Smalinn - 5. hluti endir

Rétt er að slá botn í þjóðsöguna um smalann, sem átti ekki sjö dagana sæla "út um græna grundu", með því að gera lífshlaupi þess manns skil er mátti þola að ævin snérist um hvarf tveggja smaladrengja og lauk lífinu sennilega með hjartaáfalli.

Páll Pálsson bókbindari var sagður bæði atgerfis- og gáfumaður um sína daga, þó svo að ekki sé hægt að segja að gæfan hafi verið honum hliðholl. Sr. Sigmar Torfason fyrrum prestur á Skeggjastöðum á Langanesströnd og prófastur N-Múlasýslu gerði örlitla leiðréttingu við hvimleiða prentvillu í ártali, sem kom fram í grein Hólmsteins Helgasonar um Tungu-Brest, í tímaritinu Súlum í næsta tbl. á eftir grein Hólmsteins. Þar bætir Sigmar um betur og rekur æviferil Páls eftir því sem hægt er samkvæmt skráðum opinberum heimildum og er sá ferill nokkuð í takt við Þjóðsöguna.

Páll er talinn fæddur í Bakkasókn í Öxnadal árið 1818, þó er hann sagður fæddur í Illugastaðasókn í Fnjóskadal samkvæmt Ættum austfirðinga. Hann elst upp hjá foreldrum sínum m.a. að Hraunshöfða í Öxnadal þangað til þau yfirgefa Norðurland og flytja austur á Hérað, nokkru eftir hvarf Þorkels. Foreldrar hans koma fram í manntali í Sauðhaga á Völlum 1835 en þá er Páll 17 ára skráður sem léttadrengur í Geitagerði í Fljótsdal. Hann er skráður vinnumaður á Ketilsstöðum á Völlum um og upp úr 1840, eftir það virðist hann hafa synjað fyrir barn, Helga Pálsson síðar talinn vera staddur í Papey.

Samkvæmt Ættum Austfirðinga er hann á Freyshólum Völlum 1842 og kvænist þá Guðrúnu Einarsdóttir, Ásmundssonar bónda á Stóra-Sandfelli í Skriðdal, þau eru sögð eiga tvö börn saman Einar og Ingibjörgu. Einhverra hluta vegna flytur hann af Völlum á Héraði 1848 að Áslaugarstöðum í Vopnafirði. Skráður bókbindari á Þorvaldsstöðum í Vopnafirði 1850. Húsmaður og síðar bókbindari á Breiðumýri í Vopnafirði. Guðrúnar konu hans er þar hvergi getið í manntölum og hans ekki sem ekkjumanns.

Úr Vopnafirði flyst hann í Viðvík á Langanesströnd og kvænist þar Önnu Sæmundsdóttir frá Heiði á Langanesi þann 23. ágúst 1852, Páll er þá 34 ára, en Anna 20 ára. Anna lést af barnförum í nóvember 1852, þannig að stutt var sambúð þeirra. Páll og Anna áttu fyrir hjónbandið saman son sem hét Stefán sem ólst upp hjá Friðfinni og Ingibjörgu á Gunnarsstöðum á Langnesströnd, eftir fráfall Önnu dvelur Páll að mestu í Vopnafirði, þar til hann flytur aftur á Langnesströnd í Gunnarsstaði.

Þriðja kona Páls varð svo Helga frá Gunnarsstöðum, dóttir þeirra Friðfinns og Ingibjargar sem ólu upp Stefán son Páls og Önnu. Þau Helga voru gefin saman 12. ágúst 1857, Páll þá 39 ára en hún 18 ára. Þau áttu saman fjögur börn, Hólmfríði, Guðríði, Pál og Pál Eirík. Páll virðist einungis hafa verið með búskap þann stutta tíma sem þau Helga þoldu við í Kverkártungu, en annars verið í hús- og vinnumennsku á bæjum á Héraði, Vopnafirði og Langanesströnd, eða þá sem bókbindari enda oftast kenndur við þá iðn.

Í handritspunktunum sem Sigfús Sigfússon styðst við í sögu sinni af Tungu-Bresti, segir svo frá síðustu ævi árum Páls:

Eitthvað fór í ólag um hjónaband þeirra Páls og Helgu, enda voru þau að ýmsu ólík. Hann var hreinlátur og þrifinn en hún óþrifin mjög en dugleg. Þau voru ekki lengi saman. Þá skildu samvistir. Ekki veit Þóra hvort það var sakir ósamlyndis eða sökum fátæktar eftir samkomulagi. Hún fór þá vorið 1863 vinnukona að Hamri í Selárdal í Vopnafirði og var þar tvö ár og síðan önnur tvö ár á Þorvaldsstöðum í Selárdal hjá Stefáni Jónssyni er þar bjó kvæntur. Áttu þau barn saman 2. júlí 1867 er Friðrik hét. Var hún þá látin fara burtu og var hún þá á Refstað næsta ár. En vorið 1868 fór hún að Eyjólfsstöðum á Völlum með Friðrik son sinn, en Páll fór þá norður á Strönd í átthaga sína 7 ára(?).

Skömmu síðar fór hún þá aftur norður á Strönd og tóku þau Páll þá aftur saman og voru í húsmennsku í Miðfjarðarnesseli. Þar voru þau 1872-3. Varð hún þá þunguð af völdum Páls. Vorið 1873 ætlaði Páll austur í Vopnafjörð og kom þá áður að Miðfirði og hitti húsmóðurina Matthildi að máli og sagði henni frá ferð sinni, Matthildur var yfirsetukona. Páll sagði henni að óvíst væri að hann kæmi bráðlega aftur. En Helga mundi innan skamms verða léttari. Bað hann hana að sitja yfir henni og ef barnið yrði sveinbarn skyldi hún láta það heita Þorstein Eirík. En ef það yrði meybarn skyldi Helga ráða nafninu. Fleiri ráðstafanir sagði hann Matthildi eins og hann byggist við að koma alls ekki aftur. Þóra heyrði samtal þeirra og varð það minnisstætt.

Síðan fór Páll aftur austur í Vopnafjörð og fékk gistingu á veitingahúsi í kauptúninu og hélt þar til í tvær-þrjár nætur og drakk allmikið, enda var hann nokkuð drykkfelldur. Síðasta morguninn vildi hann ekki vín smakka en fór út í Leiðarhöfn að hitta Andrés Nielssen er þar bjó. Var vinfengi milli þeirra. Bað hann Andrés að lofa sér að deyja hjá honum, þess mundi ekki langt að bíða því hann væri orðinn kaldur upp að hnjám. Andrés tók því vel að veita honum gistingu þó hann byggist ekki við svo bráðum dauða hans. Páll lagðist þá fyrir og var hlúð að honum en kuldinn færðist upp eftir honum þrátt fyrir það og dó hann um nóttina .

Páll andaðist 2.júlí 1873 þá 55 ára, hann var jarðsettur á Hofi í Vopnafirði 11. júlí, þremur dögum seinna þann 14. fæddi Helga þeirra fjórða barn sem hlaut nafnið Páll Eiríkur.

Þráðurinn í þessari sögu um þá bræður Pál og Þorkel liggur víða og við það grúsk birtust myndir af harðneskjulegum aðstæðum fátækra barna fyrr á tímum. Ein af þeim þjóðsögum, sem landsfrægar urðu um mál þetta var Guðbjargar-draumur. Um hann er til kvæðabálkur sem lýsir draumi móður þeirra bræðra þegar hún lánaði Sigurði á Þverbrekku Þorkel son sinn, sem smala.

Til að fá heillega mynd um ævi og örlögum Páls þarf að leita vítt og breitt um þjóðsögurnar, þó svo þær hafi ekki verið á einu máli um orsakir reimleikanna í Kverkártungu, og í þeim sé hvergi getið orsaka Tungu-Brests, sem lifðu í munnmælum á Langanesströnd fram á daga internetsins. Saga Þorkels er skilmerkilega skráð í bókinni Sópdyngju og þó svo að þar sé um að ræða þjóðsagnasafn byggt á munnmælum þá er þar samhljóma texti úr skjali, sem notaður var í eina opinbera réttarhaldinu er fram fór vegna hvarfs smalans.

 

Heimildir:

Þjóðsagnasafn Sigfúsar Sigfússona (þrjár sagnir þ.a. Guðbjargardraumur)/ Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar (þrjár sagnir) / Þjóðsögur Jóns Árnasonar (tvær sagnir) / Gráskinna hin meiri (ein saga) / Að vestan (ein saga) / Rauðskinna (ein saga) / Reimleikar, Árni Óla / Fátækt fólk, Tryggvi Emilsson / Annáll 19. aldar, sr. Pétur Guðmundsson / Langnesströnd.is / Sveitir og jarðir í Múlaþingi /Súlur 3. árg, Hólmsteinn Helgason / Súlur 4. árg, sr. Sigmar Torfason (Geymdar stundir IV-Ármann Halldórsson)/ Dagur 44.tbl 30.10.1924, Ingimar Eydal / Dagur 3.tbl. 17. 01. 1935, Ólafur Jónsson / Sópdyngja I bindi


Bloggfærslur 7. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband