Færsluflokkur: Ferðalög

Út um þúfur

IMG_3988

Ennþá er búið í torfbæjum á Íslandi, það kom heldur neyðarlega í ljós í síðustu viku. En eins og þeir vita, sem hér líta inn, þá hef ég blæti fyrir því að ljósmynda torfbæi, og hef verið að reyna að venja frúna af því að liggja á gluggum rétt á meðan, svona myndana vegna. Um daginn keyrðum við að torfbæ sem ekki átti að vera til samkvæmt mínu registri. Við renndum í hlað og ég sagði strax og stoppað var; ekki liggja á gluggum eins og hver annar túristi, það er dónaskapur að liggja á gæjum hjá fólki. það hnussaði í; hva,,, heldurðu virkilega að það búi einhverjir ennþá í torfbæ.

Það leið ekki á löngu að út um bæjardyrnar á miðburstinni birtist sköruleg kona, sem bauð góða kvöldið á ensku og spurði hvort hún gæti eitthvað fyrir okkur gert. Ég áttaði mig fljótlega á að þetta var ekki álfkona. Við reyndum að bjarga okkur út úr aðstæðunum með því að þykjast ekkert skilja og töluðum bara íslensku, en það dugði skammt. Sú sem var greinilega ekki álfkona upplýsti okkur um það að hún og hennar fjölskylda væru Íslendingar sem byggju í þessum torfbæ og hefði það verið gert um aldir þó svo að stutt væri síðan að þau hefðu gert bæinn upp. Fljótlega fóru umræður út um þúfur eins og íslendinga er siður og hefðu leikandi getað endað í ættfræði eða jafnvel dagþroti ef ekki hefðu birst erlendir túristar til að bjarga málum.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem við Matthildur mín komum okkur í vandræði með forvitni. Fyrir nokkrum árum urðu við að gjöra svo vel að sitja í skammarkróknum því sem næst heila messu, ef svo má segja, en þá vorum við á ferð í Loðmundarfirði. Það á nefnilega það sama við um kirkjur og torfbæi að ég umkringi pleisið með myndavélina að vopni á meðan hún hefur áhuga á því sem fyrir innan er, og enn kemur fyrir að kirkjur eru ólæstar. Þegar við ætluðum að kíkja inn fyrir kirkjudyrnar á Klyppstað þá stóð þar yfir árleg messa í þessum eyðifirði sem telur enga safnaðarmeðlimi.

Þar var fyrrum lærimeistari minn hringjari og ekki var við annað komandi en okkur yrði troðið inn í yfirfulla kirkjuna. Það fór svo að við Matthildur sátum á milli prestanna upp við altarið og snérum að kirkjugestum. Prestarnir voru tveir sem messuðu, þær sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir og sr. Jóhanna Sigmarsdóttir. Sr. Davíð Þór Jónsson radíusbróðir, sem var þarna sem kirkjugestur, var einnig komið fyrir með okkur Matthildi við altarið og átti hann skilið að sitja í skammarkróknum enda hafði hann komið sér þangað af sjálfsdáðum.

Séra Sigríður Rún talaði úr stólnum og lagði út frá fjallræðunni, um það hvernig varast skyldi farísea og fræðimenn sem væru oftar en ekki sauðir í úlfsgærum. En sleppti því sem betur fer alveg að leggja út frá gluggagæjum. Hún kom síðan inn á að ekki væri samt sjálfgefið með að menn slyppu alfarið við heimsendinn þó svo að vísindamenn væru komnir á slóð óendanleikans.

Okkar tími kynnu þess vegna að líða undir lok á hraða ljóssins. Vísindamenn hefðu komist á slóðina þegar þeir áttuðu sig á að ljósið færi hraðar en hljóðið með því einu að hlusta eftir þrumunni, sem heyrist á eftir að eldingin birtist. Með þessa vitneskju að leiðarljósi hygðust þeir bjarga heiminum og komast aftur fyrir upphafið á hljóðinu og síðan á hraða ljóssins fram fyrir óendanleikann. Spurningin væri samt alltaf sú hvort tíminn hægði þá ekki það mikið á sér að hann stæði að lokum í stað svo allt yrði dimmt og hljótt, og tíminn jafnvel búinn, sem væri þá kannski bara heimsendir.

Litli drengurinn hennar sr. Sigríðar, sem var farið að leiðast langdregin prédikunin, þar sem hann sat með pabba sínum og eldri bróðir á fremsta bekk, hékk orðið á haus á milli fóta föður síns. Á hvolfi horfði hann upp í prédikunarstólinn á móður sína og rétt náði að segja; en mammaaa! áður en pabbi hans dreif sig með hann út úr kirkjunni svo ekki yrði frekari truflun á heimsenda hugleiðingunni.

Þeir voru fleiri feðurnir sem þurftu að fara út með óþreyjufull börn úr árlegri messu á Klyppstað þetta sumarið. Um miðja prédikun var ég farin að ókyrrast og hugleiða hvað það væri gott að hafa börn í sinni umsjá við að kíkja á glugga, en tók svo eldsnöggt þá ákvörðun að fara út með barnið í sjálfum mér þó svo að ég þyrfti að þramma kirkjuna endilanga, fram hjá prédikunarstólnum, á móti söfnuðinum með marrandi gólffjalir undir fótum. Mér er ekki örgrannt um að orð eins þjóðskáldsins gætu átt við þessa brottför barnanna úr Klyppstaðarkirkju "Á flótta undan framtíðinni sem fætur toga burt eitthvað til baka, aftur fyrir upphafið af týndum tíma er af nægu að taka".

Hann var miklu skeleggari og skorinorðari kínverski túristinn sem Matthildur hitti í árlegri sumar heimsókn á heiðina um helgina. Þegar hún ætlaða að fara inn torfbæinn og kíkja á kettlinga sem það eru vanir að vera sumarlangt. Þá stóð skyndilega bálsteyttur Kínverji blásvartur í framan úti í bæjardyrunum, rétt eins og úrillur álfur út úr hól, og skrækti prívat, prívat.

 

Ps. Set hér fyrir neðan nokkrar myndir af þjóðlegum þúfnagangi í síðustu viku.

IMG_4002

Á Reykjum Reykjaströnd við Skagafjörð hafa torfhúsatóftir verið endurhlaðnar og eru notaðar sem þjónustuhús við tjaldstæði. Það er allt til alls í þessum húsum og er þetta með skemmtilegri tjaldstæðum sem við höfum gist. Rétt utan við tjaldstæðið er Grettislaug og Grettiscafé. Það var yfir á Reykjaströnd sem Grettir sterki sótti eldinn þegar hann þreytti Drangeyjarsundið um árið og yljaði sér í lauginni á eftir. Engir Íslendingar gistu tjaldstæðið þegar við vorum þar en margt var um erlenda ferðamenn sem vildu ekki fyrir nokkra muni missa af því að upplifa sólarupprás við Drangey.

 

IMG_4482

 Á Keldum Rangárvöllum er torfbær af fornri gerð og er hann jafnframt eini stóri torfbærinn sem varðveist hefur á Suðurlandi. Keldur er einstök heild bæjar- og útihúsa frá fyrri tíð. Bæjarhúsin eru af elstu varðveittu formgerð torfhúsa, þar sem framhúsin snúa langhlið að hlaði. Sandfok hefur eytt mjög landi kringum Keldur og hafa bændur þar lengi barist harðri baráttu til að bjarga landinu frá því að verða örfoka. Keldur draga nafn sitt af uppsprettum sem koma víða fram á bænum og hefur bærinn og ábúendur hans komið við sögu í mörgum fornum bókmenntum, m.a. Njáls sögu, Sturlunga sögu og Þorláks sögu. Gamli bærinn á Keldum er í umsjón Þjóðminjasafnsins og hægt er að skoða hann daglega á sumrin.

 

IMG_4755

Pilthús goðans í Grágæsadal var áður kallað Safnaðarheimilið, en innan við húsið er önnur burst sem í er bænhús. Þó goðinn sé ekki viðlátinn í Grágæsadal er bænhúsið ávalt opið en þar er ætlast til að beðið sé fyrir landinu. Við hjónin höfum tvisvar komið í Grágæsadal til að heimsækja Völund frænda minn, og höfðum með í för jarðverksverktaka ásamt fleira fólki um síðustu helgi komið til að biðja fyrir landinu okkar. Í Grágæsadal er landsins hæsti skrúðgarður í yfir 600 m hæð í þetta sinn var stórfjölskylda úr Reykjavík við garðyrkjustörf, þannig að goðinn gaf sér góðan tíma til að spjalla.

 

IMG_4525

Bænhúsið á Núpsstað er torfhús, talið reist um miðja 19. öld, eftir umfangsmiklar breytingar á eldra húsi. Á Núpsstað var kirkja, sem í máldaga frá 1340 er kennd við heilagan Nikulás. Kirkjan virðist hafa verið vel búin fram eftir öldum, en halla tók undan fæti á seinni hluta 16. aldar. Upp úr 1650 var byggð ný kirkja á staðnum og er talið að bænhúsið sé að stofni til úr þeirri kirkju. Þjóðminjasafnið hefur sett tugi milljóna króna í viðhald og merkingar við gamla bænhúsið, en getur ekki hleypt ferðamönnum að bænhúsinu því jörðin og byggingarnar þar eru í einkaeigu.

 

IMG_4512

Neðan við Núpstað niður við þjóðveg er hengilás og keðja í heimkeyrslunni, í keðjunni hangir skilti með áletrun um einkaeign. Því er ekki hægt að komast til bæna í þjóðminjunum nema fara í gegnum hlaðið á Núpstað. Bærinn á Núpstað er samkvæmt mínu registri síðast torfærinn af Skaffellskri gerð sem uppi er standandi og væri verðugt verkefni að koma honum til vegs og virðingar þó svo að það væri ekki nema fyrir þær sakir einar, jafnvel þó hann yrði áfram prívat.


Veginn á enda

Viðfjörður

Það eru ýmsar leiðir til að ferðast og aðferðir við skipulagningu ferðalaga. Hægt er að gera ferðaáætlun eftir dagatali, veðurspám eða bara stafrófinu. En það er alltaf svo að það er ferðalagið en ekki áfangastaðurinn sem skiptir mestu máli. Eins og ég hef áður minnst á hér á síðunni kemur fyrir að við hjónin setjumst upp í okkar gamla Cherokee og hlustum á Bubba syngja um það þegar hann hlustaði á Zeppelin og ferðaðist aftur í tímann og er allt eins hægt nota þá ferðaáætlun.

Það má reyndar einna helst líka svo góðu plani við lesblinda prófessorinn sem ætlaði að ferðast yfir þver Bandaríkin í sumarfríin sínu en var ekki kominn lengra en í næsta bæ þegar fríið varð búið. Þetta gerðist vegna þess að þar var svo margt áhugavert að skoða. Prófessorinn sagði eftir sumarfríið að þeir sem kynnu að lesa færu margs á mis vegna þeirra leiðsagna sem þeir læsu.

Núna í vikunni má segja að planið hafi ekki verið neitt af af þessu öllu saman, heldur hafi vegurinn einfaldlega verið farin á enda. En í stafrófinu var það Vaffið sem var valið og eins og vanalega var sólin eina leiðsögutækið í gegnum Austfjarðaþokuna. Við höfðum reyndar hossast þennan slóða á hraðferð fyrir mörgum árum í þoku, sem liggur um landsvæði er fór í auðn fyrir áratugum síðan. 

IMG_3861

Það er ágætt að vita, þegar ferðast er í þoku, að vatn rennur niður í móti, þá er meiri von til að sjá sólina

Þessi vegslóði, sem liggur í Vöðlavík og Viðfjörð, var bílvegurinn á Norðfjörð frá 1940–1949 og endaði hann í Viðfirði en þaðan þurfti að fara með bát yfir á Norðfjörð. Eftir að vegur var lagður um Oddskarð var ljóst að ekki yrði gerður vegur frá Viðfirði yfir á Norðfjörð, enda illmögulegt. Þar með varð ljóst að byggðirnar sem voru norðan Reyðarfjarðar yrðu í litlu eða engu vegasambandi. Þessar byggðir voru í Vöðlavík, Sandvík, Viðfirði ásamt Barðsnesi og Hellisfirði. Svæðið taldi alls um 15 bæi.

Viðfjörður er einn af þrem fjörðum sem ganga inn úr Norðfjarðarflóanum, hinir eru Hellisfjörður og Norðfjörður. Í Viðfirði var búið til 1955. Hvað varð búsetu að aldurtila er til um meira en ein kenning. Þórbergur Þórðarson rithöfundur skrifaði um Viðfjarðarundrin sem áttu að hafa verið draugagangur. Þessi undraskrif meistara Þórbergs hafa þótt léleg sagnfræði í Norðfirði. En líklegast er þó að breyttir samgönguhættir hafi ráðið mestu um að búsetu lauk í Viðfirði.

IMG_2903

Reyndar hafði ég bæði sigld um Norðfjarðarflóann og flogið yfir svæðið, svo það var ekki mikið mál að rata. Frá vinstri; Sandvík,Barðsnes, Viðfjörður, Hellisfjörður og Norðfjörður 

Þegar við vorum núna á ferðinni var yngra fólkið okkar með í bílnum og tók eftir því allan tíman, eftir að farið var yfir Víkurheiðina yfir í Vöðlavík, að ekkert net og símasamband var við umheiminn.“ Og hvað ætlar þú svo að gera ef við festum okkur“ sagði þá Matthildur mín. Eins og það væri eitthvað nýtt að ferðir okkar lægju utangáttar út um þúfur úr alfaraleið. „Hlaupa yfir á Norðfjörð það er styst“ svaraði ég – „já, já, ég sæi þig nú hlaupa“ – „eða þá bara bíða eftir Barðsneshlaupinu sem er venjulega á Neistafluginu um verslunarmannahelgi og biðja fyrir skilaboð“.

Viðfjörðurinn skipar vissan sess í minni sjálfsmynd því frá blautu barnsbeini hefur mér verið það innrætt að ég sé af Viðfjarðarætt. Úr Viðfirði var langaamma mín Ingibjörg Bjarnadóttir á Vaði í Skriðdal, sautján barna móðir. Móðir hennar var Guðrún Jónsdóttir í Viðfirði sextán barna móðir. En við þau Bjarna og Guðrúnu er Viðfjarðarætt oftast kennd, þó svo að forfeður Bjarna hafi búið mann fram af manni í Viðfirði.

Viðfjörður

Sólin brást ekki með leiðsögnina í gegnum Austfjarðaþokuna niður í Viðfjörð

Þessar formæður mínar þóttu hörkukonur á sinni tíð, í forsvari fyrir sínum búum. Eða eins og sr Ágúst Sigurðsson sagði „Ingibjörg á Vaði var mikillar gerðar eins og mörg þeirra Bjarnabarna Sveinssonar og Guðrúnar Jónsdóttur í Viðfirði.“ Um Guðrúnu var sagt „Hún var jafn fær að ganga til sláttar sem raksturs. Hún var tóskaparkona mikil og vefjarkona með afbrigðum, enda þurfti hún á því að halda í Viðfirði meðan öll börnin voru heima og heimilisfólk vanalegast 15-17 manns og allur íverufatnaður og mikið af rúmfatnaði unnið heima.“ Heyrt hef ég að þessi ættmóðir mín hafi ekki talið það eftir sér að fara til fiskiróðra þegar þess þurfti.

Ofan við höfnina í Viðfirði er minningarskjöldur um hörmulegt sjóslys, þar sem fórust þrír synir Sveins Bjarnasonar sem bjó í Viðfirði, á eftir foreldrum sínum Bjarna og Guðrúnu, en frá því var greint með svohljóðandi frétt í blaðinu Víði 9. október 1936;

IMG_3850

„Sorglegt slys vildi til á Austfjörðum í síðustu viku. Á fimmtudagsmorgun 1. október fór trillubátur frá Viðfirði i fiskiróður. Voru á bátnum fjórir menn, þrír bræður, synir Sveins Bjarnasonar frá Viðfirði; Þórarinn (34 ára). Frímann (26 ára). Sófus (30 ára) og Halldór Eiríksson (56 ára) frá Viðfirði. Morguninn eftir að bátur þessi fór í róðurinn, fann togarinn Brimir hann skammt undan landi, fullan af sjó, og lík Frímanns í honum, liggjandi á grúfu yfir þóftu. Slys þetta er einkennilegt þar sem fullvíst er talið að báturinn hafi ekki af kjölnum farið, því ýmislegt, t.d. áttaviti, vélaverkfæri o.fl. var í bátnum, enda hafði veður verið gott, en þoka. Móðir bræðranna er á lífi. Þórarinn hafði verið giftur og átt fjögur börn, hinir ógiftir.“

Þó svo að mestum ljóma stafi frá kvenfólkinu í Viðfjarðarætt vegna hetjulegrar framgöngu í gegnum tíðina, þá er marga eftirtektarverða karlmenn einnig þar að finna og nægir að nefna að Viðfjörður United hefur átt sína leikmenn í knattspyrnulandsliði Íslands svo eftir hefur verið tekið víða um lönd.

IMG_3860

Við enda vegarins er íbúðarhúsið í Viðfirði, byggt 1932, og stórmyndarlegt enn í dag


Fótspor guðanna

IMGP2824

Til eru staðir sem hvorki verður lýst með orðum né ljósmyndum. Eina ráðið til að fá nasasjón af helgi þannig staðar er að heimsækja hann. Við Axarfjörð er þannig staður.

Í vikunni sem leið vaknaði ég kl. 4 að morgni við það að lóan sögn „hér sé dýrðin, dýrðin, dýrðin“. Við Matthildur mín höfðum okkur fljótlega á fætur, kipptum upp hælunum og laumuðumst út af tjaldstæðinu við Eyjuna.

Við ákváðum að aka 3,5 km leið frá Eyjunni inn að Botnstjörn og fá okkur morgunnmat í kyrrðinni. Eftir að hafa sett upp borð og stóla, -alein eins og lítil börn í gullabúi, umkringd hömrunum sem urðu til þegar Óðinn fór um heiminn ríðandi á Sleipni, -flaug fram af klettabrúninni álftahópur og söng okkur sinn heiðarsöng svo bergmálaði á milli hamraveggjanna.

IMG_3431

Myndun Ásbyrgis hefur verið mönnum ráðgáta eftir að farið var að efast um Alföður. Þorvaldur Thoroddsen, náttúrufræðingur, kom í Ásbyrgi sumrin 1884 og 1885. Hann taldi að gljúfur Jökulsár hefðu orðið til í jarðskjálftum og Ásbyrgi hafa myndast þegar landspilda sökk í kringum Eyjuna.

Um miðja 20. öld hóf Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur, að rannsaka öskulög á svæðinu. Í ljós kom að allur jarðvegur eldri en 2.500 ára hefur skolast í burtu úr botni Ásbyrgis og árfarvegum sunnan þess. Furðu vakti að áin hefði náð að grafa bæði Ásbyrgi og hin tröllvöxnu árgljúfur á þeim 10 þúsund árum frá því hraunið rann.

Nú er talið að á tímabilinu frá því fyrir 5000 árum þar til fyrir 2000 árum hafi ríkt þær aðstæður við Vatnajökul að mikið vatn hafi safnast saman við rætur eldstöðva Bárðarbungu, Grímsvatna og Kverkfjalla. Þegar einhver þeirra gaus gátu orðið gífurleg jökulhlaup sem æddu með ógnarhraða frá jökli til hafs.

Sjálfur hallast ég helst að elstu tilgátunni um tilurð Ásbyrgis, þ.e.a.s. yfirreið Óðins á Sleipni og Ásbyrgi sé því hóffar Sleipnis. Enda tekur helgi staðarins öllum rökum fram. Aðrar tilgátur hafa þvílíka annmarka að við þá verður ekki unað.

Ef nýjustu tilgátur ættu við rök að styðjast kalla þær á sólahrings vakt í höfuðstöðvum almannavarna og öryggishjálma ásamt gulum björgunarvestum með blikkandi neyðarljósum fyrir almenning í Ásbyrgi. Mér sýnist landnámsmenn hafa komist að mun skynsamlegri niðurstöðu lausa við öfgar samtíðar trúarbragða.

Snemma á 20. öldinni keypti Einar Benediktsson land meðfram Jökulsá á Fjöllum ásamt Ásbyrgi. Hugsjón Einars var að virkja ána og sagðist hann ætla að nýta orkuna til að framleiða áburð á blóm og birki. Einar átti Ásbirgi í 15 ár og orti ódauðlegt ljóð að morgni í Ásbirgi, en áin rennur óbeisluð enn þann dag í dag.

Alfaðir rennir frá austurbrún

auga um hauður og græði.

Glitrar í hlíðinni geislarún,

glófaxið steypist um haga og tún.

Signa sig grundir við fjall og flæði,

faðmast í skrúðgrænu klæði.

Kannski var eins gott að Einar Benediktsson átti þessa morgunn andakt í Ásbyrgi, því annars væri ekki loku fyrir það skotið að hagvaxnir nútíma trúarbragðadýrkendur kolefnissporsins ákveddu að hafa helgi Ásbyrgis með í pakkanum við að lýsa upp Evrópu.

IMG_3650


Brotnar byggðir og ríki Ratcliffs

Tímana tvenna

Það má segja að æðsta þroskastig hverrar mannveru sé að komast frá A til B án þess að gera í brækurnar, og verandi sjálfbjarga við það séu bestu árum ævinnar varið. Svona er þessu í reynd farið í bókstaflegri merkingu. Við hefjum leikinn með því að fá aðstoð og endum hann eins ef ekkert óvænt kemur upp á, megin hluti ævinnar snýst sem sagt um það að sleppa við að skíta á sig.

Það hefur færst í vöxt núna síðustu ár að skilgreina brothættar byggðir úti um land og eru þetta þá oft byggðir sem hafa verið rændar með lögum sjálfsbjargarviðleitninni til að nýta lífviðurværið sem svamlar fyrir framan nefið á þeim íbúum sem þar hafa dagað uppi. Ef engin kemur Ratcliff til að kaupa vatnsréttindi og óðul eða setja upp löggilta ferðaþjónustu er flest von úti.

Ráðnir hafa verið til þess bærir sérfræðingar að hjálpa brothættu byggðunum og eru þá oftar en ekki ráðnir mógúlar sem hafa yfirgripsmikla reynslu af sveitarstjórnarmálum, jafnvel ævilanga reynslu í að rugga ekki bátnum á meðan kvótinn var seldur, en hafa þrátt fyrir allt ekki náð að koma byggðarlögunum sem þeir unnu fyrir gjörsamlega fyrir kattarnef. Þannig að verkefnisstjórnunin í brothættu byggðinni er svona nokkurskonar síðasti séns.

IMG_3479

Nú er sumarfrí og hefur því verið varið á heimaslóðum í byggð sem mætti ætla að seint yrði skilgreind sem brothætt. Það eru samt ekki nema örfá ár síðan að stærsta framkvæmd íslandssögunnar kom til bjargar. Áður hafði massíf skórækt átt að redda bændum, þar sem Alaska öspum og Síberíulerki var þéttraðað í tún og skurði svo ekkert sést lengur til kolefnissporsins og jafnvel sýnin á kólgulitað Lagarfljótið er óðum að hverfa.

Ásýnd Héraðsins er að breytast í heila helvítis Svíþjóð. þegar keyrt er um svoleiðis landslag er það eins og að keyra framhjá strikamerki, lúpínan hefur þó það fram yfir að maður stendur upp úr henni og getur klofast yfir hana, já og vel á minnst lúpínan var upphaflega boðin velkomin af ríkinu. Núna síðustu tvö árin hefur svo Skóræktin tekið upp á því að hefta för fólks með hengilás og keðju í gegnum þá fáu slóða sem má komast í gegnum óræktina niður að Lagarfljóti, nema þar sem þeir telja sig geta haft starfsmann á launum við að rukka fólk.

Í vikunni gerðumst við hjónin svo ferðamenn í ríki Ratcliffs og hluta þeirra mölbrotnu byggða sem leynast við norðurstrandarveg eða samkvæmt tíðarandanum, The Arctic Coast Way. Snemma í sumar opnuðu tveir úr hópi mestu skítbuxna byggðar í landinu ímyndað stórvirki með því einu að klipp á borða. Annar hokin af reynslu með sultardropann niður úr nefinu í nepjunni austur í eyðilegum Bakkafirði og hinn með bringuna þanda upp í vindinn vestur á Hvammstanga þar sem sjá má yfir á dýralæknislausu Vestfirðina.

IMG_3545

Raufarhöfn minnti á margan hátt á Seyðisfjörð og Djúpavog, þar sem ungt atorkusamt fólk og listamenn hafa sest að og tekið sig saman um stórvirki. Um hana verður ekki lengur sagt; Þú ert rassgat Raufarhöfn / rotni, fúli drullupollur. / Andskotinn á engin nöfn / yfir mörg þín forarsöfn. / Þú ert versta víti jöfn / viðmótið er kuldahrollur. / Farðu í rassgat Raufarhöfn / rotni, fúli drullupollur.

Við létum ferð um Bakkafjörðinn, Melrakkasléttuna auk ríkis Ratcliffs nægja í þetta sinn. Okkur til ánægju þá urðu skiltin um land í einkaeign fáséðari eftir því sem þokan varð þéttari. Það eru slétt 25 ár síðan við fórum þennan vegspotta síðast, en það hafði staðið til um nokkurra ára skeið að endurnýja kynni sín við þessar byggðir. En drottinn minn dýri stór hluti þessa svæðis er gjörsamlega komin í auðn.

Það eru orðin rúm 40 ár síðan ég kom á þessar slóðir fyrst og hafði margoft farið um þær á níunda áratug síðustu aldar en var minntur á það í fyrra að ég hafði aldrei komið á Rauðanúp eða það sem er kallað Núpskatla. Þennan núp hafði mig dreymt um að sjá í bernsku og meir að segja komist í grennd við hann 1976 þegar mér bauðst að fara með skólabróðir mínum á Laugum í helgarfrí í hans heimasveit. Þá varð ekkert úr Núpskötlu ferð því að svo mikið var um frændur og félaga á næstu bæjum að ekki gafst til tími.

IMG_3697

Hreiðrið Gesthouse eitt af þremur gistihúsum á Raufarhöfn

Nú þessum rúmu 40 árum seinna leit ég við á heimaslóðir vinar míns með von um að rekast á hann, því hann hefur átt það til síðustu ár að nýta sér brothætt úrræði stjórnvalda og stunda strandveiðar á slóðum þar sem hann þekkir öll mið. Ekki hittum við fornvin minn en þess í stað frænda hans í mýflugumynd. Frændi hans var á Leirhafnartorfunni að dytta að sumarhúsi og sagði mér að frændi sinn hefði ekkert sést í sumar og ætti það tæplega eftir.

Níels Árni Lund hefur gefið út Sléttungu svona nokkurskonar minningargrein um Melrakkasléttu í þremur bindum. Nú er hann að minnast forfeðranna á torfunni með því að safna saman tólum og tækjum sem tíðarandinn myndi flokka sem rusl.

IMG_3690

Við komumst þvottabrettin alla leið á enda að Núpskötlu og verður ég að hæla fólkinu sem þar dvelur í sumarævintýrinu fyrir að hafa ekki girt landið af úti við þjóðveg eins og hver annar ríkisbubbi, sem setur upp hlið með hengilás og skilti um land í einkaeign í girðingar Vegagerðarinnar, og hafa þar að auki rétt getað stillt sig um að negla merki á vegstikurnar um það að öll stangveiði sé bönnuð. Ferðin um Sléttu var virði allra holanna á endalausu þvottabretti The Arctic Coast Way, þannig að við ákváðum að þræða hana aftur til baka næsta dag.

Ósjálfrátt varð manni á að hugsa, „hvernig gat þetta gerst á minni vakt“ og maður hefur ekki einu sinni þá afsökun að hafa verið í sumarfríi. Sennilega má segja að fáum þjóðum hafi verið eins mislagðar hendurnar við við að krossa sér forustufólk. Það er ekki nóg með að það hafi rænt fólki lífsbjörginni á stórum svæðum landsins, auk þess lætur það landsölu viðgangast til allra landsliðana í kúlu. Og þegar ein mannvitsbrekka alþingis tjáði sig um þetta í vikunni þá sagði hún að setja yrði einhverskonar skorður en gæta yrði að því að erlendum og innlendum skiltagerðamönnum yrði ekki mismunað.

IMG_3495

 

IMG_3606

Jú víst get ég sannað að hafa verið á Núpskötlu

 

IMG_3701

Það er margt sem fangar augun við "The Arctic Coast Way"


Öldin er önnur en þokan sú sama

Það verður seint sagt um suma staði að þeir megi muni sinn fífil fegurri. Þeir eru einfaldlega eins og fíflarnir sem þrífast betur eftir því sem harðar er að þeim sótt. Einn af þessum stöðum er Djúpivogur sem er á Búlandsnesinu á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar. Það er ekki nóg með að staðnum hafi fleytt fram, heldur hefur Búlandsnesið stækkað svo um munar. Þar hafa hafstraumar sópað upp sandi og búið til nýjar landfyllingar á milli eyja sem áður voru úti fyrir landi.

IMG_2945

Búlandsnesið, þar sem Djúpivogur sker sig inn í landið, hefur þá sérstöðu að vera kristfjárjörð, þ.e. að hafa verið arfleitt Jesú Kristi en hvorki ríki né kirkju. Í bók sinni Að Breyta fjalli fer Stefán Jónsson fréttamaður yfir þau vandkvæði sem felast í því þegar kristfjárjarðir eru annarsvegar og engir pappírar finnast um gjörninginn. Hann segir m.a.; „hitt er ljóst að einhver eigandi jarðarinnar til forna gaf hana fátækum í Geithellnahreppi fyrir sálu sinni“ og rekur síðan vandræði sveitarstjórnarmanna í hinum forna Geithellnahreppi.

Það er ekki víða á Íslandi sem fólk býr bókstaflega í landi Jesú Krists; við ævintýr, sem innihalda leyndardómsfullt landslag, heimsins hæsta píramída og sannar sjóræningja sögur. Og það sem dularfyllst er af öllu, hina óendanlegu Austfjarðaþoku. Nikólína Weywadt, sem fyrst tók veðurathuganir fyrir Veðurstofuna við Berufjörð og fyrsti ljósmyndari á Austurlandi, taldi á þriðja hundrað þoku daga um margra ára skeið í veðurathugum sínum á síðustu ártugum 19. aldar. Þeir sem vilja gera lítið úr Austfjarðaþokunni hafa haldið því fram að ekki hafi þokubólstur mátt bera í Búlandstindinn svo Nikólína hafi ekki talið þokudag.

Eftir að hafa búið á Djúpavogi hátt á annan áratug, í lok síðustu aldar, dettur mér ekki í hug að rengja veðurathuganir Nikólínu Weywadt, og er ég ekki frá því að hafa upplifað á þriðjahundrað daga á ári umlukinn þoku. Eins bera fjölmargar ljósmyndir Nikólínu frá Djúpavogi þess merki að þokan hafi verið venju fremur ágeng á hennar tíð. Þokan á sér mun fleiri hliðar en dulúðina, að úr henni ýrist úði og í henni geti leynst álfabyggðir og falleg fjöll. Stefá Jónsson fréttamaður sagði um hana m.a.í bók sinni Gaddaskata að þokan gæti orðið svo þykk í Djúpavogsblánum að lítið hefði þýtt að leita þar að belju fyrr en andardráttur hennar hefði fundist við eyrað.

IMG_2921

Síðustu helgi var varið á Djúpavogi og naut ég þess að upplifði sólskinsbjarta Jónsmessunótta í eitt skiptið enn. Byrjaði á að fara upp á Bóndavörðu þar sem útsýnið yfir bæinn er best. Þokan kom yfir Búlandsnesið og byrgði fljótlega sýn. Drunur sem ég gat mér til að væru frá skipsvélum heyrðust út úr þokunni í gegnum næturkyrrðina, skreytta fuglasöng. Ég hugsaði með mér hvað ef Hundtyrkinn væri nú aftur á ferð um þennan bjarta tíma. Það var fyrir hátt í 400 árum sem þokan bjargaði þeim fáu sem þá urðu eftir við þennan fjörð.

Um þá nótt var sumarblíða á Djúpavogi, bjart en þoka í miðjum hlíðum. Sjóræningjaskipin sigldu inn Berufjörð að Djúpavogi og vörpuðu akkerum á móts við Berunes. Um morguninn og næstu tvo daga á eftir fóru sjóræningjarnir með ránum og manndrápum um verslunarstaðin við Djúpavog, Hálsþinghá, en svo nefndist íbúabyggðin þá, Berufjarðarströnd og Breiðdal. Hundtyrkinn drap fjölda fólks og tóku á annað hundrað manns til fanga er þeir seldu í Barbaríinu í Alsír.

Þeir fáu íbúar sem sluppu undan Tyrkjunum, sem voru ekki Tyrkir, komust inn í þokuna til að leynast þangað til sjóræningjaskipin léttu akkerum og hægt var að snúa heim á ný. Jón Helgason segir í bók sinni um Tyrkjaránið; „Ömurlegastir voru þó í umkomuleysi sínu þeir bæir, er enginn vitjaði, þótt skipin væru horfin á braut og þeir voru margir um Berufjarðarströnd og Hálsþinghá: Allt fólkið hertekið. Börnin sem þar höfði signt sig á bæjarhlaðinu hvern morgun, tóku ekki gleði sína á ný við leik á hóli eða fjörusandi, þau grétu í dimmum og fúlum lestum víkingaskipanna.“

IMG_2993

Svalbarðstanginn sem aðskilur Gleðivíkurnar, farþegaskip stefnir inn á þá innri þar sem höfnin er með heimsfrægu eggjunum hans Sigurðar í "Himnaríki". Út á firði liggur annað farþegaskip við akkeri og ber í þokuna, sem ferjaði farþegana í land með skipsbátunum.

Þegar ég rýndi út í þokuna, þaðan sem drunurnar heyrðust, sá ég grilla í stórt skip koma út úr þokunni. Fljótlega koma annað og stemmdu þau inn Berufjörðinn. Það fyrra kastaði akkerum út af Djúpavogi á móts við Berunes rétt eins og sjóræningja skipin forðum. Seinna skipið sigldi fullri ferð fram hjá því fyrra inn á höfnina í Innri-Gleðivík. En í þetta sinn voru það skemmtiferðaskip og við Matthildur mín stödd á Djúpavogi sem barnapíur dótturdóttir okkar, sólargeislans Ævi, en foreldrar hennar þjónustuðu ferðamenn þessa Jónsmessuhelgi.

Undanfarin ár hefur á Djúpavogi verið gert gríðarlegt áttak í ferðaþjónustu og varðveislu gamalla húsa, bærinn bókstaflega blómstrar hjá öllu því unga fólki sem þar lætur drauma sína rætast. Ég notaði nóttina til að rölta um og skoða fyrrum heimabæ okkar Matthildar og minntist góðra daga okkar bestu ára. Þá voru farin að sjást merki þess í hvað stefndi. Þá gengu húsin Geysir og Langabúð í endurnýjun lífdaga eftir erfið ár. Þá voru þau hús sem mín kynslóð byggði ný og glæsileg en mörg gömlu húsin í lakar ástandi. Nú má segja að öldin sé önnur. Þegar ég skoðaði húsin sá ég að rétt var að nota þokuna til að fara með veggjum, eða réttara sagt klettum. Því það sama á við um mig og verkin mín, að eldast illa.

Við Matthildur yfirgáfum Djúpavog um aldamótin. Það voru erfiðir tímar. Hún sjómannsdóttirin fædd og uppalin í einu af fallegu húsum bæjarins. Stuttu áður höfðu fjögur stór fiskiskip verið seld frá staðnum á nokkrum mánuðum. Íbúum fækkaði, nemendum í skólanum fækkaði um helming á örfáum árum. Aflaheimildir og fiskvinnsla var vistuð hjá Vísi í Grindavík sem hélt uppi skertri vinnslu á Djúpavogi, þar til fyrir skemmstu að þeir léttu akkerum hurfu á braut.

IMG_3022

 Gamli góði Djúpivogur, verslunarhöfn í 430 ár og fiskihöfn frá ómunatíð.

Þó svo að áfallið hafi verið stórt þegar fleiri þúsund tonna kvóti fór frá staðnum á svo til einni nóttu þá hefur unga fólkið á Djúpavogi aldrei misst móðinn, það þrífst líkt og fíflarnir sem vonlaust er að slá, því þeir spretta bara enn fleiri blómstrandi upp aftur morgunnin eftir. Staðurinn sem stendur í kristfjárjörðinni hefur sennilega alla tíð átt því láni að fagna að þar fær unga fólkið tækifæri til að láta drauma sína rætast, rétt eins og sá maður sem stal sjálfum sér forðum -Hans Jónatan; fyrsti blökkumaðurinn er sögur fara af á Íslandi.

Á mínum manndómsárum á Djúpavogi varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vera í hreppsnefnd í því sem næst tvö kjörtímabil, það fyrra var styttra vegna sameiningar sveitarfélaganna, Búlands-, Berunes- og Geithellna-hreppa. Oft var tekist á um málefni dagsins á minni tíð en aldrei um varðveislu þess gamla. Það er helst að ég minnist þess að við höfum jagast um staðsetningu Geysis. Ég vildi ekki færa Geysi um sentímetra, en við húsið var í þá daga eitt helsta blindhorn bæjarins. Þar varð ég undir í argvítugum minnihluta eins og vanalega.

Ég sá það, þegar þokunni létti svo undursamlega á þessu Jónsmessunætur rölti, að auðvitað hef ég hagað mér eins og hálfviti mest alla tíð, en læt mig samt dreyma um að þokan hafi byrgt mér sín og öldin verið önnur.

Ps. set hér inn nokkrar myndir af misjafnlega gömlum húsum í bænum.

IMG_2959

Geysir var byggður sem hótel rétt fyrir aldamótin 1900 og þjónaði sem slíkur fyrstu árin. Húsið var lengist af notað sem íbúðarhús, og fyrir verslunina Djúpið þegar ég kom á Djúpavog. Hýsir nú skrifstofur Djúpavogshrepps. Húsið gekk í endurnýjun lífdaga um aldamótin 2000. 

 

IMG_0657

Nýja Lögberg, fjölbýlishús með fjórum íbúðum, byggt einhvertíma í kringum 1940.

 

IMG_0659

Gamla Lögberg sagt byggt 1914. Mig minnir að bakhliðar þess hafi verið torfveggir áður en það fékk yfirhalningu, sem gæti bent til þess að það hafi verið byggt í eldri tóft.

 

IMG_0680

Björk, var áður með "kastala brjóstvörn" og torfþaki. Sennilega byggt fleirum en einum áfanga eftir brjóstvitinu. Nýtur sín vel nú sem fyrr, þó svo "brjótsvörn kastalans" sjáist ekki lengur, orðið að húsi funky stíl.

 

IMG_0718

Ásbyrgi byggt 1947 gekk í endurnýjun lífdaga 1989.

 

IMG_0710

Langabúð t.v. er í reynd röð gamalla sambyggðra húsa frá árunum 1758-1850, endurgerð 1989-1997 - Faktorshús t.h. byggt 1848. Bæði húsin tilheyrðu versluninni á Djúpavogi um aldir og fór verslun Kaupfélags Berufjarðar þar fram til ársins 1985.

 

IMG_0741

Bæjarstæðið á Djúpavogi séð frá Bóndavörðu. Hann er óvíða fegurri sjóndeildarhringurinn en á þessum góða útsýnisstað, heyrst hefur fagnaðar kliður frá ferðamönnum sem koma í þoku og sjá henni létta. Hálsþinghá og Hamarsfjörður fjærst t.h., Berufjörður t.v.,,,,jú ég sé að það leynir sér ekki að Geysir hefði átt að fá að standa áfram á sínum stað á bláhorninu í Hótelhæðinni.


Hvar er gimsteinninn í augum þínum ljúfan?

Það kemur fyrir að við hjónin setjumst upp í okkar gamla Cherokee frá því á síðustu öld. Þá hlustum við á þjóðskáldið syngja um það þegar það hlustaði á Zeppelin og ferðaðist aftur í tímann. Sjaldnast verða úr þessum Cherokee setum undur og stórmerki í fjaðrasófum grænum, en kemur þó fyrir.

Um síðustu helgi skein t.d. skyndilega við sólu Skagafjörður, eða kannski réttara sagt sólin og Skagafjörðurinn skinust á. Reyndar hafði blundað í mér pílagrímsför í Skagafjörðinn, þó þar megi finna margar helstu perlur íslenskrar byggingalistar er þar ein slík sem hefur glitrað lengur og skærar en allar þær háu svörtu turnlöguðu með skúrþökunum, og jafnvel skærar en sjálft Sólfarið við Sæbraut. 

Það var semsagt síðastliðinn föstudag sem tekin var skyndiákvörðun um að bruna í Skagafjörðinn með gömlu fermingar svefnpokana og láta endanlega verða af því að skoða Víðimýrarkirkju. Í leiðinni var litið á fleiri perlur íslenskrar byggingalistar, m.a. Grenjaðarstað í Aðaldal, Glaumbæ í Skagafirði, Hólakirkju í Hjaltadal, Grafarkirkju við Hofsós og Saurbæjarkirkju inn í Eyjafirði.

IMG_2728

Já skrítið, aðallega torf, sprek og grjót og það hjá steypu kalli. Það má segja sem svo að ég hafi verið orðin hundleiður á að horfa út undan rofabarðinu á kólgugrátt Urriðavatnið og skrapa steypugólfið í niðurgröfnum moldarhaug sem mér var komið fyrir í vor, svo að ég gat ekki lengur á mér setið. Enda minnir mig Nóbelskáldið hafi einhversstaðar komist svo að orði að sementið væri byggingarefni djöfulsins og getur það svo sem verið rétt ef það nær til að harðan sem ómótaður óskapnaður.

En um Víðimýrarkirkju hafði Nóbelskáldið þetta að segja; „Tveggja íslenskra bygginga er oft getið erlendis og fluttar af þeim myndir í sérritum um þjóðlega byggingalist. Önnur er Víðimýrarkirkja. Ég held að það sé ekki of djúpt tekið í árinni þótt sagt sé að aðrar kirkjur á Íslandi séu tiltölulega langt frá því að geta talist verðmætar frá sjónarmiði byggingarlistar. Víðimýrarkirkjan litla er okkar Péturskirkja – þar sem hver rúmmetri ber í sér innihald þannig að virðuleiki hinnar litlu frumstæðu byggingar er í ætt við sjálfar heimskirkjurnar, þótt sjálft kirkjuinnið sé ekki stærra um sig en lítil setustofa og verðgildi byggingarinnar komist ekki til jafns við meðal hesthús.“

Þegar við hjónin komum að Víðimýrarkirkju í glampandi sól og sumarhita þá var hún læst. Við vorum varla farin að hugleiða það að naga þröskuldinn þegar staðarhaldarinn Einar Örn kom askvaðandi yfir túnið á ensku. Við heilsuðum á íslensku og tókum tvisvar fram að hún væri okkar móðurmál. Hann bað afsökunar á margítrekuðu athugunarleysinu en sagðist hafa það sér til málsbóta að sjaldséðir væru hvítir hrafnar. Þetta var reyndar ekki eini staðurinn í þessari ferð sem þetta kom upp, þetta var viðkvæðið á öllum þeim stöðum sem höfðu að geyma þjóðlega menningu og byggingalist sem við skoðuðum í þessari ferð.

Einar Örn bætti heldur betur fyrir óþrifalega enskuslettuna með því að segja skemmtilegar  sögur úr kirkjunni. Það á t.d. að hafa tekið 6 tíma að ferma Stefán G Stefánsson Klettafjallaskáld samkvæmt því sem skáldið sagði sjálft eftir að hann var fluttur til Ameríku. Presturinn sofnaði þrisvar og þurfti jafn oft út þegar hann vaknaði til að fá sér ferskt loft og hressingu en hafði alltaf gleymt hvar í athöfninni hann var staddur þegar hann kom inn aftur og byrjaði því upp á nýtt. Þessi langdregna fermingarmessa fór illa í suma Skagfirska bændur því það var brakandi heyskaparþurrkur.

IMG_2736

Altaristafla Víðimýrarkirkju er frá kaþólskum sið því ekki þótti taka því að skipta henni út við siðaskiptin. Eins fengum við að heyra að kirkjan væri vinsæl til hjónavígslna, og þá oft um erlend pör að ræða, ekki væri óalgengt að þau bókuðu með margra mánaða, jafnvel ára fyrirvara. Fyrir nokkru hafði samt verið gefið saman í skyndingu par, þar sem hann var gyðingur en hún kaþólikki. Þau hefðu verið spurð hvernig þau ætluðu að skýra út fyrir sínum nánustu valið á guðshúsinu. Gyðingurinn svaraði fyrir þau bæði og sagði að það væri seinna tíma vandámál sem biði þar til heim væri komið.

Þó svo litla listaverkið sem kostað var minna til en meðal hesthúss, að mati Nóbelskáldsins, hafi ekki staðið í Víðimýri nema frá 1864 þá eru margir munir hennar mun eldri, líkt og altaristaflan. Í Víðimýri hefur verið bændakirkja frá fornu fari, eða allt frá kristnitöku á Íslandi. Hún var samt ekki talin til sóknarkirkna fyrr en árið 1096. Það er ekki vitað hver lét reisa upphaflegu kirkjuna. En sú hefur verið rúm miðað við núverandi kirkju, því að í henni voru sögð vera 4 altari, eitt háaltari og þrjú utar í kirkjunni. Víðimýrarkirkja var helguð Maríu mey og Pétri postula.

Það hafa margir merkir prestar þjónað staðnum, þ.á.m. Guðmundur góði Arason, sem varð síðar biskup á Hólum 1203-1237. Kolbeinn Tumason var þá héraðshöfðingi í Skagafirði og kom Guðmundi góða á biskupsstól og hugsaði sér með því gott til glóðarinnar. En öðruvísi fór með sjóferð þá því Guðmundur lét ekki að stjórn og endaði Kolbeinn líf sitt í Víðinesbardaga við Hóla þegar einn af mönnum Guðmundar góða kastaði grjóti í hausinn á honum. 

IMG_2732

Þá var öldin kennd við Sturlunga og menn ortu sálma á milli manndrápa. Kolbeinn Tumason var af ætt Ásbirninga og hafði lagt margt á sig til að halda höfðingja tign m.a. við Lönguhlíðarbrennu, þar sem Guðmundur dýri Þorvaldsson og Kolbeinn fóru að Lönguhlíð í Hörgárdal og brenndu inni Önund Þorkelsson ásamt Þorfinni syni hans og fjóra aðra en mörgum öðrum heimamönnum voru gefin grið. Þeir Önundur og Guðmundur höfðu átt í deilum og brennan var talin níðingsverk.

Sálmurinn Heyr himna smiður er eftir Kolbein Tumason í Víðimýri, hvort hann hefur fengið hugmyndina af honum kirkjunni eftir Lönguhlíðarbrennu skal ósagt látið, en talið er að hann hafi samið hann rétt fyrir andlát sitt þegar hann fór fylktu liði í Hóla til að tukta Guðmund góða biskup Arason, er svo slysalega vildi til að einn af liðsmönnum biskups kastaði steini í höfuðið á Kolbeini. Eins og Sturlunga fer greinilega með heimildir og nafngreinir þá sem að manndrápum koma þá upplýsir hún ekki hver var grjótkastarinn.

Kolbeinn kvað; „Heyr, himna smiður, hvers skáldið biður, komi mjúk til mín miskunnin þín. Því heit eg á þig, þú hefur skaptan mig, ég er þrællinn þinn, þú ert Drottinn minn.“ Þessi sálmur er ein af gersemum íslenskrar tungu sem fer stórum á youtube með yfir 7 milljón áhorf. Eftir pílagrímsferð í Mekka íslenskrar byggingalistar er þá nema von að sonur þjóðar, sem  þarf að kynna sín helstu menningarverðmæti á ensku á eigin heimavelli til þess að hafa áheyrendur, spyrji líkt og Bubbi; Hvar er gimsteinninn í augum þínum ljúfan?

 


Á fallegum degi

IMG_2203

Það eru ekki allir svo heppnir að hafa tekið fleiri réttar ákvarðanir en rangar. En ég hygg æskufélagi minn eigi því láni að fagna. Hann hætti í skóla við fyrsta tækifæri og hóf sína atvinnuþátttöku. Við vorum skólabræður í barnæsku og unnum saman sem unglingar þar sem skilin urðu aldrei skír á milli leiks og starfs. Hann hélt sig við sitt, en ég sérhæfði mig í tómri steypu.

Á unglingsárum skildu leiðir um stund, en við vissum þó nokkuð vel af hvor öðrum. Fyrir nokkrum árum síðan höguðu örlögin því þannig að við lentum á sama vinnustað í steypunnar leik. Þessi félagi minn á flest það sem hugurinn girnist, s.s. einbýlishús, bíl og einkaflugvél, svo ekki sé minnst á góða konum.

Undanfarin ár hef ég notið góðs af réttum ákvörðunum félaga míns. Á góðum dögum á hann það til að spyrja ertu ekki til í að koma með í smá flugferð, það er að birta í suðri. Það er sama hvernig á stendur kostaboðum og sólskinstundum sleppir maður einfaldlega ekki. Í dag flugum við á milla fjalls og fjöru, skoðuðum fjallasali Austurlands og merlandi haf við vogskorna strönd.

Það eru ekki allir jafn heppnir að eiga kost á útsýnisflugi yfir falleg fjöll og fagra firði þegar veðrið er best. Þær eru að verð nokkrar flugferðirnar sem ég hef farið með félaga mínu, þar sem þrætt er á milli fjallstoppa og með sólgiltum ströndum. Það fer að verða svo að mér finnst vorið varla vera komið fyrr en til þess sést úr lofti. 

Ég set hér inn nokkrar myndir frá deginum í dag. Hægt er að smella á myndirnar til að stækka þær.

IMG_1969

Tekið á loft frá Egilsstöðum og haldið á vit heiðríkjunnar

 

IMG_2001

þrætt á milli fjallanna "niður í neðra"

 

IMG_2023

Djúpivogur, gamli heimabærinn

 

IMG_2038

Eystra-horn, Hvalnes kúrir í króknum

 

IMG_2046

Vestara-horn; Papaós, Horn, Stokksnes fjærst

 

IMG_2058

Höfn í Hornafirði

 

IMG_2066

Flogið við Fláajökul þar sem hann skríður niður af Vatnajökli

 

IMG_2075

 Yfir Vatnajökli

 

IMG_2113

Frjáls á fjöllum

 

IMG_2180

Fellabær t.v., Lagarfljótsbrú, Egilsstaðaflugvöllur t.h.


Sænautasel og heimsmaðurinn á heiðinni

IMG_3862

Nóbelskáldið taldi sig vera nokkuð vissan um að til væri aðeins einn íslenskur heimsborgari, maður sem talist gæti alþjóðavæddur. Það hefði margsannast að hann væri eini íslendingurinn sem allt fólk, hvar sem það væri í heiminum, myndi skilja. Þessi maður var Bjartur í Sumarhúsum, hetja sjálfs sín. Það er fátt sem hefur glatt hverúlanta samtímans meira en geta atyrt Bjart í Sumarhúsum með orðsnilli sinni við að upplýsa að í honum búi allt það verstau sem finna megi í fólki. Flestir Íslendingar og margir erlendir aðdáendur Halldórs Kiljan Laxness þekkja söguna sem lýsir lífsbaráttu þessa sjálfstæða kotbónda í afskekktri heiði. Margir telja að fyrirmynd sögunnar hafi verið að finna Sænautaseli.

Undanfarin sumur höfum við hjónin þvælst margann góðviðrisdaginn um Jökuldalsheiðina til að kynna okkur undur hennar. Oftast var komið við í Sænautaseli, enda rekur fyrr um vinnufélagi minn þar ferðaþjónustu ásamt konu sinni og þar er hægt að fá bestu lummur á landinu. Eftir að maður var komin á bragðið fór ferðunum fjölgand með ættingjum og vinum til að sýna þeim undur Sænautasels og gæða sér á gómsætum lummum og kakói. Sænautasel var endurbyggt 1992 og hafa þau Lilja og Hallur verið þar gestgjafar síðan þá, en auk þess er bærinn til sýnis, og er eftirsótt af erlendum ferðamönnum sem lesið hafa Sjálfstætt fólk, að setja sig inn í sögusviðið með dvöl í bænum.

IMG_3927

Tímarnir breytast og mennirnir með. Þar sem draugar áður riðu röftum í ærhúsinu er nú gestum og gangandi gefnar lummur á garðann og brynnt með kakói og kaffi innan um lopapeysur

Ástæða þessara mörgu ferða okkar var auk þess saga allra heiðarbýlanna og gætu ferðirnar þess vegna átt eftir að verða enn fleiri á næstu árum. Enda voru þessi heiðabýli 16 þegar best lét og við í mesta lagi búin að heimsækja helminginn. Til að fá sögu heiðarinnar beint í æð las ég samantekt Halldórs Stefánssonar í bókinni Austurland um heiðabyggðina, sem var í á milli 5-600 m hæð. Halldór Stefánsson segir m.a.; "Byggð þessarar hálendu heiðarbyggðar, hinnar langhæstu á landinu, líkist þannig - nær að kalla- ævintýri." Eins las ég Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness og Heiðarharm Gunnars Gunnarssonar auk fjölda annarra frásagna af lífinu í heiðinni. Hér á eftir fer hluti þess sem ég tel mig hafa orðið áskynja um Sjálfstætt fólk.

IMG_8593

Horft heim að rústum Fögrukinnar sem var eitt af heiðarbýlunum. Gunnar Gunnarsson rithöfundur skrifaði bækur um búsetuna á heiðinni. Ein af þeim er Heiðarharmur sem fjallar um heimsfólkið í heiðinni með annarri nálgun en Halldór í Sjálfstæðu fólki. Gunnar segir frá því hvernig búsetan á heiðinni eyddist bæ fyrir bæ m.a. vegna uppblásturs. Sagt hefur verið að Gunnar hafi komið til álita sem Nóbelshafi á sama tíma og Halldór. Það sem á að hafa staðið Gunnari aðallega fyrir þrifum var aðdáun nasismans á verkum hans. Hann er t.d. eini Íslendingurinn sem vitað er til að hafi hitt Hitler. Þó Halldór hafi opinberaði skoðanir sínar á "gúlags" kommúnisma Sovétsins, sem var þá meðal sigurvegara stríðsins, varð það ekki talið honum til hnjóðs. Eftir að ryk moldviðranna er sest gægist það upp úr rykföllnu hugskotinu, að Nasistar hafi ekki verið þeir sem töpuðu stríðinu, Það hafi fyrst og fremst verið þjóðverjar og svo sjálfstætt fólk. 

Það fer framhjá fáum sem setja sig inn í staðhætti að hin þekkta íslenska skáldasaga, sem þýdd hefur verið á fjórða tug tungumála, gerist á Jökuldalsheiðinni. Fleira en ferðlag Bjarts í Sumarhúsum á hreindýrstarfi yfir Jökulsá á heiði staðfestir tengsl sögunnar jafnt við staðhætti sem og þjóðsöguna. Í sögubyrjun má með góðum vilja sjá glitta í Hjaltastaðafjandann og þegar á líður verður ekki betur séð að Eyjaselsmóri ríði röftum á ærhúsinu í Sumarhúsum, þannig að Halldór hefur verið búin að kynna sér mögnuðustu þjóðsagnir á Héraði og flytja þær upp á Jökuldalsheiði. Þó eru sennilega fáir bókmenntafræðingar  tilbúnir til að kvitta undir það að Sjálfstætt fólk sé í reynd sannsöguleg skáldsaga sem gerist á heiði austur á landi. Þeir hafa flestir hverjir kappkostað að slíta söguna upp með rótum til að lyfta henni á æðra plani, meir að segja talið sögusvið hennar hafa allt eins orðið til í Kaliforníu. En í þessu sem og öðru, er sannleikurinn  oft lyginni líkastur um það hvar heimsborgarana er að finna.

Halldór Laxness ferðaðist um Austurland haustið 1926 og fór þá meðal annars um Jökuldalsheiðina og gisti í Sænautaseli. Halldór skrifar af þessu tilefni greinina „Skammdegisnótt í Jökuldalsheiðinni“, sem birtist fyrst í Alþýðublaðinu í mars 1927. Þar segir m.a.; "Það var ekki sjónarmunur á kotinu og jöklinum; samferðamenn mínir hittu á það með því að að fylgja sérstökum miðum. Við geingum mörg þrep niðurí jökulinn til að komast inní bæardyrnar. Baðstofukytran var á loftinu, niðri var hey og fénaður. Hér bjó karl og kerlíng, sonur þeirra og móðir bónda, farlama gamalmenni. Bóndinn átti nokkrar kindur, en hafði slátrað einu kúnni til þess að hafa nóg handa kindunum. Hann sagði að það gerði minna til þótt fólkið væri mjólkurlaust og matarlítið, aðalatriðið væri að hafa nóg handa kindunum. -Fólkið í heiðinni dró fram allt það besta handa ferðalöngunum: Við fengum soðið beljukjöt um kvöldið og soðið beljukjöt morguninn eftir, kaffi og grjótharðar kleinur". Einnig þótti Halldóri það kindugt að húsbóndinn hafði helst áhuga á að vita hvort góðar afréttir fyrir sauðfé væru á Ítalíu, þegar til tals kom að víðförull heimshornaflakkari var á ferð í Sænautaseli. „Ég var því miður ekki nógu menntaður til að svara þessari spurningu eins og vert hefði verið“, eru lokaorð skáldsins í greininni.

IMG_1811

Sænautasel við Sænautavatn; bærinn var byggður 1843 í honum var búið til 1943, ef frá eru talin 5 ár vegna Dyngjufjallagoss

Það eru reyndar til munnmælasögur þess efnis að Halldór hafi dvalið lengur í Sænautaseli en þessa einu skammdegisnótt og þegar saga heiðarbýlanna er skoðuð má finna marga atburði í sjálfstæðu fólki sem gerðust á öðrum heiðarkotum. Sumarið 1929 skrifaði Halldór uppkast að sögu um íslenskan bónda sem býr á afskekktri heiði. Þetta er fyrsta gerð skáldsögunnar Sjálfstætt fólk. Halldór las úr þessari frumgerð sinni fyrir vin sinn, Jóhann Jónsson, í Leipzig vorið 1931 og þóttist ætla að fleygja henni. Jóhann harðbannaði honum það og sagði að þetta væri það besta sem hann hefði skrifað. Svo merkilega vill til að bóndinn og aðalpersónan í þessari frumgerð Sjálfstæðs fólks hét einmitt Guðmundur Guðmundsson, eins og gestgjafinn í Sænautaseli sem bauð Halldóri upp á beljukjöt „Skammdegisnótt í Jökuldalsheiðinni“.

Hvernig Nóbelskáldið lætur „Sjálfstætt fólk“ líta út samkvæmt sinni heimsmynd hefur sjálfsagt mörgum sviðið sem upp ólust í „Sumarhúsum“ Jökuldalsheiðarinnar. Skúli Guðmundsson sonur Guðmundar Guðmundssonar í Sænautaseli, af seinna hjónabandi og því ekki fæddur þegar Halldór var á ferð, hefur gert heiðinni ítarleg skil í ræðu og riti. Um mismunandi áhuga föður síns og heimshornaflakkara á búskaparháttum úti í hinum stóra heimi hefur Skúli þetta að segja.

"Það mun láta að líkum að bændur þeir sem bjuggu á Jökuldalsheiðinni, eins og bændur annars staðar á landinu, muni jafnan hafa skeggrætt um tíðarfarið og fénaðarhöldin er þeir hittust. Einnig eru til heimildir um að þeir muni jafnvel hafa leitað tíðinda varðandi þetta áhugamál sitt, ef svo bar við að til þeirra komu menn lengra að, og jafnvel frá fjarlægari löndum. Hins vegar er það öldungis óljóst hvort svoleiðis ferðagarpar hafi haft svör á reiðum höndum varðandi afkomu bænda í öðrum heimshlutum. Trúlega mun þeim hafa verið ýmislegt annað hugstæðara heldur en hvort einhverjir bændur skrimtu á kotum sínum þar eða hér. Undantekning mun þó e.t.v. hafa verið á þessu, og hugsanlega munu ýmsir hafa haft áhuga á basli þessara manna – a.m.k. ef þeir eygðu möguleika á að notfæra sér nægjusemi þeirra sjálfra sér til frægðar og framdráttar." (Múlaþing 20 árg bls. 185-186)

 IMG_4022

Afréttalönd heiðarinnar eru hvoru tveggja, hrjóstrug og grasgefin, snjóþung og köld á vetrum, en hitinn getur auðveldlega farið í 20-25°C margann sumardaginn eins og svo víða á heiðum austanlands

Hverúlantar samtímans láta oftar en ekki ljós sitt skína við að atyrða persónu Bjarts í Sumarhúsum, með speki sinni upplýsa þeir að í honum sé allt það versta að finna. Honum er lýst sem einyrkja sem þverskallast við að halda sjálfstæði, sem megi myndgera í heimsku heillar smáþjóðar, kvennaböðli sem hélt konu og börnum í ánauð. Jafnvel hefur verið svo langt gengið að ætla honum barnaníð að hætti nútímans. En þó verður ekki annað skilið af skrifum þeirra sem ólust upp á meðal sjálfstæðs fólks í Jökuldalsheiðinni, en að þar hafi æskan átt sér góðar minningar. Margir seinni tíma menntamenn hafa lagt þetta út á allt annan hátt. Meir að segja verið haldin málþing um barnaníðinginn Bjart í Sumarhúsum og finna má hjartnæmar greinar frá guðfræðingum um ofbeldisfaðirinn Bjart.

Þann 19. nóvember 2014 var fjölmenni í Stúdentakjallaranum þar sem fram fór málþing um Sjálfstætt fólk sem var jólasýning Þjóðleikhússins það árið. Þar var Bjartur í Sumarhúsum gerður að barnaníðing, sem hafði haldið konum sínum í stofufangelsi, af hverjum sérfræðingnum á fætur öðrum. En til þess að finna barnaníð Bjarts stað þurfti að vísu að draga söguna inn í hugarheim hámenntaðra greininga nútímans því hvergi er minnst á barnaníð Bjarts í sögunni sjálfri, nema þá hve samfélagið var harðneskjulegt í fátækt þess tíma sem sagan gerist. Að vísu upplýsti Illugi Jökulsson á málþinginu að hann hefði átt blaðaviðtal við Nóbelsskáldið á sínum tíma þar sem hann hefði næstum því upplýst þetta leyndarmál aðalsögupersónunnar, en hann hefði bara ekki þorað að hafa það eftir skáldinu í blaðinu á sínum tíma.

Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir og Bjarni Karlsson skrifa sameiginlega jólapostillu í vefritinu Trúin og lífið þar sem þau ferðast 2000 ár aftur í tímann og bera Bjart í Sumarhúsum saman við Jósef fósturföður Jesú Krists, og finnst þar ólíku saman að jafna, þar sem þau segja að Jósef hafi flúið til Egiptalands með konu og barn undan ranglæti Heródesar en Bjartur þrjóskast við í heiðinni með fjölskyldu sína og var varla ærlegur við neinn nem tíkina sem var honum algjörlega undirgefin. Þau segja; „Sjálfstætt fólk er saga um óhlýðni við lífslögmálið, saga af hörmung þess rangláta hugarfars þegar hundsaugun eru valin umfram augu barnsins“. Ekkert fer fyrir vangaveltum, í postillu þeirra prestanna, um það hvar Jósef hélt sig á meðan fóstursonurinn hékk á krossinum. Hvað þá endalokum bókarinnar, Sjálfstætt fólk, þar sem Bjartur brýtur odd af oflæti sínu, eftir að hafa misst Sumarhús á nauðungaruppboði ásamt aleigunni, og bjargar Ástu Sóllilju, þar sem hún var komin að því að geispa golunni í heilsuspillandi greni í nábýli siðferðilegs hugarfars, til þess að byggja henni og börnum hennar líf í draumalandi þeirra á heiðinni.

IMG_3908

Í sumarhúsum heiðarinnar eru ævintýri að finna fyrir börn á öllum aldri

Björn Jóhannsson fyrrum skólastjóri á Vopnafirði gerir búsetu sinni á Jökuldalsheiðinn skil í bókinni frá Valastöðum til Veturhúsa. En í Veturhús koma Nóbelsskáldið og gætu þau einmitt verið kveikjan að Sumarhúsa nafngift sögunnar, miðað við staðhætti. Björn bjó á Veturhúsum um tíma, næsta bæ við Sænautasel, samt eftir að Halldór var þar á ferð. Björn hefur þetta að segja; „Á yfirborðinu yrði þó saga Heiðarbúana lík, en hún yrði jöfnum höndum saga andstreymis og erfiðleika, búsældar og bættra kjara. Margsinnis hafa verið lagðar fyrir mig eftirfarandi spurningar: -Var ekki voða leiðinlegt að vera í Heiðinni? Kom nokkurntíma maður til ykkar. –Þessum spurningum og öðrum slíkum hef ég svarað sannleikanum samkvæmt. En sannleikurinn var sá, að þó okkur væri ljóst að staðurinn væri ekki til frambúðar, hvorki vegna barnanna né heldur vegna einangrunar, ef veikindi bæri að höndum, held ég þó að hvorugt okkar hafi fundið til leiðinda. Hitt er svo annað mál, og kemur ekki leiðindum við, að við fórum þaðan strax og önnur betri atvinna bauðst, enda hafði ég aldrei ætlað mér að leggja kennarastarfið algerlega á hilluna.“

IMG_3968

 Rústir Heiðarsels við Ánavatn en þar var Hallveig Guðjónsdóttir fædd og uppalin. Hún bjó síðar Dratthalastöðum á Úthéraði. Hallveig segir þetta af sínum grönnum í Sænautaseli í viðtali við Gletting 1995. "Sögufrægt er, þegar Halldór Laxness gisti eina skammdegisnótt í heiðarbýlinu Sænautaseli. Þá hafði staðið óvenju illa á hjá hjónunum í Seli og Guðmundur varla nógu birgur af heyjum þetta haust, og tók það ráð að fella kúna, til þess að vera öruggur með féð, en kýrin var orðin geld, gömul og kálflaus. Mér finnst Laxness fara ómaklega með þetta litla heimili, sem veitti þó allt það besta sem handbært var".

Það sem hefur komið okkur Matthildi minni mest á óvart er að í friðsæld heiðarinnar höfum við fundið miðpunkt alheimsins, okkur hefur meir að segja ekki komið til hugar að fara til sólarlanda eftir að við uppgötvuðum sumarhúsin rétt við bæjardyrnar, ekki einu sinni séð ástæðu til að fara í Þjóðleikhúsið í sjálfum höfuðstaðnum til að uppfæra okkur smávegis í  borgaralegri heimsmenningu. Enda hefur ekki þurft að fara langt til að njóta sólar og hitta auk þess afkomendur heimsmannsins, hennar hefur mátt njóta og þá hitta ókrossfesta á götum heimabæjarins.

Það hefur löngum verið einkenni íslensku hópsálarinnar að atyrða þá sem sjálfum sér eru nógir. Upp á síðkastið hefur þess sést stað í því hverjir teljast nægilega menntaðir fyrir flóknar aðstæður, jafnvel er svo langt seilst að ungt minna menntað fólk hefur ekki mátt hafa uppi einföld skilaboð um hvað til gagns megi verða fyrir þeirra jafnaldra. En í því sambandi má segja að heimsmaðurinn í Sumarhúsum hafi verið á undan sinni samtíð, og af þeirri gerð sem benti á það aldeilis ókeypis, með þögninni í kyrrð heiðarinnar, að "þú ert nóg".

IMG_3974

Að endingu selfí og pikknikk


Grímsey 66°N

Grímsey

Það þarf oft ekki langan aðdraganda að góðu ferðalagi. Reyndar eru bestu ferðalögin sjaldnast plönuð þau bara verða til á leiðinni. Í síðustu viku var ég spurður hvort við hjónin vildum út í Grímsey, svarið varð að liggja fyrir 1, 2 og 3 því sá sem spurði var með tvo síma í takinu og í hinum var verið að ganga frá bókun í bát og gistingu. Auðvitað varð svarið já, og þó svo spáin væri ekki góð þá kom aldrei annað til greina en að ferðaplanið væri gott. Að vísu hafði ég lofað mér í steypuvinnu í vikunni, og samkvæmt plani veðurfræðinganna var steypudagur ekki fyrr en á fimmtudag, en það var akkúrat dagurinn sem planið var að sigla út í Grímsey. Svo klikkaði veðurspáin og steypt var s.l. á þriðjudag þannig að ég hafði ekki lofað neinu upp í ermina.

Fimmtudagsmorgunninn rann svo upp bjartur og fagur á Dalvík þvert ofan í nokkurra daga veðurspána, en það er frá Dalvík sem Grímseyjarferjan Sæfari gengur. Það tekur um 3 tíma að sigla út í Grímsey og var útsýnið af dekkinu magnað á svona björtum degi. Þegar komið er út fyrir Hrísey blasti Látraströndin við til hægri og Ólafsfjarðamúlinn til vinstri og eftir að komið er út úr Eyjafirðinum sást inn í Fjörðu á milli Skjálfanda og Eyjafjarðar, austur með landinu allt austur á Melrakkasléttu og vestur með því eins og augað eygði. Og þó svo að maður hafi ekki upplifað glampandi kveldsólareld þá var gott að sleikja morgunnsólina á Grímseyjarsundi.

IMG_9852

Á Grímseyjarsundi Ólafsfjarðarmúli og Ólafsfjörður fyrir miðri mynd

Þegar út eyju var komið þá fóru ævintýrin að gerast. Óvænt var tekið á móti okkur af Göggu eiganda gistihússins á Básum og okkur keyrt í gegnum þorpið út í iðandi kríugerið, en ef einhver man ekki hvernig kría lítur út þá ætti hann að fara til Grímseyjar og þá mun hann aldrei gleyma hvernig kría er útlits. Gagga gaf okkur ótal heilræði varðandi hvað væri áhugvert í eynni s.s. gönguleiðir út og suður, hvar Emilíuklappir væru, bauðst til að lána okkur bíl ef fæturnir væri lúnir ofl. ofl.. Eins gaf hún okkur örstutta innsýn í líf fólksins og sagði "það er gott að þið komuð á meðan þetta er ennþá eins og það er" en þeim fækkar "originölunum" sem eru í Grímsey árið um kring.

Þó svo plönuð hafi verið í Sæfara stutt hvíld þegar komið yrði á gistihúsið að Básum, varð ekkert úr því enda upplýsingar Göggu þess eðlis að betra væri að sitja ekki heima og lesa. Ég varð viðskila við samferðafólkið í þorpinu þar sem er verslun, veitingastaður, mynjagripaverslun og kaffihús, auk þess sem þennan dag voru hundruð ferðamanna á götunum úr erlendu skemmtiferðaskipi sem lá rétt utan við höfnina. Ég tók strikið austur í kríugerið og ákvað að komast á Emilíuklappir. Eftir að hafa fundið þessa náttúrusmíð neðan við stuðlabergsstapann og mátað mig á gólfið með rituna gaggandi upp á hamraveggjunum, áttaði ég mig á því að samferðafólkið myndi ekki hafa hugmynd um hvað um mig hefði orðið.

IMG_0178

Krían er áberandi í Grímsey á sumrin, sumir innfæddir segjast vera búnir að fá nóg af söngvunum hennar

Eftir svolítinn tíma birtist félagi minn á rölti eftir bakkanum, um sama leiti renndi að okkur pickup í háu grasinu og mikilúðlegur maður spurði hvaða erindi við ættum hér. Hann væri kominn í umboði eigenda landsins til að rukka okkur um skoðunargjald. Svo hló hann tröllahlátri og spurði hvort ekki mætti bjóða okkur í siglingu í kringum eyjuna, veðrið væri ekki til að spilla útsýninu af sjó, upp í björgin. Við þáðum það, en sögðumst þurfa að finna samferðafólkið og koma því með okkur í siglinguna. Eftir að hópurinn hafði sameinast göngulúinn og fótafúinn var skakklappast af stað en hvíldarpása tekinn á kirkjugarðsveggnum.

Siggi, sá sem til siglingarinnar hafði boðið, kom þá keyrandi og selflutti hópinn niður á bryggju þar sem klöngrast var um borð í Sóma hraðfiskibát. Síðan var allt gefið í botn út úr höfninni, skemmtiferðaskipið hringsiglt, og haldið ausur með Grímsey, tekin salíbuna með mannskapinn súpandi hveljur á milli skerja, gónt upp í himinhá björgin þar sem Bjarni faðir Sigga háfaði lundann, orðinn 88 ára gamall. Rollurnar ferðuðust um bjargbrúnirnar eins og þar væru engar lundaholurnar, en sá fugl raðar sér í hvert barð allt í kringum eyjuna. Þessi sigling tók öllum sólarlandaferðum fram þó svo að farið hafi verið norður yfir heimskautsbaug.

IMG_0033

Undir fuglabjörgunum

Þegar í land var komið þökkuðum við Sigga fyrir siglinguna með handabandi og kossi, eftir því hvort var viðeygandi, því ekki var við það komandi að koma á hann aurum. Á eftir var farið á veitingahúsið, sem ber það frumlega nafn Krían en ekki The Arctic Tern eins og er í móð á meginlandinu. Þar var snæddur listilega steiktur lundi, nýlega háfaður og snúinn, eftir því sem matseljan upplýsti aðspurð. Eftir matinn var skakklappast út í gistihúsið að Básum enda viðburðaríkur dagur gjörsamlega að niðurlotum kominn.

Morguninn eftir vaknaði ég fyrir allar aldir til að taka sólarhæðina í kríuskýinu. Við morgunnverðar borðið spurði Gagga hvort fótafúinn hópurinn vildi ekki bíl til að komast langleiðina norður á eyjuna að kúlunni sem markar hvar 66°N liggur. Það var þegið og þá var farin sú ferð sem flestir sem koma til Grímseyjar telja tilgang ferðarinnar, þ.e. að eiga mynd af sér á heimskautsbaug og skjal sem staðfestir komuna þangað.

IMG_9933

Horft til lands frá kirkjugarðinum

Flestum dugar þeir örfáu klukkutímar sem Sæfari stoppar í hverri ferð út í Grímsey til að skottast út að heimskautsbaug. En ekki var það svo með okkur fótafúnu vesalingana frekar en með danska parið sem var á gistihúsinu um leið og við. Þau höfðu komið í fyrra og fattað að ekki væri þess virði að leggja á sig þriggja tíma ferð til Grímseyjar fyrir heimskautsbauginn einann, jafnvel þó því fylgi skjal og selfí. Því höfðu þau komið aftur þetta sumarið til upplifa eyjuna í eina viku. Enda,,, ef þessu væri snúið við,,, hver leggur á sig þriggja tíma flug til Kaupmannhafnar fyrir selfí á Ráðhústorginu, og svo spretthlaup í næstu flugvél til baka.

Þó svo að í upphafi viku hafi ekkert ferðalag staðið til þá breyttust planið með hverjum degi þar til komið var norður fyrir 66°N. Áður en Grímsey var kvödd, eftir  örstutta heimsókn, þá fengum við enn frekar að njóta höfðinglegra móttöku heimafólks, okkur var boðið í kaffi og kökur á Grímseysku heimili, því smá tími gafst þar til Sæfari sigldi til lands. Þegar eyjan var kvödd rann í gegnum hugann hversu original gamla íslenska gestrisnin er, og hversu vel hún lifir út í Grímsey, það er engu líkara en eyjaskeggjar séu ósnortnir af ferðamannaiðnaði nútímans, gangi það eitt til að sýna áhugasömum eyjuna sína fögru með væntumþykju og stolti. 

 IMG_9881

Höfnin í Grímsey

 IMG_0165

Vitinn úti við nyrsta haf

IMG_9918

Ritubjargið og Emilíuklappir

 66°N

Á norður- og austurströnd Grímseyjar eru há björg, en suður- og vesturströndin er lægri  

IMG_0112

Áður fyrr voru 10 býli í Grímsey, hvert býli átti sitt fuglabjarg. Nú hafa verið settir staurar sem afmarka björgin því engin vissi nákvæmlega hvar mörkinn lágu, nema hinn 88 ára gamli öldungur sem enn háfar lundann í sínu bjargi 

 Lundar

Lundinn raðar sér á allar bjargbrúnir

 Krummi

Krummi krúnkaði á Básabjargi, Grímsey er hæst 105 m 

IMG_0104

Ó jú, víst komumst við norður fyrir kúlu


Út á landi í svörtum sandi

Þó að ferðlög séu oft tengt sumarfríi þá þarf svo alls ekki að vera. þetta sumarið hefur verið þannig veðurfarslega vaxið að ekki hefur verið ástæða til að ferðast um langan veg innanlands hvað þá til útlanda. Eins og svo oft áður hefur sumarfríinu verið varið austanlands. Þá er gott að eiga aðgang að ævintýralandinu Útlandi, eigra um svört sundin á milli eyja þar sem aldan blá blikaði áður fyrr. Sund sem nú eru full af svörtum sandi og melgresishólum.

IMG_1431

Djúpivogur við enda regnbogans

Undanfarna áratugi hef ég notið ævitýralandsins sumar sem vetur, og meðan ég bjó á Djúpavogi þurfti ég ekki annað en fara rétt út fyrir dyrnar. Nú í seinni tíð hafa ferðamenn uppgötvað þetta undraland, og ég að ævin endist ekki til að fullkanna það. Ég ætla reyna að segja í örstuttu máli og með fáeinum myndum frá ævintýralandinu sem kallað er Útland, en að fara "út á land" af innfæddum, það eru eyjar í svörtum sandi syðst á Búlandinu þar sem þorpið á Djúpavogi stendur.

Í þessum sandeyjaklasa má finna Orkneyjar, Hrísey, Úlfsey, Hvaley, Sandey, Hafnarey, Kálk og Kiðhólma svo einhverjar séu nefndar á nafn. Þessar fyrr um eyjar hafa sennileg verið taldar til Þvottáreyja á öldum áður. En eru nú orðnar landfastar við Búlandið sem gengur á milli Hamarsfjarðar og Berufjarðar. Ekki eru nema 100-150 ár síðan að það þurfti að sigla á milli flestra þessara eyja.

Stækka má myndirnar með því að klikka á þær.

Út á landi

Á flugi með Stefáni Scheving um borð í TF-KHB í mars s.l.

Nú nær sandrif sunnan úr Álftafjarðarfjörum þvert fyrir Álftafjörð og eru hinar eiginlegu Þvottáreyjar orðnar örfáar í minni Hamarsfjarðar, s.s. Eskey, úti í hafinu eru svo aðrar eyjar, Ketilboðaflis og Papey, sem verður sennilega langt í að verði sandinum að bráð. Eyjarnar Stórey, Kjálki, Hróðmundarey og Hundshólmi eru nú orðnar landfastar sandrifinu Álftafjarðar megin en Hamarsfjarðar megin á Búlandinu eru flestar eyjar landfastar, einungis blá sund eftir á milli skerja og boða. 

Það er ekki lengra síðan en um 1600 sem aðalhöfnin á Búlandinu var Fúlivogur sem Brimar kaupmenn höfðu á sínum vegum. Siglt var inn í Fúlavog úr minni Hamarsfjarðar á milli innri og ytri Selabryggja. Árið 1589 fengu Hamaborgarkaupmenn kónginn í Kaupannahöfn til að veita sér verslunarleyfi á Djúpavogi við Berufjörð. Talið er að rentukamerið í Kaupmannhöfn hafi ekki áttað sig á að þarna var um sama staðinn að ræða og bjuggu því íbúar í nágrenni Djúpavogs við fágæta samkeppni í verslun um það leiti sem einokunarverslun hófst á Íslandi.

IMG_9360

Selabryggjuhólmar séðir frá flugvellinum

 

IMG_9341

Þar sem áður voru blá blikandi sund á milli eyja

 

IMG_9313

Svartur sandur, blikandi haf og Ketilboðaflis

 

IMG_9319

Stólpar á milli Sandeyjar og Kálks, Kálkur í baksýn

 

IMG_1467

Gengið upp á Sandey, greina má klettótta strönd Úlfseyjar í baksýn, og Strandafjöllin við norðanverðan Berufjörð

 

IMG_6723

Það skiptir ekki máli hvort ævintýralandið, út á landi, er skoðað sumar eða vetur; í þoku eða krapaéljum, alltaf er eitthvað skemmtilegt að sjá s.s. hreindýr við hústóft í Hrísey

 

Í minni Hamarsfjarðar á milli örfárra núverandi Þvottáreyja fer útfallið úr Álftafirði og Hamarsfirði, á fallaskiptum flóðs og fjöru. Straumurinn á fallaskiptum er líkur stórfljóti svo víðfeðmir eru þessir firðir.  Vegna þessa straumþunga hafa Álftafjörður og Hamarsfjörðu ekki enn orðið að stöðuvatni. Á myndbrotinu hér á eftir má sjá æðarkollurnar skemmta ungunum sínum í straumþungu útfallinu í Holusundi við Kiðhólmann.

 

ornefni_utland_small

Hér má nálgast kort af Útlandi. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband