Færsluflokkur: Ferðalög

Síðasta sumarið í sæluríkinu

Það hefur sjálfsagt farið fram hjá fáum, sem líta reglulega hér inn, að á þessari síðu lætur steypukall móðan mása og telur sig eiga því láni að fagna að hafa ekki lent í lokaritgerðinni.

Kannski finnst ekki öllum þeir vera fæddir undir þeirri heillastjörnu að staður og stund tilheyri þeirra hjartans þrá og þurfa því á öllu sínu sumarfríi að halda.

Það á samt ekki við þegar ævistarfið verður til út frá leikjum bernskunnar þar sem kofasmíði breyttist í launaða vinnu við varanleg minnismerki í formi húsa.

Síðuhöfundur hefur verið í algjöru sumarfríi og hafa pistlarnir undanfarnar vikur borið þess merki og þessa dagana er gamli sorrý Cherokee þar að auki haltur.

Til að ljúka sumarleyfis hjali þetta árið þá ætla ég að setja hér fyrir neðan video frá síðasta sumrinu í sæluríkinu, þar sem frístundunum var varið á Harstad Camping.

Í dag eru akkúrat sjö ár síðan, þeir sem vilja söguna geta lesið hér.

 


Heyannir

IMG_7838

Það hefur færst í vöxt að fyrirsagnir séu innihaldslausar blekkingar. Engu líkara en að þær eigi að plata fólk til að lesa eitthvað sem það hefur ekki nokkurn áhuga á, þetta vill síðuhöfundur forðast í lengstu lög. Þess vegna ætti fyrirsögnin alltaf að varða veginn að innihaldinu, jafnvel þó þvælin langloka sé, lík heyi í harðindum sem farið hefur úr böndunum. 

Heyannir er tíundi mánuður ársins og fjórði sumarmánuður, samkvæmt gamla norræna tímatalinu, þegar miðað var við ársbyrjun 1. vetrardag. Heyannir hefjast alltaf á sunnudegi eftir aukanætur á miðju sumri, eða á tímabilinu 23. til 30. júlí. Heitið heyannir vísar til mikils annatíma í sveitum. Mánuðurinn sjálfur, eða nokkur hluti hans, mun einnig hafa borið nafnið miðsumar samkvæmt gömlum heimildum.

Hver mánuður taldi 30 daga í gamla tímatalinu því gengu þeir ekki upp í sólárið. Síðasti mánuður, Sólmánuður, hófst 22. júní, Heyannir hefðu samkvæmt því átt að hefjast 22. Júlí en sá mánuður hefst hinsvegar í dag 26. júlí. Mismunur á milli sólarársins og daga mánaðanna var jafnaður um miðsumar með aukanóttum, stundum kallaður sumarauki eða sumarnætur, sem gátu verið mismargir sólarhringir eftir því hvernig tímatalið var reiknað, eins og sjá má í þætti Gísla Hallgrímssonar um íslenska tímatalið í bók hans Betur vitað.

Svo lýsir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal mánuðinum í riti sínu, Atli frá árinu 1780: Nafn þessa mánaðar sýnir hvað þá skal iðja. Því nú er komið að því ábatasamasta verki hér á landi, sem er að afla heys, og meta það flestir menn öðrum framar. Sláttur byrjar venjulega að miðju sumri. Vökva menn plöntur einu sinni í viku, með sjóvatni en öðru vatni annars, ef miklir þurrkar ganga. Nú má safna Burkna, hann er góður að geyma í honum vel þurrum egg, rætur og epli, sem ei mega út springa, hann ver og mokku og fúa. Líka hafa menn brúkað ösku í hans stað. Kornsúru og kúmeni má nú safna. Mitt í þessum mánuði er sölvatekjutími.

Svona vegna þess að tíðarandinn býður ekki lengur upp á heyannir hjá megin þorra landsmanna, sem þessa dagana flækist um landið, þá ætla ég að segja sögu af tíðarandans toga um afmælisgjöfina hennar Matthildar minnar. En þannig var að Matthildur minntist á það fyrir nokkrum dögum að hana langaði til að fara Lónsheiði, fjallveg sem fara þurfti þegar Djúpavogsbúar fóru á Höfn í Hornafirði áður en vegurinn um Þvottár- og Hvalnesskriður kom til sögunnar. "Hvað er þetta manneskja langar þig núna Lónsheiði, veg sem þú hefur ekki farið síðan þú varst átján", -en vegurinn var aflagður 1981.

Kvöldið fyrir afmælisdaginn staglaði ég mig í gegnum fésbókina og sá þá þar lesningu með tilheyrandi myndum frá vöskum vini, sem sagðist hafa farið með frúna sína yfir Lónsheiði þann daginn, og ekki verið nokkurt mál. Þannig að ég bauð Matthildi morguninn eftir að aka henni yfir Lónsheiði í afmælisgjöf.

Þegar við komum að heiðinni mundi hvorugt okkar hvar hefði verið farið upp frá Álftafirði, þannig að við spurðumst fyrir á Starmýri I og II, og var á báðum bæjum eindregið ráðið frá þessari háskaför. En samt bent á að leifarnar af veginum væru á bak við heyhlöðuna. Við létum samt ekki segjast og vildum fá að kíkja á bak við hlöðu og aka stuttan spöl inn í dal til að rifja upp gömul kynni áður en við snérum við, -sem var auðsótt mál.

Er við vorum komin nógu langt til að sjá eftir veginum upp á hæðstu brún ákváðum við að fá okkur kaffi og snúða, snérum svo við. Vegurinn átti hvort eð var að vera ófær öðrum en torfærutröllum við brúna í Traðargili, sem er ofarlega Lónsmegin. Því fórum við um Þvottár- og Hvalnesskriður yfir í Lón og upp að Traðargili þeim megin og höfðum þá farið fram og til baka Lónsheiði, -ef svo má segja-, til að sjá upp á topp báðu megin, án þess að fara yfir heiðina.

Þá var afmælisdagurinn rétt hálfnaður og sól í Lóni. Við dóluðum suður á bóginn snuddandi um Höfn, Jökulsárlón og Öræfi; enda engin ástæða til að fara austur í dumbunginn heima, og þessi afmælisdagur ekki nærri að kvöldi kominn. Við rásuðum suður fyrir Vatnajökul, settum niður tjaldhæla á Klaustri, síðan upp með Vatnajökli að vestan sitt hvoru megin við Skaftá næsta dag. Höfum nú séð  Laka, Eldgjá, Fjaðrárgljúfur, auk þess að keyra í gegnum Meðalland. Stórbrotin hamfarasvæði í heyanna sögu þjóðarinnar, nú með túristanna "Justin Bieber selfy fast track" hörmungum við malbikaðan þjóðveg eitt í bland.

Ég vaknaði svo upp í tjaldinu okkar kl. 4 á þann 3. í afmæli, ranglaði áttavilltur út í morgunnþoku um Eldgjárhraunið eins og dolfallinn álfur, þar var ekki beint heyskaparlegt. Áður en ég treysti mér til að spyrja Matthildi mína hvort hún ætlaðia virkilega að sofa í allan dag og segja henni heyskaparhorfur; að það væri komin súld á tjaldið og þar að auki væri afmælisdagurinn löngu liðinn. Hún varð ekki jafn hrifin af tíðindunum og afmælisgjöfinni, en samþykkti þó með semingi að halda austur í áttina heim.

Það er engin leið til að lýsa vettvangi eldsumbrota og móðuharðinda með orðum, sem nú fara með ábátasamara hlutverk í lífi landsmanna en heyannir, -og jafnvel sjálf sólin, það verður hver að sannreyna á eigin skinni rétt eins og hörmungar fyrri alda. En ég læt hér fylgja með myndir ásamt stuttum fyrirsögnum.

IMG_8156

 Sá suður fyrir sól og mána,

IMG_8093

 svarta sanda,

IMG_8234

 mjúkan mosa,

IMG_8114

 sólu sorta,

IMG_8152

 í skýja hroða

IMG_8208

  , , hraun til að skoða

IMG_8223

 , , , og þig um gengna götu ganga

IMG_8293

  grasið græna.

IMG_8232

 Trúir þú nú álfasögum?


Leiðin á Landsenda

Leiðin á Landsenda

Þessa dagana brunar margur landinn "fast trac selfy road trip" með hólhýsið dinglandi aftan í druslunni og reiðhjólin, eða kajakana, flækta í toppgrindinni nema hvoru tveggja sé. Og ríkisstjórnin lofar öflugri innspýtingu  vegaframkvæmda upp á áður óþekkta milljarða til að létta 8.700 hlutabótaþegum lundina eftir sumarfrí í samvinnu við fjárfesta. Og það jafnvel þó svo að ekki sé hægt að finna innlendar vinnandi hendur í helming þeirra framkvæmda sem nú þegar eru í gangi í landinu, samkvæmt þeim sem best til þekkja. Þetta á víst að vera til að slá á atvinnuleysið hjá fábjánum með frábærar hugmyndir.

Það skal semsagt efna til fjárplógsstarsemi fyrir fjárfesta og auðnuleysingja á kostnað ferða almennings, jafnvel innan eigin sveitarfélags. Er þetta kallaða innviðauppbygging af flissandi fyllibyttum og auðrónum. Verklausir fræðingar ásamt kennitöluflökkurum kætast svo handlama yfir öllu saman því hægt er að auka innflutning vinnandi handa með þóknun ofan á hlutabætur og 25.000 kall á tímann. Og eru þetta hreinir smáaurar úr vösum almennings við að keyra upp hagvöxtinn að teknu tillit til þess sem þarf að borga malbikuðum Rúmenum í miðju kóvítinu. Það liggur við að manni detti í hug gamli frasinn; -"ertu á landinu".

Hvort vegagerðarframkvæmdir eigi að miða við hugvit sjálfhverfra samfélagsmiðlara er svo kapítuli út af fyrir sig. Gullni þríhyrningurinn sunnan heiða hefur hingað til verið talin einhver besti túristatrekkjarinn fyrir höfuðborgina. Þannig að höfuðstaður Norðurlands varð að fá sinn demantshring sem í eiga að glitra helstu náttúruperlur Norð-Austurlands; Goðafoss, Mývatn, Dettifoss, Hljóðaklettar, Ásbyrgi og hvalaskoðun á Húsavík. Um þetta svæði á fljótlega að vera hægt að bruna á dagparti. Helstu kostirnir við demantinn voru kynntir á þann veg af mannvitsbrekkunum, að hægt væri að fljúga norður að morgni og suður að kvöldi, sannkallað "fast trac selfy road trip", þar sem allir græða nema sérvitringarnir sem döguðu uppi úti í auðninni.

Í júní brunuðum við hjónin niður með Jökulsá á Fjöllum einn eftir miðdag. En fyrir sex árum síðan fórum við niður með Jökulsá að austanverðu að Dettifossi áfram niður í Ásbyrgi og enduðum fyrri daginn í Vesturdal við Hljóðakletta. Síðari daginn fórum við upp með Jökulsá að vestanverðu að Dettifossi og þaðan í Námaskarð. Við urðum dagþrota báða dagana því þetta var sannkallað "safari jurney" í rykmekki og þvottabrettisins glímu við þjóðveginn, hina grýttu braut, -samt hverrar holu virði. Núna í júní var þetta meira skottúr á milli hápunkta og fyrir ofan Hljóðakletta er verið gera hringtorg svo allra stystan tíma taki að skanna pleisið og jafnvel hægt að taka af sér selfí út um bílrúðuna á ferð, með Hljóðaklettum á.

Það stóð samt ekki til hafa þennan pistil um landsins gagn og nauðsynjar, en þetta flaug samt í gegnum hugann þegar ég vaknaði í gærmorgunn. Svo þegar ég leit út um eldhúsgluggann sá ég að það var sólskin úti á Landsenda. Þá fattaði ég að við Matthildur mín vorum bæði komin í sumarfrí þannig að ég bauð henni í gamaldags skottúr út í Jökulsárhlíð. Í ný útkominni bók Skúla Júlíussonar "101 Austurland - Gönguleiðir fyrir alla", hafði ég kynnt mér gönguleið út á Landsenda. En í þeirri bók eru margir laufléttar göngutúrar fyrir þá sem gefa sér tíma til að hossast leiðina án þess að vera með hugann við næsta fast trak selfí punkt. Bókin greinir meir að segja frá gönguleiðum sem hægt er að fara án sítengds snjallúrs.

Þegar við komum að skilti landeiganda um að öll umferð ökutækja væri stranglega bönnuð, eftir að hafa sikk sakkað malarveginn út Hlíð, lögðum við jeppanum og skakklöppuðumst af stað. Við höfðum ekki gengið lengi þegar við sáum sannkallaðan húsfjallabíl á erlendum númerum, sem hafði farið veginn alveg á enda þrátt fyrir strangt bann, -að vísu á kjarnyrtri íslensku. Þegar við gengum fram hjá sat frúin vel vöknuð úti við morgunnverðarborðið og horfði austur í sólina merla sjóinn og gera tíbrá á svarta Héraðssandana. Hún gaf sér samt tíma til að brosa blítt og segja "good morning" glaðlega í andaktinni, um leið og hún lýsti því yfir að hún væri stödd í paradís, -sem við náttúrulega vissum.

Að loknum óskum um góðan dag þá höktum við áfram rollugöturnar um fjörur, klettasnaga og bjargbrúnir. Matthildur jagaðist á því hvað svona ferðalag ætti eiginlega að þýða, hvað ég ætlaði að gera þegar hún hrapaði fyrir björg. Hvort ég ætlaði þá að hringja í neyðarlínuna og biðja um þyrlu Landhelgisgæslunnar. Ég sagði henni að hún gæti allavega hlakkað til þess  að fyrirsögn þeirrar fréttar yrði "Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti slasaða göngukonu á Landsenda", -mikið magnaðra yrði það varla.

Auðvitað komumst við léttilega alla leið á Landsenda og er engu um það logið í 101 bók Skúla að gönguleiðin er að mestu lauflétt fjörulall. Það er ekki fyrr en farið er í Þerribjörg, sem eru fyrir utan Landsenda, sem þarf keppnis göngufólk. En upplýsingar um þann göngutúr verða lesendur að verða sér úti um í bókinni um gönguleiðir fyrir alla sem er um miklu fleiri en 101 göngutúr, því hún hefur að geyma góðar upplýsingar á yfir 200 gönguleiðum á Austurlandi.

Landsendi og Þerribjörg eru við norðanverðan Héraðsflóa, utan við veginn þar sem farið er upp á Hellisheiði til Vopnafjarðar, í fjöllum sem í stórum dráttum heita Kollumúli og Múlakollar Héraðsmegin. Fjöldi annarra nafna eru á fjöllum í fjöllunum s.s. Landsendafjall og svo heita þau allt annað Vopnafjarðarmegin. Þessir fjöll eru úr ljósgrýti (líparít), og hengiflugin fyrir ofan Landsenda og Þerribjörg einstaklega tilkomumiklar. Þerribjörg hafa það víst fram yfir, að mér skilst, að vera bæði stærri og með fjöru fyrir neðan sem hægt er að spóka sig um.

Út af Kollumúla er Bjarnarey þar sem Jón lærði dvaldi á 17. öld ásamt konu sinni, tvö ár í felum fyrir íslenskum yfirvöldum. Þegar valdsmenn sóttust eftir að brenna Jón fyrir galdur, allt þar til að hann fór úr Bjarnarey til Kaupmannhafnar og fékk dóm íslenskra yfirvalda felldan úr gildi. Það dugði samt ekki Jóni til að fá að vera hvar sem var á Íslandi, því þegar hann kom aftur og sýndi yfirvaldinu fyrir sunnan sýknuna, vísaði það honum aftur austur á Hérað því það treysti sér ekki til að brenna hann í trássi við kónginn. Hann bjó svo hjá syni sínum Guðmundi presti á Hjaltastað í Hjaltastaðaþinghá til dauðadags.

Fyrr á öldum var líka búið á Landsenda og má því víða finna tóftarbrot. Talið er að búsetu hafi verið hætt þegar bjarndýr gengu þar á land. Á leiðarenda er gestabók, sem hægt er að rita nöfn sín í og fá stimpil um komuna þangað. Með gestabókinni fylgir sögulegur fróðleikur, s.s. samantekt um Eyjaselsmóra einn magnaðast draug sem upp hefur verið vakinn á Íslandi. Hann var pestardraugur sem  vakinn var upp af lyfjum á Ketilsstöðum, næsta bæ fyrir innan Landsenda, en flutti sig svo í Eyjasel sem er svolítið austar á Héraðssandinum. Hann fór hamförum í 150 ár. Drap bæði menn og skepnur, varð vart allt til 1930.

Leiðin á Landsenda er náttúruperlufesti sem er hverrar holu virði og þarf enga hagvaxna innviðaspýtingu, þar fer best á að leyfa sérvitringum að skakklappast áfram í friðsælli paradísinni.

 

IMG_7675

Landsendafjall; litskrúðugt ljósgrýtið er áberandi í fjöllunum sitt hvoru megin við svarta sandströnd Héraðsflóans 

 

IMG_7643

Séð inn Héraðið þar sem Kaldá fellur til hafs, og yfir Héraðssanda sem eru ættaðir úr Vatnajökli. Auk Kaldár falla þrjú stórfljót til sjávar í Héraðsflóa; Jökulsá á Dal, Lagarfljót og Selfljót

 

IMG_7696

Strandlengja Héraðssanda er hátt í 30 km löng og þar má finna ýmislegt í tíbránni, þarna er rekið stórhveli

 

 IMG_7663

Í ljósgrýtis björgunum leynist fjölskrúðugt fuglalíf

 

Á Landsenda

,,,og að sjálfsögðu selfí


Núpskatla 66°N

Rauðinúpur - Núpskatla

Einn af mögnuðum fjallgöngustöðum Íslands má finna við Núpskötlu á Melrakkasléttu. Þar er Rauðinúpur, sem er ekki hærri en Hallgrímskirkjuturninn. Kyngi staðarins felst því ekki í erfiðri fjallgöngu með hundruð metra hækkun á klukkustund, heldur einstöku útsýni með magnaðri upplifun. Enda rétt betra að til séu staðir fyrir þá sem eiga ekki snjallúr.

Um síðustu helgi settumst við hjónin upp í Cherokee frá því á síðustu öld og lögðum upp í ferð án fyrirheits. Þá voru sumarsólstöður þannig að við stefndum í víðsýni fjallanna svo hægt væri að sjá til sólar. Þennan ferðamáta höfum við oft haft áður, beygjum þá í átt að sólinni um leið og hún sést.

Stundum tökum við óvart beygju inn í þokuna aftur og er þá þreifað sig áfram eftir vegköntunum heim að kvöldi. En þegar við hittum á sólargeislann þá höfum við tjald aftur í Cherokee og gömlu fermingarsvefnpokana ef við skyldum vilja gista yfir íslenska sumarnótt sólarmegin í tilverunni. 

Þegar við komum upp á fjöllin s.l. laugardagsmorgunn var sólskinsblár himinn í hánorðri þannig að við dóluðum í þá áttina, niður með gljúfrum Jökulsár á Fjöllum út á Melrakkasléttu. Slógum  upp tjaldi á Kópaskeri og fengum okkur kvöldverð á meðan jörð skalf. Ég ránglaði um fjörur Kópaskersins yfir miðnættið en Matthildur sagðist ekki láta sjá til sín á svoleiðis nætur göltri og prjónaði heima við tjald á meðan í miðnætur andaktinni.

Fyrir kl. 4 pökkuðum við svo saman í glampandi sólskini og héldum út Sléttu í áttina að Rauðanúp. Við höfðum komið að Núpskötlu í fyrrasumar en ákveðið þá að fara ekki á Rauðanúp, þar sem þá var dagur að kvöldi kominn, því haldið inn í Ásbyrgi og tjaldað þar, en ætluðum að tölta á Rauðanúpinn í morgunnsólinni daginn eftir, en þá var svarta þoka yfir allri Sléttu.

Gangan á Rauðanúp var engu lík á þessum sólstöðu sunnudagsmorgni, það hvílir einhver helgi yfir staðnum.  Rauðinúpur er 73 m hátt bjarg á norðvesturhorni Melrakkasléttu, og er einn nyrsti oddi landsins, aðeins Hraunhafnartangi, litlu austar, er sjónarmun norðar og svo náttúrulega Grímsey. 

Rauðinúpur er eldfjall, sem gaus síðla á ísöld. Í rauðum björgunum er urmull af fugli. Tveir drithvítir drangar eru rétt út af núpnum, sá austari heitir Karl, en sá vestari Sölvanöf. Útsýni af núpnum niður á Karl og Sölvanöf er einstakt, því þar má sjá súlubyggð í návígi.

Fólkið á Núpskötlu, sem þar dvelur í sumarævintýrinu, á lof skilið fyrir að hafa ekki girt landið af úti við þjóðveg, en leifir þess í stað ferðalöngum að skoða þessa einstöku náttúruperlu. Rétt áður en komið er að Núpskötlu er hlið á veginum þar sem umgengnisreglur eru kynntar ásamt 15 km hámarkshraða, enda er keyrt í gegnum kríuvarp síðasta spölinn.

 

IMG_7427

 

IMG_7336

Horfnir atvinnuhættir eru í heiðri hafðir á Núpskötlu s.s. að safna rekavið

 

IMG_7360

Matthildur mín að komast á toppinn við hliðina á Karli. Það er kannski ekki alveg hægt að komast á háhæla skóm upp á Rauðanúp, en allt að því og snjallúr er óþarft

 

Súlubyggð

Það var mikið að gera hjá súlunni á Karli við að bera björg í bú og dásama tíðarfarið, ekkert kóvítis kjaftæði þar á bæ

 

IMG_7330


Sumarlandið Senja

IMG_0334

Það hafa sjálfsagt margir hugsað sér að láta kylfu ráða kasti þegar farið er út um þúfur þetta sumarið. Enda er það alltaf svo að það er ferðalagið en ekki áfangastaðurinn sem skiptir mestu máli þegar upp er staðið. Það þurfa ekki vera best völdu áfangastaðirnir  sem verða eftirminnilegastir. Síðuhafa kæmi ekki á óvart að einhverjir ættu eftir að upplifa ógleymanlegar stundir á ferð innanlands í sumar. Stundir sem ekki voru í bígerð fyrr en flest sund virtust lokast hvað utanlandsferðir varðar.

Ísland er einstakur áfangastaður og þegar maður er hvort eð er á þeim stað er ekki annað í boði en að njóta hans, því það er engin tilviljun hvar við fæðumst. Þessi pistill er samt ekki um ferðalög á landinu bláa, heldur um það þegar kylfan réði kasti og sumarið 2012 fór út um þúfur. Þetta sumar bjó ég og starfaði í Noregi og átti von á Matthildi minni í sumarheimsókn og var farið að hlakka mikið til þegar að við útlendingarnir hjá Murbygg vorum sendir í verkefni í járnblendiverksmiðju við Finnsnes í Troms og var ætlað að vera þar lungan úr sumri.

Það var þriggja tíma akstur á milli Harstad og Finnsnes, þannig að þar dvöldum við vinnuvikuna á Camping þ.e. tjaldstæði sem var með ýmsum gistimöguleikum. Vinnufélagarnir voru 2 Afganir og Súdani. Ég sá plön okkar Matthildar fara út um þúfur þarna á tjaldstæðinu sem var rétt við járnblendiverksmiðjuna. Því auk þess að bjóðast að búa saman annaðhvort í smáhýsi eða sér á litlum herbergjum þá voru dagar okkar vinnufélagana langir svo vikan yrði styttri og hægt væri að eiga lengri helgi heima í Harstad.

IMG_1301

Afganskur félagi, við eitt vindfang þjónustubyggingar Finnfjord járnblendiversins, sem var eitt sinn í eigu Elkem ef ég man rétt, þess sama og átti járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga

Þegar stutt var liðið á verkið þá bættist þar að auki miklu meira við, þannig að verk sem átti að taka 2-3 vikur endaði sem 4 mánaða verkefni. Þetta gerðist þegar byggingastjórinn sá að við félagarnir vorum duglegir við að hlaða og múrhúða veggi(náttúrulega til að komast fyrr heim) að mikið af þeim byggingarhlutum sem áttu að vera úr forsteyptum veggeiningum var breytt í hlaðna og múrhúðaða veggi.

Í skiptum fyrir dugnaðinn þá lánaði byggingastjórinn okkur húsið sitt í Finnsnesi um nokkurra vikna skeið á meðan hún var í sumarfríi. En byggingastjórinn var kjarnorkukona af samískum ættum, heitir Arna og bjó með fyrr um flugstjóra sem hafði flogið um allan heim. Þegar ég spurði hana hvort hún hefði þá ekki komið til Íslands, hafði hún ekki gert það "Nei, jeg bara joba" sagði hún. Þannig að þegar Matthildur kom til sumardvalarinnar í Noregi þá stoppaði hún stutt við á tjaldstæðinu hún hafði einbýlishús í miðbæ Finnsnes til afnota og bjó þar ásamt okkur vinnufélögunum.

IMGP5992

Hundrað ára gullmolinn hennar Örnu í miðbæ Finnsnes

Eyjan Senja er næst stærsta eyjan við Noregsstrendur og liggur við norðanverðan Vågsfjorden í Troms. En Hynhoya, þar sem Hrstad stendur, er stærsta eyjan við Noreg og er við sama fjörð sunnanverðan. Örstutt er yfir sundið frá Finnsnes til Senja og er stór og mikil brú þar á milli. Senja er u.þ.b. við 69°N, því langt fyrir norðan heimskautsbaug og sólin hátt á lofti að næturlagi að sumri. Við Matthildur skoðuðum þessa undra eyju í þremur ógleymanlegum kvöldferðum sumarið 2012. 

Senja er um margt lík Austfjörðunum eða Vestfjörðunum og jafnvel Hornströndum, hún á í vök að verjast byggðarlega. Mörg smáþorp eru á Senja með 2-400 íbúum. Þar var og er sjávarútvegur helsta atvinnugreinin. Norður og vestur strönd eyjarinnar er eitt samfellt ævintýri sem einna helst má líkja við sumarlandsins paradís hér á jörð. Þarna fórum við út um þúfur með því að láta kylfu ráða kasti um stórskorna firði og yfir há fjöll á ógleymanlegu sumri. 

 IMG_0046

Tröllagarðurinn sem var einn aðal túristatrekkjarinn á Senja, en þar var gert út á samískar þjóðsögur af huldufólki og tröllum. Tröllagarðurinn brann til kaldra kola fyrir rúmu ári síðan 

 

IMG_0371

Okshornan (Axarhyrnan) stundum kallaður tanngarður djöfulsins, eru fjallstindar sem ganga í sjó fram á norðvestur strönd Senja, ekki ósvipaðir Dröngum á Hornströndum

 

IMG_0333

Skaland er smábær á vestur strönd Senja um 200 íbúa bær. Á Senja er fjöldi smábæa með 100-400 íbúm s.s. Gryllefjord, Torsken, Flakstadvåg, Senjahopen, Mefjordvær, Husøy, Botnhamn ofl

 

IMGP3509

Husøy er eyja í einum af norður fjörðum Senja þar hefur verið gert eyði til lands sem myndar höfnina. Á leiðinni þangað er farið í gegnum löng og þröng jarðgöng hátt upp í fjöllunum fyrir ofan fjörðinn, ekki ósvipuðum Oddskarðsgöngunum, nema mun lengri og krókóttari

 

IMG_0176

Höfnin í Husøy og fjallasýnin þaðan inn í fjarðarbotninn er ævintýri líkust

 

IMG_0384

Senjahopen er lítið sjávarútvegsþorp við vog inn af Mefjord þar er ekki amalegt að verða dagþrota í kvöldkyrrðinni ef tími gæfist

 


Vorsins déjà vu

Lodingen  2011

Snemma í gærmorgunn hitti ég gamlan kunningja og spurði hvernig hann hefði það. Hann sagðist vera lélegur, orðinn óttalegur ræfill; enda kominn vel á níræðisaldurinn. Við töluðum um hve afleitt það væri þegar ekki einu sinni vorið næði að snerpa á loganum.

Eins og vænta mátti kom kóvítið einnig til tals og ég sagði honum að undanfarið hefðum við vinnufélagarnir óttast það mest af öllu að lemja á fingurna á okkur, því þá værum við í ljótum málum. Já hann samsinnti því það væri búið að vera ómögulegt að komast að hjá lækni fyrir kóvítinu. Svo snaraðist hann upp í bílinn því hann hafði mælt sér mót á heilsugæslunni til að nálgast verkjastillandi fyrir konuna.

Stundum hafa birts færslur hér á síðunni sem eru gamlar hugleiðingar úr bók dagana. Þetta er þá oftast eitthvað nauðaómerkilegt rugl sem ekki var ætlað til neins þegar það var sett á blað á sínum tíma.

Vorið 2011 hraktist ég til Noregs. Hafði verið atvinnulaus í u.þ.b. hálft ár eftir að hafa neyðst til að lokað atvinnurekstrinum mínum. Mér bauðst óvænt vinna hjá norsku múrarafyrirtæki eftir gráan og kaldan vetur og gekk nánast samstundis út að heiman um vortímann í hvítu maíhreti og með Vatnajökul gjósandi svartri eimyrju og flutti til Harstad í Troms, Noregi.

Til stóð að Matthildur mín flytti seinna en af því varð ekki vegna heilsuleysis. Árin mín í Noregi urðu þrjú og fór ég heim þrisvar á ári. Sumarfríinu skipti ég í tvennt, -vor og haust- til að vinna sjálfboðavinnu fyrir bankann við að hýsa húsbíla og hjólhýsi, svo kom ég heim um jól. Öll árin kom Matthildur í heimsókn til Noregs og dvaldi þá um tíma, þá gerðust ævintýrin.

Dagbókarfærslan sem hér á eftir fer er skrifuð um þetta leiti í maí 2012, í lok einmanalegs vetrar; um vorsins "déjá vu". Sumarið áður hafði vinnuveitandi minn og sambýlismaður hennar boðið okkur með sér á ljóskastara hátíð. 

IMG_2578

Hátíð gamla ljóskastarans (Lyskastertreff) er samkoma ca. 50 skemmtilegra karla sem saman koma eina helgi seint í ágúst ár hvert til að kveikja á gömlum ljóskastara sem þjóðverjar notuðu til að lýsa upp óvinavélar á norður norska næturhimninum í seinni heimstyrjöldinni

06.05.2012 Í gærmorgunn keyrði ég í suður, á endanum alla leið til Lödingen bæjar sem við Matthildur höfðum heimsótt í sumar á skútu. Ég var búin að hugsa mér að keyra þessa strönd sem ég hafði séð af sjó. Þegar sólin vakti mig með geislum sínum inn um gluggann kl 5 í gærmorgunn ákvað ég að nú væri dagurinn kominn.

Það sem er svo skemmtilegt við vorið er hvað það er lifandi og hvað litlu má muna. Hlý sólin merlar sjóinn í golunni eina stundina og þá næstu, þegar fyrir hana dregur, er jafnvel orðið grátt og napurt. Svo er það blessaður fuglasöngurinn.

Þegar ég var komin sunnar en ég hef farið áður á landi, keyrði ég upp hæð fram hjá bensínstöð og sjoppu. Varð aldeilis steini lostinn, þarna hafði ég komið áður og það rann upp fyrir mér heill seinnipartur af hlýjum degi þegar ég brunaði framhjá. Svo snarstoppaði ég við næsta afleggjara og sneri við því þetta yrði ég að athuga betur.

Þegar ég koma aftur að sjoppunni þá passaði þetta og bensínstöðin var á réttum stað, ég vissi að ef ég færi á bak við sjoppuna ætti ég að sjá fram af hæðinni og lengra fram á veginn svo ég tékkaði á því, en á bak við sjoppuna voru bara nokkur íbúðarhús og hæð sem ég horfði í bakkann á, útsýnið sem átti að vera áfram veginn var ekki, svo þetta var þá sennilega bara framhliðin á upplifun í öðrum tíma. Eins var lofthitinn kannski 3-5 gráður að morgni en ekki 20-25 á síðdegi.

Ég keyrði áfram og tók eftir því að staðurinn heitir Kongsvik. Þegar ég kom aðeins sunnar kom kóngsörn, sem er brúnn með hvítan haus og makka og sveif fyrir ofan og framan bílinn. Ég var einmitt nýlega búinn að láta það fara í gegnum höfuðið á mér að það væri gaman að sjá svoleiðis fugl.

Í vetur hefur það tvívegis komið fyrir að þegar ég hef litið útum gluggann sem ég sit oftast við hérna í íbúðinni hjá mér að tveir Hafernir hafa hnitað hringi fyrir utan í uppstreyminu frá Gangástoppnum sem er um 200 m hæð hérna rétt hjá. Ég hafði spurt vinnufélaga hvort það gæti staðist að Hafernir hnituðu flugið yfir Harstad. Hann sagði að það gæti alveg staðist en sjaldgæfara væri að sjá Kóngsörn.

Þá langaði mig auðvitað til að sjá Kongósörn og þegar ég sá að staðurinn hét Kongsvik fór ég aftur að hugsa um hvað það væri gaman að sjá Kóngsörn og viti menn þá sveif hann fyrir utan framrúðuna á bílnum. Enn sunnar sá ég svo Elg á fjörubeit í merlandi þaranum og hreindýr á túni.

Ég sagði Matthildi frá undrum dagsins á skypinu í gærkveldi vegna þess að hún var með í minningunni sem kom upp um að hafa komið áður í Kongsvik. Minningu sem kom á sekúndu broti um heilan eftirmiðdag. Þar vorum við á ferð ásamt fleira fólki sem ég kem ekki fyrir mig.

Ég spurði hana hvort henni fyndist þetta ekki skrítið; "þetta hefur verið í einhverju öðru lífi sem við höfum átt saman" sagði hún án þess að finnast mikið til koma. En það sem ég er að velta fyrir mér hvort skaust ég fram eða aftur í tímann eða var það kannski yfir í annan heim.

IMG_0276

Sumarið 2011 fórum  við Matthildur í boði Mette vinnuveitenda míns og Sverre sambýlismanns hennar í þriggja sólahringa ævintýraferð til Lödingen á skútunni þeirra Libra. Hér skríður skútan fyrir eigin vélarafli suður Tjeldsund sem liggur á milli Vågsfjorden og Vestfjorden í Troms og Norland. Á ströndinni útifyrir liggur Lofoten og enn utar eyjar Vesterålen

 

IMG_2581

Auk þess að brasa í tvo daga við að koma ljósi á kastarann með hjálp 3. tonna ljósvélar sem dreginn er á staðinn, aka ljóskastara karlarnir, sem flestir eru fyrrverandi hermenn, um á gömlum herbílum

 

IMG_0390

"Gáðu að því að þessi ljóskastari var smíðaður 1929 og er ekkert digital dæmi", sagði Sverre við mig til að undirstrika mikilvægi samkomunnar, "það er ekki sjálfgefið að það kvikni á honum". Einn eftirmiðdagur fór í herbíla safarí upp á útsýnisfjall fyrir ofan aflagða herstöð við Lödingen. Við Matthildur upplifðum óbyggðaferð með körlunum auk þess að njóta uppljómaðs norður norska næturhiminsins í geislum ljóskastarans.

 

 IMG_0322

Skútan Libra við bækistöð ljóskastarans í bæ lóðsanna Lödingen, sem lóðsuðu skip í gegnum Tjeldsundið í denn. Í Lödingen er nú ferjuhöfn fyrir ferju sem siglir milli fastalandsins og Lofoten. Ef landvegurinn er farinn þá þarf að keyra hundruð km eða alla leið upp Ofoten til Narvik og þaðan aftur yfir á Hynoya í Troms og niður Lofoten í Norland

 

 IMG_1901

"Hugsaðu þér Maggi" sagði Matthildur einn morguninn "við búum í skútu hjá fólki sem við vissum ekki að væri til fyrir nokkrum vikum síðan og erum stödd á hátíð gamla ljóskastarans. Hvernig getur svona ævintýri gerst"


Fagurt er á fjöllum

IMG_4748

Í dag er dagur íslenskrar náttúru. Það var við hæfi að velja dag sem ber upp á fæðingardag Ómars Ragnarssonar, þess íslendings sem hefur átt stærstan þátt í að færa náttúru landsins íbúum þess í sófann. Ómar er nánast goðsögn í lifanda lífi og ef eitthvað vantar þar upp á, þá verður hann það í Íslandssögunni. Hann var áberandi talsmaður varðveislu víðernanna norðan Vatnajökuls og lagði þar allt undir.

Þegar sú barátta stóð yfir þá þekkti ég áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar ekkert af eigin raun, og taldi Ómar jafnvel fara offari. En þó grunaði mig innst inni að eitthvað byggi undir. Því Völundur frændi minn, sjálfur goðinn í Grágæsadal, hafði horfið inn á þessi víðerni hvert sumar frá því ég man, en undir leiðsögn Völundar byrjaði ég mína starfsævi í byggingaiðnaði 12 ára gamall.

IMG_4773

Pilthús goðans í Grágæsadal var áður kallað Safnaðarheimilið, en innan við húsið er önnur burst sem í er bænhús. Þó Völundur sé ekki viðlátinn í Grágæsadal er bænhúsið ávalt opið, en þar er ætlast til að beðið sé fyrir landinu 

Svo var það fyrir fjórum árum, þegar ég var nýlega kominn úr fjörbaugsgarðinum í Noregi, að við Matthildur mín ákváðu að kaupa okkur fjórhjóladrifinn fjaðrasófa til að skoða víðernin og höfum gert það á hverju sumri síðan. Þessar fjallaferðir hafa verið einstök upplifun í kyrrð auðnarinnar. Jafnvel hending ef maður rekst á landann og þá hefur komið fyrir að hváð sé „guði sé lof að hitta íslendinga“. Þá á ég ekki við þá náttúru upplifun sem fæst við sportveiðar en það er nú einu sinni þannig að sumir finna sig ekki í íslenskri náttúru nema við veiði. En eftir að skotveiðitímabilin hefjast er allt morandi af landanum á fjöllum austanlands.

Seinnipart sumars höfum við forðast fjöllin að mestu. Hreindýraveiðitímabilið er þá á fullu og stigmagnast skothríðin við gæsaveiðar sem stundaðar eru af kappi. Á þessum tíma hefur verið hitt á ráðvilltan og hrínandi hreindýrskálf í sólbjartri morgunnkyrrðinni og séð til stríðsklæddra útivistarkappa á næsta leit með milljóna græjur við að taka af sér selfí með dauðri móðurinni. Seinnipart sumars rís jafnframt margt fótboltafanið upp úr sófunum og dustar af sér kartöfluflögurnar til að njóta íslenskrar náttúru við að salla niður illa fleyga gæsarunga svo hægt sé að slíta úr þeim bringurnar.

Það sem mig hefur undrað við sportveiðarnar er að þá hverfa öll siðferðileg viðmið  yfir utanvegaakstur úr fjölmiðlum. Það virðist vera fullkomlega góðkennt að aka utanvegar svo framarlega sem það er gert í þeim tilgangi að drepa aðrar lífverur ánægjunnar vegna. Enda hafa kapparnir varla burði né tíma til að bera bráðina hvað þá til að reita og svíða gæsina eftir að heim er komið með fótboltann á fullu í sjónvarpinu og tungusófann tilbúinn. Og ef einhver er hugsanlega talin getað hafa farið sér að voða fótgangandi við njóta náttúrunnar á veiðum, þá eru sendar heilu vélaherdeildirnar utanvegar til leitar. Það stóð samt ekki til að fara með þennan pistil út um þúfur með leiðinda langlokum um hvernig íslenskrar náttúru er notið á annan hátt en ég hef geð og getu til, hvað þá á fjallabaksleið við goðsagnir.

Goðinn

Völundur er 89 ára gamall og má því segja að hann hafi slitið barnskónum í árdaga Zeppelín loftfaranna. Hér fer hann yfir ræktunar skilyrði rabarbara í meira en 600 m hæð. Hann segist senda rabarbara úr Grágæsadal einu sinni á sumri á heimaslóðir Eyvindar og Höllu, til skálavarðanna í Hvannlindum með fyrirmælum um hvernig skuli elda grautinn án sykurs, og bera hann fram með rabarbarablöðunum undir diskunum "því allt verður að hafa sína serímoníu sjáðu"

Sumarið 2016 þeystum við Matthildur mín semsagt í fyrsta sinn á fjöll og heimsóttum tvo bernsku nágranna mína af hæðinni. Þá Völund Jóhannesson og Jóhann Stefánsson, en þeir eru jafnaldrar. Jói hafði þá haldið til við Þríhyrningsvatn einn á öræfunum sumrum saman og Völundur frá ómunatíð inn við Grágæsavatn. Það var mjög sértök upplifun að heimsækja þessa öldnu nágranna þar sem þeir dvöldu einir við sitthvort vatnið úti í sandauðninni.

Þetta koma til tals milli okkar Völundar þegar við heimsóttum hann á öræfin núna í sumar. Hann segir þá Jóa heyrast í síma á hverjum morgni kl. 9 til að kanna hvort þeir séu báðir lifandi. Ef annar hvor þeirra svarar ekki og hinn er vant við látin á að hafa samband við Dag Kristmundsson, sem á þá að fara í að athuga málið, enda Dagur ekki nema rétt að slá í áttrætt og enn á þönum við dagleg störf.

Heimsóknin í Grágæsadal í sumar bar upp á verslunarmannahelgi og var létt yfir Völundi að vanda. Rétt eins og fyrir þremur árum var beðið fyrir landinu og ekki ónýtt að hafa með í för til þeirrar bænagjörðar jarðvinnuverktaka inn í helgi bænahússins í Grágæsadal. En það hús sem Völundur kallaði safnaðarheimili fyrir þremur árum hefur nú fengið nafnið Pilthús. Á degi Íslenskrar náttúru 2016 skrifaði ég pistilinn Völundarhús um önnur hús Völundar á hálendinu hann má sjá hér.

IMG_4755

Handan næsta leitis vestan við Grágæsadal eiga jökulfljótin Kreppa og Jökulsá á Fjöllum upptök sín í Vatnajökli. Hvort örlög Grágæsadals eiga eftir að verða þau sömu og dalsins austan við hann, sem geymdi Jöklu forðum og fór undir Hálslón, mun tíminn leiða í ljós 

Völundur gaf sér góðan tíma til að spjalla í heimsókninni um verslunarmannahelgina. Hann var með stórfjölskyldu úr Reykjavík í árlegri heimsókn við garðyrkjustörf, en í Grágæsadal er hæsti skrúðgarður landsins í yfir 600 metra hæð og hefur Lára Ómarsdóttir gert Ferðastiklu þátt um garðinn, sem má sjá hér.

Það kom til tals hvort dætur hans hefðu komið í dalinn þetta sumarið. Hann sagði að það stæði til; „en það er nú bara þannig með þetta unga fólk í dag að það er meira að flækjast erlendis en á landinu sjálfu og er jafnvel erlendis hálft árið“. Systurnar ungu eru á svipuðum aldri og ég, ekki nema rétt svo sitt hvoru megin við sextugt.

Áður en við fórum bauð Völundur okkur inn í bæ og vildi sýna mér eldhólf á eldavél sem hann hafði ætlað að fóðra með eldföstum steini sem ég hafði klofið fyrir hann í fyrravor. Vegna þess að hann lét mig hafa akkúrat jafn marga steina og hann þurfti, og að sama dag og ég hugðist kljúfa þá áætlaði Völundur að fara á fjöll, þá greip ég til varúðarráðstafana. Að morgni þess dags var ég við að steypa gólfplötu sem járnagrindin hafði verið stóluð upp með eldföstum steini sem var akkúrat í þykktinni sem vantaði því fékk ég mér steina ef eitthvað misfærist.

Ég bað svo vinnufélaga minn um að koma klofnu steinunum ásamt varasteinunum til Völundar, en sá hafði verið milligöngumaður. Vinnufélaginn sagði mér að Völundur hefði verið farinn á fjöll og hann hefði skilið alla steinana eftir þar sem hann gæti nálgast þá og valið um hverja hann notaði. Þarna við eldavélina sagðist Völundur ekki vera búin að koma þessu í verk, steinarnir væru allir niður í kjallara, hann spurði hvora sortina væri betra að nota. Þá létti af mér þungu fargi.

Ég sagði honum að nota steinanna sem hann kom með, sem voru gamlir og snjáðir eldhólfsteinar úr aflagðri bræðslu, þó svo hinir sem ég lét fylgja væru splunku nýir. Þeir væru nefnilega úr Alcoa, „ja það var eins gott að þú komst maður“ sagði Völundur. Ég sagði að ég hefði gert mér þessa ferð því þetta hefði legið þungt á mér í meira en ár, ég hefði nefnilega ekki verið viss um að uppruni steinanna hefði komist til skila. „Það eru ekki allar ferðir til einskýrs, það má nú segja“ sagði Völundur.

IMG_4784

Utan við skrúðgarðinn stendur íbúðarhúsið í Grágæsadal. Þar má sjá grasbalann sem skrýðir hluta dalsins í víðfeðmri auðninni

Fyrir skemmstu kom Völundur til byggða og leit við hjá okkur "hæðarstrákunum". Erindið til byggða var að kippa upp nokkrum kartöflum. Annars dvelur þessi aldni höfðingi vanalega sumarlangt í faðmi fjallanna. Hann ítrekaði hversu heppilegt það hefði verið að fá í heimsókninni í sumar vitneskjuna um uppruna Alcoa steinanna og sagði að nú væru þeir réttu komnir í eldavélarofninn. Svona í tilefni tíðarandans þá spurði ég hann að því hvort hann héldi að þær 8 milljarða raflínuframkvæmdir sem nú færu fram á hálendinu norð-austanlands væru undirbúningur undir annað og meira t.d. sæstreng.

Hann sagðist ekki vita til hvers þær væru frekar en aðrir, en sjálfsagt þætti það gáfulegt að hafa sem fjölþættasta tengingu á milli tveggja stærstu orkuvera svæðisins þ.e. Kárahnjúka og Kröflu. Eldri lína sem reyst var á fyrsta áratug aldarinnar yrði svo nokkurskonar vara lína á eftir, þó svo að hún væri ekki nema rétt rúmleg 10 ára gömul. Annars væri það nú bara þannig að almennt væri fólk orðið svo hugfangið af hagvextinum að alltaf þyrfti eitthvað að vera um að vera. Flest venjulegt fólk gæfi sér ekki tíma til að vera til hvað þá að spá í hvaða erindi nýjar loftlínur ættu á fjöllum. 

Við enduðum svo samtalið á að minnast löngu gengins verslunareigenda sem var vanur að hengja upp auglýsingu í búðargluggann þegar veðrið var gott og berin blá, sem á stóð "farinn í berjamó". Í þá tíð gaf fólk sér tíma til að fara til fjalla enda alltaf hægt að nálgast það seinna sem vantaði úr búð.

Kreppa

Kreppa rennur úr Brúarjökli inn við Kverkfjöllum rétt fyrir vestan Grágæsadal, og er Kverká þverá hennar sem rennur fyrir mynni Grágæsadals í suðri og er stöðuvatnið í dalnum ættað úr Kverká. Ef farið er upp á fellið milli Kreppu og Grágæsadals blasa við Hvannalindir, Herðubreið, Snæfell og Kverkfjöll auk þess sem sjá má yfir mest allt Norður og Austurland

Nóbelsskáldið skýrði eitt sinn út hvert gildi fjallanna hefði almennt verið fyrir íslendinga í gegnum tíðina og kom orðum að því undir rós eins og hans var von og vísa. 

„Allt fram á nítjándu öld þótti íslendíngum fjöllin ljót. Ekki var látið við sitja að Búlandstindur væri „furðu ljótur“, heldur þótti Mývatnsveitin með fjallahríng sínum og vatni viðurstyggilegt pláss. Varla eru eftir hafandi núna þær samlíkíngar sem þjóðleg bílífa okkar, þjóðsögur Jóns Árnasonar, velja því.

Rómantíkin þýska gaf okkur fjöllin og gerði þau okkur kær og kenndi Jónasi Hallgrímssyni bæði að rannsaka þau sem fræðimaður og unna þeim í ljóði; og eftir hann kom Steingrímur og kvað Ég elska yður þér Íslands fjöll; og hefur sá skáldaskóli auðsýnt þeim tignun fullkomna fram á þennan dag.

Á okkar öld hefur það þótt hæfa kaupstaðarfólki, sem var eitthvað að manni, að eignast vángamyndir af eftirlætisfjöllum sínum að hengja upp yfir sóffanum og hafa slíkir eftirlætis gripir verið nefndir sóffastykki að dönskum sið. Fólkið horfði svo lengi á þessi landslög uppá veggjum hjá sér að marga fór að lánga þángað. Svona mynd veitti áhorfana í rauninni sömu lífsreynslu og horfa út um glugga uppí sveit.

Reynslan er sambærileg við það sem þeim manni verður, sem svo leingi hefur skoðað mynd af Parísarborg að hann stenst ekki leingur mátið og fer þángað. Þegar hann kemur heim til sín aftur veit hann ekki fyrr til en Parísarborg er orðin miðpúnktur í lífi hans. Hugur hans heldur áfram að snúast í tilhlökkun til endurfunda við þessa borg með undrum sínum og uppákomum, stórum og smáum furðum, og smáhlutum síst lítilfjörlegri en þeir stóru; ekkert í heiminum jafnast á við að hafa fundið þessa borg.

Hversu marga landa höfum við ekki þekkt sem hafa nákvæmlega af þessari reynslu að segja um París, og margir skrifað um það í bókum hvernig þeir lifðu í stöðugri heimþrá þángað, jafnvel eftir að þeir eru komnir að fótum fram. Sá sem skilur þetta skilur sæludali þjóðsögunnar; og hann skilur líka útilegukonuna Höllu sem sat farlama á leiði í kirkjugarðinum á Stað í Grunnavík, og tautaði: „fagurt er á fjöllum núna.“ (Brot úr formála bókar Kjartans Júlíussonar frá Skáldastöðum-efri - Reginfjöll á haustnóttum)

 IMG_4751

Leiðin inn í Grágæsadal er úr allri alfaraleið, meir að segja á skala víðernanna sjálfra. Aka þarf tímunum saman um hrjóstur og svarta sanda áður en komið er fram á brún dalsins sem er með grænum grasbala við norður enda vatnsins sem hann prýðir. Á leiðinni í 740 m hæð er lítill rabarbaragarður sem einhversstaðar hefur fengið nafnið Völundarvin "en það flokkast náttúrulega undir brot á náttúruverndarlögum að stunda rabarbararækt í þessari hæð"

Í tíðaranda dagsins í dag eru það goðsagnir á við Ómar og Völund sem hafa fært okkur "sóffastykkin" í sjónvarpið heim í stofu og vitneskjuna um víðernin, þessa kórónu Íslands sem fólk víða að úr heiminum flykkist til landsins að sjá í allri sinni dýrð. Hér fyrir neðan er Kompás þáttur um óviðjafnanlegu baráttu Ómars á sínum tíma, og við hæfi að rifja hana upp á degi íslenskrar  náttúru.


Út um þúfur

IMG_3988

Ennþá er búið í torfbæjum á Íslandi, það kom heldur neyðarlega í ljós í síðustu viku. En eins og þeir vita, sem hér líta inn, þá hef ég blæti fyrir því að ljósmynda torfbæi, og hef verið að reyna að venja frúna af því að liggja á gluggum rétt á meðan, svona myndana vegna. Um daginn keyrðum við að torfbæ sem ekki átti að vera til samkvæmt mínu registri. Við renndum í hlað og ég sagði strax og stoppað var; ekki liggja á gluggum eins og hver annar túristi, það er dónaskapur að liggja á gæjum hjá fólki. það hnussaði í; hva,,, heldurðu virkilega að það búi einhverjir ennþá í torfbæ.

Það leið ekki á löngu að út um bæjardyrnar á miðburstinni birtist sköruleg kona, sem bauð góða kvöldið á ensku og spurði hvort hún gæti eitthvað fyrir okkur gert. Ég áttaði mig fljótlega á að þetta var ekki álfkona. Við reyndum að bjarga okkur út úr aðstæðunum með því að þykjast ekkert skilja og töluðum bara íslensku, en það dugði skammt. Sú sem var greinilega ekki álfkona upplýsti okkur um það að hún og hennar fjölskylda væru Íslendingar sem byggju í þessum torfbæ og hefði það verið gert um aldir þó svo að stutt væri síðan að þau hefðu gert bæinn upp. Fljótlega fóru umræður út um þúfur eins og íslendinga er siður og hefðu leikandi getað endað í ættfræði eða jafnvel dagþroti ef ekki hefðu birst erlendir túristar til að bjarga málum.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem við Matthildur mín komum okkur í vandræði með forvitni. Fyrir nokkrum árum urðu við að gjöra svo vel að sitja í skammarkróknum því sem næst heila messu, ef svo má segja, en þá vorum við á ferð í Loðmundarfirði. Það á nefnilega það sama við um kirkjur og torfbæi að ég umkringi pleisið með myndavélina að vopni á meðan hún hefur áhuga á því sem fyrir innan er, og enn kemur fyrir að kirkjur eru ólæstar. Þegar við ætluðum að kíkja inn fyrir kirkjudyrnar á Klyppstað þá stóð þar yfir árleg messa í þessum eyðifirði sem telur enga safnaðarmeðlimi.

Þar var fyrrum lærimeistari minn hringjari og ekki var við annað komandi en okkur yrði troðið inn í yfirfulla kirkjuna. Það fór svo að við Matthildur sátum á milli prestanna upp við altarið og snérum að kirkjugestum. Prestarnir voru tveir sem messuðu, þær sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir og sr. Jóhanna Sigmarsdóttir. Sr. Davíð Þór Jónsson radíusbróðir, sem var þarna sem kirkjugestur, var einnig komið fyrir með okkur Matthildi við altarið og átti hann skilið að sitja í skammarkróknum enda hafði hann komið sér þangað af sjálfsdáðum.

Séra Sigríður Rún talaði úr stólnum og lagði út frá fjallræðunni, um það hvernig varast skyldi farísea og fræðimenn sem væru oftar en ekki sauðir í úlfsgærum. En sleppti því sem betur fer alveg að leggja út frá gluggagæjum. Hún kom síðan inn á að ekki væri samt sjálfgefið með að menn slyppu alfarið við heimsendinn þó svo að vísindamenn væru komnir á slóð óendanleikans.

Okkar tími kynnu þess vegna að líða undir lok á hraða ljóssins. Vísindamenn hefðu komist á slóðina þegar þeir áttuðu sig á að ljósið færi hraðar en hljóðið með því einu að hlusta eftir þrumunni, sem heyrist á eftir að eldingin birtist. Með þessa vitneskju að leiðarljósi hygðust þeir bjarga heiminum og komast aftur fyrir upphafið á hljóðinu og síðan á hraða ljóssins fram fyrir óendanleikann. Spurningin væri samt alltaf sú hvort tíminn hægði þá ekki það mikið á sér að hann stæði að lokum í stað svo allt yrði dimmt og hljótt, og tíminn jafnvel búinn, sem væri þá kannski bara heimsendir.

Litli drengurinn hennar sr. Sigríðar, sem var farið að leiðast langdregin prédikunin, þar sem hann sat með pabba sínum og eldri bróðir á fremsta bekk, hékk orðið á haus á milli fóta föður síns. Á hvolfi horfði hann upp í prédikunarstólinn á móður sína og rétt náði að segja; en mammaaa! áður en pabbi hans dreif sig með hann út úr kirkjunni svo ekki yrði frekari truflun á heimsenda hugleiðingunni.

Þeir voru fleiri feðurnir sem þurftu að fara út með óþreyjufull börn úr árlegri messu á Klyppstað þetta sumarið. Um miðja prédikun var ég farin að ókyrrast og hugleiða hvað það væri gott að hafa börn í sinni umsjá við að kíkja á glugga, en tók svo eldsnöggt þá ákvörðun að fara út með barnið í sjálfum mér þó svo að ég þyrfti að þramma kirkjuna endilanga, fram hjá prédikunarstólnum, á móti söfnuðinum með marrandi gólffjalir undir fótum. Mér er ekki örgrannt um að orð eins þjóðskáldsins gætu átt við þessa brottför barnanna úr Klyppstaðarkirkju "Á flótta undan framtíðinni sem fætur toga burt eitthvað til baka, aftur fyrir upphafið af týndum tíma er af nægu að taka".

Hann var miklu skeleggari og skorinorðari kínverski túristinn sem Matthildur hitti í árlegri sumar heimsókn á heiðina um helgina. Þegar hún ætlaða að fara inn torfbæinn og kíkja á kettlinga sem það eru vanir að vera sumarlangt. Þá stóð skyndilega bálsteyttur Kínverji blásvartur í framan úti í bæjardyrunum, rétt eins og úrillur álfur út úr hól, og skrækti prívat, prívat.

 

Ps. Set hér fyrir neðan nokkrar myndir af þjóðlegum þúfnagangi í síðustu viku.

IMG_4002

Á Reykjum Reykjaströnd við Skagafjörð hafa torfhúsatóftir verið endurhlaðnar og eru notaðar sem þjónustuhús við tjaldstæði. Það er allt til alls í þessum húsum og er þetta með skemmtilegri tjaldstæðum sem við höfum gist. Rétt utan við tjaldstæðið er Grettislaug og Grettiscafé. Það var yfir á Reykjaströnd sem Grettir sterki sótti eldinn þegar hann þreytti Drangeyjarsundið um árið og yljaði sér í lauginni á eftir. Engir Íslendingar gistu tjaldstæðið þegar við vorum þar en margt var um erlenda ferðamenn sem vildu ekki fyrir nokkra muni missa af því að upplifa sólarupprás við Drangey.

 

IMG_4482

 Á Keldum Rangárvöllum er torfbær af fornri gerð og er hann jafnframt eini stóri torfbærinn sem varðveist hefur á Suðurlandi. Keldur er einstök heild bæjar- og útihúsa frá fyrri tíð. Bæjarhúsin eru af elstu varðveittu formgerð torfhúsa, þar sem framhúsin snúa langhlið að hlaði. Sandfok hefur eytt mjög landi kringum Keldur og hafa bændur þar lengi barist harðri baráttu til að bjarga landinu frá því að verða örfoka. Keldur draga nafn sitt af uppsprettum sem koma víða fram á bænum og hefur bærinn og ábúendur hans komið við sögu í mörgum fornum bókmenntum, m.a. Njáls sögu, Sturlunga sögu og Þorláks sögu. Gamli bærinn á Keldum er í umsjón Þjóðminjasafnsins og hægt er að skoða hann daglega á sumrin.

 

IMG_4755

Pilthús goðans í Grágæsadal var áður kallað Safnaðarheimilið, en innan við húsið er önnur burst sem í er bænhús. Þó goðinn sé ekki viðlátinn í Grágæsadal er bænhúsið ávalt opið en þar er ætlast til að beðið sé fyrir landinu. Við hjónin höfum tvisvar komið í Grágæsadal til að heimsækja Völund frænda minn, og höfðum með í för jarðverksverktaka ásamt fleira fólki um síðustu helgi komið til að biðja fyrir landinu okkar. Í Grágæsadal er landsins hæsti skrúðgarður í yfir 600 m hæð í þetta sinn var stórfjölskylda úr Reykjavík við garðyrkjustörf, þannig að goðinn gaf sér góðan tíma til að spjalla.

 

IMG_4525

Bænhúsið á Núpsstað er torfhús, talið reist um miðja 19. öld, eftir umfangsmiklar breytingar á eldra húsi. Á Núpsstað var kirkja, sem í máldaga frá 1340 er kennd við heilagan Nikulás. Kirkjan virðist hafa verið vel búin fram eftir öldum, en halla tók undan fæti á seinni hluta 16. aldar. Upp úr 1650 var byggð ný kirkja á staðnum og er talið að bænhúsið sé að stofni til úr þeirri kirkju. Þjóðminjasafnið hefur sett tugi milljóna króna í viðhald og merkingar við gamla bænhúsið, en getur ekki hleypt ferðamönnum að bænhúsinu því jörðin og byggingarnar þar eru í einkaeigu.

 

IMG_4512

Neðan við Núpstað niður við þjóðveg er hengilás og keðja í heimkeyrslunni, í keðjunni hangir skilti með áletrun um einkaeign. Því er ekki hægt að komast til bæna í þjóðminjunum nema fara í gegnum hlaðið á Núpstað. Bærinn á Núpstað er samkvæmt mínu registri síðast torfærinn af Skaffellskri gerð sem uppi er standandi og væri verðugt verkefni að koma honum til vegs og virðingar þó svo að það væri ekki nema fyrir þær sakir einar, jafnvel þó hann yrði áfram prívat.


Veginn á enda

Viðfjörður

Það eru ýmsar leiðir til að ferðast og aðferðir við skipulagningu ferðalaga. Hægt er að gera ferðaáætlun eftir dagatali, veðurspám eða bara stafrófinu. En það er alltaf svo að það er ferðalagið en ekki áfangastaðurinn sem skiptir mestu máli. Eins og ég hef áður minnst á hér á síðunni kemur fyrir að við hjónin setjumst upp í okkar gamla Cherokee og hlustum á Bubba syngja um það þegar hann hlustaði á Zeppelin og ferðaðist aftur í tímann og er allt eins hægt nota þá ferðaáætlun.

Það má reyndar einna helst líka svo góðu plani við lesblinda prófessorinn sem ætlaði að ferðast yfir þver Bandaríkin í sumarfríin sínu en var ekki kominn lengra en í næsta bæ þegar fríið varð búið. Þetta gerðist vegna þess að þar var svo margt áhugavert að skoða. Prófessorinn sagði eftir sumarfríið að þeir sem kynnu að lesa færu margs á mis vegna þeirra leiðsagna sem þeir læsu.

Núna í vikunni má segja að planið hafi ekki verið neitt af af þessu öllu saman, heldur hafi vegurinn einfaldlega verið farin á enda. En í stafrófinu var það Vaffið sem var valið og eins og vanalega var sólin eina leiðsögutækið í gegnum Austfjarðaþokuna. Við höfðum reyndar hossast þennan slóða á hraðferð fyrir mörgum árum í þoku, sem liggur um landsvæði er fór í auðn fyrir áratugum síðan. 

IMG_3861

Það er ágætt að vita, þegar ferðast er í þoku, að vatn rennur niður í móti, þá er meiri von til að sjá sólina

Þessi vegslóði, sem liggur í Vöðlavík og Viðfjörð, var bílvegurinn á Norðfjörð frá 1940–1949 og endaði hann í Viðfirði en þaðan þurfti að fara með bát yfir á Norðfjörð. Eftir að vegur var lagður um Oddskarð var ljóst að ekki yrði gerður vegur frá Viðfirði yfir á Norðfjörð, enda illmögulegt. Þar með varð ljóst að byggðirnar sem voru norðan Reyðarfjarðar yrðu í litlu eða engu vegasambandi. Þessar byggðir voru í Vöðlavík, Sandvík, Viðfirði ásamt Barðsnesi og Hellisfirði. Svæðið taldi alls um 15 bæi.

Viðfjörður er einn af þrem fjörðum sem ganga inn úr Norðfjarðarflóanum, hinir eru Hellisfjörður og Norðfjörður. Í Viðfirði var búið til 1955. Hvað varð búsetu að aldurtila er til um meira en ein kenning. Þórbergur Þórðarson rithöfundur skrifaði um Viðfjarðarundrin sem áttu að hafa verið draugagangur. Þessi undraskrif meistara Þórbergs hafa þótt léleg sagnfræði í Norðfirði. En líklegast er þó að breyttir samgönguhættir hafi ráðið mestu um að búsetu lauk í Viðfirði.

IMG_2903

Reyndar hafði ég bæði sigld um Norðfjarðarflóann og flogið yfir svæðið, svo það var ekki mikið mál að rata. Frá vinstri; Sandvík,Barðsnes, Viðfjörður, Hellisfjörður og Norðfjörður 

Þegar við vorum núna á ferðinni var yngra fólkið okkar með í bílnum og tók eftir því allan tíman, eftir að farið var yfir Víkurheiðina yfir í Vöðlavík, að ekkert net og símasamband var við umheiminn.“ Og hvað ætlar þú svo að gera ef við festum okkur“ sagði þá Matthildur mín. Eins og það væri eitthvað nýtt að ferðir okkar lægju utangáttar út um þúfur úr alfaraleið. „Hlaupa yfir á Norðfjörð það er styst“ svaraði ég – „já, já, ég sæi þig nú hlaupa“ – „eða þá bara bíða eftir Barðsneshlaupinu sem er venjulega á Neistafluginu um verslunarmannahelgi og biðja fyrir skilaboð“.

Viðfjörðurinn skipar vissan sess í minni sjálfsmynd því frá blautu barnsbeini hefur mér verið það innrætt að ég sé af Viðfjarðarætt. Úr Viðfirði var langaamma mín Ingibjörg Bjarnadóttir á Vaði í Skriðdal, sautján barna móðir. Móðir hennar var Guðrún Jónsdóttir í Viðfirði sextán barna móðir. En við þau Bjarna og Guðrúnu er Viðfjarðarætt oftast kennd, þó svo að forfeður Bjarna hafi búið mann fram af manni í Viðfirði.

Viðfjörður

Sólin brást ekki með leiðsögnina í gegnum Austfjarðaþokuna niður í Viðfjörð

Þessar formæður mínar þóttu hörkukonur á sinni tíð, í forsvari fyrir sínum búum. Eða eins og sr Ágúst Sigurðsson sagði „Ingibjörg á Vaði var mikillar gerðar eins og mörg þeirra Bjarnabarna Sveinssonar og Guðrúnar Jónsdóttur í Viðfirði.“ Um Guðrúnu var sagt „Hún var jafn fær að ganga til sláttar sem raksturs. Hún var tóskaparkona mikil og vefjarkona með afbrigðum, enda þurfti hún á því að halda í Viðfirði meðan öll börnin voru heima og heimilisfólk vanalegast 15-17 manns og allur íverufatnaður og mikið af rúmfatnaði unnið heima.“ Heyrt hef ég að þessi ættmóðir mín hafi ekki talið það eftir sér að fara til fiskiróðra þegar þess þurfti.

Ofan við höfnina í Viðfirði er minningarskjöldur um hörmulegt sjóslys, þar sem fórust þrír synir Sveins Bjarnasonar sem bjó í Viðfirði, á eftir foreldrum sínum Bjarna og Guðrúnu, en frá því var greint með svohljóðandi frétt í blaðinu Víði 9. október 1936;

IMG_3850

„Sorglegt slys vildi til á Austfjörðum í síðustu viku. Á fimmtudagsmorgun 1. október fór trillubátur frá Viðfirði i fiskiróður. Voru á bátnum fjórir menn, þrír bræður, synir Sveins Bjarnasonar frá Viðfirði; Þórarinn (34 ára). Frímann (26 ára). Sófus (30 ára) og Halldór Eiríksson (56 ára) frá Viðfirði. Morguninn eftir að bátur þessi fór í róðurinn, fann togarinn Brimir hann skammt undan landi, fullan af sjó, og lík Frímanns í honum, liggjandi á grúfu yfir þóftu. Slys þetta er einkennilegt þar sem fullvíst er talið að báturinn hafi ekki af kjölnum farið, því ýmislegt, t.d. áttaviti, vélaverkfæri o.fl. var í bátnum, enda hafði veður verið gott, en þoka. Móðir bræðranna er á lífi. Þórarinn hafði verið giftur og átt fjögur börn, hinir ógiftir.“

Þó svo að mestum ljóma stafi frá kvenfólkinu í Viðfjarðarætt vegna hetjulegrar framgöngu í gegnum tíðina, þá er marga eftirtektarverða karlmenn einnig þar að finna og nægir að nefna að Viðfjörður United hefur átt sína leikmenn í knattspyrnulandsliði Íslands svo eftir hefur verið tekið víða um lönd.

IMG_3860

Við enda vegarins er íbúðarhúsið í Viðfirði, byggt 1932, og stórmyndarlegt enn í dag


Fótspor guðanna

IMGP2824

Til eru staðir sem hvorki verður lýst með orðum né ljósmyndum. Eina ráðið til að fá nasasjón af helgi þannig staðar er að heimsækja hann. Við Axarfjörð er þannig staður.

Í vikunni sem leið vaknaði ég kl. 4 að morgni við það að lóan sögn „hér sé dýrðin, dýrðin, dýrðin“. Við Matthildur mín höfðum okkur fljótlega á fætur, kipptum upp hælunum og laumuðumst út af tjaldstæðinu við Eyjuna.

Við ákváðum að aka 3,5 km leið frá Eyjunni inn að Botnstjörn og fá okkur morgunnmat í kyrrðinni. Eftir að hafa sett upp borð og stóla, -alein eins og lítil börn í gullabúi, umkringd hömrunum sem urðu til þegar Óðinn fór um heiminn ríðandi á Sleipni, -flaug fram af klettabrúninni álftahópur og söng okkur sinn heiðarsöng svo bergmálaði á milli hamraveggjanna.

IMG_3431

Myndun Ásbyrgis hefur verið mönnum ráðgáta eftir að farið var að efast um Alföður. Þorvaldur Thoroddsen, náttúrufræðingur, kom í Ásbyrgi sumrin 1884 og 1885. Hann taldi að gljúfur Jökulsár hefðu orðið til í jarðskjálftum og Ásbyrgi hafa myndast þegar landspilda sökk í kringum Eyjuna.

Um miðja 20. öld hóf Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur, að rannsaka öskulög á svæðinu. Í ljós kom að allur jarðvegur eldri en 2.500 ára hefur skolast í burtu úr botni Ásbyrgis og árfarvegum sunnan þess. Furðu vakti að áin hefði náð að grafa bæði Ásbyrgi og hin tröllvöxnu árgljúfur á þeim 10 þúsund árum frá því hraunið rann.

Nú er talið að á tímabilinu frá því fyrir 5000 árum þar til fyrir 2000 árum hafi ríkt þær aðstæður við Vatnajökul að mikið vatn hafi safnast saman við rætur eldstöðva Bárðarbungu, Grímsvatna og Kverkfjalla. Þegar einhver þeirra gaus gátu orðið gífurleg jökulhlaup sem æddu með ógnarhraða frá jökli til hafs.

Sjálfur hallast ég helst að elstu tilgátunni um tilurð Ásbyrgis, þ.e.a.s. yfirreið Óðins á Sleipni og Ásbyrgi sé því hóffar Sleipnis. Enda tekur helgi staðarins öllum rökum fram. Aðrar tilgátur hafa þvílíka annmarka að við þá verður ekki unað.

Ef nýjustu tilgátur ættu við rök að styðjast kalla þær á sólahrings vakt í höfuðstöðvum almannavarna og öryggishjálma ásamt gulum björgunarvestum með blikkandi neyðarljósum fyrir almenning í Ásbyrgi. Mér sýnist landnámsmenn hafa komist að mun skynsamlegri niðurstöðu lausa við öfgar samtíðar trúarbragða.

Snemma á 20. öldinni keypti Einar Benediktsson land meðfram Jökulsá á Fjöllum ásamt Ásbyrgi. Hugsjón Einars var að virkja ána og sagðist hann ætla að nýta orkuna til að framleiða áburð á blóm og birki. Einar átti Ásbirgi í 15 ár og orti ódauðlegt ljóð að morgni í Ásbirgi, en áin rennur óbeisluð enn þann dag í dag.

Alfaðir rennir frá austurbrún

auga um hauður og græði.

Glitrar í hlíðinni geislarún,

glófaxið steypist um haga og tún.

Signa sig grundir við fjall og flæði,

faðmast í skrúðgrænu klæði.

Kannski var eins gott að Einar Benediktsson átti þessa morgunn andakt í Ásbyrgi, því annars væri ekki loku fyrir það skotið að hagvaxnir nútíma trúarbragðadýrkendur kolefnissporsins ákveddu að hafa helgi Ásbyrgis með í pakkanum við að lýsa upp Evrópu.

IMG_3650


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband