Uxafótur, Úlfljótur og geitskór

Það má segja að hið viðurkennda sé tískubóla líkt og vísindi, sem eru eitt í dag og annað á morgun. Þjóðsagan, jafnvel þó nafn- og staðlaus sé, sé aftur á móti fínpússuð, menntuð og fullreynd sannindi að afloknu námi hjá þjóðinni. Þess vegna hefur þjóðsagan það fram yfir samtíma heimildir að lúta hvorki vísindum né tísku, en í stað þess fylla upp í eyður og leiðrétta meinlokur samtímans.

Margar þær sögur, sem hvað mest eru af ætt þjóðsagna, virðast oft hvorki styðjast við skráðar heimildir, rök né staðhætti og eru því afgreiddar sem uppspuni eða hrákasmíð. Þannig er Íslendinga-sagan þátturinn af Þorsteini uxafót Ívarssyni. En þó svo þessi saga sé fræðilega handan þess möguleg þá geymir hún þjóðfélagsgerð og hugsanahátt í upphafi Íslandsbyggðar.

Ég sagði frá því í pistli um fjallagrös, auðróna og dánumenn í sumar að ég hefði farið í Vopnafjörð að Gljúfurárfossi því hugsanlega væri áhugavert að skoða ströndina neðan við foss því það hafði ég ekki gert áður. Þá, -eins og ég hafði tekið eftir áður, hafi svo undarlega viljað til að þar voru örfáir erlendir ferðamenn á rangli, aðallega miðaldra þýskir Norrænu farþegar.

Þegar ég ætlaði að gera grein fyrir þessu sá ég strax að það yrði of langt mál í pistli um fjallagrös, auðróna og dánumenn. Mér hafði semsagt árum saman leikið hugur á að vita hvort hugsanlega eitthvað fleira trekkti erlenda ferðamenn á þessar slóðir, annað en Gljúfurárfossinn, malarslóðinn yfir Hellisheiði og stórbrotin norðurströnd Vopnafjarðar. Því aðrir túristar, en þessir Norrænu farþegar, sem ég þekki einungis af þýsku bílnúmerunum, -virðast fara lítið út fyrir þjóðveg eitt.

Þessi ferð var því engin tilviljun. Ég hafði þar að auki lesið s.l. vetur um Þorstein uxafót Ívarsson og ákvað þá að fleira áhugavert væri að skoða á ströndinni neðan við foss, s.s. tættur Krumsholts sem sagðar eru þar vera, en ekki fann ég þær. Þetta var reyndar eina ferðalagið sem ég hafði planað í sumar. En eftir það tel ég mig hafa komist að því hvað dregur Norrænu farþega að þessum stað, annað en Gljúfurárfoss.

“Þórður skeggi hét maður. Hann nam lönd öll í Lóni fyrir norðan Jökulsá, millum og Lónsheiðar, og bjó í Bæ tíu vetur. En er hann frá til öndvegissúlna sinna í Leiruvogi (nú Mosfellsbær, landnámi Ingólfs) fyrir neðan heiði þá seldi hann lönd sín Úlfljóti lögmanni er þar kom út í Lóni.”

Á þessum orðum hefst sagan um Þorstein uxafót og vitna því næst í Úlfljótslög, -fyrstu lög Íslendinga, sem stundum eru nefnd Grágás og er þá látið eins þar sé um lögbók að ræða, en í raun voru lögin upp sögð en ekki lesin því þau fóru ekki á bókfell fyrr en löngu eftir að þau tóku gildi og þá sjálfsag eitthvað bjöguð. Þar eru fyrst tiltekin lög um að eigi skuli styggja landvætti og um heiðna siði, m.a. er þar að finna lýsingu á baug hofgoðanna og hvernig lög voru svarin við goðin.

Þá er sagt frá uppruna og ætt sögupersóna og komu þeirra til Íslands. Skip kemur úr hafi í Gautavík með norskan viðskiptajöfur, hersir er var kallaður Ívar ljómi, Þorkell sonur Geitis í Krossavík býður Ívari og föruneyti að hafa vetursetu í Krossavík. Þorkell biður Oddnýju systur sína, sem var mállaus og honum mjög kær, að vera Ívari til þjónustu um veturinn. Hún biðst undan með því að rista rúnir og lætur þar bróður sinn vita að að þessi ráðstöfun muni leiða til ófagnaðar.

Um vorið er Oddný ófrísk af barni Ívars. Þorkell biður Ívar að eiga Oddnýu og heitir honum ríkidæmi í staðinn. Ívar firrtist við og segist geta valið úr glæsilegu og ættstóru kvonfangi í Noregi í stað málleysingja og gefur í skin að Oddný sé lauslætisdrós. Ívar yfirgefur Krossavík í fússi ásamt föruneyti. Þorkell eltir Ívar um fjöll og heiðar Austurlands með það markmiði að drepa hann. Ívar og félagar komast til skips síns í Gautavík og yfirgefa Ísland.

Það sem er ótrúlegt og órökrétt við í samhengi þessa hluta sögunnar, - auk Úlfljótslaga, er að nefndir eru til sögu staðir vítt og breitt um Austurland. Gautavík suður í Berufirði, Krossavík norður í Vopnafirði sem ekki eru neinir nágrannar, auk þess sem ættfærsla sögupersóna til Þóris hins háva í Krossavík, norðan Reyðarfjarðar (nú Vöðlavík), er nefnd til sögunnar sem er ekki beinlínis í leiðinni.

Oddný eignast um sumarið son sem Þorkell biður í reiði sinni Freystein þræl sinn að bera út. Freysteinn er sagður gæðablóð en hlýðinn og ber ungabarnið út með flesk sneið til að lifa. Krumur í Krumsholti heyrir barnsgrát í landi sínu og finnur snáðann og sneiðina. Kerling hans Þórgunnur, forn í skapi mikið eldri en Krumur og þau barnlaus, tekur drenginn að sér og þau gefa honum nafnið Þorsteinn.

Þorsteinn vex úr grasi í Krumsholti til æskusára, næsta bæ norðan við Krossavík í Vopnafirði. Hann kemur þá dag einn í Krossavík og sér Geitir afi hans hann og þekkir strax á svipnum að þarna er Krossvíkingur á ferð og minnist sonar Oddnýjar sem út var borinn.

Eftir þetta kemur Þorsteinn oft í Krossavík og er þar í góðu yfirlæti. Hann á draumkennt ævintýr með þrælnum Freysteini þar sem hann kemst yfir gull í haug fornmannsins Brynjars og gefur móður sinni, sem verður til þess að Oddný fær málið þegar hún lætur gullið undir tungurætur.

“Freysteinn fékk frelsi brátt af orðum Þorsteins og gerði Þorkell það vel og liðuglega því að honum var vel í geði til Freysteins því að hann vissi að hann var góðrar ættar og göfgra manna fram í kyn. Grímkell faðir Freysteins bjó á Vors og átti Ólöfu Brunnólfsdóttur, Þorgeirssonar, Vestarssonar. En Sokki víkingur brenndi inni Grímkel föður hans en tók piltinn og seldi mansali. Hafði Geitir hann út hingað.

Það segja sumir menn að Þorsteinn gifti Freysteini Oddnýju móður sína. Freysteinn hinn fagri bjó í Sandvík á Barðsnesi og átti Viðfjörð og Hellisfjörð og var kallaður landnámsmaður. Frá honum eru komnir Sandvíkingar og Viðfirðingar og Hellisfirðingar.”

Síðan yfirgefur Þorsteinn Ísland og siglir úr Gautavík til Noregs. Þar finnur hann Ívar föður sinn og fer fram á að hann gangist við sér. Ívar svarar honum; "Þú munt eiga allt verra faðerni. Eru nógir þrælar út á Íslandi til þess að móðir þín kenni þig. Er það og mála sannast að mér þætti eiga að leiða drengjum og herjanssonum það að hver pútuson kallaði mig föður að sér." Þorsteinn segist muni hitta hann aftur seinna og þá muni honum vera betra að svara sér á réttan máta, því annars muni hann drepa hann.

Þorsteinn varð frækinn maður í Noregi eftir að hafa drepið flögð í Heiðarskógi og Ólafur konungur Tryggvason gefur honum nafnið uxafótur fyrir eitt hreystiverkið. Næst þegar hann hittir Ívar föður sinn til að herma upp á hann faðernið þá gengst Ívar stoltur við syni sínum. Þorsteinn uxafótur lét lífið á Orminum langa með Ólafi konungi Tryggvasyni og þar endar þáttur Þorsteins uxafóts.

Eins og greina má á þessum stutta úrdrætti er sagan þjóðsagnakennt ævintýr sem tekur til upphafs Íslandsbyggðar, -ef með eru talin Úlfljótslög, og til kristnitöku, -ef tekið er tillit til dánardægurs Ólafs konungs Tryggvasonar og Þorsteins uxafóts. Úlfljótur sá er færði Íslendingum lögin bjó á Bæ í Lóni, enn sunnar á Austurlandi, og Grímur geitskór fóstbróðir hans og bjó á næsta bæ.

Það var Grímur sem ferðaðist um Ísland til að vinna lögum Úlfljóts samþykkis og finna Alþingi stað. sumir vilja meina að geitskór hafi ekkert með skótau að gera heldu þýði það mælingamaður, enda segir sagan að Grímur hafi staðsett Alþingi af stakri nákvæmni. Sagan nær því um allt Ísland. Tímarammi sögunnar gengur ekki upp í einni mannsæfi hvað þá á stuttri ævi útborins barns.

Margir hafa tekið lítið mark á þessari sagnfræði og talið hana fjalla um þjóðsagnakenndar missagnir ef ekki sé þá um hreinan skáldskap að ræða. Samt hreifir sagan við flestum á þann hátt að um sannan boðskap sé að ræða. Einn þeirra var Kristian Kålund sem vann eitt af stórvirkjum útlendinga um Ísland og færði útlendingum lykil að heimi Íslendingasagna. Kålund komst ekki fram hjá þættinum um Þorstein uxafót þegar hann fór um Vopnafjörð vegna allra örnefnanna sem vísuðu þar á söguna.

Kålund hefur m.a. þetta að segja: “Þessi litli þáttur í Flateyjarbók er sérstaklega eftirtektarverður. Hann sýnir hve lífseig örnefni geta verið án tillits til ritaðra heimilda og jafnvel þótt ritaðar heimildir greini á (og á þá við hvernig sagan hefur lifað í gegnum aldirnar í Vopnafirði m.a. vegna Krossavíkur, Krumholts og Brynjarshaugs ofl örnefna sem honum tengjast).

Hin varðveitta gerð þáttarins í Flateyjarbók, hin eina sem til er, heimfærir semsé greinilega þá atburði sem er sagt frá, til allt annarra byggða. Fyrst er sagt í inngangi þáttarins frá ýmsum landnámsmönnum á Austfjörðum, meðal þeirra er Þórir hávi en nam Krossavík fyrir norðan Reyðarfjörð.” - “Söguritari þáttarins um Þorstein uxafót, eins og hann er í Flateyjarbók, hlýtur að hafa verið með öllu ókunnur staðháttum á Austurlandi.” (Íslenskir sögustaðir-P.E. Kristian Kålund)

Tekur Kålund þarna til þess hvar landnámsmenn námu land, eins getur hann sér þess til að nafn góða þrælsins Freysteins hafi ekki verið upphaflega í þættinum, heldur verið sótt til landnámsmannsins Freysteins fagra sem hann segir að hafi numið land við Reyðarfjörð. En þar misstígur Kålund sig á staðfræðinni því landnáma segir:

“Freysteinn hinn fagri hét maður; hann nam Sandvík og bjó á Barðsnesi, Viðfjörð og Hellisfjörð. Frá honum eru Sandvíkingar og Viðfirðingar og Hellisfirðingar komnir.

Þórir hinn hávi og Krumur, þeir fóru af Vors til Íslands, og þá er þeir tóku land, nam Þórir Krossavík á milli Gerpis og Reyðarfjarðar; þaðan eru Krossvíkingar komnir.

En Krumur nam land á Hafranesi og til Þernuness og allt hið ytra, bæði Skrúðey og aðrar úteyjar og þrjú lönd öðrum megin gegnt Þernunesi; þaðan eru Krymlingar komnir.”

Austfirðingurinn Halldór Stefánsson skrifaði um landnám í Austfirðingafjórðungi í Austurland safni til austfirskra fræða. Hann kemst að þveröfugri niðurstöðu við Kålund. “Krymlingar þekkjast nokkuð af sögu Þorsteins uxafóts. Þar segir að sonur hans hafi heitið Ásbjörn, faðir Vémundar föður Krums (yngra) í Krumsholti í Vopnafirði, þess er fóstraði Þorstein uxafót.

Kona Krums, fóstra Þorsteins, segir sagan að hafi verið Þórgunnur Þorsteinsdóttir Veturliðasonar, Ásbjarnarsonar, göfugs manns á Beitistöðum (í Noregi), Ólafssonar langháls, Bjarnasonar reiðarsíðu. Þessi ættfærsla er samhljóða ættfærslu Veturliða (landnámsmanns) í Borgarfirði (eystra) og umgetinna bræðra hans og getur allt vel heimfærst.”

Halldór telur þau Krum (yngri) og Þórgunni í Krumsholti í Vopnafirði hafa verið náin frændsystkin, sem venja var til í heiðnum sið. Þáttur Þorsteins uxafóts sé því merk heimild um margt og engin ástæða til að vefengja ættfærsluna. Eins er athyglivert að Halldór telur að Krossavíkur landnámsjarðirnar, sem bæði má finna þar sem nú heitir Vaðlavík norðan Reyðarfjarðar og Krossavík í Vopnafirði, -þar sé nafngiftin tilkomin vegna þess að landnámsmenn þar hafi verið kristnir.

Það leynir sér ekki að sagan af Þorsteini uxafót á sér þann tilgang að lýsa tíðaranda þess tímabils sem hún tiltekur þ.e. á mörkum heiðni og kristni á Íslandi. Margt má finna um Þorstein uxafót á alheimsnetinu. Rúmlega klukkustundar bodcast á ensku finnst við stutta leit um Þorsteins þátt uxafóts, auk þess á Þorsteinn Uxafótur á wikipedia síðu á spænsku. Á vísindavef HÍ má lesa um hvernig sagan geymir heimildir sem ekki finnast víða.

Þrátt fyrir skort á ritheimildum frá heiðnum tíma á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum er sú skoðun ríkjandi meðal fræðimanna að útburður á börnum hafi verið stundaður í norrænum samfélögum í heiðni. Samkvæmt sögunum virðist barnaútburður hafa verið frjáls í heiðni, og ástæður fyrir útburði verið af ýmsum toga. Í Þorsteins þætti uxafóts er drengur borinn út vegna þess að hann er óskilgetinn og faðirinn neitar að kvænast móðurinni. (af vísindavef HÍ)

Sagan af Þorsteini uxafót er ævintýri þar sem útbornu barni er bjargað. Sagan lýsir jafnframt fyrirgefningunni, hvernig Þorsteinn fyrirgefur móðurbróðir sínum og föður. Hann gefur móður sinni gull svo hún fær málið og launar þrælnum Freysteini með frelsinu. Eftir það fer hann til annarra landa og berst við flögð og forynjur og lætur lífið á Orminum langa með Ólafi Tryggvasyni, sem var sá Noregs konungur, er mestan þátt átti í að kristna Ísland. Þorstinn uxafótur var þátttakandi í tímamótum þegar nýr siður tekur við, -kristnin með sínum kærleika, fyrirgefningu og rétti allra barna til lífs.

Sagan skírskotar til dagsins í dag þar sem fæðingarrof þykir svo til sjálfsögð úrlausn, hvað þá ef barn verður til við nauðgun, -eins og skilja má af orðum og afdrifum Oddnýjar. Sagan á sér einnig skírskotun til þeirra sem útskúfaðir hafa verið vegna kynferðislegs ofbeldis, hvað fyrirgefninguna varðar til Ívars ljóma sem fær annað tækifæri. Og sagan á sér síðast en ekki síst skírskotun í nú glataða ímynd karlmennskunnar, með hetjulegri framgöngu útburðarins Þorsteins uxafóts sem ekki var ætlað neitt líf. Svona sannar eru þjóðsögur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband