Færsluflokkur: Landsins-saga

Þarfasti þjónninn - farskjóti og félagi

Það má segja að fyrir nokkrum árum hafi ástæða þessa pistils bankað óvænt upp á dyrnar úti við ysta haf. En þá gerði erlendur túristi sig heimakominn og sagðist vera með tvær spurningar. Sú fyrri var hvers vegna fáni Jamaica með mynd af Bob Marley og áletruninni freedom blakti uppi í flaggstönginni minni. Honum léki forvitni á þessu, hann væri nefnilega sjálfur frá Jamaica. Þessari spurningu gat ég svarða greiðlega. Fáninn væri flottur, tónlist Bob Marley alveg einstök og marga textana hans hefði ég fyrst skilið þegar ég fékk örlitla innsýn sögu Jamaica.

Þá vildi hann vita vegna hvers allstaðar mætti sjá hesta hvar sem farið væri um Ísland. Hvort þeir hefðu einhvern tilgang? Þessarar spurningar hafði hann verið beðin að spyrja fyrir konuna sína sem sat úti í bíl, og hafði orðið var við það að ef var stoppað til að skoða þá komu þeir og heilsuðu kumpánlega upp á þau. Mér vafðist heldur betur tunga um tönn, en þvældi mig svo svo loks út úr spurningunni á þann veg að að ég vissi ekki betur en hestarnir hefðu verið hérna svo lengi sem menn myndu og þeir hefðu fyrir skemmstu verið kallaðir þarfasti þjónninn.

 IMG_1933

Bændur á ferð við Lómagnúp á Skeiðarársandi

"Óvíða á Jörð vorri hefur hesturinn gegnt jafn mikilvægu hlutverki og á Íslandi. Hesturinn var yfirleitt svo mjög mikils metinn að ég hef hvergi komið, þar sem hann var í slíkum hávegum hafður, - nema ef vera skyldi meðal Araba eða kósakka. Vitnisburður um þetta eru ákvæði í fornum lögum, Grágás og Jónsbók. Varla hefur nokkur önnur þjóð á líku menningarstigi sett sér svo frábær lög, og naumast nokkurstaðar í heimi tekur löggjöfin slíkt tillit til hesta og reiðmanna sem á Íslandi."

Svona komst Daniel Bruun að orði fyrir rúmum 100 árum um hug Íslendinga til hestsins. Þessi danski herforingi sem ferðaðist víða um heim, og um landið þvert og endilangt árum saman, átti naumast orð til að lýsa aðdáun sinni á Íslenska hestinum. Um þetta má lesa í bókunum Íslenskt Þjóðlíf í þúsund ár sem bókaútgáfan Örn og Örlygur gaf út um ferðir Bruun á Íslandi.

Þekking Daniels Bruun á ferðalögum um landið og íslenska hestinum var gríðarleg. Um hestinn segir hann m.a. í riti sínu Hesten í Nordboerenes Tjeneste; „Íslenski hesturinn er allmjög loðinn, lítill vexti og fremur ósjálegur, en hefur til að bera þol og nægjusemi umfram flesta aðra hesta í heimi. ...Reiðhestur, sem þarf að geta borið húsbónda sinn fljótt og örugglega á milli staða, verður að vera vanur að fara um hverskonar land og vegleysur, yfir straumharðar ár, hraunbreiður, grjót og urðarfláka, meðfram hengiflugum, yfir fen og forræði, og það engu að síður þó að landið sé hulið snjó. Hann hlýtur að vera harðgerður til að þola hið óblíða veðurfar, þolinn og fljótur á fæti til að komast hinar miklu vegalengdir á tiltölulega skömmum tíma. Og hann hefur alla þessa eiginleika. Hann er hinn óaðskiljanlegi förunautur íslenska bóndans fremur en nokkurt húsdýr hvar sem væri í heiminum, því án hans kemst hann ekkert. Hundurinn og hesturinn eru hinir tryggu förunautar hans.

Það er fullkomlega óskiljanlegt hversu þolnir og sterkir þessir litlu hestar eru. Þeir bera þungan mann allan daginn eins og ekkert sé, hvað sem á dynur, og þá ekki síður aðdáunarvert, hvernig þeir komast yfir árnar með þungar klyfjar á baki.“ Hann getur þess að hestur hafi synt yfir eina af stórám landsins um 200 faðma (120 m) breiða með dauðadrukkinn mann á baki, segist hafa séð, hvernig hestar beri menn ósjálfbjarga af drykkju. Aðdáun Bruun á íslenska hestinum er takmarkalaus. 

IMG_1885 

Skagfirðingurinn Indriði Árnason í Gilhaga var leiðsögumaður í leiðangri Bruun yfir Kjöl 1898, þó svo að hann væri komin fast að sjötugu. Hér fara þeir félagarnir á vaði yfir Svartá. Daniel Bruun þótti mikið til koma að verða vitni að samvinnu manns, hests og hunds

Daniel Bruun fór um Austur Skaftafellssýslu ásamt dönskum landmælingamönnum 1902. Ferð þeirra hófst í Hornafirði þar sem þeir nutu leiðsagnar og þjónustu heimamanna.  Landmælingamenn fóru með mælitæki á hestum upp á Vatnajökul, dvöldust í Öræfum, og eins og flest það sem Bruun varð áskynja um skrifaði hann niður og lýsti, samferðamönnum ásamt öllu því sem fyrir augu bar. Lýsing hans á upphafi þessarar ferðar er um margt mögnuð.

Það lá þokumóða yfir sléttlendinu. Aftur var orðið hlýtt í veðri, hestar og menn, hæðir og hólar dönsuðu í tíbránni, þokan lá yfir jöklinum fram eftir deginum. Sólin skein, og allt umhverfis minnti mig á dag í Sahara, þegar Arabarnir voru að leggja á stað með úlfaldalestir sínar. Eftir öllu er litið, og klyfjar reyrðar fastar. Eftir langar ráðslagnir, flutning á klyfjum milli hesta, spörk og högg, mótaðist úr allri þvögunni löng halarófa, þar sem höfðingjarnir, hreppstjórinn og trúnaðarmenn hans, fóru á undan og ræddu saman, en á eftir þeim komu fylgdarmennirnir, hver með sína 3-4 hesta bundna í lest. Eftir allan hávaðan og þysinn, meðan var verið að komast af stað, kom undarleg kyrrð, sem ekkert rauf, nema höggin þegar járnstengurnar slógust í stein eða klyfjahestarnir neru sér hver utan í annan.

Við fórum brátt yfir ána, sem ég fór yfir fyrir þremur vikum, þá var hún aðeins lækur, sem naggraði niður í grjóti, en nú fossandi jökulflaumur. Numið er staðar til að líta eftir að allt sé í lagi. Hver maður verður að hafa skipan á sínum hestum. Tveir leiðsögumenn fara á undan til að velja vaðið. Vatnið nær hestunum í kvið og gusast upp með síðunum. Lítilsháttar sandbleyta er í botni, en annars gengur allt greiðlega. Áfram er haldið, öruggt en hægt, fyrst lítið eitt undan straumi, síðan í sveig í átt að bakkanum fyrir handan. Það er fögur sjón að líta þessa löngu lest þræða vaðið í ánni. 

Þegar skrif Bruun um íslenska hestinn eru lesin þá dregur hann fram hversu stórt hlutverk hann hafði á meðal landsmanna allt frá landnámi. Það er ekki einungis svo að hann hafi verið þarfasti þjónn sem farartæki, vinnuvél og til matar. Hesturinn hafði áður bæði verið heilagur og hirð fífl, og verður þar það síðara auð skiljanlegt í íslenska máltækinu "að leiða saman hesta sína" en þar var upphaflega átt við hestaat.

IMGP2342

Vér höfum heyrt að það var ekki aðeins við greftranir, sem hestar voru felldir og þeim fórnað til að fylgja eiganda sínum í haug hans, heldur var þeim eigi síður fórnað við hinar miklu blótveislur, er haldnar voru í hofunum í heiðni. Um það atriði er fjöldi vitnisburða, einkum þó í Noregi og Svíþjóð, og á Íslandi er þess oftlega getið að hrossaket var etið í blótveislum og hefur hestunum vafalítið verið fórnað goðunum til handa.

Árið 1880 fann Sigurður Vigfússon hrossatennur í ösku frá blóthúsinu á Þyrli í Hvalfirði. Sama gerði ég, er ég gróf í hof Þorgeirs að Ljósavatni 1896. Líkt var að finna í hofinu á Hofstöðum og í Hörgum í Hörgárdal. Það hvílir því naumast vafi á að á Íslandi hafa menn blótað hestum í heiðni á líkan hátt og annarsstaðar á Norðurlöndum.

Hestar voru gefnir guðunum. - Á Aðalbóli í Hrafnkelsdal var hestur gefin Frey, og öll Hrafnkels saga Freysgoða snýst um þennan hest. Smalinn reið hinum helga hesti í banni húsbónda síns, Hrafnkels, sem drap smalann fyrir verknaðinn. Hestinum var síðan fargað með því að hrinda honum fram af hamri. Mér var sýndur staðurinn 1901.

Rétt eins og Spánverjar hafa nautaöt, svo efndu Íslendingar fyrrum til hestavíga. Og á sama hátt og ákaflyndi hinna blóðheitu Suðurlandabúa blossar upp þegar nautaatið er í algleymingi, svo gáfu og hestavíg Íslendinga í fornöld og lengi síðan tilefni til geðofsa og taumleysi Norðurlandabúans braust fram í hömlulausum áflogum, blóðsúthellingum og mannvígum og morðum, sem allt sigldi í kjölfar hestavíganna meðal þeirra, sem hlut áttu að máli, eða höfðu hug á leiknum.

Oftsinnis snerti þetta ekki aðeins einstaklinga heldur hlutu heilu ættir að taka afleiðingunum af illyrðum, barsmíðum og banahöggum, sem féllu til í hita leiksins sem ýmist var nefndur hestaþing, hestaat eða hestavíg. Drengskaparskylda Íslendinga bauð þeim að hefna sérhverrar móðgunar, annaðhvort á þeim, sem móðgunina framdi, eða frændum hans.

- Nú efna menn ekki lengur til slíkra leika, en gefist tækifæri til að sjá hesta bítast, láta Íslendingar ekki ganga sér úr greipum að horfa á það. - Þegar ég var á ferð í Skagafirði 1896 heimsótti ég séra Hallgrím Thorlacius í Glaumbæ. En hann er hestamaður og tamningamaður mikill og átti alls 150 hross, sem gengu sjálfala á útigangi. Reiðhestar Skagfirðinga voru landskunnir fyrir dug, fjör og þol. Það var því ósjaldan þar í sveit að graðfolarnir bitust í haganum. - Áhorfendur streymdu þá að og fylgdust fullir áhuga með bardaganum og hvernig honum lyki, án þess að reyna að skilja áflogagarpana.

IMG_1929

Ferðafólk á leið til Reykjavíkur

En hvaðan kemur svo þessi smái undrahestur til Íslands? Sagt er að landið sé numið af fólki frá Noregi og Bretlandseyjum. Daniel Bruun nefnir bæði Noreg og Bretland sem upprunalönd hestsins. Miklar rannsóknir á innbyrðis skyldleika hestakynja í Noregi, Bretlandi og íslenska hestsins hafa nú farið fram og er sambærilegan hest ekki lengur þar að finna.  Íslenski hesturinn er samt skyldur Nordland/Lyngen-hestinum í Noregi auk Hjaltlandseyja hestinum. Víkingar frá Noregi lögðu Hjaltlandseyjar undir sig fyrir skráð landnám Íslands svo það þarf varla að koma á óvart.

Svarið við spurningunum um uppruna íslenska hestsins er að hann er ættaður frá Noregi og á þaðan erfðafræðilegar rætur að rekja austur á gresjur Mongólíu. Og er þá ekki ósennilegt að það fólk sem nam Ísland hafi komið upphaflega frá Svartahafi til Norðurlanda og þaðan til Íslands eins og má lesa um í þeim ritum um goðafræðina, sem kennd eru við Snorra Sturluson. Samkvæmt Völsungasögu átti þetta fólk í sambandi við Atla Húnakonung og er þá spurning hvort hesturinn tengist jafnvel eitthvað þeim viðskiptum.

Bruun gat endalaust dásamað þennan goðsagnakennda hest sem hann notaðist við til ferðalaga á Íslandi. Það var ekki svo að Bruun væri ekki góðum hestum vanur, búinn að ferðast víða í Afríku og Asíu, jafnvel um Sahara á arabískum gæðingum, enda kom hann oft inn á það að íslenski hesturinn væri lítill, loðinn og frekar ósjálegur. Það eru samt þessar nákvæmu lýsingar á samspili manns og hests á Íslandi sem gefa svo mikla innsýn í Íslenskt þjóðlíf fyrri tíma.

Íslendingar eru svo vanir að líta á hestinn sem nauðsynlegt hjálpartæki í daglegu lífi að þeir fara ríðandi, þó ekki sé nema um stuttan spöl að ræða. Þess vegna er sjaldgæft að mæta gangandi mönnum, þegar komið er út fyrir túnin á bæjunum. Ég hef jafnvel séð krakka á hestbaki í smalamennsku fjarri bæjum. Fyrsta ferðalagið fer barnið helst á reiðhesti móður sinnar í kjöltu hennar, þegar það stækkar er það bundið í söðul. - Í stuttumáli sagt er hesturinn manninum óaðskiljanlegur frá vöggu til grafar. Eins og fyrsta ferðin hans var á hestbaki, svo er og síðasta ferð öldungsins, því þegar kista hans er borin til grafar frá heimili til kirkjunnar, er hún annaðhvort flutt þversum á reiðingi eða á kviktrjám milli tveggja hesta.

Áburðarhestarnir íslensku eru ekki síður þolnir og sterkir en reiðhestarnir, en þeir eru fjörminni. Þeir eru notaðir til hverskonar flutninga á kaupstaðarvarningi, byggingarefni, heyi osfv. Þeir eru Íslendingum ekki síður lífsnauðsyn en reiðhesturinn, en meðferðin á þeim er langt um verri. Á vetrum eru þeir látnir sjá fyrir sér á útigangi, en á sumrum hljóta þeir að vera vikum saman á ferð dag eftir dag, og mílu eftir mílu. Það er auðskilið mál að slíkir flutningar þreyta hestana mjög, en áburðarhestar geta dag frá degi vikum saman borið 100-150 kg þungar klyfjar. Það er ekki síður margt að gera heima fyrir. Hey af túni og engjum, sem aflað er til vetrarfóðurs, er allt flutt heim á hestum. reiða þarf áburð á túnin og yfirleitt nota hesta til allra flutninga stórra og smárra.

IMG_1924

Stúlka með heybandslest

Hér að ofan hefur ótæpilega verið vitnað í Daníel Bruun, vonandi fyrirgefst mér það, enda væri þessi pistill hvorki fugl né fiskur án þess, hvað þá um hesta. Því sjálfur hef ég svipaða reynslu af hestum og Jamaica túristi, fyrir utan að hafa fengið að sitja Golu berbakt sem polli í sveitinni hjá ömmu og afa.

Það voru fleiri útlendingar en Daninn Daniel Bruun sem áttaði sig á sérstöðu hestsins á Íslandi. Þjóðverjarnir Hanz Kuhn, Reinhard Prinz og Bruno Schweizer fóru um landið á fyrri hluta 20. aldar, í kjölfar Bruun og fylgdust með hvernig landsmenn stukku inn í nútímann. Bókaforlagið Örn og Örlygur gaf út árið 2003 þrjú bindi Úr torfbæjum inn í tækniöld, sem segir frá ferðum þjóðverjanna. Formála bókanna Úr torfbæjum inn í tækniöld er fylgt úr hlaði m.a. með þessum orðum.

Íslendingar voru opnir fyrir nýjungum og fljótir að kasta fyrir róða gömlum tækjum og tólum. Hanz Kuhn veitti þessu athygli og skrifaði 1932; „Á Íslandi tekur bíllinn beint við af reiðhestum og áburðarklárum - hestvagnatímabilinu byrjaði að ljúka skömmu eftir að það hófst. Togarar taka beint við af opnum árabátum, steinsteypan af torfinu, gervisilki af vaðmáli og stálbitabrýr í stað hesta sem syntu yfir jökulvötn.“ þannig lauk þúsund ára þjónustu þarafasta þjónsins svo til á einni nóttu. 

IMG_1689

Landar sem ég rakst á í Færeyjum á ferð með Færeyskri valkyrju. Íslenski hesturinn hefur skapað sér vinsældir víða um heim fyrir að vera einstakur félagi. En eftir að þessi höfðingi hefur einu sinni yfirgefið ættlandið á hann þangað aldrei afturkvæmt

 

 Félagar

Í heimahögunum. Finnist einhverjum að of mikið sé um hesta í landinu þá eru þeir sennilega frekar fáséðir miðað við hvað áður var

 

 IMG_3352

Íslenski hesturinn er sem fyrr smávaxinn og loðinn á vetrum. Kostir hans; þol, þróttur og nægjusemi eru enn til staðar. Hann er einnig með afbrigðum fótviss með sínar fimm gangtegundir. Hann skartar 40 grunnlitum og hundrað litaafbrigðum

 

IMG_1921


Þjóðkirkja í þúsund ár

 IMG_5392 

Sumarið 1901 fór Daniel Bruun um Austurland, stundaði fornleifarannsóknir og ferðaðist um öræfin norðan Vatnajökuls. Um ferð sína skrifaði hann ferðasögu "Ved Vatnajökuls Nordland", þar segir m.a. þetta; „Stutt var það tímabil, sem Íslendingar voru grafnir að heiðnum sið, aðeins 125 ár, því eftir kristnitöku á alþingi árið 1000, var enginn lagður skartklæddur í haug með dýrgripum sínum, skrauti, vopnum, hestum og hundum.

Eftir það var aðeins blótað á laun á stöku stað og Þór og Freyr lítt færðar fórnir. Kirkjurnar komu í stað hofanna og klukkur hringdu til tíða, þar sem fjöll höfðu fyrr bergmálað baulan og gnegg blótpeningsins. En jafnvel þótt ásatrúin gamla hefði þannig – af stjórnmálalegum skynsemisástæðum – opinberlega vikið fyrir hinum nýja milda sið, ríkti engu að síður andi víkingatímans meðal þess óstýriláta, stríðaglaða fólks, með blóðhefndina í öndvegi, en lög sæmdarinnar lituðust hugsunarhætti víkinganna.

Þá voru hér hetjur er dáðu göfugan dauðdaga með sverð í hendi og við hlið þeirra og þeim jafnfætis í þjóðfélaginu stóðu frjálsbornar konur. Við þekkjum þetta samfélag nær eingöngu af sögunum, því fáar fornaldarminjar hafa fundist, er varpa ljósi yfir þessa tíð.“ (Múlaþing 7. Bindi bls 173 / Daniel Bruun – Við norðurbrún Vatnajökuls)

Það má álykta sem svo að ekki hafi strax orðið miklar breytingar á Íslandi við það eitt að taka upp hinn "nýja milda sið", eins og Daniel Bruun kallar kristnitökuna. Á eftir fór Sturlungaöld með blóðhefndum fornaldar og að henni lokinni fóru biskupar landsins með völdin svo til óskoruð. Síðustu tveir Hóla biskupar í kaþólskum sið voru þeir Gottskálk Nikulásson og Jón Arason. Gottskálk fékk viðurnefnið "grimmi", af honum fór sú þjóðsaga að hann hafi tekið upp svartan galdur ættaðan aftan úr heiðni til að afla kirkjunni eigna. Um Jón biskup Arason og syni hans var sagt hið forn kveðna; - "öxin og jörðin geyma þá best".

IMG_2816

Mósaík mynd af Jóni biskup Arasyni í Hólakirkju. Jón er stundum talinn síðasti íslenski höfðinginn af gömlum sið

Á eftir siðaskiptin seinni um 1550 má segja sem svo að göfugur dauðdagi hafi endanlega aflagst á Íslandi, en þá tók ríkisvaldið við af kirkjunni að framfylgja siðferðilegri lagatúlkun, og gerði það með sínum Stóradómi og Drekkingahyl. Þá var tekið upp á að drekkja konum sem eignuðust börn utan hjónabands og karlmen hálshöggnir, auk þess sem teknar voru upp galdrabrennur 100 árum eftir að þær fóru hamförum í Evrópu. Danska ríkisvaldinu þótti flest til þess vinnandi að siða landsmenn, og gekk mun lengra en hinn "nýji mildi siður" frá því árið 1000. Nú áttu Íslendingar ekki lengur til neinna innlendra höfðingja með máls sín að leita.

Í skrifum Brunn um Ísland má bæði sjá hvað honum þótti vænt um land og þjóð, auk ómetanlegs fróðleiks sem hann safnaði vítt og breitt um land. Þegar hann ferðaðist um landið í rannsókanaferðum sínum skrifaði hann einnig punkta um það sem honum þótti sérstakt, sem hann birti síðar í blaðagreinum og bókum. Í bókunum Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár, sem bókaútgáfa Arnar og Örlygs gaf út árið 1987 um Íslandsferðir Bruun, er lýsing hans á sunnudegi í Skagfirskri sveit árið 1898.

„Á sunnudögum liggur öll vinna niðri nema bjarga þurfi heyjum. Orf og hrífur eru lögð upp á húsþökin. Fólkið fer í betri fötin, hestar eru sóttir í haga og söðlaðir og síðan er riðið í þeysireið til kirkjunnar. Konurnar reiða minnstu börnin í keltu sinni, þau, sem eru ögn stálpaðri, eru bundin í söðul, en stærri krakkarnir ríða einir, strákarnir stinga tánum í ístaðaólarnar, þegar þeir ná ekki ístöðunum. Hundarnir elta.

Hópar koma ríðandi frá hverjum bæ og farið er yfir stokka og steina, ár og læki, en allir stefna til kirkjunnar. Hestunum er stungið inn í hestarétt, sem er á flestum kirkjustöðum, og þar bíða þeir yfir messutímann. Fólkið kemur yfirleitt snemma til kirkjunnar, því margt þarf að gera áður en guðþjónustan hefst. Um margt er skrafað og skeggrætt, eldra fólkið spyr frétta og ræðir heyskaparhorfurnar, en unga fólkið leitar hvort annað uppi, og eru þar gefin heit, sem binda alla ævi meðan reikað er á milli grasi gróinna leiða og hrörnandi krossa í kirkjugarðinum. Áður en konurnar ganga í kirkju fara þær inn í bæ til að klæða sig úr reiðfötunum og skipta á reiðhattinum og litlu skotthúfunni, sem fest er í hárið, og jafnvel, ef eitthvað mikið er um að vera, að klæðast hátíðarbúningi. - Aðkomumenn eru spurðir spjörunum úr, hvaðan þeir komi, og hvað þeir séu að gera, hvert þeir ætli, hvar þeir hafi fengið hesta o.s.frv. og auðvitað verður að gefa greið svör við öllum spurningunum.

En nú gengur presturinn fram og heilsar kirkjugestunum áður en hann fer og klæðir sig í hempuna, og svo er klukkunum hringt, - Presturinn gengur í kirkju í fylgd meðhjálparans. Karlar sitja hægra megin í kirkjunni en konur til vinstri. Jafnskjótt og konurnar setjast lúta þær höfði og halda hvítum klút fyrir andlitinu og gera bæn sína. Víða er lítið orgel, sem einhver úr söfnuðinum leikur á, en þótt ekkert sé hljóðfærið hljómar söngurinn vel. Oft syngja ungar stúlkur í kór og leiða sönginn, allar eru þær smekklega klæddar í fallegum búningum. Daginn áður hefur maður ef til vill mætt þeim í vinnufötum við rakstur í túninu með flaksandi hár, eða lítinn klút bundinn um það í hnakkanum, í stuttum pilsum og mórauðum, grófgerðum sokkum, sem bundnir eru fyrir neðan hné með ólum. Þær ganga öruggar og djarfar til vinnunnar og hoppa lipurt og létt yfir polla og skurði á skinnskóm sínum.

Stundum er kirkjugestum veitt kaffi, og þá oft drukkið í baðstofunni.

En þegar öllu þessu er lokið, stíga kirkjugestir aftur á hestbak og ríða á brott í smá hópum. Piltarnir láta spretta rösklega úr spori, en ungu stúlkurnar hoppa fimlega í söðulinn og fylgja þeim hiklaust eftir.

Sunnudagskyrrðin hvílir yfir sveitinni. Ekkert brýnsluhljóð heyrist, engar heybandslestir á ferðinni, og engir lestarmenn á leið úr kaupstað, einungis glaðir hópar fólks á heimleið frá kirkju sinni. Varla er hægt að sjá að grasið á þaki gömlu kirkjunnar bærist í golunni og enn síður á leiðunum í kirkjugarðinum, eða á bæjarþakinu, þar sem hundurinn liggur eins og hann sé á verði. Þokuhnoðrar hylja fjallstindana, en sólin ljómar yfir engjunum og ánni, sem bugðast eftir dalnum, og hún skín á bæina, en bláir reykir stíga upp frá þeim, og úti við sjóndeildarhringinn er hafið blátt og vítt.“. (Ísl. Þjóðlíf I bindi bls 36-37)

IMG_2732 

Prédikunarstóll Víðimýrarkirkju og "hið virðulega kirkju inni". Í byrjun 18.aldar bannaði Jón biskup Vídalín prestum að tala blaðalaust úr ræðustól og þess vegna á að vera gluggi á þekjunni ofan við prédikunarstólinn í öllum torfkirkjum svo presturinn geti lesið stólræðuna. Sagt var að einn prestur hafi skrifað biskupi og spurt hann hvað ætti að gera ef hundur kæmi upp á kirkjuþakið, sem ekki var óalgengt á meðan á messu stóð, og settist þar á gluggann. Biskup svararði "sigaðu, blessaður sigaðu, og seppi mun fara"

Til að gefa örlitla innsýn í tíðaranda þess tíma sem Bruun var á ferð er hér gripið niður í bækurnar Íslenskt Þjóðlíf. Í Hruna spurði Bruun séra Steindór Briem um siðferðisástandið og hvort það væri ekki á lágu stigi, þar sem konur og karlar svæfu í sömu baðstofu og afklæddust hvert í annars augsýn, en presturinn sagði að vaninn gerði það að slíkt hvorki vekti hneykslan né æsti kynhvötina. „Í prestakallinu fæðast 12-14 börn árlega, en ekki nema eitt óskilgetið annað hvert ár eða svo“.

Sýnilegt er að Bruun þykir mikið til presthjónanna og heimilisfólks í Hruna koma,,, „Briemsættin er mikils metin og áhrifamikil á Íslandi. En dálítið kemur það einkennilega fyrir sjónir, hvernig fjölskyldan umgengst heimilisfólkið daglega, t.d. sefur dóttirin í baðstofunni, og það þó svo fjölskyldan sé meðal fremstu ætta landsins“. 

Þær athafnir sem fóru fram í kirkjunum voru auk guðþjónusta, - brúðkaup, jarðarfarir og ferming, sem má segi að í þá daga hafi verið nokkurskonar grunnskóla próf ungdómsins sem lauk með að gengið var til spurninga. Sjaldgæft var að ungabörn væru skírð í kirkju því að til þess þurfti að reiða þau á hestbaki langar leiðir, þannig að skírnin fór fram heima í baðstofunni og því voru skírnarfontar óalgengir í torfkirkjunum.

Brúðhjón héldu saman heim í bæinn úr kirkjunni til brúðkaupsveislu í baðstofuna, hið stóra sameiginlega herbergi íslensku bæjanna, þar sem unnið var, sofið og dvalist. Þar var brúðarsængin, jafnvel í sömu röð og önnur rúm baðstofunnar, og í henni fæddust hjónunum börnin. Þar voru hinir látnu sveipaðir laki og sálmabókin lögð yfir brjóstið, fyrir kom að líkið lægi þannig í rúmi sínu yfir nótt í baðstofunni ásamt heimilisfólki, áður en það var flutt í skemmu þar sem það stóð uppi til jarðarfarardags.

Hinsta förin hófst heima við bæ á kviktrjám á milli tveggja hesta þar sem líkkistan var reidd til kirkju í fylgd heimilismann og þeirra sveitunga sem til líkfylgdar mættu þegar hún fór fram hjá. Eftir líkræðu prestsins var kistan borin út og látin síga ofan í gröfina í kirkjugarðinum við kirkjuvegginn. Stundum kraup allt fólkið á kné á meðan mokað var ofan í gröfina. Hver og einn signdi yfir hana áður en gengið var á brott. 

IMG_4713

 Kirkjugarðurinn, sem umlykur Hofskirkju í Öræfum, með öllum sínum upphleyptu leiðum, þannig að garðurinn stendur mun hærra en umhverfið í kring. Engu er líkara en að þar hafi verið jarðsett í gegnum tíðina gröf ofan á gröf, þannig að kirkjan komi til með hverfa á endanum ofan í svörðinn

Daniel Bruun var samála Nóbelskáldinu um það að húsagerðalist torfkirknanna, sem rekja mátti allt aftur á söguöld,  hefði verið mun fegurri og hátíðlegri en kirknanna sem á eftir komu, sem Bruun taldi skorta allan svip byggingarlistar ef miðað var við torfkirkjurnar, jafnvel þó svo að ekki hefði verið hægt að þekkja þær frá öðrum gripahúsum þegar komið var í fyrstu á bæjarhlaðið. En þannig komst Nóbelskáldið að hnitmiðuðu orði, eins og honum einum var lagið, um byggingasögulegt gildi gömlu þjóðkirkjunnar úr torfi; 

„Tveggja íslenskra bygginga er oft getið erlendis og fluttar af þeim myndir í sérritum um þjóðlega byggingalist. Önnur er Víðimýrarkirkja. Ég held að það sé ekki of djúpt tekið í árinni þótt sagt sé að aðrar kirkjur á Íslandi séu tiltölulega langt frá því að geta talist verðmætar frá sjónarmiði byggingarlistar. Víðimýrarkirkjan litla er okkar Péturskirkja – þar sem hver rúmmetri ber í sér innihald þannig að virðuleiki hinnar litlu frumstæðu byggingar er í ætt við sjálfar heimskirkjurnar, þótt sjálft kirkjuinnið sé ekki stærra um sig en lítil setustofa og verðgildi byggingarinnar komist ekki til jafns við meðal hesthús. , , - og þótt vígindin í klömbruhnausunum séu reglulegri í sumum heyhlöðum í Skagafirði, og fjárhúsum, þá hef ég enga kirkjuveggi séð fegurri á Norðurlöndum.“

Enn má finna á Íslandi nokkrar torfkirkjur. Þær sömu og Daniel Bruun rannsakaði þegar hann var í ferðum um Ísland, sem átti hug hans allan um áratuga skeið. Þessar kirkjur hafa verið varðveittar í sinni upprunalegu mynd og eru ómetanleg þjóðargersemi þó svo að stærð þeirra sé ekki mikil, og efniviðurinn langt frá því að slaga í það sem þarf í meðal hesthús, þá er enn þann dag í dag vandfundnir fegurri kirkjuveggur.

 IMG_2728

Víðimýrarkirkja, sú sem Halldór Kiljan Laxness vildi meina að væri eitt merkilegasta hús á Íslandi. Eins má segja að einn frægasti sálmur sem ortur hefur verið á íslenska tungu hafi þar orðið til, en hann er  "Heyr himna smiður" eftir Kolbein Tumason á Víðimýri, héraðshöfðingja Skagfirðinga á Sturlungaöld, sálmurinn er jafnframt talinn elsti varðveitti sálmur Norðurlanda

  

IMG_2833

Saurbæjarkirkja í Eyjafirði er gott dæmi um hvernig kirkjuklukkum var fyrir komið á stafnþili. Eins voru kirkjuklukkur stundum hafðar innandyra, eða í sáluhliðinu og einnig var á einstöku stað sérstakt klukknaport í nágrenni kirkjunnar, einfaldleikinn réði

 

 IMG_4705

Hofskirkja var reist 1884, síðasta torfkirkjan sem var byggð eftir hinu gamla formi, um aldamótin 1900 hafði bygging torfkirkna verið bönnuð á Íslandi. Hún er ein sex torfkirkna, sem enn standa og eru varðveittar sem menningaminjar. Hún er jafnframt sóknarkirkja Öræfinga. Þjóðminjasafnið lét endurbyggja kirkjuna árið 1954

 

IMG_4525

Bænhúsið á Núpsstað er talið reist um miðja 19. öld, eftir umfangsmiklar breytingar á eldra húsi. Á Núpsstað var kirkja, sem í máldaga frá 1340 er kennd við heilagan Nikulás. Kirkjan virðist hafa verið vel búin fram eftir öldum, en halla tók undan fæti á seinni hluta 16. aldar. Upp úr 1650 var byggð ný kirkja á staðnum og er talið að bænhúsið sé að stofni til úr þeirri kirkju

 

Bænahúsið á Núpsstað 1899

Bænhúsið á Núpsstað árið 1899, teikning Daniel Bruun 


Bærinn og baðstofan

Stöng

Danskur læknir, Edvard Ehelers, kom til Íslands 1894 til að kanna útbreiðslu holdsveiki. Niðurstöður ferðar sinnar fékk hann birtar í dönsku heilbrigðistímariti. Það sem Ehlers hafði að segja um þrifnað á íslenskum heimilum tóku landsmenn illa upp og sökuðu hann um að vanþakka gestrisni íslenskrar alþýðu. En hann lýsti svo húsakosti hennar, og dæmigerðri baðstofu;

"Hinir litlu þröngu bæir eru að hálfu leyti neðanjarðar og nálega að öllu leyti byggðir úr torfi. Gluggar eru aðeins á öðrum gafli og allir negldir aftur af ótta við vetrarkuldann, því að Íslendingar bera eigi meira skyn á heilbrigðisfræði en svo, að þeir skoða kalda loftið hættulegri óvin en spillt loft. Í baðstofunni eru 6–8 rúm eða stórir trékassar, og sofa tveir eða þrír í hverjum kassa. Fólkið borðar í baðstofunni, oftast á rúmunum.

Þegar komið er inn í baðstofuna, þar sem fólkið er inni, gýs á móti manni óþefur svo mikill, að hann ætlar að kæfa mann. Þennan óþef leggur af mygluðu heyi í dýnum, af sauðskinnsábreiðum og skítugum rúmfötum, sem aldrei eru viðruð, og af óhreinindum þeim sem berast inn í bæinn af hinum óhafandi íslensku skinnskóm. Í óhreinindunum á gólfinu veltast börn, hundar og kettir, veita hvert öðru blíðuatlot og – sulli.

Þennan óþef leggur einnig af votum sokkum og ullarskyrtum, sem hanga til þerris hjá rikklingsstrenglum og kippum af hörðum þorskhausum. Sé vel leitað í baðstofukrókunum munu menn finna ílát, sem þvagi alls fólksins er safnað í. Það er talið gott til ullarþvottar."

Og hafi lýsing Danska læknisins þótt móðgandi á híbýlum alþýðunnar þá gaf lýsing Kaliforníubúans -  J. Ross Brown, 30 árum fyrr - á prestsbústaðnum á Þingvöllum, lýsingu þess Danska lítið eftir;

"Presturinn á Þingvöllum og kona hans búa í moldarkofum rétt hjá kirkjunni. Þessi litlu ömurlegu hreysi eru í sannleika furðuleg. Þau eru fimmtán fet á hæð og er hrúgað saman án nokkurs tillits til breiddar og lengdar og minna helst á fjárhóp í hríðarveðri. Sum þeirra hafa glugga á þakinu, og önnur reykháfa. Þau eru öll vaxin grasi og illgresi, og göng og rangalar liggi í gegnum þau og milli þeirra. Neðst eru kofarnir hlaðnir úr grjóti, og tveir kofar hafa bæjarburst úr svartmáluðum borðum, en hinu er öllu saman tildrað upp úr torfi og allra handar rusli og minnir einna helst á storkshreiður.

Þegar inn kemur í þessi undarlegu híbýli, er umhverfið jafnvel enn þá furðulegra en úti fyrir. Þegar maður er kominn inn fyrir dyrnar á einu hreysinu, sem eru svo lágar og hrörlegar, að vart er hægt að hugsa sér, að þær séu aðalinngangur, er fyrir langur dimmur, gangur með steinveggjum og moldarþaki. Hliðarnar eru skreyttar snögum, sem eru reknir inn á milli steinanna, og á þessum snögum hanga hnakkar, beisli, skeifur, fjallagrasakippur, harðfiskur, auk ýmis konar fatnaðar og gæruskinna. Gangurinn er í laginu eins og hann hafi verið byggður ofan á slóð blindrar kyrkislöngu.

Úr ganginum, sem er ýmist breiður eða þröngur, beinn eða boginn, liggja svo dyr inn í hin ýmsu herbergi. Besta herbergið, eða húsið, því hvert herbergi er einskonar hús, er ætlað gestum. Í öðru húsi býr fjölskylda prestsins í einni kös eins og kanínur. Eldhúsið er einnig notað sem hundaherbergi og stundum sem fjárhús. Í einu horninu eru nokkrir steinar, og á þá er lagt sprek og suðatað, og er þarna maturinn eldaður. Bitarnir í loftinu eru skreyttir pottum og kötlum, harðfiski, nokkrum nærpilsum og leifum af stígvélum, sem presturinn hefur líklega átt í æsku.

Á snögum torfveggjanna hanga olíudunkar, kjötstykki, gamlar flöskur og krukkur og ýmis riðguð verkfæri, sem notuð eru til að rýja kindur. Gólfið er ekki annað en sjálfur hraunflöturinn, en ofan á hann hefur myndast hart lag úr skólpi og allra handa úrgangi. Reykur fyllir loftið, sem þegar er spillt af óþef, og allt innan húss, bitar, stoðir og tíningur af húsgögnum, er gagnþrungið af þykku fúlu loftinu. Ég get ekki hugsað mér aumlegri bústaði mannlegum verum en íslensku torfbæina."

 GlaumbærII

Glaumbær í Skagafirði, íslenskur torfbær. Friðlýstur árið 1947, sem var ekki síst Íslandsvininum Mark Watson að þakka en hann hafði gefið 200 sterlingspund til varðveislu bæarins strax árið 1938.

Það hafa sjálfsagt fleiri en ég velt fyrir sér hvernig íslensk híbýli voru í gegnum aldirnar og hvers vegna aðal íverustaður þjóðarinnar, sem var bæði mat-, svefn- og vinnustaður fólks, var kölluð; -  baðstofa. Torfbærinn hafði veitt þjóðinni húsaskjól í meira en þúsund ár þegar síðustu manneskjurnar skriðu út úr þeim hálfhrundum á 20. öldinni. Það hafa  varðveist margar lýsingar útlendinga á þessum híbýlum, en landanum sjálfum þótti réttast að láta þjóðsöguna, jarðýtuna og ekki síst þögnina að mestu um varðveisluna.  

Eitt það fyrsta sem kom upp í hugann var, hvernig gat staðið á því að hin glæstu húskynni sem um getur á þjóðveldistímanum gátu orðið að þeim heilsuspillandi hreysum sem blöstu við erlendum ferðalöngum á seinni hluta 19.aldar? - sé eitthvað að marka frásagnir þeirra í rituðum ferðasögum.

Undanfarið hef ég verið að viða að mér efni varðandi húsagerð og sögu torfbæjarins. Eru þar á meðal bækur með rannsóknum Daniels Bruun, Íslenskt þjóðlíf í þúsund  ár,- meistararitgerð Arnheiðar Sigurðardóttur, Híbýlahættir á miðöldum sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins gaf út árið 1996, -ásamt bók Hjörleifs Stefánssonar arkitekts, Af jörðu - Íslensk torfhús, - auk lýsinga á torfbæjum, svipuðum og hér að ofan, í bókum Jóns Helagasonar, Öldin, ofl, ofl.

Lofotr_vikingmuseum_lofotencom_11

Borg á Lófóten þar sem íslenski landnámsmaðurinn Ólafur tvennumbrúni á að hafa búið. Húsið skiptist í skála og það sem mætti kalla stofu að víkinga sið. Í skálanum sem er til hægri handar þegar komið er inn var voru skemmtanir, matast, drukkið og sofið og kynntur langeldur í gólfi. Í (vinnu)stofunni t.v.við inngang á langhlið, sem er minni, var dvalar og vinnuaðstaða auk eldstæðis. Fræðimaðurinn Valtýr Guðmundsson vildi meina að á landnámsöld hefði stofan verið það sem kallað er skáli og öfugt

Segja má að þessi áhugi fyrir íslenskri byggingahefð hafi komið til þau ár sem ég var í Noregi. Þar vann ég m.a. við grjóthleðslur sem tilheyrðu safni Sama, en Samar kalla sín torfhús "gamma". Skammt frá Harstad, bænum sem ég bjó í, var Víkingasafnið á Borg suður við Leknes á Lofoten. Þar var þeim húsakosti gerð skil sem tíðkaðist við landnám Íslands og kom mér á óvart hversu mikill munur var á þeim stórhýsum úr torfi sem "landnámskálinn" var og þeim "moldarkofum" sem þjóðin skreið út úr þúsund árum seinna.

Í Borg var sýnd stílfærð heimildarmynd um fyrrum íbúa höfðingjasetursins, sem áttu sammerkt fleirum að hafa lent upp á kannt við Harald Hárfagra og neyðst til að yfirgefa Hálogaland. Þar er sagður hafa verið húsbóndi Ólafur tvennumbrúni. Heimildamyndin sem sýnd er við innganginn gerir því skil þegar Ólafur flutti með sitt fólk til Íslands.

Myndinni lýkur svo á þeim hjartnæmu nótum að dóttir Ólafs, sem með honum fór, snýr ein frá Íslandi aftur til Lófóten og giftist syni þess manns sem Haraldur Hárfagri eftirlét Borg, þannig hélst Borg í ættinni ef svo má segja. þetta er nú kannski ekki akkúrat það sem stendur í Landnámu og þó; "Óláfur tvennumbrúni hét maður; hann fór af Lófót til Íslands; hann nam Skeið öll milli Þjórsár (og Hvítár og) til Sandlækjar; hann var hamrammur mjög. Óláfur bjó á Óláfsvöllum; hann liggur í Brúnahaugi undir Vörðufelli".

Stöng Þjórsárdal

Þjóðveldis bærinn Stöng í Þjórsárdal, skömmu ofan við landnám Ólafs tvennumbrúna frá Borg á Lófót. Skáli og stofa eru í löngu byggingunni. Landnámsbærinn þróaðist með tímanum í fleiri en eitt hús. Í útbyggingum voru matarbúr og stundum smiðja, baðstofa eða gripahús. En alla þjóðveldisöldina hélst sú húsaskipan að aðal byggingarnar voru byggða hver fram af annarri og sneru göflum saman

Hinn Danski Daniel Bruun ferðaðist um landið sitthvoru megin við aldamótin 1900 til að stunda fornleifa rannsóknir á norrænum híbýlum "víkingaskálanum" sem viðgengust um landnám á Íslandi. Hann varð fljótlega svo hugfangin af landi og þjóð að hann skrifaði niður ómetanlegar þjóðlífslýsingar og rannsakaði bygginga sögu íslenska torfbæjarins frá upphafi til enda. Fornleifa rannsóknir hans víða um land gefa skýrt til kynna að húsakostur á Íslandi var síður en svo umfangsminni en víkinga annarsstaðar á Norðurlöndum. Íslenski "skálinn og stofan" voru oft 30-40 m langar byggingar og gat þess vegna verið um 2-300 m2 húsnæði að ræða, kynnt var með eldum í gólfi og við innganga. Það var ekki fyrr en eftir að þjóðveldið féll að húsakosti tók að hraka í landinu. Þeirri sögu lýsir Bruun svo í stuttu máli;

"Sá byggingarstíll, sem þróast hafði á Íslandi frá á miðöldum, hélst í megindráttum óbreyttur til vorra daga. Eldsneytisskorturinn, sem smám saman varða sárari og sárari, sakir þess að rekavið þraut og einkum við að skógarnir eyddust, varð ekki til þess að nýtísku hitunartæki væru tekin í bæina eins og gerðist annars staðar á Norðurlöndum. Hins vegar var gripið til þess ráðs að fækka þeim húsum, sem eldar voru kynntir í, og víðast var hvergi tekinn upp eldur nema í eldhúsinu. Í öðrum bæjarhúsum létu menn sér nægja að verjast kuldanum með hinum þykku torfveggjum og loka gluggum og vindaugum í vetrarkuldum. Af því leiddi aftur að löngum var dunillt loft í hinum lokuðu híbýlum.

Hvorki eldstór, ofnar, bíleggjarar né skorsteinar voru á íslenskum sveitarbæjum, fyrr en nú á allra síðustu árum, um leið og ný húsagerð kom til sögunnar, sem algeng er í öðrum löndum, þ.e. timburhús eða hús úr steinsteypu. Glergluggar sem nú eru algengir, jafnvel í hinum gömlu bæjarhúsum, komu mjög seint til Íslands, en þeir komu ekki í sveitabæi á Norðurlöndum fyrr en á 16. öld, þeir hafa því varla haft nokkra þýðingu á Íslandi fyrr en á 18. eða 19. öld. Fyrir þann tíma voru skjágluggarnir, þ.e. líknarbelgur þaninn á trégrind, sem fest var á gat í þekjunni og hleypti nokkurri birtu í gegn, einir um að veita birtu inn í húsin.

Hnignun alls þjóðarhags, sem hélt áfram öldum saman, orkaði auðvitað einnig á húsagerðina. Eftir því sem tímar liðu fram, létu menn sér duga það sem einfaldast var og auvirðilegast. Aðeins á biskupsstólunum, Hólum og Skálholti, og einstaka höfðingjabólum voru húsakynni, sem minntu á höfðingjasetur fornaldar, en allur almenningur þrengdi að húsakosti sínum. Fjósin minnkuðu m.a. því kúnum fækkaði, jafnframt því sem sauðfé fjölgaði. Þó eldhúsið væri eina bæjarhúsið, sem eldur brann í, gat það enn um skeið gerst að fólkið fengi sér bað að gömlum hætti í baðstofu, og hún þá hituð af því tilefni, en ekki vitum vér, hversu lengi sá siður hefur haldist.

Eins og þegar er getið, var baðstofan stundum skilin frá bæjarhúsunum, en venjan var að hún væri eitt af öftustu húsunum í bænum. Var það meðal annars til þess að önnur hús gætu notið hitans frá henni. Vafalaust hefur hún örðum stundum verið notuð til ýmissa annarra hluta. Þannig hefur mátt nota hana til dvalar og vinnustofu, þegar fólk var ekki í baði, en einkum þó eftir að hætt var að kynda elda í stofu og skála. Það kemur í ljós að á 18. öld var tekið að nota baðstofuna á þennan hátt, en upprunaleg notkun hennar var þá úr sögunni, þar sem baðvenjur voru niður lagðar.

En svo fór að menn höfðu ekki einu sinni eldsneyti til að hita baðstofuna. Nafnið eitt hélst á húsi því, sem oftast var fyrir endanum á bæjargöngunum. Það hafði áður verið notað til að baða sig í, en þegar sífellt þurfti að draga saman seglin með húsakostinn, varð það svefnherbergi. Skálinn var yfirgefinn, og rúmin flutt í baðstofuna. Í fyrstu munu það aðeins hafa verið húsbændur og fjölskylda þeirra, sem bjuggu um sig í öðrum enda baðstofunnar, bæði til að njóta hlýunnar og draga sig frá fólkinu. En síðan tók allt heimilisfólkið að sofa og dvelja í baðstofunni.

Lega baðstofunnar innst í húsaþyrpingunni hafði í för með sér að hún varð tiltölulega hlý, en nægði þó varla ætíð. Þá var gripið til þess ráðs í mörgum byggðarlögum að hýsa kýrnar þannig að fólkið í baðstofunni nyti ylsins af þeim. Ekki er kunnugt, hvenær sá siður var upp tekinn að hafa fjósið undir baðstofunni, ef til vill er hann gamall. –Byggingarlagið var þá með þeim hætti að fjósið var ögn niðurgrafið, en baðstofugólfið, sem um leið var nokkuð hærra en gólfflötur annarra bæjarhúsa.

Afstaða bæjarhúsanna innbyrðis hélst óbreytt í höfuðdráttum. Algengast var að þau stæðu til beggja hliða við göngin og fyrir enda þeirra, en tala þeirra gat verið breytileg, en jafnframt mátti bæta fleiri húsum í þyrpinguna, og höfðu þau þá sér inngang. Í tilteknum héruðum var húsunum skipað í eina röð, þannig að skipan þeirra nálgaðist fornaldarbæina, en þó með þeim mun að í fornbæjunum stóðu húsin hvert í framhaldi af stafni annars, en nú stóðu þau hlið við hlið og snéru stöfnum fram á hlaðið. Ef til vill hefur notkun glerglugganna átt þátt í þessu, en leitast var við að hafa þá á timburstöfnum.

Þegar gluggarnir voru í framhlið bæjarins gat fólkið, sem inni var, séð innan úr húsunum, hvað gerðist á hlaðinu. Auk þessa voru þakgluggar á baðstofunni. Þegar fólk var flutt inn í baðstofuna og einnig fyrir nóttina, var skálinn ekki lengur svefnstaður og hvarf brátt úr sögunni, eða merking orðsins breyttist, ef svo má segja, í miklu lítilsverðara hús en áður, en hélt þó sömu stöðu í bæjarþyrpingunni og gamli skálinn. Ennþá er oftsinnis að hús frammi í bænum er kallað „skáli“, þótt það sé notað sem skemma eða á einhvern annan hátt.

Allt frá þeim tíma, sem baðstofan varð sameiginlegur dvalar- og svefnstaður og böð voru úr sögunni, voru öll herbergi, sem notuð voru á sama hátt og hún, kölluð „baðstofur“, án tillits til legu þeirra í bænum. Og um leið höfðu menn horfið til hins forna siðar, að sofa í sama húsi og þeir unnu í og dvöldust á daginn."

Glaumbær

 Glaumbær í Skagafirði, dæmigerður "ganga - bursta bær" sem var loka kaflinn í þróun torfbæjarins. þar er baðstofan aftast í húsaþyrpingunni en fram á hlaðið eru þiljaðar burstir með gluggum og dyrum (sem ekki sjást á þessari mynd sem tekin er baka til) 

Daniel Bruun fór yfirleitt fegurri orðum orðum um íslensku torfbæina en flestir útlendingar, enda hefur hann sjálfsagt gist á betri bæjum í ferðum sínum. Það skildi þó ætla að prestsetrið á Þingvöllum hafi ekki beinlínis verið kotbær þegar Burton hinn Kalaforníski kom þar við. En þetta hefur Bruun m.a. punktað hjá sér eftir veru sína á íslensku prestsetri;

„Á Stóra-Núpi tók síra Valdemar Briem vinur Ólsens á móti okkur. –Kvöldið leið á mjög ánægjulegan hátt við fjörugar samræður í skrifstofu prestsins með mörgum fullum bókaskápum. Og að þeim loknum hvíldum við félagarnir í rúmum okkar og ræddum um, hversu notalegt það gæti verið að dveljast í íslensku torfbæjunum.“ 

Samt átti Bruun það líka til að bölsótast út í baðstofu íslenska bæjarins. "Hann skrifaði syni sínum sumarið 1907 þegar hann dvaldi í tjaldi á Gásum; -ég vil miklu heldur njóta hreina loftsins í tjaldinu en búa við hið andstyggilega, innilokaða loft í bæjunum, þar sem gluggar eru nær aldrei opnaðir. Þeir eru ekki á hjörum og oftast negldir aftur. Ég minnist þess einu sinni á ferðalagi að ég bað bóndann að opna glugga á herbergi, sem ég svaf í. Hann braut rúðuna einfaldlega af einskærri góðvild". 

Nóbelskáldið fór engu rósamáli um íslenska torbæjarmenningu í bókum sínum, en hann minntist torfbæjanna þó þannig, - þegar hann talaði um listfengi þeirra og viðhaldsþörf, því torfbæina þurfti að endurbyggja á 25-50 ára fresti og var þá ekki allur bærinn undir heldur einstök hús hans; - "Tilgerðarlaus einfaldleiki er mundángshófið í hverju listaverki, og að hvert minnsta deili þjóni sínum tilgáng með hæversku. Það er einkennilegt hvernig fólk í ljótustu borg heimsins leitast við að reisa hús sín svo rambyggilega, eins og þau ættu að standa um aldur og ævi. Meðan var til íslensk byggingarlist var aldrei siður að byggja hús til lengri tíma en einnar kynslóðar í senn, - en í þá daga voru til falleg hús á Íslandi."

Þegar ég spurði afa minn, sem fæddur var í upphafi 20. aldarinnar og ólst upp í torfbæ, hvort ekki hefði verið notalegt að alast upp í þannig húsi, þá hristi hann höfuðið og sagði; "minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn", og sagði mér svo frá sagganum og heilsuleysi foreldra sinna sem hann taldi að húsakynnin hefðu ekki bætt. Hann talaði um leka bæi og fyrirkvíðanlegar haustrigningar.

Þverá Laxárdal

Þverá Laxárdal S-Þing. þessi bær er dæmigerður Norðlenskur torfbær um aldamótin 1900. Hann hafði þó þá sérstöðu að bæjarlækurinn rennur inn í hann, þannig að ekki þurfti að fara út til að sækja vatn. Það sama átti við burstabæinn á Gvendarstöðum í Köldukinn og þar var auk þess fjósbaðstofa

Í Árbók Þingeyinga er nákvæm og skemmtileg lýsing Kristínar Helgadóttir á Gvendarstöðum í Köldukinn um það hvernig var að alast upp í torfbæ með fjósbaðstofu á 4. og 5. áratug 20. aldarinnar, þegar útséð var að nýr húsakostur tæki við af gamla torfbænum og honum yrði ekki lengur við haldið. Í niðurlagi segir Kristín m.a. þetta;  Blessaður gamli burstabærinn, hann bauð upp á margt skemmtilegt bæði úti og inni, einfalda saklausa barnaleiki. Svo urðum við bæði eldri, ég og burstabærinn. Ég hætti að dansa ballett á hlaðinu og horfa á mig í stofuglugganum hvað mér tækist nú vel, þó gúmmískórnir væru nú ekki bestu ballettskórnir.

Gamli bærinn var þreyttur, þökin fóru að leka meira og meira, stundum lak alls staðar og farið var af stað með alla dalla til að setja undir leka. Stór pollur var fremst í göngunum, það var lögð brú yfir hann. Loksins þegar stytti upp var farið að ausa pollinn. Þetta var á haustin, maður kveið fyrir haustrigningunum. Svo var gott þegar snjórinn kom og setti vel að húsunum, þá hlýnaði líka inni, samt man ég ekki eftir að væri mjög kalt í baðstofu, kýrnar hafa bjargað því og ofninn sem áður er getið, 14 lína lampinn hitað líka og svo var margt fólk sem gaf frá sér hita.

Ég hugsa um mömmu mína og hennar líf í þessum bæ. Í þessum bæ ól hún sín átta börn, annaðist þau og sá þau vaxa, hún þerraði tárin og tók þátt í gleðinni. Hún hlúði að gamla fólkinu sem sumt var rúmliggjandi lengi. Ég sem yngsta barn man ekki eftir þessu fólki, afa og ömmu, Jórunnu ömmusystir og Önnu Kristjánsdóttir sem lengi var vinnukona hjá foreldrum mínum og var heilsulaus síðustu árin.

Allt þetta fólk dó á Gvendarstöðum í skjóli foreldra minna og mamma annaðist þau. Hún hugsaði vel um bæinn sinn og hélt honum hreinum, moldargólfin voru sópuð með vendi, hurðir, stoðir og gólf, allt var hvítþvegið og öll þessi tréílát sem voru í notkun. Svo þurfti að hugsa um fatnað og allt þetta fólk. 

Árin liðu, bærinn hrörnaði og ég stækkaði, kannski var manni farið að finnast margt erfitt og þröngt og öðruvísi en ætti að vera. Sambúðin við þennan gamla bæ, sem búin var að vera mitt fyrsta skjól og leikvöllur bernsku minnar, var senn á enda og árið 1948 var hann rifinn og nýtt hús byggt á sama stað, stórt og gott hús sem mér hefur með árunum lærst að þykja vænt um eins og gamla bernskubæinn minn. (Árbók Þingeyinga 2012 – Ég og burstabærinn / Kristín Helgadóttir Gvendarstöðum Köldukinn)

 

 Keldur

Keldur á Rangárvöllum sem segja má að sé blanda af burstabæ og fornri húsagerð þar sem skálinn lá samsíða hlaði

 

IMG_1525

Langeldur í gólfi skálans í Borg á Lofoten. Upphækkaður pallur var oft með báðum hliðum skálabæjanna og fyrir stafni. Öðru megin var æðri pallur þar sem húsbóndinn sat um miðju langhliðar í öndvegi milli súlna sinna. Heimilisfólk og gestir mötuðust á pöllunum, héldu sínar kvöldvökur og sváfu svo á fleti eða í lokrekkjum við útveggi. Innst í skála fyrir stafni var pallur þar sem konur höfðu aðstöðu sína

 

Borg á Lofoten

"Stofan" í Borg á Lofóten, sem var vinnuaðstaða og íverustaður bæjarins, og á íslandi var hún talin vera þar sem sá handiðnaður fór fram sem þurfti að sitja við og standa. Þar voru klæði ofin, áhöld smíðuð, reiðtygi smíðuð og geymd, matast og síðar sofið. Síðar urðu smiðja, búr og skemma að útbyggingum líkt og sjá má á myndinni af þjóðveldisbænum að Stöng hér að ofan

 

IMG_3256

Baðstofan í Glaumbæ, Skagafirði. Dæmigerð íslensk baðstofa á betri bæ á 18. og 19. öld. Askar með matarskammti við hvert rúm, en í hverju rúmi gátu sofið fleiri en einn og var það m.a. gert svo fólk ætti auðveldara með að halda á sér hita 

 

IMG_2675

Baðstofan á Grenjaðarstað í Aðaldal. Rokkar, ullarkambar, prjónar og önnur vefnaðaráhöld voru til taks við svo að segja hvert rúm, því í baðstofunni var fatnaður heimilisfólks framleiddur

 

IMG_3644

Galtastaðir fram í Hróarstungu á Héraði. Þar er baðstofan samhliða hlaði líkt og skáli fornbæjanna. Auk þess er fjósbaðstofa á Galtarstöðum, - það er að segja kýr sem hitagjafi undir baðstofugólfi. Þetta virðist ekki hafa verið óalgeng húsaskipan á kotbæjum Austanlands. Í bænum á Galtarstöðum var búið til ársins 1960


Síðasti goðinn og bróðir hans

Hvað fékk 24 ára gamlan mann til að yfirgefa konu og börn, ferðast með flokk vígamanna yfir Kjöl um jól, fara um Hveravelli í stórhríð á gamlársdag með hrævareldinn logandi á spjótoddunum? Þessi ferð var fylgifiskur stórra örlaga í sögu þjóðar, jafnframt því sem helstu dýrgripir hennar eru ferðinni tengdir.

Sturlunga saga segir frá því þegar Gissur jarl Þorvaldsson fór sumarið 1254 til Noregs, veturinn eftir Flugumýrarbrennu. Þá vildi hann fá Odd Þórarinsson til að gæta valda sinna í Skagafirði á meðan hann dveldi ytra. Sagt er að Oddur hafi verið tregur til, enda búsettur austur í Fljótsdal, nánar tiltekið á Valþjófstað, ásamt konu sinni Randalín Filippusdóttir og börnum þeirra Guðmundi sem síðar var kallaður gríss og dótturinni Rikisa.

Þegar Gissur fer fram á þetta við Odd er hann 24 ára gamall, en Gissur 46 ára nýlega búin að missa fjölskyldu sína í Flugumýrarbrennu, í brúðkaupi Halls elsta sonar síns og Ingibjargar 13 ára dóttur Sturlu Þórðarsonar. Átti brúðkaupið að vera sátt til að binda endi á stríð við Sturlunga og áratuga óöld á Íslandi.

Eyjólfur ofsi Þorsteinsson tók ekki þátt í þeirri sátt og fór herför úr Eyjafirði til Skagafjarðar þar sem hann ætlaði að drepa Gissur og syni hans þrjá með því að brenna bæinn á Flugumýri í lok brúðkaups, en Gissur slapp lifandi úr brennunni. Eyjólfur ofsi var kvæntur Þuríði dóttur Sturlu Sighvatssonar, en feðgana Sighvat og Sturlu, og þrjá aðra syni Sighvats, hafði Gissur tekið þátt í að drepa í Örlygsstaðabardaga árið 1238 og hafði sjálfur séð um að aflífa Sturlu föður Þuríðar.

Hinn ungi Oddur Þórarinsson var af ætt Svínfellinga, sem höfðu fram til þessa að mestu haldið Austurlandi utan við átök Sturlungaaldar. Oddur fer með Gissuri úr Haukadal ásamt miklu liði um vorið norður í Skagafjörð. Þar var þeim vel tekið og Skagfirðingar létust fúsir til að hafa Odd sem sinn foringja, þó ungur væri að árum.

Þeir Gissur og Oddur halda svo með liðið til Eyjafjarðar þar sem Gissur hyggst ná um Eyjólf ofsa og aðra brennumenn. Þorvarður bróðir Odds var kvæntur inn í ætt Sturlunga og var þá í Eyjafirði hann hélt til móts við Odd bróðir sinn, en virðist illa hafa vitað í hvorn fótinn hann ætti að stíga enda má segja að þeir bræður hafi verið í sitthvoru liðinu og fór því Þorvarður heim til austfjarða og hélt sig þar þetta sumar.

Oddur hélt til á Flugumýri fyrri part sumars og eltist við brennumenn, ásamt Skagfirðingum og liðsmönnum Gissurar, m.a. út í Grímsey þar sem Oddur lét drepa Hrana Koðránsson ásamt 4 öðrum brennumönnum. Oddur fór svo suður í Haukadal og er við brúðkaup um Jónsmessuleitið, þar sem gefin voru saman Þórir tott Arnþórsson og Herdís Einarsdóttir, bróðurdóttir  Gissurar. Um sumarið eru Flugumýrarbrennumenn dæmdir sekir á alþingi. Einn af þeim sem fékkst dæmdur var Þorsteinn faðir Eyjólfs ofsa, þó svo að hann hafi ekki komið að Flugumýrarbrennu.

Þegar Gissur siglir til Noregs í ágúst um sumarið þá fer Oddur norður í Skagafjörð og hyggst setjast að í Geldingaholti. Hann fer herför norður í Vatnsdal og tekur þar sem sektarfé bústofn Þorsteins föður Eyjólfs ofsa og slátrar sumu til matar en hyggst nytja annað. Heinrekur biskup á Hólum fréttir þetta og bannfærði Odd.

Oddur fer á fund biskups og reynir að fá bannfæringunni aflétt en þeir verða ekki ásáttir um skilmálana. Borið var á biskup „að lítt harmaðir þú er menn voru brenndir á Flugumýri“. Biskup svaraði „það harma ég víst og það harma ég og að sál þín skal brenna í helvíti og viltu það, því er verr“. Oddur tekur biskup svo til fanga.

Höfðingjum á Íslandi varð mikið um að Oddur skildi hafa völd í umboði Gissurar og hafa tekið Hólabiskup til fanga. Þeir safna hátt á annað þúsund manna liði gegn honum og stefna á Skagafjörð. Fyrir þessu liði var ótrúlegur samtíningur höfðingja; Eyjólfur ofsi brennumaður, Sturla Þórðarson faðir brúðarinnar í brennunni, Hrafn Oddson og Þorgils skarði samverkamaður og vinur Gissurar. Þetta var þó að uppstöðu til sundurleitur hópur af töpuðu veldi Sturlunga.

Það var seinni hluta september að liðssafnaðurinn kom í Skagafjörð. Áður en liðið komst komst á leiðarenda hafði Oddur látið Heinrek biskup lausan og farið heim, austur á Valþjófstað í Fljótsdal. Var því engin sameiginlegur óvinur til staðar í Skagafirði og lá þá við innbyrðis stríði með liðinu. Því svo hafði Sturlungaöldin tekið af mannslífum þegar þá var komið að innan þessa liðs var margur sem átti bróður að hefna á sínum samherjum.

Það má segja að þessi sumarferð Odds norður í Skagafjörð hafi verið skiljanleg, þó svo að hann hafi ekki ásælst þau völd sem Gissur bauð honum. Oddur var kvæntur inn í ætt Oddverja, eina göfugustu ætt á Íslandi. Kona hans var Randalín Filippusdóttir en langaamma hennar, Þóra Magnúsdóttir var dóttir Magnúsar berfætts Noregskonungs, sem kallaður hefur verið „síðasti víkingakonungurinn“.

Þórður kakali Sighvatsson, bróðir Sturlu, hafði niðurlægt Filippus föður Randalín og hafði Hrani Koðránsson, sá sem Oddur drap í Grímsey, séð um að hýða Filippus á bæjarhlaði Filippusar. Þorvarður bróðir Odds var einnig kvæntur inn í ætt Oddverja, kona hans var Sólveig Hálfdánardóttir, en Hálfdán og Filippus voru bræður. Móðir Sólveigar var Steinvör Sighvatsdóttir, systir þeirra Sighvatssona, Þórðar kakala sem um tíma hafði tekið við af Sturlu sem valdamesti maður Sturlunga og um tíma mest alls landsins, og þeirra Sighvatssona sem Gissur hafði tekið þátt í að drepa í Örlygsstaðabardaga. Þó svo að þeir bræður, Oddur og Þorvarður væru giftir bræðradætrum var hefndarskyldan, sú sem þeir höfðu kvongast til, gjörólík.

Þórður kakali hafði auk þess sent Filippus faðir Randalín í útlegð og í henni fórst hann. Það má því segja að þegar Oddur hafði drepið Hrana út í Grímsey hafi hann uppfyllt hefndarskildu sína fyrir konuna að hluta. En hann átti eftir að hefna fyrir þátt Þórðar kakala. Sambýliskona Þórðar á Íslandi var Kolfinna Þorsteinsdóttir í Geldingaholti í Skagafirði, sem var höfuðból Þórðar kakala þegar hann var á Íslandi. Klofinna var systir Eyjólfs ofsa, dóttir Þorsteins þess sem Oddur hirti bústofninn af í Vatnsdal og hlaut bannfæringu Hólabiskups að launum og varð um haustið að flýja af hólmi.

Nú erum við kannski komin að ástæðu þess að ungur maður yfirgefur konu og börn rétt fyrir jólaföstu, leggur í langferð þvers og kruss um landið, með viðkomu í Haukadal þar sem hann fær Þórir tott Arnþórsson til að slást í för með sér og berst um hálendið með vígamenn í rafmagnaðri blindhríð á einum erfiðasta fjallvegi landsins á gamlársdag. Um þetta ferðalag segir Sturlunga;

„Þá gerði harða veðráttu og hríðir á fjallinu og hinn sjöunda dag jóla höfðu þeir hríðviðri. Tók þá að dasast mjög liðið Þorgeir kiðlingur lagðist fyrir. Komust þeir eigi með hann. Dó hann suður frá Vinverjadal. Guðrún var móðir hans, dóttir Álfheiðar Tumadóttur. Er hann þar kasaður.

Oddur bargast vel á fjallinu og gaf mörgum manni líf og limu og lyfti á bak í hríðinni og ófærð er eigi urðu sjálfbjarga. Þeir komu í Vinverjadal og voru þar um nóttina fyrir hinn átta dag. (Vinverjadalur eða Hvinverjadalur er talið vera það nafn sem áður var haft um Hveravelli)

Um daginn eftir fóru þeir úr Vinverjadal. Var þá veður nokkru léttara. Og er þeir voru skammt komnir frá Vinverjadal þá kom hræljós á spjót allra þeirra og var það lengi dags“.

Oddur og hans sveit komst í Skagafjörðinn þar sem þeir settust uppi í Geldingaholti. Eyjólfur ofsi frétti fljótlega hvernig komið var hjá Kolfinnu systir hans. Hann safnaði liði og fór úr Eyjafirði um Hörgárdal yfir í Hjaltadal og riðu þeir á ís inn Skagafjörð  aðfaranótt 14. janúar.

Sturlungasaga segir ítarlega frá umsátri Eyjólfs og manna hans um Geldingaholt þessa köldu janúar nótt. En Eyjólfur lagði ekki eld að bæjarhúsum í það skiptið eins og á Flugumýri, heldur rauf þakið og sótti þaðan að Oddi og mönnum hans sem voru innikróaðir.

Oddur lagði til við menn sína að þeir gerðu útrás svo auðveldara yrði að berjast. Hljóp hann út í grænum kyrtli og bar sverð, skjöld og hjálm. Hann komst langt niður á tún enda var hann „manna fimastur við skjöld og sverð þeirra allra, er þá voru á Íslandi,“ segir í Sturlungu.

Már Eyjólfsson fylgdi honum einn og voru þeir algjörlega ofurliði bornir þótt Oddur verðist af fádæma hreysti. Enginn gat sært Odd á meðan hann hafði krafta. „Hlífði hann sér með skildinum, en vá með sverðinu eða sveiflaði því í kring um sig. Hann varðist svo fræknilega, að varla finnast dæmi til á þeim tímum, að einn maður hafi betur varist svo lengi á rúmlendi fyrir jafn margra manna atsókn úti á víðum velli“, segir Sturlunga.

Eftir harðar atlögur fleygði Illugi svartakollur sér aftan í fætur Odds, sem þá var orðinn mjög móður, og felldi hann. Óskaði Oddur þá prestsfundar en fékk ekki, og unnu þar margir á honum en slepptu því að svívirða líkið. Átta menn féllu með Oddi í Geldingaholti. Eftir fall hans fengu flestir grið. Oddur var grafinn utangarðs í Seylu, en þó skáhalt undir kirkjugarðsvegginn. Var þetta gert af því að hann var í banni kirkjuvaldsins.

Þá var komið að Þorvarði að hefna Odds bróður síns. Þorvarður sýndi harðfylgi, dugnað og útsjónarsemi í hefndinni. Hann framkvæmir hana í bandalagi við frændurna Þorgils skarða og Sturlu Þórðarson sem áður höfðu sameinast í miklum liðsafnaði ásamt Eyjólfi ofsa og Hrafni Oddsyni þegar þeir ætluðu að fara að Oddi haustið áður, þegar Oddur tók Hienrek biskup til fanga.

Þorgils, sem var óbilgjarn erindreki Hákonar Noregskonungs, veitti Þorvarði hjálp til hefnda gegn liðveislu Þorvarðar til þess að ná völdum í Skagafirði. Tókst þeim að koma fram hefndum og ná Skagafirði undir Þorgils, þegar Eyjólfur ofsi var drepinn í Þverárbardaga í Eyjafirði. þar var hann með Hrafni Oddsyni bandamanni sínum og svila, en þeir voru giftir dætrum Sturlu heitins Sighvatssonar, sem báðar hétu Þuríður og voru háfsystur. Hrafn slapp óskaddaður á flótta frá Þverárbardaga.

Þorvarður, hélt á goðorðum í Eyjafirði fyrir Steinvöru tengdamóður sína, dóttur Sighvatar heitins á Grund, systur Þórðar kakala, sem eftir hann hafði þau erft. Hann fékk fáu framgengt í Eyjafirði, og er Þorgilsi skarða um kennt. Fór Þorgils að lokum með vopnuðu liði til Eyjafjarðar, til þess að ná héraðinu undir sig og konung.

Þorvarður sá í hvað stefndi og fer að Þorgils, sem treysti Þorvarði vegna fyrra bandalags þeirra, þar sem Þorgils gisti að næturlagi í Hrafnagili og drap hann. Þorvarði var ekki vært í Eyjafirði eftir þetta víg og fór austur á land og bjó eftir það á Hofi í Vopnafirði. Hann hefur hlotið harðan dóm sögunnar fyrir drápið á Þorgils skarða.

Þorvarður varð síðastur íslenskra höfðingja til að afsala goðorðum sínum, sem náðu yfir austur hluta landsins, eða frá Langanesi að Jökulsá að Sólheimasandi, og ganga Noregskonungi á hönd 1264, tveimur árum seinna en flestir aðrir íslenskir höfðingjar. Hefur hann því stundum verið kallaður „síðasti goðinn“.

Eftir það dvaldi Þorvarður um tíma í Noregi og er talið að hann hafi aðstoðað Magnús lagabæti konung við samningu nýrra laga sem tóku við af þjóðveldislögunum. Magnús lagabætir sló hann til riddara og gerði hann að hirðstjóra sínum á Íslandi. Hann lést árið 1296 nálægt 70 ára aldri og hafði þá lifað alla þá sem með goðorð höfðu farið á Íslandi.

Það var ungt fólk sem fór fyrir völdum á Íslandi í lok Sturlungaaldar, og varð að bergja á þeim beiska bikar sem tíðarandinn bauð. Saga þeirra Valþjófstaðar bræðra gefur örlitla innsýn í það hvernig umhorfs var þegar Þjóðveldið féll. Ungt fólk giftist á milli höfuðætta landsins með þann baneitraða kokteil í heimamund að setja niður deilur, gæta sæmdar ættarinnar og hefna fyrri vígaferla.

Þær Þuríðar Sturludætur, frænkurnar Sólveig og Randalín höfðu allar harma að hefna. Þeir Eyjólfur ofsi, Hrafn Oddson, og Valþjófstaðarbræður leituðust við að uppfylla skyldur sínar. Það fólk sem var í aðalhlutverkum var flest á aldrinum milli tvítugs og þrítugs þegar þá var komið sögu, fyrir utan Gissur Þorvaldsson og Sturlu Þórðarson.

Frá Valþjófsstað voru þeir bræður Þórarinssynir, ólíkt varð hlutskipti þeirra. Þorvarður varð langlífur og síðar einn mesti valdamaður landsins. Oddur dó ungur, en var talinn vígfimastur manna á Sturlungaöld. Randalín kona hans sögð kvenna högust og því lengi vel talið mögulegt, af seinni tíma fræðimönnum, að hún hafi skorið út Valþjófsstaðarhurðina, eina mestu gersemi Þjóðminjasafns Íslands. Einnig hefur verið leitt að því líkum að Þorvarður sé höfundur Njálu og hafi þar notast við atgervi Odds bróður síns í persónulýsingu Gunnars á Hlíðarenda.

Randalín varði aldarfjórðungi ævi sinnar og miklum fjármunum í að fá bannfæringu Heinreks biskups aflétt af manni sínum, svo hægt væri að greftra hann í vígðri mold, og naut þar liðveislu Þorvarðar mágs síns. Í Árna sögu biskups er sagt fá þessari baráttu Randalín. Gaf hún til þess stórfé, 20 hundruð í búfé, en það sem upp á vantaði í gulli og silfri. Kvaðst hún una Skálholti alls þessa fjár og auk þess skyldi hún gefa staðnum einhvern grip sæmilegan, og hafa menn giskað á að þar hafi verið um að ræða Valþjófsstaðar hurðina. En ef svo er þá hefur hurðin aldrei farið frá Valþjófsstað í Skálholt. Oddur var á endanum grafinn upp á Seylu og jarðaður í vígðri mold í Skálholti.

Dr. Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafnið, hafnaði nýverið kenningum um að Randalín hafi skorið út Valþjófstaðar hurðina. Þess í stað heldur hún því fram að í hurðina sé skorin út saga Jóns Loftssonar í Odda. Útskurðurinn segir frá riddara sem bjargar ljóni frá dreka. Ljónið þakkar lífgjöfina og fylgir riddaranum það sem eftir er og grætur við gröf hans. Jón fór fyrir Íslendingum í "staðarmálum fyrri", þegar þeir vörðust tilskipunum Páfagarðs um eignaupptöku kirkjujarða.

Steinunni þykir mun sennilegra að hurðin sé frá því fyrir aldamótin 1200. Leiðir hún að því líkum í bók sinni Leitin að klaustrunum að ráðgátan um hurðina sé nú loksins leyst. Þar færir hún rök fyrir tilgátunni um að hurðin hafi upphaflega verið smíðuð fyrir dyr klaustursins, sem afi Randalín, Jón Loftsson í Odda lét reisa að Keldum á Rangárvöllum á síðustu árum 12. aldar.

Þeir sem hafa litið inn á þessa síðu hafa vafalaust séð að síðuhöfundur hefur verið altekin af Sturlungu þetta árið. Mér hefði ekki dottið í hug, að við það að lesa original-inn af Sturlunga sögu ætti ég eftir að uppgötva annan eins mýgrút af sögum inn á milli sagnanna af hinum stóru orrustum Íslandsögunnar, sem maður fræddist um í barnaskóla.

Til þess að fá innsýn tíðaranda Sturlungaaldar, og koma auga á allar sögurnar í sögunni, þarf að setja sig inn í ættir og fjölskyldutengsl. Af ættfræði hefur sagan ofgnótt, svo mikla að sá ættfræðigrunnur sem Íslensk erfðagreining byggir erfðarannsóknir sínar á daginn í dag, er að miklu leiti frá Sturlungu kominn. Ef Sturlungasaga hefði ekki verið skrifuð þá vissum við tæpast hver við værum sem þjóð.

 

val


Bæn vígamanns í jólabúningi

2009-ofridarvaktEinn af fegurstu sálmum sem ortur hefur verið á íslenska tungu er án efa Heyr himna smiður eftir Kolbein Tumason í Víðimýri. Kolbeins er getið í  Sturlungasögu og var hann höfðingi í Skagafirði, foringi Ásbirninga.

Kolbeinn var vígamaður að hætti sinnar tíðar þegar húsbrennur og grjótkast tilheyrðu tíðarandanum. Hann fór að Önundi Þorkelssyni á Lönguhlíð í Hörgárdal, ásamt Guðmundi dýra Þorvaldssyni, og brenndu þeir hann inni ásamt Þorfinni syni hans og fjórum öðrum, annað heimilisfólki fékk grið. Þeir Önundur og Guðmundur dýri höfðu lengi átt í deilum. Brennan var talin til níðingsverka.

Kolbeinn átti mikinn þátt í því að Guðmundur góði Arason, frændi Gyðríðar konu hans og prestur á Víðimýri, var kjörinn biskup að Hólum, og hefur sjálfsagt talið að hann yrði sér auðsveipur en svo varð ekki. Guðmundur góði vildi ekki lúta veraldlegu valdi höfðingja og varð fljótt úr fullur fjandskapur milli þeirra Kolbeins. Guðmundur biskup bannfærði Kolbein.

Í september árið 1208 fóru Kolbeinn, Arnór bróðir hans og Sigurður Ormsson Svínfellingur, til Hóla með sveit manna, og úr varð Víðinesbardagi. Steinar voru meðal vopna á Sturlungaöld. Kolbeinn fékk stein í höfuðið í Víðinesi sem varð hans bani. Hann á að hafa ort sálminn 8. september, daginn fyrir andlát sitt, og verður helst af honum ráðið að þar sé Drottinn beðinn að sjá í gegnum fingur sér við þræl sinn.

Auk þess að vera þjóðargersemi, er Heyr himna smiður elsti varðveitti sálmur Norðurlanda og nú oftast fluttur við lag Þorkels Sigurbjörnssonar tónskálds. Sálmurinn er eitt vinsælasta íslenska efnið sem finna má á youtube og er þar farið um hann mjög svo lofsamlegum orðum.

Hér fyrir neðan flytur hin Færeyska Eivör Pálsdóttir bænina í jólabúningi frá dýpstu hjartans rótum. Ég óska lesendum gleðilegra jóla, árs og friðar.

 


Vér afkomendur Sturlunga

IMG_2786

ættum að hugleiða hver urðu endalok þjóðveldis. Það hefur nefnilega borið á því undanfarið að erlendu boðvaldi hafi verið gert hátt undir höfði á landinu bláa. Nú á tímum lýðveldis má finna samsvörun þess sem varð þjóðveldinu að falli. Íslenskir höfðingjar framseldu lögin erlendu valdi. Á tímum þjóðveldisins hófst valdaframsalið árið 1000. Þegar landsmenn undirgengust einn sið, létu af trúfrelsi og sátu uppi með Sturlungaöld, hina íslensku borgarastyrjöld. Samsvörunin í nútímanum má finna í EES samningnum, sem er „einn siður“ trúarbragða nútímans, hagvaxtarins. Út á hann hefur hluti löggjafar lýðveldisins verið framseldur til erlendra valdastofnanna.

Það er því öllum holt að lesa Sturlungu, og jafnvel enn óþjálli íslensku, sem má finna í annálsritum Hannesar Finnssonar Skálholtsbiskups. þar greinir hann m.a. frá bænaskjölum þeim sem biskupar landsins rituðu Kansellíinu, eftir að þjóðveldinu lauk og mörg hundruð ára niðurlægingartímabil tók við, þar sem biskup fóru jafnvel fram á að sveltandi landinn fengu að halda afrakstri auðlinda landsins s.s.þurrkuðum fiski og ull. Því svo hart væri í ári að alþýðan hafði eingin not fyrir innfluttan striga og strútsfjaðrir sem fengust í vöruskiptum. Striginn skjóllítill og við rándýru strútsfjaðrirnar hafði engin hugmynd um hvað ætti að gera.

Allar þessar aldir frá þjóðveldinu væri vert að rifja upp núna rétt rúmri öld eftir að skriðið var út úr hálfhrundum moldarkofunum, því á milli þjóðveldisins og lýðveldisins liðu hátt í 700 ár sem fáir virðist vilja lengur kannast við frekar en sautjánhundruð og súrkál. Ó jú, það eru enn til skinnpjötlur og annálabrot þar sem af fyrri tíð má fræðast þó svo að mikið hafi eyðst af eldi í salarkynnum erlends valds. En handritin voru eitt af því sem flutt voru úr landi eftir að fræðimenn stórríkisins höfðu komið því á kreik að hætta væri á að bókamenntaþjóðin myndi seðja hungrið með bókaáti eða gera sér úr þeim skótau.

Frá því í sumarbyrjun hef ég verið að lesa leifarnar af Sturlungu, og ekkert annað í heila fimm mánuði. Hvernig er hægt að lesa eina sögu í svo langan tíma? - Hún hlýtur að vera þraut leiðinleg? -myndi einhver álykta. Sturlunga saga er reyndar mörg rit sett saman í eina sögu upp á tæpar 1000 blaðsíður og 1500 með skýringum. Sagan er samtímasaga þess tímabils sem kallast Sturlungaöld. Ég er þó svo heppin að á mínum barnaskóla árum var hún kennd í Íslandssögu, efni hennar átti því ekki að koma á óvart. Hafði ég í upphafi sumars aðeins eitt markmið með lestrinum, en það var að kanna hvort í sögunni mætti finna staðfestu þess að Snorri Sturluson hefði skrifað þær bókmenntir sem við hann eru kenndar, því um það hef ég alla tíð efast.

IMG_1073

Snorralaug í Reykholti; þó lítið sé um frásagnir af daglegu lífi í Sturlungu þá er athyglivert að oftar en einu sinni er minnst á baðferðir. Á þjóðveldistímanum virðast Íslendingar hafa vel kunnað að nýta kosti jarðhitans

Það er skemmst frá því að segja að Sturlunga fer ekki mörgu orðum um ritstörf og skáldskap Snorra Sturlusonar, en þeim mun fleiri um ásælni hans til valda og hverju hann var til þeirra boðin og búin að fórna.

Árið 1219 er hann í Noregi og fer þaðan til Gautlands í heimsókn til Áskels Lögmanns og frú Kristínar. Snorri hafði ort um hana kvæði og „tók hún sæmilega við Snorra og veitti honum margar gjafir sæmilegar“ bls 256 – 257.

Árið 1220 kom Snorri aftur til Íslands eftir að hafa gerst hirðmaður Hákonar Noregskonungs. Þá hafði spurst til Íslands að hann hefði samið lofkvæði um jarl konungs. „Jarlinn hafði gefið honum skipið, það er hann fór á, og fimmtán stórgjafir“. Snorri bakaði sér óvinsældir með utanferðinni og „sunnlendingar drógu spott mikið að kvæðum þeim er Snorri hafði ort um jarlinn og snöruðu afleiðis“.

Árið 1230 má finna þessa setningar á bls 329 „Nú tók að batna með þeim Snorra og Sturlu og var Sturla löngum í Reykholti og lagði mikinn hug á að láta rita sögubækur eftir bókum þeim er Snorri setti saman“. Fleira var ekki að finna um bókmenntir Snorra á síðum Sturlungu.

Það var því ekki svo að upphaflegur ásetningur með lestri sögunnar hafi orðið til þess að fimm mánuði tók að lesa hana, heldur var það að atburðarás hennar heltók mig líkt og á barnaskólaárunum þegar blásið var til orrusta eftir skóla á milli Hæðara og Þorpara. Þá var barist með spýtna sverðum og þegar allt um þraut hjá okkur Hæðurum brugðumst við við með mögnuðu grjótkasti, enda vorum við ævinlega mun færri. Margt fleira varð til þess að minna á bernsku upplifun Sturlungu með dularfullu blæ. Við Matthildur mín ákváðum að flýja þokuna austur í fjörðu og brunuðum tvisvar í Skagafjörðinn, og þeystum óvænt að endingu Sturlungaslóðina mest alla.

Það er erfitt að finna sér átrúnaðargoð í höfðingjum Sturlungaaldar. Flestir viðast ekki hafa annað en eigin hagsmuni að leiðarljósi og jaðraði græðgi þeirra landráðum. Snorri Sturluson, Gissur Þorvaldsson, Sturla Sighvatsson, Þórður kakali Sighvatsson, Þorgils skarði Böðvarsson gengu allir Hákoni Noregskonungi á hönd og þáðu af honum margskonar sæmdir hvort sem það var gert af heillindum við Hákon eða einungis til að þjóna eigin metorðagirnd. Leitun er af höfðingjum af öðru sauðahúsi í sögunni. Ekki einu sinni er hægt að halda með Kolbeini unga Arnórssyni eða Eyjólfi ofsa Þorsteinssyni þó svo að þeir hafi ekki verið eins auðsýnilegir aðdáendur erlends valds.

Einn höfðingi Sturlungu var þó af öðru suðahúsi. Þorleifur Þórðarson (1185 – 1257) goðorðsmaður í Görðum. Hans nafni hefur ekki verið haldið hátt á lofti þegar Sturlunga er annars vegar. Hann vildi hvorki fara með ófrið í önnur héruð né lét hlut sinn fyrir yfirgangi annarra höfðingja. Og aldrei gerðist hann hirðmaður né þegn Noregskonungs, braut fyrirmæli hans og „myrti" þau bréf er Hákon sendi.

Þó svo að hann væri mikill vinur Snorra Sturlusonar frænda síns þá talaði hann gegn þjónkun við erlent vald og yfirráðum konungs á Íslandi. Þorleifur var einn af helstu höfðingjum  Borgfirðinga. Þegar Sturla Sighvatsson fór að seilast til aukinna valda á Vesturlandi, þá stóð Þorleifur fast á móti. Sturla hrakti Snorra föðurbróðir sinn burt úr Borgarfirði vorið 1236 en vorið eftir söfnuðu þeir vinirnir Snorri og Þorleifur liði um Suðurnes og Borgarfjörð. Í framhaldinu rak hver stórorrustan aðra á landinu bláa.

IMG_3961

Róðugrund  þar sem Brandur Kolbeinsson, síðasti höfðingi Ásbirninga, var tekin af lífi

Bæjarbardagi var háður á Bæ í Bæjarsveit í Borgarfirði 28. apríl 1237. Sturla Sighvatsson hafði hrakið Snorra Sturluson frænda sinn frá Reykholti árið áður. Þorleifur Þórðarson í Görðum á Akranesi, frændi beggja (faðir hans, Þórður Böðvarsson í Görðum var bróðir Guðnýjar, móður Snorra og ömmu Sturlu) taldi Sturlu þrengja að sér og vera orðinn of valda gráðugan.

Snorri og Þorleifur söfnuðu 400 manna liði vorið 1237 og fóru með til Borgarfjarðar en Sturla frétti af því og kom með fjölmennara lið. Snorra leist ekki á blikuna og hvarf á brott en Þorleifur fór heim að Bæ með liðið og bjóst til varnar.

Bæjarbardaginn var harður og mikið um grjótkast. Þetta var einn af mannskæðari bardögum Sturlungaaldar. Þar féllu 29 menn úr liði Þorleifs og margir særðust en aðeins þrír féllu úr liði Sturlu. Þorleifur komst sjálfur í Bæjarkirkju ásamt Ólafi hvítaskáldi og fleirum og fengu þeir allir grið en þurftu að fara í útlegð næstu árin.

Gissur Þorvaldsson höfðingi Haukdæla gerði bandalag við Kolbein unga Arnórsson Ásbirninga höfðingja í Skagafirði og þar fór næsta uppgjör fram í Örlygsstaðabardaga fjölmennustu  orrustu sem háð hefur verið á Íslandi. Hún fór fram í Blönduhlíð í Skagafirði þann 21. ágúst 1238.

Frá Örlygsstaðabardaga segir Sturla Þórðarson í Sturlungu, en hann tók sjálfur þátt í bardaganum og barðist í liði frænda sinna, Sturlunga. Þar áttust við Sturlungar annars vegar, undir forystu feðganna Sighvatar á Grund og Sturlu sonar hans, en hins vegar þeir Gissur Þorvaldsson og Kolbeinn ungi.

Sturlungar höfðu ætlað að gera aðför að systursyni Sighvats, Kolbeini unga Arnórssyni á Flugumýri, þar sem hann bjó, en gripu í tómt. Þeir héldu kyrru fyrir á bæjum í Blönduhlíð í nokkra daga en á meðan safnaði Kolbeinn liði um Skagafjörð og Húnaþing en Gissur Þorvaldsson kom með mikið lið af Suðurlandi. Liðsmunurinn var mikill, því þeir Gissur og Kolbeinn höfðu um 1700 manns, en þeir Sturlungar nálægt 1300.

Þeir Kolbeinn og Gissur komu austur yfir Héraðsvötn og tókst að koma Sturlungum að óvörum, sem hörfuðu undan og bjuggust til varnar á Örlygsstöðum í slæmu vígi sem var fjárrétt, enda mun orrustan ekki hafa staðið lengi því fljótt brast flótti í lið Sturlunga og þeim þar slátrað miskunnarlaust. Alls féllu 49 úr þeirra liði en sjö af mönnum Kolbeins og Gissurar.

Í bardaganum féllu þeir feðgar Sighvatur, Sturla og Markús Sighvatssynir. Kolbeinn og Þórður krókur synir Sighvats komust í kirkju en voru sviknir um grið og drepnir þegar þeir yfirgáfu kirkjuna. Tumi Sighvatsson komst einn bræðranna undan ásamt hópi manna yfir fjöllin til Eyjafjarðar. Sturla Þórðarson, sem sögu bardagans ritaði, komst einnig í kirkju og fékk grið eins og aðrir sem þar voru, að Sighvatssonum og fjórum öðrum undanskildum.

Til Noregs bárust tíðindi Örlygsstaðabardaga þar sem Snorri Sturluson var staddur. Hákon Noregskonungur taldi Snorra Sturluson sitja á svikráðum við sig eftir að hann stalst heim frá Noregi og fékk Gissuri Þorvaldssyni það hlutverk að senda Snorra aftur til Noregs eða drepa hann ella. Gissur heimsótti Snorra, fyrr um tengdaföður sinn, í Reykholt og lét menn sína drepa hann 23. september 1241.

Einn sonur Sighvats hafði verið í Noregi við hirð konungs þegar uppgjörið á Örlygsstöðum fór fram. Sá var Þórður kallaður kakali, hann kom síðan til Íslands í hefndarhug með leyfi konungs því herða þurfti á upplausninni milli nátengdra íslenskra höfðingja þó svo að veldi Sturlunga væri að engu orðið. Þórður kakali var djarfur stríðsmaður sem fór ávalt í fylkingabrjósti síns liðs og bar vanalega hærri hlut í stríðinu þó hann ætti til að tapa orrustunni. Það bar brátt til tíðinda eftir að Þórður steig á land.

Flóabardagi er eina sjóorrustan sem háð hefur verið við Ísland og Íslendingar skipað bæði lið. Bardaginn átti sér stað 25. júní 1244. Þar börðust Þórður kakali og Kolbeinn ungi. Þórður var með lið sem hann hafði dregið saman á Vestfjörðum, hafði 15 skip af ýmsum stærðum og gerðum og 210 menn eftir því sem segir í Sturlungu. Kolbeinn ungi var með norðlenskt lið, hafði 20 skip og 600 menn.

Þórður sigldi úr Trékyllisvík á Ströndum en mætti óvænt á miðjum Húnaflóa flota Kolbeins, sem hafði siglt úr Selvík á Skaga og ætlaði á Vestfirði til að eltast við Þórð og hans menn og sló þegar í bardaga með liðunum. Aðal vopnin voru grjót og eldibrandar auk þess sem menn reyndu að sigla skipunum hverju á annað til að sökkva þeim.

Þrátt fyrir mikinn liðsmun tókst Þórði, sem fór fremstur sinna manna, lengi vel að hafa í fullu tré við menn Kolbeins. Þó Þórður þyrftu á endanum að leggja á flótta tókst Kolbeini ekki að elta hann uppi og var hann almennt talinn hafa beðið afhroð í bardaganum. En Kolbeinn gekk ekki heill til skógar í bardaganum og hafði sig því lítið í frammi.

Kolbeinn varð æfur og sigldi á Strandir og fór þar ránshendi, tók eða eyðilagði öll skip og báta sem hann fann. Fór síðan um Vestfirði, brenndi bæi og drap búsmala þar sem fólk hafði flúið á fjöll. Í Flóabardaga féllu milli 70 og 80 úr liði Kolbeins unga en Þórður kakali missti „fáa eina“ úr liði sínu segir sagan.

Haugsnesbardagi, 19. apríl árið 1246, var mannskæðasti bardagi sem háður hefur verið á Íslandi. Þar börðust leifar veldis Sturlunga (aðallega Eyfirðingar) undir forystu Þórðar kakala Sighvatssonar og Ásbirningar (Skagfirðingar), sem Brandur Kolbeinsson stýrði en hann hafði tekið við veldi Ásbirninga af Kolbeini unga gengnum. Hann hafði 720 menn í sínu liði en Þórður kakali 600 og voru það því 1320 manns sem þarna börðust og féllu yfir 100 manns, 40 úr liði Þórðar og um 70 úr liði Brands.

Bardaginn var háður á Dalsáreyrum í Blönduhlíð, í landi sem nú tilheyrir jörðunum Djúpadal og Syðstu-Grund. Skagfirðingar höfðu gist á Víðimýri nóttina fyrir bardagann en komu austur yfir Héraðsvötn og tóku sér stöðu utan við Haugsnes, sem er nes sem skagar til norðurs út í Dalsáreyrar.

Lið Eyfirðinga hafði verið um nóttina á bæjum frammi í Blönduhlíð og bjuggust Skagfirðingar við að þeir kæmu ríðandi út með brekkunum en Eyfirðingar komu fyrir ofan Haugsnesið og komu Skagfirðingum þannig að óvörum. Þórður kakali hafði komið flugumanni í lið Skagfirðinga, sem flýði manna fyrstur og fékk marga til að leggja á flótta. Margir þeirra sem féllu voru drepnir á flótta, þar á meðal Brandur Kolbeinsson, foringi Ásbirninga.

Brandur var tekinn af lífi á grundinni fyrir ofan Syðstu-Grund og var þar síðan reistur róðukross og nefndist jörðin Syðsta-Grund eftir það Róðugrund í margar aldir. Sumarið 2009 var kross endurreistur á Róðugrund til minningar um bardagann og var hann vígður 15. ágúst 2009.

Gissur Þorvaldsson, höfðingi Haukdæla og valdamesti maður á Suðurlandi, var nú orðin einn helsti óvinur Sturlunga en ekki kom þó til átaka á milli þeirra Þórðar kakala, heldur varð það úr að þeir fóru báðir til Noregs og skutu máli sínu undir Hákon konung. Hann úrskurðaði Þórði í vil og sendi hann til Íslands til að reyna að ná landinu undir veldi Noregs, en kyrrsetti Gissur.

Næstu þrjú árin bjó Þórður í Geldingaholti í Skagafirði og var valdamesti maður á Íslandi. Konungi þótti honum þó ganga seint að koma landinu undir krúnuna og var hann kallaður aftur til Noregs 1250, en Gissur sendur heim í staðinn. Þórður var næstu árin í Noregi og líkaði það illa, en konungur leyfði honum ekki að fara heim fyrr en árið 1256. Þegar Þórður fékk heimfararleyfið á hann að hafa sagt að eftir það yfirgæfi hann aldrei Ísland en hann veiktist að kvöldi sama dags og drógu veikindin hann til dauða úti í Noregi 11. október 1256.  

Flugumýrarbrenna 22. október 1253. Gissur Þorvaldsson, helsti fjandmaður Sturlunga, fluttist norður í Skagafjörð vorið 1253 og settist að á Flugumýri í Blönduhlíð. Hann vildi sættast við Sturlunga og hluti af þeirri sáttagerð var gifting Halls elsta sonar Gissurar og Ingibjargar, 13 ára dóttur Sturlu Þórðarsonar.

Var brúðkaup þeirra haldið á Flugumýri um haustið með mikilli viðhöfn. Ekki voru þó allir Sturlungar sáttir. Eyjólfur ofsi Þorsteinsson, tengdasonur Sturlu Sighvatssonar og vörslumaður ríkis Þórðar kakala mágar síns, safnaði liði í Eyjafirði, fór með á fimmta tug vel vopnaðra manna yfir Öxnadalsheiði og var kominn að Flugumýri seint að kvöldi 21. október, þegar flestir voru gengnir til náða.

Réðust þeir til inngöngu en varð lítið ágengt og þegar Eyjólfur ofsi sá er á nóttina leið að hætt var við að menn úr héraðinu kæmu til liðs við Gissur og menn hans, brá hann á það ráð að kveikja í bænum. Tuttugu og fimm manns fórust í eldinum, þar á meðal Gróa kona Gissurar og allir synir hans þrír, en Gissur sjálfur bjargaðist með því að leynast í sýrukeri í búrinu. Brúðurin Ingibjörg Sturludóttir bjargaðist einnig úr eldinum.

Gissur Þorvaldsson missti alla sína fjölskyldu í Flugumýrarbrennu og hélt sumarið eftir til Noregs. Eyjólfur ofsi Þorsteinsson naut ekki hilli á meðal íslenskra höfðingja eftir Flugmýrarbrennu og voru brennumenn almennt hundeltir. 

Þverárbardagi á Þveráreyrum í Eyjafirði 19. júlí 1256 var orrusta þar var tekist á um völd og áhrif á Norðurlandi eftir brottför Gissurar Þorvaldssonar til Noregs. Annars vegar voru þeir Eyjólfur ofsi Þorsteinsson, foringi brennumanna í Flugumýri, og svili hans Hrafn Oddsson, sem höfðu um veturinn farið að Oddi Þórarinssyni, sem Gissur hafði sett yfir Skagafjörð, og drepið hann.

Í hinu liðinu var Þorvarður Þórarinsson bróðir Odds, sem var að leita hefnda, og með honum Þorgils skarði Böðvarsson, sem taldi sig eiga tilkall til valda í umboði konungs, ásamt Sturlu Þórðarsyni. Þarna eru Sturlungar í báðum liðum, Eyjólfur ofsi sem gætti hagsmuna mágs síns Þórðar kakala og hins vegar Þorgils skarði af ætt Sturlunga og Sturla Þórðarson sem gifti Ingibjörgu dóttur sína Halli syni Gissurar á Flugumýri.

Þeir komu með lið bæði úr Borgarfirði og austan af landi, því Þorvarður var af ætt Svínfellinga, og mættu liði Eyjólfs og Hrafns á Þveráreyrum. Þó heldur fleiri væru í liði þeirra svila Eyjólfs og Hrafns og það betur vopnað höfðu Þorgils og Þorvarður sigur. Eyjólfur ofsi féll en Hrafn lagði á flótta. Bardaginn á Þveráreyrum var ekki sérlega mannskæður, þar féllu 16 manns 8 úr hvoru liði en margir særðust.

IMG_3982

Á Haugsnesi þar sem mannskæðasta orrusta Íslandssögunnar fór fram, hefur Sigurður Hansen á Kringlumýri komið upp útilistaverkinu, Grjóther. Þar er stillt upp 1320 hnullungum, jafnmörgum þeim mönnum sem tóku þátt í bardaganum. Uppstillingin sýnir fylkingarnar rétt áður en þeim laust saman. Matthildur stendur þarna í vegi fyrir Þórði kakala sem fór fyrir Sturlungum. Steina röðin fyrir aftan hana eru Ásbirningar. Krossarnir tákna þá sem féllu í í bardaganum 

Þorgils skarði Böðvarsson (1226 – 1258)  var af ætt Sturlunga, sonur Böðvars Þórðarsonar Sturlusonar og Sigríðar Arnórsdóttur Tumasonar, systur Kolbeins unga. Viðurnefnið kom til af því að Þorgils var fæddur með skarð í vör en fyrr á öldum var ekki algengt að þeir sem þannig var ástatt um kæmust á legg. Átján ára fór Þorgils til Noregs og var við hirð Hákonar konungs, sem lét lækni græða skarðið í vör Þorgils og er það fyrsta lýtaaðgerð sem vitað er til að gerð hafi verið á Íslendingi.

Árið 1252 sendi konungur Þorgils til Íslands ásamt Gissuri Þorvaldssyni og áttu þeir að  koma landinu undir vald konungs. Þorgils reyndi að ná yfirráðum yfir ríki því sem Snorri Sturluson frændi hans hafði ráðið á árum áður í Borgarfirði og settist að í Reykholti. Hann var óvæginn og harður, bakaði sér óvinsældir og hraktist á endanum út á Snæfellsnes á föðurleifð sína, Stað á Ölduhrygg.

Þegar að Gissur fór til Noregs eftir Flugumýrarbrennu vildi Þorgils reyna að ná yfirráðum í Skagafirði, sem hann taldi sig eiga tilkall til þar sem hann var Ásbirningur í móðurætt. Eyjólfur ofsi taldi sig einnig fara með völd í Skagafirði í umboði Þórðar kakala á meðan hann dvaldi í Noregi.

Nokkru eftir Þverárbardaga, þar sem Eyjólfur ofsi var drepinn, varð Þorgils höfðingi yfir öllu Norðlandi. Hann lenti þó fljótt í deilum við bandamann sinn úr Þverárbardaga, Svínfellinginn Þorvarð Þórarinsson sem þá bjó á Grund. Þorvarður var tengdasonur Steinvarar Sighvatsdóttur, sem gerði þegar þá var komið kröfu um arf eftir Þórð kakala bróður sinn.

Deilunum lauk með því að Þorvarður tók Þorgils skarða af lífi á Hrafnagili í Eyjafirði aðfaranótt 22. janúar 1258. Eftir vígið hraktist Þorvarður burt úr Eyjafirði. Þorgils skarði var ókvæntur en átti dótturina Steinunni, með Guðrúnu Gunnarsdóttur sambýliskonu sinni, systur Ingibjargar sem varð fylgikona Gissurar Þorvaldssonar síðustu ævi ár hans. 

Gissur Þorvaldsson lauk því ætlunarverki að koma Íslandi undir Noregskonung árið 1262, sem hafði áður gefið honum jarlsnafnbót og er Gissur sá eini sem hefur haft jarlstign yfir Íslandi. Austurland var undan skilið í tvö ár, þar sem Svínfellingar höfðu áfram völd, en þeir sóru Noregs konungi hollustu árið 1264, sama átti við um Rangæinga til ársins 1263.

Sturlungaöld er almennt talin hafa náð yfir tímabilið 1220, þegar Snorri Sturluson gerist hirðmaður Hákonar Noregskonungs, þar til Þjóðveldið fellur árin 1262-64. Sturlunga saga nær þó yfir mun lengra tímabil eða allt frá 1117-1291 auk Geirmundar þáttar heljarskinns landnámsmanns. Sagan í heild skýrir hvernig Sturlungaöld gat orðið með öllu sínu blóðbaði. Þar má í stuttu máli segja að mesti styrkur þjóðarinnar, frændræknin og fámennið, hafi snúist upp í að verða hennar mesti veikleiki.

Síðasta saga Sturlungu er Árna saga biskups. Hún gerist á fyrstu árunum eftir Sturlungaöld, og var sú sem mestan tíma tók að stauta sig í gegnum. Þar er farið yfir þær gríðarlegu breytingar sem urðu þegar þjóðveldið féll. Kirkjuvaldið lagði á tíund, sölsaði undir sig kirkjur og jarðir í bænda eign. Konungsvaldið kom með lögbókina Járnsíðu sem íslendingar höfnuðu eindregið svo að Jónsbók varð að lokum málamiðlun. Konungur setti á nýja skatta og sölsaði undir sig ættaróðul sem sektarfé. Þær skyldur sem konungsvaldið átti að uppfylla s.s. siglingar til og frá landinu urðu fljótlega mun strjálli en til stóð.

Aldirnar sem á eftir fóru, þangað til íslendingar náðu vopnum sínum á ný með fullveldinu, verða ekki fjölyrtar hér, en á það má minnast að frjálslindi virðist hafa farið þverrandi. Ekki var óalgengt að börn fæddust utan hjónabands á þjóðveldistímanum, og það talið eðlilegt. Hjúskaparlöggjöf varð fljótlega mun strangari og að því kom að Stóridómur var upp tekinn, þar sem konum var drekk fyrir barneignir utan hjónabands og karlar hálshöggnir. Vistarbandið gerði svo vinnufólki ómögulegt að ganga í hjónaband. Galdrabrennur voru teknar upp á Íslandi hundrað árum eftir að þær höfðu tröllriðið Evrópu. Fólkið átti enga möguleika gegn valdinu, það var ekki til neinna höfðinga í landinu að leita. Hver ósköpin ráku svo önnur, þannig að þjóðin komst hvað eftir annað á vonarvöl í einu gjöfulasta landi veraldar.

IMG_3980

Það er ágætis markmið til að setja sér við lestur Sturlungu að gefast ekki upp áður en  kakalanum hefur verið komið undir hælinn. Frumheimildir eru seinlesnari en túlkanir annarra á þeim, en þar gæti tilgangurinn helgað meðalið


Góðir Íslendingar

IMG_1922

Það er flestum ljóst að það vorum ekki við sem fundum upp hjólið og auk þess seinir til að tileinka okkur kosti þess. Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að við höfum þróað með okkur axarskaftið. Sú saga sem við höfum af mestri sjálfsumgleði hampað, er frá þeim tímum sem teljast til gullalda, þ.e. þjóðveldisöldin, og svo 20. öldin frá hingaðkomu hjólsins. Þarna á milli er margra alda saga sem hefur verið lítið höfð í frammi af okkur sjálfum. Enda tímar niðurlægingar og hörmunga sem mörgum finnst fara best á því að gleyma eins og hverjum öðru hundsbiti.

Það er engu líkara en þjóðarsálin skammist sín mest af öllu fyrir hversu snögglega hún hrökk inn í nútímann. Lífshættir áratuganna á undan eru huldir móðu nema ef vera kynni að vottaði örlítið fyrir þeim í Íslandssögu Jónasar frá Hriflu fyrir börn, sem þykir ekki trúverðugt plagg, jafnvel argasta þjóðernispólitík. Þögnin hefur verið látin að mestu um að greina frá lífsháttum þessa volaða tíma eftir að drunur jarðýtnanna hljóðnuðu sem sáu um að varðveita byggingasöguna.

En nú á tímum umhverfisvitundar er samt að koma æ betur í ljós að fyrir fátt er að fyrirverða sig, fyrri tíma þjóðlíf og byggingahefð hafði að geyma eitthvert umhverfisvænsta og sjálfbærasta mannlíf sem fyrir fannst á byggðu bóli. Þrátt fyrir að við kjósum að sjá ekki annað en moldarkofa og rolluskjátur, sem eiga að hafa eytt skógum og jafnvel nagað gat á jarðskorpuna. En á móti komu átthagafjötrar vistarbandsins sem lágmarka kolefnissporið með mælihvörðum nútímans. 

Þó svo áar okkar hafi vissulega flest verið því fegin að komast út úr hálf hrundum moldarkofum og losna undan því að rölta á eftir rollum allt sitt líf þá er óþarfi að blygðast sín fyrir söguna um ókomna tíð. Nú er flest það fólk sem hörmungina upplifði fallið frá og verður ekki gerð nein minnkun þó svo að þessari sögu sé haldið á lofti. Og sem betur fer var til fólk sem áttaði sig á því hvað íslenskt þjóðlíf var einstakt á heimsvísu og hélt ýmsu til haga sem annars hefði orðið jarðýtutönninni að bráð.

Árunum 1890-1920 gerði hinn danski Daniel Bruun skil og varð svo hugfangin af landi og þjóð að hann ferðaðist vítt og breytt um landið. Með í föruneyti sínu hafði Bruun ljósmyndara og málara til að festa á mynd það sem fyrir augu bar. Jafnframt stundaði hann fornleifarannsóknir og skráði niður búskaparhætti, samgöngumáta, fæði, klæði og húsakost. Svo uppnuminn varð Bruun að hann lagði til að fyrirhugaður sýningarbás Danaveldis, á heimsýningu í París, sýndi íslenskan veruleika, ásamt færeyskum og grænlenskum.

Sandfell

Danskir landmælingamenn í túninu við Sandfell í Öræfum árið 1902.Í bók Ófeigs Sigurðssonar, Öræfi, segir frá því, þegar hringvegurinn var formlega opnaður með því að frammámenn  þjóðarinnar komu og klipptu á borða; "1974 þegar reynt var að geðjast forseta lýðveldisins með því að landbúnaðarráðuneytið kveikti í Sandfellsbænum og slétti út tóftunum með jarðýtu, þetta hátíðarár, var sérstakt húsfriðunarár í Evrópu, þá áttuðu menn sig ekki á því að forsetinn var fornleifafræðingur að mennt og fyrrum þjóðminjavörður Íslendinga".

Það voru fleiri útlendingar en Danir sem áttuðu sig á sérstöðu Íslands. Þjóðverjarnir Hanz Kuhn, Reinhard Prinz og Bruno Schweizer fóru um Ísland á fyrri hluta 20. aldar, í kjölfar Daniels Bruun og fylgdust með hvernig landið stökk inn í nútímann. Bókaforlagið Örn og Örlygur gaf út árið 1987 tvær veglegar bækur, sem gera ferðum Daniels Bruun skil, undir heitinu Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár. Og árið 2003 þrjú bindi Úr torfbæjum inn í tækniöld, sem segir frá ferðum þjóðverjanna.

Formála bókanna Úr torfbæjum inn í tækniöld er fylgt úr hlaði m.a. með þessum orðum. „Íslendingar voru opnir fyrir nýjungum og fljótir að kasta fyrir róða gömlum tækjum og tólum. Hanz Kuhn veitti þessu athygli og skrifaði 1932; „Á Íslandi tekur bíllinn beint við af reiðhestum og áburðarklárum - hestvagnatímabilinu byrjaði að ljúka skömmu eftir að það hófst. Togarar taka beint við af opnum árabátum, steinsteypan af torfinu, gervisilki af vaðmáli og stálbitabrýr í stað hesta sem syntu yfir jökulvötn.“

Í þrem bókum Tryggva Emilssonar, Fátækt fólk, Baráttan um brauði og Fyrir sunnan er að finna einhverjar raunsönnustu heimildir um daglegt líf fólks á þessum miklu umbrotatímum. Þar lýsir Tryggvi lífi sínu í hálfhrundum torfbæjum við sjálfsþurftarbúskap með lítinn bústofn sem samanstóð af nokkrum, rolluskjátum, hesti, hundi, og belju. Þar eru lýsingar á því hvernig þarfasti þjónninn missti hlutverk sitt á einni nóttu, eftir að bíll komst einu sinni með flutning og fólk á palli í sveitina, og var hesturinn aldrei notaður eftir það til ferða í kaupstað. Í bókunum má finna lýsingar á braggalífi og því hvernig ríkisútvarpið, hernámið og hitaveitan breytti öllum heimilissiðum og heimsviðmiðum. Tryggvi endaði einstakt æviskeið sem skrifstofumaður, búandi í raðhúsi í Reykjavík.

Ég fékk nasasjón í mýflugumynd af þessum gamla tíma kyrrstöðu, umbrota og framfara úr baksýnisspegli ömmu minnar og afa. Þar varð ég var við tvennskonar viðhorf. Þegar ég spurði afa minn hvort ekki hefði verið notalegt að alast upp í gamladaga með torfbæ sem skjól út á grænni grundu á meðan yndi vorsins undu skoppandi í kringum lítinn smaladreng. Þá hristi hann höfuðið og sagði; „minnstu ekki á það helvíti ógrátandi nafni minn" og bætti svo við að þetta hefði verið hörmungar hokur. Aftur á móti tók ég oft eftir því að þegar amma var kominn í upphlutinn þá var hún farin yfir í hátíðlegri heim, og rokkurinn sem til hennar gekk frá móður hennar er eitt af mínum dýrmætustu stofustássum þó hann sé fyrir löngu þagnaður.

Undanfarin ár hafa augu mín og eyru opnast fyrir þessari mögnuðu sögu. Þegar sól skín í heiði og tækifæri er til þá höfum við Matthildur mín ekki látið hjá líða að heimsækja þá fáu torfbæi sem enn finnast í landinu. Það eru ennþá til kot, kirkjur og höfðingjasetur, sem má skoða. Þeir sem hafa heimsótt þessa síðu í gegnum tíðina ættu að hafa orðið varir við myndir og frásagnir frá þessum torfbæja túrum. Núna þegar sumarið er brostið á enn á ný, eru ferðir farnar út um þúfur. Mælir síðuhöfundur með þjóðlegum þúfnagangi um leið og hann óskar lesendum gleðilegs þjóðhátíðardags.

 

IMG_1913

Glaumbær í Skagafirði árið 1896 þegar Daniel Bruun var þar á ferð

 

GlaumbærII

Enn má finna forna bæi á ferð um landið. Síðasta fjölskyldan flutti úr Glaumbæ 1948. Bærinn er nú í vörslu Þjóðminjasafnsins. Er það talið hafa skipt sköpum varðandi varðveislu bæjarins að Íslandsvinurinn Mark Watson gaf til þess 200 sterlingspund árið 1938

 

IMG_3251

Í gamla hlóðaeldhúsinu í Glaumbæ 2017

 

Glaumbær eldhús

Teikning Daniels Bruun af hlóðaeldhúsinu í Glaumbæ, sem er að grunni til frá 1785


Húh, poppúlismi og víkingaklapp

Hvað er það sem gerir okkur að þjóð? Er það þegar landsliðið þjappar okkur saman á góðri stund og við klöppum og hrópum HÚH? Það örlaði á því að erlendir öfga þjóðernissinnar gerðu að því skóna á sínum tíma, að íslenska landsliðið væri gott dæmi um hvers samstaða hreins kynstofns væri megnug. En við vitum öll að húh-ið og víkingaklappið við Arnarhól átti ekkert skylt við það Seig Heil sem þjappaði saman Þýskalandi Nasismans.

Eru það þá kannski erfðir, eins og Kári segir með sinni greiningu, það sem gerir okkur að þjóð? Krabbi í genum sem má greina í tíma og jafnvel taka ákvörðun um að fjarlæga bara ef samþykki fæst til að upplýsa viðkomandi? Kannski á erfðagreiningin eftir að finna alsheimer genið og aðferð til að fjarlæga það með víkingaklappi fjölþjóðlega? Það er samt langsótt að genin ein, þó víkinga séu, myndi þjóð og mun líklegra að upplýsingatækni erfðagreiningar eigi sínar ættir að rekja til trixa Útgarða Loka, eða jafnvel í sjálfan money haven lyfjarisanna.

Er það þá tungumálið sem gerir okkur að þjóð? Þessi vanrækta örtunga sem á nú í vök að verjast? Oftar en einu sinni hef ég heyrt Pólverja, sem hafa búið árum saman hér á landi, halda því fram að það taki því ekki að læra tungumál sem 300 þúsund hræður tali. Nær væri að þessar hræður lærðu Pólsku sem töluð væri af hátt í 40 milljónum manna. Þessir Pólsku kunningjar mínir hafa þó engin áform uppi um að yfirgefa Ísland og ég svo sem ekki annað í huga en að skilja þá á mínum heimaslóðum. Þeir eru þá sérstakir Pólverjar, hafa þrammað úr einu union-inu í annað til þess eins geta talið sig vera sjálfstæða þjóð.

Er réttara að þjóðin hagi sér almennt eins og gamli Akureyringurinn þegar hann bauð mér Good morning við ruslatunnurnar til þess að vera alveg öruggur með að gera sig ekki að viðundri? Jafnvel þó ég væri hrolleygður bláskjár í gatslitinni lopapeysu í morgunn kulinu og svaraði með góðan daginn á því ástkæra og ylhýra. Ég varð svo uppnumin af morgunn andagt gamla mannsins að ég sagði vinnufélögum mínum að ég væri nokkuð viss um að landar okkar á Akureyri væru nú þegar farnir að búa sig undir að hætta að tala íslensku ég hefði ekki betur heyrt en þeir væru farnir að tala fjölmenningartungum.

Það er þessi tunga, sem enn í dag á það til að sameina okkur í húh-i, sem varðveitir okkar þjóðarsögu með víkingaklappi. Jafnvel þó nútíma fræðimenn telji þjóðar söguna grobb byggt á hæpnum munnmælum. Þjóðin hafi hreinlega verið óskrifandi fyrstu fjögur- fimmhundruð árin sem hún byggðu þetta land. Víkingaklapp sé lygagrobb, kannski fyrir utan Egil Sklallgísmsson, þetta hafi verið hæglætis sauðfjár bænda bjálfar sem hafi skemmt sér við að þylja sáldskap í kuldanum á dimmum vetrarkvöldum.

Samt var frétt af því ekki alls fyrir löngu að Sænskir sérfræðingar teldu sig hafa fundið íslenska skáldið Jökul Bárðarson sem Ólafur helgi Noregskonungur lét drepa á Gotlandi árið 1029. Það kom þeim á sporið að áverkar voru á höfðakúpu íslenska haugbúans á Gotland, sem  samsvöruðu nákvæmlega víkingaklappi, sem passaði þar að auki við nútama greiningar, og húh-að hafði verið um á sínum tíma. En Grettis sagan á að hafa verið húh-uð í 3-400 ár áður en hún komst á prent. Jökull á að hafa verið frændi Grettis sterka Ásmundssonar og var skáldmæltur. Honum hafa verið eignuð fleygustu orð Grettis sögu, jafnvel íslenskrar tungu í gegnum tíðina, s.s.sitt er hvað gæfa eða gjörvuleikur, lítið verk og löðurmannlegt, lengi skal manninn reyna, ofl., ofl..

Sturlunga er sögð samtímasaga, þ.e.a.s. skrifuð á þeim tíma sem hún gerist. Fræðimenn hafa ætlað Snorra Sturlusyni höfundarréttinn af fornsögunum. Það er samt ekki minnst einu orði á það í Sturlungu að Snorri hafi hripað niður glósur á meðan landsmenn húh-uðu í myrkrinu. Hann var höfðingi á sinni tíð samkvæmt sögunni, og umtalaðasta bókmenntaverk hans í þann tíma var Háttartal sem var talinn leirburður ætlaður til að smjaðra fyrir slektinu, og sköpuðu Snorra óvinsældir sem jöðruðu landráðum, þar til Gissur jarl Þorvaldson tók af honum ómakið fyrir fullt og allt.

Það breytir samt ekki því að Snorri taldi sig einnig eðalborin, af ætt Ynglinga og gat rakið þann þráð til Goðsins Freys, sem var af Vanaætt frá Svartahafi. Snorra er m.a. ætluð Ynglingasaga, þó svo að hann hafi verið athafnamaður í ætt við þann Kára sem færði okkur fyrir skemmstu Íslendingabók, ættfræði grunn þjóðar sem nær til landnáms og er notaður í genarannsóknir. Goðið Freyr var tvíburi Freyju sem Njörður í Nóatúnum átti með systur sinni þannig að þjóðaruppruni Íslendinga væri samkvæmt genunum hrein blóðskömm ef ekki kæmu til Skjöldungar afkomendur Óðins í Ásgarði við hið sama Svartahaf.

Enski fornleifafræðingurinn Neil Price, sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á víkingum norðurlanda notaði ekki bara Íslendingasögurnar heldur einnig íslensku þjóðsögurnar til að átta sig á hugarheimi víkinga. Þessu greindi hann frá í fyrirlestrum sínum „The Viking Mind“. Hann segir að íslensku þjóðsögurnar hafi haldið áfram að geyma þennan heim hugans með sögum af draugum, álfum og alls kyns vættum. Það getur nefnilega verð margt sem tungumálið geymir og við innbyrðum umhugsunarlaust með móðurmjólkinni, sem gerir okkur að sérstakri þjóð.

Samkvæmt Íslendinga bók erfðagreiningar á ég ættir að rekja til þriggja barna skáldsins á Borg, þeirra Þorgerðar, Beru og Þorsteins. Börn Egils og Ásgerðar voru fimm, tveir synir þeirra Gunnar og Böðvar áttu ekki afkomendur. Um þá orti víkingurinn Egill Skallagrímsson kvæðið Sonatorrek með aðstoð Þorgerðar dóttir sinnar. Ljóðið hefur að geyma frægustu ljóðlínur víkinga aldar, sem enn varðveitast á íslenskri tungu og eru oft viðhafðar við jarðarfarir. Ef við ætlum að gerst svo miklir poppúlistar í eigin landi að bjóða dzien dobry eða good morning, má ég þá heldur biðja um einfalt húh með víkingaklappi. Því þá yrði komið fyrir íslenskri þjóð líkt og var komið fyrir Agli, henni yrði mjög tregt um tungu að hræra.


Hið dularfulla guðshús goðans

IMG_2350

Það þarf ekki að fara um langan veg til að ferðast langa leið. Í vikunni var skotist hálftíma út fyrir bæinn, að ég hélt til að skoða moldarkofa. Eftir þennan skottúr flugu upp gömul heilabrot sem ekki náðist að raðað saman á sínum tíma. Ástæða þessarar skreppu túrs var upphaflega að skoða nýlega byggða torfkirkju en ekki endilega eitthvað sem næði út yfir rúm og tíma.

Geirsstaðakirkja er endurbyggð torfkirkja frá Víkingaöld. Sumarið 1997 fór fram fornleifauppgröftur á vegum Minjasafns Austurlands undir stjórn Steinunnar Kristjánsdóttur. Sú rannsókn leiddi í ljós fornt bæjarstæði í landi Litla-Bakka í Hróarstungu. Rústirnar voru af lítilli torfkirkju, langhúsi og tveimur minni byggingum. Túngarður úr torfi umlukti byggingarnar.

Kirkjan á Geirsstöðum hefur verið af algengri gerð kirkna frá fyrstu öldum kristni á Íslandi. Líklega hefur kirkjan einungis verið ætluð heimilisfólki á bænum. Tilgáta er um að Geirastaðir gætu hafa verið bær Hróars Tungugoða, sonar Una Danska, landnámsmanns. Hróar var var sagður hafa búið að Hofi, sem var sagt vestan Lagarfljóts, austan Jökulsár og norðan Rangár, sem sagt þar sem heitir Hróarstunga.

Geirsstaðakirkja var endurbyggð 1999 – 2001, undir leiðsögn Gunnars Bjarnasonar húsasmíðameistara, Guðjóns Kristinssonar torfhleðslumanns og Minjasafns Austurlands. Það var gert með fjármagni sem kom úr sjóðum Evrópusambandsins, Vísindasjóði rannsóknaráðs Íslands, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Norður-Héraði. Kirkjan er í umsjón fólksins á Litla-Bakka og sér það um varðveislu hennar og viðhald. Kirkjan er opin almenningi gegn vægu gjaldi og framlögum í söfnunarbauk, en Þjóðminjasafn Íslands hefur ekki með þessar sögulegu minjar að gera.

Hróar Tungugoði er með dularfyllri goðum Íslands því hann virðist hafa verið uppi á tveim stöðum í einu, austur á Fljótsdalshéraði og suður við Kirkjubæjarklaustur. Hann er sagður sonur Una danska Garðarssonar og Þórunnar Leiðólfsdóttir. Til er tvær Hróarstungur sem við hann eru kenndar, önnur er austur á Fljótsdalshéraði á milli Lagarfljóts og Jöklu þar sem kirkjan á Geirsstöðum stendur. Hin Hróarstungan er á milli Hörgslands og Foss á Síðu, austur af Kirkjubæjarklaustri, á milli tveggja smálækja. Þar á Hróar Tungugoði að hafa verið drepinn, á slóðum þar sem gæsaskyttur fundu víkingasverð fyrir nokkrum árum. Hróars er m.a. getið í Njálu og Austfirðingasögum, á hann samkvæmt Njálu að hafa verið mágur Gunnars á Hlíðarenda.

Landnáma segir af Una danska sonar Garðars Svavarssonar, þess er fyrstur fann Ísland. Sagt er að Uni hafi farið til Íslands að ráði Haralds konungs hárfagra. "Uni tók land, þar sem nú heitir Unaós og húsaði þar. Hann nam sér land til eignar fyrir sunnan Lagarfljót, allt hérað til Unalækjar. En er landsmenn vissu ætlan hans tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir og mátti hann þar eigi haldast. Uni fór suður í Álftafjörð enn syðra, en náði þar eigi að staðfestast. Þá fór hann austan með tólfta mann og kom að vetri til Leiðólfs kappa í Skógahverfi og tók hann við þeim." Talið er samkvæmt örnefnum að Skógahverfi hafi verið í Vestur-Skaftafellssýslu í grennd við Kirkjubæjarklaustur.

Saga Una danska er því ekki síður dularfull en saga Hróars sonar hans. Uni á að hafa numið land á Fljótsdalshéraði, eða allt frá Unaósi við Héraðsflóa til Unalækjar, sem er á Völlum skammt fyrir innan Egilsstaði. Reyndar er til annar Unalækur sem er mun nær Unaósi og vilja sumir meina að misskilnings gæti um landnám Una og því eigi að miða við þann læk en ekki þann sem er innan við Egilsstaði. Þá væri landnám Una nokkurn veginn þar sem kallað er Hjaltastaðaþinghá og skaraði ekki langt inn í landnám Brynjólfs gamla.

Eins og fram kemur í Landnámu þá virðist landnám Una hafa verið numið áður en hann kom; "er landsmenn vissu ætlan hans tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir og mátti hann þar eigi haldast". Enda hefur Hjaltastaðaþingháin alltaf verið dularfull með sína Beinageit, Kóreksstaði og Jórvík. Sumir hafa fært fyrir því rök að hún hafi verið Keltneskari en flest landnám norrænna manna á Íslandi. Uni hraktist því suður á land, nánar tiltekið í Skógarhverfi sem talið er hafa verið á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu.

Þar komst Uni í kynni við Þórunni dóttur Leiðólfs og varð hún ólétt. Uni vildi ekkert með Þórunni hafa og forðaði sér, en Leiðólfur elti hann uppi og dró hann ásamt mönnum hans heim til Þórunnar. Uni lét sér ekki segjast og flúði aftur þá fór Leiðólfur aftur á eftir honum og köppum hans og slátraði þeim öllum þar sem heita Kálfagrafir. Þannig endaði landnámsmaðurinn Uni danski ferð sína til Íslands sem sögð var hafa verið farin að undirlagi Haraldar konungs hárfagra svo hann kæmist yfir Ísland.

Hvort Hróar sonur Una hefur átt eitthvað tilkall til landnáms föður síns austur á Héraði er ekki gott að finna út úr eftir allar þessar aldir, en samkvæmt sögum og örnefnum þá virðist hann hafa sest að í Hróarstungu á bæ sem hét Hof, en ekki er vitað hvar það Hof var og er nú giskað á að Geirsstaðakirkja sé Hof. Hróarstunga er að vísu fyrir norðan Lagarfljót en landnám Una danska fyrir sunnan, en vel má vera að Lagarfljót hafi á Landnámsöld ekki átt sinn farveg þar sem hann er í dag. Allavega var það landsvæðið sem tekur bæði yfir Hróarstungu og Hjaltastaðaþinghá, sem var í landnámi Una, áður kallað ein Útmannasveit.

Ég set hér inn myndir frá guðshúsi goðans.

IMG_2341

 

IMG_2349

 

IMG_2361

 

IMG_0345

 

IMG_2369

Víkingaskip sem hinn skoski steinhleðslumaður Donald Gunn gerði við fyrir framan hringlaga túngarðinn í kringum Geirsstaðakirkju


Þeir litu blóðs í pollinn

IMG_2639

Um Hvítasunnuleitið árið 1784 var ógeðfellt morð framið í grennd við syðsta bæ í Breiðdalshreppi, Streiti á Berufjarðarströnd, eftir að þrír ungir menn lögðust út og hugðust lifa í félagi sem útilegumenn, inn í atburðarásina blandaðist síðar fjórði austfirski  unglingurinn. Örlögin höguðu því þannig að allir þessir ungu menn tíndu lífinu í framhaldi þessa Hvítasunnumorðs. Síðasta opinbera aftakan á Austurlandi var lokakaflinn í þeirri atburðarás, þegar einn þessara ungu manna var aflífaður á hroðalegan hátt á Eskifirði rúmum tveimur árum seinna. Sagan hefur ekki farið fögrum orðum um ævi og örlög þessara drengja, en spyrja má hverjir voru valkostirnir.

Árferðið 1784 var eitt það versta sem á Íslandi hefur dunið, móðuharðindin voru þá í öllu sínu veldi. Í annálum má lesa hrikalegar lýsingar á lífskjörum fólksins í landinu. En árið 1783 hófust eldsumbrot á Síðumannaafrétti í Lakagígum sem sagan kallar Móðuharðindin. Öskufall og brennisteinsgufa lagðist yfir landið þannig að gróður visnaði um mitt sumar, hraunflóð vall fram milli Síðu og Skaftártungu með þeim afleiðingu að tugir bæja eyddust og flókið úr flestum sveitum V-Skaftafellssýslu átti þann einn kost að flýja átthaga sína, ekki bætti úr skák að veturinn á undan hafði verið óvenju harður og hafís legið fyrir norðan land. Um haustið 1783 var ástandið þannig í flestum landshlutum að fénaður kom magur af fjalli ef ekki horaður og víða var búpeningur sjúkur af gaddi og beinabrigslum. Í grennd við gosstöðvarnar var margt búpenings þegar fallinn.

Eftir heylausan harðinda vetur 1783-84 með frosti og eiturgufum, svo hörðum að aðeins þrjár kýr voru taldar hafa lifað veturinn af á Melarakkasléttu, reikaði bjargarlaust fólk og skepnur uppflosnað um allar sveitir, máttvana af hor og hungri. Innyflin í skepnunum ýmist þrútnuðu eða visnuðu, bein urði meyr, rif brotnuðu undan þunga skepnunnar þegar hún lagðist út af, fótleggir klofnuðu og beinhnútar gengu út úr skinninu. Mannfólkið var svipað leikið um vorkomuna 1784, þar sem mikill fjöldi fólks þjáðist skyrbjúg og sinakreppu, brisi í beinum og liðamótum. Hár rotnaði af ungum sem öldnum, gómar og tannhold bólgnaði auk blóðkreppusóttar og annarra kauna. Fjöldi fólks lét lífið á víðavangi við flækingi á milli sveita og bæja. Þetta sumar gengu menn víða um land fram á lík á förnum vegi, oft það mörg að ekki reyndist unnt sökum magnleysis að greftra þau öðruvísi en í fjöldagröfum, enda víða frost í jörðu langt fram eftir sumri.

Ofan á þessar hörmungar bætast svo ægilegir jarðskjálftar á Suðurlandi, 14. og 16. ágúst sumarið 1784, þegar fjöllin hristu af sér jarðveginn svo gróðurtorfurnar lágu í dyngjum og hrönnum við rætur þeirra. Í Rangárvalla- og Árnessýslum einum, er talið að um 100 bóndabæir og 1900 byggingar hafi hrunið til grunna með tilheyrandi skjólleysi fyrir fólk og fénað, jók þetta enn á vesöld og vergang fólksins í landinu. Þrátt fyrir vilja danskra yfirvalda til að aðstoða Íslendinga í þessum hörmungum, sem m.a. má sjá á því að kannað var hvort hægt væri að flytja hundruð landsmanna af verst leiknu svæðunum til Danmerkur, þá skorti menn og hesta burði til að ferðast í kaupstað svo nálgast mætti aðstoð. Þó greina annálar frá því að embættismenn í höfuðstaðnum hafi talið ástandið hvað skást á Austurlandi og þar mætti hugsanlega enn finna nothæfa hross til flutninga á nauðþurftum.

Djúpivogur

Djúpivogur

Þann 10. júní 1784 var Jón Sveinsson sýslumaður Sunnmýlinga staddur á Djúpavogi, en hann var búsettur á Eskifirði. Þar sem hann var í kaupmannshúsinu hjá Grönvolt ritaði hann bréf til dönsku stjórnarinnar sem átti að fara með verslunarskipinu sem lá við ból úti á voginum, ferðbúið til Kaupmannhafnar. Gripið er hér niður í bréf sýslumanns; , .. tel ég það mína embættisskyldu að skýra hinu háa stjórnarráði stuttlega frá óheyrilegu eymdarástandi þessarar sýslu, sem orsakast ekki aðeins af feiknarlegum harðindum tveggja undangenginna ára, heldur hefur dæmalaus ofsi síðastliðins vetrar þreifanlega á því hert; því eftir að napur kuldi ásamt viðvarandi öskufalli og móðu af völdum eldgosa höfðu kippt vexti úr gróðri, þá þegar örmagnað búpeninginn sem fitna átti á sumarbeitinni, skall hér á strax um Mikjálsmessu (þ.e. 29. sept) svo harður vetur, að hann gerist sjaldan bitrari í marsmánuði. Hlóð þegar miklum snjó í fjöll og dali, svo að fé fennti víða á svipstundu.

Menn urðu að hætta heyskap í miðjum klíðum. Heyið lá undir snjó og spilltist. Lestir á leið að höndlunarstöðum komust ekki leiðar sinnar, en urðu að láta þar nótt sem nam. Þeir sem voru á heiðum uppi misstu ekki aðeins hesta sína úr hungri, heldur skammkól þá sjálfa í frostinu. Veðurfar þetta hélst fram í miðjan nóvember, er heldur brá til hins betra. Með nýári hófst miskunnarlaus vetrarharka með langvinnum stormum og fannfergi og svo óstjórnlegu frosti, að um 20. febrúar hafði alla firði lagt innan úr botni til ystu nesja, en slíks minnast menn ekki næstliðið 38 ár. Hér við bætist hafísinn, sem hinn 7. mars þakti svo langt sem augað eygði af hæstu fjallstindum, og hélst þessi ótíð fram á ofanverðan apríl, að heldur hlýnaði í lofti, þó ekki nóg til þess að fjarðarísinn þiðnaði eða hafísinn hyrfi frá landi fyrr en í maímánaðarlok.

Sauðfé og hross, sem hjarað höfðu af harðærin tvö næst á undan og fram á þennan ódæma harða vetur féll nú víðast hvar í sýslunni... Búendur á hinu kunna Fljótsdalshéraði, sem áður voru fjáðir og gátu sent 5-8 eða 10 hesta lestir í kaupstað, verða nú að fara fótgangandi um fjöll og heiðar og bera á sjálfum sér eina skeppu korns í hverri ferð... Engin þinghá í allri sýslunni virðist svo vel sett, að hungursneyð verði þar umflúin jafnvel í sumar. Í flestum sóknum eru fleiri eða færri ýmist flúnir af jörðum eða fallnir úr sulti, flakk og þjófnaður ágerist svo, að ég hef síðan manntalsþing hófst haft auk annarra, sem refsað hefur verið, tvo sakamenn í haldi, sem dæma verður til Brimarhólmsþrælkunar, af því hesta er hvergi að fá til að flytja þá í fangahús landsins...

Landsbóndinn hefur misst búfjáreign sína, og missir hrossanna gerir honum með öllu ókleift að stunda atvinnu sína eða afla sér brauðs, þótt í boði væri. Sjóarbóndinn svonefndi, sem um mörg undanfarin ár hefur eins og hinn að mestu lifað af landsins gæðum, er engu betur settur...; verða því allir að deyja án undantekningar, sælir sem fátækir. Nema Yðar Konunglega Hátign allra mildilegast af landsföðurlegri umhyggju líta vildi í náð til þessara Yðar þrautpíndu fátæku undirsáta á eftirfarandi hátt.

1. Að kaupmenn konungsverslunarinnar hér í sýslu fengju með fyrsta skipi skýlaus fyrirmæli um að lána öllum bændum sýslunnar undantekningalaust nauðsynjavörur, þó í hlutfalli við þarfir og fjölda heimilisfólks.

2. Að Yður náðarsamlegast þóknaðist að gefa fátæklingunum í hreppunum, þeim sem annars féllu, tiltekinn skammt matvæla, þar sem lán sýnist ekki mundu verða til annars en sökkva þeim í skuldir, sem aldrei yrði hægt að borga

3. Eða, að Yður allramildilegast þóknaðist að flytja héðan það fólk, sem komið er á vergang og vinnufært teldist, annað hvort til Danmerkur eða annarra staða hérlendis, þar sem betur kynni að horfa, til að létta þá byrði sem það er á örsnauðum fjölskyldum, sem þreyja á býlum sínum, og bjarga þannig dýrmætu lífi margrar óhamingjusamrar manneskju, er ella hlyti að hníga í valinn ríkinu til tjóns...“

Það er í þessu árferði, á uppstigningardag, sem þrír ungu menn hittast á Hvalnesi við sunnan verðan Stöðvarfjörð og eru sagðir hafa gert með sér félag um að leggjast út. Sá elsti þeirra hét Eiríkur Þorláksson fæddur á Þorgrímsstöðum í Breiðdal árið 1763 og vistaður hjá séra Gísla Sigurðssyni á Eydölum. Umsögn séra Gísla um Eirík var á þann veg; að hann væri latur, áhugalaus um kristin fræði, hneigður til stráksskapar, þjófnaðar og brotthlaups úr vistum. Eiríkur hafði, þegar hér kemur sögu, hrökklast úr vist við norðanverðan Reyðarfjörð á útmánuðum. Hann hafði verið hjá Marteini Jónssyni útvegsbónda í Litlu-Breiðuvík í Helgustaðahreppi, sem var sagður „valinkunnur maður“, og sjósóknari í betra lagi, ekki er ólíklegt að Eiríkur hafi róið með Marteini og hafi því hrakist til neyddur úr góðri vist.

IMG_2706

Sá yngsti þeirra þriggja var Gunnsteinn Árnason, fæddur 1766, frá Geldingi (sem heitir Hlíðarendi eftir 1897) í Breiðdal. Hann hafði dvalist með foreldrum sínum framan af æfi en þau annaðhvort flosnað upp eða fyrirvinnan látist, var honum fyrirkomið sem niðursetningi á Þverhamri í Breiðdal um 12 ára aldurinn. En síðast settur niður á Einarstöðum við norðanverðan Stöðvarfjörð (þar sem þorpið á Stöðvarfirði stendur nú) og hafði þaðan hrakist í apríl byrjun. Eftir það hafði hann dregið fram lífið á flakki á milli bæja allt frá Breiðdal í Fáskrúðsfjörð. Umsögn séra Gísla á Eydölum um Gunnstein er á þann veg að hann teljist læs en latur og kærulaus um kristin fræði.

Þriðji ungi maðurinn sem kom þennan uppstigningadag í Hvalnes var Jón Sveinsson frá Snæhvammi í Breiðdal sennilega fæddur 1764. Sagður á sveitarframfæri eftir að hafa misst föður sinn sem fór niður um ís á Breiðdalsá 1772. Hann er þó skráður sá eini af fjölskyldu sinni hjá föðurbræðrum sínum í Snæhvammi 1771, svo ef til vill hefur fjölskyldunni verið tvístrað áður en faðir hans fórst. Bræður hans eru síðar skráðir niðursetningar víða um Breiðdal, en hann niðursettur að Ánastöðum 10 ára gamall og síðar í Flögu og Eyjum, en eftir það hjá Birni föðurbróðir sínum í Snæhvammi. Þennan uppstigningardag á Hvalnesi leikur grunur á að Jón hafi verið orðinn sjúkur og máttlítill. Haft var eftir Jóni Árnasyni í Fagradal sem hafði hitt nafna sinn skömmu áður, að hann hafi verið magur, en þó gangfær, og ekki kvartað um veikindi.

Eins og greina má af opinberum lýsingunum höfðu þeir félagar ekki átt sjö dagana sæla. Enda hafa þeir sem minna mega sín, allt frá fyrstu hallærum Íslandssögunar, átt verulega undir högg að sækja. Sagnir herma að fyrsta hungursneiðin eftir að land byggðist hafi verið kölluð „óöld“ (975) „Þá átu menn hrafna og melrakka og mörg óátan ill var þá étin, en sumir létu drepa gamalmenni og ómaga og hrinda fyrir hamra. Þá sultu margir menn til bana, en sumir lögðust út að stela og urðu fyrir það sekir drepnir.“ Í Flateyjarbók segir að árið 990 hafi verið svo mikið hallæri á Íslandi, að fjöldi manna hafi dáið úr sulti. Þá var samþykkt á héraðsfundi í Skagafirði, að reka út á gaddinn öll gamalmenni og vanheila, og banna að veita þeim hjálp. (En Arnór kerlinganef, sem kannski var kallaður svo vegna afstöðu sinnar, kom í veg fyrir að þetta væri gert). Því þarf kannski ekki að koma á óvart, miðað við árferðið þetta vor, að þessir þrír ungu menn hafi látið sig dreyma um betra líf sem útilegumenn.

UntitledÞeir félagar Eiríkur, Gunnsteinn og Jón lögðu upp frá Hvalnesi við Stöðvarfjörð að kvöldi uppstigningardags þann 20 maí 1784, sennilega án þess að nokkur sakanaði þeirra, enda vafalaust lítið til skiptana handa gestum og gangandi í því árferði sem ríkti, hvað þá handa ómögum. Fóru þeir fyrir Hvalnesskriður(nú er algengara að kalla bróðurpart lands Hvalness við Stöðvarfjörð, Kambanes, og hluti fyrrum Hvalnesskriða er kallaður Kambaskriður). Þar hefur hafísinn lónað úti fyrir ef marka má bréf Jóns sýslumanns. Þeir fóru yfir í Snæhvamm í Breiðdal og eru sagðir hafa gist þar hjá frændum Jóns. Síðan fara þeir yfir í Þverhamar og sagði Gunnsteinn þá hafa gist í fjósinu, hafa kannski ekki gert vart við sig hjá Höskuldi hreppstjóra Breiðdælinga þar sem Gunnsteinn hafði verið niðursettur nokkru fyrr. Á þriðja degi fluttu þeir sig suður í Krossdal gegnt Breiðdalseyjum þar sem þeir hafast við í kofa eina nótt og þaðan fara þeir upp í miðja kletta í fjallinu Naphorni á Berufjarðarströnd, við Streiti syðsta bæ í Breiðdalshreppi. Þar gerðu þeir sér sér byrgi og bjuggu um sig upp í klettarák. Þegar þarna var komið var Jóni Sveinssyni ekki farið að lítast á blikuna og vildi draga sig úr félagskapnum. Enda orðin það sjúkur að hann taldi sig betur kominn í byggð. Eiríkur aftók það með öllu.

IMG_2674

Neðst á myndinni má greina bæinn Streiti þar sem hann kúrir undir Naphorninu

Í fyrstu reyndu þeir að seðja hungrið með því að grafa upp hvannarætu ofan við klettana við Streiti, þar sem Stigi heitir, en fóru fljótlega heim að Streiti, rufu þar þak á útihúsi og stálu fiski og kjöti. Jón stóð álengdar en tók ekki þátt vegna sjúkleika og máttleysis. Vildi hann fara heim að bæ og leita þar hjálpar. En félagar hans vantreystu honum og tóku hann aftur með sér upp í klettana í Naphorninu, þar sem þeir lágu fyrir næstu daga. Jón fór þar úr öllum fötunum og fór að leit á sér lúsa. Það, og vegna þess hvað hann var orðin veikur og vælgjarn, virðist hafa orðið til þess að Eiríkur stekkur að honum, kannski í bræðikasti, hefur hann undir, sker úr honum tunguna og stingur hann síðan með hnífnum í brjóstið. Gunnsteinn segist hafa látið sem hann svæfi og ekki hafa séð svo gjörla hvað fram hafi farið á milli þeirra Eiríks og Jóns. En þarna var samt enn óljóst hvort Jón var lífs eða liðin, þegar þeir félagar yfirgáfu hann eftir að hafa hent fötum hans yfir hann.

Héldu þeir Eiríkur og Gunnsteinn síðan af stað inn Berufjörð og fengu sig ferjaða yfir fjörðinn við þiljuvelli. Segir lítið af ferðum þeirra fyrr en suður í Álftafirði, þar sem þeir voru fljótlega handteknir vegna suðaþjófnaðar á Melrakkanesi. Á Geithellum, þann 12. Júní, dæmir Jón Sveinson sýslumaður þá Eirík og Gunnstein til húðstrýkingar fyrir suðaþjófnað, en um þetta leiti hefur hann verið á ferð við Djúpavog eins og bréf hans til Stjórnarinnar í Kaupmannahöfn þann 10. júní ber með sér hér að ofan. Kannski hafa þeir tveir verið sakamennirnir sem hann telur í bréfinu að verði að dæma til Brimarhólmsvistar en endirinn á verið húðstrýking þar sem engir hestar hafi verið tiltækir til flutninga á föngum.

Þegar það svo fréttist í Breiðdal að þeir félagar hafi verið handteknir í Álftafirði vekur það undrun að Jón skuli ekki hafa verið með þeim. Gunnsteinn sagði frá því í Álftafirði að Jón hafi verið með þeim í upphafi útilegunnar en þeir hafi skilið við hann á milli Streitis og Núps þar sem hann hafði viljað leita sér hjápar vegna lasleika. Þegar Gunnsteinn kom svo aftur í Breiðdal að áliðnu sumri játaði hann fyrir séra Gísla í Eydölum og Höskuldi hreppstjóra á Þverhamri, hvar lík Jóns myndi vera að finna. Voru tveir menn á Streiti fengnir með þeim Gísla, Höskuldi og Gunnsteini til að sækja líkið eftir leiðsögn Gunnsteins. Aðkoman var ekki geðsleg, líkið var kvikt af maðki og lyktin óbærileg. Samt báru þeir það niður úr illfærum klettunum og létu það í stokk sem þeir höfðu haft meðferðis. En ekki fóru þeir með líkið strax heim að Streiti vegna myrkurs, og dróst það í tvær vikur að vitja um stokkinn. Þegar það var svo loksins gert var ekki lengur hægt að sjá neina áverka á líkinu, því maðkurinn hafði ekkert annað skilið eftir en beinin og sinarnar sem tengdu þau saman.

Eskifjörður

Eskifjörður

Samt sem áður gekkst Eiríkur við verknaðnum eftir að Gunnsteinn hafði greint frá viðskiptum þeirra Jóns. Þeir félagar voru þá fluttir til Eskifjarðar þar sem Jón Sveinsson sýslumaður Sunnmýlinga fékk málið til frekari meðferðar. Að rannsókn lokinni dæmdi sýslumaður Eirík til dauða sem morðingja, en Gunnsteinn í ævilanga þrælkun sem vitorðsmann. Þar til dómur yrði staðfestur átti að geyma þá í dýflissu sýslumanns á Eskifirði. Með þeim þar í haldi var Sigurður Jónsson 18 ára unglingur úr Mjóafirði, sagður ólæs og skrifandi, sem hafði náðst á flakki og verið dæmdur vegna þjófnaðar í Helgustaðahreppi.

Þessi ungi Mjófirðingur er ekki talin hafa verið neinn venjulegur þjófur eða hreppsómagi, því þjóðsagan telur hann hafa legið úti í nokkur ár, og skýrir það kannski hvers vegna hann var fangelsaður með þeim Eiríki og Gunnsteini en ekki hýddur og sendur heim í sína sveit. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar má lesa þetta um Sigurð; „gjörðist hann útileguþjófur og hafðist við í ýmsum stöðum í Suðurfjarðafjöllum, helst þó í kringum Reyðarfjörð; var oft reynt að höndla hann, en varð ekki, því þó að vart yrði við bústað hans í einhverjum stað og þar ætti að grípa hann, þá var hann allur í burt er þangað kom, en víða fundust hans menjar; til að mynda í skútum þar í fjalli einu sem kölluð eru Glámsaugu fundust átján kindagærur, enda var haldið að hann hefði þar dvalið einna lengst. En er hann hafði haldið þessu tvö eða þrjú ár kom harður vetur og varð hann þá bjargþrota og orðinn mjög klæðlaus, leitaði því ofan til byggða og fór að stela sjófangi út hjöllum þeirra Reyðfirðinga; og þá gátu þeir tekið hann og færðu hann fanginn til sýslumanns,,,“ Þeir þremenningar struku úr dýflissunni eina nóvember nótt, og stálu sér til matar frá sýslumanni. Félagarnir lögðu svo af stað í glórulausum hríðarbyl, daginn eftir voru þeir handteknir úti í Helgustaðahreppi eftir að bóndinn í Sigmundarhúsum hafði orðið þeirra var í útihúsum og boðið þeim heim með sér í mat um morguninn, en lét senda skilaboð til Jóns sýslumanns í laumi.

Eftir þetta voru þeir fluttir á nýjan stað, til vetursetu í byrgi sem sýslumaður lét gera við bæinn Borgir sem var sunnan Eskifjarðarár gegnt Eskifjarðarbænum. Fangageymslan var lítið annað en hola þar sem var hægt að láta mati niður um gat í þakinu. Þar tókst ekki betur til en svo að þeir Gunnsteinn og Sigurður dóu báðir úr hungri, en Eiríkur var þeirra hraustastur og át þann mat sem kom í byrgið. Talið er að hann hafi setið við gatið, þegar von var matar og félagar hans aðeins fengið naumar leifar þess sem hann ekki át. Sagt var að sýslumannsfrúin hafi séð um matarskammtinn og var haft eftir Eiríki að svo naumt hafi frúin skammtað, að maturinn hefði rétt dugað handa sér einum.

Fremur hljótt var um þennan atburð og sýslumaður var í slæmum málum vegna þessa, er jafnvel talið að hann hafi látið dysja hina horföllnu fanga með leynd undir steini skammt frá byrginu um leið og uppgötvaðist hve slysalega hafði tekist til við fangavörsluna. Þjóðsagan segir vandræði sýslumanns hafa verið mikil vegna þessa hungurmorðs: „En eftir það brá svo við að Sigurður fór að ásækja sýslumann á nóttunni svo hann gat ekki sofið. Var þá tekið það ráð sem algengt var við þá er menn hugðu mundu aftur ganga, að lík Sigurðar var tekið og pjakkað af höfuðið með páli og gengu svo sýslumaður og kona hans milli bols og höfuðs á honum og höfuðið að því búnu sett við þjóin – og bar ekki á Sigurði eftir það.“ Sagt er að skriða úr Hólmatindinum hafi rótað ofan af beinagrindum þeirra Sigurðar og Gunnsteins á 19. öld og hafi mátt sjá þar tvær hauskúpur og mannabein á stangli, liggja fyrir hunda og manna fótum allt fram undir 1940.

Um sumarið (18. júlí 1785) var kallaður saman héraðsdómur til að staðfesta dóm sýslumanns yfir Eiríki, var þar staðfest að Eiríkur skildi klipinn fimm sinnum með glóandi töngum á leið á aftökustað, þá handarhöggvinn og síðan hálshöggvinn. Hönd og höfuð skildu sett á stjaka, öðrum vandræða mönnum til eftirminnilegrar aðvörunar. Að réttum landslögum hefði Eiríkur átt að koma fyrir Öxarárþing til að staðfesta dóminn. En þar sem kostnaður sýslumanns af föngunum var nánast allar tekjur hans af sýslunni fékk hann því breytt og dómurinn var staðfestur heima í héraði, enda tvísýnt að nothæfir hestar hefðu fengist til að flytja fanga þvert yfir landið. En þetta var þó gert með þeirri viðbót að aftakan mætti ekki fara fram fyrr en fyrir lægi konungleg tilskipun. Þann 20. janúar 1786 staðfesti konungurinn í Kristjánsborg dóminn endanlega með þeirri mildun að Eiríkur yrði ekki klipinn með glóandi töngum en dómurinn skildi standa að öðru leiti. Svo virðist sem sýslumaður hafi ekki fengið tilkynningu um úrskurð konungs fyrr en undir haust og virðist því sem sýslumaður hafi setið uppi með Eirík ári lengur en hann hugðist gera með því að óska eftir að dómurinn yrði staðfestur í héraði.

Þann 30. september 1786 var Eiríkur Þorláksson tekin af lífi á Mjóeyri við Eskifjörð þá 23 ára gamall. Erfiðlega hafði gengið að fá mann í böðulsverkið, en seint og um síðir hafði verið fenginn maður að nafni Björn frá Tandrastöðum í Norðfirði og fékk hann 4 ríkisdali og 48 skildinga að launum. Hann var kallaður eftir þetta Björn Tandri eða Karkur, sagður hrikalegur á velli og hranalegur í orði. Eftir munnmælum var hann búinn að drekka talsvert áður en embættisverkið hófst. Eins segja sumar sagnir að það hafi verið eldhús saxið í Eskifjarðarbænum sem notað var til aftökunnar. Björn Tandri lagðist í flakk síðari hluta ævi sinnar og eiga börn að hafa verið hrædd við hann því að sú saga fylgdi honum að hann hefði drepið mann, enda síðasti böðullinn á Austurlandi.

Fátt er til í opinberum plöggum um aftökuna sjálfa, eða hversu fjölmennt þar var. Til siðs var að viðstaddir væru aftökur á Íslandi annað hvort biskup eða prestur, séra Jón Högnason á Hólmum við Reyðarfjörð uppfyllti þetta ákvæði og var þar allavega viðstaddur ásamt Jóni Sveinssyni sýslumanni. Varla þarf að efast um að hönd Eiríks og höfuð hafa verið fest á stangir til sýnis að aftökunni lokinni almenningi til viðvörunar. Sýslumaður hafði sett mann sem umsjónarmann verksins sem hét Oddur, og var sagður hreppstjóri frá Krossanesi við Reyðarfjörð.

Til er handrit eftir Einþór Stefánsson frá Mýrum í Skriðdal sem hann skráði niður eftir munnmælasögum um atburði þessa. Þó svo margt í þeim sögum sé ekki samkvæmt því sem fram kemur í opinberum heimildum hvað sum nöfn og atburði varðar, er þó greinilegt við hvað er átt. En í handriti Einþórs stendur þetta um það sem gerðist Eskifirði þennan haustdag.

IMG_4730

Mjóeyri

Hófst nú Oddur handa um undirbúning aftökunnar. Skyldi hún fara fram á Mjóeyri við Eskifjörð. Böðull sýslumanns var til kvaddur, en hann færðist undan að vinna á Eiríki og kvað sig skorta hug til þess. Böðull þessi nefndist Bergþór og bjó á Bleiksá, býli við Eskifjörð. Þorsteinn hét maður úr Norðfirði, er hafði flakkað víða og var nokkuð við aldur, er þetta gerðist. Bauð hann sýslumanni að vinna böðulsverkið, og var það boð þegið. Öxi var fengin að láni hjá kaupmanni á Eskifirði.

Þegar lokið var öllum undirbúningi aftökunnar, fór Oddur hreppstjóri með tilkvadda menn að Borgum til að sækja fangann. Voru þeir allir mjög við vín. Er þangað kom, sat Eiríkur í fangelsinu og uggði ekki að sér, enda hafði honum ekki verið birtur dómurinn. Lét Oddur binda hendur hans, kvað hann eiga að skipta um verustað og lét gefa honum vín. Hresstist þá Eiríkur og varð brátt kátur mjög; þótti honum sem sinn hagur mundi nú fara batnandi. Var svo haldið af stað áleiðis til Mjóeyrar, en það er æðispöl að fara.

Gekk ferðin greitt, uns komið var í svonefnda Mjóeyrarvík. Þá mun Eirík hafa farið að gruna margt, enda hefur hann líklega séð viðbúnaðinn á Mjóeyri og menn þá, er þar biðu. Sleit hann sig þá lausan og tók á rás, en Oddur og menn hans náðu honum þegar í stað. Beittu þeir hann harðneskju og hrintu honum áleiðis til aftökustaðarins. Eggjaði Oddur menn sína með þessum orðum: „Látum þann djöful hlýða oss og landslögum.”

Var Eiríkur síðan hrakinn út á eyrina, þar sem biðu hans höggstokkurinn og öxin. Allmargt manna var þar saman komið, meðal þeirra skipstjóri og einhverjir skipverja af dönsku kaupfari, sem lá á firðinum. Er Eiríkur var leiddur að höggstokknum, trylltist hann og bað sér lífs með miklum fjálgleik. En Oddur og menn hans létu hann kenna aflsmunar og lögðu hann á stokkinn. Eiríkur hafði hár mikið á höfði; tók Oddur þar í báðum höndum og hélt höfðinu niðri. Skipaði hann síðan Þorsteini úr Norðfirði að vinna sitt verk. Þorsteinn brá við hart, en svo illa tókst til, að fyrsta höggið kom á herðar Eiríki og sakaði hann lítt. Þá reið af annað höggið og hið þriðja, og enn var fanginn með lífsmarki.

Oddur hreppstjóri skipaði nú böðlinum að láta hér staðar numið, „eða hvað skal nú gera,” mælti hann, „samkvæmt lögum má ekki höggva oftar en þrisvar.” Þá gekk fram skipstjórinn danski, leit á fangann, sem var að dauða kominn, og skipaði að binda skyldi endi á kvalir hans án frekari tafar. Hjó þá Þorsteinn ótt og títt, og fór af höfuðið í sjöunda höggi. Skipstjórinn leit þá til Odds og mælti: „Drottinn einn veit, hvor ykkar hefur fremur átt þessa meðferð skilið, þú eða fanginn. Ef ég hefði ráðið, skyldir þú hafa fylgt honum eftir.” Lík Eiríks var síðan grafið á Mjóeyri.

Um þennan atburð varð til vísan;

Aftaka

Öxin sem Eiríkur var höggvin með er sögð hafa verið til í verslun á Eskifirði fram til 1925 og á að hafa verið notuð þar sem kjötöxi. Í óveðrinu sem gekk yfir Austurland þann 30. desember 2015 urðu miklar skemmdir vegna sjávargangs á Eskifirði. Sjór braut þá á leiði Eiríks Þorlákssonar sem hefur verið á Mjóeyri allt frá því að þessir atburðir gerðust. Vitað var með vissu alla tíð hvar hann hvílir, þó svo að menn hafi talið sig þurft að staðfesta það með því að grafa í leiðið. Var það gert í upphafi 20. aldar að viðstöddum þáverandi héraðslækni á Eskifirði. Þá var komið niður á kassa úr óhefluðum borðum sem innhélt beinagrind af manni sem hefur verið meira en í meðallagi. Hauskúpa lá við hlið beinagrindarinnar og var hún með rautt alskegg.

Frásagnir af atburðum þessum bera það með sér að Eiríkur Þorláksson hefur verið hraustmenni sem komst lengur af en félagar hans, við ömurlegar aðstæður. Lokaorð Einars Braga rithöfundar, sem gerir þessum atburðum mun gleggri skil í I. bindi Eskju, eiga hér vel við sem lokaorð. „Hinn dauði hefur sinn dóm með sér. Við nútímamenn áfellumst ekki þessa ógæfusömu drengi. Kannski hefðu þeir við hliðhollar aðstæður allir orðið nýtir menn. En þeir urðu fórnarlömb grimmilegrar aldar, sem ekkert okkar mundi vilja lifa. Meinleg forlög sendu þá í þessa byggð til þess eins að þjást og deyja.“

IMG_4726

 Leiði Eiríks Þorlákssonar á Mjóeyri við Eskifjörð

 

 

Efnið í þessa frásögn er fengið úr; Öldin átjánda, Eskja I. bindi, Þjóðsögum Jóns Árnasonar, Landnámið fyrir landnám - eftir Árna Óla, handriti Einþórs Stefánssonar sem hefur birst víða og þætti Þórhalls Þorvaldssonar af síðustu aftökunni á Austurlandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband