsveins Birgissonar, rithöfundar dr í norrænum fræðum, "Svarti víkingurinn", en Bergsveinn telur að þrælaveldi landnámsmannsins Geirmundar heljarskinns hafi m.a. byggst upp á útflutningi á lýsi. 

Það virðast hafa verið snögg umskipti á Íslandi í gegnum tíðina hvort staðir voru blómlegir eða ekki, náttúruhamfarir hafa ráðið þar mestu. Það fer t.d ekki mikið fyrir sögu Reykjavíkur fram eftir miðöldum, annað en að þar setti fyrsti landnámsmaðurinn sig niður. Hugsast gæti að þau eldsumbrot sem hafa verið á Reykjanesskaga á þeim tíma hafi orðið til þess að sá landshluti naut sín ekki á sama hátt og hann gerir nú á tímum. 

Gautavík DB

Gautavík; teikning Daniel Bruun 1901


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband