Að austan

Nú er svo komið að nánast hvergi má að stinga niður skóflu án þess að fornminjar blasi við og tefja þar með stórframkvæmdir. Hér fyrir austan hafa verið tveir fornleifauppgreftir í gangi. Annar í Stöð á Stöðvarfirði þar sem Bjarni Einarsson fornleifafræðingur hefur grafið sig aftur fyrir landnám. Hinn við Fjörð í Seyðisfirði þar sem sagan segir að landnámsmaðurinn Bjólfur hafi búið.

Á Seyðisfirði stóð til að snara upp ofanflóðavörnum vegna skriðuhættu undir Bjólfinum, en rétt þótti sumarið 2020 að skoða minjar frá 17. - 19. öld áður en framkvæmdir hæfust. Nú hefur komið í ljós að fornleyfauppgröfturinn mun standa í þrjú ár í bakgarði húsa við Fjörð. Á Stöð í Stöðvarfirði liggur hins vegar lítið á vegna fjárskorts, enda gæti niðurstaðan þaðan orðið kostnaðarsöm við að breyta Íslandssögunni.

Við Fjörð í Seyðisfirði fannst sumarið 2021 kumlateygur með fleiru en einu bátskumli, og nú í sumar víkingaskáli frá landnámsöld, vel varðveitt undir skriðu sem féll á 11. öld. Þessi fundur staðfestir betur en nokkuð annað hve Íslendingasögur, þjóðsögur og munnmæli fara með nákvæmt mál.

Loðmundur hinn gamli hét maður, en annar Bjólfur, fóstbróðir hans; þeir fóru til Íslands af Vörs af Þulunesi. Loðmundur var rammaukinn mjög og fjölkunnugur. Hann skaut fyrir borð öndvegissúlum sínum í hafi og kvaðst þar byggja skyldu, sem þær ræki á land. En þeir fóstbræður tóku Austfjörðu, og nam (Loðmundur) Loðmundarfjörð og bjó þar þennan vetur.

Bjólfur fóstbróðir Loðmundar nam Seyðisfjörð allan og bjó þar alla ævi; hann gaf Helgu dóttur sína Áni hinum ramma, og fylgdi henni heiman öll hin nyrðri strönd Seyðisfjarðar til Vestdalsár. Ísólfur hét sonur Bjólfs, er þar bjó síðan og Seyðfirðingar eru frá komnir. (Landnámabók-Sturlubók)

Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari safnaði á sinni ævi miklu af munnmælum um landnám á Austurlandi, sem fátæklega er getið í Íslendingasögum, og hafði í Þjóðsagnasafni sínu. Hann safnaði munnmælum á Seyðisfirði og í VI bindi segir m.a.; Frá Seyðfirðingum.

Bjólfur er heygður í fjallsbrúninni sunnan í tindinum (Bjólfi), upp af Firði, beint á móti Sölva (Ísólfi) í Sölvabotnum, hinumegin sveitarinnar. Það eigi meira en hitt að varna því að hlaupið geti á Fjörð eða ræningjar ræni Seyðisfjörð, sem þeir gera aldrei á meðan haugar þeirra eru órofnir.

Ýmsir af frændum, vinum og venslamönnum Bjólfs byggðu suðurströnd Seyðisfjarðar og bæi þá sem síðan eru við þá kenndir. Hánefur byggði Hánefsstaði og Sörli bróðir hans Sörlastaði. Kolur byggði Kolstaði og Selur segja menn vera bróðir hans og byggði Selstaði. (En aðrir menn segja að sú jörð dragi nafn af því að hún væri selstöð).

Sigfús gefur talsverðar upplýsingar um uppruna Seyðfirðinga í þjóðsagana safni sínu: “Ein eru það munnmæli að til hafi til forna verið þáttur af Seyðfirðingum sem nú er tapaður eins og margar aðrar sögur. Hafa reyndar sögur þær er hér ræðir um á undan verið ritaðar í seinni tíð eftir örnefnasögum og öðrum munnmælum.” Síðan er haldið áfram að skýra örnefni með munnmælum sem þeim fylgja.

Sú sögn fylgir munnmælum þessum að fjörðurinn byggðist seinna en Héraðið og sveitirnar í kring og fyndi smali nokkur þar marga sauði útigengna og héti fjörðurinn því Sauðafjörður. Og enn er sagt að þar áður seiðmenn (sjá Loðmundar þátt). Þriðju segja nafnið dregið af seiðum.

Sigfús er með þátt af Loðmundi í safni sínu, þar er eftirfarandi um nafn Seyðisfjarðar:

Eyvindur hét maður er út hafði komið með Brynjólfi hinum gamla er nam Fljótsdal. Hann var óeirinn og göldróttur mjög. Er við hann kenndur Eyvindardalur því þar hafðist hann við. En síða flutti hann í Seyðisfjörð og voru þeir átján saman, allir fjölkunnugir og seiðmenn miklir. En er Bjólfur nam fjörðinn færðu þeir byggð sína í Mjóafjörð og námu hann; bjó Eyvindur síðan í Firði (Mjóafirði) fyrir innan fjaðrabotn. Þeir fóstbræður (Bjólfur og Loðmundur) nefndu fjörðinn eftir þeim Eyvindi og heitir hann því Seyðisfjörður. (Þjóðs SS VI bindi)

Sigfús safnaði örnefna- og munnmælasögum á Seyðisfirði árum saman, enda dvaldi hann þar langdvölum þegar hann setti saman sitt þjóðsaganasafn, sem er einstakt á íslenska vísu að því leiti að hann lifði sig inn í staðhætti, með því að dvelja á þeim stöðum þar sem hann safnaði sögum.

Hann segir munnmæli segja að til hafi verið sagna þáttur af Seyðfirðingum sem tapast hafi. Ekki er ólíklegt að munnmælin hafi að einhverju leiti geymt þær Íslendingasögur.

Vitað er að til var Íslendingasaga fram á 19. öld sem kallaðist Jökuldæla og má ætla að í forn þjóðsögum Sigfúsar sé mikið af munnmælum ættuðum úr þeirri bók. Síðustu síðurnar af Jökuldælu eru af sumum sögð hafa glatast í höfninni í Glasgow á tímum Vesturfaranna.

Sjónvarpstöðin N4 var nýlega á Seyðisfirði og ræddi við Ragnheiði Traustadóttir fornleifafræðing sem sagði sögu að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég hef það frá bændum í vissum landshluta, að ef þeir verði svo "óheppnir" að koma niður á hugsanlegar fornminjar, þegar þeir grafa grunn að útihúsi, þá passa þeir sig á því að láta ekki nokkurn mann vita af fundinum, því það hafi í för með sér óhemju kostnað og tafir á framkvæmdum og geti í versta falli komið algjörlega í veg fyrir framkvæmdir.....

Jóhann Elíasson, 20.9.2022 kl. 10:40

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ekki kemur mér það á óvart Jóhann.

Þetta hef ég líka heyrt. Einn kunningi minn gróf örlítið utan úr bæjarhólnum til að bæta heimkeyrsluna.

Það mun hafa verið árið 2008, að mig minnir, í moldarbakkanum var steinn sem honum þótti torkennilegur og greip um hann til að skoða. Þegar hann dustaði af honum og snéri þá blasti við hauskúpa með slitnum tönnum.

Hann gramsaði í moldarhaugnum og þá komu í ljós fleira. Hann lét fornleifabatteríið vita enda bærinn sögufrægur. Það komu sérfræðingar sem töldu þetta kuml frá því um árið 900 svo hann mætti alls ekki hrófla við hólnum. 

Hann lagaði til eftir sig enda heimkeyrslan orðin betri við raskið. En það hefur engin fornleifauppgröftur farið fram ennþá, kannski verður það ekki fyrr en eftir önnur 1100 ár miðað við áhuga Davos dúkkulísanna á íslenskri arfleið. 

Mér líst ekki á það ef dýralæknirinn innviðabyggði ætlar að fara í það verkefni að verja strandlengju Íslands fyrir landrofi í allri hamfarahlýnuninni, eins og hann hefur boðað. Það verða einhverjir orðnir að kumli áður en þeirri endaleysu lýkur.

Magnús Sigurðsson, 20.9.2022 kl. 13:15

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það getur nú verið skynsamlegt að raska ekki ró dauða karla, þannig að þeir gangi ekki aftur og láti ófriðlega með höfuð sitt í hendinni, eins og Klaufi sem bjó í Svarfaðardal. cool

Svarfdæla saga

Reistir hafa verið varnargarðar vegna sjávargangs við til að mynda norðurströnd Reykjavíkur en það verður nú seint gert við alla strandlengju Íslands. cool

JL-húsið séð úr lofti. Þorpið hefur fest kaup á húsinu …

Þorsteinn Briem, 20.9.2022 kl. 15:38

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það getur nú verið skynsamlegt að raska ekki ró dauðra karla, átti þetta nú að vera.

Og trúlega er einnig betra að láta dauðar hefðardömur í friði til að þær drekki ekki frá fólki allt Dubonnet, eins og Elísabet Bretadrottning væri vís með að gera. cool

Þorsteinn Briem, 20.9.2022 kl. 15:53

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir upplýsingarnar Steini, -ég segi nú bara sjúkkk-ett.

Það er gott að vita að dýralæknirinn skuli ekki ætla að verja alla strandlengjuna með gjóti. Þau hefðu ekki verið tignarleg fjöllin eftir búið væri að sprengja þau niður í þau ósköp en kannski þá orðið kjörlendi fyrir vindrellur.

Það er náttúrulega spurning hvað verður þegar búið verður að mylja Bjólfinn í ofanflóðavarnir, þ.e.a.s. fjallið til að verja Fjörð, hvort grafarró Bjólfs verðu raskað með því að rjúfa hauginn sunnan í fjallinu.

Klaufi hinn Svarfdælski hefur verið nokkurskonar Sandvíkur-Glæsir, -veistu hvort hann var með pípuhatt?

Magnús Sigurðsson, 20.9.2022 kl. 17:13

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Klaufi hefur hugsanlega fengið sér pípuhatt þegar þeir komust í tísku, Magnús minn. cool

"Pípuhattar voru almennir á 19. öld og í byrjun 20. aldar.

Pípuhatturinn féll úr tísku þegar hraði samfélagsins jókst, við það varð hann sparihattur og aðeins borinn af sóturum og syrgjendum við jarðarfarir.

Og grár pípuhattur er stundum notaður sem giftingarhattur."

Vilji menn reisa vindmyllur hér á Klakanum er nú óþarfi að reisa þær á fjöllum og best að reisa þær á vindbörðum stöðum sem fáir sjá. cool

En Sjálfstæðisflokknum finnst skynsamlegast að reisa vatnsaflsvirkjanir við jökulár, til að mynda við Kárahnjúka, þannig að miðlunarlónin fyllist af jökulleir.

Og flokkurinn heldur að þær virkjanir séu afturkræfar, eins og vindmyllurnar. cool

Þorsteinn Briem, 20.9.2022 kl. 18:48

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Klaufi var ég með pípuhattinn Steini.

Sjálfstæðismönnum þykir, rétt eins og hverjum öðrum Davos dúkkulísum, að vera þar sem aura er helst von.

EN áttu við að best sé að reisa vindrellur á stöðum eins og í H&M vindgöngunum við Hafnartorg? -það var engin þar þegar ég kom þangað, samt alveg blanka logn.

Magnús Sigurðsson, 20.9.2022 kl. 19:01

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Við sjóinn er einna mesti blásturinn, til dæmis við Gömlu höfnina í Reykjavík, og ekkert nýtt að þar séu stórhýsi, til að mynda Harpa, Seðlabankinn og Tollhúsið. cool

Þar var einnig stór steinsteypt vöruskemma sem Hafskip hafði til umráða og sænska frystihúsið, sem var stærsta hús á landinu þegar það tók í fyrsta skipti á móti fiski til frystingar árið 1930.

Verslunareigendur á Hafnartorgi eru almennt ánægðir með söluna, samkvæmt fréttum, og mikil mannmergð ætíð um helgar í Kolaportinu, sem nú er á jarðhæð Tollhússins við Hafnartorg. cool

Kolaportið var áður í bílakjallara Seðlabankans og þangað kom einnig hálfur annar hellingur af fólki allar helgar.

Undir Hafnartorgi og neðanjarðar við Hörpu eru stæði fyrir um eitt þúsund og tvö hundruð bifreiðar.

Undirritaður hefur farið í verslanir á Hafnartorgi og í þessum verslunum hefur alltaf verið fullt af fólki.

Og vindblásnar íbúðir með góðu útsýni í margra hæða byggingum á norðurströnd Reykjavíkur eru með þeim dýrustu á landinu, Magnús minn. cool

1.6.2022:

Ellefu nýjar verslanir og veitingastaðir bætast við þau tólf fyrirtæki sem rekin eru á Hafnartorgi

Þorsteinn Briem, 20.9.2022 kl. 20:48

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þessa sögustund Steini minn, það má vera auðaséð að Hafnartorg getur lengi á sig blómum bætt, þó ekki séu það vindmyllur og ekki ætla ég að hallmæla steypunni.

Kannski var bara ástæðan sú að ég var þarna á ferð fyrrihluta dags, að ekki var hræðu að sjá í blíðunni, á meðan túrista vaðallinn veltist um götur gömlu Reykjavíkur.

Magnús Sigurðsson, 21.9.2022 kl. 06:15

10 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Mjög merkir þessir fornleifafundir fyrir austan og synd að ekki skuli vera hægt að sinna þessu betur. Líklega styðja þessar fornminjar að byggð hafi verið kominn tugum ára áður en Ingólfur Arnarson steig á land sem er mjög rökrétt í öllu samhengi. Ein áleitin spurning er hvort þetta hafi verið kristið fólk sem kom fyrst og því hafi kristintakan gengið svona vel fyrir sig þar sem hluti landsmanna hafi alltaf verið kristnir?

Merkilegt er einnig hvernig N4 getur sinnt íslenskri menningu á ódýrari og betri hátt en Rúv.

Rúnar Már Bragason, 21.9.2022 kl. 10:54

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Tek heilshugar undir með þér Rúnar, -það er synd að ekki skuli vera hægt að sinna þessu betur.

Uppgröfturinn á Stöðvarfirði er umfangsmikill og mjög merkilegur, landnámsskálinn er byggður ofan í annan skála, mun stærri, -sem líklega er byggður nokkru fyrir skráð landám. 

Menn hafa freistast til að áætla að þar sé um útstöð (verstöð) að ræða. En það er í raun lítið sem styður það. Eins er nokkuð víst að ófundinn kumlteigur er við Stöð og líklegt skipalægi og naustir því tengdu innan við Óseyrina.

Minjarnar á Stöð eru rétt undir yfirborði túnsins og hafa varðveist vel þrátt fyrir að plægt hafi verið fyrir túni. Stöð minnir svolítið á Borg á Lófóten sem eru einhver mest sótti endurbyggði víkingaskáli í heimi.

Hvað Fjörð í Seyðisfirði varðar þá finnst mér merkilegast að tímasetning landnámsskálans er eftir árið 900, jafnvel eftir 930, sem sagt eftir hina eiginlegu landnámstíð.

En það eru einmitt munnmælin sem Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari skráði í þjóðsögur sínar sem m.a. segja;  Sú sögn fylgir munnmælum þessum að fjörðurinn byggðist seinna en Héraðið og sveitirnar í kring.

Mér kæmi ekki á óvart að frumlandnám Íslands hafi verið að stórum hluta kristið þó svo að það hafi ekki verið það sem Rómarvaldið taldi til kristni. Þess má merkja í Njálu, eins mörgum Austfirðingasögum.

Það þarf ekki að kosta miklu til til að gera hlutunum skil, það sýnir og sannar N4 í þessum stutta þætti með góðum myndum og áhugaverðu viðtali við Ragnheiði Traustadóttur fornleifafræðing.

Magnús Sigurðsson, 21.9.2022 kl. 13:24

12 identicon

Eins og Árni Óla rekur vel í síðustu bókinni sem hann skrifaði, Landnámið fyrir landnám, þá er algjörlega ljóst að hér á landi var talsvert mikil byggð keltneskra manna, víða um landið, áður en norskir ribbaldar mættu á svæðið og sölsuðu landið undir sig, með slægð og ofbeldi.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 21.9.2022 kl. 17:11

13 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Árni Óla færir góð rök fyrir tilgátu sinni Símon Pétur, og er hún mjög líkleg enda má sjá þess merki í Landnámu.

Þeir Árni Óla og Jochum Eggertsson kunnu að lesa á milli lína Íslendingasagnanna. 

Líklegast er að skráð landnám sé þannig til komið að það fólk sem þar er getið hafi komið til landsins og sett á stofn Þjóðveldið.

Það hafi þegar þá verið fyrir fólk í landinu. Sagan er jú alltaf skrifuð undir handleiðslu ráðamanna.

Magnús Sigurðsson, 21.9.2022 kl. 18:15

14 identicon

Réttilega athugað, Magnús.

Svo má bæta Herúlafræðum við þetta, sem þú hefur minnt skemmtilega á, t.d. með vísan í tilgátur Barða Guðmundssonar og Freysteins Sigurðssonar.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 21.9.2022 kl. 19:18

15 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Gaman að þú skulir minnast á Barða og Freystein, Símon Pétur.

Ritgerðir Barða birtust ekki fyrr en hann var allur, ef ég fer rétt með, enda var hann þjóðskjalavörður og hugmyndir hans víðtækari en viðurkennt var.

Freysteinn leifði sér fílósófera og þar á meðal um mörg sérstök staðarnöfn á Íslandi. Svo sem Fáskrúður, Beinageit og Arnarbæli, heiti sem höfð eru um staði án þessa að rök fylgi. Hann vildi meina að þessi nöfn kæmu úr gelísku.

Nöfnin hefðu verið höfð um staði í landinu fyrir landnám en hefðu síðan verið yfirfærð á norrænt mál.

Fáskrúður vildi hann meina að þýddi straumur og Fákrúðsfjörður væri því Straumfjörður upp á írskuna.

Syðri hluti Dyrfjalla heitir Beinageit eða Beinageitarfjall. Freysteinn telur víst, og rökstyður það rækilega, að upphaflega hafi öll Dyrfjöllin heitið Bheinn-na-geit, sem útleggst á fornri gelísku, dyrnar við fjallið.

Arnarbælin, sem eru á þeim stöðum á Íslandi þar sem ernir myndu aldrei halda sig, vildi Freysteinn meina að hafi upphaflega heitið Ard-na-bhaile á forn-gelísku, sem útleggst sem Búðarhöfði sé því snarað yfir á Íslensku.

Eins er mikið um landnámsfólk í munnmælum þjóðsagnanna, sem ekki er getið í Landnámu né Íslendingasögum.

Berufjörður austfjarðanna heitir eftir landnámskonunni Beru sem átti manninn Sóta og voru tröll samkvæmt þjóðsögunum.

Vattarnes og Kolfreyjustaður heita eftir truntulegu landnámsfólki sem bjó sitthvoru megin við skriðurnar sem skilja að Fáskrúðsfjörð og Reyðarfjörð, -þeim Vetti og Kolfreyju, samkvæmt þjóðsögunum.

Til er mýgrútur af þjóðsögum sem segja frá tröllum og truntulýð frá fornu fari og ekki er ólíklegt að þessi óþjóðalýður hafi verið fyrir í landinu þegar bláa blóðið settist að á Íslandi og um það hafi verið farið ófögrum orðum.

Ég set hérna að gamni tengil á gamalt blogg um Kórek og bláklæddu konuna.

https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/1852878/

Magnús Sigurðsson, 21.9.2022 kl. 20:01

16 identicon

Kærar þakkir, Magnús, fyrir fróðleikinn.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 21.9.2022 kl. 21:37

17 identicon

Sæll Magnús.

Hafðu sæll minnst Jochums Eggertssonar.

Jochum skrifaði undir skáldaheitinu Skuggi eins og
flestum mun kunnugt.

Fyrir þá sem áhuga hafa á kveðskap Jochums sem og upplestri hans sjálfs
mætti benda á Hrafninn e. E.A. Poe.

https://www.youtube.com/watch?v=cd-PYnFsCbY

Til að menn rjúki ekki um koll gæti staup af púnsi, enn þó frekar
bleksterkt kaffi, reynst lífsnauðsynlegt!

Jochum var þjóðþekktur á sinni tíð og enn má nálgast
bækur og ritlinga eftir hann á bokin.is þar sem bækur bíða
lesenda sinna í skipsförmum enda fjölbreytt úrval og prýðileg þjónusta.

Húsari. (IP-tala skráð) 22.9.2022 kl. 03:41

18 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þessar ábendingar Húsari. Ég las Brisingarmen Freyju fyrir nokkrum árum og sá þá hversu fær Skuggi var að skilgreina Íslendingasögurnar og koma því frá sér snilldarlega. Eins á ég Galdraskræðuna hans sem var endurútgefin 2012 að mig minnir. En ég vissi ekki af þessum flutningi á Hrafninum á youtube.

Magnús Sigurðsson, 22.9.2022 kl. 06:17

19 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Hm. "sögur þær er hér ræðir um á undan verið ritaðar í seinni tíð eftir örnefnasögum og öðrum munnmælum" ...

Guðjón E. Hreinberg, 23.9.2022 kl. 14:40

20 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Einmitt Guðjón.

Magnús Sigurðsson, 24.9.2022 kl. 07:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband