Mörsugur með messu

Nú geisar eimi við aldurnara. Dökk dögun í nánd með hækkandi sól. En svört um sinn sólskin og freðin fordæðan forn og grá börnum Angurboðu með Lokalögum af seiðhjallinum skemmtir. Frá vetrar sól til skammdegis sorta hafa hlutabætur og lokanastyrkir orðið nýja normið. Þetta árið hefur þótt alveg sjálfsagt að stúta lífsviðurværi smáfuglanna með ragnarökum smits í samfélaginu á altari hins heilaga hagvaxtar. Þar sem nú vargar í véum og dyggar dróttir yndis njóta, en hvorki þrjóskan og þjóðin, -Kristur né Óðinn.

Viðspyrna sú er burir byggja, sér nú sal standa gulli fegri fyrir Miðgarðs litakóðakerfi í skriðum skreyttri Skógarhlíðinni. Naðarfráu veiruskimunartæki hefur verið til landsins strandar flogið í rússneskri Antonov, -korteri fyrir bólusetningu allrar heimsbyggðarinnar. Hinn dimmi dreki nú að regin dómi ráðskast um vindheim víðan, þar er grímunnar laga verðir tíundina telja. Þar munu sjá um sína ginnheilög goð fljúgandi völl yfir, -Níðhöggurinn knái.

Í dag, -Þorláksmessu, -hefst þriðji mánuður vetrar samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Mánuðurinn hefst ævinlega á miðvikudegi í níundu viku vetrar á tímabilinu 20.-27. desember. Honum líkur um miðnætti á fimmtudag í þrettándu viku vetrar á tímabilinu 19.-26. Janúar, en þá hefst þorri. Mánaðarheitið mörsugur er nefnt í Bókarbót sem er viðauki við rímnatal frá 11. öld, varðveitt í handriti frá því um 1220. Í Eddu Snorra Sturlusonar er þessi sami mánuður nefndur hrútmánuður.

Hvað nafnið mörsugur þýðir er ekki alveg vitað. Auk þess að vera kallaður hrútmánuður í Snorra Eddu, var hann í seinni tíð kallaður jólamánuður. Auðvelt er að geta sér til um hversvegna mánuðurinn er nefndur hrútmánuður því þetta var og er mánuðurinn sem hrútunum er hleypt í ærnar. Jólamánuður segir sig sjálfur, en þar gætir samt upphaflega danskra áhrifa. Í Danmörku voru gömlu mánaðaheitin löguð að nýju júlíönsku tímatali þar bar þessi mánuður nafnið jólamánuður.

Sr. Oddur Oddsson á Reynivöllum í Kjós taldi orðið mörsugur vera sett saman úr orðunum mör „innanfita í kviðarholi dýra“ og sugur sem leitt er af sögninni sjúga, þ.e. „sá sem sýgur mörinn“. Einnig taldi Gísli Jónsson, íslenskufræðingur, að mörsugur héti svo vegna þess að hann væri sá mánuður sem sýgur mörinn, „ekki einasta úr skepnunum, heldur nánast öllu sem lífsanda dregur.“ þó svo því sé þveröfugt farið í dag hvað mennina varðar, því sennilega er mörsugur orðinn sá mánuður sem „mör“ hleðst hvað mest á mannfólkið.

Norræna tímatalið er það tímatal sem notað var af norðurlandabúum þar til það júlíanska, eða nýi stíll tók við, mánaðaheitin miðast við árstíðir náttúrunnar. Árinu er skipt í sex vetrarmánuði og sex sumarmánuði. Það miðast annars vegar við vikur og hins vegar við mánuði, sem hver um sig taldi 30 nætur. Þannig hefjast mánuðirnir á ákveðnum vikudegi, fremur en á föstum degi ársins.

Árið var talið í 52 vikum og 364 dögum. Til þess að jafna út skekkjuna sem varð til vegna of stutts árs var skotið inn svokölluðum sumarauka. Þannig var sumarið talið 27 vikur þau ár sem höfðu sumarauka, en 26 vikur annars. Í lok sumars voru tvær veturnætur og var sumarið alls því 26 - 27 vikur. Árið taldist vera 12 mánuðir þrjátíu nátta, og auk þeirra svonefndar aukanætur, 4 talsins, sem ekki tilheyrðu neinum mánuði. Þær komu inn á milli sólmánaðar og heyanna á miðju sumri. Sumarauki, þegar hann var, 6.-7. hvert ár, taldist heldur ekki til neins mánaðar var á milli sólmánaðr og heyanna.

Í Íslendingasögum er algengt orðalag að tala um „þau missiri“ þegar átt er við heilt ár, en orðið ár kemur hins vegar varla eða ekki fyrir þegar rætt er um tíma. Eins er talið að það sem kalla mætti áramót hafi verið á vori eða hausti og hefur bæði sumardagurinn fyrsti og fyrsti vetrardagur verið nefndir sem tímamót á við nýársdag. Æviskeið manna var ekki talið í árum, heldur vetrum og er það ennþá svo hvað dýr varðar, s.s. að hestur sé svo margra vetra.

Vetur: gormánuður, ýlir (frermánuður), mörsugur (hrútmánuður eða jólamánuður), þorri, góa, einmánuður.

Sumar: harpa (gaukmánuður), skerpla (sáðtíð eða eggtíð eða stekktíð), sólmánuður (selmánuður), heyannir (miðsumar), tvímánuður (kornskurðarmánuður), haustmánuður (garðlagsmánuður).

Já Mörsugur á miðjum vetri, -smáfuglarnir hnípnir í kófinu kúra. Náhirðiðn og helferðarhyskið, -hægri vinstri við ofanflóðasjóð galtóman nú tölur telja. Og púkar Sæmundar feitari á fjósbitanum en nokkru sinni fyrr.

Það eru ár og dagar síðan ég fór að gefa tali tímans gaum. Undanfarna tólf mánuði hafa mánuðunum samkvæmt gamla íslenska tímatalinu verið gerð skil hér á síðunni. Fróðleikurinn er fenginn af alheimsnetinu, auk bókar Gísla Hallgrímssonar, Betur vitað. Tímatalið er að finna á Árnastofnun, Vísindavef háskólans, Wikipedia, Náttúru, í fornsögum ofl.

Áður en ég hóf að skoða gamla íslenska tímatalið, taldi ég að mestu um fánýtan fróðleik að ræða. En eftir að hafa farið yfir alla mánuðina komst ég á þá niðurstöðu að gamla tímatalið væri mun betur tengt hrynjanda náttúrunnar en það gregoríska, -sem notast er við í neyslusamfélagi nútímans. Þetta viðhorf mitt hefur styrkst með árunum við að fara út um þúfur, leggjast í berjamó og stara upp til stjarnanna. Gamla tímatalið gerði fólki betur kleyft að fylgjast með viðburðum árstíðanna með hliðsjón af gangi himintungla.

Á undanförnum mánuðum hefur hátíðum hefða í tímans rás verið raskað. Páskar, stærsta hátíð kristninnar, var haldin með fjarfundabúnaði í læstum kirkjum. 1. maí án kröfugöngu í mesta atvinnuleysi lýðveldissögunnar. Hetjur hafsins ekki sýndur sómi á sjómannadaginn.  Þjóðhátíðardagurinn fór fram án hátíðarhalda, -þríeykið var að vísu heiðrað með fálkaorðu 17. júní úr hendi forseta í framboði korter í kosningar. Og verslunarmanna helgarinnar verður einna helst minnst fyrir feimniskar hugmyndir dómálaráðherra um að senda stjörnusýslumann stones út í Eyjar. Og ekkert verður af því að tíðarandi árisins 2020 verði kvaddur við brennu.

Því svo ber nú við um þessar mundir að bólusetja á alla heimsbyggðin, böl mun þá allt batna og ósánir akrar vaxa, -vitið þér enn eða hvað? Jólin munu samt koma sem áður, -hátíð ljóss og friðar, -þó dyr þjóðkirkjunnar verði lokaðar, -og sólstöður hafi þurft að blóta á laun í heimahúsum. Þetta skammdegið hefur reyndar lengst af verið óvenju bjart hér í kotinu, þar sem sólargeislinn hún Ævi hefur haldið uppi lífi og fjöri, en hún og mamma hennar hafa verið heimagangar frá því í haust.

Sú hátíð ljóssins sem nú fer í hönd verður samt angurvær hjá síðuhafa, -sem oft áður. Það er reyndar langt síðan eftirvænting bernskunnar varð að þránni eftir hækkandi sól. Um það leiti sem bernskunni endanlega sleppti urðu miklar náttúruhamfarir rétt fyrir jól í Neskaupstað þau jól voru landsmönnum döpur og dimm, -og hjálparvana óhugnaðurinn hvíldi á íbúum Austurlands á kafi í snjó. Nú hafa enn á ný orðið hamfarir niður í einum af fjörðunum fögru og er hugur okkar í efra límdur við örlög nágranna okkar og vina í neðra.

Seyðfirðingar eru okkar næstu nágrannar og nú deilum við kjörum í sama sveitarfélagi. Í denn voru það alltaf óræk merki um sumarkomuna þegar Seyðfirðingar flykktu fagnandi í efra og Hérar skoppuðu í eftirvæntingu hlykkóttann malarslóðann niður í neðra sér til yndisauka í stað þess að bíða göróttrar póstkröfu. Svo var ekki nú á dimmustu dögunum skammdegisins, fátt minnti á sumur gamalla daga, -annað en það sem mestu máli skiptir, -kærleikurinn. 

Síðuhöfundur mun nú fagna fæðingu frelsarans með því að halda jól með Matthildi sinni, börnum, mökum þeirra og sólargeislanum henni Ævi. Verða þau væntanlega vegan með kjöti á kantinum, og að vanda mun Búddamunkurinn bróðir líta við yfir hátíðirnar. Þetta er allt saman hið minnsta mál messulaust þegar ekki þarf að telja upp að 10, þar sem hver hefur sinn síma og trúir að hann sé fyrir sérviskuna sína. 

Þeir sem hafa litið reglulega hér inn á síðuna til að lesa í gegnum langlokur sérvitrings hafa vafalaust tekið eftir því að Völuspá hefur verið höfundi hugleikin þetta árið í kjölfar Sturlungu síðasta árs.

Passið ykkur á myrkrinu á þessum dimma óvissa tíma og megi ljóssins hátíð fara vel með mörinn, -ég óska lesendum gleðilegra jóla, árs og friðar á jörðu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Var þessi nefning mörsugur ekki einmitt dæmi forspá eða framsýni, sbr. ".. þó svo því sé þveröfugt farið í dag hvað mennina varðar, því sennilega er mörsugur orðinn sá mánuður sem „mör“ hleðst hvað mest á mannfólkið."

Það er sólargeisli í kotinu og í raun er það kjarni þess sem líf okkar snýst um, að nema og meta sólargeisla.

Kynngimögnuð jólahugvekja, vissulega er hugur um margt bundinn við hamfarirnar á Seyðisfirði, maður finnur til í sálu og hjarta, en líka við sjálfa hátíðina, hvaða þýðingu hún hefur, sem og upplifun hennar með börnum og fjölskyldu.

Ég óska þér og þínum gleðilegra jóla Magnús, með þeirri frómu ósk að ég ásamt öðrum lesendum pistla þinna fái marga slíka í jólagjöf á nýju ári.

Kveðja að neðan.

Ómar Geirsson, 24.12.2020 kl. 16:55

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Gleðilega hátíð Ómar og þakka þér fyrir lesturinn og athugasemdina, alltaf gaman að fá hugleiðingu frá þeim sem skilur pistilinn. Mörsugur er sennilega margrætt nafn þó svo að sú útskýring, sem er á nafninu sé höfð eftir tveimur fræðingum sé á sama veg.

Já það átti að vera viss kynngi í þessari mörsugu jólahugvekju enda er tímarnir magnaðir og hughrif atburða síðustu daga mikil. Við íslendingar finnum meira til með náunganum en vanalega á svona tímum.

Kirkjan hefur verið óupplýst hérna fyrir framan gluggann minn undanfarna daga og í henni ekki logað eitt einasta ljós fyrir utan tvö rauð efst á turninum sem eru fyrir flugumferð sem engin er og hefur ekki í áratugi þurft þessi rauðu ljós.

Ég held sjálfur að við séum að upplifa meiri breytingar en okkur grunar. Það má segja að svo sé reyndar alltaf, en ég held að það styttist í nýja dögun hvort sem okkur mun líka hún betur eða ver.

Hver manneskju hefur mikil áhrif á heiminn þess vegna skiptir miklu á hvað ljósið skín, það sem medían  upplýsir verður sífellt einsleitara og þegar "stríðsfrétt" dagsins er orðin ein dögum saman er rétt að hafa varann á.

Eins og ég hef komið inn á áður þá hef ég notað blogg pistlana til að læra íslensku og feta mig aftur þjóðarsöguna auk þess að láta mitt ljós skína.

Ég hef reyndar trú á að ég sé kominn langt inn í afdalinn og verði að halda áfram í einsemd heim að síðasta bænum meðan enn er ratljóst. 

Aðfangadagskvöldið var heima við í faðmi fjölskyldunnar og það er mikið ljós sem fylgir þannig kvöldi. Aðfangadagskvöld hefur reyndar verið tákn minnar  gæfu í gegnum tíðina.

Lát þú þítt ljós skína, mikla ákvæðaskáld, hvað sem á gengur.

Með kveðju úr sunnan golunni í efra á jólanótt.

Magnús Sigurðsson, 25.12.2020 kl. 01:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband