Færsluflokkur: Ferðalög

Handbremsubeygja

Þau okkar sem eru orðnir eldri en tvævetra þekkja fleira en blæðandi þjóðveg. Muna jafnvel þegar vegrykið elti bílinn hringinn í kringum landið og lausamöl spýttist í alla áttir. Þá þurfti að halda fullri athygli á stýrinu svo ekki færi illa á blindhæðum eða skrænsað yrði í beygjum og dekk hvellspryngju í holum. Oft hélt pústurrörið bílstjóranum vel vakandi, vegna þess að það var annaðhvort á leiðinni undan bílnum eða farið út í móa með hjólkoppunum.

Það getur verið dýrt nú eins og þá að vera fátækur, en þá voru verkstæði við þjóðveginn og jafnvel hægt að fá gert við dekk til sveita án virðisaukaskatts. Mér varð það á að spara sumardekkjakaup í vor, ímyndaði mér að ég kæmist upp með að keyra á gömlu túttunum um blæðandi þjóðveginn þetta sumarið. Um síðustu helgi fórum við Matthildur mín í Sólhólinn úti við ysta haf. Hún átti afmæli á sunnudeginum, var ég í baxi með að finna afmælisgjöf við hæfi og ekki búin að koma neitt til hugar á laugardagskvöldi.

Afmælisgjafirnar, sem ég hef gefið henni Matthildi minni í gegnum tíðina, hafa s.s. aldrei verið merkilegar en einhvern veginn hefur samt alltaf ræst úr, oft með því einu að fara gamla malarslóða og rifja upp með henni gamla daga t.d með því að feta slóðina yfir Lónsheiði á gamla Grand, eða fara gömlu fjallgarða leiðina í Möðrudal með viðkomu í Sænautaseli og  bjóða upp á lummu-kaffi. Stafafellsfjöll í Lóni redduðu málinu eitt árið eða bara um fjölskylduslóðann á Öxi.

Eftir óvenju góðan nætursvefn aðfaranótt sunnudags var ég búin að steingleyma hvaða dagur var en spurði Matthildi mína hvort það væri ekki örugglega sunnudagur, -jú það passaði. Eigum við þá ekki að fara á Djúpavog í dag og kíkja barnabörnin stakk ég upp á. Jú það fannst henni alveg ljómandi. Á Djúpavogi var tekið á móti henni með fagnaðarlátum, faðmlögum og árnaðaróskum. Varð ég þá ekki lítið skrýtinn og skömmustulegur. Ákvað að láta mig hverfa, -þó ekki niður úr gólfinu, -fór þess í stað niður á bryggju og þvoði bílinn.

Við þvottinn sá ég að steinn stóð í dekki vandlega límdur í tjöru. Ég tók steininn úr og sparkaði svo í öll dekkin að gömlum og góðum sið, og fann þá að misjafnt var í þeim loftið. Eftir að hafa pumpað í dekkin keyrði ég hugsandi lengri leiðina til baka og velti fyrir mér hvernig væri best að redda restinni af afmælisdeginum þetta árið. Þá heyrðist ógurlegt hviss og síðan kom hökt, svo ég varð að stoppa til skipta um dekk.

Þegar ég tók dekkið undan sá ég að það var orðið svo næfurþunnt að steinn hafði stungist í gegn. Skoðaði þá hitt framdekkið og þar var sama sagan. Þannig að nú fór málið fyrst að vandast. Við vega- og dekkjalaus á Djúpavogi á sunnudegi, -þar að auki á afmælissunnudegi. Ég byrjaði að hringja eins og vitfirringur en fékk auðvitað ekkert svar, fyrr en ég hringdi í vin sem ég vissi að átti dekk uppi á Egilsstöðum.

Síðan fengum við lánaðan bíl og brunuðum með felgur með sprungnum og ósprungnum dekkjum yfir Öxi í Egilsstaði. Korter yfir átta á mánudagsmorguninn voru komin heilleg dekk á felgurnar svo við brunuðum aftur yfir Öxi. En auðvitað var þessi rúntur frekar léleg afmælisgjöf.

Vegna þess hversu úttaugaður ég var orðin fórum við og hvíldum okkur á Sólhólnum en ég hafði mig samt í að bjóða Matthildi minni upp á fisk og franskar í Kaupfélaginu á Breiðdalsvík í tilefni dagsins áður kvöldið eftir.

IMG_8577

Haukstjörn, kúrekakletturinn gægist upp fyrir hæðina

Það var ekki fyrr en þann þriðja í afmæli að við loksins komumst í að halda upp á daginn þar áður. Við höfðum ákveðið að skoða Haukstjörn en hún er sunnan við Þvottá upp á hjalla við þjóðveginn. Þangað hafði ég aldrei komið og eins hélt Matthildur. Þegar við komum þangað fór heldur betur að rofa til, Matthildur mín mundi skyndilega eftir 42 ára gömlum göngutúr á bökkum Haukstjarnar um bjarta júlí nótt.

Til að rifja atburðinn betur upp fórum við niður fyrir Kúrekaklettinn sem er við norðaustur bakka Haukstjarnar og vorum þá komin á mosavaxinn gamla þjóðveginn sem bugðaðist í beygjum yfir hæðir og kringum hrauka fram hjá kletti sem aldrei hefur verið kallaður annað en kúrekakletturinn í okkar eyru, en heitir víst Blábjargastapi.

Kúrekakletturinn

Um þetta ævintýra land lá fyrst þjóðvegurinn suður í Þvottár- og Hvalnesskriður, eftir að þjóðvegurinn um Lónsheiði var lagður af. Líklega hefur afbýlið Kambar frá Þvottá staðið nær ströndinni skammt frá þessum klettarana. Afbýli sem hét Fauskasel var í dalverpi við Mælifell, sunnar og nær Þottárskriðum

Það var Síðu-Hallur, sem var frægastur fyrir að hafa búið á Þvottá, jörðin var í landnámi Þorsteins trumbubeins og hét þá Á. Þegar Þangbrandur prestur kom til Íslands til að kristna landsmenn þá kom hann fyrst að Á og skírði Síðu-Hall og hans fólk í ánni við bæinn, eftir það hefur áin og jörðin heitið Þvottá og var syðsti bær í hinu forna Múlaþingi, og syðsti bær Suður-Múlasýslu, og er nú syðsta byggða ból í sveitarfélaginu Múlaþingi.

IMG_8614

Styrmishöfn, skammt austan við höfnina er klettastapi sem kallaður er biskupshöfði. Þar á Guðmundur biskup góði að hafa komið úr hafi og stigið á land til að spyrjast fyrir hvar hann væri staddur auk þess að taka vatn. Síðast var róið frá Styrmishöfn 1949 á sexæringi Guðmundar Eyjólfssonar frá Þvottá og fengust 130 fiskar

Við þræddum síðan slóðina frá Kúrekaklettinum sunnan við Þvottá austur í Styrmishöfn, útróðrarhöfn Álftfirðinga í gegnu aldirnar. Nafn hafnarinnar er frá því á söguöld og er kennt við Styrmi sem bjó í Fauskaseli sunnan við Þvottá nær Þvottárskriðum. Við lendingu í höfninni fórst Styrmir og fékk hún nafn af honum. Aðeins er vitað um eitt annað slys þar, sem varð um 1700, en þá fórst Ófeigur, báðir bjuggu þeir Ófeigur og Styrmir í Fauskaseli. Við höfðum áður komið í Styrmishöfn á rauðri Lada Sport fyrir rúmum 30 árum með Jóni faðir Matthildar en hann var sjómaður og áhugasamur um að sjá þessa höfn.

IMG_8645

Þau eru mörg blábjörgin í fjörum Þvottár. Mælifell í fjarlægð með sínum Þvottárskriðum. Þegar fjarar er hægt að komast undir sjávarmál og ganga um ævintýraveröld, en það er eins gott að vera búin á ákveða hvar á að komast á þurrt áður en flæðir aftur

Síðan þræddum við gamla þjóðveginn suður í Stapavík, sem er undir þvottárskriðum, og litum á leiðinni niður í litríkar fjörur. Það var einmitt þar sem göngutúrinn hennar Matthildar minnar hófst fyrir 42 árum. Þær höfðu farið á ball fjórar Djúpavogsdætur til Hornafjarðar á fólksvagni. Brunuðu meira en hundrað kílómetra eftir malarslóðanum með rykmökkinn í eftirdragi og grjóthríðina allt í kringum rauða bjölluna.

IMG_8666

Stapavík; þar sem farið er upp í Þvottárskriður að austan. Þar hefur Vegagerðin gert vinsælan áningastað fyrir ferðamanna. Ströndin liggur til suðurs undir Þvottárskriðum í Mælifelli, sunnar eru Hvalnesskriður í Krossanesfjalli. Um Krossanessið sem gengur í sjó fram undir Hvalnesskriðum liggja landamerki Þvottár og Hvalness í Lóni

Seinni hluta nætur í bakaleiðinni, þegar þær komu niður úr Þvottárskriðunum, varaði Matthildur þá sem keyrði við því að beygja væri á veginum framundan. Það þyrfti að hægja á bílnum í lausamölinni. Það skipti engum togum að bílstjórinn togaði í handbremsuna við það tók bjallan handbremsu beygju þvert á veginum og rúllaði tvær og hálfa veltu áður en hún stoppaði á toppnum á malarpúða utan við veg.

IMG_8679

Séð niður í Stapavík þegar komið er úr Þvottárskriðum, greina má gamla þjóðveginn hlykkjast um hrauka fyrir ofan klettótta ströndina í áttina að Þvottá sem er um 5 km norðar í Álftafirði

Þegar um fór að hægast lá Matthildur neðst á toppnum með vinkonu ofan á sér og hélt að þær væru allar dánar í bílnum. En svo hreyfðist einn fótur í kösinni og hún sá að þetta var hennar fótur. Þær komust svo tvær út úr flakinu og gátu dregið hinar tvær út, þar sem þær skildu við þær liggjandi púðanum og hófu síðan þrautargönguna í Þvottá.

IMG_8661

Matthildur að líta eftir glerbrotum þar sem rauð Volgswagen bjalla lá á toppnum fyrir 42 árum síðan. Nú er búið að setja bundið slitlag í handbremsubeygjuna sjálfa enda er þessi hluti gamla þjóðvegarins notaður sem aðkeyrsla að áningastað Vegagerðarinnar við Stapavík

Matthildur hafði aldrei alveg vitað hvaða leið þær gengu því þær styttu sér leið með því að fara ekki allan þjóðveginn. En núna 42 árum seinna komst hún að því að þær hefðu farið upp á hæðina við Haukstjörn og síðan niður að Þvottá, þar sem þær gerðu rúmrusk.

Þegar var búið að flytja þær Djúpavogsdætur á Djúpavog kom í ljós að meiðsli voru til allrar guðs lukku með minnsta móti, miðað við aðstæður. Ein hafði þó fengið hnykk á hálsinn og þurfti að hafa kraga um tíma, í Matthildi þurfti að sauma nokkur spor.

Þær vinkonurnar tvær, sem gengu í Þvottá, fóru síðan á sjó um hádegi eftir næturgöngutúrinn og saumaskap morgunsins. Þær voru munstraðar sem kokkar á Krossanesinu frá Djúpavogi sem landaði afla sínum í hinum ýmsu höfnu austanlands þetta sumar, allt frá Borgarfirði-eystra til Hafnar í Hornafirði.

Já svona var nú glíman við handbremsubeygjurnar á þjóðveginum í denn, -þegar amma var ung.

 IMG_8674 


Blóðberg og blóðbönd

Þessu litla bleika blómi íslenskarar náttúru hefur áður verið gerð skil á þessari síðu. Bæði vegna þess hvað blómið á stóra sögu í náttúrulækningum fyrri alda á Íslandi og vegna þess hvað það er áberandi þessa dagana þá má alveg minnast á það aftur, -þó ekki væri nema vegna blessaðra barnanna.

Blóðberg

Í sögu grasalækninga er blóðbergið mjög áberandi jurt og í dag er hún viðurkennd sem áhrifarík lækningajurt, bæði til innvortis notkunar fyrir öndunarfæri og meltingarveg og ekki síður til notkunar útvortis sem verkjastillandi á vöðva og gigtarverki. Áhrif hennar gegn bakteríu- og sveppasýkingum og styrkjandi áhrif á ónæmiskerfið eru ekki síður þekkt svo og bólgueyðandi og græðandi áhrif á útbrot og sár sem gróa seint og illa. (sjá meira)

Ég hef verið í sumarfríi síðustu viku og þessa. Það byrjaði á því að ég þurfti að leita á náðir blóðbergsins. Fyrstu dagarnir fóru í að fara snemma út á morgnanna og tína blóðberg í pott þar sem ég sauð það saman við fjallgrös og hunang. Andaði að mér gufunni úr suðunni og drakk síðan seyðið sem te. Þetta gerði ég 2-3 sinnum á dag.

Málið var að ég hafði fengið óstöðvandi hósta, sama eðlis og í vetur sem endaði þá með því að ég leitaði læknis sem greindi mig með berkjubólgu og vatn í lunga. Berkjubólgu sagði læknirinn að tæki 10 daga til 3 vikur að losna við og ekkert einfalt ráð væri til, -s.s. sýklalyf vegna þess að hún stafaði í mínu tilviki ekki af bakteríusýkingu. Ég yrði því bara að láta mig hafa það, en hún ávísaði samt á lyf í apótekinu og sagði að ég yrði að lesa mig vel til um aukaverkanir.

Þess er skemmst að geta að eftir að hafa tekið lyfið tvisvar voru einkenni verstu aukaverkunarinnar auðsjáanleg. Ég fór því í blóðbergs baukinn minn og notaði aðferðina sem ég lýsti hér að ofan og var laus við berkjubólguna og vatnið úr lunga á 10 dögum. Það fékk ég svo staðfest í heimsókn til læknisins og hún spurði hvort lyfið hefði virkað svona vel. Ég sagði henni eins og var, -þá sagði hún; það var rétt hjá þér hætta að taka lyfið strax og gott hjá þér að nota þetta gamla læknisráð.

IMG_8263

Þrír ættliðir líta eftir blóðbergi, -mæðgur og Óri

Sumarfríið byrjaði sem sagt  á óstöðvandi hóstagelti. En núna losnaði ég við að fá vatn í lungu, enda byrjaði ég á blóðbergs meðferðinni strax. Ég hef ekki þurft að halda mig heima og svo sem farið allra minna ferða. það má því segja að allt komi til þess sem heima situr. Því hjá okkur Matthildi minni hafa verið kærir gestir flesta daga, börn, barnabörn, frændfólk á ferðalagi og til að vitja átthaganna, -sem sagt sannkölluð sumarsæla. 

Tækifærið hefur verið notað til að fara í firðina neðra og um bakka Fljótsins í efra. Austustu firði og víkur landsins skoðaðir með frændfólki í einmuna veðurblíðu. Farið með barnabörnunum út í Tjaldastaði í útilegu þar sem Ævi hjálpaði afa að tína blóðberg og Óri æfði sig í að hósta eins og afi. Hjá Ævi hefur það tilheyrt sumrinu, síðan hún fyrst man, að tína blóðberg, sem við sötrum te af að kvöldi og þurrkum afganginn til vetrarins.

Ævi spyr ennþá snemma að vori, -afi förum við ekki út í Tjaldastaði í sumar? -og á við að fara með tjald og nesti út í gamlar steypumalarnámur við Lagarfljótið þar sem blóðbergið litar steypumölina bleika úr hinni fornu horfnu Jöklu. Þar er tjaldað og sumarblíðunnar notið við vellandi spóa og forvitna kjóa, enda alltaf einhversstaðar skjól í gömlu grúsunum á Tjaldastöðum. Um daginn bættist forvitinn selur í flóruna og auðvitað var Ævi fyrst til taka eftir honum.

IMG_8285

Ævi og Óri á Tjaldastöðum

Síðan sumarfríið byrjaði hefur verið farið á Boggann til að vera við Dyrfjallahlaup þegar börnin komu í mark. Farið á Dalatanga með systur og hennar fólki sem dvaldi hér fyrir austan í þrjár vikur. En systir varð sextug á árinu og var með ljósmyndasýningu um upplifun sína af Skorrastað í Norðfirði, -og mágur kom með uppistöðuna úr æsku bandinu, -Kvöldverður á Nesi. Bandið kallaðist Völusteinar í þetta sinn og spilaði við opnun sýningarinnar í Þórsmörk ásamt tveimur hljómleikum sem fóru fram sitt hvort kvöldið í Egilsbúð í Neskaupstað og Tehúsinu á Egilsstöðum, þar sem söngkonan Vala gerði m.a. Heyr mína bæn einstök skil fyrir fullum sal.

Systir Matthildar og mágur komu svo í austfjarðablíðuna um síðustu helgi með hjólhýsið sitt og var tækifærið notað til að heimsækja Norðfjörð og Vöðlavík sitthvorn daginn. Við komum á Skorrastað til að kveðja systur og hennar fólk áður en þau fóru suður. Þar hittum við Jóhönnu á Skorrastað tengdamóðir systur, sem fædd er 1930, alltaf jafn ung í anda eins og fólkið af 30 kynslóðinni.

Mágur Matthildar, sem er Húsvíkingur, spurði Jóhönnu að því hvort hún kannaðist nokkuð við ömmu hans sem hefði verið ljósmóðir um árabil á Norðfirði um miðja síðustu öld. Jú heldur betur, hún hafði tekið á móti tveimur af hennar börnum auk þess sem það kom í ljós að hún hafði tekið á móti tengdadóttir hennar sem stödd var á Skorrastað um leið og við.

Daginn eftir var farið í Vöðlavík og horft á Gerpi austasta fjall á Íslandi í heiðskýru, logni og yfir 20°C. Við Matthildur mín jöguðumst um hvort við hefðu keyrt yfir lækinn út á sandinn yst í Vaðlavíkinni til að drekka kaffi við öldunið undir melgresishól í þau skipti sem við höfðum komið þar áður, en það taldi Matthildur elliglöp í mér, við hefðum stokkið yfir lækinn í öll skiptin.

IMG_8449

 Þó hún sé víða grýtt leiðin okkar Matthildar minnar þá verður hún bara fallegri með árunum

Mágur hennar var bílstjórinn og stoppaði því hennar megin við lækinn þar sem við drukkum kaffi á grasbala í blíðunni, en svo fór hann niður í fjöru. Ég spurði hann þegar hann kom til baka hvort hann hefði fundið brú yfir lækinn, nei ég stökk, sagði hann rétt að verða sjötugur.

Þannig að ég gafst upp á að tuða um að mér yrði skutlað yfir lækinn og fann þess í stað hvar styst var á milli bakka og sýndist mér sjá að ekkert mál væri að stökkva. Tók tilhlaup en steig of langt, alla leið ofan í lækinn, náði ekki spyrnu og endaði stökkið úti í miðjum læk. Mátti þakka fyrir að hafa ekki steypst á hausinn í leiðinni.

Í bakaleiðinni úr Vaðlavík komum við svo við á Reyðafirði til að heilsa upp á yngsta sólargeislann okkar, hana Matthildi Helgu, sem fæddist í síðasta mánuði. Svona er nú að vera orðinn gamall og fótafúinn í sumarfríi, við ilm af blóðbergi umvafin blóðböndum á austfirskum sólskinsdögum, -og fyrir löngu laus við ákafasta hóstann.

IMG_8298

ps. Hér má sjá myndir frá sumrinu 2024.


Börn náttúrunnar

Við hjalandi læk með sólargeisla á vanga heyri ég dun frá fossinum í fjarska. –Þegar ég skrúfa númerin á gamla Grand Cherokee í byrjun sumars þá segi ég vinnufélögunum að ég noti hann til að fara í berjamó. Þá hlæja þeir fyrir kurteisis sakir og halda að ég sé að fíflast.

Enda hvernig getur það borgað sig að halda upp á verðlausan bensínhák sem leikur sér að 40 lítrunum fyrir bláber, jafnvel þó svo þau séu aðal. -Því er auðsvarða við Matthildur mín erum bæði orðin feyskin, lúin og fóta fúin. -Og sólageislinn hún Ævi á það til að spyrja; -afi förum við ekki á græna bílnum út í tjaldastaði.

Í sumarfríinu í síðustu viku fórum við Matthildur mín í lautarferð sem endaði niður í fjöru. Við höfðum rásað fram og aftur þjóðveginn í napurri austfjarðaþokunni áður en við fundum að endingu skjólgóðan stað undir grasbakka í hvítri skeljasands fjöru innan við leifarnar af gömlu steinsteyptu bryggjunni á Hafnarnesi.

Þegar við vorum búin að dekka borðið með Thermos kaffibrúsa og kanilsnúðum tók ég eftir að það var að flæða, en sagði Matthildi að það væri langt í að við flæddum. Ég sagði henni líka söguna af því þegar ég var aleinn úti í Noregi eftir hið svokallaða hrun og fór í fjöruna okkar í Akurvík á löngum frídegi eftir að hún var farin heim til Íslands.

Af því að tíminn var þá óendanlegur settist ég þar í flæðamálið og sat og sat, á meðan fjaraði. Og áfram sat ég og sat á meðan flæddi meðan ljósbrot sólarinnar lýsti upp andlitið á mér í spegli hafsins.

Þá gat ég orðið talaði við fuglana, það kom meir að segja til mín kjagandi máfur og skoðaði mig hátt og lágt veltandi vöngum. Svo skyndilega rankaði ég við mér þegar alda flæddi yfir skóna mína og máfurinn flaug og settist á sjóinn fyrir framan mig þar sem sólin speglaði sig.

Við Matthildur mín sátum í Hafnarnesfjörunni og fylgdumst með austfjarðaþokunni líða fram af grænum grasbakkanum, með máríerlurnar flögrandi í kringum okkur meðan að kollurnar kenndu ungunum sínum að kafa á sjónum fyrir framan. Óðinshani settist í fjöruborðið, snarsnérist á öldunni og tíndi upp í sig þaraflugur. Og kríurnar steyptu sér kneggjandi eftir síli eftir að hafa tekið okkur í sátt.

Ég spurði Matthildi eftir klukkutíma: -eigum við ekki að taka saman, – nei bíðum þangað til flæðir yfir skóna: sagði hún. Og áfram sátum við og nú í sólinni á meðan hún strauk okkur blítt um kinn í gegnum þokuna á meðan fyllurnar komu flæðandi inn á lygnuna innan við hafnartangann.

Svona leið tíminn ein klukkustund, tvær og þá allt í einu komst alda það langt að við þurftum að lyfta fótunum. Við tókum saman borðið og stólana settum kaffibrúsann í pokann. Um leið og við höfðum klöngrast upp á bakkann sá ég fyllu flóðs koma fyrir Hafnarnestangann, aldan reis inn með landinu og brotnaði svo á grjótinu í fjörunni undir bakkanum.

Þegar aldan hafði runnið út aftur var ekki svo mikið sem eitt skófar eftir okkur niður á hvíta skeljasandinum. -Þarna vorum við heppin: sagði ég, – já heldur betur: sagði Matthildur -Það er ekki víst að við hefðum lifað þetta af. Engin ætti að sleppa því á að hafa setið á milli flóðs og fjöru áður en það verður of seint.

-Nema þá við að vera upptekin eins Matthildur mín. Þegar við keyrðum í þokunni úr Hvaldalnum daginn áður, þar hafði ég lofað henni sól og sumri og stóð við það. En um leið og við komum úr Hvaldalnum og Hvalnesskriðunum í Álftafjörðinn liðum við út í þokuna.

Matthildur þá prjónandi mórauðar buxur á snáðann sem bíður óðþolinmóður eftir því að komast í heiminn sem næsta ömmugull. Ég þurfti að hæga á í þéttum þokubólstri vegna rollu með tvö lömb sem ætluðu sér hálfan veginn.

Þegar ég beygði til hliðar tók lambhrúturinn snögg hliðarspor í sömu átt fyrir framan bílinn og hoppaði hæð sína beint upp í loftið og sló saman fótunum. Hljóp svo hróðugur út fyrir veg. Matthildur hafði litið upp frá tifandi prjónunum og sagði; -sástu þennan töffara, sá var flottur.

Í upphafi síðasta áratugar síðustu aldar gerði Friðrik Þór Friðriksson sína ljúfustu kvikmynd, -Börn náttúrunnar, mynd sem náði þeim árangri að heilla heiminn. Myndin var um gamlingja sem tilheyrðu ekki lengur tíðarandanum og lögðu upp í ferðalag á gömlum Willys jeppa frá fjölmenninu út í náttúruna, -þar sem hjartað slær.

Já ég held að ég haldi áfram í berjamó eitthvað fram á haustið og stefni svo á að setji númerin aftur á gamla Grand Cherokke næsta sumar.


Skálholt – Turbulent Times

Út er komin bókin Turbulent Times -Skálholt and the Barbary Corsair Raids on Iceland 1627. Bókinni var fylgt úr hlaði af höfundum hennar Karli Smára Hreinssyni og Adam Nichols á óvenju veglegri Skálholtshátíð helgina 20. – 23. júlí s.l. í tilefni 60 ára afmælis dómkirkjunnar í Skálholti sem vígð var 21. júlí 1963.

Adam og Karl Smári eru sagnfræðingar sem eru á góðri leið með að gera Tyrkjaránið á Íslandi heimsfrægt. Út eru komnar 5 bækur frá þeim um það efni;

The Travels of Reverend Ólafur Egilsson – um ferðasögu Ólafs Egilssonar prests í Vestamannaeyjum sem komst lifandi heim úr Barbaríinu í Algeirsborg.

Northern Captives – um Tyrkjaránið í Grindavík og afdrif fólksins þaðan sem flutt var til Salé í Marokkó og selt á þrælamarkaði.

Stolen Lives – um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum.

Enslaved - um Tyrkjaránið á Austfjörðum.

Turbulent Times – um þátt biskupssetursins í Skálholti í varðveislu Tyrkjaránssögu.

Bækur þessar eru á ensku og þar er farið yfir sjálfa söguna auk bakgrunns Tyrkjaránsins á Íslandi, er þar ekki einungis byggt á íslenskum heimildum heldur einnig heimildum frá Norður Afríku og því stjórnmálaástandi í Evrópu sem varð til þess að hundruðum Íslendinga var rænt og þeir seldir á þrælamörkuðum.

Íslensku heimildirnar þykja einstaklega áhugaverðar í því ljósi að þær segja ekki einungis frá atburðinum sjálfum eftir á af yfirvöldum eða fræðimönnum, heldur eru til skrásettar samtímafrásagnir fólksins sem í þessum hörmungum lenti bæði í sendibréfum og vegna þess að sagan var skráð í Skálholti svo til um leið og hún gerðist eftir fólki sem varð vitni af atburðunum.

Þar af leiðandi eru þessar íslensku heimildir einstakar, jafnvel á heimsvísu, og vekja gríðarlega athygli varðandi þann hluta mankynsögunnar þegar sjóræningjar og atvinnulausir málaliðar fóru rænandi og ruplandi um Evrópu og seldu fólk í ánauð í múslímsku Barbaríinu. Nú er verið að gefa bækurnar út á m.a. Hollensku, Grísku, Frönsku og í Marokkó.

Heimildir eru til um að tólf skip hafi lagt í haf frá norðurströnd Afríku í þeim tilgangi að ræna eins miklu fólki af Íslandi og mögulegt væri sumarið 1627, -þræl skipulagðar aðgerðir. Einungis fjögur skip skiluðu sér samt alla leið til Íslands stranda svo vitað sé, eitt frá Marokkó og þrjú frá Alsír.

Skipstjórar og stór hluti áhafna þessara skipa voru Evrópumenn, Hollendingar, Þjóðverjar, Danir og jafnvel Norðmenn. Þetta voru menn sem höfðu misst vinnuna sem málaliðar í endalausum 30-90 ára stríðum Evrópu, gerðust trúskiptingar í N-Afríku sem kunnu að sigla um norðurhöf og útveguðu Barbaríinu þræla. Sæúlfar sem hikuðu ekki við að gera sér mannslíf að féþúfu.

Eitt skipanna kom til Grindavíkur fyrrihluta júní mánaðar þetta sumar og rændi þaðan fjölda fólks. Það skip fór síðan inn á Faxaflóann og hugðist gera strandhögg m.a. á Bessastöðum, en snéri frá við Löngusker og sigldi vestur með landinu áður en það snéri til Marokkó.

Tvö skip komu upp að Eystra-Horni við Hvalnes í Lóni. En náðu ekki að ræna fólki af Hvalnesbænum vegna þess að það var á seli í nálægum dal sem þeir fundu ekki þrátt fyrir ítrekaða leit. Þessi skip fóru síðan til Djúpavogs og rændu og drápu vel á annað hundrað manns við Berufjörð og víðar á Austfjörðum.

Tyrkjaránssaga Austfjarða er um margt einstök því söguþráðurinn í henni er þannig að engu líkara er en söguritarinn hafi verið á ferð með sjóræningjunum allan tíman sem þeir dvöldu við Berufjörð. En það kemur sennilega til af því að í Vestmannaeyjum voru fleiri en einn Austfirðingur settur í land í stað álitlegri þræla m.a. maður sem var fatlaður á hendi. Líklegt er að fólkið hafi sagt hvort öðru söguna í lestum skipanna og þannig hafi hún varðveist frá fyrstu hendi á austfjörðum og síðan verið skrásett eftir skólapiltum að austan í Skálholti veturinn eftir.

Þegar skipin yfirgáfu Austfirði, eftir að hafa gefist upp á að komast inn Reyðafjörð vegna sterks mótvinds, sigldu þau suður með landinu og sameinuðust einu sjóræningjaskipi í viðbót sem þá var að koma úr hafi. Þessi skip sigldu svo til Vestamannaeyja, þar rændu og drápu sjóræningjarnir vel á þriðja hundrað manns. Lýsingarnar úr Vestmannaeyjum eru hrikalegar.

Fólkið af Austfjörðum og Vestmannaeyjum var selt á þrælamarkaði í Algeirsborg og er þerri framkvæmd vel lýst í Ferðabók Ólafs Egilssonar sem varð vitni af því þegar kona hans og börn voru seld. Fæstir áttu afturkvæmt til Íslands og ekki er vitað til að nokkur Austfirðingur hafi komist alla leið til baka. Guðríður Símonardóttir, síðar kona sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar, var ein af þeim fáu sem komst aftur til Íslands.

Séra Kristján Björnsson vígslu biskup í Skálholti vill meina, í inngangsorðum bókarinnar um Skálholt, að sálmar Hallgríms Péturssonar verði ekki fullútskýrðir nema með hliðsjón af þessum atburðum Íslandssögunnar, og þá að kona Hallgríms varð Guðríður Símonardóttir, -þjóðsagan persónan Tyrkja Gudda.

Bókin um Skálholt, sem kom út nú í sumar, er um þær heimildir og bréf sem varðveittust um þessa atburði. Telja höfundar að það sé Oddi Einarssyni biskup að þakka hvað mikið er til um sögu fólksins, enda tengdist Oddur biskup sumu af fólkinu sem rænt var bæði fjölskylduböndum og eins er talið að margir hafi þeir verið vinir hans.

Fyrir rétt rúmu ári síðan átti ég því láni að fagna, vegna tilstillis Jóhanns Elíassonar bloggara, að verða þeim bókahöfundunum innanhandar á sögusviðiðnu hér fyrir austan, sem aðallega fólst í því að benda þeim á þjóðsagan safn Öldu Snæbjörnsdóttir, -Dvergaseinn, -sem geymir skýrslu austfirskra skólapilta í Skálholti ásamt fjölda munnmæla og þjóðsagna um Tyrkjaránið hér fyrir austan.

Þeir félagar sendu mér bókina um Skálholt áritaða í pósti og fór ég samstundis sambandslaus niður á Sólhólinn úti við ysta haf í síðustu viku með henni Matthildi minni til að lesa um Skálholt á ólgu tímum.

Bókin er meira en fullkomlega þess virði að stauta sig í gegnum hana á ensku enda rennur hún vel, því sem næst eins og spennusaga. Það er fyrir löngu kominn tími til að Tyrkjaráninu verði gert skil á íslensku á jafn veglegan og vandaðan hátt og þeir Adam og Karl Smári hafa gert á ensku.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

Á meðan ég las bókina Skálholt í síðustu viku fórum við Matthildur mín á Hvalnes og fundum dalinn þar sem fólkið dvaldi í þegar sjóræningjarnir fundu það ekki. Þetta er einstakur huldudalur sem heitir Hvaldalur og liggur á bak við Eystra-Horn alla leið inn undir Lónsheiði. Þó það sé hvergi sagt í Tyrkjaránssögu að Hvaldalur sé dalurinn með selinu, þá leynir það sér ekki við skoðun.

Þó svo að keyrt sé í gegnum dalinn á þjóðvegi eitt þá sést hann ekki fyrr en gengið er upp á tvær hæðir. Þó svo að ég hafi í hundruð skipta keyrt þessa leið fram og til baka þá hafði mér ekki hugkvæmst að kanna þennan dal fyrr en ég fór að spá í hvar fólkið á Hvalnesi hafði bjargast undan Hundtyrkjanum.

Eystrahorn 2014

Eystra-Horn er sterkt kennileiti á austur Íslandi þegar komið er af hafi. Bærinn Hvalnes kúrir undir fjöllunum. Þegar keyrt er fyrir Hvalnesið hægra megin á myndinni er komið yfir í Hvaldal.

 

IMG_7414

Þjóðvegur eitt í Hvaldal, framundan eru Hvalnesskriður. Hvassklettar vinstra megin við veginn. þar fannst einn elsti peningur sem fundist hefur á Íslandi.  Silfurpeningur sleginn í Róm 285 - 305 e. kr.. Sandurinn heitir Hlíðarsandur og var á öldum áður algrænn af melgresi, þar voru slegnir 50 hestar. En í Knútsbil 7. jan. 1886 fuku síðustu stráin á haf út. Nú er aðeins farið að votta aftur fyrir grænum lit í sandinum.

 

IMG_7304

Þegar litið er upp Hvaldal frá þjóðveginum við ströndina, þá skyggja Hvassklettar á útsýnið inn dalinn, auk þess sem hann beygir til austurs fyrir innan klettana.

 

IMG_7315

Það leynir sér ekki hvers vegna Hvassklettar bera það nafn. Þegar komið er upp á þá mætti ætla að sæist inn allan Hvaldalinn, en svo er ekki.

 

IMG_7350

Til að sjá inn allan dalinn þarf að fara nokkra leið þar til komið er á brún á framhlaupi sem ég held að heiti Hlaupgeiri. Þar má fyrst sjá inn allan dalinn. Þar eru örnefni eins og Seltindur, Selgil, Selbrekka og Selbotn, sem benda til að þar hafi verið haft við á seli áður fyrr.

 

IMG_7370

Hvaldalurinn er víða að verða grænn og gróinn. Sjá má melgresi bylgjast í blænum og grasbala inn á milli. Dalurinn er sem áður notaður til sumarbeitar fyrir sauðfé. Sennilega yrði túristavaðallinn fyrri til að eyða nýgræðingnum en sauðkindin, ef ferðamenn uppgötvuðu þennan fallega og friðsæla stað sem liggur að baki Eystra-Horni.

 

IMG_7398

Jafnvel þó ánni sé fylgt frá þjóðvegi sést ekki inn allan Hvaldalinn fyrr en komið er fyrir Hvasskletta og Hlaupgeira. Það er því ekki skrítið að Tyrkjunum hafi yfirsést hvar fólkið var á seli í Hvaldal, þó svo að þeir hafi komið í dalinn.


Sumarfrí - áður en amma varð ung

Áður en túrisminn og skuldahalinn heltóku landann voru sumarferðalög með öðrum hætti en nú tíðkast. Þetta rifjaðist upp í fyrra þegar ég skoðaði ljósmyndir úr 50 ára ferðalagi um landið, nánar tiltekið frá árinu 1972. Þá var þjóðvegurinn enn þessi grýtta braut og hafði ekki einu sinni bundið slitlag á aðalgötu flestra þorpa landsins.

Þetta var fyrir tíma skipulegra tjaldstæða nema í allra stærstu bæjum. Þegar sjálfsagt þótti að ferðamenn tjölduðu til einnar nætur þar sem nótt nam dag, -svo framarlega sem það væri ekki inn á lóð hjá fólki í þéttbýli eða á ræktarlandi til sveita.

Í dag, -þegar annaðhvort Tene eða hjólhýsið verður þrautalendingin hjá landanum um hábjarta sumarnóttina á landinu bláa, -bæði veðurs vegna og túristavaðals, svo ekki sé nú minnst á munaðinn, -þá getur verið áhugavert að rifja upp þennan horfna tíma.

Foreldrar mínir voru miklir ferðagagarpar í sumarfríum þegar íslensk náttúra var annars vegar. Út fyrir landsteinana fór móður mín t.d. aldrei og faðir minn einungis tvö skipti vegna starfa sinna. 

Ömmur mínar og afar vissu varla hvað sumarfrí var, -hvað þá Tene, eða malbik og að í vændum væru tímar lúxus sumarheimila á hjólum um þjóðvegi landsins, jafnvel samfelldir sólskinsdagar á erlendri strönd, -þá varð himnaríki að duga. 

IMG_0010

Það var mikið ævintýri fyrir okkur börnin að alast upp við ferðamáta foreldra okkar og ekki ósjaldan sem sumarferðalög fjölskyldunnar ber á góma þegar við systkinin hittumst. Ég verð samt að viðurkenna að það er með hálfum huga sem ég segi frá rúmlega hálfrar aldar ferðalagi og birti myndir með hér í þessum pistli. Þær eru eiginlega svo persónulegar.

Mér datt í hug að setja inn blogg um ferðalagið í fyrra, þegar það stóð á fimmtugu, en hætti við, fannst það ekki viðeigandi. Svo var það núna í vetur, þegar ég las í gegnum dagbækur afa míns, að ég sá að hann hafði haldið dagbók um þetta ferðalag, -hvern einasta dag. En ég hygg að þetta hafi verið fyrsta ferðlag hans í sumarfríi, -jafnvel út fyrir Austurland, þá á 64. aldursári, -svipuðum aldri og ég er í dag.

Í þessu ferðalagi vorum við bræðurnir í willysnum með afa, árgerð 1946. Amma var í bíl með foreldrum okkar og systrum, -Renult, sennilega árgerð 1965, bíll með skottið að framan en vélina að aftan. Frænka okkar, -hennar maður og dætur voru á Opel, líklega árgerð 1959 eða 1960. Tjöldum, svefnpokum, prímusum, pottum og pönnum, -ásamt nesti, niðursuðudósum og öðrum farangri var hlaðið í farangursgeymslur eða bundið á toppgrindur bílanna.

IMG_0011

Ferðin var farin norður í land og var endastöðin Lýtingsstaðahreppur í Skagafirði, en þar bjuggu sonarbörn afa og ömmu með sinni móður hjá móðurforeldrum. Þar snérum við við ásamt ömmu og afa, en frænka og hennar fjölskylda hélt áfram ferðalaginu til Reykjavíkur á Opelnum og síðan sömu leið til baka, því þetta var fyrir tíma hringvegarins.

Ferðalagið hjá okkur tók rúma viku. Um Norðurland var farið vítt og breytt. Tjaldað við Mývatn, í túninu hjá ömmu og afa í Laugafelli á Laugum, - á Akureyri, farið um Ólafsfjarðamúla yfir Lágheiði í Fljót og á Siglufjörð, síðan í Skagafjörð. Til baka var farið um Öxnadalsheiði. Á Akureyri og í  Laugafelli var stoppað bæði á leiðinni norður og aftur austur. Tjaldað var þar sem dag þraut og allar næturnar nema eina svaf afi í tjaldi og amma fleiri en eina.

Í Laugafelli gisti amma í rúmi, eins á Akureyri, en þar heimsótti hún systur sína og varð 71 árs í þeirri heimsókn. Í Skagafirði heimsóttu amma og afi, auk afkomendanna, vini sína presthjónin á Mælifelli, en þau voru þá nýlega komin í Mælifell frá Vallanesi. Amma og afi höfðu búið í áratugi á Jaðri í Vallanesinu allt til fardaga sumarið 1970.

IMG_0008

Þetta var mikið ferðalag fyrir hjón á þessum aldri, mikið á sig lagt með börnum við að skoða landið, sem var svo stórkostlegt, eins og afi benti okkur bræðrum oft á út um bílrúðuna í þessari ferð, -meðan við vorum meira í að benda honum á hvar á veginum williysinn væri. Og ekki leist okkur á allt stórkostlega útsýnið í Ólafsfjarðarmúlanum því willysinn átti til að rása og hrökkva úr gír.

Í dagbókarfærslum afa voru yfirleitt örstuttar setningar um landshætti sem sýna vel hve  honum voru landsins gagn og nauðsynjar ofarlega í huga. Ég ætla að setja hér inn dagbókarskrif  afa á 71 árs afmælisdegi ömmu fyrir rúmri hálfri öld síðan og myndir úr þessu ferðalagi sem faðir minn tók, ásamt einni sem ég tók.

26. júlí. Þegar við höfðum sofið svefni hinna ánægðu aðra nóttina á Akureyri og snúist við eitt og annað fram að hádegi lögðum við af stað lengra vestur.

Keyrðum blómlegar sveitir. Um Dalvík sem er stórt þorp, fyrir Ólafsfjarðarmúla, sem er um leið hrikalegt vegstæði, en mjög fallegt. Hrísey liggur að baki, Hrólfsker með sinn vita og vísar fleyinu hlöðnu fiski. Grímsey liggur í móðu við sjóndeildarhring. Mörg harmasagan er búin að gerast þar á milli lands og eyjar, nú er hafflöturinn eins og spegill.

Við höfðum fengið okkur hádegisbita í Svarfaðardalnum rétt fyrir innan Hof í mjög fallegum skógarreit. Við erum stödd á Ólafsfirði snotrum bæ sérkennileg og falleg fjöll. Sveitin á sennilega ekki margra kosta völ með ræktun. Ég hitti þar Ásgrím Hartmannsson bæjarstjóra, skólabróðir minn frá Eiðum 1930.

Nú höfum við farið Lágheiði, Fljótin, Strákagöng og erum búin rétt einu sinni enn að stofna heimili í ljúfum lækjarhvammi.

  

 IMG_0002

Hjalandi lækur og sléttur grasbali voru lykilatriði þegar tjaldað var til einnar nætur

 

IMG_0005

Magnús afi og Björg amma fyrir framan tjaldið sitt í morgunnsól

 

IMG_0006

Við systkinin; Björg, Dagbjört, Áskell og Magnús, að spá í myndavélina mína

 

IMG_0001

Systkin í sunnan blæ

  

IMG_0003

"Konur gerðu garðinn" í Lystigarðinum á Akureyri sem þótti í þá daga stórkostlegur

 

IMG_0012

Áskell afi og Dagbjört amma við rósirnar hennar ömmu fyrir framan Laugafell

 

IMG_0013

Systur hittast á Akureyri, Björg og Vilborg

 

IMG_0009

Börn fyrir framan íbúðarhúsið á Borgarfelli í Lýtingslaðahreppi

 

Bjarghildur, Erla, Björg, Dagbjört og Áskell

Myndin mín er úr Svarvaðadal, af Bjarghildi og Erlu Einarsdætrum og systkinum mínum

 

IMG_0014

Mamma að kanna tjaldbúðirnar, hún hafði sama kæk og Kim Larsen, setti tunguna upp á vör þegar hún var einbeitt, eða annars hugar. Við börnin hennar erfðum þennan kæk og vorum oft í halarófu á eftir henni. Þetta vandist af með aldrinum, en það var samt svo að mín börn áttu til að kíma og segja hvort við annað "sjáðu nú gerir pabbi þetta aftur"

 

IMG_0021

Þessi mynd er núna akkúrat hálfrar aldar gömul, tekin við Torfunesbryggju á Akureyri. Þetta var síðasta sumarfríð mitt með foreldrum mínum, enda farinn að vinna í byggingavinnu á sumrin 1973. Þetta ferðalag var stutt því mamma var komin á steypirinn. Seinna þetta sumar fæddist Sindri bróðir. Hef myndina með til að sýna hvað pabbi var lunkinn ljósmyndari

 

Ps.Við Matthildur mín höfðum annan hátt á á sumrin með okkar börn, fórum helst ekki neitt, nema þá í fjörurnar úti á landi við Djúpavog, -lengst í sumarbústað eða heimsókn til Húsavíkur.

Það var ekki fyrr en krakkarnir fóru að spá í hvers vegna aldrei væri farið í almennilegt ferðalag á sumrin að við tókum upp á því að fara til Spánar. Enda var ég alltaf í vinnunni og ferðaðist mikið hennar vegna um landið bláa á þeim árum, -og Spánn því ráðið til að vera ekki með hugann við vinnuna ótruflaður með fjölskyldunni.

Undanfarin ár höfum við Matthildur mín átt það til að setjast upp í okkar fjallabíl með kaffibrúsann, fermingasvefnpokana og tjaldið. Sett þá Bubba í spilarann, hlustað á hann syngja um það þegar hann hlustaði á Zeppelin og ferðaðist aftur í tímann. Teljum okkur þá trú um að við ætlum að tjalda í eina nótt og fara svo heim aftur, en oft endað á því að fara hringinn í kringum landið með útúrdúrum á Vestfjörðum.

Eftir að sólskríkjan Ævi komst upp á lagið, höfum við aftur tekið upp á að sakna daganna úti á landi og förum þá með henni í stuttar ferðir út í Tjadastaði, sem eru gamlar steypumalarnámur á bökkum Lagarfljótsins, tjöldum þar, tínum blóðberg og fallega steina, erum svo komin heim á náttatíma fyrir háttatíma.

Sumarferðirnar okkar Matthildi út á land í denn voru því hentugar börnum á öllum aldri og voru stundum farnar með frændfólki á Djúpavogi. Sumarið 1992 kom einn frændinn með sína fjölskyldu alla leið frá Ástralíu og fór með í svoleiðis ferð, -einmitt sá sem heimsóttur var í Skagafjörðinn 1972.


Sjálfsalinn

Ég hef verið í sumarfríi og af því ég fer aldrei neitt þá hef ég þvælst um það sem er kallað næsta nágrenni. Þetta eru stuttir bíltúrar á gamla sorry Cherokee frá því á síðustu öld, og hef ég talið mér trú um að nóg sé komið þegar nálin er komin niður á bensínmælinum og diska kassettan í dvd spilaranum á enda.

Þvælst um næstu sveitir, það er nefnilega svo með það sem næst er að maður hefur ekki gefið því tíma í gegnum tíðina, því það er svo nálægt að það má skoða hvenær sem er. Þannig uppgötvaðist Hjaltastaðþingháin óvænt fyrir átta árum, og er ég búin að þvælast um hana síðan.

Þó förum við Matthildur mín stundum í lengri ferðir í sumarfríum, t.d. suður á Höfn í gær en þangað höfðum við ekki komið árum saman. Bæ sem er næstur við Djúpavog og 200 km frá Egilsstöðum. Oft var farið þangað á meðan við bjuggum á Djúpavogi, en máttum aldrei vera að því skoða.

Á Höfn verður varla tjaldað til neinnar nætur úr þessu, túristavaðallinn er búinn að sprengja upp verðið, og verða dagsferðir því að duga þó langt sé sé orðið að fara. Matthildur mín er fyrir löngu hætt að nenna  með mér í Hjaltastaðaþinghána, en sá heldur betur á eftir því um daginn.

Þá hitti ég Kidda vídeóflugu, þar sem hann var að huga að blómaskreytingu við sjálfsalann sinn og snarstoppaði náttúrulega til að tala við hann. Samtalið varð endasleppt því túristavaðallinn er komin um leið þar sem tveir bílar stoppa, -eins og mý á mykjuskán.

IMG_6754

Kiddi var með vídeóleigu á síðustu öld, sem hann kallaði Vídeóflugan, og varð landsfrægur sem Kiddi vídeófluga. Eftir daga vídeóleignanna kom hann upp sjálfsala í Hjaltastaðaþinghá sem er orðinn miklu þekktari en vídeóið á síðustu öld, -hann er hreinlega heimsfrægur.

Þessi sjálfsali er keyrður á umhverfisvænni orku fenginni úr sólarsellum og vindrellum. Fyrir stuttu var Kidda boðinn posi endurgjaldslaust þannig að nú er hægt að kaupa í sjálfsalanum með korti.

Það má segja að Kiddi hafi verið langt á undan sjálfsafgreiðslukössum stórmarkaðanna því hann hefur verið með þennan sjálfsala á Bóndastaðahálsinum í Hjaltastaðþinghá frá því árið 2001.

Fyrir 11 árum voru haldnir hljómleikar við sjálfssalann. Skúla, vinnufélaga í steypunni, og félögum hans þótti staðurinn ákjósanlegur, en þeir voru gefnir fyrir óvæntar uppákomur og áttu það til að poppa upp hér og þar s.s. á bílastæðum við verslanir eða bara þar sem þeir komust í rafmagn.

Kiddi veitti þeim góðfúslega leifi til að spila við sjálfsalann með því eina skilyrði að hann fengi að dansa. En hann var þekktur á árum áður á Egilsstöðum fyrir diskó dans á dögum Saturday Night Fever.

Seint á síðustu öld ætlaði bareigandi á Egilsstöðum að bústa söluna hjá sér með því að fá Kidda til að sýna gamla takta, en var sagður hafa gert þau regin mistök að selja ekki inn á barinn.

Barinn var svo pakkaður af fólki þetta kvöld að engin komst þaðan sem hann stóð og þegar Kiddi hafði lokið dansinum þá var ekki um annað að gera en að olnboga sig út úr troð fullu húsinu, -lítið varð af sölu á barnum.

Það er því kannski ekki skrítið að Kiddi, sem er orðin frægari en bæði diskóið og vídeóið, hafi því viljað dansa í heima sveitinni, þar sem er nóg pláss við sjálfsalann.


Borg óttans

Reykjavík er stundum kölluð borg óttans og kannski ekki að ástæðulausu. Jafnframt hefur því heyrst fleygt að suðvestur hornið allt sé kallað landráðaskagi af landsbyggðarlýðnum. Það breytir samt ekki því að Reykjavík er höfuðborg allra Íslendinga og fæðingabær síðuhafa.

Ég fór til Reykjavíkur s.l. sunnudag. Flaug suður til að fara í þræðingu á Hjartagátt Landspítalans eldsnemma á mánudagsmorgunn. Fékk gistingu í Barmahliðinni hjá Dagbjörtu systir sem hringdi í Áskel bróðir og boðaða að hann yrði heimsóttur á sunnudagskvöldið af sér og okkur Sindra bróðir.

Guðjón mágur keyrði upp í Grafarvoginn og á þeirri leið varð mér hugsað hvað ég hefði oft keyrt þessa leið þau fjögur ár sem við Matthildur bjuggum í Grafarvoginum. Breytingarnar á Grafarvogi eru ekki miklar á 20 árum, helst að trén hefðu stækkað og gróðurinn virtist suðrænni.

Morguninn eftir keyrði Guðjón mér á Landspítalann við Eiríksgötu þar sem ég var þræddur. Þessi þræðing var ákveðin í byrjun júní og ég búin að vera með undanbrögð í allt sumar, sem ég tímdi ekki að eyða degi af í leiðindi.

Meðan ég lá á gáttinni bíðandi eftir að slagæðin lokaðist, sem voru um 4-5 klukkutímar, varð mér hugsað til þess, gónandi upp í loftið á rafmagnsljósin, að á horninu hinu megin við götuna hefði verið klippt á naflastrenginn fyrri öllum þessum árum síðan, enda hafði ég um ekkert að hugsa snjall tæknilaus maðurinn og búin að drepa á mínum gsm læstum inn í skáp.

Dagbjört systir kom svo og sótti mig og þegar við komum í Barmahlíðina ákváðum við að ganga út á Klambratún í Kjarvalstaði og skoða portrettin hans Kjarvals. Mér þóttu Borgfirðingarnir, nágrannar mínir að austan bestir og fannst þekkja hvern andlitsdrátt.

Ein af stóru myndunum var af fjórum mönnum stöddum í Hjaltastaðaþinghá í svífandi umhverfi með Selfljótinu og Dyrfjöllunum séðum frá Kjarvalshvamminum. Þeirri mynd snaraði Kjarval á striga í geðshræringu þegar honum var færður Gullmávurinn að gjöf, norskan Norlending, seglbát sem Kjarval sigldi einn niður Selfljótið út á Héraðsflóann og þokuna áður en hann kom inn á Borgarfjörð.

Þá var Kjarval 71 árs siglinga tækjalaus og óreyndur siglingamaður en ekki brást honum ratvísin heim í þokunni. Spurning hvernig menn hefðu sig í gegnum þetta snjalltækjalausir í dag þegar gps og kort eru komin í hvert snjallúr og síma.

Á þriðjudagsmorgunninn fór Dagbjört með mér á rölt um Reykjavík. Við keyrðum upp á Skólavörðuholt og löbbuðum niður Skólavörðustíginn niður í gömlu Reykjavík sem var orðin gjörbreytt neðan við Lækjargötu frá því ég kom þar síðast.

Ég get nú ekki sagt sem svo að ég hafi beint veri imponeraður af nýju Reykjavík þó svo að steinsteypan hafi fengið að njóta sín á stöku stað í því H&M Kalverstraat, þá minnti það meira á Sovéskan supermarkað. Túrista vaðallinn hafði velst um allar götur, en þarna brá svo við að ekki var hræðu að sjá innan um heimsklassa herlegheitin.

Á Austurstræti streymdi túristavaðalinn og hægt var að fylgja straumnum upp á Skólavörðuholtið aftur þar sem markmið ferðarinnar var fullkomnað með því að skoða Listasafn Einars Jónssonar. Það safn hafði ég aldrei skoðað og varð dolfallinn.

Dagbjört keyrði mér svo út á Reykjavíkurflugvöll. Það má því segja að ferðin í borg óttans sem ég hafði forðast í allt sumar hafi endað sem menningartengd borgarferð.

IMG_5203

Kjarval engum líkur í sinni fjölbreytilegu litadýrð

 

IMG_5210

Íslenskt handverk á boðstólum í gamalli steypu

 

IMG_5215

Gimli í Lækjarbrekku, húsið sem ég vann síðast við múrviðgerðir í Reykjavík, en ég var svo heppin að vinna mikið í gömlu Reykjavík þegar við bjuggum í Grafarvogi 

 

IMG_5218

Nýja Reykjavík

 

IMG_5226

Sovéskur súpermarkaður?

 

IMG_5237

Meir að segja skatturinn er farinn, en myndin hennar Gerðar Helgadóttur stendur fyrir sínu

 

IMG_5241

Eftirsóttasta hornið heitir ekki lengur Kaffi París, nú heitir það Dukc & Rose

 

IMG_5246

Hressó stendur vaktina

 

IMG_5249

Lækjarbrekka án lambasteikur

 

IMG_5250

Skólavörðustígur og glóballinn

 

IMG_5251

Ferðamenn í haustlitum

 

IMG_5254

Ísland í dag

 

IMG_5256

Skólavörðuholt 

 

IMG_5270

Slakað á garðinum á bak við Listasafn Einars Jónssonar

 

IMG_5282

Sjá má grilla í hrjóstrugt Skólavörðuholtið í allri hnattrænu hlýnuninni

 

IMG_5289 - Copy

Útlaginn hans Einars Jónssonar, mitt upp á hald

 

IMG_5333

En má sjá gömlu litfríðu Reykjavík líkt og rigningarskúri á stöku stað


Hafnarhólminn

Þá er sumarfríið hafið hjá landanum með öllum sínum lystisemdum, rigningu, roki og jafnvel slyddu, en sól og hiti þar á milli. Ég heyrði oft erlenda ferðamenn dásama þessa tíð þegar ég seldi lopapeysurnar hennar Matthildar minnar sumrin eftir hrun. Eitt af því sem aldrei var til nóg af, auk lopapeysanna, voru svartir stutterma bolir með áletruninni Day in Iceland og öllum veðurtáknum á bringunni.

Nú er sumarfríið okkar formlega hafið, mötuneytið og steypan komin í frí og lopaleysan aftur í, svona til vonar og vara, og ekki má gleyma Færeysku prjónabrókinni í allri sumarblíðunni. Í gær var farið á Boggann, eða Borgarfjörð-eystri eins og fjörðurinn fagri formlega nefnist. Veðrið var allslags, þó ekki rigning. Sólarlaust blíðulogn fram eftir morgni, strekkings kalsa vindur um miðjan daginn og sumar og sól seinnipartinn.

Litla stórfjölskyldan okkar var öll í Borgarfjarðar blíðunni í gær, nema sá sem ekki kemst frá vegna ferðamanna. Í gær var Dyrfjallahlaupið sem ekki er hlaupið í gegnum Dyrfjöllin  heldur fjöllin á Víknaslóðum. Ungur vinnufélagi minn í steypunni, sem er mikill fjallagarpur, hefur getað sagt mér allt um þessi fjöll svo oft hefur hann smalað þau á harðahlaupum, - hann tók ekki þátt. Sagðist ekki ætla að taka þátt í hlaupi sem kennt er við Dyrfjöll en hlaupið í þveröfuga átt.

Fleiri hundruð manns allstaðar af landinu tóku þátt í Dyrfjallahlaupinu og fjörðurinn fagri iðaði af fjölþjóðlegu mannlífi. Við gömlu létum nægja að hlaupa á eftir Ævi og bíða við endamarkið eftir fjölskyldumeðlimum litlu stórfjölskyldunnar. Á eftir var farið út í Hafnarhólmann í eitt skiptið enn og ekki sveik hann frekar en fyrri daginn, og Þiðranda forðum. Ævi var að sjá uppáhalds fuglinn sinn í fyrsta sinn, en hingað til hefur teiknimynd í sjónvarpinu verið látin duga. 

Höfnin á Borgarfirði er einstaklega falleg og einn langvinsælasti áfangastaður ferðamanna á Austurlandi. Aðstaðan við Hafnarhólma til fuglaskoðunar er með eindæmum góð og hér er auðvelt að komast í návígi við Lunda, Fýl, Ritu og Æðarfugl auk annarra tegunda sem dvelja í og við hólmann. Á undanförnum árum hefur Borgarfjarðarhreppur ásamt landeigendum lagt metnað sinn í að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn til fuglaskoðunnar og útivistar við höfnina. Búið er að leggja göngupalla um hólmann, opna fuglaskoðunarhús og þar er nú risið glæsilegt þjónustuhús með sýningarrými, veitingaaðstöðu, snyrtingum og aðstöðu fyrir sjómenn Hér er mikið lundavarp og talsvert æðavarp ásamt dálitlum ritu- og fýlsvörpum. Æðavarpið er mest áberandi í fyrri hluta júní á meðan blikinn er í varpinu. Lundinn er við holur sínar fram í ágústbyrjun og rita og fýll við hreiður út ágúst. (af síðu Borgarfjarðar-eystri)

Set hér inn nokkrar myndir frá gærdeginum, það getur hvaða auli sem er náð góðum lundamyndum í Hafnarhólmanum.

 

IMG_3556

IMG_3565

Hafnarhólminn

Ævi

Lundar

IMG_3610

Lundi


Vesterålen

IMG_0701

Vesturállinn eru eyjar nyrst í Nordland fylki í Noregi. Staðsettur rétt norðan við Lofoten og vestur af Hynneyju. Sortland er stærsti bærinn, staðsettur nálægt miðju eyjaklasans. Vesterålen nær yfir Andey, Langey, Hadseley og Skógey ásamt fleiri smáeyjum. Þar eru sveitarfélögin Andøy, Bø, Hadsel, Sortland og Øksnes.

Map-of-Norway-Hiking-Regions-N

Vesterålen er á mörkum 68°- 69°N rétt vestur af Harstad í Troms fylki sem er á Hynneyju, stærstu eyju við Noregsstrendur. Einungis Svalbarði er stærri af eyjum á yfirráðasvæði Noregs. Hluti sveitafélagsins Andøy í Vestrålen er á Hynneyju.

Það sama hefur gerst í N-Noregi og á Íslandi með sameiningu sveitarfélaga, minni byggðirnar hafa veikst og ekki endilega orðið til nein heild. Þar virðist vera það sama uppi á teningnum og hér á landi, að horft er meira til ákveðins íbúafjölda frekar en hvað íbúarnir eiga sameiginlegt. Þessi þróun er auðséð í Vesturálnum sem á verulega í vök að verjast.

IMG_0789

Nordmela á Andeyju er lítið sjáaþorp. Byggðirnar á ystu ströndum Atlantshafsins muna fífil sinn fegri þegar öllu skipti að fá byr í seglin og lífið var saltfiskur

Sumarið 2012 var Matthildur mín hjá mér í Harstad. Reyndar vorum við stærstan hluta sumarsins norður í Finnsnesi í Troms ásamt vinnufélögum mínum við múrverk í járnblendiverksmiðju. Bjuggum þar á tjaldstæði og í íbúðarhúsi byggingastjóra verkefnisins, sem hét Arna og var samísk, hún lánaði okkur og vinnufélögunum húsið á meðan hún var í sumarfríi.

Ég ef sagt frá þessu sumri í pistlum um Senja og Lofoten, en nú ætla ég að segja aðeins frá ferð út í Vesterålen, sem var kallaður Vesturállinn af forfeðrunum okkar vikningunum. Þeirra byggðir voru við ströndina og á ystu eyjum. Inn til landsins voru byggðir sama (finna). Og náði það sem kallað er Finnmörk lengra suður í Noreg en þar sem Finnmörk er nú skilgreind.

Sumarið 2012 átti Matthildur mín fimmtugs afmæli og við 25 ára brúðkaupsafmæli. Þetta var erfitt sumar ég í útlegð, Matthildur glímdi við líkamlega vanheilsu og bankinn bauð upp á afarkosti. Við Matthildur gerðum okkur þó dagamun á þessum tímamótum með því að þvælast um helgar í boði Mette framkvæmdarstýru Murbyggs á vinnubílum, eða á hennar bíl þegar hún fór í sitt sumarfrí siglandi á skútunni sinni til Svalbarða.

IMG_0790

Hvítar sandstrendur við bæinn Bleik eru himneskar. Sjávarplássið er orðið að nokkurskonar sumarleyfisstrandbæ líkt og Borgarfjörður-eystri. Í þríhyrningslöguðum eyjunni sem rísa úr hafi er stærsta lundabyggð við Noreg 

Eftir ferð okkar í Vesterållen bað Mette mig lengstra orða að minnast ekki á þær eyjar við nokkurn lifandi mann, þegar hún varð var við hrifningu okkar á þeim. Hún sagði að þennan hluta N-Noregs vildu Norðmenn hafa fyrir sjálfa sig, í friði fyrir túristum. En nú ætla ég að ganga á skjön við fyrirmæli Mette þrátt fyrir alla greiðasemina. Enda spurning hvað maður getur lengi haldið kjafti yfir fjársjóði.

Vesturállinn er með magnaðri stöðum sem við Matthildur höfum heimsótt, með öllum sínum sveitum, litlu sjávarplássum, hvítu sandströndum á skógi vöxnu eyjum. Það má teljast með ólíkindum að eins fallegt svæði og vel úr garði gert frá náttúrunnar hendi skuli eiga undir högg að sækja byggðalega, hefur fjármagninu meir að segja komið til hugar að hefja stórfellda olíuvinnslu í Vesturálnum til að bjarga málum, -eða þannig.

Einn af þeim bæum sem við heimsóttum var Nyksund á Langeyju, bær sem var alfarið yfirgefinn árið 1970. Rúmlega 30 árum seinna í upphafi 21. aldarinnar fór bærinn að glæðast lífi á ný með búsetu listafólks. Ég heyrði reyndar frá norskum vinnufélaga, sem sagði mér upphaflega frá tilvist þessa bæjar, að það hefði verið moldríkur þjóðverji sem hefði keypt bæinn á einu bretti, hvorki með manni né mús, en ótrúlegri höfn frá náttúrunnar hendi og öll sín hús.

Þó svo að Nyksund hafi verið upphaflegi hvatinn að því að fara út í Vesturálinn þá heillaði margt fleira, m.a. strandlengjan við bæinn Bleik en þaðan er opnumynd þessarar bloggsíðu. Þessi helgi úti í Vesturálnum var bæði silfurbrúðkaups- og fimmtugsafmælis virði og í geislaspilaranum í bílnum suðuðu íslenskar dægurflugur.


Staulast í Stuðlagil

Þeir hringdu í morgun sögðu að Lilla væri orðin óð. Að hún biti fólk í hálsinn drykki úr þeim allt blóð. Jú stórir strákar fá raflost, -en hvað á að gera við þá sem hafa drullað upp á bak? Það væri sjálfsagt tilefni til að greina nýjustu uppákomur dularfullu drepsóttarinnar sem tröllríður landanum nú um há sumar annað árið í röð.

En ég bara nenni því ekki og væri gáfulegra að steypa í langloku um það þegar við Matthildur mín stauluðumst í Stuðlagil til að teljast meðal manna, eða þegar við fórum vestur þar sem fjöllin vaka há í skriðum skreyttum hlíðum við spegilslétta firði.

Matthildur latti reyndar staðfastlega til beggja faranna með rökföstum úrtölum, benti mér m.a. á að ég hefði oft komið að þessu fjandans gili. -Já kíkt ofan í það að vestan sagði ég það er bara ekkert að marka. Vestur sagði hún að gömul hró með tjald og fermingasvefnpoka, hefðu ekkert að gera á pestartímum. -Ég fer þá bara einn sagði ég þú getur þá bara verið heima.

Þegar ég hafði runnið á rassgatið með hvoru tveggja, fyrst í Stuðlagilsferðinni vegna þess að Matthildur missteig sig og steyptist á hausinn á fyrstu hundrað metrunum á stórgrýttum göngustígnum og ég staðið um stund á öndinni af mæði bauðst ég loks til að slaufa för, en þá kom það ekki lengur til mála.

Að morgni fyrirhugaðar vesturferðar voru bæði farnar að renna á mig tvær grímur og herfilegar innantökur, en þá brá svo við að Matthildur mín kepptist við að smyrja samlokur og spurði hvort það ætti ekki að drullast af stað.

Þegar við komum í Mývatnssveit sá ég hvað Matthildur hafði haft á réttu að standa með drepsóttina. Ferðamenn liðu um eins og vofur í flugnaneti með pestargrímuna fyrir smettinu og ekki gott að átta sig á hvort það var ferðataskan eða öndunarvélin sem þeir höfðu í eftirdragi.

En ekki er nokkur tími til að fara yfir allar þessar hrakfarir sem enduðu svo í heilum hring um Ísland á verslunarmannahelgi, annað en það að Matthildi varð á orði við lok ferðar; það er nú gott að þessari vestfirðir eru búnir nú eru bara Vestmanneyjar eftir. Þá fyrst krossbrá mér því að Matthildur fór á Atlavík 82, 83, 84 og 85, , , og það var ég sem þurfti að stöðva það brjálæði.

Nú bögglumst við bara um í berjamó í blíðunni og er þetta allt farið að minna á bernskudagana þegar mamma sleppti börnunum sínum á beit og ekkert fékk lítinn dreng inn úr sumrinu og sólinni annað en harðasprettur heim á klósettið.

Reyndar gat það komið fyrir að heimferðin úr móanum væri meira haltrandi hökt á við þúfnagang, en þá mælti mín móðir, eigi skal haltur ganga Magnús minn á meðan báðir fætur eru jafn langir. En móðir mín var ein af þeim sem lengi lifir í minningunni og guðirnir elska.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband