Núpskatla 66°N

Rauðinúpur - Núpskatla

Einn af mögnuðum fjallgöngustöðum Íslands má finna við Núpskötlu á Melrakkasléttu. Þar er Rauðinúpur, sem er ekki hærri en Hallgrímskirkjuturninn. Kyngi staðarins felst því ekki í erfiðri fjallgöngu með hundruð metra hækkun á klukkustund, heldur einstöku útsýni með magnaðri upplifun. Enda rétt betra að til séu staðir fyrir þá sem eiga ekki snjallúr.

Um síðustu helgi settumst við hjónin upp í Cherokee frá því á síðustu öld og lögðum upp í ferð án fyrirheits. Þá voru sumarsólstöður þannig að við stefndum í víðsýni fjallanna svo hægt væri að sjá til sólar. Þennan ferðamáta höfum við oft haft áður, beygjum þá í átt að sólinni um leið og hún sést.

Stundum tökum við óvart beygju inn í þokuna aftur og er þá þreifað sig áfram eftir vegköntunum heim að kvöldi. En þegar við hittum á sólargeislann þá höfum við tjald aftur í Cherokee og gömlu fermingarsvefnpokana ef við skyldum vilja gista yfir íslenska sumarnótt sólarmegin í tilverunni. 

Þegar við komum upp á fjöllin s.l. laugardagsmorgunn var sólskinsblár himinn í hánorðri þannig að við dóluðum í þá áttina, niður með gljúfrum Jökulsár á Fjöllum út á Melrakkasléttu. Slógum  upp tjaldi á Kópaskeri og fengum okkur kvöldverð á meðan jörð skalf. Ég ránglaði um fjörur Kópaskersins yfir miðnættið en Matthildur sagðist ekki láta sjá til sín á svoleiðis nætur göltri og prjónaði heima við tjald á meðan í miðnætur andaktinni.

Fyrir kl. 4 pökkuðum við svo saman í glampandi sólskini og héldum út Sléttu í áttina að Rauðanúp. Við höfðum komið að Núpskötlu í fyrrasumar en ákveðið þá að fara ekki á Rauðanúp, þar sem þá var dagur að kvöldi kominn, því haldið inn í Ásbyrgi og tjaldað þar, en ætluðum að tölta á Rauðanúpinn í morgunnsólinni daginn eftir, en þá var svarta þoka yfir allri Sléttu.

Gangan á Rauðanúp var engu lík á þessum sólstöðu sunnudagsmorgni, það hvílir einhver helgi yfir staðnum.  Rauðinúpur er 73 m hátt bjarg á norðvesturhorni Melrakkasléttu, og er einn nyrsti oddi landsins, aðeins Hraunhafnartangi, litlu austar, er sjónarmun norðar og svo náttúrulega Grímsey. 

Rauðinúpur er eldfjall, sem gaus síðla á ísöld. Í rauðum björgunum er urmull af fugli. Tveir drithvítir drangar eru rétt út af núpnum, sá austari heitir Karl, en sá vestari Sölvanöf. Útsýni af núpnum niður á Karl og Sölvanöf er einstakt, því þar má sjá súlubyggð í návígi.

Fólkið á Núpskötlu, sem þar dvelur í sumarævintýrinu, á lof skilið fyrir að hafa ekki girt landið af úti við þjóðveg, en leifir þess í stað ferðalöngum að skoða þessa einstöku náttúruperlu. Rétt áður en komið er að Núpskötlu er hlið á veginum þar sem umgengnisreglur eru kynntar ásamt 15 km hámarkshraða, enda er keyrt í gegnum kríuvarp síðasta spölinn.

 

IMG_7427

 

IMG_7336

Horfnir atvinnuhættir eru í heiðri hafðir á Núpskötlu s.s. að safna rekavið

 

IMG_7360

Matthildur mín að komast á toppinn við hliðina á Karli. Það er kannski ekki alveg hægt að komast á háhæla skóm upp á Rauðanúp, en allt að því og snjallúr er óþarft

 

Súlubyggð

Það var mikið að gera hjá súlunni á Karli við að bera björg í bú og dásama tíðarfarið, ekkert kóvítis kjaftæði þar á bæ

 

IMG_7330


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Okkur Símon Pétri hefur lengi grunað að skáldgáfa skáldsins sé gengin aftur, og mér finnst þessi setning staðfesta það.

"Enda rétt betra að til séu staðir fyrir þá sem eiga ekki snjallúr.".

Jafnvel lærð ritgerð næði ekki að fanga betur anda nútímamannsins.

Takk fyrir pistil, jafnt texta sem og myndir, mér sýnist að hillan bak við eyrað hafi fengið enn einn staðinn til að hýsa þar til fákur og frú verða samhent að skoða þegar veður og aðstæður leyfa.

Og já, ég á ekki snjallúr.

Kveðja úr neðra.

Ómar Geirsson, 27.6.2020 kl. 10:37

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir falleg orð í minn garð Ómar. Núpskatla er vel þess virði að skoða, jafnvel í þokuslæðingi og öll Sléttan þó í eyði sé.

Það erfiða við að skoða byggðir Norðaustur hornsins er hve fallegt landsvæði er óðum að leggjast í auðn. Það er ekki nóg með að Ratcliff eigi orðið 25% hlut í lögheimili forseta alþingis, sem er reyndar fyrir löngu flúinn í borg óttans, verra er að hann er að verða svo fáliðaður Vopnafirði að matvöruverslun staðarins verður lögð niður eftir tvo dag.

Þannig að svona rúntar geta tekið á þrátt fyrir alla fegurðina.

Með kveðju að ofan.

Magnús Sigurðsson, 27.6.2020 kl. 19:28

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Eitt það besta við bloggið eru athugasemdirnar. Það koma nefnilega oft upplýsingar í gegnum þær sem opna á nýja heima fyrir síðuhöfund. Þetta geta verið örstuttar athugasemdir og jafnvel engar hér á blogginu. Það hefur komið fyrir að hringt hefur verið í síðuhafa vegna bloggfærslu og sagðar skemmtilegar sögur henni tengdar.

Í gær fékk eitt svoleiðis símtal. Kona sem fædd og uppalin er á Núpskötlu hringdi og vildi segja mér frá því, vegna orða minna um að "Það er kannski ekki alveg hægt að komast á háhæla skóm upp á Rauðanúp, en allt að því". Hún sagði mér nefnilega frá því að Rauðinúpur hefði verið klifinn á háhæluðum  skóm og það af konu sem var þá sjötug.

Þetta gerðis árið 1969, og konan var Jóna Sigríður Jónsdóttir, sem oft var kölluð Sigríður Jóna. Konan sagði mér frá hvernig Jónu Sigríður hefði "sótt að" þegar hún kom, það hefði verið punkterað dekk á bílnum sem hún kom í, og um leið og rennt hefði verið í hlað hefðu hún tekið strikið yfir stórgrýtta  fjöruna og upp Rauðanúp á háhæluðu skónum, sem voru þó ekki með pinnahælum.

Þó mikið hafi verið að gera í Núpskötlu þegar hún kom, hafði konan hjálpað  Jónu Sigríði til baka, sem hún var mjög þakklát fyrir. Þegar hún ætlaði að fara að elda mat fyrir gestinn þá var lognið svo mikið að ekki logaði á eldavélinni. Tók hún þá það til bragðs að elda mjólkurgraut fyrir gestinn á rafmagnshellu, sem drifin var af rafstöð. Jóna Sigríður sagðist ekki hafa heilsu til að borða mjólkurgraut þegar til kom, en gerði sér skyr með rjóma að góðu og kaldan silung. 

Jóna Sigríður Jónsdóttir skrifaði bókina Ein á hesti um lífshlaup sitt og minnist þar á komu sína í Núpskötlu. En Jóna Sigríður, sem kölluð var Sigríður Jóna, ferðaðist á hesti þvers og kruss um Ísland í áratugi og er talið að hún hafi keypt og selt yfir 300 hesta. Eftir að hún hætti hestaferðalögum, ferðaðist hún með langferðabílum til að sjá þá staði sem hún taldi merkilegasta á Íslandi, en hafði ekki séð, það var á þannig ferðalagi sem hún kom í Núpskötlu.

Þeir gæðingar sem Jóna Sigríður ferðaðist á um áratuga skeið hétu Gullfaxi og Ljómi. Hún varð frægasta kona á Íslandi um tíma þegar hún ferðaðist á Ljóma sínum án tjalds og farangurs um Stórasand á leið í Hveravelli um Kjalveg í blindhríð á inniskóm, árið 1963. Þessi hrakningur var rifjað upp í Tímavélinni á DV fyrir tveimur árum.

https://www.dv.is/fokus/timavelin/2018/05/09/timavelin-trippa-sigga-var-tynd-fimm-daga-halendinu-handsomud-af-gervimonnum/

Magnús Sigurðsson, 1.7.2020 kl. 06:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband