Vorsins déjà vu

Lodingen  2011

Snemma í gærmorgunn hitti ég gamlan kunningja og spurði hvernig hann hefði það. Hann sagðist vera lélegur, orðinn óttalegur ræfill; enda kominn vel á níræðisaldurinn. Við töluðum um hve afleitt það væri þegar ekki einu sinni vorið næði að snerpa á loganum.

Eins og vænta mátti kom kóvítið einnig til tals og ég sagði honum að undanfarið hefðum við vinnufélagarnir óttast það mest af öllu að lemja á fingurna á okkur, því þá værum við í ljótum málum. Já hann samsinnti því það væri búið að vera ómögulegt að komast að hjá lækni fyrir kóvítinu. Svo snaraðist hann upp í bílinn því hann hafði mælt sér mót á heilsugæslunni til að nálgast verkjastillandi fyrir konuna.

Stundum hafa birts færslur hér á síðunni sem eru gamlar hugleiðingar úr bók dagana. Þetta er þá oftast eitthvað nauðaómerkilegt rugl sem ekki var ætlað til neins þegar það var sett á blað á sínum tíma.

Vorið 2011 hraktist ég til Noregs. Hafði verið atvinnulaus í u.þ.b. hálft ár eftir að hafa neyðst til að lokað atvinnurekstrinum mínum. Mér bauðst óvænt vinna hjá norsku múrarafyrirtæki eftir gráan og kaldan vetur og gekk nánast samstundis út að heiman um vortímann í hvítu maíhreti og með Vatnajökul gjósandi svartri eimyrju og flutti til Harstad í Troms, Noregi.

Til stóð að Matthildur mín flytti seinna en af því varð ekki vegna heilsuleysis. Árin mín í Noregi urðu þrjú og fór ég heim þrisvar á ári. Sumarfríinu skipti ég í tvennt, -vor og haust- til að vinna sjálfboðavinnu fyrir bankann við að hýsa húsbíla og hjólhýsi, svo kom ég heim um jól. Öll árin kom Matthildur í heimsókn til Noregs og dvaldi þá um tíma, þá gerðust ævintýrin.

Dagbókarfærslan sem hér á eftir fer er skrifuð um þetta leiti í maí 2012, í lok einmanalegs vetrar; um vorsins "déjá vu". Sumarið áður hafði vinnuveitandi minn og sambýlismaður hennar boðið okkur með sér á ljóskastara hátíð. 

IMG_2578

Hátíð gamla ljóskastarans (Lyskastertreff) er samkoma ca. 50 skemmtilegra karla sem saman koma eina helgi seint í ágúst ár hvert til að kveikja á gömlum ljóskastara sem þjóðverjar notuðu til að lýsa upp óvinavélar á norður norska næturhimninum í seinni heimstyrjöldinni

06.05.2012 Í gærmorgunn keyrði ég í suður, á endanum alla leið til Lödingen bæjar sem við Matthildur höfðum heimsótt í sumar á skútu. Ég var búin að hugsa mér að keyra þessa strönd sem ég hafði séð af sjó. Þegar sólin vakti mig með geislum sínum inn um gluggann kl 5 í gærmorgunn ákvað ég að nú væri dagurinn kominn.

Það sem er svo skemmtilegt við vorið er hvað það er lifandi og hvað litlu má muna. Hlý sólin merlar sjóinn í golunni eina stundina og þá næstu, þegar fyrir hana dregur, er jafnvel orðið grátt og napurt. Svo er það blessaður fuglasöngurinn.

Þegar ég var komin sunnar en ég hef farið áður á landi, keyrði ég upp hæð fram hjá bensínstöð og sjoppu. Varð aldeilis steini lostinn, þarna hafði ég komið áður og það rann upp fyrir mér heill seinnipartur af hlýjum degi þegar ég brunaði framhjá. Svo snarstoppaði ég við næsta afleggjara og sneri við því þetta yrði ég að athuga betur.

Þegar ég koma aftur að sjoppunni þá passaði þetta og bensínstöðin var á réttum stað, ég vissi að ef ég færi á bak við sjoppuna ætti ég að sjá fram af hæðinni og lengra fram á veginn svo ég tékkaði á því, en á bak við sjoppuna voru bara nokkur íbúðarhús og hæð sem ég horfði í bakkann á, útsýnið sem átti að vera áfram veginn var ekki, svo þetta var þá sennilega bara framhliðin á upplifun í öðrum tíma. Eins var lofthitinn kannski 3-5 gráður að morgni en ekki 20-25 á síðdegi.

Ég keyrði áfram og tók eftir því að staðurinn heitir Kongsvik. Þegar ég kom aðeins sunnar kom kóngsörn, sem er brúnn með hvítan haus og makka og sveif fyrir ofan og framan bílinn. Ég var einmitt nýlega búinn að láta það fara í gegnum höfuðið á mér að það væri gaman að sjá svoleiðis fugl.

Í vetur hefur það tvívegis komið fyrir að þegar ég hef litið útum gluggann sem ég sit oftast við hérna í íbúðinni hjá mér að tveir Hafernir hafa hnitað hringi fyrir utan í uppstreyminu frá Gangástoppnum sem er um 200 m hæð hérna rétt hjá. Ég hafði spurt vinnufélaga hvort það gæti staðist að Hafernir hnituðu flugið yfir Harstad. Hann sagði að það gæti alveg staðist en sjaldgæfara væri að sjá Kóngsörn.

Þá langaði mig auðvitað til að sjá Kongósörn og þegar ég sá að staðurinn hét Kongsvik fór ég aftur að hugsa um hvað það væri gaman að sjá Kóngsörn og viti menn þá sveif hann fyrir utan framrúðuna á bílnum. Enn sunnar sá ég svo Elg á fjörubeit í merlandi þaranum og hreindýr á túni.

Ég sagði Matthildi frá undrum dagsins á skypinu í gærkveldi vegna þess að hún var með í minningunni sem kom upp um að hafa komið áður í Kongsvik. Minningu sem kom á sekúndu broti um heilan eftirmiðdag. Þar vorum við á ferð ásamt fleira fólki sem ég kem ekki fyrir mig.

Ég spurði hana hvort henni fyndist þetta ekki skrítið; "þetta hefur verið í einhverju öðru lífi sem við höfum átt saman" sagði hún án þess að finnast mikið til koma. En það sem ég er að velta fyrir mér hvort skaust ég fram eða aftur í tímann eða var það kannski yfir í annan heim.

IMG_0276

Sumarið 2011 fórum  við Matthildur í boði Mette vinnuveitenda míns og Sverre sambýlismanns hennar í þriggja sólahringa ævintýraferð til Lödingen á skútunni þeirra Libra. Hér skríður skútan fyrir eigin vélarafli suður Tjeldsund sem liggur á milli Vågsfjorden og Vestfjorden í Troms og Norland. Á ströndinni útifyrir liggur Lofoten og enn utar eyjar Vesterålen

 

IMG_2581

Auk þess að brasa í tvo daga við að koma ljósi á kastarann með hjálp 3. tonna ljósvélar sem dreginn er á staðinn, aka ljóskastara karlarnir, sem flestir eru fyrrverandi hermenn, um á gömlum herbílum

 

IMG_0390

"Gáðu að því að þessi ljóskastari var smíðaður 1929 og er ekkert digital dæmi", sagði Sverre við mig til að undirstrika mikilvægi samkomunnar, "það er ekki sjálfgefið að það kvikni á honum". Einn eftirmiðdagur fór í herbíla safarí upp á útsýnisfjall fyrir ofan aflagða herstöð við Lödingen. Við Matthildur upplifðum óbyggðaferð með körlunum auk þess að njóta uppljómaðs norður norska næturhiminsins í geislum ljóskastarans.

 

 IMG_0322

Skútan Libra við bækistöð ljóskastarans í bæ lóðsanna Lödingen, sem lóðsuðu skip í gegnum Tjeldsundið í denn. Í Lödingen er nú ferjuhöfn fyrir ferju sem siglir milli fastalandsins og Lofoten. Ef landvegurinn er farinn þá þarf að keyra hundruð km eða alla leið upp Ofoten til Narvik og þaðan aftur yfir á Hynoya í Troms og niður Lofoten í Norland

 

 IMG_1901

"Hugsaðu þér Maggi" sagði Matthildur einn morguninn "við búum í skútu hjá fólki sem við vissum ekki að væri til fyrir nokkrum vikum síðan og erum stödd á hátíð gamla ljóskastarans. Hvernig getur svona ævintýri gerst"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dásamlegt að lesa pistla þína Magnús.

Það er einhver svo falleg birta yfir þeim 

og andans svifið sem á vængjum þöndum.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 15.5.2020 kl. 14:32

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir Símon Pétur.

Það getur virst hálf hjákátlegt að minnast þess sem ekkert er, en það eru nú samt þessi litlu atvik sem gefa lífinu gildi þegar allt raðast saman. 

Skemmtilegt samtal við náungann á förnum vegi,, , ná vitundarsambandi við fugl, , , eða jafnvel almættið í ljósbroti sólarinnar, svo eitthvað sé tínt til.

Það er kannski svolítið barnalegt og skrítið að minnast á svona, en það væri samt skrítnara að gera það ekki.

En Lyskastertreff í Lödingen var höfðingleg upplifun í boði frænda okkar handan við hafið.

Magnús Sigurðsson, 15.5.2020 kl. 17:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband