8.4.2009 | 21:44
Auðnuleysingi gerist athafnamaður.
Fram til þessa hef ég titlað mig, á þessari bloggsíðu, sem atvinnurekanda og draumóramann um frelsi hugans. En nú eru tímamót hjá mér svo um óákveðinn tíma ætla ég að titla mig sem athafnamann. Ein ágæt bloggvinkona mín birti nýja http://kreppan.blog.is/blog/kreppan/entry/842752/#comments orðabók á síðunni sinni fyrir skömmu og vildi meina að orðið athafnamaður þýddi á nútímamáli, þjófur. Þó þessi bloggvinkona hafi upplýst þessa nýju merkingu ætla ég samt að halda mig við þetta starfsheiti. Því í mínum huga á athafnamaður við einstakling sem veit ekki alveg í hverju starf hans er fólgið og getur átt ágætlega við t.d. auðnuleysingja, draumóramann og tækifærissinna sem er án fastrar atvinnu.
Þá er ég kominn að kjarna málsins undanfarna mánuði hef ég verið án fastrar vinnu. Bæði stafar það af minna framboði á verkefnum og því að ég hef verið að safna kröftum eftir líkamstjón sem var lagað með skurðaðgerð í febrúar. Því hefur tíminn verið nægur til að kynna sér góðar hugmyndir sem á fjörurnar hefur rekið og sumum hef ég eins og sannur athafnamaður (þjófur) stolið af úrræðagóðu fólki, jafnvel hefur hugmyndin kviknað hérna á blogginu t.d. hefur http://maggatrausta.blog.is/blog/maggatrausta/ sýnt hvað má gera jákvæða hluti með því að opna Norðurport á Akureyri.
Síðan í nóvember hef ég auðnuleysinginn, haft góðan tíma til að velta fyrir mér framtíðinni. Frá áramótum hef ég unnið markvisst að því að koma komast út úr þeim atvinnurekstri sem fyrirtækið mitt byggði að mestu á, það er verktakastarfsemi í múrverki. En rek ennþá flísa og gólfefnaverslun með einum starfsmanni. Þetta eru miklar breytingar frá því að reka verktak og verslun með 8-12 starfsmönnum, þessi vetur hefur nánast verið eins og langt frí. Bílaflotinn hefur verið seldur eða keyrt á haugana, tæki, verkfæri og lager hafur verið selt á því sem fyrir ári síðan hefði verið talið hálfvirði, viðskiptavildinni tel ég vera vonlaust að koma í verð í byggingariðnaði í dag, enda telur umrædd bloggvinkona hana vera verðmætamat þjófs á sjálfum sér.
Samhliða þessum skipulagsbreytingum hef ég leift draumóramanninum að leika lausum hala á nýjum vettvangi. Eins og sönnum tækifærissinna sæmir þá er sá vettvangur á sviði gjaldeyristöflunnar, alvöru peninga. Ég ætla sem sagt að fara út í túrista bissniss. Flísabúðin mun breytast í ferðamannaverslun í sumar með lopapeysum, handverki og túristaskrani. Hvað er betra en að versla með íslenskt þegar Ísland er orðið eitt ódýrasta land í heimi. Fyrir lopapeysu sem hægt var að fá 90 (kr.9.500) í fyrra ætti að vera hægt að fá 90 (kr.15.000) núna rúmlega 50% hækkun. Býður einhver betur. Flísabúðin er við hliðina á vínbúðinni og hef ég alltaf litið öfundar augum til hennar. Ef það er eitthvað sem býður upp á betri afkomumöguleika en túristar í dag er það helst sala á víni eða kannabis en vegna veikleika hugarfarsins treysti ég mér ekki út í þann bissniss.
kreppan | Breytt 30.1.2011 kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
8.4.2009 | 10:33
Eru þetta algjörir hálfvitar?
Ef röksemdarfærslur hagfræðinga Seðlabankans fram að þessu, ættu við rök að styðjast þá hefðu stýrivextirnir átt að lækka um 10-15%. Ef stýrivöxtunum var ætlað að slá á verðbólgu þá eru engin rök fyrir þeim í dag. Reyndar má færa til þess gild rök að þeir ýti undir verðbólgu eins og staðan er í efnahagsmálum.
Ef stýrivöxtunum ásamt gjaldeyrishöftum er ætlað að styrkja krónuna þá hefur það mistekist. Ríki sem gengur svo langt í gjaldeyrishöftum að það neitar að taka við eigin gjaldmiðli sem greiðslu fyrir útflutningsvörur sínar, getur varla verið alvara með styrkja gengi og að byggja upp trúverðugleika gjaldmiðils síns.
En eru þetta þá algjörir hálfvitar? Nei það er íslenskum almenningi og fyrirtækjum sem er ætlað það hlutverk. Þessari hagstjórn er ætlað að greiða jökla og krónubréfaeigendum góða ávöxtun. Íslenskir stjórnmálamenn hafa sýnt það undanfarið hálft ár að þeir eru annað hvort óttaslegnir og ráðvilltir eða að þeim líkar vel hrósyrðin frá IMF. Á meðan íslenskum almenningi og fyrirtækum blæðir fyrir mestu hagstjórnarmistök sögunnar er boðið upp á sömu gömlu loftbólu hagfræðina í ýktari mynd en nokkru sinni fyrr, af sömu aðilum.
![]() |
Stýrivextir lækkaðir í 15,5% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt 2.2.2011 kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)