Séra Sigurjón og dularfulla sólarupprásin

Í 10 daga leið mér eins ég hefði verið hafður að fífli, eins og hver annar skýjaglópur. En eins og kom fram í pistli um daginn þá var höfð af mér sólaupprás í glampandi sól.  Mig var meir að segja farið gruna um tíma að jörðin væri komin að því að umpólast. Ég leitaði mér aðstoðar hér á síðunni til að komast út úr fíflaganginum án árangurs.

Þannig var að dagsetning stemmdi ekki við sólina hjá fræðimönnum, um það hvenær hún væri dyrum Dyrfjalla. Eins og kannski einhver hefur tekið eftir þá eru Dyrfjöllin líkust riffilsigti og þegar sólin fer fyrir skarðið þá er miðið fullkomið. Um tímasetningu þessa sjónarmiðs hafði fræðimaðurinn Ármann Halldórsson þessi orð Í neðra og efra;

"Þeir sem staddir eru á Kirkjubæ í Hróarstungu aðfaranótt 9. september í björtu veðri við sólarupprás eiga þess kost að sjá sólina ganga fyrir Dyrnar og mun vera ógleymanleg sýn. Hið sama gerist 25. mars klukkan 7 að morgni. Út af þessu fyrirbæri lagði séra Sigurjón Jónsson í nafntogaðri ræðu er hann flutti á 100 ára afmæli Kirkjubæjarkirkju árið 1951. Þessi ræða er prentuð í predikunarsafni séra Sigurjóns sem hann nefndi “Undir Dyrfjöllum".

Í stuttu máli þá stóðst þetta ekki 9. september s.l., um þann sálarháska má lesa í Hnattræn sjónarmið. Mér fannst samt með ólíkindum ef fræðimaður eftir fræðimann flaskaði á þessu atriði og hefðu fólk að fíflum um hábjartan dag. Svo þegar leið á vikuna fór mig að gruna að maðkur væri í mysunni. Sennilega hefði læðst prentvillupúki í predikunina, sem hver fræðimaðurinn spann svo upp á eftir öðrum, vegna þess hve vel þeir treystu séra Sigurjóni til að fara með sannleikann.

Þegar þetta kom upp hafði ég reiknað þessar dagsetningar út í huganum og talið þær rökréttar. S.l. föstudagskvöld ákvað ég að gera það á blaði með því að fara í sitthvora áttina frá vetrarsólstöðum og fann þá mismun upp á 10 daga. Á tölunni 10 er auðvelt að flaska í huganum, jafnvel á tommustokk. Á laugardaginn reiknaði ég þetta í sitthvora áttina frá sumarsólstöðum þá kom upp 8 daga mismunur.

Þar sem fræðimenn tímasetningarinnar eru þrír og vitringar jólaguðspjallsins þrír og þar að auki sagt að sólin setjist um kyrrt í þrjá daga á vetrarsólstöðum ákvað ég að veðja á að prentvillan væri 9. Sannleikur tímasetningarinnar er vissulega bara einn, því hefði í stað 9 átt að standa 19 í prédikunarsafni séra Sigurjóns.

Um leið og ég vaknaði fyrir birtingu í gær, sunnudag 19. september, sagði ég við Matthildi mína að nú skildum við drífa okkur út í Kirkjubæ og sjá ógleymanlega sýn, en hún hefur fylgst með þessum sálarháska mínum vegna sólarupprásarinnar að hætti skilningsríkrar eiginkonu. Enda var komið að þriðju ferðinni minni til að sjá sólarupprásina í Kirkjubæ fyrir allar aldir.

Hún hafði reyndar nærfærnislega á orði að úfið skýjafarið væri með þeim hætti þennan morguninn að ekki væri mikil von með að sjá sólina. Ég maldaði í móinn og sagði að samkvæmt spálíkani veðurfræðinganna ætti að vera skafheiðskýrt í Dyrfjöllum klukkan sjö og hún gæti þá bara misst af því ef hún vildi.

Það var ákveðið að tjalda því sem til var og sest upp í Grand Cherokee. Þeyst út í Kirkjubæ og mætt á kristilegum tíma. Við sólarupprás hófst ólýsanlegt sjónarspil og ekki vantaði andaktina og helgisöngvana. Gæsir og þrestir sungu samkór með rollunum um leið og sólin breiddi út geisla sína til þeirra hægri, vinstri, efra og neðra í gegnu dyr fjallanna.

Þarna stóðum við út í guðsgrænni náttúrunni eins og agndofa óvitar í þakklæti til almættisins fyrir að fá að líta þessa ógleymanlegu sýn. Horfðum á sólina síga fyrir dyrnar á tveim mínútum og upplifðum eilífðina í eitt augnablik, og kom ekkert gáfulegra í hug en tauta -“já góðan daginn”.

IMG_2402

19.09.2021 / 06:54

 

IMG_2435

19.09.2021 / 07:01


Bloggfærslur 20. september 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband