Nígeríu skórnir


Nigerian-Style-High-Heels-Pumps-Shoes-Skreið til Nígeríu! Skreið til Nígeríu! Hver skreið til Nígeríu? Þannig ómaði tilkynning á Útvarpi Matthildi í upphafi 8. áratugarins. En á þessum tíma var tilveran fyrst og fremst siginn- saltaður- og frosinn fiskur í bland við saltkjöt, fars, bjúgu og Ora fiskibúðing í dós, ásamt lambasteik á sunnudögum.

Á baksíðu Tímans 17.mars 1973 segir þó frá íslenskum skóm, sem voru sýndir á kaupstefnu á Seltjarnarnesi. Þar var sagt frá því að skóverksmiðjan Agila á Egilsstöðum sýndi 36 nýjar gerðir af skóm sem ekki höfðu sést áður auk hátt í þrjátíu annarra og sagði blaðamaður þetta vera ótrúlega fjölbreytni. Á kaupstefnunni sýndu einnig önnur íslensk skóverksmiðja enn meira af íslenskum skóm, Iðunn á Akureyri u.þ.b. 80 tegundir.

Fram kom í samtali við forstöðumenn fyrirtækjanna, þá Richard Þórólfsson forstjóra Iðunnar og Sigurð Magnússon framkvæmdastjóra Agilu, hversu erfiður innlendur markaður væri, niðurnjörvaður í verðlagshöftum. Lýsti Richard þar áhyggjum vegna lækkandi tolla á innflutta skó og Sigurður söluumhverfi íslenskrar skóframleiðslu;

„Smásöluálagning á skó er lægri en nokkurs staðar í öðrum löndum. Flestir skósalar flytja sjálfir inn erlenda skó og fá því bæði heildsölu og smásöluálagningu af sölu þeirra, en talsvert minna fyrir að selja skó innlendu framleiðendanna. Það er réttlætismál fyrir innlendan skóiðnað, að þetta verði fært til betri vegar, t.d. með því að leifa eitthvað hærri smásöluálagningu á innlenda skó en erlenda.“

Skóbotnar með vörumerkiÞetta hljómar undarlega nú á tímum hins frjálsa flæðis. Einnig kom fram hjá forsvarsmönnunum hve íslenskir neytendur væru ginkeyptir fyrir erlendri framleiðslu „Við framleiðum okkar skó undir vörumerkjum, en ekki nafni fyrirtækisins og ekki get ég neitað því að mörg þeirra bera erlendan svip“; sagði Sigurður. „Því miður er ekkert til hér á landi, sem heitir þjóðarmetnaður í þá átt að styðja íslenskan iðnað með því að kaupa fremur innlenda vöru en erlenda“; sagði Richard.

Fram kom hjá Richard Þórólfssyni forstjóra Iðunnar að þar á bæ gerðu menn sér vonir um útflutning í framtíðinni og þá sérstaklega skó úr innlendu hráefni fóðraða með gæruskinni. „Það er ekki hægt að framleiða ódýra skó á Íslandi; sagði Richard. -"En við höldum reglu samvinnuverksmiðja að framleiða vandaðan meðalgæðaflokk." -  Miðað við gæði eru okkar skór ódýrari en erlendir og endingin er mjög góð. Í sama streng tók Sigurður framkvæmdastjóri Agilu, sem leitast við að framleiða vandaða tískuskó. Skórnir frá Egilsstöðum eru ekki dýrari en hliðstæðir innfluttir skór.

En hverjum hefði dottið til hugar að hægt væri að flytja út hátískuskó frá Íslandi til Nígeríu einu áru seinna?

Ég hef verið að glugga í sögu Agilu m.a. í bók Smára Geirssonar „Frá skipasmíði til skógerðar“, um iðnsögu Austurlands. Þar er saga Agilu á Egilsstöðum rakin. Þessi saga hefur ekki farið hátt og af því að ég þekki örlítið til hennar þá veit ég að þetta var í aðra röndina sorgarsaga. Faðir minn var Sigurður Magnússon, hann og móðir mín Kristín Áskelsdóttir lifðu og hrærðust í Agílu allt þar til Nígeríu draumurinn endaði í gjaldþroti. Í ágætri bók Smára Geirssonar í safni til iðnsögu íslendinga hefst kaflinn um Agilu á þessum orðum;

„Að frumkvæði hreppsnefndar Egilsstaðahrepps var boðað til almenns borgarafundar á Egilsstöðum þann 19.desember 1968 í þeim tilgangi að kynna og ræða hugmynd um stofnun hlutafélags um skóverksmiðju í Egilsstaðakauptúni. Á fundinum kom fram vilji til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd og á honum var kosin bráðabirgðastjórn skipuð sjö mönnum. Stjórninni var ætlað að safna hlutafjárloforðum, undirbúa framkvæmdir og formlega félagsstofnun. Formaður bráðabirgðastjórnarinnar var Erling Garðar Jónasson rafveitustjóri.

Strax og bráðabirgðastjórnin hóf störf kom í ljós að áhugi fyrir að koma skóverksmiðju á fót var afar mikill og í janúar mánuði 1969 var gengið frá kaupum á skógerðarvélum Nýju skóverksmiðjunnar í Reykjavík. Sú verksmiðja hafði verið stór á íslenskan mælikvarða á sínum tíma en hún gat framleitt 60-80 þúsund skópör á ári með fullum afköstum og gat veitt 55 manns atvinnu. Framleiðsla Nýju skóverksmiðjunnar hafði verið svipuð og skóverksmiðjunnar Iðunnar á Akureyri sem var eina starfandi skóverksmiðjan á landinu þegar hér var komið sögu.“

Untitled

Þeir voru hugdjarfir frammámennirnir sem komu að stofnun og undirbúningi skóverksmiðjunnar Agilu. Má þar fremstan telja Vilhjálm Sigurbjörnsson sem var framkvæmdastjóri á undirbúningstímanum og fór til Hollands til að koma á samstarfi við þarlenda skóverksmiðju. Eins voru ráðnir lykilstarfsmenn, þau Anna Hólm Káradóttir sem hafði um árabil verið saumakona í skóverksmiðjunni Iðunn á Akureyri og Geir Kristjánsson sem hafði starfað hjá Nýju skóverksmiðjunni í Reykjavík og þekkti því vel til allra véla og tækja.

Ögmundur Einarsson tæknifræðingur úr Reykjavík var svo ráðinn framkvæmdastjóri og faðir minn Sigurður Magnússon verkstjóri þegar Agila tók til starfa snemma árs 1970. Faðir minn hafði verið verkstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Seyðisfirði árin á undan. En móðir mín og við systkinin, sem vorum orðin fjögur, búið á Egilsstöðum í skúrnum á hæðinni með íbúðarhúsið í byggingu við hliðina árum saman.

Scan_20201107 (8)Það var í nóvember 1969 sem við fluttum í húsið, en vikurnar á undan hafði pabbi keppst við að gera stóran hluta þess íbúðarhæfan. Þegar pabbi var komin heim og farinn að vinna í Agilu, sem var á næsta leiti við heimilið, breyttist margt hjá fjölskyldunni. Húsið kláraðist smá saman og var fullklárað 1974, vorið sem ég fermdist. Agilu var lokað um mánaðartíma á hverju sumri vegna sumarleifa og þá fóru foreldrar mínir með barnahópinn sinn í tjaldferðalög um landið. Þetta voru ný ævintýri frá þeim sem ég þekkti áður með mömmu þegar hún lagði ein upp í langferð með rútu að sumrlagi með okkur krakkana á æskustöðvar sínar norður í landi.

Móðir mín vann einnig í Agilu við sauma. Sjálfur lenti ég meir að segja þar í vinnu hluta úr sumrinu 1972 við að líma saman skókassa með trélím og pensil að vopni og voru notaðar þvottaklemmur til að halda kössunum saman í brotunum á meðan límið þornaði. Þetta þótti mér hundleiðinleg innivinna og þegar kom að sumarfríi fór ég og talaði við Völund frænda minn sem var með trésmiðju KHB og fékk útivinnu við byggingar, enda orðin þrælvanur eftir að hafa alist upp á byggingastað frá því ég fyrst mundi. Ég fór því ekki í Agíu eftir sumarfrí og vann aldrei þar framar. En fór samt með pabba í skósöluferðir og kom þá í fyrsta skipti á ævintýralegan Djúpavog.

Fram hefur komið að það var Hollensk skógverksmiðja, Arbo að nafni, sem Agila sótti sína tækniþekkingu til. Arbo hætti starfsemi en Agila hélt þá sambandi við helsta hönnuð þeirrar verksmiðju og hann teiknaði skóna sem Agila framleiddi. Ögmundur Einarsson hætti sem framkvæmdastjóri á fyrsta starfsári og tók þá við Halldór Hróar Sigurðsson sem sá um reksturinn ásamt föður mínum. Halldór hætti 1973 og stýrði faðir minn Agilu einn eftir það, eða þar til hún var lýst gjaldþrota í ársbyrjun 1975.

Ögmundur Einarsson og Sigurður Magnússon

Ögmundur Einarsson og Sigurður Magnússon

Eins og fram kom á baksíðu Tímans 17. mars 1973 þá nutu íslenskir skór lítillar hilli hjá þjóðinni. Guðmundur Magnússon, sem var lengi oddviti og bæjarstjóri Egilsstaða, var lengst af stjórnarformaður Agilu. Hann segir m.a. svo frá í bók Smára: "Mér er minnistætt að eitt sinn hitti ég að máli ágæta konu og vinnufélaga á Egilsstöðum og sýndi hún mér þá barnaskó sem hún hafði nýverið keypt í Reykjavík. Lofaði hún skóna mjög og sagði að ekki gæti hún fengið skó eins og þessa keypta á Austurlandi. Þessir skór voru að gerðinni Ros og benti ég konunni á að þeir væru einmitt framleiddir í skóverksmiðjunni Agilu og hún hefði ekki þurft að fara langt til að festa kaup á þeim. Það var engu líkara en tíðindin yrðu konunni áfall og ljóst var að álit hennar á skónum  minnkaði verulega við þau."

Ákveðið var að hætta rekstri Agilu og lýsa fyrirtækið gjaldþrota í lok árs 1974. Guðmundur Magnússon var þá stjórnaformaður og lýsir hann aðdraganda endalokanna svo: "Það voru mikil vonbrigði að ekki skyldi takast að halda rekstri skóverksmiðjunnar áfram en ýmislegt hafði verið reynt til að skapa fyrirtækinu viðunandi rekstrargrundvöll. Nauðsynlegt var að auka framleiðsluna til að bæta reksturinn en erfiðlega gekk að auka söluna innanlands svo leitað var að mörkuðum erlendis. Loks tókst að finna heppilegan markað fyrir Agilu og var hann í Nígeríu.

Gerður var samningur við hina Nígerísku kaupendur og var hann verksmiðjunni mjög hagstæður. Gerði hann ráð fyrir framleiðslu á tugum þúsunda para af skóm sem voru einfaldir að allri gerð og auðveldir og hagkvæmir í vinnslu. Þessi samningur jók bjartsýni okkar hvað varðaði framtíð fyrirtækisins en til þess að unnt væri að uppfylla hann þurfti verksmiðjan verulega fjármagnsfyrirgreiðslu. Þegar leitað var til banka eftir þessari fyrirgreiðslu var komið að læstum dyrum; bankinn treysti ekki þeim greiðsluábyrgðum sem Nígeríumennirnir lögðu fram og varð ekkert af skóframleiðslu á Egilsstöðum fyrir þennan markað í Afríku.

Ég er sannfærður um að ef framleitt hefði verið upp í þennan Nígeríusamning og leitað hefði verið markaða víðar erlendis þá hefði Agila dafnað vel og orðið traust fyrirtæki. Þarna vantaði áhuga og skilning þeirra sem fjármagninu réðu en skortur á áhuga og skilningi hefur reynst mörgum íslenskum fyrirtækjum dýrkeyptur."

Egilsstaðir voru árið 1968 kauptún í örum vexti með rúmlega 600 íbúa þegar hugmyndin kviknaði um almenningshlutafélag Egilsstaðabúa vegna skóverksmiðju. Íbúar voru orðnir um 900 árið 1975 þegar starfsemi Agila slokknaði og skipti þetta máli fyrir marga Egilsstaðabúa.

Nígeríu skór

Nígeríu skórnir

Eins og ég gat um hér að ofan þá minnist ég þessa sem sorgarsögu í aðra röndina. Endalok Agilu tóku á foreldra mína. Borgarafundurinn sem haldinn var á Egilsstöðum þann 19. desember 1968 bar upp á 30. afmælisdag föður míns. Ég veit ekki hvort hann hefur verið á þessum fundi, tel það frekar ólíklegt í ljósi þess að hann var verkstjóri hjá SR á Seyðisfirði á þeim tíma. 

Mér eru ekki minnisstæðir afmælisdagar föður míns, en man þó tvo báða með núlli. Þegar faðir minn varð 40 ára var mamma nýfallin frá, hún lést í bílslysi niður á Egilsstaðanesi þann 1. desember 1978 þar sem þau voru saman á ferð. Þetta var skiljanlega mjög erfiður afmælisdagur fyrir lemstraðan fertugan mann að nýlega lokinni jarðarför, rétt fyrir jól með fullt hús af börnum. Á þessum afmælisdegi fékk hann æðardúnsæng sem mamma hafi verið búin að leggja drög að sem gjöf í tilefni dagsins. 

Ég varð snemma á unglingsárum svarti sauðurinn undir þaki foreldra minna og við pabbi áttum lítið saman að sælda. Var það langt í frá vegna þess eins að ég strauk úr vinnunni við skókassagerðina. Sumarið 1987 þegar pabbi og systkini mín höfðu búið í mörg ár á höfuðborgarsvæðinu, gerði pabbi sér ferð austur á Djúpavog og hjálpaði mér við að setja þak á húsið okkar Matthildar. Það voru síðustu dagar hans með einhverja heilsu. Hann kom svo aftur fárveikur sumardaginn fyrsta árið eftir, þegar við Matthildur skírðum tvíburana okkar.

Þegar faðir minn varð fimmtugur keyrði ég þvert yfir landið frá Djúpavogi til Reykjavíkur í vondri vetrar færð. Hann var þá á Landspítalanum. Ég kom í heimsókn að morgunnlagi. Hjúkrunarkona benti mér á sjúkrastofuna þar sem hann lá. Það var blásturs niður inni á stofunni, hann lá í rúmi sem var líkast loftpúðum og mér var sagt að væri brunarúm ætlað til að minka snertifleti fyrir þá sem hefðu brennst illa. Þá var hann það illa kominn af krabbameini að bein molnuðu í meinvörpum.

Þegar ég hafði setið inni um stund reyndi hann að tala, orðin komu hægt og á stangli eitt af öðru. Setningin var nokkurn vegin þessi. "Ég ætla að láta þig vita af því að héðan fer ég lóðréttur en ekki láréttur". Faðir minn var þrjóskur maður, hafði lagt allt undir í baráttunni við meinið og ætlaði sér sigur. Ég var því fljótur að átta mig á biturri orðanna hljóman, og sagði; "ég er ekki kominn til að kveðja þig, heldur óska þér til hamingju með daginn. Það létti til á milli okkar feðganna og hann sagði; "Nú, á ég afmæli í dag".

Síðdegis þennan fimmtugs afmælisdag vorum við systkinin öll samankomin hjá honum. Ég gerði mér grein fyrir því þegar við gengum saman út af Landspítalanum um kvöldið að þetta hefði verið í síðasta sinn sem ég sá föður minn og að við hefðum skilið sáttir. Morguninn eftir hélt ég af stað austur á Djúpavog, ásamt yngstu systkinum mínum til að undirbúa jól með Matthildi minni, föður hennar og tæplega eins árs tvíburunum okkar, Sigurði Helga og Snjófríði Kristínu.

download

Sama ár og Nígeríu draumurinn stóð sem hæðst fermdist ég. Foreldrar mínir bjuggu til forláta fermingarskó samkvæmt nýjustu tísku. Þó þessi mynd sé fengin af netinu og þar af leiðandi ekki af þeim þá voru þeir eins í útliti nema litirnir voru kónga blár og beige hvítur. Það hefði verið gaman að eiga þá í dag, en mér þótti þeir það flottir að ég sleit út úr þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Það er margt sagt hér að ofan sem snertir strengi í brjósti.

Ætli sorgarsaga skóverksmiðjunnar eigi sér ekki margar bræður og systur, að lagt var stað með metnað og dugnað í handfarangrinum en raunveruleikinn hafði alltaf betur.

Það vantaði markaðinn.

Ég man að Magni Kristjáns, aflaskipstjóri sem gerðist athafnamaður, var alltaf að fá hugmyndir til að lífga upp á mannlíf og auka við flóru matarmenningarinnar, man til dæmis eftir kjúklingabitum hans sem voru eðalgóðir, eða metnaðinn í matseld Capitano fyrst þegar hann opnaði.

Nema að bærinn var ekki nógu fjölmennur, sem og að farandverkamennirnir voru óðum að hverfa með nútímavæðingunni í sjávarútveginum.

Ekkert gekk en við nutum á meðan var, og alltaf fékk Magni nýjar hugmyndir.

Datt þetta svona í hug þegar ég las pistil þinn, mig dreymdi nefnilega Magna í nótt þegar ég var að útskýra fyrir aðkomumanni að einu sinni hefði besti hamborgarinn fengist í sjoppunni (hann var að kvarta), hann Trölli sem Gússý hannaði og Magni seldi.  Magni kom inní drauminn því hann sat víst við hliðina á mér þegar ég hrósaði honum, en slíkt er náttúrulega aldrei gert, að hrósa fólki að því viðstöddu.

Maður les svona pistla Magnús með þökk í huga og mildi í hjarta.

Takk fyrir.

Kveðja úr uppstyttunni að neðan.

Ómar Geirsson, 19.12.2020 kl. 11:43

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar og þakka þér fyrir athugasemdina og minnast á aflaskipstjórann Magna.

Ég varð þess njótandi að gista á Capitano, fá frábæra hamborgara og koma í búðina hans á Melagötunni á sínum tíma. En ég á eftir að skoða safnið um Tryggva Ólafssonar, sem Magni á sinn magnaða þátt í að koma á legg og veit ég þó örugglega ekki um helminginn af því sem hann hefur staðir að. Það er gæfa byggðanna að eiga menn eins Magna.

Það má s.s. segja að hugmyndin um skóverksmiðju á Egilsstöðum hafi verið andvana fædd, -sérstaklega eftir á, -en hún var engu að síður metnaðarfull. Ég var reyndar svolítið hikandi með að birta þennan pistil minn í myrkri  daganna, en lét hann samt flakka á svefnvana nóttu. Það styttist óðum í að daginn fari aftur að lengja og birta.

Þar sem ég sit núna við gluggann í lofkastalanum mínum og lít yfir efra, þá lítur út fyrir að það sé farið að birta í vestrinu, yfir Fellunum og þokan stígur upp yfir spegilsléttu Fljótinu. Það er enn þungt yfir austurfjöllunum og nágrannar okkar streyma að grunnskólanum. Já við skulum vona að það fari sjatna í upp úr uppstyttunni, nóg er nú samt. 

Með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 19.12.2020 kl. 12:58

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Mér finnst það alveg stórfengleg hugmynd að framleiða skó á Ísland handa Nígeríumönnum. Það þarf vissa geðbilun til að láta sér detta slíkt í hug, eða langvarandi og taumlítinn drykkjuskap.

Ég man á mínum unglingsárum eftir Act skóm sem voru held ég búnir til af kaupfélaginu á Akureyri og þóttu afar góðir. Þeir voru með plastsólum ef ég man rétt, en yfirleðrið var ekta held ég.

Nú er hins vegar svo komið að Þráinn skóari í Reykjavík er farinn að framleiða forláta leðurskó, gerða eftir bestu aðferðum. En ég held ekki að hann selji neitt til Nígeríu. Enda hef ég vissar efasemdir um að þeir þurfi mikið á skóm að halda þar, kannski sandölum í besta falli, enda hagstætt veðurfar og þurrkatíð yfirleitt.

Þorsteinn Siglaugsson, 20.12.2020 kl. 01:03

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Þorsteinn vissulega er þetta stórkostleg hugmynd sem fékk samt ekki að blómstra.

Ég man eftir Act, og KEA átti skóverksmiðjuna Iðunni. Síðustu svokölluðu íslensku skórnir sem ég gekk í hétu Puffins og voru framleiddir fyrir Iðunni úti í Portúgal ef ég man rétt, bestu plastsólaskór sem ég hef átt.

Í bók Smára Geirssonar um Austfirska skógerð er sagt frá fjölskyldufyrirtæki í Neskaupstað sem smíðaði skó í 80 ár og náði saga þess til ársins 1985. Þessi skógerð hefur sennilega verið í stíl við þann Þráinn skóara, sem þú segir frá, smíðaði sérpantaða, gegnheila og vandaða leðurskó eftir máli auk viðgerða.

Vissulega þarf einhverskonar geðveiki til að láta sér detta í hug að smíða tísku skó á Nígerískar konur á Egilsstöðum, þó Nígería sé reyndar ekkert smáríki þegar kemur að fjölbreytilegum fólksfjölda og efnahag.

Það þarf svo kannski meiri veiklun til að láta ekki reyna á hugmyndina en ég man að föður mínum sveið hugleysi austfirskra stjórnmálamanna því á þeim tíma fór öll lánafyrirgreiðsla í gegnum pólitík og því þurfti stuðning þeirra við hugmyndina.

Foreldrar mínir fluttu úr Reykjavík austur í heimahaga föður míns snemma á 7. ártugnum þegar síldarævintýri stóð sem hæðst. Eins og menn muna þá var ein af kreppum Íslandssögunnar "síldarhrunið" á "viðreisnarárunum".

Því var það kannski ekki bara geðveiki þegar frammámenn á Egilstöðum létu sér detta skóverksmiðja í hug í öllu atvinnuleysinu. Vissulega er það ekki alveg nýtt að fólk í efra hafi þurft að sækja laun sín til lífsviðurværis í neðra.

Faðir minn endaði starfsævina sem skósmiður í Reykjavík í fyrirtæki sem sérhæfði sig í að smíða skó fyrir fatlaða. Enda var hann verklegur völundur með meistararéttindi í vélvirkjun.

Það má t.d. hafa það á bak við eyrað að Nóbelskáldið sagði að einn helsti síldarspegúlant Íslandssögunnar hafi farið oftar á hausinn en tölu hafi verið á komið og endað ævina bugaður á geðveikrahæli í Englandi vegna þess að það var sama hvað hann varð oft gjaldþrota, alltaf græddist honum fé á tá og fingri. Svolítið kunnuglegt enn þann dag í dag ekki satt?

Magnús Sigurðsson, 20.12.2020 kl. 10:04

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, klikkuðustu hugmyndirnar eru ekki endilega þær verstu. Eflaust hafa margir hrist hausinn þegar stígvélaframleiðandi í Finnlandi tók upp á því að framleiða farsíma. En það gekk nú heldur betur þegar til kom. Hvort þeir hafi verið fullir veit ég ekki, en það er þó ekki útilokað enda Finnar annálaðir drykkjumenn.

Þorsteinn Siglaugsson, 20.12.2020 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband