16.1.2022 | 08:28
Næsti bær við Cocoa Puffs
Í denn var stundum sagt að þessi eða hinn hefði fengið prófgráðuna sína úr Cocoa Puffs pakka. Þetta var þá oft sagt með lítilsvirðingu. Sjálfum hefur mér alltaf fundist þeir gáfulegri sem hafa náð að plumma sig með þannig prófskýrteini upp á vasann. Þeir hafi allavega losnað við að láta yfirfylla harða diskinn í höfðinu með þarflausri þvælu, -plássið á þeim diski er jú takmarkað.
Þó svo að transhumanisminn eigi eftir að bjóða upp á aukna ígrædda gervigreind, þá er ekki nokkur von til annars en þar verði einni metnaðarfullu þarfleysunni bætt aftan við aðra ef diskurinn hefur ekki þegar verði fullstraujaður við harðsnúið latínunám. Latína og gervigreind kemur aldrei í staðin fyrir meðfætt innsæi á stað og stund, því þar er ástæðuna að finna til hvers er komið í þennan heim.
Fyrir mér varð barnaskólinn á sínum tíma latína, í besta falli limbó, en sem betur fer hafði hinu opinbera þá ekki komið til hugar að hefja þá iðju að hakka barnshugann fyrr en við sjö ára aldurinn og bjargaði það því sem bjargað varð. Móðir mín hafði kennt mér að lesa og skrifa nafnið mitt áður en til barnaskólagöngu kom. Eftir að henni lauk má segja að ég hafi ekki getað skrifað nafnið mitt skammlaust, en var samt orðinn nokkuð fær í að snúa út úr.
Blessuð hundaheppnin og brennivínið bjargaði mér svo alveg frá bókhaldinu. Ég komst nefnilega á samning við steypuna enda hefur steypa verið mitt líf og yndi frá því fyrst ég man. Í iðnskóla lærði ég ekkert í þeirri gjörningalist því hún byggist alfariða á reynslu og verklegri færni. Ég var samt útskrifaður bóklega fyrir slysni án tilskilinna áfanga. Það dugði mér samt til að taka sveinspróf.
Það minnisverðasta úr iðnskóla var þegar Kiddi Jó skýrði fyrir okkur í ensku tíma tengingu orðsins Police við puplic service, -og að því skyldum við aldrei gleyma að á íslensku væri police, -lögregluþjónn. Það voru svo vinnufélagar mínir í steypunni sem tóku mig til sveinsprófs út á þessa latínu. Svona nokkurskonar manndómsvíxlu af gömlu gerðinni, en auðvitað þekktu þeir kauða og vissu upp á hár hvað hann kunni af því sem þurfti.
Sveinsprófið mitt reyndist því léttara en þegar greiðugur steypukall af Guðs náð reyndi í annað sinn að standast sitt sveinspróf. Mikið var þá að gera í steypu eins og alltaf hjá múrurum svo samið var um það að fá flíslögn á baðherbergi, sem átti eftir að flísaleggja, dæmt sveinsstykki.
Þegar kom að því að taka stykkið út, og prófnefndin var mætt í baðherbergið, kom í ljós að engin flísalögn hafði verið framkvæmd, flísarnar voru allar í pökkunum á gólfinu. Þá muldrar minn maður hann hefur svikið mig en bauð svo prófnefndinni upp á koníak í sárabætur. Hann hafði af greiðasemi haft vinnuskipti við handlaginn smið sem nauðsynlega þurfti að múra, en lofaðist til að flísaleggja sveinstykkið í staðinn.
Meistarabréf fékk ég svo sent eftir símtal við sýslumann. Þannig var að í mínum smáheimabæ var engin múrarameistari til að ábyrgjast verk. Því var gripið til þess ráðs að sá sem múraði sæi um það og sótti ég um löggildingu til bygginganefndar míns smáheimabæjar með sýslumanninn í vasanum. Fljótlega fóru byggingaraðilar í nágrannabæjunum að fara fram á að ég ábyrgðist verk í þeirra bæjum.
Svo kom að því að ég var beðin sérstaklega um að mæta á helgarnámskeið í byggingastjórnun, aðallega til að fylla upp í tölu þátttakenda svo sérfræðingarnir að sunnan sæju sér fært að gera sér ferð út á land til að halda námskeið. Þetta var þegar byggingastjórinn var fundinn upp af latínuliðinu um síðustu aldarmót.
Einhvern veginn fór það svo að í kjölfarið fékk ég byggingastjóra réttindi og meistaralöggildingu á landsvísu frá ráðuneyti í Reykjavík og hef ég síðan óskrifandi maðurinn ekki fengið frið við að krota nafnið á meistaraábyrgðir.
Þetta var orðin meiri skriffinnska en víxlarnir fyrir kunningjana í þá gömlu og góðu, en er nú til allrar Guðs lukku orðnar rafrænar undirskriftir og gilda frama og aftur í tímann. Lengst hef ég komist meira en áratug aftur fyrir sjálfan mig og svo að sjálfsögðu út yfir gröf og dauða.
Ég hef alla tíð notið visku Kidda Jó frá á námsárum mínum í Neskaupstað og að það var sjálfur sýslumaðurinn sem gaf út meistarabréfið mitt í denn. Það er því mitt að sjá um puplic service þáttinn svo meðbræður mínir komist í gegnum regluverkið þegar byggja á þak yfir höfuðið. Auðvitað er þetta ekkert annað en næsti bær við Cocoa Puffs.
Dægurmál | Breytt 5.7.2024 kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)