Með steypu í hausnum og stein í maganum á Gállogieddi

 IMG 2982

Síðustu vikurnar höfum við Afríkumaðurinn Juma glímt við björgin í fjóskjallara gamals Samísks minnismerkis frá1891.  Samann sjálfan, sem er okkur til halds og traust, höfum við ekki séð í tvær vikur.  Annað hvort hefur hann ekki séð ástæðu til að rífa af dagatalinu eða þá úrkomuleysið veldur, en hann hefur séð um að halda veginum snjólausum sem liggur upp í hlíðina.  Við höfum komist að því að fjósið er á bæ sem heitir Gállogieddi, þetta getum við séð á vegvísi í fjallshlíðinni en við erum samt ekki orðnir það klárir í samískunni að við getum áttað okkur á hvort vísað  er á veginn til Darfur eða heim á Fljótsdalshéraðið. 

Hún læðist því stundum aftan að mér spurningin um það hvernig maður á sextugsaldri varð þeirrar gæfu aðnjótandi að rogast með steina framan á maganum í fjósmúrinn á safni Samana við Várdobaiki hátt upp í hlíðum Evenesmarka í stað þess að eigra vegalaus um á auðnum verðtryggðar vísitölu. En af því að ég hef komist að því að við hverri spurningu sem svarað er verða til tvær snúnari þá hef ég reynt að bæga svarinu frá.  Mér varða samt á að spyrja Juma að því hvernig stæði á hans veru við fjósmúrinn og ef svarið væri tíundaði hér yrði um flóknari spurningar að ræða en í bókinni Alkeimistinn eftir Paolo Huelo.  Með svona spurningar er því betra að fara eins og vandamálin þ.e. a. þykjast ekki sjá þau, því um leið og farið er að veita þeim eftirtekt verða til fleiri.  Svo  er það líka þannig að aðrir hafa lífsviðurværi sitt af svörum sem búa til fleiri spurningar.  Það er aðeins á færi fagfólks með þar til gerðar gráður, jafnvel heilar fimm úr hagvöxnum háskóla. 

IMG 2785

Það er því betra fyrir okkur sem hafa ekki til þess bæra þekkingu að hugsa frekar um spurningar þar sem svarið hefur alltaf legið ljóst fyrir.  Einn kollegi minn í múrarastétt hafði það einu sinni á orði hvort ég vissi hvers vegna það væri svona undarlega erfitt að hætta í þessari starfsgrein.  Hann hefði meir að segja haft fyrir því að tæknimennta sig með ærnum tilkostnaði og áralöngu hrísgrjónaáti en allt hefði komið fyrir ekki í múrverkinu væri hann.  Það stafaði samt ekki af því að honum byðust ekki önnur störf betur borguð.  Hann hafði t.d. um eins árs skeið séð um bókahald stórs byggingafélags með tilheyrandi debet og kredit.  En eftir árið sagðist hann hafa verið orðinn úttaugaður. Aðallega vegna þess að honum fannst ekkert sjást eftir sig og hann hefði því leitað í gamla farið.  Samviskubitið hefði verið farið að hvíla svo þungt á honum að líðanin hefði verið eins og að hafa stein í maganum.  

Nú hefði einhverjum sjálfsagt dottið í hug að setja upp spekingssvip og gera hálfgert gys af kolleiga mínum með því að skella fram gömlum málshætti og segja "þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur".  En ekki datt mér það í hug eitt augnablik því ég vissi upp á hár að maður hefur það ekki í flimtingum þegar menn eru á hillunni sinni.  Því sagði ég við félaga minn af varfærni "já veistu ekki út af hverju þú ert með stein í maganum þegar þú ert ekki að múra" og svaraði honum síðan með nærgætni " það er vegna þess að þú ert með steypu í hausnum".  Þetta vissi náttúrulega kollegi minn allan tímann og hefði því getað sparað sér gefa flókin svör á prófi til að fá  vinnu við að að leggja saman 2 + 2.

IMG 2791

Það sem m.a. heillar við múrverk er að ef ekki er búið að setja vatn út í sement og sand þá gerist ekki neitt, en um leið og það er búið að hræra þessum kokteil saman þá fer allt á fullt og betra að láta hendur standa fram úr ermum áður en herlegheitin harðna sem einhver óskapnaður, meðan 2 + 2 geta beðið að því er virðist út í það óendanlega því það á að vera eins víst að þeir séu 4.  Þetta hefur því með sköpunarþörfina að gera, það að sjá eitthvað eftir sig sem getur talist til minnismerkis.  

Þegar ég trúði svo kunningja mínum fyrir því að ég hefði fyrir löngu komist að því að 2 + 2 þyrfti ekkert endilega að vera 4 frekar en manni sýndist, maður fengi bara ekki borgað fyrir að halda öðru fram, þá svaraði hann að bragði "já veistu það þetta hafa þær líka alltaf vitað húsmæðurnar". Það eru hreinlega ekki allir sem eiga því láni að fagna að vinna við minnismerkjagerð eða kökubakstur, þá gjörningalist að gera mikið úr litlu.  það þekkjum við múrarnir, rétt eins og húsmæður sem hafa kynnt ofninn fyrir hefað deigið, að þá dugir lítið að velta fyrir sér 2+2 ef ekki á allt að  fara í handaskolum.

Tuborg

Það hefur samt ekki verið mikið um steypu á milli steinanna í fjósinu á Gallogieddi þeir höfðu víst ekki aðgang að svoleiðis töfrakokteil 1891.  Þó svo steypuna vanti að mestu í gjörninginn þá hef ég samt bætt mér það upp á nóttinni með því að dreyma þessar fínu steypuvinnu fram á morgna, ævinlega heima á landinu bláa aðallega á Djúpavogi.  Þannig hef ég náð að vakna sæll og ánægður tilbúin að takast á við steinana.  Nú styttist óðum í að Matthildur mín komi í Páskaheimsókn hingað á Norðurhjarann og þó svo að ég hafi ekki hugsað mér að fá hana til að aðstoða mig við steina þá getur vel hugsast að við eigum eftir að fá okkur köku saman. Matthildi eru samt hvorki steinar né steypa ókunnug.  Okkar skemmtilegustu steina og bestu kökur höfum við steypt saman.

Spurningin sem þarf ekki að spyrja vegna þess að gamla svarið liggur alltaf ljóst fyrir er semsagt sú að steinar og steypa hafa verið mitt líf og yndi, því sennilega orðið of seint að kenna gömlum hundi að sitja hvað þá að baka kökur.


Bloggfærslur 23. febrúar 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband