Hnattræn sjónarmið

Tæknin hefur fært okkur spálíkön sem eiga að taka af allan vafa um hvað er, var og verður. Gömul sjónarmið eru nú orðin að staðbundnum þjóðsögum. Fyrir ári birti ég hér á síðunni pistilinn Jöklarnir bráðna lofið vorn drottinn. Við hann spunnust áhugaverðar umræður um segulpóla og þá hvort þeir geti haft áhrif á núverandi veðurfarsbreytingar.

Það fer ekki mikið fyrir fréttum af tilfærslu segulsviðsins, en hún er staðreynd og hefur það ferðalag síst minkað nú síðustu ár. Umræðurnar við pistilinn snérust m.a. um hvort gæti verið að t.d. sólstaða tæki breytingum samfara segulpólum, og sýndist sitt hverjum. Á allt múgligt bloggaranum og skipstjórnarmanninum Jóhanni Elíassyni mátti skilja að svo gæti verið, en Emil Hannes Valgeirsson Esjumyndabloggari og áhugamaður um veðurfar í kringum norðurpólinn taldi það af og frá.

Í sem stystu máli sagði Emil; “Möndulhalli jarðar sveiflast til á tugþúsundum ára en þar er sáralítið og hefur ekkert með flakk segulpólsins að gera.” – Jóhann svaraði; “segulpólarnir eru hinir RAUNVERULEGU pólar, þeir sem í daglegu tali eru nefndir Norður- og Suðurpóll eru svokallaðir REIKNAÐIR pólar og það er staðreynd.”

Fyrir u.þ.b. 10 árum fór ég að taka eftir huldufréttum af aukinni tilfærslu segulpóla. Þessar fréttir voru oftast á óhefðbundnum síðum og afgreiddar líkt svokölluðum samsæriskenningum. En það sem vakti athygli mína öðru fremur var trúverðug frétt af inúítum sem höfðu tekið eftir því að það sást til sólar yfir fjöllum, sem þeir höfðu haft sem viðmið í gegnum tíðina, -fyrr en áður í lok skammdegis. Dagur “sólarkaffisins” var orðinn rangur.

Ég hafði orð á þessum fréttum við athugulan kunningja mörgum áratugum eldri en ég og þá orðin gamall maður, ávalt jarðbundinn og laus við allar samsæriskenningar. Hann sagði við mig; “Veistu ég hef ekki þorað að hafa orð á þessu við nokkurn mann, en mér finnst eins og að sólin hafi hækkað í skammdeginu”. Hann sagðist hafa haft sama viðmið sem blasti við úr glugganum í áratugi.

Ástæðan fyrir því að ég hef máls á þessu nú er sú að ég var að lesa bók fræðimannsins Ármanns Halldórssonar Í neðra og efra, sem hann gaf út 1979. Í þeirri bók fer hann yfir umhverfi ævi sinnar en hann var fæddur og uppalinn á Borgarfirði eystri, seinna var hann lengi vel kennari við Alþýðuskólann á Eiðum og vann síðar við fræðistörf á Egilsstöðum. Eftir Ármann liggur fjöldi fróðlegra bóka.

Það má segja að bókin umhverfist um Dyrfjöllin enda eru Dyrnar á milli Borgarfjarðar og Héraðs, og ævi Ármanns lá úr neðra í efra umhverfis þessi fjöll. Hann lýsir á snilldarlegan hátt þegar hann sá sólina sem ungur maður í Dyrunum Borgarfjarðarmegin að kvöldlagi um sumar án þess að tímasetja það nákvæmar. En lætur jafnframt ljós að þessi sjón sé ekki sjálfgefin og alls ekki hægt að bóka, en gefur í skyn að meiri árangurs megi vænta Héraðsmegin. Síðan segir hann;

"Þeir sem staddir eru á Kirkjubæ í Hróarstungu aðfaranótt 9. september í björtu veðri við sólarupprás eiga þess kost að sjá sólina ganga fyrir Dyrnar og mun vera ógleymanleg sýn. Hið sama gerist 25. mars klukkan 7 að morgni. Út af þessu fyrirbæri lagði séra Sigurjón Jónsson í nafntogaðri ræðu er hann flutti á 100 ára afmæli Kirkjubæjarkirkju árið 1951. Þessi ræða er prentuð í predikunarsafni séra Sigurjóns sem hann nefndi “Undir Dyrfjöllum".

Það vildi svo til að ég las þetta 7. september s.l. og auðvitað flaug strax í gegnum hugann að þetta sjónarspil yrði ég að sjá. Veðurspáin var ekki beint líkleg samkvæmt spálíkönum veðurfræðinnar en kvöldið eftir var spáin orðin heiðskýr. Að morgni þess 9. september var ég á fótum fyrir allar aldir og gáði til veðurs, -það var skafheiðskýrt.

Ég var kominn út í Kirkjubæ vel fyrir kl 7 en þá kom sólin upp og ekki nokkur von á að hún lækkaði flugið til Dyranna neðra þó svo að hún ætti eftir spölkorn. Ég fór því niður á tún, en Kirkjubær stendur í hæð, því kannski væri það þar sem sjónarmiðið á sólahæðina í Dyrunum væri tekið, en allt kom fyrir ekki. Þegar sólin var akkúrat á réttum stað var hún talsvert fyrir ofan skarðið í Dyrfjöllum.

Það fyrsta sem mér datt í hug var að nú hefði fræðimaðurinn fíflað mig, þetta væri þá eftir allt saman ónákvæm dagsetning. Ég fór því aftur daginn eftir og enn lofaði veðurspá tölvulíkansins heiðskýru sem fyrr, en eins og dægurflugan suðaði; -veðurfræðingar ljúga. Því miður var háskýjahula þennan morgunn fyrir ofan Dyrfjöll, og var ekki hægt að greina feril sólar í uppkomu þó svo að himin hafi ljómað yfir Kirkjubæ og sól baðaði alla Hróarstungu  stuttu eftir sólarupprás.

Það næsta í stöðunni var að tala við kunningja minn sem bjó lengi á Kirkjubæ og spyrja hvort hann myndi eftir að hafa upplifað fyrirbærið. Hann sagðist hafa gert það og væri aldeilis ógleymanlegt augnablik sem hafi staðið í örstutta stund. Þó svo að oft hafi verið reynt að sjá sýnina þá hefði það bara tekist einu sinni á þeim 17 árum sem hann var á Kirkjubæ og taldi hann að það væri minni von til að sjá þetta seinni hluta vetrar. Hann flutti í Kirkjubæ um síðustu aldamót og minnti að þessa sýn hefði hann séð á fyrstu árum sinnar búsetu.

Hann sagði mér, eftir að ég hafði spurt hvort hann gæti sagt um hvaða dagsetningar væri að ræða, -að hann gæti það, með því að fletta upp í bókinni Forn frægðarsetur eftir séra Ágúst Sigurðsson. Einnig sýndi hann mér mynd af sólinni í miðjum dyrum sem náðist í þetta eina sinn þá örstuttu stund sem sjónarspilið stóð. Því miður gaf myndin hvorki dag- né tímasetningu. Dagsetningar og tímasetning í bókinni Forn frægðarsetur eru samhljóma fræðimanninum Ármanni Halldórssyni Í neðra og efra.

Ræða séra Sigurjón Jónssonar á 100 ára afmæli Kirkjubæjarkirkju 1951 hefst á þessum orðum: “Undir Dyrfjöllum. Ég hef dvalið í 36 ár. Dyrfjöll eru meðal fegurstu fjalla á Íslandi. Þau eru með höfuð helgidóma íslensks hálendis. Sólin kemur upp í skarðinu, ár hvert, þann 25. marz kl 7 að morgni á rás sinni til hækkandi dags. Hún birtist einnig í skarðinu 9. september á för sinni á skammdegisskeið. Vart getur fegurri sjónar en þeirrar, er hún birtist í skarðinu og varpar ljóma yfir svipmikið hérað.”

Nú væri gaman að fá trúverðugar tilgátur varðandi þetta þjóðsagnakennda sjónarmið. Hvort tímasetning eða segulpóll veldur að ég fór á mis við ógleymanlega sýn, og þá hvort á að veðja á 26. mars í stað 25., eða jafnvel 24. mars næst. Og ekki síður svo endursetja megi hvenær sólin er Dyrgættinni á milli efra og neðra séð frá Kirkjubæ.

 

Ps. Myndin hér að neðan er tekin 09.09.2021 kl.7.00 samkvæmt myndavélinni. Hún er tekin  frá bílastæðinu innan við Kirkjubæjarkirkju en þar mun prestbústaðurinn hafa staðið á dögum séra Sigurjóns, núverandi íbúðarhús er 50-100 m utar. Myndavélin er lítil Canon ixus og því ekkert hágæða apparat og myndu flestir snjallsímar sennilega fanga viðfangsefnið mun betur, en myndin sýnir þó vel sólarhæð yfir dyrunum.

Sólarupprás

 

PS. - nr. tvö. Svo skemmtilega vill til að mynd er á netinu af fyrirbærinu í neðra og er sólin þar með sömu afstöðu við Dyrnar og myndin sem kunningi minn sýndi mér úr efra frá Kirkjubæ. Myndina í neðra má sjá HÉR. Ég hafði samband við eigenda myndarinnar, sem sagði mér að hún hefði verið tekin 06.09.2013 kl. 18:49.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Afskaplega áhugaverður pistill og mér finnst margt af því sem þú skrifar hér, renna stoðum undir það sem ég hef verið að halda fram um að færsla segulpólsins "geti" haft áhrif á möndulhalla jarðar.  Ég hef engar sannanir um þetta þarna er aðeins um tilgátu að ræða....

Jóhann Elíasson, 14.9.2021 kl. 22:38

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Jóhann, mér finnst það athyglivert að það hefur engin rengt þessar dagsetningar í 70 ár og að dagsetningin sem sólin birtist í dyrunum á "för sinni á skammdegisskeið" skildi ekki stemma. Ég var að vona að einhver sem læsi þetta blogg gæti komið með trúverðugar skýringar.

Það er náttúrulega margt fleira sem er að breytast þessi árin en segulpóllinn. Mér skilst að öld vatnsberans sé hafin í sólkerfinu og auðvitað er alheimurinn ekki jarðbundinn segulpólum sem okkur eru næstir. En já þetta kom mér og kunningja mínum sem bjó á Kirkjubæ á óvart þegar ég spurði hann út í þetta.

Magnús Sigurðsson, 15.9.2021 kl. 06:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband