28.10.2020 | 13:12
Kvenmanns kuml
hefði ekki átt að koma á óvart við fornleifa uppgröft í Þrándheimi. Ríkmannlega búin kvenna kuml eru engin nýlunda.
Daníel Bruun fór um Austurland 1901 og gróf í tvö höfðinglega búin kuml, annað að Reykjaseli fyrir ofan Brú á Jökuldal og hitt við Sturluflöt í suðurdal Fljótsdals. Reyndust bæði kumlin vera kvenkyns.
Eins og Íslendingasögurnar greina vel frá þá var kvenfólk ekki síður til forustu fallið en karlmenn. Laxdæla greinir frá því hvernig Auður djúpúðga fór fyrir sínu fólki þegar hún nam land á Íslandi.
Við Arnheiði, dóttir Ásbjörns skerjablesa, hafa Arnheiðarstaðir í Fljótsdal ávalt verið kenndir. Þó svo að Arnheiður hafi verið keypt ánauðug eftir fall föður síns á Suðureyjum. Frá þessu greinir Fljótsdæla.
Helstu sögupersónur Austfirðingasagna voru þeir Grímur og Helgi Droplaugarsynir, kenndir við móður sína, sem segir sitt.
Stutt er síðan að Þjóðminjasafnið gerði bláklæddu konunni skil, en hennar kuml fannst við Ketilsstaði í Hjaltastaðaþinghá.
Þau eru mýmörg dæmin sem tína má til úr sögunum, hvað þá ef lesið er á milli línanna, um að konur hafi staðið körlum jafnfætis til forna.
Það virðist ekki hafa verið fyrr en Rómarvaldið sauð saman sín trúarbrögð sem pallur kvenna varð skör lægri.
![]() |
Óvenjulegur fornleifafundur í Noregi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)