Færsluflokkur: Ferðalög

Undraland ævintýra.

"Nútíminn er trunta með tóman grautarhaus" var sungið í denn. Undanfarið hef ég reynt að notast við tóman grautarhausinn, vera í núinu og berast um á bylgjum tíðarandans með því einu að taka túristann á lífið og tilveruna.

Síðasta hálfa árið hefur tilveran snúist um ferðamenn, fyrst með vinnu við hótelbyggingar og svo með flækingi um landið. Það hefur ekki farið fram hjá mér þegar augunum er gjóað á ferðalanga erlendis frá að Ísland er undraland ævintýra, kannski eitthvað sem mann grunaði innst inni en var ekki viss fyrr en útlendingar benda á það.

IMG 1430

Melgresiskollar í Sandey, Djúpivogur undir Búlandstindi með regnbogann upp úr miðjum bæ.

Í sumar hef ég nokkru sinnum gist minn gamla heimabæ Djúpavog. Breytingarnar þar síðustu árin eru svipaðar og gengið hafa yfir Ísland, túrismi. Nú er ekki bara Hótel Framtíð, sem var verbúð fyrir nokkrum áratugum þar sem þreyttir ferðalangar gátu fengið gistingu í neyð, sneisafull af túristum heldur er heimavist skólans komin undir Framtíðina, elliheimilið sem lokað var í kreppunni orðið að gistiheimili og pósthúsið líka. Ferðamenn fylla götur með myndavélarnar á lofti.

Við Matthildur fórum að leita gamalla spora í Sandey sem er landföst utan við Djúpavog. Sporin höfðu afmáðst eins og árin. Þar sem áður var hægt að eigra um einn í sandfjörunum var nú fullt af ferðamönnum. Svartur sandur er víst merkilegt myndefni enda fer þeim stöðum fækkandi þar sem hann ber fyrir augu, meir að segja á Íslandi.

IMG 0685

Eðalsteinarnir láta oft ekki mikið fyrir sér fara en það getur þurft glöggt auga til að finna þá. Þessir steinar lágu allir á sama blettinum fyrir manna fótum þar til glöggt auga tók þá upp og slípaði þessa liti í gráu grjóti. 

Á flækingnum í sumar kom á óvart hvað gróður er farin að breyta ásýnd landsins. Heilu héruðin eru að sökkva í Síberíu lerki, Alaska ösp og meir að segja fjalla víðirinn í Víðidal á fjöllum er að hverfa í Beringspunt. Mýrdalssandur er orðin að Alaskalúpínu akri, Skógasandur er horfin og ekki sést lengur til Skógarfoss frá þjóðveginum vegna trjágróðurs. Ekki einu sinni Mývatnssveit fer varhluta af herlegheitunum, þar má sjá Síberíulerkið teygja sig til himins.

Ef fer sem horfir munu stórir hlutar Íslands breytast innan skamms í skógi vaxna Svíþjóð, þar sem ekkert er að sjá nema tré og útsýnið út um hliðarrúðuna á ferð er eins og að horfa í strikamerki stórmarkaða. Það fer því hver að verða síðastur til að sjá gamla góða Frón sem urð og grjót, nema þá að hamfara gos verði til að bjarga víðáttum auðnanna.

IMG 0714

Margir af gimsteinunum hans Aua eru ekki til sýnis á safninu því þá væri það einfaldlega allt of stórt. 

Sem betur fer eru enn til svartir sandar, urð og grjót við Djúpavog til að gleðja augað. Þar geta ferðamenn fundið fólk sem býður afþreyingu í grjótinu sem þarf svo sem ekki að koma á óvart ef litið er til nágrannastaðarins Stöðvarfjarðar þar sem rúturnar streyma með tug þúsundir ferðamanna til að skoða steina í Steinasafninu hennar Petru heitinnar.

Á Djúpavogi er eitt merkilegasta steinasafn sem ég hef séð, steinasafn Auðuns Baldurssonar. Það fór svo að ég eyddi bróðurpartinum úr degi við að skoða safnið hans Aua, fyrst góða morgunnstund svo með Matthildi eftir hádegi. Það að heyra Aua segja frá því hvernig þeir bræður fundu steinana og komu þeim til byggða eru lífsins ævintýri. Sennilega eru  stærstu bergkristalar sem uppgötvaðir hafa verið á Íslandi í þessu safni.

IMG 0731 

Aui, Auðunn Baldursson við stóra bergkristala í sýningarsalnum sínum. 

Steinasafn Aua á Djúpavogi hefur að geyma gimsteina austfirskrar náttúru. Það sem í fyrstu sýn getur virst grátt grjót en getur haft demant að geyma. Á safninu eru auk stórra bergkristala; amethyst, agat, chalcedon, calcite, opal, jaspis liparit, ofl. ofl. flest úr austfirskri náttúru og mest úr næsta nágrenni Djúpvogs, fjöllunum við Berfjörð og Álftafjörð.

Stærsti Bergkristalinn sem vegur rúm 400 kg fannst í fjöllunum fyrir ofan Kelduskóga við Berufjörð og voru þeir bræður, Auðunn og Brynjar heitinn sem lést langt fyrir aldur fram s.l. haust, tvo daga að draga hann á nokkhverskonar fólksvagen húddloki niður úr fjöllunum án þess að vera búnir að sjá hverskonar gersemar þeir voru með í næstum hálfu tonni af gráu grjóti. En Aui lýsir því listavel hvaða tilfinning gefur innsæi til að vita hvers vegna grár steinn er eftirsóknarverður.

IMG 0722 

Eftir að þeir bræður komu steininum til byggða á húddlokinu var hann fluttur til Reykjavíkur og sagaður í tvennt til að sjá hvað hann hafði að geyma, sem var ekkert annað en hreinn bergkristall í gegn. Þegar steinninn kom aftur á Djúpavog var demanturinn slípaður á heimasmíðuðum pönnum fyrir slípimassa. Þegar slípaðir steinarnir á safninu eru skoðaðir sést inn í aðrar víddir sem helst má líkja við ævintýraveraldir stjörnuhiminsins.  

En nú er að verða komið fyrir mér eins og lesblinda prófessornum sem ætlaði að ferðast þvert yfir Ameríku í sumarfríinu sínu en komst ekki nema yfir í næsta fylki því það var svo margt að skoða í næsta nágrenni. Til stóða að segja frá hringferð um Ísland, en í þessari langloku er ég bara kominn örstuttan spöl á Djúpavog.


Þjóðvegurinn, þessi grýtta braut.

IMG 0287

"Það tjáir ekki að neita því, að ægileg ertu, þar sem þú situr eins og ofvöxtur á íslenska landabréfinu, - þenur þig út með yfirlætislegum óravegalengdum um þagnarheima auðnarinnar og skapar með mörgþúsund ferkílómetrum hrauna og sanda óhugarlegt tómarúm hrjóstursins yfir eyjuna okkar hálfa."

Þannig er lýst ömurleika Þingeyjarsýslu og er þetta fyrsta setningin í sögunni sem var aldrei sögð um þjóðlíf í upphafi 20. aldar. Ég ætla ekki fara nánar út í þá sálma hvernig umhorfs var á Íslandi fyrir rúmum 100 árum samkvæmt bók Þorsteins Thorarensen, Gróandi þjóðlíf, heldur segja smá ferðasögu um brot þessa landsvæðis.

Þannig er að ég hef verið í sumarfríi þessa vikuna ásamt Matthildi minni og ákváðum við að láta slag standa með að keyra norður og niður Jökulsárgljúfur, en það ferðalag hefur verið að þvælast um í kollinum á mér í nokkur ár. Við Matthildur erum vön að ferðast án allra skipulagðra plana, því eru ferðalög okkar yfirleitt ekki lengri en dagsferðir. En það að fara upp og niður Jökulsárgljúfur krefst nætursetu ef eitthvað á að sjá annað en grýttan þjóðveginn.

Núna á tímum túrisma, þar sem orðið er gjaldskylt að hafa opin augun á Íslandi, er nánast útilokað að kaupa gistingu sem ekki kostar augun úr. Það hafði komið til tals að taka gamla Atlavíkurtjaldið hennar Matthildar með í þetta ferðalag en þótti ekki álitlegur kostur, enda hafði það síðast verið notað af krökkunum á Bræðslunni fyrir nokkrum árum og þau verið spurð hvort þetta væri tjaldið sem Jim Morrison dó í. Þar að auki voru enn í fersku minni fréttir frá því á góðærisárunum; af því þegar íslendingum með tjöld var meinaður aðgangur að tjaldstæðum vegna þess að þannig landar hlytu að vera ógæfufólk sem stundaði næturbrölt.

Ég hafði stungið upp á því fyrir nokkru að við færum á gamla Kangónum því erlendir ferðamenn þvælast um á svoleiðis bílaleigubílum með áletruninni "happy campers".  Matthildi leist ekki á þessa hugmynd því kassinn á Kangó væri ekki einu sinni eins og einbreitt rúm hvað þá mikið meira en 1.6 m á lengd. En þegar sjötug systir hennar birtist í heimsókn í síðustu viku, á svipuðum bíl með frænku sinni, sem þær notuðu sem gististað, voru engar afsakanir lengur.

Síðasta miðvikudagsmorgunn dröslaði ég yfirdýnunum út í Kangó ásamt fermigasvefnpokunum og við brunuðum á stað með kaffi og heimabökuðu kanilsnúðana. Til að upplifa auðnina í botn ákváðum við að fara gamla þjóðveg 1 um Möðrudal þó vegurinn væri rjúkandi stórgrýti og skoðuðum í leiðinni Skessugarðinn. Þegar við stoppuðum næst við Fjallakaffi í Möðrudal var rútustóð í hlaðinu og túristar á hverjum hól þannig að skyggði á sjálfa fjalladrottninguna, Herðubreið. Eftir að hafa kíkt á glugga í kirkjunni til að berja altaristöfluna augum, sem Jón í Möðrudal málaði um árið af Jesú Kristi að renna sér niður brekku, yfirgáfum við pleisið enda óþarfi að fara í biðröð eftir fjallakaffi með brúsann og kanilsnúðana í Kangónum.

Við áðum um sinn norðan við Biskupsháls. þar tók sig út úr þéttri umferðinni fjallabíll og keyrði að tjörninni sem við höfðum komið okkur fyrir, þarna var á ferð vinafólk frá árum áður sem við höfðum ekki hitt frá því 2008. Það var gaman að eiga kaffispjall um það sem á dagana hafði drifið við litla tjörn í hlýjum öræfavindinum. Eftir þetta stopp var haldið áfram, beygt af þjóðvegi eitt við Jökulsárbrú og stefnan tekin niður þjóðveg 864 við Jökulsána að austanverðu, niður Hólsfjöll.

"þessi andskotans vegur er sama stórgrýtis þvottabrettið og vanalega" kallaði ég til Matthildar; - "sama þvottabrettið og vanalega? eins og þú sért hérna á ferðinni dags daglega og vitir það" kallaði hún á móti. Kangóinn var orðinn fullur af óhljóðum og ryki.

Það er samt svo að ég fór fyrst þessi helvítis Hólsfjalla þvottabretti fyrir rúmum 40 árum til að skoða Dettifoss á sumarferðalagi með foreldrum mínum og hef af og til í gegnum árin þvælst þessa stórgrýttu leið vegna vinnu. Þá hefur nokkru sinnum verið farið að Dettifossi ef einhver hefur verið með í för sem ekki hefur séð hann. Matthildur hafði aldrei  Hólsfjöll farið, ekki einu sinni að Dettifossi og hafði því bara alls ekkert vit á þessu stórgrýti. 

Umferðin var þétt og rykmekkirnir stigu af veginum. Þegar við komum að fossinum voru öll bílastæði yfirfull og engu líkara en útihátíð stæði yfir, ekki um annað að ræða en parkera þétt með kamrinum. Í öll þau skipti sem ég hef áður komið að Dettifossi hefur ekki nokkur hræða verið á staðnum til að trufla andaktina, enda þjóðvegurinn um Hólsfjöll ekki fyrir neina sunnudagsbíltúra. Hvað þarna var margt fólk í stórgrýtinu er ekki gott að áætla en rútur og bílaleigubílar skiptu tugum. Dettifossi er ekki hægt að lýsa ekki einu sinn með ljósmyndum þannig er nú bara það.

Eftir að hafa setið við fossinn til að upplifa hann og séð útlendinga í röðum á öllum klettabrúnum eins og indíána í bíómyndum, héldum við áfram niður gljúfrin og stoppuðum næst við Hafragilsfoss. Eins og við Dettifoss flaug tíminn inn í stórbrotið landslag en þarna var færra fólk á ferð svo jafnvel minnti á gamlan tíma þegar hægt var að leggja metnað sinn í að míga úti. Síðan tók þvottabrettið aftur við niður í Öxarfjörð. Þar hafði sjoppan og tjaldstæðið við Ásbyrgi verið sprengd í loft upp með fólki þannig að ekki yrði þar hafður næturstaður.

Ásbyrgi verður seint lýst betur en að hætti þeirra sem fyrst það sáu; hóffar Sleipnis hests Óðins. Hvernig fornmenn sáu hóffarið án þess að hafa yfir flugvélum og þyrlum að ráða sem nú á tímum má sjá sveima með ferðamenn yfir Jökulsárgljúfrum, er mér hulin ráðgáta. Þó að ég hafi nokkrum sinnum komið í Ásbyrgi þá get ég ekki lýst því með öðrum orðum en þangað verður fólk að koma sem vill fá nasasjón af Íslandi.

Við keyrðum því næst upp niðurgrafinn moldarslóða sem telst vera þjóðvegur 862 vestan við Jökulsána, í Vesturdal þar sem er tjaldstæði. Þar voru þjóðgarðsverðir gengnir til náða þegar við komum, en pláss fyrir Kangó. Eftir að hafa rölt um nágrennið, sem við ákváðum að skoða betur fyrir allar aldir næsta morgunn, var næturgistingin gerð klár. Snemma, fyrir hefðbundnar túristaferðir voru klettaborgir skoðaðar sem við héldum að væru Hljóðaklettar en var með skilti sem vísaði á Eyjuna. Þegar við höfðum gert upp við þjóðgarðsvörð ákváðum við að renna niður bílslóða sem lá að Jökulsánni ef þar væri meira að sjá áður en við héldum aftur út á moldarslóða 862.

Þessi krókur var gulls ígildi því þarna voru þá þessir Hljóðaklettar, WOW og ég meina það. Inn á milli þessara stuðlabergs spírala, sem vófu sig tugi metra upp í himininn, gengum við dáleidd á meðan morgunnsólin bræddi hvert ský. Þó svo að ég hafi séð margar myndir úr Hljóðaklettum hef ég aldrei haft ímyndunarafl sem hefur náð hálfa leið utan um herlegheitin. Það að svona undur hafi getað orðið til á því sem næst augnabliks eldgosi og það að Jökulsárgljúfur hafi orðið til í hamfarahlaupi úr Vatnajökli sem sópaði jarðveginum frá þessum skúlptúrum, er einfaldlega meira en nokkur tíma hefur verið hægt að koma fyrir í öllum hamfaramyndum ljósvakans. 

Eftir að hafa eigrað um óendanlegar klettaborgirnar var stefnan tekin í suður og því sleppt að ganga um Rauðhólana enda fæturnir búnir og WOW-ið farið að lækka raddstyrkinn. En ekki tóku minni undur við í rykmekki umferðarinnar, við Hólmatungur tóku ský að hlaðast í loftið. Þegar við komum að Dettifossi að vestan voru komnar skúrir sem maður skilur hversvegna eru kallaðar "showers" á ensku. Fyrir túristana, sem voru hálfu fleiri við Dettifoss að vestan en austan daginn áður, var búið að koma fyrir kamraborgum frá gámaþjónustunni á malbikuðum bílastæðunum því þessir venjulegu náðhús voru með löngum biðröðum við hverjar dyr. Þrumuguðinn ræskti sig á himninum um leið og hann skolaði rykið af ferðamönnunum með sturtum. Síðan braust sólin í gegnum skýin með sólstöfum og regnbogum.

Það stefndi allt í að við yrðum dagþrota einn daginn enn eftir að hafa skoðað Dettifoss að vestan, þó ákváðum við að brenna vestur í Námaskarð áður en stefnan yrði tekin austur. Enda hver að verða síðastur til að fara þar um með opin augun án þess að vera rukkaður sérstaklega, og kannski bara hundaheppni að lögbann hafi verið sett á innheimtuaðgerðir svokallaðra landeigenda, gegn 40 milljón króna tryggingu s.l. mánudag. Ég sem hélt að tryggingin hefði verið fyrir posanum einum saman, en sá þegar ég kom á svæðið að einnig hafði verið kostað til uppsetningar á sjálvirku rúlluhliði svipað og tekur á móti aðgangsmiðum á lestarstöðvum.

Landslaginu sem gefur að líta í Þingeyjarsýslu verður sennilega ekki lýst með betri orðum en Þorsteins Thorarensen í upphafi þessa pistils. En ólík er sýnin þá og nú á það hvað "gróandi mannlíf" merkir. Það sem talið var standa fyrir þrifum sem ömurlegur ljótleikinn einn er nú orðið að söluvöru sem útlendingar leggja á sig að upplifa þrátt fyrir storm, slyddu og él, auk þess að bryðja ómælt ryk á skemmtiferð sinni yfir þvottabrettið. Svo mögnuð er þessi söluvara að sjálfsagt þykir orðið að afkomendur þeirra sem þoldu fyrr alda hörmungar greiði fyrir að hafa augun opin í eigin landi.  

 


Papeyjarferð

 

IMG_9374

Í lok maí í fyrra fórum við Matthildur út í Papey ásamt Pólskum starfsmönnum Múrbergs þeim Gregor, Piotr, Jacek og Wadek, einnig var Eiríkur (Dúi) með og á hann heiðurinn af mörgum myndunum sem má sjá í mynda albúminu "Papey 2008" hér á síðunni.  Dúi er hæfileikaríkur ljósmyndari og má sjá úrval mynda hans á http://www.flickr.com/photos/duilingur

Papey er frábær staður að heimsækja þar má kynnast sögu eyjarinnar með leiðsögumanni Papeyjarferða auk þess að skoða hið mikla fuglalíf sem er í björgum eyjarinnar.  Á leiðinni á milli lands og eyjar voru selir skoðaðir.  Stundum má sjá hvali, þó svo að það hafi ekki verið svo í þessari ferð. 

Þetta var sjötta ferðin mín út í Papey.  Þær hafa flestar verið í lok maí þegar fuglinn er að hefja varpið.  Eins hef ég  farið í júlí og ágúst.  Fyrir okkur Matthildi var þetta ævintýraferð eins og Papeyjarferðir eru alltaf, hvað þá fyrir Pólverjana og Eirík sem voru að fara í fyrsta sinn.  Ekki var verra að hitta Möggu úti í Papey sem býr í húsinu sínu Milljón frá maí - ágúst og fá hjá henni eitt það besta lostæti sem þessi heimur hefur að bjóða, svartfuglsegg.

IMG_9433

Nánar um Papeyjarferðir og Papey.

http://www.djupivogur.is/adalvefur/?pageid=174

http://nat.is/travelguide/ahugav_st_papey.htm


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband