Færsluflokkur: Ferðalög

Hjaltastaðaþinghá

IMG_6491

Þó það sé kannski fullmikið sagt að Hjaltastaðaþinghá sé falinn fjársjóður, þá leynist þar margt þegar grannt er skoðað og kannski ástæða fyrir "túrista" að hægja á sér á hraðferð sinni til Borgarfjarðar. Þegar ég dvaldi í minni Noregs útlegð þá einsetti ég mér það að fara sunnudagsrúnt um hliðarvegi Hjaltastaðaþinghár og skoða það af sveitinni sem ekki sæist frá veginum. En eins og flestir vita þá liggur þjóðvegurinn til Borgarfjarðar um hana miðja og er víðsýnt frá honum, svo sunnudagsrúntur átti ekki að verða mikið mál. En nú er komið langt á fjórða ár og ég enn að hringla um Hjaltastaðaþinghána stöðugt uppgötvandi leyndadóma hennar.

Eitt það fyrsta sem maður tekur eftir eru hinar endalausu mýrar sem kallast blár á austfirsku. Reyndar skrifaði Stefán Jónsson fréttamaður um það í bókinni Gaddaskötu hverskonar votlendi mætti kalla blá. Því mýri mætti finna í hverju krummaskuði en undir blár þurfi heilu sveitirnar. Mýrin sé í mesta lagi dý við túnfótinn á meðan bláin umkringi túnið. Sumarlangri rannsókn Stefáns á blám lauk í Hjaltastaðablánni, því engin veit hvað blá er fyrr en hann hefur komið í Hjaltastaðaþinghá.

IMG_6512

Við gömlu hreppamörkin á milli Eiðaþinghár og Hjaltastaðaþinghár er Kjarvalshvammur, í honum stendur hús sem var eina fasteignin meistarans í lifanda lífi. Bóndinn á Ketilsstöðum gaf honum skikann og lét byggja kofann á Trésmíðaverkstæði KHB. Þarna dvaldi Kjarval oft og málaði þar margar af sínum frægustu myndum. Í hvamminum er líka bátaskýli yfir Gullmávinn, bát sem Kjarval átti, á honum sigldi hann niður Selfljót til sjávar og þaðan seglum þöndum út Héraðsflóann, fyrir Brimnes, og yfir til æskustöðvanna í Borgarfirði. Þessa siglingu með vind og árar einar að vopni, fór Kjarval einsamall kominn vel yfir sjötugt og lýsir það vel hversu hugaður Kjarval var þegar kom að því að láta drauma rætast.

Kjarval

 

Hjaltastaðaþinghá er svo dularfull að það er meir að segja tilgáta um það að úr henni hafi komið hershöfðingi, sem var sagður "réttsýnn maður og mannúðlegur" öfugt við þann ribbaldaflokk sem hann fór fyrir og samanstóð m.a. af þýskum málaliðum til varnar furstadæminu í Hyéres, sem síðar sameinaðist furstadæminu í Provance í S-Frakklandi. Þetta rifjaðist upp fyrir mér núna vikunni þegar fréttir voru af mannskæðu þyrluslysi við St. Tropez í Suður-Frakklandi. Hershöfðinginn úr Hjaltastaðaþinghánni á að hafa verið Guðmundur Guðmundsson sonur séra Guðmundar á Hjaltastað, sonar Jóns "lærða".

Jón lærði, sá mikli galdramaður, bar beinin í Hjaltastaðaþinghá. En hann hafði, eins og fleira fjölfrótt fólk á Íslandi, hrakist austur á land og þannig forðað sér frá bálinu. Um komu sína austur á Hérað segir Jón þetta í Fjölmóði sínum "Hitti þar mæta menn og milda fyrir, Bjarna sýslumann og blíðan prófast, síra Ólaf vorn, sælan með guði; umbuni guð þeim allar velgerðir".

IMG_1032Þó svo að gefin hafi verið út fleiri hundruð blaðsíðna bók af ritsmíðum Jóns og göldrum, ásamt flótta hans undan réttvísinni, þá hafa skáld og rithöfundar gert lítið með dvöl þessa merka sautjándu aldar manns í Hjaltastaðaþinghánni. En hann dvaldi síðustu árin á Hjaltastað. Árin áður hafði hann leynst ásamt konu sinni úti í Bjarnarey við minni Héraðsflóa, eftir að austfirskir höfðingjar töldu sig ekki lengur geta varið hann fyrir Bessastaðavaldinu.

Meira fer fyrir því í fræðiritum þegar Jón hélt til Kaupmannhafnar á meðan hann bjó í Bjarnarey. Hann fór ásamt Guðmundi syni sínum sem einnig þurfti að fá réttan sinn hlut fyrir Íslensku valdi. Leituðu þeir feðgar ásjár Konungsvaldsins til að fá Jón náðaðan frá galdrabrennunni. Náðunina fékk hann í Kaupmannahöfn en þurfti að staðfesta hana á Alþingi. Höfðingjar landsins voru ófáanlegir til að samþykkja náðun Jóns en létu óátalið að hann færi aftur austur á land. Um það segir Jón í Fjölmóði sínum "En að skilnaði ályktuðu Jens og junkur að ég frí skyldi í Múlasýslu mína reisa og hjá kerlingu kúra síðan." Þau hjónin dvöldu síðan á Hjaltastað hjá séra Guðmundi syni sínum sem einnig fékk frið austan-lands fyrir Íslenskum valdsmönnum.

Landnám Hjaltastaðaþinghár er svo enn ein ráðgátan. Sagt er að Uni "Danski" hafi fyrstur numið þar land. Hann var sonur þess Garðars Svavarssonar sem fyrstur fann Ísland, þó án þess að nema það, en gaf landinu þess í stað nafnið Garðarshólmi. Landnáma getur þess að Uni hafi orðið að flýja landnám sitt þar sem innfæddir vildu ekki láta honum í té bústofn, en Landnáma getur þess ekki hverjir þeir bændur voru. Þráfaldur orðrómur hefur verið uppi um að ekki sé allt sem sýnist við landnám Hjaltastaðaþinghár og hafa Keltneskir draugar verið þar fyrirferðamestir.

Í dag fór ég svo enn einn "sunnudagsbíltúrinn" með frúnni og var þá ekki þessa fína gljá í Bóndastaðablá. Þar rétt fyrir utan er sjálfsafgreiðslu sjoppan hans Kidda vídeóflugu, sem gengur fyrir draumum, sól og vindi rétt eins og Gullmávurinn hans Kjarvals.

IMG_6435

 

IMG_6495

 


Skessugarðurinn; á sér enga líka

IMG_4294

Gamli vegurinn um Jökuldalsheiði og Möðrudalsfjallgarða liggur um ævintýraleg hrjóstur. Hann var áður þjóðvegur nr. 1, eða allt fram undir árslok 2000 þegar Hárekstaðaleið leysti hann af hólmi. Þessi vegur hefur núna síðustu árin komist inn á gps punkta erlendra ferðamann.

IMG 7217

Ferðamenn á Möðrudalsfjallgarði-vestari virða fyrir sér Möðrudal

Þó svo að ég hafi farið þennan veg oftar en tölu verður á komið frá því fyrst ég man eftir, þá eru þau undur, sem við veginn liggja enn að koma á óvart. Sum þeirra hafa farið fram hjá mér alla tíð vegna þess að þarna er um öræfi að fara, sem þurfti að komast yfir á  skemmstum tíma.

Eitt af þeim undrum, sem ég uppgötvaði ekki fyrr en fyrir 5 árum síðan, vegna þess að mér var þá bent á það er Skessugarðurinn, sem er á Grjótgarðahálsi 2 km innan við veginn þar sem hann þverar hálsinn. Skessugarðurinn sést vel frá veginum en einhverra hluta vegna hefur hann ekki gripið athyglina umfram aðra urð og grjót við veginn í gegnum tíðina. En eftir að ég vissi af honum hefur hann dregið mig til sín hvað eftir annað.

IMG 4956

Gamli þjóðvegur nr 1 um Geitasand, sem er á milli Möðrudalsfjallgarða

Það hefur verið fámennt við Skessugarðinn í þau skipti sem ég hef komið og virðist hann ekki hafa vakið eftirtekt ferðamanna frekar en mína í hálfa öld. En þetta gæti nú farið að breytast og er þá eins víst að Grjótgarðaháls gæti orðið eins og hver önnur Reynisfjara þar sem ferðafólk mátar sig í umhverfi sem einna helst má líkja við tunglið.

Vísindalega skýringin á Skessugarðinum er að þarna hafi Brúarjökull skriðið fram og skilið eftir sig ruðning. En hvernig það stendur á því að aðeins risasteinar eru í þessum ruðningsgarði er erfiðara að skýra. Telja vísindamenn einn helst að hamfara flóð hafi skolað öllum fínefnum og smærri steinum úr garðinum þó svo að erfitt sé að ímynda sér hvernig. En jökulruðnings skýringuna má sjá hér á Vísundavefnum og segir þar að hér sé um að ræða fyrirbæri, sem á fáa eða enga sína líka í heiminum.

IMG_4003

Heljardalur við Möðrudalsfjallgarð-eystri

Önnur skíring er sú að tvær tröllskessur hafi hlaðið garðinn og verður það alveg að segjast eins og er að sú skýring er mun sennilegri. Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar má finna skessu skýringuna á fyrirbærinu:

IMG_4985

"Það er gömul tíska á Austurlandi að kalla Möðrudals- og Tungnaheiði Norðurheiðina en Fljótsdalsheiðina Austurheiði. Mun það runnið upp á Jökuldal því hann gengur sem kunnugt er inn á milli þessara heiða.

Svo er sagt að til forna bjó sín skessan í hvorri heiði og voru þær systur; er við Fljótsdalsheiðarskessuna kenndur Skessustígur í Fljótsdal. Skessurnar lifðu mest á silungsveiði og fjallagrösum er hvort tveggja var nægilegt í heiðum þessum en þrátt fyrir það nægði hvorugri sitt hlutskipti og stal hvor frá annarri; gengu þær yfir Jökulsána á steinbrú ofarlega á Dalnum.

Einu sinni hittust þær og slóst þegar í heitingar með þeim og álög. Norðanskessan mælti þá: "Það legg ég á og mæli um að allur silungur hverfi úr Austurheiðarvötnunum í Norðurheiðavötnin og sérðu þá hvern ábata þú hefur." Austanskessan greip þegar orðið og mælti: "En veiðist treglega og komi jafnan á sporðinn og það legg ég á enn fremur að öll fjallagrös hverfi úr Norðurheiði í Austurheiði og mun þetta þá jafna sig."

"Haldist þá hvorugt," sagði norðanskessan. "Jú haldist hvoru tveggja," mælti hin og hefur af þessu eigi brugðið síðan að nægur þykir silungur í Norðurheiðinni en veiðitregur og kemur jafnan öfugur upp en í Austurheiði skortir eigi fjallagrös.

Þegar stundir liðu fram undi hvorug  þeirra sínum hlut að heldur og stálu hvor enn frá annarri á mis og þó austanskessan enn meir. Reiddist norðanskessan því og brá þá fæti á steinbogann og braut hann af ánni. Systir hennar varð samt ekki ráðalaus og annaðhvort stökk yfir ána eða óð hana þegar henni sýndist. Lögðu þær þá enn mót með sér og sömdu mál sín á þann hátt að þær skyldu báðar búa í Norðurheiðinni og skipta landi með sér til helminga.

Tóku þær þá til starfa og ruddu síðan stórbjörgum og hlóðu merkisgarð þann er æ síðan heitir" Skessugarður (tröllkonugarður)..... og er þess eigi getið að þeim hafi borið síðan neitt á milli."

IMG_4980

Nú hefur erlendur ferðabloggari uppgötvað Skessugarðinn og birt þaðan myndir á bloggsíðu sinni auk þess að birta video á youtube þannig að ekki er víst að eins friðsælt verði við Skessugarðinn og hefur verið frá því skessurnar sömdu um friðinn.

 

 

 


Héraðssandur

IMG 5097

Það hefur ekki farið framhjá neinum hvað svartur sandur er "inn" þessi misserin. Svartir sandar, hrjóstur og örfoka land eru heimsótt af fólki úr öllum heimshlutum í von um að upplifa ævintýrið undir skini miðnætursólar eða norðurljósa. Í stærstum hluta heimsins svipar nútíma landslagi meira til afþreyingar en ævintýris. Þess vegna þykja svartir sandar og hrjóstur Íslands ævintýralega óbeisluð þó svo á hafi gengið með sáningu Alaska lúpínu, Beringspunts og gróðursetningu Síberíu lerkis í boði ríkisins. Svo hefur náttúran sumstaðar fengið að sjá um sig sjálf líkt og á Skeiðarársandi þar sem óvænt er að vaxa upp einn fallegasti birkiskógur landsins.

Það er svo sem ekkert skrítið að óþolinmæði hafi verið farið að gæta vegna þess hvað náttúrunni gengi hægt að græða upp sandauðnir Íslands og ekki datt nokkrum heilvita manni í hug fyrir nokkrum árum að hægt væri að byggja ferðamannaiðnað á örfoka landi. Nútíminn er hraðans og neyslunnar, þar af leiðandi allt miðað við getu meðalmannsins til að kaupa sér afþreyingu. Þannig hefur ferðaþjónusta orðið af skiptimynnt til þeirra sem hafa efni á að ferðast. Þess vegna hefur náttúran víðast hvar í heiminum verið markaðsvædd og hún mótuð í manngerða landslagspakka. Nema á stöðum eins og á Íslandi þar sem enn má finna víðáttur svartra sandauðna, þó svo flestir erlendir ferðamenn láti sér nægja valda útsýnistaði á við Reynisfjöru, Skógasand og Dyrhólaey.

Fyrir ekki svo löngu síðan átti ég tal við Amerísk hjón sem voru á ferð um landið. Eftir að hafa komist að því að þau voru ekki "meðaltals" ferðamenn sem bruna hringinn á 3-4 dögum, heldur höfðu tekið sér 4 vikur til að skoða Ísland, sperrtust eyrun. Þau sögðu í stuttu máli að við íbúarnir virtumst ekki gera okkur grein fyrir í hverskonar ævintýri við lifðum, milli svartra sanda, hárra fjalla og friðsælla auðna. Sjálfsagt ættum við okkar vandamál eins og aðrir íbúar heimsins, en guð minn góður dagar þeirra í þessu landi væri á við andlega heilun; - þessi hjón voru reyndar frá New York.

Við sem höfum farið í gegnum tíðina með verðtryggðu vistarbandi, veðrabrigðum vetrarins og hamförum íslenskrar náttúru vitum að það er ekki alveg svo, þrátt fyrir svarta sanda. En samt sem áður mættum við vekja okkur oftar til vitundar um kostina við að búa í örfoka landi, sem sumir segja að minni á tunglið, stað sem fáir hafa á komið. Hvað mig varðar þá hafa svörtu sandarnir verið hluti af mínu lifibrauði í gegnum árin, sem múrari hef ég notað þá í byggingarefni, það er að segja í steypu og pússningarsand. Samt hafa auðnir og kyrrð sandanna alltaf heillað, svo ekki sé talað um þar sem úthafshaldan brotnar á þeim í fjörunni.

Þrátt fyrir allan túrismann má víða finna staði á Íslandi þar sem hægt er að njóta friðsældar, jafnvel andlegrar heilunar og yfirleitt þarf ekki að leita langt yfir skammt. Núna í veðurblíðu síðustu daga sporuðum við hjónin berfætt um sand sem er því sem næst við útidyrnar. Fyrir botni Héraðsflóa breiðir úr sér um 25 km löng svört sandströnd sem kölluð er Héraðssandur eða Héraðssandar. Þau er þrjú stórfljótin sem falla í Héraðsflóann. Selfljót er austast með ós undir Vatnsskarði, Lagarfljót og Jökulsá á Dal sem hafa sameiginlegan ós fyrir miðjum flóanum, svo fellur Kaldá vestast með ós undir Hellisheiði.

Sandurinn er að mestu komin úr meira en 120 km fjarlægð frá Brúarjökli sem er skriðjökull í norðanverðum Vatnajökli. það stórfljót sem bar mest af sandi í Héraðsflóann var Jökulsá á Dal áður en hún myndaði Hálslón Kárahnjúkavirkjunar en á nú að mestu sameiginlegan farveg með Lagarfljóti stærstan hluta ársins. Hvort sú staðreynd að Jökulsá á Dal er ekki lengur til sem stórfljót muni hægja á sandburði fram í Héraðsflóann á eftir að koma í ljós. En ekki er ósennilegt að eitthvað af þeim framburði sem hún hefur séð um að flytja í gegnum tíðina sitji hér eftir á botni Hálslóns og Lagarfljóts. Hvar eiginlegur Héraðssandur byrjar og hvar hann endar afmarkast af fjallgörðunum að austan og vestan, en hvað hann nær langt inn á Hérað er ekki eins auðséð.

Þegar gengið er út að sjávarmáli er svartur sandur um 2 km leiðarinnar, en þar fyrir innan gróið land, seftjarnir, grasmóar og mýrar á flatlendinu. Þar sem landið fer að hækka í suðri er Jórvík, þaðan eru 7,5 km norður til sjávar. Skammt frá Jórvík er Arnarbæli sem hefur að geyma fornar rústir sem sumir vilja meina að gæti hafa verið hafnabær á fyrri tímum. Ef Jórvík hefur nánast staðið við sjó á landnámsöld þá skýrir það vel hversvegna ysti hluti flatlendisins á Héraði nefnist Eyjar. Því hefur framburður stórfljótanna verið gríðarlegur í gegnum aldirnar og má þá segja að Héraðssandar þeki nú um 200 ferkílómetra og umlykja þær eyjar sem voru í minni Héraðsflóans við landnám.

Hægt er að stækka myndirnar með því að smella á þær;

IMG_3786

Horft yfir Héraðsflóa að austan frá Vatnskarði. Ljósgrýti er í fjöllum beggja megin flóans

 

img_7916

Horft yfir Héraðsflóa að vestan, frá Hellisheiði. Framburður Lagarfljóts litar sjóinn marga km út frá ströndinni

 

IMG_5249

Þegar farið er út á Héraðssand er fyrst komið á flatlendis móum með mýrum og tjörnum. Gönguleiðin út að sjávarmáli er 3 - 5 km

 

IMG_5056

Rétt innan við sandinn eru harðbalar með hrossnál og sandblautum sefi vöxnum mýrum á milli

 

IMG_5068

Það þarf víða að vaða áður en komið er út í sandhólana sem varða síðasta spölinn

 

IMG_5226

Þegar ströndin nálgast er eins km kafli þar sem er gengið á milli hárra sandhóla, grónum melgresi

 

IMG_5174

Til að hafa sig af stað er gott að gera sér erindi, því ferð á Héraðssand er nánast dagsferð. Í þetta sinn var erindið að safna melkorni

 

IMG_5140

Úti við Atlantshafið blasa við, því sem næst, óendanlegir svartir sandar til beggja átta

 

IMG_0604

Uppruna Héraðssands er að finna 120 km innar í landinu við Vatnajökul. Myndin sýnir hvernig umhorfs er við sporð Brúarjökuls seinnipart sumars

 

IMG_6461

Af setinu, sem vel sést á árbökkunum á þessari mynd, má sjá hvað framburður jökulsins er afgerandi. Myndin er af Töfrafossi, sem var einn af fimm stærstu fossum landsins, en er nú á botni Hálslóns og kemur aðeins í ljós fyrripart sumars þegar lítið er í lóninu

 

IMG_0623

Kárahnjúkastífla við Fremri-Kárahnjúk. Stíflan myndar Hálslón sem er um 57 ferkílómetrar. Fremst á myndinni, við hlið stíflunnar, má sjá yfirfallsrennu lónsins 

 

IMG_5010

Hálslón á yfirfalli, bráðnun Brúarjökuls streymir um rennuna niður í farveg Jökulsár á Dal

 

IMG_5029

Á Kárahnjúkastíflu, yfirfall Hálslóns myndar einn af stærri fossum landsins, þar sem það fellur niður í Dimmugljúfur í fyrrum farvegi Jökulsár á Dal

 

 Héraðsflói

Héraðsflói, á loftmyndinni má vel greina sameiginlegan ós Lagarfljóts og Jökulsár á Dal og þann gríðarlega framburð af sandi sem Jökla ber með sér þann tíma sem hún rennur í öllu sínu veldi, þrátt fyrir Kárahnjúkavirkjun

 

20170903_225059


Himnaríki eða helvíti sjálfstæðs fólks

Allt fram á nítjándu öld þótti íslendíngum fjöllin ljót. Ekki var látið við sitja að Búlandstindur væri „furðu ljótur“, heldur þótti Mývatsveitin með fjallahríng sínum og vatni viðurstyggilegt pláss. Varla eru eftir hafandi núna þær samlíkíngar sem þjóðleg bílífa okkar, þjóðsögur Jóns Árnasonar, velja því. Rómantíkin þýska gaf okkur fjöllin og gerði þau okkur kær og kendi Jónas Hallgrímssyni bæði að rannsaka þau sem fræðimaður og unna þeim í ljóði; og eftir hann kom Steingrímur og kvað Ég elska yður þér Íslands fjöll; og hefur sá skáldaskóli auðsýnt þeim tignun fullkomna fram á þennan dag. Á okkar öld hefur það þótt hæfa kaupstaðarfólki, sem var eitthvað að manni, að eignast vángamyndir af eftirlætisfjöllum sínum að hengja upp yfir sóffanum og hafa slíkir eftirlætis gripir verið nefndir sóffastykki að dönskum sið. Fólkið horfði svo lengi á þessi landslög uppá veggjum hjá sér að marga fór að lánga þángað. Svona mynd veitti áhorfana í rauninni sömu lífsreynnslu og horfa út um glugga uppí sveit.

Þennan texta má finna í bókinni "Reginfjöll að haustnóttum" eftir Kjartan Júlíusson frá Skáldastöðum efri, og er í formála bókarinnar, sem Nóbelskáldið skrifaði. Það má segja að eins hafi farið fyrir mér framan af ævi og fyrri alda íslendingum, að hafa ekki þótt mikið til fegurðar fjallana koma frekar en annarra faratálma. 

Á seinni árum hefur komist í tísku að kalla stóran hluta heiða, fjalla og óbyggða Austurlands, víðernin norðan Vatnajökuls. Hluti þessara víðerna er svæði sem oft er kallað Jökuldalsheiðin og er jafnvel talið að Nóbelskáldið hafi sótt þangað efniviðinn í sína þekktustu bók Sjálfstætt fólk. Þar hafi Bjartur í Sumarhúsum háð sína sjálfstæðisbaráttu.

Það má segja að það hafi ekki verið fyrr en í fyrrasumar að ég fór að gefa Jökuldalsheiðinni gaum þó svo að hún hafi allt mitt líf verið í næsta nágrenni og ég hafi farið hana þvera oftar en tölu verður á komið, þó svo að ég hafi ekki fyrr en fyrir nokkrum árum áttað mig á helgi hennar. En eftir að hún fangaði athygli mína má segja að hún hafi haft hana óskipta eins og Hjaltastaðaþingháin hefur fengið að finna fyrir síðustu árin.

IMG_3865

Sænautasel stendur við suðurenda Sænautavatns

Í síðustu viku keyrði ég, ásamt Matthildi minni og Helga frænda mínum sem var í Íslandsheimsókn frá Ástralíu, heiðina þvera og endilanga. Sú leið lá frá Kárahnjúkum út á miðheiðina við Sænautavatn fyrsta daginn, þar sem drukkið var kaffi og kakó ásamt lummum í rafmagnslausu torfbænum í Sænautaseli.

Næsta dag var farið í Vopnafjörð og upp á heiðina í Möðrudal og gamla þjóðveginn þaðan yfir hana þvera austur með viðkomu á Grjótgarðahálsi í Skessugarðinum. Um þetta stórmerkilega náttúrufyrirbrigði má fræðast á Vísindavefnum. Einnig er þjóðsaga í safni Sigfúsar Sigfússonar, sem ekki er síður sennileg, sem greinir frá því að þarna sé um fornan landamerkjagarð að ræða sem tvær skessusystur gerðu í illindum sín á milli.

IMG_4022

Á Grjótgarðahálsi, norðan við Skessugarðinn

Núna á sunnudaginn hófum við svo þriðja heiðar daginn í morgunnkaffi og lummum í Sænautaseli. Þennan dag þræddum við slóðana meðfram vötnunum suður heiðina í sólskini og 24°C hita. Fórum svo vestur yfir í Möðrudal fyrir sunnan Þríhyrningafjallgarðinn og þaðan út á gamla þjóðveg eitt norður í Möðrudal, ævintýralega hrjóstruga leið.

Í þessum sunnudagsbíltúr heimsóttum við þau heiðarbýli sem við vegslóðana voru. En alls urðu heiðarbýlin 16 sem byggðust af sjálfstæðu fólki um og miðja 19. öldina. Um þessa heiðarbyggð í meira en 500 m hæð má lesa í I bindi Austurland safn austfirskra fræða. Þar segir Halldór Stefánsson þetta um tilurð þessarar heiðarbyggðar. Bygging þessarar hálendu heiðarbyggðar, hinnar langhæstu á landinu, líkist þannig - nær að kalla- ævintýri. Á þessum sunnudegi náðum við að heimsækja 5 býlanna.

Halldór Laxness gerði kröpp kjör þessara heiðarbúa heimsfræg í bókinni Sjálfstætt fólk. Það er erfitt að ímynda sér annað á góðviðrisdögum sumarsins en að heiðarlífið hafi verið himnaríki á jörð. Allt við höndina, mokveiði silungs í bláum vötnunum, gæsavarp í mýrunum, hreindýr, túnræktun óþörf því laufengi og mýrar eru grasmikil og búsmalinn á beit heima við bæ. Þó svo veturinn væri harður þá komið sumarið yfirleitt eins og hendi væri veifað.

IMG_4014

Í Skessugarðinum

En það gat líka verið hart að búa á heiðinni af fleiri orsökum en Nóbelsskáldið tilgreindi. Í byrjun árs 1875 hófst eldgos í Dyngjufjöllum. Á páskadag hófust gríðarlegar sprengingar í Öskju, sem sendu vikurmökk út yfir Mið-Austurland. Vilborg Kjerúlf, sem þá var átta ára gömul stúlka á Kleif í Fljótsdal, lýsir morgni þessa páskadags svo í Tímanum 1961.

Mamma vaknaði um morguninn áður en fólk fór að klæða sig, og sá eldglæringarnar, sem komu hvað eftir annað. Það var hlýtt og gott veður og féð látið vera úti um morgunninn, en það tolldi ekki við og rásaði fram og aftur. Það fann á sér gosið. Klukkan 10 kom það. Það voru nú meiri ósköpin þegar það dundi yfir. Myrkrið varð alveg biksvart, og maður sá ekki handa sinna skil. Það var alveg voðalegt þegar þrumurnar riðu yfir og hávaðin óskaplegur. Það glumdi svo mikið í hamrabeltinu fyrir ofan bæinn. Svo lýstu eldingarnar upp bæinn þegar dynkirnir riðu yfir. Það var eins og snjóbyljir kæmu yfir þegar askan dundi á húsinu. Já það voru nú meiri ósköpin.

Kleif í Fljótsdal er í rúmlega 70 km fjarlægð frá Öskju. Um það hvernig umhorfs var eftir að sprengingunum lauk, segir Vilborg þetta; askan lá yfir öllu, og ég man að ég sópaði henni saman með höndunum og lék mér að henni, og hún var glóðvolg í höndunum á mér. Mér fannst þetta vera hnoss og hafði gaman að leika mér að henni. Hún var svona í ökkla í dældunum. Það var svo einkennilegt, að þykkasti mökkurinn fór aðallega út Jökuldalinn, og lenti meira þar en hjá okkur.

IMG_3968

Tóftir Heiðarsels við suðurenda Ánavatns

Öskulagið var víða 20 cm á Jökuldalnum og heiðinni, enda lagðist byggð því sem næst af um tíma í heiðinni, og bar ekki sitt barr eftir Öskjugosið. Mikið af heiðafólkinu flutti til Ameríku og síðasti bærinn Heiðarsel fór í eyði 1946. Það var undir lok  byggðarinnar sem Halldór Laxness fór um heiðina.

Í tímaritinu Glettingi 11. árg. 1.tbl. segir Hallveig Guðjónsdóttir Dratthalastöðum á úthéraði m.a. frá kynnum af sínum nágrönnunum í Sænautaseli en hún er fædd í Heiðarseli; Sögufrægt er, þegar Halldór Laxness gisti eina skammdegisnótt í heiðarbýlinu Sænautaseli. Þá hafði staðið óvenju illa á hjá hjónunum í Seli og Guðmundur varla nógu birgur af heyjum þetta haust, og tók það ráð að fella kúna, til þess að vera öruggur með féð, en kýrin var orðin geld, gömul og kálflaus. Mér finnst Laxness fara ómaklega með þetta litla heimili, sem veitti þó allt það besta sem handbært var.

En nú er svo komið fyrir mér eins Höllu hans Eyvindar, að mig dregur þrá. En þau Eyvindur og Halla dvöldu lengi vel á öræfunum suður af heiðinni og austur af Öskju, og um þessa þrá hafði Nóbelsskáldið þetta að segja í formála bókarinnar Reginfjöll að haustnóttum

Reynslan er sambærileg við það sem þeim manni verður, sem svo leingi hefur skoðað mynd af Parísarborg að hann stenst ekki leingur mátið og fer þángað. Þegar hann kemur heim til sín aftur veit hann ekki fyr til en Parísarborg er orðin miðpúnktur í lífi hans. Hugur hans heldur áfram að snúast í tilhlökkun til endurfunda við þessa borg með undrum sínum og uppákomum, stórum og smáum furðum, og smáhlutum síst lítifjörlegri en þeir stóru; ekkert í heiminum jafnast á við að hafa fundið þessa borg. Hversu marga landa höfum við ekki þekt sem hafa nákvæmlega af þessari reynslu að segja um París, og margir skrifað um það í bókum hvernig þeir lifðu í stöðugri heimþrá þángað, jafnvel eftir að þeir eru komnir að fótum fram. Sá sem skilur þetta skilur sæludali þjóðsögunnar; og hann skilur líka útilegukonuna Höllu sem sat farlama á leiði í kirkjugarðinum á Stað í Grunnavík, og tautaði: "fagurt er á fjöllum núna".

IMG_3974

Lautarferð á laufengi í heiðanna ró

 


Fjallið og Múahameð

IMG_3500

Þegar fjallið kemur ekki til Múhameðs má segja sem svo að Múhameð verði að fara til fjallsins. Eitthvað á þennan veg hefur sjálfsagt margur landinn hugsað þegar utanlandsferðin í sólina hefur verið versluð þetta sumarið. Þó svo sumarið sem af er hafi verið með betri sumrum hvað gróanda jarðar varðar og langt frá því að vera með meiriháttar úrkomusumrum, hvað þá kalt, þá hefur sólina vantað. Og þegar gengi krónunnar er sterkt þá bíður landinn ekki eftir sólinni að sumarlagi heldur fer þangað sem hún skín.

Það er fjall hérna rétt innan við hús, sem í skyggni gærdagsins var þrjóskara en fjallið sem kom til Múhameðs, þannig að við hjónakornin ákváðum að fara til fjallsins. Fjallið, sem er hæsta fjall landsins utan jökla og trúað var fram eftir öldum að væri hæsta fjall Íslands. Þetta fjall blasir við úr stofuglugganum flesta daga en í gær morgunn voru skúrir og þokubólstrar á víð og dreif sem skyggðu sýn á Snæfellið.

Það var því ekki um annað að ræða en láta sig hafa það að panta sólarlandaferð í 16 stiga hita og skúrasömu blíðviðri, eða leggja upp í óvissuferð til fjallsins og sjá hvernig viðraði þar um slóðir. Síðan Kárahnjúkavirkjun varð að veruleika er auðvelt að skjótast inn að Snæfelli, ferðlag sem tók jafnvel einhverja daga fyrir nokkrum árum tekur nú fáar klukkustundir. Og þó svo að ekki sé hægt að hringkeyra Snæfellið þá er hægt að fara því sem næst inn að rótum Vatnajökuls bæði að austan- og vestanverðu um útilegumannaslóðir þjóðsagnanna.

IMG_3521

Við Laugafell, horft með austanverðu Snæfelli inn að Eyjabakkajökli

Við byrjuðum á því að fari inn með því að austan í sólskini og sunnan blæ, þó svo hitastigið væri ekki nema 12 – 14 gráður þá mátti vel búast við meiru þegar liði á daginn enda enn bara miður morgunn. Þarna er hægt að keyra á malbikuðum vegum Landsvirkjunar langleiðina inná Eyjabakka, þ.e.a.s. að uppistöðulónum Ufsaveitu. Þarna er með góðum vilja hægt að hæla Landsvirkjun fyrir fleira en veginn, því þar hefur nokkurn veginn tekist varðveitt sýnishorn af fyrrum Vatnajökulsbláa lit Lagarfljóts í lónunum neðan við Eyjabakkana sem náttúrverndarfólki tókst að fá þyrmt í stærstu framkvæmd íslandssögunnar.

Þegar við fórum þarna um kom lítil saga upp í hugann sem ég rakst óvænt á í bókinni "Syndir feðranna" og hef hvergi rekist á annarsstaðar hvorki heyrt á skotspónum né séð í þjóðsaganasöfnum. Þar segir frá því þegar Þórður í Dýjakoti var myrtur þarna í nágreninu, nánar tiltekið við Hornbrynju. Dýjakot, sem ég minnist ekki að hafa heyrt getið um, gæti hafa staðið á þessum slóðum miðað við staðarlýsingar í sögunni, eða rétt austan við Laugarfell. Það er reyndar ýmislegt í sögunni sem passar ekki alveg við þær hugmyndir sem sagnfræðin hefur komið inn hjá manni í gegnum tíðina.

Þessir atburðirnir er sagðir gerast árið 1701 í verslunarferð Þórðar niður í Berufjörð, nánar tiltekið til Gautavíkur. Samkvæmt mínum hugmyndum var verslun í Gautavík aflögð á þeim tíma því ekki hef ég heyrt Gautavíkur getið sem verslunarstaðar eftir að einokunarverslun var komið á, sem varaði frá 1602 – 1787. Árið 1589 er Djúpivogur gerður að löggiltum verslunarstað og hafði Fúlivogur sem er því sem næst á sama stað verið verslunarstaður þar á undan og einmitt þangað hafði hin forna verslun í Gautavík flust. Sagan gæti samt sem áður verið sönn því vel gæti hafa verið verslað á laun við Gautavík fram hjá einokurversluninni, án þess að getið sé í sögubókum.

IMG_3473

Norður af Ufsaveitu, þar sem Dýjakot gæti hafa staðið. Laugarfell ber hæðst vinstra megin

En saga þessi greinir í stuttu máli frá sex daga verslunarferð Þórðar í Dýjakoti til Gautavíkur. Hann fer sunnan við Hornbrynju niður í Fossárdal og síðan inn Berufjörð að sunnanverðu og út að norðan til Gautavíkur, sem bendir til að Dýjakot hafi verið talsvert innarlega á öræfunum, annars hefði verið styttra að fara norðan við Hornbrynju og niður Öxi í botn Berufjarðar.

Í sem stystu máli lendir hann í útistöðum við þýskan kaupmann vegna ullar sem hann vildi fá sérstaklega viktaða því það voru hagalagðar barnanna hans þriggja, en kaupmanninum þótti svoleiðis lítilræði óþarft. Þeir lenda í áflogum og pakkar Þórður honum saman. Eftir að kaupmanninum hafði verið bjargað við illan leik, ákveður Þórður að halda strax heim með hest og varning. En þá sér kaupmaðurinn færi á að ráðast aftan að honum og enn pakkar Þórður honum saman.

Þórður á að hafa farið sömu leið heim, um þriggja daga ferðalag. Einhverjir íslendingar sáu til þýska kaupmannsins morguninn eftir þar sem hann fór ríðandi inn Berufjörð. Þess er skemmst að geta að ekki skilaði Þórður sér heim, en hestur hans ásamt varningi skilaði sér í Dýjakot. Þremur vikum eftir þessa atburði komu kona hans og þrjú börn til byggða að innsta bæ í Fljótsdal. Lík Þórðar fannst síðan í göngum um haustið, sitjandi vestan undan Hornbrynju í, illa farið og þegar að var gætt var gat eins og eftir byssukúlu á höfðinu.

IMG_3577

Vestan við Snæfell á bökkum Hálslóns, fremri Kárahnjúkur fyrir miðri mynd

Eftir að hafa ferðast um í kyrrðinni austan við Snæfellið, þar sem einungis urðu tvenn þýsk hjón á vegi okkar fórum við vestur fyrir fjallið á hin margrómuðu Vesturöræfi. þar sem hreindýraskyttur og gangnamenn einir kunnu áður fyrr að greina frá undrum Svörtugljúfra, Kringilsárrana, Töfrafoss o.fl., sem nú er á botni Hálslóns. Á leiðinni norðan við Snæfell tókum við ungt par frá Frakklandi uppí, en þau voru á leið í Kárahnjúka og svo þaðan vestur í Öskju, með engan farangur, en full eftirvæntingar og bjartsýni. Þau höfðu verið við vinnu á Héraði frá því í maí og ætluðu að nota tímann þar til í September til gönguferða um hálendið norðan Vatnajökuls.

IMG_3570

Sauðfé, sem lengi var talið mesti skaðvaldur íslenskrar náttúru, á fyrrum Vesturöræfum nú uppgræddum bökkum Hálslóns. Snæfell í baksýn 

Við keyrðum svo vestan við Snæfellið inn með Hálslóni Kárahnúkastíflu eins langt og við komumst á vegi Landsvirkjunar. Þarna var allt annað skyggni en í tæra fjallaloftinu austan við Snæfell því það rauk af leirum Hálslóns í suðvestan golunni og byrgði sýn. Í suðvestan átt getur það verið fleira en þoka, ský og skúrir sem byrgja útsýnið á Snæfellið úr stofuglugganum heima. Það eru nefnilega líka dagar sem fokið af leirunum kemur í veg fyrir skyggni, jökulryk sem hefur sama lit og Lagarfljótið hefur núorðið.

En ekki er víst að mögulegt hefði verið að skoða stóran hluta víðernanna norðan Vatnajökuls á dagsstund án afleiðinga Kárahnjúka.

 

IMG_5689

Við Kárahnjúkastíflu á góðviðrisdegi, Snæfell í fjarska hægra megin 

 

IMG_5734

Laugafellsskáli, rétt austan við Snæfell

 

 IMG_6457

Horft í áttina að Hálslóni og Vesturöræfum úr lofti í suðvestan golu, Snæfell í baksýn


Undir grænni torfu týndist tíminn

IMG 1455

Það er stundum sagt um tímaskin Færeyinga að þar sé ávalt nægur tími og ef þeir verði dagþrota þá komi bara meiri tími á morgun. Dagskrá landans er öllu strekktari þó svo að Bjartmar hafi fyrir skemmstu sungið um "flótta undan framtíðinni sem fætur toga burt eitthvað til baka, aftur fyrir upphafið þar sem af týndum tíma er af nægu að taka" um leið og hann bauð landann "velkomin á bísan", þegar allt virtist stefna í að leita þyrfti í reynslubanka Bjarts í Sumarhúsum.

Eftirminnilegt er að Færeyingar hikuðu ekki við að lána Íslendingum stórfé á meðan hinar frændþjóðirnar veltu vöngum ásamt alþjóða gjaldeyrissjóðnum yfir því hvernig mætti koma böndum á fjármálaverkfræði sem kennd var við útrásarvíking. Úti í hinum stóra heimi þótti þetta náttúrulega ekki gáfulega farið með fé hjá frændum vorum í Færeyjum, en þeir sögðu þá bara að gáfur og gæska þyrftu ekki endilega að fara saman. Skilyrðislaust bæri að hjálpa sínum bróðir í neyð.

Í síðustu viku fórum við Matthildur mín loksins í langþráða Færeyjaferð og vorum yfir Hvítasunnuhelgina. Þetta var nokkurskonar systraferð þar sem við tengdasynir Sólhóls fengum að fljóta með sem bílstjórar á Norrænu frá Seyðisfirði til Þórshafnar. Þessi ferð hafði verið á dagskrá í mörg ár og má segja að við skipulag hennar hafi lífsspeki Færeyinga verið höfð að leiðarljósi, um að á morgun komi meiri tími.

Daginn fyrir brottför bað góður Borgfirðingur mig um að skila kveðju til allra sem ég hitti í Færeyjum, því þar byggi besta fólk í heimi, svo vel fann hann í hjarta sínu gæsku Færeyinga. Auðvitað reyndi ég að koma kveðju hans til skila þegar gafst til þess tími. Þessi Hvítasunnuhelgi er samt ekki sú fyrsta sem ég dvel í Færeyjum því fyrir 33 árum síðan átti ég því láni að fagna sem ungur maður að kynnst þessum frændfólki okkar, þá hafði ég ráðið mig í vinnu hjá dönskum múrarameistara í Þórshöfn og var þar fram eftir sumri.

Eftir Hvítasunnuhelgina í denn þurfti ég að tína saman tómu bjórflöskurnar úr herberginu og koma þeim í verð hjá kaupmanninum niður á horni. Því við félagarnir sem leigðum þá á farfuglaheimili Verkakvennafélags Þórshafnar höfðum týnt útborgununum okkar í miklum gleðskap undir grænu torfþaki farfuglaheimilisins og áttum ekki fyrir mat, en nóg af tómum bjórflöskum. Þegar ég hafði sett flöskurnar í svartan ruslapoka reyndust þær allt of þungar til að bera og stútarnir stungust út úr skósíðum pokanum, sem ég var að sligast undan. Því varð að ég hnupla hjólbörum rogast með flöskupokann upp í þær.

Þó ekki væri torfærunum fyrir að fara og leiðin greið niður á við í hverfisbúðina á horninu, þá var hjólið á börunum ryðgað fast. Því þurfti ótrúleg átök í að ýta þeim niður brekkuna og halda um leið jafnvægi með dýrmætan farminn. Ég veit ekki enn í dag rúmum 30 árum seinna hvort það var fyrir að hafa fjarlægt flöskurnar af gistiheimili Verkakvennafélagsins eða liðka hjólbörurnar fyrir þær,sem varð til þess að okkur var ekki vísað á dyr, en það hafði mér verið tilkynnt að stæði til í upphafi ferðar, en var aldrei minnst meira á eftir að hjólbörunum var skilað.

IMG_1928

Kirkjubær; Múrinn til vinstri, Reykstofan fyrir miðju og kirkja Ólafs helga til hægri.

Þann stutta tíma, sem ég vann við múrverk í Færeyjum fékk ég að taka þátt í skemmtilegum verkefnum. Eitt af þeim var að gera við vegghleðslur kirkju Ólafs helga í Kirkjubæ og endurkalka hvíta veggi hennar. Þá vann ég með dönskum og færeyskum múrurum og hafði ekki grænan grun um hvað merkilegt verkefnið var, hvað þá þolinmæði fyrir svona fornminja gaufi. Enda leið ekki á lögnu þar til ég var settur í nýbyggingar verkefni þar sem ungur athafnamaður, Jakub A Dul, byggði sinn fyrsta Rúmfatalager, ef ég man rétt. Auk þessa vann ég við að banka steinhellur niður í stéttar og bílastæði tryggingafélags.

Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna sem ég uppgötvaði hversu sérstakt verkefnið var í Kirkjubæ. Þar eru tvær eldgamlar kirkjubyggingar, það er kirkja Ólafs helga sem er sögð byggð á 12. öld og dómkirkja Magnúsar sem er í daglegu tali kölluð Múrinn byggð um 1300, en sú bygging komst aldrei undir þak. Síðustu ár hefur verið unnið að viðgerðum á hleðslum í Múrsins. Einnig er Reykstofan í Kirkjubæ, sem er byggð í kringum 1100 og talin eitt elsta timburhús í heimi sem enn er í notkun.

IMG_1915

Þegar steinar losna í hlöðnum veggjum Múrsins, Ólafskirkju og Reykstofunnar í Kirkjubæ, er gert við þá með því að raða flötum smásteinum á milli þeirra í kalk-múrblöndu til að festa þá á sínum stað. Þetta er mikið þolinmæðisverk og hefur viðgerð veggja Magnúsar kirkju tekið mörg ár.

Auðvitað voru gömlu staðirnir mínir skoðaðir í ferðinni. Kirkjurnar í Kirkjubæ voru á sínum stað, meir að segja voru hellurnar ennþá í stéttunum og bílastæðunum í Þórshöfn. En þegar komið var í gömlu götuna mína reiknaði ég með að hjólbörurnar væru undir skrifstofuglugga verkakvennafélagsins, en þar brá mér heldur betur í brún. Gamla notalega svarta timburhúsið með torfþakinu, þar sem hægt var að opna kvistgluggann út á græna grasþekjuna til að reykræsta herbergið, var horfið. Þess í stað var komið nýtísku íbúðarhús og engin merki sáust um hjólbörur, ekki einu sinni svört hjólförin í malbikinu, hvað þá glerbrot eða tægjur af svörtum ruslapoka. Og litla búðin niður á horni orðin að íbúð.

Annars er það heilt yfir svo í Færeyjum að engu líkara er, en að þegar jarðýtan var flutt til Íslands um árið, og hér notuð á árangursríkan hátt við að jafna byggingasöguna við jörðu, þá hafi hún algerlega farið fram hjá Færeyjum og á það helvíti er varla hægt að minnast ógrátandi. Þar má finna heilu þorpin ennþá úr torfi og grjóti, meir að segja er búið í mörgum þessara húsa.

Hvernig myndi t.d. Þórshöfn líta út ef hún hefði farið í gegnum sama Dubai drauminn og Reykjavík? Þá væru grænu torfþökin nú komin undir malbik og þar væru svartir turnar klæddir í gler og innfluttar flísar, sem teygðu sig upp í þokuna. Það væru dapurleg skipti miðað við líflegan gamla bæinn, sem geymir söguna til dagsins í dag. Við skulum því rétt vona að það sé ekki bara vegna þess að Færeyingar vita að á morgun komi meiri tími, sem þeir hafa ekki ennþá ræst jarðýtuna eins og tímatrekktir frændur þeirra á sögueyjunni.

 

IMG_1922

Múrinn, eða dómkirkja Magnúsar í Kirkjubæ

 

IMG 1893

Götumynd frá Þórshöfn

 

IMG_1884

Götumynd frá Þórshöfn

 

IMG_1861

Þinganes í Þórshöfn, stjórnarráð Færeyja

 

IMG_1968

Þorp í Húsavík á Sandey

 

IMG 1835

Færeyskt hús í Kúney

 

IMG_1634

Saksun

 

IMG_1590

Bær á Vogey

 

IMG_1737

Stéttar í Þórshöfn

 

IMG_1908

Höfundur á fornum slóðum 


Ferðin á Font

Nú þegar skuggarnir eru farnir að lengjast og daginn tekið að stytta fer ferðalögunum fækkandi. Síðast liðinn vetur fjárfesti ég í gömlum Cherokee sem átti að nota til 4X4 ferða þetta sumarið. Einn af þeim stöðum sem voru á dagskránni var Fontur á Langanesi, eða réttara sagt allt Langanesið því það er einu sinnu svo að það er ferðalagið sem sem skiptir máli en ekki áfangastaðurinn. Þess vegna förum við Matthildur allra okkar ferða án landakorts, hvað þá að GPS sé haft með í för, sólin er eina leiðsögutækið. Í gær var svo ferðin farin á Font með sólina í sigtinu allan tímann. 

IMG_0166

Þegar komið er að Langanesinu að austan blasir Gunnólfsvíkurfjall við

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem ég kemst í námunda við Langanesið þó svo að aldrei hafi verið farið á Font. Á árunum 1988-1993 var ég mánuðum saman við vinnu á Þórshöfn við Þistilfjörð, en Langanesið nær 50 km út í haf norðaustur af Þórshöfn. Þegar komið er að Langanesinu Bakkaflóa megin þá rifjaðist upp í kollinum að sumarið og haustið 1988 vorum við steypu-félagarnir við störf á Gunnólfsvíkurfjalli þar sem verið var að byggja ratsjárstöð fyrir NATO. Mér fannst við hæfi að bjóða Matthildi upp á Gunnólfsvíkurfjall á svona heiðskírum sólardegi því þá myndum við rata betur út Langanesið. En vegurinn upp á fjallið var lokaður með keðju og þó við værum á fjallabíl þá þorðum við ekki í gegnum keðju Landhelgisgæslunnar sem hefur í seinni tíð tekið upp á því að loka hlutum landsins fyrir íbúum þess með því að bera fyrir sig "valdstjórninni".

IMG_0173

Á Þórshöfn rifjaðist upp hvar lunganu úr sumrinu 1993 var varið 

Blessuð sólin sá um að lýsa okkur út allt Langanes þar sem sjórinn er blárri en blátt en á það til að sjást ekki fyrir rekavið sem þekur alla fjörukamba, þess á milli eru þverhnípt fuglabjörgin í sjó fram. Undirlendið á útnesinu er urð og grjót en þó eru grasbali í fjöru hér og þar sem hafa staðið bæir á árum áður, þekktastir eru Skoruvík og Skálar. Víða eru rústir gamalla torfbæja sem litlar sögur fara af, saga fólksins sem byggði þetta nes fer ekki hátt enda hefur það verið alþýðufólk. Það tók tímann að keyra þessa 50 km leið enda þurfti að stoppa og skoða margt. Í Skoruvíkur fjörunni var félagslyndur músarindill sem þurfti að spjalla við í góða stund og á Fonti var það Fálki sýndi ferðalöngum áhuga. 

IMG_0260

Fontur er ysti hluti Langaness þar er 50-70 m hátt bjarg á því stendur viti byggður árið 1950. Við Font hafa orðið skipskaðar síðast hausti 1907. Þá fórst þar norskt skip,sem var að koma frá Jan Mayen með 17 menn í áhöfn allir fórust nema einn. Í bjarginu stutt frá vitanum er rauf sem kölluð er Engelskagjá. Sagan segir að áhöfn af ensku skipi, sem strandaði endur fyrir löngu undir Fontinum, hafi komist í land og upp gjána. Á leiðinni til bæja varð áhöfnin úti, nema skipstjórinn einn sem komst lífs af. Stendur kross á miðju nesinu milli bæjanna Skoruvíkur og Skála, þar sem lík Englendinganna eru heygð.  

IMG_0282

Á krossinum stendur "Hér hvíla 11 enskir menn" 

Skálar eru stórmerkilegt eyðiþorp á austanverðu nesinu. Þar var vísir að kauptúni og töluvert útræði á fyrri hluta 20.aldar. Árið 1910 hófst útgerð fyrir alvöru með hafnarbótum, byggingu verbúða, frystihúss( eitt af fyrstu vélfrystihúsum landsins), saltverkunarhúss og bræðslu auk verslunarhúsa. Voru 117 manns heimilisfastir þar 1924 auk lausafólks. Leituðu menn þangað úr ýmsum landshlutum til sjóróðra og jafnvel frá Færeyjum. Munu 50-60 áraskip hafa róið þaðan er flest var.

Skálar

Á árum síðari heimstyrjaldarinnar ráku á land tundurdufl sem höfðu losnað úr tundurduflagirðingu bandamanna við Austfirði. Tvö dufl sprungu í fjörunni á Skálum veturinn 1941-42 og eyðilögðu tvö hús. Sumarið eftir fluttu síðustu fjölskyldurnar, veturinn 1943 var því engin búsettur á Skálum. Þá kom hópur bandarískra hermanna sem dvöldu þar til stríðsloka. Flestar minjar verstöðvarinnar á Skálum eru nú horfnar nema helst húsgrunnar og gamall grafreitur. Sunnan við Skála er Skálabjarg, fuglabjarg, rúmlega 130 m hátt.

IMG_0332

Ofan við fjöruna á Skálum eru björgunarskýli og kamar

Á skálum hittum við einn "lonely rider" á mótorhjóli, vinalegan íslending á sjötugs aldri, sem sagði okkur að hann hefði verið hjá gæslunni árið 1969 og hefði þá tekið þátt í að ferja girðingastaura klofna úr rekaviði úr fjörunni í Skoruvík. Þetta hefði verið mikið ævintýri því gúmmíbátnum sem notaður var til flutninganna út í varðskipið hefði hvolft og höfðu þeir þurft að synda í land áður en þeir hefðu getað haldið áfram að koma rekanum fyrir Skoruvíkurbóndann um borð í Þór. Það var sama sagan með þennan fyrrverandi sjóliða Landhelgisgæslunnar og okkur, hann hafði ekki treyst sér til að keyra í gegnum keðju valdstjórnarinnar við Gunnólfsvíkurfjall til að njóta útsýnisins yfir Langanes.

IMG_0261

Eins og ævinlega urðum við Matthildur dagþrota á Langanesi enda kannski ekki skrýtið þegar daginn er tekið að stytta. Það verður því að bíða betri tíma að keyra upp á Heiðarfjall þar sem Ameríski herinn hafði aðsetur um árabil, en þar má víst njóta góðs útsýnis yfir Langanes þó að ekki sé það jafn hástemmt og af Gunnólfsvíkurfjalli.

 

IMG_0324

 

IMG_0243

 

IMG_0237

 

IMG_0348

 

IMG_0191

 

IMG_0227

 

IMG_0169

 

IMG_0230

 

IMG_0258


Streiti

Þau eru mörg annesin á Austfjörðunum sem vert er að skoða þó svo stundum umlyki þau dulúðleg þoka. Hérna á síðunni hefur tveimur annesjum verið gerð fátækleg skil í máli og myndum en það eru Hafnarnes við Fáskrúðsfjörð og Kambanes við Stöðvarfjörð. Í vetur lét ég í fyrsta skipti verða af því að stoppa við Streiti en það er strönd annessins kölluð sem skiptir Breiðdalsvík og Berufirði. Þarna hafði ég farið framhjá ótal sinnum í gegnum tíðina án þess að stoppa. Í mars s.l. var farin sérferð til að virða fyrir sér fjallið Naphorn sem gnæfir yfir Streitisbænum en uppi í því höfðust útigangsdrengir við í Móðuharðindunum, og leiddi sú nöturlega vist til manndráps, hungurmorða og að lokum síðustu opinberu aftökunnar á Austurlandi.

IMG_8181

Eyðibýlið Streiti, fjallið Naphorn

Jörðin Streiti telst landfræðilega vera á Berufjarðarströnd en tilheyrir Breiðdalshreppi. Þar, örlítið austar, er ysti skaginn á milli Breiðdalsvíkur og Berufjarðar sem nefnist Streitishvarf. Í sumar fór ég svo aftur á Streiti, en þá til að skoða það sem ég hafði tekið eftir í vetur, að niður við ströndina má greina leifar af mannabyggð. Ég hafði í millitíðinni kynnt mér málið í bókunum Breiðdælu, Búkollu (Sveitir og jarðir í Múlaþingi) og Þjóðsögunum.

þjóðsagan segir frá býlinu Vafrastöðum og það var það bæjarstæði sem ég vonaðist eftir að finna í sumar, því ég gat vel gert mér grein fyrir hvar aðrir bæir á Streiti hefðu staðið. Það er skemmst frá því að segja að eftir að hafa vafrað um ströndina góða morgunnstund komst ég ekki á þann stað sem mér þótti líklegast að Vafrastaðir hefðu staðið, vegna rafmagnsgirðinga og nautgripa.  

IMG_8112

Skrúðskambur sem er austast á Streitishvarfi og Breiðdalseyjar í baksýn

Það var margt að skoða í þessari fjögurra stunda gönguför. Svokallað tröllahlað er sunnan á Streitishvarfi sem nefnist Skrúðskambur. Sunnan við hvarfið tekur svo Berufjarðarströndin við með landnámsjörðinni Streiti, sem nefnt var Stræti í þremur Landnámuhandritum. Í Landnámu segir; „Skjöldólfur hét maður, er nam Stræti allt fyrir utan Gnúp og inn öðrum megin til Óss og til Skjöldólfsness hjá Fagradalsá í Breiðdali. Hans son var Háleygur, er þar bjó síðan; frá honum er Háleygjaætt komin.“ Það er því ekki vitað hvaðan þessi Skjöldólfur kom eða hver þessi Háleygaætt er, en í Breiðdælu má finna vangaveltur um hvort Háleygar nafnið hafi haft tengingu til Hálogalands í Noregi.

Einnig má finna vangaveltur í bók Árna Óla, Landnámið fyrir landnám, þar sem því er velt upp að þeir landnámsmenn austanlands sem ekki er nákvæmlega getið hvaðan komu hafi í reynd verið af keltneskum uppruna, en gefin norræn nöfn í landnámu til að fela upprunann. Þetta má vel ímynda sér þegar staðið er á ströndinni Streiti og við blasir eyja með keltneskri nafngift í suðri, Papey.

IMG_8123

Vitinn á Streitishvarfi

Þó svo að Streiti hafi þótt vænleg búskaparjörð við landnám þá er hún nú í eyði. Vitað er að fram eftir öldum voru mörg býli í Streitislandi, þ.e.a.s. á Berufjarðarströndinni frá Streitishvarfi að Núpi. Þar var austast Hvarf eða Streitishvarf sem fór í eyði 1850. Streitisstekkur var austan og neðan við Streiti, sem fór í eyði 1883 eftir að bærinn brann þann 7. Desember. Þar brunni inni þau hjónin Sigurður Torfason og Sigríður Stefánsdóttir eftir að hafa bjargað út börnum sínum sem heima voru, en áttu ekki afturkvæmt frá því að reyna að bjarga kúnni úr brennandi bænum. Reistur hefur verið minnisvarði um atburð þennan við Þjóðveginn rétt fyrir ofan bæjarstæðið, enn má vel greina hvar bærinn stóð.

IMG_8135

Streitisstekkur, sjá má móta fyrir bæjarrústunum á miðri mynd til vinstri

Vafrastaðir var svo býli sem stóð sunnan við Streiti, á milli Streitis og Núps, sem sumar sagnir segja að hafi staðið svo nálægt fjallinu að þeir hafi horfið undir skriðu. Þeirra er fyrst getið 1367 og síðast eftir heimild frá því 1760. Vafrastaðir hefur verið þjóðsagnakenndur bær löngu eftir að þeirra var síðast getið, sögu þeim tengdum má bæði finna í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar(I bindi bls 288) og Jóns Árnasonar (III bindi bls 435). Einhverstaðar má samt finna þá þjóðsögu heimfærða á Núp en það er ekki líklegt að sögusviðið sé þar, vegna þess að flæðiskerin sem sagan greinir frá eru það langt frá bænum á Núpi að þau eru ekki í sjónlínu.

IMG_8170

Hugsanlega eru skerin sem fjærst eru þar sem Vafrastaðir hafa staðið

Þjóðsagan frá Vafrastöðum segir frá eineygu Mórukollu. Bóndinn hafði þann sið að fá fóstru sína hruma af elli en fjölvísa til að segja sér hvaða fé væri feigt að hausti og slátraði svo því fé sem hún valdi. Þegar kerlingin var því sem næst blind orðin leiddi hann hana að réttarveggnum eitt haustið. Þar stendur hún þegjandi um stund en bendir svo á eineyga mórukollótta kind, rytjulega, og segir allt fé þitt er feigt sonur sæll nema Mórukolla.

Þetta haust tók Vafrastaðabóndinn ekkert mark á fóstru sinni og lógaði því fé sem honum sjálfum sýndist. Veturinn varð snjóþungur og stormasamur með tilheyrandi hagaleysi. Seint á aðfangadag brá til betra veðurs og skipar þá bóndinn smalanum að beita fénu í þara á rifi sem stóð uppi á fjöru. Á meðan sat hann inn í bæ og tálgaði í sig hangikjöt af rifi úr sauðasíðu.

Smalinn kom á gluggann heima á bæ og segir; Þykkt er nú á rifi bóndi“. „Hvað kemur þér það við“ svarar bóndinn og heldur áfram að sneiða af rifjunum. Þá segir smalinn „þynnast fer nú á rifinu bóndi“. Bóndinn svarar ekki en heldur áfram að gæða sér á á hangikjötinu þar til allt er búið. Þá segir smalinn "allt er nú af rifinu". Þá heyrir bóndinn fyrst í briminu og áttar sig á því að smalinn á við féð sem var í fjörubeitinni á rifinu. Þegar hann kom út var allt fé hans komið í sjóinn og aðeins rak eina kind að landi úr briminu, en sú var eineyga rytjulega Mórukolla.

Bóndinn varð svo reiður yfir missi sínum að hann henti henni umsvifalaust í brimgarðinn, en aftur skreið eineyga Mórukolla á land. Eftir að hafa hent henni þrívegis í sjóinn og hana áfalt rekið í land, gafst hann upp. En um vorið var Mórukolla tvílembd af gimbrum og allar þær gimbrar sem út af henni komu urðu tvílembdar þannig að út af eineygu Mórukollu varð fljótleg mikill fjárstofn. Bóndanum á að hafa verið svo mikið um þetta að hann flutti frá Vafrastöðum og hafa þeir verið í eyði alla tíð síðan.

þær eru til margar þjóðsögurnar frá þessu annesi. Ein sagan seigir frá bóndanum í Skrúðskambi sem á að hafa verið bróðir Skrúðsbóndans sem bjó í Skrúði. Þeir bræður voru hálftröll sem mátti heyra kallast á þegar kyrrt var á morgnana. Eins hef ég heyrt að þriðji bróðirinn hafi búið á Hellisbjarginu í Papey og hafi tekið þátt í samræðum bræðra sinna. Sjónlína er á milli þessara staða en mikið hafa þeir bræður verið raddmiklir ef þeir hafa heyrt hvorir í öðrum.

Einnig eru til sögur frá Tyrkjaráninu árið 1627, þar sem segir frá hetjudáðum bóndans á Streiti. Tyrkjaránssaga segir frá því þegar Streitisbóndinn forðaði fólki sínu undan Tyrkjum frá Streiti yfir í Breiðdal, en þá höfðu ræningjarnir þegar hneppt fólkið á Ósi í bönd og sett yfir það gæslumenn sem flýðu til fjalls þegar Streitisfólkið bar að garði.

Þjóðsagnaritaranum Sigfúsi Sigfússyni finnst hins vegar Tyrkjaránssaga segja undarlega frá, því miðað við hvernig landið liggur sé mun líklegra að Tyrkir hafi farið Berufjarðaströndina á leið sinni í Breiðdal og þá farið fyrir Streiti á leið sinni í Ós. Þetta hefur Sigfús að segja um Tyrkjaránssögu "er því einkennilegt er það að ýmsar sagnir hafa geymst eða myndast utan við söguna sem eru einskonar viðbætur við hana og uppfylling. Þær sagnir lýsa varnartilraunum manna er sagan segir frá en sleppir þó þeim atriðum.

Eitt af þeim atriðum sem Tyrkjaránssaga sleppir er munnmælasagan um bóndann á Streiti sem sagður er hafa verið á leið með timbur úr Breiðdal yfir í Streiti þegar hann mætti 18 Tyrkjunum rétt norðan við Skrúðskamb á leið frá Streiti austur að Ósi í Breiðdal. Þar á þröngum stíg grandað hann þeim 18 talsins. Um þann atburð vitna m.a. örnefnin Tyrkjaurð, Timburklettur og Tyrkjahamar.

Munnmælin segja ýmist að Streitisbóndinn hafi náð á slá Tyrkina með planka fram af klettinum ofan í urðina eða slegið þá í rot með ístaði. Í Tyrkjaránssögu sjálfri er sagt frá timburflutningamanni sem var á leið úr Breiðdal upp í Hérað en þegar hann varð Tyrkjann var aftan við sig var hann svo nískur á timbrið að frekar en að forða sjálfum sér timburlaus þá lét hann Tyrkina ná sér.

Hvort sem Streiti hefur upphaflega heitið Stræti eins og Landnáma gefur til kynna og þá verið landkosta jörð í alfaraleið, þá breytir það því ekki að hún hefur verið í eyði í áratugi. Miðað við þann málskilning sem lagður er í nafnið Streiti nú á dögum þá er það dregið af því að streitast eða strita og gæti því verið hið rétta nafn miðað við þjóðsögurnar. Enda var ekki laust við að hendingin úr texta Bubba, Vonir og þrár, fylgdu mér á þessu eyðistrandar rölti.

Þar sem skriðan féll skúrar stóðu

minningar um hendur sem veggina hlóðu.

Myndir af fólki sem lifði hér um stund

með kindur og kött, beljur og hund. 

IMG_8128

Minnisvarði um hjónin sem brunnu inni við að bjarka kúnni á Streitisstekk


Sumarfrí

Nú er sumarið rúmlega hálfnað, en um síðustu helgi var miðsumar samkvæmt gamla tímatalinu, þó svo að sólargangurinn hafi verið hæstur fyrir rúmum mánuði. Þetta sumar er það fyrsta sem ég tek eiginlegt sumarfrí um langa hríð. En hvernig tekur svo múrari sem alltaf er í fríi sumarfrí? Það má segja að það hafi verið vandlega skipulagt því fyrir áramót hafði ég orðið okkur út um bíl sem væri hægt að notast við að komast á fjöll, gamlan Cherokee frá því á síðustu öld. Þennan bíl hafði ég hugsað mér að nota við að kanna malar- og sandhauga hálendisins.

Það verður að segjast alveg eins og er að sumarfríið hefur verið eins og ævintýri í barnabók. En það hófst á því að niðurlög drekans voru ráðin á Sólhólnum og þar var fyrstu 10 dögunum varið við að fagna gengi landsliðsins á EM ásamt drekadrápinu. Í leiðinni höfðum við bílskúrssölu í Salthúsinu og seldum gestum og gangandi dót sem safnast hafði upp í gegnum árin.

IMG_7351

Lagarfljót

Eftir að 10 daga Sólhólsvist lauk var slappað af á bökkum Lagarfljótsins, með tærnar grafnar í fljótsmölina til að ná jarðsambandi á milli þess sem vaðið var í svalandi fljótinu. Ég var heldur jarðbundnari en Matthildur lét mér nægja að fylgjast með dúnhvítum skýjunum svífa á himninum yfir fljótinu á meðan hún prjónaði bláar lopapeysur.

Eftir dvöl á bökkum heilsulindarinnar var komið að því að taka okkar fjallabíl til kostana og fara bæjarleið sem endaði í næsta sveitarfélag og þá óvænt við messu á Klyppstað í Loðmundarfirði. En þegar við ætluðum að kíkja inn fyrir kirkjudyrnar þar til að líta helgina augum þá var fyrrum lærimeistari Hermann Eiríksson sem hringjari og ekki var við annað komandi en okkur yrði troðið inn í yfirfulla kirkjuna. Þetta endaði á því að við Matthildur sátum á milli prestanna upp við altarið og snérum að kirkjugestum. Prestarnir voru tveir sem messuðu þær sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir og sr. Jóhanna Sigmarsdóttir en sr. Davíð Þór Jónsson radíusbróðir sem var kirkjugestur fékk einnig sæti með okkur Matthildi við altarið. 

IMG 8012

Dimmugljúfur

Séra Sigríður Rún prédikaði og lagði út frá fjallræðunni, um það hvernig varast skyldi farísea og fræðimenn sem væru sauðir í úlfsgærum, enda kannski ekki nema von svona rétt á eftir hryðjuverkið í Nice. Hún kom síðan inn á að ekkert væri sjálfgefið með að menn slyppu við heimsendinn því vísindamenn væru komnir á slóð óendanleikans um það hvernig okkar tímar kynnu að líða undir lok á hraða ljóssins. Þeir hefðu fundið þessa slóð þegar þeir áttuðu sig á að ljósið færi hraðar en hljóðið með því að hlusta eftir þrumunni sem heyrðist á eftir að eldingin birtist. Með þessa vitneskju að leiðarljósi hyggðust þeir bjarga heiminum og komast aftur fyrir upphafið á hljóðinu og á hraða ljóssins fram fyrir óendanleikann.

Spurningin væri samt sú hvort tíminn hægði þá ekki það mikið á sér að hann stæði að lokum kyrr svo allt yrði dimmt og hljótt og tíminn jafnvel búin sem væri þá kannski bara heimsendir. Litli drengurinn hennar sr. Sigríðar, sem var farið að leiðast þar sem hann sat með pabba sínum og eldri bróðir á fremsta bekk, hékk á haus á milli fóta föður síns. Á hvolfi horfði hann upp í prédikunarstólinn á móður sína og rétt náði að segja; „en mamma“ áður en pabbi hans dreif sig með hann út úr kirkjunni svo ekki yrði frekari truflun á heimsenda hugleiðingunni.

Þeir voru fleiri feðurnir sem þurftu að fara út með óþreyjufull börnin úr árlegri messunni á Klyppstað þetta sumarið. Um miðja messu var ég farin að ókyrrast og hugleiða hvað það væri gott að hafa börn í sinni umsjá í kirkju, en tók svo eldsnöggt þá ákvörðun að fara út með barnið í sjálfum mér þó svo að ég þyrfti að þramma kirkjuna endilanga. Mér er ekki örgrannt um að orð þjóðskáldsins gætu átt við þessa brottför barnanna úr Klyppstaðarkirkju "Á flótta undan framtíðinni sem fætur toga burt eitthvað til baka, aftur fyrir upphafið af týndum tíma er af nægu að taka".

IMG_7785

Í Grágæsadal

Þegar út var komið varð mér litið út í Stakkahlíð en þar eru mikilfenglegir haugskúlptúrar sem sagan segir að fyrsti landnámsmaðurinn eigi heiðurinn af, en hann staldraði stutt við í firðinum því hann taldi hann með öllu óbyggilegan. Sagan segir að þegar Loðmundur réri út fjörðinn í hinsta sinn hafi hann lagst niður og beðið menn sína um að ónáða sig ekki. Nokkru seinna heyrðist gnýr í fjarska og sáu menn þá að mikil skriða hljóp úr fjalli fyrir ofan bæ hans og eyddi honum. Eftir það mælti Loðmundur þau orð að ekkert það skip sem myndi róa út þennan fjörð eftir þetta myndi koma heilt aftur.

Munnmæli herma að bær Loðmundar hafi orðið undir Stakkahlíðarhrauni, sem öðru nafni nefnast Loðmundarskriður og þykja stórmerkilegt náttúrufyrirbæri. Ýmsir fræðingar hafa skoðað skriðurnar og telja vísindamenn þær 3-4000 ára gamlar eða jafnvel yngri svo sérkennilegt sem það kann að hljóma. Svo undarlegt sem það er þá má segja að Loðmundur hafi fyrir löngu leist gátu vísindamannanna um það hvernig hægt er að komast aftur fyrir upphafið og fram fyrir óendanleikann án þess að tíminn þvælist fyrir heimsendanum, en Loðmundarfjörður hefur nú verið í eiði um langa hríð.

IMG_7686

Á botni Jöklu við Kárahnjúkastíflu

Eftir Loðmundarfjarðarferðina flaug tíminn með okkur Matthildi í okkar fjallabíl á bak við Snæfellið og alveg innundir Vatnajökul, þar sem við hittum Goðann í Grágæsadal sem hafði flaggað í hálfa stöng í tilefni dagsins, en þann 19. júlí árið 2002 undirrituðu stjórnvöld viljayfirlýsingu, þar sem ljóst varð að Kárahnúkavirkjun yrði að veruleika. Við gengum í kapellu í Grágæsadal og báðum fyrir landinu ásamt verndara hálendisins honum Völundi frænda mínum og fyrr um lærimeistara, eftir að hafa skoðað blómagarð hans á öræfum. Í leiðinni höfðum við hitt vinnufélaga mína sem voru við steypuviðgerðir undir Kárahnjúkastíflu og ferðast með þeim um jarðgöng niður á botn hinnar fornu Jöklu. 

Næstu dagar voru notaðir í að þvælast um fjöll og heiðar meðfram Jöklu. Jökuldalsheiðin keyrð upp í Kárahnjúka með útúrdúr í Þríhyrningavatn þar sem Jóhann Stefánsson eða Jói snikk, annar 85 ára gamall nágranni minn af Hæðinni var heimsóttur. Í gegnum hugann læddist sú hugsun að það væri munur að komast á níræðisaldur því þá gæti maður dvalið einn og óáreittur lengst upp á öræfum. Þessi ferð var með viðkomu í Hafrahvömmum neðan við Dimmugljúfur en þau höfðum við skoðað neðan frá þegar við komumst á botn Jöklu við Kárahnjúkastíflu, en þaðan keyrðum við niður Vaðbrekkuháls fyrir mistök og út allan Jökuldal, fyrir vikið sáum við Hafrahvamma nú Jöklulausa frá báðum bökkum en misstum af Hrafnkelsdal. Einnig var farið upp í Hellisheiði og þaðan keyrt upp Hrólfshraun á Skinnagilshnjúk til að horfa yfir Héraðsflóann þar sem ósar Lagarfljóts og Jöklu mæta Atlandshafinu.

IMG_7916

Héraðsflói, ós Lagarfljóts og Jöklu fyrir miðri mynd t.v.

Að loknu því sem næst mánaðar sumarfríi hefur hin horfna Jökla verið könnuð frá jökli að ósi án þess að nokkrar áætlanir hafi verið uppi um slíkt í upphafi, og er því nú komið fyrir mér eins og lesblinda prófessornum sem komst ekki nema rétt yfir í næstu sveit í sumarfríinu sínu því hann kunni ekki að lesa á vegvísana. En allt kemur til þess sem heima situr því systkini mín og frændfólk hitti ég hér á bökkum stórfljótanna sem ég annars hefði orðið að hitta með því að gera mér ferð á EM í Frakklandi. Stundum er því betra að sleppa því að lesa leiðbeiningarnar þó svo að það kunni að kosta það að brenna kertið báðu megin.

 


Þar sem grámosi glóir

IMG 0203
 
Þá er sumarið liðið sem aldrei kom, kvöldin aftur orðin dimm en sami norðaustan þræsingurinn fyrir utan gluggann og hefur verið þar í mest allt sumar. Þau hafa sem betur fer ekki verið mörg svona sumrin austanlands í gegnum tíðina. En nóg um það þessari ótíðasama austfirska sumri hefur verið gerð betri skil annarsstaðar, sjá hér.
 
IMG 5689
Kárahnjúkur og Snæfell í baksýn. Hægt er að keyra á malbiki inn að Kárahnjúkum á u.þ.b. klukkutíma frá Egilsstöðum, ferðalag sem tók dag fyrir nokkrum árum. Á þessar leið er einnig hægt að komast að rótum Snæfells á fólksbíl og upplifa öræfakyrrðina. 
 
Á hinu einstaka sumri 2014 kviknaði draumur um að fara upp á hálendið, inn að Öskju og skoða þær hamfaraslóðir sem hafa haft hvað mest hárif á byggð á Austurlandi frá því land byggðist, þ.e.a.s. í Öskjugosinu árið 1875. Ekki minkaði áhuginn á þessu svæði við Holuhraunsgosið í fyrrahaust og vetur. Planið var að fjárfesta í jeppa sem hægt væri að nota til flækjast um þessar slóðir. Til að gera langt mál stutt þá varð ekkert af jeppakaupunum í vor vegna kulda og kjarkleysis.
 
IMG 3705
Innra Hvannagil í Njarðvík er fast við þjóðveginn til Borgarfjarðar. Þessi magnaði staður er stundum of nálægur til að njóta athygli. Innan við klettakambinn t.h. er komið í aðra veröld. Ef vel er að gáð má sjá tvo ferðamenn fyrir miðri mynd.
 
En sumarið hefur samt verið notað til að skjótast stuttar ferðir upp um fjöll til að skoða það sem næst er þjóðvegunum það er nefnilega hægt að komast í glettilega mikil hrjóstur klukkutíma að heiman. Það merkilega er að af þremur ekta góðviðrisdögum sumarsins hafa tveir þeirra verið til fjalla þegar ekkert sérstakt veður var í byggð. 
 
IMG 0218
Hellisheiði eystri er með einn hrikalegasta fjallveg landsins í 656 m hæð og í innan við klukkutíma akstri frá Egilsstöðum. Þar var notið 20°C hita í logni 25. ágúst og skoðuð mögnuð náttúrusmíð í glóandi mosa.
 
IMG 5099
Annar dagur sem hlýtt var á fjöllum austanlands þetta sumarið var 4. júlí. Á Möðrudalsöræfum liggur gamli þjóðvegurinn í gegnum gróðurlausa auðnina.
 
Ferðalagið á fjallajeppanum inn að Öskju og heitu Holuhrauni verur að bíða betra sumars en á meðan má ylja sér við þætti Ómars Ragnarssonar af Draumalandinu.
 
 
 
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband