Hafnarhólminn

Þá er sumarfríið hafið hjá landanum með öllum sínum lystisemdum, rigningu, roki og jafnvel slyddu, en sól og hiti þar á milli. Ég heyrði oft erlenda ferðamenn dásama þessa tíð þegar ég seldi lopapeysurnar hennar Matthildar minnar sumrin eftir hrun. Eitt af því sem aldrei var til nóg af, auk lopapeysanna, voru svartir stutterma bolir með áletruninni Day in Iceland og öllum veðurtáknum á bringunni.

Nú er sumarfríið okkar formlega hafið, mötuneytið og steypan komin í frí og lopaleysan aftur í, svona til vonar og vara, og ekki má gleyma Færeysku prjónabrókinni í allri sumarblíðunni. Í gær var farið á Boggann, eða Borgarfjörð-eystri eins og fjörðurinn fagri formlega nefnist. Veðrið var allslags, þó ekki rigning. Sólarlaust blíðulogn fram eftir morgni, strekkings kalsa vindur um miðjan daginn og sumar og sól seinnipartinn.

Litla stórfjölskyldan okkar var öll í Borgarfjarðar blíðunni í gær, nema sá sem ekki kemst frá vegna ferðamanna. Í gær var Dyrfjallahlaupið sem ekki er hlaupið í gegnum Dyrfjöllin  heldur fjöllin á Víknaslóðum. Ungur vinnufélagi minn í steypunni, sem er mikill fjallagarpur, hefur getað sagt mér allt um þessi fjöll svo oft hefur hann smalað þau á harðahlaupum, - hann tók ekki þátt. Sagðist ekki ætla að taka þátt í hlaupi sem kennt er við Dyrfjöll en hlaupið í þveröfuga átt.

Fleiri hundruð manns allstaðar af landinu tóku þátt í Dyrfjallahlaupinu og fjörðurinn fagri iðaði af fjölþjóðlegu mannlífi. Við gömlu létum nægja að hlaupa á eftir Ævi og bíða við endamarkið eftir fjölskyldumeðlimum litlu stórfjölskyldunnar. Á eftir var farið út í Hafnarhólmann í eitt skiptið enn og ekki sveik hann frekar en fyrri daginn, og Þiðranda forðum. Ævi var að sjá uppáhalds fuglinn sinn í fyrsta sinn, en hingað til hefur teiknimynd í sjónvarpinu verið látin duga. 

Höfnin á Borgarfirði er einstaklega falleg og einn langvinsælasti áfangastaður ferðamanna á Austurlandi. Aðstaðan við Hafnarhólma til fuglaskoðunar er með eindæmum góð og hér er auðvelt að komast í návígi við Lunda, Fýl, Ritu og Æðarfugl auk annarra tegunda sem dvelja í og við hólmann. Á undanförnum árum hefur Borgarfjarðarhreppur ásamt landeigendum lagt metnað sinn í að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn til fuglaskoðunnar og útivistar við höfnina. Búið er að leggja göngupalla um hólmann, opna fuglaskoðunarhús og þar er nú risið glæsilegt þjónustuhús með sýningarrými, veitingaaðstöðu, snyrtingum og aðstöðu fyrir sjómenn Hér er mikið lundavarp og talsvert æðavarp ásamt dálitlum ritu- og fýlsvörpum. Æðavarpið er mest áberandi í fyrri hluta júní á meðan blikinn er í varpinu. Lundinn er við holur sínar fram í ágústbyrjun og rita og fýll við hreiður út ágúst. (af síðu Borgarfjarðar-eystri)

Set hér inn nokkrar myndir frá gærdeginum, það getur hvaða auli sem er náð góðum lundamyndum í Hafnarhólmanum.

 

IMG_3556

IMG_3565

Hafnarhólminn

Ævi

Lundar

IMG_3610

Lundi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég ólst nú upp á Borgarfirði eystra (atviksorð)en ekki Borgarfirði eystri.

Vigfús Ingvar Ingvarsson (IP-tala skráð) 11.7.2022 kl. 08:45

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Vigfús og takk fyrir leiðréttinguna.

Þetta hélt ég líka, en þegar ég sá heimasíðu Borgarfjarðar eystri runnu á mig tvær grímur svo ég breytti mínum texta til samræmis við texta heimasíðu heimamanna.

Annars sá ég umræðu um hvort væri réttara, sem gekk út á það að til væru fleiri en tveir Borgarfirðir á Íslandi, því væri órökrétt að nota eystri.

En það er samt sem áður bara einn Borgarfjörður eystri eystra, en auðvitað veist þú þetta manna best og ættir að leiðrétta heimasíðu Borgarfjarðar eystri.

Magnús Sigurðsson, 11.7.2022 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband