Arfleið Bakkabræðra

IMG_6660

Það getur verið freistandi að ætla að eitthvað af því sem maður segir hafi áhrif. Fyrir rúmu ári síðan birtist hér á síðunni spurningin um það hvort Bakkabræður væru komnir á Þjóðminjasafnið. Ekki að ég búist beinlínis við því að starfsmenn þjóðminjasafnsins liggi lesandi á blogginu, þá virtist þessi bloggpistill minn um árlega vorferð út í byggingalist náttútunnar hafa haft áhrif.

Stuttu eftir að ég fór vorferðina í fyrra að Galtarstöðum-fram í Hróarstungu þá kom vinur minn og frændi sem býr í Ástralíu óvænt í heimsókn. Hann hafði lesið Bakkabræðra pistilinn og við erum vanir að skoða það sem íslenskast er þegar hann kemur til fósturjarðarinnar, þannig að við fórum að Galtarstöðum-fram, en þann torfbæ hafði hann ekki séð.

Það sem mér þótti merkilegt við ferð okkar frændanna var að þær breytingar höfðu orðið á, að aflóga gluggar úr húsinu með flata þakinu, -og ég hafði látið fara í taugarnar á mér í mörg ár þar sem þeir stóðu við dyrastafn torfbæjarins-, voru horfnir. Ég hafði nefnilega aldrei náð mynd af bænaum án þessara glugga ræfla, en hafði samt bjargað því með því að fá Matthildi mína til að standa fyrir framan þá þannig að hún skyggði á gluggana.

Núna um helgina fórum við Matthildur svo í þessa árlegu vorheimsókn að Galtarstöðum-fram og viti menn að nú hafði sú breyting orðið á að búið var að skera til torfið á stöfnum bæjarins þannig að hann var ekki umvafinn í sinu, en rimlahliðið sem mér varð starsýnt á í fyrra stóð eitt og yfirgefið út í mýri.

Það má kannski virða Þjóðminjasafninu það til vorkunnar hvað erfitt hefur verið að fá mannskap til að hugsa eins sómasamlega um gamla byggingararfleið þjóðarinnar eins og það hefði viljað, bæði hvað verkþekkingu varðar og vegna þess hvað viðhald torfbæja er mannaflsfrekt.

En nú ætla ég að leifa mér að vona að að einhver aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar þar sem "allir vinna" í öllu atvinnuleysinu verði færður Þjóðminjasafninu að gjöf til að varðveita íslensk menningarverðmæti.

IMG_6639

Bæjardyrnar sinu- og gluggaræflalausar

 

IMG_6675

Víða þarf að dytta að, hér eru steinar farnir að velta úr vegg

 

IMG_6676

Hér gapir inn undir fjósþakið á norðurhlið, þó svo að steinar hafi verið settir sem farg þarf ekki mikið veður til að þakið fjúki og opnist inn í bæinn

 

IMG_6711

Ferðin var einnig notuð til að kíkja á Borgarfjörð eystra, þar er Lindarbakki, og fyrir u.þ.b. ári síðan hitti ég þar kolleiga úr húsbyggingageiranum sem var að setja torfþak á húsið, en það hafði fokið af í rosa um veturinn. Þetta hús er í einkaeigna og þar af leiðandi mikið afrek að hafa viðhaldið því í gegnum árin. Lindarbakki á Borgarfirði-eystri var upphaflega byggður í formi þurrabúðar. Húsið er að þeirri stærð að það hefur varðveist inn í nútímann og er enn í dag notað sem íbúðarhús. Það má segi að húsið beri íslensk sérkenni á fleiri en einn veg, auk þess að vera úr torfi eru stafnarnir bárujárnsklæddir. Sennilega er þetta það mannvirki sem mest er ljósmyndað af ferðamönnum sem til Borgarfjarðar koma


Bloggfærslur 2. júní 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband