Hamra Setta

Sagan af Sesselju Hamra-Settu hefur óbeint að geyma fyrstu heimildir um Egilsstaði. Það er eins og að sá staður hafi ekki verið á yfirborði jarðar fyrr en á 16. öld, svo merkilegt sem það nú er af stað sem hefur talist á krossgötum í þjóðbraut allar götur síðan.

Algengasta útgáfa þjóðsögunnar af Hamra-Settu segir reyndar ekki frá neinu á Egilsstöðum, heldur af útilegukvendi á Borgarfirði eystri. En þegar nöfn þjóðsögunnar eru borin við tiltækar opinbera heimildir má finna sömu nöfn og þjóðsagan hefur að geyma í dómskjölum vegna morðs sem Sesselja Loftsdóttir var dæmd fyrir á Egilsstöðum á 16. öld í málaferlum á árunum 1541-1543 skömmu fyrir siðaskiptin 1550.

Sesselja var fundin sek um að hafa myrt mann sinn Steingrím Böðvarsson sem lést árið 1540. Upphaflega var ekkert talið athugavert við andlát Steingríms, hálfu ári eftir útför hans var lík hans grafið upp í Vallneskirkjugarði til rannsóknar vegna orðróms sem var uppi um að Sesselja hefði banað honum í félagi við vinnumann sinn, Bjarna Skeggjason, en þau voru þrjú í heimili. Sesselja eignaðist barn með þessum vinnumanni sínum og það sem meira var að vinnumaðurinn hafði áður átt barn með dóttir Sesselju.

Þeir sem rannsökuðu lík Steingríms eftir uppgröftinn skjalfestu að ekkert fyndist á líkinu sem benti til manndráps en einhverra hluta vegna breyttu þeir síðar framburði sínum fyrir rétti.

Eftir dauða Steingríms, en áður en á Sesselja var sökuð um morðið, þá hafði hún selt jörðina Egilsstaði nágranna sínum, Birni bónda á Eyvindará og eru þeir kaupsamningar til, en í þeim kom fram að þau höfðu gert með sér skipti á Egilsstöðum og Hólalandi í Borgarfirði eystri ásamt því sem Björn átti að greiða milligjöf í reiðufé.

Sá fyrirvari var samt á þessum kaupsamning, af Björns hálfu, að ekki mættu vera meinbugir á eignarhaldi Sesselju og gengu kaupin ekki að fullu í gegn fyrr en það væri komið í ljós. Fyrirvarinn hefur sennilegast komið til vegna erfðaréttar dóttir Sesselju til Egilsstaða, sem síðar kom í ljós að hún hafði framselt til Skálholtskirkju.

Eftir að þeir sem rannsökuðu lík Steingríms breyttu vitnisburði sínum var Sesselja dæmd til dauða fyrir morð, en vinnumaðurinn ekki, Egilsstaðir voru gerðir upptækir af ríkinu þ.e.a.s. til danska kóngsins. Þetta varð ekki til að minka málaferlin og því er til margra ára heilleg saga af þessu tímabili í málskjölum.

Eigendur Egilsstaða voru nefnilega orðnir þrír, Björn bóndi á Eyvindará sem hafði keypt þá alla með fyrirvara, Skálholtsbiskupstóll sem dóttir Sesselju hafði látið hafa sinn erfðahlut í próventu og taldi sig því eiga þá á móti ríkinu eftir að þeir höfðu verið dæmdir af Sesselju vegna morðs.

Í dómi Sesselju var ákvæði um tylftardóm þ.e. ef hún gæti fengið 12 málsmetandi menn til að sverja fyrir sakleysi sitt þá slippi hún við dauða, þar að auki var athyglisvert ákvæði til vara um að hún gæti innan tiltekins tíma leitað sér griða í dómkirkjum landsins annaðhvort í Skálholti eða á Hólum, sem hún gerði að Hólum.

Þetta bendir til að dómarar hafi ekki haft hreina samvisku varðandi dauðadóminn. Til eru málskjöl þar sem hún leitar á náðir Skálholtsbiskups, ári eftir að hún nær griðum á Hólum, þegar biskup er í erindrekstri í Vallanesi á Héraði m.a. vegna Egilsstaða mála, þar fer hún fram á syndaaflausn vegna hórdómsbrotsins með vinnumanni sínum.

Þar sem málskjölum líkur, þar líkur einnig opinberri sögu Sesselju Loftsdóttur á Egilsstöðum, og ekki er vitað til þess að hún hafi sest að á Hólalandi í Borgarfirði eystri og þjóðsagan minnist ekki á þann stað. Enda er ekki útilokað að þar sé á ferð allt önnur saga sem byggi á svipuðum nöfnum, eða þau hafi brenglast að einhverju leiti í meðförum þjóðsagnaritara.

Málaferli þessi voru á miklum umbrota tímum í Íslandssögunni. Austurland heyrði þá undir Skálholtbiskupstól. Siðaskipti urðu á Íslandi um miðja 16. öld. Þau eru talin vera að fullu framkvæmd með aftöku Jóns biskups Arasonar árið 1550. 

Gissur Einarsson fór fyrir hinum nýja sið og varð biskup í Skálholti árið 1540 og kann það að skýra að Sesselja fékk grið á Hólum þar sem Jón Arason réð ríkjum, en sækir svo um syndaaflausn á hórdómsbroti hjá Gissuri Einarssyni Skálholtsbiskup þegar hann er á yfirreið um Austurland.

Það hefur mörgum þótt það einkennilegt að ekkert sé að finna um stórbýlið Egilsstaði fyrr en í þessum málskjölum, og með ólíkindum hve fáar manneskjur koma við sögu sem hemilsfólk á "stórbýlinu".

En gæti það ekki verið að Egilsstaðir hafi verið kotbýli á þessum tíma og hluti lands jarðarinnar ekki ofan vatnsborðs Lagarfljótsins fram eftir öldum. Heimildir eru um að býlið Berg hafi verið niður við Lagarfljótið fram á 19. öld á sömu slóðum og Egilsstaða torfan.

Það er ekki fyrr en sú ætt sem nú býr á Egilsstöðum eignast jörðina seint á 19. öld, að það fer að komast stórbýlisbragaur á Egilsstaði. Egilsstaðanesið, sem enn í dag á það til að lenda undir Lagarfljótið, er ræktað upp og jörðinni Kollstöðum bætt við land Egilsstaða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband