Núpskatla 66°N

Rauðinúpur - Núpskatla

Einn af mögnuðum fjallgöngustöðum Íslands má finna við Núpskötlu á Melrakkasléttu. Þar er Rauðinúpur, sem er ekki hærri en Hallgrímskirkjuturninn. Kyngi staðarins felst því ekki í erfiðri fjallgöngu með hundruð metra hækkun á klukkustund, heldur einstöku útsýni með magnaðri upplifun. Enda rétt betra að til séu staðir fyrir þá sem eiga ekki snjallúr.

Um síðustu helgi settumst við hjónin upp í Cherokee frá því á síðustu öld og lögðum upp í ferð án fyrirheits. Þá voru sumarsólstöður þannig að við stefndum í víðsýni fjallanna svo hægt væri að sjá til sólar. Þennan ferðamáta höfum við oft haft áður, beygjum þá í átt að sólinni um leið og hún sést.

Stundum tökum við óvart beygju inn í þokuna aftur og er þá þreifað sig áfram eftir vegköntunum heim að kvöldi. En þegar við hittum á sólargeislann þá höfum við tjald aftur í Cherokee og gömlu fermingarsvefnpokana ef við skyldum vilja gista yfir íslenska sumarnótt sólarmegin í tilverunni. 

Þegar við komum upp á fjöllin s.l. laugardagsmorgunn var sólskinsblár himinn í hánorðri þannig að við dóluðum í þá áttina, niður með gljúfrum Jökulsár á Fjöllum út á Melrakkasléttu. Slógum  upp tjaldi á Kópaskeri og fengum okkur kvöldverð á meðan jörð skalf. Ég ránglaði um fjörur Kópaskersins yfir miðnættið en Matthildur sagðist ekki láta sjá til sín á svoleiðis nætur göltri og prjónaði heima við tjald á meðan í miðnætur andaktinni.

Fyrir kl. 4 pökkuðum við svo saman í glampandi sólskini og héldum út Sléttu í áttina að Rauðanúp. Við höfðum komið að Núpskötlu í fyrrasumar en ákveðið þá að fara ekki á Rauðanúp, þar sem þá var dagur að kvöldi kominn, því haldið inn í Ásbyrgi og tjaldað þar, en ætluðum að tölta á Rauðanúpinn í morgunnsólinni daginn eftir, en þá var svarta þoka yfir allri Sléttu.

Gangan á Rauðanúp var engu lík á þessum sólstöðu sunnudagsmorgni, það hvílir einhver helgi yfir staðnum.  Rauðinúpur er 73 m hátt bjarg á norðvesturhorni Melrakkasléttu, og er einn nyrsti oddi landsins, aðeins Hraunhafnartangi, litlu austar, er sjónarmun norðar og svo náttúrulega Grímsey. 

Rauðinúpur er eldfjall, sem gaus síðla á ísöld. Í rauðum björgunum er urmull af fugli. Tveir drithvítir drangar eru rétt út af núpnum, sá austari heitir Karl, en sá vestari Sölvanöf. Útsýni af núpnum niður á Karl og Sölvanöf er einstakt, því þar má sjá súlubyggð í návígi.

Fólkið á Núpskötlu, sem þar dvelur í sumarævintýrinu, á lof skilið fyrir að hafa ekki girt landið af úti við þjóðveg, en leifir þess í stað ferðalöngum að skoða þessa einstöku náttúruperlu. Rétt áður en komið er að Núpskötlu er hlið á veginum þar sem umgengnisreglur eru kynntar ásamt 15 km hámarkshraða, enda er keyrt í gegnum kríuvarp síðasta spölinn.

 

IMG_7427

 

IMG_7336

Horfnir atvinnuhættir eru í heiðri hafðir á Núpskötlu s.s. að safna rekavið

 

IMG_7360

Matthildur mín að komast á toppinn við hliðina á Karli. Það er kannski ekki alveg hægt að komast á háhæla skóm upp á Rauðanúp, en allt að því og snjallúr er óþarft

 

Súlubyggð

Það var mikið að gera hjá súlunni á Karli við að bera björg í bú og dásama tíðarfarið, ekkert kóvítis kjaftæði þar á bæ

 

IMG_7330


Bloggfærslur 27. júní 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband