27.12.2021 | 13:38
Þegar fábjánar fá frábærar hugmyndir
Nú spangóla varðhundar veirunnar á hverjum hól eftir að hafa efnt til stærstu útisamkomu aldarinnar á skimunarstöðvunum um hávetur. Sóttin er orðin sjálfbær og það eina sem getur stöðvað hana er að skimunarliðið tínist smá saman í sóttkví eða einkennalausa einangrun.
Það sem er ekki beint geðslegt við ástandið er að þessi geðveiki geisar nú um allan heima og er kallaður heimsfaraldur. Þar er mannréttindum fólks miskunnarlaust fórnað á altari siðblindra auðróna. Heilbrigðiskerfið er orðið helsjúkt af meðvirkni og tröllið sem stal jólunum heimtar að halda þeim.
Ungur maður birti sinn jólaboðskap á facebook á jóladag, sem segir meira en þúsund orð og ótal greiningar, um það sem farið hefur úrskeiðis á milli eyrnanna á fólki.
Hjálpræðisherinn þurfti að vísa 300 manns sem höfðu skráð sig í jólamat fyrir þessi jól frá vegna sóttvarnareglna. Af þeim eru 150 börn. Hvar ætli þau hafi verið um jólin? Á sama tíma voru undanþágur veittar svo efri-millistétt landsins kæmist á jólatónleika og á Jómfrúna í Þorláksmessutradissjón. Ekkert að því. Dauðlangaði sjálfum á Jommuna. En mig langaði meira að börnin fengju að borða.
Frá því fyrsta smitið kom upp hafa svo á bilinu 80 til 90 framið sjálfsmorð, langflest þeirra yngri en 45 ára (skv. bráðabirgðatölum Landlæknis), en 37 dáið úr Covid, langflest eldri en 70 ára. Aftur og aftur er traðkað á rétti barna til þess að stunda sitt nám til að margbólusettir kennarar smitist ekki af einhverju sem er einfaldlega ekki hættulegt að fá, Covid.
Samfélag sem fórnar lífum, líkamlegri og andlegri heilsu ungmenna fyrir hagsmuni (mjög) fullorðins fólks er sjúkt. Virkilega sjúkt. Samfélag sem fórnar hagsmunum þeirra sem þurfa að sækja í félagsskap og mataraðstoð Hjálpræðishersins á altari sóttvarna en er til í að sjá í gegnum fingur sér þegar kemur að klístruðum jólatónleikum, enda neyðin ekki það mikil, er sjúkt.
Ég spurði aðstoðarmann Landlæknis hvers vegna ekki lægi fyrir fjöldi sjálfsmorða nema fyrir fyrri helming árs, og það bráðabirgðatölur. Nú, það er vegna skorts á réttarmeinafræðingum. Það er samt hægt að greina hvert einasta covid smit ofan í kjölinn, raðgreina í ræmur og elta hvar þúsundir manna hafa hóstað, hnerrað og heilsast marga daga aftur í tímann. En það er ekki hægt að taka saman hversu margir tóku eigið líf í þessu landi síðustu sex mánuði. Það er sjúkt.
Að ekki sé hægt að fjármagna geðheilbrigðispakkann almennilega þegar 2% af kostnaðinum við Covid myndu duga, er sjúkt.
Stefna íslenskra heilbrigðisyfirvalda er helsjúk.
https://www.facebook.com/heimirhann/posts/10158969781243655
![]() |
Gætum átt von á fjöldasamkomu á spítalanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)